Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 328. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 606  —  328. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Pétur Þór Sverrisson frá iðnaðarráðuneytinu, Þorkel Helgason og Elínu Smáradóttur frá Orkustofnun, Tryggva Þór Haraldsson og Pétur Einar Þórðarson frá Rafmagnsveitu ríkisins, Hjörleif Kvaran og Ásgeir Margeirsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson og Friðrik Friðriksson frá Hitaveitu Suðurnesja, Ólaf Eggertsson og Birki Friðbertsson frá Landssamtökum raforkubænda, Guðmund Sigurðsson og Marín Ólafsdóttur frá Samkeppnisstofnun, Þórð Guðmundsson og Guðmund I. Ásmundsson frá flutningssviði Landsvirkjunar og Edvard G. Guðnason og Eirík S. Svavarsson frá Landsvirkjun. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Orkuveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitu ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja, Félagi raforkubænda, Bændasamtökum Íslands, Byggðastofnun, Sambandi garðyrkjubænda, Íslenska álfélaginu hf., Orkustofnun, Norðurorku hf., Verkfræðistofu Norðurlands ehf., Fallorku ehf., Orkubúi Vestfjarða hf. og BSRB.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar og lagfæringar á raforkulögum en ákvæði laganna um frjálsa sölu á raforku til notenda sem nota meira afl en 100 kW taka gildi 1. janúar nk.
    Helstu breytingar samkvæmt frumvarpinu eru eftirfarandi: Lagt er til að flutningsfyrirtækjum og dreifiveitum verði gert heimilt að færa of- eða vanteknar tekjur á milli reikningsára. Lagt er til að kveðið verði skýrt á um að dreifiveitur skuli greiða til flutningskerfisins í samræmi við heildarnotkun rafmagns á viðkomandi dreifiveitusvæði en á þeirri forsendu var byggt við setningu raforkulaganna á síðasta ári. Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um að dreifiveitur skuli láta virkjanir sem tengjast beint inn á dreifkerfi njóta þess hagræðis sem þær skapa í kerfinu. Lagt er til að stjórnarmenn og starfsmenn flutningsfyrirtækis skuli hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna en með því er tryggt að þessir starfsmenn hafi sömu stöðu og þeir hafa nú sem starfsmenn Landsvirkjunar. Loks er lagt til að settar verði hömlur á heimildir til að hækka verð til almennra raforkunotenda sem áfram verða bundnir einum raforkusala á tímabilinu frá 1. janúar 2005 til 1. janúar 2007.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom til skoðunar hvort þörf væri á því að fresta gildistöku þeirra breytinga sem koma eiga til framkvæmda um áramótin samkvæmt lögunum. Er það mat meiri hluta nefndarinnar að unnt eigi að vera að ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu fyrir áætlaða gildistöku 1. janúar nk. Það er jafnframt mat meiri hlutans að heppilegast sé að þessar breytingar komi til framkvæmda um áramót. Með hliðsjón af þessu er það niðurstaða meiri hlutans að ekki sé ástæða að fresta gildistöku framangreindra breytinga.
    Meiri hlutanum þykir ástæða til þess að bregðast við ábendingum sem komið hafa fram um að ákvæði laganna, sbr. c-lið 2. gr. frumvarpsins, sé of íþyngjandi fyrir smærri virkjanir, undir 7 MW, umfram það sem eðlilegt geti talist. Því leggur meiri hlutinn til breytingar á 12. og 17. gr. laganna. Fela þessar breytingar í sér að tekið er tillit til smærri virkjana hvað varðar úttektargjald vegna framleiðslu þeirra. Ekki þykja efni til annars en að virkjanir undir 7 MW greiði fullt innmötunargjald. Í breytingatillögunni felst að innmötunargjald vegna virkjana undir 7 MW skal að fullu greitt til þeirrar dreifiveitu sem viðkomandi virkjun tengist við. Að auki þarf dreifiveita ekki að greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins vegna virkjana sem eru undir 1 MW. Vegna virkjana sem eru á bilinu 1–7 MW þarf sú dreifiveita sem virkjunin tengist að greiða til flutningsfyrirtækisins þannig að við 1 MW hefjist skylda til greiðslu úttektargjalds sem hækki síðan línulega upp í 75% fulls gjalds þegar slík virkjun er orðin 3,1 MW eða stærri, sbr. fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Þá leggur meiri hlutinn til að dreifiveitur skuli að hluta eða að fullu greiða ígildi þess hreina ávinnings sem dreifiveitu hlotnast vegna lækkunar á greiðslu úttektargjalds sem dreifiveitu bæri að greiða ef framangreindar breytingar kæmu ekki til. Þessi greiðsla til virkjana nær þó ekki til greiðslu fyrir kerfisþjónustu. Varðandi virkjanir undir 300 kW skal dreifiveita greiða að fullu hreinan ávinning af niðurfellingu úttektargjaldsins til viðkomandi virkjunar. Fyrir virkjanir á bilinu 300 kW til 3,1 MW skal minnka greiðslu ígildis úttektargjaldsins línulega þar til greiðslan fellur niður við þessi efri mörk. Við ákvörðun á hreinum ávinningi dreifiveitu skal horfa til þeirrar lækkunar á afl- og orkuúttekt sem viðkomandi virkjun veldur.
    Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að við framkvæmd umræddra breytinga verði gætt að samkeppnisskilyrðum fiskeldis, fiskvinnslu og garðyrkju en raforkukostnaður er veigamikill þáttur í rekstri fyrirtækja í þessum greinum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar auk þeirra sem þegar hefur verið gerð grein fyrir eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til samhljóða breyting á a-lið 2. gr. frumvarpsins annars vegar og a-lið 3. gr. hins vegar. Er lagt til að lögfest verði við hvaða tímamark beri að miða þegar bókfært verð fastafjármuna er ákvarðað við útreikning á arðsemisviðmiði flutningsfyrirtækis og dreifiveitna við setningu tekjumarka. Þá er lagt til að kveðið verði skýrar á um heimild til að setja reglugerð um breytingar á verði fastafjármuna. Samhliða þessu er lagt til að við lögin bætist nýtt bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að óheimilt verði frá gildistöku laganna og fram til 1. janúar 2005 að uppfæra bókfært verð þeirra fastafjármuna sem um er fjallað í 2. tölul. 2. mgr. 12. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna.
     2.      Lagðar eru til tvær breytingar á c-lið 2. gr. frumvarpsins. Annars vegar er lagt til að það rafmagn sem virkjun framleiðir til eigin nota verði undanskilið við gjaldtöku samkvæmt ákvæðinu og hins vegar að sé um að ræða einangruð dreifikerfi sem ekki njóta tengingar við flutningskerfið skuli ekki greitt af þeim til flutningskerfisins. Breytingin er eðlileg í ljósi þess að slík kerfi njóta ekki öryggis af flutningskerfinu.
     3.      Meiri hlutinn leggur til að neðri mörk arðsemisviðmiða sem tilgreind eru í 9. mgr. 12. gr. og 7. mgr. 17. gr. laganna og leggja ber til grundvallar við setningu tekjumarka hjá flutningsfyrirtæki og dreifiveitum verði rýmkuð en athugasemdir hafa komið fram um að þau mörk sem í lögunum greinir séu of takmarkandi.
     4.      Samkvæmt núgildandi lögum er ekki gert ráð fyrir að samkeppni á raforkumarkaði fyrir almenna notendur muni hefjast fyrr en 1. janúar 2007. Meiri hlutinn leggur til að þetta tímabil verði stytt um eitt ár þannig að lögin komi að fullu til framkvæmda 1. janúar 2006.
         Jóhann Ársælsson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Einar Már Sigurðarson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 7. des. 2004.



Birkir Jón Jónsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Guðmundur Hallvarðsson.



Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.



    Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


    Einar Már Sigurðarson,


með fyrirvara.



Fylgiskjal.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.