Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 550. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 830  —  550. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2004.

1.     Inngangur.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfsstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur ráðið saman til nefndarfunda fjórum sinnum á ári og skipuleggur árlegar þemaráðstefnur þar sem rætt er eitt tiltekið málefni, svo sem umhverfismál, menningarmál og öryggismál. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af 7 alþingismenn. Hvert hinna ríkjanna fjögurra (ásamt sjálfsstjórnarsvæðunum) á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert ríki skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn, um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um framkomnar tillögur og sendir þingið frá sér tilmæli til ráðherranefndar. Á Norðurlandaráðsþinginu gefa samstarfsráðherrar Norðurlanda þinginu skýrslu og svara fyrirspurnum. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamvinnunnar. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

2.     Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1.     Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi starfsársins 2004 skipuðu Íslandsdeildina Jónína Bjartmarz, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Rannveig Guðmundsdóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigríður A. Þórðardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Þann 28. janúar var sú breyting gerð að Arnbjörg Sveinsdóttir tók sæti varamanns í stað Þorgerðar K. Gunnarsdóttur.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. október við upphaf 131. þings. Ein breyting var á skipan aðalmanna þar sem Arnbjörg Sveinsdóttir tók við af Sigríði A. Þórðardóttur. Þær breytingar urðu á varamönnum að Kjartan Ólafsson tók við af Arnbjörgu Sveinsdóttur og Siv Friðleifsdóttir tók sæti Kristins H. Gunnarssonar. Á fundi Íslandsdeildar þann 7. október var Jónína Bjartmarz kjörin formaður deildar og Drífa Hjartardóttir varaformaður. Stígur Stefánsson alþjóðaritari gegndi starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á starfsárinu 2004.

2.2.     Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Á 55. þingi Norðurlandaráðs í Ósló 27.–29. október 2003 var kosið í nefndir fyrir starfsárið 2004 og varð nefndarseta Íslandsdeildar sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir og Jónína Bjartmarz áttu sæti í forsætisnefnd. Í efnahags- og viðskiptanefnd sátu Drífa Hjartardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Sigríður A. Þórðardóttir sat í velferðarnefnd. Í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd áttu sæti Ásta R. Jóhannesdóttir og Sigurður Kári Kristjánsson og var hann jafnframt varaformaður nefndarinnar. Sigurður Kári sat einnig í eftirlitsnefnd. Þegar Arnbjörg Sveinsdóttir tók sæti í Íslandsdeildinni í stað Sigríðar A. Þórðardóttur tók hún jafnframt sæti Sigríðar í velferðarnefnd.
    Auk nefndarsetu sátu fulltrúar Íslandsdeildar í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs, auk þess sem þeir sátu í stjórnum stofnana og ráða tilnefndir af Norðurlandaráði. Arnbjörg Sveinsdóttir sat í vinnuhópi um strandveiðar á vegum umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Rannveig Guðmundsdóttir gegndi stöðu áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs hjá Þingmannanefnd um norðurskautsmál. Rannveig gegndi enn fremur formennsku í stjórn Norræna menningarsjóðsins. Þuríður Backman sat í stjórn norrænnar samstarfsmiðstöðvar um málefni fatlaðra og Jónína Bjartmarz átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans.

2.3.     Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar fimm sinnum á árinu. Að venju var þátttaka í fundum, þemaráðstefnu og þingi Norðurlandaráðs undirbúin en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá, svo og gagnkvæm upplýsingaskipti fulltrúa Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og vinnuhópum Norðurlandaráðs. Þá voru febrúarfundir Norðurlandaráðs sem fram fóru í Reykjavík undirbúnir (sjá 5.1.). Töluvert var rætt um eftirfylgni við tilmæli Norðurlandaráðs en eftir breytingarnar á skipulagi ráðsins sem tóku gildi 1. janúar 2002 hefur verið lögð áhersla á nánari tengsl við þing ríkjanna og hlutverk landsdeilda við að fylgja tilmælum eftir heima í héraði. Voru tilmæli Norðurlandaráðs send til viðkomandi fastanefnda Alþingis. Hugmyndin að baki þessari ráðstöfun er sú að fastanefndirnar fái tilmælin til upplýsingar og geti jafnframt fylgt þeim eftir í löggjafarstarfi þegar við á. Þá var á fundum Íslandsdeildar rætt um skipan fulltrúa Íslandsdeildar í nefndir Norðurlandaráðs og nauðsyn þess að Íslandsdeild fengi fulltrúa í sem flestum af hinum fimm málefnanefndum Norðurlandaráðs. Framboðsmál Íslandsdeildar til forseta og varaforseta Norðurlandaráðs árið 2005 voru rædd á fundi Íslandsdeildar í september og var samþykkt samhljóða að Rannveig Guðmundsdóttir yrði forsetaefni og Jónína Bjartmarz varaforsetaefni.
    Íslandsdeildin hélt einn fund með Valgerði Sverrisdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, og fór hann fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 11. október. Fundurinn var haldinn í aðdraganda 56. Norðurlandaráðsþings og var þingið sjálft, formennska Íslands innan Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2004, og áherslur í starfsáætlun Norðurlandaráðs árið 2005 helstu umræðuefnin. Ráðherra skýrði frá því hvað úr formennskuáætlun Íslands sem bar nafnið „Auðlindir Norðurlanda – Lýðræði, menning, náttúra“ mundi bera hæst á þinginu. Nefndi ráðherra m.a. Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi, úttekt á samgöngumálum Vestur-Norðurlanda og hugmyndir um grannsvæðasamstarf með nágrannaríkjum Norðurlanda í vestri. Þá nefndi ráðherra áframhaldandi starf til að afnema landamærahindranir og vinnu svonefndrar lýðræðisnefndar ráðherranefndarinnar sem skoðað hefur þróun lýðræðis á tímum hnattvæðingar og hraðra framfara í upplýsingatækni. Jónína Bjartmarz kynnti áherslumál Norðurlandaráðs fyrir starfsárið 2005 en fjögur þemu hafa verið sett á oddinn:
     .      áframhaldandi vinna að afnámi landamærahindrana á Norðurlöndum með áherslu á hindranir sem varða atvinnulífið;
     .      að styrkja norrænt samstarf og hlutverk þess í nýrri Evrópu;
     .      að mynda brú á milli ESB/ESS-svæðisins og Rússlands;
     .      og styðja við sjálfbæra þróun á Vestur-Norðurlöndum, norðurskautssvæðinu og á Barentssvæðinu.
    Hver málefnanefnd Norðurlandaráðs skilgreinir svo forgangsmál sín út frá þessum fjórum þemum.
    Íslandsdeild þáði boð Norðurlandaráðs um að senda þingmenn á ýmsar alþjóðaráðstefnur fyrir hönd ráðsins á starfsárinu 2004. Sóttu íslenskir þingmenn þær ráðstefnur sem fulltrúar sérstakra sendinefnda Norðurlandaráðs. Á meðal þeirra viðburða sem þingmenn Íslandsdeildar sóttu má nefna Eystrasaltsráðstefnuna í Bergen, Þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Nuuk, Norræna daga í þýska þinginu í Berlín og Eystrasaltsþingið í Ríga. Þingmenn Íslandsdeildar sóttu einnig ráðstefnur á vegum sinna nefnda í Norðurlandaráði og er þess getið að aftan í umfjöllun um hverja nefnd fyrir sig.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 28. júní og var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga samanlagt 90 þús. dkr. Alls bárust níu umsóknir og ákvað Íslandsdeildin að veita sex umsækjendunum styrk. Arnar Páll Hauksson, Áskell Þórisson, Helgi Þorsteinsson, Steingerður Ólafsdóttir og Þröstur Haraldsson hlutu 16.500 dkr. hver og Þorsteinn Gunnarsson hlaut 7.500 dkr.
    Haukur Tómasson tónskáld hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2004 (sjá nánar 4. kafla). Af því tilefni stóð Íslandsdeild Norðurlandaráðs í samvinnu við hóp íslenskra tónlistarmanna og Þjóðmenningarhúsið fyrir dagskrá til heiðurs verðlaunahafanum sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu að kvöldi 17. nóvember. Þar var tónlist Hauks leikin og m.a. boðið upp á frumflutning á nýju kórverki. Jónína Bjartmarz, formaður Íslandsdeildar, hélt hátíðarræðu, Matthías Johannessen skáld las eigið ljóð og Árni Heimir Ingólfsson hélt fyrirlestur um tónlist Hauks.

3.     Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1.     Forsætisnefnd.
    Af hálfu Íslandsdeildar sátu Jónína Bjartmarz og Rannveig Guðmundsdóttir í forsætisnefnd. Sænski þingmaðurinn Gabriel Romanus gegndi embætti forseta Norðurlandaráðs á árinu og er hann úr flokkahópi miðjumanna.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir Norðurlandanna og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni, og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur vinnuhópur á vegum nefndarinnar tók þá fjárlagavinnu sérstaklega að sér árið 2004, líkt og áður hafði verið gert. Eftir breytingarnar á nefndakerfi Norðurlandaráðs sem tóku gildi árið 2002 er aukin áhersla lögð á utanríkis- og öryggismál í starfi forsætisnefndar, þar á meðal friðargæslu og málefni hinnar norðlægu víddar ESB. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri stofnanir. Forsætisnefnd fjallar einnig um þær tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd hélt sjö fundi á árinu en auk þess fóru fram sameiginlegir fundir nefndarinnar og ýmissa aðila, m.a. hefðbundnir fundir nefndarinnar með norrænu forsætisráðherrunum og utanríkisráðherrunum á þingi Norðurlandaráðs. Af helstu málum sem forsætisnefnd fjallaði um, fyrir utan hefðbundin störf, má nefna framtíðarskipulag norræns samstarfs og viðræður við norrænu þingforsetanna um þau mál. Viðræður við norrænu þingforsetana um stöðu og framtíð norræns samstarfs hófust þegar fulltrúar forsætisnefndar Norðurlandaráðs gengu á fund forsetanna í tengslum við árlegan samráðsfund þeirra í Ósló 24. maí. Þar voru ræddar leiðir til þess að tryggja nánari tengsl milli Norðurlandaráðs og þjóðþinganna, t.d. með aukinni samvinnu og upplýsingamiðlun á milli málefnanefnda Norðurlandaráðs og tilsvarandi fastanefnda þjóðþinganna. Þá var rætt hvernig tryggja mætti skilvirkni í starfsemi ráðsins sem veitti því sveigjanleika þannig að það gæti brugðist hratt við breytingum á pólitísku umhverfi sínu. Þá var hlutverk Norðurlandaráðs í þingmannasamstarfi í N-Evrópu rætt. Miklar breytingar hafa verið á pólitísku landslagi N-Evrópu, nú síðast með stækkun ESB 1. maí 2004, og því þarf að aðlaga skipulag alþjóðlegs þingmannasamstarfs að breyttum aðstæðum. Í því sambandi var nefnt hve mörg þingmannasamtök starfa á svæðinu og lýstu forsetarnir áhyggjum af því að svo fjölbreytt stofnanaflóra gæti leitt til óskilvirkni og tvíverknaðar. Mætti sjá fyrir sér að ráðið tæki að sér samræmingarhlutverk milli þingmannasamtaka á svæðinu.
    Í framhaldi af fundinum var sérstökum framtíðarhópi komið á innan Norðurlandaráðs til að gera úttekt á þingmannasamstarfi í norðanverðri Evrópu. Var m.a. litið til þess hvernig tekist hefur til með þingmannasamvinnu Norðurlandaráðs við Eystrasaltsþingið, Eystrasaltsráðstefnuna og Þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Vinnuhópinn skipuðu eftirtaldir Norðurlandaráðsliðar: Gabriel Romanus og Kent Olsson frá Svíþjóð, Outi Ojala og Arja Alho frá Finnlandi, Inge Lønning frá Noregi, Jens Christian Larsen frá Danmörku og Rannveig Guðmundsdóttir. Hópurinn hélt nokkra fundi og undirbjó útspil Norðurlandaráðs til norrænu þingforsetanna fyrir fund með þeim á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Varðandi aukna skilvirkni lagði framtíðarhópurinn til að tvær breytingar verði gerðar á fundaáætlun ráðsins. Annars vegar að Norðurlandaráðsþing verði fært og haldið á vorin í stað hausts til að þinghald rekist ekki á við fjárlagagerð í þjóðþingunum. Hins vegar verði sameiginlegum fundum málefnanefnda og flokkahópa utan Norðurlandaráðsþings fækkað úr fjórum í þrjá. Þar með mundi skapast svigrúm og sveigjanleiki til þess að beina kröftum í átt að auknu samstarfi við fastanefndir þjóðþinganna og/eða samstarfsverkefnum í N-Evrópu.
    Ýmsar hugmyndir að endurskipulagningu þingmannasamstarfs í N-Evrópu hafa verið nefndar og ræddi framtíðarhópurinn möguleika á því að Norðurlandaráð tæki að sér sérstakt samræmingarhlutverk milli stofnana á svæðinu. Jafnframt var lögð áhersla á að varðveita það sem er einstakt við ráðið sem er hið nána samstarf við ríkisstjórnirnar. Ráðherrar eru meðlimir ráðsins og bera ábyrgð gagnvart þingmönnum. Þannig hafa þingmenn í ráðinu margvísleg formleg réttindi gagnvart ríkisstjórnunum sem er einstakt í alþjóðlegu þingmannasamstarfi og jafnframt helsti styrkur ráðsins. Afar litlar líkur eru taldar á að breiðari þingmannasamtök í N-Evrópu gætu náð slíku samstarfi við ríkisstjórnirnar. Hvað varðar hið mögulega samræmingarstarf, þá var vitnað til þess að ráðið hefur reynslu af slíku þar sem það ýtti norðurskautssamstarfinu úr vör og sér um skipulagningu og skrifstofu Eystrasaltsráðstefnunnar. Eystrasaltsráðstefnan er þingmannaráðstefna sem haldin er einu sinni á ári með þátttöku þingmanna frá Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjunum, Póllandi, Þýskalandi og Rússlandi.

3.2.     Menningar- og menntamálanefnd.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti. Enginn íslenskur fulltrúi sat í nefndinni á starfsárinu 2004.
    Á starfsárinu beindi menningar- og menntamálanefnd m.a. sjónum sínum að líftækni, gæðastjórnun í skólastarfi, fullorðinsfræðslu og norrænni menningarpólitík. Nefndin stóð fyrir ráðstefnu um gæði í grunnskólum á Norðurlöndum í tengslum við febrúarfundi Norðurlandaráðs hér á landi. Norðurlöndin er oft nefnd sem fyrirmynd annarra landa í alþjóðlegum könnunum. Þrátt fyrir það er oft mikið um harða sjálfsgagnrýni innan einstakra Norðurlanda þegar skólastarf er annars vegar. Þessi þversögn varð til þess að ráðstefnan bauð upp á líflegar umræður og mikinn vilja manna til að læra hver af öðrum. Þátttakendur voru meira en 100 frá öllum Norðurlöndunum og sjálfsstjórnarsvæðunum og voru menn sammála um að margt mætti betur fara hvað varðar gæði þeirrar vinnu sem fram fer. Sérstaklega er mikilvægt að þróa aðferðir til að meta gæði, auk þess að bæta samspil heimilis og skóla.

3.3.     Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd voru Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem gegndu jafnframt stöðu formanns og varaformanns nefndarinnar. Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Á starfsárinu vann nefndin tillögur um norræna skattstofu, opinn hugbúnað og opna hugbúnaðarstaðla í upplýsingatæknistefnu Norðurlanda. Einnig vann nefndin tillögu um norræna skattaráðstefnu sem beindi sjónum að lausn vandamála og hindrana sem einstaklingar og fyrirtæki mæta vegna mismunandi skattalöggjafar á Norðurlöndum. Þá vann nefndin tillögu um að halda sameiginlega vinnumarkaðsráðstefnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna en aðild Eystrasaltsríkjanna að ESB mun auka mjög flæði á milli vinnumarkaða þessara landa. Þeirri ráðstefnu er ætlað að vera framhald á ráðstefnu um vinnumarkaðssamstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem haldin var í Stokkhólmi 31. ágúst og Drífa og Steingrímur sóttu fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar.
    Í samræmi við áherslur Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar á málefni Vestur-Norðurlanda árið 2004 ákvað efnahags- og viðskiptanefnd að helga sumarfund sinn vestnorrænum málum, sér í lagi samgöngu- og byggðamálum. Sumarferð nefndarinnar var farin til Færeyja og Íslands 10.–14. ágúst. Í Færeyjum átti nefndin fund með efnahagsnefnd færeyska þingsins um þróun atvinnumála eyjanna og var þingmaðurinn Henrik Old í forsvari fyrir Færeyinga. Þá átti nefndin kynningarfundi með forstjóra færeyska símans, Andrass Róni, um stöðu fjarskiptamála í Færeyjum. Nefndarmenn kynntu sér gerð jarðganga undir sjó á fundi og í skoðunarferð með Dávið Reinert Hansen, forstjóra Vágagangna og Norðureyjaganga. Þá átti nefndin fund með Óla Hammer, forstjóra rekstrarfélags ferjunnar Norrænu, um stöðu farþegasamgangna á sjó og sigldi því næst með Norrænu til Íslands. Eftir komuna til Seyðisfjarðar voru virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka skoðaðar og að því loknu var boðið upp á skoðunarferð um Norðurland. Á Akureyri var Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri heimsótt. Rektor Háskólans á Akureyri, Þorsteinn Gunnarsson, kynnti starfsemi skólans stuttlega en því næst gerðu Hjalti Jóhannesson og Jón Þ. Heiðarsson grein fyrir drögum að úttekt á flug- og skipasamgöngum á Vestur-Norðurlöndum sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina að frumkvæði íslensku formennskunnar. Elín Árnadóttir kynnti norræna úttekt á stöðu atvinnumarkaða á norrænum jaðarsvæðum og Grétar Þór Eyþórsson gerði grein fyrir samanburðarrannsókn á starfsskilyrðum smárra sveitarfélaga á Íslandi, Færeyjum og Álandseyjum. Efnahags- og viðskiptanefnd heimsótti einnig Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Þar tóku Joan Nymand Hansen og Jón Haukur Ingimundarson á móti nefndinni. Joan flutti fyrirlestur um efnahagsþróun á norðurskautssvæðinu m.a. út frá skýrslu Norðurskautsráðsins um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum en Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sá um ritstjórn skýrslunnar sem alþjóðlegt teymi vísindamanna tók þátt í að semja.

3.4.    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd voru Ásta R. Jóhannesdóttir og Sigurður Kári Kristjánsson og var hann jafnframt varaformaður nefndarinnar. Nefndin annast málefni sem varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd lagði áherslu á orkumál á starfsárinu og vann tillögu um frekari samræmingu á norrænum flutningskerfum fyrir rafmagn til að tryggja aukið dreifingaröryggi og skilvirkni. Þá gekkst nefndin fyrir stórri þríhliða orkumálaráðstefnu í Ósló 11. desember í samvinnu við Eystrasaltsþingið og Beneluxþingið. Á ráðstefnunni var rætt um pólitískar og efnahagslegar leiðir til að tryggja öruggt framboð sjálfbærra orkugjafa. Á starfsárinu stóð nefndin fyrir stuttum málstofum um gildi og framtíð norræna umhverfissáttmálans, samstarf við Eystrasaltsríkin á sviði umhverfismála, og umsjón og eftirlit með villtum rándýrastofnum á Norðurlöndum. Þá fjallaði nefndin um vistvænar landbúnaðarvörur á Norðurlöndum og vann tillögu um að leita leiða til að auka dreifingu vistvænna matvæla á norrænum mörkuðum.
    Á septemberfundum Norðurlandaráðs á Álandseyjum efndi umhverfis- og náttúruauðlindanefnd til málstofu um örugga meðhöndlun og flutning kjarnorkuúrgangs. Á málstofunni kom m.a. fram að á næstu fimm árum mun úrgangur frá kjarnorkuverum í Svíþjóð og Noregi verða um 10.000 tonn. Það verður erfiðleikum bundið að flytja úrganginn á öruggan hátt um Evrópu og Rússland og snýst vandinn fyrst og fremst um að finna farartæki sem geta flutt úrganginn á öruggan hátt. Bellona-umhverfisverndarsamtökin norsku vilja því að innflutningur og útflutningur kjarnorkuúrgangs verði bannaður. Peter Wikberg frá Umsýslustöð kjarnorkueldsneytis í Svíþjóð lýsti áætlunum Svía um að byggja geymslu djúpt í jörðu fyrir kjarnorkuúrgang annaðhvort í Oskarhamn eða í Forsmark árið 2008.
    Í samræmi við áherslur Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar á málefni Vestur-Norðurlanda árið 2004 hélt umhverfis- og náttúruauðlindanefnd sumarfund sinn á Grænlandi. Þema fundarins var náttúruvernd, úrgangur og lifandi auðlindir og átti nefndin m.a. fund með umhverfisnefnd grænlenska þingsins um þessi mál.
    Ásta R. Jóhannesdóttir sótti tvær ráðstefnur Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun fyrir hönd umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Ásta var einnig fulltrúi nefndarinnar á ársfundi NAMMCO sem fram fór í Færeyjum í byrjun mars.
    Á starfsárinu kom umhverfis- og náttúruauðlindanefnd á fót vinnuhópi til að skipuleggja ráðstefnu um framtíðarhorfur strandveiða á Norðurlöndum. Arnbjörg Sveinsdóttir sem sat í nefndinni sem varamaður tók sæti í vinnuhópnum og er fyrirhugað að ráðstefnan fari fram í byrjun apríl 2005.

3.5.     Velferðarnefnd.
    Í upphafi árs var Sigríður A. Þórðardóttir fulltrúi Íslandsdeildar í velferðarnefnd en hinn 22. september tók Arnbjörg Sveinsdóttir sæti hennar. Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, börnum og unglingum, og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Á árinu 2004 fjallað nefndin m.a. um samstarf við Eystrasaltsríkin um forvarnir í áfengismálum. Þau mál komu til umræðu á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs í Helsinki í apríl í sérstakri málstofu um lýðheilsu og heilbrigðismál. Í umræðum var rætt um sjúkdóma sem tengjast lífsstíl, svo sem áfengissýki og vímuefnafíkn, auk þess sem áhersla var lögð á baráttu gegn smitsjúkdómum eins og berklum og eyðni í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi.
    Sumarfundur nefndarinnar fór fram í Danmörku og var helgaður umbótum á skipulagi sveitarfélaga á Norðurlöndum. Öll löndin hafa verið að ganga í gegnum umbreytingar á þessu sviði þar sem nokkur flutningur hefur verið á verkefnum á milli ríkis og sveitarfélaga og/eða annarra stjórnsýslustiga. Hlýddi nefndin á fyrirlestra um skilyrði danskra sveitarfélaga og fyrirhugaðar umbætur á sveitarstjórnarstiginu í Danmörku sem bæði fela í sér flutning verkefna til sveitarfélaga og röð sameiningar sveitarfélaga sem á að skila færri en stærri og sterkari sveitarfélögum.
    Vinnuhópur velferðarnefndar um málefni barna og ungmenna starfaði árin 2003–2004. Hópurinn hefur unnið að úttekt á stöðu barna og ungmenna á Norðurlöndum, í Eystrasaltslöndunum og í Norðvestur-Rússlandi. Í því skyni hefur hópurinn m.a. heimsótt löndin og skoðað skýli og neyðarmóttöku fyrir götubörn, barnaheimili og barnaspítala auk þess sem nefndin átti fund með fulltrúum hjálparsamtaka sem beita sér fyrir málefnum barna. Ætlunin er að gefa velferðarnefnd mynd af aðgerðum norrænna stjórnvalda og þjóðþinga á þessu sviði, og koma með tillögur að því hvernig Norðurlandaráð getur unnið að því að ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verði virk og virt í Eystrasaltslöndunum og Norðvestur- Rússlandi.

3.6.     Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum. Enginn fulltrúi Íslandsdeildar sat í nefndinni starfsárið 2004.
    Nefndin beindi sjónum sínum að ýmsum sviðum á starfsárinu, t.d. breyttum aðstæðum varðandi mansal og baráttu gegn því eftir stækkun ESB, jafnréttismálum út frá sjónarhóli karla og aðstæðum og samstarfi við frumbyggja á Barentssvæðinu. Hvað hið síðastnefnda varðar vann nefndin tillögu um að Norræna ráðherranefndin styddi frumbyggja sérstaklega í samstarfi við Norðvestur-Rússland og að ráðherranefndin ynni með samtökum Sama við að greina landamærahindranir sem Samar verða fyrir á Norðurlöndum.
    Sumarfundur borgara-og neytendanefndar var haldinn á Ísafirði. Þar sem enginn Íslendingur var í nefndinni sótti Jónína Bjartmarz, formaður Íslandsdeildar, fund nefndarinnar og var í hlutverki gestgjafa. Á fundinum kynnti Níels Einarsson frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar vinnu að skýrslu Norðurskautsráðsins um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum, Ingólfur Gíslason flutti erindi um byggðaþróun við sjávarsíðuna og Anna Karlsdóttir ræddi stöðu kvenna í fiskiðnaði. Nefndin heimsótti fjölmenningarsetrið á Ísafirði þar sem Elsa Árnadóttir tók á móti hópnum og kynnti starfsemina. Dragana Zastavnikovics flutti erindi á persónulegum nótum um það að vera flóttamaður á Íslandi og Ingibjörg Daníelsdóttir greindi frá því hvernig tekið hefur verið á móti innflytjendum og reynt að innlima þá á virkan hátt í samfélagið. Eftir fundinn á Ísafirði hélt nefndin til Reykjavíkur og fór í kurteisisheimsókn á Bessastaði þar sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók á móti nefndinni.
    Borgara- og neytendanefnd gekkst fyrir sérstakri ráðstefnu um skipulega glæpastarfsemi á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum á septemberfundi Norðurlandaráðs á Álandseyjum. Sérfræðingar frá Europol og samstarfsnefnd sem stjórnar aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi á svæðinu ítrekuðu nauðsyn þess að auka þátttöku Rússlands í þessu samstarfi. Samstarf við Rússa væri lykill að árangri í þessari baráttu og þar gætu norrænir stjórnmálamenn lagt sitt á vogarskálarnar. Fram kom að alls kyns fíkniefnasmygl væri að aukast. Þetta á við um hass, kannabis, kókaín, heróín og fleiri efni. Glæpasamtök ganga lengra en áður í að hóta vitnum, lögreglu, saksóknurum og stjórnmálamönnum. Þátttakendur í ráðstefnunni lögðu áherslu á að ná til þeirra sem standa að mansali til kynlífsþrælkunar. Aðgerðir verða að beinast að því að hafa hendur í hári skipuleggjendanna og tryggja góða vitnavernd fyrir þær konur sem vilja bera vitni. Enn fremur var komið inn á tengsl glæpastarfsemi og hryðjuverka. Europol telur að hryðjuverkastarfsemi feli sig á bak við skipulagða glæpastarfsemi og noti hana til fjármögnunar, og í ljósi þess yrðu lögregluyfirvöld og leyniþjónustur um allan heim að starfa meira saman til þess að vinna bug á þessu vandamáli.

3.7.     Eftirlitsnefnd.
    Fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs var Sigurður Kári Kristjánsson. Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins. Fyrir utan hefðbundin störf gerði eftirlitsnefnd á starfsárinu 2004 sérstaka úttekt á þeim stofnunum sem sinna svæðisbundnu samstarfi yfir landamæri á Norðurlöndum.

4.     Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru þrenn, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun, og voru þau afhent við hátíðlega athöfn á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 2. nóvember.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Finnski rithöfundurinn Kari Hotakainen hlaut verðlaunin árið 2004 fyrir skáldsöguna Juoksuhaudantie (Skotgrafarvegur). Í rökstuðningi dómnefndar segir að verkið sé gagnrýnið á samfélagið og uppbygging sögunnar sé úthugsuð. Skotgrafarvegur lýsi upplausn norræns velferðarsamfélags og noti skopstælingu og kaldhæðni í lýsingu sinni á samtímanum og ekki síst hefðbundnu hlutverki karlmanna.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt árlega, annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Haukur Tómasson hlaut tónlistarverðlaunin 2004 fyrir tónlistina við óperuna Fjórði söngur Guðrúnar sem fjallar um Guðrúnu Gjúkadóttur sem hefnir sín grimmilega á þeim sem beitt hafa hana ranglæti. Í rökstuðningi dómnefndar sagði m.a.: „Í verki Hauks Tómassonar, Fjórði söngur Guðrúnar, er gríðarleg spenna milli nútímalegra og nýskapandi þátta og gömlu bókmenntahefðarinnar sem höfundurinn sækir til Eddunnar. Hrynjandi Eddukvæðanna endurspeglast í takti tónlistarinnar og blóðhefndarfrásögnin er sögð í hljómum og laglínum. Tónlistin túlkar vel sterkar tilfinningarnar. Allt frá ljósum sætleika ástarinnar til hatursofsa myrkursins. Þetta er stórbrotið verk þar sem skiptast á hljómfagrar og innilegar aríur og ískaldur raunveruleiki og örlagaþrungnir taktar og þar sem heildaráhrifin eru úthugsuð og kraftmikil svo minnir á Íslendingasögurnar.“ Skömmu eftir að Haukur tók við verðlaunum sínum stóð hópur íslenskra tónlistarmanna fyrir dagskrá honum til heiðurs í samvinnu við Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Þjóðmenningarhúsið (sjá kafla 2.3.).
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 var samþykkt að koma á árlegum náttúru- og umhverfisverðlaunum. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðlum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa í störfum sínum sýnt náttúrunni virðingu. Umhverfisverndarsamtökin Coalition Clean Baltic í Svíþjóð hlutu náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2004 fyrir það að hafa búið til öflugt samstarfsnet umhverfissamtaka á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjunum og víðar. Samtökin voru stofnuð árið 1990 af umhverfisverndarsamtökum frá níu löndum við Eystrasalt til þess að auðvelda samstarf um verndun hafsvæðisins. Starfsaðferðir CCB eru einkum þær að dreifa upplýsingum, standa að umhverfisfræðslu og annarri starfsemi til að vekja athygli almennings, en einnig vinna samtökin að samstarfsverkefnum sem ríku löndin við Eystrasaltið fjármagna.
    Framangreind verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þús. dkr.

5.     Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kemur að jafnaði saman til nefndarfunda fjórum sinnum á ári til þess að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaráðsþing. Í tengslum við þessa nefndarfundi fara fram stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem eitthvert eitt efni er tekið fyrir.

5.1. Febrúarfundur Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Febrúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Reykjavík dagana 1.–2. febrúar sl. Íslandsdeild Norðurlandaráðs og alþjóðasvið Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu fundanna í samvinnu við starfsfólk skrifstofu Norðurlandaráðs og fleiri aðila. Fundirnir fór fram á Hótel Nordica. Um 180 þátttakendur sóttu ráðstefnuna, þar af 79 þingmenn frá Norðurlöndum auk hóps þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum.
    Auk hefðbundinna funda í nefndum og flokkahópum var haldinn einn sameiginlegur fundur alls ráðsins og fjallaði hann um formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Á fundinum kynntu Siv Friðleifsdóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda, Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Árni Magnússon félagsmálaráðherra áætlunina sem nefnist „Auðlindir Norðurlanda – Lýðræði, menning, náttúra“. Jónína Bjartmarz setti fundinn og sagði það vera nýlega hefð í Norðurlandaráði að halda febrúarfundina í því landi sem tekið hefur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Hugsunin að baki því er að gefa norrænum samstarfsráðherra formennskulandsins færi á að kynna formennskuáætlunina í grófum dráttum, auk þess sem málefnanefndir Norðurlandaráðs eigi kost á að funda nánar með einstökum fagráðherrum um áherslur formennskulandsins á afmarkaðri sviðum. Því næst tók Siv Friðleifsdóttir til máls og lagði áherslu á áframhaldandi starf til að afnema landamærahindranir á milli Norðurlanda en Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, hefur stýrt því starfi fyrir hönd ráðherranefndarinnar. Þá greindi Siv frá áformum um að styrkja stöðu Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi og hugmyndum um grannsvæðasamstarf í austur við ey- og strandríki við Norður-Atlantshaf, einkum um umhverfismál. Hefur Páli Péturssyni, fyrrverandi félagsmálaráðherra, verið falið það verkefni að fylgja eftir tillögum um aukið vægi Vestur-Norðurlanda. Að síðustu ræddi Siv um norræna lýðræðisnefnd sem komið hefur verið á fót og ætlað er að skoða þróun lýðræðis á Norðurlöndum og leggja fram tillögur um hvernig styrkja megi lýðræðisferlið í ljósi aukinnar hnattvæðingar og framfara í upplýsingatækni. Árni Magnússon gerði grein fyrir megináherslum á félags- og heilbrigðissviðinu. Þar á meðal eru hugmyndir um samanburð á starfsmannastefnu á heilbrigðissviði á Norðurlöndum og aukið samráð lýðheilsustofnana landanna. Á formennskuárinu mun Ísland leggja til að horft verði til nýrra leiða í atvinnumálum fatlaðra, m.a. með því að breyta þeirri hugsun að fötlun feli í sér óvinnufærni. Þorgerður K. Gunnarsdóttir greindi frá helstu áherslum á mennta- og menningarsviðinu. Í formennskuáætluninni er lögð áhersla á að fylgja eftir Hvítbók um Norðurlönd sem rannsóknar- og nýsköpunarsvæði, sem lögð var fram á þingi Norðurlandaráðs í Ósló 2003. Í henni ber hæst tillögur um að tengja sem best saman háskóla, rannsóknastofnanir og sjóði sem styðja rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun. Markmiðið er að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins og byggja brýr milli vísindasamfélagsins og nýsköpunar. Auk þess er lagt til að stofna norrænan margmiðlunarsjóð og gera átak í að kynna norræna menningu á erlendum vettvangi.
    Auk kynningarfundarins um formennskuáætlunina í Norrænu ráðherranefndinni tóku ráðherrar þátt í fundum einstakra málefnanefnda Norðurlandaráðs og gerðu grein fyrir áherslum á afmarkaðri sviðum. Á fundi umhverfis- og náttúruauðlindanefndar fór Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra yfir helstu atriði er varða umhverfisstefnu Norðurlanda. Þá var Jonas Ebbesson dósent gestur nefndarinnar og ræddi endurskoðun norræna umhverfissáttmálans og sagði hana geta falið í sér að sáttmálinn yrði látinn ná til stærra svæðis. Í fyrsta áfanga væri hægt að fá Eystrasaltsríkin til þátttöku, en síðar einnig Pólland, Þýskaland og Rússland. Einnig væri rætt um að hægt væri að taka sáttmálann til efnislegrar endurskoðunar þannig að hann næði einnig til óbeinna umhverfisáhrifa, náttúruverndar, líffræðilegrar fjölbreytni/verndunar tegunda og hugsanlega einnig til efnasambanda.
    Á fundi borgara- og neytendanefndar greindi Árni Magnússon frá áherslum í jafnréttismálum sem eru kynja- og jafnréttissjónarmið í norrænni efnahagspólitík, vernd gegn ofbeldi, og karlar og jafnrétti. Á árinu verður m.a. gerð úttekt á fæðingar- og foreldraorlofi á Norðurlöndunum og leitað leiða til að vinna gegn launamuni kynjanna.
    Drífa Hjartardóttir stýrði sínum fyrsta fundi sem nýr formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók þátt í fundinum og gerði grein fyrir áherslum Norrænu ráðherranefndarinnar á þessu málefnasviði. Sameining Norræna iðnaðarsjóðsins og Nordtest í Norrænu nýsköpunarmiðstöðina hefði verið vel heppnuð og væri miðstöðin mikilvægasti aðilinn á þessu sviði. Miðstöðin beinir sjónum sínum að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sjálfbærum hagvexti, innri markaði Norðurlanda og landamærahindrunum. Per Unckel, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, og Kjetil Storvik, framkvæmdastjóri Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, voru einnig gestir nefndarinnar og ræddu landamærahindranir. Atvinnulífið hefur undir áhrifum frá Norrbackskýrslunni og Schlüterferlinu fengið áhuga á að leysa vandamál sín varðandi landamærahindranir. Samkvæmt könnun Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar nefna fyrirtæki helst skatta, tolla og virðisaukamat sem landamæravandamál, en þó aðallega skatta. Í dag getur fyrirtæki til dæmis ekki nýtt sér tap í einu Norðurlandanna til frádráttar á hagnaði í öðru. Þá var Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, gestur nefndarinnar og gerði grein fyrir stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi.
    Þrjár nefndir Norðurlandaráðs, menningar- og menntamálanefnd, borgara- og neytendanefnd og velferðarnefnd, efndu til ráðstefnu um siðfræði í líftækniiðnaði á febrúarfundunum. Á ráðstefnunni töluðu nokkrir af helstu sérfræðingum Norðurlanda á sviði líftækni og lífsiðfræði. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ræddi um samband einstaklinga og vísindarannsókna og þátt vísindarannsókna í nýjum sjúkdómsmeðferðum. Sagði Kári m.a. að sjúklingar hefðu ekki einungis réttindi heldur einnig skyldu til að leggja af mörkum til vísindarannsókna með því að veita vísindamönnum aðgang að erfðaupplýsingum. Gisela Dahlqvist, prófessor við háskólann í Umeå, ræddi um nútímaerfðatækni og læknavísindi framtíðarinnar. Hún benti á að við munum ekki geta útrýmt sjúkdómum með einræktun, en erfðatæknin mun leggja sitt af mörkum við þróun lyfja, sjúkdómsgreiningar og einnig fyrirbyggjandi meðferðir. Hún nefndi magasár, þunglyndi og krabbamein sem dæmi um sjúkdóma sem betri lyf munu fást við með hjálp erfðatækninnar.

5.2.     Júnífundir Norðurlandaráðs í Kristiansand.
    Sameiginlegur fundur ráðsins fjallaði um landamærahindranir á Norðurlöndum. Vinna að afnámi landamærahindrana hefur staðið yfir frá árinu 2002 þegar rannsókn Ole Norrbacks á réttarstöðu Norðurlandabúa sýndi fram á margvísleg vandamál og hindranir þegar þeir flytjast á milli Norðurlanda. Dæmi um þetta eru skattavandamál fólks sem sækir vinnu sína yfir landamæri, sköttun lífeyrisgreiðslna sem greiddar eru yfir landamæri, tregða við að viðurkenna gagnkvæm starfsréttindi o.fl. Norræna ráðherranefndin réð Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, til að hafa umsjón með starfi til afnáms þessara hindrana á árinu 2003 og aftur árið 2004. Á fundinum í Kristjánssandi sagði Schlüter mikinn árangur hafa náðst hvað varðar samræmingu laga og gagnkvæma samninga. Meðal þeirra mála sem búið er að leysa nefndi Schlüter nýjan menntaskólasamning og norræna yfirlýsingu um æðri menntun. Hann ítrekaði þó að enn sé margt ógert í þessum efnum. Schlüter sagði það vonbrigði hve illa gengi að koma á frjálsum norrænum vinnumarkaði fyrir þær 750 þúsundir manna sem ekki hefðu norrænan ríkisborgararétt en eru með dvalar- og atvinnuleyfi í einhverju Norðurlandanna. Runar Patriksson frá Svíþjóð og fleiri Norðurlandaráðsliðar tóku til máls og bentu á að margvísleg vandamál varðandi skatta og eftirlaun biðu úrlausnar. Patriksson hefur lagt fram tillögu í Norðurlandaráði um að koma á fót norrænni skattastofnun til að veita borgurunum upplýsingar og greiða úr vanda sem upp kemur við skattlagningu tekna sem greiddar eru yfir landamæri.

5.3.     Septemberfundir Norðurlandaráðs á Álandseyjum.
    Á sameiginlega fundi ráðsins voru tvö mál til umræðu, annars vegar umhverfismál í Eystrasalti og hins vegar framtíðarform norræns samstarfs. Álenski þingmaðurinn Lasse Wiklöf flutti framsögu um umhverfi Eystrasalts fyrir hönd gestgjafanna. Wiklöf ítrekaði hversu viðkvæmt hafsvæðið væri fyrir fosfórlosun sem eyðileggur hafsbotninn og eyðir lífi í Eystrasalti. Sagði hann bæði fiskeldi og vandamál sem verða vegna losunar áburðar í hafið frá landbúnaði vera tifandi umhverfissprengjur á Eystrasaltssvæðinu. Hætta væri á að hagræðingu í landbúnaði hinna nýju aðildarríkja ESB sem liggja að Eystrasalti muni fylgja aukin notkun áburðar og þar með aukin mengun. Því væri nauðsynlegt að grípa til aðgerða til varnar umhverfi Eystrasalts og sagði Wiklöf að það væri því miður ekki hægt öðru vísi en að ganga gegn öflugum hagsmunahópum. Rannveig Guðmundsdóttir tók til máls og greindi frá því að í byrjun september hefði hún bæði sótt þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Nuuk og Eystrasaltsráðstefnuna í Björgvin og að þar hefðu umhverfismál verið í brennidepli. Áherslurnar á þessum ráðstefnum undirstrikuðu þá þróun síðustu ára að umhverfisvernd hafsins á norðurhveli verður sífellt mikilvægara verkefni enda hafi rannsóknir sýnt að ýmsar umhverfisbreytingar, svo sem loftslagsbreytingar, gerast mun hraðar við norðurskaut en í öðrum heimshlutum. Hvatti Rannveig til þess að Norðurlandaráð legði meiri áherslu á umhverfi hafsins í sínu starfi. Asmund Kristoffersen, formaður umhverfis- og auðlindanefndar Norðurlandaráðs, tók einnig til máls og sagði að nefndin mundi hafa samband við pólitíska tengiliði í löndunum við Eystrasalt til leita leiða til að tryggja viðkvæmt vistkerfi þessa hafsvæðis.
    Seinna málið á dagskrá sameiginlega fundarins var framtíð norræns samstarfs og gerði forseti ráðsins, Gabriel Romanus, grein fyrir viðræðum sínum við forseta norska Stórþingsins, Jørgen Kosmo, um þau mál. Þar hefur meðal annars verið rætt um aukna tengingu starfs Norðurlandaráðs við þingin, sem t.d. má styrkja með auknu samráði málefnanefnda ráðsins og samsvarandi nefnda í þjóðþingunum. Þá hefur kostnaður við Norðurlandaráð verið til umræðu, vinnulag og árangur af tilmælum ráðsins. Hugmyndir hafa verið uppi um að Norðurlandaráð geti gegnt sérstöku hlutverki við að samræma starf ólíkra alþjóðlegra stofnana og samráðsvettvanga í N-Evrópu.

6.     Þemaráðstefna Norðurlandaráðs um hina norðlægu vídd ESB.
    Þemaráðstefna Norðurlandaráðs um hina norðlægu vídd ESB eftir stækkun sambandsins 1. maí var haldin í Helsinki dagana 14.–15. apríl. Í tengslum við ráðstefnuna fóru einnig fram hefðbundnir fundir í nefndum og flokkahópum. Hin norðlæga vídd er stefnurammi ESB um svæðasamstarf milli ESB og nágrannalanda þess á nyrstu landamærum sambandsins. Stefnan tekur til Eystrasaltsins, norðurheimskautssvæðisins og Norðvestur-Rússlands. Meginmarkmið hinnar norðlægu víddar er að tryggja stöðugleika og öryggi á svæðinu. Önnur framkvæmdaáætlun hennar fyrir árin 2004–2006 er nú í gildi. Breytingin frá fyrri framkvæmdaáætlun er helst sú að nú snýst stefnan fyrst og fremst um samstarf við Norðvestur-Rússland enda gengu Eystrasaltsríkin í ESB 1. maí 2004.
    Við setningu ráðstefnunnar töluðu m.a. Gabriel Romanus, forseti Norðurlandaráðs, Paavo Lipponen, forseti finnska þingsins, Pat Cox, forseti Evrópuþingsins, Siv Friðleifsdóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Jens Christian Larsen sem fer með málefni hinnar norðlægu víddar innan Norðurlandaráðs. Romanus lagði áherslu á að norðlæga víddin yrði að vera meira en orðin tóm og að gerðir yrðu að fylgja hástemmdum yfirlýsingum. Áþreifanlegur árangur yrði að nást ef stefnan ætti að njóta stuðnings. Lipponen, sem var helsti hvatamaður að því að ESB tók upp hina norðlægu vídd, taldi að hún hefði skilað sérlega góðum árangri hvað varðar samstarf á umhverfissviði. Máli sínu til stuðnings benti hann á vatnshreinsistöð sem verið er að byggja upp í St. Pétursborg en hún er stærsta samvinnuverkefni sem ráðist hefur verið í með Rússum og mun bæta mjög umhverfi hafsins í austanverðu Eystrasalti. Siv Friðleifsdóttir greindi frá því að Norræna ráðherranefndin ynni nú að því að endurmóta stefnu sína gagnvart Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi. Frá því snemma á síðasta áratug hefðu um 20% af fjárlögum norræna samstarfsins farið í verkefni á þessu grannsvæði og samstaða væri nú um að auka norræn verkefni í Rússlandi. Samtímis eykst pólitískt samstarf við Eystrasaltsríkin en þau verða fullgildir aðilar að Norræna fjárfestingarbankanum í ársbyrjun 2005. Jens Christian Larsen taldi æskilegt að styrkja norðlægu víddina með því að gera hana að sjálfstæðum lið í fjárlögum ESB í stað þess að hún einskorðaðist við verkefni sem sæktu fé í sjóði sambandsins í samkeppni við verkefni á öðrum svæðum.
    Að setningarathöfn lokinni skiptist ráðstefnan upp í sex málstofur. Fyrsta málstofa bar yfirskriftina sameiginlegt þekkingarsvæði og tók til samvinnu um menntun, vísindarannsóknir og nýsköpun. Per Unckel, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, benti í erindi sínu á að til að halda samkeppnishæfni í hnattvæddum heimi yrðu Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin að styrkja samvinnu um vísindarannsóknir og nýsköpun á svæðinu. Eftir að hafa farið halloka gagnvart Bandaríkjunum og Austurlöndum fjær hefur ESB gert átak á þessu sviði frá árinu 2000. Jafnhliða því að taka þátt í evrópsku samstarfi á þessu sviði hefur Norræna ráðherranefndin birt hvítbók um norrænt rannsóknar- og nýsköpunarsvæði þar sem m.a. er lögð til sérstök samvinna við Eystrasaltsríkin.
    Önnur málstofan fjallaði um forsendur félagslegrar og efnahagslegrar þróunar í Rússlandi. Aðalhagfræðingur Rússlandsdeildar Alþjóðabankans, Aleksander Morozov, dró upp mynd af hagþróun í Rússlandi en þar hefur hagvöxtur verið mikill á undanförnum árum, atvinnuleysi hefur minnkað, grynnkað hefur verið á skuldum hins opinbera en verðbólga er þó mikil. Efnahagur landsins er stöðugri en áður en nokkur hætta er þó fólgin í því hversu háðir Rússar eru olíuútflutningi. Varaformaður samtaka iðnaðarins í Rússlandi, Igor Yurgens, greindi frá því að allt of margar opinberar eftirlitsstofnanir væru í Rússlandi og of mikill tími og fjármunir fyrirtækja færu í eftirlitsstarf þeirra. Mikilvægt væri að einfalda allt regluverk og gera skattkerfið gagnsætt til að skapa fyrirtækjarekstri góð skilyrði. Það mundi auka fjárfestingu en hún hefur verið of lítil á undanförnum árum.
    Þriðja málstofan var um lýðheilsu og heilbrigðismál. Í umræðum var áhersla lögð á baráttu gegn smitsjúkdómum eins og berklum og eyðni í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi en auk þess var rætt um sjúkdóma sem tengjast lífsstíl svo sem áfengissýki og vímuefnafíkn. Fram kom að einungis 1% eyðnisjúkra í Rússlandi fá nauðsynlega lyfjameðferð.
    Fjórða málstofan fjallaði um iðnþróun við Eystrasalt og setti Drífa Hjartardóttir hana sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs. Í ávarpi sínu lagði Drífa áherslu á efnahagslega samþættingu álfunnar við stækkun ESB og ábyrgð stjórnmálamanna og stjórnenda í atvinnulífinu á að nýta þau tækifæri sem stækkunin hefur í för með sér. Sagði Drífa að eftir stækkun mundu svæðisbundnir ríkjahópar láta meira að sér kveða í stjórnmálum sambandsins en fyrr og að líta bæri á svæðissamstarf innan hinnar norðlægu víddar í því ljósi. Jón Sigurðsson, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, gaf yfirlit yfir aukin viðskipti Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna en þau hafa tvöfaldast á undanförnum áratug. Þá greindi Jón frá lánveitingum Norræna fjárfestingarbankans til ríkjanna en lán hafa einkum verið veitt til orkugeirans til að fjármagna umbreytingu frá mengandi orkuvinnslu til umhverfisvænni lausna. Auk þess hefur bankinn veitt lán til uppbyggingar á sviði samgöngumála.
    Samstarf á sviði umhverfismála var yfirskrift fimmtu málstofunnar. Var þar rætt um umhverfisstefnu St. Pétursborgar, þátttöku frjálsra félagasamtaka í samstarfsverkefnum á sviði umhverfismála, samvinnu ESB og Rússlands á þessu sviði og umhverfissamvinnu Norrænu ráðherranefndarinnar við Rússa og Eystrasaltsríkin. Fram kom m.a. að löggjöf á sviði umhverfismála er mjög skammt á veg komin í Rússlandi en hún er svæðisbundin í fylkjum og sjálfsstjórnarsvæðum. Ferlið er dýrt og krefst mikillar sérfræðiþekkingar og lýsti Dimitry Alexeevich, formaður umhverfisnefndar St. Pétursborgar, eftir aðstoð við stefnumörkun og löggjöf á umhverfissviðinu.
    Sjötta málstofan fjallaði um mansal og vændi. Fram kom að viðhorf ríkja til þessa vanda er mismunandi, sum lönd eins og Svíþjóð og Noregur nálgast vandann á grundvelli jafnréttis kynjanna og líta á vændi og mansal sem ofbeldi gagnvart konum. Önnur ríki fást við mansal út frá stefnu gegn ólöglegum innflytjendum og enn önnur líta á þennan vanda sem þátt í stærri baráttu gegn alþjóðlegum glæpahringum. Evrópuþingmaðurinn Patsy Sörensen greindi frá baráttu gegn mansali innan ESB en hún hefur fylgst með ólíkri stefnu einstakra Evrópulanda á þessu sviði. Hún undirstrikaði að sem glæpastarfsemi er mansal einkar ábatasamt og áhættulítið því fórnarlömbin þora sjaldnast að leita hjálpar. Í máli Sörensen og fleiri málshefjenda kom fram að samræmdar aðgerðir gegn mansali yrðu að vera a.m.k. þrenns konar: Í fyrsta lagi fyrirbyggjandi aðgerðir sem beinast að þeim bágu félagslegu aðstæðum sem fórnarlömbin búa við, auka þyrfti meðvitund í löndum fórnarlambanna um hættuna sem fylgir gylliboðum um störf á Vesturlöndum, auk aðgerða til að draga úr eftirspurninni í móttökulöndunum. Í öðru lagi var lögð áhersla á vitnavernd og lögfræðiaðstoð fyrir fórnarlömbin og í þriðja lagi þyrfti að sækja þá aðila sem standa að baki mansali til saka. Barátta Ítala og Belga gegn mansali hefur verið á þessum grundvelli og er nú fyrirmynd sams konar aðgerða í öðrum Evrópulöndum.
    
7.     56. þing Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð hélt sitt 56. þing í sænska þinginu Ríkisdeginum dagana 1.–3. nóvember. Við upphaf almennra umræðna eftir þingsetningu 1. nóvember kynnti forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rasmussen, formennskuáætlun Dana í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2005 en áætlunin nefnist „Auðlindir Norðurlanda – lýðræði, menning, náttúra“. Steingrímur J. Sigfússon veitti andsvar við ræðu forsætisráðherra, lýsti vonbrigðum yfir því að ekki væri minnst einu orði á stuðning Dana við ólöglegt stríð í Írak sem byggst hefði á fölskum forsendum og sagðist sakna norrænna stjórnmálaskörunga á borð við Olof Palme sem unnu að friði og beittu sér fyrir því að öll ríki heims, þ.m.t. stórveldin, færu að alþjóðalögum. Fogh Rasmussen svaraði því til að ræða hans á þinginu ætti að fjalla um formennskuáætlun Dana en ekki utanríkismál og lagði áherslu á að þátttaka Dana í stríðinu byggðist á því að Írak hefði ekki fylgt samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
    Rannveig Guðmundsdóttir var framsögumaður flokkahóps jafnaðarmanna í almennu umræðunum og ræddi m.a. samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Eftir inngöngu landanna í ESB væri samstarfið nú á jafnréttisgrundvelli, ríkin væru orðin aðilar að Norræna fjárfestingarbankanum og í framtíðinni væri að vænta aukins beins samstarfs á milli málefnanefnda Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins sem er samstarfsvettvangur þinga Eystrasaltsríkjanna og var sett á fót að fyrirmynd Norðurlandaráðs. Rannveig ræddi jafnframt samþættingu á milli Norðurlanda og afnám tæknilegra landamærahindrana og fagnaði því að Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, mun stýra því starfi áfram á árinu 2005. Enn fremur lýsti Rannveig stuðningi jafnaðarmanna við hugmyndir norrænu forsætisráðherranna um að ESB komi sér saman um sameiginleg takmörk á því hve langt megi ganga í lækkun skatta og gjalda á áfengi. Þá sagði Rannveig það áframhaldandi forgangsmál jafnaðarmanna að berjast gegn mansali kvenna og barna.
    Umræða um landamærahindranir á Norðurlöndum fór fram á öðrum degi þingsins, 2. nóvember. Landamæralaus Norðurlönd komust á dagskrá árið 2002 með rannsókn Ole Norrbacks á réttarstöðu Norðurlandabúa þegar þeir flytjast á milli Norðurlanda. Dæmi um brotalamir eru skattavandamál fólks sem sækir vinnu sína yfir landamæri, sköttun lífeyrisgreiðslna sem greiddar eru yfir landamæri, tregða við að viðurkenna gagnkvæm starfsréttindi o.fl. Norræna ráðherranefndin réð Poul Schlüter til að hafa umsjón með starfi til afnáms þessara hindrana og flutti Schlüter skýrslu sína á þinginu. Greindi hann m.a. frá samkomulagi sem auðveldar og hraðar afgreiðslu nýrra kennitalna þegar fólk flytur á milli Norðurlanda og samkomulagi sem gerir það auðveldara fyrir framhaldsskólanema að nema utan heimalands síns.
    Drífa Hjartardóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs, var framsögumaður nefndarinnar í umræðunni um landamærahindranir og lagði áherslu á þær hindranir sem fyrirtæki finna fyrir á Norðurlöndum. Í máli Drífu kom fram að nær helmingur fyrirtækja sem stunda viðskipti á milli Norðurlanda mæta einhvers konar viðskiptahindrunum. Þrátt fyrir að Poul Schlüter hefði unnið árangursríkt starf undanfarin tvö ár við að fjarlægja landamærahindranir milli Norðurlandanna væru enn mörg vandamál óleyst sem snúa að atvinnulífinu og fagnaði Drífa því að Schlüter mun einbeita sér að hindrunum á sviði atvinnulífsins á starfsárinu 2005. Það mundi hafa í för með sér að norrænt atvinnulíf yrði enn samkeppnishæfara á alþjóðamarkaði.
    Ásta R. Jóhannesdóttir tók einnig þátt í umræðunni um landamærahindranir og tók dæmi af nýrri skýrslu um fjarskiptamarkaðinn þar sem fram kemur að norræn símafyrirtæki misnoti einokunaraðstöðu til að selja þjónustu sína allt of dýrt. Í skýrslunni kemur m.a. fram að það er tvisvar sinnum dýrara að hringja í þrjár mínútur frá Íslandi til Svíþjóðar en frá Svíþjóð til Íslands. Ásta sagði að á sama hátt og reynt er að vinna að samræmingu á hinum háa bankakostnaði vegna peningasendinga milli Norðurlanda og vinna að því að bankakostnaður verði sá sami hvort heldur væri um erlenda eða innlenda millifærslu að ræða þá vonaði hún að einhvern tíma tækist að koma á samræmdum fjarskiptamarkaði á Norðurlöndunum þar sem það kostar það sama að hringja hvaðan sem og hvert sem er innan Norðurlandanna.
    Umhverfismál voru til umræðu á þinginu og var m.a. lögð fram endurskoðuð stefna Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun. Sigurður Kári Kristjánsson tók til máls og fagnaði því að í stefnu ráðherranna kæmi fram að vinna bæri að því að fá alþjóðlegt samþykki fyrir hvalveiðum. Sigurður sagði vandamálin varðandi hvalveiðar flókin en ef reynt væri að einfalda málið eins og frekast er unnt þá stæði eftir spurningin um það hvort ekki eigi að gilda sömu reglur um nýtingu auðlinda sjávar og um nýtingu annarra auðlinda. Fyrir þjóðir sem eru háðar nýtingu sjávarauðlinda er það óþolandi að aðrar kröfur séu gerðar til veiða í hafi en veiða á landi. Í báðum tilfellum hlýtur grundvallarreglan að vera sú að maðurinn hafi rétt til nýtingar á villtum dýrastofnum svo lengi sem það er gert á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Þess vegna væri hin nýja áhersla ráðherranefndarinnar jákvætt skref og vonandi yrði henni fylgt eftir af fullri alvöru.
    Málefni Vestur-Norðurlanda voru einnig í brennidepli á þinginu og fór fram sérstök umræða um þau. Valgerður Sverrisdóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda, hóf umræðuna og kynnti skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi. Í skýrslunni er m.a. áhersla lögð á grannsvæðastefnu Norðurlanda til vesturs sem felur í sér samstarf við ey- og strandríki við norðanvert Atlantshaf um umhverfi hafsins og önnur sameiginleg hagsmunamál.
    Jónína Bjartmarz tók þátt í umræðunni og benti á að gríðarlegur landfræðilegur munur væri á Norðurlöndum frá ísbreiðum Grænlands til hveitiakra Danmerkur og að það væri fyrst og síðast samkennd sem væri grundvöllur norræns samstarfs. Í þessari samkennd fælist að þjóðirnar viðurkenndu þennan mikla mun og byggðu þrátt fyrir hann upp samstarf á ólíkum sviðum. Jónína þakkaði ráðherranefndinni fyrir skýrsluna og fagnaði sérstaklega hugmyndum um grannsvæðastefnu í vestur um umhverfi hafsins. Umhverfismál í hafi væru óháð landamærum og því væri það sérstakt hagsmunamál allra landa við Norður-Atlantshaf sem nýta auðlindir hafsins að eiga samstarf til að tryggja að hægt sé að stunda þá nýtingu áfram á sjálfbæran hátt. Benti Jónína á að málefni Vestur-Norðurlanda væru nú forgangsmál bæði í starfsáætlun Norðurlandaráðs og formennskuáætlun Dana í Norrænu ráðherranefndinni og því vænti hún þess að gott samstarf þingmanna og ráðherra gæti tekist um málaflokkinn.
    Steingrímur J. Sigfússon, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs, var talsmaður nefndarinnar um úttekt ráðherranefndarinnar á samgöngumálum á Vestur- Norðurlöndum sem náði jafnt til flug- og skipasamgangna. Steingrímur sagði stærstu vandamálin í samgöngumálum Vestur-Norðurlanda skortinn á beinum flugsamgöngum á milli vestnorrænu höfuðborganna og há flugfargjöld. Það væri þörf fyrir fjárfestingar á þessu sviði auk bættra skilyrða til flugrekstrar. Þar bæri fyrst að nefna þörfina á lengingu flugbrautarinnar í Nuuk og afnám hindrana sem felast í ströngum reglum um flugrekstur bæði á Grænlandi og í Færeyjum. Að lokum nefndi Steingrímur þá skoðun sína að Færeyjar ættu að fá fulla aðild að Norðurlandaráði og að það mál væri prófsteinn á það hve sveigjanlegt norrænt samstarf er og hver aðlögunarhæfnin er að breyttum aðstæðum í hinu pólitíska umhverfi.
    Á þriðja og síðasta degi þinghalds fór fram umræða um jafnréttismál. Jónína Bjartmarz svaraði fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs tillögu borgara- og neytendanefndar um að jafnréttissjónarmið réðu við starf ráðsins svo og skipan í ráð og nefndir á vegum þess. Jónína fagnaði tillögunni og sagði hana góða viðbót við jafnréttisstefnu Norðurlandaráðs og þá ákvörðun forsætisnefndar að vinna að jafnréttisáætlun fyrir ráðið á starfsárinu 2005. Hún benti þó á að taka þarf tillit til stöðugt fleiri þátta við skipan í nefndir á vegum ráðsins. Þar þyrfti að huga að flokkapólitísku jafnvægi, jafnvægi á milli landa, jafnvægi milli kynja auk þess sem tillit væri tekið til sérþekkingar þingmanna. Það væri því erfitt að láta kapalinn ganga upp svo öllum líki en ljóst væri að tillit til kyns væri mjög veigamikill þáttur.
    Í umræðum um norrænt menningarsamstarf tók Rannveig Guðmundsdóttir til máls sem formaður Norræna menningarsjóðsins og gerði grein fyrir helstu nýjungum í rekstri sjóðsins. Ber þar helst að nefna aukinn sveigjanleika þar sem nú væri tekið við lægri umsóknum sex sinnum á ári sem eru afgreiddar hratt á rafrænan hátt af sjóðsstjórn. Þá er veittur einn stór styrkur til sýningarhalds hvert ár, gjarnan til farandsýningar sem getur farið á milli safna á Norðurlöndum.
    Norðurlandaráð ákvað að stofna norræn kvikmyndaverðlaun sem veitt verða handritshöfundum, leikstjórum eða framleiðendum. Skilyrðin fyrir veitingu verðlaunanna eru að viðkomandi hafi gert myndir sem hafa rætur í norrænni menningu og skera sig úr hvað varðar listræna nýsköpun þar sem hinar mörgu hliðar listformsins sameinast í heilsteypt verk. Norrænu kvikmyndaverðlaunin verða að upphæð 350 þús. dkr. eins og bókmennta-, tónlistar- og umhverfisverðlaunin. Kostnaður við umsjón verðlaunanna greiðist af Norræna kvikmyndasjóðnum. Hvert Norðurlandanna skal tilnefna aðila í dómnefnd sem mun sjá um að veita verðlaunin.
    Steingrímur J. Sigfússon tók þátt í utanríkismálaumræðunni og sagðist verða að rifja upp ræðu sína frá árinu áður þegar hann gerði stuðning Íslands og Danmerkur við einleik Bandaríkjanna og Bretlands í Írak að umtalsefni. Síðan þá hefði spilaborg blekkingarinnar hrunið, ekki hefðu reynst vera nein gereyðingarvopn í Írak og aðrar upplýsingar sem leiddu til stríðsins, svo sem frásagnir af tilraunum Íraka til úrankaupa í Afríku, hefðu reynst ósannar. Nú hefði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, lýst þeirri skoðun sinni að um ólöglegt árásarstríð hafi verið að ræða. Steingrímur sagði það hlutverk Norðurlanda sem friðsamlegra smáríkja í Evrópu að standa vörð um alþjóðalög og mannréttindi og standa á móti því að einstök stórveldi taki sér rétt til hernaðaríhlutunar án samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Til þess að Norðurlönd gætu látið til sín taka sem ein heild yrðu Danmörk og Ísland að hætta stuðningi við Bandaríkin í þessu máli og taka sig af lista hinna viljugu þjóða.
    Við þinglok fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta og varaforseta Norðurlandaráðs. Rannveig Guðmundsdóttir var kjörin forseti og Jónína Bjartmarz varaforseti. Í ræðu nýkjörins forseta sagði Rannveig jafnrétti, lýðræði, virðingu fyrir hvert öðru og jöfnuð vera samnorræn gildi sem ásamt sameiginlegri menningu og tungu væru kjölfesta norræns samstarfs. Í þjóðfélagsgerðum okkar kæmu þau ekki síst fram í norræna velferðarríkinu sem hefur verið stolt okkar út á við, þjóðfélagsgerð sem byggist á jafnrétti, réttlæti og jöfnum tækifærum. Ein stærsta áskorun sem norrænir stjórnmálamenn takast á við nú á dögum eru breyttar aðstæður í aldurssamsetningu þjóðanna og harðnandi alþjóðleg samkeppni sem hefur sett pressu á velferðarríkið og krefst nýrrar hugsunar og framþróunar þess. Þá sagði Rannveig að Norðurlandaráð hefði ávallt axlað ábyrgð í umhverfi sínu og þannig hefði samstarf og aðstoð við Eystrasaltsríkin orðið mikilvægur þáttur í starfi ráðsins þegar ríkin endurheimtu frelsi sitt. Meginviðfangsefnin í samstarfi við Eystrasaltsríkin nú væru á sviði umhverfisverndar og heilbrigðis- og félagsmála, og barátta gegn skipulegri glæpastarfsemi og mansali. Þau kaflaskil áttu sér stað á árinu að Eystrasaltsríkin gengu í ESB. Af því tilefni setti forsætisnefnd vinnuhóp á laggirnar til að skoða hvernig best væri að þróa áframhaldandi samstarf við Eystrasaltsþingið. Þá taldi Rannveig að samhliða umfjöllun um framtíðarhlutverk Norðurlandaráðs í Norður-Evrópu muni ráðið jafnframt eiga áframhaldandi samræður við forseta þjóðþinganna um aukna skilvirkni og nánari tengingu við þjóðþingin. Tryggja þarf enn betur að málefni og tilmæli Norðurlandaráðs fái umfjöllun þingnefnda heima fyrir og samræma vinnuáætlanir þannig að starf þingmanna í ráðinu og á heimaþingi stangist ekki á.
    Eftir kosningar í nefndir og ráð er nefndarseta Íslandsdeildar sem hér segir fyrir starfsárið 2005: Rannveig Guðmundsdóttir og Jónína Bjartmarz halda sætum sínum í forsætisnefnd. Í efnahags- og viðskiptanefnd situr Drífa Hjartardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Arnbjörg Sveinsdóttir situr í velferðarnefnd, Ásta R. Jóhannesdóttir í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og Sigurður Kári Kristjánsson í borgara- og neytendanefnd. Sigurður Kári er jafnframt í eftirlitsnefnd.
    Næsta þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík 25.–27. október nk.

Alþingi, 16. febr. 2005.



Jónína Bjartmarz,


form.


Drífa Hjartardóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.



Sigurður Kári Kristjánsson.






Fylgiskjal.


Tilmæli og ákvörðun um innra starf samþykkt á starfsárinu 2004.


     1.      Tilmæli 1/2004: Norræn skattstofa (A 1320/næring).
     2.      Tilmæli 2/2004: Opinn hugbúnaður (A 1341/næring).
     3.      Tilmæli 3/2004: Opnir staðlar/opinn hugbúnaður í upplýsingatæknistefnu Norðurlanda (A 1341/næring).
     4.      Tilmæli 4/2004: Norrænt flutningskerfi fyrir rafmagn (A 1339/miljö).
     5.      Tilmæli 5/2004: Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismála 2005–2008 (B 220/næring).
     6.      Tilmæli 6/2004: Norræn framkvæmdaáætlun á sviði menntamála- og rannsóknarsamstarfs 2005–2007 (B 221/kultur).
     7.      Tilmæli 7/2004: Samstarfsáætlun á sviði neytendamála 2005–2010 (B 226/medborger).
     8.      Tilmæli 8/2004: Norræn skattaráðstefna (A 1357/næring).
     9.      Tilmæli 9/2004: Norrænt samstarf landamærahéraða (A 1353/kk).
     10.      Tilmæli 10/2004: Ráðstefna um framtíð strandveiða á Norðurlöndum (A 1342/miljø).
     11.      Tilmæli 11/2004: Vistvænar landbúnaðarvörur á Norðurlöndum (A 1346/miljø).
     12.      Tilmæli 12/2004: Norræn samstarfsáætlun um nýsköpunarstefnu 2005–2010 (B 227/ næring).
     13.      Tilmæli 13/2004: Norræn hönnun og samstarf menningar- og atvinnulífs (A 1347/kultur og A 1351/kultur).
     14.      Tilmæli 14/2004: Úttekt á „Norrænu tengslaneti fyrir fullorðinsfræðslu“ og styrkir til alþýðufræðslusamtaka (A 1338/kultur).
     15.      Tilmæli 15/2004: Samþykktir fyrir kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs (B 229/kultur).
     16.      Tilmæli 16/2004: Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar 2005 (B 228/presidiet; C 2).
     17.      Tilmæli 17/2004: Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við Eistland, Lettland og Litháen 2006–2008 (B 230/presidiet).
     18.      Tilmæli 18/2004: Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við Norðvestur-Rússland 2006–2008 (B 231/presidiet).
     19.      Tilmæli 19/2004: Samstarf við frumbyggja á Barentssvæði (A 1359/medborger).
     20.      Tilmæli 20/2004: Vinnumarkaðsráðstefna Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna 2005 (A 1360/næring).
     21.      Ákvörðun 1/2004: Jafnréttisreglur í Norðurlandaráði (A 1354/medborgar).