Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 796  —  398. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta menntamálanefndar.



    Um árabil hefur verið unnið að því í ráðuneyti menntamála að einkavæða tækninám á háskólastigi án teljandi árangurs þar til nú að Samtök atvinnulífsins ásamt Samtökum iðnaðarins og Verslunarráð Íslands hafa stofnað einkahlutafélagið Hástoð ehf. Menntamálanefnd hefur þurft að fjalla um málið undir tímapressu, enda er gert ráð fyrir að hinn nýi háskóli taki til starfa eftir fjóra mánuði. 2. minni hluti átelur það hversu skammur tími var gefinn til umfjöllunar um málið, en nefndin hélt aðeins tvo fundi um það, sem hlýtur að teljast ófullnægjandi þegar gerðar eru jafnviðamiklar breytingar og hér eru í uppsiglingu.
    Annar minni hluti gagnrýnir það að hin nýja skólastofnun skuli eiga að verða rekin sem einkahlutafélag og fellir sig ekki við þær skýringar sem eigendur gefa á þeirri niðurstöðu. Hingað til hefur Háskólinn í Reykjavík verið rekinn sem sjálfseignarstofnun líkt og Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Listaháskóli Íslands o.fl. skólar í menntaflórunni. Þau rök sem fram eru færð fyrir því að sjálfseignarstofnanaforminu var hafnað eru einkum þau að hlutafélagaformið sé sveigjanlegra, ábyrgðin sé skýrari, allir eigendur hafi aðkomu að stjórn og ekki verði hætta á því að skólinn endi uppi munaðarlaus eins og gæti gerst ef um sjálfseignarstofnun væri að ræða. Um þetta segir í svörum fulltrúa hinna nýju stofnunar, sem send voru menntamálanefnd og undirrituð eru af Guðfinnu S. Bjarnadóttur: „Lög um sjálfseignarstofnanir gera aftur á móti ráð fyrir að enginn eigi sjálfseignarstofnanir og þær geta því orðið munaðarlausar og stjórnast einvörðungu af starfsmönnum. Hugarfarið á bak við sjálfseignarstofnun er nánast það að þegar einhver hefur stofnað hana og lagt fram peninga í stofnfé þá sé afskiptum viðkomandi ekki óskað frekar.“ Þá telja fulltrúar eigendanna mikilvægt að í hlutafélagi eigi hver og einn sinn hlut og geti tekið hann út úr félaginu, slíkt sé ekki hægt þegar um sjálfseignarstofnun er að ræða. 2. minni hluti hafnar þessum rökum og bendir á að ekki hafi komið upp teljandi vandræði við rekstur þeirra sjálfseignarstofnana sem við höfum innan skólakerfisins í dag. Einnig tekur 2. minni hluti undir gagnrýni þá sem kemur fram í umsögn BHM um málið, en þar segir: „Almennt vill BHM taka fram að þegar breytt er um rekstrarform fyrir starfsemi í almannaþágu á borð við kennslu og rannsóknir í a) ríkisháskóla svo sem Tækniháskóla Íslands, og b) sjálfseignarstofnun, svo sem Háskólanum í Reykjavík, sem fjármögnuð er með (i) beinum ríkisframlögum til kennslu og rannsókna og (ii) óbeinum ríkisframlögum í formi niðurgreiddra lána úr ríkisstofnuninni Lánasjóði íslenskra námsmanna sem notuð eru til greiðslu skólagjalda án lögbundins hámarks, komi ekki til greina hvorki frá sjónarhóli skattgreiðenda, lýðræðislegs umboðs og eftirlits, notenda né starfsmanna – að starfsemin sé rekin í (einka)hlutafélagsformi.“ Einnig skal tekið undir kröfur BHM um að réttindi starfsmanna verði tryggð í hvívetna og þótt aðstandendur hins nýja skóla hafi reynt að sannfæra nefndina um að ekki standi annað til, þá er rétt að benda á IV., V., VI. og VIII. kafla umsagnar BHM, sem fjalla um réttindamálin og annað þeim tengt.
Þá er það, að mati 2. minni hluta, ófært að hin nýja skólastofnun skuli ætla að útiloka nemendur og kennara frá setu í háskólaráði, en þar mun eingöngu fyrirhugað að sitji stjórn einkahlutafélagsins.
    Þegar litið er til þess hversu stutt er síðan Tækniháskóli Íslands var stofnaður og hversu illa stjórnvöld hafa sinnt þörfum verkfræðideildar Háskóla Íslands hingað til er ekki sjálfgefið að einkarekin stofnun, sem rekin verður fyrir opinbert fé, verði svo miklu öflugri við það eitt að fá heimild til að taka skólagjöld, jafnvel þó að stofnframlag eigenda komi til í ofanálag. Það er, að mati 2. minni hluta, í hæsta máta óeðlilegt að loka alla tæknimenntun á háskólastigi inni í stofnun sem innheimtir skólagjöld, en slíkt verður raunin þegar THÍ hefur verið lagður niður. Þar með tekur 2. minni hluti undir sjónarmið Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, sem í umsögn til nefndarinnar heldur því fram að með samþykkt þessa frumvarps þurfi stjórnvöld að endurskoða stefnu um skólagjöld, þar sem sú mismunun sem hér hefur verið innleidd ógni stöðu opinberra íslenskra háskóla gagnvart erlendum háskólum. Með þetta í huga boðar 2. minni hluti frumvarp til laga um breytingu á háskólalögum þar sem tryggt verði að sjálfseignarstofnanir og hlutafélög, sem reka háskólastofnanir, hafi ekki heimild til að taka skólagjöld fyrir nám/námsleiðir sem lýkur með prófgráðum sem ekki er jafnframt hægt að taka í opinberum háskólum án skólagjalda.
    Annar minni hluti er ekki sannfærður um að reynt hafi verið til þrautar að sameina THÍ og verkfræðideild Háskóla Íslands. Það virðist skynsamlegt í svo smáu samfélagi sem Ísland er að efla frekar einn verkfræðiháskóla, gera hann faglega sterkan og hæfan til að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, heldur en að dreifa kröftunum á þann hátt sem hér er gert. 2. minni hluti tekur undir efasemdir sem koma fram í umsögn deildarforseta verkfræðideildar HÍ til nefndarinnar varðandi það hversu fáir nemendur hafi í raun fullnægjandi undirbúning í stærðfræði og raunvísindum til að standa undir verkfræðinámi í tveimur skólum á Íslandi. Því verður ekki á móti mælt að mannafli og fjármunir á Íslandi eru takmarkaðir og ekki verður litið framhjá þeirri staðreynd að hæfir verkfræðikennarar eru ekki á hverju strái. Því er eðlilegt að spurt sé á hvern hátt hin nýja háskólastofnun telji að hún geti farið strax af stað með nám til meistaraprófs, ekki síst í ljósi þess hversu miklum erfiðleikum slíkt hefur verið bundið í þjóðskólanum okkar. Fullnægjandi svör við þessum spurningum fengust ekki í nefndarstarfinu. Loks er rétt að geta þess að ekki komu fram í nefndarstarfinu upplýsingar um það á hvern hátt menntamálaráðuneytið hugsi sér að tryggja hæfa kennara við hina nýju stofnun, í ljósi þess að hæfnisdómar lektora og dósenta við THÍ miðuðust við að þeir kenndu tæknifræði en ekki verkfræði.
    Það er von 2. minni hluta að færsla náms í geislafræði og meinatækni yfir til Háskóla Íslands gangi vel og telur 2. minni hluti þá ráðstöfun af hinu góða úr því sem komið er. Einnig er rétt að taka fram að 2. minni hluti lítur það jákvæðum augum að samkomulag skuli hafa náðst við nemendur frumgreinadeildar um framvindu náms þeirra og skólagjöld í því sambandi. Á sama tíma ber að lýsa áhyggjum yfir væntanlegri stöðu tæknifræðinnar í hinni nýju stofnun. Það liggur fyrir að greinum í tæknifræði verður fækkað og það er mat 2. minni hluta að sú staðreynd stangist á við yfirlýsingar eigenda um að efla beri tæknimenntunina til muna frá því sem verið hefur.
    Það er stefna 2. minni hluta að háskólanám eigi að vera hægt að stunda án skólagjalda, slíkt tryggi efnahagslegt jafnrétti til náms. Til þess að ógna ekki því jafnvægi þurfum við að auka það fé sem sett er til starfrækslu þjóðskóla okkar. Slíkt hlýtur að teljast skynsamlegra en að dreifa kröftunum um of. Einnig er nauðsynlegt að stjórnvöld komi sér upp heildstæðri stefnu í málefnum háskóla, bæði hvað varðar háskólakennslu og háskólarannsóknir. Slíka stefnu þarf að vinna í góðu samstarfi við háskólastúdenta, háskólakennara og fræðasamfélagið í heild sinni. Sá gjörningur sem hér er framkvæmdur með því að afnema lög um Tækniháskóla Íslands er ekki hluti af slíkri stefnumótun.
    Í ljósi þeirra grundvallarsjónarmiða sem koma fram í nefndaráliti þessu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði fellt. Þess í stað axli stjórnvöld ábyrgðina á því að efla tæknimenntun á háskólastigi í skapandi samvinnu við aðila á vinnumarkaði og tryggi jafnframt viðgang verkfræðideildar Háskóla Íslands, ekki hvað síst hvað varðar meistara- og doktorsnám.

Alþingi, 14. febr. 2005.



Kolbrún Halldórsdóttir.