Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 636  —  394. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu Lindu Árnadóttur og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti, Guðlaug Sverrisson og Ólaf Kjartansson frá Úrvinnslusjóði, Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Ögmund Einarsson frá Sorpu, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Arngrím Sverrisson frá Gámaþjónustunni hf. og Einar Guttormsson frá Hringrás ehf.
    Meginefni frumvarpsins varðar breytingar á einstökum fjárhæðum úrvinnslugjalds, tímabundna frestun á upptöku úrvinnslugjalds af pappa-, pappírs- og plastumbúðum og hækkun skilagjalds af ökutækjum. Þá er einnig gert ráð fyrir breytingum sem leiða það af sér að kerfið nái betur til eldri ökutækja sem örva mun skil á þeim til úrvinnslu og loks gerir frumvarpið ráð fyrir því að aðilum verði heimilt að semja sín í milli um ráðstafanir sem tryggja úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum á sama hátt og nú gildir um svartolíu.
    Nefndin leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Við 4. gr. er í fyrsta lagi lagt til að í stað orðsins „innflytjandi“ komi „gjaldskyldur aðili“ til samræmis við 9. gr. laganna sem fjallar ítarlega um hverjir teljist gjaldskyldir. Í öðru lagi er lagt til að orðin „við tollafgreiðslu“ verði felld brott, þar sem greinin á einnig við um umbúðir sem framleiddar eru hér á landi. Í þriðja lagi er lögð til breyting á lokamálsliður 2. mgr. svo að skýrt komi fram að málsliðurinn eigi við um báðar undanþágureglurnar sem er að finna í 2. mgr. Einnig ef fyrir liggja staðfestar upplýsingar um hlutfall efnis í umbúðum þá skuli miðað við þá tölu en ekki 80% sem pappa og pappír og 20% sem plastumbúðir þegar álagningarstofn er reiknaður.
     2.      Við 6. gr. eru lagðar til breytingar á tveimur dagsetningum í b-lið (ákvæði til bráðabirgða II) að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga sem taldi að þörf væri á lengri tíma til undirbúnings. Í fyrsta lagi er lagt til að fresta upphafstíma greiðslna vegna móttöku á öðrum umbúðum en plastfilmu og bylgjupappa til 1. mars 2006, sbr. 1. mgr., og í öðru lagi að lengja starfstíma nefndar þeirrar sem um ræðir í 2. mgr. til 1. júní 2005. Þá er nauðsynlegt að felld verði á brott nánar tiltekin tollskrárnúmer í staflið c. (III.), þar sem í ljós kom við athugun málsins að tollskrárnúmer þessi höfðu verið felld brott með lögum nr. 8/2003 en slæðst inn í frumvarp þetta og því er lagt til að það verði leiðrétt með því að fella þau brott.

Prentað upp.

     3.      Við 15. gr. er lagt til að tollskrárnúmerinu „8429.5900“ verði skipt upp í tvö tollskrárnúmer til samræmis við fyrirhugaða breytingu á tollskránni um áramótin.
     4.      Við 20. gr. er lögð til samhljóða breyting og um getur í 3. lið hér að framan.
    Nefndin telur miður hve seint frumvarpið er fram komið. Mikilvægt er að nefndin fái nægan tíma til að fjalla um mál sem þetta, enda um viðamiklar breytingar að ræða í flóknum málaflokki.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kolbrún Halldórsdóttir, Mörður Árnason og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur og sitja hjá við atkvæðagreiðslu.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Steinunn K. Pétursdóttir áheyrnarfulltrúi sat fund nefndarinnar og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 6. des. 2004.Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Gunnar Birgisson.


Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.Mörður Árnason,


með fyrirvara.


Valdimar L. Friðriksson,


með fyrirvara.