Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 757  —  495. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    Í stað orðanna „vélsleða og fjórhjól“ í 2. málsl. 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki.

2. gr.

    Við 2. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Enn fremur er ráðherra heimilt að takmarka veiðar við ákveðna daga innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr. og ákveðinn tíma sólarhrings, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan áðurnefndra tímamarka.

3. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Bann við sölu á veiðifangi.

    Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils.
    Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja fugla og afurðir fugla sem ráðherra hefur bannað sölu á skv. 1. mgr. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.

4. gr.

    Á eftir orðunum „framkvæmd brots“ í 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna kemur: veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann skv. 17. gr. a.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í júlímánuði 2003 ákvað þáverandi umhverfisráðherra að friða rjúpu frá og með árinu 2003 til og með 2005 vegna bágs ástands stofnsins og var ákvörðunin tekin skv. 17. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum. Í framhaldi af þessari ákvörðun varð mikil umræða um málefnið í þjóðfélaginu og voru skoðanir skiptar. Við talningu rjúpu vorið 2004 kom fram að stofninn hefur tvöfaldast á milli áranna 2003 og 2004, sem sýnir að stofninn er í mikilli uppsveiflu. Þetta bendir til að mögulegt sé að stunda takmarkaðar veiðar í framtíðinni með því að koma á markvissri stjórn, sem ekki verður gert nema með breyttum lögum.
    Umhverfisráðherra ákvað þann 5. október 2004 að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sem hafi það að meginmarkmiði að styrkja stjórn rjúpnaveiða. Mikilvægt er að tryggja að rjúpnaveiðar verði sjálfbærar þegar þær hefjast á ný og ekki þurfi að grípa til tímabundinnar friðunar. Af þessum ástæðum fól umhverfisráðherra nefnd, sem skipuð var 3. september 2003 og fengið var það hlutverk að gera tillögur um aðgerðir til þess að styrkja rjúpnastofninn að loknu banni við rjúpnaveiðum, að semja frumvarp til laga um breytingu á áðurnefndum lögum með áðurnefnd markmið að leiðarljósi og að veiðarnar verði sjálfbærar. Í nefndinni eiga sæti: Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri, formaður, Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Áki Ármann Jónsson forstöðumaður, tilnefndur af Umhverfisstofnun, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, tilnefndur af sambandinu, Ólafur Einarsson fuglafræðingur, tilnefndur af Fuglaverndarfélagi Íslands, Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, tilnefndur af félaginu, og Ari Teitsson, fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, tilnefndur af samtökunum. Með nefndinni starfar Sigurður Á. Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu.
    Nefndinni var sérstaklega falið að líta til eftirfarandi þátta:
     a.      Heimild til að banna sölu rjúpna og rjúpnaafurða.
     b.      Heimild til að kvótabinda rjúpnaveiðar.
     c.      Takmörkun á notkun farartækja.
     d.      Hugsanlegar breytingar á veiðitíma, þ.e. upphaf og endir hefðbundins veiðitíma.
    Nefndinni var falið að skila tillögum um lagabreytingar til ráðuneytisins fyrir 15. nóvember 2004. Nefndinni var jafnframt falið að haga störfum sínum þannig að nýtt stjórnkerfi rjúpnaveiða gæti verið fyrirmynd að stjórn veiða á öðrum fuglastofnum eftir því sem aðstæður krefðust. Gert er ráð fyrir því að nái frumvarp fram að ganga og ekkert óvænt komi fram um ástand rjúpnastofnsins á næsta ári hefjist rjúpnaveiðar samkvæmt breyttum lögum haustið 2005 þannig að bannið standi í tvö ár en ekki þrjú. Gott samkomulag náðist um þessa niðurstöðu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Skotveiðifélag Íslands.
    Frumvarp það sem hér liggur frammi byggist í megindráttum á tillögum áðurgreindrar nefndar umhverfisráðuneytisins að því frátöldu að ekki er að svo stöddu lagt til að heimilt verði að setja kvóta á fuglaveiðar eins og nefndin lagði til. Ekki er talin þörf á að slík heimild sé í lögum nema í ljós komi að aðrar aðgerðir sem lagðar eru til í frumvarpi þessu séu ekki nægjanlegar. Hins vegar gerir frumvarpið ráð fyrir að heimild ráðherra til að takmarka veiðar með sölubanni gildi um alla fuglastofna sem heimilt er að veiða. Á þann hátt er leitast við að tryggja að veiðar á einstökum fuglastofnum séu jafnan stundaðar á sjálfbæran hátt.
    Til þess að takmarka veiðisókn í fuglastofna sem ákveðið er að létta friðun af samkvæmt lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, er lagt til að umhverfisráðherra verði heimilt að draga úr veiðisókn með sölubanni og/eða sóknarstýringu. Sölubann gæti verið tiltekinn tíma, t.d. þegar viðkomandi stofn er í lágmarki vegna náttúrulegra sveiflna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er talið að um helmingur af þeirri rjúpu sem veidd er falli undir svokallaða magnveiði, þ.e. sé einkum til sölu á almennum markaði. Í nágrannalöndunum hefur víða verið gripið til þess ráðs að takmarka veiðar á fuglum og annarri veiðibráð við tómstundaveiðar (sportveiðar).
    Í frumvarpi þessu eru ekki lagðar til breytingar á upphafi og endi veiðitíma, enda verður að líta svo á að tiltölulega góð sátt sé um veiðitímann. Þó er talið rétt, svo ekkert fari á milli mála, að ráðherra fái ótvíræðar heimildir til að ákveða innan veiðitímans hvaða daga megi veiða og hvenær sólarhringsins, gerist þess þörf. Hér má nefna að dæmi eru um að gæsaveiðar séu stundaðar í rökkri og jafnvel fram í myrkur. Í slíkum tilvikum er undir hælinn lagt hvort tekst að ná í særðan fugl.
    Ekki er talin ástæða til þess að fjalla sérstaklega um þau farartæki sem nota má við veiðar þar sem ákvæði laganna sem og náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, eru nægjanlega skýr. Rétt þykir þó, eins og verið hefur, að leyfa notkun vélknúinna farartækja á landi annarra en vélsleða, fjórhjóla og annarra sambærilegra torfærutækja til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegslóðum. Samkvæmt gildandi lögum nær ákvæðið eingöngu til vélsleða og fjórhjóla en komin eru á markað önnur sambærileg torfærutæki og er lagt til að lögin nái yfir þau einnig.
    Ákvæði þessa frumvarps taka mið af því að þau nái til allra fugla sem friðun er aflétt af en ekki aðeins til rjúpu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. má nota vélknúin farartæki á landi önnur en vélsleða og fjórhjól til að flytja veiðimenn að og frá veiðilendum. Lagt er til að orðalag ákvæðisins verði þrengt þannig að ekki sé heimilt að nota vélsleða, fjórhjól eða önnur torfærutæki, þar sem á markaði eru sambærileg torfærutæki, svo sem torfærubifhjól og sexhjól, sem einnig er rétt að óheimilt verði að nota við veiðar. Er þetta m.a. gert til þess að koma í veg fyrir ágreining um hvernig túlka beri ákvæðið. Hugtakið torfærutæki er nánar skilgreint í umferðarlögum, nr. 50/1987, og vísast til þeirrar skilgreiningar við skýringu hugtaksins hér.

Um 2. gr.

    Lagt er til að umhverfisráðherra geti með reglugerð takmarkað veiðar innan hvers veiðitímabils við ákveðna daga og ákveðinn tíma sólarhringsins, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan áðurnefndra tímamarka. Rétt þykir að hafa ótvíræð ákvæði í lögum til að tryggja sveigjanleika í veiðistjórn í þeim tilvikum sem takmarka þarf sókn í einstaka tegundir.

Um 3. gr.

    Lagt er til að umhverfisráðherra geti með reglugerð, þegar friðun fugla er aflétt, bannað sölu á þeim. Heimildin er þó bundin við þær aðstæður þegar talin er hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils. Er þetta sérstaklega tekið fram til að undirstrika að einungis er heimilt að leggja sölubann á í því skyni að vernda viðkomandi fuglastofn. Heimildin getur verið tímabundin og náð til einstakra tegunda eða allra þeirra tegunda sem veiddar eru til matar. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi þannig að ekki er ætlunin að koma í veg fyrir að hægt sé að gefa eða þiggja veiðibráð.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að heimilt verði að gera upptækt veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann sem ráðherra hefur ákveðið að leggja á. Þar sem sú bráð getur hafa verið löglega veidd fellur hún ekki undir upptökuákvæði núgildandi laga.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild til handa umhverfisráðherra til að banna sölu á einstaka fuglategundum og afurðum þeirra, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils. Enn fremur er lagt til að ráðherra geti takmarkað veiðar við ákveðna daga innan leyfilegs veiðitímabils og ákveðinn tíma sólarhrings. Auk þess er lagt til að óheimilt verði að stunda veiðar á vélsleðum, fjórhjólum og öðrum torfærutækjum.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.