Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 211. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 599  —  211. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Hallgrím Ásgrímsson frá Seðlabanka Íslands, Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipana ráðsins 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfélögum í fjármálasamsteypu, og 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.
    Við meðferð nefndarinnar komu fram athugasemdir við frumvarpið, m.a. frá Seðlabanka Íslands, og leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingar á grundvelli þeirra:
     1.      Heimild Fjármálaeftirlitsins til að setja reglur um útreikning á eiginfjárhlutfalli, sem fjallað er um í 6. gr. frumvarpsins, verði bundin við þær aðferðir sem kveðið er á um í tilskipun ráðsins 2002/87/EB. Með þessu telur nefndin að ákvæðið verði skýrara og framkvæmd laganna tryggari.
     2.      Skilgreining á hugtakinu „endurskipulagning fjárhags“ í 1. mgr. a-liðar 9. gr. (98. gr.) verði víkkuð út þannig að hún nái ekki aðeins yfir endurskipulagningu fjárhags lánastofnana með höfuðstöðvar hérlendis heldur einnig endurskipulagningu fjárhags lánastofnana með höfuðstöðvar erlendis sem ákvörðuð er af erlendu yfirvaldi. Þessi almenna skilgreining er í samræmi við tilskipun 2001/24/EB. Jafnframt er tekið fram að þegar um er að ræða lánastofnun með höfuðstöðvar á Íslandi er með endurskipulagningu fjárhags einungis átt við heimild til greiðslustöðvunar og heimild til að leita nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
     3.      Á eftir h-lið 2. mgr. b-liðar 9. gr. (99. gr.) bætist við fimm nýir liðir sem kveða á um frávik frá meginreglunni í 1. mgr. um lögsögu heimaríkis. Fyrstu fjórir liðirnir innleiða ákvæði 24.–27. gr. tilskipunar 2001/24/EB, þ.e. um lagaskilaregluna lex rei sitae, samninga um skuldajöfnun, endurkaupasamninga og viðskipti á skipulögðum markaði. Lagaskilareglan tekur m.a. til veðréttinda í rafrænt skráðum fjármálagerningum sem veitt eru vegna starfsemi greiðslu- og uppgjörskerfa, sbr. 9. gr. laga nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, og veðréttinda samkvæmt samningum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Í síðasta liðnum er tekið fram að um fyrirmæli í greiðslu- og uppgjörskerfum fari eftir lögum þess ríkis sem gilda um viðkomandi kerfi. Er þetta í samræmi við 25.–26. tölul. aðfaraorða tilskipunar nr. 2001/24/EB og ákvæði laga nr. 90/1999.
     4.      Tekin verði inn í 1. mgr. b-liðar 11. gr. (105. gr.) skilgreining á slitum lánastofnunar með höfuðstöðvar erlendis. Ákvörðun um slík slit verður tekin af lögbærum erlendum yfirvöldum í samræmi við lög viðkomandi ríkis. Skilgreiningin er í samræmi við tilskipun 2001/24/EB.
     5.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 3. mgr. b-liðar 11. gr. (105. gr.) í þeim tilgangi að kveða með skýrari hætti á um þá aðstöðu þegar krafa er sett fram gagnvart héraðsdómara hér á landi um gjaldþrotaskipti á hérlendu útibúi lánastofnunar með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Um þetta gilda ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. des. 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Lúðvík Bergvinsson.



Siv Friðleifsdóttir.


Jón Gunnarsson.