Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 353. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 584  —  353. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs Bjarnasonar um virðisaukaskatt af lyfseðilsskyldum lyfjum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver var upphæð virðisaukaskatts til ríkissjóðs af lyfseðilsskyldum lyfjum árið 2003?
     2.      Hver var virðisaukaskattur af kaupum stofnana ríkisins á lyfseðilsskyldum lyfjum árið 2003?
     3.      Hver var heildarupphæð endurgreiðslu virðisaukaskatts af lyfseðilsskyldum lyfjum árið 2003?

    Opinberar tölur um lyfjakostnað árið 2003, samkvæmt útreikningum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, eru 16,7 milljarðar kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Þar af eru lyfseðilsskyld lyf 8.816 millj. kr. að meðtöldum 24,5% virðisaukaskatti sem er um 1.735 millj. kr.
    Virðisaukaskattur af kaupum stofnana ríkisins á lyfjum á árinu 2003 er áætlaður um 685 millj. kr.
    Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir ekki virðisaukaskatt af lyfseðilskyldum lyfjum. Hins vegar var greiðsluþátttaka stofnunarinnar í lyfseðilsskyldum lyfjum 5.940 millj. kr. á árinu 2003 og þannig mætti segja að endurgreiðsla á virðisaukaskatti hafi numið 1.169 millj. kr.