Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 478. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 732  —  478. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „hlutafélög“ í 1. tölul. kemur: einkahlutafélög.
     b.      4. tölul. orðast svo: sparisjóðir.

2. gr.

    Í stað orðanna „góða bókhalds- og reikningsskilavenju“ í 4. gr. laganna kemur: settar reikningsskilareglur.

3. gr.

    Í stað orðanna „bókhalds- og reikningsskilavenju“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: góða bókhaldsvenju og settar reikningsskilareglur.

4. gr.

    4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur sett reglur um færslu rafræns bókhalds, þar á meðal um hugbúnað vegna gagnaflutninga milli gagnaflutningskerfa, og um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að rafrænt bókhald sé fært í samræmi við lög og reglugerðir.

5. gr.

    Í stað orðanna „skjölum sem flutt eru milli tölvukerfa“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: rafrænum skjölum.

6. gr.

    Í stað orðsins „tölvutæku“ í 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: rafrænu.

7. gr.

    2. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
    Reikningsárið skal vera tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Nýtt reikningsár hefst daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Við upphaf eða lok rekstrar eða breytingu á reikningsári getur tímabilið verið skemmra eða lengra, þó aldrei lengra en fimmtán mánuðir. Reikningsári verður því aðeins breytt síðar að sérstakar aðstæður gefi tilefni til. Breytingin skal tilgreind og rökstudd í skýringum.

8. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Á efnahagsreikning eru færðar á kerfisbundinn hátt eignir, skuldir, þ.m.t. skuldbindingar, og eigið fé, sem er mismunur eigna og skulda.
    Eign skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt er að félagið hafi af henni fjárhagslegan ávinning í framtíðinni og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.
    Skuld skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt þykir að til greiðslu hennar komi og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.
    Efnahagsreikningurinn skal þannig sundurliðaður að hann gefi skýra mynd af eignum, skuldum og eigin fé í árslok í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.

9. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Allar tekjur og öll gjöld reikningsársins skulu koma fram á rekstrarreikningi nema lög þessi eða settar reikningsskilareglur kveði á um annað.
    Í rekstrarreikningi skal á kerfisbundinn hátt sýna heildartekjur og heildargjöld þannig sundurliðað að reikningurinn gefi skýra mynd af rekstrarafkomunni á reikningsárinu í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.

10. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Rekstrarreikningar og efnahagsreikningar skulu settir upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Ef gerðar eru breytingar skulu þær tilgreindar í skýringum.
    Óheimilt er að fella saman eignir og skuldir eða tekjur og gjöld innan einstakra liða.
    Texti ársreiknings skal vera á íslensku og fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum.

11. gr.

    3. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
    Birgðir skal meta á kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist. Ef birgðir eru metnar við dagverði og það er verulega lægra en kostnaðarverð skal gera grein fyrir því í skýringum. Kostnaðarverð birgða tekur til alls kostnaðar við kaup á birgðum eða áfallins kostnaðar við framleiðslu þeirra. Auk þess telst til kostnaðarverðs birgða allur kostnaður við að koma þeim á núverandi stað og í það ástand sem þær eru. Dreifingarkostnað má ekki telja til kostnaðarverðs birgða.

12. gr.

    1. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
    Ef markaðsverð fastafjármuna er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa verð þeirra niður að því marki sem telja verður nauðsynlegt.

13. gr.

    30. gr. laganna orðast svo með fyrirsögn:

Beiting reikningsskilareglna.


    Bókhaldsskyldum aðilum sem falla ekki undir ákvæði annarra laga um samningu ársreikninga er heimilt að beita settum reikningsskilareglum við samningu ársreikninga sinna. Í skýringum skal gera grein fyrir beitingu slíkra reglna.

14. gr.

    32. gr. laganna orðast svo:
    Félagsmenn í félögum skv. 7. tölul. 1. gr., sem fara með minnst einn fimmta hluta atkvæða í félagi, geta á fundi krafist þess að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi, endurskoðunarfélag eða skoðunarmaður.
    Skoðunarmenn skv. 1. mgr. skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi. Þeir skulu hafa þá reynslu í bókhaldi og viðskiptaháttum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins er nauðsynleg til rækslu starfans. Hæfisskilyrði 9. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, eiga einnig við um skoðunarmenn.
    Uppfylli endurskoðandi eða skoðunarmaður ekki lengur skilyrði til starfans og enginn varamaður er til að koma í hans stað skal stjórn félagsins annast um að valinn verði nýr endurskoðandi eða skoðunarmaður eins fljótt og unnt er og skal hann gegna því starfi þar til kosning getur farið fram.
    Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um starf endurskoðanda sem kosinn er skv. 1. mgr.

15. gr.

    Í stað orðsins „Skoðunarmenn“ í 33. gr. laganna kemur: Endurskoðendur og skoðunarmenn.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef kosinn er skoðunarmaður, eða skoðunarmenn, úr hópi félagsmanna jafnframt endurskoðanda eða skoðunarmanni skv. 1. mgr. 32. gr. í samræmi við samþykktir félagsins, skulu þeir árita ársreikninginn.
     b.      Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
                  Skoðunarmenn samkvæmt þessari málsgrein mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Skoðunarmenn“ í 1. mgr. kemur: Endurskoðendur og skoðunarmenn.
     b.      Í stað orðsins „Skoðunarmönnum“ í 2. mgr. kemur: Endurskoðendum og skoðunarmönnum.

18. gr.

    Í stað orðanna „góða reikningsskilavenju“ í 5. tölul. 1. mgr. 38. gr. laganna kemur: lög þessi og settar reikningsskilareglur.

19. gr.

    Í stað orðanna „Rannsóknarlögregla ríkisins“ í 1. mgr. 41. gr. laganna kemur: ríkislögreglustjóri.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda um færslu bókhalds og samningu ársreikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefjast 1. janúar 2005 eða síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða lagafrumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga. Lög um bókhald hafa að geyma ákvæði um bókhaldsskyldu, bókfærslu og bókhaldsskjöl og geymslu þessara gagna, auk almennra ákvæða um ársreikninga annarra félaga en þeirra sem falla undir lög um ársreikninga, þ.e. hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög, auk tiltekinna sameignarfélaga og samlaga. Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru í samræmi við breytingar í frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga. Félög, sjóðir og stofnanir, flest sameignarfélög og samlög, svo og bókhaldsskyldir einstaklingar, falla ekki undir ákvæði laga um ársreikninga eða ákvæði annarra laga um reikningsskil. Þessir aðilar skulu semja ársreikninga sína í samræmi við ákvæði III. kafla laga um bókhald en þeim er þó heimilt að fara eftir ákvæðum laga um ársreikninga sem eru öllu ítarlegri og kröfuharðari um framsetningu og mat eigna og skulda og fleiri atriða en III. kafli í lögum um bókhald.
    Í þessu sambandi er rétt að benda á að þeim félögum sem ekki eru skyld til að semja ársreikninga í samræmi við lög um ársreikninga, svo og einstaklingum með atvinnurekstur, ber að semja ársreikninga í samræmi við III. kafla laga um bókhald. Samkvæmt 23. gr. laganna skal efnahagsreikningur þannig sundurliðaður að hann gefi skýra mynd af eignum, skuldum og eigin fé í árslok í samræmi við góða reikningsskilavenju. Sömuleiðis skal rekstrarreikningur gefa skýra mynd af rekstrarafkomunni á reikningsárinu í samræmi við góða reikningsskilavenju. Í lögum um ársreikninga er gerð krafa um glögga mynd. Sú skýring er á þessum mismun í orðavali laganna um „glögga mynd“ og „skýra mynd“ að með „skýrri mynd“ í bókhaldslögunum eru gerðar sömu kröfur til trúverðugleika rekstrar- og efnahagsreikninga sem samdir eru samkvæmt þeim lögum og samkvæmt lögum um ársreikninga en tekið er tillit til þess að um ólíka hagsmuni er að ræða hjá semjendum, eigendum og hugsanlegum lesendum reikningsskila þessara aðila og því er ekki ástæða til að gera sömu kröfur og til „glöggrar myndar“ ársreikningslaganna án þess að fallið sé frá kröfunni um að ársreikningarnir greini á sem réttastan hátt frá rekstrarafkomunni og eigin fé.
    Þá er lagt til að aðilar sem semja ársreikninga sína samkvæmt III. kafla laganna um bókhald hafi almenna heimild til að beita settum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða reikningsskilastöðlum reikningsskilaráðs við samningu reikningsskila sinna í stað reglna samkvæmt lögunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a-lið eru lagðar til breytingar á upptalningu félaga í 1. tölul. 1. mgr. laganna, þ.e. að tiltaka sérstaklega einkahlutafélög sem falla undir skilgreiningu félaga með takmarkaða ábyrgð félagsaðila. Er það í samræmi við aðrar breytingar á lögum um ársreikninga.
    Í b-lið er lagt til að fella út úr upptalningu í 4. tölul. málsgreinarinnar banka, verðbréfasjóði og önnur fyrirtæki þar sem þessi fyrirtæki falla undir 1. tölul. 1. mgr., þ.e. sem hlutafélög. Sparisjóðir standa þá einir eftir í upptalningunni.

Um 2. og 3. gr.


    Þessar breytingar eru í samræmi við breytingu sem lögð er til í 5. gr. og fleiri greinum frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna hefur ráðherra heimild til að gefa út reglur um lágmarkskröfur til bókhaldskerfa fyrir tölvur (rafrænna bókhaldskerfa) og veita þeim opinbera viðurkenningu. Erfiðleikum er bundið að veita slíkum kerfum opinberar viðurkenningar, m.a. vegna þess að þau eru í sífelldri þróun. Er því lagt til að ábyrgðinni sé velt yfir á hugbúnaðarfyrirtækin og ráðherra setji aðeins reglur um þau skilyrði sem hugbúnaður þarf að uppfylla til að bókhald teljist fært í samræmi við lög um bókhald. Reglugerð nr. 598/1999, um rafrænt bókhald, geymslu rafrænna gagna og lámarkskröfur til rafrænna bókhaldskerfa, hefur að geyma slík ákvæði.

Um 5. og 6. gr.


    Hér eru lagðar til orðalagsbreytingar.

Um 7. gr.


    Þessi breyting er í samræmi við breytingu sem lögð er til í 4. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga.

Um 8. gr.


    Hér er lögð til breyting í samræmi við 12. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga.

Um 9. og 10. gr.


    Hér er lagt til að flytja í 24. gr. laganna efnisákvæði 25. gr., sem fjalla um rekstrarreikning, og koma þau þá á eftir grein sem fjallar um efnahagsreikning. Efnisákvæði 24. gr., sem fjalla um sameiginleg ákvæði efnahagsreiknings og rekstrarreiknings, eru flutt í 25. gr.

Um 11. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar í samræmi við 27. gr. laga um ársreikninga eins og henni var breytt með 16. gr. laga nr. 56/2003.

Um 12. gr.


    Hér er lögð til breyting í samræmi við 22. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga.

Um 13. gr.


    Hér er lagt til að heimila bókhaldsskyldum aðilum sem ekki falla undir önnur lög um reikningsskil að beita settum reikningsskilareglum hvort sem um er að ræða reglur sem reikningsskilaráð gefur út í samræmi við lög um ársreikninga eða setta alþjóðlega reikningsskilastaðla, sbr. 51. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga. Hafa þá umræddir aðilar heimildir til að semja ársreikninga sína eftir sömu reglum og önnur félög sem ber að fara eftir lögum um ársreikninga, í stað þeirra reglna sem fram koma í III. kafla laga um bókhald.

Um 14. gr.


    Grein þessi fjallar um endurskoðun reikningsskila hjá þeim aðilum sem ekki falla undir ákvæði laga um ársreikninga. Það nýmæli er í 1. mgr. að lagt er til að félagsmenn sem fara með tuttugu prósent atkvæða í tilteknum félögum, sjóðum og stofnunum geti krafist þess á fundi að kosinn verði endurskoðandi, endurskoðunarfélag eða skoðunarmaður utan raða félagsmanna. Fyrirmynd að ákvæðinu er 4. mgr. 59. gr. laga um ársreikninga. Kosning félagsmanns sem skoðunarmanns verður eftir sem áður heimil og er gerð grein fyrir verkaskiptingu milli þessara aðila í 34. gr. laganna.
    Samkvæmt 7. tölul. 1. gr. laganna teljast bókhaldsskyld hvers konar félög, sjóðir og stofnanir, sem ekki eru annars staðar talin í greininni, hvort sem þau stunda atvinnurekstur eða ekki. Mörg þessara félaga, sjóða og stofnana hafa með höndum fjármuni og velta milljónum króna árlega. Þau þurfa að gera félagsaðilum sínum og öðrum grein fyrir öflun og ráðstöfun þeirra. Telja verður eðlilegt að hagsmunir félagsaðila í slíkum félagsskap séu tryggðir með bókhaldsskyldu þeirra og samning ársreiknings en nú bætist við að tiltekinn fjöldi félagsaðila geti krafist að utanaðkomandi aðili, endurskoðandi eða skoðunarmaður annist endurskoðunina. Undir þennan tölul. 1. gr. laganna falla margvísleg félög og hagsmunasambönd sem stofnsett eru og starfrækt um ýmis áhuga- og hagsmunamál félagsaðila, svo sem stéttar- og fagfélög og sjóðir undir þeim með sjálfstæðan fjárhag og stjórn, íþróttafélög og sambönd þeirra, kvenfélög, kirkju- og safnaðarsjóðir, minningarsjóðir, menningar- og styrktarsjóðir, stjórnmálafélög og -samtök, líknarfélög, sjálfseignarstofnanir og sjálfseignarfélög, húsfélög og veiðifélög. Kosning endurskoðenda eða skoðunarmanna var ekki gerð að skyldu í lögum um bókhald hjá þeim enda var ekki talin þörf á slíku hjá aðilum sem stunda óverulegan atvinnurekstur eða ef um fámenn félagasamtök er að ræða. Yfirleitt er í samþykktum félaga, sjóða og stofnana ákvæði um skoðunarmenn ársreikninga og er þá oft á tíðum um félagskjörinna skoðunarmenn að ræða, þ.e. valda úr hópi félagsaðila.
    2. mgr. er í samræmi við 2. mgr. 58. gr. laga um ársreikninga.
    Efnisákvæði 3. og 4. mgr. eru óbreytt frá 2. og 3. mgr. 32. gr. laganna.


Um 15. gr.


    Hér eru lagðar til orðalagsbreytingar sem leiðir af því að lagt er að jöfnu hvort valinn er endurskoðandi eða skoðunarmaður.

Um 16. gr.


    Greinin fjallar um hlutverk félagskjörinna skoðunarmanna og er um orðalagsbreytingu að ræða á fyrsta málslið. Félagskjörinn skoðunarmaður er í reynd fulltrúi félagsmanna sem ekki hafa aðgang að bókhaldi félagsins. Ekki er gerð krafa til sérstakrar bókhaldskunnáttu en áður en félagskjörinn skoðunarmaður áritar ársreikninginn ber honum að yfirfara hann og fullvissa sig um að eignir þær sem þar eru tilgreindar séu raunverulega fyrir hendi og farið hafi verið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar. Þannig getur skoðunarmaður t.d. sannreynt bankainnstæður, verðbréfaeign og tilvist varanlegra eigna. Sama á við um tilgreindar skuldir.

Um 17. gr.


    Hér eru lagðar til orðalagsbreytingar sem leiðir af því að lagt er að jöfnu hvort valinn er endurskoðandi eða skoðunarmaður.

Um 18. gr.


    Þessar breyting er í samræmi við breytingu sem lögð er til í 2. og 3. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.


    Breyting þessi er í samræmi við lögreglulög, nr. 90/1996, þar sem stofnað var embætti ríkislögreglustjóra í stað Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Um 20. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994,
um bókhald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um bókhald í samræmi við lagafrumvarp um breytingar á lögum um ársreikninga sem flutt er samhliða. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.