Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 322. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 750  —  322. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar, Bryndísar Hlöðversdóttur, Guðrúnar Ögmundsdóttur og Margrétar Frímannsdóttur um breytingar í fangelsismálum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær verður Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg lokað og hvert munu fangar þess fara?
     2.      Hvenær verður kvennafangelsinu á Kópavogsbraut lokað og hvert munu fangar þess fara?
     3.      Eru fyrirhugaðar einhverjar breytingar á fangelsinu á Kvíabryggju eða öðrum fangelsum og ef svo er, hverjar eru þær?


    Að undanförnu hefur verið unnið að stefnumótun og markmiðssetningu á vegum Fangelsismálastofnunar. Hefur Alþingi meðal annars verið greint frá þeim áformum í greinargerð með frumvarpi dóms- og kirkjumálaráðherra um fullnustu refsinga sem nú er til meðferðar hjá allsherjarnefnd þingsins. Er vísað til hennar og ræðu ráðherra þegar frumvarpið var lagt fram.
    Fangelsismálastofnun segir að leggja þurfi niður fangelsisrekstur í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg á næstu árum. Þá gera framtíðarhugmyndir Kópavogsbæjar um skipulag svæðisins umhverfis fangelsið í Kópavogi ekki ráð fyrir slíkum rekstri og fyrirsjáanlegt er að húsið verður að víkja innan nokkurra ára.
    Gert er ráð fyrir að í stað fangelsanna tveggja á höfuðborgarsvæðinu verði horft til frekari uppbyggingar og umbóta á núverandi fangelsum á Litla-Hrauni, Kvíabryggju og Akureyri auk nýbyggingar á Hólmsheiði. Ekki er á þessari stundu unnt að tímasetja einstakar framkvæmdir eða hvenær Hegningarhúsinu og fangelsinu í Kópavogi verður lokað.