Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 493. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 753  —  493. mál.
Frumvarp til tollalaga.(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eru eftirfarandi orð og orðasambönd skilgreind svo:
     1.      Aðflutningsgjöld og útflutningsgjöld: Tollur og aðrir skattar og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru við inn- eða útflutning.
     2.      Aðkomufar: Far sem kemur frá útlöndum og hefur ekki fengið fyrstu tollafgreiðslu í þeirri ferð. Aðkomufar skoðast einnig far sem tekið hefur við vörum eða mönnum utan tollhafnar úr öðru fari sem er í utanlandsferðum.
     3.      Far: Skip eða flugfar.
     4.      Far í utanlandsferðum: Far sem kemur frá útlöndum eða ferð þess er gerð til útlanda.
     5.      Farartæki: Sérhvert tæki sem nota má til flutnings á vörum.
     6.      Farmenn: Skipverjar og flugverjar sem eru í áhöfn skipa eða flugfara.
     7.      Ferðamenn: Farþegar sem koma til landsins frá útlöndum eða fara til útlanda með skipum eða flugförum.
     8.      Flugfar: Sérhvert fljúgandi farartæki.
     9.      Rafræn tollafgreiðsla: SMT- og VEF-tollafgreiðsla.
     10.      Ráðherra: Fjármálaráðherra, nema annað sé tekið fram.
     11.      Skip: Sérhvert fljótandi farartæki.
     12.      Skjalasending milli tölva (SMT): Sendingar á gögnum milli gagnavinnslukerfa sem fylgja ákveðnum stöðlum.
     13.      SMT-tollafgreiðsla: Rafræn tollafgreiðsla með skjalasendingum milli gagnavinnslukerfa tölva sem fylgja ákveðnum stöðlum.
     14.      Tollabinding: Hámark tolla samkvæmt hinum almenna samningi um tolla og viðskipti 1994 í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar er undirritaður var af Íslands hálfu 15. apríl 1994, sbr. viðauka IIA og IIB við lög þessi. Einnig hámark tolla samkvæmt ráðherrayfirlýsingu um viðskipti með vörur á sviði upplýsingatækni, sem undirrituð var í Singapore 13. desember 1996, sbr. viðauka IIC við lög þessi.
     15.      Tollafgreiðsla vöru: Þegar tollstjóri hefur heimilað afhendingu vöru til nota innan lands eða til útflutnings.
     16.      Tollgæsla: Handhafar tollgæsluvalds, sbr. 147. gr.
     17.      Tollkvóti: Tiltekið magn vöru sem flutt er inn á lægri tollum en getið er um í 6. gr.
     18.      Tollmiðlari: Lögaðili sem hefur leyfi tollstjórans í Reykjavík til að koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda.
     19.      Tollskjöl: Tollskýrsla og önnur skjöl sem láta ber í té við tollafgreiðslu eftir því sem mælt er fyrir um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.
     20.      Tollur: Gjald sem innheimt er af vöru samkvæmt tollskrá.
     21.      Tollverð: Verðmæti vöru til nota við álagningu tolls á innflutta vöru.
     22.      Tölvukerfi tollyfirvalda: Vél- og hugbúnaður sem notaður er af tollyfirvöldum við tollafgreiðslu, m.a. álagningu aðflutningsgjalda og innheimtu þeirra.
     23.      Umflutningur: Flutningur vöru innan lands undir tolleftirliti frá aðkomufari um borð í útflutningsfar, enda sé upphaflegur ákvörðunarstaður vörunnar annar en Ísland.
     24.      VEF-tollafgreiðsla: Rafræn tollafgreiðsla í gegnum veftengingu við vefsetur tollyfirvalda.
     25.      Vara eða sending: Hver sá hlutur sem tollmeðferð getur hlotið samkvæmt tollskrá.
     26.      Vörsluhafi: Einstaklingur eða lögaðili sem fer með vörslu ótollafgreiddrar vöru samkvæmt ákvæðum laga þessara.
     27.      Vörsluábyrgð: Ábyrgð á vörslu ótollafgreiddrar vöru samkvæmt ákvæðum laga þessara.

II. KAFLI
Tollsvæði ríkisins.
2. gr.

    Tollsvæði ríkisins er landið ásamt eyjum og útskerjum sem því tilheyra, svo og tólf mílna landhelgi umhverfis það eins og hún er afmörkuð skv. 1. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
    Til tollsvæðis ríkisins telst enn fremur loftrými yfir fyrrgreindu land- og hafsvæði.

III. KAFLI
Tollskyldir aðilar.    
3. gr.
Almenn tollskylda.

    Hver sá sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum þessara laga er tollskyldur, sbr. þó 4. gr., og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá.

4. gr.
Takmörkuð tollskylda.

    Eftirtaldir aðilar skulu ekki greiða toll af innfluttum vörum með þeim takmörkunum þó sem að neðan greinir:
     1.      Sendiráð, sendiræðismannsskrifstofur, sendierindrekar og sendiræðismenn erlendra ríkja.
     2.      Kjörræðismenn erlendra ríkja að því er varðar tilteknar skrifstofuvörur, sbr. 2. mgr.
     3.      Aðilar sem undanþegnir eru tollskyldu með sérstökum lögum.
    Ráðherra setur nánari reglur um tollfrelsi samkvæmt þessari grein og má binda tollfrelsi þeirra aðila sem um ræðir í 1. og 2. tölul. 1. mgr. því skilyrði að viðkomandi ríki sé aðili að Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, sbr. lög nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, Vínarsamningi um ræðissamband, sbr. lög nr. 4/1978, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband, eða íslenskir sendimenn og sendisveitir njóti sams konar tollfrelsis hjá viðkomandi ríki.

IV. KAFLI
Tollskyldar vörur, undanþágur o.fl.
5. gr.
Tollskyldar vörur og tollskrá.

    Af vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með lögum þessum. Tollur skal lagður sem verðtollur á tollverð vöru eða sendingar eins og það er ákveðið samkvæmt ákvæðum 14.–16. gr. og sem magntollur á vörumagn eftir því sem í tollskrá samkvæmt viðauka I greinir. Aðra tolla og gjöld, sem mismuna innlendum og innfluttum framleiðsluvörum, má eigi leggja á vöruna við innflutning.
    Ákvæði 1. mgr. skulu eigi koma í veg fyrir álagningu verðjöfnunargjalda samkvæmt ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga, sbr. 139. gr. laga þessara eða 84. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, enda rúmist slík gjaldtaka innan tollabindinga, sbr. 3. mgr.
    Tollur á vörur frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar má eigi vera hærri en þær tollabindingar sem tilgreindar eru í viðaukum IIA, IIB og IIC með lögum þessum. Miðist tollabinding bæði við verð og magn skal hámarkstollur miðast við þá bindingu sem hærri álagningu leyfir. Þó er heimilt að víkja frá ákvæðum um tollabindingar þegar ákvörðun er tekin um álagningu undirboðs- og jöfnunartolla skv. 133.–137. gr. og viðbótartolla skv. 138. gr. laga þessara, sbr. 86. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

6. gr.
    Tollfrjálsar vörur.

    Auk þeirra vara sem tollfrjálsar eru samkvæmt beinum fyrirmælum í tollskrá skulu eftirfarandi vörur vera tollfrjálsar:
     1.      Eftirtaldar vörur um borð í förum sem koma hingað til lands frá útlöndum:
                  a.      Fylgifé fars sem er að mati tollyfirvalda ekki umfram það sem hæfilegt má teljast með tilliti til stærðar fars og ferða þess, enda verði fylgiféð ekki flutt úr viðkomandi fari.
                  b.      Hæfilegar vistir og aðrar nauðsynjar í fari sem er í utanlandsferðum, enda verði þær áfram í farinu til neyslu og notkunar áhafnar og farþega.
                  c.      Vörur sem ekki á að flytja hér úr fari en eiga að fylgja því aftur til útlanda. Sama gildir um vöru sem send er hingað til umflutnings.
     2.      Varningur sem farmenn og ferðamenn hafa meðferðis frá útlöndum sem hér segir:
                  a.      Venjulegur farangur áhafnar fars sem kemur hingað til lands frá útlöndum, enda sé að mati tollyfirvalda um ferðanauðsynjar til eigin notkunar áhafnar í fari að ræða. Jafnframt venjulegur farangur ferðamanna sem koma hingað til lands frá útlöndum, enda sé að mati tollyfirvalda um ferðanauðsynjar til eigin nota þeirra á ferðalaginu að ræða.
                  b.      Varningur, þ.m.t. áfengi og tóbak, sem ferðamenn og farmenn hafa með sér hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi umfram það sem greinir í a-lið, að tilteknu hámarki sem ráðherra ákveður í reglugerð.
     3.      Fatnaður og aðrar ferðanauðsynjar hér búsettra manna sem látist hafa erlendis.
     4.      Búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Tollfrelsi samkvæmt þessum lið tekur ekki til ökutækja eða annarra vélknúinna farartækja. Ráðherra getur með reglugerð takmarkað niðurfellingu samkvæmt þessum lið við notkun, vöruflokka eða hámarksverð að teknu tilliti til dvalartíma erlendis, fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna.
     5.      Heiðursmerki veitt af erlendum ríkjum, svo og verðlaun fyrir íþróttaafrek og önnur afrek sem unnin eru erlendis.
     6.      Vörur sem endursendar eru hingað frá útlöndum vegna þess að þær seldust ekki þar eða endursendar eru hingað frá útlöndum af öðrum orsökum og færðar séu að mati tollyfirvalds fullnægjandi sönnur fyrir því að um sé að ræða vörur útfluttar héðan.
     7.      Endursendar tómar umbúðir, enda séu að mati tollyfirvalds færðar fullnægjandi sönnur fyrir því að um sé að ræða umbúðir utan af vörum útfluttum héðan.
     8.      Gjafir sem sendar eru hingað til lands í eftirfarandi tilvikum:
                  a.      Gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 10.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Brúðkaupsgjafir skulu vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 10.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.
                  b.      Gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi, svo og gjafir sem sendar eru hingað frá útlöndum og góðgerðarstofnanir eða aðrir slíkir aðilar eiga að annast dreifingu á til bágstaddra.
                  c.      Gjafir sem ríki, sveitarfélögum eða stofnunum á vegum hins opinbera eru gefnar erlendis frá í vináttuskyni eða á grundvelli menningartengsla við erlend ríki.
     9.      Vísindatæki og vísindabúnaður sem íslenskar vísindastofnanir eða vísindastofnanir sem Ísland er aðili að kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum.
     10.      Notaðir munir sem hafa fallið í arf erlendis, þó ekki ökutæki eða önnur vélknúin farartæki.
     11.      Sendingar vegna markaðssetningar og vöruþróunar sem hér segir:
                  a.      Sýnishorn verslunarvara og auglýsingaefnis, enda sé verðmæti sendingar óverulegt. Jafnframt sýnishorn verslunarvara sem gerð hafa verið ónothæf sem almenn verslunarvara.
                  b.      Hugbúnaðargögn sem send eru án endurgjalds og ætluð eru til þróunar eða hönnunar hugbúnaðar, prófunar, leiðréttingar, uppfærslu eða eru eingöngu nothæf til kynningar.
                  c.      Verðlaus bréf, bæklingar og prentuð gögn sem ekki hafa neitt viðskiptalegt gildi og ekki eru fallin til endurdreifingar.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tollfrelsis samkvæmt þessari grein.

7. gr.
Niðurfelling, lækkun eða endurgreiðsla tolls.

    Tollur skal lækka, falla niður eða endurgreiðast í eftirfarandi tilvikum, að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru:
     1.      Í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar.
                  Tollar á vörur sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims, samkvæmt skilgreiningu nefndar Sameinuðu þjóðanna um framtak, auðveldun viðskipta og þróunarmál (UNCTAD/Committee on Enterprise, Business Facilitation and Development), skulu falla niður til samræmis við niðurfellingu tolla á vörum sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     2.      Vegna tímabundins innflutnings í eftirfarandi tilvikum:
                  a.      Af vörum sem sendar eru til landsins til sýningar eða flutnings um stundarsakir, enda verði þær ekki nýttar til annars. Jafnframt af vélum, tækjum og öðrum áhöldum sem eru send til landsins til reynslu um stuttan tíma.
                  b.      Af tækjum, verkfærum og öðrum búnaði sem vísindamenn, vísindaleiðangrar, listamenn, verktakar, björgunarleiðangrar og aðrir slíkir hafa meðferðis frá útlöndum til afnota hér við athuganir sínar, rannsóknir og starfsemi.
                  c.      Af vörum sem eru sendar tímabundið hingað til lands til viðgerðar eða annarrar aðvinnslu.
                  d.      Af vörum sem fluttar eru tímabundið hingað til lands til að fram geti farið á þeim nægileg aðvinnsla til að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum.
                  e.      Af tækjum og öðrum búnaði sem fluttur er tímabundið hingað til lands vegna fundahalda, ráðstefna eða hátíðahalda.
                  Ráðherra getur með reglugerð kveðið á um þann hámarkstíma sem tollfrjáls innflutningur samkvæmt þessum tölulið tekur til, þó aldrei lengur en í tólf mánuði. Ráðherra getur jafnframt í reglugerð afmarkað nánar þær vörur sem ákvæðið tekur til.
     3.      Af landbúnaðarvörum sem bera magntoll (A1-tollur) samkvæmt viðauka I við lög þessi og sendar eru tímabundið hingað til lands til aðvinnslu samkvæmt nánari skilyrðum þessa töluliðar. Vörurnar skulu endursendar úr landi að lokinni aðvinnslu eigi síðar en sex mánuðum eftir komudag flutningsfars til landsins.
                  Landbúnaðarráðherra getur veitt lögaðilum, sem stunda umfangsmikla fullvinnslu í atvinnuskyni á innfluttum landbúnaðarvörum til endurútflutnings, heimild til tímabundins innflutnings landbúnaðarvara samkvæmt þessum tölulið.
                  Verði vara ekki flutt úr landi innan tímafrests skv. 1. mgr. þessa töluliðar skal innflytjandi greiða toll af vörunni eins og mælt er fyrir um í viðauka I við lög þessi.
                  Leyfishafi skal greiða kostnað við tolleftirlit með vörum sem fluttar eru tímabundið til landsins samkvæmt þessum tölulið.
                  Landbúnaðarráðherra skal afturkalla heimild skv. 2. mgr. þessa töluliðar fari leyfishafi ekki að fyrirmælum um framkvæmdina.
                  Landbúnaðarráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tímabundins innflutnings til aðvinnslu samkvæmt þessum tölulið, m.a. um það hverjir geti sótt um undanþágu, aðgreiningu innflutts hráefnis til vinnslu fullunninna vara fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings, nýtingarhlutfall hráefnis við vinnslu, lágmarkskröfur um bókhald leyfishafa og upplýsingagjöf leyfishafa til landbúnaðarráðherra og tollyfirvalda. Hann getur gert það að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.
     4.      Af bifreiðum, bifhjólum og tengivögnum sem skráðir eru erlendis og fluttir til landsins af mönnum sem hafa haft búsetu erlendis og hafa ekki lögheimili hér á landi. Undanþága þessi gildir í einn mánuð frá komu ökutækis til landsins.
                  Tollstjóri getur framlengt tímabundinn innflutning skv. 1. mgr. þessa töluliðar um allt að þrjá mánuði í senn, í allt að tólf mánuði alls, enda sýni viðkomandi fram á að hann hafi hvorki launaða atvinnu hér á landi né reki hér atvinnufyrirtæki, að hann hafi ekki búsetu hér á landi og hafi ekki flutt búslóð sína hingað til lands.
                  Uppfylli innflytjandi ekki skilyrði 2. mgr. þessa töluliðar, þess efnis að hann hafi ekki launaða atvinnu og reki ekki fyrirtæki hér á landi, getur tollstjóri þó eigi að síður framlengt tímabilið í samræmi við ákvæði 2. mgr. gegn greiðslu tolls af sem nemur 1/ 60 hluta af tollverði viðkomandi ökutækis fyrir hvern byrjaðan mánuð sem leyfi er framlengt. Tollstjóri getur heimilað greiðslu gjalda með skuldaviðurkenningu og fullnægjandi ábyrgð.
                  Ákvæði þessa töluliðar skulu gilda eftir því sem við getur átt um bifreiðar sem erlendir ferðamannahópar, ferðaskrifstofur eða aðrir sem atvinnu hafa af slíkum fólksflutningum flytja til landsins vegna hópferðalaga um landið, enda verði þær fluttar úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð í upphafi.
                  Ákvæði töluliðar þessa gilda með sama hætti um nýjar óskráðar bifreiðar og bifhjól sem keypt eru hér á landi. Ökutæki þessi skulu skráð sérstaklega og uppfylla frekari skilyrði sem dómsmálaráðuneytið kann að setja. Undanþága frá greiðslu tolls samkvæmt þessari málsgrein miðast við skráningardag ökutækis.
                  Þegar leyfi er veitt til tímabundins tollfrjáls innflutnings ökutækis samkvæmt þessum tölulið skal heimilt að flytja eldsneyti með ökutæki í innbyggðum eldsneytisgeymum þess án greiðslu aðflutningsgjalda. Jafnframt skal eiganda eða umráðamanni heimilt, ef ökutæki bilar eða verður fyrir tjóni, að flytja inn varahluti í ökutækið tollfrjálst.
     5.      Af bifreiðum, bifhjólum og tengivögnum sem skráð eru erlendis og eru í eigu, eða leigu, erlends fyrirtækis með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og flutt eru til landsins af starfsmanni þess fyrirtækis. Undanþága þessi gildir í einn mánuð frá komu ökutækis til landsins.
                  Tollstjóri getur framlengt tímabundinn innflutning skv. 1. mgr. þessa töluliðar um allt að þrjá mánuði í senn, í allt að tólf mánuði alls, að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 4. tölul. þessarar greinar.
     6.      Af stærri tækjum, þ.m.t. ökutækjum sem send eru hingað til lands til notkunar um stuttan tíma, þó ekki lengur en í tólf mánuði, og endursend eru þegar að notkun lokinni. Tollur skal í slíkum tilvikum reiknaður af leiguverði fyrir tækin í stað tollverðs. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir má reikna toll af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/ 60 hluti tollverðs eins og það er ákveðið skv. V. kafla laga þessara fyrir hvern byrjaðan mánuð sem tækið er hér á landi.
     7.      Af vörum sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði.
     8.      Af vörum sem reynast gallaðar eða hafa eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, við affermingu, í vörslu tollyfirvalda, í viðurkenndum geymslum fyrir ótollafgreiddar vörur eða í flutningi milli tollhafna innan lands áður en þær eru afhentar viðtakanda.
     9.      Af vélum, tækjum, rafmagnsvörum og öðrum fylgihlutum sem ætlaðir eru til nota í flugvélum og skipum. Sama gildir um hluti sem ætlaðir eru til viðgerða eða annarrar aðvinnslu flugvéla og skipa.
     10.      Af hráefni, efnivörum og hlutum í innlendar framleiðsluvörur, svo og af umbúðum fyrir slíkar vörur. Ef aðvinnsla sem á sér stað hér á landi er óveruleg, svo sem pökkun, umpökkun, átöppun eða blöndun, telst framleiðsluvara ekki vera innlend í skilningi þessa töluliðar. Niðurfelling tolls af hráefni eða efnivöru samkvæmt þessum tölulið tekur ekki til vara sem magntollur (A1-tollur) er lagður á samkvæmt viðauka I við lög þessi.
     11.      Af hráefni, efnivörum og hlutum sem bera magntoll (A1-tollur) samkvæmt viðauka I við lög þessi og ætluð eru í innlendar framleiðsluvörur, svo og af umbúðum fyrir slíkar vörur. Ef aðvinnsla sem á sér stað hér á landi er óveruleg, svo sem pökkun, umpökkun, átöppun eða blöndun, telst framleiðsluvara ekki vera innlend í skilningi þessa töluliðar.
     12.      Af björgunarbúnaði og björgunartækjum, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur í starfsemi björgunarsveita.
     13.      Af vélum, vélarhlutum og varahlutum sem notaðir eru til vinnslu á innlendum framleiðsluvörum.
     14.      Af tækjabúnaði og miðlum sem kvikmynda- og myndbandavinnustofur og hljóðver nýta til starfsemi sinnar.
     15.      Af kartöfluútsæði, græðlingum og öðrum efnivörum, hráefni og hlutum til framleiðslu garðyrkjuafurða.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls samkvæmt þessari grein. Hann getur gert það að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.

8. gr.
Vara send til útlanda til aðvinnslu.

    Nú er vara send til útlanda til aðvinnslu og hún breytir ekki svo eðli sínu við aðvinnsluna að úr verði nýir hlutir og skal þá aðeins greiða af aðvinnslukostnaði að viðbættum flutningskostnaði til landsins þann toll sem sams konar vara ber eftir tollskrá.
    Breyti vara sem send er utan til aðvinnslu svo eðli sínu við aðvinnsluna að úr verði nýr hlutur skal greiða af henni toll eftir tollskrá eins og um væri að ræða erlenda aðflutta vöru.

9. gr.
Vara send til útlanda til viðgerðar.

    Nú er vara send til útlanda til viðgerðar og hún breytir ekki svo eðli sínu við viðgerðina að úr verði nýir hlutir og skal þá aðeins greiða af viðgerðarkostnaði að viðbættum flutningskostnaði til landsins þann toll sem sams konar vara ber eftir tollskrá.
    Komi ný vara í stað vöru sem send er utan til viðgerðar skal greiða af henni toll eftir tollskrá.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skulu notaðir hlutar í vöru, sem koma í stað sams konar hluta, sem sendir hafa verið til viðgerðar í þjónustumiðstöðvar erlendis, tollafgreiddir með þeim hætti að tollur sé reiknaður af þjónustugjaldi samkvæmt reikningi hinnar erlendu þjónustumiðstöðvar, enda komi þar fram heiti og tegundarnúmer hlutar, hann flokkist í sama tollskrárnúmer, hafi sams konar viðskiptalegt gildi og búi yfir sömu tæknilegum eiginleikum og sá hlutur sem sendur var til viðgerðar, auk þess sem gætt skal að öðru leyti ákvæða 1. mgr.

10. gr.
Vara send til útlanda til viðgerðar á ábyrgðartíma.

    Vara sem á ábyrgðartíma er send utan til viðgerðar vegna galla skal við innflutning undanþegin tolli, enda séu að mati tollstjóra færðar fullnægjandi sönnur fyrir að viðgerðin sé viðkomandi að kostnaðarlausu og ábyrgð innifalin í upphaflegu tollverði vörunnar.
    Ákveði erlendur seljandi gallaðrar vöru að afhenda nýja vöru í stað þess að framkvæma viðgerð á gallaðri vöru skal tollur falla niður af hinni nýju vöru að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Hin gallaða vara skal vera í ábyrgð samkvæmt lögbundinni eða samningsbundinni skyldu seljanda á þeim tíma sem hún er send utan eða henni fargað undir tolleftirliti. Ekki skal farga gallaðri vöru fyrr en að fenginni skriflegri staðfestingu seljanda um að hann muni afhenda nýja vöru í stað þeirrar gölluðu og óski ekki eftir að fá hina gölluðu vöru í hendur.
     2.      Seljandi staðfesti að vöruskipti fari fram vegna lögbundinnar eða samningsbundinnar ábyrgðar sinnar á galla og hann kjósi að senda nýja vöru í stað þeirrar gölluðu, kaupanda að kostnaðarlausu, á ábyrgðartíma.
     3.      Ný vara flokkist í sama tollskrárnúmer og hin gallaða vara sem hún kemur í staðinn fyrir, hafi sama viðskiptalegt gildi og búi yfir sömu tæknilegu eiginleikum og hin gallaða vara hafði við innflutning.
    Tollstjóri getur heimilað innflutning vöru skv. 2. mgr., án greiðslu aðflutningsgjalda, áður en hin gallaða vara hefur verið flutt úr landi eða henni fargað undir tolleftirliti, sbr. 1. tölul. 2. mgr., að því tilskildu að innflytjandi leggi fram fjártryggingu til greiðslu aðflutningsgjalda og kostnaðar, sbr. 36. gr. laganna. Hin gallaða vara skal flutt úr landi eða henni fargað undir tolleftirliti innan 60 daga frá tollafgreiðslu vöru sem kemur í stað gallaðrar vöru. Að öðrum kosti skal gengið að fjártryggingu.

11. gr.

    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði niðurfellingar eða endurgreiðslu tolls skv. 9. og 10. gr. laga þessara.

12. gr.
Tollkvótar sem landbúnaðarráðherra úthlutar.

    Í viðaukum IIIA og B eru tilgreindir tollkvótar samkvæmt skuldbindingum Íslands í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna innflutnings á því magni sem tilgreint er fyrir hvert áranna 1995 til og með 2000. Um úthlutun þeirra fer skv. 65. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Tollur á þær vörur, sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum í viðauka IIIA, skal vera 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA með lögum þessum.
    Tollur á þær vörur, sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum í viðauka IIIB, skal vera 30% en þó eigi hærri en í viðaukanum greinir. Við innflutning á fóðurvörum og hráefnum í þær í 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár skulu þó gilda þeir tolltaxtar sem tilgreindir eru í tollskrá í viðauka I.
    Í viðaukum IVA og B eru tilgreindir tollkvótar sem landbúnaðarráðherra úthlutar skv. 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að tollur á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B skuli vera 0, 10, 20, 30, 40, 50, 60, 70, 80 eða 90 hundraðshlutar af þeim verð- og/eða magntolli sem lagður er á viðkomandi vörulið eins og hann er tilgreindur í tollskrá eða 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA með lögum þessum. Ákvörðun landbúnaðarráðherra um lækkun tolls í samræmi við framangreinda hundraðshluta verð- og/eða magntolls skal ráðast af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vöru á hæfilegu verði er til staðar á innanlandsmarkaði. Hundraðshlutar tolls hverrar vöru skulu vera hærri eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu er meira en lækka að sama marki eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu minnkar. Landbúnaðarráðherra skal við ákvörðun um hundraðshluta tolls leitast við að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti.

13. gr.
Tollkvótar sem fjármálaráðherra úthlutar.

    Fjármálaráðherra úthlutar tollkvótum vegna innflutnings samkvæmt milliríkja- og alþjóðasamningum að því leyti sem vörur falla ekki undir viðauka IIIA, IIIB, IVA eða IVB við lög þessi.
    Fjármálaráðherra er heimilt að fela nefnd skv. 87. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum að gera tillögu um úthlutun tollkvóta skv. 1. mgr.
    Úthlutun tollkvóta skal, eftir því sem við getur átt, vera í samræmi við samninginn um málsmeðferð við veitingu innflutningsleyfa sem birtur er í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Heimilt er að skipta tollkvótum upp í einingar. Tollkvótum skal úthlutað til ákveðins tíma, allt að einu ári í senn. Berist umsóknir um meiri innflutning en nemur tollkvóta vörunnar skal heimilt að:
     1.      láta hlutkesti ráða úthlutun eða
     2.      miða úthlutun tollkvóta við hlutfall innflutnings viðkomandi umsækjanda miðað við heildarinnflutning allra umsækjenda af viðkomandi vörutegund á næstliðnu ári.
    Endurúthluta má tollkvótum sem ekki eru nýttir innan þess frests sem tilgreindur er við úthlutun kvótans. Heimilt er í stað úthlutunar tollkvóta að veita almenna heimild til innflutnings á þeim tollum sem um tollkvótana gilda.
    Um viðurlög við misnotkun á tollkvóta í því skyni að fá ívilnun í tolli eða sköttum við innflutning á vörum sem ekki falla undir tollkvótann skal fara skv. XXII. kafla. Heimilt er að synja þeim um úthlutun tollkvóta sem gerst hefur sekur um misnotkun.
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein þar sem m.a. komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tollataxtar og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skulu gilda.

V. KAFLI
Tollverð og tollverðsákvörðun.
14. gr.
Tollverð.

    Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 15. gr., að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Kaupanda séu engar takmarkanir settar um ráðstöfun eða notkun varanna, aðrar en takmarkanir sem
                  a.      settar eru eða krafist verður með lögum eða af opinberum stjórnvöldum hér á landi,
                  b.      takmarka þau landfræðilegu mörk þar sem endurselja má vörurnar eða
                  c.      hafa ekki veruleg áhrif á verðmæti varanna.
     2.      Salan eða verðið sé ekki háð einhverjum skilyrðum eða skilmálum sem ekki er hægt að ákvarða verð fyrir með tilliti til þeirra vara sem verið er að virða.
     3.      Enginn hluti ágóða af síðari sölu, ráðstöfun eða notkun varanna af hálfu kaupanda renni beint eða óbeint til seljanda, nema unnt sé að gera viðeigandi leiðréttingar í samræmi við ákvæði 15. gr.
     4.      Kaupandi og seljandi séu óháðir hvor öðrum eða séu þeir hvor öðrum háðir þá sé viðskiptaverðið nothæft í tollalegu tilliti samkvæmt nánari reglum settum skv. 16. gr.
    Samkvæmt lögum þessum skal því aðeins telja aðila, persónur eða lögaðila, háða hvor öðrum að eftirtalin skilyrði séu uppfyllt:
     1.      Þeir séu yfirmenn eða stjórnendur fyrirtækja hvor annars.
     2.      Þeir séu í lagalegum skilningi sameigendur fyrirtækis.
     3.      Þeir séu vinnuveitandi og starfsmaður hans.
     4.      Einhver aðili beint eða óbeint eigi, stjórni eða hafi umráð yfir fimm hundraðshlutum eða meira af atkvæðisrétti eða hlutabréfum hjá þeim báðum.
     5.      Annar þeirra stjórni beint eða óbeint hinum.
     6.      Þriðji aðili stjórni beint eða óbeint báðum.
     7.      Báðir saman stjórni beint eða óbeint þriðja aðila.
     8.      Þeir séu í sömu fjölskyldu.
    Aðilar, persónur eða lögaðilar, sem eru í viðskiptasambandi hvor við annan þannig að annar er einkaumboðsmaður, einkadreifingaraðili eða sérleyfishafi hins aðilans í hvaða mynd sem er, skulu taldir vera háðir hvor öðrum.

15. gr.
Tollverðsákvörðun.

    Við ákvörðun tollverðs samkvæmt ákvæðum 14. gr. skal bæta eftirtöldu við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hinar innfluttu vörur:
     1.      Eftirtöldu, að svo miklu leyti sem það er borið af kaupanda en er ekki innifalið í því verði sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar:
                  a.      Umboðslaunum og miðlaraþóknun, þó ekki kaupumboðslaunum.
                  b.      Gámakostnaði sem í tollalegu tilliti tilheyrir vörunum.
                  c.      Pökkunarkostnaði, bæði fyrir vinnu og efni.
     2.      Viðeigandi hluta af verðmæti eftirtalinna vara og þjónustu, sem látin er beint eða óbeint í té af kaupanda án greiðslu eða á lækkuðu verði, til notkunar í sambandi við framleiðslu og sölu hinna innfluttu vara til útflutnings að svo miklu leyti sem slíkt verðmæti er ekki innifalið í því verði sem raunverulega er greitt eða greiða ber:
                  a.      Efnivara, hluta, parta og þess háttar sem notað hefur verið í hinar innfluttu vörur.
                  b.      Verkfæra, forma, móta og þess háttar sem notað hefur verið við framleiðslu hinna innfluttu vara.
                  c.      Efnivara sem eyðst hafa við framleiðslu hinna innfluttu vara.
                  d.      Verkfræðivinnu, þróunar, iðnlistar, hönnunar, áætlana og uppdrátta sem unnið hefur verið annars staðar en hér á landi og nauðsynlegt er til framleiðslu hinna innfluttu vara.
     3.      Einkaréttar- og leyfisgjöldum, sem tengd eru vörum þeim sem verið er að virða og kaupandi verður beint eða óbeint að greiða, sem skilyrði fyrir sölu þeirra, að svo miklu leyti sem þessi einkaréttar- og leyfisgjöld eru ekki innifalin í því verði sem raunverulega er greitt eða greiða ber. Þetta tekur þó ekki til þess konar gjalda sem greidd eru fyrir framleiðslurétt á vörunni hér á landi.
     4.      Verðmæti sérhvers ágóðahlutar af síðari endursölu, ráðstöfun eða notum hinna innfluttu vara sem rennur beint eða óbeint til seljanda.
    Eftirtalið skal innifalið í tollverði:
     1.      Flutningskostnaður hinna innfluttu vara til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.
     2.      Gjöld fyrir fermingu, affermingu eða meðferð hinna innfluttu vara vegna flutnings þeirra til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.
     3.      Vátryggingarkostnaður.
    Viðbætur við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber skal einungis ákvarða samkvæmt þessari grein á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða.
    Við ákvörðun tollverðs skal engu bætt við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber nema það sé unnt samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

16. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sett nánari reglur um ákvörðun tollverðs er taki mið af samningnum um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti 1994. Reglurnar skulu m.a. tilgreina hvernig tollverð skal ákvarðað í þeim tilvikum sem ekki er hægt að ákvarða tollverð innflutningsvöru skv. 14. gr. og það sem bæta skal við tollverð samkvæmt ákvæðum 15. gr.
    Ráðherra er með sama hætti heimilt að setja reglur um mat á vörum til tollverðs og málsmeðferðarreglur þegar ástæða þykir til að draga í efa sannleiksgildi vörureiknings og annarra þeirra atriða sem um ræðir í 14. gr. og þess sem bæta skal við tollverð samkvæmt ákvæðum 15. gr.

17. gr.
Skipting kostnaðar.

    Kostnaði, gjöldum og öðrum útgjöldum, sbr. 15. gr., sem til verða þegar vörur eru sendar í einu farmskrárnúmeri sem flokkast í mismunandi tollskrárnúmer, skal jafnað hlutfallslega niður á einstakar vörur í sendingu miðað við verð þeirra á innkaupsstað .
    Ef vara er send lengra en til fyrstu tollhafnar, sem unnt hefði verið að afferma hana á, má draga frá flutningsgjaldsauka þann og sendingarkostnað sem sá framhaldsflutningur hefur haft í för með sér, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir kostnaðaraukanum. Þá skal og heimilt að draga frá þann hluta flutningsgjalds sem greiddur er vegna slæmrar aðstöðu við affermingu eða vegna þess að far affermir á fleiri stöðum en einum, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir þeim kostnaðarauka.

18. gr.

    Sé verð vara, sem flokka ber í mismunandi tollskrárnúmer og greiða ber af mismunandi háan toll, tilgreint í einni fjárhæð skal greiða af öllum vörunum þann tollhundraðshluta sem hvílir á þeirri vöru sem ber hæstan toll nema innflytjandi láti tollyfirvöldum í té upplýsingar sem þau meta fullnægjandi og byggja má ákvörðun á um tollverð einstakra vara í sendingu.

19. gr.
Tollafgreiðslugengi.

    Tollafgreiðslugengi skal miða við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands 28. hvers mánaðar. Tollafgreiðslugengi þeirra gjaldmiðla sem Seðlabanki Íslands tekur ekki til opinberrar skráningar skal ákvarðað af tollstjóranum í Reykjavík á sama degi að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.
    Við tollafgreiðslu sendinga í sérhverjum almanaksmánuði skal ákvörðun tollverðs byggð á tollafgreiðslugengi eins og það er ákveðið skv. 1. mgr. á 28. degi undanfarandi mánaðar.
    Ráðherra skal kveða nánar á um ákvörðun tollafgreiðslugengis sem nota skal við umreikning tollverðs vöru eða hluta þess yfir í íslenskar krónur. Jafnframt skal kveðið nánar á um gildistíma, fresti, bráðabirgðatollafgreiðslu, tollafgreiðslu þegar engrar skráningar gengis nýtur við og annað er lýtur að gengisviðmiðun við tollafgreiðslu.

VI. KAFLI
Tollflokkun.
20. gr.
Tollflokkun vöru.

    Inn- og útflytjendur skulu færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar í viðauka I við lög þessi.
    Leiki vafi á um tollflokkun vöru eða óski inn- eða útflytjandi eftir staðfestingu tollstjóra á tollflokkun vöru getur hann leitað eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun vörunnar, sbr. 21. gr.

21. gr.
Bindandi álit um tollflokkun.

    Ef óskað er bindandi álits um tollflokkun vöru skal senda skriflega beiðni þar að lútandi til tollstjórans í Reykjavík. Tollstjórinn tekur ákvörðun um tollflokkun vöru samkvæmt þessari grein sem er bindandi gagnvart fyrirspyrjanda og tollyfirvöldum, nema hún sé afturkölluð af tollstjóranum eða henni breytt eftir kæru til ríkistollanefndar, sbr. 118. gr.
    Tollstjóranum er ekki skylt að verða við beiðni skv. 1. mgr. ef hún reynist augljóslega vera tilefnislaus.
    Með beiðni um bindandi álit skulu fylgja þau gögn sem eru nauðsynleg til þess að unnt sé að ákveða tollflokkun vöru, svo sem teikning, mynd, vörulýsing eða bæklingur. Ef nauðsyn ber til að mati tollstjórans getur hann sett skilyrði um að sýnishorn af vöru sé lagt fram áður en tekin er ákvörðun um tollflokkun.
    Tollstjórinn skal svara beiðni skriflega innan 30 daga frá því að hún berst. Í svari tollstjórans skal í meginatriðum koma fram á hvaða rökum niðurstaða er byggð. Telji tollstjórinn að beiðni hafi ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar eða henni fylgi ekki nauðsynleg gögn til þess að unnt sé að ákveða tollflokkun skal hann tilkynna viðkomandi hvaða upplýsingar eða gögn vanti. Þegar úr því hefur verið bætt skal tollstjórinn svara beiðni innan 30 daga.

VII. KAFLI
Skýrslugjafir.
Aðflutningsskýrsla og önnur tollskjöl.
22. gr.
Skilafrestur aðflutningsskjala.

    Innflytjandi skal láta tollstjóra í té aðflutningsskýrslu og önnur tollskjöl vegna innfluttrar vöru, sbr. 23. og 25. gr., áður en vara er afhent til notkunar innan lands eða sett í tollfrjálsa verslun eða tollfrjálsa forðageymslu. Tollskjöl skulu þó látin tollstjóra í té ekki síðar en sex mánuðum frá komudegi flutningsfars vöru til landsins nema vöru hafi verið ráðstafað í tollvörugeymslu eða á frísvæði.

23. gr.
Rafrænar aðflutningsskýrslur.

    Tollmiðlarar skulu senda viðkomandi tollstjóra með skjalasendingum á milli tölva þær upplýsingar sem láta ber í té við tollafgreiðslu vara (SMT-tollafgreiðsla).
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur tollstjórinn í Reykjavík gefið fyrirmæli um að skriflegar aðflutningsskýrslur skuli látnar tollstjórum í té vegna vara sem þarfnast sérstaks eftirlits.
    Innflytjendur, sem stunda innflutning á vörum í atvinnuskyni, skulu senda viðkomandi tollstjóra þær upplýsingar sem láta ber í té við tollafgreiðslu vara með skjalasendingum á milli tölva (SMT-tollafgreiðsla) eða í gegnum veftengingu við vefsetur tollyfirvalda (VEF- tollafgreiðsla).
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal ráðherra ákveða með reglugerð að þeir sem ná ekki tilteknum lágmarksfjölda innfluttra sendinga á ári geti látið tollyfirvöldum í té skriflegar aðflutningsskýrslur skv. 25. gr.
    Innflytjendum samkvæmt þessari grein er heimilt að veita tollmiðlara umboð til þess að koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart tollyfirvöldum með skjalasendingum á milli tölva (SMT-tollafgreiðslu).
    Tollstjórinn í Reykjavík ákveður form rammaskeytis fyrir aðflutningsskýrslu.
    Ráðherra skal ákveða með reglugerð hvernig tæknilegri útfærslu SMT- og VEF-tollafgreiðslu skuli háttað.

24. gr.
Leyfi til SMT- og VEF-tollafgreiðslu.

    SMT- og VEF-tollafgreiðsla er háð leyfi frá tollstjóra í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili.
    Leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu er veitt þeim aðilum sem um getur í 1. og 3. mgr. 23. gr., enda uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:
     1.      Þeir hafi tilskilin leyfi eða skráningu til viðkomandi atvinnustarfsemi, svo sem leyfi til þess að vera tollmiðlari skv. XI. kafla laga þessara, skráða verslun, sbr. lög nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, iðnaðarleyfi, sbr. iðnaðarlög nr. 42/1978, vinnsluleyfi, sbr. lög nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, eða önnur leyfi sem krafist er.
     2.      Þeir hafi tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína og séu á fyrirtækjaskrá, sbr. lög nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá. Ef um einstaklinga er að ræða sem stunda atvinnurekstur skulu þeir að minnsta kosti hafa framkvæmt þann lágmarksfjölda tollafgreiðslna sem tilgreindur er í reglugerð, sbr. 4. mgr. 23. gr.
     3.      Þeir hafi tilkynnt skattstjóra um starfsemi sína og verið skráðir skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og fyrirmælum settum samkvæmt þeim.
     4.      Þeir séu ekki í vanskilum við ríkissjóð með greiðslu opinberra gjalda eða skatta.
     5.      Tollstjórinn í Reykjavík hafi samþykkt þann hugbúnað sem umsækjandi hyggst nota til samskipta við tollyfirvöld, nema þegar sótt er um VEF-tollafgreiðslu.
     6.      Þeir hafi á að skipa starfsliði með fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum um tollmeðferð vara.

25. gr.
Skriflegar aðflutningsskýrslur.

    Aðrir en þeir sem um getur í 1. og 3. mgr. 23. gr., sbr. 4. mgr. sömu greinar, skulu afhenda viðkomandi tollstjóra skriflegar aðflutningsskýrslur.
    Innflytjendum skv. 1. mgr. er heimilt að veita tollmiðlara umboð til þess að koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart tollyfirvöldum með rafrænum skjalasendingum á milli tölva.
    Tollstjórinn í Reykjavík ákveður form skriflegra aðflutningsskýrslna.
    Innflytjendur geta sjálfir lagt til eyðublöð fyrir aðflutningsskýrslur, enda uppfylli þau skilyrði sem sett eru skv. 3. mgr. um form þeirra.

26. gr.
Einfaldaðar aðflutningsskýrslur.

    Ráðherra getur í reglugerð heimilað einfaldaðar skýrslugjafir vegna póstsendinga og vara sem ekki eru á farmskrá. Ráðherra getur jafnframt heimilað einfaldari skýrslugjafir vegna vara sem njóta tollfríðinda við innflutning skv. 4., 6. og 7. gr.
    Tollstjórinn í Reykjavík ákveður form aðflutningsskýrslna skv. 1. mgr.

27. gr.
Skýrslugjafir ferðamanna og farmanna.

    Ferðamenn og farmenn, sem koma til landsins frá útlöndum, skulu ótilkvaddir gera tollstjóra grein fyrir tollskyldum varningi sem þeir hafa meðferðis. Sama gildir um varning sem er háður sérstökum innflutningsskilyrðum eða óheimilt er að flytja til landsins.
    Ferðamenn og farmenn, sem koma til landsins frá útlöndum eða fara frá landinu til útlanda, skulu ótilkvaddir gera grein fyrir hærri fjárhæð en sem nemur 15.000 evrum, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, sem þeir hafa meðferðis í reiðufé.
    Þar sem tollafgreiðsla ferðamanna fer fram er tollstjóra heimilt að hafa aðskilin tollafgreiðsluhlið, annars vegar fyrir þá sem hafa meðferðis tollskyldan varning eða varning sem háður er sérstökum innflutningsskilyrðum eða óheimilt er að flytja til landsins og hins vegar fyrir þá sem hafa engan slíkan varning meðferðis. Farþegar skulu þá sjálfir velja sér tollafgreiðsluhlið og teljast þeir með vali sínu gefa til kynna hvort þeir hafi meðferðis varning sem þeim ber að gera tollgæslu grein fyrir.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um tollafgreiðslu samkvæmt þessari grein.

28. gr.
Fylgiskjöl með aðflutningsskýrslum.

    Eftirtalin skjöl skulu liggja til grundvallar aðflutningsskýrslu skv. 23. og 25. gr. eftir því sem við á. Þegar um SMT- eða VEF-tollafgreiðslu er að ræða skulu fylgigögn varðveitt með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 29. gr. Viðeigandi fylgiskjöl skulu afhent tollstjóra í þeim tilvikum þegar aðflutningsskýrsla er skrifleg:
     1.      Vörureikningur: Frumrit eða samrit af vörureikningi yfir hina innfluttu vöru eða sendingu. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. er tollstjóra heimilt að taka gildan pro forma reikning eða viðskiptareikning í stað frumrits eða samrits þegar verðmæti vöru er óverulegt eða hún er augljóslega ekki ætluð til sölu hér á landi, til dæmis þegar um persónulega muni er að ræða.
     2.      Farmbréf og önnur staðfestingarskjöl: Farmbréf eða undirfarmbréf, reikningur fyrir flutningskostnað, reikningur fyrir umbúðakostnað, pökkunarlisti, niðurstaða efnagreiningar og önnur skjöl og gögn sem geta verið til staðfestingar þeim atriðum sem tilgreind eru í aðflutningsskýrslu og vörureikningi eða fela í sér upplýsingar um tegund vöru, samsetningu, magn og verð hennar. Krefjast má þess að farmbréf eða undirfarmbréf sé afhent í fleiri en einu eintaki og tollstjóra er heimilt að halda eftir einu eintaki eða fleiri eftir þörfum. Tollstjóra er heimilt að taka afrit af staðfestingarskjölum ef ástæða þykir til.
     3.      Tollverðsskýrsla: Tollverðsskýrsla í þeim tilvikum þegar það verð sem tilgreint er í vöru- eða sölureikningi er ekki viðskiptaverð vöru, sbr. 14. gr. Ráðherra getur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum ákveðið að tollverðsskýrsla sé látin í té með aðflutningsskýrslu í öðrum tilvikum. Tollverðsskýrslu skal innflytjandi gera skriflega á þar til gert eyðublað.
     4.      Upprunasannanir: Frumrit viðeigandi upprunasönnunar í þeim tilvikum þegar sett er fram krafa um fríðindameðferð innfluttrar vöru með vísan til fríverslunarsamnings sem Ísland á aðild að.
     5.      Önnur fylgiskjöl: Önnur gögn sem eiga að liggja til grundvallar aðflutningsskýrslu samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um efni aðflutningsskýrslu og fylgiskjala.

29. gr.
Varðveisla aðflutningsskýrslna og fylgiskjala vegna rafrænnar tollafgreiðslu.

    Innflytjandi, sem er bókhaldsskyldur samkvæmt ákvæðum laga um bókhald, skal varðveita öll tollskjöl í samræmi við ákvæði laga um bókhald og fyrirmæli sett samkvæmt þeim. Þá skal innflytjandi, sem hefur leyfi til SMT-tollafgreiðslu, varðveita öll tölvutæk gögn er varða tollafgreiðslu í sex ár frá tollafgreiðsludegi. Hann skal halda fullkomna skrá eða gagnadagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem hann sendir tollstjóra eða tekur á móti frá tollstjóra. Þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi skal á auðveldan hátt vera unnt að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau og prenta á læsilegan hátt ef þess er óskað. Innflytjandi, sem hefur leyfi til VEF-tollafgreiðslu, skal varðveita útprentun af tollskýrslu og rafrænni tilkynningu tollstjóra um tollafgreiðslu og skuldfærslu aðflutningsgjalda.
    Tollmiðlari skal varðveita öll tölvutæk gögn er varða tollafgreiðslu með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Tollmiðlari skal að auki varðveita afrit af viðeigandi skriflegum gögnum, sbr. 28. gr., sem liggja til grundvallar rafrænni aðflutningsskýrslu í sex ár frá tollafgreiðsludegi.
    Tollstjóri varðveitir öll tollskjöl vegna tollafgreiðslu sendinga sem aðilar, sem ekki eru bókhaldsskyldir, flytja til landsins.

30. gr.
Upplýsingaskylda.

    Innflytjandi skal samkvæmt ákvörðun tollstjóra leggja fram eða veita aðgang að bókhaldi sínu og bókhaldsgögnum, bréfum, samningum og öðrum gögnum er varða innflutning vöru eða sendingar ef nauðsynlegt þykir til þess að unnt sé að ganga úr skugga um hvort verð eða önnur atriði í aðflutningsskýrslu, vörureikningum eða staðfestingargögnum séu eða hafi verið rétt tilgreind. Tollstjóri hefur aðgang að framangreindum gögnum og aðgang að starfsstöðvum tollskyldra aðila og birgðageymslum og heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta.
    Öllum aðilum, bæði tollskyldum og öðrum, er skylt að láta tollstjóra í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er hann fer fram á og snerta innflutning vöru eða sendingar. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða aðra aðila sem hann getur veitt upplýsingar um.
    Viðskiptabönkum, sparisjóðum, greiðslukortafyrirtækjum og öðrum sem annast gjaldeyrisviðskipti er skylt að láta tollyfirvöldum í té allar nauðsynlegar upplýsingar og skýrslur sem þau óska eftir og unnt er að láta þeim í té.

31. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð sett almenn skilyrði sem innflytjendur og aðrir þurfa að uppfylla vegna skýrslugjafar samkvæmt þessum kafla. Þar skal m.a. kveðið á um skilyrði fyrir leyfum til SMT- og VEF-tollafgreiðslu, tryggingar fyrir aðflutningsgjöldum á greiðslufresti, uppgjörstímabil, gjalddaga og skil aðflutningsgjalda, varðveislu gagna sem snerta tollmeðferð og innflutning vara, endurskoðun aðflutningsgjalda, tolleftirlit og önnur atriði eftir því sem nauðsyn ber til.

VIII. KAFLI
Ábyrgð á upplýsingum sem gefnar eru með aðflutningsskýrslu
og öðrum tollskjölum.

32. gr.
Ábyrgð innflytjanda.

    Innflytjandi, sem sendir tollstjóra aðflutningsskýrslu um vöru með rammaskeyti um gagnaflutningsnet vegna SMT- eða VEF-tollafgreiðslu, ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem þar eru veittar, séu réttar. Enn fremur ber hann ábyrgð á að fram komi allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær séu byggðar á viðeigandi fylgiskjölum sem eiga að liggja til grundvallar aðflutningsskýrslu.
    Sá sem undirritar og lætur tollstjóra í té skriflega aðflutningsskýrslu ásamt fylgiskjölum ber ábyrgð á því að þær upplýsingar sem þar koma fram séu réttar. Enn fremur ber hann ábyrgð á að fram komi allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar.

33. gr.
Ábyrgð tollmiðlara.

    Tollmiðlari, sem hefur sent aðflutningsskýrslu til tollstjóra fyrir hönd innflytjanda, ber ábyrgð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum hafi hann vitað eða mátt vita að upplýsingar innflytjanda væru rangar eða ófullnægjandi.
    Tollmiðlara er skylt að fá í hendur öll viðeigandi fylgiskjöl skv. 29. gr. áður en hann sendir tollstjóra rammaskeyti vegna SMT-tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjanda. Tollmiðlari skal að lokinni tollafgreiðslu vöru afhenda bókhaldsskyldum innflytjanda, sbr. 2. mgr. 29. gr., eða tollstjóra í þeim tilvikum þegar innflytjandi er ekki bókhaldsskyldur, sbr. 3. mgr. 29. gr., öll skrifleg gögn skv. 28. gr.
    Tollmiðlara ber skylda til þess að leggja sjálfstætt mat á hvort þau fylgiskjöl sem umbjóðandi hans leggur fram til grundvallar aðflutningsskýrslu fullnægja ákvæðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla. Telji hann svo ekki vera skal hann kalla eftir þeim gögnum sem á vantar eða nýjum gögnum í stað þeirra sem kunna að vera ófullnægjandi. Hann skal því aðeins senda aðflutningsskýrslu til tollstjóra með rammaskeyti í þeim tilvikum þegar fylgiskjöl, sem liggja til grundvallar aðflutningsskýrslu, uppfylla skilyrði laga þessara með ótvíræðum hætti.

IX. KAFLI
Tollmeðferð vöru.
34. gr.
Upphaf tollmeðferðar.

    Vara telst tekin til tollmeðferðar þegar eitthvert eftirtalinna tilvika á við:
     1.      Tollstjóri hefur tekið við aðflutningsskýrslu og öðrum tollskjölum, sem skulu látin í té vegna tollmeðferðar vöru, enda fullnægi þau að öllu leyti skilyrðum laga þessara til þess að unnt sé að heimila afhendingu vöru þegar í stað. Rafræn aðflutningsskýrsla, sem send er við SMT- eða VEF-tollafgreiðslu, telst móttekin hjá tollstjóra við skráningu skýrslunnar í tölvukerfi tollyfirvalda..
     2.      Tollstjóri hefur heimilað afhendingu vöru eða sendingar án eða gegn tryggingu.
     3.      Tollstjóri hefur tilkynnt innflytjanda að vara eða sending verði seld nauðungarsölu eða gert ráðstafanir til þess að selja vöru nauðungarsölu ef ekki næst til innflytjanda til lúkningar aðflutningsgjöldum, sbr. 128. og 129. gr.

35. gr.
Frestun ákvörðunar um tollverð.

    Reynist við tollafgreiðslu nauðsynlegt að fresta lokaákvörðun um tollverð vöru samkvæmt ákvæðum 14.–17. gr. eða önnur atriði sem lög þessi taka til skal innflytjanda engu að síður heimilt að leysa til sín vöruna, að því tilskildu að hann setji fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda sem kunna að verða lögð á vöruna, tollstjóri telji ekki ástæðu til að halda vörunni vegna endanlegrar ákvörðunar um þau atriði sem upplýsingar skortir um eða ágreiningur er um og ákvæði annarra laga séu því ekki til fyrirstöðu.

36. gr.
Bráðabirgðatollafgreiðsla.

    Nú gerir innflytjandi vöru það sennilegt að hann hafi ekki fengið þau gögn sem 28. gr. tekur til, eða þau eru ekki fullnægjandi, og má þá tollstjóri veita heimild til afhendingar vöru gegn því að hann greiði allan kostnað af tollskoðun og setji fjártryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda og afhendi eða leiðrétti gögn, sem misfellur eru á, innan hæfilegs tíma sem tollstjóri tiltekur. Við ákvörðun tryggingar getur tollstjóri lagt allt að 25% álag á áætluð aðflutningsgjöld. Ef vanefndir verða á greiðslu aðflutningsgjalda má tollstjóri ákveða gjöldin og taka fjártryggingu upp í þau.
    Ráðherra setur nánari reglur um bráðabirgðatollafgreiðslu samkvæmt þessari grein.

37. gr.
Neyðarleyfi.

    Heimila má farmflytjendum eða öðrum aðilum, sem geyma ótollafgreiddar vörur, að afhenda á eigin ábyrgð vörusendingar, enda sé afhending þeirra brýn. Handhafi neyðarleyfis er ábyrgur fyrir greiðslu aðflutningsgjalda vegna vörusendingar ef innflytjandi stendur ekki sjálfur í skilum.
    Ráðherra setur nánari reglur um útgáfu neyðarleyfa samkvæmt þessari grein.

X. KAFLI
Æðsta stjórn og skipulag tollyfirvalda.
38. gr.
Æðsta stjórn tollamála.

    Fjármálaráðherra fer með æðstu stjórn tollamála í landinu. Tollstjórar fara með tollamálefni í umboði ráðherra með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum þessum.
    Ráðherra hefur eftirlit með því að tollstjórar ræki skyldur sínar. Hann hefur rétt til þess að fá til athugunar tollskjöl aðila og gögn varðandi þau og krefja tollstjóra skýringa á öllu því er varðar framkvæmd laga þessara.
    Ráðherra skal enn fremur fylgjast með því að ríkistollanefnd ræki skyldur sínar og skal nefndin senda ráðherra árlega skýrslu um störf sín.

39. gr.
Tollumdæmi.

    Landið skiptist í tollumdæmi með sama hætti og stjórnsýsluumdæmi sýslumanna eru mörkuð hverju sinni. Ráðherra getur þó með reglugerð breytt mörkum tollumdæma ef sérstaklega stendur á.

40. gr.
Tollstjórar.

    Tollstjórar eru tollstjórinn í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur og sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum, sbr. lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

41. gr.
Tollhafnir.

    Tollhöfn er staður, höfn eða flugvöllur, þar sem heimilt er að ferma og afferma för og geyma og tollafgreiða vörur úr þeim án sérstakrar heimildar tollyfirvalda.
    Ráðherra ákveður með reglugerð hvar tollhafnir skuli vera. Við þá ákvörðun skal ráðherra taka mið af þörfum atvinnulífs á viðkomandi stöðum. Ráðherra skal um önnur atriði leita umsagnar tollstjóra í viðkomandi tollumdæmi, sbr. 3. mgr.
    Í umsögn tollstjóra skal gerð úttekt á því hvort eftirtalin skilyrði séu uppfyllt:
     1.      Í tollhöfn skal vera fullnægjandi aðstaða til fermingar og affermingar fara.
     2.      Í tollhöfn skal vera fullnægjandi aðstaða til tolleftirlits.
     3.      Í tollhöfn skulu vera fullnægjandi geymsluhús, geymslusvæði og önnur aðstaða til vörslu á ótollafgreiddum vörum.
    Ráðherra getur með sama hætti afturkallað ákvörðun um að tiltekin höfn skuli vera tollhöfn ef ekki er talin þörf á tollhöfn á viðkomandi stað eða skilyrði 3. mgr. eru ekki lengur uppfyllt.
    Við ráðstöfun á hafnarsvæðum, hafnarlóðum og öðrum svæðum sem ætluð eru til uppskipunar eða geymslu á ótollafgreiddum vörum skulu sveitarfélög og hafnarstjórnir hafa samráð við viðkomandi tollstjóra.

42. gr.
Hlutverk tollstjóra.

    Hlutverk tollstjóra í sínu umdæmi er:
     1.      Álagning og innheimta tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum.
     2.      Eftirlit á landamærum með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu og ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu.
     3.      Eftirlit með flutningi og geymslu á ótollafgreiddum varningi innan lands.
     4.      Uppljóstran brota gegn lögum þessum, stöðvun ólögmætrar háttsemi og eftirfylgni mála í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum þessum, lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum.
     5.      Samstarf við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfsemi tollyfirvalda.
     6.      Að veita almennar upplýsingar og leiðbeiningar um tollflokkun vöru, ákvörðun tollverðs, útfyllingu aðflutningsskýrslu, álagningu aðflutningsgjalda, kæruleiðir og hvaðeina sem lýtur að tollmeðferð vöru.
     7.      Önnur verkefni sem honum eru falin með lögum og stjórnvaldsfyrirmælum eða sem leiðir af venju.

43. gr.
Sérstakt hlutverk tollstjórans í Reykjavík.

    Auk þeirra verkefna sem tollstjórum eru falin skv. 42. gr. skal tollstjórinn í Reykjavík annast eftirtalin verkefni sem lúta að samræmingu tollframkvæmdar:
     1.      Þróun og rekstur tölvu- og upplýsingakerfa sem notuð eru af hálfu tollyfirvalda við tollafgreiðslu og tolleftirlit samkvæmt lögum þessum.
     2.      Gerð samskiptareglna fyrir innflytjendur, útflytjendur, farmflytjendur og aðra sem senda tollyfirvöldum upplýsingar með rafrænum hætti vegna tollafgreiðslu vöru.
     3.      Gerð verklagsreglna fyrir tollstjóra varðandi tollframkvæmdina.
     4.      Ákvörðun um form tollskjala og eyðublaða sem notuð eru við tollframkvæmdina og um atriði sem skal tilgreina þar.
     5.      Bindandi ákvarðanir um tollflokkun vöru skv. 21. gr.
     6.      Miðlun upplýsinga til annarra tollstjóra um atriði sem snerta starfsemi tollyfirvalda með einum eða öðrum hætti, þar á meðal miðlun upplýsinga um úrskurði og bindandi álit um tollflokkun vöru, verklagsreglur, samskiptareglur og útgáfu eyðublaða.
     7.      Aðstoð og stuðningur við aðra tollstjóra í störfum á sviði tollamála, þar á meðal við túlkun löggjafar og stjórnvaldsfyrirmæla og skipulagningu einstakra verkefna.
     8.      Tollendurskoðun á landsvísu.
     9.      Alþjóðasamskipti á sviði tollamála að svo miklu leyti sem ráðherra ákveður.
     10.      Skipulag áhættugreiningar á sviði tollamála á landsvísu og gerð eftirlitsáætlunar á grundvelli hennar fyrir landið allt.
     11.      Stjórn einstakra verkefna tollstjóra sem krefjast viðamikils undirbúnings eða þátttöku starfsmanna tollstjóra úr fleiri en einu umdæmi að fengnu samþykki ráðherra. Tollstjóri skal tilkynna hlutaðeigandi tollstjóra eða tollstjórum ákvörðun sína varðandi stjórn verkefnis með hæfilegum fyrirvara.
     12.      Starfræksla Tollskóla ríkisins sem sér um menntun tollstarfsmanna og annarra eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum eða reglugerðum.

44. gr.
Ríkistollanefnd.

    Ríkistollanefnd skal vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum sem til hennar er skotið um ákvörðun tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu, tollverð, tollflokkun og annað sem lög þessi mæla fyrir um.
    Ráðherra skipar ríkistollanefnd. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og þremur til vara til fjögurra ára í senn. Skal einn þeirra vera formaður og skal hann fullnægja sömu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á tollamálum. Við skipun í nefndina skal þess gætt að nefndarmenn séu óháðir tollyfirvöldum og hagsmunaaðilum.
    Um kærur til ríkistollanefndar fer eftir ákvæðum 118. gr.

45. gr.
Samvinna tollstjóra við önnur stjórnvöld og stofnanir.

    Tollstjóri skal aðstoða lögreglu og ákæruvald við störf þeirra vegna brota á lögum þessum.
    Tollyfirvöld og önnur stjórnvöld og stofnanir skulu hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast tollheimtu og tolleftirliti, svo sem upplýsingagjöf og forvarnir.

46. gr.
Veiting starfa hjá tollyfirvöldum.

    Ráðherra skipar tollstjórann í Reykjavík til fimm ára í senn og skal hann fullnægja sömu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti.
    Tollstjóri skipar tollverði til fimm ára í senn. Tollstjóri ræður aðra starfsmenn við embætti sitt. Hver sá sem skipaður er til starfa sem tollvörður skal hafa lokið prófi frá Tollskóla ríkisins eða hlotið sambærilega menntun. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsheiti tollvarða.
    Tollstjóra er heimilt að setja mann tímabundið til starfa sem tollvörð vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa tollvarða. Jafnframt er tollstjóra heimilt að setja mann tímabundið til starfa sem tollvörð meðan tekin er ákvörðun um hvort rétt sé að skipa tollvörð að fullu skv. 3. mgr. eða meðan hann stundar nám við tollskólann.

XI. KAFLI
Tollmiðlarar.
47. gr.
Starfsemi tollmiðlara.

    Tollmiðlara er heimilt að koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda og hafa með höndum eftirtalda þjónustu í tengslum við tollafgreiðslu vöru:
     1.      Ráðgjöf við gerð tollskjala, svo sem tollflokkun og útreikning aðflutningsgjalda.
     2.      Tollskýrslugerð vegna inn- og útflutnings.
     3.      Beiðni um tollafgreiðslu vöru.
     4.      Greiðslu aðflutningsgjalda fyrir hönd innflytjanda.

48. gr.
Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

    Ráðherra veitir starfsleyfi til tollmiðlunar að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. þessarar greinar.
    Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eru sem hér segir:
     1.      Umsækjandi skal vera lögaðili.
     2.      Stjórnarmenn lögaðilans skulu vera a.m.k. tveir. Þeir skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð, vera fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Þá mega stjórnarmenn ekki hafa gengist undir sátt eða hlotið dóm vegna brota á tollalögum eða hlotið dóm fyrir fíkniefnabrot. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanþegnir búsetuskilyrðinu, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í ríki sem er aðili að öðrum hvorum áðurnefndra samninga. Ráðherra er heimilt að veita þeim sem eru búsettir í öðrum ríkjum sömu undanþágu.
     3.      Daglegur stjórnandi tollmiðlunar skal fullnægja skilyrðum 2. tölul.
     4.      Starfsmenn tollmiðlara, sem annast gerð tollskýrslna og samskipti við tollyfirvöld vegna þeirra, skulu hafa sótt sérstakt námskeið hjá Tollskóla ríkisins til þess að öðlast fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum sem gilda um tollmeðferð vara, þar á meðal tollflokkun, tollskýrslugerð, meðferð ótollafgreiddra vara, ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda og upplýsingum sem veittar eru tollyfirvöldum, og reglum um greiðslufrest aðflutningsgjalda.
     5.      Umsækjandi skal sýna fram á að stjórnun, innra eftirlit, bókhald og varsla gagna vegna starfseminnar verði með traustum hætti.
     6.      Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg.
    Ráðherra skal halda skrá yfir tollmiðlara. Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja tollmiðlun, kalla sig tollmiðlara eða með öðrum hætti gefa til kynna að þeir hafi hlotið viðurkenningu ráðherra samkvæmt þessari grein.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi tollmiðlun ekki veitt þjónustu sem henni er heimilt samkvæmt lögum þessum, samfellt í tólf mánuði.

49. gr.
Skyldur tollmiðlara.

    Starfsmenn tollmiðlara skulu rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og halda lög og reglur sem lúta að starfi þeirra.
    Verði tollmiðlari þess var að umbjóðandi hans leggi vísvitandi fyrir hann röng eða ófullnægjandi gögn skal hann þegar í stað tilkynna um það til tollstjóra.

50. gr.
Eftirlit með tollmiðlurum.

    Tollmiðlarar lúta eftirliti tollstjórans í Reykjavík.
    Tollstjóranum í Reykjavík ber að tilkynna ráðherra um ætluð brot tollmiðlara á lögum þessum eða öðrum lögum sem varða tollmeðferð vöru.
    Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík afturkallað starfsleyfi tollmiðlara uppfylli hann ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

XII. KAFLI
För í utanlandsferðum, skýrslugjafir farmflytjenda, ferming, afferming o.fl.
51. gr.
Tilkynning um komu og brottför fara í utanlandsferðum.

    Stjórnanda fars ber að tilkynna tollstjóra komu fars inn á tollsvæði ríkisins og brottför með hæfilegum fyrirvara.
    Flugumferðarstjórn skal veita tollstjóra upplýsingar um komu og brottför flugfara í utanlandsferðum svo fljótt sem við verður komið.
    Landhelgisgæslan skal veita tollstjóra upplýsingar um komu og brottför skipa í utanlandsferðum svo fljótt sem við verður komið.
    Starfsmenn hafna og skipaðir leiðsögumenn svo og starfsmenn flugvalla skulu veita tollstjóra allar nauðsynlegar upplýsingar um ferðir skipa og flugfara.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um tilkynningar samkvæmt þessari grein.

52. gr.
Fyrsta og síðasta viðkoma í tollhöfn.

    Fari er skylt að að hafa fyrstu og síðustu viðkomu hér á landi í tollhöfn. Skal ferming eða afferming fars fara þar fram og mönnum hleypt þar frá borði eða teknir um borð.

53. gr.
Undantekningar.

    Þegar sérstaklega stendur á getur tollstjóri veitt leyfi til þess að far hafi fyrstu eða síðustu viðkomu hér á landi utan tollhafnar. Þeim sem slíkt leyfi fær er skylt að hlíta þeim skilyrðum sem tollstjóri setur fyrir undanþágunni, m.a. varðandi fermingu og affermingu fars, og greiða allan kostnað sem af henni leiðir.
    Fari, sem statt er í neyð eða þarf að leita hafnar vegna veikinda eða slyss áhafnar eða farþega, er ekki skylt að hafa fyrstu viðkomu í tollhöfn hér á landi en stjórnandi farsins skal tilkynna tollstjóra komu fars svo fljótt sem verða má og ástæður þess að leitað var hafnar í skyndi.
    Fiskiskipi sem siglir með afla til útlanda beint af veiðum er ekki skylt að hafa viðkomu í tollhöfn við upphaf ferðar. Skipstjóra er skylt að gefa tollstjóra upplýsingar, með hæfilegum fyrirvara, um fyrirhugaða siglingu með afla til útlanda.

54. gr.
Afgreiðslustaður fars.

    Óheimilt er að leggja aðkomuskipi að bryggju eða öðru hafnarmannvirki fyrr en að fengnu leyfi tollstjóra sem einnig getur ákveðið í samráði við hafnaryfirvöld og skipstjóra hvar í höfn skipið skuli leggjast. Flugvélar skulu afgreiddar þar á flugvelli sem tollstjóri ákveður í samráði við flugvallarstjóra.

55. gr.
Fyrirmæli um að skip megi eingöngu hafast við í tollhöfnum.

    Tollstjóra er heimilt, ef ástæða þykir til, að mæla svo fyrir að skip megi ekki liggja eða hafast við innan tollsvæðis ríkisins nema í tollhöfnum.

56. gr.
Skylda stjórnanda fars til að aðstoða tollverði.

    Stjórnanda fars ber að veita tollstjóra allar upplýsingar sem þörf er á um farið, farm þess og farþega. Hann skal vísa á alla innganga í farmrými svo og geymslur og aðra staði þar sem geyma má vörur og honum er eða ætti að vera kunnugt um.
    Ef tollvörður óskar að komast um borð eða frá borði er stjórnanda fars skylt að veita til þess nauðsynlega aðstoð.

57. gr.
Meðferð forða.

    Aldrei má gefa eða selja í land af birgðum eða forða fars nema aðflutningsgjöld séu greidd og öðrum lagafyrirmælum fullnægt um innflutning.
    Stjórnandi fars sem er í millilandaferðum skal við komu inn á tollsvæði ríkisins hafa í sinni vörslu og læsa inni forða og birgðir sem eru umfram hæfilegan forða sem heimilt er að hafa til frjálsra afnota í farinu. Á sama hátt skal farið með tollskyldan varning áhafnar sem ekki á að flytja í land og tollafgreiða. Stjórnandi fars ber ábyrgð á því að allt fari undir lás sem þar skal vera og ekkert hverfi undan lás.
    Verði far á leið til útlanda að snúa við til landsins ber stjórnanda þess, ef innsigli skv. 169. gr. hafa verið rofin eða ótollafgreiddur forði tekinn í notkun, að gæta þess að hvorki farþegar né áhöfn hverfi brott frá farinu eða af afgreiðslustað fyrr en tollstjóri hefur gefið leyfi til þess.
    Stjórnandi fars skal gera skrá yfir vörur skv. 1. mgr. við komu fars inn á tollsvæði ríkisins. Stjórnandi fars skal afhenda tollstjóra skrána við komu til landsins.
    Tollstjóra er heimilt að undanþiggja skemmtiferðaskip, sem koma hingað til lands, ákvæðum 2. mgr. og 4. mgr.
    

58. gr.
Farmskrá.

    Allar vörur, sem far flytur frá útlöndum eða til útlanda, skulu færðar á farmskrá. Þó er ekki áskilið að upplýsingar um vörur í forða fars og farangur farþega og áhafnar séu skráðar á farmskrá. Óheimilt er að flytja úr fari ótollafgreidda vöru sem ekki er á farmskrá, nema henni sé samtímis framvísað við tollgæslu og leyfi fengið fyrir flutningi hennar úr farinu.
    Tilgreina skal í farmskrá tollhöfn sem er ákvörðunarstaður vöru.
    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um farmskrá samkvæmt þessari grein, m.a. þær vörur sem færðar skulu í skrána, breytingar og leiðréttingar skrárinnar og ábyrgð á þeim upplýsingum sem þar koma fram.

59. gr.
Hættuleg efni.

    Ráðherra er heimilt að mæla svo fyrir í reglugerð að tilteknar hættulegar vörur, svo sem eiturefni og aðrar slíkar vörur, skuli tollafgreiddar á einum stað fyrir allt landið.

60. gr.
Geymsla bannvöru.

    Ef vara er flutt til landsins andstætt fyrirmælum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla, sem banna innflutning hennar, skal tollstjóri mæla fyrir um hvar og með hvaða hætti hún skuli geymd þar til ákvörðun hefur verið tekin um frekari meðhöndlun hennar af þar til bærum stjórnvöldum, svo sem um förgun eða flutning úr landi.

61. gr.
Aðkomuafgreiðsla fars.

    Afferming fars er háð leyfi tollstjóra. Slíkt leyfi skal ekki veitt fyrr en aðkomuskýrsla, farmskrá og önnur þau skjöl sem lög og reglur áskilja hafa verið afhent tollstjóra.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er afferming fars heimil án leyfis tollstjóra ef neyð steðjar að og afferming er nauðsynleg til þess að takmarka tjón á farmi fars. Stjórnanda fars ber að tilkynna tollstjóra um affermingu strax og auðið er og tilgreina ástæður hennar.

62. gr.
Skrá yfir affermdar vörur.

    Að lokinni affermingu í hverri höfn er stjórnanda fars skylt að láta tollstjóra í té nákvæma skrá yfir vörur sem affermdar hafa verið í höfninni. Sé talning ekki framkvæmd getur tollstjóri látið gera hana á kostnað farmflytjanda.

63. gr.
Skrá um vöntun og skemmdir á vörum.

    Að lokinni affermingu í hverri höfn ber stjórnanda fars að afhenda tollstjóra skrá yfir vöntun og skemmdir á vörum sem komið hafa í ljós við afferminguna. Tollstjóri getur látið fara fram rannsókn á vöntun og skemmdum vegna eftirlits með vörunni eða ákvörðun gjalda af henni.

64. gr.
Brottfararafgreiðsla fars.

    Ferming fars er háð leyfi tollstjóra að undanskildum afla sem tekinn er um borð í skip á veiðisvæðum.
    Sé vara flutt í far án samþykkis tollstjóra ber stjórnanda fars að afferma það aftur ef tollstjóri telur það nauðsynlegt vegna eftirlits með vörunni.

65. gr.
Far frá innanlandshöfn.

    Tollstjóri getur ákveðið að með far sem kemur frá innanlandshöfnum eða af veiðum skuli farið sem aðkomufar að því er tolleftirlit varðar.

66. gr.
Aðstaða til tolleftirlits í flugstöð eða höfn.

    Eigendum eða umráðamönnum fara, sem annast reglubundnar ferðir milli landa, er skylt að leggja tollstjóra til án endurgjalds nægilegt húsrými eða aðra aðstöðu til tolleftirlits með farþegum, áhöfnum og vörum, sé þess krafist.

67. gr.
Úrræði tollstjóra sinni stjórnandi fars ekki skyldum sínum.

    Hafi farmskrá og önnur gögn samkvæmt ákvæðum þessa kafla ekki verið afhent tollstjóra er honum heimilt að taka í sína vörslu þjóðernisskírteini og mælibréf skips eða loftferðaskírteini flugfars svo og áhafnaskrá og önnur viðeigandi skjöl. Tollstjóra ber að skila stjórnanda fars skjölum þessum þegar viðeigandi gögn hafa verið afhent tollstjóra.

68. gr.
Herskip og herflugvélar.

    Ákvæði þessa kafla taka ekki til erlendra herskipa og herflugvéla sem leita hér hafnar. Stjórnendum þeirra er þó skylt að gera tollstjóra fullnægjandi grein fyrir að um herfar sé að ræða og má krefjast þess að slík greinargerð sé gefin skriflega.
    Með þeim undantekningum sem leiðir af varnarsamningi Íslands og Bandaríkja Norður- Ameríku eru för skv. 1. mgr. undanþegin innsiglun vista, birgða og annars varnings um borð.
    Áður en tollskyldar vörur eru fluttar úr fari sem um ræðir í 1. mgr. ber stjórnanda fars að afhenda tollstjóra skrá yfir vörurnar. Tollstjóri hefur sömu heimildir til hvers konar eftirlits með þeim vörum og öðrum varningi sem fluttur er til landsins.
    

XIII. KAFLI
Meðferð og varsla ótollafgreiddrar vöru.
69. gr.
Geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur.

    Heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur á eftirtöldum geymslusvæðum:
     1.      Afgreiðslugeymslum farmflytjenda og viðurkenndra tollmiðlara, sbr. 88.–90. gr.
     2.      Tollvörugeymslum, sbr. 91.–95. gr.
     3.      Tollfrjálsum forðageymslum, sbr. 96.–100. gr.
     4.      Tollfrjálsum verslunum og tollfrjálsum birgðageymslum þeirra, sbr. 101.–104. gr.
     5.      Frísvæði, sbr. 105.–108. gr.
    Óheimilt að geyma ótollafgreiddar vörur utan þeirra geymslusvæða sem nefnd eru í 1. mgr.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er tollstjóra heimilt, þegar sérstakar ástæður mæla með því, að veita leyfi til geymslu ótollafgreiddrar vöru utan geymslusvæða skv. 1. mgr. Leyfi skal veitt með skriflegum eða rafrænum hætti. Tollstjóri getur bundið leyfi þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg. Leyfishafi skal greiða allan kostnað sem hlýst af nauðsynlegu eftirliti með vörunni.
    Tollstjóra er heimilt að taka ótollafgreiddar vörur í sínar vörslur á kostnað farmflytjanda eða innflytjanda til geymslu eða tollafgreiðslu ef nauðsyn krefur.

70. gr.
Geymslutími.

    Vörur, sem settar hafa verið í afgreiðslugeymslu skv. 1. tölul. 69. gr., skal tollafgreiða innan sex mánaða frá komu flutningsfars vöru til landsins nema tollstjóri hafi veitt leyfi til flutnings þeirra í tollvörugeymslu, tollfrjálsa forðageymslu, tollfrjálsa verslun eða á frísvæði. Ef sérstaklega stendur á getur tollstjóri heimilað, að fengnu samþykki leyfishafa, að vörur skuli tollafgreiða innan 18 mánaða frá komu flutningsfars til landsins.
    Heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur á geymslusvæðum skv. 2.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr. án tímatakmarkana.

71. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um meðferð og vörslu ótollafgreiddra vara samkvæmt þessum kafla.

72. gr.
Athafnasvæði og húsnæði til geymslu ótollafgreiddra vara.

    Geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skal vera afmarkað rými, hús eða afgirt svæði eftir eðli vörunnar og undir lás leyfishafa. Skal það vera að öllu leyti með þeim hætti að það henti til tryggrar vörslu þeirra vara sem þar eiga að vera.
    Tollstjóri skal viðurkenna athafnasvæði og húsnæði sem ætlað er til geymslu ótollafgreiddra vara og eru breytingar á því óheimilar nema að fengnu leyfi hans.
    Leyfishafi geymslusvæðis ábyrgist að geymslusvæðið uppfylli á hverjum tíma þau skilyrði sem sett eru um ásigkomulag þess.
    Ef geymslusvæði er ekki í fullkomnu ásigkomulagi og leyfishafi bætir ekki úr því innan þess frests sem tollstjóri tiltekur getur tollstjóri látið bæta úr ágöllum á kostnað leyfishafa eða svipt hann rétti til þess að nota húsnæðið eða svæðið.

Meðferð vara á geymslusvæðum.


73. gr.

    Einkaneysla, afnot eða sýning á vörum sem fluttar hafa verið á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur er óheimil nema annað sé tekið fram í lögum þessum.
    Iðnaður og aðvinnsla á vörum er óheimil á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur nema annað sé tekið fram í lögum þessum.

74. gr.
Hættuleg efni.

    Tollstjóri getur sett sérstök skilyrði fyrir geymslu hættulegra efna á geymslusvæðum, t.d. um eftirlit, geymslustað eða meðferð þeirra að öðru leyti, eða bannað geymslu þeirra á geymslusvæðum ef nauðsyn ber til.

Ábyrgð vörsluhafa.


75. gr.

    Farmflytjendur og leyfishafar geymslusvæða skv. 69. gr. bera ábyrgð á að geymsla og flutningur ótollafgreiddrar vöru sé í samræmi við ákvæði þessa kafla.

76. gr.
Skráning vöru inn á geymslusvæði.

    Við flutning vara á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 2.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr. skal leyfishafi skrá þær á nafn innflytjanda sendingar og tilgreina heiti og tegund vara í sendingu ásamt magni, þyngd og verðmæti þeirra. Leyfishafi skal jafnframt skrá númer sendingar.
    Aðflutningsgjöld af sendingu miðast við það vörumagn sem tilgreint er samkvæmt ákvæðum 1. mgr., sbr. þó ákvæði 87. gr. um umframmagn vöru.

77. gr.
Afhending vöru út af geymslusvæði til notkunar innan lands.

    Þeim sem hafa ótollafgreiddar vörur í sinni vörslu til flutnings eða geymslu er óheimilt að láta þær af hendi án leyfis tollstjóra. Ákvæði þetta gildir hvorki um vörur í tollfrjálsum forðageymslum né um vörur sem seldar eru úr tollfrjálsum verslunum.

78. gr.
Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda.

    Farmflytjendur, leyfishafar geymslusvæða skv. 73. gr. og eftir atvikum umboðsmenn erlendra aðila, sem flytja vörur hingað til lands, ábyrgjast greiðslu á aðflutningsgjöldum af vörum sem þeir hafa afhent eða tekið í notkun án þess að gætt hafi verið ákvæða laga þessara.
    Um áætlun aðflutningsgjalda í þeim tilvikum sem um ræðir í 1. mgr. fer eftir ákvæðum 115. gr.
    Gera má fjárnám í eignum þeirra sem bera ábyrgð á greiðslu gjalda skv. 1. mgr. fyrir aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum og kostnaði án undangengins dóms eða dómsáttar.

79. gr.
Afhending vöru úr fari eða afgreiðslugeymslu.

    Áður en vara er flutt úr fari eða afgreiðslugeymslu í tollvörugeymslu, tollfrjálsa forðageymslu, tollfrjálsa verslun eða á frísvæði, sbr. 2.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr., skal leyfishafi tilkynna tollstjóra í því tollumdæmi þar sem geymslusvæðið er um fyrirhugaðan flutning. Sama gildir þegar vara er afhent úr vörslu farmflytjanda í afgreiðslugeymslu tollmiðlara eða annars farmflytjanda. Tollstjóri skal lýsa því yfir hvort flutningur sé heimill eða hvort varan skuli kyrrsett til frekari skoðunar án tafar en þó eigi síðar en 24 klukkustundum eftir að tilkynning berst honum með sannanlegum hætti.
    Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um vörur sem fluttar eru í tollfrjálsa forðageymslu úr birgðaforða fars.

80. gr.
Flutningur ótollafgreiddrar vöru milli geymslusvæða.

    Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur á milli geymslusvæða skv. 2.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr. án sérstaks leyfis tollstjóra. Vörsluhafi skal tilkynna tollstjóra um flutning vöru áður en flutningur á sér stað.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt að flytja vöru úr tollfrjálsri forðageymslu eða tollfrjálsri verslun á önnur geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur nema að fengnu sérstöku leyfi tollstjóra.

81. gr.
Yfirfærsla ábyrgðar vörsluhafa.

    Flutningur ótollafgreiddrar vöru á milli geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur, sbr. 82. og 83. gr., hefur í för með sér yfirfærslu ábyrgðar frá einum vörsluhafa til annars þegar leyfishafi, sem tekur við vöru, staðfestir móttöku hennar.
    Til sönnunar á yfirfærslu vörsluábyrgðar samkvæmt þessari grein skal farið eftir reglum 85. og 86. gr. eftir því sem við á.

82. gr.
Geymsluband.

    Við flutning á ótollafgreiddum vörum á milli geymslusvæða, sem ekki eru á ábyrgð sama leyfishafa, skal farið eftir eftirfarandi formreglum um flutning er kallast geymsluband: Skal leyfishafi geymslusvæðis á sendingarstað gefa út fylgibréf með vörunni á eyðublað sem tollstjórinn í Reykjavík lætur útbúa. Fylgibréfið skal vera í þríriti. Leyfishafi geymslusvæðis sem afhendir ótollafgreidda vöru til leyfishafa geymslusvæðis skv. 2. og 5. tölul. 1. mgr. 69. gr. skal halda eftir einu eintaki fylgibréfsins árituðu af viðkomandi leyfishafa geymslusvæðis á ákvörðunarstað um móttöku vöru til flutnings. Annað eintak tilheyrir leyfishafa þess geymslusvæðis sem tekur á móti ótollafgreiddri vöru til geymslu. Þriðja eintakið skal sent tollstjóra á sendingarstað með áritun um að flutningi sé lokið.
    Áritað eintak leyfishafa geymslusvæðis sem afhendir ótollafgreidda vöru er sönnun þess að vörsluábyrgð hans sé lokið.
    Vara á geymslubandi skal afhent á nýtt geymslusvæði eigi síðar en innan 24 tíma frá því að hún var flutt af fyrra geymslusvæði.
    Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að í stað fylgibréfs og áritunar á það skv. 1. og 2. mgr. komi rafrænar tilkynningar.

83. gr.
Tollband.

    Við flutning á ótollafgreiddum vörum í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli skal farið eftir eftirfarandi formreglum um flutning er kallast tollband: Tollstjóri á sendingarstað skal gefa út fylgibréf (tollseðil) með vörunni til ákvörðunarstaðar. Fylgibréfið skal vera í tvíriti. Eitt eintak tilheyrir leyfishafa geymslusvæðis sem afhendir vöru til flutnings til áðurnefndra staða. Annað eintak tilheyrir tollstjóra á ákvörðunarstað. Bæði eintökin skulu árituð af tollstjóra um að vara hafi verið afhent til flutnings. Þau skulu einnig árituð af tollstjóra þegar vara er afhent á ákvörðunarstað.
    Eintak fylgibréfs, sem hefur verið áritað af tollstjóra, er sönnun leyfishafa geymslusvæðis um að vörsluábyrgð hans sé lokið.
    Vara á tollbandi skal afhent á nýtt geymslusvæði eigi síðar en innan 24 tíma frá því að hún var flutt af fyrra geymslusvæði.
    Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að í stað fylgibréfs og áritunar á það skv. 1. og 2. mgr. komi rafrænar tilkynningar.

Vöntun og umframbirgðir.
84. gr.
Vörutalning.

    Tollstjóri getur hvenær sem er gert vörutalningu á geymslusvæðum.
    Leyfishafi geymslusvæðis skal gæta þess að meðferð og varsla vara á geymslusvæði sé jafnan með þeim hætti að aðgengilegt sé að framkvæma þar vörutalningu. Er hann skyldur til að gefa tollstjóra hverjar þær upplýsingar sem óskað er eftir um vörur á geymslusvæðinu og veita hvers konar aðstoð við eftirlitsstörf tollstjóra.
    Leyfishafi skal hafa ábyrgðarmann viðstaddan vörutalningu.

85. gr.
Sýnileg vöntun.

    Tollstjóri skal lækka, fella niður eða endurgreiða toll ef fram kemur sýnileg vöntun í vörusendingu, í heild eða að hluta, við affermingu fars. Vöruvöntun telst sýnileg komi vörusending ekki fram við affermingu eða ef ljóst er af ytri umbúðum að um vöntun er að ræða.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls skv. 1. mgr. Hann getur m.a. kveðið á um með hvaða hætti skuli færa sönnur á vöntun í vörusendingu og fresti til þess að tilkynna tollstjóra um vöntun í vörusendingu.

86. gr.
Leynd vöntun.

    Komi fram vöntun í vörusendingu, sem ekki var sýnileg við affermingu fars, í heild eða að hluta, sem sett er á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 1. mgr. 69. gr. eða geymd er samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 69. gr. er leyfishafa skylt að greiða toll og önnur aðflutningsgjöld af því vörumagni sem skráð er skv. 76. gr., að viðbættu 20% álagi á toll og önnur aðflutningsgjöld, nema leyfishafi geti fært fullnægjandi sannanir fyrir því að vöntunin sé komin til áður en sendingin var flutt inn á tollsvæði ríkisins.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls skv. 1. mgr. Hann getur m.a. kveðið á um með hvaða hætti skal færa sönnur á vöntun í vörusendingu og fresti til þess að tilkynna tollstjóra um vöntun í vörusendingu.

87. gr.
Umframbirgðir.

    Leyfishafi geymslusvæðis skal skrá allar umframbirgðir á geymslusvæði samkvæmt ákvæði 76. gr. um leið og hann verður þeirra var. Leyfishafi skal tilkynna tollstjóra um allar skráningar samkvæmt þessari grein.
    Komi fram, við vörutalningu tollstjóra á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur, vörumagn umfram það magn sem skráð er inn á hlutaðeigandi geymslusvæði skv. 76. gr. er leyfishafa geymslusvæðis skylt að greiða toll af því vörumagni þegar þess verður vart.

Afgreiðslugeymslur farmflytjenda og tollmiðlara.
88. gr.
Starfsleyfi.

    Að uppfylltum skilyrðum 1.–3. og 5.–7. tölul. 1. mgr. 91. gr. getur tollstjórinn í Reykjavík heimilað farmflytjendum, sem flytja vörur til og frá útlöndum eða ótollafgreiddar vörur á milli tollumdæma innan lands, að reka afgreiðslugeymslur fyrir ótollafgreiddar vörur. Tollstjóranum í Reykjavík er heimilt að veita tollmiðlurum leyfi til reksturs afgreiðslugeymslu að uppfylltum sömu skilyrðum.
    Þeir aðilar sem um getur í 1. mgr. og ekki reka afgreiðslugeymslur í eigin nafni skulu eiga nægan aðgang að geymslum sem reknar eru á grundvelli leyfis skv. 1. mgr.
    Tollstjórinn í Reykjavík skal halda skrá yfir leyfishafa skv. 1. mgr. Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja afgreiðslugeymslu.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt úr gildi hafi leyfishafi ekki veitt þjónustu sem honum er heimilt samkvæmt lögum þessum samfellt í tólf mánuði.

89. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

    Tollstjórinn í Reykjavík getur afturkallað starfsleyfi skv. 88. gr. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

90. gr.
Vörur sem heimilt er að flytja í afgreiðslugeymslu.

    Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur í afgreiðslugeymslu úr fari eða milli afgreiðslugeymslna. Vörur sem háðar eru innflutningsleyfum er heimilt að flytja í afgreiðslugeymslu, enda þótt leyfi liggi ekki fyrir. Tollafgreiðsla vöru er háð því að innflutningsleyfi vegna hennar liggi fyrir.

Tollvörugeymslur.
91. gr.
Skilyrði starfsleyfis.

    Að fenginni skriflegri umsókn getur ráðherra veitt leyfi til reksturs tollvörugeymslu fyrir ótollafgreiddar vörur í tollhöfn. Leyfi skal veitt þeim einum sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu, en leyfishöfum sjálfum er óheimilt að geyma þar vörur eða stunda þar aðvinnslu á vörum, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eru að öðru leyti sem hér segir:
     1.      Umsækjandi skal vera lögaðili.
     2.      Stjórnarmenn lögaðilans skulu vera a.m.k. tveir. Þeir skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð, vera fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Þá mega stjórnarmenn ekki hafa hlotið dóm vegna brota á tollalögum fyrir fíkniefnabrot. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanþegnir búsetuskilyrðinu, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í ríki sem er aðili að öðrum hvorum áðurnefndra samninga. Ráðherra er heimilt að veita þeim sem eru búsettir í öðrum ríkjum sömu undanþágu.
     3.      Daglegur stjórnandi geymslusvæðis skal fullnægja skilyrðum 2. tölul.
     4.      Leyfishafi skal setja tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda sem fyrirtækið kann að verða ábyrgt fyrir vegna starfseminnar. Við ákvörðun á fjárhæð tryggingarinnar skal m.a. höfð hliðsjón af umfangi starfseminnar og gjöldum af þeim vörum sem ætla má að geymdar verði í geymslunni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skulu sett í reglugerð.
     5.      Geymslusvæði skal hafa hlotið viðurkenningu tollstjóra skv. 2. mgr. 72. gr. og liggja vel við affermingu og eftirliti. Upplýsingar um staðsetningu geymslusvæðis og mannvirki tengd því skulu liggja fyrir. Gengið skal þannig frá geymslum að þær verði auðveldlega settar undir lás tollgæslunnar ef nauðsyn ber til vegna tolleftirlits.
     6.      Leyfishafa geymslusvæðis er skylt að láta tollstjóra í té án endurgjalds fullnægjandi aðstöðu á geymslusvæðinu til tolleftirlits og rannsóknar á vörum og enn fremur einföld áhöld og tæki sem nauðsynleg eru til slíks eftirlits að mati tollstjóra.
     7.      Vél- og hugbúnaður fyrir birgðabókhald skal þannig úr garði gerður að unnt sé á hverjum tíma að staðreyna viðtökudag sendingar, magn í sendingu, staðsetningu hennar, meðferð og ráðstöfun. Jafnframt skal tryggt að tollstjóri eigi ætíð aðgang að birgðabókhaldi geymslusvæðis. Vél- og hugbúnaður skal samþykktur af tollstjóranum í Reykjavík. Honum er heimilt að gera að skilyrði að tollyfirvöld hafi beinlínuaðgang að upplýsingum úr birgðabókhaldi.
     8.      Leyfishafi skal hafa á að skipa starfsfólki sem hefur fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum um meðferð ótollafgreiddra vara. Sýnt skal fram á að skjalagerð vegna tollmeðferðar, stjórnun, innra eftirlit, bókhald og varsla gagna starfseminnar verði með traustum hætti.
     9.      Hagkvæmniútreikningur vegna reksturs geymslunnar skal liggja fyrir.
    Ráðherra skal halda skrá yfir leyfishafa samkvæmt þessari grein. Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja tollvörugeymslu.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi leyfishafi ekki veitt þjónustu sem honum er heimilt samkvæmt lögum þessum samfellt í tólf mánuði.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til reksturs geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur.

92. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

    Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík afturkallað starfsleyfi skv. 91. gr. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

93. gr.
Vörur sem heimilt er að flytja í tollvörugeymslu.

    Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur í tollvörugeymslu úr fari eða afgreiðslugeymslu. Vörur sem háðar eru innflutningsleyfum er heimilt að flytja í tollvörugeymslu, enda þótt leyfi liggi ekki fyrir. Tollafgreiðsla vöru er háð því að innflutningsleyfi vegna hennar liggi fyrir.
    Heimilt er að flytja innlendar vörur í tollvörugeymslu ef þær eru ætlaðar til nota við aðvinnslu sem heimil er í geymslunni samkvæmt ákvæðum 95. gr.
    Heimilt er að flytja innlenda framleiðsluvöru til útflutnings í tollvörugeymslu þegar heimil er endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar við útflutning vöru skv. 85. gr. eða 85. gr. A laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Í þessum tilvikum skal endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar heimil þegar vara hefur verið flutt í tollvörugeymslu.
    

94. gr.
Tollafgreiddar vörur í tollvörugeymslu.

    Ráðherra getur ákveðið, að fenginni umsókn leyfishafa tollvörugeymslu, að heimila geymslu tollafgreiddra og ótollafgreiddra vara í sama rými í tollvörugeymslu að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Tollafgreiddar vörur skulu vera skýrt aðgreindar frá ótollafgreiddum vörum í birgðabókhaldi tollvörugeymslu. Tollstjórinn í Reykjavík skal samþykkja vél- og hugbúnað tollvörugeymslu til þess að tryggja að þessu skilyrði sé fullnægt.
     2.      Ráðherra getur bundið leyfi samkvæmt þessari grein þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg til þess að tryggja fullnægjandi tolleftirlit.
    Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík afturkallað leyfi samkvæmt þessari grein uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði 1. mgr.
    Ráðherra getur kveðið nánar á um skilyrði heimildar skv. 1. mgr. með reglugerð.

95. gr.

Aðvinnsla í tollvörugeymslu.

    Iðnaðarframleiðsla og önnur aðvinnsla vöru er óheimil í tollvörugeymslu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óveruleg aðvinnsla á vörum heimil í tollvörugeymslu, svo sem skipting sendinga, einföld umpökkun, merking, samsetning, prófun og þrif.
    Tollstjóri sker úr ef óljóst er hvort aðvinnsla falli undir 2. mgr.
    Tollstjóra er heimilt að takmarka aðvinnslu skv. 2. mgr. ef það telst nauðsynlegt vegna tolleftirlits.

Tollfrjálsar forðageymslur.
96. gr.
Starfsleyfi.

    Að uppfylltum skilyrðum 1.–8. tölul. 1. mgr. 91. gr. getur ráðherra heimilað lögaðilum að reka tollfrjálsar forðageymslur í tollhöfn þar sem geyma má vistir, útbúnað og annan forða fyrir för í utanlandsferðum auk varnings sem boðinn er til sölu um borð.
    Ráðherra skal halda skrá yfir leyfishafa samkvæmt þessari grein. Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja tollfrjálsa forðageymslu.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi leyfishafi ekki veitt þjónustu sem honum er heimilt samkvæmt lögum þessum samfellt í tólf mánuði.

97. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

    Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík afturkallað starfsleyfi skv. 96. gr. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

98. gr.
Vörur sem flytja má í tollfrjálsa forðageymslu.

    Í tollfrjálsar forðageymslur má setja eftirtaldar vörur:
     1.      Ótollafgreiddar vörur.
     2.      Vörur úr birgðum skipa eða flugvéla.
     3.      Innlendar framleiðsluvörur. Þegar heimil er endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar við útflutning vöru skv. 85. gr. eða 85. gr. A laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, skal endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar heimil þegar vara hefur verið flutt í tollfrjálsa forðageymslu.

99. gr.
Flutningur vara úr tollfrjálsri forðageymslu.

    Úr tollfrjálsri forðageymslu má aðeins selja og flytja vörur sem hæfilegan birgðaforða í far sem er í utanlandsferðum, enda verði vörurnar einungis til neyslu eða sölu í því fari. Ef sérstaklega stendur á, t.d. ef vörur liggja undir skemmdum, má tollstjóri heimila tollafgreiðslu á þeim til neyslu eða sölu innan lands, að fullnægðum lögboðnum innflutningsskilyrðum.
    Við mat á því hvað telst hæfilegur forði skal tollstjóri taka mið af stærð fars og gerð þess, fjölda farþega og stærð áhafnar og lengd ferðar.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur samkvæmt þessari grein.

100. gr.
Forði sendur í veg fyrir far.

    Vörur úr tollfrjálsri forðageymslu má senda til annarra tollhafna í veg fyrir skip og önnur farartæki í utanlandsferðum ef fylgt er þeim skilyrðum sem tollstjóri setur um flutninginn. Tollstjóri getur undanskilið tiltekna vöruflokka slíkum flutningi.

Tollfrjálsar verslanir.
101. gr.
Starfsleyfi.

    Að uppfylltum skilyrðum 1.–3. og 6.–9. tölul. 1. mgr. 95. gr. og að fenginni skriflegri umsókn getur ráðherra heimilað lögaðilum að reka tollfrjálsar verslanir í flugstöðvum eða höfnum.
    Leyfi skv. 1. mgr. nær jafnframt til reksturs tollfrjálsrar birgðageymslu fyrir vörur til sölu í verslun leyfishafa.
    Ráðherra skal halda skrá yfir leyfishafa samkvæmt þessari grein. Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja tollfrjálsa verslun.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi leyfishafi ekki veitt þjónustu sem honum er heimilt samkvæmt lögum þessum samfellt í tólf mánuði.

102. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

    Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík afturkallað starfsleyfi skv. 101. gr. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

103. gr.
Vörur sem heimilt er að flytja í tollfrjálsa verslun.

    Í tollfrjálsa verslun má setja eftirtaldar vörur:
     1.      Ótollafgreiddar vörur.
     2.      Tollafgreiddar vörur þegar endurgreiðsla tolls er heimil skv. 6. tölul. 1. mgr. 7. gr.
     3.      Innlendar framleiðsluvörur. Þegar heimil er endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar við útflutning vöru skv. 85. gr. eða 85. gr. A laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, skal endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar heimil þegar vara hefur verið flutt í tollfrjálsa verslun.

104. gr.
Sala úr tollfrjálsri verslun.

    Eingöngu er heimilt að selja farþegum og áhöfnum millilandafara á leið úr landi vörur úr tollfrjálsri verslun. Sala skal eingöngu heimil gegn framvísun brottfararspjalds.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ráðherra heimilað leyfishafa að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins vörur úr tollfrjálsri verslun. Slík verslun skal sérstaklega afmörkuð og eingöngu aðgengileg fyrir farþega og áhafnir sem koma til landsins.
    Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða vörur er heimilt að selja í tollfrjálsri verslun skv. 2. mgr.

Frísvæði.
105. gr.
Frísvæði.

    Að fenginni skriflegri umsókn og að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 91. gr. laga þessara getur ráðherra heimilað lögaðilum að reka frísvæði þar sem ótollafgreiddar vörur og innlendar framleiðsluvörur hljóta aðvinnslu umfram þá aðvinnslu sem heimil er í tollvörugeymslu, sbr. 95. gr.
    Leyfi skal veitt þeim einum sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri frísvæðis. Leyfishöfum sjálfum skal óheimilt að stunda iðnaðarframleiðslu, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu á frísvæðinu.
    Ráðherra skal halda skrá yfir leyfishafa samkvæmt þessari grein. Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja frísvæði.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi leyfishafi ekki veitt þjónustu sem honum er heimilt samkvæmt lögum þessum samfellt í tólf mánuði.

106. gr.
Afturköllun starfsleyfis.

    Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík afturkallað starfsleyfi skv. 106. gr. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

107. gr.
Vörur sem heimilt er að flytja á frísvæði.

    Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur á frísvæði úr fari, afgreiðslugeymslu eða tollvörugeymslu. Vörur sem háðar eru innflutningsleyfum er heimilt að flytja á frísvæði enda þótt leyfi liggi ekki fyrir. Tollafgreiðsla vöru er háð því að innflutningsleyfi vegna hennar liggi fyrir.
    Heimilt er að flytja innlendar vörur á frísvæði ef þær eru ætlaðar til nota við iðnaðarframleiðslu sem heimil er á frísvæðinu.
    Þegar heimil er endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar við útflutning vöru skv. 85. gr. eða 85. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum skal endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar heimil þegar vara hefur verið flutt á frísvæði.

108. gr.
Tollverðsákvörðun.

    Aðflutningsgjöld af vöru á frísvæði, sem tekin er til tollmeðferðar vegna afhendingar hennar til notkunar innan lands, miðast við tollverð hennar eins og það er ákveðið samkvæmt reglum um tollverð og tollverðsákvörðun við upphaf tollmeðferðar hennar, sbr. 34. gr.
    Tollverð vöru á frísvæði sem flutt er til útlanda er það sem greitt er eða greiða ber fyrir hana samkvæmt ákvæðum V. kafla.

XIV. KAFLI
Álagning, kærur o.fl.
109. gr.
Álagning aðflutningsgjalda.

    Tollstjórar annast álagningu aðflutningsgjalda. Álagning aðflutningsgjalda skal byggð á þeim upplýsingum sem koma fram í aðflutningsskýrslu skv. VII. kafla. Þó skal tollstjóri leiðrétta augljósar og smávægilegar villur í skriflegum aðflutningsskýrslum sem honum hafa verið látnar í té.
    Ef aðflutningsskýrslu er ekki skilað innan tilskilins frests skv. 22. gr. skal tollstjóri áætla tollverð vöru skv. 115. gr.

110. gr.
Leiðréttingar á aðflutningsskýrslu fyrir tollafgreiðslu.

    Komi í ljós eftir að aðflutningsskýrsla ásamt fylgiskjölum hefur verið látin tollstjóra í té og áður en afhendingarheimild er veitt að hún eða einstakir liðir hennar eða fylgiskjöl eru ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eigi skráð á lögmæltan hátt, undirrituð á ófullnægjandi hátt eða tollstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði skal hann skora á viðkomandi að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skýringar og þau gögn sem tollstjóri telur þörf á.
    Áskorun skv. 1. mgr. getur hvort heldur sem er verið skrifleg eða rafræn, á því formi sem tollstjórinn í Reykjavík ákveður.
    Fái tollstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frests skv. 1. mgr. leggur hann toll og önnur gjöld á samkvæmt aðflutningsskjölum og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á aðflutningsskýrslu, svar frá viðkomandi berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi, eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir eða send gögn eru ófullnægjandi eða tortryggileg skal tollstjóri áætla aðflutningsgjöld með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 123. gr.

111. gr.
Endurákvörðun aðflutningsgjalda eftir rafræna tollafgreiðslu.

    Tollstjóri skal endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld, ef í ljós kemur að þau voru ekki rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu, vegna sendinga sem innflytjandi hefur fengið tollafgreiddar með rafrænum hætti á síðustu sex árum talið frá þeim degi þegar honum berst tilkynning um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun skv. 1. mgr. 114. gr.

112. gr.
Endurákvörðun aðflutningsgjalda eftir skriflega tollafgreiðslu.

    Hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar látið tollstjóra í té rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu, skal tollstjóri endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar vissi eða mátti vita um réttmæti upplýsinga í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum.
    Tollstjóra er heimilt að endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld á grundvelli 1. mgr. vegna sendinga sem innflytjandi hefur fengið tollafgreiddar á síðustu sex árum talið frá þeim degi þegar honum berst tilkynning skv. 1. mgr. 114. gr. um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun.
    Hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar látið tollstjóra í té réttar og fullnægjandi upplýsingar í aðflutningsskýrslu og fylgiskjölum er þó eigi heimilt að endurákvarða honum aðflutningsgjöld nema vegna sendinga sem hann hefur fengið tollafgreiddar á síðustu 60 dögum talið frá þeim degi þegar honum berst tilkynning um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun. Hafi heimild verið veitt til tímabundins innflutnings vöru skal tollstjóra þó heimilt að endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld í 60 daga talið frá því að aðflutningsgjöld voru ákvörðuð.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er tollstjóra heimilt að endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld vegna sendinga, sem innflytjandi hefur fengið tollafgreiddar á síðustu sex árum talið frá þeim degi þegar honum berst tilkynning skv. 1. mgr. 114. gr. um fyrirhugaða endurákvörðun, hafi innflytjandi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru.

113. gr.
Aðrar endurákvarðanir.

    Komi í ljós eftir tollafgreiðslu vöru að tollstjóra hafi verið látnar í té rangar eða ófullnægjandi upplýsingar en fjárhæð aðflutningsgjalda er engu að síður rétt ákvörðuð skal tollstjóri tilkynna innflytjanda um fyrirhugaðar breytingar á aðflutningsskjölum. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar vissi eða mátti vita um réttmæti upplýsinga í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum.
    Um endurákvarðanir skv. 1. mgr. gilda ákvæði 114. gr. eftir því sem við á.

114. gr.
Málsmeðferðarreglur við endurákvörðun aðflutningsgjalda.

    Ef fyrirhuguð er endurákvörðun tollstjóra skv. 111.–113. gr. skal tollstjóri senda innflytjanda tilkynningu um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun með sannanlegum hætti.
    Í tilkynningu skv. 1. mgr. skal tollstjóri lýsa í meginatriðum þeim atvikum sem hann telur að eigi að leiða til endurákvörðunar.
    Tollstjóri skal veita innflytjanda a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningardegi tilkynningar um fyrirhugaða endurákvörðun, til þess að tjá sig skriflega um efni máls og, eftir atvikum, leggja fram gögn áður en úrskurður um endurákvörðun er kveðinn upp.
    Úrskurður um endurákvörðun skal kveðinn upp innan 30 daga frá lokum þess frests sem innflytjanda var veittur til þess að tjá sig um fyrirhugaða endurákvörðun. Innflytjanda skal tilkynnt um úrskurð með ábyrgðarbréfi.

115. gr.
Heimildir tollstjóra til áætlunar aðflutningsgjalda.

    Í þeim tilvikum þegar tollstjóra ber að áætla fjárhæð aðflutningsgjalda skal hann áætla tollverð vöru svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en raunverulegt verðmæti vörunnar og ákvarða aðflutningsgjöld í samræmi við þá áætlun. Við áætlunina skal tollstjóri hafa hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um vöruna, þar á meðal farmskrá, framlögðum gögnum ef einhver eru og gögnum Hagstofu Íslands yfir innfluttar vörur.

116. gr.
Leiðréttingar á aðflutningsskýrslu eftir tollafgreiðslu.

    Verði innflytjandi þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, voru rangar eða ófullnægjandi skal hann leggja fram beiðni hjá tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar, sbr. 2. mgr.
    Beiðni skv. 1. mgr. um leiðréttingu skal afhent tollstjóra á formi leiðréttrar skriflegrar aðflutningsskýrslu ásamt viðeigandi fylgiskjölum. Ákvæði VII. kafla um skriflegar skýrslugjafir gilda um leiðréttar aðflutningsskýrslur samkvæmt þessari málsgrein.
    Innflytjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að rangar og ófullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar til grundvallar tollafgreiðslu vöru ef breyttar forsendur geta leitt til lækkunar álagðra aðflutningsgjalda.
    Tollstjóri kveður upp úrskurð vegna beiðni um leiðréttingu innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum 2. og 3. mgr. 117. gr.

117. gr.
Kærur til tollstjóra.

    Nú telur tollskyldur aðili ákvörðun tollstjóra um gjaldskyldu, fjárhæð aðflutningsgjalda eða atriði sem liggja til grundvallar ákvörðun aðflutningsgjalda, svo sem tollverð og tollflokkun, eigi rétta getur hann sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum til tollstjóra. Ef ágreiningur er um tollmeðferð vöru sem hefur þegar verið tollafgreidd skal kæra send tollstjóra innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi.
    Telji tollstjóri óljóst á hvaða rökum kæra er reist eða að fylgiskjöl séu ófullnægjandi skal hann gefa kæranda kost á að bæta úr því innan hæfilegs tíma. Ef þess er eigi gætt varðar vanreifun frávísun kæru.
    Úrskurða skal svo fjótt sem verða má og eigi síðar en innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Úrskurður tollstjóra skal rökstuddur og tollskyldum aðila skal bent á heimild til þess að kæra úrskurðinn til ríkistollanefndar, sbr. 118. gr. Úrskurður skal sendur innflytjanda með sannanlegum hætti. Samrit úrskurðar skal þegar í stað sent tollstjóranum í Reykjavík.

118. gr.
Kærur til ríkistollanefndar.

    Tollskyldur aðili getur skotið úrskurði tollstjóra um endurákvörðun skv. 111.–113. gr., sbr. 114. gr., úrskurði tollstjóra um leiðréttingu skv. 116. gr., kæruúrskurði skv. 117. gr. og ákvörðun tollstjórans í Reykjavík skv. 21. gr. og 2. mgr. 145. gr. til ríkistollanefndar innan 60 daga frá póstlagningardegi úrskurðar eða ákvörðunar.
    Tollstjórinn í Reykjavík getur skotið úrskurðum annarra tollstjóra um endurákvörðun skv. 111.–113. gr., sbr. 114. gr., úrskurðum þeirra um leiðréttingu skv. 116. gr. og kæruúrskurðum þeirra skv. 117. gr. til ríkistollanefndar innan sama frests og greindur er í 1. mgr.
    Kærur skulu vera skriflegar og studdar nauðsynlegum gögnum. Vanreifun varðar frávísun. Berist nefndinni kæra og hún er rökstudd með tollskjölum, sem ekki hafa sætt efnisúrlausn hjá tollstjóra, getur nefndin sent kæruna til tollstjóra til uppkvaðningar úrskurðar að nýju. Nefndin skal tilkynna aðila um þá ákvörðun.
    Tollstjórinn í Reykjavík skal koma fram gagnvart ríkistollanefnd fyrir hönd tollyfirvalda.
    Nefndin skal tafarlaust senda tollstjóranum í Reykjavík endurrit eða ljósrit af kæru tollskylds aðila og þeim gögnum sem kunna að fylgja kæru hans. Hafi tollstjórinn í Reykjavík skotið úrskurði eða ákvörðun annars tollstjóra til nefndarinnar skv. 2. mgr. skal nefndin tafarlaust senda innflytjanda endurrit kæru ásamt gögnum sem henni fylgdu. Skal nefndin gefa aðilum kost á að koma fram með andsvör sín og gögn innan hæfilegs frests.
    Telji nefndin mál ekki nægilega upplýst getur hún beint til málsaðila að afla frekari gagna eða upplýsinga málinu til skýringar.
    Ríkistollanefnd er heimilt að kveðja sérfróða menn sér til aðstoðar við úrlausn ágreiningsmála og krefjast upplýsinga samkvæmt ákvæðum laga þessara.
    Nefndin getur ákveðið málflutning ef mál er flókið eða yfirgripsmikið og má hann vera munnlegur. Um málflutning skulu gilda almennar reglur um málflutning fyrir héraðsdómi, um vanhæfi, aðstoð sérfróðra manna o.fl. eftir því sem við á.
    Nefndin skal úrskurða um kærur eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 60 dögum eftir að gagnaöflun er lokið. Sé munnlegur málflutningur viðhafður skal úrskurður kveðinn upp innan 60 daga frá lokum málflutnings. Úrskurðir nefndarinnar skulu rökstuddir.
    Kæra til ríkistollanefndar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
    Úrskurður ríkistollanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Málskot til almennra dómstóla um úrlausnarefni sem farið hefur fyrir nefndina frestar eða breytir ekki niðurstöðu hennar fyrr en dómur er genginn.

119. gr.
Tollendurskoðun.

    Tollstjórinn í Reykjavík hefur á hendi tollendurskoðun á landinu öllu.
    Tollendurskoðun tekur til hvers konar könnunar tollstjórans á réttmæti upplýsinga sem lagðar voru fram við lögboðna skýrslugjöf til tollstjóra og hvers konar könnunar á réttmæti skila á aðflutningsgjöldum eftir álagningu þeirra. Í tollendurskoðun felst m.a. samanburður á upplýsingum sem tollstjórum eru veittar með rafrænum hætti við bókhaldsgögn, þar á meðal viðeigandi fylgigögn sem eiga að ligga til grundvallar skýrslugjöf til tollstjóra samkvæmt ákvæðum laga þessara. Tollendurskoðun tekur einnig til öflunar frekari gagna frá tollskyldum aðilum eða öðrum.
    Lögreglu er skylt að veita tollstjóranum nauðsynlega aðstoð í þágu tollendurskoðunar ef aðili færist undan afhendingu bókhaldsgagna.
    Þegar tollendurskoðun gefur tilefni til endurákvörðunar aðflutningsgjalda skv. 111.–112. gr. eða endurákvörðunar skv. 113. gr. skal tollstjóri, í því umdæmi þar sem vara var tollafgreidd, annast endurákvörðun. Leiði tollendurskoðun í ljós ætluð brot gegn refsiákvæðum XXII. kafla laga þessara skal tollstjórinn í Reykjavík annast rannsóknina sjálfur eða fela hana tollstjóra í því umdæmi þar sem vara var tollafgreidd eftir því sem hann telur hentara.

XV. KAFLI
Gjalddagi, greiðslufrestur og greiðslustaður aðflutningsgjalda.
120. gr.
Gjalddagi aðflutningsgjalda.

    Aðflutningsgjöld, af öðrum vörum en þeim sem ráðstafað hefur verið á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 2.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr., falla í gjalddaga þegar leyfi hefur verið veitt til afhendingar þeirra til notkunar innan lands enda sé flutningsfar þegar komið til landsins. Aðflutningsgjöld skulu þó falla í gjalddaga eigi síðar en sex mánuðum eftir komudag flutningsfars til landsins nema tollstjóri hafi heimilað lengri geymslutíma í afgreiðslugeymslu, sbr. 1. mgr. 70. gr. Í þeim tilvikum skulu aðflutningsgjöld falla í gjalddaga við lok þess frests sem tollstjóri tiltekur. Um gjalddaga aðflutningsgjalda þegar greiðslufrestur er veittur fer eftir ákvæði 2. mgr. 122. gr.
    Aðflutningsgjöld af vörum sem ráðstafað hefur verið í tollvörugeymslu eða á frísvæði falla í gjalddaga þegar leyfi hefur verið veitt til afhendingar þeirra til notkunar innan lands. Sama gildir um þær vörur sem óskast tollafgreiddar úr tollfrjálsum forðageymslum og tollfrjálsum verslunum til notkunar innan lands.
    Ef neyðarleyfi eða leyfi til bráðabirgðatollafgreiðslu er veitt skal gjalddagi aðflutningsgjalda vera sá dagur þegar uppgjör aðflutningsgjalda skal eiga sér stað samkvæmt ákvörðun tollstjóra, sbr. 37. og 36. gr. Ef tímabundinn tollfrjáls innflutningur er heimilaður skal gjalddagi aðflutningsgjalda vera sá dagur þegar leyfi til tímabundins innflutnings fellur úr gildi. Aðflutningsgjöld skulu ákvörðuð samkvæmt lögum og tollafgreiðslugengi sem var í gildi á tollafgreiðsludegi.
    Ef um hraðsendingu er að ræða skal gjalddagi aðflutningsgjalda vera sjö dögum eftir tollafgreiðslu sendingar.
    Ef vara er afhent úr vörslu farmflytjanda eða af geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur án tilskilins leyfis tollstjóra skulu aðflutningsgjöld þegar gjaldfelld.
    Þegar atvik eru eins og um ræðir í 5. mgr. og vara hefur verið í vörslu farmflytjanda, tollmiðlara eða innflytjanda samkvæmt sérstöku leyfi tollstjóra, sbr. 3. mgr. 73. gr., skal gjalddagi vera komudagur flutningsfars og skulu aðflutningsgjöld ákvörðuð samkvæmt lögum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var á þeim degi. Ef vara hefur verið flutt í tollvörugeymslu eða á frísvæði skal gjalddagi vera þegar tollstjóra barst tilkynning skv. 79. gr. og skulu aðflutningsgjöld ákvörðuð samkvæmt lögum og tollafgreiðslugengi sem var í gildi á þeim degi, nema sannað sé með fullnægjandi hætti að mati tollstjóra að óheimil afhending vöru til notkunar innan lands hafi átt sér stað síðar.
    Ef aðflutningsgjöld innflytjanda eru endurákvörðuð skv. 111. eða 112. gr., sbr. 114. gr., fellur viðbótarfjárhæðin í gjalddaga á tollafgreiðsludegi vöru.

121. gr.
Réttur til greiðslufrests.

    Aðilar sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá skulu njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum enda séu þeir í skilum við ríkissjóð. Réttur til greiðslufrests tekur til aðflutningsgjalda af vörum sem fluttar eru inn í atvinnuskyni.
    Óheimilt er að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum þegar neyðarleyfi er veitt eða bráðabirgðatollafgreiðsla fer fram svo og við uppgjör aðflutningsgjalda í þessum tilvikum.

122. gr.
Uppgjörstímabil og gjalddagi við skuldfærslu.

    Þegar greiðslufrestur er veittur er hvert uppgjörstímabil tolls og annarra aðflutningsgjalda tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum.
    Gjalddagi skuldfærðra aðflutningsgjalda er 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

123. gr.
Synjun um heimild til skuldfærslu.

    Tollstjóri skal synja þeim sem nýtur heimildar til skuldfærslu aðflutningsgjalda um frekari greiðslufrest á aðflutningsgjöldum ef hann gerir ekki skil á aðflutningsgjöldum á tilskildum tíma. Jafnframt er tollstjóra heimilt að synja um frekari greiðslufrest ef sá sem hans nýtur gerir ekki skil á öðrum ríkissjóðsgjöldum en aðflutningsgjöldum á tilskildum tíma.
    Ef bú innflytjanda er tekið til gjaldþrotaskipta eða opinberra skipta eftir lát hans og erfingjar hans taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins skulu aðflutningsgjöld greidd þegar heimild til afhendingar vöru er veitt. Sama gildir sé innflytjandi ekki fjár síns ráðandi eða komi í ljós við aðför eða með öðrum hætti að innflytjanda vöru er tímabundið ómögulegt að greiða skuldir sínar eða hefur óskað eftir heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.

124. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari reglur um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum.

125. gr.
Vextir.

    Dráttarvextir skulu reiknaðir á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga og innheimtir í ríkissjóð. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Um greiðslu vaxta vegna oftekinna aðflutningsgjalda gilda ákvæði laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, með síðari breytingum.

126. gr.
Greiðslustaður.

    Aðflutningsgjöld skal greiða tollstjóra í því tollumdæmi þar sem vara er flutt úr fari sem hana flytur til landsins samkvæmt farmskrá. Ef ótollafgreidd vara er framsend í annað tollumdæmi skal þó greiða aðflutningsgjöld í því tollumdæmi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal sá sem nýtur heimildar til skuldfærslu aðflutningsgjalda greiða aðflutningsgjöld til tollstjóra í því umdæmi þar sem hann á lögheimili.

XVI. KAFLI
Innheimta og ábyrgð.
127. gr.
Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda.

    Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda hvílir á innflytjanda vöru.
    Nú kemur tollmiðlari fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd innflytjanda vegna tollmeðferðar vöru og ber hann þá ásamt innflytjanda óskipta ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Ábyrgð tollmiðlara fellur brott hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda, enda hafi tollmiðlari haft heimild innflytjanda til þess, nema tollmiðlari hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar í aðflutningsskjölum væru rangar eða ófullnægjandi, sbr. 33. gr.

128. gr.
Fullnusta aðflutningsgjalda.

    Aðflutningsgjöld, ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, eru tryggð með lögveði í innfluttri vöru. Lögveðsréttur er óháður grandleysi eigenda og helst þrátt fyrir eigendaskipti.
    Tollstjóri getur krafist nauðungarsölu á uppboði á ótollafgreiddri vöru án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, sbr. 129. gr., til lúkningar á gjaldföllnum aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði. Tollstjóri getur jafnframt boðið vöru til sölu á almennum markaði.
    Telji tollstjóri ekki ástæðu til að selja vöru nauðungarsölu vegna ástands hennar skal honum heimilt að láta farga henni á kostnað innflytjanda.
    Verði vara ekki seld nauðungarsölu má gera fjárnám til tryggingar greiðslu aðflutningsgjalda, dráttarvaxta, sekta og kostnaðar hjá tollskyldum aðila án undangengins dóms eða sáttar.

129. gr.
Nauðungarsala á uppboði og uppgjör söluandvirðis.

    Tollstjóri skal fá birta auglýsingu um uppboð skv. 2. mgr. 128. gr. með mest fjögurra vikna og minnst viku fyrirvara í dagblaði eða á annan samsvarandi hátt. Jafnframt skal tollstjóri tilkynna innflytjanda vöru bréflega um hvar og hvenær uppboð fer fram. Verði tilkynningu ekki við komið vegna þess að innflytjandi er ekki þekktur eða finnst ekki stendur það ekki í vegi fyrir uppboði.
    Um mótmæli gegn nauðungarsölu gilda ákvæði XI. og XIV. kafla laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.
    Aðflutningsgjöld greiðast af söluandvirði með forgangsrétti næst á eftir sölukostnaði vörunnar og gjöldum vegna geymslu hennar hjá farmflytjanda í einn mánuð frá því að hún kom til landsins. Sé söluandvirði vörunnar hærra en nemur aðflutningsgjöldum ásamt dráttarvöxtum, sektum og áföllnum kostnaði skal greiða þeim sem eignarréttur gekk úr hendi afganginn að frádregnum öðrum eignarhöftum sem á vörunni hvíldu auk alls áfallins kostnaðar. Vitji eigandi ekki þess sem afgangs er samkvæmt framangreindu innan árs frá söludegi rennur andvirðið í ríkissjóð.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd nauðungarsölu með uppboði.

XVII. KAFLI
Stöðvun tollafgreiðslu.
130. gr.

    Tollstjóri skal stöðva tollafgreiðslu sendingar ef innflutningur vöru sem sending inniheldur er háður skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið fullnægt. Sama gildir ef innflutningur er háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað.

131. gr.

    Tollstjóra er heimilt að stöðva tollafgreiðslu á öllum vörum til innflytjanda:
     1.      sem er í vanskilum með aðflutningsgjöld, dráttarvexti eða annan kostnað,
     2.      sem hefur vanrækt að láta tollstjóra í té aðflutningsskýrslu og fylgigögn innan tilskilins frests,
     3.      sem sinnir ekki upplýsingaskyldu gagnvart tollstjóra, sbr. 30. gr., eða tregðast við að veita aðstoð sem honum ber að veita tollstjóra samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
    Stöðvun tollafgreiðslu skv. 1. mgr. skal koma til framkvæmda 15 dögum eftir að innflytjanda hefur verið tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun tollafgreiðslu á öllum vörum til hans vegna þeirra atvika sem um getur í 1. mgr.

132. gr.

    Ef grunur leikur á að innflutningur eigi sér stað á vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum er tollstjóra heimilt, að beiðni rétthafa, að fresta tollafgreiðslu vörunnar á meðan rétthafi leitar bráðabirgðaaðgerða hjá þar til bærum yfirvöldum og í framhaldi af þeim hefur málarekstur fyrir dómstólum. Eftirfarandi skilyrði eru fyrir heimild tollstjóra:
     1.      að rétthafi leggi fram skriflega beiðni til tollstjóra um að tollafgreiðslu verði frestað og skuldbindi sig til að greiða þann kostnað sem leiðir af aðgerðum tollyfirvalda,
     2.      að rétthafi leggi fram fullnægjandi gögn þess efnis að hugverkaréttindi njóti verndar hér á landi, að hann sé handhafi þess réttar og að innflutningur vörunnar muni brjóta á rétti hans; hann skal jafnframt leggja fram nógu nákvæma lýsingu á vörunni til að tollyfirvöld geti borið kennsl á hana,
     3.      að rétthafi leggi fram tryggingu í formi fjárgreiðslu, eða með öðrum þeim hætti er tollstjóri telur fullnægjandi, er nægi til að bæta rétthafa, eiganda eða innflytjanda vörunnar það tjón eða þann kostnað sem óréttmæt frestun tollafgreiðslu kann að hafa í för með sér.
    Hafi fullnægjandi gögn verið lögð fram er tollstjóra heimilt að fresta tollafgreiðslu vörunnar í allt að tíu virka daga. Hann skal þegar í stað tilkynna bæði rétthafa og eiganda vörunnar eða innflytjanda um ákvörðun sína. Hafi rétthafi eigi innan framangreinds frests hafist handa við að leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum, og tilkynnt tollyfirvöldum slíkt skriflega, er heimilt að tollafgreiða sendinguna. Heimilt er að framlengja framangreindan frest um tíu virka daga ef sérstakar ástæður mæla með því.
    Tollstjóri getur að eigin frumkvæði ákveðið frestun tollafgreiðslu þegar hann hefur í höndum fullnægjandi gögn þess efnis að varan brjóti gegn hugverkaréttindum. Skal hann tilkynna rétthafa um ákvörðun sína með skriflegum hætti þegar í stað og gefa honum frest í þrjá virka daga frá móttöku bréfs til að fara fram á frestun tollafgreiðslu skv. 1. mgr. Geri rétthafi ekki tímanlega kröfu um frestun er heimilt að tollafgreiða vöruna.
    Ef beiðni um bráðabirgðaaðgerð er synjað eða dómstóll hafnar því að um brot á hugverkarétti sé að ræða skal tollstjóri afturkalla ákvörðun sína um frestun tollafgreiðslu. Nú er með dómi kveðið á um að um brot á hugverkarétti sé að ræða og í dóminum er eigi mælt fyrir um ráðstöfun vörunnar og er þá tollyfirvaldi heimilt að farga vörunni eða að ráðstafa henni á annan þann hátt sem ekki brýtur á rétti rétthafa. Hafi dómi verið áfrýjað skal fresta förgun eða ráðstöfun vöru þar til niðurstöður liggja fyrir.
    Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um vörur í litlu magni í farangri ferðamanna eða litlar vörusendingar, enda sé ekki um innflutning í viðskiptaskyni að ræða. Einnig eru undanskildar vörur sem settar hafa verið á markað í öðru landi af rétthafa eða með hans samþykki og vörur í umflutningi.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um frestun tollafgreiðslu. Hann getur jafnframt gert rétthafa að greiða geymslukostnað og þann kostnað sem tollyfirvöld hafa af framangreindum ráðstöfunum. Ráðherra getur ákveðið að framangreind ákvæði taki til útflutnings á vörum.

XVIII. KAFLI
Undirboðs- og jöfnunartollar o.fl.
133. gr.
Álagning undirboðs- og jöfnunartolla.

    Nú má ætla að erlend vara sé flutt inn eða boðin fram með undirboðskjörum og slíkt geti stofnað innlendum atvinnurekstri í hættu eða torveldað hann að mun og er þá ráðherra heimilt að leggja á sérstakan undirboðstoll til að hamla gegn slíkum viðskiptum.
    Þá er ráðherra heimilt í sama skyni og með sömu skilyrðum að leggja á sérstakan jöfnunartoll ef ætla má að útflutningsverðlaun, uppbætur, endurgreiðslur og þess háttar erlendis hafi sams konar áhrif hér á landi og getið er í 1. mgr.
    Ráðherra er enn fremur heimilt að leggja undirboðs- og jöfnunartolla á erlend þjónustuviðskipti að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda um vöruviðskipti samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
    Ákvarðanir ráðherra um þetta efni gilda frá og með þeim degi sem þær eru birtar í Stjórnartíðindum og skulu ekki gilda lengur en í fimm ár.
    Ráðherra getur skipað nefnd til að rannsaka kærur um innflutning vara á undirboðskjörum eða með styrkjum og gera tillögur til ráðherra um álagningu undirboðs- eða jöfnunartolla. Um störf nefndarinnar, réttindi og skyldur, skulu gilda ákvæði laga þessara eftir því sem við á.

134. gr.

    Með undirboði eða undirboðskjörum í lögum þessum er átt við að erlend vara sé flutt inn eða boðin fram:
     1.      á verði sem er lægra en sambærilegt verð í útflutningslandinu á tilsvarandi vöru við venjuleg viðskiptaskilyrði, eða
     2.      ef slíkt verð er ekki fyrir hendi í útflutningslandinu, þá annaðhvort
                  a.      á verði sem er lægra en hæsta útflutningsverð á tilsvarandi vöru til einhvers annars lands, eða
                  b.      á verði sem er lægra en framleiðslukostnaður vörunnar í upprunalandinu að viðbættu sanngjörnu álagi fyrir sölukostnaði og ágóða.
    Við samanburð þann er um ræðir í 1. mgr. skal taka tillit til mismunandi sölu- og afgreiðsluhátta, flutningskostnaðar, skatta og annars slíks aðstöðumunar sem skipt getur máli.

135. gr.

    Undirboðstollur má ekki vera hærri en nemur undirboðinu, þ.e. mismuninum á undirboðsverðinu og verðinu sem tekið er til samanburðar.
    Jöfnunartollur má ekki vera hærri en nemur greiðslum eða uppbótum sem beint eða óbeint eru látnar í té í sambandi við framleiðslu, vinnslu, útflutning eða flutning varanna.

136. gr.

    Leggja má undirboðs- eða jöfnunartolla eftir framangreindum ákvæðum á eina eða fleiri vörur eða vörutegundir, á vörur frá einum eða fleiri sendendum eða vörur frá einu eða fleiri löndum.
    Undirboðs- og jöfnunartolla má leggja á til bráðabirgða, þar til nánari upplýsingar liggja fyrir, ef ætla má að dráttur kunni að valda tjóni. Slíka bráðabirgðatolla má þó ekki leggja á til lengri tíma en tólf mánaða.
    Ráðherra getur sett nánari ákvæði um undirboðs- og jöfnunartolla og um skil á þeim. Um lögvernd tolla þessara fer eftir ákvæðum 128. gr.

137. gr.

    Undirboðs- og jöfnunartolla skal ekki leggja á með afturvirkum hætti nema:
     1.      Þegar vara hefur verið flutt inn í miklu magni á skömmum tíma og boðin fram á undirboðskjörum sem valdið hefur tjóni innan lands. Í slíkum tilvikum má leggja undirboðstolla afturvirkt á innflutning sé það til þess fallið að koma í veg fyrir frekari innflutning á undirboðskjörum.
     2.      Þegar vara, sem notið hefur útflutningsverðlauna, uppbóta, endurgreiðslna og þess háttar, hefur verið flutt inn í miklu magni á skömmum tíma og valdið tjóni sem erfitt er að bæta. Í slíkum tilvikum má leggja jöfnunartolla afturvirkt á innflutning sé það til þess fallið að koma í veg fyrir frekari innflutning á vörum sem njóta styrkja með þessum hætti.
     3.      Þegar loforð um að hætta innflutningi, sem fellur undir 1.–3. mgr. 133. gr., hefur verið vanefnt.
    Undirboðs- eða jöfnunartollar, sem lagðir eru á með afturvirkum hætti, geta náð til vöru sem flutt hefur verið til landsins allt að 90 dögum áður en kæra barst fjármálaráðuneytinu um innflutning sem fellur undir 1.–3. mgr. 133. gr.

138. gr.

    Þegar svo stendur á er greinir í 5. gr. samningsins um landbúnað í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar varðandi einhverjar af þeim vörum sem tilgreindar eru í viðauka IIA við lög þessi og þar eru merktar SSG að:
     1.      innflutt magn fer yfir mörk þau er tilgreind eru í 5. gr. tilvitnaðs samnings um landbúnað; eða, en þó ekki á sama tíma,
     2.      innflutningsverð vörunnar fellur niður fyrir tiltekin mörk, sbr. skilgreiningu í 5. gr. samningsins um landbúnað,
skal, þrátt fyrir ákvæði 1. og 3. mgr. 5. gr., tollur á viðkomandi vöru vera hámarkstollur samkvæmt tollbindingu í viðauka IIA að viðbættum viðbótartolli skv. 5. mgr. 5. gr. samningsins um landbúnað.
    Viðbótartollar skulu að öðru leyti taka mið af skilyrðum 5. gr. samningsins um landbúnað. Tollur samkvæmt þessari grein kemur aðeins til framkvæmda að landbúnaðarráðherra hafi ákveðið að beita 5. gr. samningsins um landbúnað og gefið út reglugerð þar að lútandi.

139. gr.
Verðjöfnunargjöld á innfluttar vörur.

    Heimilt skal að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar vörur sem unnar eru úr hráefnum úr landbúnaði samkvæmt þeim skilmálum sem kveðið er á um í bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, svo og öðrum fríverslunar- og milliríkjasamningum og bókunum við þá.
    Séu verðjöfnunargjöld lögð á skv. 1. mgr. er óheimilt að leggja jafnframt á gjaldskylda vöru frá samningsaðila tolla eða önnur sambærileg gjöld nema annað leiði af ákvæðum bókunar 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið svo og annarra fríverslunar- og milliríkjasamninga og bókunum við þá.
    Innheimta verðjöfnunargjalda samkvæmt þessari grein hefur eigi áhrif á innheimtu tolls samkvæmt tollskrá af vörum sem eigi geta notið tollmeðferðar samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða ákvæðum annarra fríverslunar- og milliríkjasamninga nema þar sé kveðið á um annað.
    Verðjöfnunargjald skal lagt á og innheimt við tollmeðferð vöru.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verðjöfnunargjöld samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, flokkun til gjaldskyldu, sönnun um samsetningu gjaldskyldra vara svo og annað sem lýtur að álagningu og innheimtu gjaldanna. Jafnframt getur hann með sama hætti mælt fyrir um niðurfellingu tolla og annarra sambærilegra gjalda þegar verðjöfnunargjald er lagt á vöruna. Um lögvernd verðjöfnunargjalda fer skv. 128. gr.

XIX. KAFLI
Útflutningur.
140. gr.
Skylda til að skila útflutningsskýrslu.

    Þeir sem stunda útflutning á vörum í atvinnuskyni skulu, áður en vara er flutt úr landi, senda viðkomandi tollstjóra með rafrænum hætti þær upplýsingar sem láta ber í té við tollafgreiðslu vara.

141. gr.
Einfaldaðar útflutningsskýrslur vegna póstverslunar.

    Einstaklingar og lögaðilar sem stunda í atvinnuskyni útflutning smásendinga í póstverslun til einstaklinga geta sótt um leyfi tollstjórans í Reykjavík til að skila einfölduðum útflutningsskýrslum sem láta má tollstjóra í té eftir að útflutningur hefur átt sér stað.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið á um skilyrði fyrir heimild til einfaldaðrar skýrslugjafar við útflutning skv. 1. mgr.

142. gr.

    Útflutningsskilyrðum skal fullnægt og útflutningsgjöld skulu greidd í því tollumdæmi þar sem útflutningsvara er flutt í far sem flytja á vöruna til útlanda. Ráðherra getur með reglugerð vikið frá þessu ákvæði.

143. gr.
Aflaskýrslur íslenskra veiðiskipa.

    Skýrslu um afla íslenskra veiðiskipa, sem fluttur er út með þeim sjálfum til sölu á erlendum markaði, skal skipstjóri gefa í fyrstu höfn sem skipið tekur hér á landi á leið sinni frá útlöndum eða næst þegar það leitar hafnar hér á landi taki skipið ekki höfn áður en það flytur afla á erlendan markað. Taki veiðiskipið ekki fyrstu höfn á þeim stað þar sem það er gert út ber að senda skýrslu þessa til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem útgerðarstaður skipsins er.

144. gr.

    Ákvæði laga þessara um innflutning gilda um útflutning og umflutning eftir því sem við getur átt nema öðruvísi sé kveðið á um í þessum kafla.

XX. KAFLI
Uppruni vöru.
145. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja almennar upprunareglur er gildi við innflutning og útflutning vöru. Við setningu upprunareglna skal samráð eftir atvikum haft við iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Reglurnar skulu grundvallaðar á eftirfarandi meginreglum:
     1.      Þegar viðmiðun um breytingu á tollflokkun er beitt skal tilgreina nákvæmlega undirliði og vöruliði þeirrar tollnafnaskrár sem notuð er.
     2.      Þegar miðað er við hundraðshluta af verðmæti skal tilgreina reikningsaðferðir.
     3.      Þegar miðað er við framleiðslu eða aðvinnsluaðferðir skal skýra nákvæmlega frá aðferðum sem gefa til kynna uppruna viðkomandi vöru.
    Upprunareglur skal birta með reglugerð. Tollstjórinn í Reykjavík veitir innflytjendum, útflytjendum og aðilum sem hagsmuna eiga að gæta bindandi álit um uppruna vöru. Álitið skal veita eins fljótt og hægt er og eigi síðar en 60 dögum eftir að beiðni er lögð fram.
    Gerist Ísland aðili að milliríkjasamningi sem kveður á um tollalækkanir eða aðra tilhliðrun fyrir íslenskar útflutningsvörur við tollafgreiðslu í viðkomandi landi eða löndum skal tollstjóri að beiðni útflytjenda veita upplýsingar um skilyrði tollfríðinda, þar á meðal útgáfu upprunasannana o.fl.
    Ef útflytjandi framleiðsluvara er annar en framleiðandi þeirra skal auk upprunavottorðs útflytjanda liggja fyrir yfirlýsing framleiðanda sem staðfesti að framleiðsluvörurnar uppfylli skilyrði um fríðindameðferð samkvæmt fríverslunar- eða milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að.
    Öll skjöl og vottorð um uppruna vöru, tollendurgreiðslur af þeim o.fl. skv. 1. og 3. mgr. skulu vera að formi og frágangi eins og ákveðið er af ráðherra.
    Nú óskar aðildarríki að milliríkjasamningi skv. 1. og 3. mgr. að sannreyna sannleiksgildi skjala eða vottorða um uppruna, tollendurgreiðslur o.fl. vegna útfluttra vara til viðkomandi landa eða nauðsynlegt telst af öðrum ástæðum að framkvæma slíka rannsókn og eru þá atvinnurekandi og aðrir, sem hlut eiga að máli, skyldir til að láta tollyfirvaldi í té upplýsingar um atriði sem þýðingu hafa fyrir rannsóknina og getur tollyfirvald eftir atvikum látið rannsaka atvinnuhúsnæði, reikningshald og bréfaviðskipti nefndra aðila.
    Ráðherra getur með nánar ákveðnum skilyrðum löggilt innlend samtök til að gefa út ábyrgðarskjöl og ábyrgjast gagnvart yfirvöldum í öðrum ríkjum greiðslu gjalda af vörum sem útfluttar eru héðan til tímabundinna nota eða til umflutnings í því ríki þegar um er að ræða útflutningsvörur sem lúta sérstakri meðferð samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að.
    Ráðherra getur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sett nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

XXI. KAFLI
Tollgæsla.
146. gr.
Tollgæsluvald.

    Í tollgæsluvaldi felst heimild til þess að beita úrræðum samkvæmt þessum kafla til þess að tryggja að farið sé eftir þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem tollstjórar bera ábyrgð á að framfylgja.

147. gr.
Handhafar tollgæsluvalds.

    Tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir fara með tollgæsluvald samkvæmt lögum þessum.
    Fjármálaráðherra er heimilt í undantekningartilvikum að fela öðrum starfsmönnum tollstjóra tollgæsluvald tímabundið til að sinna sérstökum verkefnum.
    Lögreglumenn fara með tollgæsluvald þegar þeir annast eða aðstoða við tollgæslu.
    Skipshafnir varðskipa fara með tollgæsluvald þegar þær annast eða aðstoða við tollgæslu.
    Þeir sem kvaddir eru tollgæslunni til aðstoðar lögum samkvæmt fara með tollgæsluvald meðan þeir gegna starfinu.

    Skyldur tollgæslu og framkvæmd tollgæslustarfa.
    148. gr.
    Almennar reglur.

    Handhöfum tollgæsluvalds ber að sýna árvekni í starfi og kunna glögg skil á skyldum sínum og þeirri ábyrgð sem starfinu fylgir.
    Handhöfum tollgæsluvalds ber að rækja starfa sinn af kostgæfni og samviskusemi og ávallt gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni. Þeir skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur. Ekki mega þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til þess að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum né á annan hátt beita hann ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum.

149. gr.
Einkenni tollvarða.

    Við framkvæmd starfa sinna skulu tollverðir að jafnaði vera einkennisklæddir og ávallt bera á sér og sýna ef með þarf einkennismerki sem ber skjaldarmerki ríkisins og áletrunina „Tollmerki Íslands“ auk nafns þeirra og stöðu, ásamt mynd.
    Ráðherra setur nánari reglur um einkennisfatnað og skilríki tollvarða með reglugerð.

150. gr.
Frjáls og óhindraður aðgangur tollgæslu.

    Tollgæslu er heimil umferð hvarvetna um strendur landsins og meðfram þeim, um hafnarsvæði og flugvelli.

151. gr.
Valdbeiting.

    Handhöfum tollgæsluvalds er heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.
    Handhöfum tollgæsluvalds er heimilt ef brýna nauðsyn ber til að nota handjárn og gasvopn við skyldustörf. Ráðherra skal að höfðu samráði við dómsmálaráðherra setja reglur um hvaða tollvörðum verði heimilað að bera og beita slíkum búnaði, um notkun hans og þjálfun tollvarða.

152. gr.
Heimild til að fela lögreglu og landhelgisgæslu tollgæslustörf.

    Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra geta ákveðið að þar sem henta þykir skuli lögreglumenn gegna tollgæslustörfum jafnframt öðrum löggæslustörfum.
    Tollstjóri getur falið starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands að annast tollgæslu.

153. gr.
Heimild til að fela tollvörðum löggæslustörf.

    Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra geta ákveðið að þar sem henta þykir skuli tollverðir gegna löggæslustörfum jafnframt öðrum tollgæslustörfum.

Handtaka, leit og hald á munum.
154. gr.
Handtaka.

    Handhöfum tollgæsluvalds er heimilt að handtaka mann sem staðinn er að eða grunaður er um brot gegn lögum þessum og yfirheyra eða fá hann lögreglunni í hendur.

155. gr.
Leit í förum og farartækjum.

    Tollgæslu er heimilt að leita alls staðar í förum sem eru á tollsvæði ríkisins. Einnig er heimilt að leita í farartækjum sem eru á eða koma frá fermingar- og affermingarstöðum skipa og flugfara, svo og öðrum þeim stöðum þar sem ótollafgreiddar vörur eru eða hafa verið geymdar. Tollgæslu er enn fremur heimilt að leita í öllum farartækjum sem hún hefur rökstuddan grun um að flytji ólöglega innfluttar vörur.

156. gr.
Skoðun og rannsókn á vörum sem fluttar eru til landsins.

    Tollgæslu er heimilt að skoða og rannsaka allar vörur sem fluttar eru til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. Heimilt er að krefjast þess að vörurnar séu fluttar í húsakynni tollstjóra eða á annan tiltekinn stað þar sem tolleftirlit fer fram og þeim framvísað þar til skoðunar.
    Tollgæslu er heimilt að taka farangur farþega og áhafnar í sínar vörslur til skoðunar síðar. Getur viðkomandi krafist þess að farangurinn verði innsiglaður þar til skoðun fer fram. Skal hlutaðeigandi gefinn kostur á að vera viðstaddur skoðunina. Enn fremur skal honum látin í té fullnægjandi kvittun ef hann óskar þess.

157. gr.
Leit á geymslustöðum fyrir ótollafgreiddar vörur.

    Tollgæsla skal hafa frjálsan og óhindraðan aðgang til eftirlits og rannsóknar á ótollafgreiddum vörum sem geymdar eru á geymslusvæðum skv. 69. gr., svo og að öðrum húsum og stöðum þar sem ótollafgreiddar vörur eru geymdar eða hafa verið geymdar. Enn fremur er tollgæslu heimill aðgangur að atvinnuhúsnæði ef ætla má að þar séu geymdar vörur sem ekki hafa fengið löglega tollmeðferð.

158. gr.
Húsleit í framhaldi af beinni eftirför.

    Tollgæslu er heimilt að veita þeim mönnum eftirför sem skjóta sér undan eða grunaðir eru um að hafa skotið sér undan tolleftirliti með innfluttar vörur. Framkvæma má leit í húsum þegar um beina eftirför er að ræða og bið eftir úrskurði dómara veldur hættu á sakarspjöllum.

159. gr.
Leit á mönnum.

    Tollgæslu er heimilt að leita á mönnum sem eru í farartækjum, húsum eða á svæðum eða á leið frá farartækjum, förum, húsum eða svæðum þar sem tollvörðum er heimil rannsókn og skoðun á vörum.
    Leit á manni má aðeins framkvæma samkvæmt skipun æðsta tollvarðar sem er viðstaddur þegar leitarinnar er þörf. Skal framkvæma hana af svo mikilli tillitssemi sem unnt er og má hún aldrei verða víðtækari en nauðsynlegt er vegna tolleftirlitsins.
    Sá sem leita skal á skal eiga rétt á því að ákveðið vitni sé tilkvatt til að vera viðstatt þegar leit fer fram ef þess er kostur. Ber tollverði að benda sakborningi ótvírætt á þennan rétt.
    Nákvæm leit á manni skal framkvæmd af persónu af sama kyni.

160. gr.
Leit á ólögráða einstaklingum.

    Ef fyrirhuguð er leit á einstaklingi sem er ólögráða vegna aldurs skal þá þegar hafa samband við forsjáraðila hans og fulltrúa barnaverndarnefndar, í því umdæmi þar sem leit skal fara fram, og gefa þeim kost á að koma á staðinn án tafar og vera viðstaddir þegar leit fer fram.
    Ef fyrirhuguð er leit á einstaklingi sem er ólögráða af öðrum ástæðum en greinir í 1. mgr. skal þá þegar gera lögráðamanni viðvart og gefa honum kost á að koma á staðinn án tafar og vera viðstaddur þegar leit fer fram.

161. gr.
Hald á munum.

    Tollgæsla skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir, vegna brota á lögum þessum eða öðrum lögum.

162. gr.

    Hafi ferðamaður eða farmaður meðferðis hærri fjárhæð í reiðufé en sem nemur 15.000 evrum, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, meðferðis við komu til landsins eða brottför frá landinu er handhöfum tollgæsluvalds heimilt að leggja hald á fjármunina ef grunur leikur á um að þeir verði notaðir við framkvæmd brots gegn refsiákvæðum almennra hegningarlaga.
    Tollstjóri skal þegar tilkynna viðkomandi lögreglustjóra um haldlagningu skv. 1. mgr. sem tekur ákvörðun um framhald málsins.

163. gr.
Málsmeðferðarreglur laga um meðferð opinberra mála.

    Um leit, hald á munum, handtöku og aðra málsmeðferð gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála nema öðruvísi sé kveðið á um í þessum kafla.
    Um rannsókn, yfirheyrslu grunaðra manna og skýrslutökur gilda ákvæði 191.–193. gr. laga þessara.

Innsigli og aðrar takmarkanir.
164. gr.
Innsigli.

    Heimilt er að innsigla eða setja læsingar tollgæslu fyrir farmrými og vistageymslur fara og farartækja, vörugeymslur eða aðra staði þar sem ótollafgreiddar vörur eru geymdar. Enn fremur er heimilt að innsigla eða auðkenna ótollafgreiddar vörusendingar meðan á geymslu eða flutningi stendur. Skylt er stjórnendum fara og farartækja og forstöðumönnum vörugeymslna að veita tollgæslu aðstoð við innsiglun og lokun, svo og að vekja athygli tollgæslu á þeim stöðum þar sem innsiglun eða læsing kemur ekki að haldi.
    Tollstjórinn í Reykjavík ákveður gerð innsigla og setur reglur um notkun þeirra.
    Verði læsingu eða innsiglun ekki við komið getur tollstjóri krafist þess að varsla varanna eða flutningur fari fram undir tolleftirliti á kostnað vörsluhafa eða farmflytjanda.
    Innsigli og læsingar tollgæslu má enginn nema tollvörður rjúfa innan tollsvæðis ríkisins eða í fari eða farartæki á leið milli staða á tollsvæðinu.

165. gr.
Far einangrað.

    Tollgæsla getur kvíað af far sem komið er í höfn eða á flugvöll, svo og bannað umferð á svæðum þar sem ferming eða afferming vöru fer fram eða farþegar fara um á leið til eða frá fari í utanlandsferðum. Tollgæsla getur ákveðið að farþegar eða aðrir megi einungis fara frá borði eða stíga um borð á ákveðnum stað eða á ákveðnum tíma. Einnig getur tollgæsla ákveðið, í samráði við hafnar- eða flugvallaryfirvöld, að ferming eða afferming fars skuli fara fram á tilteknum stað sem hentugastur þykir til eftirlits hverju sinni.

Skylda til að aðstoða tollgæslu og hlýða fyrirmælum.
166. gr.
Skylda til að aðstoða tollgæslu.

    Ef nauðsyn ber til getur tollgæsla kvatt sér til aðstoðar hvern fulltíða mann. Maður er skyldur til að hlýða kvaðningu tollgæslu ef hann getur veitt aðstoð án þess að stofna lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sjálfs sín eða nánustu vandamanna í hættu.
    Þeir sem kvaddir eru tollgæslu til aðstoðar skv. 1. mgr. fara með tollgæsluvald meðan þeir gegna starfinu og njóta sömu verndar og tollverðir.

167. gr.
Skylda til að aðstoða við tollskoðun.

    Innflytjendum og vörsluhöfum ótollafgreiddrar vöru er skylt að aðstoða við tollskoðun með því að framvísa vöru að beiðni tollgæslu, opna töskur og aðrar umbúðir, taka upp úr þeim, loka þeim aftur að skoðun lokinni og veita alla þá aðstoð og upplýsingar sem leitað er eftir. Sinni innflytjandi eða vörsluhafi ekki skyldu sinni til að aðstoða við tollskoðun er tollstjóra heimilt að fela tollvörðum eða öðrum starfsmönnum tollstjóra að vinna verkið eða ráða menn til starfsins og innheimta hjá innflytjanda eða vörsluhafa þóknun er nemur kostnaði.
    Stjórnendum farartækja er skylt að stöðva þau þegar tollvörður gefur um það merki.
    Stjórnendum fara og farartækja er skylt að veita tollgæslu alla þá aðstoð og upplýsingar sem leitað er eftir. Þeim er einnig skylt að fara eftir fyrirmælum tollgæslu sem lúta að því að tryggja eftirlit með fermingu og affermingu.

168. gr.
Bann við að tálma tollgæslu í störfum sínum.

    Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni tollgæslustörfum eða óhlýðnast fyrirmælum sem tollgæslan gefur í því skyni að vinna að framkvæmd laga þessara.

XXII. KAFLI
Refsiábyrgð, viðurlög og málsmeðferð.
Refsiábyrgð og refsingar.

169. gr.

    Refsa skal fyrir þau brot á lögunum er falla undir verknaðarlýsingar ákvæða í kafla þessum. Tilraun til brota og hlutdeild í brotum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
    Brotin varða refsingu ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi, nema annað sé sérstaklega tekið fram.
    Gera má lögaðila fésekt, einum sér eða ásamt einstaklingum honum tengdum, eftir því sem nánar er kveðið á um í einstökum ákvæðum kaflans. Sama gildir um greiðsluábyrgð lögaðila á sekt sem fyrirsvarsmanni hans eða öðrum starfsmönnum kann að vera gerð.
    

170. gr.

    Það er ólöglegur innflutningur, sem varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef vara er flutt til landsins frá útlöndum eða frá tollfrjálsu svæði án þess að tollyfirvöldum sé gerð grein fyrir henni samkvæmt fyrirmælum laga þessara. Sama gildir ef vara er fjarlægð úr geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur eða tekin til notkunar án heimildar tollyfirvalda.
    Það telst enn fremur ólöglegur innflutningur, er varðar sömu refsingu, ef ótollafgreidd vara sem flutt hefur verið um borð í far til útflutnings eða vara sem útflutningur hefur verið leyfður á gegn lækkun eða niðurfellingu á tolli eða öðrum gjöldum er án heimildar tollyfirvalda flutt aftur úr farinu eða á annan hátt skotið undan útflutningi.
    Verði eigandi vörunnar ekki fundinn skal refsa stjórnanda farsins fyrir saknæmt brot eða ábyrgðaraðila farsins, lögaðila eða einstaklingi, óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar starfsmanns ábyrgðaraðilans eða ábyrgðaraðilans sjálfs ef hann er einstaklingur. Ábyrgðaraðila farsins verður eingöngu gerð sekt.
    Það varðar sektum ef stjórnendur eða aðrir yfirmenn gera ekki það sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning með förum þeirra eða vanrækja nauðsynlegt eftirlit í því skyni.

171. gr.

    Hver sem selur eða afhendir, kaupir eða veitir viðtöku vöru, þótt hann viti eða megi vita að hún sé ólöglega innflutt, skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Meðferð ávinnings af brotum gegn lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í 264. gr. almennra hegningarlaga.

172. gr.

    Hver sem veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti vöru eða vanrækir að leggja fram tilskilin gögn samkvæmt lögum þessum vegna innflutnings vöru skal sæta sektum sem að lágmarki nema tvöföldum en að hámarki tíföldum aðflutningsgjöldum af því tollverði sem dregið var undan álagningu aðflutningsgjalda. Álag á toll og önnur aðflutningsgjöld skv. 86. gr. dregst frá sektarfjárhæð.
    Hver sem veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti vöru eða vanrækir að leggja fram tilskilin gögn samkvæmt lögum þessum vegna útflutnings vöru skal sæta sektum.
    Tollmiðlari sem aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf eða veitir rangar eða villandi upplýsingar við tollskýrslugerð vegna inn- eða útflutnings, beiðnir um tollafgreiðslu vöru eða við greiðslu aðflutningsgjalda skal sæta refsingu skv. 1. mgr.
    Hafi brot gegn 1. eða 3. mgr. verið framið af ásetningi varðar það auk sekta fangelsi allt að sex árum ef brotið er ítrekað eða miklar sakir að öðru leyti.

173. gr.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar, að láta í té eða valda því að látin séu í té skjöl eða vottorð sem eru röng í mikilvægum atriðum um uppruna útflutningsvöru eða önnur atriði um hana sem eiga að tryggja að varan njóti fríðinda við innflutning í annað ríki eða teljist hæf til svæðistollmeðferðar þar vegna milliríkjasamninga.
    Nú hefur ráðherra veitt einstaklingi, félagi eða stofnun leyfi til að gefa út skjöl þau og vottorð sem nefnd eru í 1. mgr., en ekki verður sannað hver hafi undirritað þau, og má þá gera viðkomandi leyfishafa sekt ef hann er einstaklingur og hefur ekki sýnt nægilega varkárni um meðferð eða vörslu skjalanna. Sama gildir um forsvarsmann lögaðila ef lögaðilinn er leyfishafi.
    Einnig má gera lögaðila sekt fyrir brot gegn ákvæði þessu, óháð því hvort brotið verði rakið til saknæms verknaðar starfsmanns lögaðilans, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

174. gr.

    Sá sem rýfur eða fjarlægir tollinnsigli eða önnur tolleinkenni skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Sömu refsingu skal sá sæta sem á ólögmætan hátt aflar sér aðgangs að vörum sem eru undir tollinnsigli án þess að rjúfa innsiglið eða fjarlægja það.
    Sé lás eða innsigli tollgæslunnar rofið eða fjarlægt, án þess að sá seki finnist, skal vörsluhafi vörunnar eða annar ábyrgðarmaður hennar sæta sektum ef kenna má vanrækslu hans eða starfsfólks hans um brotið. Sama gildir ef vörsluhafi hefur látið undir höfuð leggjast að tilkynna tollyfirvöldum um brotið strax og hann varð þess var eða hefur vanrækt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til varnar því að hin innsiglaða vara yrði fjarlægð eða ástandi hennar breytt.

175. gr.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að selja eða láta á annan hátt af hendi vöru sem flutt hefur verið tollfrjálst til landsins samkvæmt lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, ef viðtakandi nýtur ekki tollfríðinda samkvæmt þeim lögum.
    Sömu refsingu varðar að taka við slíkum vörum, svo og að taka að sér að selja þær vörur, enda liggi ekki fyrir, er viðskiptin fara fram, fullar sannanir fyrir því að aðflutningsgjöld hafi verið greidd af vörunum og öðrum innflutningsskilyrðum fullnægt.
    Sömu refsingu varðar það enn fremur að flytja eða reyna að flytja vörur út af samningssvæðum samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku sem fluttar hafa verið inn tollfrjálst. Sé varan flutt í farartæki og verði eigandi hennar ekki fundinn ber stjórnandi farartækisins ábyrgð á brotinu ef hann hefur sýnt af sér gáleysi við vöruflutninginn.

176. gr.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef miklar sakir eru, hafi maður misnotað leyfi, ívilnanir eða tollfríðindi sem honum hafa verið veitt samkvæmt heimild í 7. eða 8. gr. eða öðrum reglum settum samkvæmt lögum þessum.
    Einnig má gera lögaðila sekt fyrir brot gegn ákvæði þessu, óháð því hvort brotið verður rakið til saknæms verknaðar starfsmanns lögaðilans, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

177. gr.

    Það varðar stjórnanda, eiganda eða umráðamann fars sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef tilskilin skjöl og skilríki fylgja ekki fari, ekki er gerð þar grein fyrir öllum vörum svo sem skylt er eða skjölin eru ekki gerð eins og fyrir er mælt í lögum þessum eða öðrum reglum settum samkvæmt þeim, eða vanrækt er að afhenda þau tollgæslumanni.
    Sömu refsingu varðar það stjórnanda fars ef við komu þess frá útlöndum eru eigi gefnar upp, eigi finnast í farinu eða ekki er á annan hátt gerð viðhlítandi grein fyrir vörum sem samkvæmt skýrslum tollyfirvalda á viðkomustað farsins erlendis hafa verið teknar um borð í farið þar og stjórnandi þess vissi eða mátti vita um. Sama gildir um birgðir sem samkvæmt innsiglisskrá hafa verið geymdar meðal innsiglisbirgða farsins, enda sé um að ræða verulegt magn umfram nauðsynlegar og eðlilegar birgðir þess. Sömu refsingu skulu og þeir af áhöfn farsins sæta sem undirritað hafa móttökuskilríki eða innsiglisskrá yfir slíkan varning.
    Einnig má gera lögaðila sekt fyrir brot gegn ákvæði þessu, óháð því hvort brotið verði rakið til saknæms verknaðar starfsmanns lögaðilans, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af því.

178. gr.


    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef stjórnandi farartækis eða afgreiðslumaður vörugeymslu afhendir ótollafgreidda vöru án leyfis tollstjóra. Sömu refsingu varðar það að veita viðtöku vöru sem er ólöglega afhent.

179. gr.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að gefa, selja eða afhenda á annan hátt til brottflutnings úr fari forða, aðra muni eða vöru sem heimilt er að hafa tollfrjálsa í fari nema aðflutningsgjöld hafi áður verið greidd og öðrum fyrirmælum laga um innflutning fullnægt.

180. gr.

    Ef maður tálmar tollvörðum í því að sinna skyldustörfum sínum við tollgæslu eða óhlýðnast fyrirmælum sem tollverðir gefa við framkvæmd tollgæslustarfa varðar það sektum nema brotið varði þyngri refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.

Önnur viðurlög.
181. gr.

    Heimilt er að gera upptæka vöru sem flutt hefur verið ólöglega til landsins frá útlöndum eða frá tollfrjálsu svæði, eða á annan hátt farið með vöruna andstætt ákvæðum þessa kafla, óháð því hver eigandi vörunnar er og án tillits til eignarhafta sem á henni hvíla, nema vörsluhafi vörunnar hafi komist yfir hana á saknæman hátt.
    Nú þykir ekki ástæða til að gera vöru upptæka eða upptöku verður ekki við komið og er þá heimilt að gera upptækt hjá sökunaut andvirði vörunnar auk tolla og annarra gjalda af henni.
    Verði ekki upplýst hver hinn seki er skal varan að liðnum 30 dögum frá því að hún var flutt inn eða fannst verða eign ríkissjóðs án dóms eða úrskurðar.
    Eignaupptöku er heimilt að beita þótt refsiábyrgð verði ekki komið fram.

182. gr.

    Ef um stórfellt brot er að ræða eða sakir eru að öðru leyti miklar er heimilt að gera upptæk farartæki sem notuð hafa verið til þess að fremja brot. Upptaka er heimil þótt sökunautur sé annar en eigandi farartækis ef sannað þykir að eigandinn hafi vitað eða mátt vita í hvaða skyni nota átti farartækið. Í stað farartækis má gera andvirði þess upptækt.

183. gr.

    Farartæki sem notað hefur verið eða reynt hefur verið að nota til þess að flytja vörur ólöglega til landsins eða til flutnings á slíkum vörum á tollsvæði ríkisins skal vera að veði til tryggingar gjöldum, sektum og kostnaði sem stjórnanda farartækis, áhöfn eða öðrum starfsmönnum þess verður gert að greiða, og má kyrrsetja það og selja við nauðungarsölu til lúkningar framangreindum gjöldum og kostnaði án undangenginnar aðfarargerðar eða áskorunar til eiganda og með þeim hætti sem segir í 128. gr.
    Eigi sökunautur lögheimili eða eignir hér á landi skal þó jafnan reynd aðför hjá honum áður en gengið er að veðinu, en eigi raskar það rétti til kyrrsetningar skv. 1. mgr.

184. gr.

    Heimilt er að svipta mann réttindum skv. 68. gr. almennra hegningarlaga sem sekur hefur gerst um stórfellt eða ítrekað brot á ákvæðum þessa kafla.
    Nú hefur maður öðlast starfsleyfi samkvæmt lögum þessum til þess að vera tollmiðlari, reka geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur eða til að stunda önnur sambærileg störf, og má þá svipta hann leyfinu ef hann hefur brotið gegn refsiákvæðum þessa kafla eða með öðrum hætti sýnt stórfellda vanrækslu í starfi sínu. Um tímalengd sviptingar og endurskoðun ákvörðunar fer eftir ákvæðum 68. gr. og 68. gr. a almennra hegningarlaga.

Rannsókn, málsmeðferð og fyrning.
185. gr.

    Tollstjórar annast rannsókn brota gegn refsiákvæðum þessa kafla að svo miklu leyti sem slík rannsókn er ekki í höndum lögreglu. Skulu þeir hvenær sem þess gerist þörf hefja rannsókn út af rökstuddum grun eða vitneskju um refsivert brot. Hafi tollstjóri utan Reykjavíkur rökstuddan grun um að stórfellt brot gegn lögunum hafi verið framið skal hann þegar tilkynna það til tollstjórans í Reykjavík sem veitir þá aðstoð við rannsóknina er þurfa þykir.
    Lögreglu er skylt að veita tollstjóra nauðsynlega aðstoð í þágu rannsóknar með því að færa mann til skýrslugjafar hjá tollstjóra ef hann hefur að forfallalausu ekki sinnt kvaðningu þess efnis.
    Um heimildir tollgæslu til valdbeitingar, handtöku, leitar, haldlagningar og innsiglunar gilda ákvæði 151. gr. og 154.–163. gr.
    Um rannsókn, yfirheyrslu grunaðra manna og aðrar skýrslutökur fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.

186. gr.

    Ef ætlað brot gegn refsiákvæðum þessa kafla varðar einnig við almenn hegningarlög eða önnur sérrefsilög eða tengist brotum gegn almennum hegningarlögum eða öðrum sérrefsilögum, þar á meðal lögum um ávana- og fíkniefni, skal tollstjóri þegar tilkynna það viðkomandi lögreglustjóra sem tekur ákvörðun um framhald rannsóknarinnar.
    Beiðni erlendra tollyfirvalda um aðstoð við rannsókn mála sem hlutaðeigandi yfirvöld annast skal senda til tollstjórans í Reykjavík. Telji tollstjórinn í Reykjavík að íslenskum tollyfirvöldum beri samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum að veita umbeðna aðstoð annast hann rannsókn málsins nema rannsókn þess heyri undir lögreglu samkvæmt þessari grein.
    Tollstjóra ber að hafa samvinnu við lögreglu og ákæruvald um rannsókn mála þegar tilefni er til þess eða eftir því er óskað af hálfu lögreglustjóra. Á sama hátt ber lögreglustjóra að hafa samvinnu við tollyfirvöld um rannsókn mála ef sérstaklega reynir á sérþekkingu tollgæslu eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í tollamálum. Heimilt er að kveða nánar á um samskiptin með reglugerð.

187. gr.

    Um saksókn og málsmeðferð vegna brota gegn refsiákvæðum þessa kafla skal farið að hætti opinberra mála.
    Tollstjóra er þó heimilt að ákveða sekt fyrir ólöglegan innflutning eða önnur brot gegn ákvæðum þessa kafla ef brot er skýlaust sannað og ætla má að það varði ekki hærri sekt en 300.000 kr., enda játist sökunautur undir þá ákvörðun og greiði sektina þegar í stað. Við slíka sektarákvörðun skal greina í bókun, skýrt og stuttlega, frá því broti sem um er að tefla, refsiákvæði sem það varðar við og ítrekunarverkun á síðari brot, ef því er að skipta. Nú hefur skýlaust sannað brot einnig upptöku eignar í för með sér og getur tollstjóri undir því skilorði er nú var sagt eða 4. mgr. 181. gr. ákveðið eignaupptöku, enda fari verðmæti þess sem gera á upptækt eigi fram úr 300.000 kr.
    Sektir allt að 300.000 kr. fyrir helstu brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skulu ákveðnar í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum ríkissaksóknara. Í reglugerðinni skal tilgreint til hvaða tegunda brota hún tekur og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar ef veigamikil rök mæla með því.
    Þegar ákvörðun er tekin um sekt vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig, enda rúmist refsingin innan sektarmarka almennra hegningarlaga.
    Sektir og eignaupptaka samkvæmt þessari grein skulu ákveðnar af tollstjóra, löglærðum fulltrúa hans eða tollvörðum. Þó skulu skulu sektir og eignaupptaka samkvæmt þessari grein ákveðnar af tollstjóra eða löglærðum fulltrúa hans ef mál varðar brot sem ekki er tilgreint í reglugerð ráðherra, sbr. 3. mgr.
    Senda skal ríkissaksóknara skrá um mál sem lokið er skv. 2. mgr. eftir þeim reglum sem dómsmálaráðherra setur, en m.a. skulu ákvæði 19. og 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, gilda um færslu á sakaskrá og leiðbeiningu ríkissaksóknara um sektarfjárhæð fyrir hverja tegund brota.
    Nú telur saksóknari að saklaus maður hafi verið látinn undirgangast greiðslu sektar eða maður hafi ranglega verið látinn sæta upptöku eignar, sbr. 2. mgr., eða verið látinn gangast undir fjarstæð málalok að öðru leyti eða mál sem lokið er samkvæmt sama ákvæði hefði átt að ganga til dóms og getur hann þá borið málið undir dómara til ónýtingar á ákvörðun tollyfirvalda.

188. gr.

    Sektir fyrir brot á refsiákvæðum þessa kafla og andvirði upptækrar vöru skulu renna í ríkissjóð.

189. gr.

    Sök samkvæmt ákvæðum þessa kafla fyrnist á fimm árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum tollstjóra eða lögreglustjóra enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Um upphaf og stöðvun fyrningarfrests fer að öðru leyti eftir ákvæðum 82. gr. almennra hegningarlaga.

XXIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
190. gr.
Þagnarskylda.

    Starfsmönnum tollstjóra ber þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara vegna lögmætra almanna- og einkahagsmuna. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, þ.m.t. hvers konar vitneskja sem ráða má af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir. Einnig tekur þagnarskylda til upplýsinga er varða starfshætti tollstjóra, þ.m.t. fyrirhugaða tollrannsókn og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum tollstjóra eða eðli máls.
    Þagnarskyldan helst þó látið sé af starfi.

191. gr.

    Samþykki Alþjóðatollastofnunin breytingar á tollnafnaskrá stofnunarinnar eða skýringum við tollnafnaskrána, úrskurði eða gefi út túlkun um tollflokkun eða nýja samræmda tollnafnaskrá sem hefur í för með sér breytta flokkun á vörum í tollskrá er ráðherra heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á tollskránni, m.a. með því að fella niður, breyta eða taka upp ný tollskrárnúmer. Ráðherra er jafnframt heimilt að fella niður eða taka upp ný tollskrárnúmer ef þess gerist þörf, t.d. til að afla megi nauðsynlegra upplýsinga til hagskýrslugerðar.
    Breytingar á tollskrá skv. 1. mgr. skulu birtar í A-deild Stjórnartíðinda og hafa ekki afturvirkt gildi. Breytingarnar skulu ekki hafa áhrif á tolla eins og þeir hafa verið ákveðnir í tollskrá, gjöld eða gjaldfrelsi, heimildir, takmarkanir og annað sem kveðið er á um í öðrum lögum.
    Ráðherra er heimilt að sameina í eitt tollskrárnúmer vörur sem koma til landsins eða fara frá landinu með hraðsendingum eða póstsendingum í einu númeri og eru að tollverðmæti 25.000 kr. eða minna. Slík breyting skal þó ekki hafa áhrif á fjárhæð tolls af viðkomandi vörum.

192. gr.

    Ráðherra setur reglur um almennan tollafgreiðslutíma. Tollstjóri getur heimilað að afgreiðsla fari fram á öðrum tímum, enda greiði viðkomandi þann kostnað sem af því leiðir.
    

193. gr.

    Ráðherra setur reglur um skil tollstjóra á upplýsingum til Hagstofu Íslands úr aðflutnings- eða útflutningsskjölum og öðrum gögnum, að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.

194. gr.

    Ráðherra skal hrinda í framkvæmd ákvæðum í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, svo og bókunum og viðaukum við slíka samninga sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra.
    Ráðherra getur samið við önnur ríki um samstarf á sviði tollmála, m.a. til að samræma og einfalda tollmeðferð vegna gagnkvæmra upplýsingaskipta og innheimtu vangreiddra gjalda og til að vinna gegn ólöglegum innflutningi og útflutningi.

195. gr.

    Ráðherra setur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

196. gr.

    Ákvæði laga þessara um flokkun vara, álagningu, innheimtu, lögveð, tilhögun bókhalds, aðflutnings- og útflutningsskýrslur og önnur skjöl, eftirlit, stöðvun tollafgreiðslu, viðurlög, sektir, refsingar og aðra framkvæmd varðandi toll skulu gilda eftir því sem við getur átt um aðflutningsgjöld og útflutningsgjöld sem ákveðin eru samkvæmt öðrum lögum, nema annað sé þar ákveðið.

XXIV. KAFLI
Gjaldtökuheimildir.
197. gr.

    Heimilt er að innheimta eftirtalin gjöld vegna þjónustu tollstjóra í eftirfarandi tilvikum:
     1.      Tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma. Gjald þetta skal standa undir launakostnaði vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma.
     2.      Tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan tollhafna skv. 53. gr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði til og frá tollafgreiðslustað.
     3.      Bráðabirgðatollafgreiðslugjald sem skal standa straum af kostnaði við tolleftirlit vegna bráðabirgðatollafgreiðslu skv. 36. gr. Gjald þetta skal miðast við kostnað af útgáfu leyfis til bráðabirgðatollafgreiðslu og aksturskostnað í tengslum við skoðun vöru.
     4.      Neyðarleyfisgjald sem skal standa straum af kostnaði við tolleftirlit vegna útgáfu neyðarleyfis skv. 37. gr. Gjald þetta skal miðast við kostnað af útgáfu neyðarleyfis og aksturskostnað í tengslum við skoðun vöru.
     5.      Tjónamatsgjald vegna mats tollstjóra á vörum sem orðið hafa fyrir skemmdum, vöntun eða rýrnun. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði vegna framkvæmdar matsins.
     6.      Förgunargjald vegna eyðileggingar vöru að beiðni eiganda vörunnar, farmflytjanda eða leyfishafa geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur. Gjaldið skal standa straum af kostnaði við förgun vöru og aksturskostnaði vegna förgunar.
     7.      Fylgdargjald vegna kostnaðar af tollgæslu við flutning á ótollafgreiddum vörum. Gjaldtaka þessi er heimil þegar tollstjóri telur nauðsynlegt að fyrirskipa slíka gæslu eða þegar þess er sérstaklega óskað að tollgæsla sé viðstödd flutning ótollafgreiddra vara, affermingu eða fermingu fara, innsetningu ótollafgreidds varnings á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur o.fl. Gjaldið skal standa straum af aksturskostnaði og launakostnaði vegna fylgdar.
     8.      Eftirlitsgjald vegna tolleftirlits með fullvinnslu á landbúnaðarvörum sem fluttar eru til landsins tímabundið til fullvinnslu og endurútflutnings skv. 3. tölul. 8. gr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði og ferðakostnaði starfsmanna tollstjóra vegna tolleftirlits og kostnaði af aðkeyptri sérfræðiþjónustu við tolleftirlit.
     9.      Tollalínugjald vegna upplýsinga- og gagnamiðlunar úr tölvukerfi tollstjóra (tollalínu). Gjald þetta skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu m.a. úrvinnslu gagna og flutning þeirra um upplýsingaveitur.
     10.      Innsiglisgjald vegna vinnu við að innsigla vörur eða rjúfa innsigli skv. 164. gr. Gjaldið skal standa straum af aksturskostnaði til og frá þeim stað þar sem innsiglun eða rof innsiglis fer fram.
     11.      Eftirlitsgjald vegna tolleftirlits um borð í skemmtiferðaskipum hafi þau verið undanþegin ákvæðum um innsiglun forða, sbr. 5. mgr. 57. gr.
     12.      Eftirlitsgjald vegna tolleftirlits með tollfrjálsum forðageymslum, tollfrjálsum verslunum og tollfrjálsum birgðageymslum þeirra og frísvæðum.
    Ákvæði 1. og 2. tölul. taka hvorki til erlendra herskipa eða herflugvéla né skipa eða flugfara í opinberri eigu sem ferðast eingöngu í opinberum erindagerðum og flytja hvorki vörur né farþega gegn greiðslu. Sama gildir ef far leitar hafnar samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, vegna neyðar, slysa, sjúkdóma manna um borð eða annars ófarnaðar.
    Gjaldtaka tollstjóra skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er.
    Tollstjóra er heimilt að gera langtímasamning skv. 1. mgr. fyrir notkun þjónustu.

198. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006 og taka til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku þeirra. Frá sama tíma falla úr gildi tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Viðaukar II–IV við þau lög, með áorðnum breytingum, verða þó viðaukar II–IV við lög þessi.
    Reglugerðir og öll önnur fyrirmæli sem sett hafa verið samkvæmt tollalögum, nr. 55/1987, skulu þó halda gildi sínu, að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við ákvæði laga þessara, uns nýjar reglugerðir og fyrirmæli hafa verið gefin út.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Aðilar sem hafa fengið viðurkenningu tollstjóra til reksturs geymslu- og afgreiðslustaðar fyrir ótollafgreiddar vörur eða leyfi ráðherra til reksturs almennrar tollvörugeymslu, tollfrjálsrar forðageymslu, tollfrjálsrar verslunar eða frísvæðis fyrir gildistöku laga þessara skulu innan eins árs frá gildistöku laganna senda ráðherra eða tollstjóra eftir atvikum umsókn um starfsleyfi.
    Hafi umsókn frá aðilum sem um getur í 1. mgr. ekki borist innan eins árs frá gildistöku laganna skal viðurkenning þeirra eða leyfi falla úr gildi.Viðauki I.


Tollskrá.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.I. Almennar athugasemdir.
    Á árinu 2001 fól fjármálaráðherra sérstakri nefnd að endurskoða gildandi tollalög. Þeirri vinnu lauk snemma árs 2004 með því að nefndin skilaði ráðherra drögum að frumvarpi til tollalaga. Í tollalaganefnd áttu sæti Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur í fjármálaráðuneyti, formaður, Lilja Sturludóttir, lögfræðingur í fjármálaráðuneyti, Sigurður Skúli Bergsson, forstöðumaður tollgæslusviðs tollstjórans í Reykjavík, og Guðrún Sigtryggsdóttir, forstöðumaður tollheimtusviðs tollstjórans í Reykjavík. Ritari nefndarinnar var Svana M. Davíðsdóttir, lögfræðingur hjá tollstjóranum í Reykjavík.
    Frumvarpið byggist meginatriðum á frumvarpi til tollalaga sem var lagt fram til kynningar á 130. löggjafarþingi 2003–2004. Að lokinni kynningu á Alþingi var frumvarpið sent til umsagnar fjölmargra aðila. Þær athugasemdir sem bárust hafa verið yfirfarnar í fjármálaráðuneytinu og þónokkrar breytingar hafa verið gerðar á því frumvarpi sem var lagt fram til kynningar. Helsta breytingin lýtur að skiptingu landsins í tollumdæmi. Í þessu frumvarpi er horfið frá hugmyndum um fækkun tollumdæma og lagt til að afmörkun þeirra verði óbreytt frá gildandi lögum, m.a. í ljósi þess að tillögur um breytta skipan lögreglustjórnar á landsvísu liggja ekki fyrir. Komi til breytinga á skipulagi lögreglustjórnar á landsvísu er óhjákvæmilegt að taka skipan tollumdæma til endurskoðunar. Þá voru gerðar nokkrar breytingar á verkaskiptingu á milli tollstjóra og lögregluyfirvalda. Aðrar breytingar voru minni í sniðum og verður ekki drepið á þær hér.
    Gildandi tollalög eru nr. 55/1987, með síðari breytingum. Um er að ræða lagabálk sem hvílir á gömlum merg þar sem hann var byggður á þrennum eldri lögum sem fjölluðu um tollamálefni. Skal þar fyrst telja lög nr. 43/1960, um tollvörugeymslur o.fl., lög nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, og loks lög nr. 120/1976, um tollskrá o.fl. Við setningu gildandi tollalaga árið 1987 var markmiðið að búa til ein heildarlög sem tækju til allra meginþátta tollheimtu og tolleftirlits. Var áðurnefndum þrennum lögum því steypt saman í ein heildarlög í því skyni að hafa í einum lagabálki ákvæði sem snerta tollmeðferð og tollheimtu við innflutning og útflutning á vörum. Á þeim 17 árum sem liðin eru frá gildistöku núgildandi tollalaga hafa miklar breytingar orðið í starfsumhverfi tollyfirvalda sem kalla á heildarendurskoðun laganna. Gerð er grein fyrir þessum breytingum hér á eftir.
    Frá því að gildandi tollalög tóku gildi hefur hlutfall tolla af skatttekjum ríkissjóðs farið lækkandi. Árið 1986 voru tollar 8% af skatttekjum ríkissjóðs. Tíu árum síðar hafði hlutfallið lækkað í 3% og árið 2003 var hlutfallið komið niður í 1%. Ástæða lækkunarinnar er að gjaldtaka í formi tolla hefur verið á undanhaldi, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Auk tolla eru ýmis gjöld lögð á og innheimt við tollafgreiðslu á innfluttum vörum. Þau eru eftirfarandi:
     1.      Tollar samkvæmt tollalögum, nr. 55/1987.
     2.      Virðisaukaskattur samkvæmt virðisaukaskattslögum, nr. 50/1988.
     3.      Almenn vörugjöld samkvæmt lögum um vörugjald, nr. 97/1987.
     4.      Vörugjöld af ökutækjum og eldsneyti samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
     5.      Áfengisgjald og tóbaksgjald samkvæmt lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995.
     6.      Úrvinnslugjald samkvæmt lögum nr. 162/2002.
     7.      Skilagjald á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plasti samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989.
     8.      Höfundarréttargjald á bönd, diska, plötur o.fl. samkvæmt höfundalögum, nr. 73/1972,
     9.      Flutningsjöfnunargjald á olíuvörur samkvæmt lögum nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.
     10.      Eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum samkvæmt lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
     11.      Eftirlitsgjald af fóðri, áburði og sáðvöru samkvæmt lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
     12.      Eftirlitsgjald vegna innflutnings plantna samkvæmt lögum nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum.
    Þau aðflutningsgjöld sem skila ríkissjóði mestum tekjum auk tolla eru margvísleg vörugjöld, einkum á bifreiðar og bensín, svo og áfengisgjald.
    Frá því að gildandi tollalög tóku gildi 1987 hefur íslenskt viðskiptaumhverfi breyst mikið. Aukinn hraði í viðskiptum í kjölfar örra framfara á sviði tölvutækni og stórauknar samgöngur til annarra landa hafa leitt til þess að viðskiptalífið krefst aukinnar skilvirkni í því skyni að vöruviðskipti milli Íslands og annarra landa gangi greiðlega fyrir sig. Tollyfirvöld hafa á undanförnum árum brugðist við kröfum viðskiptalífsins með nýjum lausnum og í því sambandi má nefna að Ísland tók fyrst Norðurlanda upp rafræna tollafgreiðslu með skeytamiðlun árið 1991. VEF-tollafgreiðsla hófst síðan árið 2001 og var Ísland með fyrstu ríkjum til þess að taka upp almenna gagnvirka tollafgreiðslu á vefnum. Með því varð bylting í vinnuaðferðum tollyfirvalda sem leiddi m.a. af sér styttri tollafgreiðslutíma en áður. Jafnframt hafði breytingin í för með sér að breyta varð aðferðum við tolleftirlit þar sem tollskýrslur eru í sumum tilfellum ekki skoðaðar fyrr en eftir að vara hefur verið tollafgreidd. Endurskoðun tollalaga miðar að því að vöruviðskipti milli Íslands og annarra landa verði sem greiðust en um leið verði búið svo um hnútana að tollyfirvöld geti sinnt því hlutverki sínu að tryggja eftirlit með því að ólöglegur varningur berist ekki til landsins jafnframt því að álagning aðflutningsgjalda sé rétt.
    Þar til á allra síðustu árum hefur hefðbundið hlutverk tollgæslunnar verið að hafa eftirlit með innflutningi til landsins en nýverið hefur alþjóðasamfélagið sett fram kröfur um að tollgæslan annist einnig eftirlit með útflutningi. Árásir hryðjuverkamanna á borgirnar New York og Washington 11. september 2001 urðu til þess að yfirvöld í Bandaríkjunum, Evrópusambandið og ýmsar alþjóðastofnanir hafa lagt aukna áherslu á eftirlit tollyfirvalda með útflutningi til þess að tryggja vernd skipa og flugvéla, áhafna, farþega, farms, hafnarsvæða og flugvalla í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hryðjuverk og greina vopn og annan hættulegan varning í farmi skipa og flugvéla. Gera má ráð fyrir að þetta breytta umhverfi leiði í náinni framtíð til verulegra breytinga á starfsemi íslenskra tollyfirvalda varðandi eftirlit með vörum til útflutnings.
    Þótt ljóst væri í upphafi endurskoðunar tollalaga að huga þyrfti að fjölmörgum þáttum var óljóst hversu víðtækar breytingar yrðu lagðar til og hvort samið yrði frumvarp til breytinga á tollalögum eða frumvarp til nýrra tollalaga. Eftir því sem störfum nefndarinnar vatt fram kom æ betur í ljós að best færi á því að sett yrðu ný tollalög, enda lá fyrir að lögð yrðu til mörg nýmæli og fjölmargar breytingar á gildandi lögum. Þegar fyrir lá að lagt yrði fram frumvarp til nýrra tollalaga þótti ástæða til að huga sérstaklega að uppbyggingu frumvarpsins, með það fyrir augum að gera það eins aðgengilegt og skýrt og unnt væri. Sú athugun leiddi til uppstokkunar á greina- og kaflaskipan frumvarpsins, miðað við gildandi tollalög, og þykir hin nýja framsetning mun gleggri en hin eldri. Miðast framsetning frumvarpsins við það að unnt sé að fylgja ferli vöru frá því að hún berst til landsins þar til hún er tollafgreidd og ekki lengur háð eftirliti tollyfirvalda. Þannig er leitast við að hafa fremst í frumvarpinu þau atriði sem fyrst koma til athugunar við innflutning vöru, síðan er fjallað um það sem næst ber að skoða í ferlinu og svo koll af kolli. Þar sem efni frumvarpsins er mjög yfirgripsmikið er ekki unnt að halda þessari meginlínu algerlega hreinni þar sem í frumvarpinu eru einnig ákvæði um skipulag tollyfirvalda, veitingu starfa hjá tollyfirvöldum og margt fleira.

II. Helstu nýmæli frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu er að finna mörg nýmæli. Rétt þykir að gefa yfirlit yfir þau helstu til glöggvunar en umfjöllun um þau er einnig að finna í athugasemdum við hvern kafla og einstakar greinar, eftir því sem við á. Nýmælanna er hér getið í sem næst þeirri röð sem þau koma fyrir í frumvarpinu.

1.     Heimild til að fella niður toll af tækjum og öðrum búnaði sem fluttur er tímabundið hingað til lands vegna fundahalda, ráðstefna eða hátíðahalda.
    Mjög hefur færst í vöxt að ýmis erlend fyrirtæki og stofnanir komi hingað til lands til funda- og ráðstefnuhalds. Lagt er til að slíkum aðilum verði gert kleift að koma með tæki og búnað til landsins vegna slíkra funda. Undir heimildina geta t.d. fallið vörur eins og dúkar og borðbúnaður sem t.d. ber merki fyrirtækisins eða stærri tæki og öryggisbúnaður til að gæta að öryggi ráðstefnugesta. Þá getur verið um að ræða gjafir til starfsmanna eða annarra ráðstefnugesta sem þeir taka með sér úr landi að fundi loknum.

2.      Heimild til að fella niður toll af vöru vegna galla.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fella niður toll af endurinnfluttri vöru, sem send er til útlanda til viðgerðar á ábyrgðartíma, enda séu færðar sönnur á að viðgerð sé eiganda vörunnar að kostnaðarlausu og ábyrgð falin í upphaflegu tollverði vörunnar. Sama á við ef erlendur seljandi gallaðrar vöru í ábyrgð ákveður að senda nýja vöru í stað gallaðrar vöru. Þá getur kaupandi gallaðrar vöru með ákveðnum skilyrðum flutt inn án tolla nýja vöru í stað þeirrar gölluðu áður en hin gallaða vara hefur verið send úr landi eða henni fargað. Breyttir viðskiptahættir með lausafé milli landa (netviðskipti o.fl.) kalla á rýmri reglur en nú gilda að þessu leyti. Örar tækniframfarir og fjöldaframleiðsla kalla einnig á rýmkun þessara reglna, sér í lagi vegna þess að rafeindatæki eru oft þess eðlis að ekki svarar kostnaði að gera við þau og kýs framleiðandi þá gjarnan að senda kaupanda nýjan söluhlut í stað gallaðs.

3.      Skylda inn- og útflytjenda til að tollflokka vöru í tollskjölum samkvæmt almennun reglum um túlkun tollskrárinnar.
    Í gildandi tollalögum er ekki að finna sérstaka grein sem leggur með beinum hætti þessa skyldu á herðar inn- og útflytjendum heldur hefur mátt leiða hana af ákvæðum sem skylda þá til þess að fylla tollskjöl út með fullnægjandi hætti. Meginreglu þessari hefur verið fylgt í framkvæmd þótt hún hafi ekki verið orðuð með skýrum hætti í tollalögum fram að þessu en rétt þykir að það verði gert.

4.      Frestur til að láta tollstjóra í té aðflutningsskjöl styttur úr tólf mánuðum í sex mánuði.
    Rökin fyrir breytingunni eru þau að æskilegt er að fá viðeigandi upplýsingar um vörur í afgreiðslugeymslu (almennri geymslu farmflytjanda og tollmiðlara) sem fyrst og eigi síðar en sex mánuðum frá komudegi flutningsfars til landsins. Dæmi eru um að vörur sem eigendur hirða ekki um dagi uppi í slíkum geymslum sem getur leitt til þess að nauðsynlegt reynist að bjóða vörurnar upp til fullnustu aðflutningsgjalda. Í einhverjum tilvikum hefur þurft að farga vörum sem seldust ekki á uppboði. Veldur þetta óhagræði og kostnaði bæði fyrir tollyfirvöld og farmflytjendur. Með því að stytta skilafrest aðflutningsskjala er þess vænst að álagning og innheimta aðflutningsgjalda verði markvissari og minna verði um að vörur safnist upp í geymslum farmflytjenda.

5.      Hlutverk tollstjórans í Reykjavík.
    Í frumvarpinu er í tveimur greinum fjallað um hlutverk tollstjóra. Í fyrra ákvæðinu eru skilgreind helstu verkefni tollstjóra. Í síðara ákvæðinu er gerð grein fyrir þeim verkefnum sem tollstjórinn í Reykjavík annast fyrir landið allt. Með þessu er m.a. leitast við að draga fram með skýrum hætti mikilvægt stefnumótunar- og samræmingarhlutverk tollstjórans í Reykjavík í tollamálum á landsvísu, auk þeirra verkefna sem tollstjóranum í Reykjavík er falið að annast á landsvísu, t.d. áhættugreiningu og tollendurskoðun.

6.      Tollmiðlarar.
    Í frumvarpinu er tekið upp nýtt hugtak, tollmiðlari, yfir þá aðila sem taka að sér í atvinnuskyni að koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda. Sett eru fram ítarleg ákvæði um starfsemi tollmiðlara og starfsemi þeirra gerð leyfisskyld. Með tilkomu rafrænnar tollafgreiðslu hefur starfsemi umboðsmanna inn- og útflytjenda aukist verulega. Samkvæmt ákvæðum núgildandi tollalaga bera þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda ábyrgð á því að upplýsingar sem veittar eru tollyfirvöldum séu réttar og fullnægjandi að öllu leyti. Jafnframt bera umboðsmaður innflytjanda og innflytjandi sjálfur óskipta ábyrgð (sólidaríska) á greiðslu aðflutningsgjalda. Tollmiðlarar gegna þess vegna veigamiklu hlutverki við tollmeðferð vöru og er mikilvægt að kveða á um réttindi þeirra og skyldur með skýrari hætti en nú er gert í tollalögum.

7.      Skylda tollmiðlara til að kalla eftir gögnum.
    Í frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um að tollmiðlara er skylt að kalla eftir nauðsynlegum gögnum sem liggja skulu til grundvallar aðflutningsskýrslu áður en hann sendir rammaskeyti í tölvukerfi tollyfirvalda vegna SMT-tollafgreiðslu. Frá því að SMT-tollafgreiðsla var tekin upp árið 1991 hefur verið gengið út frá þessari reglu í framkvæmd en texti núgildandi laga hefur ekki verið fyllilega skýr að þessu leyti.

8.      Geymsla gagna sem liggja til grundvallar rafrænni aðflutningsskýrslu.
    Þegar rafræn tollafgreiðsla fer fram er mikilvægt að skrifleg gögn sem veita upplýsingar um þau atriði sem eiga að liggja til grundvallar tollskýrslu séu varðveitt með öruggum hætti. Í frumvarpinu eru dregnar skýrar línur varðandi það hverjir geyma hvaða gögn á hverjum tíma og hversu lengi. Það nýmæli er lagt til að tollmiðlari varðveiti viðeigandi skrifleg gögn í þrjá mánuði frá tollafgreiðsludegi. Þetta er lagt til í því skyni að gera tollstjórum hægara um vik að nálgast gögnin og annast lögboðna tollendurskoðun. Til þess að lágmarka óhagræði tollmiðlara af geymslu gagna er lagt til að geymslutími sé þrír mánuðir en eftir þann tíma hefur tollstjóri aðgang að viðkomandi gögnum hjá bókhaldsskyldum innflytjanda, sem er skylt að geyma gögnin í sex ár frá tollafgreiðsludegi. Þegar tollmiðlari annast rafræna tollafgreiðslu fyrir aðila sem ekki er bókhaldsskyldur er honum skylt að afhenda tollstjóra öll skrifleg gögn er varða tollafgreiðsluna að loknum þriggja mánaða geymslutíma.

9.      Skilgreining farmskrár lögfest.
    Í frumvarpinu er að finna lagaákvæði sem hefur að geyma nýmæli sem með almennum hætti gerir grein fyrir farmskrá og skyldu til að skrá inn- og útfluttar vörur á farmskrá. Rétt þykir að skilgreining farmskrár komi fram í tollalögum en svo er ekki í núgildandi lögum.

10.      Ótvíræður aðgangur tollstjóra að starfsstöðvum tollskyldra aðila.
    Í frumvarpinu er sett fram heimild tollstjóra til ótvíræðs aðgangs að gögnum tollskyldra aðila og aðgangs að starfsstöðvum tollskyldra aðila og birgðageymslum. Þá er tollstjóra jafnframt veitt heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta við tolleftirlit. Fyrirmynd ákvæðisins er sótt til laga um tekjuskatt og eignarskatt og laga um virðisaukaskatt.

11.      Skipun tollvarða í höndum tollstjóra.
    Sú breyting er lögð til í frumvarpinu að tollstjórar skipi aðaldeildarstjóra og deildarstjóra í tollgæslu. Samkvæmt gildandi lögum fer ráðherra með þetta hlutverk en eðlilegt þykir að tollstjóri skipi sína starfsmenn.

12.      Skylda Landhelgisgæslu til að veita tollstjórum upplýsingar um komu og brottför skipa í ferðum til og frá landinu.
    Sú skylda er lögð á herðar Landhelgisgæslunnar að veita tollstjórum upplýsingar um komu og brottför skipa í utanlandsferðum svo fljótt sem við verður komið. Landhelgisgæslan sinnir nú þegar upplýsingagjöf til lögreglu um komu og brottför skipa í utanlandsferðum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með ferðum fólks til og frá landinu. Tollstjóri hefur eftirlit með inn- og útflutningi á vörum og hefur því verulega hagsmuni af því að fá upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um komu og brottför skipa til að geta sinnt því eftirliti. Þykir eðlilegt að lögfesta ákvæði þar sem mælt er fyrir um að Landhelgisgæslan skuli láta tollstjóra umræddar upplýsingar í té. Ákvæðið felur í sér staðfestingu á núverandi framkvæmd þar sem tollstjórinn í Reykjavík hefur nú þegar aðgang að upplýsingum frá Landhelgisgæslu um komu og brottför skipa.

13.      Ótvíræð heimild tollstjóra til að ákveða hvar og hvernig geymslu vöru skuli háttað þegar innflutningur hennar er bannaður.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um ótvíræða heimild tollstjóra til að ákveða hvar og hvernig geymslu vöru skuli háttað þegar innflutningur hennar er bannaður. Í sumum tilvikum getur verið um að ræða vöru sem hætta stafar af eða aðrar ástæður mæla með sérstökum öryggisráðstöfunum varðandi geymslu hennar.

14.      Geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur.
    Í frumvarpinu er viðamikill kafli um geymslu á ótollafgreiddum vörum. Ákvæðin í þessum kafla frumvarpsins hafa tekið talsverðum breytingum frá samsvarandi ákvæðum í gildandi tollalögum. Í kaflanum er leitast við að færa hugtakanotkun til samræmis við þær málvenjur sem myndast hafa í tollframkvæmdinni. Helstu nýmæli sem sett eru fram í kaflanum eru eftirfarandi:
     a.      Lögfest er sú regla að við flutning vöru á frísvæði, í tollvörugeymslu, tollfrjálsa forðageymslu eða tollfrjálsa verslun skuli skrá vöruna inn á geymslusvæðið með nánar tilgreindum hætti. Við skráningu skal tilgreina nafn innflytjanda og skráningarnúmer, heiti og tegund vöru auk magns, þyngdar og verðmætis vöru. Þessi háttur hefur verið viðhafður í tíð núgildandi tollalaga en rétt þykir að kveða á um þessa skráningu í tollalögum.
     b.      Sett eru fram ákvæði um flutning ótollafgreiddra vara og skyldu þeirra sem reka geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur að tilkynna flutninginn. Í ákvæðunum er gerður greinarmunur annars vegar á flutningi úr fari eða afgreiðslugeymslu yfir á önnur geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur og hins vegar á flutningi á milli geymslusvæða annarra en afgreiðslugeymslna. Í fyrrnefnda tilvikinu er gert ráð fyrir að tollstjóri gefi til kynna innan 24 klukkustunda frá því að tilkynning um fyrirhugaðan flutning berst, hvort flutningur sé heimill eða varan skuli kyrrsett til frekari skoðunar. Í síðarnefnda tilvikinu er gert ráð fyrir að flutningur sé heimill án sérstaks leyfis tollstjóra en sú skylda er lögð á herðar leyfishafa geymslusvæðis að tilkynna tollstjóra um flutninginn áður en hann fer fram til þess að tollyfirvöld geti nálgast vöruna vegna tolleftirlits ef þörf krefur.
     c.      Mælt er fyrir um nákvæmar reglur um vörsluábyrgð leyfishafa viðurkenndra geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur. Jafnframt eru settar fram nákvæmar formreglur um með hvaða hætti vörsluábyrgð flyst á milli leyfishafa geymslusvæða við flutning ótollafgreiddrar vöru frá einu geymslusvæði til annars.
     d.      Fjallað er með nákvæmum hætti um greiðsluskyldu aðflutningsgjalda þegar vörur vantar í vörusendingu í fari eða á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Einnig er mælt fyrir um hvernig fara skal með birgðir á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur sem eru umfram þær birgðir sem skráðar eru í geymsluna. Slíkt ákvæði er ekki í gildandi tollalögum.
     e.      Leyfilegum geymslutíma ótollafgreiddra vara á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur er breytt í tveimur tilvikum. Geymslutími í afgreiðslugeymslu (geymslu farmflytjanda og tollmiðlara) er styttur úr einu ári í sex mánuði. Geymslutími í tollvörugeymslu er lengdur úr þremur árum í ótímabundinn geymslutíma.
     f.      Skýrt er kveðið á um hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að geta öðlast starfsleyfi til að reka geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur.
     g.      Heimilt verður að geyma saman tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur í tollvörugeymslu. Í gildandi tollalögum er ekki gert ráð fyrir blöndun tollafgreiddra og ótollafgreiddra vara í tollvörugeymslum.
     h.      Gert er að skilyrði að kaupandi framvísi brottfararspjaldi þegar kaup eru gerð í tollfrjálsri verslun við brottför úr landi.
     i.      Sett er fram lagaákvæði sem heimilar rekstur tollfrjálsrar komuverslunar í fríhöfn og allur vafi þar með tekinn af um lagagrundvöll fyrir rekstri komuverslunar.

15.      Áætlun aðflutningsgjalda.
    Í frumvarpinu er sett fram viðmiðunarregla er veitir tollstjóra leiðbeiningar um hvernig honum ber að áætla fjárhæð aðflutningsgjalda í þeim tilvikum lögin leggja slíka skyldu á hann. Ber honum að áætla tollverð vöru svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en raunverulegt verðmæti vörunnar og ákvarða aðflutningsgjöld í samræmi við þá áætlun. Við áætlunina skal tollstjóri hafa hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um vöruna, þar á meðal farmskrá, framlögðum gögnum ef einhver eru og meðaltalstölum Hagstofu yfir innfluttar vörur. Fyrirmynd ákvæðisins er sótt í sambærileg ákvæði í skattalögum.

16.      Viðmiðunarreglur um magn forða í skip eða flugvél í millilandaferðum.
    Í frumvarpinu er ákvæði sem felur í sér leiðbeiningar til tollstjóra þegar hann metur hver telst hæfilegur forði fars í millilandaferðum. Nauðsynlegt þykir að tollalög hafi að geyma viðmiðun um þetta atriði þar sem dæmi eru um að tollstjóri hafi afgreitt svo ríflegt magn áfengis og tóbaks um borð að fullvíst hefur verið talið að varningnum yrði smyglað inn í landið aftur eða inn í annað viðkomuland skipsins. Sett eru fram ákveðin viðmið, þ.e. stærð skips, gerð þess, fjöldi farþega, stærð áhafnar og lengd ferðar. Ólík viðmið skulu sett um hæfilegan forða eftir því hvort um er að ræða farþegafar eða annars konar far, svo sem fiskiskip. Þá skal litið sérstaklega til þess hvort hlutaðeigandi far er að staðaldri í förum á milli Íslands og annarra landa. Í þessu sambandi er einnig rétt að taka fram að til þess að far geti keypt tollfrjálsan forða þarf það að eiga viðkomu í erlendri höfn.

17.      Einfaldaðar útflutningsskýrslur.
    Sett er fram ákvæði sem heimilar að þeir sem stunda í atvinnuskyni útflutning smásendinga í póstverslun til einstaklinga, t.d. netverslun, geti sótt um leyfi tollstjórans í Reykjavík til að skila einfölduðum útflutningsskýrslum. Með þessu er tekið tillit til þess að nokkur íslensk fyrirtæki hafa sett á fót póstverslun með ýmsar vörur og selt til einstaklinga erlendis með góðum árangri. Atvinnustarfsemi af þessu tagi er vaxtarbroddur í verslun hér á landi sem rétt er að taka tillit til í tollalögum. Oftast er um litlar og ódýrar sendingar að ræða og er fyrirtækjunum hagræði að því að geta skilað útflutningsskýrslum fyrir ákveðið tímabil, t.d. á tveggja mánaða fresti, þrátt fyrir að útflutningur hafi þegar átt sér stað. Engin gjöld eru greidd af vörum við útflutning en mikilvægt er fyrir stjórnvöld að fá upplýsingar um hagtölur vegna útflutnings.

18.      Stöðvun tollafgreiðslu.
    Í frumvarpinu eru tvö ákvæði sem kveða á um rétt tollstjóra til að stöðva tollafgreiðslu í ákveðnum tilvikum. Í gildandi lögum eru ekki nægilega skýr ákvæði um þetta atriði. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um að tollstjóri skuli stöðva tollafgreiðslu sendingar ef inn- eða útflutningur vöru er samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum háður skilyrðum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið fullnægt eða háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að í eftirlitshlutverki tollstjóra með inn- og útflutningi felist að honum beri að stöðva inn- og útflutning sem ekki fullnægir settum reglum. Þetta hlutverk tollstjóra hefur ekki verið orðað með beinum hætti í tollalögum. Þá er í frumvarpinu einnig mælt fyrir um heimild tollstjóra til að stöðva tollafgreiðslu á öllum vörum til innflytjanda sem er í vanskilum með aðflutningsgjöld, dráttarvexti eða annan kostnað og til innflytjanda sem hefur vanrækt að láta tollstjóra í té aðflutningsskýrslu og fylgigögn innan tilskilins frests. Stöðvun tollafgreiðslu skal þá koma til framkvæmda 15 dögum eftir að innflytjanda hefur verið tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun tollafgreiðslu á öllum vörum til hans.

19.      Heimild tollstjóra til að leiðrétta smávægilegar villur í aðflutningsskýrslum.
    Lagt er til að lögfest verði heimild tollstjóra til þess að leiðrétta augljósar og smávægilegar villur í skriflegum aðflutningsskýrslum sem honum hafa verið látnar í té. Til þess að leiðrétting sé heimil verður hún að vera smávægileg og óyggjandi. Það kemur ekki til þess að tollstjóri leiðrétti augljósar og smávægilegar villur í rafrænum aðflutningsskýrslum enda sá háttur hafður á að skýrsla er ekki lesin inn í tölvukerfi tollyfirvalda og móttekin fyrr en tiltekin grundvallaratriði liggja fyrir. Komi til leiðréttingar rafrænna aðflutningsskjala er litið svo á að ekki geti verið um smávægilega villu að ræða og ber tollstjóra því að skora á innflytjanda að bæta úr því innan ákveðins tíma.

20.     Heimild tollstjóra til endurákvörðunar án þess að það hafi í för með sér breytingu á álagningu aðflutningsgjalda.
    Kveðið er á um heimild tollstjóra til að leiðrétta rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í aðflutningsskjölum sem honum hafa verið látin í té þrátt fyrir að leiðréttingar leiði ekki til breyttrar ákvörðunar aðflutningsgjalda. Slík endurákvörðunarheimild er ekki í gildandi lögum. Það er afar mikilvægt að afla eins áreiðanlegra upplýsinga og mögulegt er um inn- og útfluttar vörur, þar á meðal réttra upplýsinga um tollflokkun vöru. Upplýsingar úr tölvukerfi tollyfirvalda eru notaðar við ýmsar greiningar á inn- og útfluttum vörum, í hagtölum og verslunarskýrslum og fleira. Einnig geta aðflutningsgjöld á vörum í tilteknum tollskrárnúmerum breyst og þá er mikilvægt að lagt hafi verið fyrir innflytjanda að tollafgreiða vöruna í réttu tollskrárnúmeri til að tryggja rétta álagningu gjalda í framtíðinni.

21.      Leit á ólögráða einstaklingum.
    Kveðið er á um sérstakar reglur um leit tollgæslu á ólögráða einstaklingum. Eftir hækkun lögræðisaldurs barna úr 16 árum í 18 ár og með auknum ferðalögum á milli landa má telja næsta víst að færst hafi í vöxt að börn og ungmenni sem ekki hafa náð sjálfræðisaldri séu á ferð án foreldra eða forsjáraðila sinna. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að fjalla sérstaklega í frumvarpinu um réttarstöðu barna við leit. Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmi tollgæsla líkamsleit á barni, þ.e. ólögráða einstaklingi yngri en 18 ára, skuli þá þegar hafa samband við þann sem fer með forsjá barnsins og fulltrúa barnaverndarnefndar í því umdæmi þar sem leit skal fara fram og gefa báðum aðilum kost á að koma á staðinn án tafar og vera viðstaddir þegar leit fer fram. Ef um er að ræða leit á einstaklingi sem er ólögráða af öðrum orsökum en vegna ungs aldurs skal þá þegar gefa lögráðamanni kost á að vera viðstaddur leit.

22.      Bann við að tálma tollgæslu við skyldustörf eða óhlýðnast fyrirmælum tollgæslu.
    Lagt er til að lögfest verði bann við að tálma tollgæslu við skyldustörf eða óhlýðnast fyrirmælum tollgæslu. Slíkt brot getur varðað sektum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

23.      Einföldun kæruleiða.
    Í frumvarpinu er lagt til að allir úrskurðir tollstjóra sæti kæru til ríkistollanefndar. Samkvæmt gildandi tollalögum sæta sumir úrskurðir tollstjóra málskoti til fjármálaráðuneytis en aðrir eru kæranlegir til ríkistollanefndar. Með breytingunni eru kæruleiðir tollalaga einfaldaðar verulega til hagsbóta fyrir þá sem vilja nýta sér heimild til stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds. Ríkistollanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og verður úrskurðum hennar ekki skotið til ráðherra.

24.      Afbrigðileg refsiákvæði afnumin.
    Ýmsar breytingar eru gerðar á þeim kafla gildandi laga sem fjallar um refsiábyrgð, viðurlög og málsmeðferð. Öll refsiákvæði kaflans hafa að geyma sjálfstæðar verknaðarlýsingar sem marka refsinæmi verknaðar auk annarra skilyrða refsiábyrgðar. Lögð er til grundvallar hefðbundin tilhögun saknæmisskilyrða þannig að flest afbrigðileg refsiákvæði í gildandi tollalögum eru látin víkja, t.d. um hlutræna refsiábyrgð einstaklinga, öfuga sönnunarbyrði og óskipta (sólidaríska) refsiábyrgð.

25.      Aðstoð lögreglu við að færa mann til skýrslugjafar.
    Lagt er til í frumvarpinu að lögreglu verði gert skylt að veita tollstjóra nauðsynlega aðstoð í þágu rannsóknar með því að færa mann til skýrslugjafar hjá tollstjóra ef hann hefur að forfallalausu ekki sinnt kvaðningu þess efnis.

26.      Álag á toll dregið frá sektafjárhæð.
    Það nýmæli er tekið upp í refsikafla frumvarpsins að gert er ráð fyrir að hafi álag verið lagt ofan á tollverð samkvæmt öðrum ákvæðum frumvarpsins skuli álag á toll dregið frá sektarfjárhæð. Sambærilegt ákvæði er í lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

27.      Beiðnir erlendra tollyfirvalda um aðstoð í tollamálum.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um að beiðnum erlendra tollyfirvalda um aðstoð við rannsókn mála sem hlutaðeigandi tollyfirvöld annast skuli beina til tollstjórans í Reykjavík. Fer tollstjórinn í Reykjavík með rannsókn málsins nema rannsóknin heyri undir lögreglu. Með ákvæðinu er tekinn af allur vafi um að tollstjórinn í Reykjavík annast samskipti og aðstoð við erlend tollyfirvöld berist beiðnir um aðstoð við rannsókn tollamála samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á þessu sviði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um II. kafla.


    Í kaflanum er aðeins eitt ákvæði er afmarkar tollsvæði ríkisins.

Um 2. gr.


    Grein þessi er samhljóða 26. gr. gildandi tollalaga.

Um III. kafla.


    Kaflinn ber heitið Tollskyldir aðilar. Í kaflanum er tilgreint hvenær almenn tollskylda myndast. Þá eru taldir upp aðilar sem bera takmarkaða tollskyldu, þ.e. skulu í tilteknum tilvikum ekki greiða toll af innfluttum vörum.

Um 3. gr.


    Grein þessi er efnislega samhljóða 2. gr. gildandi tollalaga. Smávægilegar breytingar eru gerðar á orðalagi.

Um 4. gr.


    Grein þessi er samhljóða 3. gr. gildandi tollalaga.

Um IV. kafla.


    Í þessum kafla er mælt fyrir um hvaða vörur eru tollskyldar. Flest ákvæði kaflans varða frávik frá tollskyldu. Í 6. gr. er mælt fyrir um hvaða vörur skuli vera tollfrjálsar og í 7. gr. er fjallað um tilvik þar sem heimiluð er niðurfelling, lækkun eða endurgreiðsla tolls. Í 8.–11. gr. er fjallað um sérstök frávik frá tollskyldu þegar vara er send úr landi til aðvinnslu eða viðgerðar. Loks eru í kaflanum ákvæði um tollkvóta.

Um 5. gr.


    Grein þessi er samhljóða 4. gr. gildandi tollalaga.

Um 6. gr.


    Grein þessi er samhljóða 5. gr. gildandi tollalaga að öðru leyti en því að lagt er til að í 4. tölul. komi orðið „búslóð“ í stað orðsins „heimilismunir“ til samræmis við málvenju. Þá er lagt til að verðmæti tollfrjálsra gjafa verði hækkað úr 7.000 kr. í 10.000 kr. í a-lið 8. tölul. Einnig er lagt til að a-liður 8. tölul. gildi einnig um gjafir sem aðilar búsettir erlendis hafa meðferðis hingað til lands af sérstöku tilefni. Samsvarandi ákvæði gildandi tollalaga hefur verið skýrt með þessum hætti í framkvæmd.

Um 7. gr.


    Grein þessi er samhljóða 6. gr. gildandi tollalaga í flestum atriðum. Eftirtaldar breytingar hafa þó verið gerðar á greininni.
    Það er lagt til að 1. tölul. 6. gr. gildandi laga verði breytt með þeim hætti að ríki sem eru skilgreind sem fátækustu ríki heims verði ekki skilgreind í lagatextanum líkt og gert er í V. viðauka við gildandi tollalög. Í stað þess er lagt til að fjármálaráðuneytið tilgreini í reglugerð þau ríki sem um er að ræða hverju sinni með vísan til ákvarðana nefndar Sameinuðu þjóðanna um framtak, auðveldun viðskipta og þróunarmál (UNCTAD/Committee on Enterprise, Business Facilitation and Development). Með því móti er unnt að komast hjá því að breyta tollalögum í hvert sinn sem listi yfir fátækustu ríkin sætir breytingum í meðförum nefndarinnar. Í þessu sambandi skal tekið fram að Ísland gaf í maí árið 2000 út yfirlýsingu á vettvangi Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (World Trade Organisation/WTO) um að Ísland mundi veita fátækustu ríkjum heims betri aðgang að markaði sínum með einhliða tollalækkunum.
    Í b-lið 2. tölul. kemur orðið „verktakar“ í stað orðanna „verkfræðingar, iðnaðarmenn“. Þykir rétt að vísa til verktaka í ákvæðinu en ekki til einstakra starfsstétta.
    Gert er ráð fyrir að nýr stafliður, e-liður, bætist við 2. mgr. þar sem mælt er fyrir um að tollur falli niður af tækjum og öðrum búnaði sem fluttur er tímabundið hingað til lands vegna fundahalda, ráðstefna eða hátíðahalda. Er þetta talið nauðsynlegt þar sem mjög hefur færst í vöxt að fulltrúar ýmissa erlendra fyrirtækja og stofnana komi hingað til lands til funda- og ráðstefnuhalds. Lagt er til að slíkum aðilum verði gert kleift að koma tímabundið með tæki og búnað til landsins vegna slíkra funda. Vörur þessar geta verið allt frá því að vera dúkar og borðbúnaður sem t.d. ber merki fyrirtækisins eða stærri tæki og öryggisbúnaður til að gæta að öryggi ráðstefnugesta. Þá getur verið um að ræða gjafir til starfsmanna eða annarra ráðstefnugesta sem þeir taka með sér úr landi að fundi loknum. Einnig er lagt til að orðunum „tollfrjálsa forðageymslu eða frísvæði“ verði bætt inn í upptalningu í 6. tölul. Ekki er um breytingu að ræða frá gildandi rétti þar sem tollalög hafa verið skýrð á þann veg að heimilt sé að fella niður eða endurgreiða toll af vörum sem seldar eru í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Lagt er til að kveðið verði á um þetta atriði með afdráttarlausum hætti.
    Það er lagt til að skilyrði um lágmarksbúsetutíma erlendis í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. verði fellt brott. Samkvæmt núgildandi ákvæði 1. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga er það skilyrði niðurfellingar að viðkomandi ökutæki sé flutt til landsins af mönnum sem hafa haft búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár og hafa ekki jafnframt átt lögheimili hér á landi. Að mati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) er skilyrðið um búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár andsætt ákvæðum 28. og 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði 28. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið fjallar um frelsi launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til flutninga innan svæðisins. Umrætt frelsi felur í sér afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum ESB og EFTA-ríkjum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Ákvæði 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið kveður á um að engin höft skuli vera á frelsi ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA-ríkja til að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila enda þótt þeir hafi staðfestu í öðru aðildarríki EB eða EFTA-ríki en sá sem þjónustan er ætluð. Með greininni er lagt til að afnumið verði skilyrðið um búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár. Með því er komið í veg fyrir mismunun að því er varðar rétt aðila sem hafa búsetu erlendis óháð því hversu lengi sú búseta hefur varað. Eftir sem áður er gerð sú krafa að viðkomandi aðili hafi búsetu erlendis og hafi ekki lögheimili hér á landi. Breytingin hefur ekki áhrif á aðrar málsgreinar í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.
    Í 5. tölul. er lögð til afmörkuð undantekning frá því skilyrði sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna er varðar búsetu erlendis. Lagt er til að sama undanþága og kveðið er á um í 1. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna eigi við þegar um er að ræða ökutæki sem skráð er erlendis og er í eigu, eða leigu, erlends fyrirtækis með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og viðkomandi ökutæki er tímabundið flutt til landsins af starfsmanni fyrirtækisins, jafnvel þótt viðkomandi starfsmaður sé með búsetu hérlendis. Er þetta lagt til eftir ábendingar frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og með hliðsjón af dómafordæmum Evrópudómstólsins, sbr. 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í því ákvæði er kveðið á um að ekki megi mismuna launþegum að þessu leyti eftir því hvort þeir eru með búsetu hér á landi eða erlendis. Er það mat ESA að með hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið verði að tryggja að þessi réttur, sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, nái einnig til starfsmanns erlends fyrirtækis sem er með búsetu hér á landi.

Um 8.–11. gr.


    Ákvæði 8.–11. gr. koma í stað 7. gr. gildandi tollalaga. Skv. 7. gr. þeirra gildir sú regla að sé vara send til útlanda til viðgerðar skal aðeins greiða toll af viðgerðarkostnaði að viðbættum flutningskostnaði til landsins. Komi ný vara í stað vöru sem send er utan til viðgerðar skal greiða toll af nýju vörunni eftir tollskrá. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar reglur verði áfram meginreglur en lagt er til að rýmkaðar verði reglur um tollfrelsi ef vara í ábyrgð er send utan til viðgerðar og seljandi gerir við vöruna eða sendir nýja vöru í stað þeirrar gölluðu.

Um 8. gr.


    Ákvæði 8. og 9. gr. frumvarpsins eru efnislega samhljóða 7. gr. gildandi tollalaga sem tekur til vara sem sendar eru utan til viðgerðar eða aðvinnslu. Lagt er til að fjallað verði um aðvinnslu hlutar sem sendur er utan í sérstakri grein, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Í 7. gr. gildandi laga er fjallað um viðgerð sem eitt form aðvinnslu. Í frumvarpinu er litið á viðgerð sem þá aðgerð sem til þarf til þess að koma hlut í upphaflegt ástand. Um viðgerð hlutar er fjallað sérstaklega í 9. og 10. gr. frumvarpsins. Í 8. gr. er hins vegar fjallað um aðrar aðgerðir en þær sem lúta að viðgerð hlutar, svo sem þvott, bleikjun, litun og málmhúðun.

Um 9. gr.


     Í greininni eru almennar reglur um greiðslu aðflutningsgjalda af vöru sem er send úr landi til viðgerðar en í 10. gr. er sérregla um vörur í ábyrgð sem eru sendar utan til viðgerðar. Ákvæði 9. gr., eins og þau birtast í frumvarpinu, komu fyrst inn í tollalög með lögum nr. 55/1987 og í greinargerð með þeim kom fram að rétt þætti að taka tillit til örra breytinga við framleiðslu á tölvum og öðrum rafeindabúnaði og skipulagi viðgerðarþjónustu. Þannig væru rafeindahlutir sendir í sérstakar þjónustumiðstöðvar til viðgerðar sem síðan senda notaðan hlut um hæl í stað hlutar sem er til viðgerðar, gegn ákveðnu þjónustugjaldi. Þessi háttur er hafður á til þess að forðast stöðvun atvinnutækja um lengri eða skemmri tíma á meðan hlutur er til viðgerðar í útlöndum. Þótt aðstæður hafi breyst töluvert frá því að gildandi tollalög tóku gildi og nú séu nýir hlutir en ekki notaðir yfirleitt sendir í stað gallaðra eða bilaðra hluta og slík þjónusta er iðulega innifalin í ábyrgð framleiðanda á vörunni þykir rétt að halda heimild 4. mgr. 7. gr. núgildandi tollalaga í tollalögum, sbr. 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins. 10. gr. fjallar hins vegar um hluti sem eru sendir utan til viðgerðar á ábyrgðartíma.

Um 10. gr.


    Ákvæði greinarinnar er nýmæli. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að vara sem send er utan til viðgerðar vegna galla skuli við innflutning undanþegin tolli séu færðar fullnægjandi sönnur á að mati tollstjóra að viðgerðin sé viðkomandi að kostnaðarlausu og ábyrgð falin í upphaflegu tollverði vörunnar. Í 2. mgr. er erlendum seljanda gallaðrar vöru gefinn kostur á að afhenda nýja vöru í stað gallaðrar vöru og skal tollur þá falla niður að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum 3. mgr. Skilyrðum þessum er ætlað að tryggja að ný vara sé í raun afhent vegna ábyrgðarskuldbindinga hins erlenda seljanda og nýja varan hafi alla sömu eiginleika og upphaflega varan átti að hafa og enga að auki. Það er meginregla að gölluð vara skuli send utan til hins erlenda seljanda en ef ljóst er að það svarar ekki kostnaði eða seljandi telur það óþarft af öðrum ástæðum er seljanda heimilt að fallast á að vörunni verði fargað undir tolleftirliti þannig að sýnt þyki að hin nýja vara komi algerlega í stað þeirrar gölluðu. Í 3. mgr. er lagt til að kaupandi gallaðrar vöru geti flutt inn nýja vöru í stað þeirrar gölluðu áður en gallaða varan hefur verið send úr landi eða henni fargað gegn því að hann leggi fram fjártryggingu til greiðslu aðflutningsgjalda. Hin gallaða vara skal flutt úr landi eða henni fargað innan 60 daga frá tollafgreiðslu vöru sem kemur í stað gallaðrar vöru. Að öðrum kosti skal gengið að fjártryggingunni. Þessi heimild er m.a. lögð til vegna þarfa atvinnulífsins um að nýr hlutur komi í stað gallaðs með hraði. Tveir mánuðir eru taldir nægilegt ráðrúm fyrir kaupandann til þess að ljúka málinu með því að flytja gölluðu vöruna úr landi eða farga henni.
    Nýmæli 10. gr. er sett fram vegna þess að breyttir viðskiptahættir með lausafé milli landa (netviðskipti o.fl.) kalla á rýmri reglur en nú gilda að þessu leyti samkvæmt tollalögum. Örar tækniframfarir og fjöldaframleiðsla kalla einnig á þessa rýmkun reglna, sér í lagi vegna þess að rafeindatækni nú á dögum er með þeim hætti að oft svarar ekki kostnaði að gera við söluhlut sem er gallaður og kýs framleiðandi þá gjarnan að senda kaupanda nýjan söluhlut í stað gallaðs.
    Fyrirmynd að 10. gr. frumvarpsins er sótt í 152.–158. gr. reglugerðar ráðsins nr. 2913/92 frá 12. október 1992.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Grein þessi er samhljóða 6. gr. A gildandi tollalaga.

Um 13. gr.


    Ákvæðið kom inn í tollalög með lögum nr. 146/2001 og er tekið upp í frumvarpið að mestu leyti óbreytt frá 6. gr. B gildandi laga. Með ákvæðinu fékk fjármálaráðherra heimild til þess að úthluta tollkvótum vegna innflutnings samkvæmt milliríkja- og alþjóðasamningum, að því leyti sem innfluttar vörur falla ekki undir viðauka tollalaga um landbúnaðarvörur. Tilefni breytingarinnar var tvíhliða samningur Íslands og Noregs, sem gerður var í mars árið 2000, um gagnkvæma tollfrjálsa tollkvóta á íslenskum hestum annars vegar og á norskum kartöfluflögum og ostum hins vegar. Í 12. gr. frumvarpins (6. gr. A gildandi tollalaga) er að finna reglur um hvernig skuli standa að úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur sem veittir eru samkvæmt samningnum um viðskipti með landbúnaðarvörur hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (oft nefndur WTO-samningurinn/GATT- samningurinn) og er viðauki við samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Í þeim tilvikum skal tollkvótum úthlutað samkvæmt ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og er úthlutun á forræði landbúnaðarráðherra. Þar sem ostar falla undir áðurnefndan samning um landbúnaðarvörur heyrir úthlutun tollkvóta fyrir norsku ostana undir landbúnaðarráðherra en úthlutun tollkvóta fyrir norskar kartöfluflögur heyrir undir fjármálaráðherra.
    Nokkrar breytingar eru lagðar til á 4. mgr. ákvæðisins. Auk þess sem málsgreininni er skipt upp í tvær málsgreinar er felld niður heimild fjármálaráðherra til að leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum. Þykir sú heimild óþörf þar sem það tíðkast ekki að stjórnvöld leiti tilboða í tollkvóta á öðrum vörum en landbúnaðarvörum. Þess í stað er bætt inn heimild til handa fjármálaráðherra til að úthluta tollkvóta á grundvelli sögulegra forsendna, þ.e. úthlutun tollkvóta má miða við hlutfall innflutnings umsækjanda um tollkvóta af heildarinnflutningi allra umsækjenda um kvótann á næstliðnu ári fyrir úthlutun. Að öðru leyti er greinin samhljóða 6. gr. B í gildandi tollalögum.

Um V. kafla.


    Í kaflanum eru ákvæði er skilgreina tollverð og lúta að því hvernig tollverð vöru er ákvarðað. Þá er í síðasta ákvæði kaflans mælt fyrir um tollafgreiðslugengi sem nota skal við umreikning tollverðs vöru yfir í íslenskar krónur. Ákvæði kaflans eru í aðalatriðum efnislega óbreytt frá sambærilegum ákvæðum í gildandi tollalögum. Þó hefur númerakerfi töluliða og stafliða verið breytt í samræmi við uppsetningu annarra ákvæða frumvarpsins.

Um 14. gr.


    Grein þessi er samhljóða 8. gr. gildandi tollalaga.

Um 15. gr.


    Grein þessi er samhljóða 9. gr. gildandi tollalaga.

Um 16. gr.


    Grein þessi er samhljóða 10. gr. gildandi tollalaga.

Um 17. gr.


    Grein þessi er í aðalatriðum samhljóða 11. gr. gildandi tollalaga. Þó er lagt til að heimild innflytjanda til þess að leggja fram sundurliðaðan reikning vegna vara sem sendar eru á einu farmskrárnúmeri og flokkast í mismundandi tollskrárnúmer verði felld brott.

Um 18. gr.


    Grein þessi er samhljóða 12. gr. gildandi tollalaga.

Um 19. gr.


    Greinin kemur í stað 13. gr. gildandi tollalaga.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er sett fram meginregla um að tollafgreiðslugengi skuli miðað við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands 28. hvers mánaðar. Seðlabanki Íslands skráir hins vegar einvörðungu gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Þess vegna er lagt til í 1. málsl. 1. mgr. að tollstjóranum í Reykjavík verði veitt heimild til þess að ákvarða, að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands, tollafgreiðslugengi annarra gjaldmiðla en þeirra sem Seðlabanki Íslands skráir opinberri skráningu.
    Í 2. mgr. er skýrar kveðið að orði varðandi gildistíma tollafgreiðslugengis. Lagt er til að fráviksregla 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. gildandi laga verði felld brott.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um skyldu ráðherra til þess að setja nánari reglur um ákvörðun tollafgreiðslugengis og önnur atriði sem lúta að gengisviðmiðun við tollafgreiðslu með reglugerð.

Um VI. kafla.


    Í kaflanum eru ákvæði er mæla fyrir um skyldu inn- og útflytjenda til að tollflokka vöru. Þá er fjallað um bindandi álit um tollflokkun vöru ef vafi leikur á um hana.

Um 20. gr.


    Ákvæði 20. gr. skyldar inn- og útflytjendur til þess að tollflokka vöru í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar. Í gildandi tollalögum er ekki að finna sérstaka grein sem leggur með beinum hætti þessa skyldu á herðar inn- og útflytjendum heldur hefur mátt leiða þá skyldu þeirra af ákvæðum sem skylda þá til þess að fylla tollskjöl út með fullnægjandi hætti. Rétt þykir að þessi regla sé orðuð með nákvæmari hætti í tollalögum. Jafnframt þykir rétt að vísa til almennra reglna um túlkun tollskrárinnar í þessu sambandi. Almennar reglur um túlkun tollskrárinnar hafa lagagildi og eru birtar í tollskrá sem er í viðauka I við tollalög.
    Í 1. mgr. er allur vafi tekinn af um að það eru inn- og útflytjendur eða eftir atvikum umboðsmenn þeirra sem bera ábyrgð á réttri tollflokkun vöru. Þeir eiga þess þó kost að leita bindandi álits tollstjóra um tollflokkun viðkomandi vöru, sbr. 21. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.


    Grein þessi er í aðalatriðum samhljóða 142. gr. gildandi tollalaga. Þó er lagt til að heimild innflytjanda og annarra sem njóta réttar samkvæmt ákvæðinu til þess að biðja um bindandi álit verði rýmkuð. Þess vegna er lagt til að 1. málsl. 2. mgr. 142. gr. verði felldur brott. Það er lagt til að heimild til þess að leita bindandi álits verði ekki bundin við vöru sem er ókomin til landsins, heldur nái hún til allra vara hvort sem þær hafa verið fluttar til landsins eða ekki. Það er rétt að geta þess í þessu sambandi að kærufrestur tollskylds aðila vegna afgreiðslu tiltekinnar sendingar skv. 117. gr. frumvarpsins rofnar ekki við framlagningu beiðni um bindandi álit um tollflokkun vöru og ekki verður litið á beiðni um bindandi álit samkvæmt þessari grein sem beiðni um endurupptöku tiltekins máls þannig að kærufrestur rofni með vísan til 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá er lagt til að tollstjórinn í Reykjavík veiti bindandi álit um tollflokkun vöru á landsvísu til þess að samræmi við tollflokkun verði sem best tryggt. Sífellt verður mikilvægara að innflytjendur leiti bindandi álits vegna tollflokkunar vöru vegna þess að með tilkomu rafrænnar tollafgreiðslu er vara oft tollafgreidd áður en tollendurskoðun fer fram og getur tollstjóri því í mörgum tilvikum ekki komið athugasemdum að um tollflokkun vöru fyrr en eftir að vara hefur verið tollafgreidd. Þá skal í þessu samhengi tekið fram að það er innflytjandi sem ber ábyrgð á réttri tollflokkun vöru, sbr. 20. gr., og því er mjög mikilvægt að hann leiti bindandi álits í fleiri tilvikum en færri. Að fengnu bindandi áliti eru tollyfirvöld og fyrirspyrjandi bundin af því áliti, nema það sé afturkallað af tollstjóra eða því breytt eftir kæru til ríkistollanefndar. Á meðan bindandi álit er í gildi er fyrirspyrjandi í góðri trú um tollflokkun. Álit er eingöngu bindandi fyrir tollyfirvöld á meðan viðkomandi vara er óbreytt. Breytist samsetning eða eiginleikar vöru með einhverjum hætti er nauðsynlegt fyrir fyrirspyrjanda að leita álits tollstjóra að nýju.

Um VII. kafla.


    Í kaflanum eru ákvæði um aðflutningsskýrslur og aðrar skýrslugjafir. Samkvæmt frumvarpinu er meginregla að vöru skuli tollafgreiða með rafrænum hætti. Þess vegna er ákvæðum um SMT- og VEF-aðflutningsskýrslur ætlaður staður á undan reglum um skriflegar aðflutningsskýrslur. Í gildandi tollalögum er eitt ákvæði um SMT-tollafgreiðslu og þá þætti sem henni koma við. Í frumvarpinu er þeirri grein skipt upp og afmarkaðir hlutar hennar staðsettir í viðeigandi köflum frumvarpsins. Jafnframt eru í frumvarpinu ný ákvæði um VEF-tollafgreiðslu.

Um 22. gr.


    Lagt er til að frestur innflytjanda til að láta tollstjóra aðflutningsskjöl í té styttist úr tólf mánuðum í sex mánuði til samræmis við geymslutíma vöru í afgreiðslugeymslu skv. 1. mgr. 70. gr. Æskilegt er að tollstjóri fái viðeigandi upplýsingar um vörur í afgreiðslugeymslu sem fyrst og eigi síðar en sex mánuðum frá komudegi flutningsfars til landsins. Nokkuð hefur borið á því á undanförnum árum að vörur dagi uppi í geymslum farmflytjenda og hefur það leitt til þess að nauðsynlegt hefur reynst að bjóða vörurnar upp til fullnustu aðflutningsgjalda. Í einhverjum tilvikum hefur þurft að farga vörum. Veldur þetta óhagræði og kostnaði bæði fyrir tollyfirvöld og farmflytjanda. Með því að stytta skilafrest aðflutningsskjala er þess vænst að álagning og innheimta aðflutningsgjalda verði markvissari og minna verði um að vörur sem eigendur hirða ekki um safnist upp í geymslum farmflytjenda.

Um 23. gr.


    Kveðið er á um hverjum er skylt að láta tollyfirvöldum í té tollskjöl með rafrænum hætti. Skv. 1. og 3. mgr. er tollmiðlurum, þ.e. þeim sem hafa atvinnu af því að koma fram fyrir hönd innflytjenda við tollafgreiðslu vöru, og öðrum sem flytja inn vörur í atvinnuskyni, skylt að afhenda aðflutningsskjöl með rafrænum hætti. Í 2. og 4. mgr. koma fram undantekningar frá þessari meginreglu. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík geti gefið fyrirmæli um að skriflegar aðflutningsskýrslur skuli látnar tollstjórum í té vegna innfluttra vara sem þarfnast sérstaks eftirlits, svo sem ýmsar landbúnaðarvörur, notaðir bílar og notuð landbúnaðartæki. Þau sjónarmið sem liggja til grundvallar aukins eftirlits við tollafgreiðslu og skila skriflegrar aðflutningsskýrslu geta verið margvísleg, svo sem heilbrigðissjónarmið og krafa um aukið eftirlit með hágjaldavöru. Þá er í annan stað lagt til að þeir sem uppfylla ekki skilyrði 2. málsl. 2. tölul. 2. mgr. 24. gr. frumvarpsins um lágmarksfjölda sendinga á ári geti skilað inn skriflegum skýrslum. Þeir eiga þá um tvo kosti að velja. Þeir geta leitað til tollmiðlara og fengið honum umboð til að annast rafræna tollafgreiðslu fyrir sína hönd eða skilað sjálfir inn skriflegri skýrslu. Það er mikilvægt að þeir sem annast rafræna tollafgreiðslu hafi nægilega þekkingu á öllum þeim atriðum sem hún byggist á og þess vegna þykir nauðsynlegt að setja skilyrði um lágmarksfjölda sendinga á ári til þess að innflytjandi geti hlotið leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu, sbr. 2. tölul 2. mgr. 24. gr.
    Mælt er fyrir um ýmis tækniatriði varðandi SMT- og VEF-tollafgreiðslu í 14. gr. gildandi tollalaga. Í 7. mgr. er lagt til að þessi atriði verði skilgreind með reglugerð.

Um 24. gr.


    Í 24. gr. er kveðið á um að leyfi til rafrænnar tollafgreiðslu (SMT- og VEF-tollafgreiðslu) sé háð leyfi tollstjóra í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Rétt þykir að ákvarða lágmarksskilyrði fyrir leyfum til SMT- og VEF-tollafgreiðslu í lögum. Skilyrðunum er ætlað að tryggja að umsækjandi sé raunverulega í atvinnurekstri og hafi nægilega þekkingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um tollmeðferð vara til þess að geta framkvæmt rafræna tollafgreiðslu.

Um 25. og 26. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.


    1. mgr. 27. gr. er aðalatriðum samhljóða 1. og 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. gildandi laga. Þó hefur orðinu „ótilkvaddir“ verið bætt inn í 1. mgr. greinarinnar til áhersluauka þannig að ljóst sé að farþegar og farmenn skuli að eigin frumkvæði upplýsa tollgæslu um tollskyldan varning sem þeir hafa í fórum sínum við komu til landsins.
    Í 2. mgr. er nýmæli. Í ákvæðinu er ferðamönnum og farmönnum, sem koma til landsins eða fara frá landinu, gert skylt að greina ótilkvaddir frá hærri fjárhæðum en sem nemur 15.000 evrum, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, sem þeir hafa meðferðis í reiðufé. Upphæðin er ákveðin 15.000 evrur að teknu tilliti til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993, með áorðnum breytingum. Á undanförnum árum hafa ýmsar aðgerðir stjórnvalda beinst að því að efla baráttu gegn hryðjuverkum, ólöglegri verslun með fíkniefni og annarri ógn sem fer þvert á landamæri. Sú tillaga sem er sett fram hér heyrir til þeirra aðgerða og henni er ætlað að gera tollgæslunni kleift að fylgjast með flæði fjármuna til og frá landinu. Vakni grunur um að féð sé ætlað til framkvæmdar refsiverðs verknaðar er lagt til að tollstjóra verði heimilt að gera féð upptækt, sbr. 162. gr. frumvarpsins. Hugtakið reiðufé nær yfir peninga og handhafabréf, þ.m.t ferðatékka. Fyrirmynd að málsgreininni er sótt í 4. mgr. 23. gr. dönsku tollalaganna, nr. 113 frá 27. febrúar 1996.
    3. mgr. er í aðalatriðum samhljóða 2. mgr. 20. gr. gildandi tollalaga. Þó er lagt til að notað verði hugtakið tollafgreiðsluhlið í stað hugtaksins tollafgreiðsla til samræmis við viðteknar málvenjur um rautt og grænt hlið.
    Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. 20. gr. gildandi laga eru færð í XXI. kafla frumvarpsins um tollgæsluheimildir. Skilgreining á farmönnum og ferðamönnum í 4. mgr. 20. gr. gildandi tollalaga er sett fram í 2. gr. frumvarpsins.

Um 28. gr.


    Í greininni eru talin upp helstu fylgiskjöl með aðflutningsskýrslu. Í núgildandi tollalögum eru þessi skjöl talin upp í fleiri en einu ákvæði. Skýrara þykir að telja þau öll upp í einu og sama ákvæðinu. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 29. gr.


    Í greininni er eingöngu fjallað um varðveislu gagna vegna rafrænnar tollafgreiðslu. Í þeim tilvikum þegar aðflutningsskýrsla er gerð skriflega eru viðeigandi fylgigögn afhent tollstjóra um leið og aðflutningsskýrsla, sbr. 28. gr. frumvarpsins.
    Í ákvæðinu er kveðið á um varðveislu gagna sem eru send til tollstjóra og móttekin frá tollstjóra vegna rafrænnar tollafgreiðslu. Jafnframt er kveðið á um varðveislu skriflegra fylgiskjala sem eiga að liggja til gundvallar tollskýrslu, sbr. 28. gr. frumvarpsins. Þegar rafræn tollafgreiðsla fer fram er mikilvægt að skrifleg gögn, sem veita upplýsingar um þau atriði sem skipta máli við tollafgreiðslu, séu varðveitt með öruggum hætti. Í greininni eru dregnar skýrar línur varðandi það hverjir geyma hvaða gögn á hverjum tíma og hversu lengi.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að innflytjendur, sem eru bókhaldsskyldir samkvæmt ákvæðum laga um bókhald, skuli varðveita öll tollskjöl í samræmi við ákvæði laga um bókhald. Að auki er kveðið á um að innflytjendur, sem senda tollstjóra upplýsingar með skjalasendingum á milli tölva, skuli varðveita öll tölvutæk gögn er varða tollafgreiðslu í sex ár frá tollafgreiðsludegi með tilteknum hætti. Hliðstæð ákvæði eru í 6. og 7. mgr. 14. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er annars vegar kveðið á um skyldur tollmiðlara til þess að varðveita öll tölvutæk gögn er varða tollafgreiðslu með hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr., í sex ár frá tollafgreiðsludegi. Hliðstætt ákvæði er í 6. mgr. 14. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. er jafnframt kveðið á um skyldu tollmiðlara til þess að varðveita afrit tollskjala sem liggja að baki tollskýrslu. Ákvæðið er nýmæli. Tollmiðlari ber ríka ábyrgð á þeim upplýsingum sem tollstjórum eru látnar í té með rafrænum aðflutningsskýrslum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, sbr. 34. gr. þess. Þess vegna er lögð sú skylda á tollmiðlara að hann varðveiti afrit þeirra tollskjala sem honum ber að fá í hendur áður en hann hefur rafræn samskipti við tollstjóra, sbr. 2. mgr. 33. gr. frumvarpsins. Tollmiðlara er selt sjálfdæmi um nánara fyrirkomulag við geymslu afrita. Rafræn geymsla eða geymsla á örfilmum jafngildir geymslu á pappírsformi í þessu tilliti. Að lokinni tollafgreiðslu ber tollmiðlara að afhenda innflytjanda frumgögnin ef innflytjandi er bókhaldsskyldur samkvæmt ákvæðum um bókhald. Tollmiðlara ber hins vegar að afhenda tollstjóra fylgiskjölin ef innflytjandi er ekki bókhaldsskyldur, sbr. 3. mgr. þessarar greinar frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að tollstjóri annist varðveislu tollskjala vegana sendinga sem aðilar, sem ekki eru bókhaldsskyldir, flytja til landsins eða til útlanda og tollafgreiddar eru með rafrænni tollafgreiðslu. Hliðstætt ákvæði er í 7. mgr. 14. gr. gildandi laga.

Um 30. gr.


    Greinin er samhljóða 2. og 3. mgr. 24. gr. gildandi tollalaga að öðru leyti en því að bætt er við 1. mgr. heimild tollstjóra til ótvíræðs aðgangs að gögnum tollskyldra aðila og aðgangs að starfsstöðvum tollskyldra aðila og birgðageymslum. Þá er tollstjóra jafnframt veitt heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta við tolleftirlit. Fyrirmynd breytinga ákvæðisins er sótt til 2. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003, og 3. mgr. 38. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Um heimild tollstjóra til haldlagningar gagna vegna tollrannsóknar er vísað til 167. gr. frumvarpsins.
    3. mgr. er í meginatriðum samhljóða 3. mgr. 50. gr. gildandi tollalaga. Það er lagt til að orðin viðskiptabankar og sparisjóðir komi í stað orðsins gjaldeyrisstofnun.

Um 31. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um VIII. kafla.


    Í VIII. kafla er fjallað sérstaklega um ábyrgð á upplýsingum sem gefnar eru með aðflutningsskýrslu og öðrum tollskjölum. Annars vegar er fjallað um ábyrgð innflytjanda á slíkri skýrslugjöf og hins vegar um ábyrgð tollmiðlara á skýrslugjöf fyrir hönd innflytjanda.

Um 32. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um ábyrgð innflytjanda á upplýsingagjöf til tollstjóra. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 16. gr. gildandi tollalaga en þó er kveðið skýrar að orði um að í ábyrgð á upplýsingum, sem gefnar eru með aðflutningsskýrslu og öðrum tollskjölum, felist ábyrgð á því að upplýsingar sem þar eru veittar séu réttar og að allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar komi fram.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. gildandi tollalaga er mælt fyrir um að komi annar aðili fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd innflytjanda beri umboðsmaðurinn sömu ábyrgð á réttum og fullnægjandi upplýsingum og innflytjandi. Ákvæðið er ekki tekið upp í þessa grein frumvarpsins og vísað er til almennra reglna kröfuréttar um réttindi og skyldur umboðsmanna í þessu sambandi.
    Í 16. gr. gildandi tollalaga er mælt fyrir um ábyrgð innflytjanda og þeirra sem koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart tollyfirvöldum í sama í ákvæðinu. Í frumvarpinu er fjallað um ábyrgð þessara aðila, þ.e. innflytjanda annars vegar og tollmiðlara hins vegar, í tveimur greinum. Fjallað er um ábyrgð tollmiðlara í 33. gr. frumvarpsins.

Um 33. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um ábyrgð tollmiðlara á upplýsingagjöf til tollstjóra. Um slíka ábyrgð er fjallað í 3. máls. 1. mgr. og 3. mgr. 16. gr. núgildandi laga. Í greininni eru tekin af öll tvímæli um að tollmiðlara er skylt að kalla eftir nauðsynlegum gögnum sem liggja skulu til grundvallar aðflutningsskýrslu áður en hann sendir rammaskeyti í tölvukerfi tollyfirvalda vegna SMT-tollafgreiðslu. Frá því að SMT-tollafgreiðsla var tekin upp árið 1991 hefur verið gengið út frá þessari reglu í framkvæmd en texti 3. mgr. 16. gr. núgildandi laga hefur ekki verið nægilega skýr að þessu leyti.

Um IX. kafla.


    IX. kafli frumvarpsins ber heitið tollmeðferð vöru. Í kaflanum er skilgreindur sá tímapunktur þegar tollmeðferð vöru hefst. Þá er mælt fyrir um hvað teljist vera almenn tollmeðferð vöru og sérstök tollmeðferð vöru.

Um 34. gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 2. mgr. 1. gr. núgildandi tollalaga. Orðalagi hefur verið breytt lítillega. Með orðalaginu „að láta tollstjóra í té aðflutningsskjöl“ er átt við afhendingu tollskjala, hvort sem er með rafrænum hætti eða með afhendingu skriflegrar aðflutningsskýrslu. Ákvæði b-liðar 2. mgr. 1. gr. núgildandi tollalaga er fellt brott vegna þess að 2. tölul. 34. gr. frumvarpsins nær yfir efni hans.

Um 35. gr.


    Greinin er samhljóða 3. mgr. 21. gr. gildandi tollalaga.

Um 36. gr.


    Í greininni er fjallað um bráðabirgðatollafgreiðslu. Greinin er að mestu samhljóða 1. mgr. 21. gr. núgildandi tollalaga. Heimild tollstjóra til að áætla og innheimta kostnað er felld brott. Tollstjóra er samkvæmt greininni heimilt við ákvörðun fjárhæðar tryggingar að áætla aðflutningsgjöld með 25% álagi. Vera má að aðflutningsgjöld af vörunni reynist önnur en áætlað var við bráðabirgðatollafgreiðslu og er álaginu ætlað að koma í veg fyrir að framlögð trygging reynist of lág.

Um 37. gr.


    Greinin er samhljóða 2. mgr. 21. gr. núgildandi tollalaga að öðru leyti en því að felld er brott skylda farmflytjanda til að taka tryggingu fyrir kaupverði og aðflutningsgjöldum. Hvorki þykir rétt að farmflytjandi sé skyldur til að taka tryggingu fyrir greiðslu kaupverðs vöru né að hann sé skyldur til að taka tryggingu fyrir aðflutningsgjöldum. Rétt þykir að farmflytjandi og eigandi vörusendingar hafi samningsfrelsi um hvernig viðskiptum þeirra er háttað að þessu leyti.

Um X. kafla.


    Í X. kafla frumvarpsins eru ákvæði er skilgreina hlutverk einstakra stofnana hjá tollyfirvöldum, svo sem hlutverk ráðherra, hlutverk tollstjóra og hlutverk ríkistollanefndar. Að þessu leyti eru ekki lagðar til efnislegar grundvallarbreytingar á ákvæðum gildandi tollalaga en leitast er við í frumvarpinu að tilgreina hlutverk tollstjóra með skýrari hætti með því að telja upp í einni grein helstu verkefni tollstjóra. Þá er kveðið skýrar á um hlutverk tollstjórans í Reykjavík á landsvísu en gert er í gildandi lögum. Er það m.a. gert með því að telja upp sérstök verkefni tollstjórans í Reykjavík í sérstöku ákvæði.
    Sú breyting er lögð til í kaflanum að tollstjórar skipi deildarstjóra og aðaldeildarstjóra í tollgæslu í stað ráðherra samkvæmt gildandi lögum.
    Fjallað er um tollhafnir í kaflanum. Gert er ráð fyrir að hugtakið aðaltollhöfn verði fellt brott úr tollalögum.

Um 38. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 39. gr.


    Grein þessi er samhljóða 27. gr. gildandi tollalaga.

Um 40. gr.


    Greinin er samhljóða 1. mgr. 31. gr. gildandi tollalaga.

Um 41. gr.


    Í gildandi tollalögum er höfnum skipt í þrjá flokka: aðaltollhafnir, tollhafnir og aðrar hafnir. Skv. 1. gr. gildandi tollalaga er aðaltollhöfn staður þar sem för í utanlandsferðum mega fá fyrstu og síðustu afgreiðslu hér á landi og þar sem hvers konar tollmeðferð vöru má fara fram. Aðaltollhafnir eru taldar upp í 1. mgr. 28. gr. laganna. Tollhöfn er samkvæmt lögunum staður þar sem ferma má og afferma ótollafgreiddar vörur, geyma og tollafgreiða slíkar vörur án sérstakrar heimildar. Samkvæmt gildandi lögum er staðsetning tollhafna ákveðin með reglugerð, sbr. 2. mgr. 28. gr. tollalaga. Í framkvæmd hefur lítill sem enginn munur verið á starfsemi tollyfirvalda í aðaltollhöfnum og tollhöfnum. Þess vegna er lagt til í 41. gr. frumvarpsins að höfnum verði eingöngu skipt í tvo flokka: tollhafnir og aðrar hafnir.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að tollhöfn skuli vera staður, höfn eða flugvöllur þar sem heimilt er að ferma og afferma för og geyma og tollafgreiða vörur úr þeim, án sérstakrar heimildar tollyfirvalda.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða staðir skuli vera tollhafnir. Gert er ráð fyrir að ráðherra taki mið af þörfum atvinnulífs við staðsetningu tollhafna. Þykir rétt að styrkja starfsemi tollstjóra á þeim stöðum þar sem atvinnulíf byggist á inn- og útflutningi vöru og ferðalögum fólks á milli landa. Önnur sjónarmið geta einnig komið til skoðunar, svo sem jöfn dreifing tollhafna um landið til þess að tryggja sem besta þjónustu við fólk og fyrirtæki á landinu.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra hafi hliðsjón af þeim atriðum sem talin eru upp í 3. mgr. 41. gr. þegar hann metur hvort staður eigi að hljóta tollhafnarréttindi. Kveðið er á um að ráðherra skuli leita umsagnar viðkomandi tollstjóra um þessi atriði. Þau lúta öll að aðstöðu við meðferð ótollafgreiddra vara og eru sett fram til þess að tryggja að tollmeðferð og tollafgreiðsla fari fram með sem öruggustum hætti. Í þessu sambandi er rétt að tollstjóri leggi mat á allar aðstæður á viðkomandi stað og dragi ályktanir um hvernig tolleftirliti verði komið við á staðnum. Miða ákvæðin að því að geymslustaðir verði öruggari en nú.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra geti með sama hætti, þ.e. með reglugerðarbreytingu, afturkallað tollhafnarréttindi hafnar eða flugvallar ef ekki er talin þörf á tollhöfn á viðkomandi stað eða skilyrði 3. mgr. eru ekki lengur uppfyllt. Ákvæðið er að mestu samhljóða ákvæði 4. mgr. 28. gr. núgildandi tollalaga. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti afturkallað tollhafnarréttindi hafnar eða flugvallar ef þarfir atvinnulífs kalla ekki á tollhöfn á staðnum, þrátt fyrir að aðstaða sé fullnægjandi að öðru leyti.
    Ákvæði 5. mgr. er samhljóða 3. mgr. 28. gr. gildandi tollalaga.

Um 42. gr.


    Í greininni er fjallað um hlutverk tollstjóra í umdæmi sínu.
    1.–3. tölul. eru að mestu samhljóða 3. mgr. 31. núgildandi laga ef frá er talið að í gildandi lögum er mælt fyrir um að tollstjórar skuli hafa eftirlit með fólki sem ferðast yfir landamæri. Með tilkomu Schengen-samstarfsins fer lögreglan með það eftirlit.
    Í 4. tölul. er kveðið á um rannsóknarhlutverk tollstjóra og skyldu hans til þess að stöðva ólögmæta hegðun ef því er að skipta. Þá er einnig kveðið á um skyldu tollstjóra til þess að fylgja málum eftir. Hér er m.a. til vísað heimilda tollstjóra til að rannsaka mál skv. XXII. kafla frumvarpsins eða til að afgreiða það með öðrum hætti, t.d. að ljúka því með sektargerð skv. 187. gr. eða vísa því til lögreglu til frekari meðferðar skv. 186. gr.
    Í 5. tölul. er kveðið á um skyldu tollstjóra til samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir að því marki sem lög eða stjórnvaldsfyrirmæli eru því ekki til fyrirstöðu.
    Í 6. tölul. er mælt fyrir um almenna upplýsingaskyldu tollstjóra. Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 24. gr. gildandi tollalaga.
    Loks kemur fram í 7. tölul. skylda tollstjóra til þess að annast önnur verkefni sem honum eru falin í ýmsum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða byggjast á venju.

Um 43. gr.


    Í 43. gr. er kveðið á um sérstakt hlutverk tollstjórans í Reykjavík. Í greininni er fjallað um þau verkefni sem honum eru falin umfram þau verkefni sem tollstjórum eru falin í 42. gr. Gert er ráð fyrir að hjá tollstjóranum í Reykjavík verði til staðar fagþekking varðandi tollaframkvæmdina fyrir landið allt.
    Í 1. tölul. er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík annist þróun og rekstur tölvukerfis tollyfirvalda ásamt öðrum upplýsingakerfum sem tollyfirvöld nýta í starfsemi sinni. Það er mikilvægt að hann veiti öðrum tollstjórum viðeigandi upplýsingar um uppbyggingu og notkun tölvukerfis tollyfirvalda, sbr. 9. tölul. greinarinnar. Með tölvukerfi tollyfirvalda er átt við tölvukerfi sem notað er til að halda utan um álagningu og innheimtu opinberra gjalda sem tollstjórum er falið að innheimta. Með öðrum upplýsingakerfum er m.a. átt við kerfisbundna söfnun og úrvinnslu upplýsinga um afbrot og afbrotamenn sem nota má til áhættugreiningar.
    Í 2. tölul. er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík skuli annast gerð samskiptareglna fyrir inn- og útflytjendur, farmflytjendur og aðra sem senda upplýsingar með rafrænum hætti vegna tollafgreiðslu vöru.
    Í 3. tölul. er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík annist gerð verklagsreglna fyrir tollstjóra um tollframkvæmdina.
    Í 4. tölul. er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík skuli ákveða form tollskjala og eyðublaða, rafrænna og skriflegra, sem notuð eru við tollframkvæmdina og atriði sem skal tilgreina þar. Í mörgum tilvikum er mælt fyrir um í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða atriði skuli koma fram á slíkum eyðublöðum. Í 15. gr. gildandi tollalaga er kveðið á um að ráðherra gefi út eyðublöð vegna tollframkvæmdarinnar og tók ráðherra við því hlutverki af ríkistollstjóra eftir að embætti hans var fellt niður. Í framkvæmd hefur ráðherra falið tollstjóranum í Reykjavík útgáfu slíkra eyðublaða. Rétt þykir að skýrt komi fram í lögum að tollstjórinn í Reykjavík hafi þetta hlutverk.
    Í 5. tölul. er lagt til að bindandi ákvarðandir um tollflokkun vöru skv. 21. gr. frumvarpsins verði sérstakt hlutverk tollstjórans í Reykjavík. Mikilvægt er að samræmis sé gætt þegar ákvarðanir eru teknar um bindandi álit um tollflokkun vöru og þess vegna er lagt til að útgáfa álita verði á hendi þess tollstjóra sem hefur á að skipa sérhæfðasta starfsliðinu.
    Í 6. tölul. er kveðið á um upplýsingahlutverk tollstjórans í Reykjavík gagnvart öðrum tollstjórum. Meðal sérstakra verkefna tollstjórans í Reykjavík samkvæmt ákvæðinu má nefna að hann skal veita öðrum tollstjórum nauðsynlegar upplýsingar um tölvukerfi tollyfirvalda og skyld atriði. Þá skal tollstjórinn í Reykjavík tilkynna öðrum tollstjórum um útgáfu eyðublaða og bindandi álita um tollflokkun vöru.
    Í 7. tölul. er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík skuli veita öðrum tollstjórum á landinu aðstoð og stuðning á sviði tollamála þegar eftir því er leitað. Stuðningur eða aðstoð tollstjórans í Reykjavík getur falist í upplýsingamiðlun einni eða veitingu liðstyrks. Þar getur komið til aðstoð sérhæfðra tollvarða eða sérhæfðra tollstarfsmanna, t.d. í málefnum fríverslunarsamninga og tollskrár. Þá er tollstjóra falið að semja verklagsreglur um tollframkvæmdina á landsvísu, sbr. 3. tölul. þessarar greinar.
    Í 8. tölul. er tollstjóranum í Reykjavík falin tollendurskoðun fyrir landið allt. Vísað er til athugasemda við 119. gr. frumvarpsins.
    Með alþjóðasamskiptum í 9. tölul. er átt við samskipti innan alþjóðasamtaka, svo sem Alþjóðatollastofnunarinnar, en einnig er embætti tollstjórans í Reykjavík ætlað að vera tengiliður tollyfirvalda í samstarfi íslenskra tollyfirvalda við tollyfirvöld í öðrum ríkjum. Dæmi um slíkt samstarf er samstarf tollyfirvalda á Norðurlöndum á ýmsum sviðum. Einnig er átt við milliríkjasamstarf við rannsókn og meðferð einstakra mála vegna tollalagabrota hér á landi eða erlendis, sbr. 3. mgr. 187. gr. frumvarpsins.
    Í 10. tölul. er kveðið á um að tollstjórinn í Reykjavík skuli vinna að áhættugreiningu fyrir landið allt í samvinnu við aðra tollstjóra eftir því sem þurfa þykir. Inntak áhættustjórnunar (e. risk management) er að finna, greina og takast á við áhættuþætti, einkum ólöglegan innflutning til landsins og undanskot aðflutningsgjalda, til þess að draga úr líkum á að þeir valdi tjóni eða hafi skaðleg áhrif í þjóðfélaginu. Tollstjóranum í Reykjavík er falið það hlutverk að hafa yfirumsjón með áhættugreiningu á landvísu. Afar mikilvægt er að greina áhættuþætti á hverjum tíma og skipuleggja tolleftirlit á grundvelli þeirra. Það er einnig mikilvægt að allar ákvarðanir um þróun tölvukerfis tollyfirvalda byggist á traustri þarfa- og áhættugreiningu. Við greiningu áhættuþátta er nauðsynlegt að tollstjórinn í Reykjavík hafi samráð við aðra aðila, t.d. lögreglu, yfirvöld landbúnaðarmála, svo sem landbúnaðarráðuneyti eða yfirdýralækni, heilbrigðisyfirvöld, svo sem Lyfjastofnun, eða SÁÁ, siglingayfirvöld og flugmálayfirvöld. Í 10. tölul. er tollstjóranum í Reykjavík einnig falið að vinna eftilitsáætlun fyrir landið allt á grundvelli áhættugreiningar. Við gerð eftirlitsáætlunar skal tollstjóri gæta samræmis á milli tollumdæma.
    Í 11. tölul. er mælt fyrir um heimildir tollstjórans í Reykjavík til þess að stjórna einstökum verkefnum í umdæmi annars tollstjóra. Rétt þykir að tollstjórinn í Reykjavík hafi möguleika á því að annast stjórn einstakra verkefna við tolleftirlit eða rannsókn tollalagabrota. Í þessu sambandi eru einkum höfð í huga verkefni sem krefjast viðamikils undirbúnings eða þátttöku starfsmanna tollstjóra úr fleiri en einu umdæmi. Þar sem ákvæðið er undantekning frá þeirri meginreglu að tollstjórar annist tolleftirlit og rannsókn tollalagabrota hver í sínu umdæmi þykir rétt að samþykkis fjármálaráðherra verði leitað hverju sinni þegar heimildum þessa töluliðar er beitt. Tollstjórinn í Reykjavík skal síðan tilkynna viðkomandi tollstjóra eða tollstjórum um ákvörðun sína varðandi stjórn verkefnis, að fengnu samþykki ráðherra, með hæfilegum fyrirvara.
    Í 12. tölul. er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík starfræki Tollskóla ríkisins. Skólinn var fram til ársins 2001 starfræktur af ríkistollstjóra. Í byrjun árs 2001 tók tollstjórinn í Reykjavík við rekstri skólans, sbr. 35. gr. gildandi tollalaga. Tollskólinn annast grunnmenntun tollvarða og annarra tollstarfsmanna. Tollskólinn getur einnig staðið fyrir símenntunarnámskeiðum fyrir starfandi tollverði og aðra tollstarfsmenn og námskeiðum fyrir tollmiðlara og inn- og útflytjendur. Nánar verður kveðið á um starfsemi skólans í reglugerð.

Um 44. gr.


    Ákvæði greinarinnar er í höfuðatriðum samhljóða 38. gr. gildandi laga. Í greininni er vísað til 118. gr. frumvarpsins en þar er sú breyting gerð frá gildandi rétti að ákvarðanir tollstjóra sem samkvæmt gildandi tollalögum sæta kæru til fjármálaráðuneytis verði kæranlegar til ríkistollanefndar.

Um 45. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um samvinnu tollstjóra við önnur stjórnvöld og stofnanir. Mikilvægt er að tollyfirvöld og önnur stjórnvöld vinni saman að verkefnum sem tengjast starfsemi tollyfirvalda. Í þessu sambandi má nefna samstarf við lögreglu, ákæruvaldið og skattyfirvöld. Er þetta samstarf í sumum tilvikum lögbundið, sbr. 4. tölul. 9. gr. og 26. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, með síðari breytingum.
    Í 1. mgr. er sérstaklega mælt fyrir um að tollstjóri skuli aðstoða ákæruvaldið við störf þess.
    Í 2. mgr. er lögfest ákvæði um gagnkvæma samvinnu tollyfirvalda við önnur stjórnvöld varðandi verkefni á sviði tollgæslu og tollheimtu. Það getur verið samstarf við skattyfirvöld, flugmálayfirvöld, hafnaryfirvöld, landhelgisgæslu, félagsmálayfirvöld, heilbrigðisyfirvöld, menntamálayfirvöld og lögregluyfirvöld. Slík samvinna getur verið á ýmsum sviðum, t.d. á sviði forvarna. Mikilvægt er að þessir aðilar vinni saman að forvörnum til þess að sem bestur árangur náist. Með forvörnum er hér átt við baráttu gegn neyslu og ólöglegum innflutningi á áfengi og ólöglegum vímuefnum og hvers kyns aðrar afbrotavarnir.

Um 46. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um veitingu starfa hjá tollyfirvöldum. Í núgildandi tollalögum er fjallað um þessi málefni í tveimur greinum, 31. og 39. gr. Í frumvarpinu er ákvæðum um þetta efni steypt saman í eina grein til þess að auðveldara verði að glöggva sig á þeim reglum sem um skipun og ráðningu gilda. Sú breyting er lögð til að tollstjórar skipi alla tollverði, þar á meðal aðaldeildarstjóra og deildarstjóra sem ráðherra skipar samkvæmt gildandi lögum. Eðlilegt þykir að tollstjóri sem fer með boðvaldið fari jafnframt með veitingarvaldið.

Um XI. kafla.


    Ákvæði kaflans eru nýmæli. Kaflinn ber heitið „Tollmiðlarar“ sem er nýtt hugtak í tollalögum. Kaflinn hefur að geyma ákvæði er varða afmarkaðan þátt í starfsemi flutningsmiðlara og er lagt til að sá þáttur starfsemi þeirra verði nefndur tollmiðlun.
    Á undanförnum árum, sérstaklega með tilkomu rafrænnar tollafgreiðslu, hefur starfsemi umboðsmanna inn- og útflytjenda, sem oft eru kallaðir flutningsmiðlarar, aukist verulega. Svo dæmi sé tekið önnuðust slíkir umboðsmenn gerð 56% allra tollskýrslna sem afgreiddar voru árið 2002. Samkvæmt ákvæðum núgildandi tollalaga bera þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda ábyrgð á því að upplýsingar sem veittar eru tollyfirvöldum séu réttar og fullnægjandi að öllu leyti, sbr. 16. gr. gildandi laga. Jafnframt ber umboðsmaður innflytjanda og innflytjandi sjálfur óskipta (sólidaríska) ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda, sbr. 2. mgr. 111. gr. laganna. Þessir umboðsaðilar gegna þess vegna veigamiklu hlutverki við tollmeðferð vöru eins og málum er nú háttað og er mikilvægt að kveða á um réttindi þeirra og skyldur með skýrari hætti en gert er í gildandi tollalögum. Því er lagt til í frumvarpinu að starfsemi þeirra verði háð leyfi fjármálaráðherra til þess að tryggja megi faglega þjónustu og trausta starfsemi þessa mikilvæga hlekks í inn- og útflutningsferlinu.
    Í kaflanum er kveðið á um að fjármálaráðherra veiti starfsleyfi til tollmiðlunar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ástæða þess að hugtakið „tollmiðlari“ er lagt til er sú að hugtakið „flutningsmiðlari“, sem notað er í daglegu tali, tekur samkvæmt málvenju til þátta sem ekki er talin ástæða til að gera leyfisskylda samkvæmt tollalögum. Sem dæmi má nefna að flutningsmiðlun tekur til starfsemi sem sér um skipulag flutnings vöru heimshorna á milli, annast framkvæmd vöruflæðis af einum stað á annan og metur hvaða leiðir og aðferðir eru hagkvæmastar við flutning vörunnar miðað við forsendur umbjóðandans. Flutningsmiðlarinn tekur þannig að sér að vera milliliður á milli flutningsfyrirtækis og eiganda farms. Á síðari árum hefur flutningsmiðlun tekið á sig flóknari mynd en áður og flutningsmiðlanir í dag kappkosta að bjóða fram heildarlausnir fyrir umbjóðendur sína, þar á meðal vörugeymslu, öflun aðfanga, birgðahald og dreifingu og tollmiðlun eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Tollmiðlun er samkvæmt framansögðu aðeins einn afmarkaður þáttur í starfsemi flutningsmiðlara og eini þátturinn í starfsemi þeirra sem er leyfisskyldur samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 47. gr.


    Í 47. gr. er kveðið á um starfsemi tollmiðlara. Lagt er til að sú starfsemi sem talin er í greininni verði háð starfsleyfi fjármálaráðherra, sbr. 48. gr. frumvarpsins. Þjónusta tollmiðlara við umbjóðendur getur verið fólgin í einfaldri ráðgjöf um ýmis atriði í tengslum við gerð tollskýrslna. Veitt þjónusta tollmiðlara er þó yfirleitt víðtækari. Í flestum tilvikum kemur tollmiðlari fram fyrir hönd inn- eða útflytjenda gagnvart tollyfirvöldum með því að annast tollskýrslugerð og framlagningu tollskjala. Í einhverjum tilvikum annast tollmiðlari greiðslu aðflutningsgjalda fyrir hönd innflytjanda með þeim hætti að aðflutningsgjöld eru skuldfærð á nafn tollmiðlarans. Í öllum þessum tilvikum veitir tollmiðlarinn sérhæfða þjónustu gegn gjaldi og þess vegna er talið nauðsynlegt að gera starfsleyfi fjármálaráðherra að skilyrði fyrir því að viðkomandi sé heimilt að veita þá þjónustu sem ákvæðið tekur til, hvort sem hún er fólgin í einfaldri ráðgjöf eða umfangsmeira fyrirsvari.

Um 48. gr.


    Tollmiðlari ber ríka ábyrgð samkvæmt gildandi tollalögum og sú ábyrgð er gerð skýrari í ákvæðum þessa frumvarps. Þess vegna er talið rétt að binda starfsleyfi tollmiðlara þeim skilyrðum sem talin eru upp í greininni. Vísað er til þess sem áður sagði í athugasemdum við 47. gr. um rök til þess að gera starfsemi tollmiðlara háða leyfi ráðherra.
    Í 1. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að umsækjandi skuli vera lögaðili, þ.e. félag starfrækt á viðurkenndu félagaformi.
    Í 2. tölul. 2. mgr. er fjallað um fjölda stjórnarmanna og hæfi þeirra. Stjórnarmenn tollmiðlara skulu a.m.k. vera tveir. Í ákvæðinu eru sett fram ítarleg almenn hæfisskilyrði um stjórnarmenn í samræmi við ákvæði um stjórnarmenn hlutafélaga og einkahlutafélaga samkvæmt gildandi lögum um það efni. Til viðbótar þykir rétt að gera þá kröfu til stjórnarmanna að þeir hafi ekki gerst sekir um brot á tollalögum og fíkniefnalöggjöf. Verður að telja þau hæfisskilyrði sem hér eru sett fram eðlileg um stjórnendur tollmiðlara sem annast mikilvægt hlutverk við tollafgreiðslu vöru.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að daglegur stjórnandi uppfylli skilyrði 2. tölul. um hæfi stjórnarmanna. Með orðunum „daglegur stjórnandi“ er átt við þann sem er hæstráðandi í fyrirtækinu í daglegum rekstri þess, t.d. forstjóri eða framkvæmdastjóri.
    Í 4. tölul. er það gert að skilyrði að starfsmenn tollmiðlara hafi haldgóða þekkingu á tollalögum og viðeigandi stjórnvaldsfyrirmælum á sviði tollamála. Mikilvægt er að starfsmenn tollmiðlara kunni skil á lögum og reglum sem gilda um tollafgreiðslu vöru og tengd atriði.
    Í 5. tölul. er áskilið að sýnt þyki að stjórnun, innra eftirlit, bókhald og varsla gagna vegna starfseminnar verði með traustum hætti. Í þessu tilliti er m.a. óskað eftir upplýsingum um bókhalds- og skjalavörslukerfi umsækjanda.
    Í 6. tölul. er mælt fyrir um að umsókn um starfsleyfi skuli vera skrifleg. Eðli máls samkvæmt skulu fylgja henni viðeigandi gögn til staðfestingar því að umsækjandi uppfylli skilyrði 1.–6. tölul. fyrir veitingu starfsleyfis.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að fjármálaráðherra haldi skrá yfir tollmiðlara. Jafnframt er mælt fyrir um að öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá sé óheimilt að kalla sig tollmiðlara eða gefa með öðrum hætti til kynna að þeir hafi hlotið viðurkenningu ráðherra samkvæmt greininni. Mikilvægt er að inn- og útflytjendur geti nálgast upplýsingar um það hverjir hafi starfsleyfi til tollmiðlunar með öruggum hætti. Eingöngu þeim sem hafa starfsleyfi samkvæmt þessari grein er veitt heimild til þess að nota orðið tollmiðlari í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir hættu á ruglingi og einnig að aðilar sem ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. til þess að stunda þá starfsemi sem 47. gr. tekur til villi á sér heimildir. Ákvæði 3. mgr. stuðlar að því að skapa nægilegt traust þeirra sem hyggjast leita sérfræðiþjónustu tollmiðlara í tengslum við inn- og útflutning vöru.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að starfsleyfi falli sjálfkrafa niður hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis. Eðlilegt þykir að ákvæði af þessu tagi sé sett enda nauðsynlegt að á hverjum tíma sé tryggt að öruggar upplýsingar liggi fyrir um þá leyfishafa sem raunverulega starfa sem tollmiðlarar. Jafnframt er óeðlilegt að aðilar geti geymt starfsleyfi ótímabundið og hafið síðar starfsemi á grundvelli þess, jafnvel þegar langt er um liðið frá leyfisveitingu og óvíst er hvort leyfishafi uppfyllir í raun kröfur sem þá eru gerðar til leyfishafa.

Um 49. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 49. gr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að verði tollmiðlari þess var að umbjóðandi hans leggi vísvitandi fyrir hann röng eða ófullnægjandi gögn skuli hann þegar í stað tilkynna það til tollstjóra. Meginreglan samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, sbr. 33. gr., er að tollmiðlara ber að leggja sjálfstætt mat á þau gögn sem umbjóðandi hans leggur fyrir hann til grundvallar tollskýrslu. Hann skal því aðeins senda aðflutningsskýrslu af stað til tollstjóra með rammaskeyti í þeim tilvikum þegar hann telur að fylgiskjöl, sem liggja til grundvallar aðflutnings- eða útflutningsskýrslu, uppfylli skilyrði laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla. Í þessari grein er lögð skylda á herðar tollmiðlara sem gengur lengra en þær skyldur sem hann ber skv. 33. gr. frumvarpsins. Honum er gert skylt að gera tollstjóra viðvart í þeim tilvikum þegar umbjóðandi hans hefur vísvitandi, að hans mati, lagt fyrir hann röng eða ófullnægjandi gögn. Í þeim tilvikum sem hér er um rætt hefur tollmiðlari grun um að framlögð gögn séu röng eða ófullnægjandi en getur hins vegar ekki sannreynt það með óyggjandi hætti. Í þessum tilvikum þykir rétt að sú skylda sé lögð á herðar honum að gera tollstjóra viðvart þannig að til þess bær yfirvöld geti kannað málið til hlítar.

Um 50. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um XII. kafla.


    Ákvæði kaflans fjalla um tollmeðferð vara í förum í utanlandsferðum, skýrslugjafir farmflytjenda, fermingu og affermingu fara o.fl. Flest ákvæði kaflans byggjast á ákvæðum gildandi tollalaga eða gildandi lagaframkvæmd. Í kaflanum er nýtt ákvæði er mælir fyrir um skyldu Landhelgisgæslunnar til að veita tollstjórum upplýsingar um komu og brottför skipa í utanlandsferðum. Þá er í kaflanum nýtt ákvæði er lögfestir skilgreiningu farmskrár.

Um 51. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 51. gr. er að mestu samhljóða 1. mgr. 52. gr. núgildandi tollalaga. Aukið er við skyldu stjórnanda fars til tilkynna tollstjóra um brottför fars.
    Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 52. gr. núgildandi tollalaga.
    Í 3. mgr. 51. gr. er nýmæli þar sem segir að Landhelgisgæslan skuli veita tollstjórum upplýsingar um komu og brottför skipa í utanlandsferðum svo fljótt sem við verður komið. Skv. 5. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 53/2003, skal stjórnandi skips á leið til landsins tilkynna Landhelgisgæslunni um komu a.m.k. 24 klst. áður en siglt er inn í íslenska landhelgi. Staðfestingu á brottför úr höfn skal tilkynna Landhelgisgæslunni a.m.k. sex klst. fyrir brottför. Reglugerðin er sett með stoð í lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Tilkynningarskylda skipa til Landhelgisgæslunnar samkvæmt þeim lögum og áðurnefndri reglugerð helgast af eftirliti lögreglu með komu og för fólks til og frá landinu. Tollstjóri hefur eftirlit með inn- og útflutningi á vörum og hefur því verulega hagsmuni af því að fá upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um komu og brottför skipa til að geta sinnt því eftirliti. Þykir eðlilegt að lögfesta ákvæði þar sem mælt er fyrir um að Landhelgisgæslan skuli láta tollstjóra í té þessar upplýsingar. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. felur í sér staðfestingu á núverandi framkvæmd þar sem tollstjórinn í Reykjavík hefur nú þegar aðgang að upplýsingum frá Landhelgisgæslu um komu og brottför skipa. Í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um beina tilkynningarskyldu heldur skyldu til að veita upplýsingar. Þannig er því haldið opnu hvernig umrædd upplýsingagjöf fer fram en hún getur verið í formi aðgangs tollstjóra að tölvukerfi Landhelgisgæslunnar um upplýsingar um komu og brottför skipa.
    Ákvæði 4. mgr. 51. gr. er efnislega samhljóða 1. málsl. 3. mgr. 52. gr. núgildandi tollalaga. Ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 52. gr. gildandi tollalaga, þar sem starfsmönnum hafna og flugvalla og skipuðum leiðsögumönnum er gert skylt að gera tollstjóra viðvart um brot eða fyrirhuguð brot á tollalögum, er fellt brott. Enda þótt ákvæðið sé ekki tekið upp í frumvarpið þykir sú almenna skylda hvíla á þessum aðilum og öðrum stjórnvöldum og stofnunum að tilkynna réttum yfirvöldum um fyrirhuguð eða hafin brot á tollalöggjöfinni, sbr. 45. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um samvinnu tollstjóra við önnur stjórnvöld og stofnanir.
    Í 5. mgr. 51. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett nánari reglur um upplýsingagjöf og tilkynningarskyldu vegna komu og brottfarar skipa og flugvéla til landsins.

Um 52. gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 1. mgr. 51. gr. gildandi tollalaga með þeirri undantekningu að hugtakið „aðaltollhöfn“ er fellt niður. Hugtakið „tollhöfn“ er látið taka yfir þau tilvik þar sem talað er um aðaltollhöfn í gildandi lögum. Um þetta atriði er vísað til athugasemda við 41. gr. frumvarpsins.

Um 53. gr.


    Í 1. mgr. 53. gr. er mælt fyrir um að stjórnandi fars geti leitað eftir sérstakri heimild tollstjóra til þess að hafa fyrstu eða síðustu viðkomu á tollsvæði ríkisins utan tollhafnar. Gert er ráð fyrir að umferð skipa og flugvéla í millilandaferðum fari að mestu leyti í gegnum tollhafnir. Þó er gert ráð fyrir því að unnt sé að sækja heimild til tollstjóra til viðkomu utan tollhafnar þegar sérstaklega stendur á. Ákvæðið er að mestu leyti samhljóða 1. mgr. 29. gr. núgildandi tollalaga. Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 7. mgr. 51. gr. gildandi tollalaga. Ákvæði 3. mgr. er efnislega samhljóða síðari málsgrein 59. gr. gildandi laga.

Um 54. gr.


    Greinin er samhljóða 2. mgr. 51. gr. núgildandi laga.

Um 55. gr.


    Greinin er samhljóða 6. mgr. 51. gr. núgildandi laga.

Um 56. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 56. gr. er samhljóða 2. mgr. 53. gr. gildandi tollalaga. Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 5. mgr. 51. gr. gildandi laga.

Um 57. gr.


    Í greininni eru ýmis ákvæði um meðferð forða fars. Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 6. mgr. 55. gr. núgildandi tollalaga. Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 55. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að 2. mgr. 55. gr. gildandi laga verði felld brott vegna þess að hún þykir óþörf þegar litið er til almennar heimildar tollgæslu til innsiglunar í 164. gr. frumvarpsins. Þá hefur framkvæmdin verið með þeim hætti að stjórnandi fars heldur skrá yfir forða fars en tollgæsla annast ekki slíka skráningu. Tollgæslan yfirfer hins vegar og staðfestir skráningu stjórnanda fars og er þess vegna mælt fyrir um að skráin sé afhent tollstjóra við komuna til landsins, sbr. 4. mgr. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að 4. mgr. 55. gr. núgildandi laga, þar sem mælt er fyrir um að setja megi í reglugerð ákvæði um hvað telja beri hæfilegan forða og birgðir fars svo og venjulegan farangur áhafnar, verði felld niður vegna þess að þessum atriðum þykir gerð viðeigandi skil í 6. gr. frumvarpsins. Varðandi hæfilegan forða fars og farangur áhafnar vísast til b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um tollfrelsi hæfilegra vista og annarra nauðsynja í fari sem er í utanlandsferðum, enda verði þær áfram í farinu til neyslu og notkunar áhafnar og farþega. Einnig er vísað til a-liðar 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. þar sem kveðið er á um tollfrelsi venjulegs farangurs áhafnar fars. Það er mælt fyrir um að ráðherra kveði nánar á um skilyrði tollfrelsis samkvæmt tilvitnuðum greinum í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins, líkt og gert er í 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga.
    3. mgr. er samhljóða 5. mgr. 55. gr. núgildandi tollalaga.
    4. mgr. er í aðalatriðum samhljóða 3. mgr. 55. gr. núgildandi laga. Sú viðbót er gerð að tekið er fram að stjórnanda fars sé skylt að afhenda tollstjóra skrá yfir vörur í forða fars. Þessi breyting er lögð til samræmis við núverandi framkvæmd tollgæslunnar.
    Í 5. mgr. er lagt til að tollstjóri geti undanþegið skemmtiferðaskip ákvæðum 2. og 4. mgr. þessarar greinar. Það gildir óháð því hvort þau taka eða setja í land farþega eða vöru. Ákvæðið er því nokkuð rýmra en samsvarandi ákvæði 5. mgr. 62. gr. núgildandi tollalaga. Ákvæðið er heimildarákvæði til þess að tryggja að tollstjóri geti beitt almennum reglum telji hann það nauðsynlegt. Einnig er lagt til að orðin „enda greiði þau kostnað af tolleftirliti um borð“ verði felld brott. Ekki þykir rétt að greiðsla kostnaðar af tolleftirliti um borð sé skilyrði undanþágu samkvæmt málsgreininni. Þykir rétt að tollstjóri meti hverju sinni hvernig tolleftirliti verði best fyrir komið.

Um 58. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er nýmæli sem með almennum hætti gerir grein fyrir farmskrá og skyldu til að skrá vörur sem koma frá útlöndum á farmskrá. Ákvæðið er byggt á 34. gr. reglugerðar nr. 41/1957, um tollheimtu og tolleftirlit, en rétt þykir að skilgreining farmskrár komi einnig fram í tollalögum. Svo er ekki í núgildandi tollalögum. Varðandi hæfilegan forða fars og farangur áhafnar vísast til b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. athugasemdir við 99. gr. Varðandi farangur ferðamanna og farmanna er vísað til 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins og reglugerðarheimildar 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um farmskrá í reglugerð, svo sem nánari reglur um þær vörur sem færðar skulu í skrána, reglur um breytingar og leiðréttingar skrárinnar og ábyrgð á þeim upplýsingum sem þar koma fram, með svipuðum hætti og nú er gert í áðurnefndri reglugerð um tollheimtu og tolleftirlit.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 54. gr. núgildandi tollalaga.

Um 59. gr.


    Ákvæði 59. gr. er að hluta til samhljóða 2. mgr. 29. gr. núgildandi laga. Tilvísun til vara sem njóta tollívilnana hefur verið felld niður þar sem ekki þykir ástæða til að einskorða tollafgreiðslu þeirra vara sem tollívilnana njóta við ákveðna staði. Hins vegar getur reynst nauðsynlegt að beina hættulegum efnum um eina tiltekna tollhöfn vegna þess að sérstakra öryggisráðstafana getur verið þörf við meðhöndlun þeirra og vörslu.

Um 60. gr.


    Ákvæði 63. gr. er nýmæli. Þykir ástæða til að mæla fyrir um ótvíræða heimild tollstjóra til að ákveða hvar og hvernig geymslu vöru skuli háttað þegar innflutningur hennar er bannaður. Í sumum tilvikum getur verið um að ræða vöru sem hætta stafar af eða aðrar ástæður mæla með sérstökum öryggisráðstöfunum varðandi geymslu hennar. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 61. gr.


    Í 61. gr. er kveðið á um að afferming fars skuli háð leyfi tollstjóra og að leyfi tollstjóra skuli ekki veitt fyrr en tiltekin gögn liggja fyrir. Upptalningin er ekki tæmandi þar sem það kann að leiða af ýmsum öðrum lögum að leyfi eða vottorð vegna vöru skuli afhent tollstjóra fyrir affermingu fars, t.d. má nefna lög um innflutning dýra og lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
    2. mgr. 61. gr. er í meginatriðum samhljóða 2. mgr. 56. gr. núgildandi tollalaga. Það felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 61. gr. um að eingöngu megi afferma far að fengnu leyfi tollstjóra. Leitast er við að setja ákvæðið fram með skýrari hætti en gert er í gildandi tollalögum. Þá er lagt til að stjórnanda fars beri að tilkynna í þessum tilvikum um nákvæmar ástæður affermingarinnar til þess að unnt sé að ganga úr skugga um hvort skilyrðum affermingar án leyfis tollstjóra sé fullnægt. Slíkur áskilnaður er ekki gerður í gildandi lögum.

Um 62. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr. 56. gr. núgildandi tollalaga.

Um 63. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 60. gr. núgildandi tollalaga.

Um 64. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 58. gr. núgildandi tollalaga.

Um 65. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 57. gr. núgildandi tollalaga.

Um 66. gr.


    Ákvæði 66. gr. er í meginatriðum samhljóða 1. mgr. 61. gr. gildandi tollalaga. Þó hafa áherslur breyst lítillega. Ákvæðið veitir tollstjóra heimild til þess að krefjast þess að eigendur og umráðamenn skipa og flugvéla leggi tollstjóra til fullnægjandi aðstöðu til tolleftirlits án endurgjalds. Ákvæðinu er eingöngu ætlað að koma til móts við þarfir tollstjóra til þess að hafa aðstöðu til tolleftirlits með farþegum og áhöfnum fara og affermingu og fermingu vara. Þegar vöru hefur verið komið fyrir í geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur skv. XIII. kafla frumvarpsins gilda ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 91. gr. um aðstöðu tollstjóra. Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 61. gr. gildandi tollalaga er fellt brott þar sem það er talið óþarft.

Um 67. gr.


    Í 67. gr. er mælt fyrir um úrræði tollstjóra til þess að knýja á um skil á viðeigandi gögnum, svo sem farmskrá og skrá yfir vörur sem fluttar hafa verið úr eða í skip í hverri tollhöfn fyrir sig, skrá yfir forða fars og skrá yfir vöntun og skemmdir á vörum, sem komið hafa í ljós við affermingu. Ákvæðið á sér hliðstæðu í 5. mgr. 53. gr. núgildandi tollalaga.

Um 68. gr.


    Ákvæði 1.–3. mgr. 68. gr. eru efnislega samhljóða 1.–3. mgr. 62. gr. núgildandi tollalaga. Ákvæði 4. mgr. 62. gr. gildandi laga er fellt brott þar sem það er talið óþarft.

Um XIII. kafla.


    Í ákvæðum kaflans eru lagðar til umtalsverðar breytingar á ákvæðum tollalaga um meðferð og vörslu ótollafgreiddra vara. Um þetta efni er fjallað í 63.–96. gr. gildandi tollalaga. Í tilvitnuðum ákvæðum gildandi laga er mælt fyrir um að ráðherra og eftir atvikum tollstjórar veiti leyfi til reksturs eftirtalinna geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur: geymslur fyrir farmflytjendur skv. 64. gr. laganna, tollfrjáls svæði (frísvæði) skv. IX. kafla laganna og tollvörugeymslur skv. VIII. kafla laganna. Hugtakið „tollvörugeymsla“ er notað í gildandi lögum sem yfirheiti almennra tollvörugeymslna skv. 73. og 74. gr., tollfrjálsra forðageymslna skv. 75.–78. gr. og tollfrjálsra verslana skv. 79. gr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sami háttur verði viðhafður við veitingu leyfa til reksturs geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur, þ.e. að veitingarvaldið hvíli hjá ráðherra og tollstjórum í einhverjum tilvikum. Hins vegar eru lagðar til umtalsverðar breytingar á framsetningu ákvæða um vörslu ótollafgreiddra vara og hugtakanotkun er breytt að teknu tilliti til þeirrar framkvæmdar sem skapast hefur á undanförnum árum við útgáfu leyfa til reksturs almennra tollvörugeymslna og frísvæða. Geymslusvæðin eru skilgreind í upphafsákvæði XIII. kafla frumvarpsins undir yfirheitinu „geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur“. Þá er lagt til að hugtakið „tollvörugeymsla“ breyti um merkingu þannig að það nái eingöngu yfir þær geymslur sem kallast almennar tollvörugeymslur í gildandi tollalögum til samræmis við málvenju. Í daglegu tali og framkvæmd hefur hugtakið tollvörugeymsla nær eingöngu verið notað yfir almennar tollvörugeymslur. Jafnframt er lagt til að hugtakið „afgreiðslugeymsla“ verði tekið upp sem heiti yfir geymslur farmflytjenda og tollmiðlara.
    Uppbyggingu kaflans er breytt á þann veg að almennum ákvæðum, sem eiga í grundvallaratriðum við um öll þau geymslusvæði sem talin eru í 69. gr. frumvarpsins, er raðað í nokkra kafla. Fyrst koma þrír undirkaflar á eftir almennum ákvæðum 69.–72. gr. og á undan sérstökum undirköflum um einstök geymslusvæði. Þessir almennu kaflar eru: Kafli um meðferð vara á geymslusvæðum, kafli um ábyrgð vörsluhafa og loks kafli um vöntun og umframbirgðir. Næst koma sérstakir undirkaflar sem hafa að geyma sérákvæði um einstakar tegundir geymslusvæða. Þessir kaflar eru: Kafli um afgreiðslugeymslur farmflytjenda og tollmiðlara (88.–90. gr.), kafli um tollvörugeymslur (91.–95. gr.), kafli um tollfrjálsar forðageymslur (96.–100. gr.), kafli um tollfrjálsar verslanir (101.–104. gr.) og loks kafli um frísvæði (105.–108. gr.). Þessi uppbygging kaflans er einkum valin til þess að forðast endurtekningar en þykir jafnframt vera til skýringarauka.
    Að öðru leyti eru lagðar til eftirfarandi breytingar á fyrirkomulagi einstakra geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur:
     a.      Afgreiðslugeymslur farmflytjenda og tollmiðlara. Lagt er til að sérstök ákvæði um afgreiðslugeymslur farmflytjenda og tollmiðlara komi í stað ákvæða 64. gr. gildandi tollalaga, þar sem mælt er fyrir um að eigendur eða umráðamenn faratækja, sem flytja vörur frá útlöndum eða ótollafgreiddar vörur innan lands, skuli hafa til umráða eða eiga aðgang að nægum geymslu- og afgreiðslustöðum fyrir slíkar vörur. Í þeirri grein er mælt fyrir um að tollstjórar viðurkenni geymslu- og afgreiðslustaði samkvæmt greininni en nokkuð hefur skort á að sá háttur hafi verið viðhafður. Í framkvæmd hefur að einhverju marki tíðkast að geyma ótollafgreiddar vörur á stöðum sem ekki hafa hlotið viðurkenningu tollstjóra samkvæmt greininni. Í frumvarpinu er leitast við að setja ákvæðin fram með skýrari hætti en nú í þeim tilgangi að óyggjandi sé að þeim sem hyggjast reka geymslur af þessu tagi ber að sækja um leyfi til reksturs þeirra til tollstjóra. Þá er lagt til að heitið „afgreiðslugeymslur“ verði notað um þessar geymslur.
     b.      Tollvörugeymslur. Á undanförnum árum hafa verið gefin út fleiri leyfi til reksturs frísvæða en almennra tollvörugeymslna. Það á rót að rekja til þess að reglur um geymslu og meðferð vöru á frísvæðum eru rýmri og sveigjanlegri en samsvarandi reglur um tollvörugeymslur. Heimildir til aðvinnslu vöru eru rýmri á frísvæðum auk þess sem geymslutími vöru á frísvæðum er ótakmarkaður. Þá eru heimildir til þess að tollafgreiða sendingu í hlutum (smátt og smátt) mun rýmri á frísvæðum en í almennum tollvörugeymslum. Þess skal þó getið að þau leyfi til reksturs frísvæða, sem hafa verið gefin út, eru takmörkuð við geymslu og aðvinnslu á vörum, skv. 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 527/1991, um frísvæði, sem fjalla um einfalda aðvinnslu, svo sem skiptingu sendinga, umpökkun, samsetningu, blöndun, prófun og þrif.
                  Reynsla síðustu ára hefur sýnt að atvinnulífið þarfnast reglna sem bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika við birgðahald og dreifingu vara. Það er til hagsbóta fyrir atvinnulífið að innflytjendur geti geymt vörur á viðeigandi geymslusvæði, undirbúið þær til dreifingar og fengið þær tollafgreiddar að teknu tilliti til þarfa markaðarins hverju sinni. Þá er einnig mikilvægt frá sjónarhóli markaðarins að unnt sé að geyma ótollafgreiddar vörur án tímatakmarkana á geymslusvæði.
                  Að teknu tilliti til þeirrar framkvæmdar sem hefur verið viðhöfð við útgáfu leyfa til reksturs frísvæða og tollvörugeymslna er lagt til í frumvarpinu að ákvæði um tollvörugeymslur verði rýmkuð í þá veru að þau nái til starfsemi frísvæða eins og hún er nú, þar á meðal einfaldrar aðvinnslu, sem ekki telst til iðnaðar, svo sem skiptingar sendingar, umpökkunar, samsetningar, blöndunar, prófunar og þrifa. Rökin að baki tillögunni eru m.a. þau að rétt þykir að nota hugtakið „tollvörugeymsla“ yfir það geymslusvæði sem almennt er notað við geymslu á ótollafgreiddum vörum í öllum venjulegum tilvikum. Ákvæði frumvarpsins gera með öðrum orðum ráð fyrir að ákvæði núgildandi tollalaga um almennar tollvörugeymslur verði afnumin og í stað þeirra komi ný ákvæði um tollvörugeymslur sem samsvara gildandi ákvæðum tollalaga og reglna um frísvæði í flestum atriðum að því undanskyldu að iðnaður og verslun með vörur verður með öllu óheimil í tollvörugeymslu. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að hugtakið „frísvæði“ verði eingöngu notað yfir afmarkað svæði þar sem heimilt er að stunda iðnaðarstarfsemi með ótollafgreiddar vörur.
     c.      Tollfrjálsar forðageymslur. Í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að rekstur tollfrjálsra forðageymslna verði með svipuðum hætti og nú er tíðkaður. Þó er lagt til að aðrir en skipa- og flugfélög geti sótt um leyfi til þess að reka tollfrjálsa forðageymslu en í núgildandi lögum er heimildin bundin við skipa- og flugfélög.
     d.      Tollfrjálsar verslanir. Ákvæði um tollfrjálsar verslanir í frumvarpinu eru áþekk þeim sem nú gilda um rekstur tollfrjálsra verslana. Þó er gert ráð fyrir því að sérstaklega verði kveðið á um heimild til reksturs tollfrjálsrar komuverslunar í tollalögum en slíkt ákvæði er ekki í gildandi tollalögum þrátt fyrir að áratuga löng hefð sé fyrir rekstri slíkrar verslunar. Þá er kveðið á um að skýr skil skuli gerð á milli brottfarar- og komuverslunar með þeim hætti að kaup í brottfararverslun verða einvörðungu heimil gegn framvísun brottfararspjalds og vöruúrval í komuverslun verður takmarkað við ákveðna vöruflokka sem tilgreindir verða í reglugerð.
     e.      Frísvæði. Eins og áður sagði er lagt til að leyfi til reksturs frísvæðis verði eingöngu veitt þeim er hyggjast starfrækja eiginlega iðnaðarstarfsemi.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda við einstakar greinar XIII. kafla.

Um 69. gr.


    Greinin er almennt ákvæði sem fjallar um þá staði þar sem geyma má ótollafgreiddar vörur.
    Í l. mgr. eru tæmandi talin geymslusvæði þar sem heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur að lokinni affermingu fars. Upptalning skilgreindra geymslusvæða er tekin upp í fyrsta ákvæði XIII. kafla frumvarpsins en ákvæðinu er ætlað að veita yfirsýn yfir geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Sambærilegt yfirlitsákvæði er ekki í gildandi tollalögum.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um þá meginreglu að óheimilt sé að geyma vörur utan þeirra geymslusvæða sem nefnd eru í 1. mgr. Samsvarandi ákvæði er í 65. gr. gildandi tollalaga.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að tollstjóri geti veitt sérstakar undanþágur frá meginreglu 2. mgr. um að óheimilt sé að geyma vörur utan viðurkenndra geymslusvæða. Leyfi skal veitt með skriflegum eða rafrænum hætti. Þetta ákvæði svarar til 65. gr. gildandi tollalaga. Í almennum athugasemdum við XIII. kafla frumvarpsins kemur fram að tíðkast hafi að nokkru marki í tíð gildandi tollalaga að geyma ótollafgreiddar vörur utan viðurkenndra geymslusvæða án samþykkis tollstjóra. Reynslan hefur leitt í ljós að afar erfitt er að hafa eftirlit með vörum sem geymdar eru utan viðurkenndra geymslusvæða. Þess vegna er gert ráð fyrir að leyfi tollstjóra til þess að geyma vörur utan skilgreindra geymslusvæða verði eingöngu veitt í undantekningartilvikum, þegar sérstakar ástæður mæla með því, svo sem þegar sérstakar aðstæður eru nauðsynlegar við geymslu eða meðhöndlun vöru.
    Ákvæði 4. mgr. er samhljóða 1. mgr. 63. gr. núgildandi tollalaga.

Um 70. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar um geymslutíma ótollafgreiddra vara í afgreiðslugeymslu fela í sér nokkrar breytingar frá samsvarandi ákvæði í gildandi tollalögum þar sem fram kemur að aðflutningsgjöld skuli falla í eindaga eigi síðar en einu ári talið frá komudegi flutningsfars, sbr. 103. gr. tollalaga og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 61/1989, um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum, með síðari breytingum. Ástæða þykir til að stytta þennan tíma vegna þess að á meðan vara er til vörslu í geymslu farmflytjanda liggja engar upplýsingar fyrir um hana aðrar en þær sem koma fram í farmskrá. Þá hefur borið á því að vörur hafi dagað uppi í geymslum farmflytjenda. Því er lagt til að vörum skuli ráðstafað úr afgreiðslugeymslu innan sex mánaða talið frá komudegi flutningsfars til landsins nema tollstjóri hafi veitt leyfi til flutnings þeirra í tollvörugeymslu, tollfrjálsa forðageymslu, tollfrjálsa verslun eða á frísvæði. Það er mikilvægt að sem gleggstar upplýsingar um vöruna og innflytjanda hennar liggi fyrir fyrr en nú er. Ástæða þess er m.a. að ýmsar breytingar á högum innflytjanda geta orðið á einu ári á meðan eingöngu ófullkomnar upplýsingar liggja fyrir um hina ótollafgreiddu vöru.
    Tollstjóri getur samkvæmt beiðni eiganda vörunnar heimilað að undantekning verði gerð frá sex mánaða frestinum ef sérstaklega stendur á og leyfishafi geymslusvæðis samþykkir að geyma hinar ótollafgreiddu vörur lengur. Geymslutími ótollafgreiddra vara í afgreiðslugeymslu skal þó aldrei verða lengri en 18 mánuðir frá komudegi flutningsfars. Þótt áhersla sé lögð á það í frumvarpinu að stytta geymslutíma í afgreiðslugeymslu þykir rétt að leggja til að unnt sé að veita undanþágur frá sex mánaða frestinum ef sérstaklega stendur á. Það er fyrirséð að slíkir frestir verði einkum veittir vegna vara sem henta illa til geymslu í tollvörugeymslu, svo sem bifreiða og stærri tækja. Þá er lagt til að leyfishafi geymslusvæðis verði hafður með í ráðum þegar beiðni um aukinn geymslutíma er til skoðunar vegna þess að hann hefur verulegra hagsmuna að gæta vegna útleigu á geymslurými.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að heimilt verði að geyma vörur á geymslusvæðum skv. 2.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr. án tímatakmarkana. Í 3. mgr. 74. gr. gildandi tollalaga er mælt fyrir um að vörur megi geyma í allt að þrjú ár í almennri tollvörugeymslu. Hins vegar er geymslutími á frísvæðum, í tollfrjálsum verslunum og tollfrjálsum forðageymslum ótakmarkaður samkvæmt gildandi tollalögum. Nær öll geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur, sem starfrækt eru á grundvelli gildandi tollalaga, eru rekin sem frísvæði. Eins og áður hefur komið fram er það lagt til í frumvarpinu að ákvæði um tollvörugeymslur verði rýmkuð í þá veru að þau nái til starfsemi frísvæða eins og hún er í dag. Þess vegna er lagt til að heimilt verði að geyma vörur án tímatakmarkana í tollvörugeymslu en rýmri reglur um geymslutíma eru afar mikilvægar séð frá sjónarhóli atvinnulífsins. Um þetta efni er að öðru leyti vísað til almennra athugasemda við XIII. kafla frumvarpsins.

Um 71. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 72. gr.


    Greinin er í meginatriðum samhljóða 2. og 4. mgr. 64. gr. gildandi tollalaga.

Um 73. gr.


    Í greininni eru settar fram nokkrar meginreglur um meðferð vöru á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur.
    Í 1. mgr. er tekið fram að einkaneysla, afnot eða sýning á vörum sem fluttar hafa verið á geymslusvæði er óheimil nema annað sé tekið fram. Ákvæðið samsvarar 84. gr. gildandi tollalaga að öðru leyti en því að í upptalningu þeirra atriða sem óheimil eru er bætt sýningu á vörum á geymslusvæði. Tilgangur banns við sýningu er að koma í veg fyrir umferð óviðkomandi fólks á geymslusvæði í þeim tilgangi að sýna eða skoða varning sem þar er geymdur. Gengið er út frá þeirri meginreglu að aðgang að svæðinu hafi aðeins starfsmenn geymslusvæðis, starfsmenn tollstjóra eða þeir sem þangað eiga sérstaklega erindi til að flytja þangað vörur eða sækja. Undantekning frá banni við sýningu og neyslu varnings á geymslusvæði er eðli máls samkvæmt gerð í verslunum fyrir ótollafgreiddar vörur (fríhöfnum).
    Í 2. mgr. er sett fram meginregla um að iðnaður og önnur aðvinnsla á vörum á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur sé óheimil nema annað sé tekið fram í frumvarpinu. Tvær mikilvægar undantekningar eru gerðar frá meginreglunni. Annars vegar er gert ráð fyrir að einföld aðvinnsla, sem ekki telst til iðnaðar, svo sem skipting sendinga, umpökkun, samsetning, blöndun, prófun og þrif, verði heimil í tollvörugeymslu. Hins vegar veita reglur frumvarpsins um frísvæði mikilvæga undantekningu frá meginreglu 2. mgr. 76. gr.

Um 74. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 75.–83. gr.


    Ákvæði 75.–83. gr. tilheyra undirkafla er ber heitið Ábyrgð vörsluhafa. Þar er fjallað um vörsluábyrgð farmflytjenda, leyfishafa geymslusvæða og viðurkenndra flutningsaðila fyrir ótollafgreiddar vörur. Hugtakið „vörsluábyrgð“ kemur ekki fyrir í núgildandi tollalögum. Hugtakið hefur þó verið notað í framkvæmd sem samheiti yfir þær skyldur sem þessir aðilar bera samkvæmt tollalögum. Hugtakið þykir lýsandi og þess vegna er lagt til að það verði notað í tollalögum sem yfirheiti um skyldur sem hvíla á þeim sem hafa ótollafgreiddar vörum í sinni vörslu.
    Í kaflanum er jafnframt kveðið skýrar að orði um heimildir til flutnings og framkvæmd við flutning vörsluábyrgðar frá einum vörslumanni til annars. Nokkuð hefur borið á því í tíð gildandi laga að ótollafgreiddar vörur hafi verið afhentar úr vörslu eins vörsluaðila til annars án þess að viðeigandi sannanir liggi fyrir um afhendinguna og staðsetningu vöru. Það hefur þess vegna oft og tíðum verið vandkvæðum háð að ákveða að hverjum krafa um greiðslu aðflutningsgjalda skuli beinast. Í frumvarpinu er þess vegna lagt á herðar vörslumanns ótollafgreiddar vöru að sanna að vara hafi verið afhent öðrum vörslumanni. Um þessi atriði er vísað til athugasemda við einstakar greinar.

Um 75. gr.


    Í greininni er tekið fram að farmflytjendur og leyfishafar geymslusvæða og viðurkenndir flutningsaðilar fyrir ótollafgreiddar vörur beri ábyrgð á því að meðferð þeirra við geymslu og flutning ótollafgreiddrar vöru sé í samræmi við ákvæði XIII. kafla frumvarpsins. Með ákvæðinu er lögð áhersla á vörsluábyrgð þeirra aðila sem hafa fengið heimild til þess að hafa vörslur ótollafgreiddra vara.

Um 76. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 76. gr. er nýmæli þar sem tekið er fram að við flutning vöru á frísvæði, tollvörugeymslu, tollfrjálsa forðageymslu eða tollfrjálsa verslun skuli skrá vöruna inn á geymslusvæðið með nánar tilgreindum hætti. Við skráningu skal tilgreina nafn innflytjanda og skráningarnúmer. Þá skal tilgreina heiti og tegund vöru auk þess sem tilgreina skal magn, þyngd og verðmæti vöru. Þessi háttur hefur verið viðhafður í framkvæmd en rétt þykir að kveða á um þetta atriði í tollalögum. Þessi skráning er afar mikilvæg vegna þess að aðflutningsgjöld af vörusendingu miðast við það vörumagn sem tilgreint er samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, sbr. 2. mgr. Jafnframt er rétt skráning afar mikilvæg í ljósi ákvæða 86. og 87. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að komi fram vöntun eða umframmagn í vörusendingu eftir að sendingunni hefur verið komið fyrir á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skuli gripið til tiltekinna úrræða. Við þær aðstæður getur tollstjóri í ákveðnum tilvikum innheimt aðflutningsgjöld af því vörumagni sem skráð var inn á geymslusvæðið samkvæmt fyrirmælum 76. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að aðflutningsgjöld af vörusendingu skuli miðast við það vörumagn sem tilgreint er samkvæmt ákvæðum 1. mgr. Greinin á sér fyrirmynd í 1. mgr. 85. gr. gildandi tollalaga en þar kemur fram að aðflutningsgjöld miðist við það vörumagn sem sett var í tollvörugeymslu. Í frumvarpinu er sú orðalagsbreyting gerð að aðflutningsgjöld miðast við skráð vörumagn, með þeim undantekningum sem leiðir af sérreglum um umframmagn vöru. Efnisbreyting er ekki fólgin í ákvæðinu að öðru leyti en því að vísað er í sérreglur 87. gr. um skráningu umframbirgða á geymslusvæði sem eru nýmæli.

Um 77. gr.


    Í 77. gr. er kveðið á um að þeim sem hafa ótollafgreiddar vörur í sínum vörslum til flutnings eða geymslu er óheimilt að afhenda þær til notkunar innan lands án leyfis tollstjóra. Ákvæðið á eðli málsins samkvæmt ekki við um vörur í tollfrjálsum verslunum, þar sem sala á ótollafgreiddum vörum er heimil, eða tollfrjálsum forðageymslum, þar sem afhending eða sala á ótollafgreiddum vörum um borð í för í millilandaferðum er heimil. Greinin á sér fyrirmynd í 66. gr. gildandi tollalaga.

Um 78. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að þeir sem flytja vörur til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða til eigin nota séu tollskyldir. Þessir aðilar bera ábyrgð á að upplýsingar sem þeir gefa tollstjóra með aðflutningsskýrslu og öðrum tollskjölum séu réttar og skulu jafnframt standa skil á tollum og öðrum aðflutningsgjöldum af tollskyldum vörum. Þá er í 3. gr. gert ráð fyrir að unnt sé að leggja tollskyldu á aðra en innflytjendur vöru. Þannig er mælt fyrir um í 1. mgr. 78. gr. að farmflytjendur og leyfishafar geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur verði ábyrgir fyrir greiðslu tolla af vörum sem þeir hafa afhent eða tekið í notkun án þessa að farið hafi verið að ákvæðum frumvarpsins, m.a. um meðferð og vörslur ótollafgreiddra vara. Með öðrum orðum flyst tollskyldan yfir á þessa aðila þegar atvik eru með þeim hætti sem segir í ákvæðinu. Er ábyrgðin lögð á þessa aðila vegna þess að þeir hafa stöðu sinnar vegna heimild til þess að meðhöndla og geyma ótollafgreiddar vörur og ber þeim, sem fagaðilum við meðferð ótollafgreiddra vara, að tryggja að meðferð þeirra sé í hvívetna í samræmi við ákvæði frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að í þeim tilvikum þegar vara er afhent eða tekin í notkun án viðeigandi afhendingarheimildar fari um áætlun aðflutningsgjalda eftir 115. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 3. mgr. 78. gr. kveður á um heimild til aðfarar án undangengins dóms eða sáttar fyrir aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum og kostnaði í eignum þeirra sem eru tollskyldir skv. 1. mgr. Ákvæðið, sem samsvarar 67. gr. núgildandi tollalaga, þarfnast ekki skýringa.

Um 79.–83. gr.


    Í 79. og 80. gr. eru sett fram ákvæði um flutning ótollafgreiddra vara og skyldu þeirra sem með þær höndla um að tilkynna flutninginn. Í ákvæðunum er gerður greinarmunur annars vegar á flutningi úr fari eða afgreiðslugeymslu yfir á önnur geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur og hins vegar á flutningi á milli geymslusvæða annarra en afgreiðslugeymslna. Í fyrrnefnda tilvikinu er gert ráð fyrir að tollstjóri gefi til kynna innan 24 klukkustunda frá því að tilkynning um fyrirhugaðan flutning berst hvort flutningur sé heimill eða varan skuli kyrrsett til frekari skoðunar. Í síðarnefnda tilvikinu er gert ráð fyrir að flutningur sé heimill án sérstaks leyfis tollstjóra en sú skylda er lögð á herðar leyfishafa geymslusvæðis að tilkynna tollstjóra um flutninginn áður en hann fer fram til þess að tollstjóri geti nálgast vöruna vegna tolleftirlits ef þörf krefur. Rökin fyrir þeim mun sem gerður er í þessum tveimur tilvikum eru að þörf er talin á því að tollstjórar fái hæfilegt ráðrúm til að kyrrsetja vöru í fari eða afgreiðslugeymslu. Sá gríðarlegi hraði sem tíðkast nú í viðskiptum, vegna tilkomu rafrænnar tollafgreiðslu, kallar á þetta ákvæði þar sem hraðinn hefur í sumum tilvikum leitt til þess að tollstjórum hefur ekki gefist tími til að tollskoða vöru áður en hún er afhent viðtakanda. Þykir það enn frekar mæla með slíkri reglu að ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um vöruna á meðan hún er í fari eða í afgreiðslugeymslu. Ekki þykir þörf á því að takmarka frjálst flæði á vörum milli annarra geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur enda liggja nákvæmar upplýsingar fyrir um vöruna þegar hún er komin inn í slíkar geymslur, sbr. ákvæði 79. gr.
    Ákvæði 81.–83. gr. eru nýmæli í tollalögum þar sem settar eru fram nákvæmar reglur um vörsluábyrgð leyfishafa viðurkenndra geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur og reglur um með hvaða hætti vörsluábyrgð flyst á milli leyfishafa geymslusvæða við flutning ótollafgreiddrar vöru frá einu geymslusvæði til annars. Þess ber að geta að í flestum tilvikum eru ótollafgreiddar vörur ekki fluttar á milli geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur en í sumum tilvikum reynist slíkur flutningur nauðsynlegur. Í 71. gr. gildandi tollalaga er kveðið á um að sá sem annast flutning ótollafgreiddrar vöru beri ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda af henni. Sú áherslubreyting er lögð til í frumvarpinu að flutningsaðilar beri ekki vörsluábyrgð. Þykir rétt að leyfishafi geymslusvæðis beri ábyrgð á þeim verktaka sem hann fær til að annast flutning hinnar ótollafgreiddu vöru þar til vörunni hefur með sannanlegum hætti verið skilað á annað viðurkennt geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Þykir eðlilegt að þeir sem sérhæfa sig í meðferð ótollafgreiddra vara og hafa sett tryggingar fyrir greiðslu aðflutningsgjalda sem þeir kunna að verða ábyrgir fyrir vegna starfsemi sinnar geti valið um hvort þeir flytja vöruna sjálfir eða fela þriðja aðila sem ekki er sérhæfður í slíkum flutningum að flytja vöruna. Að sama skapi þykir óeðlilegt að leyfishafi geymslusvæðis sem er sérhæfður í meðferð ótollafgreiddra vara geti falið flutningsaðila, t.d. leigubílstjóra eða sendibílsstjóra, sem ekki er sérhæfður í meðferð ótollafgreiddra vara, að annast flutning ótollafgreiddra vara, og með því losnað undan ábyrgð sinni á vörslu vörunnar og þar með greiðslu aðflutningsgjalda af henni ef hún glatast eða fer forgörðum. Jafnframt þykir óeðlilegt að verktaki sem tekur að sér flutning ótollafgreiddrar vöru á milli viðurkenndra geymslusvæða, án þess að vera sérhæfður flutningsaðili fyrir slíkar vörur, geti orðið ábyrgur fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörunni. Af þessum sökum þykir rétt að leyfishafi geymslusvæðis beri ábyrgð á flutningi ótollafgreiddra vara sem hann lætur framkvæma fyrir sig með þessum hætti.

Um 79. gr.


    Ákvæði 79. gr. frumvarpsins er nýmæli.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að rekstraraðili geymslusvæðis skuli tilkynna tollstjóra í því tollumdæmi þar sem geymslusvæðið er um fyrirhugaðan flutning vöru á geymslusvæði með sannanlegum hætti. Ekki er kveðið á um tiltekið form tilkynningar en þó er gert ráð fyrir að þorri tilkynninga berist tollstjóra með rafrænum hætti eftir ákveðnum samskiptareglum sem tollstjórinn í Reykjavík setur, sbr. 2. tölul. 43. gr. Tollstjóri skal eigi síðar en 24 klukkustundum eftir að tilkynning berst lýsa því yfir hvort flutningur sé heimill eða hvort varan skuli kyrrsett til frekari skoðunar. Tollstjóra er veittur mjög skammur frestur til þess að ákveða hvort hann telur þörf á að kyrrsetja vöru til frekari skoðunar og það skal gert með sérstakri tilkynningu til rekstraraðila geymslusvæðis. Þarfir viðskiptalífsins krefjast þess að flutningur vöru gangi hratt og örugglega fyrir sig og þess vegna er lagt til að tollstjóri veiti heimild til flutnings vöru á tilgreind geymslusvæði eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 24 klukkustundum eftir að tilkynning barst honum með sannanlegum hætti. Gert er ráð fyrir að í allflestum tilvikum verði ákvörðun um kyrrsetningu eða afhendingu vöru tilkynnt rekstraraðila geymslusvæðis innan mjög skamms tíma frá því að tollstjóra barst tilkynning um fyrirhugaðan flutning vöru. Með því fyrirkomulagi tilkynninga sem mælt er fyrir um í ákvæðinu er leitast við að koma til móts við þarfir viðskiptalífsins um hraða og skilvirkni í viðskiptum og kröfu tollyfirvalda um ráðrúm til að sinna eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti.
    2. mgr. er samhljóða 2. málsl. 81. gr. núgildandi tollalaga.

Um 80. gr.


    Í 1. mgr. 80. gr. er mælt fyrir um heimild til flutnings ótollafgreiddra vara á milli viðurkenndra geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur án sérstaks leyfis tollstjóra. Þó er mælt fyrir um að vörsluhafi skuli tilkynna tollstjóra um flutning vöru áður en hann fer fram. Leyfi tollstjóra er ekki áskilið fyrir flutningnum en tilgangur tilkynningar er að gera tollstjóra kunnugt um staðsetningu vöru ef hann telur ástæðu til að skoða hana vegna tolleftirlits. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að vörsluábyrgð flyst ekki frá einum leyfishafa geymslusvæðis til annars við tilkynningu samkvæmt þessari grein. Til þess að vörsluábyrgð verði flutt á milli leyfishafa geymslusvæða þurfa skilyrði 81. gr. um yfirfærslu ábyrgðar vörsluhafa að vera uppfyllt.
    Í 2. mgr. er kveðið á um undantekningu frá meginreglu 1. mgr. um frjálsan flutning ótollafgreiddra vara milli viðurkenndra geymslusvæða en í 2. mgr. kemur fram að óheimilt sé að flytja ótollafgreidda vöru úr tollfrjálsri forðageymslu eða tollfrjálsri verslun nema að fengnu sérstöku leyfi tollstjóra. Helgast þessi undantekning af því að tollfrjálsar forðageymslur og tollfrjálsar verslanir eru hugsaðar sem endastöðvar í flutningskeðju ótollafgreiddra vara og ekki er gert ráð fyrir að ótollafgreiddar vörur fari þaðan á önnur geymslusvæði nema í undantekningartilvikum.

Um 81. gr.


    Ákvæði 81. gr. er nýmæli. Settar eru fram skýrar reglur um yfirfærslu vörsluábyrgðar frá einum leyfishafa geymslusvæðis til annars við flutning ótollafgreiddrar vöru á milli geymslusvæða. Gert er ráð fyrir að móttakandi vöru staðfesti móttöku hennar með formlegum hætti til sönnunar á yfirfærslu vörsluábyrgðar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að um sönnun á yfirfærslu vörsluábyrgðar samkvæmt ákvæðinu fari eftir formreglum 82. gr. um geymsluband og 83. gr. um tollband. Slík sönnun er skilyrði þess að vörsluábyrgð verði flutt á milli aðila, þ.e. það er lagt á þann sem ber vörsluábyrgð að sýna fram á að hann hafi fært vörsluábyrgð sína yfir á annan til þess bæran vörsluaðila, fyrr verður hann ekki laus undan vörsluábyrgð vegna hlutaeigandi vöru.

Um 82. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er nýmæli. Þar er mælt fyrir um að við flutning á ótollafgreiddum vörum á milli geymslusvæða, sem ekki eru á ábyrgð sama leyfishafa, skuli leyfishafi geymslusvæðis á sendingarstað gefa út fylgibréf með vörunum á eyðublað sem tollstjórinn í Reykjavík lætur útbúa.
    Lagt er til að sá háttur sem mælt er fyrir um í ákvæðinu, til sönnunar á flutningi ótollafgreiddrar vöru á milli geymslusvæða, beri heitið „geymsluband“. Heitið þykir lýsandi vegna þess að sú aðferð sem ákvæðið tiltekur veitir sönnun fyrir flutningi vara á milli geymslusvæða. Hugtakið „tollband“ hefur lengi verið notað í framkvæmd þrátt fyrir að það komi ekki fram í lögum. Með því er vísað til þeirrar formlegu framkvæmdar við flutning ótollafgreiddar vöru innan lands, einkum til tollfrjálsra verslana á Keflavíkurflugvelli og varnarliðsins, sem viðhöfð er til þess að unnt sé að tryggja sönnun um staðsetningu hennar og það hver beri ábyrgð á vörslu hennar. Tilvitnuð framkvæmd á sér stoð í 66. gr. gildandi tollalaga og 51. og 53. gr. reglugerðar nr. 41/1957 um tollheimtu og tolleftirlit, með síðari breytingum. Eins og áður segir er lagt til að hugtakið „geymsluband“ verði notað um flutning vara á milli geymslusvæða til samræmis við hugtakið „tollband“. Jafnframt er lagt til að tollbandshugtakið verði fært í lög, sbr. 83. gr. frumvarpsins, en þar er mælt fyrir um flutning vöru í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu og varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli. Eins og áður segir hefur tollbandshugtakið einkum verið notað í tengslum við flutning vöru í tollfrjálsar verslanir og á varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að hugtakið verði einnig notað við flutning vöru í tollfrjálsa forðageymslu en allt eru þetta endastöðvar í flutningakeðju ótollafgreiddrar vöru og ekki er gert ráð fyrir að ótollafgreiddar vörur fari þaðan á önnur geymslusvæði nema í undantekningartilvikum. Í þeim tilvikum þegar ótollafgreidd vara fer á tollbandi er það tollstjóri á sendingarstað en ekki leyfishafi geymslusvæðis sem gefur út fylgibréf með vörunni til ákvörðunarstaðar.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að sönnun um flutning skuli vera á formi fylgibréfs (tollseðils) sem fylgir vörusendingu frá sendingarstað til ákvörðunarstaðar og er loks sent til tollstjóra á sendingarstað til að gefa til kynna að flutningi sé lokið.
    Í 2. mgr. er tekið fram að áritað eintak leyfishafa geymslusvæðis um móttöku sé sönnun þess að vörsluábyrgð þess sem lét ótollafgreidda vöru af hendi sé lokið. Tilgangur 1. og 2. mgr. greinarinnar er að tryggja að vörsluhafi ótollafgreiddrar vöru geti sýnt fram á að hann hafi afhent ótollafgreidda vöru til aðila sem er til þess bær að taka við henni, þ.e. annar leyfishafi tollvörugeymslu eða frísvæðis. Sá tekur við vörsluábyrgðinni með áritun á fylgibréfið.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að vara á geymslubandi skuli afhent á annað geymslusvæði innan 24 klukkustunda frá því að hún var flutt af fyrra geymslusvæði. Er ákvæðið sett fram til áréttingar um að flutningur ótollafgreiddrar vöru skuli taka eins skamman tíma og kostur er. Gert er ráð fyrir að þessi tímafrestur nægi í öllum tilvikum nema þegar óviðráðanlegar aðstæður valda töfum á flutningi.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að í stað fylgibréfs og áritunar á það komi rafrænar tilkynningar til tryggingar á sönnun um yfirfærslu vörsluábyrgðar.

Um 83. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar er nýmæli í tollalögum sem mælir fyrir um form sönnunar á flutningi í „tollfrjálsa endastöð“, þ.e. í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli. Í þessu sambandi er vísað til umfjöllunar um tollband í athugasemdum við 82. gr. Eins og áður segir er lagt til að hugtakið „tollband“ verði einnig notað við flutning ótollafgreiddrar vöru á tollfrjálst svæði, í tollfrjálsa forðageymslu og á varnarsvæðið en allt eru þetta endastöðvar í flutningskeðju ótollafgreiddra vara og ekki er gert ráð fyrir að ótollafgreiddar vörur fari þaðan á önnur geymslusvæði nema í undantekningartilvikum. Í þeim tilvikum þegar ótollafgreidd vara er flutt á tollbandi er það tollstjóri á sendingarstað en ekki leyfishafi geymslusvæðis sem gefur út fylgibréf með vörunni til ákvörðunarstaðar. Tollstjóri á ákvörðunarstað staðfestir afhendingu sendingar á tollfrjálst svæði, í tollfrjálsa forðageymslu eða á varnarsvæðið.
    Í 2. mgr. er tekið fram að eintak fylgibréfs (tollseðils) sem áritað hefur verið af tollstjóra um móttöku vöru á ákvörðunarstað er sönnun vörslumanns eða leyfishafa geymslusvæðis um að vörsluábyrgð þess sem lét ótollafgreidda vöru af hendi sé lokið. Tilgangur 1. og 2. mgr. 83. gr. er að tryggja að vörsluhafi ótollafgreiddrar vöru geti sýnt fram á að hann hafi afhent ótollafgreidda vöru þar til bærum aðila.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að vara á tollbandi skuli afhent á annað geymslusvæði innan 24 klukkustunda frá því að hún var flutt af fyrra geymslusvæði. Er ákvæðið sett fram til áréttingar um að flutningur ótollafgreiddrar vöru skuli taka eins skamman tíma og kostur er. Gert er ráð fyrir að þessi tímafrestur nægi í öllum tilvikum nema þegar óviðráðanlegar aðstæður valda töfum á flutningi.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að í stað fylgibréfs og áritunar á það komi rafrænar tilkynningar til tryggingar á sönnun um yfirfærslu vörsluábyrgðar.

Um 84. gr.


    Í greininni er fjallað um vörutalningar (birgðatalningar) tollstjóra á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur.
    Í 1. mgr. 84. gr. er kveðið á um að tollstjóri geti hvenær sem er framkvæmt vörutalningu á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Vörutalning er mikilvægur þáttur í eftirlitsstörfum tollstjóra. Hún er nauðsynleg til þess að tollstjóri geti kannað ástand mála á geymslusvæðum og haft eftirlit með því hvort vöruskráning, meðferð og varsla ótollafgreiddra vara sé í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 80. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði 2. mgr. leggur þær skyldur á herðar leyfishafa geymslusvæðis að gera geymslusvæðið þannig úr garði að það sé aðgengilegt fyrir tollstjóra þannig að framkvæma megi vörutalningu á svæðinu. Þá er leyfishafi skyldur til þess að gefa tollstjóra allar nauðsynlegar upplýsingar, m.a. upplýsingar úr birgðabókhaldi í samræmi við ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 91. gr. frumvarpsins, og aðstoða tollstjóra við talninguna. Ákvæði 2. mgr. 87. gr. er að mestu samhljóða 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 80. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði 3. mgr. er nýmæli. Ákvæðið leggur þá skyldu á herðar leyfishafa geymslusvæðis að hafa ábyrgðarmann viðstaddan vörutalningu tollstjóra. Tilgangur ákvæðisins er annars vegar að veita leyfishafa geymslusvæðis rétt til þess að hafa fulltrúa sinn viðstaddan talninguna og þar með rétt til þess að koma á framfæri athugasemdum við framkvæmd talningarinnar ef ástæða þykir til. Hins vegar er tilgangur ákvæðisins að tryggja að tollstjóri hafi við framkvæmd talningar aðgang að aðila sem getur gefið þær upplýsingar sem tollstjóri óskar eftir og aðstoðað að öðru leyti við vörutalningu eftir því sem þurfa þykir.

Um 85. gr.


    Í 85. og 86. gr. er fjallað um vöntun á ótollafgreiddum vörum í vörusendingu. Í frumvarpinu er annars vegar gert ráð fyrir að vöntun geti verið sýnileg við affermingu fars og hins vegar er gert ráð fyrir að um leynda vöntun geti verið að ræða, þ.e. vöntun sem ekki er sýnileg við affermingu. Mælt er fyrir um rýmri reglur til niðurfellingar aðflutningsgjalda þegar unnt er að staðreyna vöntun með nokkuð óyggjandi hætti strax við affermingu fars. Þá þykja líkur hníga í þá átt að vöntun hafi komið til utan tollsvæðis ríkisins. Þegar vöntun kemur síðar fram þykir hins vegar rétt að gera auknar kröfur um sönnun vöntunar, þ.e. sönnun þess að vöntun hafi komið til utan tollsvæðis ríkisins. Þess vegna er lagt til að fjallað verði um hvora tegund vöntunar í sinni greininni þar sem skilyrði niðurfellingar aðflutningsgjalda eru ekki hin sömu í þessum tilvikum.
    Í 1. mgr. 85. gr. er kveðið á um að þegar vöntun er sýnileg við affermingu fars skuli tollstjóri lækka, fella niður eða endurgreiða toll eftir því sem við á hverju sinni. Í ákvæðinu er tekið fram að vöruvöntun telst sýnileg komi vörusending ekki fram við affermingu fars eða ef sýnilegt er af ytri umbúðum að vörur vantar í sendingu við affermingu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti með reglugerð mælt fyrir um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls skv. 1. mgr. Um þetta efni er nú fjallað í reglugerð nr. 760/2000, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda, með síðari breytingum.

Um 86. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er sett fram ákvæði um leynda vöntun í vörusendingu en með leyndri vöntun er átt við aðra vöntun en þá sem skilgreind er í 85. gr., þ.e. vöntun í vörusendingu, sem sett er á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr. eða geymd með leyfi tollstjóra utan slíkra svæða sbr. 3. mgr. 69. gr., og vöntunarinnar mátti ekki verða vart við affermingu flutningsfars. Þegar vöntun er skilgreind sem leynd vöntun ber að greiða aðflutningsgjöld af því vörumagni sem skráð er á geymslusvæði, sbr. 76. gr. frumvarpsins, en þar er mælt fyrir um að aðflutningsgjöld miðist við það vörumagn sem skráð er inn á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að aðflutningsgjöld skuli innheimt með 20% álagi en þá er átt við að 20% leggist ofan á útreiknuð aðflutningsgjöld sem greiða átti af þeim vörum sem voru ekki til staðar á geymslusvæði. Þetta nýmæli er lagt til vegna þess að talsvert hefur borið á því við vörutalningar tollstjóra að vörur vanti á geymslusvæði. Rétt þykir að leggja til að aðflutningsgjöld séu innheimt með álagi í ljósi þess aukna frelsis við meðferð og vörslur ótollafgreiddra vara sem ákvæði frumvarpsins boða. Lagt er til að auknu frelsi fylgi ábyrgð með þessum hætti. Samsvarandi ákvæði um vöntun er í 85. gr. gildandi tollalaga en þó eru lagðar aðrar áherslur í frumvarpinu þar sem vöntun er skipt upp í sýnilega og leynda vöntun en það er ekki gert í gildandi lögum. Auk þess eru skilyrði niðurfellingar vegna vöntunar sett fram með nákvæmari hætti í frumvarpinu.
    Þá er í 1. mgr. 86. gr. gerð undantekning frá greiðsluskyldu leyfishafa geymslusvæðis vegna vöntunar með þeim hætti að heimilt er að fella niður, lækka eða endurgreiða toll eftir atvikum ef leyfishafinn sýnir fram á að vöntunin sé til komin áður en varan var flutt inn á tollsvæði ríkisins, sbr. meginreglu 5. gr. frumvarpsins um að tollur skuli greiddur samkvæmt tollskrá af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls skv. 1. mgr. Um þetta efni er fjallað í reglugerð nr. 760/2000, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda, með síðari breytingum.

Um 87. gr.


    Í gildandi tollalögum er ekki kveðið á um hvernig skuli fara með birgðir á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur sem eru umfram þær birgðir sem skráðar hafa verið inn á geymslusvæðið. Ákvæði 1. mgr. 87. gr. er nýmæli um hvernig fara skal með umframbirgðir á geymslusvæði, þ.e. birgðir sem eru umfram þær birgðir sem eru skráðar í geymsluna í samræmi við fyrirmæli 76. gr. frumvarpsins. Leyfishafa geymslusvæðis er gefinn kostur á því að skrá umframbirgðir í birgðabókhald um leið og hann verður þeirra var. Með þeirri skráningu felst yfirlýsing um innflutning aukins vörumagns og aðflutningsgjöld eru lögð á eftir almennum reglum. Þá er kveðið á um það í ákvæðinu að leyfishafi geymslusvæðis skuli tilkynna tollstjóra um slíka skráningu. Komi umframbirgðir hins vegar fram við vörutalningu tollstjóra á geymslusvæði skal leyfishafi geymslusvæðis greiða aðflutningsgjöld af umframbirgðunum. Skyldan til þess að greiða aðflutningsgjöldin er lögð á leyfishafa geymslusvæðis vegna þess að ekki hefur verið gerð grein fyrir vörunni með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 76. gr. frumvarpsins. Það er á valdi leyfishafa geymslusvæðis að halda rétta skráningu á geymslusvæði og lagt er til að hann beri ábyrgð samkvæmt því.

Um 88.–90. gr.


    Í 1. mgr. 64. gr. núgildandi laga er mælt fyrir um að eigendur eða umráðamenn farartækja, sem flytja vörur frá útlöndum eða ótollafgreiddar vörur á milli tollhafna innan lands, skuli hafa til umráða eða eiga aðgang að nægum geymslustöðum fyrir slíkar vörur og skuli þeim haldið þar aðgreindum frá öðrum varningi. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að geymslu- og afgreiðslustaðir þessir skuli viðurkenndir af viðkomandi tollstjóra. Framkvæmd hjá tollstjórum hefur ekki að öllu leyti verið samræmd og hafa ótollafgreiddar vörur í einhverjum tilvikum verið geymdar á stöðum sem ekki hafa hlotið viðurkenningu tollstjóra. Þess vegna er lagt til að geymslur farmflytjenda eins og þær eru oft nefndar eða geymslur skv. 64. gr. núgildandi tollalaga verði starfræktar á grundvelli sérstaks leyfis tollstjórans í Reykjavík. Lagt er til að tollstjórinn í Reykjavík veiti leyfi til reksturs þessara geymslusvæða á landsvísu þannig að samræmd framkvæmd við veitingu leyfa verði tryggð. Jafnframt er lagt til að í stað þess að kalla nefnd geymslusvæði „geymslur farmflytjenda“ verði þau kölluð „afgreiðslugeymslur“, m.a. vegna þess að tollmiðlarar geta einnig fengið leyfi til þess að reka þessa tegund geymslusvæðis. Þá þykir heitið lýsandi vegna þess að ótollafgreiddar vörur eru að jafnaði ekki geymdar um langa hríð á þessum geymslusvæðum heldur afgreiddar til notkunar innan lands eða til varanlegrar geymslu á öðrum geymslusvæðum.

Um 88. gr.


    Í 1. mgr. 88. gr. er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík veiti leyfi til reksturs afgreiðslugeymslu fyrir ótollafgreiddar vörur að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Vísað er til 91. gr. um þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu slíks leyfis. Þeir sem geta fengið leyfi til reksturs afgreiðslugeymslu eru farmflytjendur, sem flytja vörur frá útlöndum, og tollmiðlarar.
    Í 2. mgr. 88. gr. er kveðið á um að ef farmflytjendur og tollmiðlarar reka ekki afgreiðslugeymslur í eigin nafni skuli þeir eiga aðgang að geymslum sem þessum. Ákvæðið á að nokkru leyti fyrirmynd í 64. gr. gildandi tollalaga en kveðið er fastar að orði í frumvarpinu varðandi skilyrði fyrir veitingu leyfis til reksturs afgreiðslugeymslu.
    Um athugasemdir við 3. mgr. er vísað til athugasemda við 2. mgr. 91. gr. eftir því sem við á. Um athugasemdir við 4. mgr. er vísað til athugasemda við 2. og 3. mgr. 91. gr. eftir því sem við á.

Um 89. og 90. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 91. gr.


    Í 1. mgr. 91. gr. er mælt fyrir um að ráðherra veiti leyfi til reksturs tollvörugeymslu fyrir ótollafgreiddar vörur í tollhöfn að uppfylltum viðeigandi skilyrðum. Í ákvæðinu eru nokkur nýmæli.
    Í fyrsta lagi er kveðið á um að heimild ráðherra til þess að veita leyfi til reksturs tollvörugeymslu sé bundin við tollhafnir, sbr. 41. gr. Ákvæði frumvarpsins fela ráðherra að ákveða staðsetningu tollhafna með reglugerð og um það atriði er vísað til athugasemda við 41. gr.
    Í öðru lagi er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til reksturs tollvörugeymslu með nákvæmari hætti en gert er í núgildandi tollalögum. Handhafar starfsleyfis eru vörsluhafar ótollafgreiddra vara og bera ríkar skyldur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þess vegna þykir rétt að binda starfsleyfi þeim skilyrðum sem talin eru upp í 1.–9. tölul. 1. mgr.
    Í 1. tölul. er kveðið á um að umsækjandi skuli vera lögaðili, þ.e. félag starfrækt á viðurkenndu félagaformi.
    Í 2. tölul. er fjallað um fjölda stjórnarmanna og hæfi þeirra. Stjórnarmenn umsækjanda skulu vera a.m.k. tveir. Þá eru sett fram ítarleg almenn hæfisskilyrði um stjórnarmenn. Fyrirmynd ákvæðisins er að hluta til sótt í ákvæði um stjórnarmenn hlutafélaga og einkahlutafélaga samkvæmt gildandi lögum um það efni. Að auki þykir rétt að gera þá kröfu til stjórnarmanna að þeir hafi ekki gerst sekir um brot á tollalögum og fíkniefnalöggjöf. Verður að telja þau hæfisskilyrði sem hér eru sett fram eðlileg um stjórnendur tollvörugeymslu, sem annast mikilvægt hlutverk við vörslu og meðferð ótollafgreiddra vara.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að daglegur stjórnandi uppfylli skilyrði 2. tölul. um hæfi stjórnarmanna. Með orðunum „daglegur stjórnandi“ er átt við þann sem er hæstráðandi í fyrirtækinu í daglegum rekstri þess, t.d. forstjóri eða framkvæmdastjóri.
    Í 4. tölul. er mælt fyrir um að leyfishafi skuli setja tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda sem hann kann að verða ábyrgur fyrir vegna starfseminnar. Kveðið er á um að nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skuli sett í reglugerð. Rétt er að miða við umfang geymslusvæðis og eðli þeirrar vöru sem þar er geymd þegar viðmið eru sett um fjárhæð tryggingar. Til dæmis þykir rétt að gera kröfu um hærri tryggingu þegar þær vörur sem í hlut eiga bera há aðflutningsgjöld.
    Í 5. tölul. er kveðið á um að geymslusvæði skuli hafa hlotið viðurkenningu tollstjóra skv. 2. mgr. 72. gr. Greinin er að öðru leyti að mestu samhljóða 2. mgr. 64. gr. gildandi tollalaga.
    6. tölul. er í grundvallaratriðum samhljóða 3. mgr. 64. gr. gildandi tollalaga. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að tollstjóri skuli fá til afnota afmarkað húsrými á geymslusvæðum með nauðsynlegum húsgögnum, svo sem stöðugu borði, og tölvutengingum, til tolleftirlits og rannsóknar á vörum. Það þykir jafnframt rétt að það komi skýrt fram í ákvæðinu að leyfishafa geymslusvæðis ber eingöngu að láta tollstjóra í té einföld tæki og áhöld til skoðunar á vörum, svo sem hamar, kúbein og dúkahníf. Þessi áhöld eru ætluð til þess að opna og loka umbúðum.
    Í 7. tölul. er kveðið á um þau atriði sem þurfa að vera tryggð við hönnun og útfærslu á birgðabókahaldi fyrir tollvörugeymslur. Í töluliðnum er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík skuli staðfesta birgðabókhald umsækjanda. Sá áskilnaður er gerður vegna þess að tollstjórinn í Reykjavík hefur yfirumsjón með rekstri tölvukerfa sem notuð eru við tollafgreiðslu, sbr. 1. tölul. 43. gr., og er þess vegna fær um að meta hvort tölvukerfi umsækjenda uppfylli skilyrðin sem tiltekin eru. Nefnd skilyrði eru sett til þess að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir varðandi inn- og útflutta vöru eftir atvikum og til þess að unnt sé að framfylgja ákvæðum frumvarpsins að öðru leyti, m.a. um álagningu aðflutningsgjalda og frest til greiðslu þeirra.
    Í 8. tölul. er það gert að skilyrði að starfsmenn umsækjanda hafi haldgóða þekkingu á tollalögum og viðeigandi stjórnvaldsfyrirmælum á sviði tollamála. Það er mikilvægt að starfsmenn umsækjanda kunni skil á lögum og reglum sem gilda um tollafgreiðslu vöru, vörslu hennar og tengd atriði. Það er áskilið að sýnt sé fram á að skjalagerð vegna tollmeðferðar, stjórnun, innra eftirlit, bókhald og varsla gagna sé traust.
    Í 9. tölul. er áskilið að hagkvæmniútreikningar vegna reksturs geymslusvæðis liggi fyrir. Í hagkvæmniútreikningum skal sýnt fram á rekstrargrundvöll fyrir tollvörugeymslu. Í reglugerð um frísvæði, nr. 527/1991, er áskilið að hagkvæmnisútreikningur fylgi umsókn um starfsleyfi til reksturs frísvæðis. Rétt þykir að slíkar upplýsingar liggi einnig fyrir vegna umsóknar um starfsleyfi fyrir tollvörugeymslur. Sambærilegar kröfur eru gerðar í löggjöf ESB, sbr. 510. gr. reglugerðar ráðsins nr. 2913/92 frá 12. október 1992.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að fjármálaráðherra haldi skrá yfir þá sem veitt hefur verið leyfi til að reka tollvörugeymslur. Jafnframt er mælt fyrir um að öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá sé óheimilt að reka tollvörugeymslu. Það er mikilvægt að inn- og útflytjendur geti nálgast upplýsingar um það hverjir hafi leyfi til að annast geymslu ótollafgreiddra vara.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að leyfi er veitt falli starfsleyfi niður. Sama á við ef leyfishafi hefur ekki veitt þjónustu, sem starfsleyfi tekur til, samfellt í tólf mánuði. Eðlilegt þykir að ákvæði af þessu tagi sé sett enda nauðsynlegt að á hverjum tíma sé tryggt að öruggar upplýsingar liggi fyrir um þá leyfishafa sem raunverulega starfa samkvæmt leyfi yfirvalda til að annast geymslu ótollafgreiddra vara. Jafnframt væri óeðlilegt ef aðilar gætu geymt starfsleyfi ótímabundið og hafið síðar starfsemi á grundvelli þess, jafnvel þegar langt væri liðið frá leyfisveitingu og óvíst hvort leyfishafi uppfyllti í raun kröfur sem þá væru gerðar til leyfishafa.
    4. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 92. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 93. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um hvaða vörur heimilt er að flytja í tollvörugeymslu. Ákvæðið á að hluta til samsvörun í 2. mgr. 74. gr. gildandi tollalaga. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 94. gr.


    Ákvæði 94. gr. frumvarpsins er nýmæli. Þar er lagt til að heimilt verði að geyma tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur í sama rými í tollvörugeymslu að fengnu leyfi fjármálaráðherra og að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Ákvæði gildandi tollalaga gera ekki ráð fyrir að tollafgreiddar vörur séu geymdar í tollvörugeymslu en viðskiptalífið hefur kallað eftir slíkri heimild. Birgðahald fyrirtækja hefur í auknum mæli færst inn á frísvæðin og þess vegna er mikilvægt að unnt sé að geyma tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur á einum stað. Slíkt fyrirkomulag leiðir einnig til aukins hagræðis við dreifingu á vörum til kaupenda. Sölufyrirtæki gera kröfur um ákveðinn sveigjanleika við birgðahald og dreifingu vara í því augnamiði að unnt sé að geyma vörur á viðeigandi geymslusvæði, undirbúa þær til dreifingar og fá þær tollafgreiddar á þeim tíma sem hentar markaðnum hverju sinni. Vegna þessa hafa komið til sögunnar nýjar tegundir vöruhúsa, svokölluð vöruhótel, sem annast lagerhald og vörudreifingu fyrir hönd sölufyrirtækjanna. Með því að fela vöruhótelum birgðahald og vörudreifingu geta fyrirtæki í einhverjum tilvikum lækkað kostnað og aukið hagkvæmni í rekstri sínum. Til þess að vöruhótelum sé fært að veita slíka þjónustu þarf að vera mögulegt að geyma ótollafgreiddar og tollafgreiddar vörur í sama rými, undir ströngu eftirliti tollyfirvalda. Eftirlit með geymslusvæðum fyrir tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur er vandasamara en eftirlit með hefðbundnum geymslusvæðum og þess vegna eru lögð til eftirtalin skilyrði fyrir því að heimilað verði að tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur séu geymdar á sama geymslusvæði. Skilyrði þessi eru talin upp í þremur töluliðum:
    1. tölul. mælir fyrir um skýra aðgreiningu á tollafgreiddum og ótollafgreiddum vörum í birgðabókhaldi geymslunnar. Þá er mælt fyrir um að tollstjórinn í Reykjavík samþykki vél- og hugbúnað tollvörugeymslu að þessu leyti.
    2. tölul. kveður á um að ráðherra geti sett frekari skilyrði fyrir því að heimilað verði að tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur verði geymdar á sama geymslusvæði. Slík skilyrði hafa þann tilgang að tryggja fullnægjandi tolleftirlit. Skilyrði 94. gr. eru því ekki tæmandi talin.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti afturkallað leyfi samkvæmt ákvæðinu, að tillögu tollstjórans í Reykjavík, uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði 1. mgr.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra geti kveðið nánar á um skilyrði fyrir geymslu tollafgreiddra og ótollafgreiddra vara í sama rými í tollvörugeymslu með reglugerð.
    Fyrirmynd 94. gr. er að nokkru leyti sótt í 524. gr. reglugerðar ráðsins nr. 2913/92 frá 12. október 1992.

Um 95. gr.


    Í 1. mgr. 95. gr. kemur fram sú meginregla að iðnaðarframleiðsla og önnur aðvinnsla vöru er óheimil í tollvörugeymslu. Sama regla gildir samkvæmt gildandi tollalögum.
    Í 2. mgr. 95. gr. er kveðið á um undantekningu frá meginreglu 1. mgr. en þar er veitt heimild til óverulegrar aðvinnslu á vörum í tollvörugeymslu. Með óverulegri aðvinnslu er átt við ýmsar aðgerðir, svo sem skiptingu í smærri einingar, einfalda umpökkun, merkingu vara, t.d. með íslenskum leiðbeiningum eða innihaldslýsingu, samsetningu vöruhluta, prófun vöru og þrif. Í frumvarpinu er því lagt til að reglur um tollvörugeymslur verði rýmkaðar að þessu leyti frá því sem nú er. Það er með öðrum orðum lagt til að aðvinnsla í tollvörugeymslum verði með þeim hætti sem nú tíðkast á frísvæðum. Með þessu móti er unnt, til hagræðis fyrir atvinnulífið, að undirbúa vörur til dreifingar með lágmarksaðvinnslu í tollvörugeymslu. Um þetta efni er vísað að öðru leyti til almennra athugasemda við XIII. kafla frumvarpsins.
    Í 3. mgr. 95. gr. er mælt fyrir um að tollstjóri skeri úr ef óljóst er hvort aðvinnsla vöru falli undir ákvæði 2. mgr.
    Í 4. mgr. 95. gr. er tekið fram að tollstjóra er heimilt að takmarka aðvinnslu skv. 2. mgr. ef hann telur það nauðsynlegt vegna tolleftirlits.

Um 96. gr.


    Í 96. gr. er mælt fyrir um að ráðherra veiti leyfi til reksturs tollfrjálsra forðageymslna í tollhöfnum þar sem geyma má vistir, útbúnað og annan forða fyrir skip og flugvélar í utanlandsferðum auk varnings sem boðinn er til sölu um borð. Ákvæðið á samsvörun í 75. gr. gildandi tollalaga en þar er sú takmörkun gerð að einungis skipaútgerðir og flugfélög sem eiga farartæki að staðaldri í förum milli annarra landa geta fengið starfsleyfi til reksturs tollfrjálsrar forðageymslu. Lagt er til að ákvæðið verði rýmkað með þeim hætti að lögaðilar geti fengið leyfi til reksturs tollfrjálsrar forðageymslu að uppfylltum þeim skilyrðum sem talin eru upp í 1.–8. tölul. 1. mgr. 91. gr. frumvarpsins. Vísað er til athugasemda með 91. gr. varðandi tilgreind skilyrði. Í ljósi örra breytinga í viðskiptalífinu, svo sem varðandi rekstrarform og eignarhald á skipum og flugvélum í millilandaferðum, og þeirrar þróunar sem hefur orðið við geymslu ótollafgreiddra vara þykir ekki rétt að binda leyfi til reksturs tollfrjálsrar forðageymslu eingöngu við skipaútgerðir og flugfélög sem eiga farartæki að staðaldri í millilandaferðum. Rekstri slíkra fyrirtækja hefur í auknum mæli verið skipt upp í smærri einingar vegna hagræðis og sérstök fyrirtæki sinna þá eftir atvikum birgðahaldi fyrir skip og flugfélög. Í frumvarpinu er tekið mið af þessari þróun og rétt þykir að rýmka lagarammann þannig að fleiri aðilar geti sótt um leyfi til reksturs tollfrjálsrar forðageymslu. Til þess að gæta jafnræðis þykir rétt að binda heimild til reksturs tollfrjálsrar forðageymslu við tiltekin fagleg skilyrði án tillits til þess hvort umsækjandi er eigandi að förum sem eru í millilandaferðum að staðaldri.

Um 97. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 98. gr.


    Í 98. gr. er mælt fyrir um þær vörur sem heimilt er að flytja í tollfrjálsa forðageymslu. Ákvæðið er efnislega í samræmi við 76. gr. gildandi tollalaga. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 99. gr.


    Í 1. mgr. 99. gr. er kveðið á um hvert flytja megi vörur úr tollfrjálsri forðageymslu. Ákvæðið er að mestu efnislega samhljóða 77. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði 2. mgr. 99. mgr. er nýmæli sem felur í sér leiðbeiningu til tollstjóra þegar hann metur hvað telst hæfilegur forði fars. Nauðsynlegt þykir að tollalög hafi að geyma skýr fyrirmæli um þetta atriði en svo er ekki í gildandi lögum. Sett eru fram ákveðin viðmið, þ.e. stærð skips, gerð þess, fjöldi farþega, stærð áhafnar og lengd ferðar. Ólík viðmið skulu sett um hæfilegan forða eftir því hvort um er að ræða farþegafar eða annars konar far, svo sem fiskiskip eða far í farþegaflutningum. Þá skal litið sérstaklega til þess hvort hlutaðeigandi far er að staðaldri í förum á milli Íslands og annarra landa. Í þessu sambandi er einnig rétt að taka fram að til þess að far geti keypt tollfrjálsan forða þarf það að eiga viðkomu í erlendri höfn. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra getir sett nánari reglur samkvæmt ákvæðinu, þar á meðal um hæfilegan forða, sbr. 3. mgr.

Um 100. gr.


    Greinin er samhljóða 78. gr. núgildandi tollalaga.

Um 101. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að ráðherra veiti leyfi til reksturs tollfrjálsrar verslunar (fríhafnar). Ákvæðið er að mestu samhljóða 79. gr. núgildandi tollalaga. Þess ber þó að geta að í gildandi tollalögum er heimild ráðherra til þess að veita leyfi til reksturs verslana með tollfrjálsar vörur bundin við tilteknar hafnir og flugvelli. Ekki þykir ástæða til þess að binda heimild ráðherra við tilteknar hafnir eða flughafnir þar sem að eðli máls samkvæmt er einungis mögulegt að starfrækja tollfrjálsa verslun þar sem för í farþegaflutningum á milli landa hafa viðkomu.
    Í gildandi tollalögum er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra sé heimilt að reka tollfrjálsa verslun. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að fjármálaráðherra hafi slíkan rekstur með höndum. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að umsækjandi um starfsleyfi til reksturs tollfrjálsrar verslunar sé lögaðili. Til þess að leyfi verði veitt er gert ráð fyrir að umsækjandi uppfylli skilyrði 1.–3. og 5.–8. tölul. 1. mgr. 91. gr. frumvarpsins. Vísað er til athugasemda með 91. gr. varðandi tilgreind skilyrði.

Um 102.–103. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 104. gr.


    Í 1. mgr. 104. gr. er kveðið á um að eingöngu sé heimilt að selja farþegum og áhöfnum millilandafara á leið úr landi vörur úr tollfrjálsum verslunum. Ákvæðið er að þessu leyti samhljóða 2. mgr. 79. gr. gildandi tollalaga. Í stað áskilnaðar um að fyrirskipa megi að varningur úr tollfrjálsri verslun skuli afhentur ferðamanni eða farmanni í lokuðum umbúðum er lagt til að varningur verði eingöngu seldur úr tollfrjálsri verslun gegn framvísun brottfararspjalds til sönnunar á því að kaupandi eigi sæti í flugvél eða skipi á leið til útlanda. Þetta ákvæði er í samræmi við framkvæmd í mörgum erlendum flughöfnum. Ákvæði síðasta málsliðar 2. mgr. 79. gr. gildandi tollalaga um póstverslun úr fríhöfn er fellt brott. Nýmæli 141. gr. frumvarpsins um póstverslun úr landi gildir um þetta atriði.
    Í 2. mgr. 104. gr. er mælt fyrir um að ráðherra geti heimilað leyfishafa tollfrjálsrar verslunar að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins vörur úr tollfrjálsum verslunum. Slík verslun er starfrækt í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli á grundvelli gildandi tollalaga. Rekstur tollfrjálsrar komuverslunar er hins vegar undantekning frá meginreglu 1. mgr. 104. gr. þar sem kveðið er á um að tollfrjálsar vörur skuli aðeins seldar farþegum og áhöfnum á leið úr landi. Þess vegna er lagt til að tekið verði fram í ákvæðinu að slíkar verslanir skuli sérstaklega afmarkaðar og eingöngu aðgengilegar fyrir farþega og áhafnir sem koma til landsins.
    Í 3. mgr. 104. gr. er kveðið á um að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða vörur er heimilt að selja í tollfrjálsri komuverslun skv. 2. mgr. Þar sem að 2. mgr. felur í sér undantekningu frá meginreglu er gert ráð fyrir að takmarkaður fjöldi vörutegunda verði seldur í komuverslun.

Um 105. gr.


    Í 1. mgr. 105. gr. er mælt fyrir um að ráðherra veiti leyfi til reksturs frísvæðis að uppfylltum sömu skilyrðum og sett eru fyrir veitingu leyfis til reksturs tollvörugeymslu í 1.–9. tölul. 1. mgr. 91. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði um frísvæði eru í IX. kafla gildandi tollalaga. Í greinargerð með lögunum var tekið fram að gert væri ráð fyrir að hægt yrði að koma upp tollfrjálsum svæðum hér á landi þar sem aðstæður þættu sérstaklega henta og skapa þar með möguleika til ýmissar atvinnustarfsemi í tengslum við dreifingu og aðvinnslu á ótollafgreiddum vörum. Gert var ráð fyrir að tilgangur frísvæðis væri einkum tvíþættur, aðvinnsla á vörum og geymsla vöru til dreifingar til annarra landa. Reglugerð nr. 527/1991, um frísvæði, var sett til nánari útfærslu á ákvæðum tollalaga um frísvæði. Á undanförnum árum hafa verið gefin út fleiri leyfi til reksturs frísvæða en almennra tollvörugeymslna eins og fram kemur í almennum athugasemdum við XIII. kafla frumvarpsins. Ástæða þess er að reglur um geymslu og meðferð vara á frísvæðum eru rýmri og sveigjanlegri en samsvarandi reglur um tollvörugeymslur. Þess skal þó getið að þau leyfi til reksturs frísvæða, sem hafa verið gefin út, eru takmörkuð við geymslu og aðvinnslu á vörum skv. 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 527/1991, um frísvæði, en þar er fjallað um einfalda aðvinnslu, svo sem skiptingu sendinga, umpökkun, samsetningu, blöndun, prófun og þrif. Frá 1987 hefur ekkert leyfi til reksturs frísvæðis verið gefið út án þessarar takmörkunar, þ.e. ekkert eiginlegt frísvæði hefur verið starfrækt. Að teknu tilliti til þeirrar framkvæmdar sem hefur verið viðhöfð við útgáfu leyfa til reksturs frísvæða og tollvörugeymslna er lagt til í frumvarpinu að ákvæði um tollvörugeymslur verði rýmkuð í þá veru að þau nái til starfsemi frísvæða eins og hún er í dag, þar á meðal einfaldrar aðvinnslu, sem ekki telst til iðnaðar, svo sem skipting sendingar, umpökkunar, samsetningar, blöndunar, prófunar og þrifa. Þá er hins vegar lagt til að ákvæði um frísvæði verði áfram í tollalögum en tilgangur frísvæðis verði einungis fólginn í því að veita fyrirtækjum, jafnt innlendum sem erlendum, kost á að framleiða hér eða ljúka framleiðslu ýmiss konar varnings eins og tækja, véla, varahluta og ýmissa annarra fullbúinna vara sem síðan verða fluttar á innanlandsmarkað eða á erlenda markaði. Gert er ráð fyrir að aðvinnsla á frísvæði verði þá umfangsmeiri en sú aðvinnsla sem heimil er í tollvörugeymslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Með öðrum orðum er lagt til að leyfi til reksturs frísvæðis verði eingöngu veitt þeim er hyggjast starfrækja eiginlega iðnaðarstarfsemi á frísvæði. En aðrar vörur, þ.e. vörur sem ekki eru ætlaðar til aðvinnslu á frísvæði, verði geymdar í tollvörugeymslu.

Um 106. og 107. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 108. gr.


    Í 108. gr. kemur fram að miða ber ákvörðun aðflutningsgjalda við tollverð þeirrar vöru sem afhent er af frísvæði til notkunar innan lands eða þeirrar vöru sem flutt er til útlanda. Gert er ráð fyrir að í flestum tilvikum sé um að ræða vöru sem framleidd er á frísvæðinu úr efnivörum sem fluttar voru inn á frísvæðið til iðnaðarframleiðslu.

Um XIV. kafla.


    Í XIV. kafla frumvarpsins er fjallað um álagningu aðflutningsgjalda, endurákvörðun þeirra, kærur o.fl. Kaflinn er að mestu byggður á samsvarandi kafla í gildandi tollalögum. Nokkur nýmæli eru í kaflanum. M.a. eru málskotsleiðir tollalaga einfaldaðar. Lagt er til að allir úrskurðir tollstjóra sæti kæru til ríkistollanefndar. Samkvæmt gildandi tollalögum sæta sumir úrskurðir tollstjóra málskoti til fjármálaráðuneytis en aðrir eru kæranlegir til ríkistollanefndar. Þykir þessi breyting til hagsbóta fyrir þá sem vilja nýta sér heimild til stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds.

Um 109. gr.


    Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. frumvarpsins er efnislega samhljóða 1. mgr. 97. gr. gildandi tollalaga. Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 109. gr. er nýmæli þar sem mælt er fyrir um að álagning skuli byggð á upplýsingum sem koma fram í aðflutningsskýrslu og viðeigandi fylgiskjölum. Í þessu sambandi er vísað til VII. kafla frumvarpsins þar sem fjallað er um þær upplýsingar sem eiga að koma fram í aðflutningsskjölum. Í 3. málsl. 1. mgr. 109. gr. er þó mælt fyrir um heimild til handa tollstjóra til þess að leiðrétta augljósar og smávægilegar villur í skriflegum aðflutningsskýrslum sem honum hafa verið látnar í té. Málsliðurinn kemur að hluta til í stað 3. mgr. 97. gr. gildandi tollalaga en þó er lagt til að skylda tollstjóra til þess að gera innflytjanda viðvart um breytingar samkvæmt ákvæðinu gildi ekki samkvæmt hinu nýja ákvæði. Til þess að leiðrétting sé heimil verður hún að vera smávægileg og óyggjandi og þess vegna þykir rétt til hagræðis fyrir tollstjóra að umrædd tilkynningarskylda verði felld brott. Leiði leiðrétting til gjaldabreytinga eða að öðru leyti til breytinga á réttarstöðu innflytjanda telst hún ekki smávægileg. Fer þá um leiðréttingu eða endurákvörðun eftir öðrum ákvæðum XIV. kafla eftir því sem við á. Það kemur ekki til þess að tollstjóri leiðrétti augljósar og smávægilegar villur í rafrænum aðflutningsskýrslum. Sá háttur er hafður á að skýrsla er ekki lesin inn í tölvukerfi tollyfirvalda og móttekin fyrr en tiltekin grundvallaratriði liggja fyrir. Þess vegna þykir óþarfi að geta sérstakrar heimildar til handa tollstjóra til leiðréttingar augljósra og smávægilegra villna þegar rafrænar aðflutningsskýrslur eru annars vegar. Komi til leiðréttingar rafrænna aðflutningsskjala er lagt til að tollstjóri skori á innflytjanda að bæta úr því innan ákveðins tíma í samræmi við ákvæði 2. mgr. 110. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er gengið út frá að útreikningur aðflutningsgjalda við álagningu hvíli á herðum tollstjóra. Í framkvæmd hefur sú verið raunin enda þótt 2. mgr. 97. gr. gildandi tollalaga mæli fyrir um að ráðherra sé heimilt að ákveða með reglugerð að innflytjandi eða umboðsmaður hans skuli reikna út tolla og önnur gjöld í aðflutningsskýrslu. Jafnframt er kveðið á um í 1. málsl. 3. mgr. 97. gr. gildandi tollalaga að tollstjóra sé heimilt að leiðrétta augljósar villur í útreiknaðri aðflutningsskýrslu. Sá háttur hefur verið viðhafður að aðflutningsgjöld eru reiknuð í tölvukerfi tollyfirvalda og þess vegna er lagt til að tilvitnuð ákvæði núgildandi tollalaga verði felld brott.
    2. mgr. 109. gr. er að hluta til efnislega samhljóða 4. mgr. 97. gr. gildandi tollalaga.
    Áætlun aðflutningsgjalda er undanfari nauðungarsölu.

Um 110. gr.


    Í frumvarpinu er fjallað um leiðréttingar aðflutningsskýrslna, sem hafa verið látnar tollstjóra í té, í tveimur greinum. Í 110. gr. er fjallað um leiðréttingu skýrslu fyrir tollafgreiðslu og í 116. gr. er fjallað um leiðréttingu skýrslu eftir tollafgreiðslu.
    Í 110. gr. er mælt fyrir um heimildir tollstjóra til þess að skora á innflytjanda eða umboðsmann hans að leiðrétta aðflutningsskýrslu og/eða fylgigögn hennar fyrir tollafgreiðslu. Ákvæðið á jöfnum höndum við um skriflegar og rafrænar aðflutningsskýrslur. Ekki þykir rétt að setja sérstakt ákvæði um leiðréttingar aðflutningsskjala af hálfu innflytjanda eða umboðsmanns hans fyrir tollafgreiðslu vegna þess að eftir að viðeigandi upplýsingar hafa verið lesnar inn í tölvukerfi tollyfirvalda er sendingin tollafgreidd að því gefnu að ekki sé gerð athugasemd af hálfu tollstjóra. Þá þykir ekki nauðsynlegt að setja sérstakt ákvæði um leiðréttingu skriflegra aðflutningsskýrslna fyrir tollafgreiðslu vegna þess að hin innflutta vara er undir tolleftirliti og því mögulegt að ganga úr skugga um réttmæti nýrra upplýsinga, sbr. einnig skyldu innflytjanda til þess að veita réttar upplýsingar um hina innfluttu vöru, sbr. 32. gr. frumvarpsins.
    1. mgr. 110. gr. er samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 98. gr. gildandi tollalaga. Þó er kveðið skýrar á um að heimildir tollstjóra samkvæmt ákvæðinu gilda frá því að aðflutningsskýrsla er látin tollstjóra í té uns afhendingarheimild tollstjóra er veitt, með öðrum orðum uns vara er tollafgreidd. Um heimildir tollstjóra til þess að taka mál vegna tollafgreiddrar sendingar til meðferðar á ný er vísað til 111.–113. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 110. gr. er mælt fyrir um að áskorun geti hvort sem er verið á skriflegu eða rafrænu formi. Raunin er sú að fjöldi rafrænna aðflutningsskýrslna er margfalt meiri en þeirra skriflegu og ástæða þykir til að taka af allan vafa um að rafrænar áskoranir, sem sendar eru í gegnum tölvukerfi tollyfirvalda, jafngilda skriflegum. Það er lagt til að tollstjórinn í Reykjavík ákveði form áskorana skv. 2. mgr.
    3. mgr. 110. gr. er samhljóða 2. og 3. málsl. 1. mgr. 98. gildandi tollalaga.

Um 111. gr.


    Í 111. og 112. gr. frumvarpsins er fjallað um endurákvörðun aðflutningsgjalda. Fyrri greinin lýtur að rafrænum aðflutningsskjölum og hin síðari að skriflegum aðflutningsskjölum. Ástæða þykir til þess að fjalla um þessi tilvik hvort í sinni grein vegna þess að aðstæður tollstjóra til þess að endurskoða upplýsingar sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru eru mismunandi eftir því hvort tollafgreiðslan var rafræn eða skrifleg. Þegar skrifleg aðflutningsskjöl eru látin tollstjóra í té hefur tollstjóri aðflutningsskýrslu ásamt fylgigögnum undir höndum og er þess vegna hægt um vik að endurskoða aðflutningsskjöl til grundvallar tollafgreiðslu innan tiltekins frests. Endurskoðun tollstjóra vegna rafrænnar tollafgreiðslu fer hins vegar fram með þeim hætti að framkvæmdar eru úrtaksathuganir á innfluttum sendingum, annaðhvort slembiúrtaksathuganir eða úrtaksathuganir á grundvelli áhættugreiningar eða annarra forsendna. Af þeirri ástæðu þykir rétt að heimildir tollstjóra nái til sendinga sem innflytjandi hefur fengið tollafgreiddar á síðustu sex árum talið frá þeim degi þegar honum berst tilkynning um fyrirhugaða endurákvörðun aðflutningsgjalda. Samsvarandi ákvæði er í 3. tölul. 5. mgr. 99. gr. gildandi tollalaga. Í þessu sambandi er jafnframt rétt að vísa til þess að sá sem sendir tollstjóra aðflutningsskjöl með skjalasendingum á milli tölva ber ríka ábyrgð á því að rétt og fullnægjandi gögn liggi að baki hinni rafrænu tollafgreiðslu, sbr. VIII. kafla frumvarpsins. Lagt er til að sex ára fresturinn verði orðaður með lítillega breyttum hætti þannig að fresturinn verði talinn til baka frá þeim degi þegar tilkynning um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun berst innflytjanda og nái til þeirra sendinga sem voru tollafgreiddar á því tímabili.

Um 112. gr.


    Í 112. gr. er kveðið á um heimildir tollstjóra til endurákvörðunar aðflutningsgjalda í tilvikum þar sem skrifleg aðflutningsskjöl hafa verið látin honum í té.
    Innflytjandi ber ábyrgð á því að tollstjóra séu afhent rétt og fullnægjandi aðflutningsskjöl, sbr. VIII. kafla frumvarpsins. Þess vegna er lagt til að orðalag ákvæðisins verði afdráttarlausara en orðalag samsvarandi ákvæðis í 99. gr. gildandi tollalaga. Orðin „gögn sem byggja mátti á rétta ákvörðun aðflutningsgjalda“ í 2. mgr. 99. gr. gildandi laga veita nokkurt svigrúm fyrir innflytjanda til þess að víkja sér undan ábyrgð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum á grundvelli þess að tollstjóri hefði átt að sjá að rangar eða ófullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar fram. Það þykir rétt að afnema svigrúm til mats og miða eingöngu við það hvort réttar og fullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar fram með vísan til VII. og VIII. kafla frumvarpsins um skýrslugjafir til tollstjóra og ábyrgð innflytjanda og tollmiðlara á upplýsingagjöf til tollstjóra. Í ákvæðinu er jafnframt mælt fyrir um að ekki skipti máli í þessu sambandi hvort innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar vissi eða mátti vita um réttmæti upplýsinga í aðflutningsskýrslu og fylgigögnum. Samsvarandi ákvæði er í 1. tölul. 5. mgr. 99. gr. gildandi tollalaga.
    Í 2. mgr. 112. gr. er kveðið á um frest til endurákvörðunar í þeim tilvikum sem um getur í 1. mgr. Til skýringar er vísað til athugasemda við 111. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. 112. gr. kemur fram að hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar lagt fram réttar og fullnægjandi upplýsingar verða honum ekki endurákvörðuð aðflutningsgjöld nema vegna þeirra sendinga sem hann hefur fengið tollafgreiddar á síðustu 60 dögum talið frá þeim degi þegar honum berst tilkynning um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun aðflutningsgjalda. Ákvæðið samsvarar 2. mgr. 99. gr. gildandi tollalaga. Þó eru í nokkrum atriðum lagðar aðrar áherslur í 3. mgr. 112. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er líkt og í 1. mgr. gert ráð fyrir hlutlægu mati á hvort réttar og fullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar fram í því augnamiði að meta hvort endurákvörðun verði komið við. Í öðru lagi er lagt til að tollstjóri hafi 60 daga frest til þess að hefja endurákvörðun, þ.e. 60 dagar mega líða frá tollafgreiðsludegi sendingar eða frá ákvörðun aðflutningsgjalda, þegar um tímabundinn innflutning er að ræða, uns tilkynning um fyrirhugaða endurákvörðun vegna sendingarinnar berst innflytjanda. Skv. 2. mgr. 99. gr. gildandi tollalaga skal tollstjóri hafa lokið endurákvörðun innan 60 daga frá því að hann heimilaði afhendingu vöru eða ákvarðaði aðflutningsgjöld þegar um tímabundinn innflutning er að ræða. Ástæða þykir til að leggja til einföldun á þeirri reglu og veita tollstjóra 60 daga frest til þess að hefja endurákvörðun.
    Í 4. mgr. 112. gr. er gerð undantekning frá meginreglu 3. mgr. en þar er mælt fyrir um að endurákvörðun sé heimil þrátt fyrir að 60 daga fresturinn sé liðinn hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru. Sú staða er m.a. uppi þegar innflytjandi hefur áður fengið úrskurð tollstjóra eða bindandi álit um tollflokkun vöru í tiltekið tollskrárnúmer samkvæmt tollskrá en síðan tollflokkað sams konar vöru í annað tollskrárnúmer við tollafgreiðslu. Sambærilegt ákvæði er í 2. tölul. 5. mgr. 99. gr. gildandi tollalaga.

Um 113. gr.


    Í greininni er fjallað um aðrar endurákvarðanir af hálfu tollstjóra en þær sem lúta að endurákvörðun aðflutningsgjalda. Ákvæðið er nýmæli. Í gildandi tollalögum er ekki heimild til handa tollstjóra til þess að gera breytingar á aðflutningsskjölum ef breytingarnar leiða ekki til endurákvörðunar aðflutningsgjalda. Það er afar mikilvægt að afla eins áreiðanlegra upplýsinga og mögulegt er um inn- og útfluttar vörur, þar á meðal réttra upplýsinga um tollflokkun vöru. Upplýsingar úr tölvukerfi tollyfirvalda eru notaðar við ýmsar greiningar á inn- og útfluttum vörum, í hagtölum og verslunarskýrslum og fleira. Einnig geta aðflutningsgjöld á vörum í tilteknum tollskrárnúmerum breyst og þá er mikilvægt að lagt hafi verið fyrir innflytjanda að tollafgreiða vöruna í réttu tollskrárnúmeri. Þess vegna er kveðið á um að tollstjóri leiðrétti rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í aðflutningsskjölum sem honum hafa verið látin í té þrátt fyrir að leiðréttingar leiði ekki til breyttrar ákvörðunar aðflutningsgjalda. Endurákvarðanir tollstjóra samkvæmt þessari grein eru ekki bundnar við tímafrest.

Um 114. gr.


    Í 114. gr. frumvarpsins er fjallað um málsmeðferðarreglur við undirbúning fyrirhugaðs úrskurðar tollstjóra um endurákvörðun skv. 111.–113. gr. Samsvarandi ákvæði eru í 3. mgr. 99. gr. tollalaga.

Um 115. gr.


    Í greininni er fjallað um áætlun aðflutningsgjalda. Ákvæðið er nýmæli. Fyrirmynd ákvæðisins er sótt í sambærileg ákvæði í skattarétti en þó ber að gæta að þeirri sérstöku aðstöðu sem skapast þegar vara er afhent undan tolleftirliti án þess að afhendingarheimild tollstjórans hafi verið veitt og óyggjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um vöruna.
    Á nokkrum stöðum í frumvarpinu er sú skylda lögð á tollstjóra að hann áætli aðflutningsgjöld, sbr. 2. mgr. 78. gr. og 2. mgr. 109. gr. Í ákvæðinu eru tollstjóra veittar leiðbeiningar við áætlun aðflutningsgjalda. Forsendur til grundvallar áætlun geta verið afar mismunandi en það er meginregla samkvæmt ákvæði 115. gr. frumvarpsins að tollverð vöru skuli áætla svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en raunverulegt verðmæti vörunnar. Þegar áætlun er framkvæmd á grundvelli 2. mgr. 109. gr. frumvarpsins er vara yfirleitt enn til staðar undir tolleftirliti og í þeim tilvikum er auðvelt að meta gerð og eiginleika vöru. Hins vegar eru forsendur óljósari í þeim tilvikum sem um getur í 2. mgr, sbr. 1. mgr. 78. gr. frumvarpsins þar sem vara hefur verið afhent undan tolleftirliti án tilskilins leyfis tollyfirvalda. Í þeim tilvikum reynist nauðsynlegt að hafa hliðsjón af öllum þeim upplýsingum sem liggja fyrir um vöru, þar á meðal farmskrá. Ef ekki er unnt að byggja á framlögðum gögnum getur reynst nauðsynlegt að byggja á meðaltalstölum hagstofu yfir innfluttar vörur.

Um 116. gr.


    Í 116. gr. er fjallað um leiðréttingu aðflutningskýrslu eftir tollafgreiðslu að kröfu innflytjanda. Í greinargerð með 99. gr. gildandi tollalaga kom fram að lagt væri til með greininni að tiltekinn yrði ákveðinn frestur, allt að 60 dagar fyrir hvorn aðila til þess að krefjast leiðréttingar. Tilvitnuð ummæli í greinargerð gera ráð fyrir að bæði tollstjóri og innflytjandi eða umboðsmaður innflytjanda eftir atvikum geti krafist leiðréttingar upplýsinga í aðflutningsskjölum. Hins vegar er eingöngu mælt fyrir um skyldu tollstjóra til þess að endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld í samræmi við ákvæði greinarinnar. Þykir ástæða til að kveða skýrt á um rétt innflytjanda til þess að koma fram með leiðréttingar á framlögðum aðflutningsskjölum eða viðbætur við þau eftir tollafgreiðslu vöru í sérstakri grein. Með þeim hætti er tekinn af allur vafi um þetta atriði. Að auki er lagt til að frestur innflytjanda til þess að koma að leiðréttingum á aðflutningsskjölum samsvari heimildum tollstjóra til endurákvörðunar gjalda, sbr. 111. og 112. gr. frumvarpsins og 99. gr. gildandi tollalaga. Það er afar mikilvægt að réttar og fullnægjandi upplýsingar liggi til grundvallar tollafgreiðslu vöru. Þess vegna er innflytjendum ekki einungis veittur réttur til þess að leggja fram beiðni um leiðréttingu aðflutningsskjala heldur er einnig lögð á þá sú skylda að koma fram með leiðréttingar verði þeir þess varir að upplýsingar sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru hafi verið rangar eða ófullnægjandi.
    Í 2. mgr. 116. gr. er mælt fyrir um að beiðni um leiðréttingu skuli afhent tollstjóra á formi leiðréttrar skriflegrar aðflutningsskýrslu. Jafnframt er kveðið á um að leiðréttingarskýrslan skuli uppfylla kröfur um nauðsynlegar upplýsingar í aðflutningsskýrslu og fylgigögnum. Það er mælt fyrir um að beiðni um leiðréttingu rafrænnar skýrslu skuli lögð fram með skriflegri skýrslu vegna þess að við ákvörðun þess hvort leiðrétting skuli heimil er nauðsynlegt að leggja mat á öll gögn málsins og aðstæður við tollafgreiðslu.
    Í 3. mgr. 116. gr. er kveðið á um að innflytjandi beri sönnunarbyrði fyrir því að rangar og ófullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar til grundvallar tollafgreiðslu vöru ef breyttar forsendur geta leitt til lækkunar álagðra aðflutningsgjalda. Beiðni um leiðréttingar samkvæmt þessari grein lúta að aðflutningsskjölum vegna innfluttra vara sem hafa verið tollafgreiddar, þ.e. afhentar til notkunar innan lands. Það er ómögulegt að ganga úr skugga um réttmæti nýrra upplýsinga með óyggjandi hætti þegar vara hefur verið afhent undan tolleftirliti. Af því leiðir að gera verður strangar kröfur til sönnunar innflytjanda þegar beiðni um leiðréttingu er lögð fram með stoð í þessu ákvæði. Nýr reikningur verður til dæmis ekki lagður fram nema atvik og gögn málsins eins og þau lágu fyrir við tollafgreiðslu styðji að um rangar upplýsingar hafi verið að ræða.

Um 117. gr.


    Í 117. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um kæruheimild tollskylds aðila til tollstjóra. Ákvæðið er að mestu samhljóða 100. gr. gildandi tollalaga. Þó er gert ráð fyrir því að þær ákvarðanir tollstjóra sem sæta kæru til fjármálaráðherra skv. 102. gr. gildandi tollalaga sæti kæru til tollstjóra og ríkistollanefndar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Orðalagi ákvæðisins er breytt lítillega þannig að ljóst sé að kæruheimild innflytjanda til tollstjóra tekur til allra ákvarðana tollstjóra um fjárhæð aðflutningsgjalda eða atriði sem liggja til grundvallar ákvörðun aðflutningsgjalda, svo sem tollverð og tollflokkun, þar á meðal ákvarðana tollstjóra um synjun niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls á grundvelli 3., 5. og 6. gr. núgildandi tollalaga, sbr. 4., 6. og 7. gr. frumvarpsins.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 118. gr.


    Í 118. gr. frumvarpsins er fjallað um kæruheimildir til ríkistollanefndar, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Verður úrskurðum hennar ekki skotið til ráðherra. Ákvæðið samsvarar 101. gr. gildandi tollalaga. Þó er lagt til að fleiri ákvarðanir verði kæranlegar til ríkistollanefndar. Um þær ákvarðanir er vísað til skýringa við 117. gr. frumvarpsins.
    Frestur nefndarinnar til þess að kveða upp úrskurð skv. 9. mgr. er lengdur úr 30 dögum í 60 daga, m.a. vegna þess að gera má ráð fyrir að fleiri málum verði skotið til nefndarinnar verði ákvæði frumvarpsins að lögum.
    Auk framangreindra breytinga er í 5. mgr. 118. gr. sú breyting gerð frá ákvæði 4. mgr. 101. gr. gildandi laga að það er með skýrum hætti kveðið á um skyldu ríkistollanefndar til þess að senda innflytjanda endurrit kæru tollstjórans í Reykjavík.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 119. gr.


    Greinin er nýmæli. Í 1. mgr. er tollstjóranum í Reykjavík falin tollendurskoðun á landinu öllu, sbr. einnig 5. tölul. 43. gr. frumvarpsins, en með tollendurskoðun er átt við þann þátt tolleftirlits sem tekur til hvers konar könnunar á réttmæti skila á aðflutningsgjöldum eftir álagningu þeirra. Tollendurskoðun tekur jafnframt til hvers konar könnunar á réttmæti upplýsinga sem lagðar voru fram við lögboðna skýrslugjöf til tollstjóra. Með tilkomu rafrænnar tollafgreiðslu hefur mikilvægi tollendurskoðunar aukist til muna. Tollendurskoðun krefst aukinnar sérhæfingar tollstarfsmanna, m.a. aukinnar þekkingar á bókhaldi fyrirtækja. Í ljósi þess er mikilvægt að tollendurskoðun fyrir landið allt sé á hendi þess tollstjóra sem hefur á að skipa sérhæfðasta starfsliðinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um inntak tollendurskoðunar. Tollendurskoðun fer fram eftir tollafgreiðslu vöru og hún er í meginatriðum tvíþætt. Í tollendurskoðun felst könnun á réttmæti upplýsinga sem voru látnar tollstjóra í té við tollafgreiðslu og ákvarðana tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda. Tollendurskoðun getur leitt til endurákvörðunar aðflutningsgjalda skv. 111. og 112. gr. frumvarpsins eða endurákvörðunar skv. 113. gr. frumvarpsins. Í því tilviki er innflytjanda tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á aðflutningsskjölum en þær leiða hins vegar ekki til breytingar á álögðum aðflutningsgjöldum.
    Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar getur tollstjórinn í Reykjavík leitað aðstoðar lögreglu ef aðili færist undan afhendingu bókhaldsgagna.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að leiði tollendurskoðun til endurákvörðunar aðflutningsgjalda skuli tollstjóri, í því umdæmi þar sem vara var tollafgreidd leiða málið til lykta með endurákvörðun. Leiði tollendurskoðun í ljós ætluð brot gegn refsiákvæðum XXII. kafla frumvarpsins er tollstjóranum í Reykjavík veitt heimild til þess að annast rannsókn máls ef hann telur það hentara, m.a. í ljósi þeirra gagna sem liggja fyrir um atvik máls og aflað var við tollendurskoðun, eða fela hana tollstjóra.

Um XV. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um álagningu og gjalddaga aðflutningsgjalda, greiðslufrest og greiðslustað.

Um 120. gr.


    Í greininni er kveðið á um gjalddaga aðflutningsgjalda. Öllum ákvæðum tollalaga um gjalddaga er safnað saman í þessa grein. Sú breyting er gerð frá ákvæðum gildandi laga að eingöngu er notað hugtakið gjalddagi aðflutningsgjalda en ekki eindagi. Ástæða þess er að í íslensku lagamáli hefur almennt ekki verið venja að greina milli hugtakanna gjalddagi og eindagi, en hvort tveggja táknar það tímamark sem verður að vera liðið til þess að um vanefnd á greiðsluskyldu geti verið að ræða. Hugtakið gjalddagi er í frumvarpinu notað um réttan greiðslutíma aðflutningsgjalda, þ.e. þann tíma þegar tollstjóri getur fyrst krafist þess að sá sem skuldar aðflutningsgjöld inni greiðslu sína af hendi.
    Ákvæði 1. mgr. 120. gr. felur í sér meginreglu um gjalddaga aðflutningsgjalda. Greinin samsvarar 1. mgr. 103. gr. gildandi tollalaga. Þó er fellt brott ákvæði þess efnis að gjalddagi aðflutningsgjalda skuli vera afhendingardagur aðflutningsskýrslu ásamt tilskildum gögnum. Gjalddagi aðflutningsgjalda samkvæmt frumvarpsákvæðinu er tollafgreiðsludagur vöru enda sé flutningsfar þegar komið til landsins, þ.e. skip hafi tekið höfn eða flugvél hafi lent. Skv. 1. mgr. 70. gr. frumvarpsins er geymslutími í afgreiðslugeymslu styttur úr einu ári í sex mánuði og þess vegna er mælt fyrir um að aðflutningsgjöld skuli í síðasta lagi falla í gjalddaga sex mánuðum eftir komudag flutningsfars til landsins.
    Öllum ákvæðum tollalaga um gjalddaga, meginreglum og undantekningum, er safnað saman í 120. gr. að því undanskildu að fjallað er um gjalddaga skuldfærðra aðflutningsgjalda í 2. mgr. 122. gr. frumvarpsins. Þess vegna þykir rétt að vísa til 2. mgr. 122. gr. í 1. mgr. 120. gr.
    Í 2. mgr. 120. gr. er mælt fyrir um að gjalddagi aðflutningsgjalda af vörum sem settar hafa verið í tollvörugeymslu eða á frísvæði sé tollafgreiðsludagur þeirra. Ákvæðið samsvarar 2. mgr. 103. gr. gildandi tollalaga en þó er lagt til að gjalddagi aðflutningsgjalda verði tollafgreiðsludagur vöru en ekki sá dagur þegar beiðni um úttekt hennar ásamt tilskildum gögnum er lögð fram.
    Í 3. mgr. 120. gr. er mælt fyrir um gjalddaga aðflutningsgjalda þegar neyðarleyfi eða leyfi til bráðabirgðatollafgreiðslu er veitt eða tímabundinn tollfrjáls innflutningur heimilaður. Samsvarandi ákvæði er í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 61/1989, um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum, en rétt þykir að kveðið verði á um gjalddaga í þessum tilvikum í tollalögum. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.
    Í 4. mgr. 120. gr. er mælt fyrir um gjalddaga aðflutningsgjalda af hraðsendingum. Gjalddagi aðflutningsgjalda af hraðsendingum er samkvæmt gildandi rétti ákveðinn í 8. gr. reglugerðar um tollafgreiðslu hraðsendinga, en rétt þykir að mælt verði fyrir um hann í tollalögum.
    5. mgr. 120. gr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 105. gr. gildandi tollalaga.
    6. mgr. 120. gr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 105. gr. gildandi tollalaga.
    7. mgr. 120. gr. samsvarar 2. mgr. 108. gr. gildandi tollalaga.

Um 121. gr.


    Ákvæði 121.–124. gr. frumvarpsins koma í stað 109. gr. gildandi tollalaga.
    Í 1. mgr. 121. gr. er mælt fyrir um að aðilar sem eru skráðir á virðisaukaskattsskrá njóti greiðslufrests á aðflutningsgjöldum enda séu þeir í skilum við ríkissjóð. Ákvæðið kemur í stað 1. mgr. 109. gr. gildandi tollalaga. Það hefur verið litið svo á að aðilar sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá og gera upp virðisaukaskatt innan lands miðað við tveggja mánaða eða skemmri uppgjörstímabil uppfylli skilyrði 1. mgr. 109. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, með síðari breytingum. Aðrir aðilar á virðisaukaskattsskrá geta fengið greiðslufrests á aðflutningsgjöldum ef þeir leggja fram tryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í frumvarpinu er lagt til að sú útfærsla á skilyrði 1. mgr. 109. gr. sem kemur fram í reglugerðinni verði tekin upp í tollalög og ákvæðið víkkað þannig að allir sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá eigi rétt á greiðslufresti á aðflutningsgjöldum. Það er jafnframt sett sem skilyrði fyrir greiðslufresti á aðflutningsgjöldum að sá sem hans óskar sé í skilum við ríkissjóð. Sambærilegt ákvæði er í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum en rétt þykir að umrætt skilyrði sé tiltekið með skýrum hætti í tollalögum.
    Í 2. mgr. 121. gr. er kveðið á um að óheimilt sé að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum þegar neyðarleyfi er veitt eða þegar bráðabirgðatollafgreiðsla fer fram, svo og við uppgjör aðflutningsgjalda í þessum tilvikum. Þessi fyrirvari er settur í reglugerð nú. Rétt þykir að taka hann upp í tollalög. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig sjálft.

Um 122. gr.


    Í 1. mgr. 122. gr. er sett fram meginregla um uppgjörstímabil skuldfærðra aðflutningsgjalda. Þau uppgjörstímabil sem mælt er fyrir um eru þau sömu og gilda skv. 1. tölul. 4. gr. reglugerðar um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Þau uppgjörstímabil gilda nema annað sé ákveðið í öðrum lögum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum. Skv. 3. mgr. 109. gr. gildandi tollalaga ákveður ráðherra uppgjörstímabil og eindaga lánaðra aðflutningsgjalda í reglugerð. Rétt þykir að kveðið verði á um þessi atriði í tollalögum.
    Í 2. mgr. 122. gr. er sett fram meginregla um gjalddaga skuldfærðra aðflutningsgjalda. Gjalddagi er ákveðinn 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils líkt og nú er, sbr. 1. tölul. 4. gr. reglugerðar um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Meginreglan gildir nema annað sé ákveðið í öðrum lögum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum, og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Um 123. gr.


    Í 1. mgr. 123. gr. frumvarpsins er annars vegar mælt fyrir um að tollstjóri skuli loka fyrir frekari skuldfærslu hjá þeim sem nýtur greiðslufrests ef sá gerir ekki skil á aðflutningsgjöldum á tilskildum tíma. Synjun á greiðslufresti samkvæmt ákvæðinu gildir á meðan vanskil vara. Hins vegar er tollstjóra veitt heimild til þess að synja aðila um frekari greiðslufrest ef hann gerir ekki skil á öðrum ríkissjóðsgjöldum en aðflutningsgjöldum á tilskildum tíma. Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum en rétt þykir að kveðið verði á um þessi atriði í tollalögum.
    Ákvæði 2. mgr. 123. gr. frumvarpsins samvarar 3. málsl. 2. mgr. 109. gr. gildandi tollalaga.

Um 124. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd ákvæða frumvarpsins um skuldfærslu aðflutningsgjalda.

Um 125. gr.


    Í 125. gr. frumvarpsins er sett fram almenn regla um vexti.
    Í 1. mgr. 125. gr. er mælt fyrir um að dráttarvextir skuli reiknaðir á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga eins og hann er skilgreindur í hverju tilviki, sbr. ákvæði 120. gr. frumvarpsins. Ákvæðið kemur í stað ákvæða í gildandi tollalögum um útreikning dráttarvaxta í einstökum tilvikum, t.d. 7. mgr. 99. gr., 2. mgr. 105. gr., 3. mgr. 108. gr. og 3. mgr. 109. gr. laganna.
    Ákvæði 2. mgr. 125. gr. er samhljóða 6. mgr. 99. gr. gildandi tollalaga. Ákvæðið er sett fram sem almenn regla en líkur eru á að einkum komi til kasta ákvæðis um greiðslu vaxta vegna oftekinna aðflutningsgjalda í tengslum við 111.–114. gr. frumvarpsins um endurákvörðun aðflutningsgjalda og aðrar leiðréttingar.

Um 126. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar er efnislega samhljóða 1. mgr. 106. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 106. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði 2. mgr. 106. gr. gildandi tollalaga er fellt brott þar sem ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir að póstþjónustuaðilar starfi sem tollmiðlarar og í þessu sambandi er rétt að vísa til 4. mgr. 47. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að tollmiðlari geti haft með höndum greiðslu aðflutningsgjalda fyrir hönd innflytjenda.
    Ákvæði 3. mgr. 106. gr. gildandi tollalaga er fellt brott þar sem 1. mgr. 126. gr. frumvarpsins tekur yfir efni þess.

Um XVI. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda og innheimtu aðflutningsgjalda, þar á meðal nauðungarsölu til fullnustu aðflutningsgjalda.

Um 127. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 127. gr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 111. gr. núgildandi tollalaga að öðru leyti en því að hugtakið viðtakandi er ekki tekið upp í frumvarpsákvæðið. Ekki hefur verið gerður greinarmunur á innflytjanda og viðtakanda vöru í framkvæmd og þess vegna er lagt til að eingöngu verði mælt fyrir um ábyrgð innflytjanda.
    Ákvæði 2. mgr. 127. gr. samsvarar 2. mgr. 111. gr. gildandi tollalaga. Gert er ráð fyrir óskiptri (sólidarískri) ábyrgð innflytjanda og tollmiðlara á greiðslu aðflutningsgjalda. Sú breyting er gerð frá gildandi lögum að gert er ráð fyrir að ábyrgð annarra umboðsmanna innflytjanda en tollmiðlara falli brott.
    Ákvæði 127. gr. frumvarpsins er ekki tæmandi um ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda er t.d. lögð á leyfishafa geymslusvæðis vegna sérstakra atvika, sbr. 78. gr. frumvarpsins.

Um 128. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 135. gr. er í aðalatriðum efnislega samhljóða 3. mgr. 111. gr. núgildandi tollalaga. Þó er ekki gert ráð fyrir því að sektir verði tryggðar með lögveði í innfluttri vöru. Þá er árétting í 3. mgr. 113. gr. gildandi tollalaga um að eigandi hafi ekki heimild til þess að taka vöru í sína vörslu fyrr en afhendingarheimild viðkomandi tollstjóra liggur fyrir. Það þykir óþarfi að geta þess í þessu samhengi vegna þess að um er að ræða meginreglu samkvæmt frumvarpinu og gildandi tollalögum.
    Fyrri málsliður 2. mgr. 135. gr. er í aðalatriðum efnislega samhljóða 4. mgr. 111. gr. gildandi tollalaga. Þá er tekið fram í 3. mgr. 111. gr. gildandi tollalaga að haldsréttur farmflytjanda standi ekki í vegi fyrir því að tollstjórar geti krafist nauðungarsölu á ótollafgreiddum vörum án undanfarandi fjárnáms eða áskorunar til eiganda til lúkningar aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði. Lögveð í ótollafgreiddri vöru gengur framar haldsrétti farmflytjanda samkvæmt almennum reglum veðréttar. Tilvitnaður fyrirvari er talinn óþarfur og hann er þess vegna felldur niður. Í síðari málslið 2. mgr. er mælt fyrir um að tollstjóri geti boðið vöru til sölu á almennum markaði. Sambærilegt ákvæði í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. nr. 61/1989, um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum, með síðari breytingum.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 7. mgr. 111. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði 4. mgr. er að mestu samhljóða 5. mgr. 111. gr gildandi tollalaga. Þó verður ekki gert fjárnám samkvæmt greininni hjá öðrum umboðsmönnum innflytjanda en tollmiðlara þar sem ábyrgð þeirra á greiðslu aðflutningsgjalda verður felld niður í 2. mgr. 134. gr. frumvarpsins. Fjárnám verður eingöngu gert hjá tollmiðlara verði hann gerður ábyrgur fyrir greiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Um 129. gr.


    Í 129. gr. frumvarpsins eru sérreglur um nauðungarsölu á uppboði.
    Í 1. mgr. eru settar fram reglur um auglýsingar uppboðs og tilkynningar til innflytjenda vara sem eru settar á uppboð. Tekið er fram í ákvæðinu að innflytjendum skuli sendar sérstakar tilkynningar um uppboð á ótollafgreiddum vörum. Felst í breytingunni staðfesting á núverandi framkvæmd að þessu leyti. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 6. mgr. 111. gr. núgildandi tollalaga.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 8. mgr. 111. gr. núgildandi tollalaga.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra geti sett nánari reglur um framkvæmd nauðungarsölu á uppboði.

Um XVII. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um heimild tollstjóra til að stöðva tollafgreiðslu í þremur greinum. Ákvæði 133. og 131. gr. eiga sér að nokkru leyti fyrirmynd í 131. gr. gildandi tollalaga en þar er kveðið á um að ef maður tregðast við að gefa tollstarfsmönnum upplýsingar, leggja fram skjöl eða veita aðstoð sem hann er skyldur til samkvæmt tollalögum, reglugerð eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim má knýja hann til þess með stöðvun tollafgreiðslu. Ástæða þykir til þess að mæla nánar fyrir um í hvaða tilvikum og með hvaða hætti stöðvun tollafgreiðslu kemur til greina til að knýja mann til að fullnægja skyldum sínum. 132. gr. er sérákvæði um stöðvun tollafgreiðslu ef grunur vaknar um að innflutningur eigi sér stað á vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum.

Um 130. gr.


    Í 130. gr. er mælt fyrir um að tollstjóri skuli stöðva tollafgreiðslu sendingar ef innflutningur vöru sem sending innheldur er samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum háður skilyrðum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið fullnægt eða háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað. Í ýmsum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er mælt fyrir um að innflytjanda vöru beri að afla leyfa stjórnvalda til innflutnings vöru eða sýna fram á að vara fullnægi ákveðnum skilyrðum. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að í eftirlitshlutverki tollstjóra með inn- og útflutningi felist að honum beri að stöðva inn- og útflutning sem ekki fullnægir settum reglum. Þetta hlutverk tollstjóra hefur ekki verið orðað með beinum hætti í tollalögum. Greinin á jafnt við um inn- og útflutning, sbr. 144. gr. frumvarpsins.

Um 131. gr.


    Í 131. gr. er mælt fyrir um að tollstjóra sé heimilt að stöðva tollafgreiðslu á öllum vörum til innflytjanda í tilteknum tilvikum. Í fyrsta lagi er lagt til að tollstjóra verði heimilt að stöðva tollafgreiðslu á öllum vörum til innflytjanda sem er í vanskilum með aðflutningsgjöld, dráttarvexti eða annan kostnað og til innflytjanda sem hefur vanrækt að láta tollstjóra í té aðflutningsskýrslu og fylgigögn innan tilskilins frests. Þá er lagt til að tollstjóra verði heimilt að stöðva tollafgreiðslu á vörum til innflytjanda sem bregst skyldum, sem lagðar eru á hann í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, til þess að veita tollstjóra upplýsingar eða eftir atvikum aðstoð. Stöðvun tollafgreiðslu skal koma til framkvæmda 15 dögum eftir að innflytjanda hefur verið tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun tollafgreiðslu á öllum vörum til hans. Greinin á jafnt við um inn- og útflutning, sbr. 144. gr. frumvarpsins. 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar er nýmæli í tollalögum. Heimild tollstjóra til þess að stöðva tollafgreiðslu á vörum til innflytjanda ef innflytjandi gerist sekur um ítrekuð eða stórfelld vanskil á greiðslu aðflutningsgjalda er sett fram í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, en rétt þykir að heimildin verði tiltekin í tollalögum. Jafnframt þykir rétt að heimild tollstjóra verði ekki bundin við ítrekuð eða stórfelld vanskil innflytjanda. 2. tölul. 1. mgr. á sér hliðstæðu í 4. mgr. 97. gr. gildandi tollalaga. 3. tölul. er efnislega samhljóða 131. gr. gildandi tollalaga.

Um 132. gr.


    132. gr. er samhljóða 50. gr. A gildandi tollalaga. Ákvæðið kom inn í tollalög með 6. gr. laga nr. 87/1995. Vísað er til athugasemda með þeim lögum um greinina.

Um XVIII. kafla.


    Í XVIII. kafla frumvarpsins, nánar tiltekið í 133.–139. gr., er fjallað um undirboðs- og jöfnunartolla. Ákvæði kaflans eru öll óbreytt frá XII. kafla, 115.–120. gr. A, núgildandi tollalaga, að öðru leyti en því að röðun töluliða og stafliða hefur verið breytt í einstökum greinum til samræmis við uppsetningu annarra greina frumvarpsins.

Um 133. gr.


    Greinin er samhljóða 115. gr. gildandi tollalaga.

Um 134. gr.


    Greinin er samhljóða 116. gr. gildandi tollalaga.

Um 135. gr.


    Greinin er samhljóða 117. gr. gildandi tollalaga.

Um 136. gr.


    Greinin er samhljóða 118. gr. gildandi tollalaga.

Um 137. gr.


    Greinin er samhljóða 119. gr. gildandi tollalaga.

Um 138. gr.


    Greinin er samhljóða 120. gr. gildandi tollalaga.

Um 139. gr.


    Greinin er samhljóða 120. gr. A gildandi tollalaga.

Um XIX. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um útflutning. Ákvæði kaflans samsvara flest 121. gr. gildandi tollalaga. Eitt ákvæði í kaflanum er nýmæli sem fjallar um einfaldaðar útflutningsskýrslur.

Um 140. gr.


    Ákvæði 140. gr. samsvarar 1. mgr. 121. gr. gildandi tollalaga.

Um 141. gr.


    Ákvæði 141. gr. er nýmæli sem mælir fyrir um að þeir sem stunda í atvinnuskyni útflutning smásendinga í póstverslun til einstaklinga, t.d. netverslun, geta sótt um leyfi tollstjórans í Reykjavík til að skila einfölduðum útflutningsskýrslum. Með ákvæðinu er tekið tillit til þess að nokkur íslensk fyrirtæki hafa sett á fót póstverslun með ýmsar vörur og selt til einstaklinga erlendis með góðum árangri. Atvinnustarfsemi af þessu tagi er vaxtarbroddur í verslun sem rétt er að taka tillit til í tollalögum. Þar sem oftast er um litlar og ódýrar sendingar að ræða er hagræði af því fyrir slík fyrirtæki að geta skilað útflutningsskýrslum fyrir ákveðið tímabil, t.d. á tveggja mánaða fresti, þrátt fyrir að útflutningur hafi þegar átt sér stað. Engin gjöld eru greidd af vörum við útflutning en mikilvægt er fyrir stjórnvöld að fá upplýsingar um verslunartölur vegna útflutnings.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð þar sem kveðið verður á um skilyrði fyrir heimild til einfaldaðrar skýrslugjafar við útflutning. Í reglugerðinni má gera ráð fyrir að mælt verði fyrir um til hvaða vara heimild til einfaldaðra útflutningsskýrslna skal ná, hámarksverðmæti hverrar sendingar, form og efni einfaldaðrar útflutningsskýrslu, lengd uppgjörstímabils einfaldaðra útflutningsskýrslna og varðveislu fylgigagna vegna þeirra.

Um 142. gr.


    Ákvæði 142. gr. mælir fyrir um að útflutningsskilyrðum skuli fullnægt í því tollumdæmi þar sem útflutningsvara er flutt í far sem flytja á vöruna til útlanda. Þá skulu útflutningsgjöld, ef einhver eru, greidd í sama umdæmi. Ákvæðið samsvarar 4. mgr. 121. gr. gildandi tollalaga.

Um 143. gr.


    Greinin er samhljóða 2. mgr. 121. gr. gildandi tollalaga.

Um 144. gr.


    Í 144. gr. er kveðið á um að önnur ákvæði laganna en þau sem eru í XIX. kafla gildi um útflutning að breyttu breytanda ef ekki er mælt fyrir um annað í kaflanum.

Um XX. kafla.


    Í kaflanum er ein grein er fjallar um reglur um uppruna vöru.

Um 145. gr.


    Ákvæði 145. gr. er meginatriðum efnislega samhljóða 122. gr. gildandi tollalaga. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að tollstjóranum í Reykjavík verði falið að veita bindandi álit um uppruna vöru. Þá er lagt til að 7. mgr. 122. gr. verði felld brott þar sem hún þykir óþörf. Um athugasemdir með greininni er vísað til 9. gr. laga nr. 87/1995 og 37. gr. laga nr. 69/1996.

Um XXI. kafla.


    XXI. kafli frumvarpsins ber heitið Tollgæsla. Samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. frumvarpsins nær hugtakið tollgæsla yfir handhafa tollgæsluvalds. Í kaflanum er að finna reglur um heimildir til þess að framfylgja ákvæðum laganna og samskipti tollgæslu og borgaranna. Einnig er fjallað um ýmis réttindi og skyldur tollgæslumanna.
    Flest ákvæðin eru hliðstæð ákvæðum sem er að finna í gildandi tollalögum eða eiga sér hliðstæðu í lögreglulögum og taka því öll ákvæði kaflans mið af gildandi réttarframkvæmd.

Um 146. gr.


    Með tollgæsluvaldi samkvæmt ákvæðinu er átt við það vald sem handhöfum tollgæsluvalds er falið í XXI. kafla frumvarpsins til þess að tryggja að farið sé eftir þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem tollstjórar bera ábyrgð á að framfylgja. Hugtakið tollgæsluvald er ekki notað í gildandi tollalögum og hefur ekki verið notað í öðrum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Fræðilega er hugtakið tollgæsluvald ein tegund opinbers valds sem stjórnvöld fara með. Tollgæsluvald eins og annað lögregluvald, sbr. 9. gr. lögreglulaga, telst til réttarvörsluvalds, enda felst í tollgæsluvaldi valdbeitingarheimild ef þörf krefur. Með tollgæsluvaldi er nánar átt við vald sem tollgæslunni einni er falið til þess að gefa fyrirskipanir og til þess að grípa til aðgerða gagnvart þegnunum með valdbeitingu ef nauðsynlegt er.

Um 147. gr.


    Ákvæði 147. gr. ber yfirskriftina Handhafar tollgæsluvalds.
    Skv. 1. mgr. 147. gr. fara tollverðir með tollgæsluvald. Tollverðir eru þeir starfsmenn tollyfirvalda sem hafa það hlutverk að tryggja að ekki sé brotið gegn ákvæðum tollalaga eða eftir atvikum annarra laga og fara með rannsókn brota í ákveðnum tilvikum. Með orðinu „tollvörður“ í ákvæðinu er einnig átt við þá sem gegna stöðum yfirmanna í tollgæslu, svo sem deildarstjóra, aðaldeildarstjóra o.s.frv. Jafnframt fara þeir með tollgæsluvald sem gegna stöðum æðstu yfirmanna hjá tollstjórum, tollstjóri og löglærðir fulltrúar hans, en þeir hafa það starfssvið að stjórna, skipuleggja og aðstoða við rannsókn máls. Skrifstofufólk og annað starfsfólk tollstjóra sem ekki gegnir tollgæslustörfum fer ekki með tollgæsluvald. Tollgæsluvald fylgir samkvæmt framansögðu eingöngu nánar tilteknum störfum hjá tollyfirvöldum.
    Skv. 2. mgr. 147. gr. er fjármálaráðherra heimilt að fela öðrum starfsmönnum tollstjóra tollgæsluvald tímabundið til að sinna sérstökum verkefnum. Undir þetta gætu fallið sérfróðir rannsóknarmenn, t.d. viðskiptafræðingar og endurskoðendur. Tekið er fram að framsal tollgæsluvalds samkvæmt þessari málsgrein er eingöngu heimilt þegar um er að ræða sérstök verkefni er vara í afmarkaðan tíma.
    Í 3. mgr. 147. gr. er kveðið á um að lögreglumenn fari með tollgæsluvald þegar þeir annast eða aðstoða við tollgæslu skv. 1. mgr. 152. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er í samræmi við 1. og 3. mgr. 32. gr. gildandi tollalaga.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að skipshafnir varðskipa fari með tollgæsluvald þegar þær annast eða aðstoða við tollgæslu að beiðni tollstjóra skv. 2. mgr. 152. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er í samræmi við 2. og 3. mgr. 32. gr. gildandi tollalaga.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að aðrir þeir sem kvaddir eru tollgæslunni til aðstoðar lögum samkvæmt fari með tollgæsluvald á meðan þeir sinna þeim starfa. Ákvæðið er í samræmi við 4. mgr. 41. gr. gildandi tollalaga og 166. gr. frumvarpsins. Sambærileg lagaákvæði er gera ráð fyrir aðstoð borgaranna við löggæslu eru 9. gr. og 20. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, 127. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 73. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

Um 148. gr.


    Í 1. mgr. 148. gr. er lýst almennum skyldum handhafa tollgæsluvalds.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er gengið út frá því að tollgæsla gæti ávallt fyllsta hlutleysis og réttsýni við rannsókn mála. Er þetta í samræmi við 31. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Þá er í 2. og 3. málsl. 2. mgr. sett fram almenn regla um framkvæmd starfa tollgæslunnar sem byggð er á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem felur í sér að stjórnvöld verða að gæta hófs í meðferð valds sem þau fara með. Skulu tollverðir eða aðrir handhafar tollgæsluvalds á grundvelli þessarar reglu ávallt velja vægasta mögulega úrræði við valdbeitingu. Þá verður eðlilegt samræmi að vera á milli óhagræðis sem valdbeiting leiðir af sér og markmiðs valdbeitingar. Tollgæsla skal jafnan beita vægasta úrræði sem völ er á ef það nægir til að náð verði því markmiði sem að er stefnt og valdbeiting verður að vera hófleg miðað við þá almannahagsmuni sem í húfi eru. Meðalhófsreglan gildir um alla starfsemi tollstjóra en rétt þykir að árétta hana sérstaklega í þeim kafla frumvarpsins sem fjallar um starfsemi tollgæslu þar sem tollgæslu eru veittar meiri heimildir til valdbeitingar en öðrum starfsmönnum tollstjóra. Í 12. gr. stjórnsýslulaga segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
    Fyrirmynd að 148. gr. frumvarpsins er að finna í 1. og. 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.

Um 149. gr.


    Í ákvæði 155. gr. er mælt fyrir um skilríki tollvarða og einkennisfatnað. Ákvæðið er að mestu samhljóða 1. og 2. mgr. 41. gr. gildandi tollalaga. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að tollverðir skuli að jafnaði vera einkennisklæddir við störf sín og skuli ávallt bera á sér sérstök skilríki við framkvæmd starfa sinna. Sú áherslubreyting er gerð að tollverðir skulu ávallt bera á sér skilríki við störf sín. Eðlilegt er að í skilríkjum sé tilgreindur gildistími til þess að tryggja að ekki séu í umferð skilríki manna sem látið hafa af störfum en bera með sér að vera enn í gildi. Ákvæði gildandi laga um tollfánann eru felld niður þar sem þau þykja óþörf.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra setji reglugerð um einkennismerki tollgæslu, sbr. reglugerð nr. 905/2001, um einkennisbúninga, merki og búnað tollgæslu.

Um 150. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 42. gr. gildandi tollalaga.

Um 151. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 151. gr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 46. gr. gildandi tollalaga sem heimilar tollgæslu að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna ef nauðsyn krefur. Sú áherslubreyting er gerð í frumvarpinu frá gildandi lögum að valdbeitingarheimildin er með skýrum hætti bundin því skilyrði að aldrei má ganga lengra í beitingu hennar en nauðsynlegt reynist hverju sinni. Áherslubreytingin er í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
    Ákvæði 2. mgr. 151. gr. er að mestu samhljóða 4. mgr. 46. gr. gildandi tollalaga. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra hafi samráð við dómsmálaráðherra, sem er hliðsett stjórnvald, um gerð reglna um beitingu handjárna og gasvopna en ekki ríkislögreglustjóra eins og í gildandi lögum.

Um 152. gr.


    Greinin er samhljóða 1. og 2. mgr. 32. gr. gildandi tollalaga.

Um 153. gr.


    Ákvæði 153. gr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 32. gr. gildandi tollalaga.

Um 154. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 46. gr. gildandi tollalaga.

Um 155. gr.


    Ákvæði 155. gr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 43. gr. gildandi tollalaga.

Um 156. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 156. gr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 45. gr. gildandi tollalaga. Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 49. gr. gildandi laga.

Um 157. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 1. mgr. 42. gr. gildandi tollalaga.

Um 158. gr.


    Greinin er samhljóða 2. mgr. 42. gr. gildandi tollalaga.

Um 159. gr.


    Ákvæði 159. gr. er í aðalatriðum efnislega samhljóða 44. gr. gildandi tollalaga en greinin hefur verið brotin upp í fleiri málsgreinar í þeim tilgangi að auðveldara verði að glöggva sig á efni hennar. Þó er lagt til að skylda verði lögð á tollverði til þess að tilkynna aðilum um rétt þeirra til þess að hafa ákveðið vitni viðstatt leit samkvæmt ákvæðinu sé þess nokkur kostur. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að aðstæður geti verið með þeim hætti að bið eftir tilteknu vitni geti valdið réttarspjöllum, svo sem vegna þess að vitnið er fjarstatt og getur ekki komið á staðinn innan hæfilegs frests. Í slíkum tilvikum er ekki skylt að verða við óskum um að tiltekið vitni sé viðstatt.

Um 160. gr.


    Í 160. gr. er kveðið á um sérstakar reglur er gilda um leit tollgæslu á ólögráða einstaklingum. Ákvæðið er nýmæli.
    Eftir hækkun lögræðisaldurs barna úr 16 árum í 18 ár og með auknum ferðalögum á milli landa má telja næsta víst að færst hafi í vöxt að börn og ungmenni sem ekki hafa náð sjálfræðisaldri séu á ferð án foreldra eða forsjáraðila sinna. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að fjalla sérstaklega í frumvarpinu um réttarstöðu barna við leit. Litið er svo á að börn undir 18 ára aldri ferðist milli landa með leyfi forsjáraðila sinna og að í því felist ákveðið samþykki foreldris eða annars forsjáraðila fyrir því að hafa megi almenn reglubundin opinber afskipti af börnum sem ferðast ein án þess að leitað sé samþykkis í hverju tilviki. Þannig er gert ráð fyrir í frumvarpinu að leit í farangri, sem oft byggist á slembiúrtaki eða öðru fyrir fram skilgreindu úrtaki, falli ekki undir sérreglu 166. gr. um leit á börnum og öðrum ólögráða einstaklingum. Hins vegar er talin ástæða til þess að setja sérreglur um líkamsleit á börnum og öðrum ólögráða einstaklingum þar sem slík leit hlýtur ávallt að skoðast sem umtalsvert inngrip í friðhelgi einstaklings og þykir ástæða til að gæta sérstaklega réttinda barna og annarra ólögráða einstaklinga í þessu samhengi.
    Í 1. mgr. 160. gr. er mælt fyrir um að framkvæmi tollgæsla líkamsleit á barni, þ.e. ólögráða einstaklingi yngri en 18 ára, skuli þá þegar hafa samband við þann sem fer með forsjá barns og fulltrúa barnaverndarnefndar í því umdæmi þar sem leit skal fara fram og gefa báðum aðilum kost á að koma á staðinn án tafar og vera viðstaddir þegar leit fer fram. Er talið nauðsynlegt að hvetja báða þessa aðila til að vera viðstaddir þegar leit fer fram þar sem fyrirsjáanlegt er að í einhverjum tilvikum getur foreldri ekki verið viðstatt leit á ólögráða barni sínu vegna þess að barnið er fjarri dvalarstað foreldris.
    Í 2. mgr. 160. gr. er mælt fyrir um reglur um framkvæmd líkamsleitar á einstaklingum sem eru 18 ára og eldri en eru ólögráða af öðrum ástæðum. Er þá mælt fyrir um að gefa skuli lögráðamanni kost á að vera viðstaddur leit.

Um 161. gr.


    Ákvæði 161. gr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 46. gr. gildandi tollalaga.

Um 162. gr.


    Ákvæðið er nýmæli. Í ákvæðinu er lagt til að handhöfum tollgæsluvalds verði veitt heimild til þess að leggja hald á reiðufé sem ferðamaður hefur meðferðis við komu til landsins eða brottför frá landinu ef grunur leikur á að féð verði notað við framkvæmd brots gegn almennum hegningarlögum. Um ákvörðun viðmiðunarfjárhæðar og skilgreiningu hugtaksins reiðufjár í skilningi ákvæðisins er vísað til athugasemda við 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins. Fyrirmynd ákvæðisins er sótt til 2. mgr. 83. gr. dönsku tollalaganna, nr. 113 frá 27. febrúar 1996.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að tollstjóri skuli tilkynna viðkomandi lögreglustjóra án tafar um haldlagningu reiðufjár skv. 1. mgr. Það eru síðan lögregluyfirvöld sem taka ákvörðun um framhald málsins.

Um 163. gr.


    Ákvæði 163. gr. þarfnast ekki skýringa. Fyrirmynd ákvæðisins er að miklu leyti sótt til 2. málsl. 46. gr. gildandi tollalaga.

Um 164. gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 47. gr. gildandi tollalaga. Í 2. mgr. 164. gr. er þó sú breyting gerð að tollstjóranum í Reykjavík er falið það hlutverk að ákveða gerð innsigla í stað fjármálaráðherra.

Um 165. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 48. gr. gildandi tollalaga.

Um 166. gr.


    Í 166. gr. er að finna ákvæði sem heimilar tollgæslu að kveðja sér til aðstoðar hvern fulltíða mann ef nauðsyn ber til.
    Ákvæðið svarar til 4. mgr. 41. gr. gildandi tollalaga og 20. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Í 1. mgr. 166. gr. er lögfestur fyrirvari þess efnis að manni verður ekki gert skylt að sinna kvaðningu tollgæslu ef hætt þykir á að hann stofni lífi, heilbrigði, velferð eða öðrum hagsmunum sjálfs sín eða nánustu vandamanna í hættu með því.
    Í 2. mgr. 166. gr. er kveðið á um að þeir sem kvaddir eru tollgæslu til aðstoðar skv. 1. mgr. hafi tollgæsluvald meðan þeir gegna starfinu. Þá er jafnframt áréttað að þeir njóti verndar sem tollverðir. Er m.a. átt við vernd samkvæmt ákvæðum XII. kafla almennra hegningarlaga og 168., sbr. 180. gr. frumvarpsins.
    Í lögreglulögum er mælt fyrir um að brot gegn samsvarandi ákvæði varði fésektum. Ekki þykir ástæða til að brot gegn 166. gr. frumvarpsins varði refsingu.

Um 167. gr.


    Í 167. gr. frumvarpsins er almennt ákvæði sem leggur þá skyldu á hvern fulltíða mann að aðstoða tollgæslu. Þrátt fyrir að slíkt almennt ákvæði sé tekið upp í frumvarpinu þykir ástæða til að tíunda í 167. gr. ákveðnar skyldur farþega og áhafna í millilandaförum, skyldur innflytjenda og vörsluhafa ótollafgreiddra vara og skyldur stjórnenda fara og farartækja varðandi aðstoð við tollgæslu og hlýðni við fyrirmælum hennar. Í þessum tilvikum má helst gera ráð fyrir að reyni á aðstoð borgara við tollgæslu og skyldu til hlýðni við tollgæslu. Ekki er um tæmandi talningu tilvika að ræða.
    1. mgr. 167. gr. er að mestu samhljóða 25. gr. gildandi tollalaga.
    2. mgr. 167. gr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 43. gr. gildandi tollalaga.
    3. mgr. 167. gr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 43. gr. gildandi tollalaga.

Um 168. gr.


    Í gildandi tollalögum er ekki að finna almennt ákvæði sem mælir fyrir um bann við að tálma tollgæslu við skyldustörf eða óhlýðnast fyrirmælum tollgæslu. Í 168. gr. er kveðið á um að enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni tollgæslustörfum eða óhlýðnist fyrirmælum sem tollgæslan gefur í því skyni að vinna að framkvæmd tollalaga. Fyrirmynd 168. gr. er sótt til 19. og 21. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Í 180. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um refsingar við því að óhlýðnast fyrirmælum þessa ákvæðis. Brot gegn ákvæðinu varðar sektum, nema brotið varði þyngri refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.

Um XXII. kafla.


    XXII. kafli frumvarpsins fjallar um refsiábyrgð, viðurlög og málsmeðferð. Kaflinn skiptist í þrjá undirkafla: Refsiábyrgð og refsingar, Önnur viðurlög og Rannsókn, málsmeðferð og fyrning.
    Fyrsti undirkafli XXII. kafla ber heitið refsiábyrgð og refsingar. Öll refsiákvæði kaflans hafa að geyma sjálfstæðar verknaðarlýsingar sem marka refsinæmi verknaðar auk annarra skilyrða refsiábyrgðar. Verknaðarlýsingarnar eru sérgreindar í samræmi við kröfur stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um skýrleika refsiheimilda. Því er lagt til að 135. gr. gildandi tollalaga, sem hefur ekki að geyma sérgreinda verknaðarlýsingu, verði felld niður. Lögð er til grundvallar hefðbundin tilhögun saknæmisskilyrða þannig að flest afbrigðileg ákvæði í gildandi tollalögum eru látin víkja, t.d. um hlutræna refsiábyrgð einstaklinga, öfuga sönnunarbyrði og óskipta (sólidaríska) refsiábyrgð.
    Annar undirkafli XXII. kafla ber heitið Önnur viðurlög. Þar er fjallað um refsikennd viðurlög, upptöku eigna og réttindasviptingu, vegna brota gegn ákvæðum kaflans.
    Síðasti undirkafli XXII. kafla ber heitið Rannsókn, málsmeðferð og fyrning. Í gildandi tollalögum ber sambærilegur kafli heitið Málsmeðferð.

Um 169. gr.


    Í 169. gr. er valin sú leið til einföldunar og samræmingar að lögfesta sérstakt ákvæði um almenn skilyrði refsiábyrgðar vegna brota á tollalögum. Af ákvæðinu leiðir að refsiverð eru einungis brot gegn ákvæðum XXII. kafla, nema þau varði einnig við ákvæði annarra laga, t.d. almennra hegningarlaga. Gert er ráð fyrir að ákvæði III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um tilraun til afbrota, afturhvarf frá tilraun og hlutdeild í brotum gildi um refsiverð tollalagabrot skv. XXII. kafla, nema öðruvísi sé sérstaklega kveðið á í öðrum ákvæðum kaflans, t.d. með sjálfstæðum hlutdeildarákvæðum.
    Í 2. mgr. 169. gr. er lögð til hefðbundin tilhögun saknæmisskilyrða, þ.e. að brot varða ekki refsingu nema þau séu framin af ásetningi eða gáleysi. Ef frávik eru heimiluð frá grundvallarreglunni um saknæmi þarf að taka það skýrt fram í einstökum refsiákvæðum.
    Í 3. mgr. 169. gr. er heimilað að byggja á refsiábyrgð lögaðila, svo fremi að kveðið sé á um hana í öðrum ákvæðum kaflans. Ef ekki er sérstaklega kveðið á um skilyrði lögaðilaábyrgðar í viðkomandi refsiákvæði, svo sem um inntak og einkenni lögaðila sem hins refsiábyrga aðila, um hinn persónulega geranda og hvort saknæmiskröfur verða til hans gerðar, ber að styðjast við hin almennu ákvæði í 19. gr. b og 19. gr. c í almennum hegningarlögum. Á sama hátt þarf að taka fram hverju sinni ef ætlast er til að lögaðili sé ábyrgur fyrir greiðslu fésekta sem fyrirsvarsmaður eða annar starfsmaður hefur unnið til með dómi eða annarri sektarákvörðun.

Um 170. gr.


    1. og 2. mgr. 170. gr. eru óbreyttar frá 1. og 2. mgr. 123. gr. gildandi tollalaga, að öðru leyti en því að refsiviðurlög eru nú einnig tilgreind í ákvæðinu. Tilgreining refsiviðurlaga er í 1. mgr. 124. gr. núgildandi laga. Skilgreining á ólöglegum innflutningi (smygli) var ákvörðuð með lögum um tollheimtu og tolleftirlit, nr. 59/1969, og er vísað til athugasemda við 60. gr. þeirra að því leyti. Um upptöku smyglvarnings er fjallað síðar í kaflanum.
    Í 3. mgr. 170. gr. er sú breyting gerð frá gildandi lögum að felld er niður óskýr ráðagerð löggjafans um hlutræna refsisábyrgð stjórnanda fars (varaábyrgð) þegar smyglvarningur finnst í fari en eigandi varningsins finnst ekki. Dómstólar hafa þegar hafnað þessu ákvæði sem ófullnægjandi refsiheimild, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. janúar 2000, nr. 442/1999. Lagt er til að aðalrefsiábyrgðin hvíli á eiganda vöru ef hann finnst og fullnægir sannanlega refsiskilyrðum, m.a. saknæmisskilyrðum. Ef eigandi vöru finnst ekki er gefinn kostur á valkvæðri ábyrgð stjórnanda fars ef unnt er að sanna saknæmi (gáleysi eða ásetning) hans, eða refsiábyrgð ábyrgðaraðila fars hvort sem hann er lögaðili, t.d. útgerðar eða flugfélag, eða einstaklingur, óháð sönnun um saknæmi manns sem starfar hjá ábyrgðaraðilanum og óháð sönnun um saknæmi ábyrgðaraðilans sjálfs ef hann er einstaklingur. Ábyrgð stjórnanda far byggir á hefðbundnum saknæmisskilyrðum en ábyrgð ábyrgðaraðila fars, hvort sem hann er lögaðili eða einstaklingur, byggir á hlutlægum grundvelli.
    4. mgr. 170. gr. er samhljóða 4. mgr. 123. gr. gildandi laga. Ákvæðið var fyrst lögfest með 60. gr. laga nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit. Enda þótt ákvæðið, samkvæmt orðanna hljóðan, lúti ekki að sérgreindu athafnaleysi í tengslum við tiltekna ólöglega starfsemi eða aðsteðjandi hættu er litið svo á að ákvæðið hafi gildi t.d. í tilvikum þar sem skipstjórnarmaður lætur undir höfuð leggjast að sinna tilskildu eftirliti í skipi sínu lögum samkvæmt eða hann hefur vitneskju um smyglstarfsemi skipverja án þess þó að eiga nokkurn þátt í henni.

Um 171. gr.


    Ákvæði 171. gr. kemur í stað tveggja greina í gildandi tollalögum, 124. og 125. gr.
    1. mgr. 171. gr. samsvarar 2. mgr. 124. gr. gildandi laga. Samkvæmt ákvæðinu getur endurgjaldslaus afhending og móttaka smyglvarnings verið refsiverð.
    2. mgr. 171. gr. er samhljóða 4. mgr. 125. gr.
    Fyrirvarinn í 1. mgr. 124. gr. gildandi tollalaga „nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum“ er felldur brott. Slíkur fyrirvari er óþarfur þar sem það er verkefni ákæruvalds og dómstóla að kanna hvort verknaður feli í sér fleiri en eitt afbrot (concursus idealis) sem kunna að varða við refsiákvæði í fleiri en einum lögum. Einnig getur átt sér stað að sama afbrotið varði við fleiri en eitt refsiákvæði þannig að dómstólar þurfi að skera úr um hvort (hvert) þeirra eigi við eða hvort báðum (öllum) verði beitt.
    1. og 2. mgr. 125. gr. núgildandi tollalaga eru felldar brott þar sem í 171. gr. frumvarpsins er tilvísun til III. kafla almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild. 3. mgr. 125. gr. er einnig felld brott þar sem óheppilegt er að slá því föstu að almenn hegningarlög skuli ganga framar tollalögum. Slíkt mat heyrir undir ákæruvald og dómstóla.

Um 172. gr.


    Ákvæði 172. gr. frumvarpsins kemur í stað þriggja fyrstu málsgreinanna í 126. gr. gildandi tollalaga. Ákvæðið er einfaldað með hliðsjón af almenna ákvæðinu í 169. gr. frumvarpsins.
    Nokkrar breytingar eru gerðar á saknæmisskilyrðum. Gáleysisheimild í 1.–3. mgr. 172. gr. er rýmkuð, sbr. 169. gr. frumvarpsins, þannig að venjulegt gáleysi nægir sem saknæmisskilyrði í 1. mgr. og 2. mgr. 172. gr. í stað stórfellds gáleysis í 1. mgr. 126. gr. gildandi laga. Venjulegt gáleysi nægir einnig í 2. mgr. 172. gr. sem er ný málsgrein um refsiábyrgð tollmiðlara. Í refsihækkunarákvæði 4. mgr. er ásetningur áskilinn sem saknæmisskilyrði. Þá er tekið fram að refsihækkunarákvæðið eigi við ef brot er ítrekað eða sakir miklar að öðru leyti. Ítrekun er þannig tilgreind sem dæmi um miklar sakir. Önnur dæmi um miklar sakir geta verið ef brot lýtur að verulegum fjárhæðum eða verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti.
    Í 1. mgr. 172. gr. er tekið fram að sektir skuli nema að lágmarki tvöföldum en að hámarki tíföldum tolli af því tollverði sem dregið var undan álagningu aðflutningsgjalda. Regla þessi er sú sama og í 1. mgr. 126. gr. gildandi laga. Það nýmæli er tekið upp að gert er ráð fyrir að hafi álag verið lagt ofan á toll og önnur aðflutningsgjöld samkvæmt öðrum ákvæðum frumvarpsins skuli álagið dregið frá sektarfjárhæð. Sambærilegt ákvæði er í 109. gr. laga um tekjuskatt og eignaskatt, nr. 90/2003. Í 2. mgr. er tekið fram að brot samkvæmt ákvæðinu varði sektum. Útflutningsgjöld eru að jafnaði ekki lögð á útfluttar vörur og af þeirri ástæðu er ekki sett fram sambærileg regla um fjárhæð sektar og gert er í 1. mgr.
    3. mgr. 172. gr. er nýmæli þar sem fjallað er sérstaklega um refsiábyrgð tollmiðlara. Gildir ákvæðið um sams konar athafnir og fjallað er um í 1. mgr. ákvæðisins. Tekið er fram að refsiverðar athafnir í verknaðarlýsingu geta bæði tengst innflutningi eða útflutningi eftir því sem við á.
    3. mgr. 126. gr. gildandi tollalaga er felld brott á þeim forsendum að ekki er talið ráðlegt að veita smyglbrotum skv. 170. gr. frumvarpsins forgang eins og gert er í 3. mgr. 126. gr. gildandi laga. Brot gegn 172. gr. frumvarpsins eru sérhæfðari en smyglbrot og varða þyngri refsingum. Þykir því eðlilegra að 172. gr. frumvarpsins tæmi sök gagnvart 170. gr.

Um 173. gr.


    Ákvæði 173. gr. samsvarar þremur síðustu málsgreinum 126. gr. gildandi tollalaga.
    Þær breytingar eru gerðar að einstaklingi verður eingöngu gerð refsing fyrir saknæma hegðun, sbr. 169. gr. og 2. mgr. 174. gr. frumvarpsins. Sjálfstætt ákvæði um refsiábyrgð lögaðila er í 3. mgr. 174. gr. Með því er felld niður heimild í 6. mgr. 126. gr. gildandi tollalaga til að gera lögaðila og fyrirsvarsmanni hans óskipta (sólidaríska) sekt.

Um 174. gr.


    Ákvæði 174. gr. svarar að miklu leyti til 128. gr. gildandi tollalaga. Nokkrar orðalagsbreytingar eru gerðar á ákvæðinu. Þannig eru verknaðarlýsingar 1. og 3. mgr. 128. gr. gildandi laga sameinaðar í 1. mgr. 174. gr. frumvarpsins.
    Refsihámark ákvæðisins er hækkað úr sex mánaða fangelsi í eins árs fangelsi.
    Með 2. mgr. 174. gr. er horfið frá öfugri sönnunarbyrði. Orðalag ákvæðisins áskilur gáleysi vörsluhafa vöru eða annars ábyrgðarmanns, annaðhvort gáleysi um eigin verk eða gáleysi sem fólgið er í eftirlitsskorti eða leiðbeiningarskorti gagnvart starfsfólki. Vanræksla vörslumanns um viðeigandi ráðstafanir eftir brotið fela í sér saknæmt athafnaleysi eftir því sem lýst er í ákvæðinu.

Um 175. gr.


    175. gr. er að mestu samhljóða 129. gr. gildandi tollalaga. Fáeinar orðalagsbreytingar hafa verið gerðar.
    Skýrt er tekið fram í lok 3. mgr. 175. gr. að stjórnanda farartækis verður ekki refsað samkvæmt þeirri málsgrein nema hann hafi sýnt af sér gáleysi við flutning vöru út af varnarsvæðum.

Um 176. gr.


    Ákvæði 176. gr. er nokkuð breytt frá gildandi ákvæði 130. gr. tollalaga. Lagt er til að tilgreint verði í ákvæðinu að það eigi eingöngu við misnotkun á leyfum, ívilnunum eða tollfríðindum skv. 7. og 8. gr. frumvarpsins eða öðrum reglum settum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þá er lagt til að gera megi lögaðila sekt vegna brots á ákvæðinu, óháð því hvort brot verði rakið til saknæms verknaðar starfsmanns lögaðilans, enda sé brot drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu, en algengt er að lögaðilum eru veittar ívilnanir samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum.

Um 177. gr.


    Ákvæði 177. gr. frumvarpsins svarar til 132. gr. gildandi tollalaga. Í ákvæðinu er fjallað um refsiábyrgð stjórnenda, eigenda eða umráðamanna skipa og flugvéla í millilandaferðum.
    Í 1. mgr. 177. gr. eru refsimörk ákvæðisins rýmkuð á þann veg að brot getur varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum í stað sekta eingöngu í gildandi lögum.
    Rétt þykir að fella niður 2. mgr. 132. gr. gildandi laga sem fjallar um greiðslu kostnaðar af rannsókn eða eftirliti vegna vanrækslu.
    Bætt er við ákvæði um refsiábyrgð lögaðila í 3. mgr. 177. gr. frumvarpsins.

Um 178. gr.


    Ákvæði 178. gr. er óbreytt frá 133. gr. gildandi tollalaga að öðru leyti en því að hámark fangelsisrefsingar er stytt úr sex árum í tvö ár til samræmis við refsimörk annarra ákvæða kaflans.

Um 179. gr.


    Ákvæði 179. gr. er efnislega samhljóða 127. gr. núgildandi tollalaga.

Um 180. gr.


    Greinin er nýmæli í tollalögum þar sem lagt er til að lögfest verði ákvæði um refsingu við því að tálma tollvörðum í því að sinna skyldustörfum sínum við tollgæslu eða óhlýðnast tollvörðum við skyldustörf. Þykir rétt að lögfesta refsiákvæði um brot gegn banni við að tálma eða óhlýðnast tollgæslu við skyldustörf. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 19. og 21. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og 106. gr. hegningarlaga. Um athugsemdir með ákvæðinu er að öðru leyti vísað til athugasemda með 168. gr. frumvarpsins.

Um 181. gr.


    Í 181. gr. er fjallað um eignaupptöku og svarar ákvæðið til 1., 2., 5. og 6. mgr. 136. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði 1. mgr. 181. gr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 136. gr. gildandi laga. Felld eru niður orðin „eða fyrirmæla sem sett eru samkvæmt þeim“. Ekki þykir ástæða til að vísa til stjórnvaldsfyrirmæla í refsiákvæði þar sem slík fyrirmæli geta ekki gengið lengra en lagaákvæði og ekki er ástæða til að ganga skemmra í stjórnvaldsfyrirmælum en lagaákvæðið gerir.
    2. mgr. 181. gr. er samhljóða 2. mgr. 136. gr. gildandi tollalaga.
    3. mgr. 181. gr. er samhljóða 6. mgr. 136. gr. gildandi tollalaga að öðru leyti en því að í stað orðanna „innan 30 daga“ kemur að „að liðnum 30 dögum“.
    4. mgr. 181. gr. er samhljóða 5. mgr. 136. gr. gildandi tollalaga. Samkvæmt ákvæðinu er eignarupptaka heimil þótt sökunautur sé ósakhæfur eða ef sök er fyrnd.

Um 182. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 3. og 4. mgr. 136. gr. núgildandi tollalaga.

Um 183. gr.


    183. gr. er samhljóða 137. gr. núgildandi tollalaga.

Um 184. gr.


    Í 184. gr. er fjallað um réttindasviptingu sem viðurlög við brotum á þessum kafla.
    1. mgr. 184. gr. er efnislega samhljóða 138. gr. gildandi tollalaga. Orðalagi hefur verið breytt lítillega. Notað er orðalagið „ítrekað“ í stað „margítrekað“. Rétt þykir að vísa um upphaf og lengd sviptingartíma til 68. gr. hegningarlaga og um endurveitingu réttinda til 68. gr. a sömu laga.
    Ákvæði 2. mgr. 184. gr. er nýmæli. Í ákvæðinu er tiltekið að svipta megi mann tilteknu starfsleyfi sem hann hefur öðlast samkvæmt ákvæðum frumvarpsins hafi leyfishafinn brotið gegn refsiákvæðum þessa kafla eða með öðrum hætti sýnt af sér stórfellda vanrækslu í starfi. Gert er ráð fyrir að sérhvert refsivert brot gegn ákvæðum XXII. kafla frumvarpsins heimili leyfissviptingu; enn fremur alvarleg vanrækslubrot, þótt þau falli ekki undir refsiverð brot gegn lögunum, ef leyfishafi hefur sýnt af sér stórfellda vanrækslu í starfi. Vanræksla verður að vera í beinum tengslum við starf leyfishafans og þarf að vera stórfelld, t.d. stórfellt gáleysi, alvarlegar afleiðingar eða ítrekuð vanræksla.
    Þau starfsleyfi sem 2. mgr. 184. gr. tekur til eru starfsleyfi sem tollmiðlari skv. 48. gr., leyfi til að reka afgreiðslugeymslu skv. 88. gr., leyfi til að reka tollvörugeymslu skv. 91. gr., leyfi til að reka tollfrjálsa forðageymslu skv. 96. gr., leyfi til að reka tollfrjálsa verslun skv. 101. gr. og leyfi til að reka frísvæði skv. 105. gr. Ekki er tæmandi talning starfsleyfa í 2. mgr. 184. gr., sbr. orðalagið „eða til að stunda önnur sambærileg störf“. Ákvæðið fjallar ekki um afturköllun leyfa ef leyfishafar fullnægja ekki lengur skilyrðum til að öðlast starfsleyfi. Um afturköllun starfsleyfis í slíkum tilvikum er vísað til eftirfarandi greina frumvarpsins: 3. mgr. 50. gr. um afturköllun leyfis til að starfa sem tollmiðlari, 89. gr. um afturköllun leyfis til að reka afgreiðslugeymslu, 92. gr. um afturköllun leyfis til að reka tollvörugeymslu, 97. gr. um afturköllun leyfis til að reka tollfrjálsa forðageymslu, 102. gr. um afturköllun leyfis til að reka tollfrjálsa verslun og 106. gr. um afturköllun leyfis til að reka frísvæði.

Um 185. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 185. gr. byggist í grundvallaratriðum á 1. mgr. 50. gr. gildandi laga.
    Sérhæfing og reynsla við tollrannsóknir er mest hjá starfsliði tollstjórans í Reykjavík. Jafnframt fer hann með samræmingarhlutverk á landsvísu varðandi tollframkvæmdina og þykir því eðlilegt að hann fái tilkynningar um stórfelld tollalagabrot frá öðrum tollstjórum, hvar sem þau eru framin á landinu. Jafnframt er mikilsvert að tollstjórinn í Reykjavík veiti þá aðstoð við rannsóknir utan Reykjavíkur sem þurfa þykir hverju sinni. Er ákvæði 1. mgr. 185. gr. að þessu leyti í samræmi við 43. gr. frumvarpsins sem felur tollstjóranum í Reykjavík að tryggja samræmda tollframkvæmd um land allt og að veita öðrum tollstjórum aðstoð og stuðning í störfum þeirra.
    Ákvæði 2. mgr. 185. gr. er nýmæli í tollalögum þar sem kveðið er á um skyldu lögreglu til að veita tollstjóra aðstoð við að færa mann til skýrslugjafar vegna rannsóknar máls ef kvaðningu þess efnis hefur ekki verið sinnt án lögmætra forfalla. Með þessu er girt fyrir þann möguleika að tollskyldur aðili geti komið sér hjá því að mæta til skýrslugjafar hjá tollstjóra. Ákvæðið er sambærilegt úrræðum sem til staðar eru í lögum þegar kveðja þarf mann til skýrslugjafar hjá lögreglu eða þegar tryggja þarf að maður mæti við aðfarargerð.
    Löggæslu- og rannsóknarheimildir tollgæslumanna sem vísað er til í 3. mgr. 185. gr. er einkum að finna í eftirfarandi greinum frumvarpsins: 151. gr. (valdbeiting),154. gr. (handtaka), 155.–160. gr. (leit og skoðun), 161.–162. gr. (haldlagning), 163. gr. (rannsókn og yfirheyrsla) og 164. gr. (innsiglun).
    Ákvæði 4. mgr. 185. gr. vísar til laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, varðandi framkvæmd tollrannsókna, yfirheyrslur grunaðra manna og aðrar skýrslutökur m.a. um þá skyldu rannsóknara að gæta ákvæða 32. gr. laganna.

Um 186. gr.


    Í 186. gr. er annars vegar fjallað um verkaskiptingu tollstjóra og lögreglustjóra við rannsókn brota og hins vegar samvinnu lögregluyfirvalda, tollyfirvalda og ákæruvalds.
    Í 1. mgr. er gengið út frá því að rannsókn hegningarlagabrota og brota gegn ákvæðum annarra sérrefsilaga en tollalaga sé í höndum lögreglu eftir almennum reglum laga um meðferð opinberra mála. Þegar atvik eru með þeim hætti að ætlað brot gegn refsiákvæðum tollalaga varðar einnig við almenn hegningarlög eða önnur sérrefsilög er tollstjóra gert skylt að tilkynna það viðkomandi lögreglustjóra sem tekur ákvörðun um framhald rannsóknarinnar, bæði á þeim þætti brotsins sem varðar við tollalög og þeim þætti sem varðar við önnur refsilög. Lögreglustjóri getur eftir atvikum falið tollstjóra rannsóknina eða hluta hennar ef það þykir hentugra, t.d. vegna rannsóknarhagsmuna. Um þetta efni er einnig vísað til athugasemda við 3. mgr. sem fjallar um samvinnu lögreglu- og tollyfirvalda.
    Í 2. mgr. er kveðið svo á að beiðnum erlendra tollyfirvalda, um aðstoð við rannsókn mála sem hlutaðeigandi tollyfirvöld annast, skuli beint til tollstjórans í Reykjavík. Fer tollstjórinn í Reykjavík með rannsókn málsins nema rannsóknin heyri undir lögreglu samkvæmt þessari grein. Með ákvæðinu er tekinn af allur vafi um að tollstjórinn í Reykjavík annast samskipti og aðstoð við erlend tollyfirvöld berist beiðnir um aðstoð við rannsókn tollamála samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á þessu sviði. Sem dæmi um slíkar alþjóðlegar skuldbindingar má nefna bókun 11 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, um gagnkvæma aðstoð í tollamálum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um gagnvirka samvinnu tollyfirvalda og lögregluyfirvalda auk ákæruvalds. Bersýnilega er tilefni til samvinnu tollstjóra við lögregluyfirvöld ef við tolleftirlit eða tollrannsókn vaknar grunur um hegningarlagabrot, t.d. fölsun eða rangfærslu skjala. Á sama hátt ber lögreglustjóra að hafa samvinnu við tollstjóra um rannsókn hvers konar brota ef sérstaklega reynir á sérþekkingu tollgæslu eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í tollamálum. Rétt þykir að veita heimild til að setja frekari reglur um þessa samvinnu í reglugerð.

Um 187. gr.


    Í 1. mgr. 187. gr. er kveðið á um að með saksókn og málsmeðferð vegna brota á refsiákvæðum XXII. kafla skuli fara að hætti opinberra mála. Ákvæðið er í meginatriðum samhljóða 1. mgr. 139. gr. gildandi tollalaga.
    2. mgr. 187. gr. er samhljóða 2. mgr. 139. gr. gildandi tollalaga.
    Með 3. mgr. 187. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvörðun sekta og annarra viðurlaga vegna helstu tollalagabrota verði stöðluð með þeim hætti að sektir og önnur viðurlög fyrir tiltekin brot allt að fjárhæð 300.000 kr. verði tiltekin í reglugerð sem verði bindandi fyrir tollstjóra og dómstóla. Þó verði heimilt að víkja frá staðlaðri refsingu til hækkunar eða lækkunar ef veigamikil rök mæla með því.
    Með 4. mgr. er lagt til að fullkominni samlagningu sekta verði beitt þegar sekt er ákveðin vegna tveggja eða fleiri brota á tollalögum og reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Í 5. mgr. er lagt til að tollvörðum verði veitt heimild til þess að afgreiða mál vegna brota sem tilgreind eru í reglugerð ráðherra á grundvelli 3. mgr., með tollstjórasátt. Það hefur reynst erfiðleikum háð í framkvæmd að mæta þessum áskilnaði gildandi laga um að sektir og eignaupptaka samkvæmt greininni skuli ákveðnar af tollstjóra eða löglærðum fulltrúa hans, einkum í umdæmi tollstjórans á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar þykir rétt að tryggja aðkomu tollstjóra eða löglærðs fulltrúa ef mál varðar brot sem er ekki tilgreint í reglugerð ráðherra enda er talið að fjárhæð sektar fari ekki fram úr 300.000 kr. og verðmæti þess sem gera á upptækt ekki fram úr 300.000 kr.
    6. og 7. mgr. eru samhljóða 4. og 5. mgr. 139. gr. gildandi laga.

Um 188. gr.


    Ákvæði 188. gr. er efnislega óbreytt frá 140. gr. núgildandi tollalaga.

Um 189. gr.


    Með 189. gr. er lagt til að lögfest verði sérstakt fyrningarákvæði með fimm ára fyrningarfresti um öll brot gegn ákvæðum XXII. kafla. Er ákvæðið nokkru víðtækara en jafnframt sértækara en almenna ákvæðið í 2. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga sem tiltekur brot fólgin í því að komast undan greiðslu á tollum, sköttum o.fl. Sama viðmið er notað í 189. gr. um rof sakarfyrningarfrests og í 6. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um XXIII. kafla.


    Í þennan kafla er safnað ýmsum ákvæðum sem ekki heyra undir aðra kafla í frumvarpinu. Uppbygging og efni kaflans er í samræmi við XV. kafla gildandi tollalaga. Þó hefur nokkrum ákvæðum XV. kafla gildandi laga verið fundinn staður í öðrum köflum frumvarpsins til samræmis við efni þeirra. Þá er 144. gr. gildandi laga felld brott þar sem hún er óþörf, sbr. lög nr. 79/1980, um minnstu mynteiningu við álagningu og innheimtu opinberra gjalda, og 8. gr. laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands.

Um 190. gr.


    Í 190. gr. er kveðið á um þagnarskyldu tollvarða og annarra starfsmanna tollstjóra. Orðalagi hefur verið breytt verulega frá samsvarandi ákvæði í 141. gr. gildandi tollalaga. Í 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er almennt ákvæði um þagnarskyldu ríkisstarfsmanna. Vegna eðlis starfa tollvarða og annarra starfsmanna tollstjóra þykir rétt að hafa sérstakt ákvæði í tollalögum um þetta efni. Ákvæðið tekur til allra starfsmanna tollstjóra.
    Þagnarskyldan tekur jafnt til upplýsinga sem viðkomandi fær í starfi sínu og vegna þess. Í 2. mgr. er áréttað að þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Atriði sem þagnarskylda tekur til eru greind í fjórum liðum:
     1.      Upplýsingar um einkahagi manna sem geta varðað viðkvæm mál og eðlilegt er og sanngjarnt að leynt fari.
     2.      Upplýsingar um hvers konar viðskiptamálefni einstaklinga og fyrirtækja, þ.m.t. hvers kyns vitneskja sem ráða má beint eða óbeint af samritum af sölu- og vörureikningum eða af öðrum skjölum sem látin eru tollstjóra í té.
     3.      Upplýsingar er varða starfshætti tollstjóra, svo sem fyrirhugaðar rannsóknaraðgerðir. Í þessu sambandi er bent á að mikilvægt er að haldið sé leyndum upplýsingum um vissa þætti í starfsemi tollstjóra og um skipulagningu og útfærslu einstakra aðgerða, t.d. tollrannsóknar.
     4.      Aðrar upplýsingar sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum tollstjóra eða eðli máls.
    Þagnarskylda starfsmanna tollstjóra kemur ekki í veg fyrir að öðrum starfsmönnum tollstjóra, starfsmönnum lögreglu eða starfsmönnum ákæruvalds verði veittar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna starfa þeirra.
    Í 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er að finna ákvæði sem lýsir brot á þagnarskyldu opinberra starfsmanna refsivert.

Um 191. gr.


    Grein þessi er að mestu samhljóða 143. gr. gildandi tollalaga. Í 1. mgr. er orðið „tollasamvinnuráðið“ fellt brott en í staðinn kemur Alþjóðatollastofnunin. Í 3. mgr. er fjallað um heimild ráðherra til að sameina smásendingar í eitt tollskrárnúmer til einföldunar á tollafgreiðslu. Bætt er við málsgreinina orðunum „eða fara frá landinu“ til að taka af allan vafa um að einföldun tollafgreiðslu á jafnt við innflutning og útflutning. Breyting þessi er gerð til samræmis við nýmæli 141. gr. frumvarpsins um einfaldaðar útflutningsskýrslur vegna póstverslunar.

Um 192. gr.


    Greinin er samhljóða 1. mgr. 145. gr. gildandi tollalaga. 2. mgr. er felld brott þar sem eðlilegt er að kveðið sé á um gjaldtökuheimildir tollstjóra í lögum. Um heimild tollstjóra til innheimtu þjónustugjalda er fjallað í 197. gr. frumvarpsins.

Um 193. gr.


    Greinin er samhljóða 146. gr. gildandi tollalaga.

Um 194. gr.


    Greinin er samhljóða 147. gr. gildandi tollalaga.

Um 195. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 148. gr. gildandi tollalaga.

Um 196. gr.


    Ákvæðið er að mestu samhljóða 150. gr. gildandi tollalaga. Í stað orðsins „lögvernd“ kemur lögveð.

Um XXIV. kafla.


    Kaflinn inniheldur eingöngu eitt ákvæði þar sem safnað er saman öllum heimildum tollstjóra lögum samkvæmt til innheimtu þjónustugjalda vegna starfa tollstarfsmanna sem ekki teljast til almenns tolleftirlits. Um þetta efni er fjallað á víð og dreif í gildandi tollalögum en það þykir til skýringarauka að fjalla um gjaldtökuheimildir þessar á einum stað í lögunum.

Um 197. gr.


    Í greininni er tollstjórum veitt heimild til að innheimta ýmis þjónustugjöld, talin upp í 11 töluliðum, vegna þjónustu sem tollstjóri veitir en telst ekki vera hluti af almennu tolleftirliti tollstjóra. Miðast fjárhæð gjalda við þann kostnað sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem veitt er.
    Flest þeirra gjalda sem talin eru upp í 1. mgr. eiga sér fyrirmynd í núgildandi tollalögum og eru nú þegar innheimt í samræmi við gildandi lagaheimildir. Til þess að gera frumvarpið eins aðgengilegt og skýrt og unnt er að þessu leyti er sett fram eitt ákvæði sem telur upp þau þjónustugjöld sem tollstjórar hafa heimild til að innheimta. Nýmæli eru eftirfarandi.
    Förgunargjald skv. 6. tölul. sem skal standa straum af kostnaði við eyðileggingu vöru að beiðni eiganda. Ákvæðið á eingöngu við þegar eigandi eða vörsluhafi vöru óskar eftir að vöru verði fargað undir tolleftirliti. Dæmi um slíkt tilvik er þegar eigandi vöru óskar þess að vöru verði fargað undir tolleftirliti í stað þess að hún verði endursend úr landi, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Einnig getur verið að leyfishafi geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur óski eftir að vöru verði fargað sem dagað hefur uppi á geymslusvæði hans.
    Fylgdargjald skv. 7. tölul. vegna kostnaðar af tollgæslu við flutning á ótollafgreiddum vörum þar sem tollstjóri telur nauðsynlegt að fyrirskipa slíka gæslu eða þegar þess er sérstaklega óskað að tollgæsla sé viðstödd flutning ótollafgreiddra vara, affermingu eða fermingu fara, innsetningu ótollafgreidds varnings á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur o.fl. Dæmi um kostnað samkvæmt þessum tölulið er þegar talið er nauðsynlegt að tollgæsla fylgi ótollafgreiddri vöru við flutning hennar á milli staða. Fyrirmynd slíks ákvæðis er að finna í 34. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Þá er í sumum tilvikum óskað viðveru tollgæslu þegar gámar eru opnaðir. Opinberar eftirlitsstofnanir, t.d. Fiskistofa, óska í sumum tilvikum eftir viðveru tollgæslu við opnum gáma. Þá óska eigendur hágjaldavöru, svo sem áfengis, stundum eftir viðveru tollgæslu við opnum gáma við innsetningu vöru í tollvörugeymslu til að tryggja að sýnt sé fram á að vöru á farmskrá vanti eða hún hafi orðið fyrir skemmdum.
    Tekjur allra tollstjóraembætta á árinu 2003 af þjónustugöldum voru um 40 millj. kr.

Um 198. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í þessari grein er kveðið á um að aðilar sem hafa fengið viðurkenningu tollstjóra til reksturs geymslu- og afgreiðslustaðar fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 64. gr. gildandi tollalaga, leyfi ráðherra til reksturs almennrar tollvörugeymslu, tollfrjálsrar forðageymslu eða tollfrjálsrar verslunar skv. VIII. kafla gildandi tollalaga eða frísvæðis skv. IX. kafla gildandi tollalaga fyrir gildistöku laga þessara skuli innan eins árs frá gildistöku laganna senda ráðherra eða tollstjóra eftir atvikum umsókn um starfsleyfi.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að hafi aðilar sem um getur í 1. mgr. ekki sótt um starfsleyfi innan frestsins skv. 1. mgr. teljist þeir ekki fullnægja ákvæðum laganna. Þá er litið svo á viðurkenning þeirra eða leyfi sé fallið úr gildi. Skilyrði fyrir leyfum til rekstur geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur eru sett fram með ítarlegri og skýrari hætti í frumvarpinu en gert er í núgildandi tollalögum og þess vegna þykir nauðsynlegt að þeir aðilar sem um getur í 1. mgr. sæki um leyfi að nýju verði ákvæði frumvarpsins að lögum.

Um viðauka I.


    Við álagningu tolla hefur allt frá 1963 verið stuðst við alþjóðlega samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem kennd var við Tollasamvinnuráðið í Brussel (nú nefnd Alþjóðatollastofnunin). Eðlilegt framhald þeirrar framkvæmdar var sú ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar að Ísland gerðist aðila að samningi um samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskrána sem Tollasamvinnuráðið lagði fram á níunda ártugnum og gert var ráð fyrir að aðildarríkin tækju upp 1. janúar 1988. Sem aðili að Tollasamvinnuráðinu gerðist Ísland aðili að þeim samningi 10. janúar 1985. Með lögum nr. 96/1987, um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, voru tollflokkunarreglur samræmdu skrárinnar innleiddar hér á landi 1. janúar við tollafgreiðslu á innfluttum og útfluttum vörum.
    Tollskráin gegnir mikilvægu hlutverki við álagningu tolla og annarra skatta eins og vörugjalda ýmiss konar og virðisaukaskatts. Þetta á einnig við um tollfrelsi eða tollaívilnanir sem byggjast á ákvæðum milliríkja- og fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gerst aðili en nefna má í því sambandi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES, og samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO. Þá gegnir tollskráin veigamiklu hlutverki við flokkun innfluttra sem útfluttra vara vegna hagskýrslugerðar af ýmsu tagi.
    Frá því að samræmda vöruheita- og vörunúmeraskráin var tekin upp 1988 hefur Tollasamvinnuráðið samþykkt umfangsmiklar breytingar á flokkunarreglum hennar. Sú fyrri var samþykkt af Tollasamvinnuráðinu 6. júlí 1993 en sú síðari 25. júní 1999. Í samræmi við ályktanir ráðsins og samkvæmt heimild í 142. gr. tollalaga voru breytingar þessar innleiddar hér á landi með auglýsingum nr. 127/1995 og 126/2001 í A-deild Stjórnartíðinda og tóku gildi 1. janúar 1996 og 1. janúar 2002. Auk þessara breytinga hafa fjölmargar aðrar breytingar verið gerðar á tollskránni, m.a. í tengslum við fríverslunarsamninga, takmarkanir á inn- eða útflutningi, gjaldabreytingar og öflun tölfræðilegra upplýsinga sem kallað hafa á breytta flokkun vegna tæknilegra atriða við innheimtu.
    Þegar litið er til þeirra umfangsmiklu breytinga sem gerðar hafa verið á tollskránni allt frá árinu 1988 og mikilvægi tollskrárinnar sem lagastoðar við ákvörðun tollskyldu og tollfrelsis við inn- eða útflutning á vörum þykir rétt að leggja tollskrána að nýju fyrir Alþingi til samþykktar. Eins og áður er gert ráð fyrir að tollskráin hafi lagagildi og verði viðauki I við tollalögin. Allar breytingar sem gerðar hafa verið, ýmist með lögum eða auglýsingum samkvæmt 142. gr. tollalaga, hafa verið felldar inn í tollskrána í viðauka I.
    Lögð er til niðurfelling tolls af vörum sem eru sérstaklega tilreiddar fyrir ofnæmis- og efnaskiptasjúklinga, í tollskrárnúmerunum 1704.9008, 1905.3120, 1905.9021 og 1905.9041. Aðrar tillögur eru ekki gerðar til breytinga á tollum eins og mælt er fyrir um þá í gildandi tollalögum, sbr. viðauka I við þau sem hefur lagagildi.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til tollalaga.

    Núgildandi tollalög eru frá árinu 1987. Frá þeim tíma hafa orðið margs konar breytingar á íslensku viðskiptalífi og verkefnum og tækni á sviði tollamála. Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á tollalögunum og er ætlað að laga þau að þessu breytta umhverfi. Þótt margs konar nýmæli og breytingar komi fram í frumvarpinu er engu síður að stærstum hluta um það að ræða að ákvæði laganna verði felld betur að núverandi starfsháttum tollyfirvalda þannig að ekki er gert ráð fyrir að neinar verulegar breytingar verði þar á. Er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs svo nokkru nemi.