Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 591  —  351. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Guðmund Thorlacius, Sigurð Guðmundsson, Benedikt Valsson og Fjólu Agnarsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Sigurð Óla Kolbeinsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Indriða Þorláksson og Gunnlaug Júlíusson frá ríkisskattstjóra, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Benedikt Davíðsson og Helga K. Hjálmsson frá Landssambandi eldri borgara, Ólaf Ólafsson og Stefaníu Björnsdóttur frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Eddu Rós Karlsdóttur frá Landsbanka Íslands, Arnór Sighvatsson og Markús Möller frá Seðlabanka Íslands, Elínu Pálsdóttur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru lagðar til skattalækkanir sem koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2005 til 2007. Mestu munar um lækkun á tekjuskattshlutfalli manna um 4% auk afnáms eignarskatts á einstaklinga og lögaðila. Frumvarpið er 144 greinar auk gildistökuákvæðis og skiptist í 52 kafla. Meginefni frumvarpsins er að finna í I. kafla þess sem er lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga um 4% í áföngum, hækkun á viðmiðunarfjárhæðum laganna, hækkun á barnabótum, afnám eignarskatts á einstaklinga og lögaðila, og breytingar vaxtabóta, auk breytinga á framkvæmd laganna. Hvað varðar hið síðasttalda ber helst að nefna að þegar fram fer rannsókn við embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins eða hjá ríkislögreglustjóra á skattskilum aðila er lagt til í frumvarpinu að heimild til endurákvörðunar skuli reiknast frá byrjun þess árs þegar rannsókn hófst en nú er miðað við tímann þegar endurákvörðun fer fram.
    Í öðrum köflum frumvarpsins er fyrst og fremst að finna ákvæði um lagasamræmingu sem nauðsynleg er vegna niðurfellingar eignarskatts.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu er varða brottfellingu tilvísana í eignarskattsákvæði núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt þar sem annaðhvort hefur ekki verið tekið tillit til breytinganna sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi eignarskatta eða þær tillögur sem koma fram í frumvarpinu eru ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar. Þá er og lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins hvað varðar óþarfa tilvísun og uppsetningu.     Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. des. 2004.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Ásta Möller.


Siv Friðleifsdóttir.