Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 503. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 767  —  503. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     8.      Opinber fjárfestingarráðgjöf: Greining eða samantekt annarra upplýsinga sem fela í sér ráðleggingar um kaup eða sölu á fjármálagerningum eða leggja til fjárfestingarstefnu, með beinum eða óbeinum hætti, sem varða einn eða fleiri fjármálagerninga eða útgefendur þeirra og sem ætlaðar eru almenningi eða eru líklegar til að verða aðgengilegar almenningi, svo sem ef þeim er dreift til stórs hóps manna.
     9.      Viðurkennd markaðsframkvæmd: Framkvæmd sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að sé viðhöfð á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt með þeim hætti sem kveðið er á um í reglugerð sem sett skal á grundvelli 73. gr.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist: sbr. þó ákvæði 16. gr.

3. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytast greinatölur annarra greina samkvæmt því:

Opinber fjárfestingarráðgjöf og birting tölfræðiupplýsinga.


    Hver sá sem setur fram eða birtir opinbera fjárfestingarráðgjöf skal gæta þess að slíkar upplýsingar séu settar fram af sanngirni og uppfylli skilyrði reglna sem Fjármálaeftirlitið skal setja á grundvelli 73. gr. Þá skal tilgreina hagsmuni eða hugsanlega hagsmunaárekstra viðkomandi aðila vegna þeirra fjármálagerninga sem upplýsingarnar varða.
    Opinberir aðilar sem miðla tölfræðilegum upplýsingum, sem líklegar eru til að hafa marktæk áhrif á fjármálamörkuðunum, skulu miðla þeim af sanngirni og á gagnsæjan hátt.

4. gr.

    IV. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Útboð og skráning verðbréfa, orðast svo og breytast greinatölur samkvæmt því:

    a. (20. gr.)

Gildissvið kaflans.


    Ákvæði kafla þessa taka til almennra útboða og skráningar verðbréfa.
    Ákvæði kafla þessa eiga ekki við um:
     1.      sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem hafa það eingöngu að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirframkunngerðri fjárfestingarstefnu og gefa út hlutdeildarskírteini eða hluti sem eru innleysanlegir að kröfu eigenda af eignum sjóðsins,
     2.      verðbréf sem ekki eru hlutabréfatengd og gefin eru út af ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, héraðs- eða sveitarstjórnum, alþjóðastofnunum sem eitt eða fleiri ríkjanna eiga aðild að, af Seðlabanka Evrópu eða seðlabönkum ríkjanna,
     3.      seðlabanka á Evrópska efnahagssvæðinu,
     4.      verðbréf með skilyrðislausri og óafturkallanlegri ábyrgð ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, héraðs- eða sveitarstjórna,
     5.      verðbréf sem gefin eru út af lögaðilum sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni í þeim tilgangi að afla fjár til framdráttar markmiðum sínum og lúta ekki að hag sjálfra lögaðilanna,
     6.      verðbréf sem ekki eru hlutabréfatengd og gefin eru út samfellt eða með endurteknum hætti af lánastofnunum svo fremi sem þessi verðbréf:
                  a.      eru ekki víkjanleg, breytanleg eða skiptanleg,
                  b.      fela ekki í sér rétt til áskriftar eða rétt til að öðlast aðrar tegundir verðbréfa og eru ekki tengd afleiðum,
                  c.      fela í sér að réttur stofnist til endurgreiðslu,
                  d.      falla undir lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta,
     7.      útboð verðbréfa undir 210 millj. kr., sbr. þó 73. gr. laga þessara; fjárhæð útboðsins skal miðuð við 12 mánaða tímabil,
     8.      verðbréf sem ekki eru hlutabréfatengd og eru gefin út samfellt eða með endurteknum hætti af lánastofnunum, og heildarfjárhæð útboðs er lægri en 4,2 milljarðar króna, miðað við 12 mánaða tímabil, svo fremi sem þessi verðbréf:
                  a.      eru ekki víkjanleg, breytanleg eða skiptanleg,
                  b.      fela ekki í sér rétt til áskriftar eða rétt til að öðlast aðrar tegundir verðbréfa og eru ekki tengd afleiðum.
    Útgefanda, tilboðsgjafa eða aðila sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað, sem fellur undir ákvæði 2., 4., 6. eða 7. tölul. 2. mgr., er heimilt að útbúa lýsingu í samræmi við þennan kafla.
    Fjárhæðir í þessum kafla eru bundnar við gengi evru (EUR) miðað við gengi hennar 4. janúar 2005 (83,54 kr.).

    b. (21. gr.)

Orðskýringar.


     1.      Almennt útboð: Með almennu útboði verðbréfa er átt við hvers konar boð til almennings um kaup á verðbréfum, með hvaða hætti sem er. Í boðinu skulu koma fram fullnægjandi upplýsingar um skilmála útboðs og verðbréfin sem eru boðin til kaups til að gera fjárfesti kleift að ákveða að kaupa eða láta skrá sig fyrir kaupum á þessum verðbréfum. Hér falla einnig undir verðbréf sem sett eru á markað fyrir tilstilli milligönguaðila á fjármálamarkaði.
     2.      Lýsing: Lýsing er samheiti yfir skjal eða skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða skráningar verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað.
     3.      Grunnlýsing: Lýsing sem inniheldur nauðsynlegar upplýsingar um útgefanda og verðbréf sem boðin eru almenningi eða ætlunin er að skrá á skipulegan verðbréfamarkað skv. 2. tölul.
     4.      Útgefandalýsing: Sá hluti lýsingar, þegar lýsing er gefin út sem þrjú aðskilin skjöl, sem veitir upplýsingar um útgefandann.
     5.      Verðbréfalýsing: Sá hluti lýsingar, þegar lýsing er gefin út sem þrjú aðskilin skjöl, sem veitir upplýsingar um verðbréfin sjálf.
     6.      Samantekt: Sá hluti lýsingar sem veitir upplýsingar um megineinkenni og áhættur sem tengd eru útgefanda, umsjónaraðila og verðbréfunum sjálfum. Samantektin skal sett fram í stuttu máli og með skýrum hætti.
     7.      Hlutabréfatengd verðbréf: Hlutabréf og önnur framseljanleg verðbréf sem eru jafngild hlutabréfum í félögum ásamt hvers kyns öðrum tegundum framseljanlegra verðbréfa sem veita rétt til að eignast einhver hinna framangreindu verðbréfa með því að breyta þeim eða nýta þann rétt sem þau veita, að því tilskildu að verðbréf af síðarnefndu tegundinni séu gefin út af útgefanda hinna undirliggjandi hlutabréfa eða aðila sem tilheyrir samstæðu útgefandans.
     8.      Útboðsáætlun: Áætlun sem mundi heimila útgáfu verðbréfa, sem ekki eru hlutabréfatengd, þ.m.t. áskriftarréttinda í hvaða formi sem er, af svipaðri gerð og/eða í svipuðum flokki, samfellt eða með endurteknum hætti á tilteknu útgáfutímabili.

    c. (22. gr.)

Skilyrði almenns útboðs og skráningar verðbréfa.


    Almennt útboð verðbréfa, hvort heldur er í upphaflegri sölu eða síðari sölu, er háð því að lýsing hafi verið gefin út í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Skráning verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað er háð útgáfu lýsingar í samræmi við ákvæði laga þessara.

    d. (23. gr.)

Upplýsingar í lýsingu.


    Lýsing skal innihalda þær upplýsingar sem með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna eru nauðsynlegar fjárfestum til þess að þeir geti metið eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur útgefanda og ábyrgðaraðila, ef við á, sem og þau réttindi sem fylgja verðbréfunum. Upplýsingarnar skulu settar fram á skýran og greinargóðan hátt.
    Auk upplýsinga um útgefandann og verðbréfin skal lýsing innihalda stutta og greinargóða samantekt sem lýsir grundvallareinkennum og áhættu hvað varðar útgefandann, ábyrgðaraðila, ef við á, og verðbréfin sjálf.
    Þegar um er að ræða lýsingu á verðbréfum sem eru ekki hlutabréfatengd, vegna skráningar á skipulegan verðbréfamarkað, og verðbréfin eru í einingum sem nema að lágmarki 4,2 millj. kr. er ekki skylda að útbúa samantekt.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá birtingu tiltekinna upplýsinga í lýsingu samkvæmt lögum þessum ef það telur:
     a.      að birting slíkra upplýsinga mundi stríða gegn almannahagsmunum,
     b.      að birting slíkra upplýsinga væri verulega skaðleg fyrir útgefandann, að því tilskildu að ekki sé líklegt að sú staðreynd að upplýsingunum sé sleppt villi um fyrir almenningi að því er varðar nauðsynlegar staðreyndir og aðstæður til að hægt sé að meta, á grundvelli upplýsinganna, útgefandann, tilboðsgjafann eða ábyrgðaraðilann, ef einhver er, og réttindin sem fylgja verðbréfunum sem lýsingin varðar,
     c.      að slíkar upplýsingar séu léttvægar fyrir tiltekið útboð eða skráningu á skipulegan markað og ekki þess eðlis að þær hafi áhrif á mat á fjárhagsstöðu og framtíðarhorfur útgefanda, tilboðsgjafa eða ábyrgðaraðila, ef einhver er.
    Heimilt er að birta lýsingu annaðhvort sem eitt skjal eða sem þrjú aðskilin skjöl. Lýsing sem samanstendur af þremur skjölum skiptist í:
     1.      útgefandalýsingu,
     2.      verðbréfalýsingu,
     3.      samantekt.
    Í eftirfarandi tilvikum getur útgefandi, tilboðsgjafi eða aðili sem óskar eftir skráningu á skipulegan verðbréfamarkað útbúið grunnlýsingu:
     a.      þegar um er að ræða verðbréf sem eru ekki hlutabréfatengd og gefin eru út sem hluti af útboðsáætlun, þ.m.t. áskriftarréttindi í hvaða formi sem er,
     b.      þegar verðbréf sem eru ekki hlutabréfatengd eru gefin út með samfelldum og endurteknum hætti af lánastofnunum og eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
                  i.      andvirði útgáfu verðbréfanna er samkvæmt landslögum bundið í eignum sem veita nægjanlega tryggingu fram að gjalddaga vegna skuldbindinga samkvæmt verðbréfunum,
                  ii.      andvirði bréfanna er fyrst og fremst ætlað að greiða upp gjaldfallinn höfuðstól og vexti ef fjármálafyrirtæki verður ógjaldfært, sbr. þó XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Gefinn skal út viðauki við grunnlýsingu ef nauðsynlegt þykir, sbr. ákvæði 24. gr. Viðaukinn skal innihalda uppfærðar upplýsingar um útgefandann og verðbréfin sem boðin eru almenningi eða ætlunin er að skrá á skipulegan verðbréfamarkað.
    Ef endanlegir skilmálar útboðs koma ekki fram í grunnlýsingu eða viðauka við hana skulu þeir látnir fjárfestum í té og skráðir hjá Fjármálaeftirlitinu við hvert almennt útboð. Skal þetta gert eins fljótt og auðið er og, ef hægt er, áður en útboð hefst.

    e. (24. gr.)

Viðauki við lýsingu.


    Komi fram mikilvægar nýjar upplýsingar, veigamikil mistök eða ónákvæmni er varða upplýsingar í lýsingu, sem máli geta skipt við mat á verðbréfunum og koma fram á tímabilinu frá því að lýsingin var staðfest, sbr. 30. gr., og þar til útboði lýkur eða, ef við á, þegar viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði hefjast, skal útbúa viðauka við lýsingu þar sem greint er frá viðkomandi atriðum. Viðaukinn skal staðfestur innan sjö virkra daga og birtur á sama hátt og upprunalega lýsingin. Einnig skal, ef nauðsyn krefur, gera viðauka við samantektina og þýðingu hennar og skal þar tekið mið af viðbótarupplýsingum þeim sem fram koma í viðaukanum.
    Fjárfestar sem þegar hafa samþykkt að kaupa eða skrá sig fyrir verðbréfum áður en viðaukinn er birtur skulu hafa rétt til að falla frá fyrrgreindu samþykki að lágmarki í tvo virka daga frá birtingu viðaukans.

    f. (25. gr.)

Gildistími lýsingar, grunnlýsingar og útgefandalýsingar.


    Lýsing skal vera gild í 12 mánuði frá opinberri birtingu að því er varðar almennt útboð eða skráningu á skipulegan verðbréfamarkað, að því tilskildu að við lýsinguna sé bætt þeim viðbótarupplýsingum sem krafist er skv. 24. gr.
    Ef um er að ræða útboðsáætlun skal grunnlýsing, sem hefur verið skráð hjá Fjármálaeftirlitinu, vera í gildi í allt að 12 mánuði.
    Ef um er að ræða verðbréf sem eru ekki hlutabréfatengd, sem um getur í b-lið 6. mgr. 23. gr., skal lýsingin vera í gildi þar til hætt er að gefa út viðkomandi verðbréf samfellt eða með endurteknum hætti.
    Útgefandalýsing eins og um getur í 5. mgr. 23. gr., sem áður hefur verið skráð hjá Fjármálaeftirlitinu, skal vera í gildi í allt að 12 mánuði, að því tilskildu að hún hafi verið uppfærð í samræmi við ákvæði 1. mgr. 26. gr. Útgefandalýsing ásamt verðbréfalýsingu, uppfærð í samræmi við 27. gr., ef við á, og samantekt teljast vera gild lýsing.

    g. (26. gr.)

Árleg upplýsingagjöf.


    Útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað skulu a.m.k. árlega útbúa skjal sem inniheldur eða vísar til allra upplýsinga sem þeir hafa gefið út eða gert aðgengilegar almenningi á síðustu 12 mánuðum á Evrópska efnahagssvæðinu og í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við skuldbindingar útgefandans samkvæmt lögum og reglum um verðbréf, útgefendur verðbréfa og verðbréfamarkað. Skjalið skal sent Fjármálaeftirlitinu í kjölfar birtingar ársreiknings, til skráningar. Ef vísað er til upplýsinga í skjalinu skal tilgreina hvar hægt sé að nálgast þær.
    Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við þegar um er að ræða útgefendur verðbréfa sem eru ekki hlutabréfatengd, í einingum sem nema að minnsta kosti 4,2 millj. kr.

    h. (27. gr.)

Lýsing samsett úr þremur skjölum.


    Útgefandi, sem hefur þegar undir höndum útgefandalýsingu sem lögbært yfirvald á Evrópska efnahagssvæðinu hefur staðfest, þarf einungis að semja verðbréfalýsingu og samantekt þegar verðbréfin eru boðin í almennu útboði eða skráð á skipulegan verðbréfamarkað. Í því tilviki skulu upplýsingar, sem að öllu jöfnu væru gefnar í útgefandalýsingu, koma fram í verðbréfalýsingunni ef verulegar breytingar eða nýleg þróun hefur átt sér stað sem kynni að hafa áhrif á mat fjárfesta síðan síðasta uppfærsla útgefandalýsingar var staðfest, eða viðauki við hana, sbr. 24. gr. Verðbréfalýsingin og samantektin skulu staðfestar hvor í sínu lagi.
    Hafi útgefandi einungis lagt inn óstaðfesta útgefandalýsingu skulu öll gögnin, þ.m.t. uppfærðar upplýsingar, vera háð staðfestingu.

    i. (28. gr.)

Undanþága frá gerð lýsinga.


    Undanþegin ákvæðum 22. gr. eru:
     1.      Útboð þar sem eitt eða fleiri eftirtalinna tilvika eiga við:
                  a.      verðbréf eru eingöngu boðin fagfjárfestum,
                  b.      verðbréf eru boðin tilgreindum afmörkuðum hópi aðila enda séu ekki fleiri en 100 aðilar í hópnum sem ekki teljast fagfjárfestar,
                  c.      hver fjárfestir reiðir af hendi a.m.k. 4,2 millj. kr. til kaupa á verðbréfunum í hverju útboði,
                  d.      verðbréfin sem gefin eru út eru að nafnverði a.m.k. 4,2 millj. kr.,
                  e.      áætlað heildarsöluverð verðbréfanna er undir 8,4 millj. kr.
        Ef verðbréf eru seld fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis og undanþáguákvæði a–e-liðar þessa töluliðar eiga ekki við skal birta útboðslýsingu.
     2.      Útboð verðbréfa af eftirfarandi gerðum:
                  a.      hlutir ef þeir eru gefnir út í staðinn fyrir áður útgefna hluti í sama flokki hafi útgáfa hinna nýju hluta ekki í för með sér hækkun á útgefnu hlutafé,
                  b.      verðbréf sem boðin eru í tengslum við yfirtöku að því gefnu að fyrirliggjandi sé skjal sem telst sambærilegt lýsingu að mati Fjármálaeftirlitsins,
                  c.      verðbréf sem boðin eru, er úthlutað eða verður úthlutað í tengslum við samruna fyrirtækja að því gefnu að fyrirliggjandi sé skjal sem telst sambærilegt lýsingu að mati Fjármálaeftirlitsins,
                  d.      hlutir sem boðnir eru, er úthlutað eða verður úthlutað til núverandi hluthafa án endurgjalds og arðgreiðslur í formi hluta að því gefnu að hlutirnir séu í sama flokki og þeir hlutir sem arðgreiðslurnar stafa af; skjal skal vera fyrirliggjandi þar sem fram koma upplýsingar um fjölda og eðli fyrrgreindra hluta ásamt ástæðum fyrir útboðinu og upplýsingum um útboðið sjálft,
                  e.      verðbréf sem vinnuveitandi eða félag tengt honum býður, úthlutar eða mun úthluta núverandi eða fyrrverandi fastráðnum starfsmönnum eða stjórnarmönnum félaganna; útgefandi verðbréfanna skal þegar hafa skráð verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði; skjal skal vera fyrirliggjandi þar sem fram koma upplýsingar um fjölda og eðli fyrrgreindra hluta ásamt ástæðum fyrir útboðinu og upplýsingum um útboðið sjálft.
     3.      Skráning verðbréfa af eftirfarandi gerðum:
                  a.      hlutir sem nema minna en 10% af fjölda hluta sama flokks sem þegar er skráður á skipulegum verðbréfamarkaði, miðað við 12 mánaða tímabil,
                  b.      hlutir ef þeir eru gefnir út í staðinn fyrir áður útgefna hluti í sama flokki, sem þegar eru skráðir á sama skipulega verðbréfamarkaði, hafi útgáfa hinna nýju hluta ekki í för með sér hækkun á útgefnu hlutafé,
                  c.      verðbréf sem boðin eru í tengslum við yfirtöku að því gefnu að fyrirliggjandi sé skjal sem telst sambærilegt lýsingu að mati Fjármálaeftirlitsins,
                  d.      verðbréf sem boðin eru, er úthlutað eða verður úthlutað í tengslum við samruna fyrirtækja að því gefnu að fyrirliggjandi sé skjal sem telst sambærilegt lýsingu að mati Fjármálaeftirlitsins,
                  e.      hlutir sem boðnir eru, er úthlutað eða verður úthlutað til núverandi hluthafa án endurgjalds og arðgreiðslur í formi hluta að því gefnu að hlutirnir séu í sama flokki og þeir hlutir sem arðgreiðslurnar stafa af og skráðir eru á sama skipulega verðbréfamarkaði; skjal skal vera fyrirliggjandi þar sem fram koma upplýsingar um fjölda og eðli fyrrgreindra hluta ásamt ástæðum fyrir útboðinu og upplýsingum um útboðið sjálft,
                  f.      verðbréf sem vinnuveitandi eða félag tengt honum býður, úthlutar eða mun úthluta núverandi eða fyrrverandi fastráðnum starfsmönnum eða stjórnarmönnum félaganna að því gefnu að verðbréfin sem boðin eru séu í sama flokki og þau verðbréf sem þegar hafa verið skráð á skipulegum verðbréfamarkaði; skjal skal vera fyrirliggjandi með upplýsingum um fjölda og eðli hlutanna ásamt ástæðum fyrir útboðinu og upplýsingum um það,
                  g.      hlutir sem gefnir eru út við skiptingu á breytanlegum eða skiptanlegum verðbréfum eða vegna nýtingar áskriftarréttinda á öðrum verðbréfum að því gefnu að hlutirnir séu í sama flokki og skráðir á sama skipulega verðbréfamarkaði og áður útgefnir hlutir,
                  h.      verðbréf sem þegar eru skráð á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði og uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                      i.      verðbréfin eða verðbréf í sama flokki hafa verið skráð í að minnsta kosti 18 mánuði á skipulegum verðbréfamarkaði,
                      ii.      þegar um er að ræða verðbréf sem fyrst eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað eftir gildistöku þessara laga skal staðfest skráningarlýsing hafa verið birt í samræmi við reglugerð þess efnis, sbr. 73. gr.,
                      iii.      þegar ii-liður á ekki við en verðbréf hafa verið skráð eftir 30. júní 1983 skal staðfest skráningarlýsing hafa legið fyrir í samræmi við þágildandi reglur,
                      iv.      viðvarandi upplýsingaskyldu á skipulegum verðbréfamarkaði hefur verið fullnægt,
                      v.      aðili sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði, samkvæmt þessari undanþágu, gerir ágrip sem er aðgengilegt almenningi,
                      vi.      ágripið sem vísað er til í v. lið er gert aðgengilegt almenningi með þeim hætti sem lýst er í reglugerð um lýsingar,
                      vii.      ágripið uppfyllir tilskilin skilyrði um efni og innihald samantektar samkvæmt lögum þessum og ákvæðum reglugerðar um lýsingar; í ágripinu skal enn fremur koma fram hvar hægt er að nálgast nýjustu lýsingu vegna verðbréfanna og fjárhagsupplýsingar þær sem útgefandi hefur birt í samræmi við viðvarandi upplýsingaskyldu.

    j. (29. gr.)

Sölutrygging.


    Með sölutryggingu er átt við samning milli fjármálafyrirtækis og útgefanda eða eiganda verðbréfa þar sem fjármálafyrirtækið skuldbindur sig til þess að kaupa, innan tiltekins tímamarks og á fyrirframákveðnu verði, þann hluta verðbréfa sem áskrift næst ekki fyrir í almennu útboði.
    Nú tekur fjármálafyrirtæki að sér sölutryggingu í tengslum við almennt útboð og skal þá litið svo á að það ábyrgist einungis að fullnægjandi áskrift fáist til að útboðið takist, nema um annað sé sérstaklega samið.

    k. (30. gr.)

Umsjón með almennu útboði og staðfestingu á lýsingum.


    Fjármálafyrirtæki sem til þess hefur heimild samkvæmt starfsleyfi sínu skal hafa umsjón með almennu útboði verðbréfa og skráningu á opinberan verðbréfamarkað.
    Fjármálaeftirlitið skal hafa umsjón með staðfestingu á lýsingum. Fjármálaeftirlitið getur með samningi falið skipulegum verðbréfamörkuðum að annast staðfestingu á lýsingum, sbr. 2. mgr. 71. gr. Í samningi þessum skal koma fram hvaða verkefni eru falin skipulegum verðbréfamarkaði og skilyrði við framkvæmd þeirra.
    Þóknun fyrir staðfestingu á lýsingum skal ákveðin af Fjármálaeftirlitinu eða viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði skv. 2. mgr.

5. gr.

    VI. kafli laganna orðast svo og breytast greinatölur samkvæmt því:

    a. (36. gr.)

Gildissvið kaflans.


    Ákvæði þessa kafla gilda um yfirtöku í hlutafélagi sem hefur fengið skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi.

    b. (37. gr.)

Tilboðsskylda.


    Hafi aðili beint eða óbeint náð yfirráðum í hlutafélagi sem hefur fengið skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði skal sá aðili eigi síðar en fjórum vikum eftir að yfirráðum var náð gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð, þ.e. tilboð um að kaupa hluti þeirra í félaginu. Með yfirráðum er átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við:
     1.      hafi samanlagt eignast a.m.k. 40% atkvæðisréttar í félaginu,
     2.      hafi á grundvelli samnings við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur a.m.k. 40% atkvæða í félaginu, eða
     3.      hafi öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar í félaginu.
    Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái yfirráðum í félagi, eða um að koma í veg fyrir að yfirtaka nái fram að ganga, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti.
    Samstarf skal þó alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
     1.      Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og ófjárráða börn þeirra og lögaðilar undir þeirra yfirráðum.
     2.      Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 3. og 4. tölul.
     3.      Félög sem aðilar skv. 1., 2. og 4. tölul. eiga með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í eða hafa myndað varanleg tengsl við í þeim tilgangi að hafa áhrif á rekstur þeirra; félag er talið eiga verulegan eignarhlut ef það og dótturfélög þess eiga a.m.k. 1/ 3 hluta atkvæðisréttar í öðru félagi.
     4.      Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess, félags og framkvæmdastjóra þess og lögaðila undir þeirra yfirráðum.
    Tilboðsskylda skv. 1. mgr. hvílir á þeim aðila samstarfs sem eykur við hlut sinn þannig að mörkum 1. mgr. er náð.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá tilboðsskyldu skv. 1. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því. Fjármálaeftirlitið getur sett skilyrði fyrir undanþágunni, t.d. varðandi frest sem viðkomandi hefur til að selja hluti sem eru umfram leyfileg mörk og meðferð atkvæðisréttar á því tímabili.
    Tilboðsgjafi skv. 1. mgr. skal gera tilboðsyfirlit í samræmi við ákvæði VII. kafla.

    c. (38. gr.)

Valfrjáls tilboð.


    Ákvæði þessa kafla gilda einnig fyrir valfrjáls tilboð um kaup á hlutum í hlutafélagi sem hefur fengið skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði. Með valfrjálsu tilboði er átt við tilboð sem beint er til allra hluthafa viðkomandi félags, án þess að um tilboðsskyldu sé að ræða skv. 1. mgr. 37. gr.
    Tilboðsgjafi sem gerir valfrjálst tilboð skal gera tilboðsyfirlit í samræmi við ákvæði VII. kafla.
    Tilboðsgjafa sem gerir valfrjálst tilboð er heimilt að takmarka tilboð sitt þannig að það taki einungis til hluta hlutafjár eða atkvæðisréttar viðkomandi félags, að því tilskildu að tilboðið hafi ekki í för með sér að tilboðsskylda stofnist skv. 37. gr. Við takmarkað tilboð samkvæmt þessari málsgrein skal gefa öllum hluthöfum eða eigendum atkvæðisréttar kost á að afhenda hlutabréf sín eða atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína eða atkvæðisrétt.
    Tilboðsgjafa sem gerir valfrjálst tilboð er heimilt að setja skilyrði fyrir því að hann standi við tilboðið.
    Ef tilboðsgjafi hefur náð yfirráðum í félagi í kjölfar valfrjáls tilboðs í alla hluti allra hluthafa í viðkomandi félagi ber viðkomandi aðila ekki skylda til að gera yfirtökutilboð í samræmi við 37. gr.

    d. (39. gr.)

Tilkynning um tilboð.


    Tilboðsgjafi skal tilkynna viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði um ákvörðun um tilboð án tafar. Skipulegur verðbréfamarkaður skal birta tilkynningu tilboðsgjafa opinberlega. Jafnframt skal tilboð kynnt fyrir starfsmönnum viðkomandi félaga.

    e. (40. gr.)

Skilmálar tilboðs.


    Tilboðsgjafi skal bjóða öllum hluthöfum sem eiga hluti í sama hlutaflokki sömu skilmála.
    Verð það sem sett er fram í yfirtökutilboði skv. 37. gr. skal a.m.k. svara til hæsta verðs sem tilboðsgjafi eða aðilar sem hann er í samstarfi við hafa greitt fyrir hluti sem þeir hafa eignast í viðkomandi félagi síðustu sex mánuði áður en tilboð var sett fram. Tilboðsverð skal þó að lágmarki vera jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta í viðkomandi félagi daginn áður en tilboðsskylda myndaðist eða tilkynnt var um fyrirhugað tilboð.
    Nú hefur tilboðsgjafi eða aðili sem hann er í samstarfi við greitt hærra verð en skv. 2. mgr. á tilboðstímabili og skal hann þá breyta yfirtökutilboði og bjóða það verð. Ef tilboðsgjafi eða aðilar sem hann er í samstarfi við greiða hærra verð eða bjóða betri kjör fyrir hluti í viðkomandi félagi næstu sex mánuði eftir lok tilboðstímabils skal greiða þeim hluthöfum sem tekið höfðu upphaflega tilboðinu viðbótargreiðslu sem samsvarar þeim mismun.
    Í yfirtökutilboði skal tilboðsgjafi bjóða öðrum hluthöfum í viðkomandi félagi greiðslu í formi reiðufjár, hluta sem bera atkvæðisrétt eða hvorutveggja. Ef tilboðsgjafi býður ekki seljanlega hluti sem skráðir eru á skipulegan verðbréfamarkað sem greiðslu skal reiðufé einnig boðið fram sem valkostur. Sama gildir hafi tilboðsgjafi eða aðilar sem hann er í samstarfi við greitt fyrir a.m.k. 5% hlutafjár félagsins með reiðufé síðustu sex mánuði áður en tilboðsskylda myndaðist og á tilboðstímabili.
    Ef tilboðsgjafi hyggst greiða fyrir hluti með reiðufé skal lánastofnun með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu ábyrgjast þá greiðslu. Fjármálaeftirlitinu er þó heimilt að samþykkja ábyrgð frá lánastofnunum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ef greiðsla er með öðrum hætti skal tilboðsgjafi gera viðeigandi ráðstafanir til að reyna að tryggja að hægt verði að standa við tilboðið.
    Gildistími yfirtökutilboðs skal hið skemmsta vera fjórar vikur, en tíu vikur hið lengsta. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framlengja gildistíma tilboðs ef fyrir því eru gildar ástæður.
    Uppgjör vegna yfirtekinna hluta skal fara fram eigi síðar en fimm viðskiptadögum eftir að gildistími tilboðs rennur út.
    Fjármálaeftirlitið getur breytt tilboðsverði, til hækkunar eða lækkunar, ef um sérstakar kringumstæður er að ræða og reglunni um jafnræði hluthafa í 1. mgr. er fylgt. Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 4. og 7. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því. Allar ákvarðanir varðandi breytingar á tilboðsverði og undanþágur skulu vera rökstuddar og birtar opinberlega.

    f. (41. gr.)

Skyldur stjórnar.


    Stjórn félags sem tilboð tekur til skal hafa hagsmuni félagsins sjálfs að leiðarljósi í öllum gerðum sínum og má ekki neita hluthöfum félagsins um tækifæri til að taka ákvörðun um tilboðið.
    Frá þeim tíma er ákvörðun um tilboð í hluti í félagi hefur verið gerð opinber eða stjórn félags er ljóst að tilboð sé væntanlegt og þar til niðurstöður tilboðs hafa verið gerðar opinberar er stjórn viðkomandi félags óheimilt að taka ákvarðanir sem haft geta áhrif á tilboðið nema að fengnu fyrirframsamþykki hluthafafundar. Hér er m.a. átt við ákvarðanir um:
     1.      útgáfu nýrra hluta eða fjármálagerninga í félaginu eða dótturfélögum þess,
     2.      kaup eða sölu eigin hlutabréfa eða hlutabréfa í dótturfélögum,
     3.      samruna félagsins eða dótturfélaga þess við önnur félög,
     4.      kaup eða sölu á eignum eða öðru sem haft getur umtalsverð áhrif á starfsemi félagsins eða dótturfélaga þess,
     5.      samninga sem falla ekki undir venjulega starfsemi félagsins,
     6.      umtalsverðar breytingar á starfskjörum stjórnenda,
     7.      aðrar ákvarðanir sem haft geta sambærileg áhrif á starfsemi félagsins eða dótturfélaga þess.
    Stjórn er þó heimilt að leita annarra tilboða án samþykkis hluthafafundar.
    Hluthafafundur skal einnig staðfesta eða samþykkja aftur ákvarðanir sem teknar voru fyrir þann tíma sem tilgreindur er í 2. mgr. ef þeim ákvörðunum hefur ekki enn verið framfylgt að hluta til eða öllu leyti og þær falla utan við venjulega starfsemi félagsins.
    Stjórn félags sem tilboð tekur til skal semja og gera opinbera sérstaka greinargerð þar sem fram kemur rökstutt álit stjórnarinnar á tilboðinu og skilmálum þess. Í greinargerðinni skal einnig fjallað um álit stjórnarinnar á framtíðaráformum tilboðsgjafa, og hvaða áhrif hún telji að tilboðið geti haft á hagsmuni félagsins, störf stjórnenda og starfsmanna þess, sem og staðsetningu starfsstöðva félags. Ef stjórninni berst tímanlega álit frá fulltrúum starfsmanna á því hvaða áhrif tilboðið hafi á störf starfsmanna fyrirtækisins ber stjórninni að láta það álit fylgja með greinargerð sinni.
    Ef skiptar skoðanir eru um tilboð innan stjórnarinnar skal það koma fram í greinargerðinni. Ef stjórnarmenn eiga aðild að tilboði eða eru í samstarfi við tilboðsgjafa eða hafa að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu tilboðs skal upplýst um það í greinargerð stjórnar. Stjórnarmenn sem aðild eiga að tilboði eða eru í samstarfi við tilboðsgjafa eða hafa að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu tilboðs skulu ekki taka þátt í því að semja greinargerð stjórnar.
    Ef stjórnarmenn, eða aðilar í samstarfi við þá skv. 37. gr., eru aðilar að tilboði eða vanhæfir að öðru leyti til að fjalla um tilboð, og það leiðir til þess að stjórn sé ekki ályktunarhæf, skal stjórnin láta óháð fjármálafyrirtæki meta tilboðið og skilmála þess.
    Greinargerð stjórnar skal birta opinberlega a.m.k. einni viku áður en gildistími tilboðs rennur út.
    Ef tilboðsgjafi gerir breytingar á tilboði sínu skv. 44. gr. skal stjórn innan sjö daga frá því að breytt tilboð hefur verið gert opinbert semja og birta opinberlega, sbr. 52. gr., viðbót við greinargerð sína þar sem fram kemur álit stjórnarinnar á viðkomandi breytingum.

    g. (42. gr.)

Um afturköllun tilboðs.


    Tilboð sem gert hefur verið opinbert skv. 52. gr. er ekki hægt að afturkalla nema sérstök ófyrirsjáanleg atvik mæli með því.
    Valfrjáls tilboð er þó unnt að afturkalla að fullnægðu einhverju eftirfarandi skilyrða:
     1.      fram kemur tilboð sem er sambærilegt eða hagstæðara en yfirtökutilboð,
     2.      skilyrði sem tilboðið er háð og tekið er fram í tilboðsyfirliti er ekki uppfyllt,
     3.      hlutafélag það sem yfirtakan beinist að eykur hlutafé sitt, eða
     4.      aðrar sérstakar ástæður mæla með því.
    Fjármálaeftirlitið skal samþykkja afturköllun tilboðs.
    Afturköllun tilboðs skal birta opinberlega, sbr. 52. gr.

    h. (43. gr.)

Ógilding tilboðs.


    Tilboð fellur úr gildi ef lagaleg atriði réttlæta það eða viðurkenning stjórnvalda sem telja verður nauðsynlega til þess að eigendaskipti geti orðið að hlutunum liggur ekki fyrir þegar gildistíma tilboðs lýkur eða þeim hefur verið hafnað á gildistíma tilboðs.
    Ef tilboð fellur úr gildi af fyrrgreindum orsökum er tilboðsgjafa og aðilum í samstarfi við hann ekki heimilt að setja fram nýtt tilboð eða fara yfir þau mörk sem tilboðsskylda miðast við skv. 37. gr. næstu 12 mánuði nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.

    i. (44. gr.)

Breytingar á tilboði.


    Tilboðsgjafi getur hvenær sem er á tilboðstímabili gert breytingar á tilboði sínu ef breytingarnar hafa í för með sér hagstæðari skilmála fyrir aðra hluthafa. Ef breytingar eru gerðar á tilboði þegar minna en tvær vikur eru eftir af tilboðstímabili skal framlengja tímabilið þannig að það gildi í a.m.k. tvær vikur eftir að breytt tilboð hefur verið birt opinberlega.
    Hluthöfum sem samþykkt höfðu fyrra tilboð skal gefinn kostur á velja á milli tilboða.
    Breytingar á tilboði skal birta opinberlega, sbr. 52. gr.

    j. (45. gr.)

Samkeppnistilboð.


    Með samkeppnistilboði er átt við tilboð frá þriðja aðila sem gert er opinbert á gildistíma annars tilboðs.
    Ef framkomið tilboð er ekki afturkallað eða því breytt í kjölfar samkeppnistilboðs skal gildistími þess framlengdur til samræmis við gildistíma samkeppnistilboðs.
    Ef fram kemur samkeppnistilboð geta hluthafar sem samþykkt hafa skilyrt valfrjálst tilboð, sbr. 4. mgr. 38. gr., dregið samþykki sitt til baka hvenær sem er á tilboðstímabilinu ef tilboðsgjafi hefur ekki tilkynnt opinberlega áður en tilkynnt var um fyrirhugað samkeppnistilboð að hann hafi fallið frá öllum skilyrðum sem sett voru í tilboðinu eða að öll skilyrði hafi verið uppfyllt.

    k. (46. gr.)

Upplýsingar um niðurstöður tilboðs.


    Tilboðsgjafi skal gera upplýsingar um niðurstöður tilboðs opinberar með tilkynningu til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar innan þriggja viðskiptadaga frá lokum tilboðstímabils.
    Ef um valfrjálst tilboð er að ræða skal koma fram í tilkynningunni hvort skilyrði sem sett voru í tilboðinu hafi verið uppfyllt og, ef svo er ekki, hvort tilboðsgjafi hyggist engu síður standa við tilboð sitt eða afturkalla það. Ekki er hægt að afturkalla tilboð eftir þann tíma sem tilgreindur er í 1. mgr.

    l. (47. gr.)

Innlausnarréttur tilboðsgjafa og hluthafa.


    Ef tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við skv. 37. gr. eignast meira en 9/ 10 hlutafjár eða atkvæðisréttar í félagi í yfirtökutilboði getur tilboðsgjafinn og stjórn félagsins í sameiningu ákveðið að aðrir hluthafar í félaginu skuli sæta innlausn tilboðsgjafans á hlutum sínum. Sé slíkt ákveðið skal senda nefndum hluthöfum tilkynningu með sama hætti og gildir um boðun aðalfundar eftir því sem við á þar sem þeir eru hvattir til að framselja hluthafanum hluti sína innan fjögurra vikna. Skilmála fyrir innlausn skal greina í tilkynningunni. Ef tilboðsgjafi fer fram á innlausn innan þriggja mánaða frá lokum tilboðstímabils skal verð sem boðið var í tilboði teljast vera sanngjarnt innlausnarverð, nema ákvæði 3. mgr. 40. gr. eigi við.
    Sé hlutur ekki framseldur samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal greiða andvirði hans á geymslureikning á nafn rétthafa. Frá þeim tíma telst hluthafinn réttur eigandi hlutar og hlutabréf fyrri eiganda ógild. Setja má nánari ákvæði hér um í samþykktum.
    Ef tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við skv. 37. gr. eignast meira en 9/ 10 hlutafjár eða atkvæðisréttar í félagi í yfirtökutilboði getur hver einstakur af minni hluta hluthafa krafist innlausnar hjá tilboðsgjafanum. Ef hluthafi fer fram á innlausn innan þriggja mánaða frá lokum tilboðstímabils skal verð sem boðið var í tilboði teljast vera sanngjarnt innlausnarverð, nema ákvæði 3. mgr. 40. gr. eigi við.
    Kostnaður við innlausn skal greiddur af tilboðsgjafa.

    m. (48. gr.)

Úrræði ef ekki er gert tilboð.


    Ef aðili sem er tilboðsskyldur skv. 37. gr. setur ekki fram tilboð innan tilboðsfrests eða innan fjögurra vikna frá því að Fjármálaeftirlitið hefur úrskurðað um tilboðsskyldu vegna samstarfs getur Fjármálaeftirlitið fellt niður allan atkvæðisrétt viðkomandi aðila í félaginu. Skulu þeir hlutir þá ekki taldir með við útreikning á því hve miklum hluta hlutafjár farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi félagi um brottfall atkvæðisréttarins. Er viðkomandi aðilum að því búnu skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk, sbr. 37. gr. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera lengri en fjórar vikur. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið getur einnig sett skilyrði varðandi nýtingu atkvæðisréttar tilboðsskylds aðila eða fellt niður atkvæðisréttindi hans fyrr en mælt er fyrir um í 1. mgr. ef fyrir því eru sérstakar ástæður.

6. gr.

    37. gr. laganna, sem verður 51. gr., orðast svo:
    Í tilboðsyfirliti skulu að lágmarki koma fram eftirfarandi upplýsingar:
     1.      nafn, heimilisfang og kennitala hlutafélagsins sem tilboðið tekur til,
     2.      nafn, heimilisfang og rekstrarform ef tilboðsgjafi er félag, svo og yfirlit um þá einstaklinga eða lögaðila sem væntanlega munu taka þátt í viðskiptunum ásamt tilboðsgjafa eða eru í samstarfi við tilboðsgjafa skv. 37. gr.,
     3.      upplýsingar um hve mikinn atkvæðisrétt, áhrif eða hluti tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við skv. 37. gr. hafa þegar öðlast beint eða óbeint eða tryggt sér með öðrum hætti, sem og áætlaðan atkvæðisrétt, áhrif eða hluti tilboðsgjafa eftir sölu, ef við á,
     4.      hámarks- og lágmarkshlutfall eða magn hluta sem tilboðsgjafi ætlar að eignast ef um valfrjálst tilboð er að ræða,
     5.      verð sem miðað er við í tilboðinu, hvernig það var ákvarðað og hvenær greiðsla fer fram; einnig skal upplýsa um það hvort einhver kostnaður falli á þá hluthafa sem samþykkja tilboð,
     6.      fjármögnun tilboðs,
     7.      upplýsingar um hvernig greiðsla skuli fara fram og, ef boðin eru fram hlutabréf, upplýsingar um þau hlutabréf og hvernig skiptin muni verða ákveðin,
     8.      á hvaða degi hlutir skulu afhentir og hvenær unnt er að beita atkvæðisrétti sem þeim fylgir,
     9.      önnur skilyrði sem tilboðið kann að vera háð, þ.m.t. undir hvaða kringumstæðum er unnt að afturkalla það,
     10.      gildistími tilboðs,
     11.      hvað tilboðsmóttakanda ber að gera til að samþykkja tilboðið,
     12.      samantekt tilboðsgjafa um framtíðaráætlanir fyrir félagið, þ.m.t. áform um starfsemi, og hvernig skuli nota fjármuni félagsins, upplýsingar um áframhaldandi skráningu hlutabréfa félagsins í kauphöll, breytingar á samþykktum og væntanlega endurskipulagningu, ef það á við; einnig skal fjallað um hugsanleg áhrif yfirtöku á störf stjórnenda og starfsmanna félaganna og starfsskilyrði þeirra, sem og á staðsetningu starfsstöðva félaganna; ef tilboðsgjafi er félag og tilboðið hefur áhrif á það skal einnig birta sambærilega samantekt fyrir það félag,
     13.      upplýsingar um væntanlega samninga við aðra um að nýta atkvæðisrétt í félaginu, svo framarlega sem tilboðsgjafi á aðild að slíkum samningi eða honum er kunnugt um hann,
     14.      upplýsingar um hvers konar hlunnindi og greiðslur frá tilboðsgjafa og samstarfsaðilum hans til stjórnarmanna og stjórnenda þess félags sem tilboð tekur til,
     15.      upplýsingar um þau lög sem gilda varðandi samninga milli tilboðsgjafa og hluthafa vegna tilboðs og um lögbæra dómstóla,
     16.      aðrar upplýsingar sem máli kunna að skipta.
    Tilboðsyfirlit skal staðfest af Fjármálaeftirlitinu áður en það er birt opinberlega skv. 52. gr. Ef umtalsverðar breytingar verða á upplýsingum í tilboðsyfirliti eftir að það hefur verið birt opinberlega eða ef í ljós kemur að tilboðsyfirlit uppfyllir ekki þær kröfur sem nefndar eru í 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að nánari upplýsingar verði gerðar opinberar innan sjö daga.
    Fjármálaeftirlitið getur með samningi falið skipulegum verðbréfamörkuðum að annast staðfestingu á tilboðsyfirliti, sbr. 71. gr. Í samningi þessum skal koma fram hvaða verkefni eru falin skipulegum verðbréfamarkaði og skilyrði við framkvæmd þeirra. Þóknun fyrir athugun og staðfestingu á tilboðsyfirliti skal ákveðin af Fjármálaeftirlitinu eða viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði.

7. gr.

    38. gr. laganna, sem verður 52. gr., orðast svo:
    Birta skal auglýsingu opinberlega um tilboðsyfirlit í einu eða fleiri dagblöðum sem gefin eru út á Íslandi eigi síðar en fjórum dögum áður en tilboð tekur gildi, enda liggi fyrir staðfesting Fjármálaeftirlitsins, sbr. 2. mgr. 51. gr. Í auglýsingunni skal tekið fram hvar nálgast má tilboðsyfirlit. Samhliða skal nafnskráðum hluthöfum í félagi, sem tilboð tekur til, sent tilboðsyfirlitið á kostnað tilboðsgjafa. Tilboðsyfirlit skal einnig kynna fyrir starfsmönnum viðkomandi félaga.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna er verður 53. gr.:
     a.      1. tölul. orðast svo: verðbréf sem skráð hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráð á skipulegum verðbréfamarkaði og.
     b.      2. tölul. orðast svo: fjármálagerningar sem tengdir eru einu eða fleiri verðbréfum skv. 1. tölul.
     c.      Við ákvæðið bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Ákvæði 55. gr. eiga ekki við þegar um er að ræða:
                  1.      viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, enda hafi viðskiptin farið fram í samræmi við reglugerð sem sett skal á grundvelli 73. gr.,
                  2.      viðskipti ríkja eða seðlabanka innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu þessara aðila í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu.

9. gr.

    Í stað orðanna „tiltekna fjármálagerninga“ í 1. mgr. 40. gr. laganna, er verður 54. gr., kemur: tiltekin verðbréf.

10. gr.

    41. gr. laganna, er verður 55. gr., orðast svo:
    Markaðsmisnotkun er óheimil. Með markaðsmisnotkun er átt við:
     1.      Að eiga viðskipti eða gera tilboð sem:
                  a.      gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða
                  b.      tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði.
     2.      Að eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku.
     3.      Að dreifa upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi. Þegar fjölmiðlamenn miðla slíkum upplýsingum í krafti starfs síns ber að meta slíka upplýsingamiðlun með hliðsjón af reglum um starfsgrein þeirra, svo fremi þessir aðilar hljóti hvorki ávinning né hagnist af miðlun viðkomandi upplýsinga með beinum eða óbeinum hætti.
    Fjármálafyrirtæki, sem heimild hefur til verðbréfaviðskipta, er óheimilt að hafa milligöngu um verðbréfaviðskipti hafi starfsmenn þess vitneskju eða grun um að viðskiptin brjóti í bága við 1. mgr.
    Vakni grunur hjá starfsmanni fjármálafyrirtækis um brot gegn ákvæðum 1. mgr. skal hann þegar í stað tilkynna það til næsta yfirmanns eða regluvarðar. Viðkomandi fyrirtæki er skylt að tilkynna slíkan grun þegar í stað til Fjármálaeftirlitsins en starfsmanni er það einnig heimilt. Upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis eða starfsmanns þess sem veitt er í góðri trú samkvæmt þessari málsgrein telst ekki brot á þagnarskyldu sem viðkomandi er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi aðilum. Óheimilt er að upplýsa viðskiptamann eða annan utanaðkomandi aðila um að Fjármálaeftirlitinu hafi verið veittar upplýsingarnar skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna er verður 56. gr.:
     a.      1. tölul. orðast svo: verðbréf sem skráð hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráð á skipulegum verðbréfamarkaði og.
     b.      2. tölul. orðast svo: fjármálagerningar sem tengdir eru einu eða fleiri verðbréfum skv. 1. tölul.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Ákvæði 60. gr. eiga ekki við þegar um er að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlunum eða við verðjöfnun fjármálagerninga, enda hafi viðskiptin farið fram í samræmi við reglugerð sem sett er á grundvelli 73. gr. Önnur ákvæði kafla þessa skulu gilda eftir atvikum.

12. gr.

    Í stað 43. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, ásamt fyrirsögn, er verða 57. gr. og 58. gr., og breytist greinatala annarra greina samkvæmt því:

    a. (57. gr.)

Innherjaupplýsingar.


    Með innherjaupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru eins og nánar er kveðið á um í reglugerð sem sett er skv. 73. gr. Tilkynningar til skipulegra verðbréfamarkaða teljast opinberar upplýsingar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan. Aðrar upplýsingar teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað á verðbréfamarkaðnum með opinberum og viðurkenndum hætti.

    b. (58. gr.)

Innherji.


    Með innherja er átt við:
     1.      fruminnherja, þ.e. aðila sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda verðbréfa,
     2.      tímabundinn innherja, þ.e. aðila sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna, og
     3.      annan innherja, þ.e. aðila sem hvorki telst fruminnherji né tímabundinn innherji en hefur fengið vitneskju um innherjaupplýsingar, enda hafi viðkomandi vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.

13. gr.

    Á eftir 43. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, sem verður 59. gr., svohljóðandi, og breytist greinatala annarra greina samkvæmt því:

Upplýsingaskylda, frestun upplýsingaskyldu og lögmæt miðlun innherjaupplýsinga.


    Útgefanda verðbréfa, sem tekin hafa verið til skráningar á skipulegum verðbréfamarkaði, ber að tilkynna þegar í stað allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem verðbréf hans eru skráð. Skipulegur verðbréfamarkaður skal miðla upplýsingum skv. 1. málsl. í upplýsingakerfi sínu, og teljast upplýsingarnar opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan.
    Þegar innherjaupplýsingum hefur verið miðlað með opinberum hætti samkvæmt þessari grein skal viðkomandi útgefandi birta innherjaupplýsingarnar á heimasíðu sinni.
    Útgefanda fjármálagerninga er á eigin ábyrgð heimilt að fresta birtingu upplýsinga skv. 1. mgr. til að vernda lögmæta hagsmuni útgefandans, svo framarlega sem frestunin er ekki líkleg til að villa um fyrir almenningi og útgefandi getur tryggt trúnað um upplýsingarnar eins og kveðið er á um í reglugerð sem setja skal skv. 73. gr.
    Nýti útgefandi heimild til frestunar skv. 3. mgr. er honum, eða aðila í umboði hans, aðeins heimilt að láta þriðja aðila innherjaupplýsingarnar í té, enda sé það gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir og móttakandi upplýsinganna er bundinn trúnaði um þær, svo sem samkvæmt lögum, reglugerð eða samningi.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna er verður 60. gr.:
     a.      Á eftir orðunum „ráðstafa fjármálagerningum“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: með beinum eða óbeinum hætti.
     b.      Í stað 2. mgr. koma tvær málsgreinar er orðast svo:
                  Ákvæði 1. mgr. nær einnig til:
                  1.      lögaðila og aðila sem taka þátt í ákvörðun um viðskipti með fjármálagerninga fyrir reikning lögaðilans,
                  2.      aðila sem búa yfir innherjaupplýsingum á grundvelli ólögmæts atferlis.
                  Ákvæði 1. tölul. 1. mgr. á ekki við um:
              1.      viðskipti innherja þar sem fullnægt er gjaldfallinni samningsskyldu til að afla eða ráðstafa fjármálagerningum sem stofnað var til áður en innherjinn komst yfir innherjaupplýsingar,
              2.      viðskipti þar sem fylgt er beinum fyrirmælum viðskiptavinar um ráðstöfun, pöntun eða miðlun fjármálagerninga eða þar sem framfylgt er með venjubundnum hætti samningsbundinni skyldu um viðskiptavaka í samræmi við ákvæði VIII. kafla.

15. gr.

    2. mgr. 45. gr. laganna, er verður 61. gr., orðast svo:
    Vakni grunur hjá starfsmanni fjármálafyrirtækis um að viðskipti skv. 1. mgr. hafi farið fram skal hann þegar í stað tilkynna það til næsta yfirmanns eða regluvarðar. Viðkomandi fyrirtæki er skylt að tilkynna slíkan grun þegar í stað til Fjármálaeftirlitsins, en starfsmanni er það einnig heimilt. Upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis eða starfsmanns þess sem veitt er í góðri trú samkvæmt þessari málsgrein telst ekki brot á þagnarskyldu sem viðkomandi er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi aðilum. Óheimilt er að upplýsa viðskiptamann eða annan utanaðkomandi aðila um að Fjármálaeftirlitinu hafi verið veittar upplýsingar skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.

16. gr.

    Í stað orðanna „skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem viðkomandi verðbréf eru skráð eða óskað hefur verið eftir skráningu á þeim“ í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. laganna, sem verður 63. gr., kemur: Fjármálaeftirlitsins.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna sem verður 64. gr.:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Auk tilkynninga um viðskipti innherja skv. 63. gr. ber útgefanda þegar í stað að senda upplýsingar um viðskipti stjórnenda útgefanda með hluti í útgefandanum, og aðra fjármálagerninga tengda þeim, til skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem viðkomandi verðbréf eru skráð eða óskað hefur verið eftir skráningu á þeim. Viðkomandi skipulegur verðbréfamarkaður skal birta upplýsingarnar opinberlega, enda nemi markaðsvirði viðskiptanna a.m.k. 500.000 kr. eða samanlögð eignabreyting viðkomandi stjórnanda á hlutum í útgefandanum á næstliðnum fjórum vikum nemi a.m.k. 1.000.000 kr.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Með stjórnendum í lögum þessum er átt við stjórnarmenn, forstjóra, framkvæmdastjóra, eftirlitsnefndir og aðra stjórnendur sem eru fruminnherjar hjá útgefanda og hafa umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu útgefandans. Hið sama á við um aðila fjárhagslega tengda framangreindum stjórnendum.
     c.      Í stað orðsins „fruminnherja“ í fyrirsögn greinarinnar kemur: stjórnenda.

18. gr.

    Fyrirsögn 50. gr. laganna, sem verður 66. gr., orðast svo: Tilkynning um réttarstöðu innherja.
    

19. gr.

    51. gr. laganna, er verður 67. gr., orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Eftirlit með meðferð innherjaupplýsinga og viðskiptum innherja.


    Stjórn útgefanda verðbréfa sem skráð hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði ber ábyrgð á eftirliti með því að reglum útgefnum af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli 73. gr., um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja, sé fylgt. Stjórn skal ráða regluvörð eða staðfesta formlega ráðningu hans. Með sama hætti skal ráða staðgengil regluvarðar. Regluvörður hefur umsjón með að framangreindum reglum sé framfylgt innan útgefandans og ber að leggja fyrir stjórn útgefanda skýrslu um framkvæmd regluvörslu svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en árlega.
    Stjórnvöld og aðrir aðilar sem fá reglulega innherjaupplýsingar í starfsemi sinni skulu fylgja reglum Fjármálaeftirlitsins um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja eftir því sem við getur átt.

20. gr.

    X. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Eftirlit og reglugerðir, orðast svo og breytast greinatölur samkvæmt því:

    a. (68. gr.)

Almennt eftirlit.


    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Um heimildir þess fer samkvæmt ákvæðum kafla þessa og ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Í tengslum við athugun tiltekins máls er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt þessari grein.
    Telji Fjármálaeftirlitið að ekki hafi verið farið að reglum um almennt útboð verðbréfa getur það stöðvað útboð og veitt frest til úrbóta sé þess kostur. Fjármálaeftirlitið getur birt opinberlega yfirlýsingu um umrætt mál og lagt dagsektir eða févíti á þá sem tengjast almennu útboði samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Telji Fjármálaeftirlitið að ekki hafi verið farið að reglum um viðskiptavaka getur það veitt viðskiptavaka viðvörun eða áminningu eða birt opinberlega tilkynningu um vanefndir hans.
    Telji Fjármálaeftirlitið að ekki hafi verið farið að reglum um opinbera birtingu upplýsinga skv. 16. gr. og IX. kafla laga þessara er því heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að almenningur sé réttilega upplýstur.
    Um eftirlit með framkvæmd laga þessara gilda að öðru leyti ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, þar á meðal þær eftirlitsheimildir og úrræði sem fram koma í 9.–11. gr. laganna.

    b. (69. gr.)

Eftirlit með innherjasvikum og markaðsmisnotkun.


    Til viðbótar við almennar eftirlitsheimildir skv. 68. gr. skal Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita ákvæðum þessarar greinar við eftirlit með ákvæðum VIII. og IX. kafla.
    Síma- eða fjarskiptafyrirtæki er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að fyrirliggjandi gögnum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki enda liggi fyrir samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda. Ef samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis liggur ekki fyrir er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefjast fyrir dómi aðgangs að gögnum skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar hjá síma- eða fjarskiptafyrirtæki. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir 87. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, að undanskildum b-lið 2. mgr. 87. gr. sem á ekki við um aðgerð samkvæmt þessari málsgrein.
    Telji Fjármálaeftirlitið háttsemi andstæða ákvæðum laga þessara um innherjasvik eða markaðsmisnotkun getur stofnunin krafist þess að háttseminni verði hætt þegar í stað. Fjármálaeftirlitið getur jafnframt krafist þess að atvinnustarfsemi verði stöðvuð tímabundið í því skyni að koma í veg fyrir háttsemi sem talin er andstæð ákvæðum laga þessara um innherjasvik eða markaðsmisnotkun. Þá getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að skipulegur verðbréfamarkaður stöðvi tímabundið viðskipti með fjármálagerninga við meðferð þess í tilteknu máli.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi hans fari í bága við ákvæði laga þessara um innherjasvik eða markaðsmisnotkun. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir 85. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, eftir því sem við getur átt.

    c. (70. gr.)

Eftirlit með almennu útboði og lýsingum.


    Um eftirlit með almennu útboði og lýsingum og heimildir til framsals fer skv. 1.–3. mgr. 68. gr.
    Eftir að Fjármálaeftirlitið hefur tekið við umsókn um staðfestingu á lýsingu er því heimilt:
     1.      að krefjast þess að útgefendur, tilboðsgjafar eða aðilar sem sækja um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað birti viðbótarupplýsingar í lýsingu, ef þörf er á, í því skyni að vernda fjárfesta,
     2.      að krefjast þess að útgefendur, tilboðsgjafar eða aðilar sem sækja um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað og aðilar sem þeir hafa yfirráð yfir eða ráða yfir þeim leggi fram upplýsingar og skjöl,
     3.      að krefjast þess að endurskoðendur og stjórnendur viðkomandi útgefanda, tilboðsgjafa eða aðila sem sækir um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað, sem og umsjónaraðilar útboðs eða skráningar á skipulegan verðbréfamarkað, leggi fram upplýsingar,
     4.      að fresta almennu útboði eða skráningu á skipulegan verðbréfamarkað í samfellt tíu virka daga að hámarki í einu og sama tilvikinu ef rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið í bága við IV. kafla,
     5.      að banna auglýsingar eða fresta birtingu þeirra í samfellt tíu virka daga að hámarki í einu og sama tilvikinu ef rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið í bága við IV. kafla,
     6.      að banna almennt útboð ef brotið hefur verið gegn ákvæðum IV. kafla,
     7.      að fresta eða fara fram á það við viðkomandi skipulega markaði að þeir fresti viðskiptum um samfellt tíu virka daga að hámarki í einu og sama tilvikinu ef rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið í bága við ákvæði IV. kafla,
     8.      að banna viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði ef það telur að brotið hafi verið gegn ákvæðum IV. kafla,
     9.      að tilkynna opinberlega að útgefandi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. IV. kafla.
    Þegar verðbréf hafa verið skráð á skipulegan verðbréfamarkað er Fjármálaeftirlitinu jafnframt heimilt:
     1.      að krefjast þess að útgefandi birti allar upplýsingar sem kynnu að hafa áhrif á mat á verðbréfum sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, í því skyni að tryggja vernd fjárfesta og eðlilega starfsemi markaðarins,
     2.      að stöðva eða óska eftir því við viðkomandi skipulegan verðbréfamarkað að viðskiptin verði stöðvuð tímabundið eða ótímabundið eftir atvikum, ef eftirlitið telur að aðstæður útgefandans séu þannig að viðskiptin mundu skaða hagsmuni fjárfesta,
     3.      að láta fara fram athugun hjá útgefanda innan lögráðasvæðis síns til að sannreyna hvort farið sé eftir ákvæðum IV. kafla.

    d. (71. gr.)

Eftirlit skipulegs verðbréfamarkaðar.


    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fela skipulegum verðbréfamarkaði eftirlitsverkefni samkvæmt lögum þessum. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita skipulegum verðbréfamarkaði upplýsingar er varða slík eftirlitsverkefni. Skipulegum verðbréfamarkaði er heimilt að afla upplýsinga hjá aðilum viðkomandi markaðar vegna eftirlitsverkefna sem honum eru falin samkvæmt þessari málsgrein. Heimild til gjaldtöku vegna einstakra verkefna sem Fjármálaeftirlitinu er veitt í lögum þessum á við um skipulegan verðbréfamarkað hafi honum verið falin viðkomandi verkefni.
    Gera skal grein fyrir eftirliti skv. 1. mgr. í yfirlýsingu undirritaðri af Fjármálaeftirlitinu og skipulegum verðbréfamarkaði. Yfirlýsingin skal birt opinberlega. Í yfirlýsingunni skal kveðið á um forsendur eftirlits sem skipulegur verðbréfamarkaður sinnir, framkvæmd þess og verkaskipti Fjármálaeftirlitsins og hins skipulega verðbréfamarkaðar. Einnig skal kveðið á um fyrirkomulag upplýsingamiðlunar skv. 1. mgr.

    e. (72. gr.)

Gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlits.


    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum er varða ákvæði laga þessara, nema ef slík birting verður talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu, varðar ekki hagsmuni hans sem slíks eða veldur hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir. Fjármálaeftirlitið skal birta opinberlega þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd slíkrar birtingar.

    f. (73. gr.)

Reglugerð.


    Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara. Í reglugerð skulu m.a. koma fram ákvæði um:
     1.      skilgreiningu á fagfjárfestum,
     2.      skyldu eigenda hlutabréfa til að veita kauphöll upplýsingar, svo og hvenær veita megi undanþágur frá upplýsingaskyldunni,
     3.      útboð og skráningu verðbréfa þar sem verði kveðið á um aðdraganda að lýsingu,
     4.      útboðstímabil,
     5.      efni og upplýsingar sem fram eiga að koma í lýsingu,
     6.      upplýsingar sem felldar eru inn í lýsingu með tilvísun,
     7.      staðfestingu lýsingar,
     8.      tilhögun við birtingu lýsingar,
     9.      viðvarandi upplýsingaskyldu,
     10.      heimildir Fjármálaeftirlitsins til að veita undanþágur frá birtingu tiltekinna upplýsinga í lýsingu eða birtingu lýsingar í heild,
     11.      auglýsingar á útboðum og skráningu verðbréfa,
     12.      viðauka og staðfestingu lýsingar,
     13.      tungumál sem notuð eru í lýsingum,
     14.      skilgreiningu á heimaríki í skilningi IV. kafla laganna,
     15.      útboð verðbréfa í þeim tilvikum þegar verðmæti þeirra er á bilinu 8,4 til 210 millj. kr.
    Að öðru leyti er ráðherra heimilt að setja ákvæði í reglugerð sem samræmast ákvæðum tilskipunar 2003/71/EBE um útboðs- og skráningarlýsingar og undirgerð hennar.
    Þá skal ráðherra setja reglugerð um nánari skilgreiningar á:
     1.      innherjaupplýsingum,
     2.      innherjaupplýsingum þegar um er að ræða hrávöruafleiður,
     3.      markaðsmisnotkun,
     4.      formi og efni opinberrar birtingar innherjaupplýsinga,
     5.      lögmætum hagsmunum til frestunar opinberrar birtingar innherjaupplýsinga,
     6.      viðurkenndri markaðsframkvæmd,
     7.      tilkynningum fjármálafyrirtækja eða starfsmanna þeirra um grun um brot, sbr. 3. mgr. 55. gr. og 2. mgr. 61. gr.,
     8.      undanþágum frá ákvæðum um markaðsmisnotkun og innherjasvik vegna endurkaupaáætlana og verðjöfnunar.
    Ráðherra er einnig heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um:
     1.      upplýsingaskyldu þegar útgefandi hefur fengið fjármálagerninga sína skráða í fleiri en einni kauphöll,
     2.      safnskráningu, m.a. um sviptingu heimildar til að skrá fjármálagerninga á safnreikning skv. 1. mgr. 11. gr. og auðkenningu safnreiknings, þar á meðal upplýsingar um fjölda eigenda á safnreikningi.
    Fjármálaeftirlitið skal setja reglur um:
     1.      opinbera fjárfestingarráðgjöf, þar á meðal um óhlutdræga framsetningu ráðgjafar og birtingu, tilgreiningu á þeim sem setur fjárfestingarráðgjöfina fram eða gerir hana opinbera og hagsmunum og hagsmunaárekstrum og skilgreiningu hugtaksins greining,
     2.      meðferð innherjaupplýsinga, þ.m.t. með hvaða hætti komið skuli í veg fyrir að innherjaupplýsingar berist til annarra en þeirra er þarfnast þeirra vegna starfa sinna,
     3.      viðskipti innherja, þ.m.t. hvernig rannsóknarskyldu fruminnherja skv. 62. gr. skuli háttað,
     4.      hlutverk og stöðu regluvarðar, sbr. 67. gr.,
     5.      skráningu samskipta sem fram fara á grundvelli reglna skv. 67. gr.,
     6.      skilgreiningu fjárhagslega tengdra aðila,
     7.      innherjalista,
     8.      tilkynningar um viðskipti fruminnherja, stjórnenda og fjárhagslega tengdra aðila.

21. gr.

    Í stað orðanna „47.–51. gr.“ í 1. mgr. 54. gr. laganna, er verður 74. gr., kemur: 59. og 63.–67. gr.

22. gr.

    1. mgr. 55. gr. laganna, sem verður 75. gr., orðast svo:
    Það varðar sektum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laga þessara um:
     1.      flöggunarskyldu skv. 32. gr.,
     2.      tilboðsskyldu skv. 37. gr.,
     3.      tilboðsyfirlit skv. 6. mgr. 37. gr. og VII. kafla,
     4.      skyldur stjórnar skv. 41. gr. og
     5.      innherjaviðskipti skv. 63.–67. gr.

23. gr.

    Við 59. gr. laganna, sem verður 79. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þá taka ákvæði laga þessara upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/6/EB um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (markaðssvik), tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar nr. 2003/124/EB um skilgreiningu og birtingu á innherjaupplýsingum og skilgreiningu á markaðsmisnotkun, tilskipunar nr. 2003/125/EB um framsetningu og birtingu greininga og hvernig ráðleggingum um fjárfestingu í verðbréfum skuli hagað, ásamt ákvæðum um hvenær skylt sé að upplýsa um hagsmuni og hagsmunaárekstra, tilskipunar nr. 2004/72/EB um viðurkennda markaðsframkvæmd, skilgreiningu á innherjaupplýsingum í tengslum við hrávöruafleiður, samningu innherjalista, tilkynningu um viðskipti stjórnenda og tilkynningu um grunsamleg viðskipti, reglugerðar nr. 2273/2003/EB um undanþágur fyrir endurkaupaáætlanir og verðjöfnun fjármálagerninga, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/25/EB um yfirtökutilboð og tilskipunar ráðsins nr. 2003/71/EBE um útboðs- og skráningarlýsingar sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar.

24. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005 að undanskilinni 4. gr. og c-lið 20. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2006.
    Hinn 1. janúar 2006 fellur jafnframt úr gildi IV. kafli laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, með síðari breytingum.

25. gr.

    Við gildistöku laga þessara kemur ný grein á eftir 25. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, með síðari breytingum, 25. gr. a, svohljóðandi:
    Félög sem fengið hafa skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði skulu í ársskýrslu sinni birta nákvæmar upplýsingar um eftirfarandi atriði:
     1.      uppbyggingu hlutafjár, þar á meðal hluti sem ekki eru skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði, mismunandi hlutaflokka og réttindi og skyldur tengdar þeim, sem og hlutfall þeirra af heildarhlutafé,
     2.      allar takmarkanir á framsali hluta, t.d. takmarkanir varðandi hlutafjáreign einstakra aðila eða ef samþykki félagsins eða annarra hluthafa þarf fyrir framsali,
     3.      verulega beina eða óbeina hlutafjáreign, þar á meðal óbeina eign í gegnum önnur félög eða gagnkvæma hlutafjáreign félaga,
     4.      eigendur hluta með sérstök stjórnunarréttindi og lýsingu á þeim réttindum,
     5.      helstu ákvæði kaupréttaráætlana starfsmanna,
     6.      allar takmarkanir varðandi atkvæðisrétt, t.d. takmarkanir á atkvæðisrétti hluthafa sem eiga ákveðið hlutfall eða fjölda atkvæða, frest til að nýta atkvæðisrétt eða ef fjárhagsleg réttindi tengd hlutum eru ekki tengd eignarhaldi þeirra,
     7.      alla samninga milli hluthafa sem félaginu er kunnugt um og geta haft í för með sér takmarkanir varðandi framsal og/eða atkvæðarétt,
     8.      reglur varðandi tilnefningar og endurnýjun stjórnarmanna og breytingar á samþykktum félags,
     9.      sérstakar heimildir stjórnar, þar á meðal heimildir til að gefa út nýja hluti eða kaupa eigin hluti,
     10.      samninga sem félagið er aðili að og taka gildi, breytast eða falla úr gildi ef breytingar verða á stjórnun eða yfirráðum í félagi í kjölfar yfirtökutilboðs og áhrif þess á félagið, nema um sé að ræða upplýsingar sem haft geta skaðleg áhrif á starfsemi félagsins eða hafa óveruleg áhrif á starfsemi félagsins; þær undantekningar eiga þó ekki við ef um er að ræða upplýsingar sem félagi er skylt að birta á grundvelli laga,
     11.      samninga félagsins við stjórnarmenn eða starfsmenn um greiðslur eða bætur ef þeir segja upp eða ef þeim er sagt upp án gildrar ástæðu eða ef starfi þeirra lýkur vegna yfirtökutilboðs.
    Stjórn félags sem skráð hefur einn eða fleiri hlutabréfaflokka á skipulegum verðbréfamarkaði skal á aðalfundi hvert ár kynna greinargerð með skýringum varðandi þau atriði sem tiltekin eru í 1. mgr.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Nú fer aðili með yfirráð í félagi á grundvelli samstarfs skv. 37. gr. laganna og er hann þá ekki tilboðsskyldur við gildistöku laga þessara, enda auki hann ekki atkvæðisrétt sinn í félaginu umfram næsta verulega hlut, sbr. 1. mgr. 32. gr. laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt.


a. Innleiðing tilskipana.
    Með frumvarpi þessu eru innleiddar þrjár tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins um markaðssvik, útboðs- og skráningarlýsingar og yfirtökur og undirtilskipanir framkvæmdastjórnarinnar um markaðssvik og útboðs- og skráningarlýsingar. Tilskipanir um markaðssvik og útboðs- og skráningarlýsingar eru innleiddar að hluta en gert er ráð fyrir að í reglugerðum og reglum Fjármálaeftirlitsins verði tilskipanirnar innleiddar að fullu. Nánar er fjallað um efni tilskipananna og innleiðingu þeirra hér á eftir.
    Tilskipanirnar þrjár sem verið er að innleiða með þessu frumvarpi eru hluti af sérstakri aðgerðaráætlun Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar (e. Financial Services – Implementing the Framework for Financial Services: Action Plan). Markmiðið er að skapa skilvirkan sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu. Lögð er áhersla á styttri viðbragðstíma, skilvirkara eftirlit og öflugri neytendavernd.
    Á árinu 2004 störfuðu þrjár nefndir á vegum viðskiptaráðuneytisins að innleiðingu tilskipananna. Nefndirnar höfðu samráð við kauphallarnefnd um innleiðinguna en hlutverk hennar er að hafa yfirsýn yfir innleiðingu þeirra tilskipana sem eru hluti af hinu svonefnda Lamfalussy-ferli innan Evrópusambandsins (sjá kafla I.c). Í kauphallarnefnd sitja fulltrúar viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins, Kauphallar Íslands, Seðlabanka Íslands, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Samtaka fjárfesta, Landssamtaka lífeyrissjóða og Eignarhaldsfélags hlutafélaga. Um skipan nefndanna þriggja er fjallað í köflum II.–IV. Nefndirnar skiluðu drögum að frumvörpum í lok desember 2004 en nefndir um markaðssvik og yfirtökur höfðu um sumarið 2004 óskað eftir athugasemdum hagsmunaaðila við frumdrög að frumvörpum. Viðskiptaráðuneytið yfirfór frumvarpsdrögin í lok árs 2004 og í janúar 2005, steypti þeim saman í eitt frumvarp og gerði lítils háttar breytingar á efni þeirra.

b. Helstu breytingar.
    Frumvarpið er yfirgripsmikið og í því eru lagðar til fjölmargar breytingar á lagaákvæðum um markaðssvik, yfirtökur og útboðs- og skráningarlýsingar. Ekki er hægt að segja að frumvarpið leiði til meiri háttar breytinga á grundvallarreglum um verðbréfaviðskipti heldur eru lagaákvæði um þessa þætti verðbréfaviðskipta gerð mun ítarlegri. Er það í samræmi við þær tilskipanir sem frumvarpinu er ætlað að innleiða. Með ítarlegri lagaákvæðum er markmiðið að stuðla að samræmdum innri markaði með verðbréfaviðskipti því minna svigrúm verður fyrir sérreglur í hverju ríki EES-samningsins. Í tilskipunum um markaðssvik annars vegar og útboðs- og skráningarlýsingar hins vegar er kveðið á um eitt lögbært yfirvald og nákvæm fyrirmæli eru um hegðun þátttakenda á markaðnum. Í tilskipun um yfirtökur er hins vegar meira svigrúm gefið fyrir sérreglur einstakra aðildarríkja.
    Lagt er til að innleiðing tilskipananna verði að hluta til í lögum og að hluta til í reglugerð sem ráðherra setur og í reglum Fjármálaeftirlitsins. Að meginstofni til verða rammareglur 1. stigs Lamfalussy-ferlisins festar í lög en nánari reglur um framfylgd laganna á 2. og 3. stigi ferlisins settar í reglugerð og reglur Fjármálaeftirlitsins.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
          Skýrari ákvæði eru um að skylda til að gera yfirtökutilboð geti myndast vegna samstarfs milli aðila.
          Við ákvörðun á tilboðsverði þarf nú einnig að taka tillit til hæsta verðs sem samstarfsaðilar tilboðsgjafa hafa greitt síðustu sex mánuði áður en tilboð var sett fram.
          Stjórn félags sem yfirtökutilboð tekur til er óheimilt að taka ákvarðanir sem haft geta áhrif á tilboð nema með fyrirframsamþykki hluthafafundar.
          Stjórn félags sem yfirtökutilboð tekur til skal semja og gera opinbera greinargerð þar sem fram kemur álit hennar á tilboði og áhrifum þess á hagsmuni félags og störf stjórnenda og starfsmanna, sem og staðsetningu starfsstöðva félags.
          Ákvæði um markaðsmisnotkun eru ítarlegri en í núgildandi lögum. Markaðsmisnotkun er m.a. ætlað að ná yfir viðskipti sem tryggja eiga óeðlilegt verð eða búa til verð á fjármálagerningum og viðskipti sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem blekkingu er beitt. Þá er lagt til að dreifing upplýsinga sem gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega til kynna verði talin fela í sér markaðsmisnotkun.
          Nokkrar breytingar eru á ákvæði um innherjasvik. Lagt er til að ákvæðið nái einnig til þeirra tilvika þegar aðilar búa yfir innherjaupplýsingum á grundvelli ólögmæts atferlis. Ákvæðið tekur hins vegar ekki til viðskipta innherja þegar fullnægt er gjaldfallinni samningsskyldu til að afla eða ráðstafa fjármálagerningum sem stofnað var til áður en innherjinn komst yfir innherjaupplýsingar né heldur þegar fylgt er beinum fyrirmælum viðskiptavinar um ráðstöfun fjármálagerninga.
          Lagt er til að sömu reglur gildi um útboðslýsingar annars vegar og skráningarlýsingar í kauphöll hins vegar. Ákvæði frumvarpsins eiga aðeins við um útboð þar sem fjárhæðir eru yfir 210 millj. kr. en ráðherra getur í reglugerð kveðið á um útboð þar sem fjárhæðir eru á bilinu 8,4 millj. kr. til 210 millj. kr.
          Lýsingu verður hægt að birta annars vegar sem eitt skjal og hins vegar sem þrjú aðskilin skjöl, útgefandalýsingu, verðbréfalýsingu og samantekt.
          Útgefendur skráðra verðbréfa skulu a.m.k. árlega setja saman skjal sem inniheldur eða vísar til allra upplýsinga sem þeir hafa gefið út eða gert aðgengilegar almenningi á síðustu 12 mánuðum.
          Lagt er til að gagnsæi í eftirliti Fjármálaeftirlitsins með verðbréfaviðskiptum verði aukið. Fjármálaeftirlitinu verður, að öðru jöfnu, heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum eða athugunum sem varða ákvæði laga um verðbréfaviðskipti.
          Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins eru auknar í samræmi við tilskipun um markaðssvik. Þannig getur Fjármálaeftirlitið undir ákveðnum kringumstæðum stöðvað atvinnustarfsemi tímabundið, krafist þess að skipulegur verðbréfamarkaður stöðvi tímabundið viðskipti með fjármálagerninga, krafist kyrrsetningar eigna og fengið aðgang að gögnum síma- og fjarskiptafyrirtækja.
          Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að fela skipulögðum verðbréfamarkaði eftirlitsverkefni á sviði verðbréfamarkaðar og veita honum upplýsingar vegna slíkra verkefna.

c. Lamfalussy-ferlið.
    Árið 2000 setti ráð ESB (e. Council of the European Union) á fót nefnd sérfræðinga til að meta skilvirkni í lagasetningu á verðbréfasviði. Nefndin var kölluð nefnd vísdómsmanna á sviði evrópskra reglna á verðbréfamarkaði (e. Committee of Wise Men on the Regulation of European Securities Markets). Nefndin skilaði skýrslu (Lamfalussy-skýrslunni) árið 2001. Í skýrslunni var gagnrýnt hversu hefðbundin lagasetning hefði brugðist seint og illa við framþróun og breytingum á verðbréfamörkuðum. Hvatt var til breytinga á undirbúningi og setningu reglna til að auka einsleitni og samræmi í starfsemi verðbréfamarkaða, bæta samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og fjármagnsmarkaða og til að stuðla að auknum hagvexti og atvinnu. Lagt var til að ferli við setningu og framkvæmd reglna yrði greint í fjögur stig (e. levels), þ.e. rammareglur, framkvæmdaráðstafanir, samstarf og framfylgd. Nánar tiltekið voru tillögurnar um stigin fjögur eftirfarandi:
    Á 1. stigi eru settar tilskipanir eða reglugerðir sem kveða á um undirstöðuatriði í löggjöfinni (rammareglur). Framkvæmdastjórnin leggur fram tillögu að slíkri gerð eftir víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Tillagan fer til afgreiðslu hjá ráðinu og Evrópuþinginu í samræmi við sameiginlegu meðferðina (e. codecision procedure). Jafnframt taka ráðið og Evrópuþingið til afgreiðslu tillögu framkvæmdastjórnarinnar um það hvernig og að hve miklu leyti skuli útfæra efni gerðarinnar í tæknilegum reglum á næsta stigi.
    Á 2. stigi setur framkvæmdastjórnin tæknilegar reglur sem útfæra lagareglur á 1. stigi til samræmis við þróun verðbréfamarkaða (framkvæmdaráðstafanir). Evrópska verðbréfanefndin (e. European Securities Committee) er framkvæmdastjórninni til ráðgjafar á þessu stigi.
    Á 3. stigi vinnur hin Evrópska samstarfsnefnd verðbréfaeftirlita (e. Committee of European Securities Regulators, CESR) að því að efla samræmda framkvæmd í aðildarríkjunum á þeim reglum sem settar hafa verið á 1. og 2. stigi (samstarf).
    Á 4. stigi vinnur svo framkvæmdastjórnin að því að tryggja að aðildarríkin framfylgi ESB-reglum á verðbréfasviði (framfylgd).
    Nefndin taldi einnig að aukið næmi fyrir markaðsþróun, skemmri tími við útfærslu tæknilegra reglna og nánara samráð við markaðsaðila mundi hafa veruleg áhrif á ESB-reglur á verðbréfasviði. Til að ná fram aukinni einsleitni og samræmingu yrði megináherslan ekki lengur lögð á gagnkvæma viðurkenningu heldur á virkt inngrip inn í reglur og framkvæmd aðildarríkjanna á þessu sviði.
    Á fundi evrópska ráðsins í Stokkhólmi 2001 var Lamfalussy-skýrslan samþykkt. Evrópuþingið lýsti í upphafi yfir efasemdum um að tillögurnar tryggðu nægjanlega gagnsæi og samráð stofnana ESB. Þingið féllst þó á tillögurnar árið 2002.

d. Þróun löggjafar um verðbréfaviðskipti.
    Fyrstu lög um verðbréfaviðskipti voru lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun. Þau voru síðar felld úr gildi með lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem voru mun ítarlegri en lögin frá 1986 og að ýmsu leyti í samræmi við löggjöf nágrannaríkjanna á þessu sviði. Eftir að nokkur reynsla var komin á framkvæmd þeirra laga var talið nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar, en einnig vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Voru þá samþykkt lög nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti.
    Ný heildarlög um verðbréfaviðskipti voru síðan sett með lögum nr. 13/1996. Með þeim voru innleiddar tilskipanir Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta (93/22/EBE) og eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana (93/6/EBE). Breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, eru eftirfarandi:
     1.      Lög nr. 35/1998, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna nýrra laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
     2.      Lög nr. 84/1998, um sérákvæði í lögum um fjármálaeftirlit. Fjármálaeftirlitið kom í stað bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     3.      Lög nr. 94/1998, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar er lutu að stofnun fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
     4.      Lög nr. 11/2000, um breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins auknar.
     5.      Lög nr. 99/2000, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna aðskilnaðar starfssviða, starfsábyrgðartrygginga, prófkrafna og samningsbundinna uppgjöra afleiðusamninga.
     6.      Lög nr. 163/2000, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna almenns útboðs verðbréfa og meðferðar trúnaðarupplýsinga.
     7.      Lög nr. 164/2000, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar vegna safnskráningar verðbréfa.
     8.      Lög nr. 69/2001, um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Sett ítarlegri ákvæði um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta.
     9.      Lög nr. 39/2002, um breytingu á lögum nr. 13/1996. Breytingar á ákvæði um innherjaviðskipti.
     10.      Lög nr. 76/2002, um breytingar á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Ákvæði um stofnsetningarrétt breytt í því skyni að veita Sviss sama rétt hér á landi og ríkjum innan EES.
     11.      Ný heildarlög um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, voru samþykkt 20. mars 2003. Um var að ræða löggjöf um hegðunarreglur á verðbréfamarkaði og ákvæði um réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja sem heimild hafa til verðbréfaviðskipta, en stofnanaþáttur fyrri laga var felldur niður með gildistöku laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

e. Mat á eftirliti.
i. Greining á þörf fyrir eftirlit.
    Í frumvarpinu er kveðið á um það að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með framkvæmd laga um verðbréfaviðskipti. Þörfin á eftirliti er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, sbr. 3. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999. Eftirlitsheimildir byggjast á þeim tilskipunum sem nefndar eru í ákvæði frumvarpsins um innleiðingu.
    Fjármálamarkaðurinn gegnir lykilhlutverki í hverju hagkerfi. Bankakerfið miðlar greiðslum, veitir lán og tekur á móti innlánum. Verðbréfamarkaðurinn er milliliður á milli útgefanda fjár og fjárfesta. Flest ríki heims hafa því sett strangur reglur um starfsemi fyrirtækja á fjármagnsmarkaði og komið á fót opinberu eftirliti með starfseminni.
    Frumvarp þetta byggist að langmestu leyti á gerðum EES-samningsins um fjármálaþjónustu. Gerðir EES-samningsins á þessu sviði kveða á um grunnþætti í eftirliti á fjármálamarkaði. Með innleiðingu þessara tilskipana er verið að samræma eftirlit á verðbréfamarkaði í Evrópu mun meira en áður.

ii. Mat á kostnaði við eftirlit.
    Eftirlitsskyldir aðilar kosta starfsemi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Almennt markmið með starfsemi fjármálaeftirlita er stuðla að heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum, auka öryggi eigna og stuðla að bættri vernd neytenda. Slíkt eftirlit er því talið hafa í för með sér mikinn ávinning fyrir samfélagið. Beinn kostnaður við eftirlitið liggur fyrir en erfitt er að meta hvort opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hefur í för með sér óbeinan kostnað. Óbeinn kostnaður af eftirliti og eftirlitsreglum er einkum kostnaður fyrirtækja af því að koma á innri reglum, verkferlum og verklagi sem frumvarpið og reglur, sem settar yrðu samkvæmt nýjum lögum og eftirlitsaðili túlkar og framfylgir, gera kröfu um. Við mat á slíkum kostnaði ber að hafa í huga að umrædd ákvæði varða fyrst og fremst neytendavernd en er jafnframt ætlað að draga úr mistökum og tjóni sem hlotist getur af óvönduðum viðskiptaháttum. Ákvæðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir er því ætlað að draga úr heildarkostnaði fyrir þá aðila sem ákvæðin beinast að.
    Óbeinn kostnaður fyrir neytendur getur t.d. verið fólginn í hærra verði þjónustu sem til kemur af eftirlitsgjaldi sem eftirlitsskyldir aðilar verða að greiða vegna eftirlits með framkvæmd framangreindra ákvæða. Telja verður að slíkur óbeinn kostnaður neytenda sé lítill sem enginn. Benda má á sem dæmi að eftirlitsgjald viðskiptabanka nemur á þessu ári 0,00874% af eignum samtals og er jafnframt afar lítið hlutfall af rekstrarkostnaði banka. Þessi kostnaður vegur ekki þungt þegar horft er til ávinnings sem felst í aðhaldi og eftirliti með fjármálafyrirtækjum sem miðar að því að draga úr og koma í veg fyrir áföll. Þannig á eftirlitið ekki að leiða til hærra verðs á þjónustu eftirlitsskyldra aðila en vera mundi ef ekkert eftirlit væri með starfsemi þeirra.
    Ætla má að talsverður kostnaðarauki fylgi því fyrir Fjármálaeftirlitið að koma ákvæðum laganna í framkvæmd og fylgja þeim eftir. Þau atriði sem vega mest til skemmri tíma eru: 1) mótun reglna sem lögin gera ráð fyrir, 2) eftirlit með því að aðilar sem starfa samkvæmt lögunum lagi starfsemi sína að nýjum kröfum og 3) undirbúningur og beiting nýrra eftirlitsheimilda. Þau atriði sem vega mest til lengri tíma eru: 1) stóraukin ábyrgð á eftirliti á verðbréfamarkaði í heild og 2) aukin verkefni sem fylgja fleiri verkefnum og auknum eftirlitsheimildum. Gert er ráð fyrir að aukning vegna umfangs til skemmri tíma nemi a.m.k. tveimur ársverkum. Hins vegar er erfitt að meta langtímaáhrif frumvarpsins þar sem kostnaður af framkvæmd laga af þessu tagi ræðst einkum af þróun fjármálamarkaðarins. Því er talið eðlilegt að nánari áhrif frumvarpsins verði fremur metin í tengslum við frumvörp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem lögð eru fram á hverju haustþingi.

iii. Skipulag eftirlits.
    Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er beint eftirlit framkvæmt af eftirlitsstjórnvaldi. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins felst að miklu leyti í öflun upplýsinga um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, vettvangsrannsóknum, sérstökum athugunum og öðrum aðferðum sem gera því kleift að kanna hvort starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur sem um starfsemina gilda og hvort starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Meginábyrgðin á eftirlitinu er hins vegar á hendi eftirlitsskyldra aðila sjálfra. Það er á ábyrgð stjórnenda fjármálafyrirtækja að skipuleggja starfsemi sína þannig að fyrir hendi sé virk áhættustýring, innra eftirlit og eftirfylgni við lög og reglur.
    Reglur um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eru settar með lögum og reglugerðum. Í vissum tilfellum hefur Fjármálaeftirlitið heimild til setningar reglna um einstaka þætti í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Framkvæmd eftirlitsins er í höndum Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsskyldra aðila. Fjármálaeftirlitið hefur víðtækar heimildir til að krefjast úrbóta komi í ljós við athuganir þess að eftirlitsskyldir aðilar fylgi ekki lögum eða öðrum reglum sem um starfsemina gilda. Kveðið er á um slíkar heimildir í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins má skjóta til sérstakrar kærunefndar sem tilnefnd er af Hæstarétti.
    Skipulag eftirlitsins byggist að langmestu leyti á erlendum fyrirmyndum og er ætlað að miða að því að opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hér á landi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í gildandi tilskipunum á Evrópska efnahagssvæðinu og alþjóðlegum grunnreglum um árangursríkt fjármálaeftirlit.

II. Markaðssvik.


a. Tilskipunin og innleiðing hennar.
    Með frumvarpinu er innleidd í íslenska löggjöf tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (markaðssvik), (e. Directive 2003/6/EC of the European Parliament and of the Council of 28 January 2003 on insider dealing and market manipulation (market abuse)), hér eftir nefnd „markaðssvikatilskipunin“ ásamt þremur undirtilskipunum og einni reglugerð sem framkvæmdastjórnin hefur gefið út á grunni tilskipunarinnar:
     1.      Undirtilskipun nr. 2003/124/EB sem fjallar um skilgreiningu og birtingu á innherjaupplýsingum og skilgreiningu á markaðsmisnotkun (e. Commission Directive 2003/124/EC of 22 December 2003 implementing Directive 2003/6/EC of the European Parliament and of the Council as regards the definition and public disclosure of inside information and the definition of market manipulation), hér eftir nefnd „fyrsta undirtilskipun um markaðssvik“.
     2.      Undirtilskipun nr. 2003/125/EB sem mælir fyrir um hvernig framsetningu og birtingu greininga og ráðlegginga um fjárfestingar í verðbréfum skuli hagað, ásamt ákvæðum um hvenær skylt sé að upplýsa um hagsmuni og hagsmunaárekstra (e. Commission directive 2003/125/EC of 22 December 2003 implementing Directive 2003/6/EC of the European Parliament and of the Council as regards the fair presentation of investment recommendations and the disclosure of conflicts of interest), hér eftir nefnd „undirtilskipun um opinbera fjárfestingarráðgjöf“.
     3.      Undirtilskipun nr. 2004/72/EB sem fjallar um viðurkennda markaðsframkvæmd, skilgreiningu á innherjaupplýsingum í tengslum við hrávöruafleiður, samningu innherjalista, tilkynningu um viðskipti stjórnenda og tilkynningu um grunsamleg viðskipti (e. Commission Directive 2004/72/EC of 29 April 2004 implementing Directive 2003/6/EC of the European Parliament and of the Council as regards accepted market practices, the definition of inside information in relation to derivatives on commodities, the drawing up of lists of insiders, the notification of managers' transactions and the notification of suspicious transactions), hér eftir nefnd „önnur undirtilskipun um markaðssvik“.
     4.      Reglugerð nr. 2273/2003/EB sem fjallar um svokallað „verndarsvæði“ eða „var“ (e. safe harbour), þ.e. skilyrði fyrir undanþágum frá banni við innherjasvikum og markaðsmisnotkun í ákveðnum tilvikum (e. Commission Regulation no. 2273/2003 of 22 December 2003 implementing Directive 2003/6/EC of the European Parliament and of the Council as regards exemption for buy-back programmes and stabilisation of financial instruments), hér eftir nefnd „reglugerð um var við markaðssvikum“.
    Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem tengjast ekki með beinum hætti innherjaviðskiptum og markaðsmisnotkun og breytingar sem ganga lengra en tilskipanirnar og reglugerðin mæla fyrir um. Þá eru lagðar til breytingar sem miða að því að skýra betur tilteknar greinar núgildandi laga um verðbréfaviðskipti.
    Tilskipun nr. 2003/6/EB fjallar um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (markaðssvik). Tilskipunin miðar að því að samræma reglur er lúta að innri markaði á sviði fjármála í Evrópu og styrkja tiltrú fjárfesta á verðbréfamörkuðum, m.a. með því að mæla fyrir um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Meðal þess sem kveðið er á um í markaðssvikatilskipuninni er hvað geti talist viðurkennd markaðsframkvæmd og hvað falli undir innherjaupplýsingar vegna afleiðna á hrávörumarkaði. Þá er kveðið á um hvenær útgefendum skráðra verðbréfa beri að setja saman og uppfæra innherjalista.
    Gert er ráð fyrir því í tilskipuninni að hvert aðildarríki tilnefni einn eftirlitsaðila, þ.e. stjórnvald, sem fylgist með því að ekki sé brotið gegn ákvæðum tilskipunarinnar, en talið er að í því felist bæði einföldun og aukið réttaröryggi fyrir þátttakendur á markaði. Einnig er kveðið á um valdheimildir viðkomandi stjórnvalds í tilskipuninni og hvaða aðilum beri að upplýsa eftirlitsaðila um viðskipti sín með verðbréf sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá eru ákvæði í tilskipuninni um hvenær og hvernig starfsmönnum fjármálafyrirtækja beri að tilkynna eftirlitsaðila um viðskipti með verðbréf sem talist geta grunsamleg með tilliti til reglna um innherjasvik og markaðsmisnotkun.
    Hinn 29. janúar 2004 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að vinna að innleiðingu framangreindra tilskipana og reglugerðar. Í nefndina voru skipaðir: Þórir Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður, Elín Jónsdóttir, Fjármálaeftirlitinu, Guðbjörg Bjarnadóttir, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Helga Hlín Hákonardóttir, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja. Guðbjörg Bjarnadóttir lét af störfum í nefndinni í byrjun apríl 2004 og tók Gunnar Viðar sæti hennar. Ragnar Þ. Jónasson frá Kauphöll Íslands hf. tók sæti í nefndinni í ágúst 2004. Einnig hefur Hannes J. Hafstein aðstoðað nefndina í fjarveru Gunnars.

b. Efni frumvarpsins.
    Með þeim hluta frumvarpsins sem snýr að markaðssvikum eru ekki lagðar til miklar efnislegar breytingar á núgildandi lagaákvæðum um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik) heldur er markmiðið með breytingunum að skilgreina betur þá þætti verðbréfaviðskiptalaganna er varða markaðssvik og gera þá skýrari og skilmerkilegri. Einhverjar efnisbreytingar á lögunum eru hins vegar óhjákvæmilegar vegna innleiðingar fyrrnefndra tilskipana og reglugerðar Evrópusambandsins.
    Í þeim hluta frumvarpsins er snýr að markaðssvikum er lagt til að skilgreiningum fjölgi frá því sem nú er. Þannig er að finna tvær nýjar orðskýringar í I. kafla, annars vegar skilgreiningu á hugtakinu opinber fjárfestingarráðgjöf og hins vegar á hugtakinu viðurkennd markaðsframkvæmd. Þá er lagt til að við II. kafla verði bætt grein um opinbera fjárfestingarráðgjöf og tölfræðiupplýsingar. Einnig eru lagðar til breytingar á gildissviði VIII. kafla laganna, um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði, þannig að ákvæði hans eigi ekki við þegar um er að ræða viðskipti með eigin bréf í endurkaupaáætlunum eða við verðjöfnun fjármálagerninga, enda hafi slík viðskipti farið fram í samræmi við reglugerð sem setja skal á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti, sbr. ákvæði 20. gr. frumvarpsins. Í kaflanum er einnig gerð tillaga um nákvæmari hugtakanotkun, þ.e. hugtaksins fjármálagerningur. Ákvæði um markaðsmisnotkun og milligöngu fjármálafyrirtækis eru mun ítarlegri í frumvarpinu en í núgildandi lögum. Þannig er hugtakinu markaðsmisnotkun samkvæmt frumvarpinu m.a. ætlað að ná yfir viðskipti sem tryggja eiga óeðlilegt verð eða búa til verð á fjármálagerningum og viðskipti sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem blekkingu beitt. Þá er lagt til að dreifing upplýsinga sem gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega til kynna verði talin fela í sér markaðsmisnotkun. Sérstakt ákvæði er í frumvarpinu um fjölmiðlamenn sem miðla upplýsingum í krafti starfs síns og er upplýsingamiðlun þeirra, vegna hugsanlegra brota á banni við markaðsmisnotkun, metin með hliðsjón af þeim reglum sem um viðkomandi starfsgrein gilda. Lagt er til að nýjum málslið verði bætt við greinina um tilkynningarskyldu starfsmanns fjármálafyrirtækis til Fjármálaeftirlits vegna viðskipta sem hugsanlega teljast markaðssvik eða innherjasvik, þess efnis að óheimilt verði að greina frá því að Fjármálaeftirlitinu hafi verið veittar umræddar upplýsingar. Þá telst upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins vegna grunsemda um brot á ákvæðum um markaðsmisnotkun ekki brot á þagnarskyldu samkvæmt frumvarpinu, enda sé sá sem miðlar slíkum upplýsingum í góðri trú. Enn fremur er lagt til að slík upplýsingamiðlun valdi hlutaðeigandi hvorki skaðabóta- né refsiábyrgð.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að uppsetningu IX. kafla verði breytt með tilliti til nýrra og aukinna ákvæða um upplýsingagjöf og er leitast við að gera uppsetningu kaflans aðgengilegri. Skilgreining á innherjaupplýsingum er sett upp með nákvæmari hætti en áður og eru ákvæði um skilgreiningu á innherjum skilin frá ákvæði um skilgreiningu á innherjaupplýsingum og færð yfir í nýja grein. Undir þennan kafla kemur ný grein um upplýsingaskyldu, frestun upplýsingaskyldu, sem er heimil að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, og lögmæta miðlun innherjaupplýsinga. Í samræmi við ákvæði markaðssvikatilskipunarinnar er lagt til að ákvæðið um innherjasvik verði ítarlegra. Lagt er til að ákvæðið taki til þeirra tilvika er aðilar búa yfir innherjaupplýsingum á grundvelli ólögmæts atferlis. Þá er lögð til ákveðin takmörkun á gildissviði ákvæðisins, þannig að það taki í fyrsta lagi ekki til viðskipta innherja þar sem fullnægt er gjaldfallinni samningsskyldu til að afla eða ráðstafa fjármálagerningum sem stofnað var til áður en innherjinn komst yfir innherjaupplýsingar, og í öðru lagi að ákvæðið eigi ekki við um viðskipti þar sem fylgt er beinum fyrirmælum viðskiptavinar um ráðstöfun, pöntun eða miðlun fjármálagerninga eða þar sem framfylgt er með venjubundnum hætti samningsbundinni skyldu um viðskiptavaka í samræmi við ákvæði VIII. kafla laganna. Þá er í greininni um milligöngu fjármálafyrirtækis hnykkt á þagnarskyldu starfsmanna fjármálafyrirtækja og upplýsingagjöf í góðri trú. Þá er lagt til að ákvæðið um tilkynningarskyldu fruminnherja breytist á þann veg að fruminnherja beri að tilkynna tilgreind viðskipti til Fjármálaeftirlitsins en ekki til skipulegs verðbréfamarkaðar eins og kveðið er á um í núgildandi lögum.
    Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á ákvæðinu um birtingu upplýsinga um viðskipti fruminnherja er miðar að því að í stað þess að markaðsvirði tilkynningarskyldra viðskipta sé skilgreint á grundvelli viðskiptalota verði þau miðuð við fjárhæðir í krónum talið. Einnig er tilkynningarskyldan takmörkuð við stjórnendur og fjárhagslega tengda aðila, sem nánar eru skilgreindir í frumvarpstextanum, í stað þess að ákvæðið nái til allra fruminnherja og aðila sem tengjast þeim fjárhagslega. Þá eru lagðar til breytingar á fyrirsögn og efnislegu innihaldi ákvæða er varða reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Lagt er til að fyrirsögn ákvæðisins verði eftirlit með meðferð innherjaupplýsinga og viðskiptum innherja. Í ákvæðinu er lagt til að stjórn útgefanda verðbréfa sem skráð hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði skuli bera ábyrgð á eftirliti með því að fylgt sé reglum útgefnum af Fjármálaeftirlitinu skv. 20. gr. frumvarpsins. Lagt er til að stjórnin ráði regluvörð eða staðfesti formlega ráðningu hans. Með sama hætti ber að ráða staðgengil regluvarðar. Regluvörður hefur samkvæmt ákvæðinu umsjón með að framangreindum reglum sé framfylgt innan útgefandans og ber að leggja fyrir stjórn útgefanda skýrslu um framkvæmd regluvörslu svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en árlega. Samkvæmt tillögum frumvarpsins ber stjórnvöldum og öðrum aðilum sem fá reglulega innherjaupplýsingar í starfsemi sinni að fylgja reglum Fjármálaeftirlitsins um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja eftir því sem við getur átt.
    Breytingar eru lagðar til á X. kafla laganna í fjórum liðum:
          Í fyrsta lagi eru í kaflanum ákvæði um almennar eftirlitsheimildir en samkvæmt þeim hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með framkvæmd laga um verðbréfaviðskipti og reglna settra samkvæmt þeim. Í núgildandi lögum um verðbréfaviðskipti er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Lögð er til viðbót við ákvæðið þess efnis að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt ákvæðinu. Einnig er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að almenningur sé réttilega upplýstur telji það að ekki hafi verið farið að reglum um opinbera birtingu upplýsinga skv. 3. gr. frumvarpsins. Þá er hnykkt á því að við eftirlit og athuganir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laganna hafi stofnunin að öðru leyti þær eftirlitsheimildir og úrræði sem fram koma í 9.–11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
          Í öðru lagi er um að ræða ákvæði sem fjallar um eftirlit með innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að beita ákvæðum þessarar greinar til viðbótar við almennar eftirlitsheimildir skv. 16. gr. frumvarpsins við eftirlit með ákvæðum VIII. og IX. kafla laganna um verðbréfaviðskipti Þá er lagt til að síma- eða fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að fyrirliggjandi gögnum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að atvinnustarfsemi verði stöðvuð tímabundið telji það að háttsemin sé andstæð ákvæðum laganna um innherjasvik eða markaðsmisnotkun. Samkvæmt frumvarpinu getur Fjármálaeftirlitið jafnframt krafist þess að skipulegur verðbréfamarkaður stöðvi tímabundið viðskipti með fjármálagerninga í þágu athugunar þess á tilteknu máli. Að lokum getur Fjármálaeftirlitið krafist kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi hans fari í bága við ákvæði laga þessara um innherjasvik eða markaðsmisnotkun.
          Í þriðja lagi er lagt til að bætt verði við X. kafla laganna nýju ákvæði um að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að fela skipulegum verðbréfamarkaði eftirlitsverkefni samkvæmt frumvarpinu og veita honum upplýsingar vegna slíkra verkefna. Lagt er til að heimildir Fjármálaeftirlitsins til gjaldtöku vegna einstakra verkefna eigi einnig við um skipulegan verðbréfamarkað hafi honum verið falin viðkomandi verkefni. Fjármálaeftirlitinu og skipulegum verðbréfamarkaði ber að gera grein fyrir samstarfi sín á milli í yfirlýsingu sem birta skal opinberlega.
          Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við X. kafla nýju ákvæði um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum er varða ákvæði laga þessara, nema ef slík birting er talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu, er ekki talin varða hagsmuni hans sem slíks eða er talin geta valdið hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið birti opinberlega þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd slíkrar birtingar. Loks er bætt við ítarlegum heimildum í lok X. kafla annars vegar til handa ráðherra til að setja reglugerð og hins vegar til handa Fjármálaeftirlitinu til að setja reglur til nánari skýringar á tilgreindum efnisatriðum laganna og til samræmis við efni þeirra tilskipana sem ætlunin er að innleiða með frumvarpinu.

III. Yfirtökur.


a. Tilskipunin og innleiðing hennar.
    Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur að breytingum á þeim þáttum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, sem snúa að yfirtökutilboðum og tilboðsyfirliti. Frumvarpið miðar m.a. að því að innleiða í íslenska löggjöf tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/25/EB um yfirtökutilboð, en hún var formlega samþykkt 21. apríl 2004.
    Það hefur reyndar ekki gengið þrautalaust hjá Evrópusambandinu að ná samkomulagi um sameiginlegan lagaramma á þessu sviði því fyrsta tillagan að tilskipun um yfirtökutilboð var sett fram fyrir rúmum 15 árum, eða árið 1989. Sú tillaga fékk lítinn hljómgrunn meðal aðildarríkjanna og árið 1996 lagði framkvæmdastjórn ESB því fram nýja tillögu. Ekki náðist samkomulag milli ráðsins og Evrópuþingsins um þá tillögu fyrr en í sérstakri sáttanefnd, en tillaga að lagatexta sem samþykkt var af fulltrúum ráðsins og Evrópuþingsins í sáttanefndinni féll hins vegar á jöfnum atkvæðum (273–273) í atkvæðagreiðslu í Evrópuþinginu í júlí árið 2001. Framkvæmdastjórn ESB brást við þessu með því að setja á laggirnar sérstaka sérfræðinefnd um yfirtökutilboð. Nefndin skilaði skýrslu um málið í janúar árið 2002 og í kjölfarið lagði framkvæmdastjórnin fram nýja tillögu að tilskipun um yfirtökutilboð í október 2002. Sú tillaga var reyndar álíka umdeild og fyrri tillögur, og átti það sérstaklega við um ákvæði sem ætlað var að takmarka svigrúm stjórnenda til að verjast yfirtökum (9. grein) og ákvæði sem fellir niður takmarkanir varðandi framsal og atkvæðisrétt hlutabréfa eftir að yfirtökutilboð hefur verið gert í félag (11. grein). Til að leysa úr þeim ágreiningi náðist samkomulag um að aðildarríkjum væri heimilt að ákveða sjálf hvort þau innleiddu 9. og 11. grein tilskipunarinnar sem skyldu eða valkost fyrir félög sem þar eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað. Í kjölfar þess samkomulags var tilskipunin formlega samþykkt í apríl 2004.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/25/EB miðar að því að samræma og styrkja reglur um yfirtökutilboð í Evrópu og tryggja jafna meðferð og aukin réttindi hluthafa í yfirtökum. Sett eru lágmarksskilyrði sem ná bæði til skyldubundinna tilboða og almennra valfrjálsra tilboða, en aðildarríkjum er heimilt að setja fleiri skilyrði og strangari ákvæði en kveðið er á um í tilskipuninni. Í tilskipuninni er kveðið á um tilboðsskyldu aðila sem nær yfirráðum í félagi og er þar sérstaklega tekið fram að tilboðsskylda geti myndast vegna samstarfs milli aðila. Sett eru skilyrði um lágmarksverð og greiðslumáta, sem og um upplýsingagjöf tilboðsgjafa um tilboð og skyldur stjórnar í félagi sem tilboð tekur til. Þá er í tilskipuninni einnig kveðið á um að setja skuli reglur um samkeppnistilboð, breytingar á tilboði og afturköllun tilboðs, sem og um upplýsingaskyldu tilboðsgjafa varðandi niðurstöður tilboðs.
    Lagaákvæði um yfirtökur hafa verið í mótun hérlendis síðasta áratuginn. Alþingi ályktaði 19. mars 1992 um nauðsyn þess að setja reglur um yfirtökutilboð og önnur almenn tilboð í hlutafélög og komið var til móts við þá ályktun að nokkru leyti með ákvæðum 24.–26. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, en þar var kveðið á um að innlausnarskylda og innlausnarréttur myndaðist þegar einstakur hluthafi ætti yfir 90% hlutafjár í félagi. Í lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða (kauphallarlögunum), voru í fyrsta skipti sett ákvæði um yfirtökur og yfirtökuskyldu, en þar var kveðið á um að yfirtökuskylda myndaðist þegar einstakur hluthafi eignaðist 50% hlutafjár eða samsvarandi atkvæðisrétt. Kauphallarlögin veittu viðskiptaráðherra einnig heimild til setja nánari reglur um framkvæmd þeirra og á þeim grundvelli voru í reglugerð nr. 423/1999 um yfirtökutilboð settar nánari reglur um það hvernig standa skyldi að framkvæmd yfirtöku.
    Með lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, sem tóku gildi 1. júlí 2003, eru ákvæði um yfirtökutilboð sem voru í lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, og reglugerð nr. 423/1999, um yfirtökutilboð, færð yfir í lög um verðbréfaviðskipti. Með þessari breytingu voru yfirtökureglur lögfestar í heild sinni og þar með horfið frá því fyrirkomulagi að hafa þær að hluta til í reglugerð, enda þótti eðlilegt og til einföldunar að hafa öll gildandi ákvæði um yfirtökur á einum stað. Með lögunum var hlutfall sem tilboðsskylda myndast við lækkað úr 50% í 40%, auk þess sem gildissvið þeirra var víkkað, þannig að lögin giltu ekki eingöngu um félög sem fengið hefðu skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa í kauphöll heldur einnig fyrir félög sem fengið hefðu skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum tilboðsmarkaði. Reglur um yfirtökutilboð ber að líta á og túlka sem sérreglur (l. lex specialis) gagnvart almennum reglum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og einkahlutafélög, nr. 138/1994.
    Yfirtökum fyrirtækja á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur fjölgað mikið síðastliðin ár sem sést best á því að 14 félög voru afskráð úr Kauphöll Íslands í kjölfar yfirtöku árið 2003, samanborið við fimm félög árið 2002 og eitt félag árið 2001. Markaðsvirði yfirtekinna félaga hefur einnig aukist gríðarlega mikið á umræddu tímabili. Miðað við tilboðsverð í yfirtökutilboði og útistandandi hlutafé var markaðsvirði félagsins sem afskráð var árið 2001 rúmir 4 milljarðar kr., markaðsvirði félaganna fimm sem afskráð voru árið 2002 var um 24 milljarðar kr. og markaðsvirði þeirra 14 félaga sem afskráð voru í kjölfar yfirtöku árið 2003 var rúmir 90 milljarðar kr. Árið 2004 voru ellefu félög afskráð vegna yfirtöku eða voru í yfirtökuferli á tímabilinu janúar til nóvember og var áætlað markaðsvirði þeirra 80 milljarðar kr. Þótt framangreindar yfirtökur hafi haft í för með sér fækkun á félögum sem skráð eru í Kauphöllinni kemur á móti að þær hafa einnig leitt til stækkunar skráðra félaga þar sem í mörgum tilvikum hafa yfirtekin félög verið sameinuð öðrum skráðum félögum og markaðsvirði þeirra hefur því haldist inni í Kauphöllinni.
    Litlar breytingar hafa verið gerðar á lögum um yfirtökur undanfarin ár, en það hefur verið gagnrýnt nokkuð, þar sem núgildandi lagaákvæði, sem er að finna í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, þykja að mörgu leyti mjög takmörkuð og ekki í samræmi við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Til að bregðast við því skipaði viðskiptaráðherra sérstaka nefnd í október 2003 til að yfirfara yfirtökureglur hérlendis og gera tillögur til úrbóta. Nefndinni var m.a. ætlað að skoða reglur varðandi tengsl á milli aðila og verð í yfirtökutilboðum, ásamt því að meta æskilegt hlutfall atkvæðisréttar sem leiðir til yfirtökuskyldu. Jafnframt var nefndinni falið að fylgjast með framgangi fyrrnefndrar tillögu að tilskipun um yfirtökutilboð sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram árið 2002 og innleiða tilskipunina í íslenskan rétt ef hún yrði samþykkt á starfstíma nefndarinnar. Tilskipunin var, eins og fram hefur komið, formlega samþykkt í lok apríl 2004 og eru gerðar tillögur að innleiðingu hennar í frumvarpi þessu.
    Í nefndina voru skipuð Jónína S. Lárusdóttir, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður (til maí 2004), Hreinn Hrafnkelsson, sérfræðingur hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður (frá maí 2004), Bjarki Diego, lögfræðingur hjá KB banka, Guðbjörg Bjarnadóttir, lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu (frá maí 2004), og Ragnar Þ. Jónasson, forstöðumaður lögfræðisviðs Kauphallar Íslands. Einnig starfaði Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, lögfræðingur hjá Kauphöll Íslands, með nefndinni hluta af starfstíma hennar.
    Nefndin fór á starfstíma sínum ítarlega í gegnum íslenska löggjöf um yfirtökur með hliðsjón af skipunarbréfi nefndarinnar og tilskipun ESB um yfirtökutilboð, sem og lögum og reglum í nágrannalöndum okkar. Minnisblað með drögum að tillögum nefndarinnar var sent til umsagnaraðila í lok júní 2004, og bárust umsagnir frá sex aðilum. Umsagnirnar voru almennt séð jákvæðar og hefur nefndin tekið tillit til þeirra við gerð frumvarpsins. Þá var í skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis, sem út kom í september 2004, tekið undir tillögurnar í minnisblaði nefndarinnar, enda kom fram í skýrslunni að nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis væri sammála nefnd um yfirtökur um að nauðsynlegt væri að styrkja lagaumhverfi varðandi yfirtökur og tryggja enn frekar jafna meðferð hluthafa í yfirtökum og aukna minnihlutavernd.
    Samkvæmt núgildandi lögum myndast tilboðsskylda þegar aðili hefur eignast 40% atkvæðisréttar í félagi eða hefur á grundvelli samnings við aðra hluthafa öðlast rétt til að ráða yfir sem nemur sama atkvæðisrétti. Tilboðsskylda myndast einnig ef aðili hefur öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar í félaginu eða hefur fengið rétt til þess að stjórna félaginu á grundvelli samþykkta þess eða á annan hátt með samningi við félagið. Þessum aðila er þar með skylt að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð eigi síðar en fjórum vikum eftir að yfirtakan átti sér stað.
    Ein aðalástæða þess að settar hafa verið reglur um tilboðsskyldu er að áherslur félags og framtíðarsýn breytast oft í kjölfar þess að nýr aðili nær yfirráðum í félaginu. Tilgangurinn með tilboðskyldu er því að vernda eigendur minni hluta hlutafjár með því að gefa þeim kost á að selja bréf sín á sanngjörnu verði ef þeir eru ekki sáttir við þann aðila sem náð hefur yfirráðum og þau markmið sem hann stendur fyrir.
    Eins og fyrr var nefnt var nefndinni m.a. ætlað að skoða reglur varðandi tengsl á milli aðila, ásamt því að meta æskilegt hlutfall atkvæðisréttar sem leiðir til yfirtökuskyldu. Ef horft er til nágrannalanda okkar miðast yfirtökuskylda í skráðum félögum nú við 30% atkvæðavægi í Bretlandi, Þýskalandi og Svíþjóð. Í Noregi miðast yfirtökuskylda við 40% atkvæðavægi og í Danmörku er miðað við 50% atkvæðavægi eða að aðili ráði yfir meira en þriðjungi atkvæðavægis og hafi yfirráð í viðkomandi félagi. Í Finnlandi eru engin ákvæði um yfirtökuskyldu, en hins vegar myndast innlausnarskylda þegar aðili eignast meira en 2/ 3 hluta atkvæða í félagi.
    Nefndin leggur til að sett verði skýrari ákvæði en nú eru í lögum um að yfirtökuskylda geti myndast vegna samstarfs milli aðila og að Fjármálaeftirlitinu verði falið að skera úr um vafaatriði í þeim efnum. Nefndin telur æskilegt að áhrif þeirra breytinga verði metin áður en gerðar verða breytingar á því hlutfalli sem yfirtökuskylda myndast við og leggur því til að yfirtökuskylda miðist áfram við 40% atkvæðisréttar. Hins vegar er mælt með því að mörk yfirtökuskyldu verði endurskoðuð þegar reynsla er komin á það hvaða áhrif það hafi að skýrar sé kveðið á um að yfirtökuskylda geti myndast vegna tengsla milli hluthafa því ljóst er að hægt er að ná yfirráðum í félagi með minna en 40% atkvæðavægi. Það á sérstaklega við í félögum sem eru að öðru leyti með mjög dreifða eignaraðild þar sem nokkur hluti smærri hluthafa mætir oft ekki á hluthafafundi. Þá má einnig benda á það að aðilar sem ráða yfir þriðjungi atkvæða geta til að mynda komið í veg fyrir samruna, aukningu hlutafjár eða breytingar á samþykktum. Það er því ef til vill viðeigandi að endurskoða fljótlega viðkomandi lagaákvæði hérlendis með það að markmiði að tryggja betur að eigendur hlutafjár geti ekki náð yfirráðum í félagi án þess að bjóða öðrum hluthöfum þann valkost að selja sinn hlut á sanngjörnu verði. Við slíka endurskoðun þarf þó að taka tillit til þess að nokkur samþjöppun eignarhalds virðist vera til staðar hérlendis og í því sambandi má nefna að í 16 af þeim 36 félögum sem skráð voru í Kauphöll Íslands í byrjun desember 2004 var einn aðili sem átti yfir 30% atkvæðisréttar og í 29 af 36 skráðum félögum var einn aðili sem átti yfir 20% atkvæðisréttar.

b. Efni frumvarpsins.
    Eins og áður segir eru í frumvarpi þessu gerðar tillögur að breytingum á þeim þáttum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, sem snúa að yfirtökutilboðum og tilboðsyfirliti. Markmiðið með þeim breytingartillögum er að auka traust á íslenskum hlutabréfamarkaði með því að styrkja lagaumhverfi varðandi yfirtökur, bæta réttarstöðu tilboðsgjafa og tryggja enn frekar aukna minnihlutavernd og jafna meðferð hluthafa í yfirtökum.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til frá gildandi rétti eru eftirfarandi:
          Skýrari ákvæði um að tilboðsskylda geti myndast vegna samstarfs milli aðila.
          Felld er niður 2. mgr. 32. gr. gildandi laga um að ákvæði um tilboðsskyldu eigi ekki við um eigendaskipti vegna erfða, gjafagernings eða fullnustuaðgerða veðhafa eða eigendaskipti innan félagasamstæðu. Fjármálaeftirlitinu er hins vegar veitt heimild til að veita undanþágu frá tilboðsskyldu ef sérstakar ástæður mæla með því og getur jafnframt sett skilyrði fyrir undanþágunni.
          Ákvæði kafla um yfirtökutilboð og tilboðsyfirlit gilda nú einnig fyrir valfrjáls tilboð, þ.e. tilboð sem sett eru fram án þess að um tilboðsskyldu sé að ræða.
          Tilboðsgjafi þarf að tilkynna viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði um ákvörðun um tilboð án tafar. Tilboðið skal einnig kynnt fyrir starfsmönnum viðkomandi félaga.
          Til að tryggja jafna meðferð hluthafa er kveðið á um að tilboðsgjafa sé skylt að bjóða öllum hluthöfum sem eiga hluti í sama hlutaflokki sömu skilmála.
          Við ákvörðun á tilboðsverði þarf nú einnig að taka tillit til hæsta verðs sem samstarfsaðilar tilboðsgjafa hafa greitt síðustu sex mánuði áður en tilboð var sett fram. Tilboðsverð skal þó að lágmarki vera jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hlutabréfa í viðkomandi félagi daginn áður en tilboðsskylda myndaðist eða tilkynnt var um fyrirhugað tilboð.
          Ef tilboðsgjafi eða aðili sem hann er í samstarfi við greiðir á tilboðstímabilinu hærra verð fyrir hluti en boðið var í tilboði skal hann breyta yfirtökutilboði og bjóða það verð.
          Ef tilboðsgjafi eða aðilar sem hann er í samstarfi við greiða hærra verð eða bjóða betri kjör fyrir hlutabréf í viðkomandi félagi næstu sex mánuði eftir lok tilboðstímabils skal greiða þeim hluthöfum sem tekið höfðu upphaflega tilboðinu viðbótargreiðslu sem samsvarar þeim mismun.
          Tilboðsgjafi getur boðið öðrum hluthöfum í viðkomandi félagi greiðslu í formi reiðufjár, hlutabréfa sem bera atkvæðisrétt eða hvorutveggja.
          Ef tilboðsgjafi býður ekki seljanleg hlutabréf sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað sem greiðslu skal reiðufé einnig boðið fram sem valkostur. Sama gildir hafi tilboðsgjafi eða aðilar sem hann er í samstarfi við greitt fyrir a.m.k. 5% hlutafjár í viðkomandi félagi með reiðufé síðustu sex mánuði áður en tilboð var sett fram og á tilboðstímabili.
          Ef tilboðsgjafi hyggst greiða fyrir hluti með reiðufé skal lánastofnun með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu ábyrgjast þá greiðslu og upplýsa skal um þá ábyrgð og fjármögnun tilboðs í tilboðsyfirliti.
          Uppgjör fyrir yfirtekna hluti skal fara fram í síðasta lagi fimm viðskiptadögum frá lokum tilboðstímabils.
          Fjármálaeftirlitinu er heimilt að breyta tilboðsverði og veita undanþágu frá ákveðnum skilmálum tilboðs ef sérstakar ástæður mæla með því.
          Stjórn félags sem tilboð tekur til er óheimilt að taka ákvarðanir sem haft geta áhrif á tilboð nema með fyrirframsamþykki hluthafafundar og gildir það frá þeim tíma er ákvörðun um tilboð í hlutabréf félags hefur verið gerð opinber eða stjórn félags er ljóst að tilboð sé væntanlegt og þar til niðurstöður tilboðs hafa verið gerðar opinberar.
          Stjórn félags sem tilboð tekur til skal semja og gera opinbera greinargerð þar sem fram kemur álit hennar á tilboði og áhrifum þess á hagsmuni félags og störf stjórnenda og starfsmanna, sem og staðsetningu starfsstöðva félags. Upplýsa þarf um hugsanlega hagsmunaárekstra og stjórnarmenn sem eru aðilar að tilboði skulu ekki taka þátt í að semja greinargerð stjórnar. Ef stjórn er ekki ályktunarhæf sökum þess að stjórnarmenn eru aðilar að tilboði, eða vanhæfir að öðru leyti til að fjalla um það skal fá álit óháðs fjármálafyrirtækis á tilboðinu og skilmálum þess. Greinargerð stjórnar skal birta opinberlega a.m.k. einni viku áður en gildistími tilboðs rennur út.
          Skyldubundin tilboð verður ekki hægt að afturkalla nema sérstök ófyrirsjáanleg atvik mæli með því. Hægt verður að afturkalla valfrjáls tilboð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Fjármálaeftirlitið þarf ávallt að samþykkja afturköllun tilboðs.
          Tilboð fellur úr gildi ef lagaleg atriði réttlæta það eða viðurkenning stjórnvalda sem telja verður nauðsynlega til þess að eigendaskipti geti orðið að hlutunum liggur ekki fyrir þegar gildistíma tilboðs lýkur eða þeim hefur verið hafnað á gildistíma tilboðs.
          Tilboðsgjafa er heimilt að breyta tilboði sínu hvenær sem er á tilboðstímabili ef breytingarnar hafa í för með sér hagstæðari skilmála fyrir aðra hluthafa.
          Settar eru reglur um samkeppnistilboð og rétt hluthafa til að draga samþykki sitt á valfrjálsu tilboði til baka við sérstakar kringumstæður.
          Tilboðsgjafi skal gera upplýsingar um niðurstöður tilboðs opinberar með tilkynningu til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar innan þriggja viðskiptadaga frá lokum tilboðstímabils. Ef um valfrjálst tilboð er að ræða skal koma fram í tilkynningunni hvort skilyrði sem sett voru í tilboðinu hafi verið uppfyllt og, ef svo er ekki, hvort tilboðsgjafi hyggist engu að síður standa við tilboð sitt eða afturkalla það.
          Sett eru sérstök ákvæði um innlausnarrétt tilboðsgjafa og hluthafa næstu sex mánuði eftir lok tilboðstímabils.
          Fjármálaeftirlitinu verður heimilt að fella niður atkvæðisrétt aðila sem gerir ekki tilboð þótt hann sé orðinn yfirtökuskyldur. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi félagi um brottfall atkvæðisréttarins og viðkomandi aðila er að því búnu skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk.
          Auknar kröfur eru gerðar til tilboðsgjafa um upplýsingagjöf í tilboðsyfirliti.
          Tilboðsyfirlit skal sent nafnskráðum hluthöfum í félagi sem tilboð tekur til á kostnað tilboðsgjafa.
          Kynna skal tilboðsyfirlit fyrir starfsmönnum viðkomandi félaga.
          Breyting er lögð til á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, og kveðið á um aukna upplýsingaskyldu í ársskýrslum og á aðalfundum um ýmis atriði sem haft geta áhrif á árangur yfirtökutilboðs.

IV. Lýsingar.


a. Tilskipunin og efni hennar.
    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga að breytingu á þeim þáttum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, og laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, er lúta að útboðs- og skráningarlýsingum, hér eftir nefndar lýsingar, þegar átt er við hvort tveggja. Frumvarpið miðar að því að innleiða í íslenska löggjöf tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um lýsingar þegar fjármálagerningar eru boðnir í almennu útboði eða skráðir í kauphöll (e. Directive 2003/71/EC of the European Parliament and of the Council of 4 November 2003 on the prospectus to be published when securities are offered to the public or admitted to trading), hér eftir nefnd tilskipun um lýsingar.
    Framkvæmdastjórnin hefur gefið út eina reglugerð á grunni fyrrgreindrar tilskipunar um lýsingar en það er reglugerð nr. 2004/809 frá 29. apríl 2004 (e. Commission Regulation (EC) No 809/2004 of 29 April 2004 implementing Directive 2003/71/EC of the European Parliament and of the Council as regards information contained in prospectuses as well as the format, incorporation by reference and publication of such prospectuses and dissemination of advertisements). Í reglugerðinni er m.a. skilgreint hvert innihald og birtingarform lýsinga skuli vera ásamt því að hún hefur að geyma reglur um birtingu auglýsinga um almenn útboð verðbréfa og skráningu þeirra í kauphöll.
    Með tilskipuninni um lýsingar eru sameinuð ákvæði tveggja eldri tilskipana, annars vegar tilskipunar ráðsins nr. 89/298/EBE frá 17. apríl 1989 um samræmingu á kröfum við gerð, athugun og dreifingu á útboðslýsingu sem birta skal við almennt útboð framseljanlegra verðbréfa (e. Council Directive 89/298/EEC of 17 April 1989 coordinating the requirements for the drawing-up, scrutiny and distribution of the prospectus to be published when transferable securities are offered to the public) og hins vegar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf (e. Directive 2001/34/EC of the European Parliament and of the Council of 28 May 2001 on the admission of securities to official stock exchange listing and on information to be published on those securities).
    Útgefendur og fjárfestingarbankar á Evrópska efnahagssvæðinu hafa gagnrýnt núgildandi fyrirkomulag og telja að það torveldi og komi jafnvel í veg fyrir viðskipti og aðgang að fjármagni á milli landa í Evrópu. Því hefur verið stigið það skref að sameina fyrrgreindar tilskipanir í eina. Samkvæmt núgildandi reglum getur gistiríki t.d. óskað eftir viðbótarupplýsingum, vegna lýsinga, á grundvelli landsréttar og krafist þýðinga á lýsingum yfir á sitt tungumál áður en það viðurkennir lýsingu. Þetta er talið íþyngjandi og kostnaðarsamt. Í nýju tilskipuninni er hins vegar gert ráð fyrir að hver lýsing sé á einu viðurkenndu tungumáli en gistiríki getur hins vegar farið fram á að samantekt (e. summary) lýsingarinnar sé á tungumáli viðkomandi ríkis.
    Í tilskipuninni er m.a. fjallað um þær lágmarksupplýsingar sem fram þurfa að koma í lýsingu þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða skráð í kauphöll en tilskipunin miðar m.a. að því að tryggja fjárfestavernd, virkni fjármálamarkaðarins í Evrópu og gagnsæi. Með tilkomu þessarar tilskipunar á að verða auðveldara og ódýrara fyrir evrópsk fyrirtæki að hasla sér völl á sameinuðum markaði í Evrópu enda munu fjárfestar hafa aðgang að samhæfðum og samræmdum upplýsingum sem þeir eiga að geta reitt sig á.
    Hinn 29. janúar 2004 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að vinna að innleiðingu framangreindrar tilskipunar og reglugerðar. Í nefndina voru skipuð Þórir Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, formaður, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, Kauphöll Íslands, Kristjana Grímsdóttir, Fjármálaeftirlitinu, Sigurður V. Guðjónsson, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sólveig Ágústsdóttir, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja. Sigurður V. Guðjónsson lét af störfum í nefndinni í maí 2004 og tók Ragnar Jónasson sæti hans.

b. Efni frumvarpsins.
    Í tilskipun um lýsingar er gert ráð fyrir að ekki þurfi að gefa út lýsingar ef um er að ræða almenn útboð þar sem heildarsöluverð er undir 200 millj. kr. eða sem nemur jafnvirði 2,5 milljónum evra (EUR). Í núgildandi lögum er ekki þörf á útboðslýsingu ef almennt útboð er undir 5 millj. kr. Ef farið yrði eftir þessu ákvæði hér á landi mundi það verða til þess að stór hluti almennra útboða yrði undanþeginn skyldu til að gera lýsingar. Í tilskipuninni kemur einnig fram að ef áætlað heildarsöluverð verðbréfa er undir 100 þúsund evrum sé ekki heimilt að krefjast lýsinga þó að aðilum sé vissulega heimilt að útbúa lýsingar við þær aðstæður. Ákvæði tilskipunar um lýsingar hafa því verið skýrð þannig að hverju ríki sé heimilt að setja sér reglur um gerð og birtingu lýsinga þegar fjárhæð almenns útboðs er á bilinu 100 þús. – 2,5 millj. evra. Reglur hvers ríkis mega þó ekki ganga lengra en ákvæði tilskipunarinnar mæla fyrir um. Því er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að viðskiptaráðherra geti gefið út reglugerð um birtingu lýsinga þegar almennt útboð verðbréfa er á bilinu 100 þús.– 2,5 millj. evra. Ákvæði frumvarpsins eiga því aðeins við um lýsingar þar sem fjárhæðir eru yfir 2,5 millj. evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
    Í samræmi við tilskipunina er í frumvarpinu gert ráð fyrir að lýsingu verði hægt að birta annars vegar sem eitt skjal og hins vegar sem þrjú aðskilin skjöl. Þrískipt lýsing verður aldrei fullgild nema hún innihaldi útgefandalýsingu (e. registration document), verðbréfalýsingu (e. securities note) og samantekt (e. summary note). Útgefandalýsing skal innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar um útgefanda verðbréfanna og verðbréfalýsing allar upplýsingar um verðbréfin sjálf en samantektin skal vera stutt og á lítt tæknilegu máli og skal lýsa grundvallareinkennum og áhættu sem varða útgefandann, ábyrgðaraðila og verðbréfin sjálf. Þessi nýja framsetning, þ.e. þrískipting skjala, hefur t.d. þann kost að hafi útgefandi þegar gilda lýsingu og hug á að fara í almennt útboð eða skrá verðbréf á skipulegan verðbréfamarkað innan 12 mánaða frá því að lýsingin var birt getur hann látið nægja að útbúa nýja verðbréfalýsingu ásamt samantekt þar sem útgefandalýsingin er enn í fullu gildi.
    Útgefendum er enn fremur heimilt að útbúa svokallaða grunnlýsingu (e. base prospectus). Þessi heimild á aðeins við þegar um er að ræða tiltekin verðbréf sem ekki eru hlutabréfatengd. Grunnlýsing skal innihalda allar upplýsingar sem skipta máli er varða útgefanda og verðbréf þau sem boðin eru almenningi eða ætlunin er að skrá á skipulegan verðbréfamarkað. Ekki er skylda að lokaskilmálar útboðs komi fram í grunnlýsingu. Gildistími lýsinga samkvæmt frumvarpinu verður almennt 12 mánuðir, hvort sem lýsing er gerð sem eitt skjal eða þrjú.
    Nýtt ákvæði er að finna í frumvarpinu er varðar útgefendur skráðra verðbréfa. Skulu þeir a.m.k. árlega setja saman skjal er inniheldur eða vísar til allra upplýsinga sem þeir hafa gefið út eða gert aðgengilegar almenningi á síðustu 12 mánuðum á Evrópska efnahagssvæðinu og í löndum utan þess í samræmi við skuldbindingar útgefanda samkvæmt lögum og reglum um verðbréf, útgefendur verðbréfa og verðbréfamarkað. Undanþegnir ákvæðinu eru útgefendur verðbréfa sem ekki eru hlutabréfatengd ef nafnverð hverrar útgefinnar einingar er a.m.k. 50 þús. evrur.
    Samkvæmt núgildandi lögum um verðbréfaviðskipti fer Fjármálaeftirlitið með stærstan hluta eftirlits með því að starfsemi á verðbréfamarkaði sé í samræmi við ákvæði laga og annarra réttarreglna þótt öðrum aðilum á fjármálamarkaði sé jafnframt ætlað að sinna afmörkuðum hlutum eftirlitsins, einkum skipulegum verðbréfamarkaði. Kveða lögin á um að Fjármálaeftirlitið hafi umsjón með athugun á útboðslýsingum en Kauphöllin á skráningarlýsingum. Fram kemur einnig að Fjármálaeftirlitið geti heimilað Kauphöll að annast athugun á útboðslýsingum fari skráning fram samhliða almennu útboði. Hin nýja tilskipun um lýsingar gerir hins vegar ráð fyrir einu lögbæru yfirvaldi í hverju ríki og er aðlögunartími gefinn til ársins 2011. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að Fjármálaeftirlitið geti með yfirlýsingu falið skipulegum verðbréfamörkuðum að annast staðfestingu á lýsingum. Í yfirlýsingunni skal koma fram hvaða verkefni eru falin skipulegum verðbréfamarkaði og skilyrði við framkvæmd þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið er nýmæli, en þar er lagt til að bætt verði við 2. gr. laganna tveimur nýjum töluliðum, skilgreiningum á hugtökunum opinber fjárfestingarráðgjöf og viðurkennd markaðsframkvæmd.
    Í fyrri töluliðnum er að finna skilgreiningu á hugtakinu opinber fjárfestingarráðgjöf og tekur ákvæðið mið af 3. og 7. tölul. 1. gr. undirtilskipunar um opinbera fjárfestingarráðgjöf, að því er varðar óhlutdræga framsetningu á opinberri fjárfestingarráðgjöf og birtingu upplýsinga um hagsmunaárekstra. Skilgreiningin afmarkar þá starfsemi sem fylgja þarf efnisreglum 3. gr. frumvarpsins, um nýja grein sem verður 16. gr. laganna, og þeim reglum sem gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið setji skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.) og fjalla m.a. um óhlutdræga framsetningu opinberrar fjárfestingarráðgjafar, birtingu hennar og upplýsingagjöf um hagsmuni og hagsmunaárekstra. Í skilgreiningunni er hugtakið greining notað og er gert ráð fyrir að það hugtak verði nánar skilgreint í fyrrgreindum reglum Fjármálaeftirlitsins í samræmi við 4. tölul. 1. gr. undirtilskipunar um opinbera fjárfestingarráðgjöf. Til að ráðgjöf teljist opinber fjárfestingarráðgjöf þarf hún að fela í sér ráðleggingar ýmist um að kaupa, selja eða halda sölu á fjármálagerningum eða verðbréfum eða tillögu að fjárfestingarstefnu. Slíkar ráðleggingar geta verið beinar, t.d. þegar mælt er með kaupum eða sölu, undirvogun eða yfirvogun. Ráðleggingar geta þó einnig verið óbeinar, t.d. þegar fjallað er um framtíðarþróun á gengi verðbréfa eða þegar umfjöllun er þannig að niðurstaðan af fjárfestingarráðgjöfinni er ljós þótt orðin kaup eða sala komi hvergi fyrir.
    Í síðari töluliðnum er hugtakið viðurkennd markaðsframkvæmd (e. accepted market practices) skilgreint, en hugtakið er nýtt í verðbréfaviðskiptalögunum. Með viðurkenndri markaðsframkvæmd er átt við framkvæmd sem talið er eðlilegt að gera ráð fyrir að sé viðhöfð á fjármálamörkuðum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er það gert að skilyrði að Fjármálaeftirlitið hafi viðurkennt framkvæmdina. Orðalag ákvæðisins tekur mið af markaðssvikatilskipuninni, en einnig er fjallað um viðurkennda markaðsframkvæmd í annarri undirtilskipun um markaðssvik. Þar sem þróun á fjármálamörkuðum er hröð og breytingar tíðar er talið rétt að mögulegt sé að undanþiggja markaðsframkvæmd, sem viðhöfð er á markaði eða sem þróast kann á markaði, ákvæðum um markaðsmisnotkun að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins. Að baki viðskiptunum verða að búa lögmætar ástæður og markaðsframkvæmdin skal vera viðurkennd af Fjármálaeftirlitinu. Einungis er hægt að undanþiggja þá markaðsframkvæmd banni við markaðsmisnotkun sem ella hefði fallið undir 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um það í reglugerð hvaða atriði þarf að hafa í huga við mat á því hvort markaðsframkvæmd verður viðurkennd, t.d. hvort framkvæmd dregur úr eða eykur seljanleika skráðra verðbréfa og hvort framkvæmdin er gagnsæ fyrir aðila á markaði. Þá er gert ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um með hvaða hætti Fjármálaeftirlitið skuli framkvæma mat á markaðsframkvæmd. Í þeirri tilskipun er hins vegar ekki fjallað nánar um annað skilyrði þess að framkvæmd sé undanþegin ákvæðum um markaðsmisnotkun skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins, þ.e. að lögmætar ástæður búi að baki viðskiptunum, og fer mat á því skilyrði eftir atvikum hverju sinni.
    Ljóst er að viðurkenning á markaðsframkvæmd sem ella teldist markaðsmisnotkun felur í sér undantekningu sem skýra verður þröngt. Því er ekki líklegt að listi yfir viðurkennda markaðsframkvæmd á Evrópska efnahagssvæðinu verði langur. Sé markaðsframkvæmd útbreidd er líklegra að hún teljist viðurkennd, þótt ekki sé það algilt. Útbreidd markaðsframkvæmd getur því talist ólögmæt. Sé markaðsframkvæmd ný af nálinni og hafi hún ekki náð útbreiðslu er á hinn bóginn ekki útilokað að hún muni teljast viðurkennd markaðsframkvæmd. Markaðsframkvæmd sem er að ryðja sér til rúms skal því ekki talin óviðurkennanleg eingöngu á þeim grunni að hún hafi ekki verið viðurkennd annars staðar og hafi ekki náð útbreiðslu.
    Mögulegt er að markaðsframkvæmd sem talin hefur verið viðurkennd hætti að vera það vegna breyttra markaðsaðstæðna. Við slíkar aðstæður er rétt að viðhafa sömu formlegu meðferð við að fjarlægja framkvæmd af lista yfir viðurkennda markaðsframkvæmd og viðhöfð er við að viðurkenna framkvæmd. Framkvæmd getur verið talin viðurkennd á tilteknum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins án þess að vera viðurkennd á öllum mörkuðum þess. Í framkvæmd verða því markaðsaðilar að fara gætilega og varast að beita slíkri heimild á milli markaðssvæða. Gert er ráð fyrir að nánari reglur um viðurkennda markaðsframkvæmd verði settar í reglugerð sem ráðherra skal setja á grundvelli 73. gr. og innleiðir sú reglugerð nánar ákvæði úr undirtilskipun 2004/72/EB

Um 2. gr.


    Lagt er til að bætt verði við ákvæðið tilvísun í nýja 16. gr. laganna. Breytingin leiðir til þess að ákvæði II. kafla laganna taka ekki aðeins til fjármálafyrirtækja heldur ná einnig yfir aðila sem birta greiningar og fjárfestingarráðgjöf og opinbera aðila sem miðla tölfræðilegum upplýsingum sem líklegar eru til að hafa marktæk áhrif á fjármálamörkuðunum. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði við II. kafla laganna nýju ákvæði um opinbera fjárfestingarráðgjöf og birtingu tölfræðiupplýsinga. Ákvæðið er nýmæli og tekur mið af undirtilskipun um opinbera fjárfestingarráðgjöf.
    Í 1. mgr. greinarinnar koma fram þrjú skilyrði sem hver sá sem setur fram eða birtir opinberlega fjárfestingarráðgjöf skal uppfylla, en miklu skiptir fyrir einstaka fjárfesta, útgefendur verðbréfa og markaðinn í heild að við slíka vinnu sé farið eftir samræmdum reglum um óhlutdræga, skýra og nákvæma framsetningu upplýsinganna. Í fyrsta lagi skal viðkomandi aðili gæta þess að upplýsingar sem falla hér undir séu settar fram af sanngirni, en aðilar, sem setja fram eða birta upplýsingar sem fela í sér ráðleggingar eða tillögur um fjárfestingarstefnu sem ætlaðar eru almenningi eða eru líklegar til að verða aðgengilegar almenningi, geta haft mikil áhrif í krafti sérþekkingar sinnar og stöðu. Einnig er eðlilegt að sá sem birtir opinbera fjárfestingarráðgjöf segi á sér deili og upplýsi um þær verklagsreglur sem hann fylgir og hvert sé hið lögbæra yfirvald sem hann lýtur þar sem þessar upplýsingar geta skipt sköpum fyrir fjárfesta þegar kemur að því að vega og meta ráðleggingar hinna ýmsu aðila. Í öðru lagi skal aðili, sem setur fram eða birtir opinberlega fjárfestingarráðgjöf, gera grein fyrir hagsmunum sem kunna að vera til staðar og hugsanlegum hagsmunaárekstrum, en eigin hagsmunir eða hagsmunaárekstrar aðila sem mæla með kaupum eða sölu eða gera tillögu um fjárfestingaráætlun kunna meðvitað eða ómeðvitað að hafa áhrif á ráðgjöf þeirra hvað varðar fjárfestingar. Í þriðja lagi skal viðkomandi uppfylla skilyrði reglna sem Fjármálaeftirlitið setur, sbr. f-lið 20. gr. frumvarpsins, en þar er lagt til að sett verði ítarleg reglugerðarheimild í 73. gr. laganna, en þær reglur munu eiga við um hvern þann sem setur fram eða birtir opinbera fjárfestingarráðgjöf. Því er ljóst að ákvæðin ná ekki eingöngu til fjármálafyrirtækja og greiningardeilda þeirra. Að þessu leyti er ákvæðið ólíkt öðrum ákvæðum II. kafla verðbréfaviðskiptalaganna, en þó er talið að það eigi þar heima þar sem í langflestum tilvikum muni reyna á ákvæðin þegar um fjármálafyrirtæki er að ræða. Þó er ljóst að fjölmiðlar kunna í umfjöllun um verðbréf og útgefendur þeirra að falla undir framangreindar reglur séu beinar eða óbeinar ráðleggingar fólgnar í umfjöllun þeirra.
    Birting fjárfestingarráðgjafar sem sett hefur verið fram af öðrum aðila en þeim sem hana birtir fellur undir reglurnar eftir því sem við á. Hafa ber í huga að meðferð viðkomandi aðila á upplýsingunum getur haft töluverð áhrif á mat fjárfesta á þeim fjárfestingarkostum sem um er að ræða. Einkum getur vitneskja um deili á einstaklingi sem miðlar fjárfestingarráðgjöf og verklagsreglum hans eða upplýsingar um það að hve miklu leyti upprunalegu ráðgjöfinni hefur verið breytt verið nauðsynleg fyrir fjárfesta í tengslum við fjárfestingarákvarðanir. Við birtingu á fjárfestingarráðgjöf annarra aðila verða fjölmiðlar sem og aðrir að gæta að því hvernig farið er með breytingar og samantekt á ráðgjöfinni.
    Fjárfestingarráðgjöf sem felst í persónulegum ráðleggingum til viðskiptavinar um viðskipti með verðbréf, sem ekki er líklegt að verði aðgengileg almenningi, fellur ekki undir ákvæði um birtingu opinberrar fjárfestingarráðgjafar. Aðili, sem birtir lánsfjárhæfismat á ákveðnum útgefanda eða fjármálagerningi, telst heldur ekki vera að veita ráðgjöf í skilningi þessa ákvæðis.
    Í 2. mgr. greinarinnar er opinberum aðilum, sem miðla tölfræðiupplýsingum sem líklegar eru til að hafa marktæk áhrif á fjármálamörkuðum, gert að miðla þeim af sanngirni og á gagnsæjan hátt. Ákvæðið er nýtt í íslenskum lögum og er ætlað stuðla að því opinberar stofnanir, svo sem Seðlabankinn, Hagstofan, Lánasýsla ríkisins og Fjármálaeftirlitið, birti opinberlega, á aðgengilegan, skýran og gagnsæjan hátt, upplýsingar sem þessir aðilar hafa undir höndum og eru taldar geta haft marktæk áhrif á fjármálamörkuðum. Tryggja skal gott aðgengi almennings að upplýsingunum og birta þær opinberlega eins fljótt og kostur er. Í þessu sambandi má benda á að mótast hefur sú framkvæmd hérlendis að opinberir aðilar miðla verðmótandi upplýsingum um tiltekna útgefendur verðbréfa í gegnum upplýsingakerfi skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem verðbréfin eru skráð.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. eru lagðar til breytingar á IV. kafla laganna um útboð verðbréfa. Lagt er til að fyrirsögn kaflans breytist á þann veg að í stað þess að taka einungis til útboðs verðbréfa eins og núgildandi lög mæla fyrir um taki kaflinn bæði til útboðs og skráningar verðbréfa. Breytingarnar á fyrirsögn kaflans taka mið af sameiningu tveggja eldri tilskipana, þ.e. tilskipunar ráðsins 89/298/EBE frá 17. apríl 1989 um samræmingu á kröfum við gerð, athugun og dreifingu á útboðslýsingu sem birta skal við almennt útboð framseljanlegra verðbréfa og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf, í eina tilskipun, þ.e. lýsingartilskipunina.
    Um a-lið (20. gr.).
    Í a-lið ákvæðisins er lögð til breyting á 20. gr. laganna, en þar er fjallað um gildissvið kaflans um útboð og skráningu verðbréfa. Ákvæðið tekur mið af 1. gr. lýsingartilskipunarinnar. Í 1. mgr. kemur fram að ákvæði kaflans taki til almennra útboða og skráningar verðbréfa. Þá eru í 2. mgr. tilgreind í átta liðum þau tilvik sem ákvæði kaflans eiga ekki við um. Í 3. mgr. eru tilgreindar undanþágur frá 2. mgr. Þar segir að útgefanda, tilboðsgjafa eða aðila sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað sé þó heimilt að útbúa lýsingu í ákveðnum tilvikum.
    Í 7. tölul. 2. mgr. ákvæðisins er tilvísun í 73. gr. laganna, en í því ákvæði er m.a. að finna heimild til handa ráðherra til að setja reglugerð um útboð verðbréfa á bilinu 8,4 til 210 millj. kr. Markmiðið með tilvísuninni í 73. gr. er að árétta að þótt útboð verðbréfa sé undir 8,4 millj. kr. er ekki sjálfgefið að ekki þurfi að útbúa lýsingu þar sem viðkomandi aðilum gæti borið skylda til þess á grundvelli reglugerðarákvæðis þess efnis.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að fjárhæðir taki mið af breytingum á gengi evrunnar. Er það gert til að fjárhæðir í íslenskum krónum í lögunum séu í samræmi við fjárhæðir tilskipunarinnar í evrum.
    Um b-lið (21. gr.).
    Í b-lið ákvæðisins er lögð til breyting á 21. gr. laganna, en þar er að finna skýringar á nokkrum grundvallarhugtökum kaflans. Tekur greinin mið af 2. gr. lýsingartilskipunar. Það var talið auka skýrleika kaflans að skilgreina nokkur grundvallarhugtök í kaflanum, auk þess sem lögð er til breyting á skilgreiningunni á almennu útboði til samræmis við lýsingartilskipunina. Í ákvæðinu kemur fram að með almennu útboði verðbréfa sé átt við hvers konar boð til almennings til kaupa á verðbréfum, með hvaða hætti sem er. Til þess að boð til kaupa á verðbréfum sé álitið almennt útboð verður að vera ljóst að sá aðili sem stendur fyrir útboðinu sé án alls vafa að kynna það sem almennt útboð verðbréfa. Það telst t.d. ekki almennt útboð þegar fjárfestir hefur samband við útboðsaðila án þess að útboðsaðili hafi að fyrra bragði auglýst almennt útboð eða haft samband við fjárfestinn vegna fyrirhugaðs eða yfirstandandi útboðs. Þegar um almennt útboð á verðbréfum er að ræða er nauðsynlegt að sem ítarlegastar upplýsingar fylgi um útboðsaðilann og þau verðbréf sem verið er að bjóða út. Þetta er nauðsynlegt til að fjárfestir geti tekið upplýsta ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna, um hvort hann eigi að kaupa eða láta skrá sig fyrir kaupum á umræddum verðbréfum. Sem dæmi um nauðsynlegar upplýsingar má nefna einkenni eða sérkenni verðbréfanna, réttindi sem fylgja þeim og útboðsgengi ásamt upplýsingum um hvernig og hvar skráning fyrir kaupum á bréfunum fer fram. Samkvæmt ákvæðinu á skilgreiningin á almennu útboði einnig við þegar verðbréf eru sett á markað fyrir tilstilli milligönguaðila á fjármálamarkaði. Er þar átt við það sem á ensku er nefnt ,,placing“. Ein af þeim breytingum sem verður með hinni nýju skilgreiningu er að brott fellur sú undanþága í núgildandi lögum sem kveður á um það að séu verðbréf í tilteknum flokki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði teljist sala verðbréfa í sama flokki, sem boðin eru almenningi til kaups, ekki til almenns útboðs. Á grundvelli þessarar undanþágu hafa skráð félög til dæmis ekki þurft að útbúa útboðslýsingar þegar hlutafé er hækkað. Breytingin á skilgreiningunni ætti þó ekki að reynast eins íþyngjandi í slíkum tilvikum og ætla mætti, ef gefin hefur verið út útboðslýsing sem skiptist í þrjú skjöl, þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að útgefendalýsing geti gilt í allt að 12 mánuði. Sé staðfest útgefendalýsing fyrir hendi þarf útgefandi eingöngu að semja verðbréfalýsingu og samantekt vegna almenns útboðs eða skráningar.
    Í ákvæðinu er jafnframt að finna nokkur ný hugtök í íslenskum rétti. Má þar fyrst nefna hugtakið lýsingu sem er samheiti yfir skjal eða skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða skráningar verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað. Taldi nefndin rétt að leggja til að þetta hugtak yrði notað sem þýðing á hugtakinu prospectus í stað þess að nota áfram þau hugtök sem áður höfðu verið notuð í íslenskum rétti, þ.e. útboðs- og/eða skráningarlýsing, enda er hugtakið lýsing þjálla og einfaldara í notkun. Þá eru skilgreind hugtökin grunnlýsing (e. base prospectus) og útboðsáætlun (e. offering programme). Jafnframt eru skilgreind hugtökin útgefandalýsing (e. registration document), verðbréfalýsing (e. securities note) og samantekt (e. summary/summary note), en þessi þrjú skjöl mynda lýsingu þegar hún er gefin út sem þrjú aðskilin skjöl, auk þess sem samantekt er einnig hluti af lýsingu þótt hún sé gefin út sem eitt skjal. Þó er ekki skylda að útbúa samantekt þegar um er að ræða lýsingu á verðbréfum sem eru ekki hlutabréfatengd, vegna skráningar á skipulegan verðbréfamarkað, og þegar verðbréfin eru í einingum sem nema að minnsta kosti 50 þús. evrum (EUR), í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Í frumvarpinu er jafnframt notað hugtakið ágrip, sem þýðing á hugtakinu summary document, en ekki þótti ástæða til að skilgreina það hugtak sérstaklega. Loks er hugtakið equity shares þýtt sem hlutabréfatengd verðbréf.
    Um c-lið (22. gr.).
    Í c-lið er fjallað um skilyrði almenns útboðs, en ákvæðið tekur mið af 3. gr. lýsingartilskipunarinnar.
    1. mgr. er í samræmi við gildandi rétt, en þó er rétt að taka fram að skilgreining á hugtakinu almennt útboð hefur tekið breytingum, sbr. nánar umfjöllun um b-lið.
    Sömu sjónarmið og reifuð hafa verið hér að framan gilda varðandi skýringu á 2. mgr. og þarfnast sú málsgrein því ekki frekari skýringa.
    Um d-lið (23. gr.).
    Í d-lið er kveðið á um það hvaða upplýsingar skuli koma fram í lýsingu til þess að fjárfestar geti metið eignir, skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur útgefanda og ábyrgðaraðila, ef við á, sem og þau réttindi sem fylgja verðbréfunum, sbr. 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar um lýsingar. Með ábyrgðaraðila er ekki átt við umsjónaraðila útboðs, heldur aðila sem tekur sérstaklega að sér ábyrgð á einstöku útboði, t.d. að útboðið gangi upp (e. underwriter). Það er nýmæli í verðbréfaviðskiptalögum að mælt sé fyrir um hlutverk ábyrgðaraðila, þegar því er að skipta, við framkvæmd útboðs. Jafnframt er í ákvæðinu mælt fyrir um það að lýsing skuli, auk upplýsinga um útgefandann og verðbréfin, innihalda stutta og greinargóða samantekt, sbr. 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Rétt er að miða við að samantekt sé ekki lengri en 2.500 orð. Gert er ráð fyrir því að í reglugerð verði gerð ítarlegri grein fyrir efnisatriðum samantektar. Að því er varðar efnisatriði lýsinga að öðru leyti er miðað við það að nánari reglur þar að lútandi verði birtar í reglugerð.
    Í 4. mgr. er fjallað um undanþáguheimildir frá birtingu upplýsinga í lýsingu, til dæmis ef birting stríðir gegn almannahagsmunum eða er verulega skaðleg fyrir útgefandann, sbr. 2. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar. Einnig er í ákvæðinu fjallað um þann möguleika að birta lýsingu sem þrjú aðskilin skjöl, sbr. 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Einnig er í ákvæðinu gerð grein fyrir því í hvaða tilvikum útgefandi, tilboðsgjafi eða aðili sem óskar eftir skráningu á skipulegan verðbréfamarkað getur útbúið grunnlýsingu, sbr. 4. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Nægilegt er að uppfylla annaðhvort skilyrði a- eða b-liðar í 6. mgr. Með tilvísun til XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er átt við ákvæði þau sem innleidd hafa verið úr tilskipun 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana.
Í 7. mgr. er kveðið á um að ef endanlegir skilmálar útboðs komi ekki fram í í grunnlýsingu eða viðauka við hana skuli þeir látnir fjárfestum í té og skráðir hjá Fjármálaeftirlitinu við hvert almennt útboð. Ekki er þó gert ráð fyrir að endanlegir skilmálar séu staðfestir sérstaklega af Fjármálaeftirlitinu.
    Um e-lið (24. gr.).
    E-liður tekur mið af 16. gr. lýsingartilskipunarinnar. Þar kemur fram hvenær útbúa skal viðauka við lýsingu, þ.e. þegar um er að ræða mikilvægar nýjar upplýsingar, veigamikil mistök eða veigamikla ónákvæmni sem varða upplýsingar í lýsingu sem máli geta skipt við mat á verðbréfunum og fram koma frá þeim tíma að lýsingin var staðfest og þar til útboði lýkur, eða ef við á þegar viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði hefjast. Ljóst er að til dæmis mikilvægar nýjar upplýsingar geta breytt forsendum fyrir verðbréfakaupum fjárfesta sem hafa samþykkt að kaupa eða skrá sig fyrir verðbréfum áður en viðauki er birtur. Því er þeim gefinn frestur í að minnsta kosti tvo virka daga frá birtingu viðaukans til að falla frá samþykkinu, en unnt er að veita fjárfestum lengri frest en lögbundinn er.
    Um f-lið (25. gr.).
    Í f-lið er kveðið á um gildistíma útboðs- og skráningarlýsingar, grunnlýsingar og lýsingar á útgefanda og tekur ákvæðið mið af 9. gr. lýsingatilskipunarinnar. Lagt er til að gildistími lýsinga verði 12 mánuðir frá birtingu eins og í núgildandi lögum. Gildistími útgefandalýsingar er allt að 12 mánuðir frá birtingu og er háður því að gefið hafi verið út skjal í samræmi við g-lið greinarinnar.
    Um g-lið (26. gr.).
    Í g-lið, sem tekur mið af 10. gr. lýsingartilskipunarinnar, er lagt til að útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað skuli a.m.k. árlega útbúa skjal sem inniheldur eða vísar til allra upplýsinga sem þeir hafa gefið út eða gert aðgengilegar almenningi á síðustu 12 mánuðum. Hér er um nýtt ákvæði að ræða sem miðar að því að vernda fjárfesta. Upplýsingaskylda útgefenda skráðra verðbréfa er til staðar, en þeir hafa hingað til ekki þurft að birta reglulega uppfærðar upplýsingar. Þetta nýja ákvæði á að tryggja að reglulega liggi fyrir greinargóðar og auðskiljanlegar upplýsingar. Til að koma í veg fyrir að þetta íþyngi vissum útgefendum þurfa útgefendur á verðbréfum sem ekki eru hlutabréfatengd þar sem lágmarksnafnverð er 50.000 evrur ekki að útbúa framangreint skjal. Gert er ráð fyrir að framangreint skjal verði birt í samræmi við ákvæði reglugerðar um lýsingar og sent Fjármálaeftirlitinu til skráningar. Ekki er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið staðfesti skjalið.
    Um h-lið (27. gr.).
    Í h-lið er fjallað um lýsingu sem samsett er úr þremur skjölum. Tekur ákvæðið mið af 12. gr. lýsingartilskipunarinnar, en þar er fjallað um hvernig lýsingu þurfi að útbúa í þeim tilvikum sem lýsing er þrískipt. Ef staðfest útgefandalýsing liggur fyrir er nóg fyrir útgefanda að gefa út verðbréfalýsingu og samantekt vegna almenns útboðs eða skráningar á verðbréfum. Ef mikilvægar breytingar, eða nýleg þróun, hafa orðið frá því síðasta útgefandalýsing, eða viðauki við hana, var staðfestur og þessi atriði hafa áhrif á mat fjárfesta á útgefanda eða verðbréfum hans skal geta um það í verðbréfalýsingunni.
    Um i-lið (28. gr.).
    Í i-lið greinarinnar er kveðið á um undanþágur frá gerð lýsingar. Greinin byggir á 3.–4. gr. lýsingatilskipunarinnar, en þar eru veigamiklar undanþágur frá gerð lýsinga.
    Í 1. tölul. ákvæðisins eru undanþágur um útboð. Ekki eru lagðar til miklar breytingar frá núgildandi undanþáguákvæðum laga um verðbréfaviðskipti, sbr. 1. tölul. 23. gr. laganna. Þó er lagt til að a- og b-liður 1. tölul. 23. gr. falli úr gildi. Gert er ráð fyrir undanþágu í þeim tilvikum sem verðbréf eru boðin afmörkuðum hópi aðila, enda séu færri en 100 aðilar í hópnum sem ekki teljast fagfjárfestar, en í núgildandi lögum er hámarkið 25 aðilar. Orðalagið í frumvarpinu er í samræmi við tilskipunina og er orðalagið án auglýsingar eða kynningar sem er í núgildandi lögum ekki lengur inni í undanþágunni samkvæmt frumvarpinu. Ekki er ætlunin að þetta hafi áhrif á túlkun ákvæðisins. Enn er litið svo á að óheimilt sé að auglýsa útboð eða kynna fyrir hópi þar sem eru fleiri en 100 sem ekki eru fagfjárfestar, í þeirri von að 100 eða færri fjárfestar sem ekki eru fagfjárfestar þekkist boðið. Að öðru leyti eru undanþágur vegna sérstakra tilvika í útboðum sambærilegar og í núgildandi lögum, þó hafa viðmiðunarfjárhæðir hækkað.
    Í 2. tölul. eru lagðar til undanþágur frá því að gera útboðslýsingu þegar um ákveðnar gerðir verðbréfa er að ræða og í 3. tölul. eru lagðar til undanþágur frá því að gera lýsingu vegna skráningar á ákveðnum gerðum verðbréfa. Ekki er um veruleg frávik frá gildandi undanþágum að ræða. Þegar verðbréf eru gefin út vegna útboðs eða skráningar verðbréfa sem gefin eru út í tengslum við yfirtökur eða samruna, sbr. b- og c-lið 2. tölul. og c- og d-lið 3. tölul., eiga undanþágurnar frá ákvæði b-liðar einungis við ef fyrir liggur skjal sem talist getur sambærilegt lýsingu að mati Fjármálaeftirlitsins. Skilyrði um slíkt skjal er ekki fyrir hendi í núgildandi undanþáguákvæðum í c- og d-lið 2. tölul. 23. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Einnig eru ítarlegri skilyrði í e-lið 2. tölul. og f-lið 3. tölul. en í g-lið 2. tölul. 23. gr. núgildandi laga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgefandinn hafi þegar skráð verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Um j-lið (29. gr.).
    Í j-lið er fjallað um sölutryggingar. Ákvæðið er í samræmi við 24. gr. núgildandi laga en er ekki hluti af innleiðingu lýsingatilskipunar. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, segir um sölutryggingar: „Í 2. gr. laga nr. 13/1996 er hugtakið sölutrygging skilgreint án þess að efnislega sé fjallað um sölutryggingu í lögunum. Í þessari grein frumvarpsins er lögð til breyting á núgildandi skilgreiningu til samræmis við almennan skilning á því hvað í sölutryggingu felst í því skyni að eyða öllum vafa um efni sölutryggingar. Mælt er fyrir um að í sölutryggingu felist einungis að fullnægjandi áskrift fáist fyrir verðbréfum sem seld eru í almennu útboði. Því er ljóst að fjármálafyrirtæki ábyrgist ekki innheimtu þeirra krafna sem stofnast við áskrift fjárfesta. Til dæmis má nefna útgefanda eða seljanda sem hafa auglýst almennt útboð verðbréfa að nafnverði 10.000.000 kr. Fjármálafyrirtæki tekur að sér sölutryggingu í tengslum við útboðið. Ef einungis næst áskrift fyrir 80% hins tilgreinda nafnverðs, þ.e. 8.000.000 kr., hefur fjármálafyrirtækið tekið að sér að kaupa afganginn, þ.e. 2.000.000 kr. að nafnvirði, á verði sem nánar er samið um milli útgefandans eða seljandans annars vegar og fjármálafyrirtækisins hins vegar. Fjármálafyrirtækið hefur hins vegar ekki tekið að sér að ábyrgjast innheimtu á þeim hluta sem áskrift fékkst fyrir. Af því leiðir að komi til þess að fjárfestir greiðir ekki fyrir þann hlut sem hann hefur skráð sig fyrir getur félagið eða seljandinn sem auglýsti almennt útboð einungis farið í innheimtuaðgerðir gagnvart fjárfestinum en ekki því fjármálafyrirtæki sem sölutryggði útboðið. Tekið skal fram að unnt er að semja sig frá ákvæðinu.“
    Um k-lið (30. gr.).
    Í k-lið greinarinnar er kveðið á um umsjón með almennu útboði og staðfestingu á lýsingum. Ákvæðið er að mestu leyti efnislega í samræmi við 25. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti. Í núgildandi ákvæðum verðbréfaviðskiptalaganna er þó eingöngu fjallað um útboðslýsingar en í frumvarpi þessu er lagt til að skráningarlýsingar falli einnig undir lögin, en sú breyting er í samræmi við efni lýsingartilskipunarinnar. Með staðfestingu á lýsingum er átt við að Fjármálaeftirlitið gangi úr skugga um að lýsingin feli í sér þau efnisatriði sem kveðið er á um í lögum og reglugerð. Staðfesting Fjármálaeftirlitsins felur í sér formkönnun en ekki efniskönnun.
    Í frumvarpinu er lagt til að 4. mgr. 25. gr. núgildandi laga falli brott. Ákvæðið er talið þýðingarlaust og er tillagan gerð að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.

Um 5. gr.


    Um a-lið (36. gr.).
    Í greininni er gildissvið kaflans afmarkað og tilgreint að ákvæði kaflans gildi um yfirtöku í hlutafélagi sem hefur fengið skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Ef félag hefur hlutabréf sín skráð á verðbréfamörkuðum í öðrum EES-ríkjum skal yfirtökutilboð gert í samræmi við reglur sem gilda þar sem höfuðstöðvar félagsins eru, að því gefnu að hlutabréf félagsins séu skráð á skipulegan verðbréfamarkað þar. Ef hlutabréf félags eru ekki skráð á skipulegan verðbréfamarkað í því landi þar sem höfuðstöðvar þess eru skal eftirlitsaðili í því landi sem frumskráning átti sér stað hafa eftirlit með framkvæmd tilboðsins. Ef frumskráning fór fram samtímis í tveimur eða fleiri löndum eða ef vafi leikur á hvaða eftirlitsaðili á að hafa eftirlit með framkvæmd tilboðs skulu eftirlitsaðilar í viðkomandi löndum skera úr um það.
    Um b-lið (37. gr.).
    Í greininni er kveðið á um tilboðsskyldu og tilgreint með skýrari hætti en áður að tilboðsskylda geti myndast vegna samstarfs milli aðila.
    Í 1. mgr. er kveðið á um tilboðsskyldu og þar kemur fram að hafi aðili beint eða óbeint náð yfirráðum í hlutafélagi sem hefur fengið skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hluta á skipulegum verðbréfamarkaði skuli sá aðili eigi síðar en fjórum vikum eftir að yfirráðum var náð gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð, þ.e. tilboð um að kaupa hluti þeirra í félaginu. Í 1.–3. tölul. er skilgreint hvað átt er við með yfirráðum og eru þær skilgreiningar byggðar á kröfum í tilskipun ESB um yfirtökutilboð. Með yfirráðum er átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við hafi samanlagt eignast a.m.k. 40% atkvæðisréttar í félaginu, hafi á grundvelli samnings við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur a.m.k. 40% atkvæða í félaginu eða hafi öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar í félaginu.
Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að skilgreina yfirráð sérstaklega og að kveða á um að aðili sem nái yfirráðum í félagi verði yfirtökuskyldur, en ekki er um efnislega breytingu að ræða að þessu leyti. Jafnframt er kveðið á um með skýrari hætti en í núgildandi lögum að yfirráð geti myndast vegna samstarfs milli aðila. Upptalning í 1.–3. tölul. ákvæðisins er sú sama og í 32. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að felldur hefur verið út einn töluliður, en þar var kveðið á um þau tilvik að aðili hefði fengið rétt til að stjórna félagi á grundvelli samþykkta þess eða á annan hátt með samningi við félagið. Í þessari breytingu felst þó ekki efnisleg breyting heldur er skilgreiningu á samstarfi milli aðila í frumvarpinu ætlað að ná yfir þann lið.
    Við mat á því hvort aðili hefur eignast 40% atkvæðisréttar í félagi skal miða við útgefið hlutafé og skal telja hluti sem eru í eigu félagsins sjálfs með heildarhlutafé þess þegar 40% hlutfallið er metið.
    Í 2. mgr. er skilgreining á samstarfi milli aðila og er hún í samræmi við skilgreiningu í tilskipun ESB um yfirtökutilboð. Fjármálaeftirlitið úrskurðar um vafaatriði varðandi samstarf, m.a. með hliðsjón af eignarhaldi, sem og stjórnunar- og eignatengslum viðkomandi aðila, auk þess sem líta má til fjölskyldutengsla og fjárfestingasögu.
    Í 3. mgr. er lagt til að til viðbótar við ákvæði 2. mgr. skuli samstarf alltaf talið vera til staðar milli tiltekinna aðila, nema sýnt sé fram á annað. Um er að ræða tengsl sem alla jafna yrðu álitin fela í sér samstarf í skilningi 2. mgr. Ákvæði 3. mgr. felur í sér líkindareglu sem á að hjálpa til við að leggja mat á hvort samstarf sé til staðar, en þar er ekki um tæmandi upptalningu að ræða og því ekki unnt að gagnálykta út frá henni. Í 1. tölul. 3. mgr. er tiltekið að samstarf skuli vera talið vera á milli hjóna, aðila sem eru í staðfestri samvist, aðila sem eru í skráðri sambúð og ófjárráða barna þessara aðila. Þá teljast lögaðilar skv. 2. og 3. tölul. sem eru undir yfirráðum þessara aðila einnig vera í samstarfi við þá. Í 2. tölul. 3. mgr. kemur fram að samstarf skuli talið vera milli aðila ef til staðar eru tengsl milli þeirra sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum. Samstarf skal einnig talið vera til staðar ef tvö eða fleiri félög eru undir yfirráðum sama aðilans, sem hefur m.a. í för með sér að samstarf skal ávallt talið vera á milli félaga í sömu samstæðu. Í þessu sambandi taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 3. og 4. tölul. Samkvæmt þessum lið er litið svo á að félag, móðurfélag þess, dótturfélög, systurfélög og félög tengd þeim, sem og eigendur þeirra, séu jafnan í samstarfi. Félög sem fyrrnefnd félög eða eigendur þeirra hafa bein eða óbein yfirráð yfir teljast einnig samstarfsaðilar, nema sýnt sé fram á annað. Þegar metið er hvort um bein eða óbein yfirráð sé að ræða skal miða við skilgreiningu á yfirráðum í 1. mgr., en þar segir að með yfirráðum sé átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við hafi samanlagt eignast a.m.k. 40% atkvæðisréttar í félaginu, hafi á grundvelli samnings við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur a.m.k. 40% atkvæða í félaginu eða hafi öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar í félaginu. Í 3. tölul. 3. mgr. er mælt fyrir um að félög sem aðilar skv. 1., 2. og 4. tölul. eiga með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í eða hafa myndað varanleg tengsl við í þeim tilgangi að hafa áhrif á rekstur þeirra skuli teljast vera í samstarfi við þessa aðila, nema sýnt sé fram á annað. Félag er talið eiga verulegan eignarhlut ef það og dótturfélög þess eiga a.m.k. 1/ 3 hluta atkvæðisréttar í öðru félagi. Ekki var samstaða í nefndinni um það við hvaða hlutfall skyldi miða í þessu sambandi og hvort horfa ætti til Bretlands þar sem miðað er við 20% atkvæðavægi eða til Noregs og Svíþjóðar þar sem almennt er miðað við félög í sömu samstæðu. Það verður þó að hafa í huga að í Bretlandi og Svíþjóð miðast yfirtökuskylda við 30% atkvæðavægi. Í 4. tölul. 3. mgr. er tiltekið að samstarf skuli talið vera á milli félags og stjórnarmanna þess, félags og framkvæmdastjóra þess og félaga undir yfirráðum viðkomandi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, nema sýnt sé fram á annað.
    Í fylgiskjali I er að finna skýringarmyndir með dæmum um samstarf milli aðila. Engin leið er hins vegar að sýna öll þau tengsl sem geta verið á milli aðila og skýringarmyndirnar sýna því aðeins lítið brot af hugsanlegum tengslum sem verið geta til staðar.
    Í 4. mgr. kemur fram að tilboðsskylda skv. 1. mgr. hvíli á þeim aðila samstarfs sem eykur við hlut sinn þannig að mörkum 1. mgr. er náð. Fjármálaeftirlitið getur hins vegar heimilað að annar aðili innan eða utan samstarfshópsins geri tilboð í stað þess aðila sem er tilboðsskyldur skv. 4. mgr.
    Með fyrrgreindum breytingum er kveðið á um með skýrari hætti en í gildandi lögum að yfirtökuskylda geti myndast vegna samstarfs aðila. Rétt er að ítreka að ákvæði 3. mgr. eru til fyllingar reglu 2. mgr. um samstarf milli aðila og því ekki unnt að gagnálykta út frá 1.–4. tölul. 3. mgr.
    Ákvæði um undanþágur frá tilboðsskyldu sem er að finna í núgildandi lögum er fellt niður, en í staðinn er í 5. mgr. mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að veita undanþágu ef sérstakar ástæður mæla með því. Tekið er fram að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að setja skilyrði fyrir undanþágunni, t.d. varðandi frest sem viðkomandi aðili hefur til að selja hluti sem eru umfram leyfileg mörk og meðferð atkvæðisréttar á því tímabili til að koma í veg fyrir að hægt sé að gera umtalsverðar breytingar á starfsemi eða samþykktum félags. Undanþága gæti til að mynda verið veitt vegna þeirra tilvika sem nú eru sjálfkrafa undanþegin tilboðsskyldu, þ.e. ef tilboðsskylda hefur stofnast vegna erfða, gjafagernings og fullnustuaðgerða veðhafa. Ekki þykir eðlilegt að um sjálfkrafa undanþágu sé að ræða í þessum tilvikum og hægt sé að ná yfirráðum í félagi til lengri tíma án þess að yfirtökuskylda myndist, en þó þykir rétt að gera greinarmun á aðilaskiptum sem báðir aðilar ganga til að eigin frumkvæði annars vegar og erfðum og aðgerðum skuldheimtumanna hins vegar, enda yrði erfingjum að öðrum kosti ef til vill gert ókleift að taka við hlutum látinna ættingja sinna og örðugt gæti verið fyrir skuldheimtumenn að ganga að eignum skuldunauta sinna ef þeim fylgdu þær kvaðir sem í tilboðsskyldu felast. Þá getur Fjármálaeftirlitið einnig veitt undanþágu í öðrum tilvikum ef sérstakar aðstæður hafa skapast. Ströng skilyrði verða þó að gilda um allar undanþágur og Fjármálaeftirlitið skal birta opinberlega rökstuðning sinn fyrir veitingu á undanþágum í samræmi við ákvæði um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlits.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um að tilboðsgjafi skv. 1. mgr. skuli gera tilboðsyfirlit í samræmi við ákvæði VII. kafla laganna, en sams konar ákvæði er í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti.
    Almennt nær tilboðsskylda aðeins til þess þegar yfirtökuskyldur aðili fer yfir þau mörk sem ákvæðið tilgreinir. Hafi hluthafar ekki tekið tilboðinu áður en frestur rennur út ber yfirtökuskyldum aðila ekki að gera nýtt tilboð. Þetta gildir þó svo að hann kunni að eignast fleiri hluti í hinu skráða félagi eftir að hann hefur gert öðrum hluthöfum slíkt tilboð. Réttur þeirra til þess að krefjast innlausnar á hlut sínum skv. 26. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 18. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, breytist þó ekki.
    Um c-lið (38. gr.).
    Í 1. mgr. er kveðið á um að ákvæði VI. kafla um yfirtökutilboð gildi einnig fyrir valfrjáls tilboð, en það eru tilboð sem beint er til allra hluthafa viðkomandi félags, án þess að um tilboðsskyldu sé að ræða, sbr. 1. mgr. b-liðar 5. gr. sem verður 1. mgr. 37. gr. laganna. Öll tilboð hafa truflandi áhrif á starfsemi félags og verðmyndun hlutabréfa þess og því þykir eðlilegt að sömu reglur gildi um valfrjáls og skyldubundin tilboð.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um það að ákvæði VII. kafla um tilboðsyfirlit gildi einnig um valfrjáls tilboð og skal tilboðsgjafi útbúa tilboðsyfirlit í samræmi við ákvæði þess kafla.
    Í 3. mgr. er fjallað um takmarkað tilboð sem ekki leiðir til tilboðsskyldu. Þar er mælt fyrir um að tilboðsgjafa sem gerir valfrjálst tilboð sé heimilt að takmarka tilboð sitt þannig að það taki einungis til hluta hlutafjár eða atkvæðisréttar sem hann óskar eftir að eignast, að því tilskildu að tilboðið hafi ekki í för með sér að yfirtökuskylda stofnist skv. 37. gr. Tilboðsgjafi skal þó tryggja jafna meðferð hluthafa og skal því gefa öllum hluthöfum eða eigendum atkvæðisréttar kost á að afhenda hlutabréf sín eða atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína eða atkvæðisrétt og skal tilgreint í tilboðsyfirliti hvernig það verði gert og með hvaða skilmálum.
    Í 4. mgr. kemur fram að tilboðsgjafi sem gerir valfrjálst tilboð geti sett skilyrði fyrir því að hann standi við tilboðið. Takmörk eru þó fyrir því hvaða skilyrði eru hægt að setja og til að mynda er ekki hægt að setja skilyrði sem tilboðsgjafi getur ákveðið sjálfur hvort hafi verið uppfyllt. Sem dæmi má nefna að hægt er að setja skilyrði um að viðkomandi eignist tiltekið hlutfall atkvæðisréttar í því félagi er tilboð tekur til. Tilboðsgjafi getur þó ekki sett það sem skilyrði að hann eignist 100% atkvæðisréttar, en hann má setja skilyrði um að eignast allt að 90% atkvæðisréttar. Einnig má miða við lægra hlutfall. Ef tilboðsgjafi er félag er einnig hægt að setja skilyrði um að hluthafafundur í því félagi samþykki tilboðið og útgáfu á nýju hlutafé, ef við á, og að ekki verði umtalsverðar neikvæðar breytingar á fjárhagsstöðu, viðskiptastöðu eða rekstri þess félags sem tilboð tekur til. Upplýsa skal um skilyrði í tilboðsyfirliti. Tilboðsgjafi getur fallið frá skilyrðum sínum hvenær sem er á tilboðstímabili og skal það þá tilkynnt opinberlega. Ekki er hægt að setja skilyrði fyrir skyldubundin tilboð. Rétt er þó að taka fram að skv. h-lið 5. gr. frumvarpsins, sem verður 43. gr. laganna, fellur tilboð úr gildi ef lögbær viðurkenning stjórnvalda (t.d. Fjármálaeftirlitsins og samkeppnisyfirvalda) fæst ekki og því þarf ekki að setja skilyrði þar að lútandi. Eðlilegt er hins vegar að það komi fram í tilboðsyfirliti ef beðið er samþykkis eða viðurkenningar stjórnvalda.
    Í 5. mgr. er tekið fram að ef tilboðsgjafi hafi náð yfirráðum í félagi í kjölfar valfrjáls tilboðs í alla hluti allra hluthafa í viðkomandi félagi beri viðkomandi aðila ekki skylda til að gera yfirtökutilboð í samræmi við b-lið 5. gr., sem verður 37. gr. laganna, og er það í samræmi við yfirtökutilskipun ESB.
     Um d-lið (39. gr.).
    Í greininni er mælt fyrir um að tilboðsgjafi skuli tilkynna viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði ákvörðun um tilboð án tafar til að tryggja gagnsæi og jafnt aðgengi fjárfesta að upplýsingum, ásamt því að reyna að minnka líkur á því að innherjaupplýsingar berist til óviðkomandi aðila. Viðkomandi skipulegur verðbréfamarkaður skal birta tilkynningu tilboðsgjafa og teljast upplýsingarnar opinberar þegar þær hafa verið birtar þar. Nánar er fjallað um opinbera birtingu í umfjöllun um 13. gr. frumvarpsins. Þá er kveðið á um upplýsingagjöf til starfsmanna og er það í samræmi við yfirtökutilskipun ESB. Ákvörðun um tilboð ber að kynna fyrir starfsmönnum viðkomandi félaga, þ.e. starfsmönnum félags sem tilboð tekur til og félags sem gerir tilboð, ef það á við. Stjórnir viðkomandi félaga bera ábyrgð á því að þessari upplýsingaskyldu sé sinnt.
    Um e-lið (40. gr.).
    Í greininni er fjallað um skilmála tilboðs og sett skilyrði sem eiga að tryggja jafnræði hluthafa betur en áður hefur verið gert.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að tilboðsgjafa sé skylt að bjóða öllum hluthöfum sem eiga hlutabréf í sama hlutabréfaflokki sömu skilmála og er því ákvæði ætlað að tryggja jafna meðferð hluthafa sem er ein af grundvallarkennisetningum reglna um yfirtökutilboð.
    Í 2. mgr. eru gerðar breytingar á ákvæðum um sanngjarnt verð í tilboði. Við ákvörðun verðs þarf nú einnig að taka tillit til hæsta verðs sem samstarfsaðilar tilboðsgjafa hafa greitt síðustu sex mánuði áður en tilboð var sett fram og er það í samræmi við tilskipun ESB. Tilboðsverð skal þó að lágmarki vera jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hlutabréfa í viðkomandi félagi daginn áður en tilboðsskylda myndaðist eða tilkynnt var um fyrirhugað tilboð, en svipað ákvæði er t.d. að finna í norskum yfirtökureglum. Markmiðið er að tryggja að aðilar geti ekki farið í kringum ákvæði um lágmarksverð með því að semja sín á milli um viðskipti á lægra verði en viðskiptaverð er á þeim tíma. Ákvæðið á einnig við ef aðilar sem eru undanþegnir tilboðsskyldu á grundvelli bráðabirgðaákvæðis þessara laga eða bráðabirgðaákvæðis gildandi laga gera tilboð í atkvæðisrétt eða hluti annarra hluthafa. Tilboðsgjafa er að sjálfsögðu ávallt heimilt að bjóða hærra verð en hér er kveðið á um.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef tilboðsgjafi eða aðili sem hann er í samstarfi við greiða hærra verð en boðið er í tilboði á tilboðstímabili sé honum skylt að breyta yfirtökutilboði og bjóða hið hærra verð og er það í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB. Jafnframt er kveðið á um að ef tilboðsgjafi eða aðilar sem hann er í samstarfi við greiða hærra verð eða bjóða betri kjör fyrir hlutabréf í viðkomandi félagi næstu sex mánuði eftir lok tilboðstímabils skuli hann greiða þeim hluthöfum sem tekið höfðu upphaflega tilboðinu viðbótargreiðslu sem samsvarar þeim mismuni. Svipað ákvæði er að finna í sænskum yfirtökureglum og samkvæmt breskum reglum er tilboðsgjafa óheimilt að greiða hærra verð næstu sex mánuði eftir tilboð. Markmiðið er að tryggja jafna meðferð hluthafa og koma í veg fyrir að tilboðsgjafi geti um leið og gildistími tilboðs rennur út greitt aðilum sem ekki samþykktu tilboðið hærra verð en þar var boðið. Ef farið er fram á afskráningu hlutabréfa félags í kjölfar yfirtökutilboðs getur viðkomandi skipulegur verðbréfamarkaður sett upplýsingaskyldu um viðskipti með hlutabréf viðkomandi félags næstu sex mánuði sem skilyrði fyrir afskráningu til að tryggja gagnsæi í viðskiptum með hluti í hinu yfirtekna félagi.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um hvaða greiðslumáta tilboðsgjafi megi nota til að fullnægja tilboðsskyldu sinn. Tilboðsgjafi getur boðið reiðufé, hlutabréf sem bera atkvæðisrétt eða hvorutveggja sem greiðslu, svo framarlega sem öllum hluthöfum sem eiga hlutabréf í sama hlutaflokki séu boðnir sömu valkostir. Þó er skylt að bjóða greiðslu með reiðufé, a.m.k. sem valkost, ef ekki eru boðnir seljanlegir hlutir sem skráðir eru á skipulegan verðbréfamarkað sem greiðsla eða ef greitt hefur verið með reiðufé fyrir a.m.k. 5% hlutafjár síðustu sex mánuði áður en tilboðsskylda myndaðist og á tilboðstíma og eru þessi ákvæði í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB. Ekki er sjálfgefið að hlutir sem skráðir eru á skipulegan verðbréfamarkað séu seljanlegir og skal Fjármálaeftirlitið úrskurða um vafaatriði í þeim efnum. Fjármálaeftirlitið getur í því sambandi stuðst við ákveðin viðmið, t.d. veltuhraða, auk þess sem almennt má ganga út frá því að hlutabréf félaga í úrvalsvísitölu Kauphallarinnar séu seljanleg. Hafa verður í huga að veltuhraði getur verið breytilegur eftir tímabilum, en samkvæmt upplýsingum í Árbók Kauphallarinnar 2004 var veltuhraði árið 2003 undir 50% hjá 23 af þeim 48 félögum sem þar voru skráð í árslok 2003.
    Í 5. mgr. er ákvæði um fjármögnun tilboðs en til að tryggt sé að tilboðsgjafi geti staðið við tilboð sitt er kveðið á um það að ef greiða á fyrir hluti með reiðufé þurfi lánastofnun með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu að ábyrgjast þá greiðslu. Félag í sömu samstæðu og tilboðsgjafi má ekki veita ábyrgðina. Upplýsa skal um það í tilboðsyfirliti hver veitir ábyrgðina. Fjármálaeftirlitið getur veitt leyfi fyrir því að lánastofnun utan Evrópska efnahagssvæðisins ábyrgist greiðslu og við mat á því hvort slíkt leyfi skuli veitt má hafa til hliðsjónar hvort viðkomandi lánastofnun hafi fengið leyfi til að hefja starfsemi hérlendis samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Ef greiðsla er með öðrum hætti þá skal tilboðsgjafi gera viðeigandi ráðstafanir til að reyna að tryggja að hægt verði að standa við tilboðið. Í því gæti t.d. falist að leitað hafi verið eftir samþykki stærstu hluthafa og boðað til hluthafafundar til að samþykkja útgáfu nýrra hluta, ef þess er þörf. Upplýsa skal um það í tilboðsyfirliti hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar í því skyni.
    Í 6. mgr. er kveðið á um gildistíma tilboðs og er þar miðað við sama gildistíma og í núgildandi lögum. Fjármálaeftirlitinu er þó heimilt að framlengja gildistíma tilboðs ef fyrir því eru gildar ástæður. Það á sérstaklega við ef boða þarf til hluthafafundar í því félagi sem tilboð er gert í til að ræða tilboðið. Í því sambandi þarf þó að hafa í huga að tilboð má ekki trufla starfsemi félags lengur en nauðsynlegt er.
    Í 7. mgr. er mælt fyrir um greiðslufrest. Uppgjör fyrir yfirtekna hluti skal fara fram eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi fimm viðskiptadögum frá lokum tilboðstíma, en það er sami greiðslufrestur og veittur er samkvæmt reglum Kauphallarinnar í Kaupmannahöfn.
    Í 8. mgr. er ákvæði um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að breyta tilboðsverði og veita undanþágur frá skilmálum tilboðs, en slíkt getur verið nauðsynlegt til að bregðast við þeim margbreytilegu aðstæðum sem upp geta komið í viðskiptalífinu. Ákvæðið er í samræmi við 4. og 5. gr. tilskipunar ESB um yfirtökutilboð, en jafnframt er tekið fram í inngangi þeirrar tilskipunar að yfirtökureglur skuli vera sveigjanlegar og geta tekið mið af nýjum aðstæðum og því eigi að vera mögulegt að veita undanþágur frá þeim við tilteknar aðstæður. Mælt er fyrir um að Fjármálaeftirlitið geti breytt tilboðsverði, til hækkunar eða lækkunar, ef um sérstakar kringumstæður er að ræða, að því gefnu að reglunni um jafnræði hluthafa í 1. mgr. sé fylgt. Skilyrði fyrir slíkum breytingum verða hins vegar að vera skýr og vel skilgreind. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja fram yfirlit yfir kringumstæður sem heimilað geta slíkar verðbreytingar. Sem dæmi um slíkar aðstæður má nefna að hæsta verð hafi verið ákveðið með samkomulagi milli seljanda og kaupanda, að höfð hafi verið áhrif á markaðsverð með ólögmætum hætti, hvort sem er til óeðlilegrar hækkunar eða lækkunar, eða að nauðsynlegt kunni að vera að breyta verði til að hægt sé að bjarga félagi sem á við fjárhagslega erfiðleika að stríða frá gjaldþroti. Ákvarða má þau viðmið sem styðjast skal við í slíkum tilvikum, t.d. meðalmarkaðsverð yfir tiltekið tímabil, upplausnarvirði félags, sjóðstreymisgreiningu, samanburðargreiningu eða önnur hlutlæg viðmið sem viðurkennd eru í fjármálagreiningu. Fjármálaeftirlitið getur jafnframt leitað til sérfræðinga í tengslum við mat á verði í slíkum tilvikum. Allar ákvarðanir varðandi breytingar á tilboðsverði skulu vera rökstuddar og birtar opinberlega í samræmi við ákvæði um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlits. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu varðandi greiðslumáta, sbr. 4. mgr., og greiðslufrest, sbr. 7. mgr., ef sérstakar ástæður eru fyrir því. Ströng skilyrði verða að gilda um allar undanþágur og þær mega ekki fara gegn reglunni um að jafnræði hluthafa í 1. mgr. sé fylgt. Fjármálaeftirlitið skal birta opinberlega rökstuðning sinn fyrir veitingu á undanþágum í samræmi við ákvæði um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlits.
    Um f-lið (41. gr.).
    Í greininni er kveðið á um skyldur stjórnar í félagi sem tilboð tekur til. Markmiðið með þessari grein er að reyna að tryggja að það séu eigendur félagsins, hluthafarnir, sem taki ákvörðun um hvort reyna eigi að hafa áhrif á yfirtökutilboð, en ekki stjórn þess. Slíkt er eðlilegt með hliðsjón af því að yfirtökum fylgja oft breytingar á stjórn og stjórnendum yfirtekins félags, en með þessu ákvæði er reynt að draga úr líkum á slíkum hagsmunaárekstrum á milli stjórnarmanna og hluthafa.
    Í 1. mgr. er sett fram sú grundvallarregla að stjórn félags sem tilboð tekur til skuli hafa hagsmuni félagsins sjálfs að leiðarljósi í öllum gerðum sínum og megi ekki neita hluthöfum félagsins um tækifæri til að taka ákvörðun um tilboðið.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að stjórn félags sem tilboð er gert í sé óheimilt að taka ákvarðanir sem haft geta áhrif á tilboð nema með fyrirframsamþykki hluthafafundar og gildir það frá þeim tíma er ákvörðun um tilboð í hlutabréf félags hefur verið gerð opinber eða stjórn félags er ljóst að tilboð sé væntanlegt og þar til niðurstöður tilboðs hafa verið gerðar opinberar. Í dæmaskyni eru taldar upp sex ákvarðanir sem sérstaklega eru taldar geta haft áhrif á tilboð, en ljóst er að ekki er hægt að gera tæmandi lista yfir slíkar ákvarðanir og því er ekki unnt að gagnálykta út frá þeirri upptalningu. Almennt gildir að ávallt skuli leita eftir samþykki hluthafafundar áður en teknar eru ákvarðanir sem haft geta umtalsverð áhrif á rekstur og efnahag félags sem tilboð tekur til.
    Í 3. mgr. er tekið fram að stjórn sé, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., heimilt að leita annarra tilboða án samþykkis hluthafafundar.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að hluthafafundur skuli einnig staðfesta eða samþykkja aftur ákvarðanir sem teknar voru áður en ákvörðun um tilboð var gerð opinber ef þeim ákvörðunum hefur ekki enn verið framfylgt að hluta til eða öllu leyti. Hér gæti t.d. verið um að ræða að hluthafafundur hefði samþykkt að heimila stjórn að gefa út nýtt hlutafé. Ef sú heimild hefði ekki enn verið nýtt að hluta til eða öllu leyti þegar ákvörðun um tilboð er gerð opinber þyrfti hluthafafundur að samþykkja hana aftur, með því atkvæðamagni sem kveðið er á um varðandi slíkar samþykktir. Í þessu tilviki þyrfti því samþykki minnst 2/ 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundinum.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að stjórn félags sem tilboð er gert í skuli semja og gera opinbera greinargerð þar sem fram kemur álit hennar á tilboði og áhrifum þess á hagsmuni félags, störf stjórnenda og starfsmanna og starfsskilyrði þeirra sem og á staðsetningu starfsstöðva félags. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun ESB um yfirtökutilboð.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um að upplýsa þurfi um hugsanlega hagsmunaárekstra og að stjórnarmenn sem eru aðilar að tilboði skuli ekki taka þátt í að semja greinargerð stjórnar.
    Í 7. mgr. kemur fram að ef stjórn er ekki ályktunarhæf sökum þess að stjórnarmenn eru aðilar að tilboði, eða vanhæfir að öðru leyti til að fjalla um það skal fá álit óháðs fjármálafyrirtækis á tilboðinu og skilmálum þess til að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra stjórnarmanna. Stjórn félags er þó að sjálfsögðu ávallt heimilt að fá álit óháðs fjármálafyrirtækis.
    Í 8. mgr. er mælt fyrir um að greinargerð stjórnar skuli birta opinberlega, a.m.k. einni viku áður en gildistími tilboðs rennur út, en sambærilegt ákvæði er t.d. að finna í norskri yfirtökulöggjöf. Stjórnin ætti því að hafa nægilegt svigrúm til að fjalla um tilboðið og leita sér ráðgjafar ef þörf þykir á því. Greinargerð stjórnar skal send viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði til birtingar þar og jafnframt skal birta auglýsingu um greinargerðina og hvar nálgast megi hana í einu eða fleiri dagblöðum sem gefin eru út á Íslandi. Stjórnin ber sjálf ábyrgð á því að greinargerðin sé birt opinberlega á réttum stað og tíma.
    Í 9. mgr. er kveðið á um að ef tilboðsgjafi gerir breytingar á tilboði sínu skv. i-lið 5. gr., sem verður 44. gr. laganna, skuli stjórn innan sjö daga frá því að breytt tilboð hefur verið gert opinbert semja og birta opinberlega, sbr. 7. gr. frumvarpsins sem verður 52. gr. laganna, viðbót við greinargerð sína þar sem fram kemur álit stjórnarinnar á viðkomandi breytingum. Ekki þarf þó að semja slíka viðbót ef einungis er um að ræða framlengingu á gildistíma tilboðs.
    Um g-lið (42. gr.).
    Í greininni er lagt til að sett verði strangari skilyrði en eru í núgildandi lögum varðandi afturköllun skyldubundinna tilboða. Skv. 7. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, er afturköllun tilboðs einungis gild ef hún kom til gagnaðila áður en eða samtímis því að tilboðið eða svarið kom til vitundar hans. Þegar um yfirtökutilboð er að ræða er hins vegar talið að gefa eigi tilboðsgjafa yfirtökutilboðs kost á að draga tilboð sitt til baka þrátt fyrir að það hafi verið komið til vitundar minnihlutaeigenda, enda sé einhverju af tilgreindum skilyrðum fullnægt.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að ekki sé heimilt að afturkalla tilboð sem gert hefur verið opinbert, nema sérstök ófyrirsjáanleg atvik (force majeure) mæli með því.
    Í 2. mgr. kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé þó hægt að afturkalla valfrjáls tilboð við ákveðin skilyrði og er þar um að ræða svipuð skilyrði og er að finna í núgildandi lögum. Einnig er hægt að leyfa afturköllun ef sérstakar ástæður mæla með því. Slíkt gæti til að mynda verið heimilt ef umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á starfsemi félags sem tilboð tekur til eftir að tilboðið var gert opinbert.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli samþykkja afturköllun tilboðs.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að afturköllun tilboðs skuli birta opinberlega, sbr. 7. gr. frumvarpsins sem verður 52. gr. laganna.
    Um h-lið (43. gr.).
    Í greininni er fjallað um ógildingu tilboðs. Þar er kveðið á um að tilboð falli úr gildi ef lagaleg atriði réttlæta það eða viðurkenning stjórnvalda sem telja verður nauðsynlega til þess að eigendaskipti geti orðið að hlutunum liggur ekki fyrir þegar gildistíma tilboðs lýkur eða þeim hefur verið hafnað á gildistíma tilboðs. Í gildandi lögum er mælt fyrir um að hægt sé að afturkalla tilboð undir þessum kringumstæðum og það er því tilboðsgjafa að ákveða hvað gera skuli. Hér er hins vegar kveðið á um að tilboð falli einfaldlega úr gildi og því ætti ekki að myndast óvissa um það hvað geti gerst við þessar kringumstæður sem ætti að vera til hagsbóta bæði fyrir hluthafa og viðkomandi félag. Tilboðsgjafa ber þó ávallt skylda til að gera ráðstafanir áður en tilboð er sett fram til að reyna að tryggja eftir bestu getu að væntanleg eigendaskipti uppfylli öll skilyrði.
    Ef tilboð fellur úr gildi af fyrrgreindum orsökum ber tilboðsgjafa og aðilum í samstarfi við hann að selja hluti sem eru umfram leyfileg mörk. Þeim er heldur ekki heimilt að setja fram nýtt tilboð eða fara yfir þau mörk sem tilboðsskylda miðast við næstu 12 mánuði nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Öll tilboð hafa áhrif á starfsemi þess félags sem tilboð tekur til og með þessu er reynt að tryggja að tilboðsgjafi sem lagt hefur fram tilboð sem fallið hefur úr gildi leggi ekki fram nýtt tilboð næstu 12 mánuði nema hann geti sýnt fram á að aðstæður hafi breyst frá því að fyrra tilboð féll úr gildi á sínum tíma.
    Um i-lið (44. gr.).
    Í greininni eru ákvæði um breytingar á tilboði. Tilboðsgjafa er heimilt að breyta tilboði sínu hvenær sem er á tilboðstímabili ef breytingarnar hafa í för með sér hagstæðari skilmála fyrir aðra hluthafa. Hluthafar sem samþykkt hafa upphaflegt tilboð geta valið á milli tilboða, enda getur það verið matsatriði fyrir hluthafa hvort tilboð sé hagstæðara, t.d. ef boðið er upp á breyttan greiðslumáta. Ef eingöngu er um að ræða framlengingu á gildistíma tilboðs er nægilegt að tilboðsgjafi tilkynni um framlenginguna til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar. Slík framlenging takmarkast þó við þann gildistíma sem kveðið er á um í 6. mgr. e-liðar 5. gr. frumvarpsins sem verður 6. mgr. 40. gr. laganna, þ.e. fjórar til tíu vikur.
    Um j-lið (45. gr.).
    Í greininni er fjallað um samkeppnistilboð og réttindi hluthafa til að draga samþykki sitt á valfrjálsu tilboði til baka undir ákveðnum kringumstæðum. Kveðið er á um að hluthafar sem samþykkt hafa valfrjálst tilboð geti dregið samþykki sitt til baka ef tilboðsgjafi hefur sett skilyrði í samræmi við ákvæði 4. mgr. c-liðar 5. gr. frumvarpsins, sem verður 38. gr. laganna, fyrir því að hann standi við tilboð sitt og hefur ekki tilkynnt opinberlega að skilyrðin hafi verið uppfyllt eða hann hafi fallið frá þeim þegar tilkynnt er um samkeppnistilboð. Það skal ítrekað að einungis er hægt að setja skilyrði varðandi valfrjáls tilboð, en engin skilyrði er hægt að setja varðandi skyldubundin tilboð. Tilboðsgjafa er þó ávallt heimilt að gefa hluthöfum aukinn rétt til að draga samþykki sitt til baka hvort sem um er að ræða skyldubundin eða valfrjáls tilboð og skal slíkt þá tilgreint í tilboðsyfirlitinu. Mismunandi er hvaða rétt hluthafar hafa til að draga samþykki sitt á tilboði til baka í nágrannalöndum okkar. Í Svíþjóð og Bretlandi geta hluthafar sem samþykkt hafa tilboð dregið samþykki sitt til baka ef skilyrði sem sett voru af tilboðsgjafa hafa ekki verið uppfyllt eða fallið hafi verið frá þeim. Í Danmörku ræður tilboðsgjafi því sjálfur hvort hann gefur hluthöfum kost á að draga samþykki sitt til baka og skal upplýst um þau mál í tilboðsyfirliti. Í Noregi eru engin ákvæði um réttindi hluthafa til að draga samþykki sitt til baka.
    Um k-lið (46. gr.).
    Í greininni er kveðið á um upplýsingaskyldu tilboðsgjafa varðandi niðurstöður tilboðs. Tilboðsgjafa er skylt að greina opinberlega frá niðurstöðum tilboðs með tilkynningu til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar innan þriggja viðskiptadaga frá lokum tilboðstíma. Þar skulu koma fram upplýsingar um það hve miklum atkvæðisrétti og hlutum tilboðsgjafi og aðilar í samstarfi við hann höfðu yfir að ráða við lok gildistíma tilboðs og skal sérstaklega greint frá hve mikinn atkvæðisrétt og hluti viðkomandi aðilar tryggðu sér á tilboðstímabilinu í gegnum tilboðið, með kaupum á markaði og samningum um væntanleg kaup. Ef um valfrjálst tilboð var að ræða skal koma fram í tilkynningunni hvort skilyrði sem sett voru í tilboðinu hafi verið uppfyllt og, ef svo er ekki, hvort tilboðsgjafi hyggist engu síður standa við tilboð sitt eða afturkalla það.
    Um l-lið (47. gr.).
    Í greininni er fjallað um innlausnarrétt tilboðsgjafa og hluthafa í kjölfar yfirtökutilboðs. Mælt er fyrir um að ef tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við skv. b-lið 5. gr. frumvarpsins, sem verður 37. gr. laganna, eignast meira en 9/ 10 hlutafjár eða atkvæðisréttar í félagi í tilboði þá geti tilboðsgjafinn og stjórn félagsins í sameiningu ákveðið að aðrir hluthafar í félaginu skuli sæta innlausn tilboðsgjafans á hlutum sínum. Sé slíkt ákveðið skal senda nefndum hluthöfum tilkynningu með sama hætti og gildir um boðun aðalfundar eftir því sem við á þar sem þeir eru hvattir til að framselja hluthafanum hluti sína innan fjögurra vikna. Skilmála fyrir innlausn skal greina í tilkynningunni. Ef tilboðsgjafi fer fram á innlausn innan þriggja mánaða frá lokum tilboðstímabils skal verð sem boðið var í tilboði teljast vera sanngjarnt innlausnarverð, nema tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við hafi greitt hærra verð á tilboðstímabili eða innan sex mánaða frá lokum tilboðstímabils.
    Hver einstakur af minni hluta hluthafa getur krafist innlausnar hjá tilboðsgjafanum ef tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við skv. b-lið 5. gr. frumvarpsins, sem verður 37. gr. laganna, eignast meira en 9/ 10 hlutafjár eða atkvæðisréttar í félagi í kjölfar tilboðs. Ef hluthafi fer fram á innlausn innan þriggja mánaða frá lokum tilboðstímabils skal verð sem boðið var í tilboði teljast vera sanngjarnt innlausnarverð, nema tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við hafi greitt hærra verð á tilboðstímabili eða innan sex mánaða frá lokum tilboðstímabils. Þessi ákvæði taka mið af tilskipun ESB um yfirtökutilboð. Gengið er út frá því í ákvæðinu að tilboðsverð sé sanngjarnt verð ef hluthafar sem ráða yfir 90% atkvæða hafa samþykkt tilboðið. Í því samhengi er rétt að taka fram að samkvæmt frumvarpinu eru nú gerðar mun strangari kröfur varðandi lágmarksverð sem bjóða skal í tilboði. Þá er stjórn félags sem tilboð tekur til skylt að gefa álit sitt á tilboði eða fá óháð fjármálafyrirtæki til þess og það ætti því að koma fram ef stjórn telur tilboðsverð ósanngjarnt gagnvart hluthöfum, en stjórninni er skylt að hafa hagsmuni hluthafa að leiðarljósi við mat á tilboði.
    Ef farið er fram á innlausn meira en þremur mánuðum eftir lok tilboðstímabils gilda ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995 með síðari breytingum.
    Um m-lið (48. gr.).
    Í greininni er mælt fyrir um úrræði ef tilboðsskyldur aðili gerir ekki tilboð. Í slíku tilviki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að fella niður atkvæðisrétt viðkomandi aðila í félaginu. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna viðkomandi félagi um brottfall atkvæðisréttarins og er tilgangurinn með þeirri tilkynningu að tryggja að unnt sé að taka tillit til þess á fundum hluthafa. Sé atkvæðisréttur, sem fallið hefur niður, eigi að síður nýttur á fundum hluthafa kunna ákvarðanir sem þar eru teknar að verða ógildanlegar skv. 96. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Rétt er að taka fram að Fjármálaeftirlitið skal fella niður allan atkvæðisrétt tilboðsskylds aðila sem ekki gerir tilboð, en ekki einungis þann hluta sem er umfram leyfileg mörk. Ef aðili sem hefur eignast 65% atkvæðisréttar gerir ekki yfirtökutilboð innan tilskilins tíma væri sem sagt hægt að fella niður allan atkvæðisrétt hans í viðkomandi félagi. Ef aðeins væri felldur niður atkvæðisréttur sem væri umfram leyfileg mörk, þ.e. 25,01%, réði viðkomandi aðili engu síður yfir meiri hluta virkra atkvæða, þ.e. 39,99% atkvæða af 74,99%. Fjármálaeftirlitið getur skyldað viðkomandi aðila til að selja hluti sem eru umfram leyfileg mörk og skal fresturinn ekki vera lengri en fjórar vikur. Sinni viðkomandi hluthafar ekki þeirri skyldu sinni er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita þá lögmæltum viðurlögum í samræmi við heimildir þess skv. 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Fjármálaeftirlitið getur einnig sett skilyrði varðandi nýtingu atkvæðisréttar tilboðsskylds aðila eða fellt niður atkvæðisréttindi hans fyrr en mælt er fyrir um í 1. mgr. þessa stafliðar, sem verður 1. mgr. 48. gr. laganna, ef fyrir því eru sérstakar ástæður.

Um 6. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um hvaða upplýsingar eigi að koma fram í tilboðsyfirliti.
    Tilboðsgjafa er skylt að láta koma fram þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hluthafar geti metið tilboðið og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þeir eigi að samþykkja það eða ekki. Flest ákvæðin eru í núgildandi lögum, en einnig eru settar fram kröfur um aukna upplýsingagjöf tilboðsgjafa. Í 1.–3. tölul. eru ákvæði úr gildandi lögum, en í 2. tölul. kemur jafnframt fram að upplýsa þurfi um aðila sem eru í samstarfi við tilboðsgjafa en taka ekki endilega þátt í viðskiptunum með honum og í 3. tölul. er bætt við að einnig þurfi að upplýsa um atkvæðisrétt, áhrif eða hluti aðila sem tilboðsgjafi er í samstarfi við. Í 4. tölul. er nýtt ákvæði um að upplýsa þurfi um hámarks- og lágmarkshluti sem tilboðsgjafi ætli að eignast ef um valfrjálst tilboð er að ræða. Í 5. tölul. kemur fram að upplýsa skuli um verð sem miðað er við í tilboðinu, hvernig það var ákvarðað og hvenær greiðsla fari fram. Einnig skal upplýsa um það hvort einhver kostnaður falli á þá hluthafa sem samþykkja tilboð. Í 6. tölul. er mælt fyrir um að upplýsa skuli um fjármögnun tilboðs, en í því felst m.a. að upplýsa þarf um það hvort tilboð sé fjármagnað með eigin fé, lánsfé eða öðrum hætti, og er það í samræmi við kröfur sem t.d. eru gerðar í Danmörku og Bretlandi. Jafnframt skal upplýst um það hver ábyrgist greiðslu ef greitt er með reiðufé og skal yfirlýsing frá viðkomandi aðila fylgja með tilboðsyfirlitinu. Í 7. tölul. er kveðið á um að upplýsa þurfi um hvernig greiðsla fari fram og ef boðin séu hlutabréf í félagi þurfi að gefa upplýsingar um þau hlutabréf. Í því felst að upplýsa skal um lykiltölur úr rekstri félags síðastliðin þrjú ár, heildarfjölda útgefinna hlutabréfa, eigin bréf félagsins og gengisþróun viðkomandi hlutabréfa síðastliðin þrjú ár, sem og upplýsingar um kostnað við sölu þeirra, en slíkar upplýsingar geta verið sérstaklega mikilvægar ef hlutabréfin eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru landi. Ef hlutabréf eru boðin sem greiðsla þarf einnig að upplýsa um það hvernig skiptin voru ákveðin, sem og hver greiðir kostnað við skiptin. Í 8.–11. tölul., sem og 13. tölul., eru ákvæði sem mælt er fyrir um í gildandi lögum. Í 12. tölul. kemur fram að í tilboðsyfirliti skuli vera samantekt tilboðsgjafa um framtíðaráætlanir fyrir félagið, sem og fyrir tilboðsgjafa, ef tilboðsgjafi er félag. Þar þurfa að koma fram áform um starfsemi, og hvernig nota skuli fjármuni félags (t.d. handbært fé, rekstrartengdar eignir og skuldir), til að hægt sé að meta áhrif tilboðs á efnahag þess. Þá þurfa að koma fram upplýsingar um áframhaldandi skráningu hlutabréfa félagsins í kauphöll, breytingar á samþykktum og væntanlega endurskipulagningu ef það á við. Einnig þarf að upplýsa um hugsanleg áhrif yfirtöku á stjórnendur og starfsmenn og starfsskilyrði þeirra, sem og á staðsetningu starfsstöðva félags sem tilboð er gert í og félag tilboðsgjafa, ef það á við, og er það í samræmi við kröfur í tilskipun ESB um yfirtökutilboð. Í 14. tölul. er mælt fyrir um að upplýsa skuli um greiðslur og hlunnindi frá tilboðsgjafa til stjórnar og stjórnenda félags sem tilboð er gert í eða hvort ætlunin sé að slíkar greiðslur verði inntar af hendi, eða hlunnindi veitt, eftir tilboð. Ef engar slíkar greiðslur hafa verið greiddar eða hlunnindi veitt og slíkt er ekki fyrirhugað skal það koma fram í tilboðsyfirlitinu. Með þessu er reynt að tryggja að upplýst sé um alla mögulega hagsmunaárekstra stjórnenda. Í 15. tölul. er mælt fyrir um að upplýsa skuli um lög sem gilda varðandi samninga milli tilboðsgjafa og hluthafa vegna tilboðsins og lögbæra dómstóla. Í 16. tölul. kemur fram að tilgreina skuli aðrar upplýsingar sem skipt geta máli og getur þar t.d. verið um að ræða upplýsingar um aukinn rétt hluthafa til að draga samþykki sitt á tilboði til baka, vexti sem tilboðsgjafi hyggst greiða frá samþykkt tilboðs og til greiðsludags eða upplýsingar um skattaleg áhrif tilboðsins.
    Í 2. mgr. kemur fram að tilboðsyfirlit skuli samþykkt af Fjármálaeftirlitinu áður en það er birt opinberlega. Einnig er tekið fram að ef umtalsverðar breytingar verða á þeim upplýsingum sem eru í tilboðsyfirlitinu eftir að það hefur verið birt opinberlega eða ef í ljós kemur að tilboðsyfirlit uppfyllir ekki þær kröfur sem nefndar eru í 1. mgr. geti Fjármálaeftirlitið krafist þess að nánari upplýsingar verði gerðar opinberar innan sjö daga.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið geti með samningi falið skipulegum verðbréfamörkuðum að annast staðfestingu á tilboðsyfirliti. Í slíkum samningi skal koma fram hvaða verkefni eru falin skipulegum verðbréfamarkaði og skilyrði við framkvæmd þeirra. Þóknun fyrir athugun og staðfestingu á tilboðsyfirliti skal ákveðin af Fjármálaeftirlitinu eða viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði.

Um 7. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um opinbera birtingu tilboðsyfirlits.
    Kveðið er á um að birta skuli auglýsingu opinberlega um tilboðsyfirlit í einu eða fleiri dagblöðum sem gefin eru út á Íslandi eigi síðar en fjórum dögum áður en tilboð tekur gildi, enda liggi fyrir staðfesting Fjármálaeftirlitsins, sbr. 2. mgr. 51. gr. laganna. Í auglýsingunni skal tekið fram hvar nálgast má tilboðsyfirlit. Jafnframt er kveðið á um að senda skuli tilboðsyfirlit til allra nafnskráðra hluthafa á kostnað tilboðsgjafa, en samkvæmt núgildandi lögum er einungis skylt að senda auglýsingu um tilboðsyfirlit til nafnskráðra hluthafa. Miða ber við hlutaskrá daginn sem tilboðsyfirlit er sent út til hluthafa sem skal ekki vera síðar en fyrsti gildisdagur tilboðs.
    Einnig er í greininni ákvæði um upplýsingaskyldu um tilboðsyfirlit gagnvart starfsmönnum viðkomandi félaga og er það í samræmi við tilskipun ESB um yfirtökutilboð. Tilboðsyfirlit ber að kynna fyrir starfsmönnum viðkomandi félaga, þ.e. starfsmönnum félags sem tilboð tekur til og félags sem gerir tilboð, ef það á við. Stjórnir viðkomandi félaga bera ábyrgð á því að þessari upplýsingaskyldu sé sinnt.
    Tilboðsyfirlit skal vera á íslensku. Tilboðsyfirlit sem samþykkt hefur verið í einu EES-ríki skal að lokinni þýðingu á íslensku viðurkennt sem fullgilt hérlendis. Eftirlitsaðilar geta þó farið fram á það að meiri upplýsingum sé bætt inn í tilboðsyfirlitið ef um er að ræða atriði sem eiga sérstaklega við hérlendis um formsatriði sem þarf að uppfylla varðandi samþykki tilboðs og uppgjör fyrir yfirtekna hluti, sem og varðandi skattaleg atriði tengd tilboðinu.

Um 8. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 39. gr. laganna sem verður 53. gr. verði frumvarp þetta að lögum.
    Lagðar eru til orðalagsbreytingar, sem miða að því að nota hugtakið verðbréf í stað hugtaksins fjármálagerningar í 1. og 2. tölul. ákvæðisins. Breytingin er til samræmis við orðalag frumvarps þess sem varð að núgildandi lögum, en þá var ákveðið í meðförum Alþingis að nota hugtakið fjármálagerninga í stað hugtaksins verðbréf. Breytingin miðar að nákvæmari hugtakanotkun og því að samræma hugtakanotkun í ákvæðinu við hugtakanotkun í öðrum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti, en rétt hugtakanotkun er mikilvæg til að endurspegla eðli þeirra fjármálagerninga sem markaðssvik fjalla um.
    Hugtakið fjármálagerningur er yfirhugtak sem nær yfir hvers konar gerninga sem geta haft fjárhagslegt gildi milli aðila á fjármálamarkaði. Eðlismunur er milli þess hvort gerningarnir eru gerðir milli tveggja samningsaðila eða hvort þeir eru framseljanlegir til þriðja aðila, en þá eru þeir kallaðir verðbréf. Ef fjármálagerningar eru framseljanlegir til þriðja aðila, þ.e. þegar þeir eru verðbréf, er gerður greinarmunur á því hvort verðbréfin eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði eða ekki, þ.e. hvort um er að ræða skráð eða óskráð verðbréf. Mismunandi reglur geta gilt um þessar mismunandi tegundir fjármálagerninga eftir mismunandi eðli þeirra, svo sem því hvort þeir eru framseljanlegir og hvort þeir eru skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði, og er því lagt til að viðeigandi hugtök verði afmörkuð á skýrari hátt en nú er í lögum og notuð þar sem við á.
    Hugtakið verðbréf hefur verið skilgreint sem framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu (t.d. skuldabréf) eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum (t.d. hlutabréf). Algengustu tegundir verðbréfa eru hlutabréf og skuldabréf. Þessir fjármálagerningar eru því framseljanlegir og er það skilgreiningaratriði verðbréfa eina þrengingin sem gerð er frá hugtakinu fjármálagerningur. Verðbréf eru þá þeir fjármálagerningar sem eru framseljanlegir. Til verðbréfa geta því talist fleiri tegundir fjármálagerninga sem skilgreindir eru í lögunum, svo sem framtíðarsamningar (framseljanlegar afleiður), hlutdeildarskírteini sem gefin eru út af verðbréfasjóðum og peningamarkaðsskírteini, svo lengi sem þau falla undir almennu skilgreininguna á verðbréfi, þ.e. að vera framseljanlegir fjármálagerningar. Þar sem fjallað er um verðbréf í frumvarpinu eiga slíkar efnisreglur því við um allar tegundir verðbréfa. Enn frekari þrenging á hugtakinu verðbréf er gerð þegar verðbréf er skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Er þá um framseljanlegan skráðan fjármálagerning að ræða og eiga að verulegu leyti aðrar reglur við um slík verðbréf, svo sem um meðferð innherjaupplýsinga.
    Hugtökin verðbréf, skráð verðbréf, óskráð verðbréf og afleiður eru venjubundin í huga fjárfesta á íslenskum fjármálamarkaði, hvort sem um almenna fjárfesta er að ræða eða fagfjárfesta. Eðli og áhætta þessara fjármálagerninga er ólík. Því er eðlilegt að leitast við að viðhalda réttri notkun þessara hugtaka, þó þannig að yfirhugtakið fjármálagerningur sé notað þar sem við á eins og gert hefur verið í núgildandi lögum og til samræmis við hugtakanotkun tilskipana Evrópusambandsins og þróunar erlendis, en hin þrengri hugtök notuð þar sem við á í samræmi við íslenska málvenju.
    Sem dæmi um hugtakanotkun í verðbréfaviðskiptalögunum má nefna ákvæði II. kafla laganna þar sem fjallað er um réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja. Í kaflanum er almennt talað um skyldur fjármálafyrirtækja við kaup og sölu fjármálagerninga, án tillits til þess hvers eðlis þeir eru, þ.e. hvort þeir eru framseljanlegir, óframseljanlegir, skráðir eða óskráðir. Í 8. gr. laganna er þó að finna sérstaka varúðarreglu sem á aðeins við ákveðna óskráða, framseljanlega fjármálagerninga sem til hægðarauka hafa verið skilgreindir sem óskráð verðbréf. Fellur það betur að málnotkun fjárfesta og þrengir hugtakið fjármálagerning við það að hann sé framseljanlegur og óskráður. Slíkar reglur eiga eðli málsins samkvæmt ekki við um aðra fjármálagerninga. Hið sama á við um ákvæði IV. kafla laganna sem fjallar um almenn útboð óskráðra verðbréfa. Gildissvið kaflans hefði tæknilega getað miðað við framseljanlega, óskráða fjármálagerninga en til hægðarauka og til samræmis við orðnotkun fjárfesta hefur gildissviðið verið takmarkað við óskráð verðbréf.
    Í ljósi þess sem að framan greinir eru hér lagðar til þær breytingar að gildissvið þessa ákvæðis frumvarpsins miðist við sömu hugtök og ákvæði II. og IV. kafla þar sem um er að ræða fjármálagerninga sem skráðir hafa verið, eða óskað hefur verið skráningar á, á skipulegum verðbréfamarkaði. Eðli málsins samkvæmt verða slíkir gerningar alltaf að vera framseljanlegir því ella geta þeir ekki fengið skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði til framlagningar tilboða og viðskipta. Framseljanlegir fjármálagerningar eru því verndarandlag ákvæða um markaðssvik. Óframseljanlegar afleiður (sem og hvers konar fjármálagerningar aðrir en verðbréf) geta aldrei orðið verndarandlag markaðssvika þar sem þær eru ekki framseljanlegar og geta ekki gengið kaupum og sölum milli fjárfesta. Á þeim er engin verðmyndun sem hægt er að misnota (markaðsmisnotkun) né heldur er til staðar skipuleg miðlun upplýsinga sem geta haft áhrif á verðmyndun þeirra (innherjasvik). Aðrir fjármálagerningar en verðbréf geta því aðeins orðið afleitt andlag markaðssvika eins og nánar er skilgreint í b-lið 8. gr. frumvarpsins sem verður 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. Hins vegar er hægt að ástunda markaðssvik með því t.d. að kaupa eða selja verðbréf framvirkt með óframseljanlegri afleiðu á skráð verðbréf og gefa þannig ranga eða misvísandi mynd af framboði, eftirspurn eða verði undirliggjandi verðbréfa rétt eins og hægt er að kaupa og selja verðbréf með framvirkum samningi (afleiðu) ef viðkomandi býr yfir innherjaupplýsingum um undirliggjandi verðbréf. Markaðssvikin í slíkum tilvikum bitna hins vegar ekki á verðmyndun óframseljanlegrar afleiðu sem slíkrar heldur er afleiðan notuð í broti gegn hagsmunum markaðarins um að verðmyndun undirliggjandi verðbréfa sé rétt og jafnræði ríki um upplýsingar um verðbréfin.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við ákvæðið þar sem kveðið er á um það að ákvæði 55. gr. laganna eigi ekki við í ákveðnum tilvikum sem talin eru upp í tveimur töluliðum. Taka ákvæði 1. tölul. mið af reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um var fyrir markaðssvikum, endurkaupaáætlanir og verðjöfnun fjármálagerninga en ákvæði 2. tölul. taka mið af 7. gr. markaðssvikatilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. tölul. málsgreinarinnar eiga ákvæði 55. gr. laganna ekki við þegar um er að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Viðskipti með eigin fjármálagerninga í endurkaupaáætlun geta verið ætluð til lækkunar á eigin hlutum til að mæta skuldbindingum vegna breytanlegra skuldabréfa í hluti í útgefandanum og til að mæta skuldbindingum vegna kaupréttaráætlana fyrir starfsmenn. Verðjafnandi viðskiptum er ætlað að styðja við, í takmarkaðan tíma eftir útboð, verð viðkomandi verðbréfa ef söluþrýstingur skapast vegna aðgerða skammtímafjárfesta og til að viðhalda eðlilegu jafnvægi í verðmyndun með viðkomandi verðbréf. Er þetta gert í þágu viðkomandi útgefanda og þeirra fjárfesta sem hafa skráð sig fyrir eða keypt viðkomandi verðbréf í tengslum við sölu á miklu magni verðbréfanna. Þar með getur verðjöfnun verið liður í því að skapa aukið traust fyrir fjárfesta og útgefendur á fjármálamarkaði og bætt verðmyndun, framboð og eftirspurn. Skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins, er verður 73. gr. laganna, skal ráðherra setja reglugerð um undanþágur frá ákvæðum um markaðsmisnotkun og innherjasvik vegna endurkaupaáætlana og verðjöfnunar í samræmið við áðurnefnda reglugerð framkvæmdastjórnar ESB um var gegn markaðssvikum.
    Samkvæmt 2. tölul. málsgreinarinnar eiga ákvæði 55. gr. heldur ekki við þegar um er að ræða viðskipti ríkja eða seðlabanka innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu þessara aðila í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu.

Um 9. gr.


    Hér er lögð til breyting á 40. gr. laganna er verður 54. gr. verði frumvarp þetta að lögum. Um er að ræða orðalagsbreytingu sem snýr að því að nota hugtakið verðbréf í stað hugtaksins fjármálagerningar. Breytingin er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í a- og b-lið 8. gr. frumvarpsins og er vísað í skýringar við þau ákvæði.

Um 10. gr.


    Í greininni er lagt til að lögfest verði ný grein um markaðsmisnotkun og milligöngu fjármálafyrirtækis sem komi í stað 41. gr. núgildandi laga. Í ákvæðinu er lagt bann við markaðsmisnotkun og skilgreint nánar hvað felst í markaðsmisnotkun. Ákvæðið er nokkuð ítarlegra en ákvæði núgildandi laga og tekur mið af orðalagi markaðssvikatilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar er ítarlegra en ákvæði eldri tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 89/592/ EBE um samræmingu á reglum um innherjaviðskipti (e. Council Directive 89/592/EEC coordinating regulation on insider dealing) og er miðað að því að skýra betur markaðsmisnotkun.
    Í 1. mgr. er í fyrsta lagi kveðið á um að markaðsmisnotkun sé óheimil. Þá er í þremur töluliðum fjallað um það hvenær viðskipti og tilboð geta falið í sér markaðsmisnotkun. Upplýsingar um viðskipti og tilboð sem sýnileg verða markaðsaðilum eru mikilvæg forsenda verðmyndunar á markaði. Tilboð eða viðskipti sem gefa ekki rétta mynd af framboði, eftirspurn eða verði geta því haft alvarlegar afleiðingar fyrir markaðinn og skaðað hann. Til að um markaðsmisnotkun geti verið að ræða verða viðskipti að hafa átt sér stað eða tilboð hafa verið lagt fram og náð til aðila markaðarins með einum eða öðrum hætti því ella er ólíklegt að gerðir viðkomandi aðila hafi áhrif á verðmyndun. Í þessu samhengi er rétt að vísa til þess að tilraun og hlutdeild í brotum getur verið refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum, sbr. 3. mgr. 58. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti.
    Í a-lið 1. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að það teljist markaðsmisnotkun að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar um framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga. Ákvæðið er óbreytt frá 1. tölu. 1. mgr. 41. gr. núgildandi laga.
    Í b-lið 1. tölul. 1. mgr. er, í samræmi við a-lið 2. tölul. 1. gr. markaðssvikatilskipunarinnar, lagt til að það verði talin markaðsmisnotkun að eiga viðskipti eða gera tilboð sem tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum. Slíkt athæfi miðar að því að verð fjármálagerninga byggist á öðrum forsendum eða lögmálum en þeim sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði og gefur því aðra mynd af framboði, eftirspurn eða verði en þeirri sem felst í eðlilegri verðmyndun skipulegs verðbréfamarkaðar. Við ákvæðið er enn fremur bætt þeim fyrirvara að ef sá aðili sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau getur sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði sé ekki um markaðsmisnotkun að ræða. Er þetta nýmæli sem nauðsynlegt er talið að lögfesta þar sem að baki viðskiptum eða athöfnum, sem falla samkvæmt orðanna hljóðan undir ákvæðin, geta legið lögmætar ástæður sem eru í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd viðkomandi verðbréfamarkaðar. Einnig verður að gera ráð fyrir að þróun á markaðsframkvæmd, t.d. með tilkomu nýrra tegunda fjármálagerninga, geti samkvæmt orðanna hljóðan fallið tæknilega undir markaðsmisnotkun samkvæmt ákvæðinu, en hljóti þrátt fyrir það viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins, sbr. athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins. Í undantekningartilvikum getur því verið ástæða til að taka tillit til heildarsýnar á viðskiptin og þeirra ástæðna og markaðsvenja sem að baki liggja. Í framangreindri markaðssvikatilskipun og annarri undirtilskipun um markaðssvik, sem fjallar um skilgreiningu og birtingu á innherjaupplýsingum og skilgreiningu á markaðsmisnotkun, er nánar kveðið á um hvernig slík markaðsframkvæmd fæst viðurkennd af Fjármálaeftirlitinu. Ekki er gert ráð fyrir að aðrar markaðsframkvæmdir en þær sem samkvæmt orðanna hljóðan falla undir brotalýsingu a- og b-liðar 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins verði viðurkenndar.
    Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. eru að mestu í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 41. gr. núgildandi laga. Þó er lögð til nokkur orðalagsbreyting í samræmi við b-lið 2. tölul. 1. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Lagt er til að orðalagi greinarinnar verði breytt þannig að hugtökin tilbúningur (e. fictitious devices) og sýndarmennska (e. contrivance) verði notuð til útfærslu á aðferðum í stað þess að tilgreind séu viðskipti eða tilboð sem leiða til óeðlilegs verðs. Áhersla ákvæðisins er því nú lögð á þær óeðlilegu aðferðir sem liggja að baki verðmyndun viðkomandi fjármálagerninga. Slík viðskipti og tilboð eru sneydd viðskiptalegum forsendum sem almennt liggja að baki eðlilegum viðskiptum á skipulegum verðbréfamörkuðum.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að það teljist markaðsmisnotkun að dreifa upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi. Þegar fjölmiðlamenn miðla slíkum upplýsingum í krafti starfs síns ber að meta slíka upplýsingamiðlun með hliðsjón af reglum um starfsgrein þeirra, svo fremi þessir aðilar hljóti hvorki ávinning né hagnist af miðlun viðkomandi upplýsinga með beinum eða óbeinum hætti. Um er að ræða aðrar aðferðir markaðsmisnotkunar en þær sem beinlínis er að rekja til viðskipta eða tilboða. Ýmsar fréttir af útgefendum viðkomandi fjármálagerninga eru til dæmis til þess fallnar að hafa áhrif á verðmyndun þeirra og því mögulegt að hafa áhrif með óeðlilegum hætti með því að dreifa upplýsingum til markaðarins. Slík misnotkun er ekki síður til þess fallin að skaða markaðinn en misnotkun sem má rekja til viðskipta eða tilboða sem ekki eru byggð á eðlilegum forsendum.
    Orðalag 1. málsl. ákvæðisins er sambærilegt núgildandi ákvæði fyrir utan það nýmæli að gerður er áskilnaður um að sá sem dreifir slíkum upplýsingum sé grandsamur eða megi vita að upplýsingarnar séu rangar eða misvísandi. Er þannig komið í veg fyrir að grandlausir milliliðir, t.d. dreifingaraðilar eða fjölmiðlar, gerist brotlegir gegn ákvæðinu í góðri trú, sbr. þó umfjöllun um 2. málsl. 3. tölul. greinarinnar. Ekki er gerð krafa um ákveðið form dreifingar. Þá er nýjum málslið verði bætt við ákvæðið og snýr hann sérstaklega að fjölmiðlamönnum. Skal því meta upplýsingamiðlun fjölmiðlamanna með hliðsjón af reglum sem gilda um starfsgrein þeirra, svo sem siðareglum Blaðamannafélags Íslands eða innri starfsreglum viðkomandi fjölmiðils. Hafa ber í huga að framangreind regla miðast við að þeir aðilar sem um er að ræða hljóti hvorki ávinning né hagnist af miðlun upplýsinganna með beinum eða óbeinum hætti. Ef sýnt er fram á hagnað eða ávinning þeirra gilda almennar reglur um þá hvað þetta varðar.
    Lagt er til að núgildandi 4. tölul. 41. gr. laganna verði felldur brott. Þess í stað er lagt til að meginreglan um birtingu innherjaupplýsinga verði lögfest og flokkast brot sem fela í sér ólögmæta frestun á slíkri birtingu innherjaupplýsinga sem brot gegn meginreglunni um tafarlausa birtingu innherjaupplýsinga, í stað þess að slíkt sé fellt undir markaðsmisnotkun. Ef viðskipti eiga sér stað undir slíkum kringumstæðum geta þau einnig falið í sér innherjasvik.
    2. mgr. greinarinnar er óbreytt frá 2. mgr. 41. gr. núgildandi laga.
    Í 3. mgr. er, eins og í núgildandi ákvæði, kveðið á um skyldu starfsmanna fjármálafyrirtækja til að tilkynna um brot gegn ákvæðum 1. mgr. um markaðsmisnotkun. Þó eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðinu, m.a. að bætt verði við það fjórum nýjum málsliðum sem fjalla um tilkynningarskyldu (e. whistle blowing) og bótaábyrgð. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi kveðið á um skyldu starfsmanna fjármálafyrirtækja til að tilkynna rökstuddan grun þeirra um brot gegn ákvæðinu til næsta yfirmanns eða regluvarðar fyrirtækisins. Fyrirtækinu er þar með skylt að tilkynna brotið áfram til Fjármálaeftirlitsins. Starfsmanni er enn fremur heimilt að tilkynna um slíkan rökstuddan grun beint til Fjármálaeftirlitsins, kjósi hann það. Hins vegar er ekki lögð skylda á hann til að tilkynna um grun sinn beint til Fjármálaeftirlitsins. Slíkar skyldur á starfsmenn gætu orðið mjög íþyngjandi enda ljóst að viðkomandi einstaklingur getur lent í hagsmunaárekstrum ef hann stendur frammi fyrir slíkri skyldu. Skyldan hvílir því á fjármálafyrirtækinu í þessu tilviki. Í öðru lagi er lagt til að tilkynning starfsmanns eða fjármálafyrirtækis um grun um markaðsmisnotkun teljist ekki brot á þagnarskyldu sem viðkomandi er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti, enda sé tilkynning um grun um brot gegn ákvæðinu gerð í góðri trú. Upplýsingagjöf samkvæmt framangreindu leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi aðilum, enda óeðlilegt að tilkynnandi eigi yfir höfði sér skaðabóta- eða refsikröfu ef tilkynning er á annað borð gerð í góðri trú. Í þriðja lagi er lagt til að óheimilt verði að upplýsa viðskiptamann eða annan utanaðkomandi aðila um að Fjármálaeftirlitinu hafi verið veittar upplýsingar um grun um brot gegn 1. mgr. Slík upplýsingagjöf getur annars vegar spillt rannsóknarhagsmunum en einnig er nauðsynlegt að gæta trúnaðar gagnvart þeim sem tilkynnir. Augljósir hagsmunaárekstrar geta orðið í þessum tilvikum milli starfsmanna fjármálafyrirtækja og fjármálafyrirtækja gagnvart viðskiptamönnum þeirra og er nauðsynlegt að veita starfsmönnum fjármálafyrirtækja skjól gegn því að rannsókn Fjármálaeftirlits sé rakin til tiltekins starfsmanns.
    Ákvæðið í heild sinni miðar þannig að því að hvetja aðila, sem í góðri trú telja að markaðsmisnotkun hafi átt sér stað, til að tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins og draga úr hagsmunaárekstrum þess einstaklings sem tilkynnir. Hins vegar er sá eðlilegi fyrirvari gerður að tilkynning sé gerð í góðri trú. Gert er ráð fyrir nánari umfjöllun um efnisatriði þessa ákvæðis í reglugerð sem ráðherra setur skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.) til innleiðingar á ákvæðum úr fyrstu og annarri undirtilskipun um markaðssvik.

Um 11. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 42. gr. laganna sem verður 56. gr. ef frumvarp þetta verður að lögum.
    Í 1. og 2. tölul. eru lagðar til orðalagsbreytingar sem snúa að því að nota hugtakið verðbréf í stað hugtaksins fjármálagerningar. Breytingin er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í a- og b-lið 8. gr. frumvarpsins og er vísað í skýringar við þau ákvæði.
    Í c-lið er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að 60. gr. laganna eigi ekki við þegar um er að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlunum eða við verðjöfnun fjármálagerninga, en tekið fram að önnur ákvæði kaflans skuli gilda um slík viðskipti eftir atvikum. Gert er ráð fyrir því að í reglum sem settar verða skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.) verði kveðið nánar á um ákvæði undirtilskipunar um var gegn markaðssvikum vegna endurkaupaáætlana og verðjöfnunar og um undanþágur frá ákvæðum vegna þeirra í VIII. og IX. kafla laganna um markaðsmisnotkun og innherjasvik.

Um 12. gr.


    Í núgildandi lögum eru hugtökin innherji og innherjaupplýsingar skilgreind í 43. gr. Hér er lagt til að í stað þeirrar greinar komi tvær greinar og að til aðgreiningar og aukins skýrleika verði hugtakið innherjaupplýsingar skilgreint í annarri greininni og hugtakið innherji í hinni.
    Í a-lið ákvæðisins er lagt til að í grein er verður 57. gr. laganna verði hugtakið innherjaupplýsingar skilgreint. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðinu frá því sem nú er í 1. mgr. 43. gr. laganna, heldur skýrt með nákvæmari hætti hvað felist í hugtakinu. Taka orðalagsbreytingarnar mið af fyrstu undirtilskipuninni um markaðssvik. Samkvæmt tilskipuninni ber aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu að tryggja markaðsaðilum aukið réttaröryggi með því að skýra nánar tvo grundvallarþætti í skilgreiningunni á innherjaupplýsingum, annars vegar hvort upplýsingarnar séu nægjanlega tilgreindar (e. precise nature) og hins vegar hvort upplýsingarnar séu taldar hafa marktæk áhrif (e. significant effect). Upplýsingar eru taldar vera nægjanlega tilgreindar ef þær gefa til kynna kringumstæður sem eru fyrir hendi eða eru líklegar til að verða fyrir hendi eða atburð sem hefur átt sér stað eða er líklegur til að eiga sér stað og er nægjanlega sérgreindur til að unnt sé að draga ályktun um hugsanleg áhrif þessa á markaðsverð viðkomandi verðbréfa. Við mat á því hvort upplýsingar hafi marktæk áhrif skal litið til þess hvort vitneskjan er líkleg til að hafa slík áhrif á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast, ef upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar, að líkur séu á að skynsamur fjárfestir mundi nota upplýsingarnar sem hluta af þeim grunni sem hann byggir fjárfestingarákvarðanir sínar á. Þá er bætt við ákvæðið tilvísun í reglugerð sem setja skal skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.), en þar munu framangreind hugtök verða skýrð með ítarlegri hætti.
    Þegar talað er um að innherjaupplýsingar séu með beinum eða óbeinum hætti líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð fjármálagerninga er t.d. átt við að upplýsingarnar geti haft áhrif á dótturfélag jafnt sem móðurfélag.
    Skilgreining á því hvenær upplýsingar teljast opinberar er óbreytt. Algengast er að upplýsingar séu gerðar opinberar með birtingu þeirra á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði, enda stafi slíkar upplýsingar frá útgefanda sjálfum. Hins vegar má vera að upplýsingar teldust, að mati dómstóla, opinberar með öðrum hætti, þannig að saknæmisskilyrði innherjasvikaákvæðisins teldust ekki uppfyllt. Slík upplýsingamiðlun gæti eftir sem áður talist brot á upplýsingaskyldu skv. 13. gr. frumvarpsins stafi upplýsingarnar frá útgefandanum. Einnig kann að vera að innherjaupplýsingar sem varða útgefendur verðbréfa verði t.d. til hjá opinberum aðilum, eða öðrum aðilum, og er ekki einhlítt að slíkum upplýsingum sé miðlað til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar. Slíkum upplýsingum kann því að vera miðlað til markaðarins með öðrum hætti sem jafna mætti til opinberrar birtingar hjá viðkomandi verðbréfamarkaði.
    Í b-lið ákvæðisins er lagt til að í grein er verður 58. gr. laganna verði hugtakið innherji skilgreint. Ákvæðið er að mestu óbreytt frá 2. mgr. 43. gr. núgildandi laga, en breytingar hafa verið gerðar á orðalagi og tekur það nú mið af markaðssvikatilskipuninni. Þá er gert ráð fyrir að fallið verði frá því að skilgreina aðila sem fruminnherja á grundvelli eignaraðildar eingöngu og slíkur aðili þess í stað skilgreindur sem tímabundinn innherji. Það að skilgreina eigendur sem fruminnherja hefur í framkvæmd verið til trafala fyrir aðila sem eiga stóra eignarhluti í skráðum félögum en hafa ekki önnur tengsl við útgefanda en í gegnum verulegan eignarhlut sinn. Yfirleitt hafa eigendur stórra eignarhluta þó stjórnarmann sem er þeim nátengdur en það er þó engan veginn algilt. Slíkir aðilar teljast þá eftir sem áður fruminnherjar vegna aðildar sinnar að stjórn félagsins. Hins vegar eru til fjárfestar sem fjárfesta aðeins til ávöxtunar en ekki áhrifa en einnig kann að vera að eignarhlutur nægi ekki til að koma að stjórnarmanni vegna dreifingar eignaraðildar í félaginu að öðru leyti. Þessir aðilar geta engu að síður talist til innherja þar sem fjárfestingarákvarðanir þeirra, t.d. um ráðstöfun á verulegum eignarhlut sínum eða réttindum sem honum fylgja, geta haft áhrif á fjárfestingarákvarðanir annarra fjárfesta og þar með fallið undir skilgreiningu á innherjaupplýsingum. Slíkar sjálfsprottnar upplýsingar eiga þó ekki að koma í veg fyrir að viðkomandi eigandi geti átt viðskipti með hluti sem upplýsingarnar beinast að. Eðlilegt er að þessir aðilar teljist almennt ekki til innherja félags nema þeir hafi í hyggju að ráðstafa þeim eignarhlut með þeim hætti að skilgreining um innherjaupplýsingar nái yfir þá ráðstöfun. Á meðan þeir hafa ekkert slíkt í hyggju telst eignarhlutur þeirra einn og sér ekki til innherjaupplýsinga og þeir hafa því fulla heimild til viðskipta. Flöggunarreglur gefa síðan almennt nægar upplýsingar um hvort þessir aðilar eru að bæta við eða draga úr eignarhluta sínum. Upplýsingarnar geta hins vegar talist innherjaupplýsingar og ber þessum aðilum þá að gæta allra ákvæða laganna sem gilda um meðferð slíkra upplýsinga. Þeim er t.d. óheimilt að gera öðrum aðvart um fyrirætlanir sínar nema í samræmi við lögin eða ráðleggja þriðja aðila á grundvelli þeirra og af því leiðir að öðrum er óheimilt að eiga viðskipti á grundvelli upplýsinga um fyrirætlanir þessara aðila. Upplýsingarnar koma hins vegar ekki í veg fyrir að þau viðskipti sem upplýsingarnar beinast að fari fram þrátt fyrir að almenna reglan sé sú að viðskipti tímabundinna innherja séu með öllu óheimil.
    Á grundvelli 51. gr. núgildandi laga setja útgefendur verðbréfa sér reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Í slíkum reglum er gjarnan að finna heimild regluvarðar til að banna viðskipti fruminnherja ef innherjaupplýsingar liggja fyrir innan félags án þess að gefnar séu ástæður fyrir slíku banni. Liggi innherjaupplýsingar fyrir hjá útgefanda umræddra hluta, svo sem í stjórn eða framkvæmdastjórn, getur það verið óþörf takmörkun á ráðstöfunarheimild þess hluthafa á hlutum hans, enda hefur hann engan aðgang að þeim innherjaupplýsingum sem legið geta fyrir hjá útgefanda.
    Ófrávíkjanlegt skilyrði þess að eigandi verulegs eignarhlutar teljist ekki fruminnherji heldur aðeins tímabundinn innherji er að þeir hafi ekki að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri og eftirliti eða annarra starfa á vegum útgefanda. Hafi þeir slíkan aðgang falla þeir undir skilgreiningu á fruminnherjum og þurfa að hlíta þeim reglum sem um þá aðila gilda, þar á meðal um rannsóknarskyldu og tilkynningar um viðskipti. Þá má geta þess að hvergi er kveðið á um skyldu regluvarðar til að gefa leyfi fyrir viðskiptum og getur staða fruminnherja á grundvelli eignaraðildar, eingöngu sem fjárfestir í viðkomandi útgefanda í óþökk stjórnenda þess, orðið óheppileg. Sérstaklega á það við þar sem hann hefur engan aðgang að innherjaupplýsingum útgefandans. Í ljósi þessa er talið eðlilegt að breyta stöðu þessara aðila úr því að vera fruminnherjar yfir í að verða tímabundnir innherjar og þar með auka samræmi reglna íslensks fjármálamarkaðar við reglur nágrannamarkaða.

Um 13. gr.


    Í greininni er lagt til að nýrri grein, sem verður 59. gr. laganna, verði bætt við lögin. Ákvæðið er nýmæli en þar er fjallað um upplýsingaskyldu, frestun upplýsingaskyldu og lögmæta miðlun innherjaupplýsinga. Orðalag ákvæðisins tekur mið af markaðssvikatilskipuninni.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að útgefanda verðbréfa sem tekin hafa verið til skráningar á skipulegum verðbréfamarkaði beri að tilkynna þegar í stað allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem verðbréf hans eru skráð. Síðan skal skipulegur verðbréfamakaður miðla þeim upplýsingum í upplýsingakerfi sínu, og teljast upplýsingarnar opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan. Tilgangur ákvæðisins er að auka vernd fjárfesta, en ákvæðið er sambærilegt ákvæðum 24. gr. laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
    Nauðsynlegt er að útgefendur sendi innherjaupplýsingar eins fljótt og mögulegt er til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem verðbréf hans eru skráð. Viðkomandi verðbréfamarkaður miðlar upplýsingunum áfram með opinberum hætti í því skyni að almenningur fái skjótan aðgang að upplýsingunum og geti lagt mat á þær í tæka tíð. Erfitt er að gefa algilda leiðbeiningu um hvenær tilkynningarskylda útgefanda stofnast. Ljóst er að hún getur stofnast áður en samningur er undirritaður eða formleg ákvörðun er tekin, t.d. í stjórn félags, enda séu yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi tilkynningarskyldur atburður muni eiga sér stað. Birta verður upplýsingarnar á öllum skipulegum verðbréfamörkuðum þar sem útgefandi hefur sótt um eða samþykkt að fjármálagerningar hans verði teknir til skráningar. Þannig ætti jafn aðgangur fjárfesta á Evrópska efnahagssvæðinu að slíkum upplýsingum að vera tryggður og líkurnar á innherjasvikum að minnka. Ef breytingar verða á áður birtum innherjaupplýsingum sem haft geta áhrif á verðmyndun viðkomandi verðbréfa ber þegar í stað að birta opinberlega upplýsingar um þær. Upplýsingarnar skulu birtar eftir sömu leiðum og voru notaðar til að birta upprunalegu upplýsingarnar opinberlega.
    Í ákvæðinu er kveðið er á um skyldu skipulegs verðbréfamarkaðar til að birta upplýsingar sem til hans eru sendar og er ákvæðið óbreytt frá gildandi rétti. Skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 34/1998 hefur skipulegur verðbréfamarkaður uppfyllt skyldu sína með því að miðla upplýsingum til kauphallaraðila. Í framkvæmd hefur skipulegur verðbréfamarkaður miðlað upplýsingunum til allra með birtingu upplýsinga á heimasíðu. Hafi komið upp tæknilegir örðugleikar hefur upplýsingunum verið miðlað til kauphallaraðila eingöngu, t.d. með tölvupósti. Í ljósi þess að ekki er hægt að útiloka að hefðbundin upplýsingakerfi (nú heimasíða) bregðist verður að líta svo á að skipulegur verðbréfamarkaður hafi uppfyllt skyldu sína til birtingar upplýsinga með því að nota önnur upplýsingakerfi, sbr. t.d. miðlun tölvupósts til kauphallaraðila. Augljóst má telja að stöðvun alls markaðar við slíkar aðstæður yrði of afdrifarík aðgerð. Því til viðbótar hefur framkvæmdin verið á þá leið að berist upplýsingar til birtingar utan opnunartíma markaðar er útgefanda talið heimilt að birta þær í öðrum fréttamiðlum, enda birtist upplýsingarnar fyrir opnun viðskipta á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði og útgefandi hafi sent þær til skipulegs verðbréfamarkaðar áður en hann dreifir þeim frekar. Ekki er litið svo á að innleiðing markaðssvikatilskipunarinnar leiði til breytinga á þessu fyrirkomulagi.
    Opinber birting innherjaupplýsinga sem falla undir ákvæði greinarinnar fer fram með tilkynningu útgefandans til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar og teljast upplýsingarnar opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan. Ef upplýsingunum er hins vegar miðlað á verðbréfamarkaðinn með öðrum hætti, sbr. ákvæði 3. málsl. a-liðar 12. gr. frumvarpsins (57. gr.) getur slíkt orðið til þess að saknæmisskilyrði fyrir innherjasvikum bresti, en eftir stendur að slík birting upplýsinganna kann að teljast brot á ákvæði þessarar greinar, enda stafi upplýsingarnar frá útgefanda sjálfum.
    Útgefanda er heimilt að fresta birtingu upplýsinga skv. 1. mgr. í því skyni að vernda lögmæta hagsmuni sína. Frestunin er hins vegar á ábyrgð útgefanda og má ekki vera líkleg til að villa um fyrir almenningi. Einnig verður útgefandi að geta tryggt trúnað um upplýsingarnar til að koma í veg fyrir innherjasvik. Ætlast er til að útgefandi geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir aðgang annarra en þeirra sem þurfa nauðsynlega á upplýsingunum að halda og eðlilegt er að upplýsingunum sé miðlað til vegna starfs, stöðu eða skyldna þess sem miðlar upplýsingunum, sbr. ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. núgildandi laga. Einnig ber útgefanda að gera þeim aðilum sem hafa aðgang að slíkum upplýsingum grein fyrir þeim laga- og eftirlitsskyldum sem því fylgir og þeim viðurlögum sem eru við misnotkun eða miðlun slíkra upplýsinga, sbr. 50. gr. núgildandi laga sem lagt er til skv. 18. gr. frumvarpsins að verði að 66. gr. Gert er ráð fyrir að allir þeir sem fá aðgang að innherjaupplýsingunum verði bundnir trúnaði um þær hvort sem slíkur trúnaður byggist á lögum, reglugerð eða sérstökum samningi. Þá ber útgefanda að gera ráðstafanir sem veita möguleika á tafarlausri birtingu viðkomandi upplýsinga í þeim tilvikum þar sem ekki tekst að tryggja trúnað um upplýsingarnar með þeim hætti sem í ákvæðinu greinir. Í þessu tilviki getur útgefandi t.d. ekki stýrt dreifingu upplýsinganna, þannig að þær eru komnar til aðila sem útgefandi getur ekki tryggt að gæti trúnaðar um þær.
    Gert er ráð fyrir nánari umfjöllun um heimildir til frestunar upplýsingagjafar í reglugerð sem ráðherra setur skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.) og innleiðir sú reglugerð nánar ákvæði úr fyrstu undirtilskipun um markaðssvik varðandi þá lögmætu hagsmuni sem geta heimilað frestun upplýsingagjafar.

Um 14. gr.


    Hér eru lagðar til nokkrar breytingar á 44. gr. laganna sem verður 60. gr. verði frumvarp þetta að lögum. Ákvæðið fjallar um og skilgreinir innherjasvik og er það nokkuð ítarlegra en ákvæði núgildandi laga.
    Í a-lið er lögð til orðalagsbreyting á 1. tölul 1. mgr. og orðalag ákvæðisins þannig fært nær orðalagi 2. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar eru ítarlegri en ákvæði tilskipunar 89/592/EBE um samræmingu á reglum um innherjaviðskipti og miða þau að því að skýra betur hvað felst í innherjasvikum. Með breytingunni er ætlunin að taka af öll tvímæli um að ráðstafanir á t.d. eignarhlut í eignarhaldsfélagi, sem stofnað hefur verið um hluti sem innherjaupplýsingar liggja fyrir um, geti með óbeinum hætti falið í sér ráðstöfun á viðkomandi hlutum og þar með fallið undir innherjasvik. Í ráðstöfun eignarhaldsfélagsins er lagt mat á verðmæti eigna þess, þ.e. þeirra hluta sem innherjaupplýsingarnar varða, og því óheimilt að sá aðili sem býr yfir innherjaupplýsingum ráðstafi hlutunum með slíkum hætti, þótt með óbeinum hætti sé. Eftir sem áður er þó ákveðið ósamræmi í skilgreiningu tilskipunarinnar annars vegar og íslenska lagaákvæðinu hins vegar sem felst í því að tilskipunin gerir ráð fyrir að um nýtingu upplýsinga sé að ræða en það orðalag var fellt brott úr íslenskum lögum á árinu 2002 í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í sakamálinu nr. 601/2001 (Skeljungsmálið). Um ástæður að baki þeirri breytingu vísast til greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 39/2002.
    Í b-lið er lagt til að í stað 2. mgr. 44. gr. komi tvær nýjar málsgreinar. Í þeirri málsgrein sem verður 2. mgr. er kveðið á um það að ákvæði 1. mgr. nái einnig til í fyrsta lagi lögaðila og aðila sem taka þátt í ákvörðun um viðskipti með fjármálagerninga fyrir reikning lögaðilans og í öðru lagi til aðila sem búa yfir innherjaupplýsingum á grundvelli ólögmæts atferlis. Fyrri hluti málsgreinarinnar er óbreyttur frá núgildandi lögum, en ákvæði síðari töluliðar málsgreinarinnar eru nýmæli. Talið er að nauðsyn beri til að festa slíkt ákvæði í lög, enda verður að gera ráð fyrir að innherjasvik geti átt sér stað með notkun innherjaupplýsinga sem eiga ekki rætur sínar að rekja til lögmætrar starfsemi heldur einhvers konar afbrota. Undirbúningur og framkvæmd slíkra afbrota getur vissulega haft marktæk áhrif á verð verðbréfa og á verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði sem slíkum. Því þykir rétt að gera skýra grein fyrir því í lagatexta að aðila, sem býr yfir innherjaupplýsingum sem hann veit að upprunnar eru á grundvelli ólögmæts atferlis, er óheimilt að nýta, afla eða ráðstafa þeim á þann hátt sem tiltekið er í 1. mgr þessarar greinar.
    Í því sem verður 3. mgr. ákvæðisins er lagt til að kveðið verði á um að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. eigi ekki við skv. 1. tölul. þegar um er að ræða viðskipti innherja þar sem fullnægt er gjaldfallinni samningsskyldu til að afla eða ráðstafa fjármálagerningum sem stofnað var til áður en innherjinn komst yfir innherjaupplýsingar og skv. 2. tölul. þegar um er að ræða viðskipti þar sem fylgt er beinum fyrirmælum viðskiptavinar um ráðstöfun, pöntun eða miðlun fjármálagerninga eða þar sem framfylgt er með venjubundnum hætti samningsbundinni skyldu um viðskiptavaka í samræmi við ákvæði VIII. kafla laganna. Ákvæði 1. tölul. felur í sér nýmæli og er 3. tölul. 2. gr. markaðssvikatilskipunarinnar innleiddur með því. Þar er sá fyrirvari gerður við 1. tölul. innherjasvikaákvæðisins að ef innherji getur sýnt fram á að viðskipti sín séu í samræmi við skyldu samkvæmt samningi sem gerður var áður en innherji öðlaðist innherjaupplýsingarnar eigi bann við þeim viðskiptum sem samningurinn nær til ekki við. Sem dæmi um þetta má nefna framvirkan samning um hlutabréf sem gerður er á þeim tíma þegar ekki liggja fyrir innherjaupplýsingar hjá aðilum samningsins. Þrátt fyrir að annar samningsaðila kunni að búa yfir innherjaupplýsingum þegar að gjalddaga samningsins kemur eiga slíkar upplýsingar ekki að koma í veg fyrir réttar efndir þess samnings. Sama gildir um valréttarsamning þar sem sá sem ekki hefur val um hvort samningurinn skuli efndur býr yfir innherjaupplýsingum þegar að gjalddaga kemur. Honum ber að efna sína skyldu samkvæmt valréttarsamningnum kjósi gagnaðili hans að nýta valréttinn og geta slíkar efndir ekki falið í sér innherjasvik. Öðru máli gegnir um þann sem rétt á til að nýta valréttinn. Hann þarf að taka ákvörðun um hvort hann nýtir valrétt eða ekki og búi hann yfir innherjaupplýsingum fæli ákvörðun um að nýta valrétt í sér innherjasvik af hans hálfu.
    Ákvæði 2. tölul. felur einnig í sér nýmæli. Því er ekki ætlað að innleiða ákvæði markaðssvikatilskipunar, en þó er sama hugsun orðuð í 18. lið formála að tilskipuninni. Þá má benda á að í danskri og sænskri löggjöf er að finna sambærilegt undanþáguákvæði. Í fyrri málslið ákvæðisins er mælt fyrir um að í ákveðnum tilvikum þar sem fylgt er beinum fyrirmælum viðskiptavinar um pöntun eða miðlun fjármálagerninga eigi ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga þessara um innherjasvik ekki við. Til þess að fyrrgreindum skilyrðum teljist fullnægt verður að vera um nákvæma afmarkaða pöntun að ræða um kaup eða sölu á ákveðnum fjármálagerningum sem berst frá viðskiptavini til fjármálafyrirtækis með sannanlegum hætti. Það er ekki nægilegt að um sé að ræða almenna óskilgreinda ósk um kaup eða sölu á fjármálagerningum. Því fellur t.d. samningur um eignastýringu utan undanþágunnar. Þegar fjármálafyrirtæki framkvæmir viðskipti fyrir hönd viðskiptavinar eftir beinum fyrirmælum eins og hér er lýst er í raun ekki um það að ræða að fjármálafyrirtækið sé að afla eða ráðstafa fjármálagerningum, en rétt þykir að taka af allan vafa um að fjármálafyrirtæki geti haldið áfram að sinna þjónustu sinni við viðskiptamenn sem koma með bein fyrirmæli þar um þrátt fyrir að innherjaupplýsingar séu fyrirliggjandi innan fjármálafyrirtækisins sem tengjast þeim bréfum sem aflað er eða ráðstafað. Bent skal á að undanþága er eingöngu gerð frá 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga þessara til þess að starfsmaður fjármálafyrirtækis geti framfylgt beinum fyrirmælum viðskiptavinar, en undanþágan á ekki við um 2. og 3. tölul. 1. mgr. 44. gr. þar sem bann er lagt við því að miðla innherjaupplýsingum, nema gert sé í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur, eða ráðleggja á grundvelli innherjaupplýsinga. Þá skal áréttað að undanþága þessi dregur á engan hátt úr skyldu fjármálafyrirtækis skv. 45. gr. laga þessara um milligöngu fjármálafyrirtækis hafi starfsmenn þess vitneskju eða grun um að ákvæðin brjóti í bága við ákvæði kaflans, þar á meðal gegn ákvæðum um innherjasvik. Loks skal áréttað að ákvæðið fjallar aðeins um milligönguaðilann, þ.e. fjármálafyrirtækið og starfsmann þess, en breytir engu um sekt eða sakleysi þess sem setur pöntunina fram. Sakarmat vegna gerða þess aðila fer alfarið eftir ákvæðum 1. mgr. 44. gr. og eftir atvikum 2. mgr. 44. gr. laga þessara ef um lögaðila er að ræða. Sé viðskiptavinurinn tengdur fjármálafyrirtækinu, t.d. annað svið eða deild innan þess, getur pöntun frá slíkum aðila á sama tíma og innherjaupplýsingar eru fyrirliggjandi innan bankans gert það að verkum að fjármálafyrirtækið verði ábyrgt skv. 2. mgr. greinarinnar þó að miðlunin sjálf leiði ekki til þeirrar niðurstöðu.
    Í síðari hluta 2. tölul. er mælt fyrir um að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laganna eigi ekki við í þeim tilvikum þegar öflun eða ráðstöfun fjármálagerninga er hluti af samningsbundinni skyldu fjármálafyrirtækis um viðskiptavaka, sbr. ákvæði VIII. kafla laganna um viðskiptavaka. Undanþágan á því aðeins við þegar um er að ræða formlegan samning um viðskiptavaka sem birtur hefur verið og ef viðskiptin fela í sér venjubundin viðskipti í samræmi við samningbundna skyldu. Þar sem viðskiptavakt er að jafnaði sinnt fyrir eigin reikning fjármálafyrirtækis verður að slá þann varnagla við undanþáguákvæðið að um venjubundin viðskipti samkvæmt viðskiptavakasamningi sé að ræða. Sé brugðið út frá hefðbundnu mynstri viðskipta fjármálafyrirtækisins um viðskiptavakt á sama tíma og innherjaupplýsingar eru fyrirliggjandi innan fjármálafyrirtækis geta legið því til grundvallar eðlilegar og lögmætar ástæður. Við slíkar kringumstæður væri þó óeðlilegt að lögboðið var frá innherjasvikareglum ætti við heldur þyrfti að fara fram mat á virkni kínamúra í hverju tilviki fyrir sig, líkt og gert er í öðrum málum þar sem innherjasvikaákvæði koma til athugunar í tengslum við fjármálafyrirtæki sem hafa aðskilið starfssvið sín með kínamúrum.

Um 15. gr.


    Ákvæði þetta er samhljóða ákvæði lokamálsgreinar 10. gr. frumvarpsins, sem verður 3. mgr. 55. gr. laganna nái frumvarp þetta fram að ganga. Um skýringar er vísað til athugasemda við 10. gr. hér að framan.

Um 16. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 47. gr. laganna, sem verður 63. gr. ef frumvarpið verður að lögum. Ákvæðið fjallar um tilkynningarskyldu fruminnherja.
    Breytingarnar fela í sér að í stað þess að útgefanda beri að tilkynna um viðskipti innherja með verðbréf útgefanda til skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem viðkomandi verðbréf eru skráð eða óskað hefur verið eftir skráningu á þeim eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum er lagt til að útgefandinn tilkynni viðskiptin til Fjármálaeftirlitsins. Breytingin tekur mið af 4. tölul. 6. gr. markaðssvikatilskipunarinnar og þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði í 17. gr. frumvarpsins, þar sem gert er ráð fyrir að einungis verði birtar upplýsingar um viðskipti stjórnenda, en ekki allra fruminnherja eins og verið hefur. Þá er breytingin í samræmi við önnur ákvæði tilskipunarinnar sem gera ráð fyrir að hvert ríki á Evrópska efnahagssvæðinu tilnefni eitt lögbært, óháð stjórnvald sem ætlað er að tryggja rétta framkvæmd laga og reglna sem sett eru til að innleiða tilskipunina.
    Kveðið er á um í tilskipuninni að framangreindar upplýsingar skuli sendar hinu lögbæra stjórnvaldi í viðkomandi landi. Í íslenskum lögum og reglum er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið sé hið lögbæra stjórnvald á Íslandi. Þar af leiðandi má teljast eðlilegt og í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar að upplýsingarnar séu sendar til Fjármálaeftirlitsins.

Um 17. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 48. gr. laganna, sem verður 64. gr. verði frumvarpið að lögum, en ákvæðið fjallar um birtingu upplýsinga um viðskipti stjórnenda.
    Miða breytingartillögurnar að því að birting upplýsinga um viðskipti miðist við stjórnendur en ekki fruminnherja eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Á öllum helstu verðbréfamörkuðum hvílir skylda á stjórnendum að gera opinberlega grein fyrir viðskiptum þeirra og fjárhagslega tengdra aðila með hluti í því félagi sem stjórnendurnir tengjast. Segja má að mikilvægi slíkra tilkynninga sé tvíþætt. Annars vegar eru upplýsingarnar mikilvægar í eftirlitsskyni til að átta sig á því hvort slík viðskipti fari mögulega á svig við ákvæði um meðferð innherjaupplýsinga. Hins vegar geta slíkar upplýsingar haft verðmótandi áhrif fyrir viðkomandi félag. Nýmæli felast í því að ekki eru birtar opinberlega upplýsingar um viðskipti annarra innherja en stjórnenda og aðila sem eru þeim fjárhagslega tengdir og því ekki lengur krafist að gerðar séu opinberar upplýsingar um viðskipti allra þeirra sem kunna að hafa stöðu fruminnherja, sbr. t.d. ritari forstjóra eða starfsmaður í bókhaldi. Upplýsingar um slík viðskipti hafa síður upplýsingagildi fyrir markaðinn, en eru eftir sem áður tilkynningarskyld til eftirlitsaðila skv. 16. gr. frumvarpsins, enda eru eftirlitshagsmunir gagnvart þessum aðilum jafnríkir og áður, stöðu þeirra vegna. Enn fremur verður breyting á upplýsingagjöf um viðskipti fruminnherja sem eru innherjar á grundvelli eignarhalds eingöngu, sem samkvæmt frumvarpinu teljast tímabundnir innherjar í stað fruminnherja. Upplýsingagjöf um viðskipti þeirra sem innherja verður ekki lengur til staðar en ákvæði svokallaðra flöggunarreglna munu eftir sem áður gilda um viðskipti þeirra. Krafa gildandi laga um upplýsingar gengur öllu lengra en gerist á helstu mörkuðum og gert er ráð fyrir í markaðssvikatilskipuninni. Í þessu sambandi er rétt að vísa til ákvæðis 14. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að bætt verði við ákvæðið um innherjasvik að innherja sé óheimilt með beinum eða óbeinum hætti að afla eða ráðstafa fjármálagerningum, en ákvæðinu er ætlað að ná yfir t.d. ráðstafanir innherja á eignarhaldsfélögum sem stofnuð hafa verið utan um eignarhluti þeirra. Tilkynningar um slík viðskipti mundu einnig falla undir ákvæði 17. gr. frumvarpsins og lúta skyldum um að verða gerð opinber, enda geta slíkar upplýsingar ekki síður verið verðmyndandi en upplýsingar um ráðstafanir hlutanna með beinum hætti.
    Í a-lið ákvæðisins er gerð tillaga um breytingu á 1. mgr. greinarinnar, en þar er fjallað um birtingu tiltekinna upplýsinga um viðskipti stjórnenda útgefanda, og fjárhagslega tengdra aðila þeirra, með hluti í útgefandanum, eða ráðstafanir á hlutunum með óbeinum hætti, sbr. umfjöllun að framan. Lagt er til að nokkur breyting verði gerð á ákvæðinu frá núgildandi lögum. Í stað þess að telja upp tilkynningarskyld viðskipti í tíu liðum eins og gert er í núgildandi lögum er lagt til að skylda til að birta upplýsingar miðist annars vegar við viðskipti sem eru að markaðsvirði a.m.k. 500.000 kr. og hins vegar heildarviðskipti sem nema a.m.k. 1.000.000 kr. á næstliðnu fjögurra vikna tímabili.
    Talið er eðlilegt að opinbera ekki upplýsingar um viðskipti með lágar fjárhæðir enda hafa þær lítið sem ekkert gildi fyrir fjárfesta og er hæpið að slíkar upplýsingar hafi verðmótandi áhrif á verðbréf viðkomandi útgefanda. Samkvæmt ákvæðinu ber útgefanda að senda upplýsingar um bein og óbein viðskipti stjórnenda og fjárhagslega tengdra aðila með hluti í útgefanda, og fjármálagerninga tengda þeim, til viðkomandi markaðar. Viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði ber að birta upplýsingarnar opinberlega svo framarlega sem markaðsvirði viðskiptanna nemur a.m.k. 500.000 kr. eða samanlögð eignabreyting viðkomandi á næstliðnum fjórum vikum nemur a.m.k. 1.000.000 kr. Ekki ber að skilja ákvæðið svo að útgefandi sé alfarið undanþeginn skyldu til að senda upplýsingar um viðskipti undir 500.000 kr. að markaðsvirði til skipulegs verðbréfamarkaðar heldur verður hann að tryggja að slíkar upplýsingar séu sendar þegar stjórnandi fer yfir umrædd fjárhæðarmörk í viðskiptum á fjögurra vikna tímabili. Skylt er að gera eftirlitsaðilum grein fyrir viðskiptum stjórnenda með lægri fjárhæðir en sem nemur 500.000 kr., sbr. ákvæði 16. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að nánari ákvæði um tilkynningar um viðskipti fruminnherja, stjórnenda og fjárhagslega tengdra aðila verði í reglum sem Fjármálaeftirlitinu ber að setja skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.).
    Í b-lið greinarinnar eru lagðar til breytingar á 3. mgr. en þar er skilgreint hvað átt er við með stjórnendum í lögunum.
    Í c-lið er gerð tillaga um breytingu á fyrirsögn ákvæðisins til samræmis við þetta.

Um 18. gr.


    Í ákvæðinu er lögð til breyting á fyrirsögn 50. gr. laganna sem verður 60. gr. nái frumvarpið fram að ganga. Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 19. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 51. gr. laganna sem verður 67. gr. verði frumvarpið að lögum, en ákvæðið fjallar um eftirlit með meðferð innherjaupplýsinga og viðskiptum innherja.
    Í f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.) er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði falið að setja reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Í 51. gr. núgildandi laga er hins vegar stjórnum útgefenda skráðra verðbréfa falið að setja sér eigin reglur um sama efni. Reglurnar skulu sendar Fjármálaeftirlitinu til staðfestingar og hefur það gefið út leiðbeinandi tilmæli um efni slíkra reglna. Önnur undirtilskipun um markaðssvik fjallar m.a. um innherjalista og tilkynningar um viðskipti stjórnenda. Það er ekki í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar að efni þeirra reglna verði að finna í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins og er því lagt til að heildarumfjöllun um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja verði komið fyrir í reglum Fjármáleftirlitsins. Vegna þessa er gerð tillaga um að aukin áhersla verði lögð á að stjórnir útgefenda skráðra verðbréfa hafi eftirlit með því að reglum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja sé fylgt innan útgefandans, en að afnumin verði skylda stjórna til að setja reglur um efnið, enda komi reglur Fjármáleftirlitsins í stað þeirra. Útgefandi getur engu að síður ákvarðað nánari útfærslu á reglunum og aðlagað þær aðstæðum hvers félags fyrir sig, þar sem reglur Fjármálaeftirlitsins verði lágmarksviðmið. Með þessu móti verður m.a. hægt að afmarka lokuð eða opin tímabil fyrir viðskipti innherja eins og gert hefur verið í framkvæmd hjá mörgum útgefendum.
    Gert er ráð fyrir nánari umfjöllun um efnisatriði þessarar greinar í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. f-lið 20. gr. frumvarpsins (73. gr.), m.a. til innleiðingar ákvæða úr annarri undirtilskipun um markaðssvik.

Um 20. gr.


    Í 20. gr. eru lagðar til breytingar á X. kafla laganna sem fjallar um eftirlit og reglugerðir.
     Um a-lið (68. gr.).
    Í fyrstu málsgrein ákvæðisins er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið fari með eftirlit með framkvæmd laganna í samræmi við lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og ákvæði verðbréfaviðskiptalaga að öðru leyti.
    Við innleiðingu á markaðssvikatilskipuninni er nauðsynlegt að huga sérstaklega að ákvæðum um eftirlit með starfsemi á verðbréfamarkaði. Tilskipunin kveður á um styrkingu opinbers eftirlits á fjármálamarkaði og gerir ráð fyrir auknum og samræmdum heimildum til handa eftirlitsstofnunum á Evrópska efnahagssvæðinu. Gert er ráð fyrir að samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR) standi að frekari samræmingu á framkvæmd eftirlits og að aukið verði samstarf á milli verðbréfaeftirlita. Vegna þessa er kveðið á um það í markaðssvikatilskipuninni að ein opinber eftirlitsstofnun skuli bera ábyrgð á öllu eftirliti samkvæmt tilskipuninni, eftirliti sem í sumum tilvikum hefur einnig verið á ábyrgð skipulegra verðbréfamarkaða fram til þessa.
    Hér á landi og víðar hafa skipulegir verðbréfamarkaðir komið að eftirliti með einum eða öðrum hætti, t.d. með beinu eftirliti og valdheimildum vegna tiltekinna lagaákvæða auk þess sem samningar þeirra við útgefendur og kauphallaraðila kveða á um að eftirlitsheimildir viðkomandi markaðar og skuldbindingu viðkomandi aðila markaðarins gagnvart regluverki markaðarins. Eðli málsins samkvæmt hefur eftirlit þessara aðila fyrst og fremst beinst að aðilum í samningssambandi. Hafi vaknað grunur um brot á lagaákvæðum í því eftirliti hefur slíkum málum verið vísað til Fjármálaeftirlitsins til frekari meðferðar ásamt því að samstarf og samskipti hafa verið um meðferð einstakra mála eins og við hefur átt hverju sinni og lög hafa heimilað.
    Ákvæði 2. mgr. eru í samræmi við a-lið 2. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Núgildandi ákvæði 2. mgr. 52. gr. laga um verðbréfaviðskipti og 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, eru fullnægjandi til innleiðingar á þessu ákvæði. Samkvæmt fyrstnefnda ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg í tengslum við athugun tiltekins máls. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, segir m.a. svo: „Með því er átt við athugun afmarkaðs málefnis. Ákvæðið heimilar ekki að krafist sé allra gagna í ótilteknum málum fjölda einstaklinga eða lögaðila. Ákvæðið heimilar Fjármálaeftirlitinu að krefjast allra gagna og upplýsinga hjá eftirlitsskyldum aðila sem að þess mati eru nauðsynleg vegna eftirlits þess. Ákvæðið er til áréttingar heimildum eftirlitsins samkvæmt lögum nr. 87/1998. Heimildir Fjármálaeftirlitsins til að krefjast gagna og upplýsinga takmarkast ekki við eftirlitsskylda aðila, né heldur þarf athugun að beinast að sama aðila og krafinn er gagna og upplýsinga. Þannig gæti Fjármálaeftirlitið til dæmis krafist gagna hjá einstaklingum eða lögaðilum sem alla jafna falla ekki undir eftirlit þess. Þetta leiðir af því að frumvarp þetta leggur ekki bara skyldur á aðila með starfsleyfi á fjármálamarkaði, heldur og einnig á aðra aðila eins og kaupendur, seljendur og útgefendur fjármálagerninga.“
    Af orðalagi 2. mgr. 52. gr. laganna og tilvitnuðum lögskýringargögnum verður ráðið að heimildin nær ekki einvörðungu til þeirra einstaklinga og lögaðila sem teljast falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögunum og þarf athugun ekki að beinast að sama aðila og krafinn er gagna og upplýsinga. Skýrt er kveðið á um það að Fjármálaeftirlitið getur t.d. krafist gagna hjá einstaklingum og lögaðilum sem alla jafna falla ekki undir eftirlit þess. Skv. 2. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, telst verðbréfamiðstöð hlutafélag sem annast eignarskráningu verðbréfa. Viðskiptaráðherra veitir verðbréfamiðstöð starfsleyfi að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Þá er gert ráð fyrir því í 31. gr. laga nr. 131/1997 að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að starfsemi verðbréfamiðstöðva sé í samræmi við lög og reglur eða reglugerðir settar samkvæmt þeim og skal stofnuninni þess vegna heimill aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum um starfsemi verðbréfamiðstöðva sem það telur nauðsyn á vegna eftirlits samkvæmt lögunum. Af lögum nr. 131/1997 verður ráðið að verðbréfamiðstöðvar skulu reknar í formi hlutafélags með tilteknu lágmarkshlutafé. Enda þótt lögin mæli fyrir um tilteknar skyldur verðbréfamiðstöðva og stjórna þeirra telst verðbréfamiðstöð vera lögaðili í lagalegri merkingu. Að því virtu er hér lagt til grundvallar að verðbréfamiðstöð falli innan marka ákvæðis 2. mgr. 52. gr. laga þessara um upplýsingaskyldu eins og það hefur verið skýrt hér að framan. Skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 131/1997 er verðbréfamiðstöð óheimilt að veita upplýsingar um skráð réttindi, sbr. þó ákvæði laganna. Þetta ákvæði mun ekki standa því í vegi að verðbréfamiðstöð verði gert skylt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar og gögn á grundvelli 2. mgr. 52. gr. laganna.
    Með vísan til gildandi heimilda Fjármálaeftirlitsins til að krefjast aðgangs að öllum upplýsingum og gögnum sem stofnunin telur nauðsynleg, sbr. 2. mgr. 52. gr. laganna, og einnig að teknu tilliti til þess að Fjármálaeftirlitinu er með 2. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, veitt heimild til að óska eftir upplýsingum á þann hátt sem það telur þörf, er ekki vafi á því að í þessum ákvæðum felist heimild fyrir stofnunina til að krefjast afrita af upplýsingum eða gögnum. Einnig skal vakin athygli á því að með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 3. maí 2002, í máli nr. 177/2002, um skýringu heimildar 40. gr. samkeppnislaga til haldlagningar gagna á tölvutæku formi og samstöðu þess ákvæðis við 4. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, samkvæmt lögskýringargögnum verður lagt til grundvallar að síðarnefnda ákvæðið veiti Fjármálaeftirlitinu heimild til að leggja hald á gögn á tölvutæku formi. 2. málsl. 2. mgr. er í samræmi við 3. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar, en þar er lagt til grundvallar að ákvæði greinarinnar skuli ekki hafa áhrif á reglur landsréttar um þagnarskyldu í starfi. Tryggja verður að lagaákvæði um þagnarskyldu á einstökum sviðum komi ekki í veg fyrir skyldu þeirra sem Fjármálaeftirlitið telur með rökstuddum hætti að geti veitt tilteknar upplýsingar og gögn í þágu athugunar í tilteknu máli. Að þessu virtu er hér lagt til að mælt verði fyrir um það í lögum þessum að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar og aðgang að gögnum á grundvelli laganna.
    Ákvæði 3. og 4. mgr. eru í samræmi við gildandi rétt og þarfnast því ekki nánari skýringa.
    Í 5. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að grípa til allra nauðsynlegra úrræða til að tryggja að almenningur sé réttilega upplýstur þegar Fjármálaeftirlitið telur að ekki hafi verið farið að reglum um opinbera birtingu upplýsinga skv. 16. gr. og IX. kafla laganna. Vísað er til athugasemda við þær greinar til frekari skýringa. Orðalag ákvæðisins tekur mið af 4. tölul. 6. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Ákvæðið miðar að því að tryggja Fjármálaeftirlitinu heimild til að birta opinberlega upplýsingar sem fjallað er um í 16. gr. og IX. kafla laganna telji það að upplýsingarnar hafi ekki verið birtar með fullnægjandi hætti og til samræmis við það sem mælt er fyrir um í verðbréfaviðskiptalögunum. Ákvæðið er liður í því að tryggja gagnsæi og jafnan aðgang fjárfesta að innherjaupplýsingum en þessir tveir þættir eru hluti af þeim grunnforsendum sem liggja að baki framangreindri tilskipun sem innleidd er með frumvarpi þessu. Fjármálaeftirlitinu ber eftir sem áður að gæta að stjórnsýslulögum og lögum um meðferð persónuupplýsinga við túlkun ákvæðisins.
    Í 6. mgr. kemur fram að við eftirlit með framkvæmd laga þessara gilda að öðru leyti ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Sérstaklega er tilgreint að Fjármálaeftirlitið hafi þau úrræði og eftirlitsheimildir sem tilgreindar eru í 9.–11. gr. laganna vegna eftirlits Fjármálaeftirlitsins með starfsemi á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti. Rétt er að taka af allan vafa í þessu efni. Svo virðist sem nokkur óvissa hafi ríkt um þetta atriði í framkvæmd, þ.e. um hvort og þá að hvaða marki eftirlitsheimildir laga nr. 87/1998 eigi við um eftirlit Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti. Er því gert ráð fyrir því að orðalagi ákvæðisins verði breytt á þá leið að skýrt sé mælt fyrir um það í þessum lögum að við eftirlit og athuganir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laganna gildi einnig 9.–11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Tilgangur þessarar breytingar er m.a. sá að taka af allan vafa um að Fjármálaeftirlitið hafi að öðru leyti en greinir í þessum lögum þær eftirlitsheimildir sem mælt er fyrir um í 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, þar á meðal í tilefni af grun um háttsemi sem fer í bága við ákvæði laganna um innherjasvik og markaðsmisnotkun. Þá er með þessu gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi við þessar aðstæður einnig þau þvingunarúrræði sem fjallað er um í 10. og 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ekki ber að gagnálykta frá þessu ákvæði á þá leið að önnur ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eigi hér ekki við, enda er lagt til að einnig verði kveðið á um það í lögum um verðbréfaviðskipti að um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með framkvæmd þeirra laga gildi að öðru leyti ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eftir því sem við á, t.d um tilkynningarskyldu Fjármálaeftirlitsins skv. 12. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og um kæruheimild til kærunefndar skv. 18. gr. sömu laga.
    Um b-lið (69. gr.).
    Í b-lið er fjallað um mikilvægar rannsóknarheimildir Fjármálaeftirlitsins. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið mið af b-lið 2. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Gæta verður varúðar við beitingu heimilda ákvæða greinarinnar. Þá verður við mat um það hvenær upplýsinga er þörf að byggja matið á málefnalegum sjónarmiðum og að gæta hófs, sbr. dóm Hæstaréttar frá árinu 1999, bls. 3750. Vísað er í umfjöllun í athugasemd við 3. mgr. a-liðar 20. gr. frumvarpsins (68. gr.) hér að framan, til nánari skýringar á ákvæðinu. Þar er að finna ítarlega umfjöllun og rökstuðning fyrir því að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt þeirri grein. Sömu sjónarmið eiga við um þetta ákvæði frumvarpsins hvað það varðar.
    Í 2. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að fá afhentar fyrirliggjandi skrár eða annála um símtöl eða aðrar sendingar sem fara um fjarskiptavirki. Orðalagið fyrirliggjandi skrár (e. existing records) felur það í sér efnislega að Fjármálaeftirlitið hafi ekki heimild til að hlusta á fjarskiptasamtöl meðan þau fara fram eða að taka upp samtöl eða nema annars konar hljóð eða merki án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því, heldur einungis að það geti fengið upplýsingar um samskipti sem þegar hafa farið fram.
    Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, má ekki án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Í síðari málsl. 3. mgr. 47. gr. laganna er gert ráð fyrir að um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti fari samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Af þessu ákvæði og gildandi lögum um eftirlit Fjármálaeftirlitsins er ljóst að stofnunin hefur ekki heimild til að krefjast aðgangs að gögnum sem falla undir d-lið 2. mgr. 12. markaðssvikatilskipunarinnar, t.d. hjá síma- eða fjarskiptafyrirtæki. Að þessu virtu og í ljósi fyrirmæla d-liðar 2. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar er lagt til að síma- eða fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að veita hinu lögbæra stjórnvaldi aðgang að fyrirliggjandi gögnum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki enda liggi fyrir samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda. Fáist ekki slíkt samþykki eða ef talið er óraunhæft að afla þess að virtum atvikum máls er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti krafist aðgangs að slíkum gögnum hjá síma- eða fjarskiptafyrirtæki fyrir dómi. Gert er ráð fyrir að heimild þessi sé efnislega samhljóða þeirri heimild lögreglu skv. b-lið 86. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 6. gr. laga nr. 86/2004, og að skilyrði þau sem greinir í 87. gr. sömu laga eigi hér við að undanskildum b-lið 2. mgr. 87. gr. Með tilliti til a-liðar 2. mgr. 87 yrði það fortakslaust skilyrði fyrir því að gripið yrði til aðgerða af þessu tagi af hálfu Fjármálaeftirlitsins að ástæða væri til að ætla að upplýsingar, sem skipt gætu miklu fyrir athugun stofnunarinnar, fengjust með þessum hætti. Með tilliti til eðlis þeirra mála sem hér um ræðir, en þau miða ekki að því að upplýsa refsiverða háttsemi, og þess að ekki er um að ræða heimild til að hlusta á eða taka upp símtöl, verður þess ekki krafist að skilyrði b-liðar 2. mgr. 87. gr. verði uppfyllt.
    Ákvæði 3. mgr tekur mið af e-, f- og h-lið 2. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar en lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði fengin heimild til að krefjast þess að háttsemi, t.d. tiltekin viðskipti eða önnur athöfn, sé hætt þegar í stað þegar það er mat Fjármálaeftirlitsins að háttsemin brjóti í bága við reglur um innherjasvik eða markaðsmisnotkun (e. cessation of practice). Jafnframt er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði fengin heimild til að krefjast þess að atvinnustarfsemi verði stöðvuð tímabundið við þær aðstæður sem að framan eru raktar. Rétt er að fram komi, svo á því leiki enginn vafi, að af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar leiðir að atvinnustarfsemi verður ekki stöðvuð nema að því marki sem nauðsynlegt þykir til að fyrirbyggja eða stöðva háttsemi sem talin er ólögmæt. Þannig er t.d. vandséð að úrræðinu verði nokkurn tíma beitt með þeim áhrifum að öll atvinnustarfsemi þess sem úrræðinu er beint gegn verði stöðvuð. Enn fremur er ljóst að stöðvunaráhrif mega ekki vara lengur en nauðsynlegt er til að markmiðum ákvörðunar um að stöðva atvinnustarfsemi verði náð. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti tímabundið stöðvað viðskipti (e.suspend trading) með fjármálagerninga sem tengjast háttsemi sem grunur leikur á að feli í sér markaðssvik.
    Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, er kauphöll heimilt að stöðva tímabundið viðskipti þegar sérstakar aðstæður krefjast þess. Tilkynna skal um slíka tímabundna stöðvun til Fjármálaeftirlitsins. Telja verður ljóst að kauphöll geti gripið til þessa úrræðis við þær aðstæður að ójafnræðis gæti meðal fjárfesta um aðgang að innherjaupplýsingum eða ef misvísandi eða beinlínis rangar upplýsingar á markaði hafa áhrif á verðmyndun. Þess skal einnig getið að stjórn skipulegs tilboðsmarkaðar er heimilt að ákveða að hætt skuli viðskiptum með verðbréf á markaðinum enda telji hún að áframhaldandi viðskipti með þau séu ekki í þágu útgefenda verðbréfa eða markaðarins, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Samkvæmt núgildandi lögum hefur Fjármálaeftirlitið sambærilegar heimildir við þær sem hér er lýst.
    Í skilningi 11. gr. markaðssvikatilskipunarinnar teljast kauphöll og stjórn skipulegs tilboðsmarkaðar ekki lögbært yfirvald. Framangreindar valdheimildir á grundvelli 3. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 33. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða uppfylla þegar af þeirri ástæðu ekki skilyrði f-liðar 2. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Að því virtu er hér lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að krefjast þess að skipulegur verðbréfamarkaður stöðvi tímabundið viðskipti með verðbréf við meðferð tiltekins máls. Tímabundin stöðvun viðskipta kann að vera æskileg eða nauðsynleg í mörgum öðrum tilvikum en í tengslum við rannsókn á ætluðum markaðssvikum, svo sem vegna tæknilegra vandamála í viðskiptakerfi skipulegs verðbréfamarkaðar eða óvissu um að jafnræði sé með fjárfestum um aðgang að verðmótandi upplýsingum, án þess að grunur leiki á um markaðssvik. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir að stöðvunarheimild Fjármálaeftirlitsins raski sjálfstæðri heimild kauphallar til tímabundinnar stöðvunar viðskipta á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Það styður jafnframt þessa niðurstöðu að kauphöll fylgist náið með viðskiptum með fjármálagerninga frá degi til dags, m.a. með það fyrir augum að stuðla að því að verðmyndun á viðkomandi markaði sé skýr og gagnsæ og tryggja að jafnræði sé með aðilum að viðskiptum sem þar fara fram. Kauphöll ber enn fremur að hafa eftirlit með því að útgefendur skráðra verðbréfa og kauphallaraðilar starfi eftir lögum, reglum og samþykktum sem um kauphöllina gilda, sbr. 11. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Loks skal þess getið að ekki er gert ráð fyrir að innleiðing þessa ákvæðis hafi áhrif á heimild stjórnar skipulegs tilboðsmarkaðar til að ákveða að hætt skuli viðskiptum með verðbréf á markaðinum á grundvelli 1. mgr. 33. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
    Ákvæði 4. mgr. ákvæðisins taka mið af g-lið 2. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Samkvæmt orðalagi þessa ákvæðis er það valkvætt. Það telst fullnægjandi að veita hinu valdbæra stjórnvaldi annaðhvort heimild til þess að kyrrsetja eignir eða að leggja hald á þær. Eins og fram kemur í athugasemdum greinargerðar við 1. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 50/2003, sem lögfesti nýja 16. gr. a laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er það almennt á „verksviði lögreglu hér á landi, sem fer með rannsókn opinberra mála, að krefjast haldlagningar á verðmætum, þ.m.t. bankainnstæðum, þegar það á við“. Með 2. mgr. fyrrnefndrar 1. gr. laga nr. 50/2003 er því gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið skuli „hlutast til um með tilkynningu til ríkislögreglustjóra að hald verði lagt á innstæður einstaklinga og lögaðila ef við framkvæmd eftirlitsins hefur komið í ljós að eftirlitsskyldur aðili hefur brotið gegn 1. mgr.“ greinarinnar. Ákvæði 1. mgr. 16. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi fjallar um þau tilvik þegar Fjármálaeftirlitið, í samræmi við skuldbindingar eða samþykktir á alþjóðavettvangi, gefur út tilkynningar um einstaklinga og lögaðila sem eftirlitsskyldum aðilum ber sérstaklega að kanna hvort stofnað hafi verið til viðskipta við og er þeim skylt að koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutninga, svo sem afhendingu fjármuna, úttektir, millifærslu og eignarskráningu, sem og önnur viðskipti, og hindra þannig að aðilar sem tilgreindir eru í tilkynningum eftirlitsins fái greiðslur í hendur eða geti nýtt fjármuni með öðrum hætti.
    Samkvæmt 1. mgr. 85. gr. laga um meðferð opinberra mála er þeim sem rannsókn stýrir, svo og ríkissaksóknara, heimilt að krefjast kyrrsetningar á eignum sakbornings til tryggingar greiðslu sektar, skaðabóta, sakarkostnaðar og upptöku ef hætta þykir á að þeim verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Skv. 2. mgr. sömu greinar fer um framkvæmd og þýðingu kyrrsetningar samkvæmt greininni sem um kyrrsetningu fjármuna almennt með þeim undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu, stimpilgjald og þinglýsingar skal ekki greiða fyrir ráðstafanirnar og um ábyrgð á kyrrsetningu fer eftir almennum skaðabótareglum. Að þessu virtu gerir 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð opinberra mála ráð fyrir að meðferð kröfu rannsóknara eða ríkissaksóknara fari eftir II. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
    Að virtri þeirri löggjafarstefnu sem að framan er rakin er hér lagt til að Fjármálaeftirlitið geti ekki sjálft lagt hald á eignir eða önnur fjárverðmæti, t.d. innstæður í bönkum. Með tilliti til g-liðar 2. mgr. 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar verður hins vegar lagt til að Fjármálaeftirlitið geti krafist kyrrsetningar eigna hjá einstaklingi eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi hans fari í bága við ákvæði laga þessara um innherjasvik eða markaðsmisnotkun. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir framangreindum ákvæðum 85. gr. laga um meðferð opinberra mála eftir því sem við getur átt.
    Um c-lið (70. gr.).
    Í c-lið 20. gr. er fjallað um eftirlit með lýsingum. Ákvæðið byggist á 21. gr. lýsingartilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er lagt til að um eftirlit með lýsingum og heimildir til framsals fari skv. 1.–3. mgr. 68. gr. laganna, þ.e. 1.–3. mgr. a-liðar 20. gr. frumvarps þessa. Í þeim ákvæðum er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið fari með eftirlit með framkvæmd laganna í samræmi við lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og ákvæði verðbréfaviðskiptalaga. Einnig kemur þar fram að Fjármálaeftirlitinu sé í tengslum við athugun tiltekins máls heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynlegt að fá aðgang að og að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt greininni. Vísað er í athugasemdir við a-lið 20. gr. til nánari skýringar.
    Í 2. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái auknar heimildir til að óska eftir nánar tilgreindum gögnum eða upplýsingum eftir að eftirlitið hefur tekið við umsókn um staðfestingu á lýsingu.
    Í 3. mgr. eru tilgreindar þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur eftir að verðbréf hafa verið skráð á skipulegan verðbréfamarkað. Athugun skv. 3. tölul. getur ekki farið fram nema að undangengnum dómsúrskurði í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinbera mála og skal framkvæmd slíkrar athugunar jafnframt vera í samræmi við ákvæði þeirra laga.
    Um d-lið (71. gr.).
    Í d-lið 20. gr. er fjallað um eftirlit skipulegs verðbréfamarkaðar.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að fela skipulegum verðbréfamarkaði tiltekin verkefni við eftirlit, en 12. gr. markaðssvikatilskipunarinnar gerir ráð fyrir að hið lögbæra yfirvald geti falið markaðsaðila eða öðru stjórnvaldi eftirlit þó að ábyrgðin hvíli eftir sem áður á hinum lögbæra eftirlitsaðila. Slíkt er til þess fallið að færa eftirlitið nær markaðinum sjálfum og felst í því tiltekin sérhæfing og hagræði.
    Til þess að eftirlit sé eins skilvirkt og mögulegt er verður sá sem sinnir eftirlitinu að hafa fullnægjandi heimildir til að afla nauðsynlegra upplýsinga vegna þeirra atvika sem eru til skoðunar. Er því í 2. og 3. málsl. 1. mgr. lagt til að Fjármálaeftirlitinu sé heimil upplýsingagjöf til skipulegs verðbréfamarkaðar, hafi honum verið falið eftirlit á tilteknu sviði, ásamt því að skipulegur verðbréfamarkaður geti kallað beint eftir upplýsingum frá aðilum markaðarins í slíkum tilvikum. Við slíka upplýsingaöflun starfar skipulegur verðbréfamarkaður fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 78/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og eiga því þagnarskylduákvæði þeirra laga við um þær upplýsingar. Í þessu er þó ekki falin takmörkun á heimildum skipulegs verðbréfamarkaðar til að beita aðila í samningssambandi við hann opinberum viðurlögum í samræmi við reglur markaðarins. Skipulegir verðbréfamarkaðir eru enn fremur bundnir þagnarskyldu um málefni viðskiptamanna, sbr. nánar 1. mgr. 40. gr. laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Í 4. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að heimildir Fjármálaeftirlitsins til gjaldtöku, vegna verkefna sem því eru veitt samkvæmt lögum þessum, eigi einnig við um skipulegan verðbréfamarkað hafi honum verið falin viðkomandi verkefni.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið og viðkomandi skipulegur verðbréfamarkaður upplýsi markaðinn með opinberri yfirlýsingu um hvernig verkaskiptingu í eftirliti er háttað. Í ljósi aukinnar umræðu um hlutverk eftirlitsaðila á markaði verður að telja eðlilegt að slík yfirlýsing sé gerð opinber svo að öllum markaðsaðilum og almenningi megi vera ljóst í öllum megindráttum hvert hlutverk aðilanna er og hvaða skilyrðum það kann að vera háð. Slík skilyrði kunna m.a. að fela í sér takmarkanir á upplýsingaöflun og reglur um meðhöndlun gagna og málsmeðferð. Markmið samstarfs í eftirlitinu hlýtur að vera að tryggja hagkvæma og eðlilega verkaskiptingu milli aðila í tengslum við upplýsingaskyldu- og markaðseftirlit með það að markmiði að hámarka gæði eftirlits og nýtingu mannafla og tækjabúnaðar.
    Um e-lið (72. gr.).
    Í e-lið 20. gr. eru lagðar til breytingar á grein, sem verður 72. gr. laganna, þar sem fjallað er um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins.
    Í greininni er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að greina frá niðurstöðum athugana sem byggja á lögum þessum og tekur ákvæðið mið af 4. mgr. 14. gr. markaðssvikatilskipunarinnar. Heimildin nær til laganna í heild, þ.e. eftirlits með meðferð innherjaupplýsinga og verðmyndun, flöggunarreglum, yfirtökureglum og réttindum og skyldum fjármálafyrirtækja. Heimildin tekur ekki aðeins til birtingar upplýsinga um aðgerðir sem eftirlitið grípur til, heldur einnig til birtingar upplýsinga um niðurstöðu almennra athugana sem eftirlitið framkvæmir burtséð frá því hvort þær leiða til þess að eftirlitið beiti þeim stjórnvaldsúrræðum sem það hefur samkvæmt lögum þessum eða ekki.
    Fjármálaeftirlitið birtir margvíslegar upplýsingar og sinnir kynningum og fræðslu, en hefur hingað til ekki fjallað opinberlega um einstök mál eða málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila, nema mælt sé fyrir um upplýsingaveitingu í lögum. Eftirlitsskyldir aðilar eða almenningur hafa því ekki átt aðgang að niðurstöðum í einstökum málum nema þær hafi verið birtar af öðrum aðilum en Fjármálaeftirlitinu.
    Fjármálaeftirlitið hefur oft sætt gagnrýni vegna þessa síðastnefnda. Nefnt hefur verið að varnaðaráhrif af aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og niðurstöðum séu lítil og aðgerðir þess í einstökum málum stuðli ekki nægilega að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði í heild. Sérstaklega hefur verið bent á að mikilvægt sé fyrir hagsmuni verðbréfamarkaðar að gagnsæi ríki um afdrif mála sem upp koma. Þeir sem standa utan fjármálamarkaðar virðast raunar oft draga þá ályktun að í þessari þögn eftirlitsins um einstök verkefni sín felist að Fjármálaeftirlitið sé veik stofnun og að þar sé lítið aðhafst. Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið á opinberum vettvangi um gagnsæi í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Fjölmiðlar hafa sýnt málinu áhuga en auk þess hafa aðilar á markaði á undanförnum vikum talað fyrir auknum heimildum til handa Fjármálaeftirlitinu hvað þetta varðar. Það er m.a. af þeim ástæðum sem lagt er til í frumvarpinu að gengið sé lengra hvað varðar gagnsæi en mælt er fyrir um í 4. mgr. 14. gr. markaðssvikatilskipunarinnar.
    Telja má nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að greina frá niðurstöðum athugana þó að þær leiði ekki til sérstakra aðgerða. Þannig getur það augljóslega haft þýðingu fyrir markaðinn að vera upplýstur um það að Fjármálaeftirlitið hafi ekki talið ástæðu til aðgerða í tilteknu máli. Einnig er mjög æskilegt að heimild eftirlitsins til að greina frá niðurstöðum athugana nái til allra viðfangsefna í eftirlitinu sem byggjast á lögum um verðbréfaviðskipti. Í lögum um verðbréfaviðskipti er, til viðbótar við verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði og meðferð innherjaupplýsinga, m.a. kveðið á um yfirtökur og tilboðsyfirlit, breytingu á eignarhaldi verulegs eignarhlutar (flöggunarskyldu), útboð verðbréfa og réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta. Samkvæmt núgildandi lögum er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta opinberlega yfirlýsingu telji það að ekki hafi verið farið að reglum um almennt útboð verðbréfa, sbr. núgildandi 3. mgr. 52. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Löggjafinn hefur þannig talið að í þessum málaflokki sé nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið aðvari almenning um sölu verðbréfa þar sem ekki er farið að reglum. Eðlilegt er að heimild til að greina frá niðurstöðum í þessum málum verði almennari. Veigamikil rök mæla einnig með því að unnt sé að birta niðurstöður athugana um hugsanlega yfirtökuskyldu vegna kaupa á hlutabréfum í skráðum félögum og niðurstöður athugana um breytingu á eignarhaldi verulegs hlutar (flöggunarreglur). Þannig er mikilvægt fyrir hluthafa í skráðu félagi að fá vitneskju um hvort yfirtökuskylda hafi stofnast í félaginu og fyrir fjárfesta að fá vitneskju um það hvort reglum um gagnsæi í eignarhaldi sé fylgt. Þá mæla rök einnig með því að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að greina frá niðurstöðum einstakra athugana á grundvelli II. kafla laga um verðbréfaviðskipti en þar er kveðið á um réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta. Í þeim kafla er m.a. að finna almenn ákvæði um góða viðskiptavenju fjármálafyrirtækja, óhlutdrægni og jafnræði gagnvart viðskiptavini og bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla. Þar eru einnig ákvæði um upplýsingaöflun um þekkingu og reynslu viðskiptavinar og mat á getu hans til að eiga viðskipti með óskráð verðbréf, upplýsingamiðlun frá fjármálafyrirtæki til viðskiptavinar, formkröfur í samningum og upplýsingamiðlun um framgang viðskipta, sérgreiningu fjármuna og fjármálagerninga, safnskráningu og framsalsáritanir. Þá er í kaflanum kveðið á um aðskilnað einstakra starfssviða til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra (kínamúra) og viðskipti fyrir eigin reikning. Að lokum er í kaflanum kveðið á um að fjármálafyrirtæki setji sér reglur um aðskilnað hagsmuna, viðskipti fyrir eigin reikning og óhlutdrægni og jafnræði. Rökin fyrir því að unnt sé að greina frá niðurstöðum athugana Fjármálaeftirlitsins á framangreindum atriðum í starfsemi fjármálafyrirtækja eru augljós þegar horft er til þess hversu mikilvæg starfsemi fjármálafyrirtækja er í trúverðugri framkvæmd verðbréfamarkaðar. Aukin upplýsingagjöf um starfshætti fjármálafyrirtækja að þessu leyti mun að líkindum styrkja aðhald með þeim.
    Heimildin til birtingar upplýsinga er þó ekki alveg undantekningarlaus þar sem ekki er gert ráð fyrir birtingu framangreindra upplýsinga ef sýnt er fram á að slík birting geti stefnt hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu eða geti valdið hlutaðeigandi aðilum tjóni sem telst ekki í eðlilegu samræmi við brot það sem um ræðir. Í því skyni að tryggja að öll eðlislík mál séu meðhöndluð með sambærilegum hætti og að upplýsingagjöf um starfsemi Fjármálaeftirlitsins sé samræmd og styðji við eftirlitsverkefni þess er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði gert að birta opinberlega þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar á framangreindum upplýsingum. Í þessu felst að Fjármálaeftirlitið skal setja sér verklagsreglur um upplýsingagjöf þá sem hér er til umræðu sem verða aðgengilegar á heimasíðu þess.
    Þegar Fjármálaeftirlitið stendur frammi fyrir því að ákveða hvort birta eigi ákveðnar upplýsingar verður að meta áhrif birtingarinnar með hliðsjón af hagsmunum markaðarins af því að viðkomandi upplýsingar séu birtar og því tjóni sem birtingin gæti haft í för með sér fyrir viðkomandi aðila eða fjármálamarkaðinn í heild sinni. Ef t.d. Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að útgefandi hafi brotið gegn umræddum reglum og eftirlitið stendur frammi fyrir því að ákveða hvort birta eigi niðurstöðuna verður að líta til þess hvort brotið eigi rætur að rekja til yfirsjónar eða mistaka eins starfsmanns útgefanda eða hvort yfirstjórn viðkomandi útgefanda beri ábyrgð á brotinu. Sem dæmi um upplýsingar sem markaðurinn hefur ekki hagsmuni af mætti nefna staðlað ákvæði í samningsskilmálum fjármálafyrirtækis og einstaklings sem félli út úr samningi og breytti þannig forsendum samningsins þannig að hallaði á einstaklinginn. Ef sýnt er fram á að mistök hafi valdið því að ákvæðið hafi fallið út má leiða líkum að því að birting upplýsinga um brot fjármálafyrirtækisins þjóni ekki hagsmunum markaðarins. Ef hins vegar er hægt að leiða líkum að því að viðkomandi fjármálafyrirtæki hafi nýtt sér grandleysi einstaklingsins og fellt ákvæðið úr samningnum af ásetningi til þess að standa betur að vígi gagnvart einstaklingnum gæti verið ástæða til að birta slíkar upplýsingar opinberlega.
    Um f-lið (73. gr.).
    Í f-lið 20. gr. eru lagðar til breytingar á grein, sem verður 73. gr. laganna, þar sem kveðið er á um reglugerðir og reglur sem heimilt er að setja eða setja skal á grundvelli laganna.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að meginákvæði markaðssvikatilskipunarinnar verði innleidd í íslenskan rétt. Stefnt er að innleiðingu undirtilskipana 2003/124/EB, 2003/125/EB, 2004/72/ EB og reglugerðar 2003/2273 annars vegar með setningu reglugerðar frá viðskiptaráðherra og hins vegar með setningu reglna af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Greinin kveður á um heimildir ráðherra annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar til innleiðingar á framangreindum tilskipunum að því leyti sem þær hafa ekki verið innleiddar með frumvarpi þessu, til viðbótar við núgildandi heimildir þessara aðila til reglugerða- og reglusetningar á sviði verðbréfaviðskipta.
    Með tilskipunum vegna aðgerðaráætlunar Evrópusambandsins á fjármálamarkaði (e. Financial Services Action Plan) eru lögbærum yfirvöldum ætluð aukin áhrif í mótun reglna á þessu sviði. Jafnframt gerir aðgerðaráætlunin ráð fyrir aukinni aðkomu markaðsaðila að reglusetningu með virku umsagnarferli. Þykir að mörgu leyti heppilegt að Fjármálaeftirlitið standi að innleiðingu afmarkaðra þátta, sbr. t.d. reglna um birtingu opinberrar fjárfestingarráðgjafar og reglna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Með reglugerðarákvæðum um skilgreiningu og birtingu á innherjaupplýsingum og skilgreiningu á markaðsmisnotkun er stefnt að innleiðingu fyrri undirtilskipunar 2003/124/EB um markaðssvik. Með reglum Fjármálaeftirlitsins um framsetningu og birtingu opinberrar fjárfestingarráðgjafar og hvernig ráðleggingum um fjárfestingar í verðbréfum skuli hagað, ásamt ákvæðum um hvenær skylt sé að upplýsa um hagsmuni og hagsmunaárekstra, er stefnt að innleiðingu undirtilskipunar 2003/125/EB um opinbera fjárfestingarráðgjöf.
    Með reglugerðarákvæðum og reglum Fjármálaeftirlitsins um viðurkennda markaðsframkvæmd, skilgreiningu á innherjaupplýsingum í tengslum við hrávöruafleiður, samningu innherjalista, tilkynningu um viðskipti stjórnenda og tilkynningu um grunsamleg viðskipti er stefnt að innleiðingu annarrar undirtilskipunar 2004/72/EB um markaðssvik. Með reglugerðarákvæðum um svokallað verndarsvæði eða var (e. safe harbour), þ.e. skilyrði fyrir undanþágum frá banni við innherjasvikum og markaðsmisnotkun í ákveðnum tilvikum, er stefnt að innleiðingu reglugerðar 2273/2003/EB um var gegn markaðssvikum.
    Þessu til viðbótar er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til setningar reglna til útfærslu á einstökum lagaákvæðum sem ekki eiga sér beina stoð í fyrrgreindum tilskipunum og reglugerð.

Um 21. gr.


    Með ákvæðinu er tilvísun úr frumvarpi, sem varð að lögum nr. 33/2003, til greina 47.–51. í lögunum lagfærð og vísað til 59. og 62.–67. gr. laganna. Þá er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum 13. gr. frumvarpsins. Ákvæðið um upplýsingaskyldu, frestun upplýsingaskyldu og lögmæta miðlun innherjaupplýsinga er nýtt í verðbréfaviðskiptalögum og því er ekki að finna viðeigandi viðurlagaákvæði sem tekur á brotum gegn því í lögunum. Brot gegn þessu ákvæði geta ein og sér verið léttvæg, en þó skiptir miklu að hægt sé að bregðast við brotum þannig að komið verði í veg fyrir slælega frammistöðu í upplýsingagjöf. Því þykir rétt að Fjármálaeftirlitinu verði gert kleift að beita stjórnvaldssektum við brotum gegn ákvæðinu. Sé um alvarleg brot að ræða og hinn eftirlitsskyldi aðili hefur að mati eftirlitsins með refsiverðum hætti gerst brotlegur við lög, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, getur Fjármálaeftirlitið vísað málum til ríkislögreglustjóra án þess að leggja á stjórnvaldssektir, sbr. breytingar sem lagðar eru til í 22. gr. frumvarpsins. Með þessu er gætt samræmis við ákvæði 13.–17. gr. frumvarpsins, en þeim ákvæðum er ætlað sambærilegt hlutverk, þ.e. að tryggja jafnræði aðila á markaði með upplýsingagjöf og draga úr líkum á innherjasvikum með formreglum.

Um 22. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 23. gr.


    Almennt er kveðið á um það í tilskipunum að tilgreina skuli í lögum hvaða tilskipun þeim er ætlað að innleiða. Í grein þessari er ákvæði um hvaða tilskipanir frumvarpinu er ætlað að innleiða í samræmi við umrædd ákvæði í tilskipununum þar að lútandi.

Um 24. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 25. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, og kveðið á um aukna upplýsingaskyldu í ársskýrslum og á aðalfundum um ýmis atriði sem haft geta áhrif á árangur tilboðs. Ákvæðið er í samræmi við 10. gr. tilskipunar ESB um yfirtökutilboð.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið er sambærilegt við bráðabirgðaákvæði núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og er einnig í samræmi við tilskipun ESB um yfirtökutilboð. Kveðið er á um að aðili sem fer með yfirráð í félagi á grundvelli samstarfs skv. b-lið 5. gr., sem verður 37. gr. laganna, sé ekki tilboðsskyldur við gildistöku laga þessara ef viðkomandi aðili eða samstarfsaðilar hans auka ekki atkvæðisrétt sinn umfram næsta verulega hlut. Með tilvísun til 1. mgr. 32. gr. er gefið til kynna að einungis sé átt við að hlutfall atkvæðisréttar aðila nái heilum eða hálfum tug, þ.e. ekki ber að meta verulegan hlut eftir ákvæðum 28. gr. gildandi laga sem verður 33. gr. Sem dæmi má nefna að aðili eða aðilar í samstarfi sem eiga 41% hlut við gildistöku laganna verða tilboðsskyldir þegar hlutur þeirra nær 45% atkvæðisréttar og aðili eða aðilar í samstarfi sem áttu 46% hlut verða tilboðsskyldir þegar hlutur þeirra nær 50% atkvæðisréttar o.s.frv. Ef hlutfall atkvæðisréttar fyrrgreindra aðila fer niður fyrir þau mörk sem tilgreind eru í b-lið 5. gr. frumvarpsins, sem verður 37. gr. laganna, eftir gildistöku laganna skulu ákvæði b-liðar 5. gr. frumvarpsins, sem verður 37. gr. laganna ef frumvarp þetta verður að lögum, framvegis eiga við að öllu leyti fyrir viðkomandi aðila.


Fylgiskjal I.


Skýringarmyndir við ákvæði um samstarf milli aðila.



Mynd 1.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



          Aðili A ræður yfir 5% í XYZ hf. beint.
          A ræður yfir 25% í XYZ hf. óbeint í gegnum félög sem hann hefur bein og óbein yfirráð yfir (þ.e. aðili A hefur bein yfirráð yfir A ehf. sem hefur yfirráð yfir B ehf. og D ehf. og þau félög hafa yfirráð yfir C ehf.).
          Aðili B er maki, samvistaraðili, sambúðaraðili eða ófjárráða barn aðila A. Aðili A og aðili B teljast því vera í samstarfi, nema sýnt sé fram á annað.
          A ræður yfir 1% í XYZ í gegnum beina eign B í XYZ hf.
          A ræður yfir 10% í XYZ í gegnum óbeina eign B í XYZ hf. (þ.e. í gegnum F ehf. sem hefur yfirráð yfir G ehf.).
          Eign E ehf. í XYZ hf. telst ekki með, nema sýnt sé fram á það á grundvelli 2. mgr. b- liðar 5. gr. frumvarpsins, sem verður 2. mgr. 37. gr. laganna, (t.d. út frá sameiginlegri fjárfestingasögu þeirra) að E ehf. sé í samstarfi við C ehf. eða aðra aðila.
          Aðili A og samstarfsaðilar hans ráða samtals yfir 41% í XYZ hf., nema sýnt sé fram á annað.

Mynd 2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



          A og B eru hjón eða í staðfestri samvist eða í skráðri sambúð.
          AB er ófjárráða barn A og B eða ófjárráða barn sem A á eða ófjárráða barn sem B á.
          A1 hf., B1 hf. og AB1 hf. eru félög sem A, B og AB hafa bein yfirráð yfir.
          A2 hf., B2 hf. og AB2 hf. eru félög sem A, B og AB hafa óbein yfirráð yfir.
          A3 hf. og B3 hf. eru félög sem A, B og AB hafa óbein yfirráð yfir.
          Þessi aðilar teljast vera í samstarfi, nema sýnt sé fram á annað, og því þarf að skoða hlutafjáreign þeirra allra í X hf. sem er skráð félag.


Mynd 3.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



          AB hf. er félag.
          A1 hf. og B1 hf. eru félög sem AB hf. hefur bein yfirráð yfir.
          A2 hf. og B2 hf. eru félög sem AB hf. hefur óbein yfirráð yfir.
          A3 hf. og B3 hf. eru félög sem AB hf. hefur óbein yfirráð yfir.
          AB1 hf. og AB2 hf. eru félög sem AB hf. á verulegan eignarhlut í með beinum og óbeinum hætti.
          Allir þessir aðilar teljast vera í samstarfi, nema sýnt sé fram á annað, og því þarf að skoða hlutafjáreign þeirra allra í X hf. sem er skráð félag.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga á breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti,
nr. 33/2003, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að innleiða þrjár tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins um markaðssvik, nr. 2003/6/EB, um útboðs og skráningarlýsingar, nr. 2003/71/EB og um yfirtökur, nr. 2004/25/EB. Auk þess eru innleiddar undirtilskipanir framkvæmdastjórnarinnar um markaðssvik og útboðs- og skráningarlýsingar. Tilskipanir um markaðssvik og útboðs- og skráningarlýsingar eru innleiddar að hluta en gert er ráð fyrir að í reglugerðum og reglum Fjármálaeftirlitsins verði tilskipanirnar innleiddar að fullu. Kostnaður sem er talinn verða við breytingar á lögunum liggur hjá Fjármálaeftirlitinu við mótun reglna sem lögin gera ráð fyrir ásamt aukinni ábyrgð, eftirfylgni og eftirliti. Samtals er áætlað að árlegur kostnaður muni nema 15 m.kr. Kostnaðurinn verður að öllu leyti fjármagnaður með aukinni gjaldheimtu.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að kostnaðaraukinn muni ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.