Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 464. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 797  —  464. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða aukaverk og viðbætur hefur þurft að vinna við Kárahnjúkavirkjun frá því að framkvæmdir hófust og hver er kostnaðurinn vegna þessa? Svar óskast sundurliðað eftir verksamningum.
     2.      Hvaða aðili samþykkir aukaverk vegna Kárahnjúkavirkjunar?
     3.      Hafa verið gerðar aukalega rannsóknir á jarðfræði Kárahnjúkasvæðisins og hafa þær leitt eitthvað nýtt í ljós?
     4.      Hafa stíflumannvirki verið endurhönnuð og ef svo er, hver var kostnaðurinn við það?
     5.      Hvernig hljóðar verkáætlun fyrir Kárahnjúkavirkjun? Hvaða verkliðir ganga samkvæmt áætlun og hverjir ekki?
     6.      Hefur ráðherra gert áætlun um hvernig skuli brugðist við ef svo mikill dráttur verður á gerð virkjunarinnar við Kárahnjúka að ekki takist að afhenda orku til Alcoa á umsömdum tíma?


    Leitað var til Landsvirkjunar um svör við fyrirspurninni. Svör við 1.–5. lið byggjast á svörum Landsvirkjunar.

    1. Við allar virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar verða breytingar meðan á verktímanum stendur. Slíkar breytingar eru oftast tengdar þeim jarðfræðilegu aðstæðum sem fram koma við gröft fyrir mannvirkjunum. Jafnframt ber að hafa í huga að lokahönnun fer jafnan fram eftir að framkvæmdir eru hafnar og því þarf oft að semja um breytingar vegna útfærslu á endanlegum lausnum.
    Fjölmargar breytingar hafa verið gerðar við Kárahnjúkavirkjun vegna endanlegra ákvarðana um tæknilegar útfærslur. Það á við um alla verksamningana. Mestar breytingar á magni, tíma og kostnaði eru vegna Kárahnjúkastíflu og þá einkum vegna aðstæðna á botni Hafrahvammagljúfurs. Fastur botn er þar neðar en búist var við og lausnir vegna misgengis bergs á botni gljúfursins voru flóknari og tímafrekari en reiknað hafði verið með.
    Samið hefur verið við verktaka Kárahnjúkastíflu og aðrennslisganga um greiðslur fyrir allar breytingar sem orðið hafa til síðustu áramóta.
    Í fjárhagsáætlunum fyrir allar framkvæmdir Landsvirkjunar er gert ráð fyrir talsverðum ófyrirséðum kostnaði umfram upphaflega verksamninga til að mæta breytingum og aukaverkum sem ávallt koma upp á framkvæmdatímanum.
    Landsvirkjun hefur upplýst um heildarfjárhæðir tilboða eftir útboð, en að öðru leyti eru einstakir þættir tilboða og samninga og breytingar á þeim trúnaðarmál samningsaðilanna, verktakanna eða framleiðendanna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Því hefur fyrirtækið ekki gefið upplýsingar um einstaka þætti samninga.

    2. Framkvæmdaeftirlit og verkefnisstjórn Landsvirkjunar leggja mat á aukaverk og breytingar og gera tillögur til yfirstjórnar til endanlegrar afgreiðslu og samþykktar.

    3. Gerðar hafa verið viðbótarrannsóknir bæði í lónsstæði og í beinum tengslum við framkvæmdir við stíflurnar. Úrvinnsla þessara rannsókna og athugana stendur yfir hjá jarðvísindamönnum og hönnuðum.

    4. Sjálf aðalstíflan hefur verið löguð að breyttum jarðfræðilegum aðstæðum og sumir hlutar hennar endurhannaðir, m.a. fremsti hluti hennar, svokallaður táveggur. Hönnun stíflunnar að öðru leyti er óbreytt frá upphaflegri tilhögun.

    5. Allir verkþættir við Kárahnjúkavirkjun eru innan ramma verkáætlunar nema Kárahnjúkastífla, sem orðin er u.þ.b. fjórum mánuðum á eftir upphaflegri verkáætlun.

    6. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun hefur verið samið við verktakann Impregilo um að flýta verki sínum við Kárahnúkastíflu þannig að fylling í Hálslón og rekstur virkjunarinnar geti hafist á réttum tíma þrátt fyrir áorðnar tafir. Fylling ætti því að hefjast 1. september 2006 og framleiðsla raforku með fyrstu tveim vélasamstæðunum gæti því hafist 1. apríl 2007 eins og gert er ráð fyrir í samningi Landsvirkjunar og ALCOA.
    Það er alfarið í verkahring samningsaðila, Landsvirkjunar og ALCOA en ekki ráðherra að bregðast við hugsanlegum töfum á afhendingu raforku til Fjarðaáls á umsömdum tíma.