Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 595  —  269. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Lánasjóð sveitarfélaga.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Lárus Bollason frá félagsmálaráðuneyti, Þorstein Þorsteinsson frá Lánasjóði sveitarfélaga og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Megintilgangur núgildandi laga um Lánasjóð sveitarfélaga er að stuðla að því að sveitarfélög á Íslandi geti útvegað sér eins hagstætt lánsfé og kostur er á hverjum tíma og er ekki lögð til breyting á því markmiði með þessu frumvarpi. Markmiðið með frumvarpi þessu er að laga rekstur sjóðsins að starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja á almennum markaði. Verði frumvarp þetta að lögum mun sjóðurinn starfa á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og verður hann undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
    Mikilvægasta breytingin í frumvarpinu er brottfall núgildandi 5. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga þar sem kveðið er á um árlegt framlag í sjóðinn frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga annars vegar og ríkissjóði hins vegar. Er þetta liður í því að laga rekstur sjóðsins eftir því sem kostur er að starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði. Með þessu er verulega dregið úr afskiptum ríkisins af stjórn og rekstri sjóðsins.
    Með frumvarpinu falla ýmis önnur ákvæði gildandi laga brott. Helgast þetta af því að unnt er að einfalda lögin um sjóðinn allnokkuð þar sem gert er ráð fyrir að æðsta vald í málefnum sjóðsins færist til sveitarfélaganna. Auk þess munu áðurgreind lög um fjármálafyrirtæki gilda um starfsemi og skipulag sjóðsins. Því verður ekki þörf á ákvæðum í lög um sjóðinn sem mæla fyrir um stjórn, rekstur og útlánastarfsemi.
    Með frumvarpinu er lagt til að hlutverk sjóðsins verði almennara en verið hefur hingað til en ákvæði 2. gr. núgildandi laga sem mælir fyrir um hlutverk sjóðsins er að nokkru leyti úrelt. Verði frumvarpið að lögum verður sveitarfélögum heimilt að veita lán bæði til stofnana og fyrirtækja sem eru að fullu í eigu sveitarfélaga eða sveitarfélaga og ríkissjóðs. Jafnframt verður heimilt að veita ábyrgð á lánum sveitarfélaga og stofnana eða félaga sem þau eru eigendur að, í stað lánveitingar.
    Í 1. gr. gildandi laga um Lánasjóð sveitarfélaga kemur fram að sjóðurinn sé sameign allra sveitarfélaga á Íslandi og er ekki gerð breyting hvað þetta varðar í frumvarpinu. Nefndin telur mikilvægt að eignaraðild að sjóðnum verði skilgreind nákvæmar en nú er gert og að eignarhlutur hvers sveitarfélags fyrir sig verði skilgreindur. Slíka vinnu ætti að hefja sem fyrst og stefna að því að henni ljúki innan árs frá gildistöku laga þessara.
    Nefndin leggur til þá breytingu á frumvarpinu að við ákvæði til bráðabirgða bætist tvær nýjar málsgreinar. Í þeirri fyrri er kveðið er á um að innan mánaðar frá gildistöku laganna skuli Lánasjóður sveitarfélaga sækja um starfsleyfi sem lánastofnun til samræmis við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í þeirri síðari er lagt til að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en við lok ársins 2008 í ljósi þróunar á íslenskum fjármálamarkaði.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur þessu áliti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. des. 2004.



Siv Friðleifsdóttir,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Jón Gunnarsson.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Helgi Hjörvar.


Gunnar Örlygsson.



Pétur H. Blöndal.


Birkir J. Jónsson.