Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 609  —  351. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Samkvæmt þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar munu tekjur ríkissjóðs rýrna um 25–30 milljarða kr. á ári þegar áformaðar skattabreytingar verða allar komnar til framkvæmda. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins nemur tekjutapið vegna skattalækkunaráforma ríkisstjórnarinnar lægri upphæð eða um 20 milljörðum kr. á ári hverju þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda en inni í þeim útreikningum er gert ráð fyrir umtalsverðum veltuáhrifum. Það þýðir að aukin neysla samfara skattalækkunum mun auka efnahagsumsvifin og þar með tekjur ríkissjóðs. Aðrir umsagnaraðilar draga margir hverjir í efa þetta mat ráðuneytisins og ber þar fremst að telja heildarsamtök launafólks ASÍ og BSRB en samtökin telja að tekjutap ríkissjóðs verði umtalsvert meira eða allt að 30 milljarðar kr. á ársgrundvelli.
    Skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar gengur algerlega í berhögg við áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. VG er málsvari öflugrar samfélagsþjónustu og vill að hún sé fjármögnuð með sköttum en ekki notendagjöldum, hvort sem það eru skólagjöld, álögur á sjúklinga eða aðra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. VG vill hins vegar endurskoða skattkerfið, gera það réttlátara og markvissara og hefur flokkurinn lagt fram þingmál í þessu skyni.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill réttlátt og markvisst skattkerfi.
    Gagnstætt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lækkun tekju- og eignarskatta lagði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð fram þingmál nú í haust um hækkun fjármagnstekjuskatts. Lagt var til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækkaði úr 10% í 18% en jafnframt yrðu sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári. Samkvæmt þessum tillögum VG var áætlað að tekjur af fjármagnstekjuskatti ykjust um rúmlega 3 milljarða kr. og yrðu alls um 10 milljarðar kr. Hér er um að ræða mikið réttlætismál auk þess sem flokkurinn taldi nauðsynlegt að finna tekjustofna sem fjármögnuðu tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til eflingar velferðarþjónustunni, en í því sambandi skal sérstaklega nefna tillögur um gjaldfrjálsan leikskóla. Þá er á það að líta að á undanförnum árum hefur fjölgað þeim einstaklingum hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir. Þetta er hróplegt ranglæti að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Þá hefur VG lagt fram tillögu um skattkerfisbreytingar sem eru til þess fallnar að styrkja tekjustofna sveitarfélaga. Lagði þingflokkurinn fram frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem hefði rýmkað heimildir þeirra til álagningar útsvars um eitt prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 14,03% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í viðeigandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Frumvarpið var flutt í beinum tengslum við boðuð áform ríkisstjórnarinnar um að lækka álagningu tekjuskatts um sama hundraðshluta, þ.e. eitt prósentustig um næstu áramót. Samanlagt álagningarhlutfall tekjuskatts og hámarks útsvarsheimildar hefði samkvæmt tillögum VG haldist óbreytt. Hér var því ekki tillaga til skattahækkunar heldur hefði áformuð lækkun stjórnarmeirihlutans á tekjuskatti til ríkissjóðs skapað sveitarfélögunum svigrúm til útsvarshækkunar.

Stefna í skattamálum er stefna í stjórnmálum.
    Á undanförnum missirum hefur verið tekist harkalega á um fjármögnun velferðarþjónustunnar. Verulega hefur verið þrengt að heilbrigðisstofnunum í landinu og má í því sambandi minna á kröftuga hreyfingu launafólks innan allra helstu heildarsamtaka landsins, ASÍ, BHM, BSRB og Öryrkjabandalags Íslands, auk samtaka sjúklinga sem andmæltu niðurskurði á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sl. vor. Þá hafði komið í ljós hvað raunverulega vakti fyrir stjórnvöldum með niðurskurðinum: Í fyrsta lagi að þröngva velferðarstofnunum til að draga saman seglin og opna þannig leið fyrir einkavæðingu starfseminnar og í öðru lagi breyta tilhögun fjármögnunar þannig að hún verði ekki framkvæmd með almennri skattlagningu heldur í mun ríkari mæli en nú með þjónustugjöldum. Þetta eykur að sjálfsögðu mismunun og misrétti því þeir sem hafa góð fjárráð eiga þess fremur kost að kaupa sér menntum, heilbrigðisþjónustu eða annað sem velferðarkerfið býður upp á en hinir sem hafa lítil efni. Þess eru þegar sýnileg dæmi að efnalítið fólk veigri sér við að leita heilbrigðisþjónustu vegna fátæktar. Fjármögnun velferðarþjónustunnar er þess vegna pólitísk í eðli sínu. Þeir sem leggja mikið upp úr jöfnuði eru almennt fylgjandi fjármögnun með sköttum, þeir sem gefa lítið fyrir jafnréttið eru hins vegar reiðubúnir að draga úr skattheimtu og hlaða gjöldunum á notendur þjónustunnar. Stefna í skattamálum er þess vegna stefna í stjórnmálum. Hér er stefna VG skýr og flokkurinn sjálfum sér samkvæmur því hann styður í verki almenna skattheimtu til fjármögnunar velferðarkerfi landsmanna.

Almennt um frumvarpið.
    Skattalækkanirnar eiga samkvæmt frumvarpinu að koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2005–2007. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að tekjuskattshlutfallið verði lækkað um 4%. Í öðru lagi verður eignarskattur á einstaklinga og lögaðila afnuminn. Viðmiðunarfjárhæðir laganna verða hækkaðar, barnabætur að sama skapi en dregið verður úr stuðningi við húsnæðiskaupendur. Ríkisstjórnin er söm við sig að því leyti að það sem hún telur ganga í augu skattgreiðenda og barnafólks kemur ekki til framkvæmda fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Þannig verður tekjuskattshlutfallið lækkað um 1% fyrstu tvö árin en um 2% kosningaárið 2007. Breytingar á barnabótakerfinu koma til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árunum 2006 og 2007. Eignarskattarnir verða felldir niður frá og með árinu 2005 en koma ekki fram fyrr en með álagningu skatta árið 2006.
    Alþingiskosningar árið 2007 eru tillögusmiðum frumvarpsins greinilega ofarlega í huga. Hækkun barnabóta verður þá nýtilkomin og niðurskurðaráhrifa skattalækkana ekki farið að gæta að fullu! Hins vegar er hafist handa um skerðingu vaxtabóta þegar í stað og meira að segja afturvirkt!
    Þótt frumvarpið sé mikið að vöxtum, 144 greinar, er í meiri hluta tilvika um að ræða lagasamræmingu sem er nauðsynleg, t.d. vegna niðurfellingar á eignarskatti.

Viðbrögð umsagnaraðila um áhrif skattkerfisbreytinganna.
    Viðbrögð umsagnaraðila skiptast mjög í tvö horn. Samtök atvinnurekenda og Verslunarráð Íslands hæla ríkisstjórninni á hvert reipi fyrir niðurskurðinn. Samtök launafólks, öryrkja og eldri borgara eru hins vegar gagnrýnin á ríkisstjórnina; vara við niðurskurði í kjölfar skattalækkana og auknum þjónustugjöldum, auk þess sem bent er á að fara ætti aðrar leiðir við skattbreytingar til að stuðla að auknum jöfnuði í landinu (sjá fylgiskjöl). Þá gerir Samband íslenskra sveitarfélaga mjög alvarlegar athugasemdir við frumvarpið.
    Greiningardeildir fjármálastofnana og Seðlabanki Íslands vara við þensluvaldandi áhrifum frumvarpsins og minna á að með minni tekjum ríkissjóðs verði að beita aðhaldi í ríkisrekstri og/eða hækkun vaxta. Athygli vekur að þessar stofnanir tala yfirleitt alhæfingartungu og greina ekki á milli einstakra útgjaldaliða, hvort beita eigi niðurskurði á sjúkrahúsi eða í verklegum framkvæmdum. Þá er ekki sundurgreining á þensluvaldandi þáttum. Það er í senn bagalegt og óábyrgt að tala slíku alhæfingartungumáli. Hins vegar er það ábyrgt af hálfu þessara umsagnaraðila að benda á að ríkisstjórninni beri að skilgreina hvar hún ætli að skera niður útgjöld áður en hún ákveður að skerða tekjurnar. Þannig segir í áliti greiningardeildar Landsbankans m.a.: „Með því að lækka skatta í jafn miklum mæli og hér er lagt til, liggur því fyrir að ríkið verður að skapa hagstjórnaraðhald með mjög miklu aðhaldi á á útgjaldahlið ríkisfjármálanna – meira aðhaldi en þegar hefur verið kynnt. Í þessu sambandi er þó mjög mikilvægt að meginþungi skattalækkananna verður í lok núverandi kjörtímabils, þegar gera má ráð fyrir að að efnahagsuppsveiflan verði um garð gengin. Ef koma á í veg fyrir hækkun vaxta og styrkingu krónunnar er nauðsynlegt að trúverðugar áætlanir verði lagðar fram um niðurskurð útgjalda, áður en ráðist er í niðurskurð tekna.“

Tímabundin stóriðjuþensla er varasamur vegvísir.
    Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að hún telji vera borð fyrir báru til skattalækkana vegna tímabundinnar uppsveiflu í efnahagslífinu í tengslum við stóriðjuframkvæmdir sem þegar eiga sér stað eða eru á döfinni. Uppsveiflan er hins vegar að flestra dómi tímabundin og framhaldið ótryggt að ýmsu leyti.
    Skattabreytingar er afar varasamt að ákveða með tilliti til skammtímasveiflna í hagkerfinu. Taka þarf slíkar ákvarðanir með langtímaþróun í huga. Þannig er ljóst að veltuáhrif í hagkerfinu vegna tímabundinnar uppsveiflu gufa upp í samdrætti. Hætt er við að samneyslan sæti þá meira tekjutapi vegna skattalækkana en stjórnvöld gera ráð fyrir í útreikningum sínum en þeir miðast allir við tímabundinn hagvöxt.

Afleiðingar skatta- og stóriðjustefnu eru niðurskurður og vaxtahækkanir.
    Augljóst er að afleiðingar skattalækkunar- og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar eru voveiflegar fyrir íslenskt samfélag. Efnahagssérfræðingar hvetja til strangra aðhaldsaðgerða en sem áður segir er aðallega um tvennt að velja eða blöndu af tvennu: Niðurskurð í útgjöldum ríkisins eða vaxtahækkanir. Þegar hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti sem samstundis leiddi til almennra vaxtahækkana, sem bitna illa á heimilum og fyrirtækjum, einkum smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem fjármagna sig á innlendum fjármagnsmarkaði. Ruðningsáhrifanna í atvinnulífinu, sem þingflokkur VG varaði ákaft við í aðdraganda ákvarðana um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi, er þegar farið að gæta og varnaðarorð nú um frekari vaxtahækkanir og niðurskurð hjá hinu opinbera vegna skattalækkana ríkisstjórnarinnar hníga í sömu átt.

Hinum efnameiri hyglað.
    Ljóst er að skattkerfisbreytingarnar koma hinum efnameiri í þjóðfélaginu mun betur en hinum efnaminni. Lækkun tekjuskatta ofan á niðurfellingu hátekjuskatts í áföngum, sem þegar er lögfest en kemur til framkvæmda á kjörtímabilinu, veldur því að einstaklingur með 12 millj. kr. árstekjur kemur til með að hagnast um 1 millj. kr. á ári vegna tekjuskattsbreytinga ríkisstjórnarinnar. Ávinningur þessa einstaklings er 12,4% hærri ráðstöfunartekjur en hann hefur nú. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga ábendingu Öryrkjabandalags Íslands um að sú breyting hafi orðið á högum öryrkja „að lífeyrisþegi sem ekkert hefur nema bætur almannatrygginga er nú farinn að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta.“ Hér að neðan eru útreikningar fjármálaráðuneytisins á því hvernig fyrrgreindar tekjuskattsbreytingar koma fram í ráðstöfunartekjum nokkurra mismunandi tekjuhópa.

Tekjuskattar og ráðstöfunartekjur fyrir tiltekin laun
miðað við einstakling.


Mánaðarlaun

    Árslaun
Tekjuskattur 2003 Tekjuskattur 2007 Aukning ráðstöfunartekna
100 þús. kr. 1,2 m.kr. 140.700 58.780 7,7%
300 þús. kr. 3,6 m.kr. 1.065.900 888.700 7,0%
700 þús. kr. 8,4 m.kr. 3.131.850 2.548.540 11,1%
1.000 þús. kr 12,0 m.kr. 4.699.650 3.793.420 12,4%


    Enn augljósari er ávinningur hátekju- og stóreignafólks af niðurfellingu eignarskatts. Fram hefur komið að einstaklingar sem eiga skuldlausa fasteign á bilinu 50–100 millj. kr. greiða að meðaltali 385.749 kr. í eignarskatt. Þeir sem eiga skuldlausa eign að verðmæti meira en 100 millj. kr. greiða sem nemur að meðaltali 895.187 kr.! Skattpakki ríkisstjórnarinnar kemur þessu fólki að sjálfsögðu sér afar vel. Auðvitað gildir hið sama um fólk sem á verðminni eignir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur eðlilegra að breyta eignarskattinum á þann veg að skattviðmiðið verði hækkað verulega en stóreignamenn hins vegar ekki undanþegnir skatti. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á ábendingu frá Landssambandi eldri borgara, sbr. fylgiskjal, sem fagnar því að eignarskattur verði afnuminn. Þetta eigi hins vegar að gera í áföngum. Á sama tíma og haldið sé út á þessa braut hafi fasteignamat verið hækkað verulega, eða langt umfram frítekjumarks vegna álagningar næsta árs.

Áhyggjur sveitarfélaganna.
    Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á það í umsögn sinni að ekki hafi verið haft samráð við sambandið um gerð frumvarpsins. Þótt augljóst sé að það hafi veruleg áhrif á tekjustofna sveitarfélaga. Í umsögninni segir Samband íslenskra sveitarfélaga að „verði frumvarpið óbreytt að lögum skerðast árlegar tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga varanlega um 400 millj. kr. þegar áhrif frumvarpsins eru að fullu komin til framkvæmda.“ Ástæðan er sú að tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru tiltekið hlutfall af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Þegar tekjur ríkissjóðs minnka segir það sig sjálft að tekjur Jöfnunarsjóðsins skerðast hlutfallslega. Undir þessar áhyggjur Sambands íslenskra sveitarfélaga skal tekið.

Viðmiðunarupphæðir, barnabætur og vaxtabætur.
    Ljóst er að viðmiðunarupphæðir frumvarpsins, svo sem sjómannaafsláttur, viðmiðunarfjárhæðir eignarskatts, barnabóta og vaxtabóta, eru miðaðar við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Sé hins vegar stuðst við verðbólguspár fjármálaráðuneytis má búast við að verðbólga verði drjúgt yfir umsömdum launahækkunum. Að öllu óbreyttu mundu viðmiðunarupphæðirnar því rýrna sem þessu nemur. Varðandi barnabæturnar er á það að líta að breyting á þeim kemur til framkvæmda síðar og þarf áður að fara fram ítarleg athugun á áhrifum þeirra breytinga sem hér verða lögfestar með það fyrir augum að tryggja sem réttlátasta og markvissasta ráðstöfun þeirra fjármuna sem ætlaðir eru til þessa málefnis.
    Á síðasta hálfum örðum áratug, eða frá árinu 1991, hafa barnabætur verið stórlega rýrðar. Fyrirheit ríkisstjórnarinnar lúta að því að snúa þessari öfugþróun við. Breytingarnar eru hins vegar kynntar sem nýmæli og stórkostlegar kjarabætur. Í sjálfu sér má það til sanns vegar færa nema hvað fyrirheit ríkisstjórnarinnar eru endurunnin með reglulegu millibili.
    Ekki þarf þó nokkur maður að ganga að því gruflandi að stuðningur við húsnæðiskaupendur er stórlega rýrður með því að draga úr vaxtabótum. Hvað þennan þátt snertir skal vísað sérstaklega í álitsgerðir samtaka launafólks, ASÍ og BSRB.

Alþingi, 8. des. 2004.



Ögmundur Jónasson.




Fylgiskjal I.

Umsögn Alþýðusambands Íslands.
(6. desember 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.
(6. desember 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Umsögn Öryrkjabandalags Íslands.
(7. desember 2004.)


    Á undangengnum árum hefur Öryrkjabandalag Íslands ítrekað lagst gegn þeirri þróun í skattamálum að létta milljörðum af þeim sem stöndugastir eru en auka hlutfallslega skattheimtu af þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Að frátalinni margvíslegri gjaldtöku í velferðarkerfinu hefur þetta fyrst og fremst birst í breytingum gagnvart hátekjuskatti, eignaskatti og tekjuskatti. Beitt hefur verið flatri lækkun skattprósentu án þess að leiðrétta fyrst skattleysismörk til samræmis við þróun launavísitölu. Skattleysismörk hafa ekki einu sinni verið látin halda í við þróun verðlags og þarf ekki að orðlengja hvílík áhrif slík skattastefna hefur haft á raunverulegan kaupmátt þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Til dæmis um það má nefna að lífeyrisþegi sem ekkert hefur nema bætur almannatrygginga er nú farinn að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta. Með hliðsjón af opinberum verðbólguspám er boðuð hækkun skattleysismarka fjarri því að létta af öryrkjum þessari stórauknu byrði.
    Hvað eignarskattinn áhrærir þá hefur hann ekki verið fyrirferðarmikið umkvörtunarefni á meðal öryrkja. Vandi þeirra hefur fremur verið eignaleysi og stöðugt hækkandi húsaleiga, sem hlutfallslega vegur æ þyngra í heildarútgjöldum öryrkja og hefur fyrir bragðið meiri áhrif á raunverulegan kaupmátt þeirra en annarra. Hinir sem svo lánsamir eru að búa í eigin húsnæði verða á hinn bóginn fyrir þeirri skerðingu sem boðuð er á vaxtabótum, og er það miður. Á móti kemur löngu tímabær hækkun á barnabótum sem gagnast mun samfélaginu öllu í bráð og lengd.
    Með hliðsjón af bágum kjörum öryrkja, margvíslegri skerðingu á velferðarþjónustunni og mikilli aukningu á samanlögðum fjölda öryrkja og atvinnulausra, sér Öryrkjabandalagið sér ekki annað fært en að leggjast eindregið gegn þeim leiðum til skattalækkunar sem boðaðar eru í áðurgreindu frumvarpi. Sjaldan hefur verið meiri þörf á að beita skattheimtu til aukinnar tekjujöfnunar, treysta stoðir velferðarþjónustunnar og verja þeim fjármunum sem eftir kunna að verða til að greiða fyrir því að stöðugt vaxandi fjöldi öryrkja og atvinnulausra komist til vinnu á nýjan leik. En hér lætur nærri að um 10 þúsund Íslendingar hafi bæst í þennan hóp frá því á fyrri hluta síðasta áratugar. Við slíkar aðstæður í atvinnumálum þjóðar er hvorki framsýni né ábyrgð í því fólgin að breyta lögum enn frekar til að gera betur við þá sem síst þurfa á að halda og óvíst er hvort kæri sig um frekari velgjörðir af hálfu stjórnvalda.

Fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands,
Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri.

Fylgiskjal IV.


Umsögn Landssambands eldri borgara.
(3. desember 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
(6. desember 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.