Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 408. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 729  —  408. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um samráð við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur verið haldinn samráðsfundur með forsvarsmönnum sérsambanda ÍSÍ eins og ráðherra boðaði að yrði árlega í munnlegu svari við fyrirspurn á þskj. 1218 (803. mál á 130. löggjafarþingi) 31. mars sl.?
     2.      Ef sá fundur hefur verið haldinn, skilaði hann einhverjum árangri?
     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum fjárveitingum til sérsambanda ÍSÍ við fjárlagagerð fyrir árið 2006?


    Fyrsti samráðsfundur með forsvarsmönnum sérsambanda ÍSÍ var haldinn 19. nóvember sl. og hann sátu fulltrúar frá 21 sérsambandi ÍSÍ auk forystumanna ÍSÍ.
    Fundurinn var árangursríkur. Forseti ÍSÍ, Ellert B. Schram, flutti inngang að þeim þremur erindum sem lágu fyrir fundinum. Þau voru: fjármál íþróttahreyfingarinnar, útbreiðsla og fræðsla, og afreksmál. Megintilgangur með samráðsfundi sem þessum er að forystumenn íþróttahreyfingarinnar geti komið á framfæri þeim málum sem þeir telja brýn, auk almennra upplýsinga um stöðu íþróttamála. Eru fundir sem þessir mikilvægur vettvangur fyrir frjálsar umræður og skoðanaskipti og þá ekki síst fyrir ráðherra íþróttamála. Frummælendur voru þrír formenn sérsambanda og voru erindi þeirra fræðandi og gáfu góða yfirsýn yfir stöðu sérsambandanna almennt.
    Ráðherra mun áfram beita sér fyrir fjárveitingum til þeirra málaflokka sem falla undir ráðuneytið eftir því sem ástæða er til. Íþrótta- og æskulýðsmál eru þar engin undantekning.