Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 324. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 633  —  324. mál.
Svarmenntamálaráðherra við fyrirspurn Bjarkeyjar Gunnarsdóttur um námsver í Ólafsfirði.

     1.      Hver er afstaða ráðherra til hugmynda um að komið verði á fót í Ólafsfirði námsveri með svipuðu sniði og varð undanfari hins nýja framhaldsskóla á Snæfellsnesi?
    Varðandi þessa spurningu er rétt að minnast þess að um 20 ára skeið, 1980–2000, var rekin framhaldsdeild við Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar. Þar var um að ræða eins til tveggja ára framhaldsdeild þar sem kenndar voru almennar greinar. Þessi framhaldsdeild lagðist síðan af vegna lítillar aðsóknar nemenda. Framhaldsdeild var einnig rekin á Dalvík sem m.a. sérhæfði sig í sjávarútvegsgreinum, þ.e. skipstjórnar- og fiskvinnslunámi. Þessi deild var síðar sameinuð Verkmenntaskólanum á Akureyri en lagðist einnig af vegna lítillar aðsóknar. Það varð heldur ekki úr því að rekin yrði ein framhaldsdeild fyrir báða þessa staði eins og e.t.v. hefði verið mögulegt.
    Á Snæfellsnesi voru reknar framhaldsdeildir í Stykkishólmi frá árinu 1977 og í Ólafsvík með hléum frá sama tíma. Síðar var deildin sameiginleg fyrir Ólafsvík og Hellissand. Deildin í Stykkishólmi var yfirleitt til tveggja ára en í Ólafsvík var um eins árs deild að ræða. Þessar framhaldsdeildir voru síðan lagðar undir Fjölbrautaskóla Vesturlands 1993 og voru reknar af honum til ársins 2004 þegar Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók til starfa í Grundarfirði. Síðastliðin fjögur ár var rekin tilraunastarfsemi um námsver í Grundarfirði. Þar var um að ræða nemendahóp sem stundaði fjarnám með aðstoð kennara, að mestu leyti fyrsta ár framhaldsskóla. Fjölbrautaskóli Snæfellinga var síðan stofnaður á grundvelli þessara framhaldsdeilda og námsvers.
    Það er ljóst að það eru fyrst og fremst öflugar framhaldsdeildir á Snæfellsnesi sem voru grundvöllur að stofnun Framhaldsskóla Snæfellinga. Sveitarfélögin á svæðinu höfðu með sér mjög góða samvinnu og áttu frumkvæði að stofnun skólans.
    Námsver fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri getur aldrei orðið nema ráðstöfun til bráðabirgða. Þótt nemendur geti stundað fjarnám í gegnum tölvur eru svo margir þættir skólastarfsins sem ekki verður sinnt í námsveri en eru bráðnauðsynlegir, ekki síst fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri.

     2.      Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir því að veittur verði fjárstuðningur úr ríkissjóði til að koma slíku námsveri á fót?

    Afstaða verður tekin til slíkrar beiðni ef hún kemur fram frá heimamönnum. Hins vegar mun ráðuneytið ekki hafa frumkvæði að því að stofnað verði námsver á Ólafsfirði.