Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 839  —  191. mál.




Frumvarp til laga



um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

(Eftir 2. umr., 21. febr.)



1. gr.
Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

    Í Stjórnartíðindum skal birta öll lög, stjórnvaldsfyrirmæli og samninga við önnur ríki, svo og auglýsingar varðandi gildi þeirra.
    Í Lögbirtingablaði skal birta dómsmálaauglýsingar, svo sem stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, nauðungarsölur, þar á meðal á fasteignum búa sem eru til opinberra skipta, auglýsingar um vogrek, óskilafé og fundið fé, auglýsingar um kaupmála hjóna, lögræðissviptingu og brottfall hennar, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu, sérleyfi er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi.

2. gr.
A-deild Stjórnartíðinda.

    Í A-deild Stjórnartíðinda skal birta lög öll, auglýsingar og aðrar tilkynningar almenns efnis sem út eru gefnar af æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins, svo og reglur sem Alþingi kann að setja um framkvæmd almennra málefna í þingsályktunum.
    Við birtingu laga í A-deild Stjórnartíðinda, sem sett eru til að lögleiða samninga við önnur ríki og breytingar á þeim, þar á meðal EES-reglur, er heimilt að vísa til birtingar skv. 4. gr. laganna. Aðeins má þó vísa til slíkrar birtingar ef um er að ræða reglur sem hafa verið birtar og þýddar á íslensku.

3. gr.
B-deild Stjórnartíðinda.

    Í B-deild Stjórnartíðinda skal birta reglugerðir, samþykktir og auglýsingar sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, reikninga sjóða, ef svo er mælt í staðfestum skipulagsákvæðum þeirra, úrslit alþingiskosninga sem tilkynnt hafa verið á árinu og heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun sem ríkisstjórnin veitir. Einnig skal þar birta reglur sem stjórnvöldum og opinberum stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að setja.
    Við birtingu stjórnvaldsfyrirmæla í B-deild Stjórnartíðinda, sem sett eru til að lögleiða samninga við önnur ríki og breytingar á þeim, þar á meðal EES-reglur, er heimilt að vísa til birtingar skv. 4. gr. laganna. Aðeins má þó vísa til slíkrar birtingar ef um er að ræða reglur sem hafa verið birtar og þýddar á íslensku.

4. gr.
C-deild Stjórnartíðinda.

    Í C-deild Stjórnartíðinda skal birta samninga við önnur ríki og auglýsingar varðandi gildi þeirra. Birting ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar og þeirra gerða, sem þar er vísað til, í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins telst jafngild birting að þessu leyti.
    Heimilt er að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar.

5. gr.
Vafamál um hvar birta skuli.

    Vafamál um það hvar birta skuli atriði þau er í 1.–4. gr. segir, eða hvort erindi skuli birt eða eigi, ákveður dómsmálaráðherra.

6. gr.
Útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs.

    Dómsmálaráðuneytið gefur Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað út.
    Skylt er stjórnvöldum að fá útgefanda handrit af hverju því sem afgreitt hefur verið og birta ber í Stjórnartíðindum eða Lögbirtingablaði.
    Dómsmálaráðherra kveður á um gjöld fyrir auglýsingar er aðilar eiga að greiða. Einnig getur dómsmálaráðherra sett fyrirmæli um annað er að útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs lýtur.

7. gr.
Heimild til rafrænnar útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs.

    Dómsmálaráðherra getur ákveðið að Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skuli, að hluta eða í heild, eingöngu gefin út og þeim dreift á rafrænan hátt. Við rafræna útgáfu skal tryggja öryggi og áreiðanleika birtra upplýsinga og að þær varðveitist á varanlegan hátt. Rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skal hagað þannig, eftir því sem tæknilega er unnt, að komið sé í veg fyrir úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga sem birtar eru. Við rafræna útgáfu skal útgáfudagur tilgreindur.
    Haga skal útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs þannig að vél- og hugbúnaður sem flestra nýtist. Verði útgáfa Stjórnartíðinda eða Lögbirtingablaðs eingöngu rafræn skulu þeir sem þess óska geta keypt Stjórnartíðindi eða Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu. Fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði skal greiða gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Dómsmálaráðherra mælir í reglugerð nánar fyrir um rafræna útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, þar á meðal um gagnaöryggi, varðveislu gagna og persónuvernd.

8. gr.
Réttaráhrif birtingar.

    Fyrirmælum, er felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis, má eigi beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum hefur farið fram, nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum. Óbirt fyrirmæli binda þó stjórnvöld frá gildistöku þeirra.
    Birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt, ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943, með síðari breytingum.