Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 551. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 832  —  551. mál.
Frumvarp til lagaum miðlun vátrygginga.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um miðlun vátrygginga hér á landi. Með miðlun vátrygginga er átt við starfsemi sem felst í að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samninga um vátryggingu, að koma á slíkum samningum eða að aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, einnig þegar krafa um vátryggingarbætur er sett fram.
    Heimild til miðlunar vátrygginga hér á landi hafa:
     1.      vátryggingamiðlarar sem hafa starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins skv. 9. gr.,
     2.      vátryggingaumboðsmenn sem skráðir eru hjá vátryggingafélagi, sbr. 39. gr.,
     3.      vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn með aðalstöðvar á Evrópska efnahagssvæðinu utan Íslands sem fengið hafa starfsleyfi í heimaríki, sbr. 55. gr.,
     4.      vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn með aðalstöðvar utan hins Evrópska efnahagssvæðis sem fengið hafa leyfi hér á landi til að reka útibú, sbr. 57. gr.
    Lögin gilda um miðlun endurtrygginga, að undanskildum ákvæðum VI. og XI. kafla.
    Ákvæði VI. og XI. kafla gilda ekki við miðlun stóráhættu.

2. gr.
Ófrávíkjanleiki.

    Óheimilt er að víkja frá ákvæðum laga þessara með samningi ef það leiðir til lakari stöðu viðskiptamanns.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Vátryggingamiðlun:
                  a.      starfsemi vátryggingamiðlara sem felst í að miðla á eigin ábyrgð vátryggingum, sbr. 1. mgr. 1. gr., og byggist á hlutlausri greiningu vátryggingarsamninga sem í boði eru á markaði,
                  b.      starfsemi vátryggingamiðlara sem felst í að miðla á eigin ábyrgð vátryggingum, eins eða fleiri vátryggingafélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr.
     2.      Vátryggingamiðlari: einstaklingur eða lögaðili sem stundar miðlun frum- og/eða endurtrygginga gegn endurgjaldi.
     3.      Vátryggingaumboðsmaður: einstaklingur eða lögaðili sem á grundvelli samnings miðlar frum- og/eða endurtryggingum, sbr. 1. mgr. 1. gr., á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga og á ábyrgð þeirra gegn endurgjaldi.
     4.      Vátryggingasölumaður: starfsmaður sem starfar á vegum og á ábyrgð vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanns eða vátryggingafélags við miðlun vátrygginga.
     5.      Aðildarríki: ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.
     6.      Heimaríki: aðildarríki þar sem aðalstöðvar vátryggingamiðlara eru og starfsleyfi er gefið út.
     7.      Gistiríki: aðildarríki þar sem vátryggingamiðlari með aðalstöðvar í öðru aðildarríki hefur útibú eða veitir þjónustu án starfsstöðvar.
     8.      Þriðja ríki: ríki utan hins Evrópska efnahagssvæðis.
     9.      Eftirlitsstjórnvöld: aðili sem samkvæmt lögum hlutaðeigandi ríkis fer með eftirlit með vátryggingamiðlurum, vátryggingafélögum og vátryggingastarfsemi, hér á landi Fjármálaeftirlitið.
     10.      Varanlegur miðill: tæki sem gerir viðskiptamanni kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í ákveðinn tíma.
     11.      Virkur eignarhlutur: bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórn viðkomandi félags.
     12.      Stóráhætta: greinaflokkar vátrygginga er tengjast atvinnurekstri og stærri fyrirtækjum sérstaklega, sbr. 7. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.

4. gr.
Starfsemi undanþegin lögunum.

    Lögin taka ekki til:
     1.      starfsemi vátryggingafélaga og starfsmanna þeirra, nema annars sé getið,
     2.      ráðgjafar sem tilfallandi er veitt innan ramma annarrar atvinnustarfsemi þegar tilgangurinn með ráðgjöfinni er ekki sá að aðstoða viðskiptamann við gerð eða framkvæmd vátryggingarsamnings,
     3.      almennrar upplýsingagjafar um vátryggingar eða þess að koma á tengslum við vátryggingafélag að því tilskildu að tilgangurinn sé ekki sá að aðstoða viðskiptamenn við að gera eða efna vátryggingarsamning, enda fái viðkomandi ekki endurgjald fyrir,
     4.      starfsemi í atvinnuskyni þar sem fram fer meðferð vátryggingarkrafna vátryggingafélags, tjónsuppgjör og sérfræðimat á tjónakröfum.

5. gr.
Takmörkun á gildissviði.

    Lögin taka ekki til miðlunar vátrygginga ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Vátryggingarsamningurinn krefst eingöngu þekkingar á þeirri vátryggingarvernd sem hann veitir.
     2.      Vátryggingarsamningurinn er ekki líftryggingarsamningur.
     3.      Vátryggingarsamningurinn tekur ekki til skaðabótaábyrgðar.
     4.      Miðlun vátrygginga er ekki aðalatvinna viðkomandi.
     5.      Vátryggingin kemur til viðbótar tryggingu eða þjónustu sem látin er í té af hvaða aðila sem er ef vátryggingin nær yfir:
                  a.      hættu á að vörur, sem aðili lætur í té, bili, glatist eða skemmist eða
                  b.      farangur, sem skemmist eða glatast, og aðra áhættu sem tengist ferð sem bókuð er hjá þeim aðila, jafnvel þótt vátryggingin feli í sér líftryggingu eða skaðabótaábyrgð, að því tilskildu að vátryggingarverndin sé til viðbótar við aðalverndina gegn áhættu tengdri ferðinni.
     6.      Árlegt iðgjald er ekki hærra en 40.000 kr., þó aldrei hærra en 500 evrur miðað við opinbert viðmiðunargengi evru á hverjum tíma.
     7.      Gildistími vátryggingarsamnings er ekki lengri en fimm ár.

II. KAFLI
Veiting starfsleyfis vátryggingamiðlara.
6. gr.
Starfsleyfisveitandi.

    Fjármálaeftirlitið veitir vátryggingamiðlara starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.
    Vátryggingamiðlara er heimilt að hefja starfsemi þegar leyfi Fjármálaeftirlitsins hefur verið veitt.

7. gr.
Umsókn einstaklinga.

    Umsókn einstaklinga um starfsleyfi vátryggingamiðlara skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
     1.      Nafn, kennitala og lögheimili umsækjanda.
     2.      Upplýsingar um greinaflokka vátrygginga sem miðla á, sbr. 22. og 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     3.      Staðfesting á að umsækjandi uppfylli kröfur skv. 15. gr.
     4.      Staðfesting á að starfsmenn umsækjanda uppfylli kröfur skv. 17. gr.
     5.      Upplýsingar um fyrirhugað starfsskipulag þar sem m.a. skal greina frá hvernig fyrirhugaðri starfsemi verður sinnt, starfsstöð, fyrirhuguðum fjölda starfsmanna, innra eftirliti og áhættustýringu.
     6.      Áætlun um starfsemina þar sem eftirfarandi skal koma fram:
                  a.      rökstutt mat á kostnaði við að koma starfseminni á fót og hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði,
                  b.      áætluð staða starfseminnar samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu reikningsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld,
                  c.      áætlun um hvernig umsækjandi hyggst standa við skuldbindingar sínar fyrstu þrjú reikningsárin.
     7.      Vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu, skilmála hennar ásamt heiti og aðsetri hlutaðeigandi vátryggingafélags.
     8.      Greinargerð um náin tengsl við vátryggingafélög og vátryggingamiðlara.
     9.      Í hvaða ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins fyrirhugað er að stunda vátryggingamiðlun.
     10.      Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

8. gr.
Umsókn lögaðila.

    Umsókn lögaðila um starfsleyfi vátryggingamiðlara skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
     1.      Nafn, kennitala og lögheimili umsækjanda.
     2.      Upplýsingar um greinaflokka vátrygginga sem miðla á, sbr. 22. og 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     3.      Samþykktir félagsins.
     4.      Áætlun um starfsemina þar sem eftirfarandi skal koma fram:
                  a.      rökstutt mat á kostnaði við að koma starfseminni á fót og hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði,
                  b.      áætluð staða félagsins samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu reikningsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld,
                  c.      áætlun um hvernig umsækjandi hyggst standa við skuldbindingar sínar fyrstu þrjú reikningsárin.
     5.      Nöfn, kennitölur og lögheimili stofnenda og hluthafa.
     6.      Nöfn, kennitölur og lögheimili stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.
     7.      Staðfesting á að fyrirsvarsmenn umsækjanda uppfylli kröfur skv. 16. gr.
     8.      Staðfesting á að starfsmenn umsækjanda uppfylli kröfur skv. 17. gr.
     9.      Vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu, skilmála hennar ásamt heiti og aðsetri hlutaðeigandi vátryggingafélags.
     10.      Greinargerð um náin tengsl við vátryggingafélög og vátryggingamiðlara.
     11.      Í hvaða ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins fyrirhugað er að stunda vátryggingamiðlun.
     12.      Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

9. gr.
Veiting starfsleyfis.

    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að fullbúin umsókn barst.
    Í starfsleyfi skal koma fram til hvaða greinaflokka vátrygginga starfsleyfið tekur.
    Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu um starfsleyfi vátryggingamiðlara í Lögbirtingablaði.

10. gr.
Synjun starfsleyfis.

    Fullnægi umsókn um starfsleyfi ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal umsókninni synjað.
    Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan mánaðar frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Synjun skal þó alltaf hafa borist umsækjanda sex mánuðum frá móttöku umsóknar.

11. gr.
Skrá yfir veitt starfsleyfi.

    Fjármálaeftirlitið skal halda skrá, vátryggingamiðlaraskrá, yfir þá sem leyfi hafa til vátryggingamiðlunar hér á landi.
    Eftirfarandi atriði skulu skráð:
     1.      Nafn, kennitala og lögheimili vátryggingamiðlara.
     2.      Útgáfudagur starfsleyfis.
     3.      Greinaflokkar vátrygginga sem heimilt er að miðla.
     4.      Tengsl við vátryggingafélög og vátryggingamiðlara.
     5.      Heiti og aðsetur þess vátryggingafélags er veitir lögboðna starfsábyrgðartryggingu. Gildistími vátryggingarinnar og vátryggingarfjárhæð.
     6.      Nöfn, kennitölur og heimili stjórnarmanna og framkvæmdastjóra þegar við á.
     7.      Í hvaða ríkjum vátryggingamiðlari stundar starfsemi á grundvelli 56. gr.
    Allar breytingar varðandi atriði sem skráð eru í vátryggingamiðlaraskrá skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu eins fljótt og unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að þær hafa tekið gildi.
    Almenningi skal heimill aðgangur að vátryggingamiðlaraskrá.

12. gr.
Heiti.

    Sá einn má nota heitið vátryggingamiðlari sem hefur starfsleyfi hér á landi og er skráður í vátryggingamiðlaraskrá.
    Sé hætta á að villst verði á nafni erlends vátryggingamiðlara sem starfar hér á landi á grundvelli 55. gr. og innlends vátryggingamiðlara getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annar vátryggingamiðlarinn verði auðkenndur sérstaklega.

13. gr.
Breyting á starfsemi.

    Vátryggingamiðlari sem hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga skal sækja um leyfi til Fjármálaeftirlitsins fyrir hinni nýju starfsemi. Í umsókn skal koma fram hvaða greinaflokka fyrirhugað er að taka upp, þá skulu fylgja umsókn gögn er sanna að gild starfsábyrgðartrygging sé fyrir hendi. Afgreiðsla umsóknarinnar fer skv. 9. gr.
    

14. gr.
Takmarkanir á starfsemi.

    Vátryggingamiðlari skal einungis miðla frumtryggingum á vegum vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi. Starfsleyfi vátryggingafélags í aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi, enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi varðandi heimildir til stofnunar útibús eða til að veita hér þjónustu án starfsstöðvar.
    Fjármálaeftirlitið getur, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, heimilað undanþágur frá banni skv. 1. mgr.

III. KAFLI
Hæfiskröfur vátryggingamiðlara.
15. gr.
Hæfisskilyrði einstaklings.

    Einstaklingur sem stundar vátryggingamiðlun skal vera lögráða og vera búsettur hér á landi. Hann má ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Eistaklingur sem stundar vátryggingamiðlun skal búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt. Hann má ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að hann misnoti aðstöðu sína eða skaði starfsemina.
    Einstaklingur sem stundar vátryggingamiðlun skal jafnframt hafa staðist próf í miðlun vátrygginga skv. 18. gr.
    Ríkisborgarar annarra aðildarríkja eru undanþegnir búsetuskilyrðum séu þeir búsettir í aðildarríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.

16. gr.
Hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra lögaðila.

    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri vátryggingamiðlara skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði félagið.
    Um stjórn og framkvæmdastjóra vátryggingamiðlara gilda ákvæði laga um hlutafélög eða einkahlutafélög, enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.

17. gr.
Hæfisskilyrði starfsmanna vátryggingamiðlara.

    Starfsmaður vátryggingamiðlara, sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við vátryggingamiðlun skv. 1. tölul. 3. gr., skal hafa staðist próf í miðlun vátrygginga. Í tengslum við veitingu starfsleyfis og jafnskjótt og breytingar verða á starfsmannahaldi ber vátryggingamiðlara að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsmenn samkvæmt þessari málsgrein.
    Vátryggingamiðlari skal tryggja að vátryggingasölumenn er starfa á hans vegum búi yfir nægilegri starfsreynslu og þekkingu til að geta sinnt vátryggingamiðlun, þar á meðal á meginatriðum þessara laga, laga um vátryggingastarfsemi, laga um vátryggingarsamninga og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Vátryggingasölumenn skulu vera lögráða og hafa forræði á búi sínu. Þeir skulu ekki hafa á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Viðskiptaráðherra getur sett nánari reglur um hæfisskilyrði starfsmanna vátryggingamiðlara, m.a. um lágmarksþekkingu.

18. gr.
Próf í miðlun vátrygginga.

    Prófnefnd hefur umsjón með prófi í miðlun vátrygginga sem að jafnaði skal haldið einu sinni á ári. Viðskiptaráðherra skipar þriggja manna prófnefnd til fjögurra ára í senn. Til að standa straum af kostnaði við framkvæmd prófa skulu próftakar greiða gjald sem ráðherra ákveður. Ákvarðanir prófnefndar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
    Prófnefnd er heimilt að fela óháðum aðilum að gefa einkunn fyrir prófúrlausn. Þá getur prófnefnd skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próftaka. Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd prófs, þar á meðal prófkröfur og prófsefnislýsingu, og heimildir til að veita undanþágur frá einstökum hlutum slíks prófs eða prófi í heild.

IV. KAFLI
Fjárhagslegar kröfur vátryggingamiðlara.
19. gr.
Fjárhagsleg staða. Áætlun.

    Vátryggingamiðlari skal á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Ef líkur eru á því að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum skal hann gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir stöðu sinni og leggja fyrir það áætlun um endurreisn fjárhags. Fjármálaeftirlitið ákveður hvort þær ráðstafanir teljast fullnægjandi.
    Áætlun skv. 1. mgr. skal m.a. innihalda áætlaðan rekstrarkostnað, sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld og áætlaðan efnahagsreikning.
    Gefi ársreikningur vátryggingamiðlara Fjármálaeftirlitinu vísbendingu um að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum getur Fjármálaeftirlitið gert vátryggingamiðlara að skila áætlun skv. 1. mgr.
    Meðan áætlun skv. 1. mgr. er í gildi skal Fjármálaeftirlitið ekki framsenda tilkynningu vegna ráðagerða vátryggingamiðlara um starfsemi erlendis, sbr. 56. gr.

20. gr.
Starfsábyrgðartrygging.

    Vátryggingamiðlurum er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Slík trygging getur verið vátrygging tekin hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða önnur trygging jafngild að mati Fjármálaeftirlitsins. Nánari ákvæði um gildissvið vátryggingarinnar, þ.m.t. vátryggingarfjárhæðir, skal setja í reglugerð.
    Vátryggingamiðlari skal senda Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðartryggingar.

21. gr.
Viðtaka fjármuna.

    Vátryggingamiðlari má ekki taka við iðgjöldum, vátryggingarbótum eða öðrum fjármunum fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptamanns nema samkvæmt skriflegri heimild.

22. gr.
Vörslufjárreikningar.

    Vátryggingamiðlara er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi. Vextir, sem á vörslufé kunna að falla, renna til eiganda þess. Vátryggingamiðlari er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi samkvæmt þessari grein og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.
    Viðskiptaráðherra setur nánari reglur um vörslufjárreikninga.

V. KAFLI
Starfshættir vátryggingamiðlara.
23. gr.
Yfirsýn yfir starfsemina og sérstakar ráðstafanir.

    Vátryggingamiðlari skal:
     1.      gæta þess að framkvæmdastjóri vátryggingamiðlunar hafi yfirsýn yfir rekstur miðlunarinnar, þar á meðal fjárhagslega stöðu,
     2.      gæta þess að sá starfsmaður, sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við vátryggingamiðlun skv. 1. tölul. 3. gr., hafi yfirsýn yfir rekstur miðlunarinnar,
     3.      gæta þess að fjöldi vátryggingasölumanna er starfa á hans vegum sé hæfilegur svo fullvíst megi telja að hann hafi yfirsýn yfir reksturinn.

24. gr.
Ráðningar- eða verksamningar.

    Vátryggingamiðlari skal gera skriflegan ráðningar- og/eða verksamning við vátryggingasölumenn sem eru í þjónustu hans eða koma fram fyrir hans hönd. Þar skal kveðið á um réttindi og skyldur aðila, þar á meðal um að vátryggingasölumaður starfi á ábyrgð og undir stjórn og eftirliti vátryggingamiðlarans. Vátryggingamiðlari skal tryggja að vátryggingasölumaður falli undir starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlarans. Vátryggingasölumaður sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingamiðlara skal starfa í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um miðlun vátrygginga. Viðkomandi ber að leysa starf sitt af hendi í samræmi við góðar venjur í vátryggingaviðskiptum.

25. gr.
Samningur um þjónustu.

    Vátryggingamiðlari skal gera skriflegan samning við viðskiptamenn sína áður en hann tekur til starfa fyrir viðkomandi. Í samningi skal koma fram í hverju umboð vátryggingamiðlarans felst, hversu víðtækt það er og til hvaða þátta á starfssviði hans það nær. Einnig skal koma fram hvort honum er heimilt að taka við fjármunum fyrir hönd viðskiptamanna og um skil á þeim.

26. gr.
Skilríki.

    Hver sá sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingamiðlara skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem gefin eru út af vátryggingamiðlara sem hann starfar fyrir.

27. gr.
Trúnaðarupplýsingar.

    Vátryggingamiðlari, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, vátryggingasölumenn, aðrir starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu vátryggingamiðlara eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingarnar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
    Við miðlun vátrygginga skal fullnægja skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

28. gr.
Góðir viðskiptahættir og venjur.

    Vátryggingamiðlari skal starfa í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Verði misbrestur á skal Fjármálaeftirlitið gefa fyrirmæli um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.

29. gr.
Reglugerðarheimild.

    Viðskiptaráðherra hefur heimild til að kveða nánar á um starfshætti vátryggingamiðlara í reglugerð, þar á meðal um yfirsýn vátryggingamiðlara yfir rekstur.

VI. KAFLI
Upplýsingaskylda vátryggingamiðlara.
30. gr.
Upplýsingar við gerð og endurnýjun vátryggingarsamnings.

    Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingamiðlari láta væntanlegum vátryggingartaka í té a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
     1.      Nafn og heimilisfang vátryggingamiðlarans.
     2.      Hvar vátryggingamiðlari er skráður og hvernig ganga megi úr skugga um skráninguna.
     3.      Hvort hann veitir ráðgjöf á grundvelli a- eða b-liðar 1. tölul. 3. gr.
     4.      Hvort vátryggingamiðlari eigi virkan eignarhlut í vátryggingafélagi.
     5.      Hvort vátryggingafélag eða móðurfélag vátryggingafélags eigi virkan eignarhlut í vátryggingamiðlara.
     6.      Um endurgjald skv. 1. mgr. 32. gr.
    Við endurnýjun vátryggingarsamnings, eða breytingu á honum, skal veita vátryggingartaka upplýsingar skv. 1. mgr. hafi breytingar orðið á atriðum sem talin eru upp í 1.–6. tölul.
    Miðli vátryggingamiðlari vátryggingum á grundvelli b-liðar 1. tölul. 3. gr. skal væntanlegur vátryggingartaki upplýstur um heiti vátryggingafélaganna áður en hann er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi.
    Upplýsingaskylda vátryggingafélags samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga og vátryggingastarfsemi hvílir á vátryggingamiðlara við vátryggingamiðlun eftir því sem við á.

31. gr.
Rökstuðningur ráðgjafar.

    Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingamiðlari skilgreina, einkum á grundvelli upplýsinga frá væntanlegum vátryggingartaka, kröfur og þarfir hans. Skal hann skýra væntanlegum vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans. Rökstuðningur skal taka mið af eðli þess vátryggingarsamnings sem mælt er með.

32. gr.
Endurgjald.

    Væntanlegur vátryggingartaki skal jafnan upplýstur um endurgjald sem vátryggingamiðlari þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna. Skýrt skal koma fram hvor skuli greiða endurgjaldið, væntanlegur vátryggingartaki eða vátryggingafélag.
    Vátryggingamiðlari má ekki taka við endurgjaldi af neinu tagi frá vátryggingafélagi nema vegna vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á milli vátryggingafélagsins og vátryggingartaka.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skal einnig veita við breytingu eða endurnýjun á vátryggingarsamningi.

33. gr.
Form upplýsinga.

    Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessum kafla skal veita:
     1.      skriflega eða á öðrum varanlegum miðli,
     2.      á skýran og nákvæman hátt sem viðtakandanum er skiljanlegur,
     3.      á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. er heimilt að veita upplýsingar munnlega óski væntanlegur vátryggingartaki þess sérstaklega eða ef vátryggingarverndar er þörf þegar í stað. Í slíkum tilvikum skal veita upplýsingar í samræmi við 1. mgr. þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.
    Við miðlun vátrygginga í símsölu skal veita upplýsingar skv. 9. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu veittar þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.

VII. KAFLI
Afturköllun og innlögn starfsleyfis vátryggingamiðlara.
34. gr.
Ástæður afturköllunar.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi vátryggingamiðlara þegar:
     1.      vátryggingamiðlari hefur fengið starfsleyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
     2.      vátryggingamiðlari hefur ekki gilda starfsábyrgðartryggingu,
     3.      eftirlitsgjald er í vanskilum,
     4.      vátryggingamiðlari eða starfsfólk hans uppfylla ekki hæfisskilyrði sem fram koma í 15.–17. gr.,
     5.      starfsleyfi hefur ekki verið nýtt innan tólf mánaða frá því að það var veitt, því verið ótvírætt afsalað eða starfsemi hefur verið hætt í meira en sex mánuði samfellt,
     6.      vátryggingamiðlari brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal vátryggingamiðlara veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.
    Við afturköllun starfsleyfis skal Fjármálaeftirlitið taka vátryggingamiðlara út af vátryggingamiðlaraskrá.

35. gr.
Tilkynning um afturköllun starfsleyfis.

    Afturköllun á starfsleyfi vátryggingamiðlara skal tilkynnt fyrirsvarsmanni eða stjórn vátryggingamiðlara og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Starfræki vátryggingamiðlari útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynning send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.

36. gr.
Innlögn starfsleyfis.

    Hyggist vátryggingamiðlari hætta starfsemi, standi hann ekki lengur fyrir sjálfstæðri starfsemi eða starfi hann ekki lengur hjá vátryggingamiðlara skal hann skila inn starfsleyfi sínu.
    Áður en vátryggingamiðlari hættir starfsemi og leggur inn starfsleyfi sitt skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttarstöðu viðskiptamanna sinna. Hann skal upplýsa viðsemjendur sína, þ.e. vátryggingafélög og þá sem hafa falast eftir vátryggingu, um innlögn starfsleyfis. Hann skal jafnframt leitast við að fá annan til þess bæran aðila, einn eða fleiri, til að taka að sér að þjónusta þá vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á. Hann skal gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum.
    Vátryggingamiðlara sem hyggst skila inn starfsleyfi sínu skv. 1. mgr. er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlits á innlögn leyfis.
    Við innlögn starfsleyfis skal vátryggingamiðlari felldur út af vátryggingamiðlaraskrá. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu þess efnis í Lögbirtingablaði.
    Óski aðili sem lagt hefur starfsleyfi inn að hefja starfsemi að nýju fer um þá umsókn eftir ákvæðum II. kafla.

VIII. KAFLI
Tilkynningar og skil á gögnum vátryggingamiðlara.
37. gr.
Skil ársreiknings.

    Vátryggingamiðlari skal senda Fjármálaeftirlitinu ársreikning endurskoðaðan af löggiltum endurskoðanda eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Ársreikningur skal undirritaður af vátryggingamiðlara og stjórn og framkvæmdastjóra þegar um lögaðila er að ræða.
    Í skýringum ársreiknings skal greina frá heildarfjárhæð fjármuna sem vátryggingamiðlari varðveitir á vörslufjárreikningum í árslok fyrir hönd viðskiptaaðila, sbr. 22. gr. Þá skal fylgja yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að meðferð vátryggingamiðlara á fjármunum undangengið reikningsár sé í samræmi við lög þessi og reglur um vörslufjárreikninga.
    Ársreikningi skal fylgja skrá yfir þau vátryggingafélög sem miðlað er til vegna vátryggingaráhættu hér á landi ásamt iðgjaldamagni og þóknun frá hverju félagi vegna vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á, með skiptingu á greinaflokka vátrygginga. Einnig skal fylgja greinargerð um önnur tengsl við vátryggingafélög.

38. gr.
Tilkynning um framkomna skaðabótakröfu.

    Vátryggingamiðlari skal þegar í stað tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef gerð er skaðabótakrafa vegna starfa hans. Í tilkynningunni skulu koma fram upplýsingar um efni og fjárhæð kröfunnar.

IX. KAFLI
Skráning vátryggingaumboðsmanns.
39. gr.
Skráning vátryggingaumboðsmanns.

    Þegar vátryggingafélag hefur gert samning við vátryggingaumboðsmann um miðlun vátrygginga félagsins skal félagið skrá vátryggingaumboðsmann, sbr. 40. gr. Almenningi skal heimill aðgangur að upplýsingum um skráða vátryggingaumboðsmenn hjá viðkomandi vátryggingafélagi.
    Vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja starfsemi þegar hann hefur verið skráður hjá vátryggingafélagi.
    Þegar vátryggingaumboðsmaður hættir að miðla vátryggingum á vegum vátryggingafélags skal hann tekinn út af skrá félagsins.
    Fjármálaeftirlitið getur sett nánari reglur um skráningu vátryggingaumboðsmanns.

40. gr.
Skilyrði skráningar.

    Áður er vátryggingafélag skráir vátryggingaumboðsmann skal félagið ganga úr skugga um að:
     1.      einstaklingur sem starfar sem vátryggingaumboðsmaður uppfylli ákvæði 1. og 2. mgr. 15. gr.,
     2.      vátryggingaumboðsmaður sem starfar sem lögaðili uppfylli ákvæði 16. gr.,
     3.      vátryggingasölumenn sem starfa á ábyrgð vátryggingaumboðsmanns uppfylli skilyrði 2. og 3. mgr. 17. gr.

41. gr.
Heiti.

    Sá einn má nota heitið vátryggingaumboðsmaður sem hefur verið skráður hjá vátryggingafélagi.
    Sé hætta á að villst verði á nafni erlends vátryggingaumboðsmanns sem starfar hér á landi á grundvelli 55. gr. og innlends vátryggingaumboðsmanns getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annar vátryggingaumboðsmaðurinn verði auðkenndur sérstaklega.

42. gr.
Takmarkanir á starfsemi.

    Vátryggingaumboðsmaður skal einungis miðla frumtryggingum á vegum vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi. Starfsleyfi vátryggingafélags í aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi, enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi varðandi heimildir til stofnunar útibús eða til að veita hér þjónustu án stofnunar útibús.
    Fjármálaeftirlitið getur, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, heimilað undanþágur frá banni skv. 1. mgr.

43. gr.
Viðtaka fjármuna.

    Vátryggingaumboðsmaður má ekki taka við iðgjöldum, vátryggingarbótum eða öðrum fjármunum fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptamanns nema samkvæmt skriflegri heimild.

44. gr.
Vörslufjárreikningur.

    Vátryggingaumboðsmanni er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi. Vextir, sem á vörslufé kunna að falla, renna til eiganda þess. Vátryggingaumboðsmaður er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi samkvæmt þessari grein og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.
    Viðskiptaráðherra setur nánari reglur um vörslufjárreikninga.

X. KAFLI
Starfshættir vátryggingaumboðmanns.
45. gr.
Yfirsýn yfir starfsemina og sérstakar ráðstafanir.

    Vátryggingaumboðsmaður skal:
     1.      gæta þess að framkvæmdastjóri vátryggingaumboðsmanns hafi yfirsýn yfir rekstur starfseminnar,
     2.      gæta þess að sá starfsmaður, sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við miðlun vátrygginga, sbr. 1. mgr. 1. gr., hafi yfirsýn yfir rekstur starfseminnar,
     3.      gæta þess að fjöldi vátryggingasölumanna er starfa á hans vegum sé hæfilegur svo fullvíst megi telja að hann hafi yfirsýn yfir reksturinn.

46. gr.
Ráðningar- eða verksamningar.

    Vátryggingaumboðsmaður skal gera skriflegan ráðningar- og/eða verksamning við vátryggingasölumenn sem eru í þjónustu hans eða koma fram fyrir hans hönd. Þar skal kveðið á um réttindi og skyldur aðila, þar á meðal um að vátryggingasölumaður starfi á ábyrgð og undir stjórn og eftirliti vátryggingaumboðsmanns. Vátryggingasölumaður sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingaumboðsmanns skal starfa í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um miðlun vátrygginga. Viðkomandi ber að leysa starf sitt af hendi í samræmi við góðar venjur í vátryggingaviðskiptum.

47. gr.
Skilríki.

    Hver sá sem er í þjónustu eða kemur fram fyrir hönd vátryggingaumboðsmanns skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem útgefin eru af vátryggingaumboðsmanni sem hann starfar fyrir.

48. gr.
Trúnaðarupplýsingar.

    Vátryggingaumboðsmaður, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, vátryggingasölumenn, aðrir starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu vátryggingaumboðsmanns eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingarnar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
    Við miðlun vátrygginga skal fullnægja skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

49. gr.
Góðir viðskiptahættir og venjur.

    Vátryggingaumboðsmaður skal starfa í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Verði misbrestur á skal Fjármálaeftirlitið gefa fyrirmæli um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.

50. gr.
Reglugerðarheimild.

    Viðskiptaráðherra hefur heimild til að kveða nánar á um starfshætti vátryggingaumboðsmanna í reglugerð, þar á meðal um yfirsýn vátryggingaumboðsmanna yfir rekstur.

XI. KAFLI
Upplýsingaskylda vátryggingaumboðmanns.
51. gr.
Upplýsingar við gerð og endurnýjun vátryggingarsamnings.

    Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingaumboðsmaður láta væntanlegum vátryggingartaka í té a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
     1.      Nafn og heimilisfang vátryggingaumboðsmanns.
     2.      Hvar vátryggingaumboðsmaður er skráður og hvernig ganga megi úr skugga um skráninguna.
     3.      Heiti þeirra vátryggingafélaga sem hann er umboðsmaður fyrir.
     4.      Hvort vátryggingaumboðsmaður eigi virkan eignarhlut í vátryggingafélagi.
     5.      Hvort tiltekið vátryggingafélag eða móðurfélag tiltekins vátryggingafélags eigi virkan eignarhlut í vátryggingaumboði.
     6.      Um endurgjald skv. 1. mgr. 53. gr. þegar við á.
    Við endurnýjun vátryggingarsamnings, eða breytingu hans, skal veita vátryggingartaka upplýsingar skv. 1. mgr. hafi breytingar orðið á atriðum sem talin eru upp í 1.–6. tölul.
    Upplýsingaskylda vátryggingafélags samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga og lögum um vátryggingastarfsemi hvílir á vátryggingaumboðsmanni við miðlun vátrygginga eftir því sem við á.

52. gr.
Rökstuðningur ráðgjafar.

    Áður en vátryggingarsamningur er gerður skal vátryggingaumboðsmaður skilgreina, einkum á grundvelli upplýsinga frá væntanlegum vátryggingartaka, kröfur og þarfir hans. Skal hann skýra væntanlegum vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans. Umfang skýringa miðast við hversu flóknum vátryggingarsamningi mælt er með.

53. gr.
Endurgjald.

    Miðli vátryggingaumboðsmaður vátryggingum í sama greinaflokki á vegum fleiri en eins vátryggingafélags skal væntanlegur vátryggingartaki upplýstur um endurgjald sem vátryggingaumboðsmaður þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna. Skýrt skal koma fram hvor skuli greiða endurgjaldið, væntanlegur vátryggingartaki eða vátryggingafélag.
    Eigi væntanlegur vátryggingartaki að greiða endurgjald sem vátryggingaumboðsmaður þiggur eða áskilur sér vegna viðskiptanna, að hluta eða öllu leyti, skal hann ávallt upplýstur um endurgjaldið áður en hann er skuldbundinn af samningi.
    Upplýsingar samkvæmt ákvæðinu skal einnig veita við breytingu eða endurnýjun á vátryggingarsamningi.

54. gr.
Form upplýsinga.

    Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessum kafla skal veita:
     1.      skriflega eða á öðrum varanlegum miðli,
     2.      á skýran og nákvæman hátt sem viðtakandanum er skiljanlegur,
     3.      á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. er heimilt að veita upplýsingar munnlega óski væntanlegur vátryggingartaki þess sérstaklega eða ef vátryggingarverndar er þörf þegar í stað. Í slíkum tilvikum skal veita upplýsingar í samræmi við 1. mgr. þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.
    Við miðlun vátrygginga í símsölu skal veita upplýsingar skv. 9. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu veittar þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamnings.

XII. KAFLI
Starfsemi á milli landa.
55. gr.
Starfsemi erlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna hér á landi.

    Vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður, sem er skráður eða hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki, getur stofnsett útibú hér á landi eða veitt þjónustu án starfsstöðvar einum mánuði eftir að Fjármálaeftirlitinu hefur borist tilkynning frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki viðkomandi um fyrirhugaða starfsemi.

56. gr.
Starfsemi innlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna erlendis.

    Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn, sem vilja stunda starfsemi í öðru aðildarríki með stofnun útibús eða veita þar þjónustu án starfsstöðvar, skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu slíka fyrirætlan. Í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skal koma fram:
     1.      aðildarríki þar sem viðkomandi hyggst stofnsetja útibú og heimilisfang þess eða
     2.      aðildarríki þar sem viðkomandi hyggst veita þjónustu án stofnunar útibús.
    Fjármálaeftirlitið skal innan mánaðar tilkynna lögbærum yfirvöldum hlutaðeigandi ríkis fyrirætlan viðkomandi, enda sé af hálfu aðildarríkis óskað eftir slíkum upplýsingum.
    Vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja starfsemi einum mánuði eftir að Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt viðkomandi að tilkynning um fyrirhugaða starfsemi hafi verið send gistiríki en þegar í stað óski aðildarríki ekki eftir slíkum upplýsingum.

57. gr.
Stofnun útibús vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna
utan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi. Um leyfisveitingu og starfsemi slíkra aðila gilda ákvæði 71.–76. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

58. gr.
Reglugerðarheimild.

    Viðskiptaráðherra getur sett reglugerð um heimildir erlendra vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna til starfsemi hér á landi og innlendra vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna erlendis. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um eftirlit með og nánari kröfur til útibúa og umboðsskrifstofa erlendra aðila og um heimildir innlendra aðila til að stunda starfsemi erlendis.

XIII. KAFLI
Eftirlit og viðurlög.
59. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi samkvæmt lögum þessum, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um vátryggingastarfsemi og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
    Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

60. gr.
Eftirlitsgjald.

    Vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi útgefið af Fjármálaeftirlitinu skulu árlega greiða eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar í samræmi við ákvæði laga þar um. Jafnframt skulu vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn sem heimild hafa til að starfa hér á landi skv. 57. gr. greiða eftirlitsgjald árlega.

61. gr.
Aðstoð við yfirvöld annarra EES-ríkja.

    Lögbæru yfirvaldi í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að framkvæma athugun í útibúum þarlendra fyrirtækja hér á landi að undangenginni tilkynningu þess efnis til Fjármálaeftirlitsins.

62. gr.
Viðurlög.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laga þessara.

XIV. KAFLI
Innleiðing, gildistaka og breyting á öðrum lögum.
63. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 115/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/92/EB frá 9. desember 2002, um miðlun vátrygginga.

64. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

65. gr.
Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

    Eftirtaldar breytingar verða á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, við gildistöku laga þessara:
     1.      2. málsl. 1. gr. fellur brott.
     2.      Skilgreiningar á hugtökunum „vátryggingamiðlun“, „vátryggingamiðlari“ og „vátryggingaumboðsmaður“ í 7. gr. falla brott.
     3.      Skilgreining á hugtakinu „vátryggingasölumaður“ í 7. gr. orðast svo: starfsmaður sem starfar á vegum og á ábyrgð vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanns eða vátryggingafélags.
     4.      3. mgr. 13. gr. fellur brott.
     5.      IX. kafli fellur brott.

66. gr.
Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
nr. 99/1999, með síðari breytingum.

    3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi: Vátryggingamiðlarar skulu greiða 0,09% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi skv. 81. gr. laga um vátryggingastarfsemi við gildistöku þessara laga skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði laga þessara og skulu uppfylla þau eigi síðar en 1. júlí 2005.
    Vátryggingamiðlarar sem uppfyllt hafa kröfu um þekkingu og starfsreynslu á grundvelli 1.–4. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 853/1999, um miðlun vátrygginga, eru undanþegnir töku prófs skv. 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga þessara.
    Hafi vátryggingamiðlari lagt inn starfsleyfi sitt fyrir gildistöku laga þessara gilda ákvæði þeirra um hvernig hann getur öðlast starfsleyfi á ný.
    Vátryggingaumboðsmenn sem eru starfandi við gildistöku laga þessara skulu þegar í stað grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppfylla skilyrði laganna og skulu uppfylla þau eigi síðar en 1. júlí 2005.
    Vátryggingasölumenn skulu uppfylla hæfiskröfur laga þessara innan sex mánaða frá gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði 15. maí 2002. Í nefndina voru skipuð Kjartan Gunnarsson, f.h. viðskiptaráðuneytis, formaður, Rúnar Guðmundsson, f.h. Fjármálaeftirlitsins, Íris Ösp Ingjaldsdóttir, f.h. Neytendasamtakanna, og Baldvin Hafsteinsson, f.h. hóps vátryggingamiðlara innan Félags íslenskra stórkaupmanna. Starfsmaður nefndarinnar og varamaður formanns var Þóra M. Hjaltested, viðskiptaráðuneytinu.
    Þóra M. Hjaltested tók við sem formaður nefndarinnar í október 2003. Baldvin Hafsteinsson hætti í nefndinni og tók Andrés Magnússon við af honum í mars 2004, f.h. hóps vátryggingamiðlara innan Félags íslenskra stórkaupmanna. Fjölgað var í nefndinni sumarið 2004, en þá tóku sæti í nefndinni Jóhann Tómas Sigurðsson, f.h. Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, og Sigmar Ármannsson, f.h. Sambands íslenskra tryggingarfélaga.
    Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/92/EB frá 9. desember 2002, um miðlun vátrygginga. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003 sem staðfest var af Alþingi með þingsályktun á þskj. 1133 (481. mál) á 130. löggjafarþingi. Þá eru í frumvarpinu ýmis ákvæði er lúta að starfsemi þeirra er starfa við miðlun vátrygginga og rétt þótti að setja í heildarlöggjöf um miðlun vátrygginga.
    Við frumvarpsvinnuna hefur nefndin horft til sambærilegrar frumvarpsvinnu í Danmörku og Noregi. Þá hefur jafnframt verið höfð hliðsjón af upplýsingum frá breska fjármálaeftirlitinu (FSA) auk þess sem tilteknir nefndarmenn hafa sótt sérfræðingafundi á vegum Evrópusambandsins varðandi tilskipunina.
    Um tíu ár eru frá því fyrstu reglur um starfsemi vátryggingamiðlara voru leiddar í lög hér á landi. Á þessum árum hefur greinin fest sig í sessi og hefur það m.a. kallað á aukna reglusetningu. Helgast það sumpart af starfsemi greinarinnar sem slíkrar, breyttum viðhorfum og efni tilskipana. Þar sem tilskipun um miðlun vátrygginga hefur í för með sér talsverðar breytingar á lagaumhverfi starfsgreinarinnar var talið rétt og eðlilegt á þessum tímapunkti að leggja til að sérstök lög yrðu sett um miðlun vátrygginga.

II. Um efni tilskipunarinnar.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/92/EB, um miðlun vátrygginga, mælir fyrir um rétt vátrygginga- og endurtryggingamiðlara til að starfa á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli skráningar í heimaríki. Eitt helsta markmið tilskipunarinnar er að afnema hindranir á því að vátryggingamiðlarar geti stundað starfsemi sína óhindrað á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur er í tilskipuninni stefnt að aukinni neytendavernd, m.a. með því að setja strangari kröfur um starfsemi vátryggingamiðlara og mæla fyrir um aukna upplýsingagjöf til neytenda. Tilskipunin skilgreinir miðlun vátrygginga sem þá „starfsemi að kynna, bjóða fram eða inna af hendi annað undirbúningsstarf fyrir gerð vátryggingarsamninga, gerð slíkra samninga eða aðstoð við stjórnun og framkvæmd slíkra samninga, einnig þegar krafa um vátryggingarbætur er sett fram“. Ekki er litið á starfsemi vátryggingafélaga og tilfallandi upplýsingagjöf innan ramma annarrar atvinnustarfsemi sem miðlun vátrygginga.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar vera skráðir hjá lögbæru yfirvaldi í heimaríki sínu. Til að hljóta slíka skráningu verða vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar að búa yfir fullnægjandi þekkingu og hæfni samkvæmt viðmiðum sem heimaríki mælir fyrir um. Gerð er krafa um óflekkað mannorð og að viðkomandi hafi forræði yfir búi sínu. Þá er mælt fyrir um að vátryggingamiðlarar skuli hafa starfsábyrgðartryggingu til að mæta bótakröfum sem leitt geti af vanrækslu í starfi og mælir tilskipunin fyrir um hækkun á lágmarksfjárhæðum slíkra vátrygginga frá því sem verið hefur. Vátrygginga- og endurtryggingamiðlara, sem skráður er hjá lögbæru yfirvaldi í heimaríki sínu, er samkvæmt tilskipuninni heimilt að starfa hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu. Hafi vátryggingamiðlari í hyggju að stunda starfsemi sína utan heimaríkis síns skal hann tilkynna það lögbæru yfirvaldi þar sem hann er skráður og ber því að framsenda slíkar tilkynningar til þeirra aðildarríkja sem þess óska.
    Tilskipunin hefur að geyma ítarleg ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingamiðlara gagnvart viðskiptamönnum sínum. Þessi ákvæði miða að því að auka vernd neytenda. Enn fremur mælir tilskipunin fyrir um að aðildarríki skuli koma á málsmeðferð sem geri viðskiptamönnum og samtökum neytenda kleift að leggja fram kvartanir gegn vátrygginga- og endurtryggingamiðlurum.
    Tilskipunin felur í sér lágmarkssamræmingu og hafa aðildarríki því nokkurt svigrúm varðandi innleiðingu og geta sett strangari reglur en tilskipunin mælir fyrir um. Lokið skal við að innleiða tilskipunina fyrir 15. janúar 2005 og fellur þá úr gildi tilskipun nr. 77/92/EBE frá 13. desember 1976 um ráðstafanir til að greiða fyrir því að umboðsmenn í vátryggingum og vátryggingamiðlarar (úr ISIC-flokki 630) geti nýtt sér staðfesturétt og rétt til að stunda þjónustustarfsemi á því sviði, svo og sérstakar bráðabirgðaráðstafanir varðandi þá starfsemi.

III. Gildandi réttur.
    Reglur um störf vátryggingamiðlara eru í dag í IX. kafla laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum, og reglugerð um miðlun vátrygginga, nr. 853/1999. Þá eru í gildi reglugerð um vátryggingaskyldu vegna miðlunar vátrygginga, nr. 352/1997, og reglugerð um prófnefnd vátryggingamiðlara, námskeið og próf til þess að mega stunda miðlun vátrygginga, nr. 350/1997, með síðari breytingum.
    Með lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, voru í fyrsta skipti leidd í lög ákvæði er lúta að miðlun vátrygginga. Á þeim tíma voru reglur aðildarríkja hins Evrópska efnahagssvæðis mjög mismunandi að efni, sums staðar voru gerðar vægar kröfur eða starfsemi var jafnvel ekki háð starfsleyfi en annar staðar höfðu verið sett sérstök lög um efnið. Á þeim tíma er lög um vátryggingastarfsemi voru samþykkt hafði miðlun vátrygginga verið rekin í mjög litlum mæli sem sjálfstæð atvinnustarfsemi hér á landi. Ákvæðum um miðlun vátrygginga var breytt töluvert þegar lögum um vátryggingastarfsemi var breytt með lögum nr. 63/1997.
    Með núgildandi löggjöf er m.a. innleidd tilskipun nr. 77/92/EBE sem var í raun fyrsta skref í þá átt að vátryggingamiðlarar gætu nýtt sér staðfesturétt og rétt til að stunda þjónustu án starfsstöðvar. Þá er í gildandi lögum einnig tekið tillit til leiðbeinandi tilmæla Evrópusambandsins, nr. 92/48/EB, þar sem leitast er við að stuðla að samhæfingu ákvæða aðildarríkjanna um fagkröfur og skráningu vátryggingamiðlara.
    Í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins 2004 kemur fram að 30. júní 2004 voru 17 vátryggingamiðlarar skráðir í vátryggingamiðlaraskrá. Hefur fjöldi þeirra verið 16–19 síðustu fjögur árin.
    
IV. Meginefni og helstu nýmæli í frumvarpinu.
1. Inngangur.
    Frumvarpið hefur að geyma almennar reglur um miðlun vátrygginga. Reglurnar lúta annars vegar að því hverjir hafa heimild til að miðla vátryggingum og hvaða hæfiskröfur þeir þurfa að uppfylla. Hins vegar er fjallað um starfsemi, starfshætti og upplýsingagjöf til neytenda. Í störfum sínum ber þeim er miðla vátryggingum einnig að taka mið af ákveðnum ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi og reglum er lúta að réttarsambandi milli vátryggingafélagsins og vátryggingartaka eða hins vátryggða, en í störfum sínum bera þeir er miðla vátryggingum ákveðnar skyldur sem ella hvíldu á vátryggingafélögum. Reglur þessar er að finna í lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, en þau lög falla úr gildi 1. janúar 2006 og taka þá gildi ný lög um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

2. Meginþættir frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í meginatriðum í tvo hluta, annars vegar reglur er lúta að starfsemi vátryggingamiðlara og hins vegar reglur er lúta að starfsemi vátryggingaumboðsmanna. Reglurnar eru að miklu leyti sambærilegar og spegla kaflarnir hvor annan. Rétt þótti til hægðarauka að greina á milli þessar tveggja flokka, þannig verði lögin, verði frumvarpið að lögum, aðgengilegri og þægilegri í notkun. Þó taka I. kafli um gildissvið og orðskýringar og XII.–XIV. kafli bæði til vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna.
    Frumvarpið tekur enn fremur til starfsemi endurtryggingamiðlara. Endurtryggingamiðlarar eru þó undanþegnir ákvæðum frumvarpsins um upplýsingaskyldu.

3. Nýmæli í frumvarpinu.
    Ein af meginbreytingum sem frumvarpið leggur til lýtur að skilgreiningu á miðlun vátrygginga. Í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins hafa fram að þessu gilt ólíkar reglur um starfsemi þeirra sem hafa heimild til að miðla vátryggingum í hverju ríki. Til að tryggja jafnræði milli þessara aðila og vernd viðskiptamanna tekur frumvarpið til þeirra allra, svo sem vátryggingamiðlara, umboðsmanna og banka.
    Skilgreiningin sem lögð er til grundvallar og byggist á tilskipuninni er mun víðtækari en í núgildandi lögum. Starfsemi fleiri aðila getur því fallið undir lög og reglur um miðlun vátrygginga en nú. Starfsemi vátryggingaumboðsmanna er dæmi um það, en lög um vátryggingastarfsemi skilgreina vátryggingaumboðsmann sem þann er starfar í nafni og fyrir hönd ákveðinna vátryggingafélaga, eins eða fleiri, við að kynna, gera tillögu um og undirbúa vátryggingarsamninga eða aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, svo sem þegar tjón hefur orðið. Hingað til hefur starfsemi þessara aðila ekki verið skráningar- eða leyfisskyld heldur hafa vátryggingaumboðsmenn starfað á ábyrgð vátryggingafélaga. Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi þessara aðila verði háð skráningu vátryggingafélags og er gerð krafa um að áður en skráning eigi sér stað skuli vátryggingafélag ganga úr skugga um að vátryggingaumboðsmaður, og eftir atvikum starfsmenn hans, hafi nægilega þekkingu til að bera til að geta miðlað vátryggingum. Þá er gert að skilyrði að slíkir aðilar séu lögráða og hafi forræði á búi sínu.
    Eftir sem áður er gert ráð fyrir að áður en vátryggingamiðlari geti hafið starfsemi verði viðkomandi að sækja um starfsleyfi. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlit verði starfsleyfisveitandi en ekki viðskiptaráðherra eins og samkvæmt núgildandi lögum. Yrði slík skipan í samræmi við starfsleyfisveitingar á sviði fjármálamarkaðar, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Í frumvarpinu er lagt er til að tekin verði upp reglan um eitt starfsleyfi sem þekkt er í annarri löggjöf er lýtur að starfsemi vátryggingafélaga og annarra fjármálafyrirtækja. Reglan felur það í sér að á grundvelli starfsleyfis sem veitt er í heimaríki vátryggingamiðlara eða skráningar vátryggingaumboðsmanns geti viðkomandi starfað í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins með stofnun útibús eða veitt þar þjónustu án stofnunar útibús.
    Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði auknar kröfur til þekkingar og hæfis stofnenda, stjórnenda, framkvæmdastjóra og starfsmanna sem miðla vátryggingum. Í núgildandi lögum og reglugerðum um miðlun vátrygginga er m.a. gert ráð fyrir að umsækjandi um leyfi vátryggingamiðlara hafi staðist próf í miðlun vátrygginga, það sama á við um framkvæmdastjóra lögaðila. Krafa um próf á samsvörun í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem gerð er krafa um að allir starfsmenn sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga hafi lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Miðlun vátrygginga er vandasöm starfsgrein sem þarfnast umtalsverðar þekkingar. Hefur því verið leitast við að tryggja hæfni og koma í veg fyrir mistök með því að mæla fyrir um tiltekna almenna menntun og hafa próf verið notuð sem mælikvarði á þekkingu og hæfi.
    Frumvarpið tekur til endurtryggingamiðlara. Fram til þessa hafa innlendir vátryggingamiðlarar einungis starfað við miðlun frumtrygginga. Erlendir vátryggingamiðlarar hafa hins vegar stundað miðlun bæði frum- og endurtrygginga hér á landi. Þá má gera ráð fyrir að innlendir vátryggingamiðlarar muni í einhverjum tilvikum taka upp miðlun endurtrygginga hér á landi. Samkvæmt 2. gr. laga um vátryggingastarfsemi gilda ákvæði VII. kafla laganna, um starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi, ekki um endurtryggingar sem þau vátryggingafélög, sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skv. 26. gr. laganna, kaupa erlendis. Vænta má breytinga hvað það varðar á næstu missirum þar sem á vegum Evrópusambandsins er nú unnið að undirbúningi tilskipunar um starfsemi endurtryggingafélaga.

4. Aukin neytendavernd.
    Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um starfshætti þeirra er miðla vátryggingum auk ákvæða laga um vátryggingastarfsemi og vátryggingarsamninga. Þá eru nokkuð ítarleg ákvæði um upplýsingagjöf við miðlun vátrygginga. Er lagt mikið upp úr að væntanlegur vátryggingartaki hafi nægilega vitneskju um þá vátryggingu sem hann hyggst taka, m.a. er gert ráð fyrir að vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður greini aðila frá þeim forsendum sem liggja að baki ráðgjöf um val á vátryggingu. Auk þess er áhersla lögð á að upplýsingar um helstu atriði vátryggingar og atriði er varða vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmenn sjálfa séu upplýst áður en gengið er frá vátryggingarsamningi, hann endurnýjaður eða honum breytt.

V. Þjóðhagslegt mat á eftirliti.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi þeirra sem miðla vátryggingum. Þörfin á eftirliti er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, sbr. 3. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999. Eftirlitsheimildin byggist á tilskipun nr. 2002/92/EB, um miðlun vátrygginga. Verður nú gerð stutt grein fyrir þörf fyrir eftirlit, mat á kostnaði við eftirlitið og skipulag eftirlitsins.

a. Greining á þörf fyrir eftirlit.
    Frumvarp þetta byggist að langmestu leyti á tilskipun sem tekin hefur verið upp í EES- samninginn um miðlun vátrygginga. Í tilskipuninni er kveðið á um grunnþætti í eftirliti á þessu sviði vátryggingastarfsemi.
    Nýjung í frumvarpinu er fjárhagslegt eftirlit með þeim er stunda vátryggingamiðlun. Slíkt fjárhagslegt eftirlit hefur í raun ekki tíðkast þrátt fyrir að vátryggingamiðlarar lúti nú reglum um skil á ársreikningum. Ástæður þess að í frumvarpinu er lagt til að hafið verði eftirlit með fjárhag eru fyrst og fremst að miðlun vátrygginga er eina eftirlitsskylda starfsemin á fjármálamarkaði sem ekki lýtur fjárhagslegu eftirliti. Hefur verið talið að slíkt geti gefið röng skilaboð til neytenda þar sem um starfsleyfisskylda starfsemi er að ræða. Ekki síður er ástæðan sú að vátryggingamiðlarar hafa oft með höndum fjármuni annarra og er talið eðlilegt með sömu rökum og gilda um aðra fjármálastarfsemi að slík starfsemi lúti opinberu eftirliti. Hefur það sýnt sig við gjaldþrot vátryggingamiðlara síðustu ár að æskilegt hefði verið ef Fjármálaeftirlitið hefði haft upplýsingar um stöðu mála fyrr og þá ef til vill getað gripið fyrr inn í en gert var.

b. Mat á kostnaði við eftirlit.
    Eftirlitsskyldir aðilar kosta starfsemi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt 3. tölul. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, skulu félög og einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun greiða 0,09% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr. Við síðustu lagabreytingu var lágmarksfjárhæðin hækkuð um 50.000 kr. þar sem nokkurt misræmi var talið á milli hlutdeildar vátryggingamiðlara í álögðu eftirlitsgjaldi og þess tíma sem að jafnaði hefur verið varið í eftirlit með þeim.
    Almennt markmið með starfsemi fjármálaeftirlits er að stuðla að heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum, auka öryggi eigna og stuðla að bættri vernd neytenda. Slíkt eftirlit er talið hafa í för með sér mikinn ávinning fyrir samfélagið. Beinn kostnaður við eftirlitið liggur fyrir en erfitt er að meta hvort opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hefur í för með sér óbeinan kostnað. Óbeinn kostnaður einstaklinga getur t.d. verið fólginn í hærra verði þjónustu sem til kemur af eftirlitsgjaldi sem eftirlitsskyldir aðilar verða að greiða. Almennt má gera ráð fyrir að slíkur óbeinn kostnaður vegi ekki þungt þegar horft er til ávinnings sem felst í aðhaldi og eftirliti með fjármálafyrirtækjum sem miðar að því að draga úr og koma í veg fyrir áföll. Þannig verður að ætla að eftirlitið leiði ekki til hærra verðs á þjónustu eftirlitsskyldra aðila en vera mundi ef ekkert eftirlit væri með starfsemi þeirra.
    Í frumvarpinu er ekki lagt nákvæmt mat á áhrif þess á núverandi rekstrarkostnað eftirlitsins. Ætla má að einhver kostnaðarauki fylgi því að koma ákvæðum laganna í framkvæmd af hálfu Fjármálaeftirlitsins, en verkefni þau sem frumvarpið hefur í för með sér eru bæði tímabundin og varanleg. Hins vegar er erfitt að meta langtímaáhrif frumvarpsins þar sem kostnaður af framkvæmd laga af þessu tagi ræðst einkum af þróun markaðarins. Því er talið eðlilegt að nánari áhrif frumvarpsins verði fremur metin í tengslum við frumvörp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem lögð eru fram á hverju haustþingi.

c. Skipulag eftirlits.
    Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar á meðal miðlun vátrygginga, er beint eftirlit framkvæmt af eftirlitsstjórnvaldi. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins felst að miklu leyti í öflun upplýsinga um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, vettvangsrannsóknum, sérstökum athugunum og öðrum aðferðum sem gera því kleift að kanna hvort starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir og reglur sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Meginábyrgðin á eftirlitinu er hins vegar á hendi eftirlitsskyldra aðila sjálfra. Það er á ábyrgð stjórnenda að skipuleggja starfsemi sína þannig að fyrir hendi sé virk áhættustýring, innra eftirlit og eftirfylgni við lög og reglur.
    Reglur um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eru settar með lögum og reglugerðum. Í vissum tilfellum hefur Fjármálaeftirlitið heimild til setningar reglna um einstaka þætti í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Framkvæmd eftirlitsins er þannig í höndum Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsskyldra aðila. Fjármálaeftirlitið hefur víðtækar heimildir til að krefjast úrbóta komi í ljós við athuganir þess að eftirlitsskyldir aðilar fylgi ekki lögum eða öðrum reglum sem um starfsemina gilda. Kveðið er á um slíkar heimildir í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins má skjóta til sérstakrar kærunefndar sem tilnefnd er af Hæstarétti.
    Skipulag eftirlitsins byggist að langmestu leyti á erlendum fyrirmyndum og er ætlað að miða að því að opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hér á landi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í gildandi tilskipunum á Evrópska efnahagssvæðinu og alþjóðlegum grunnreglum um árangursríkt fjármálaeftirlit.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla frumvarpsins er að finna fimm greinar er lúta að gildissviði, takmörkun á gildissviði og orðskýringum. Í kaflanum eru m.a. innleiddar 1. og 2. gr. og 2. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er gildissvið þess afmarkað. Er nauðsynlegt að túlka ákvæðið með hliðsjón af 4. og 5. gr. frumvarpsins þar sem er að finna takmarkanir á gildissviði laganna. Styðst greinin við 1. málsl. 3. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Í greininni er leitast við að skilgreina þá starfsemi sem fellur undir hugtakið miðlun vátrygginga. Þá er í 2. mgr. að finna upptalningu á þeim aðilum sem hafa heimild til að miðla vátryggingum hér á landi.
    Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að frumvarpið taki til miðlunar vátrygginga hér á landi. Þá er skilgreint nánar hvað felist í miðlun vátrygginga, þ.e. sú starfsemi að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samning um vátryggingu, að koma á slíkum samningum eða aðstoð við framkvæmd slíkra samninga. Sú starfsemi að setja fram kröfu um vátryggingarbætur telst einnig til miðlunar vátrygginga.
    Í reglugerð nr. 853/1999, um miðlun vátrygginga, kemur fram að í miðlun vátrygginga felist m.a. að undirbúa samning um vátryggingu, gerð slíkra samninga og aðstoð við framkvæmd á slíkum samningum, einnig þegar krafa um vátryggingarbætur er sett fram. Þá kemur fram að reglugerðin taki ekki til starfsemi sem rekin sé í umboði einstakra vátryggingafélaga, þar sem einungis fer fram tjónsuppgjör eða ráðgjöf á vátryggingasviði.
    Í almennum athugasemdum er vikið að því að eitt af markmiðum tilskipunarinnar er að jafna stöðu þeirra aðila sem hingað til hafa stundað sambærilega starfsemi á sviði miðlunar vátrygginga. Hérlendis hefur starfsemi banka og sparisjóða er lýtur að milligöngu um sölu á vátryggingum aukist gífurlega síðustu missirin. Auk þess hafa svokallaðir tryggingaráðgjafar verið starfandi en ekki fallið undir reglur um miðlun vátrygginga. Eðlilegt er að sömu eða sambærilegar reglur gildi um starfsemi þeirra aðila er hafa sambærilegan starfa og á það sérstaklega við þegar löggjafinn hefur mælt fyrir um að starfsemi skuli vera leyfisskyld og lúta opinberu eftirliti. Með rýmri skilgreiningu tilskipunarinnar á miðlun vátrygginga fjölgar til muna þeim aðilum sem þarfnast skráningar eða leyfis. Er það í samræmi við umræðu sem farið hefur fram hérlendis síðustu missirin um nauðsyn þess að gerðar verði breytingar hvað þetta atriði varðar í hérlendri löggjöf.
    Í 1. mgr. er hugtakið miðlun vátrygginga notað. Í lögum og reglugerðum hafa ýmist verið notuð hugtökin vátryggingamiðlun eða miðlun vátrygginga. Í frumvarpinu er gengið út frá að miðlun vátrygginga sé yfirhugtak, sem taki yfir starfsemi vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og annarra sem eftir atvikum stunda þá starfsemi sem fellur undir skilgreiningu á miðlun vátrygginga í 1. mgr.
    Ekki er nauðsynlegt að innt sé af hendi öll sú starfsemi sem talin er upp í málsgreininni til þess að starfsemi aðila verði talinn miðlun vátrygginga, eingöngu er nauðsynlegt að innt sé af hendi eitt af þeim atriðum sem talin eru upp. Til að starfsemi falli undir skilgreiningu á miðlun vátrygginga þarf hún jafnframt að fela í sér framlag af hálfu viðkomandi, t.d. að leitað sé eftir tilboðum í vátryggingar og ráðgjöf veitt að þeim fengnum. Er nauðsynlegt að greina skýrt á milli þeirrar háttsemi sem fellur undir 1. gr. frumvarpsins og háttsemi sem fellur undir undanþáguákvæði 4. gr. Starfsemi aðila, sem hefur atvinnu af því að meta vátryggingarþörf viðskiptamanna og ráðleggja þeim um vátryggingar sem í boði eru, fellur undir skilgreiningu 1. gr. á miðlun vátrygginga. Á það við hvort sem það er viðskiptamaðurinn sem t.d. leitar eftir tilboðum í vátryggingar eða aðilinn sjálfur. Ef slík ráðgjöf er hins vegar veitt tilfallandi innan ramma annarrar atvinnustarfsemi er hugsanlegt að undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr. geti átt við. Ef háttsemi felur t.d. eingöngu í sér að koma upplýsingum á milli vátryggingartaka og vátryggingafélags án þess að veitt sé ráðgjöf um vátryggingarsamninginn fellur slík starfsemi undir undanþáguákvæði 3. tölul. 4. gr.
    Upp geta komið tilvik þar sem ekki er fyllilega ljóst hvort starfsemi fellur undir 1. gr. eða 4. gr. Dæmi um slík tilvik má nefna starfsemi fasteignasala þegar kaupandi merkir við á kaupsamningi hvar hann hyggst vátryggja fasteign lögbundinni brunatryggingu. Það sama má segja um bifreiðasala sem í tengslum við sölu ökutækja framsenda beiðni kaupanda um lögbundna ökutækjatryggingu til viðkomandi vátryggingafélags. Ef bifreiðasali framsendir eingöngu hina lögákveðnu vátryggingarbeiðni til vátryggingafélags fellur slík starfsemi undir undanþáguákvæði 3. tölul. 4. gr. Nánar er fjallað um þetta atriði í athugasemdum við 4. gr. Þá er ekki gert ráð fyrir að starfsemi t.d. skattaráðgjafa og endurskoðenda, sem veita tilfallandi ráðgjöf um vátryggingar innan ramma annarrar atvinnustarfsemi, falli undir skilgreiningu 1. gr. á miðlun vátrygginga.
    Í 2. mgr. er skilgreint hverjir hafi heimild til miðlunar vátrygginga hér á landi. Eru það í fyrsta lagi vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins, í öðru lagi vátryggingaumboðsmenn sem skráðir hafa verið hjá vátryggingafélagi. Í þriðja lagi vátryggingamiðlarar eða vátryggingaumboðsmenn sem hafa aðalstöðvar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og hafa starfsleyfi í því ríki eða verið þar skráðir. Loks í fjórða lagi vátryggingamiðlarar eða vátryggingaumboðsmenn með aðalstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa heimild til að reka hér útibú.
    Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að lögin skuli gilda um miðlun endurtrygginga, sem er í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að sömu reglur skuli gilda um miðlun vátrygginga, hvort heldur um er að ræða frumtryggingar eða endurtryggingar. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði um upplýsingaskyldu eigi ekki við um miðlun endurtrygginga, enda eiga neytendur ekki þar hlut að máli.
    Í 4. mgr. er lagt til að ákvæði frumvarpsins um upplýsingskyldu gildi ekki um miðlun stóráhættu. Með sama hætti og varðandi miðlun endurtrygginga, er ekki sama þörf á neytendavernd við miðlun stóráhættu og við miðlun frumtrygginga, þar sem miðlun stóráhættu varðar þá greinaflokka vátrygginga er tengjast atvinnurekstri og stærri fyrirtækjum sérstaklega. Í frumvarpinu er lagt til að hugtakið stóráhætta verði skilgreint með sama hætti og það er skilgreint í 7. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

Um 2. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að ekki verði vikið frá ákvæðum laganna viðskiptamönnum til tjóns. Ákvæðið byggist á tilskipuninni um miðlun vátrygginga og samrýmist jafnframt ákvæðum ýmissa nýlegra laga sem tryggja neytendavernd með þessum hætti. Á greinin fyrst og fremst við um þau ákvæði laganna sem varða samskipti vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns við viðskiptamenn sína. Í frumvarpinu eru lagðar til ákveðnar lágmarksreglur og er í greininni tekinn af allur vafi um að óheimilt sé að víkja frá þeim lágmarksreglum, enda yrði þá vegið að þeirri vernd sem frumvarpið mælir fyrir um viðskiptamönnum vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna til handa.
    Það leiðir hins vegar af ákvæðinu að aðilum er heimilt að semja um réttarstöðu sem er viðskiptamanni hagstæðari en vera mundi samkvæmt lögunum.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er að finna orðskýringar á ýmsum grundvallarhugtökum frumvarpsins. Auk þess er að finna skilgreiningu á hugtökum sem nauðsynlegt var talið að hafa í sérstökum lögum um miðlun vátrygginga, sem eru skilgreind með sama hætti í frumvarpinu og í lögum um vátryggingastarfsemi. Með ákvæðinu eru innleiddar ýmsar skilgreiningar 2. gr. tilskipunarinnar.
    Verður hér vikið að helstu hugtökum sem skilgreind eru í ákvæðinu og fela í sér nýmæli.
    Í 1. tölul. er að finna skilgreiningu á hugtakinu vátryggingamiðlun. Samkvæmt ákvæðinu er um vátryggingamiðlun að ræða þegar vátryggingamiðlari stundar starfsemi á eigin ábyrgð, sem felst í að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samninga um vátryggingu, að koma á slíkum samningum eða aðstoða við framkvæmd þeirra, á grundvelli hlutlausarar greiningar skv. a-lið 1. tölul. eða á grundvelli takmarkaðs fjölda, þ.e. vátrygginga eins eða fleiri vátryggingafélaga, skv. b-lið 1. tölul.
    Vátryggingamiðlun eins og hún er skilgreind í núgildandi lögum og reglugerðum lýtur að eftirfarandi starfsemi:
     1.      Að undirbúa samninga um vátryggingu.
     2.      Gerð slíkra samninga.
     3.      Aðstoð við framkvæmd á slíkum samningum, einnig þegar krafa um vátryggingarbætur er sett fram.
    Þannig hefur starfsemi þar sem eingöngu fer fram ráðgjöf án þess að jafnframt sé veitt aðstoð við að koma á vátryggingarsamningi ekki verið talin leyfisskyld og hefur ekki fallið undir lög eða reglugerð um miðlun vátrygginga. Frumvarpið leggur til breytingar hvað það varðar.
    Í e-lið 1. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar, punktum i) og iii), og 2. mgr. 12. gr. er að finna ákvæði um upplýsingaskyldu. Af punkti i) e-liðar 1. mgr. og 2. mgr. leiðir að tilkynni vátryggingamiðlari viðskiptamanni sínum að ráðgjöf hans byggist á hlutlausri greiningu, ber honum skylda til að veita ráðgjöf sína á grundvelli greiningar á nægilega mörgum vátryggingarsamningum, sem í boði eru á markaðnum, til að hann geti komið með tillögu, í samræmi við faglegar viðmiðanir, um hvaða vátryggingarsamningur samrýmist þörfum viðskiptamannsins. Það leiðir enn fremur af punkti iii) e-liðar 1. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar að vátryggingamiðlari skuli upplýsa viðskiptamann sinn um að ráðgjöf hans byggist ekki á hlutlausri greiningu vátryggingarsamninga á markaði, þrátt fyrir að hann sé ekki bundinn samningsskyldu til að stunda vátryggingamiðlun eingöngu fyrir eitt eða fleiri vátryggingafélög. Af þessum atriðum má leiða að vátryggingamiðlari á að koma fram sem óháður ráðgjafi viðskiptamannsins.
    Í a- og b-lið 1. tölul. 3. gr. er að finna skilgreiningu á starfsemi sem fellur undir framangreinda umfjöllun. Er annars vegar lagt til að vátryggingamiðlari sé óháður og veiti viðskiptamanni sínum ráðgjöf á grundvelli hlutlausrar greiningar á nægilega mörgum vátryggingarsamningum, sem í boði eru á markaðnum, til að hann geti komið með tillögu, í samræmi við faglegar viðmiðanir, um hvaða samningur samrýmist best þörfum viðskiptamannsins. Hversu margir vátryggingarsamningarnir skulu vera verður að meta í hverju tilfelli, t.d. með hliðsjón af því um hvaða vátryggingargrein er að ræða. Samkvæmt þessari skilgreiningu er um vátryggingamiðlun að ræða þegar vátryggingamiðlari leitar eftir tilboðum í vátryggingu fyrir viðskiptamann sinn, fyrirtæki eða einstakling, hjá tilteknum fjölda vátryggingafélaga á markaði.
    Hins vegar getur vátryggingamiðlari eingöngu miðlað vátryggingum á eigin ábyrgð frá einu eða fleiri félögum. Hann starfar þá ekki á þeirra ábyrgð eins og vátryggingaumboðsmaður gerir. Í slíkum tilvikum ber vátryggingamiðlara að upplýsa viðskiptamann sinn um nöfn þeirra vátryggingafélaga.
    Starfsemi vátryggingamiðlara fellur nú undir lög nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, eins og áður hefur verið vikið að. Hefur starfsemin hingað til verið fólgin í að leita tilboða í vátryggingar fyrir viðskiptamann án þess að viðkomandi vátryggingamiðlari sé samningsbundinn einu eða fleiri tilteknum vátryggingafélögum um að miðla vátryggingum á þeirra vegum. Í reglugerð um miðlun vátrygginga er raunar lagt bann við að vátryggingamiðlari tengist einstökum vátryggingafélögum, en m.a. er gert ráð fyrir að í umsókn vátryggingamiðlara um starfsleyfi sé lögð fram yfirlýsing um sjálfstæði gagnvart einstökum vátryggingafélögum og að engin fjárhagsleg tengsl séu við vátryggingafélög, sem miðlað er til vegna eignaraðildar eða hagsmuna annarra en þeirra sem tengjast þeim vátryggingarsamningnum sem komið er á. Með b-lið 1. tölul. 3. gr. frumvarpsins er í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar lögð til sú veigamikla breyting að vátryggingamiðlari geti miðlað vátryggingum á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga á eigin ábyrgð. Hefur þetta nýmæli í för með sér að tiltekin vátryggingamiðlari getur á eigin ábyrgð stundað miðlun vátrygginga í tengslum við eitt vátryggingafélag, en þarf ekki að veita hlutlausa greiningu á vátryggingarsamningum sem í boði eru á markaði.
    Í 2. tölul. 3. gr. er lögð til ný skilgreining á hugtakinu vátryggingamiðlari, sem samkvæmt ákvæðinu er einstaklingur eða lögaðili sem stundar starfsemi sem felst í að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samninga um vátryggingu, að koma á slíkum samningum eða aðstoða við framkvæmd þeirra, gegn endurgjaldi. Skilgreiningin byggist á 5. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, þar sem hugtakið er skilgreint með sambærilegum hætti.
    Í frumvarpinu er lagt til að vátryggingamiðlari geti starfað sem einstaklingur eða lögaðili. Til umræðu var að gera að skilyrði að vátryggingamiðlarar gætu einungis starfað í lögaðilaformi en helstu ástæður er að í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög eru skýrar reglur um form og efni slíkra félaga en jafnframt þykir eðlilegt að miðlun vátrygginga sé líkt og önnur leyfisskyld starfsemi rekin í lögaðilaformi. Síðustu ár hafa enn fremur nær allir nýir vátryggingamiðlarar valið lögaðilaformið á rekstri sínum. Í 5. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar kemur fram að vátryggingamiðlari sé lögaðili eða einstaklingur sem hefur eða stundar vátryggingamiðlun gegn þóknun. Af þeim sökum var talið að skilyrði íslenskrar löggjafar um lögaðilaform myndi brjóta í bága við ákvæði tilskipunarinnar og ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um staðfestu og þjónustufrelsi.
    Starf vátryggingamiðlara felst í að yfirfara vátryggingaþörf viðskiptamanna og ráðleggja að slíkri niðurstöðu fenginni hvaða vátrygging henti viðkomandi best, gegn endurgjaldi. Hefur þar ekki áhrif hver greiðir vátryggingamiðlara endurgjald, vátryggingafélag eða viðskiptamaður. Ekki hefur heldur áhrif í hvaða formi endurgjaldið er innt af hendi, þannig getur verið um að ræða peningagreiðslu eða annan umsaminn ávinning. Mikilvægt er að viðskiptamaður sé upplýstur um endurgjald og hverjum beri að greiða slíkt endurgjald, í samræmi við það er lögð til ný regla í 32. gr er lýtur að slíkri upplýsingaskyldu.
    Í 3. tölul. er lögð til ný skilgreining á hugtakinu vátryggingaumboðsmaður. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um vátryggingastarfsemi frá árinu 1994 kom fram að óþarft væri að setja ákvæði um umboðsmenn innlendra vátryggingafélaga, þar sem þeir störfuðu á ábyrgð vátryggingafélaga.
    Í frumvarpinu er skilgreining á hugtakinu vátryggingaumboðsmaður og er hún orðuð á nokkuð annan hátt en í lögum um vátryggingastarfsemi. Skilgreining sú sem lögð er til er samhljóða sambærilegri skilgreiningu danskra laga um vátryggingamiðlun og norsku frumvarpi um sama efni. Í frumvarpinu er lagt til að vátryggingaumboðsmaður miðli vátryggingum á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga og á ábyrgð þeirra. Viðkomandi vátryggingafélag ber ábyrgð á starfsemi vátryggingaumboðsmanns og tekur sú ábyrgð bæði til faglegra starfa viðkomandi og fjárhagslegar ábyrgðar. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir að vátryggingaumboðsmenn leggi fram starfsábyrgðartryggingu líkt og vátryggingamiðlarar, enda beri vátryggingafélag fulla ábyrgð á starfi viðkomandi.
    Þá er lagt til í frumvarpinu að vátryggingaumboðsmenn verði að uppfylla tilteknar hæfiskröfur og að þeir séu sérstaklega skráðir hjá vátryggingafélagi. Skal sú skráning vera aðgengileg almenningi.
    Hugtakið vátryggingaumboðsmaður í frumvarpinu tekur til þess hóps sem hefur undirgengist samning við eitt eða fleiri vátryggingafélög um að miðla vátryggingum á þeirra vegum. Sem dæmi um aðila sem munu falla undir þetta hugtak eru bankar og sparisjóðir auk óþekkts hóps annarra aðila sem inna af hendi starfsemi sem fellur undir skilgreiningu á miðlun vátrygginga. Þessi hópur aðila hefur fram að þessu ekki lotið sértæku eftirliti á þessu sviði.
    Með sama hætti og varðandi vátryggingamiðlara er gert ráð fyrir að vátryggingaumboðsmenn geti starfað sem einstaklingar eða lögaðilar og jafnframt að þjónusta þeirra sé innt af hendi gegn endurgjaldi.
    Lögð er til breyting á skilgreiningu á hugtakinu vátryggingasölumaður. Er enn fremur lagt til að skilgreiningu laga um vátryggingastarfsemi verði breytt með sambærilegum hætti. Með vátryggingasölumanni er átt við starfsmann sem starfar á vegum og á ábyrgð vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanns eða vátryggingafélags við miðlun vátrygginga. Rétt þykir að sambærileg skilgreining taki til starfsmanna allra þeirra aðila er komið geta að sölu eða miðlun vátrygginga hér á landi. Ákvæði frumvarps þessa taka ekki til starfsmanna vátryggingafélaganna, enda er sérstaklega tekið fram í 1. tölul. 4. gr. að lögin taki ekki til vátryggingafélags og starfsmanna þess nema annars sé sérstaklega getið.
    Í 10. tölul. er lögð til skilgreining á nýju hugtaki, varanlegur miðill, sem byggist á 12. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt frumvarpinu merkir varanlegur miðill, auk pappírs, tæki sem gerir viðskiptamanni kleift að geyma upplýsingar sem beint er til hans óbreyttar, þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í ákveðinn tíma. Varanlegir miðlar geta einkum verið disklingar, geisladiskar, stafrænir mynddiskar (DVD) og harðir diskar í tölvu viðskiptamanna þar sem tölvupóstur er vistaður. Vefsetur á netinu teljast hins vegar ekki til varanlegra miðla, nema þau uppfylli viðmiðanir sem er að finna í skilgreiningu hugtaksins, þar sem hægt er að breyta upplýsingum á vefsíðum og þær uppfylla almennt ekki kröfurnar um að vera beint sérstaklega til einstaks viðskiptamanns. Venjulegur gsm-sími telst heldur ekki til varanlegs miðils þar sem í þeim er ekki nægilegt pláss til að geyma upplýsingar. Það má því ætla að til að upplýsingar teljist uppgefnar á varanlegum miðli verði þær að vera þannig að viðskiptamanni sé kleift að kynna sér þær með því að lesa þær. Símbréf, tölvupóstur, upplýsingar á disklingi, geisladiski eða stafrænum mynddiski (DVD) uppfylla þessar kröfur, sem og tölvupóstur, en hann vistast yfirleitt á harðan disk tölvu viðskiptamanns og er hægt að prenta út á pappír.

Um 4. gr.


    Í greininni er að finna upptalningu á þeirri starfsemi sem telst undanþegin lögunum. Í ýmsum greinum tilskipunarinnar er að finna undanþágur frá gildissviði hennar. Í 3. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði er lúta að innleiðingu á 3. og 4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 1. gr. tilskipunarinnar eru innleidd í 5. gr. frumvarpsins.
    Í 1. tölul. er lagt til að starfsemi vátryggingafélags og starfsmanna þeirra falli ekki undir lög um miðlun vátrygginga. Er það í samræmi við skilgreiningu á gildissviði frumvarpsins. Um starfsemi vátryggingafélaga og starfsmanna þeirra gilda lög um vátryggingarsamninga og lög um vátryggingastarfsemi eftir því sem við á.
    Í 2. tölul. er vikið að ráðgjöf sem tilfallandi er veitt innan ramma annarrar atvinnustarfsemi. Skilyrði er að tilgangurinn með ráðgjöfinni sé ekki að aðstoða viðskiptamann við gerð eða framkvæmd vátryggingarsamnings. Töluliðurinn varðar innleiðingu á 3. lið 3. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og umfjöllun í 12. mgr. inngangs hennar, þar sem m.a. kemur fram að tilskipuninni sé ekki ætlað að gilda um aðila sem stunda aðra atvinnustarfsemi en miðlun vátrygginga, svo sem skattasérfræðinga eða endurskoðendur, sem veita tilfallandi ráðgjöf um vátryggingarvernd í starfi sínu. Það sama getur átt við um starfsemi lögmanna, sem algengt er að veiti ráðgjöf um vátryggingar sem lið í almennri hagsmunagæslu viðskiptamanna sinna.
    Í 3. tölul. greinarinnar er vikið að undanþágu er lýtur að almennri upplýsingagjöf um vátryggingar eða þegar tengslum við vátryggingafélög er komið á, að því tilskildu að tilgangurinn sé ekki að koma á vátryggingarsamningi. Sem dæmi um starfsemi sem getur fallið undir þennan tölulið er aðkoma bifreiðasala að málum er snúa að löggiltum ökutækjatryggingum. Í 91. og 92. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. og 8. gr. reglugerðar nr. 392/2003, um lögmæltar ökutækjatryggingar, er kveðið á um að öll skráð ökutæki skuli vera vátryggð ábyrgðartryggingu og slysatryggingu ökumanns og eiganda sem vátryggingartaka. Sú venja hefur þróast við kaup og sölu ökutækja hjá bifreiðasala að á stöðluðum eyðublöðum bifreiðasala, kaupsamningi og/eða afsali, er sérstakur reitur þar sem kaupandi getur merkt við hjá hvaða vátryggingafélagi hann hyggst vátryggja bifreið sína. Samkvæmt lögum og reglum um starfsemi bifreiðasala hvílir á bifreiðasala skylda að senda tilkynningu um eigendaskipti ökutækja til ökutækjaskrár, Umferðarstofu. Í þeirri tilkynningu skal vátryggingafélags getið. Hið sama á við um nýskráningu ökutækja. Sú þjónusta bifreiðasala að kaupandi bifreiðar geti tilgreint á nýskráningar- og eigendaskiptatilkynningum, kauptilboði eða afsali hvaða vátryggingafélagi hann hyggst vátryggja bifreiðina hjá flokkast undir lögbundna þjónustu sem bifreiðasali innir af hendi fyrir kaupanda. Hefur þessi framkvæmd þróast í áranna rás í tengslum við viðleitni stjórnvalda og vátryggingafélaga til að fækka óvátryggðum ökutækjum í umferðinni. Hið sama getur átt við um framsendingu bifreiðasala á beiðni um húftryggingu, í tengslum við lögmæltar ábyrgðartryggingar ökutækja. Umræða um vátryggingarsamninginn og umfang hans, svo sem um verð og eigin áhættu fer fram á milli eiganda (kaupanda) bifreiðar og vátryggingafélags.
    Um leið og bílasali veitir ráðgjöf eða býður fram aðra þjónustu eða aðstoð er lýtur að undirbúningi vátryggingarsamnings er hann farinn að miðla vátryggingum í skilningi 1. mgr. 1. gr. Sambærileg aðstaða getur skapast í öðrum atvinnugreinum, svo sem um aðkomu fasteignasala vegna lögboðinna brunatrygginga húseigna eins og áður hefur verið nefnt í umfjöllun um 1. gr. frumvarpsins. Fer það eftir mati hverju sinni hvort tiltekin starfsemi fellur undir 1. gr. eða undanþáguákvæði 3. tölul. 4. gr.
    Í 4. tölul. er lagt til að starfsemi í atvinnuskyni þar sem fram fer meðferð vátryggingarkrafna vátryggingafélags, tjónsuppgjör og sérfræðimat á tjónakröfum falli ekki undir lög um miðlun vátrygginga. Starfsemi þessi felur ekki í sér að verið sé að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samning um vátryggingu. Er þessi regla í samræmi við núverandi lagareglur.

Um 5. gr.


    Í greininni er kveðið á um takmörkun á gildissviði laganna og styðst greinin við 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 1.–4. tölul. ber að skoða í samhengi þar sem þeir þurfa allir að vera uppfylltir til að takmörkunin eigi við.
    Í 1. tölul. er gert að skilyrði að vátryggingarsamningurinn krefjist eingöngu þekkingar á þeirri vátryggingarvernd sem vátryggingarsamningurinn veitir, sem dæmi má nefna er ferðaskrifstofur bjóða upp á forfallatryggingar í tengslum við sölu á ferð.
    Í 2. tölul. er gert að skilyrði að vátryggingarsamningurinn feli ekki í sér líftryggingu. Líftryggingar eru flóknar vátryggingar, þar sem viðskiptamaður hefur þörf fyrir ítarlegar upplýsingar áður en vátryggingarsamningur er gerður og kallar á sérfræðiþekkingu þess sem miðlar vátryggingunni.
    Í 3. tölul. er gert að skilyrði að vátryggingarsamningurinn taki ekki til skaðabótaábyrgðar.
    Í 4. tölul. kemur er gert ráð fyrir að sá er miðli vátryggingunni hafi ekki aðalatvinnu af starfanum.
    Í 5. tölul. kemur fram að miðlun vátrygginga, sem veitt er af aðila er stundar sölu á vöru eða ferðaþjónustu, sé undanþegin ákvæðum laganna, enda séu skilyrði a- og b-liðar töluliðarins uppfyllt. Í a-lið er vísað til vátrygginga sem ná yfir hættu á að vörur bili, glatist eða skemmist. Þá er í b-lið vísað til vátrygginga sem seldar eru af ferðaskrifstofum í tengslum við ferð, þegar vátryggingin greiðir bætur þegar farangur skemmist eða glatast eða þegar vátryggingin er gegn annarri áhættu sem tengist ferð, t.d. forfallatrygging. Vakin er athygli á því að vátrygging skv. b-lið getur falið í sér líftryggingu eða skaðabótaábyrgð að því gefnu að vátryggingarverndin sé til viðbótar við aðalverndina gegn áhættu tengdri ferðinni.
    Ákvæði 1.–5. tölul. verður að túlka í samhengi við 6. og 7. tölul. varðandi hámark iðgjalds og lengd gildistíma vátryggingarsamnings. Samkvæmt greininni má árlegt iðgjald ekki vera hærra en 40.000 kr., en þó aldrei hærra en 500 evrur miðað opinbert viðmiðunargengi evru hverju sinni. Þá má gildistími vátryggingarinnar ekki vera lengri en fimm ár í heild og tekur sá tími jafnframt til framlengingar á vátryggingunni. Fari árlegt iðgjald yfir 40.000 kr. eða sé gildistími lengri en fimm ár fellur starfsemi viðkomandi undir gildissvið laganna.

Um II. kafla.


    Í II. kafla er að finna reglur er lúta að veitingu starfsleyfis vátryggingamiðlara. Helsta nýmæli sem lagt er til í kaflanum er að starfsleyfisveiting færist yfir til Fjármálaeftirlits frá viðskiptaráðherra til samræmis við flestar aðrar leyfisveitingar á sviði fjármálamarkaðar. Í kaflanum er jafnframt að finna skilyrði sem einstaklingar og lögaðilar þurfa að uppfylla til að hljóta starfsleyfi. Þá er fjallað um umsóknarferlið, skrá yfir veitt starfsleyfi og reglur er lúta að breytingu á starfsemi. Núgildandi reglur um umsókn um starfsleyfi vátryggingamiðlara er að finna í 6.–12. gr. reglugerðar nr. 853/1999, um miðlun vátrygginga. Reglur þær sem lagðar eru til í frumvarpinu er óbreyttar að hluta en varðandi tiltekin atriði eru lagðar til ítarlegri reglur en í gildandi reglugerð.

Um 6. gr.


    Í greininni er lögð til efnisleg breyting á tilhögun starfsleyfisveitinga, en kveðið er á um að Fjármálaeftirlitið veiti vátryggingamiðlurum starfsleyfi. Samkvæmt núgildandi lögum og reglugerð veitir viðskiptaráðherra vátryggingamiðlurum starfsleyfi að fenginni umsögn Fjármálaeftirlits. Sú þróun hefur átt sér stað síðustu ár að starfsleyfisveitingar á fjármálamarkaði hafa færst frá viðskiptaráðherra til Fjármálaeftirlitsins. Er sú skipan mála í samræmi við almenna venju í Evrópu og er veiting starfsleyfis í raun einn hluti af opinberu eftirliti með starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis, í þessu tilviki vátryggingamiðlara. Breyting þessi hefur enn fremur í för með sér að umsækjandi um starfsleyfi getur kært synjun Fjármálaeftirlitsins um starfsleyfi til kærunefndar sem starfar samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Um 7. gr.


    Í greininni eru talin upp þau gögn sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi einstaklings sem vátryggingamiðlara. Upptalningin er ekki tæmandi þar sem gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti óskað frekari skýringa eftir því sem við á.
    Gert er ráð fyrir að upplýsingar sem fram koma í umsókn séu ítarlegar. Markmiðið er að umsækjendur geri sér fyrir fram grein fyrir þeirri starfsemi sem fyrirhugað er að stunda og sýni fram á að þeir séu hæfir til að sinna henni. Um hæfi umsækjanda og starfsmanna hans er vísað til umfjöllunar í almennum athugasemdum og sérstakri umfjöllun um hæfiskröfur í III. kafla.
    Í greininni eru lagðar til ýmsar breytingar frá núgildandi reglum í 6. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga, nr. 853/1999. Helstu breytingar lúta að því að veita skal ítarlegar upplýsingar um fyrirhugaða starfsemi, m.a. er lýtur að starfsstöð, fjölda starfsmanna, innra eftirliti og áhættustýringu. Þá er gert ráð fyrir að lögð sé fram áætlun um starfsemina fyrir næstu þrjú reikningsár, þar sem m.a. komi fram rökstuðningur á kostnaði við að koma starfseminni af stað og hvernig greiða eigi þann kostnað, áætluð staða starfseminnar samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu reikningsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína í lög um vátryggingastarfsemi þar sem gert er ráð fyrir að vátryggingafélag skuli leggja fram áætlun um fyrirhugaða starfsemi með umsókn um starfsleyfi. Ákvæði frumvarpsins er ekki jafn ítarlegt og ákvæði laga um vátryggingastarfsemi og má rekja það til þess að ekki eru gerðar fjárhagslegar kröfur til vátryggingamiðlara með sama hætti og gjaldþolsreglur laga um vátryggingastarfsemi kveða á um. Undirstrika þessi nýju ákvæði þá áherslu sem lögð er á að umsækjanda sé ljóst strax í upphafi hvernig hann hyggst haga rekstrinum og að hann ætli raunverulega að hefja starfsemi. Jafnframt er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið geti strax í upphafi við afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi lagt mat á þau atriði sem snúa að þessum hluta rekstrar vátryggingamiðlara. Þá er ljóst að Fjármálaeftirlitið mun ekki gefa út starfsleyfi nema ljóst sé að umsækjandi hyggist hefja starfsemi.
    Skilyrði greinarinnar eiga ekki eingöngu við í upphafi þegar sótt er um leyfi til vátryggingamiðlunar því skv. 34. gr. frumvarpsins getur Fjármálaeftirlitið afturkallað starfsleyfi séu skilyrði greinarinnar ekki lengur uppfyllt.

Um 8. gr.


    Í greininni er að finna reglur er lúta að umsókn lögaðila um starfsleyfi vátryggingamiðlara. Greinin er að miklu leyti samhljóða ákvæði 7. gr. um umsókn einstaklinga um starfsleyfi og eiga sömu sjónarmið við og er vísað til umfjöllunar um 7. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. er fjallað um þann tímafrest sem Fjármálaeftirlitið hefur við afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi vátryggingamiðlara. Er lagt til að afgreiðslu umsóknar skuli vera lokið innan mánaðar frá því Fjármálaeftirlitinu barst fullbúin umsókn um starfsleyfi. Vakin er athygli á því að það er Fjármálaeftirlitsins að meta hvenær umsókn telst fullbúin. Þar sem afgreiðslutími er ekki langur þykir ekki ástæða til að mæla fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli senda umsækjanda tilkynningu um hvenær umsókn teljist fullnægjandi. Í tilskipuninni er ekki að finna tímafresti við afgreiðslu umsókna, en reynsla af afgreiðslu umsókna gefur vísbendingu um að mánuður sé nægilega langur tími fyrir Fjármálaeftirlitið til að leggja mat á fullbúna umsókn.
    Í 2. mgr. kemur fram að í starfsleyfi skuli tilgreina hvaða greinaflokka vátrygginga starfsleyfið tekur til.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli birta tilkynningu um starfsleyfi vátryggingamiðlara í Lögbirtingablaðinu. Er ákvæðið efnislega óbreytt frá 14. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga.

Um 10. gr.


    Í greininni er fjallað um rökstuðning synjunar umsóknar og fresti er Fjármálaeftirlitið hefur er umsókn er synjað. Um nýmæli er að ræða, en rétt þótti til samræmis við aðra löggjöf er lýtur að fjármálastarfsemi og reglna stjórnsýsluréttar að kveða á um slíka fresti í lögum. Lagt er til að frestur til að hafna umsókn verði einn mánuður, í samræmi við afgreiðslufrest umsókna. Þá er jafnframt lagt til að synjun skuli alltaf hafa borist umsækjanda innan sex mánaða frá móttöku umsóknar.

Um 11. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli halda skrá um veitt starfsleyfi og er ákvæðið efnislega samhljóða 13. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga. Nýmæli er að í skránni skal koma fram í hvaða ríkjum vátryggingamiðlari stundar starfsemi á grundvelli 54. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Grein þessi er efnislega sambærileg 3. mgr. 13. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Í greininni er staðfest að starfsheitið vátryggingamiðlari er lögverndað starfsheiti með sama hætti og verið hefur. Þannig hafa aðrir en þeir sem fengið hafa starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins og verið skráðir í vátryggingamiðlaraskrá ekki heimild til að nota heitið vátryggingamiðlari.

Um 13. gr.


    Í greininni eru reglur er lúta að því þegar breyting er fyrirhuguð á starfsemi vátryggingamiðlara, t.d. ef hann hyggst taka upp miðlun á nýjum greinaflokki vátrygginga. Er lagt til að vátryggingamiðlari skuli sækja um slíka breytingu til Fjármálaeftirlitsins og að afgreiðslan fari eftir ákvæðum 9. gr. frumvarpsins. Greinin er efnislega samhljóða 11. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga.

Um 14. gr.


    Greinin er í samræmi við ákvæði 4. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga, sem byggist á 5. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Í greininni er kveðið á um að vátryggingamiðlari megi einungis miðla vátryggingum til vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi, hafi stofnað hér útibú eða veiti þjónustu án útibús. Eðlilegt er að hafa slíka reglu til áréttingar þar sem vátryggingastarfsemi er starfsleyfisskyld starfsemi.

Um III. kafla.


    Í kaflanum eru ákvæði er lúta að hæfiskröfum stofnanda, stjórnanda, framkvæmdastjóra og starfsmanna vátryggingamiðlunar. Þá eru lagðar til reglur er varða próf í miðlun vátrygginga. Í kaflanum eru fjórar greinar og eru með þeim innleidd ákvæði 1. og 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar.

Um 15. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur um hæfisskilyrði sem einstaklingar verða að uppfylla til að geta stundað vátryggingamiðlun. Efnislega eru gerðar sömu kröfur og í lögum um vátryggingastarfsemi og reglugerð um miðlun vátrygginga. Í greininni er gert ráð fyrir að einstaklingur sem hyggst stunda vátryggingamiðlun sé lögráða og búsettur á Íslandi. Jafnframt er kveðið á um að einstaklingar megi ekki hafa misst forræði á búi sínu síðustu fimm ár. Til skoðunar kom að útiloka alla einstaklinga sem sætt hafa skiptameðferð á búi sínu en sú regla þótti of ströng. Ýmsar ástæður geta verið þess valdandi að menn missa forræði á búi sínu án þess að slíkt gefi tilefni til að ætla að þeir séu ófærir til að gegna störfum vátryggingamiðlara.
    Þá er tilskilið að einstaklingur hafi ekki á síðustu fimm árum gerst sekur um meiri háttar brot tengd atvinnurekstri. Fimm ára markið gengur lengra en ákvæði hlutafélagalaga en verður að teljast eðlilegt með tilliti til þeirra ríku ábyrgðar sem í störfum vátryggingamiðlara felst. Það tímamark er enn fremur í samræmi við aðra löggjöf á fjármálamarkaði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um matskenndar reglur um hæfi einstaklinga til að sinna starfi vátryggingamiðlara. Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga er Fjármálaeftirlitinu heimilt að fullvissa sig um hæfni umsækjanda, m.a. þekkingu á íslenskum vátryggingamarkaði. Fjármálaeftirlitið hefur nýtt þessa heimild í langflestum tilvikum þegar unnið hefur verið að umsögnum vegna umsókna einstaklinga og lögaðila um starfsleyfi til miðlunar vátrygginga, með því að kalla umsækjendur á fund þar sem farið er yfir lög og reglur á sviði vátrygginga og þekkingu viðkomandi á efninu. Gera má ráð fyrir að við mat á hæfi skv. 2. mgr. verði slíkt áfram tíðkað, enda hefur þessi leið gefist vel fram að þessu til að kanna þekkingu.
    Þá er í 3. mgr. gert ráð fyrir, til að tryggja lágmarksþekkingu umsækjanda í lögum og reglum um miðlun vátrygginga, að viðkomandi skuli hafa staðist próf í miðlun vátrygginga. Í 9. gr. núgildandi reglugerðar um miðlun vátrygginga er m.a. gert ráð fyrir að umsækjandi um leyfi vátryggingamiðlara hafi staðist próf í miðlun vátrygginga. Um próf í vátryggingamiðlun gildir nú reglugerð nr. 350/1997, um prófnefnd vátryggingamiðlara, námskeið og próf til þess að mega stunda miðlun vátrygginga. Fyrstu námskeið og próf í vátryggingamiðlun voru haldin á árinu 1997 og hafa verið haldin þrisvar sinnum síðan.
    Þegar lögum um vátryggingastarfsemi var breytt með lögum nr. 63/1997, en breytingin laut m.a. að innleiðingu á ákvæðum um miðlun vátrygginga í íslenskan rétt, var vísað til þess að varðandi hæfisskilyrði skyldi höfð hliðsjón af lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um verðbréfasjóði. Ákvæði um menntunarkröfur voru fyrst tekin upp á sviði verðbréfamiðlunar með lögum nr. 27/1986 og hafa verið í lögum er varða verðbréfamiðlun og síðar viðskipti fjármálafyrirtækja síðan. Hafa ákvæðin tekið töluverðum breytingum í gegnum árin og hefur tilhneigingin verið sú að slíkar kröfur nái ekki aðeins til framkvæmdastjóra heldur jafnframt til þeirra starfsmanna sem bera ábyrgð á daglegri starfsemi og eru þannig nær viðskiptamönnum sínum.
    Vátryggingamiðlun er vandasöm starfsgrein og þarfnast umtalsverðar þekkingar. Hefur verið leitast við að tryggja hæfi vátryggingamiðlara og koma í veg fyrir mistök með því að gera almenna kröfu um menntun. Í gildandi reglum um starfsemi vátryggingamiðlara er gerð krafa um að einstaklingur sem sækir um leyfi til vátryggingamiðlunar hafi staðist próf í vátryggingamiðlun og tekur sú krafa til framkvæmdastjóra ef um lögaðila er að ræða. Þegar reglur voru fyrst settar um starfsemi vátryggingamiðlara var starfsemin rétt að hefjast og starfsemin smá í sniðum. Höfðu leyfishafar eða framkvæmdastjórar leyfishafa með höndum flesta ef ekki alla þætti rekstrarins. Af þeim sökum var eðlilegt að hæfiskrafan tæki til þeirra.
    Undanfarin ár hefur starfsemi vátryggingamiðlara breyst og hefur í mörgum tilfellum færst á hendur færri en stærri aðila. Snýst hlutverk framkvæmdastjóra nú oft á tíðum um almenna stjórnun fremur en að viðkomandi komi að miðlun vátrygginga. Þannig er það oft ekki framkvæmdastjórinn sem stundar hina daglegu miðlun vátrygginga heldur aðrir starfsmenn viðkomandi lögaðila. Tilskipun um miðlun vátrygginga kveður á um að framkvæmdastjórar skuli hafa almenna þekkingu á starfsemi vátrygginga, áhersla er hins vegar lögð á að þeir sem beint komi að miðlun vátrygginga hafi nægilega sérþekkingu til að bera. Er því lagt til í 17. gr. frumvarpsins að kröfur um menntun og próf í miðlun vátrygginga verði lögð á þann eða þá sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við miðlun vátrygginga. Engu að síður er áfram gert ráð fyrir að þeir sem velja þá leið að stunda vátryggingamiðlun í eigin nafni skuli hafa lokið prófi í miðlun vátrygginga. Hvað varðar stjórnendur og framkvæmdastjóra er hins vegar gert ráð fyrir að þeir hafi til að bera almenna þekkingu til að geta gegnt stöðu sinni. Með þessari breytingu er ekki verið að leggja alfarið til að framkvæmdastjórar vátryggingamiðlara verði undanþegnir kröfum um próf í vátryggingamiðlun. Í flestum tilfellum verður að ætla að skipulag fyrirtækjanna sé þannig að eðlilegt sé að framkvæmdastjóri hafi lokið prófi í vátryggingamiðlun.

Um 16. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur er lúta að kröfu um hæfi stjórnar og framkvæmdastjóra lögaðila sem hyggst stunda vátryggingamiðlun. Skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjóri uppfylla sömu efnislegu skilyrði og einstaklingar skv. 1. og 2. mgr. 15. gr.
    Í 3. mgr. er lagt til að ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög gildi að meginstefnu til um vátryggingamiðlara sem reknir eru í lögaðilaformi, að því marki sem eðli rekstursins kallar ekki á sérstakar reglur.

Um 17. gr.


    Í greininni er að finna reglur er lúta að hæfi starfsmanna vátryggingamiðlara. Felur greinin í sér nýmæli þar sem fram að þessu hafa ekki verið gerðar sérstakar hæfiskröfur til starfsmanna vátryggingamiðlara. Byggist ákvæðið á kröfum sem gerðar eru til þeirra aðila er koma beint að miðlun vátrygginga í 1. og 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Er í ákvæðinu, með sama hætti og í öðrum ákvæðum kaflans, leitast við að tryggja hæfi þeirra aðila er koma að miðlun vátrygginga og vernda með þeim hætti viðskiptamenn viðkomandi.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að sá starfsmaður vátryggingamiðlara sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við miðlun vátrygginga, sem felst í að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samninga um vátryggingar, að koma á slíkum samningum eða aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, skuli hafa lokið prófi í miðlun vátrygginga. Mikilvægt er að sá starfsmaður sem hefur yfirumsjón með slíkri starfsemi hafi sérfræðiþekkingu til að bera sem þykir tryggð með kröfu um próf í miðlun vátrygginga.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að vátryggingamiðlari skuli tryggja að vátryggingasölumenn sem starfa á hans vegum búi yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta sinnt vátryggingamiðlun. Er t.d. mikilvægt að vátryggingasölumenn hafi þekkingu á meginatriðum laga þessara, laga um vátryggingastarfsemi, laga um vátryggingarsamninga og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þrátt fyrir að vátryggingasölumenn starfi sem verktakar, starfa þeir á ábyrgð viðkomandi vátryggingamiðlara sem ber lögum samkvæmt ábyrgð á að viðskiptamenn hljóti upplýsingar og jafnframt að ákvæði laga um starfshætti séu uppfyllt. Ýmsar leiðir eru til að tryggja slíka þekkingu og eru námskeið ein leið. Var m.a. rætt um að gera kröfu um próf sambærilegt því sem vátryggingamiðlarar þurfa að þreyta, en horfið var frá því. Þá hefur verið rætt um að samtök vátryggingamiðlara taki saman námsefni og standi fyrir námskeiði fyrir vátryggingasölumenn. Nauðsynlegt er að vátryggingamiðlarar hugi vel að þessu og tryggi nægilega þekkingu og hæfni starfsmanna sinna áður en þeir hefja störf.     Í 3. mgr. er kveðið á um að vátryggingasölumenn skuli vera lögráða og hafa forræði á búi sínu. Ekki þótti rétt að gera jafnríkar kröfur hvað varðar búsforræði og til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, þar sem um starfsmenn viðkomandi aðila er að ræða og bera vátryggingasölumenn til dæmis ekki hina fjárhagslegu ábyrgð á starfseminni. Þá var einnig litið til þess að í annarri löggjöf á fjármagnsmarkaði eða sambærilegri löggjöf eru ekki gerðar slíkar kröfur til starfsmanna leyfisskyldra aðila. Byggist ákvæðið sem fyrr segir á tilskipuninni. Í ákvæðinu er jafnframt gert að skilyrði að vátryggingasölumenn hafi ekki á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað. Er þar um að ræða kröfur sambærilegar við þær sem gerðar eru til stjórnarmann og framkvæmdastjóra.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra geti sett nánari reglur um hæfisskilyrði starfsmanna vátryggingamiðlara, þar á meðal um lágmarksþekkingu.

Um 18. gr.


    Í greininni er að finna reglur er lúta að prófi í miðlun vátrygginga. Í 1. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að sérstök þriggja manna prófnefnd, skipuð af viðskiptaráðherra, hafi umsjón með prófi í miðlun vátrygginga. Rétt þykir að festa í lög helstu ákvæði um skipan prófnefndar, heimild til töku þjónustugjalda o.s.frv. Próf skulu að jafnaði haldin árlega, en kunna þó að vera haldin með lengra millibili, t.d. ef þátttaka nær ekki vissu lágmarki. Gert er ráð fyrir að viðskiptaráðherra mæli fyrir um nánari prófkröfur, framkvæmd prófa og undanþáguheimildir í formi reglugerðar.
    Í 2. mgr. er lagt til að prófnefnd hafi heimild til að fela óháðum aðilum að sjá um framkvæmd prófa. Fram til þess hafa námskeið og próf í vátryggingamiðlun verið haldin á vegum prófnefndar sem hefur gert samning við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands um framkvæmdina. Lagt er til að nánari útfærsla á framkvæmd, prófkröfum o.fl. verði í reglugerð. Líklegt má telja að við nánari útfærslu verði horft til prófs í verðbréfaviðskiptum og starfa prófnefndar verðbréfaviðskipta, en nokkur reynsla er komin þar á auk fyrri reynslu á sviði miðlunar vátrygginga.

Um IV. kafla.


    Í kaflanum eru fjórar greinar er fjalla um fjárhagslegar kröfur sem gerðar eru til vátryggingamiðlara og reglur er lúta að viðtöku fjármuna. Í kaflanum eru innleidd ákvæði 3. og 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar.

Um 19. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um fjárhagslega stöðu vátryggingamiðlara. Í 1. mgr. er kveðið að um að vátryggingamiðlari skuli á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Í núgildandi lögum og reglum um miðlun vátrygginga er ekki að finna sambærilegt ákvæði og er ákvæðið eitt þeirra ákvæða sem fela Fjármálaeftirlitinu fjárhagslegt eftirlit með vátryggingamiðlurum eins og fjallað var um í almennum athugasemdum. Lagt er til að vátryggingamiðlari skuli upplýsa Fjármálaeftirlitið eigi hann ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og leggja fram áætlun um endurreisn fjárhagsins. Sambærilegt en ítarlegra ákvæði er að finna í lögum um vátryggingastarfsemi er lýtur að vátryggingafélögum. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið meti hvort þær ráðstafanir sem vátryggingamiðlari leggur til teljist fullnægjandi. Er með ákvæði þessu gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti haft nánara eftirlit með fjárhagslegri stöðu vátryggingamiðlara og geti gripið fyrr inn í en verið hefur, stefni í vandræði. Með því að gera kröfu um að vátryggingamiðlari leggi fram áætlun um endurreisn fjárhags er enn fremur líklegt að vátryggingamiðlari geri sér betur grein fyrir stöðu sinni og horfum til framtíðar.
    Í 2. mgr. kemur fram hvað áætlun skv. 1. mgr. skuli innihalda. Er þar lagt til að áætlun skuli fela í sér áætlun um rekstrarkostnað, sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld og áætlaðan efnahagsreikning.
    Í 3. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti lagt fyrir vátryggingamiðlara að skila áætlun um fjárhagslega stöðu sína gefi ársreikningur viðkomandi tilefni til að ætla að vátryggingamiðlari eigi ekki fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið geti gripið til slíkra aðgerða gefi ársreikningur tilefni til.
    Þá er í 4. mgr. lagt til að Fjármálaeftirlitið framsendi ekki tilkynningu vátryggingamiðlara um fyrirhugaða starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu til eftirlitsstjórnvalda á EES-svæðinu á meðan áætlun skv. 1. mgr. er í gildi. Ekki er eðlilegt að heimila vátryggingamiðlara sem er að vinna sig út úr fjárhagsvandræðum að hefja starfsemi erlendis, enda getur slík útrás verið kostnaðarsöm og hefur reynslan leitt í ljós að útrás getur breytt miklu varðandi fjárhag vátryggingamiðlara á mjög stuttum tíma.

Um 20. gr.


    Í greininni eru reglur um starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlara og er henni ætlað að innleiða 3. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Um starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlara gildir nú reglugerð nr. 352/1997, en samkvæmt henni er heimilt að undanþiggja tjón er verður vegna stórkostlegs gáleysis. Frumvarp þetta leggur til efnislega breytingu er þetta varðar því gert er ráð fyrir að ábyrgðartryggingin skuli bæði taka til tjóns sem valdið er af almennu og stórkostlegu gáleysi. Þá skal vátryggingin gilda á öllu EES-svæðinu eins og nú er. Starfsábyrgðartryggingin skal taka bæði til vátryggingamiðlarans og starfsmanna hans. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vátryggingamiðlari geti haft í vinnu á sínum vegum launþega og verktaka, sem er þekkt í starfi vátryggingamiðlara hér á landi og víða í Evrópu. Ljóst er að starfsábyrgðartrygging viðkomandi verður að taka jafnt til launþega og verktaka sem starfa á hans ábyrgð.
    Lagt er til að nánari reglur um starfsábyrgðartryggingu verði að finna í sérstakri reglugerð líkt og nú er. Þá er einnig lagt til að senda skuli Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á endurnýjun vátryggingarinnar, en í framkvæmd hefur skort á hvað það varðar.
    Í núgildandi reglugerð um vátryggingaskyldu vegna miðlunar vátrygginga eru vátryggingarfjárhæðir mun lægri en tilskipunin kveður á um. Samkvæmt tilskipuninni er lágmarksfjárhæð ein milljón evra eða um 85 milljónir íslenskra króna vegna hvers einstaks tjóns og ein og hálf milljón evra eða um 127 milljónir íslenskra króna vegna heildartjóna á ári hverju.

Um 21. gr.


    Í greininni er kveðið á um að vátryggingamiðlari megi ekki taka við iðgjöldum, vátryggingarbótum eða öðrum fjármunum fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptamanna nema samkvæmt skriflegri heimild. Ákvæðið er að mestu efnislega óbreytt frá 2. mgr. 82. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Eðlilegt er að taka af allan vafa um að skrifleg heimild þurfi að liggja fyrir áður en vátryggingamiðlari tekur við fjármunum. Jafnframt er gert ráð fyrir í 25. gr. frumvarpsins að í samningi um þjónustu skuli koma fram hvort vátryggingamiðlari hafi slíka heimild. Dæmi eru um að starfandi vátryggingamiðlarar hafi heimild til móttöku fjármuna.

Um 22. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur um skyldu vátryggingamiðlara til að halda þeim fjármunum sem tekið er við aðgreindum frá eigin fé. Í 2. mgr. er kveðið sérstaklega á um að viðskiptaráðherra setji reglugerð um vörslufjárreikninga. Sambærilega skyldu er nú að finna í 3. mgr. 82. gr. laga um vátryggingastarfsemi og 18. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga. Þá er jafnframt að finna sambærilegar reglur um fasteignasala, sbr. 17. gr. laga nr. 99/2004, og um lögmenn, sbr. 23. gr. laga nr. 77/1998. Ástæða þykir til áréttingar að kveða á um að þeir vextir sem kunna að falla á vörslufé renni til þess sem á fjármunina, þannig að ekki leiki vafi á því að vátryggingamiðlara beri að skila þeim. Þá þykir einnig rétt að taka sérstaklega fram að innstæða á vörslufjárreikningi er ekki eign vátryggingamiðlara, hún er ekki hæft aðfararandlag kröfuhafa hans og kemur ekki til skipta ef bú hans sætir slíkri meðferð.

Um V. kafla.


    Í kaflanum eru sjö ákvæði um starfshætti vátryggingamiðlara. Flest ákvæðanna eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum en í 23. gr. er að finna nýmæli er lýtur að nauðsynlegri yfirsýn vátryggingamiðlara yfir starfsemina og um sérstakar ráðstafanir missi hann þá yfirsýn.

Um 23. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur er lúta að nauðsyn þess að vátryggingamiðlari hafi á öllum stundum yfirsýn yfir starfsemina. Í 1. tölul. er kveðið á um að framkvæmdastjóri vátryggingamiðlunar skuli hafa yfirsýn yfir rekstur hennar, þar á meðal fjárhagslega stöðu. Tengist þetta ákvæði 19. gr. þar sem gert er ráð fyrir að vátryggingamiðlari skuli á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar og ef í óefni stefni skuli hann skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um fjárhagslega stöðu og hvernig hann hyggist bregðast við. Eins og starfsemi vátryggingamiðlara og vátryggingasölumanna er háttað er nokkur hætta á að framkvæmdastjóri eða leyfishafi missi yfirsýn yfir reksturinn. Þar sem vátryggingasölumenn eru alla jafna nokkuð sjálfstæðir í störfum sínum og eðli starfseminnar er slíkt að vátryggingasölumenn sinna starfi sínu sjálfstætt og oft á tíðum inn á heimilum væntanlegra viðskiptamanna, er hætta á að yfirsýn tapist. Með sama hætti er í 2. tölul. kveðið á um að sá starfsmaður sem hefur umsjón með daglegri starfsemi skuli hafa yfirsýn yfir reksturinn. Tengjast þessir töluliðir ákvæðum 3. tölul. þar sem kveðið er á um að vátryggingamiðlari skuli takmarka fjölda þeirra vátryggingasölumanna sem starfa á hans vegum svo hann hafi yfirsýn yfir starfsemi þeirra. Ella skuli hann ráða til starfa vátryggingasölumann sem lokið hefur prófi í miðlun vátrygginga sem komið geti til aðstoðar við umsjón með daglegri starfsemi. Hjá Fjármálaeftirlitinu hefur á síðustu árum þróast sú verklagsregla við vinnslu umsagna um umsóknir að miða við að einn vátryggingamiðlari hafi ekki fleiri en 12–15 vátryggingasölumenn við miðlun vátrygginga á sínum vegum, nema að hann grípi til sérstakra ráðstafana. Hafi hann fleiri í sinni þjónustu er hætt við að hann missi yfirsýn yfir reksturinn. Ekki var talin ástæða til að kveða nákvæmlega á um fjölda vátryggingasölumanna sem hver vátryggingamiðlari getur haft í sinni þjónustu án þess að nauðsyn beri til að ráða vátryggingasölumann sem lokið hefur prófi í miðlun vátrygginga. Þó er ljóst að í umfjöllun um leyfisveitingar mun Fjármálaeftirlitið hafa þennan fjölda, 12–15 vátryggingasölumenn, til viðmiðunar, eins og gert hefur verið síðustu árin. Skortur á yfirsýn hefur verið ein af meginástæðum þess að vátryggingamiðlanir hafa orðið gjaldþrota síðustu ár. Er hér því um ákaflega mikilvægt atriði að ræða í starfsemi vátryggingamiðlara.

Um 24. gr.


    Í greininni er að finna reglur er lúta að skyldu vátryggingamiðlara til að gera skriflega ráðningar- og/eða verksamninga við þá sem eru í hans þjónustu. Mikilvægt er að í slíkum samningum komi skýrt fram að viðkomandi starfi á ábyrgð og undir stjórn vátryggingamiðlarans. Í vátryggingamiðlun hefur fá upphafi tíðkast að vátryggingasölumenn séu ýmist verktakar eða launþegar. Kom til skoðunar að gera kröfu um að vátryggingasölumenn skyldu eingöngu starfa sem launþegar viðkomandi vátryggingamiðlara, þar sem slíkt vinnuréttarsamband samræmist mun betur ábyrgð og skyldum viðkomandi og venjulegum skilgreiningum á launþega og verktakasamböndum. Eftir nokkra skoðun var fallið frá þeirri hugmynd, enda tíðkast það á Norðurlöndum með svipuðum hætti og hér að vátryggingasölumenn starfi sem verktakar en þó alfarið á ábyrgð og undir stjórn vátryggingamiðlara. Þá er einnig mikilvægt að allir vátryggingasölumenn sem starfa á ábyrgð vátryggingamiðlara falli undir starfsábyrgðartryggingu viðkomandi, en nánar er fjallað um það í athugasemdum við 20. gr.

Um 25. gr.


    Greinin er efnislega sambærileg 17. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga. Jafnframt er sambærilegt ákvæði í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um starfshætti vátryggingamiðlara, nr. 7/2002. Í greininni er fjallað um skyldu vátryggingamiðlara til að gera skriflegan samning við viðskiptamenn sína áður en hann hefur störf fyrir viðkomandi. Er gert ráð fyrir að í slíkum samningi komi m.a. fram í hverju störf vátryggingamiðlara eigi að felast og hvort vátryggingamiðlari hafi heimild til að taka á móti fjármunum fyrir hönd viðskiptamanna.

Um 26. gr.


    Í greininni er lagt til að tekið verið upp efnislega óbreytt ákvæði 2. mgr. 20. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga, sem kveður á um að vátryggingamiðlari og vátryggingasölumenn skuli í starfi sínu framvísa skilríkjum sem útgefin eru af vátryggingamiðlara. Sambærileg regla gildir jafnframt um þá sem hafa með höndum sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélaga.

Um 27. gr.


    Í greininni er að finna almennar reglur um þagnarskyldu. Að auki gilda ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, eins og vikið er að í lokamálslið greinarinnar. Meginreglan um þagnarskyldu kemur fram í 1. mgr., er greinin sambærileg þagnarskylduákvæði 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Er í ákvæðinu hnykkt á því að upplýsingar sem leynt eiga að fara geta bæði verið viðskiptalegs og persónulegs eðlis. Enda þótt beiting ákvæðisins hljóti alltaf að vera háð mati yrði í vafatilvikum að telja að upplýsingar sem vátryggingamiðlari byggi yfir um viðskiptamann sinn félli undir þagnarskyldu, nema atvik bentu til annars. Tekin er af allur vafi um það í ákvæðinu að þagnarskylda um trúnaðarupplýsingar tekur til allra þeirra sem koma að starfsemi vátryggingamiðlara.

Um 28. gr.


    Ákvæði þetta er sambærilegt ákvæði 12. gr. laga um vátryggingastarfsemi þar sem kveðið er á um að vátryggingastarfsemi skuli rekin í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur í vátryggingaviðskiptum. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er jafnframt fjallað um að Fjármálaeftirlitið skuli m.a. fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Við skýringu á því hvað felist í hugtökunum eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur verður bæði litið til fyrirmæla sem leiðir af settum lögum og eins almennra siðareglna og viðtekinna venja í vátryggingastarfsemi. Þá geta ákvæði reglugerða, reglna og tilmæla Fjármálaeftirlitsins veitt leiðbeiningu.

Um 29. gr.


    Í greininni er kveðið á um að viðskiptaráðherra hafi heimild til að kveða nánar á um starfsemi vátryggingamiðlara í reglugerð. Þörf á nánari reglum lýtur fyrst og fremst að nánari útfærslu á reglum er varða yfirsýn vátryggingamiðlara yfir reksturinn og störf vátryggingasölumanna.

Um VI. kafla.


    Í kaflanum eru ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingamiðlara. Í 30. gr. er fjallað um upplýsingar sem veita ber við gerð og endurnýjun vátryggingarsamnings. Í 31. gr. er kveðið á um að veita beri rökstuðning vegna ráðgjafar. Í 32. gr. eru reglur um endurgjald við miðlun vátrygginga. Þá er í 33. gr. fjallað um á hvaða formi upplýsingarnar skuli veita. Í kaflanum eru innleidd ákvæði 12. og 13. gr. tilskipunarinnar.
    Í samræmi við 3. og 4. mgr. 1. gr. taka ákvæði þessa kafla ekki til starfsemi endurtryggingamiðlara eða þegar um miðlun stóráhættu er að ræða.

Um 30. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur um hvaða upplýsingar skuli að lágmarki veita væntanlegum vátryggingartaka við gerð vátryggingarsamnings. Sömu upplýsingar skal jafnframt veita við breytingu hans eða endurnýjun.
    Ákvæði tilskipunarinnar um upplýsingaskyldu eru ein af meginatriðum tilskipunarinnar, en tilgangur reglnanna er að viðskiptamenn fái nægilegar upplýsingar áður en þeir verða bundnir af vátryggingarsamningi og geti þannig tekið upplýsta ákvörðun.
    Vátryggingamiðlara ber að veita viðskiptamanni upplýsingar samkvæmt greininni áður en vátryggingarsamningur er gerður. Ekki eru tiltekin nein tímamörk hvað þetta varðar, en æskilegt er að upplýsingar séu veittar strax í upphafi þar sem viðskiptamaður verður að hafa haft möguleika til að meta upplýsingar sem hann fær í hendur.
    Þær upplýsingar sem vátryggingamiðlara ber að veita eru í fyrsta lagi upplýsingar um nafn og heimilisfang. Í öðru lagi hvar vátryggingamiðlari er skráður og hvernig ganga megi úr skugga um skráninguna. Í þriðja lagi skal hann greina frá því hvort ráðgjöf er veitt á grundvelli a- eða b-liðar 1. tölul. 3. gr., þ.e. hvort ráðgjöf byggist á hlutlausri greiningu eða takmarkist við eitt eða fleiri vátryggingafélög. Þá kemur fram í 3. mgr. að ef ráðgjöf er veitt á grundvelli b-liðar skuli viðskiptamaður upplýstur um heiti vátryggingafélaganna. Í fjórða lagi skal veita upplýsingar um hvort vátryggingamiðlari eigi virkan hlut í vátryggingafélagi og í fimmta lagi hvort vátryggingafélag eða móðurfélag vátryggingafélags eigi virkan eignarhlut í vátryggingamiðlara. Hugtakið virkur eignarhlutur er skilgreint í 11. tölul. 3. gr. Í sjötta lagi skal veita upplýsingar um endurgjald skv. 32. gr.
    Í 4. mgr. er að finna reglu til áréttingar um að upplýsingaskylda sem lögum samkvæmt hvílir á vátryggingafélagi hvíli á vátryggingamiðlara eftir því sem við getur átt. Eru ákvæði um upplýsingaskyldu nú í VI. kafla laga um vátryggingastarfsemi, auk laga um vátryggingarsamninga. Í nýjum lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, sem taka gildi 1. janúar 2006 er jafnframt að finna ítarleg ákvæði um upplýsingaskyldu. Í þeim lögum er til dæmis gert ráð fyrir að væntanlegur vátryggingartaki skuli við töku vátryggingar upplýstur um þá aðila sem hafa með höndum þjónustu vegna kvörtunar- og ágreiningsmála er tengjast vátryggingarsamningum, svo og um rétt hlutaðeigandi til að skjóta málum til dómstóla.

Um 31. gr.


    Í greininni, sem er nýmæli, er mælt fyrir um að vátryggingamiðlari skuli áður en vátryggingarsamningur er gerður veita væntanlegum vátryggingartaka rökstuðning fyrir ráðgjöf sem veitt er. Með greininni er innleitt ákvæði 2. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar. Greinin er nauðsynleg væntanlegum vátryggingartökum til að þeir getið fyllilega lagt mat á ráðgjöf vátryggingamiðlara og mikilvæg viðbót við þá neytendavernd sem frumvarpið felur í sér.

Um 32. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur um endurgjald vátryggingamiðlara og skyldu hans til að upplýsa væntanlegan vátryggingartaka um fjárhæð þess endurgjalds sem vátryggingamiðlari innheimtir fyrir þjónustu sína. Í 82. gr. laga um vátryggingastarfsemi, 2. mgr. 17. gr. núgildandi reglugerðar um miðlun vátrygginga, svo og leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlits um starfshætti vátryggingamiðlara, er gert ráð fyrir að vekja skuli athygli væntanlegra vátryggingartaka á rétti til að fá upplýsingar um þóknun. Í frumvarpinu er lögð til efnisleg breyting á gildandi ákvæðum í þá átt að vátryggingamiðlari skuli í öllum tilvikum upplýsa um endurgjald. Er það sama leið og mörg Evrópuríki hafa valið. Upplýsingar um endurgjald og hver skuli greiða það, viðskiptamaður eða vátryggingafélag, eru mikilvægt atriði í mati væntanlegs vátryggingartaka á störfum vátryggingamiðlara til dæmis á því tilboði um vátryggingu sem vátryggingamiðlari hefur aflað. Þannig getur það skipt máli fyrir vátryggingartaka við mat á tilboðum að hafa upplýsingar um að vátryggingamiðlari fái 10% þóknun frá einu vátryggingafélaganna en 15% frá öðru. Algengt er að endurgjald vátryggingamiðlara sé greitt af vátryggingafélögum þó færst hafi í vöxt að endurgjald sé greitt af viðskiptamönnum, vátryggingartökum. Vegna hneykslismáls er tengist endurgjaldi vátryggingamiðlara, sem kom upp í Bankaríkjunum og teygði anga sína til nokkurra Evrópuríkja, hyggjast einhver ríki Evrópusambandsins banna að vátryggingafélög greiði þóknun vátryggingamiðlara. Ekki þykir ástæða til að ganga svo langt, en rétt að kveða á um að ávallt skuli upplýst um endurgjald.
    Í núgildandi lögum hafa viðskiptamenn rétt á að fá upplýsingar um endurgjald sem vátryggingamiðlari þiggur vegna viðskiptanna óski þeir eftir því og ber vátryggingamiðlara að vekja athygli viðkomandi á þeim rétti. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæðið hafi í för með sér breytingu á þeim upplýsingum sem vátryggingamiðlari veitir um endurgjaldið. Endurgjald sem vátryggingamiðlarar þiggja fyrir að koma á vátryggingarsamningi er breytilegt eftir vátryggingafélögum, vátryggingagreinum og samningstíma. Í ákveðnum tilvikum er endurgjaldið einfalt þar sem greidd er ákveðin prósenta af iðgjaldi en í öðrum tilvikum er um flóknari útreikning á ræða. Þá er oft um að ræða að vátryggingamiðlara beri að endurgreiða tiltekið hlutfall af endurgjaldi falli vátryggingarsamningur úr gildi. Gera verður ráð fyrir að þegar vátryggingamiðlari viti upplýsingar um endurgjald muni hann greina viðskiptamanni með einföldum hætti frá endurgjaldinu sem hann þiggur við gerð vátryggingarsamningsins, til dæmis að hann hljóti tiltekna prósentu af iðgjaldi í upphafi og að endurgjaldið sé háð gildistíma vátryggingarsamningsins. Þá beri honum að endurgreiða hlutfall af endurgjaldinu falli vátryggingarsamningur úr gildi áður en samningstíminn er liðinn. Varðandi það hversu ítarlegar upplýsingar um endurgjald skuli vera, ber að hafa í huga að tilgangurinn með upplýsingaskyldunni er sá að viðskiptamaður geti með hlutlægum hætti metið þau tilboð sem vátryggingamiðlari hefur aflað við undirbúning að gerð vátryggingarsamnings.

Um 33. gr.


    Í greininni eru reglur um það í hvaða formi vátryggingamiðlari skuli veita upplýsingar samkvæmt lögunum. Ákvæði greinarinnar eru byggð á 13. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að vátryggingamiðlari skuli veita upplýsingar samkvæmt kaflanum skriflega eða á öðrum varanlegum miðli. Samkvæmt skilgreiningu 3. gr. frumvarpsins er varanlegur miðill, auk pappírs, sérhvert tæki sem gerir viðskiptamanni kleift að geyma upplýsingar sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að hægt sé að nálgast þær til að fletta upp í þeim síðar, í hæfilegan tíma eftir tilgangi upplýsinganna og sem gerir kleift að afrita upplýsingarnar sem geymdar eru óbreyttar og vísast til umfjöllunar í athugasemdum við 3. gr. Upplýsingarnar skulu veittar á skýran og nákvæman hátt sem er viðskiptamanni skiljanlegur á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar hafa samþykkt.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé heimilt að veita upplýsingar munnlega þegar vátryggingartaki hefur óskað þess sérstaklega eða vátryggingarverndar er þörf þegar í stað. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að upplýsingar skv. 1. mgr. séu veittar þegar í stað eftir gerð vátryggingarsamningsins.
    Í 3. mgr. kemur fram að ef vátryggingum er miðlað í símsölu skuli veita upplýsingar skv. 9. gr. frumvarps til laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu, sem væntanlega verður að lögum á 131. löggjafarþingi, en greinin varðar upplýsingar sem veita skal við sölu eða markaðssetningu í síma. Samkvæmt því ákvæði skal í upphafi símtals greina nafn þess sem hringir, nafn þjónustuveitanda og að tilgangur símtalsins sé viðskiptalegs eðlis. Þá skal veita upplýsingar um einkenni fjármálaþjónustunnar, um heildarverð að meðtöldum þóknunum, kostnaði, útgjöldum og sköttum eða grundvöll fyrir útreikningi verðs, ef ekki er unnt að gefa upp nákvæmt verð. Einnig skal veita upplýsingar um rétt til að falla frá samningi og allt sem nýtingu slíks réttar tengist. Þegar eftir gerð vátryggingarsamnings skal vátryggingamiðlari veita upplýsingar skv. 1. mgr. ákvæðisins.

Um VII. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um afturköllun og innlögn starfsleyfis. Ákvæði kaflans eru að mestu efnislega óbreytt frá gildandi lögum og reglum. Í 34. gr. er að finna almenna reglu um ástæður afturköllunar. Í 35. gr. eru reglur um tilkynningar um afturköllun starfsleyfis. Þá eru í 36. gr. reglur um innlögn starfsleyfis.

Um 34. gr.


    Í greininni eru talin upp helstu tilvik sem leitt geta til afturköllunar starfsleyfis vátryggingamiðlara. Lagt er til í 1. mgr. að um sé að ræða heimild Fjármálaeftirlitsins til að afturkalla starfsleyfi, fremur en skyldu. Ástæðan er sú að afturköllun er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem veltur á mati og er því eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi svigrúm til að meta hvort beitt skuli afturköllun eða öðrum vægari úrræðum. Ákvæði 1. mgr. eru að mestu í samræmi við núgildandi ákvæði laga og reglugerðar um miðlun vátryggingar.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir að áður en til afturköllunar komi skuli veita hæfilegan frest til úrbóta, sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Er það í samræmi við hina almennu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins að veita slíkan frest til úrbóta. Þó kunna að vera fyrir hendi þær aðstæður að frestur geti leitt til tjóns, t.d. fyrir viðskiptamenn vátryggingamiðlara, auk þess sem frestur til úrbóta á ekki við aðstæður samkvæmt sumum töluliða 1. mgr. Getur því ekki verið um fortakslausan rétt vátryggingamiðlara að ræða hvað þetta snertir.

Um 35. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur er lúta að tilkynningum um afturköllun starfsleyfis, en lagt er til að afturköllun skuli tilkynna fyrirsvarsmanni eða stjórn vátryggingamiðlara og að afturköllun skuli rökstudd. Þá er gert ráð fyrir að birt sé tilkynning um afturköllun í Lögbirtingablaðinu og fjölmiðlum. Lýtur slík opinber tilkynning að neytendaverndarsjónarmiðum. Þá er jafnframt lagt til að ef vátryggingamiðlari starfrækir útibú eða veitir þjónustustarfsemi í öðru aðildarríki skuli eftirlitsstjórnvöldum þess ríkis tilkynnt um afturköllunina.

Um 36. gr.


    Í greininni er að finna reglur er varða innlögn starfsleyfis af fúsum og frjálsum vilja. Er í greininni lagt til að ef vátryggingamiðlari stundar ekki lengur sjálfstæða starfsemi eða starfar ekki lengur hjá vátryggingamiðlara skuli hann leggja inn starfsleyfi sitt. Slíkt mundi vátryggingamiðlari í flestum tilvikum gera um leið og hann hættir starfsemi þar sem starfsábyrgðartryggingar eru kostnaðarsamar, en vátryggingamiðlara er ekki heimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur staðfest innlögn starfsleyfis.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli þar sem sú skylda er lögð á vátryggingamiðlara að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttarstöðu viðskiptamanna sinna og leitast við að fá annan til þess bæran aðila til að taka að sér að þjónusta þá vátryggingarsamninga sem komið hefur verið á. Gera skal Fjármálaeftirlitinu grein fyrir slíkum ráðstöfunum. Þykir rétt að mæla fyrir um slíka háttsemi í lögum en reglan er í samræmi við þær kröfur sem Fjármálaeftirlitið gerir til vátryggingamiðlara hyggist þeir leggja inn starfsleyfi. Þá er gert ráð fyrir að vátryggingamiðlari upplýsi viðskiptamenn og vátryggingafélög um innlögn starfsleyfisins. Eru þessar reglur fallnar til þess að viðskiptamenn verði ekki fyrir tjóni, auk þess að draga úr óvissu viðskiptamanna er vátryggingamiðlari hættir störfum.
    Gert er ráð fyrir með sama hætti og nú er gert að Fjármálaeftirlitið birti tilkynningu um innlögn starfsleyfis auk þess sem fella skal nafn vátryggingamiðlara út af vátryggingamiðlaraskrá.
    Í 5. mgr. er kveðið á um hvernig fara skuli með beiðni aðila sem lagt hefur inn starfsleyfi sitt að hefja starfsemi á nýjan leik. Fer um slíka beiðni sem nýja umsókn um starfsleyfi og fer um afgreiðslu hennar eftir ákvæðum II. kafla. Er þessi regla efnislega óbreytt frá núgildandi reglum.

Um VIII. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði er lúta að tilkynningum og um skil á gögnum til Fjármálaeftirlitsins. Í 37. gr. eru reglur er lúta að skilum ársreiknings og í 38. gr. eru reglur er varða tilkynningu um framkomna skaðabótakröfu.

Um 37. gr.


    Í greininni er kveðið á um skyldu vátryggingamiðlara til að senda Fjármálaeftirlitinu endurskoðaðan ársreikning. Skal ársreikningi skilað eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsársins. Skylda þessi hvílir á öllum vátryggingamiðlurum, hvort heldur starfsemin er rekin sem einkafyrirtæki eða í hlutafélagsformi. Greinin er efnislega samhljóða 22. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga.

Um 38. gr.


    Ákvæðið lýtur að eftirlitshlutverki Fjármálaeftirlitsins og kveður á um að Fjármálaeftirlitinu skuli tilkynnt um það komi fram skaðabótakröfur vegna starfa vátryggingamiðlara. Greint skal frá efni og fjárhæð kröfunnar. Sambærilegt ákvæði er í 24. gr. reglugerðar um miðlun vátrygginga.

Um IX. kafla.


    Í kaflanum er að finna reglur er lúta að skráningu vátryggingaumboðsmanna hjá vátryggingafélagi. Eins og vikið hefur verið að er nýmæli að vátryggingaumboðsmenn þarfnist sérstakrar skráningar áður en þeir geta hafið störf. Er krafa um skráningu í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, m.a. 3. gr. hennar. Ákvæði kaflans eru efnislega samhljóða ákvæðum er varða starfsleyfi vátryggingamiðlara eftir því sem við á. Í 39. gr. er að finna ákvæði er lúta að skráningu vátryggingaumboðsmanna. Í 40. gr. er kveðið á um skilyrði slíkrar skráningar. Um heiti vátryggingaumboðsmanna er fjallað í 41. gr. og takmarkanir á starfsemi í 42. gr. Í 43. gr. er kveðið á heimild vátryggingaumboðsmanna til viðtöku fjármuna. Loks er í 44. gr. að finna reglur er lúta að skyldu til að halda vörslufjárreikninga.

Um 39. gr.


    Í greininni er kveðið á um að áður en vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja miðlun vátrygginga fyrir hönd vátryggingafélags skuli félagið skrá viðkomandi. Gert er ráð fyrir að almenningi sé heimill aðgangur að upplýsingum um skráða vátryggingaumboðsmenn hjá viðkomandi vátryggingafélagi. Með greininni er lögð til innleiðing á 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Hugtakið vátryggingaumboðsmaður er skilgreint í 3. gr. sem einstaklingur eða lögaðili sem á grundvelli samnings stundar þá starfsemi að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samning um vátryggingu, að koma á slíkum samningi eða aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga og á þeirra ábyrgð gegn endurgjaldi. Valin var sú leið að skráning vátryggingaumboðsmanna verði hjá hverju og einu vátryggingafélagi og ábyrgð lögð á þau að ganga úr skugga um að hæfisreglur séu uppfylltar. Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að kalla eftir upplýsingum um skráningar þegar þurfa þykir, á grundvelli ákvæða frumvarpsins og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Lagt er til að vátryggingaumboðsmaður geti hafið störf þegar hann hefur verið skráður hjá vátryggingafélagi. Þá skal fella viðkomandi vátryggingaumboðsmann út af skrá hætti hann að miðla vátryggingum á vegum vátryggingafélagsins.
    Lagt er til í 4. mgr. að Fjármálaeftirlitið geti sett nánari reglur um skráningu vátryggingaumboðsmanna.

Um 40. gr.


    Í greininni er að finna reglur er lúta að skilyrðum fyrir skráningu vátryggingaumboðsmanna. Vátryggingafélag ber ábyrgð á að ganga úr skugga um að skilyrðin séu uppfyllt. Með sama hætti og vátryggingamiðlarar verður vátryggingaumboðsmaður og vátryggingasölumenn á hans vegum að uppfylla tiltekin skilyrði um hæfi til starfans. Í fyrsta lagi er lagt til að einstaklingur sem starfar sem vátryggingaumboðsmaður skuli uppfylla ákvæði 1. og 2. mgr. 15. gr. er lúta að hæfisskilyrðum einstaklinga er sækja um starfsleyfi til miðlunar vátrygginga. Er þar um að ræða skilyrði um lögræði, búsetu, forræði á búi og að viðkomandi hafi ekki á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað. Þá er gert að skilyrði að viðkomandi búi yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta sinnt starfinu á tilhlýðilegan hátt. Í öðru lagi er gert að skilyrði að vátryggingaumboðsmaður, sem stundar rekstur í lögaðilaformi, skuli uppfylla ákvæði 16. gr. er lúta að hæfisskilyrðum lögaðila sem sækja um starfsleyfi til miðlunar vátrygginga. Þá er í þriðja lagi kveðið á um að starfsmenn vátryggingaumboðsmanns sem starfa við miðlun vátrygginga skuli uppfylla skilyrði 2. og 3. mgr. 17. gr. er varða þekkingu og starfsreynslu, lögræði, forræði á búi o.fl. Hvað varðar þriðja skilyrðið þá tekur það samkvæmt orðanna hljóðan til þeirra starfsmanna vátryggingaumboðsmann sem koma að miðlun vátrygginga. Ef t.d. er tekið dæmi um viðskiptabanka eða sparisjóð sem miðlar vátryggingum samkvæmt samningi við tiltekið vátryggingafélag mundi slík hæfiskrafa taka til þeirra starfsmanna bankans sem koma að miðlun vátrygginga. Ekki er nauðsynlegt að allir starfsmenn bankans hafi slíka þekkingu.

Um 41. gr.


    Hér er að finna reglur er lúta að heimild til að nota heitið vátryggingaumboðsmaður, en eingöngu þeir sem eru á skrá sem slíkir hjá vátryggingafélagi hafa heimild til að nota heitið.

Um 42. gr.


    Greinin kveður á um takmarkanir á starfsemi og er efnislega samhljóða 14. gr. varðandi vátryggingamiðlara.

Um 43. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur er lúta að heimild vátryggingaumboðsmanns til viðtöku fjármuna fyrir hönd vátryggingafélags eða viðskiptamanns og er ákvæðið efnislega samhljóða 21. gr.

Um 44. gr.


    Greinin sem er efnislega samhljóða 22. gr. kveður á um skyldu vátryggingaumboðsmanns til að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé.

Um X. kafla.


    Í kaflanum er að finna reglur er varða starfshætti vátryggingaumboðsmanna. Reglurnar eru efnislega samhljóða ákvæðum V. kafla um starfshætti vátryggingamiðlara eftir því sem við getur átt.

Um 45. gr.


    Í greininni er að finna reglur er lúta að skyldu vátryggingaumboðsmanns til að hafa yfirsýn yfir starfsemina. Með sama hætti og í 23. gr., er varðar vátryggingamiðlara, er lögð áhersla á að vátryggingaumboðsmaður hafi nægilega yfirsýn yfir reksturinn, hvílir sú skylda á framkvæmdastjóra og jafnframt á þeim starfsmanni sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við miðlun vátrygginga, sbr. 1. mgr. 1. gr. Hvað varðar þá skyldu sem hvílir á framkvæmdastjóra er raunar um að ræða áréttingu á þeirri ábyrgð sem hvílir á framkvæmdastjóra samkvæmt hlutafélagalögum. Nauðsynlegt er þó að kveða á um slíka ábyrgð í lögunum þar sem rekstur vátryggingaumboðs er ekki bundinn við lögaðila.
    Þá er jafnframt kveðið á um að fjöldi vátryggingasölumanna skuli takmarkaður þannig að yfirsýn tapist ekki. Mikilvægi þess að vátryggingaumboðsmaður hafi yfirsýn yfir starfsemina á við hér með sama hætti og varðandi vátryggingamiðlara. Í umfjöllun um 23. gr., er varðar vátryggingamiðlara, kemur fram að verklagsregla hafi mótast hjá Fjármálaeftirlitinu varðandi fjölda vátryggingasölumanna undir stjórn og ábyrgð hvers vátryggingamiðlara. Ekki er víst að sömu sjónarmið eigi við um fjölda vátryggingasölumanna er starfa á ábyrgð vátryggingaumboðsmanns, enda bera vátryggingafélög ábyrgð á starfi viðkomandi.

Um 46. gr.


    Hér er lagt til að ávallt sé gerður skriflegur ráðningar- eða verksamningur við vátryggingasölumenn sem starfa á vegum viðkomandi vátryggingaumboðsmanns. Ákvæðið er efnislega samhljóða 24. gr.

Um 47. gr.


    Í greininni er kveðið á um að vátryggingaumboðsmaður og starfsmenn hans skuli ávallt framvísa skilríkjum við störf sín. Greinin á sér hliðstæðu í 26. gr.

Um 48. gr.


    Greinin kveður á um hvernig farið skuli með trúnaðarupplýsingar sem viðskiptamaður veitir.

Um 49. gr.


    Ákvæðið, sem er samhljóða 28. gr., kveður á um að vátryggingaumboðsmaður skuli ávallt starfa í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði. Að jafnaði myndi Fjármálaeftirlitið snúa sér til vátryggingafélags hefði það athugasemdir við störf vátryggingaumboðsmanns, enda ber vátryggingafélag ábyrgð á störfum viðkomandi.

Um 50. gr.


    Í greininni er viðskiptaráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um starfshætti vátryggingaumboðsmanna í reglugerð.

Um XI. kafla.


    Kaflinn fjallar um upplýsingaskyldu og er efnislega samhljóða VI. kafla er fjallar um upplýsingaskyldu vátryggingamiðlara. Samkvæmt 3. og 4. mgr. 1. gr. eiga ákvæði þessa kafla ekki við um miðlun endurtrygginga eða við miðlun stóráhættu.

Um 51. gr.


    Greinin, sem er efnislega samhljóða 30. gr., varðar upplýsingar sem vátryggingaumboðsmaður skal veita væntanlegum vátryggingartaka við gerð, endurnýjun eða breytingu vátryggingarsamnings.

Um 52. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að vátryggingaumboðsmaður skuli áður en vátryggingarsamningur er gerður greina frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans. Ákvæðið er sambærilegt 31. gr.

Um 53. gr.


    Í greininni er kveðið á um upplýsingaskyldu sem hvílir á vátryggingaumboðsmanni sem miðlar vátryggingum í sama greinaflokki á vegum fleiri en eins vátryggingafélags og lýtur að fjárhæð endurgjalds sem hann þiggur eða áskilur vegna viðskiptanna og greitt er af vátryggingafélagi. Í slíkum tilvikum eiga við sömu sjónarmið og varðandi vátryggingamiðlara, að upplýsingar um endurgjald eru liður í mati viðskiptamanns á þeim tilboðum og því starfi sem vátryggingaumboðsmaður innir af hendi.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir þeirri eðlilegu reglu að í þeim tilvikum sem viðskiptamanni ber að greiða endurgjald fyrir þjónustu vátryggingaumboðsmanns sé hann ávallt upplýstur um fjárhæð þess áður en hann er skuldbundinn af samningi.

Um 54. gr.


    Hér er fjallað um á hvaða formi upplýsingar sem veita ber samkvæmt þessum kafla laganna skuli veittar. Ákvæðið á hliðstæðu í 33. gr.

Um XII. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði er lúta að starfsemi vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna á milli landa. Með kaflanum eru innleidd ákvæði 6. gr. tilskipunarinnar, sem fela í sér meginreglu EES-samningsins um staðfesturétt og gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa. Í 55. gr. eru ákvæði er lúta að starfsemi erlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna hér á landi. Ákvæði 56. gr. varðar starfsemi innlendra vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna erlendis. Í 57. gr. eru ákvæði er varða heimildir vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna utan Evrópska efnahagssvæðisins til að stofna útibú hérlendis. Loks er í 58. gr. að finna heimild til handa viðskiptaráðherra til að setja í reglugerð nánari reglur um starfsemi á milli landi.

Um 55. gr.


    Í greininni er að finna reglur er lúta að heimild erlendra vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna til að starfa hér á landi með stofnun útibús eða með því að veita þjónustu án starfsstöðvar. Tilskipunin kveður á um regluna um eitt starfsleyfi, sem felur í sér að á grundvelli skráningar eða starfsleyfis í heimaríki er vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni heimilt að starfa í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Er lagt til í greininni að erlendum aðilum sé samkvæmt þessari grein heimilt að hefja starfsemi einum mánuði eftir að Fjármálaeftirlitinu hefur borist tilkynning frá lögbæru stjórnvaldi í heimaríki viðkomandi um slíkt. Heimildir erlendra aðila til að veita þjónustu hér á landi takmarkast ávallt af umfangi starfsleyfis eða skráningar í heimaríkinu.

Um 56. gr.


    Í greininni er kveðið á um reglur er lúta að starfsemi innlendra vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna erlendis. Vátryggingamiðlari eða vátryggingaumboðsmaður sem hyggst starfa erlendis, með stofnun útibús eða veita þar þjónustu án starfsstöðvar, ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um slíka fyrirætlan. Innan mánaðar frá móttöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum gistiríkisins tilkynningu um fyrirætlan viðkomandi. Vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanni er heimilt að hefja starfsemi mánuði eftir að Fjármálaeftirlitið hefur sent slíka tilkynningu. Hafi aðildarríki sem starfsemi er fyrirhuguð í lýst því yfir að það vilji ekki fá slíkar upplýsingar er heimilt að hefja starfsemi þegar í stað. Svo virðist sem langflest ríki Evrópusambandsins vilji fá slíkar upplýsingar áður en starfsemi erlendra aðila hefst í viðkomandi ríki.

Um 57. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglur er lúta að heimild vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna, sem skráðir eru í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, að hefja starfsemi hér á landi. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að veita slíkum aðila leyfi til að stofna útibú hér á landi. Þá er gert ráð fyrir að um afgreiðslu á umsókn frá slíkum aðila og starfsemina að öðru leyti gildi ákvæði 71.–76. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

Um 58. gr.


    Með ákvæðinu er mælt fyrir um almenna heimild ráðherra til setningar reglugerðar varðandi starfsemi vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna á milli landa.
    Í vinnunefnd eftirlitsstjórnvalda ríka á Evrópska efnahagssvæðinu á vátryggingasviði (e. CEIOPS) er nú unnið að samræmdum reglum um tilkynningar vegna starfsemi á milli landa og hvað skuli koma fram í slíkum tilkynningum. Fjármálaeftirlitið er þátttakandi í því starfi. Gera má ráð fyrir að nánari reglur verði settar í reglugerð um tilkynningaskylduna og að þær reglur muni styðjast við niðurstöðu vinnunefndarinnar.

Um XIII. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði er lúta að eftirliti og viðurlögum við brotum gegn lögunum. Í 59. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna. Í 60. gr. eru ákvæði um greiðslu eftirlitsgjalds. Í 61. gr. er fjallað um aðstoð Fjármálaeftirlitsins við yfirvöld annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Þá er í 62. gr. ákvæði um viðurlög við brotum gegn lögunum.

Um 59. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna. Tekur eftirlitið til starfsemi þessara aðila innan lands og utan. Meðal annars er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að birta opinberlega nöfn þeirra sem taldir eru bjóða þjónustu sem lögin taka til án þess að hafa starfsleyfi. Þannig getur Fjármálaeftirlitið gefið út viðvaranir hugsanlegum viðskiptamönnum til hagsbóta.

Um 60. gr.


    Í greininni er kveðið á um að þeir sem hafi heimild til miðlunar vátrygginga skuli greiða árlegt eftirlitsgjald. Eftirlitsgjaldið er ákveðið árlega samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Vátryggingaumboðsmenn sem skráðir eru hjá vátryggingafélagi á Evrópska efnahagssvæðinu greiða ekki slíkt eftirlitsgjald þar sem þeir starfa á ábyrgð vátryggingafélagsins og vátryggingafélagið greiðir eftirlitsgjald. Þeir lúta jafnframt eftirliti heimaríkis.

Um 61. gr.


    Ákvæðið kveður á um aðstoð Fjármálaeftirlitsins við yfirvöld annarra EES-ríkja og er í samræmi við þá meginreglu EES-réttarins að eftirlit sé á hendi stjórnvalda í heimaríki vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns. Með ákvæðinu eru innleidd ákvæði 9. gr. tilskipunarinnar.

Um 62. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að brot gegn ákvæðum laganna varði sektum, eða fangelsi allt að einu ári, liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Ákvæðið byggist að nokkru á 8. gr. tilskipunarinnar þar sem segir að aðildarríki skuli sjá til þess að hæfileg viðurlög séu við brotum á ákvæðum laga er innleiða tilskipunina.

Um XIV. kafla.


    Í kaflanum eru ákvæði um innleiðingu og gildistöku, auk breytinga á öðrum lögum.

Um 63. og 64. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 65. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum. Breytingar þær sem lagðar eru til eru nauðsynlegar þar sem í lögum þessum er lagt til að ákvæði er varði miðlun vátrygginga verði að finna í einum lögum.

Um 66. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum. Nauðsynlegt er að gera breytingu á 3. tölul. 5. gr. laganna þar sem með lögum þessum er gerð breyting á skilgreiningu á hugtakinu miðlun vátrygginga. Breytingin lýtur að því að ljóst sé að greiðsla eftirlitsgjalds hvílir eingöngu á vátryggingamiðlurum en ekki jafnframt á vátryggingaumboðsmönnum.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæðinu er vikið að stöðu vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna sem eru starfandi við gildistöku laganna. Er ekki gert ráð fyrir að starfandi vátryggingamiðlarar sæki um starfsleyfi á ný, en þeir þurfa að fara vel yfir starfsemina með tilliti til nýrra reglna frumvarpsins. Er lagt til að vátryggingamiðlurum og vátryggingaumboðsmönnum verði veittur frestur til 1. júlí 2005 til að uppfylla skilyrði laganna.
    Í núgildandi lögum er ekki að finna ákvæði um hæfisskilyrði vátryggingasölumanna. Þykja sex mánuðir hæfilegur frestur til að uppfylla skilyrði laganna er varða hæfisskilyrði vátryggingasölumanna, sem starfa á vegum vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanna.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um miðlun vátrygginga.

    Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins og ráðsins nr. 2002/92/EB frá 9. desember 2002, um miðlun vátrygginga. Eitt helsta markmið tilskipunarinnar er að afnema hindranir á því að vátryggingamiðlarar geti stundað starfsemi sína óhindrað á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur er í tilskipuninni stefnt að aukinni neytendavernd, m.a. með því að setja strangari kröfur um starfsemi vátryggingamiðlara og mæla fyrir um aukna upplýsingagjöf til neytenda.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.