Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 859  —  571. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2004.

1.     Inngangur.
    Umræðan um sambúð Bandaríkjanna og Evrópu í kjölfar Íraksstríðsins var hávær á árinu 2004 og setti að vissu leyti mark sitt á samskipti ríkja Atlantshafsbandalagsins. Þó virtist sem andstæðir pólar í því tiltekna máli þokuðust nær hver öðrum eftir því sem á árið leið og í lok árs gætti mun meiri samhljóms meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins en verið hafði mánuðina á undan. Í lok árs var svo komið að flestöll aðildarríki NATO lögðu eitthvað af mörkum til uppbyggingarstarfsins í Írak og áþreifanlegur árangur hafði náðst í að sætta deilur vegna ólíkra sjónarmiða beggja vegna Atlantshafsins hvað Íraksmálið varðaði. NATO horfir fram á veginn, tekst á við ógnir samtímans og stendur nú að mörgu leyti styrkara en áður. Því að þrátt fyrir ólík stefnumið og pólitísk átök einstakra aðildarríkja liggur nú rík pólitísk eining að baki mikilvægs hlutverks bandalagsins við að leitast við að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og á nærliggjandi svæðum. Með breyttri heimsmynd hefur bandalagið skerpt áhersluna á svæði utan Evrópu og þá einkanlega að því landsvæði sem í daglegu tali hefur verið nefnt Stór-Miðausturlönd. Á leiðtogafundi NATO í Istanbúl í júnímánuði var t.a.m. ákveðið að hrinda í framkvæmd áætlun sem miðaði að því að auka mjög samskiptin við ríkin við Persaflóa, á grundvelli Miðjarðarhafsáætlunarinnar sem gefist hefur einkar vel í samskiptum bandalagsins við ríki norðanverðrar Afríku. Um afar mikilvægt verkefni er að ræða enda almennt álitið að þessi heimshluti sé mesta uppspretta hryðjuverkaafla nú um stundir. Friðaraðgerðir bandalagsins í Afganistan hafa þegar skilað miklum árangri og á vettvangi þess ríkir full einurð um hve mikilvægt er að lýðræði nái að skjóta þar varanlegum rótum undir verndarvæng bandalagsins og bandamanna þess. Þótt NATO hafi ekki verið aðili að Íraksstríðinu hefur nú á vettvangi þess náðst samstaða um að aðstoða við þjálfun íraskra öryggissveita og að útvega þeim búnað. Hvað innviði NATO varðar hefur orðið mikil uppstokkun á herstjórnarkerfi bandalagsins á undanförnum missirum og býr það nú við mun meiri aðgerðagetu en áður. Hafa þessar umfangsmiklu breytingar undirstrikað mátt bandalagsins og aðlögunarhæfni þess í breyttri heimsmynd og breyttu ógnarumhverfi sem og hæfni þess til að ráðast í aðgerðir af nýjum toga. Aðildarríkjum NATO fjölgaði umtalsvert á árinu er fánar sjö nýrra ríkja voru dregnir að húni á vormánuðum við höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel. Var það endahnúturinn á áralöngu aðlögunarferli ríkjanna og mikill styrkur fyrir bandalagið.
    Bandalagsríkin voru minnt óþyrmilega á það á árinu að hryðjuverkaógnin væri enn viðvarandi. Mannskæð óhæfuverk voru framin í Madríd og í Suður-Ossetíu og voru þau sorgleg áminning um að fjórum árum eftir hryðjuverkin mannskæðu í Bandaríkjunum og stóraukið milliríkjasamstarf í baráttunni gegn hryðjuverkum eru öfgaöfl síst á undanhaldi og virðist athæfi þeirra verða æ miskunnarlausara.
    Sem fyrr tók starfsemi NATO-þingsins mið af tíðindum á vettvangi alþjóðamála. Málefni Íraks og Afganistan voru fyrirferðarmikil í störfum nefnda þingsins sem og Atlantshafsstrengurinn og samskiptin yfir hafið. Þá hefur starfsemi Miðjarðarhafshóps NATO-þingsins aukist mjög á undanförnum árum og er svo komið að sá vettvangur er að verða einn sá mikilvægasti innan þingsins. Málefni mansals og barnasölu voru veigamikil í störfum félagsmálanefndar en Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Íslandsdeildar, var höfundur skýrslu þess efnis. Af öðru markverðu starfi Íslandsdeildar má nefna að á árinu hefur hún staðið að undirbúningi stjórnarnefndarfundar NATO-þingsins sem haldinn verður í Reykjavík í apríl 2005 og ársfundar þingsins sem einnig verður í Reykjavík haustið 2007.

2.     Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru Árni R. Árnason, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Við fráfall Árna R. Árnasonar var Einar Oddur Kristjánsson skipaður í nefndina og kjörinn formaður hennar. Varamaður hans var Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildar.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í öllum nefndum þess. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2004 var þannig:
Stjórnarnefnd: Einar Oddur Kristjánsson.
    Til vara: Guðmundur Árni Stefánsson.
Stjórnmálanefnd: Einar Oddur Kristjánsson.
    Til vara: Kjartan Ólafsson.
Varnar- og öryggismálanefnd: Magnús Stefánsson.
    Til vara: Dagný Jónsdóttir.
Félagsmálanefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Efnahagsnefnd: Magnús Stefánsson.
    Til vara: Dagný Jónsdóttir.
Vísinda- og tækninefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Miðjarðarhafshópur: Einar Oddur Kristjánsson
og Guðmundur Árni Stefánsson.

3.     Fundir sem Íslandsdeildin sótti á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Auk þess fundar stjórnarnefnd sérstaklega ár hvert, ýmist í lok mars eða byrjun apríl. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Nefndir og undirnefndir þingsins halda reglulega námsstefnur og fundi á milli þingfunda. Jafnframt stendur varnar- og öryggismálanefnd árlega fyrir kynnisferð til eins eða fleiri aðildarríkja bandalagsins til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Á árinu voru haldnar tvær Rose Roth námsstefnur (sjá fylgiskjal II, b- lið).
    Árið 2004 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel og fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Ósló, vor og ársfundum þingsins í Bratislava og Feneyjum, auk fjölda nefndarfunda utan þingfunda.

a.     Febrúarfundir.
    Venjubundnir febrúarfundir NATO-þingsins í Brussel voru haldnir dagana 15.–17. febrúar. Eru þessir fundir í raun eina tækifærið sem fulltrúar þjóðþinga aðildarríkja NATO hafa til þess að skiptast á skoðunum um málefni bandalagsins og framtíðarhorfur án þátttöku þeirra þjóða sem hafa aukaaðild eða áheyrnaraðild að NATO-þinginu. Á fundunum flytja helstu embættismenn Atlantshafsbandalagsins framsögur og svara spurningum þingmanna. Þá hafa samskiptin við Evrópusambandið aukist í seinni tíð og er nú svo komið að heilum degi er varið í fundi með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB auk þess sem efnt er til sameiginlegs fundar fulltrúa NATO-þingsins og utanríkismálanefndar Evrópuþingsins. Einnig er sameiginlegur fundur fulltrúa stjórnarnefndar NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðsins, sem skipað er fastafulltrúum aðildarríkjanna auk framkvæmdastjóra NATO. Fundinn sótti að þessu sinni Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Íslandsdeildar, auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara Íslandsdeildar. Fundirnir hófust á því að John Colston, aðstoðarframkvæmdastjóri áætlunardeildar NATO, hélt framsögu um helstu stefnumið bandalagsins hvað tæknilega og hernaðarlega útfærslu varnarviðbúnaðar bandalagsins varðaði. Auk hans svaraði Robert Sperry, fulltrúi frá aðgerðadeild NATO, spurningum þingmanna. Þá hélt James L. Jones, æðsti yfirmaður sameinaðs herafla bandalagsins í Evrópu (SACEUR), erindi um það hvernig aðildarríkin stæðu sig við að uppfylla skuldbindingar sínar á hernaðarsviðinu sem samþykktar hefðu verið á leiðtogafundi bandalagsins í Prag árið 2003. Svaraði hann enn fremur spurningum þingmanna.
    Mánudaginn 16. febrúar flutti Günther Altenburg, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO sem fer fyrir stjórnmáladeildinni, erindi um helstu málefnin á vettvangi NATO og ræddi meðal annars um aðgerðir bandalagsins í Afganistan, pólitískar horfur í Stór-Miðausturlöndum, baráttuna gegn hryðjuverkum og eininguna innan NATO. Ljóst var af máli Altenburgs að enn væri nokkuð langt í land með að gróa mundi um heilt í samskiptum Evrópuríkjanna í NATO og Bandaríkjanna eftir Íraksstríðið og þær alþjóðapólitísku væringar sem urðu í kjölfar þess. Þó hefði nokkuð áunnist við að endurskapa traust en að mikið ylti á hvernig til tækist við friðaruppbygginguna í Írak. Hvað Afganistan varðaði lýsti Altenburg yfir miklum áhyggjum af því að ekki hefði tekist að afla þess fjölda hersveita og búnaðar sem NATO-ríkin hefðu skuldbundið sig til að senda til Afganistan. Sagði hann að trúverðugleiki bandalagsins væri að vissu leyti að veði í þessu máli og biðlaði til þingmanna um að beita sér fyrir skjótri úrlausn mála. Á eftir erindi Günthers Altenburgs flutti Marshall Billingslea, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO í deild þeirri er hefur með fjárfestingar í herbúnaði að gera, erindi um helstu þróun í gerð varnarviðbúnaðar sameiginlegs herafla bandalagsins.
    Þriðjudaginn 17. febrúar var fundur með fulltrúum Evrópusambandsins. Fyrstur til að ávarpa fundinn var Franz Fischler, landbúnaðar- og sjávarútvegsmálastjóri framkvæmdastjórnar ESB. Hann ræddi um næstu lotu stækkunar sambandsins og fór yfir helstu kosti hennar fyrir ESB í heild. Þá flutti Eneko Landaburo, yfirmaður skrifstofu utanríkismálastjóra framkvæmdastjórnarinnar, framsögu og ræddi þar að mestu um samskipti bandalagsins við Bandaríkin. Taldi hann að ýmis merki væru um að þau færu batnandi og að meiri samhljómur væri beggja vegna Atlantsála. Væru menn komnir yfir erfiðasta hjallann í kjölfar Íraksstríðsins. Þá vék hann einnig máli sínu að Kína og Íran. Síðasti dagskrárliður febrúarfundanna var sameiginlegur fundur með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins. Douglas Bereuter, forseti NATO-þingsins, og Elmar Brok, formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, ávörpuðu fundinn og gætti mikils samhljóms í málflutningi þeirra. Í almennum og líflegum umræðum sem við tóku, tóku einnig þátt þeir Rainer Feist, staðgengill æðsta yfirmanns sameinaðs herafla NATO í Evrópu (DSACEUR), og Jean-Pierre Herreweghe, hershöfðingi og aðstoðaryfirmaður hermálasviðs ESB.

b.     Fundur stjórnarnefndar.
    Laugardaginn 27. mars fundaði stjórnarnefnd NATO-þingsins í Ósló. Fundinn sátu af hálfu Íslands Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Íslandsdeildar, og Andri Lúthersson ritari. Þau efnisatriði sem tekin voru til umfjöllunar á fundinum voru m.a. skipulag starfsemi þingsins, málefni Líbýu, samskiptin við Rússland, staða blaðamanna og stríðsfréttaritara í vopnuðum átökum, og starfsreglur þingsins. Þá var og rætt um stöðu fjármála NATO-þingsins auk funda og þinga á komandi missirum og árum.
    Stjórnarnefndarfundurinn, sem haldinn var hálfum mánuði eftir mannskæðar hryðjuverkaárásir í Madríd, hófst á því að fulltrúar vottuðu spænsku þjóðinni samúð sína með mínútu þögn. Þá hófust umræður um skýrslu framkvæmdastjóra um markmið og verkefni NATO-þingsins, og kenndi þar ýmissa grasa. Simon Lunn, framkvæmdastjóri NATO-þingsins, ræddi nokkuð um fyrirhugaðan leiðtogafund NATO í Istanbúl í júní og sagði að vonast væri til að fundurinn varðaði veginn m.t.t. nýs hlutverks NATO í „Stór-Miðausturlöndum“. Til marks um aukna áherslu NATO á Miðjarðarhafssvæðið nefndi Lunn árangurinn af Miðjarðarhafssamstarfi bandalagsins (Mediterranean dialogue) og hvað NATO-þingið varðaði sagði hann að vægi Miðjarðarhafsnefndarinnar ykist stöðugt í störfum þingsins. Þá nefndi framkvæmdastjórinn að málefni Mið-Asíu væru æ meira í brennidepli þingsins og að sérstök áhersla yrði lögð á þau mál á vorþinginu í Bratislava í maí. Sagði framkvæmdastjórinn að menn yrðu að hafa í huga að NATO væri aðeins ein margra alþjóðastofnana og samtaka sem létu sig málefni Stór-Miðausturlanda varða. Sagði hann enn óljóst hvaða stefna yrði mörkuð á leiðtogafundinum í Istanbúl og hvaða áhrif sú stefna hefði á starfsemi NATO-þingsins. Brýnt væri því að huga strax að því hvernig NATO-þingið gæti brugðist við. Þá vék Lunn að endingu að áhuga Bosníu-Hersegóvínu og sambandsríkis Serbíu og Svartfjallalands á aukaaðild að NATO-þinginu samfara áhuga þeirra á að gerast aðilar að samstarfi í þágu friðar (e. Partnership for Peace). Sagði hann að samvinna ríkjanna við Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í Haag væri algert frumskilyrði fyrir aukaaðildinni. Bosníumenn virtust að þessu leyti vera á réttri leið en Serbar og Svartfellingar sýndu öllu minni viðleitni til samstarfs en áður. Taldi hann að NATO-þinginu bæri að taka vel í það ef aukaaðildarumsókn bærist frá þjóðþingi Bosníu og Hersegóvínu.
    Nokkrar umræður urðu um skýrslu framkvæmdastjórans og þá sérstaklega um málefni Stór-Miðausturlanda. Breski þingmaðurinn Donald Anderson sagði að frumkvæði NATO í málefnum Stór-Miðausturlanda væri enn illa skilgreint og taldi að full þörf væri á því að þingið byggi sig undir ný verkefni samfara ákvörðunum Istanbúl-fundarins. Pólverjinn Longin Pastusiak tók undir orð Andersons og sagði mikilvægt að NATO beitti sér á þessu svæði, ekki síst í deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá vék Pastusiak að því að á næsta ári yrði NATO-þingið 50 ára og spurði hvort ekki væri ráð að minnast tímamótanna með útgáfu bókar. Framkvæmdastjórinn tók vel í það og forseti þingsins, Douglas Bereuter, einnig. Þjóðverjinn Markus Meckel sagði að ekki mætti gleyma ástandi mála á Balkanskaga og minnti á að átök í Kosovo-héraði nokkrum vikum áður sýndu fram á að enn væri mikið verk óunnið í þeim heimshluta. Ítalinn Giovanni Forcieri tók undir þetta og sagði jafnframt að umræðan um Stór-Miðausturlönd væri á nokkrum villigötum. Arabaríki tækju illa í þetta frumkvæði NATO og litu svo á að um enn frekari heimsvaldastefnu Bandaríkjanna væri að ræða. Í lok þessa dagskrárliðar kynntu formenn málefnanefnda NATO-þingsins verkefnin fram undan. Í lok umræðunnar sagði framkvæmdastjórinn að ekki mætti ganga út frá því sem vísu að starfsemi og starfshættir NATO-þingsins héldust óbreyttir til frambúðar. Oft áður hefði verið rætt um að fjölga málefnanefndum og kynni svo að fara að rétt væri að láta verða af því. Þá eyddi hann töluverðum tíma í að ræða kynningu á starfsemi NATO-þingsins og frumkvæði í þá veru. Sagði hann að erfitt væri fyrir NATO-þingið sjálft að reyna að auka umfjöllun um starfsemina því að við ramman reip væri að draga í Brussel þar sem mýgrútur stofnana væri staðsettur og mikil samkeppni um athygli fjölmiðla. Taldi hann að landsdeildirnar sjálfar væru best færar um að kynna starfsemina í heimalöndum sínum og hvatti þær til dáða í þeim efnum.
    Næst á dagskrá voru umræður um málefni Líbýu sem höfðu verið nokkuð í deiglunni síðan Líbýustjórn ákvað að hætta við alla smíði gereyðingarvopna og koma búnaði þeim sem hún hafði komið sér upp í hendur alþjóðlegra eftirlitsstofnana og Bandaríkjamanna. Forseti þingsins sagði að atburðir í Líbýu væru sannarlega afar jákvæðir en að sama skapi hefðu þeir varpað ljósi á hve brothætt ástandið er þegar smygl á búnaði til smíði gereyðingarvopna varðar. Til grundvallar umræðum lá skýrsla sem skrifstofa NATO-þingsins hafði undirbúið að beiðni forsetans m.a. til að velta upp spurningunni hvort bjóða ætti þjóðþingi Líbýu að gerast aðili að Miðjarðarhafshópi NATO-þingsins líkt og þingum annarra N-Afríkuríkja. Michel Boucheron, formaður Miðjarðarhafshóps NATO-þingsins, sagði að hann færi varlega í yfirlýsingar í kjölfar ákvarðana Líbýustjórnar jafnvel þótt hann fagnaði þeim. Sagði hann að hann sæi fært að meðhöndla Líbýumenn á sama hátt og Líbana og Sýrlendinga, þ.e. að fulltrúum þjóðþingsins yrði boðið að vera viðstaddir fundi. Þá minnti hann enn fremur á að rétt væri að fulltrúar Íraka sætu einnig fundi hópsins. Donald Anderson sagði að áfanganum bæri að fagna og að taka ætti eins vel á móti Líbýumönnum í samfélag þjóðanna og unnt væri. Fleiri tóku undir þau orð og töldu að breytingarnar í stefnu ríkisstjórnar Gaddafis væru djúpstæðar. Lúxemborgarinn Nicolas Bettendorf sagðist gjalda varhug við þessari stefnubreytingu Gaddafis en hann væri þó hlynntur því að bjóða Líbýuþingi að senda fulltrúa á fundi hópsins. Í sama streng tók Pierre Lellouche, formaður frönsku landsdeildarinnar. Í máli formanns portúgölsku landsdeildarinnar komu fram varnaðarorð og minnti hann á að Líbýumenn hefðu sýnt það á undanförnum árum að þeir hygðust efla svæðisbundin áhrif sín og ylli það miklum áhyggjum. Niðurstaða umræðnanna varð sú að margir voru efins um einlægan friðarvilja Líbýumanna en að rétt væri að bjóða þeim að senda fulltrúa sína á fundi Miðjarðarhafshóps NATO-þingsins. Simon Lunn sagði að það yrði gert fyrir fund hópsins í Napólí sem ráðgert var að halda í byrjun júlímánaðar.
    Þá var rætt um samskipti NATO-þingsins við rússnesku dúmuna en nokkur brögð höfðu verið að því að stjórnarnefndarfulltrúar kvörtuðu undan þeim samskiptum. Framhald varð á þeim umræðum og Rússar sakaðir um að vera fastir í klafa kalda stríðsins og að mikillar hugarfarsbreytingar væri þörf innan dúmunnar. Þar næst var rætt um beiðni frjálsra félagasamtaka franska blaðamanna sem farið hefðu þess á leit við þingið að það ræddi sérstaklega um vernd blaða- og fréttamanna í stríðsátökum. Var þessu máli vísað til félagsmálanefndar.
    Þá voru teknar fyrir breytingartillögur á þingsköpum er vörðuðu aðallega fjölda varaforseta og varaformanna nefnda. Hugmyndir þessa efnis höfðu komið fram á undanförnum missirum, einkum í ljósi þess að aðildarríkjunum mundi fjölga um sjö. Nokkrar umræður urðu um þetta og voru tillögurnar samþykktar eftir nokkurt þref. Guðmundur Árni Stefánsson lagði fram sáttatillögu til lausnar málinu. Því næst efndi norska landsdeildin til kynningar á fyrirhuguðum fundi NATO-þingsins í Spitzbergen í byrjun ágúst. Að því loknu var rætt um fjármál þingsins og hélt Þjóðverjinn Lothar Ibrügger framsögu. Þá var rætt um komandi fundi og þinghald NATO-þingsins en vorfundurinn fer fram í Bratislava, ársfundurinn í Feneyjum og stjórnarnefndarfundur næsta árs í Reykjavík. Rætt var um skipulag og tilhögun undirbúningsins.
    Undir liðnum önnur mál urðu nokkrar umræður um meint tilboð eins fulltrúa bandarísku landsdeildarinnar um að varnar- og öryggismálanefnd þingsins yrði boðið að fara í vinnuferð til Guantanamó-fangabúðanna sem lúta stjórn Bandaríkjanna. Greinilegt var að upp hafði komið misskilningur á ársfundinum í Orlandó og sögðu bandarísku fulltrúarnir á fundinum að slíkt boð hefði aldrei verið lagt fram í nafni sendinefndarinnar sem slíkrar heldur hafi þar verið einstaklingur sem talaði. Þessu mótmælti hollenski þingmaðurinn Joos van Gennip harðlega og hélt fast við að um boð hefði verið að ræða. Margir urðu til að taka undir með Bandaríkjamönnum um að ekkert formlegt boð hefði borist NATO-þinginu og við það sæti. Guðmundur Árni Stefánsson sagði að þessu til viðbótar væri með öllu óljóst hvort varnar- og öryggismálanefndin væri best til þess fallin að heimsækja Guantanamó-búðirnar og samsinntu því margir.

c.     Vorfundur.
    Dagana 27. maí–1. júní sl. var vorfundur NATO-þingsins haldinn í Bratislava. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson, Magnús Stefánsson og Einar Oddur Kristjánsson í forföllum Árna R. Árnasonar formanns, auk Andra Lútherssonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Guðmundur Árni sat fundi stjórnarnefndar, samstarfsnefndar NATO- þingsins og Rússlandsþings og félagsmálanefndar. Þá tók Magnús Stefánsson þátt í fundum varnar- og öryggismálanefndar og efnahagsnefndar. Einar Oddur Kristjánsson sótti fundi stjórnmálanefndar. Guðmundur Árni Stefánsson, starfandi formaður, var höfundur skýrslu félagsmálanefndar um mansal og barnasölu og hélt framsöguerindi á fundinum og sat fyrir svörum fundarmanna.
    Í stjórnmálanefnd voru til umræðu skýrslur Hollendingsins Berts Koenders um Atlantshafsbandalagið (NATO) og beitingu herafla, Þjóðverjans Ruprecht Polenz um öryggishugtak Evrópusambandsins og þýðingu þess fyrir ESB og NATO, og skýrsla Ítalans Marco Minniti um öryggismál suðausturhluta Evrópu og þýðingu öryggissamstarfs ESB og NATO. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Ivan Korcok, utanríkisráðherra Slóvakíu, sem ræddi um niðurstöður leiðtogafundarins í Istanbúl, hershöfðinginn Vincent lávarður, rektor Cranfield-háskóla, sem ræddi um framlag Atlantshafsbandalagsins til friðar og stöðugleika í breyttri heimsmynd, og að lokum William Potter, yfirmaður Centre for Nonproliferation Studies í Monterrey Kaliforníu, sem ræddi um öfga- og hryðjuverkahópa og aðgang þeirra að gereyðingarvopnum.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur Frakkans Pierre Lellouche um starfsemi bandalagsins í Afganistan og aukið umfang starfsemi NATO, bandaríska þingmannsins John Shimkus og Portúgalans Julio Miranda Calha um möguleika aðildarríkjanna á að uppfylla skilyrði Istanbúl-samþykktarinnar, Kanadamannsins David Price um þróun hraðliðs NATO og samstarf ESB og bandalagsins á því sviði. Fundinn ávörpuðu þeir Juraj Liska, varnarmálaráðherra Slóvakíu, Goetz Gliemeroth, hershöfðingi og fyrrum yfirmaður ISAF, gæslusveita NATO í Afganistan, sem ræddi um stöðu mála í landinu, og Andrzej Tyszkiewicz, hershöfðingi og fyrrum yfirmaður fjölþjóðaliðsins í Írak, sem ræddi um reynslu Pólverja af gæslustarfinu í Írak.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur þýska þingmannsins Verenu Wohlleben um stöðugleika í Kákasuslýðveldunum, Rúmenans Petre Roman um samspil lýðréttinda og baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi, og skýrsla Guðmundar Árna Stefánssonar um baráttuna gegn barnasölu í Evrópu. Fund nefndarinnar ávörpuðu þeir Laszló Nagy, formaður mannréttindanefndar slóvaska þingsins, sem fjallaði aðallega um aðstæður og réttindi minnihlutahópa í Slóvakíu, Vincuk Viacorka, leiðtogi stjórnarandstöðuaflanna í Hvíta-Rússlandi, sem ræddi um einangrun Hvíta-Rússlands frá alþjóðasamfélaginu og benti á leiðir fyrir bæði NATO og ESB til að hafa áhrif á lýðræðisþróun í landinu. Þá héldu þingmennirnir Oliver Ivanovic og Alush Gashi frá Kosovo-héraði framsögur á fundinum og fjölluðu um ástand mála í héraðinu. Í framsögu Guðmundar Árna kom fram að þrátt fyrir að mikil umræða hefði verið um mansal og sölu barna og ungmenna á síðustu missirum hefði árangurinn við að stemma stigu við þessu böli látið á sér standa. Hvað barnasölu varðaði væri ljóst að misindismenn notfærðu sér sakleysi fórnarlamba sinna og væri erfitt að eiga við vandann þar eð markaðurinn, ef svo mætti að orði komast, væri afar dulinn. Meginorsakir ört vaxandi sölu barna og ungmenna mætti rekja til falls kommúnismans í Austur-Evrópu og sóknar óvandaðra aðila í skjótfenginn gróða. En ekki mætti gleyma því að fimmtán ár væru liðin frá þeim atburðum og enn örlaði ekkert á skilvirkum aðgerðum til að berjast gegn mansali og barnasölu. Sagði Guðmundur Árni að meginástæða þessa væri sú að alþjóðasamfélaginu hefði ekki tekist að meta umfang vandans á hlutlægan hátt og þar með hefði ekki skapast færi á að finna raunverulegar leiðir til að berjast gegn honum. Í framsögunni kom enn fremur fram að nauðsynlegt væri að tengja þennan vanda við öra hnattvæðingu og glæpastarfsemi á internetinu. Þá tengdi hann barnasölu einnig við aðra alþjóðlega glæpastarfsemi, svo sem eiturlyfjasmygl og vopnasmygl. Minnti hann áheyrendur á að þrátt fyrir að unnt væri að gera skýr skil á milli þeirra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu sem væru nokkurs konar byrjunarreitur þessa ferlis, þ.e. þar sem konum og börnum væri rænt eða þau tæld á fölskum forsendum, og ríkari landa Vestur-Evrópu sem væru áfangastaðurinn, þá væri ljóst að allir töpuðu á þessum glæp. Þá rakti Guðmundur Árni nokkrar staðreyndir um vandann og hugsanlegar leiðir til lausnar hans. Sagði hann NATO kjörinn vettvang til að fjalla um þessi mál, ekki síst í ljósi þess að um eiginlegt öryggismál væri að ræða. Þá fagnaði hann frumkvæði Bandaríkjamanna og Norðmanna innan NATO en þeir hefðu beitt sér fyrir umræðum um mansal á vettvangi NATO. Góður rómur var gerður að framsögu Guðmundar Árna.
    Í efnahagsmálanefnd voru til umræðu skýrsla hollenska þingmannsins Jos van Gennip um uppbyggingar- og þróunarstarf í Afganistan og Írak, skýrsla Bretans Michael Gapes og Bandaríkjamannsins John Tanners um efnahagslegar afleiðingar fólksflutninga og útvistunar, og skýrslu Bretans Harry Cohen um áhrif efnahagsþróunar Mið- og Austur-Evrópu á umhverfið. Fundinn ávörpuðu Julius Brocka, varaformaður fjárlaganefndar slóvaska þingsins, sem fjallaði hann um efnahagsþróun í landinu, Ronald N. Weiser, sendiherra Bandaríkjanna í Slóvakíu, og Mark Duffield, prófessor í Lancaster-háskóla í Englandi.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrsla kanadíska þingmannsins Pierre Claude Nolin um útbreiðslu kjarnavopna og skýrslu Þjóðverjans Lothars Ibrüggers um eldflaugavarnir og geimvopn. Fund nefndarinnar ávörpuðu Tibor Mikus, þingmaður og formaður Slovak Energy Forum, sem fjallaði um kjarnorkuvinnslu Slóvaka, og Robert Bell, aðstoðarforstjóri SAIC Brussels, sem fjallaði um þær ógnir sem NATO stafaði af eldflaugum.
    Efnt var til fimmta fundar samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins á vorfundinum í Bratislava. Ekki er um eins náið samstarf að ræða á þessum vettvangi líkt og í samstarfsnefnd NATO og rússneskra stjórnvalda en þrátt fyrir það töldu þingmenn að nokkur árangur hefði þegar orðið af starfinu og þá sérstaklega í því að ná meiri samhljóm NATO og Rússlands í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Tvö málefni lágu til grundvallar umræðum og voru þau valin af Rússum líkt og tíðkast hefur á þeim fundum sem þegar höfðu verið haldnir. Annars vegar var rætt um samstarfið milli NATO og Rússlands og þá öryggishagsmuni sem þar færu saman. Hins vegar var rætt um lærdóm sem draga mætti af aðgerðum í Afganistan til varnar hryðjuverkum. Rússneski þingmaðurinn Zavarzin sagði í framsögu sinni að ljóst væri að samstarf NATO og Rússlands hefði staðið af sér deilur þær sem átt höfðu sér stað í aðdraganda stækkunar Atlantshafsbandalagsins, sérlega m.t.t. stöðu Eystrasaltsríkjanna þriggja. Þrátt fyrir ágreiningsefni væri samstarfið farsælt og byggðist að mestu á því að hagsmunir beggja aðila færu saman í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Benti þingmaðurinn á að Pútín forseti hefði sagt nokkrum vikum áður að afstaða Rússlands til stækkunar NATO væri óbreytt og að báðir aðilar hefðu fullt frelsi til að reka þá öryggisstefnu sem þeim hentaði svo fremi að það stofnaði ekki sameiginlegum hagsmunum í Evrópu í voða. Þá ræddi Zavarzin um tiltekna þætti samstarfs NATO og Rússlands og benti á leiðir til úrbóta. Rússneski þingmaðurinn Viktor Ozerov hélt einnig framsögu og ræddi þar aðallega hryðjuverkavána sem herjaði á Vesturlönd. Sagði hann að Rússar ættu við mikinn vanda að glíma á þessu sviði og lagði áherslu á að ekkert eitt ríki gæti náð árangri í baráttunni við öfgahópa og hryðjuverkaöfl, skilvirkt samstarf yrði að koma til. Nokkrar umræður urðu um framsögur Rússanna tveggja og var mikill samhljómur í því að þær hefðu verið uppbyggilegar. Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna fundu þó að því að orðalag í þeirra garð hefði verið fjandsamlegt.
    Fundur stjórnarnefndarinnar í Bratislava var fyrsti fundur hennar með 26 fullgildum aðildarríkjum og var því fagnað í upphafi. Fyrsta dagskrármál voru málefni Úkraínu og sagði Douglas Bereuter, forseti þingsins, frá opinberri heimsókn sinni til landsins stuttu áður. Sagði hann úkraínsk stjórnvöld hafa lýst yfir einlægum áhuga sínum á að gerast aðilar að evrópskum stofnunum og þá NATO sérstaklega. Til að svo mætti verða yrðu stjórnvöld að hrinda í framkvæmd umfangsmiklum umbótum sem mundu verða afar óvinsælar í landinu. Sagði Bereuter að forsetakosningarnar næsta haust yrðu afar mikilvægur prófsteinn í þessu máli og tók undir ráðleggingar breska þingmannsins Peters Viggers um að mikilvægt væri að NATO-þingið sinnti eftirliti í kosningunum. Þá mæltist forsetinn til þess að stjórnarnefndin sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kæmi hversu ríka áherslu NATO-þingið legði á lýðræðislegar umbætur í landinu. Þá var umræðum beint að ástandi mála í Afganistan. Forsetinn sagði að í ljós hefði komið á síðustu mánuðum að afar erfiðlega hefði gengið fyrir NATO að útvega nægan mannskap og búnað til að sinna friðargæslu í Afganistan með fullnægjandi hætti. Mundi hann því rita ráðamönnum í NATO-ríkjunum öllum bréf þar sem farið væri fram á aðstoð. Góður rómur var gerður að þessu frumkvæði forsetans enda um alvarlegt vandamál að ræða. Þónokkrir fundarmanna vildu að efni bréfsins yrði einnig notað í yfirlýsingu sem samþykkt yrði á þingfundinum næsta dag en niðurstaðan varð sú að svo var ekki. Vildi forsetinn ekki að efni bréfsins yrði gert opinbert áður en stjórnvöld aðildarríkjanna fengju þau í hendur. Þá var mælst til þess að á næsta fundi stjórnarnefndarinnar mundu formenn landsdeilda upplýsa um hvað stjórnvöld í þeirra landi hefðu gert til að styðja við friðargæsluverkefnið í Afganistan.
    Næst var fjallað um skýrslu framkvæmdastjóra NATO-þingsins, Simon Lunn, um starfið á árinu. Vék Lunn nokkrum orðum að starfi Miðjarðarhafshópsins og sagði mikilvægi hans hafa aukist mikið á undanförnum missirum. Sagði hann að umfang starfsins ykist á næstunni enda væri Miðjarðarhafshópurinn orðinn einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi þingsins og svo yrði áfram. Þá ræddi Lunn stuttlega um samstarfið við Rússlandsþing en fulltrúar NATO-þingsins sem sótt hafa sameiginlega nefndarfundi í Moskvu hafa kvartað nokkuð undan skorti á samstarfi og nokkuð fjandsamlegu yfirbragði funda. Sagði Lunn að þessum ábendingum hefði verið komið á framfæri og að hann ætti von á umbótum á því sviði. Þá tók franski þingmaðurinn Michel Boucheron, formaður Miðjarðarhafshópsins, til máls og sagði stuttlega frá fundi hópsins í Marokkó í vetur. Mæltist hann til þess að stjórnarnefndin styddi ósk marokkóskra stjórnvalda um aukaaðild að NATO-þinginu. Slíkt mundi mælast mjög vel fyrir í öðrum íslamskum ríkjum í norðanverðri Afríku og í Stór-Miðausturlöndum. Miklar umræður urðu um þetta mál og voru skoðanir manna ólíkar. Sumum þótti að NATO-þingið væri að teygja sig alllangt frá megintilgangi sínum en aðrir töldu að ekki væri hægt að svara ósk Marokkómanna neitandi, slíkt væri ekki uppbyggilegt ef litið væri til mikilvægis Norður-Afríku til öryggis og stöðugleika í Evrópu. Stungið var upp á því að menn greiddu um tillöguna atkvæði en fallið frá því þar sem slíkt þótti of áhættusamt. Mæltist forsetinn til þess að skrifstofa NATO-þingsins ynni tillögur um úrlausn þessa máls fyrir næsta fund.
    Því næst ræddu formenn málefnanefndanna um nefndastarfið á næstunni. Athygli vakti að í þeim umræðum komu aftur upp spurningar um framgöngu Rússa á fundum NATO- þingsins og fjandsamlegt viðmót þeirra.
    NATO-þingið hélt upp á 50 ára starfsafmæli sitt árið 2004 og í því ljósi spurði framkvæmdastjórinn nefndarmenn hvort þeir hefðu einhverjar hugmyndir um hvernig standa ætti að því að fagna þeim áfanga. Sagði hann að ákveðið hefði verið að gefa út bók af þessu tilefni þar sem farið væri yfir helstu áfanga þingsins og starf þess. Voru menn á einu máli um að ársfundurinn í Feneyjum yrði góður vettvangur til að minnast hálfrar aldar farsæls samstarfs innan þingsins.
    Næst voru teknar fyrir óskir Makedóníu, Albaníu og Króatíu um að fá að sitja fundi stjórnarnefndarinnar. Framkvæmdastjórinn sagði hefðina vera þá að um leið og aðildarríki NATO hefðu undirritað bókanir um aðild nýrra ríkja hefðu þau getað sent fulltrúa sína á fund stjórnarnefndarinnar til áheyrnar. Vissulega væru þessi ríki að sækja um aðild en nokkuð væri þó enn í land. Ef orðið yrði við óskum þeirra fælist í því nokkur breyting á starfsháttum þingsins. Voru menn sammála um að fresta ákvörðun um þetta þar til eftir ársfundinn í Feneyjum.
    Því næst voru teknar fyrir nokkrar breytingar á þingsköpum NATO-þingsins. Flestar voru þær almenns eðlis en nokkrar umræður urðu um tvær tillögur, þ.e. hvort fjölga ætti varaforsetum og hvaða ferli færi í gang gæti forsetinn ekki lengur sinnt skyldum sínum. Samþykkt var að varaforsetar yrðu fimm og þá var samþykkt að ef forseti gæti ekki lengur gegnt skyldum sínum kæmi forsætisnefndin sér saman um hver varaforsetanna tæki að sér embættið uns kosið yrði aftur. Michel Boucheron bar þá fram tillögu um að Miðjarðarhafsnefndin yrði gerð formlega að málefnanefnd þingsins líkt og þær fimm sem fyrir væru. Var málinu frestað. Að lokum var fjallað um fundi þá sem fram undan væru.
    Þingfundur var haldinn þriðjudaginn 1. júní. Fundinn ávörpuðu Douglas Bereuter, forseti NATO-þingsins, Pavel Hrusovský, forseti slóvaska þingsins, Mikulas Dzurinda, forsætisráðherra Slóvakíu, Mohamed El-Baradei, framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, og Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO. Svöruðu hinir þrír síðastnefnd spurningum þingmanna. Að lokum voru breytingar á þingsköpum samþykktar og þinginu kynnt yfirlýsing stjórnarnefndarinnar um stöðu mála í Úkraínu frá því deginum áður.

d.     Ársfundur.
    Dagana 12.–16. nóvember var ársfundur NATO-þingsins haldinn í Feneyjum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Einar Oddur Kristjánsson, formaður, og Magnús Stefánsson, auk Andra Lútherssonar, ritara Íslandsdeildar. Magnús Stefánsson tók þátt í fundum varnar- og öryggismálanefndar og efnahagsnefndar og Einar Oddur Kristjánsson sótti fundi stjórnmálanefndar. Á fundi félagsmálanefndar var lögð fram skýrsla Guðmundar Árna Stefánssonar, varaformanns Íslandsdeildar, sem ekki átti heimangengt, um mansal og barnasölu og var meðfylgjandi ályktun samþykkt á þingfundi. Fundurinn í Feneyjum hélst í hendur við 50. ára starfsafmæli NATO-þingsins (áður Norður-Atlantshafsþingsins) og var því efnt til sérlegs fundar fulltrúa NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu, sem í sitja sendiherrar aðildarríkjanna og framkvæmdastjóri NATO. Fór sá fundur fram að morgni laugardagsins 13. nóvember. Bandaríkjamaðurinn Douglas Bereuter, forseti NATO-þingsins, lét af embætti sínu á fundinum og í hans stað var sjálfkjörinn Frakkinn Pierre Lellouche.
    Í stjórnmálanefnd voru til umræðu ályktun Hollendingsins Berts Koenders um samskipti ríkja Atlantshafsbandalagsins og Atlantshafsstrenginn, skýrsla sama þingmanns um Atlantshafsbandalagið (NATO) og beitingu herafla, skýrsla Þjóðverjans Ruprecht Polenz um öryggishugtak Evrópusambandsins og þýðingu þess fyrir ESB og NATO, og skýrsla Ítalans Marco Minniti um öryggismál suðausturhluta Evrópu og þýðingu öryggissamstarfs ESB og NATO. Að venju fluttu sérfræðingar og sérlegir gestir erindi á fundinum. Að þessu sinni ávörpuðu fundinn Maurizio Moreno, fastafulltrúi Ítalíu hjá Atlantshafsbandalaginu, sem ræddi einkanlega um horfur í öryggismálum Miðjarðarhafssvæðisins, áhrif öfgahópa í norðanverðri Afríku og viðbúnað NATO vegna ógna frá því svæði, og Claire Spencer, sérfræðingur í Miðausturlöndum við Chatham House stofnunina í Lundúnum. Hann ræddi um tengd málefni og þá sérstaklega færar leiðir til að stemma stigu við hryðjuverkaógninni sem frá Miðausturlöndum stafaði. Sunnudaginn 14. nóvember flutti Guiliano Amato, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og einn varaforseta stjórnarskrárnefndar ESB, ávarp þar sem hann ræddi hlutverk ESB í alþjóðlegum öryggismálum og samskipti ESB og NATO. Auk Amatos fluttu Ítalirnir Ferdinando Salleo, fyrrum sendiherra Ítalíu í Bandaríkjunum, og Stefano Silvestri, forseti ítölsku alþjóðamálastofnunarinnar (Istituto Affari Internazionali), erindi um öryggis- og varnarmálastefnu Ítalíu og framlag landsins til alþjóðamála.
    Í varnar- og öryggismálanefnd var til umræðu ályktun Pierre Lellouche um aðgerðir NATO í Afganistan og hún samþykkt og vísað til þingfundar. Þá var og á fundinum fjallað um skýrslu Pierre Lellouche um starfsemi bandalagsins í Afganistan, skýrslu bandaríska þingmannsins John Shimkus um möguleika aðildarríkjanna á að uppfylla skilyrði Prag-samþykktarinnar, og skýrslu Bretans John Smith um þróun hraðliðs NATO og samstarf ESB og bandalagsins á því sviði. Fundinn ávörpuðu Giampaolo De Paola aðmíráll, starfsmannastjóri varnarmálaráðuneytisins ítalska, sem fjallaði um framlag Ítala til verkefna bandalagsins, Michael G. Mullen aðmíráll, yfirmaður herstjórnar bandalagsins í Napólí, sem fjallaði um herstjórnarbreytingar NATO og öryggismálasamvinnu NATO og ESB, Julian Lindley- French, yfirmaður Geneva Centre for Security Policy, sem fjallaði í erindi sínu um sameiginlega stefnu Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum (ESDP), og Alessandro Politi, sérfræðingur í njósnamálum og meðhöndlun trúnaðarupplýsinga, sem fjallaði um upplýsingaþátt aðgerða bandalagsins í Afganistan og Írak.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu ályktunardrög Guðmundar Árna Stefánssonar um baráttuna gegn barnasölu í Evrópu. Voru drögin samþykkt með smávægilegum breytingum og send til þingfundar. Efnt var til almennra umræðna um skýrslu Guðmundar Árna og flutti formaður nefndarinnar, Alice Mahon, framsögu í fjarveru þingmannsins. Auk skýrslu Guðmundar Árna fjallaði nefndin um skýrslu þýska þingmannsins Verenu Wohlleben um stöðugleika í Kákasuslýðveldunum þremur. Að venju kallaði nefndin til sérfræðinga til að ræða tiltekin málefni á verksviði nefndarinnar. Þeir voru: Antonio D'Ali, aðstoðardómsmálaráðherra Ítalíu, sem ræddi um baráttu ítalskra stjórnvalda gegn mansali og barnasölu, Andrea Rossi, verkefnisstjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), sem fjallaði um hlutverk Sameinuðu þjóðanna og frjálsra félagasamtaka við að stemma stigu við barnasölu og það umhverfi sem þessir aðilar þyrftu að vinna í, Robert Menard, forseti samtakanna Fréttamenn án landamæra, sem fjallaði um hlutverk og stöðu fréttamanna í stríðsátökum, Rodney Pinder, yfirmaður samtaka um öryggi fréttamanna, sem fjallaði um fjölmiðlun á stríðstímum, erfiðar vinnuaðstæður fréttamanna og ýmsar siðferðislegar og faglegar spurningar sem stríðsfréttaritarar stæðu frammi fyrir. Sunnudaginn 14. nóvember voru flutt tvö erindi er tengdust stríðsátökunum í Írak. Corrado Dalzini, fyrrum yfirmaður hersveita Ítala í Írak, fjallaði um aðgerðir bandalagsins í landinu, og Ítalinn Pietro Del Sette, yfirmaður Miðausturlandadeildar mannúðarsamtakanna Movimondo, fjallaði um mannréttindamál í Írak í kjölfar aðgerða hersveita Bandaríkjamanna, Breta og annarra þjóða. Að lokum fjallaði Sabine Freizer, yfirmaður Kákasusdeildar International Crisis Group, erindi um aðgerðir rússneska hersins í Téténíu, pólitíska þróun mála í Kákasus almennt og alþjóðleg áhrif hins pólitíska óróa sem einkennt hefur svæðið frá endalokum Sovétríkjanna.
    Í ályktun Guðmundar Árna Stefánssonar kom fram að eðli og umfang vandans sem stafaði af barnasölu væri þess eðlis að ekkert eitt ríki gæti unnið að þessum málum án náins samráðs við önnur ríki. Um alþjóðlega glæpastarfsemi væri að ræða og krefðust viðbrögð náins samstarfs ríkisstjórna og þjóðþinga allra Evrópuríkja með það fyrir augum að móta stefnu og efla bæði landslög og alþjóðalög þannig að þau tækju mið af vandanum. Þá var áhyggjum lýst yfir vegna þess hve þróunin hefur verið ör á síðustu fáeinum árum og vandinn þar af leiðandi yfirgripsmikill, t.d. vegna nýrra flutningsleiða. Í ályktuninni var ítrekað að náið samstarf yrði að vera á milli þeirra ríkja sem flokka mætti sem „uppsprettu“ barnasölu, þeirra ríkja sem þjónuðu því hlutverki að vera milliliður og loks þeirra ríkja sem væru ákvörðunarstaður barna sem smyglað væri með ólöglegum hætti. Var frumkvæði ýmissa samevrópskra stofnana og samtaka í baráttunni gegn barnasölu fagnað, sérstaklega frumkvæði Evrópuráðsins og umræðum á þeim vettvangi um nauðsyn heildarsáttmála um bann við mansali og barnasölu. Brýnt væri hins vegar að alþjóðastofnanir forðuðust allan tvíverknað á þessu sviði og því væri rík nauðsyn á nánu samráði þeirra í milli. Í ályktuninni var einnig vikið að einstökum efnisþáttum og bent á leiðir til úrbóta hvað varðaði: löggjöf, aðstoð við fórnarlömb, samráðsferli innan lands og á alþjóðavettvangi, og þjálfun starfsfólks.
    Í efnahagsmálanefnd voru til umræðu skýrsludrög nefndarinnar um uppbyggingar- og þróunarstarf í Írak og Afganistan, þau samþykkt með nokkrum breytingum og send til þingfundar. Þá var rætt um samnefnda skýrslu Hollendingsins Jos van Gennip, skýrslu Bretans Harry Cohen um áhrif efnahagsþróunar Mið- og Austur-Evrópu á umhverfið, skýrslu tvímenninganna Michael Gapes frá Bretlandi og Bandaríkjamannsins John Tanners um efnahagslegar afleiðingar fólksflutninga og útvistunar (e. outsourcing), og skýrslu rússneska þingmannsins Victor Voitenko um efnahagslegar afleiðingar ópíumframleiðslu í Afganistan. Fund nefndarinnar ávörpuðu Luigi Paganetto, prófessor í alþjóðahagfræði við Tor Vergata- háskólann í Rómaborg, Guiseppe Bono, framkvæmdastjóri ítalska fyrirtækisins Fincantieri, Robert Skidelsky lávarður, prófessor í stjórnmálahagfræði við háskólann í Warwick í Bretlandi, og Eveline Herfkens, forstöðumaður Millennium-þróunarverkefnisins sem er á vegum Sameinuðu þjóðanna.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrsludrög kanadíska þingmannsins Pierre Claude Nolin um hömlur á útbreiðslu kjarnavopna og samnefnd skýrsla þingmannsins. Þá var enn fremur rætt um skýrslu Þjóðverjans Lothars Ibrüggers um eldflaugavarnir og geimvopn. Fund nefndarinnar ávörpuðu Antonio Catalano Di Melilli, forstöðumaður deildar afvopnunarmála og alþjóðlegra öryggismála hjá utanríkisráðuneyti Ítalíu, sem fjallaði um framlag Ítala til afvopnunarverkefna sem 8 helstu iðnríki heims (G-8) standa að, og Ítalinn Decio Ripandelli, forstöðumaður alþjóðasamskipta við International Centre for Genetic Engineering and Biotechnology, sem fjallaði um alþjóðlega samvinnu um öryggi í líftækniiðnaði.
    Sjötti fundur samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins var haldinn samhliða ársfundinum í Feneyjum. Meginefni fundarins var ástand mála í Kákasus og var mestum tíma umræðna varið í það mál auk þess sem fjallað var um baráttuna gegn hryðjuverkum. Tveimur sérlegum gestum var boðið að ávarpa fundinn, þeim Solomon Passy, utanríkisráðherra Búlgaríu, sem fór með formennsku í ráðherraráði Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) árið 2004, og bandaríska þingmanninum Alcee Hastings, nýkjörnum forseta ÖSE-þingsins. Passy fór í erindi sínu yfir helstu áhersluatriði Búlgara í formennskutíð þeirra og þá sérstaklega hvað stofnunin hefði gert til að stuðla að friðvænlegri framtíð í Kákasuslýðveldunum. Sagði hann að bæði NATO og ÖSE stefndu að sömu markmiðum á svæðinu og lagði áherslu á að ÖSE hefði tiltæk ýmis úrræði til að bæta ástand mála. Tiltók hann sérstaklega góðan árangur landamæraeftirlits á vegum ÖSE á landamærum Georgíu og Rússlands og íhlutun ÖSE til að koma viðræðum Armena og Asera um Ngorno-Karabakh á rekspöl. Þá ræddi Passy um hlutverk ÖSE til lausnar deilunni um Transdniestríu. Í ávarpi Alcee Hastings, forseta ÖSE-þingsins, kom fram að samvinna og samráð milli ÖSE, NATO og Rússlands væri afar mikilvægt, sérstaklega nú um stundir, ekki síst í ljósi sameiginlegra hagsmuna sem byggðust á friði í Kákasus. Nokkrar umræður urðu á fundinum og vörðu rússnesku þingmennirnir stefnu þarlendra stjórnvalda í Kákasus og hvöttu NATO-ríkin til að styðja sig einarðlega í baráttunni við þá harðsvíruðu öfgahópa sem hefðu skilið eftir blóði drifna slóð í Rússlandi að undanförnu.
    Stjórnarnefndarfundur var haldinn 15. nóvember. Að loknum hefðbundnum dagskrárliðum flutti framkvæmdastjóri NATO-þingsins, Simon Lunn, munnlega skýrslu um starfsemi þingsins á árinu. Fór hann í fyrstu yfir á hvaða landsvæðum áherslur þingsins lægju og sagði að framhald hefði verið á því að nefndir þingsins einbeittu sér að ríkjum Suðaustur-Evrópu, þ.m.t. ríkjum þeim sem kæmu til álita við næstu stækkunarlotu bandalagsins. Þá væri aukinn áhugi á Kákasussvæðinu, sérstaklega af hálfu félagsmálanefndar. Lunn sagði að hingað til hefði þingið ekki beint sjónum sínum að Mið-Asíuríkjunum sem NATO hefði aukið samstarf við á síðustu árum en á hinn bóginn gætti aukins áhuga nefndanna á að efla tengslin við þessi ríki, ekki síst í ljósi nálægðar þeirra við Afganistan, þar sem NATO væri nú að sinna einu af stærstu og mikilvægustu verkefnum sínum. Í því ljósi ítrekaði hann mikilvægi efnislegrar umræðu um málefni Stór-Miðausturlanda og undirstrikaði hið góða starf sem Miðjarðarhafsnefnd NATO-þingsins hefði sinnt á undanförnum árum við að efla samskipti við þjóðþing í löndum norðanverðrar Afríku og í Miðausturlöndum. Minntist hann á að Marokkó hefði þegar sóst eftir aukaaðild að þinginu og að Alsírbúar hefðu farið fram á áheyrnaraðild. Þá vék framkvæmdastjórinn að samskiptum NATO-þingsins við rússneska þingið en á síðustu fundum stjórnarnefndarinnar hafði gætt nokkurrar gagnrýni á Rússa fyrir framkomu þeirra á sameiginlegum fundum í Moskvu og þótti hún einkennast af fullmikilli andúð í garð fulltrúa NATO-þingsins. Sagðist Lunn vonast til að þetta ástand lagaðist við að frá og með næsta ári funduðu aðeins einstakar nefndir í Moskvu en ekki margar saman eins og á fyrri árum. Að loknu erindi framkvæmdastjórans tóku við almennar umræður og formenn málefnanefnda sögðu frá fundum, ferðum og annarri starfsemi sem ráðgerð væri á næsta ári. Næst á dagskrá var staða þeirra ríkja sem ekki eru fullgildir aðilar að NATO- þinginu. Fyrir nefndinni lá sú ákvörðun að veita þingi Marokkó annars vegar aukaaðild eða hins vegar að búa til sérstaka aukaaðild sem gilti um Miðjarðarhafsríkin þar sem þau gerðust aukaaðilar á öðrum forsendum en þau Evrópuríki sem hafa átt aukaaðild að þinginu. Miklar umræður urðu um þetta mál þar sem ýmis rök voru tínd til. Að lokum var atkvæðagreiðsla um málið í nefndinni. Aukaaðild Marokkóþings var felld og því ákveðið að búa til sérstaka aukaaðild fyrir Miðjarðarhafsríkin og fengu Marokkóar slíka aðild. Enn fremur var kosið um hvort Bosnía og Hersegóvína og Serbía og Svartfjallaland fengju aukaaðild að NATO-þinginu og voru báðar tillögur felldar. Því næst voru teknar fyrir framkomnar breytingartillögur við þingsköp – sem fjölluðu í megindráttum um starfsemi málefnanefndanna, fjölda nefndarmanna og annað slíkt – og voru þær allar samþykktar. Þá var vikið að fjármálum þingsins og fjárhagsáætlun næsta árs. Flutti gjaldkeri þingsins, Þjóðverjinn Lothar Ibrügger, framsögu þar sem fram kom að fjármál þingsins væru í góðu horfi. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 var samþykkt. Að lokum var rætt um þá fundi sem fram undan væru hjá NATO-þinginu, einkanlega stjórnarnefndarfundinn, sem haldinn verður í Reykjavík í apríl, og vor- og ársfundinn. Nokkrar umræður urðu um dagsetningar stóru fundanna þar sem það hefur farið nokkuð fyrir brjóstið á sumum að vorfundinn hefur oft borið upp á hvítasunnu. Engar breytingar voru þó gerðar en þeim tilmælum beint til landsdeilda að hafa helgidaga í huga þegar dagsetningar væru ákveðnar með löngum fyrirvara.
    Sem fyrr sagði var efnt til sérstaks fundar NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðsins með þátttöku fastafulltrúa aðildarríkja NATO, Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra bandalagsins, auk utanríkisráðherra Noregs, Jan Petersen. Þeir tveir síðastnefndu fluttu ávörp á fundinum ásamt þeim Douglas Bereuter, forseta NATO-þingsins, Giovanni Lorenzo Forcieri, formanni ítölsku landsdeildarinnar, og Paolo Costa, borgarstjóra Feneyja. Að framsögum loknum tóku við almennar umræður þar sem tæpt var á helstu málefnum á vettvangi NATO nú um stundir.
    Þingfundur var haldinn þriðjudaginn 16. nóvember. Var fundurinn með hefðbundnu sniði, þ.e. forseti þingsins og tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Giancarlo Galan, forseti Veneto-héraðs, Marcello Pera, forseti öldungadeildar ítalska þingsins, Minuto Rizzo, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, James L. Jones, yfirmaður sameinaðs herafla NATO í Evrópu (SACEUR), Roberto Antonione, varautanríkisráðherra Ítalíu, Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, og Elsa Papadimitriou, varaforseti VES-þingsins. Þá var Frakkinn Pierre Lellouche sjálfkjörinn forseti NATO-þingsins til næstu tveggja ára. Sex þingmenn voru í framboði til kjörs fimm varaforseta þingsins. Einn þeirra, Pierre Claude Nolin, var sá eini sexmenninganna sem var frá öðru Norður-Ameríkuríkjanna og því sjálfkjörinn. Þá var ákveðið á fundi stjórnarnefndarinnar að eitt sæti yrði frátekið fyrir fulltrúa nýju aðildarríkjanna og stóð þá valið milli Slóvakans Jozef Banás og Rúmenans Mihail Lupoi. Fóru leikar þannig að Banás hlaut fleiri atkvæði. Aðrir þingmenn voru sjálfkjörnir, þ.e. tyrkneski þingmaðurinn Vahit Erdem, Ítalinn Giovanni Lorenzo Forcieri, og hollenski þingmaðurinn Bert Koenders. Því næst samþykkti þingfundurinn breytingar á þingsköpum auk þess sem þjóðþingi Kasakstan var veitt áheyrnaraðild. Að lokum fluttu skýrsluhöfundar framsögur með ályktunum sem málefnanefndirnar höfðu lagt fram. Voru ályktanirnar allar samþykktar.

e.     Transatlantic Forum NATO-þingsins.
    Dagana 6. og 7. desember efndi NATO-þingið og Atlantshafsráð Bandaríkjanna, ásamt National Defence University, til fundar um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. – fundurinn nefnist Transatlantic Forum. Fundurinn fór fram í húsakynnum National Defence University (NDU) í McNair-virki í Washington og var þetta í þriðja sinn sem slíkur fundur var haldinn. Þátttakendur voru þingmenn nokkurra aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO-þingsins auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Magnús Stefánsson, auk Andra Lútherssonar ritara. Þá sótti Auðunn Atlason, sendiráðunautur við sendiráð Íslands í Washington D.C., fundinn. Segja má að megintilgangur Transatlantic Forum sé að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við þá aðila í bandaríska stjórnkerfinu sem næst eru ákvörðunartökuferlinu. Þátttaka hefur verið afar góð í þessum fundum og umræður hreinskiptar og upplýsandi. Fundurinn var skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem hátt hafði borið á undangengnum missirum voru tekin fyrir. Þar má nefna utanríkismálastefnu nýrrar Bandaríkjastjórnar, varnarviðbúnað og hernaðargetu, baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi, samstarf NATO og ESB, samstarfsríki NATO, staða mála í Afganistan og samskiptin yfir hafið – Atlantshafsstrengurinn. Tilhögun fundanna var sú að bandarískir sérfræðingar héldu framsögur um málefnin og sátu svo fyrir svörum þingmanna og annarra fundargesta.
    Framsögumenn á fundinum voru Stephen Flanagan, forstöðumaður National Strategic Studies hjá NDU, Henry E. Catto Jr., forstöðumaður Atlantic Council of the United States, Simon Lunn, framkvæmdastjóri NATO-þingsins, James Steinberg, forstöðumaður rannsókna í alþjóðamálum við Brookings-stofnunina, Robert Kagan, fræðimaður við Carnegie-stofnunina, Ian Brzezinski, varaaðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjastjórnar, Thomas E. McNamara, fræðimaður við George Washington háskóla, James Q. Roberts, tímabundinn varaaðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjastjórnar, Leo Michel, fræðimaður við NDU, Robert Beecroft, sendiherra og fræðimaður við US National War College, Ellen Laipson, forseti og framkvæmdastjóri Henry L. Stimson miðstöðvarinnar, Kurt Volker, deildarstjóri við þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna, Michael Parmly, fræðimaður við NDU, Joseph J. Collins, prófessor við National War College, og að lokum flutti Marc Grossman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrirlestur. Porter Goss, forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), hugðist ávarpa fundinn en forfallaðist á síðustu stundu. Greint verður hér frá helstu atriðum í ræðum framsögumanna.
    Í máli Jim Steinbergs kom fram að ljóst væri að ekki mætti búast við miklum breytingum á utanríkisstefnu Bandaríkjanna á nýju kjörtímabili George Bush Bandaríkjaforseta. Þó mætti greina aukinn skilning stjórnvalda á mikilvægi skilvirks fjölþjóðasamstarfs (e. effective multilateralism) sem í raun væri ákveðin viðurkenning á þeirri staðreynd að Bandaríkin, hversu öflug sem þau kynna að vera, þurfa á bandalagsríkjum að halda í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Sagði Steinberg neikvæða ímynd Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi standa bandarískri utanríkisstefnu fyrir þrifum og til að breyta því yrðu stjórnvöld að hverfa frá því að reka einungis þrönga sérhagsmuni Bandaríkjanna og taka í auknum mæli tillit til hagsmuna og forgangsröðunar annarra ríkja. Ekki væri nóg að krefjast þess að önnur ríki tækju hagsmuni og stefnumið Bandaríkjanna alvarlega heldur yrðu Bandaríkjamenn að gera slíkt hið sama fyrir aðra. Aðeins þannig geti Bandaríkin fengið á nýjan leik þann pólitíska stuðning sem þau nutu eftir 11. september 2001 og nauðsynlegur er til að alþjóðasamfélagið geti brugðist við þeim úrlausnarefnum sem blasa við. Þá ræddi Steinberg um Írak, sem hann sagði miðlægt í allri umfjöllun um alþjóðastjórnmál nú um stundir. Sagði hann að menn yrðu að átta sig á því að það þurfi samstarf margra þjóða til að ná árangri í landinu og ef Bandaríkjamönnum takist ekki að afla nauðsynlegs stuðnings mundi umheimurinn horfa fram á söguleg mistök.
    Robert Kagan fjallaði sömuleiðis um ásýnd og stefnumið nýrrar Bandaríkjastjórnar í augum umheimsins og var að mörgu leyti á svipuðu máli og Steinberg. Rifjaði hann upp að lengi hefði gætt þeirrar tilhneigingar Bandaríkjamanna að loka sig frá umheiminum og helst kjósa einhliða aðgerðir til framgangs sínum hagsmunum og því ætti sú umræða ekki að hafa komið á óvart á síðustu missirum. Lagði hann líka áherslu á að hernaðarlegt mikilvægi Evrópu hefði minnkað ört á síðustu áratugum og að í mörgum málum færu hagsmunir Evrópu og Bandaríkjanna ekki lengur saman. Taldi hann að nýrrar hugsunar væri þörf beggja vegna Atlantsála, Bandaríkjamenn yrðu að hætta að tortryggja Evrópusambandið og ESB-ríkin yrðu að koma til móts við Bandaríkin í málum sem augljóslega væru sameiginleg hagsmunamál. Mesta hættan væri þó sú að ESB mundi beina sjónum sínum æ meira inn á við og missa áhugann á umheiminum.
    Í ávarpi sínu fjallaði Ian Brzezinskis um breytingar sem orðið hafa á NATO í því skyni að auka aðgerðagetu bandalagsins. Rakti hann í stuttu máli stofnun hraðliðs NATO, uppstokkun á herstjórnarkerfi bandalagsins, ákvörðunina um aðgerðir utan svæðis (e. out of area operations), aðgerðir NATO í Afganistan og nú síðast ákvörðunina um að aðstoða við þjálfun öryggissveita Íraks. Sagði hann þessa gjörbreytingu sem orðið hefði á NATO á síðustu árum undirstrika mátt og megin bandalagsins, bæði til að laga sig að nýju ógnarumhverfi og ráðast í aðgerðir af nýjum toga. Brzezinski benti á mikilvægi verkaskiptingar herja NATO-ríkja og ítrekaði að herir yrðu að búa yfir réttri getu. Í lok máls síns lýsti hann áhyggjum Bandaríkjastjórnar yfir þeirri ákvörðun fimm NATO-ríkja, þ.e. Þýskalands, Frakklands, Belgíu, Spánar og Grikklands, að samþykkja á leiðtogafundinum í Istanbúl þjálfunarverkefni NATO í Írak, en undanskilja á síðari stigum fulltrúa sína í alþjóðastarfsliði NATO frá þátttöku í þessu sama verkefni. Sagði Brzezinski þetta vera hættulegt fordæmi sem græfi undan alþjóðastarfsliði NATO og aðgerðagetu bandalagsins.
    Thomas E. McNamara og James Q. Roberts fjölluðu um baráttuna gegn hryðjuverkum og viðbúnað Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins í erindum sínum. Í máli þeirra beggja kom fram að viðbúnaður hefði ekki verið nægilegur árið 2001 en að mikið vatn hefði runnið til sjávar síðan. Lögðu þeir til ýmsar færar leiðir svo auka mætti viðbúnaðinn enn frekar og sáu fyrir sér aukið hlutverk NATO í því tilliti. Aðrir framsögumenn fjölluðu um afmörkuð efni líkt og samskipti ESB og NATO, friðarsamstarf NATO og aðgerðir bandalagsins í Afganistan.
    Í hádegisverðarávarpi sínu við lok ráðstefnunnar lagði Marc Grossman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, áherslu á mikilvægi Atlantshafstengslanna. Sagði hann þá staðreynd að framkvæmdastjóri NATO var fyrsti gestur Bandaríkjaforseta eftir sigur hans í nýafstöðnum forsetakosningum undirstrika mikilvægi samvinnu Evrópu og Bandaríkjanna í huga bandarískra stjórnvalda. Að mati Grossman munu fjórir þættir ráða mestu um þróun alþjóðamála í framtíðinni. Í fyrsta lagi væri það hin hnattræna barátta gegn hryðjuverkum. Í öðru lagi væri það hnattvæðingin hvort sem litið væri til efnahagslegra, tæknilegra eða stjórnmálalegra þátta. Í þriðja lagi nefndi hann framrás markaðsbúskapar og lýðræðis, sem legði grunninn að friði og öryggi. Að síðustu ræddi Grossman um samstarf Evrópu og Bandaríkjanna í öryggis- og utanríkismálum og hvatti til aukins og áþreifanlegs samstarfs Evrópu og Bandaríkjanna í þremur fyrstnefndu málaflokkunum og ítrekaði mikilvægi þess að ríki væru fús til aðgerða í anda áherslunnar á skilvirkt fjölþjóðasamstarf.

f.     Nefndarfundir.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu fjölmarga nefndarfundi á árinu. Magnús Stefánsson fór á nefndarfund öryggis- og varnarmálanefndar í Washington D.C. og Norfolk í lok janúarmánaðar og á Transatlantic Forum NATO-þingsins í byrjun desember. Þá sótti Guðmundur Árni Stefánsson fund félagsmálanefndar í Moldóvu í febrúar og fundi Miðjarðarhafsnefndarinnar í Marokkó í apríl, í Napólí í júlí og í Máritaníu í október. Í tengslum við störf sín sem skýrsluhöfundur félagsmálanefndar sótti Guðmundur Árni einnig ráðstefnu um mansal í Trier í Þýskalandi. Einar Oddur Kristjánsson sótti sömuleiðis fundi Miðjarðarhafsnefndarinnar í Marokkó og Máritaníu. Þá sótti Guðmundur Árni Transatlantic Forum NATO-þingsins í Washington D.C., auk Magnúsar Stefánssonar og ritara.

Alþingi, 15. febr. 2005.



Einar Oddur Kristjánsson,


form.


Guðmundur Árni Stefánsson,


varaform.


Magnús Stefánsson.




Fylgiskjal I.

Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2004.

Vorfundur í Bratislava, 27. maí–1. júní:
     .      Yfirlýsing stjórnarnefndar um forsetakosningar í Úkraínu 31. október 2004.

Ársfundur í Feneyjum,12.–16. nóvember:
     .      Ályktun nr. 328, um barnasölu og mansal.
     .      Ályktun nr. 329, um aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan.
     .      Ályktun nr. 330, um vandann við uppbyggingarstarf að átökum í Afganistan og Írak loknum.
     .      Ályktun nr. 331, um aðgerðir til að bæta Atlantshafsstrenginn.
     .      Ályktun nr. 322, um hömlur gegn útbreiðslu kjarnavopna.


Fylgiskjal II.

Almennt um NATO-þingið.

    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum á þinginu fjölgað ört og hefur starfssvið þess því verið víkkað til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þá gætir aukinna samskipta NATO-þingsins við ríki norðanverðrar Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs með tilkomu Miðjarðarhafshópsins svonefnda. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægra ríkja (sjá nánar í b-lið).

a. Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu, en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins kleift að koma á framfæri áhuga og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á viðhorfum í ýmsum löndum og svæðum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þjóðþingin ákveða. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti. Fundir eru haldnir í aðildar- og aukaaðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd, og vísinda- og tækninefnd. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir og hópar eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkja.
    Þótt þingið sé óháð Atlantshafsbandalaginu hafa samskipti þingsins við bandalagið, sem fyrr segir, smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á vorfundum og ársfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert, til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe C æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og einnig Evrópusambandsins og loks fundi forustumanna í þinginu og Atlantshafsráðsins til gagnkvæmra skoðanaskipta.

b.     Aukaaðild og samskiptin við ríkin í austri.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantsála er þörf breytinga til aðlögunar að nýjum aðstæðum sem skapast hafa. Umfram allt kallar þetta á þróun fyrirkomulags í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. NATO-þingið (þá Norður-Atlantshafsþingið) hóf tilraunir til að koma á samskiptum við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu árið 1987. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1990, á ársfundi í Lundúnum, að samskiptum þessum var komið í fastara form er þjóðþing Búlgaríu, Tékkóslóvakíu (nú Tékklands og Slóvakíu), Ungverjalands, Póllands og fyrrverandi Sovétríkjanna (nú Rússlands) fengu aukaaðild að þinginu. Síðan þá hafa þjóðþing Albaníu, Georgíu, Hvíta- Rússlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Moldóvu, Rúmeníu, Slóveníu, Úkraínu, Króatíu, Armeníu og Aserbaídsjan fengið aukaaðild að þinginu. Sjö þessara ríkja eru nú fullgildir aðilar að NATO og þá NATO-þinginu einnig. En auk þessara Mið- og Austur-Evrópuríkja eiga Austurríki, Sviss, Svíþjóð og Finnland aukaaðild að NATO-þinginu. Mikilvægi aukaaðildarinnar felst í því að hún veitir löggjöfum ríkjanna tækifæri til að taka virkan þátt í störfum þingsins.
    Þingið hefur einnig átt frumkvæði að öðrum áætlunum er varða Mið- og Austur-Evrópu. Í samræmi við áætlun sem sett var fram árið 1991 af tveimur bandarískum þingmönnum og nú fyrrverandi forsetum Norður Atlantshafsþingsins, þeim Charlie Rose og William V. Roth Jr., beinir NATO-þingið nú kröftum sínum í ríkum mæli að því að efla þróun þingræðis í Mið og Austur Evrópu. Meginþátturinn í Rose Roth áætluninni er röð námsstefna og ráðstefna þar sem fjallað er um sérstök vandamál Mið og Austur Evrópulanda þar sem reynsla og þekking þingfulltrúa kemur að gagni og þingið getur lagt mikið af mörkum vegna sérstöðu sinnar sem fjölþjóðlegur umræðuvettvangur. Margar þessara námsstefna fjalla beint eða óbeint um samskipti hers og borgaralegra stjórnvalda, einkum um lýðræðisleg yfirráð yfir herafla. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og sérþekkingu sem nauðsynleg er til þess að tryggja virka þátttöku þjóðþinga í gerð varnaráætlana og taka ákvörðun um fjárveitingar til varnarmála og herafla. NATO-þingið býður einnig starfsmönnum frá löndum Mið og Austur Evrópu til stuttrar rannsóknardvalar (í þrjá til sex mánuði) á skrifstofu þingsins í Brussel. Einnig hefur verið komið á laggirnar þjálfunaráætlun til að starfslið þjóðþinganna geti öðlast beina reynslu af starfsemi alþjóðlegra stofnana. Af margvíslegri starfsemi NATO-þingsins sem að framan er lýst má vera ljóst að þingið hefur bætt nýrri vídd við hefðbundið hlutverk sitt að hlúa að Atlantshafstengslunum.

c.     Fulltrúar á NATO-þinginu og embættismenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 248 þingmenn frá aðildarríkjunum 26. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Sendinefndir Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands eru skipaðar 18 þingmönnum hver. Kanada, Pólland, Spánn og Tyrkland senda 12 fulltrúa hvert ríki. Frá Rúmeníu koma 10 fulltrúar og frá Búlgaríu sex. Frá Belgíu, Grikklandi, Hollandi, Portúgal, Tékklandi og Ungverjalandi koma sjö frá hverju ríki. Danmörk, Slóvakía og Noregur senda fimm fulltrúa, Litháen fjóra og Ísland, Lúxemborg, Lettland og Eistland þrjá. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 59 þingmenn frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Hafa þeir þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Embættismenn þingsins eru sjö og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi (forseti og fimm varaforsetar). Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra landsdeilda aðildarríkja NATO, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn.

d.     Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um kostnað annan en herkostnað. Til að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig framlag til þingsins ár hvert.

Fylgiskjal III.



NATO-ÞINGIÐ

Kemur saman á þingfundi tvisvar á ári, á vorfundi og ársfundi.


Sendinefndir aðildarríkja


26 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins,
248 þingmenn.

Fjöldi þingsæta er í hlutfalli
við fólksfjölda.


Aukaaðilar


Frá Albaníu, Armeníu, Aserbaídsjan, Austurríki, Króatíu, Finnlandi, Makedóníu, Georgíu, Moldóvu, Rússlandi, Sviss, Svíþjóð og Úkraínu.

Hafa ekki atkvæðisrétt.


Framkvæmdastjórn


Kosin árlega.

Forseti, fimm varaforsetar,
gjaldkeri, framkvæmdastjóri.


Stjórnarnefnd


Formenn sendinefnda.
Formenn nefnda.

Hvert land hefur eitt atkvæði.

Kemur saman þrisvar á ári.


Samstarfsnefnd NATO-þingsins og rússneska þingsins


Formenn sendinefnda.

Hvert land hefur eitt atkvæði.

Kemur saman tvisvar á ári.


Nefndarfundir


Fimm nefndir:
Félagsmálanefnd.
Varnar- og öryggismálanefnd.
Efnahagsnefnd.
Stjórnmálanefnd.
Vísinda- og tækninefnd.
Miðjarðarhafshópur.*

Taka saman, ræða og greiða atkvæði um skýrslur og ályktanir.

Mynda undirnefndir til að rannsaka afmörkuð mál og afla upplýsinga.

*Miðjarðarhafshópurinn hefur ekki formlega stöðu málefnanefndar.


Þingfundir


Greiða atkvæði um tillögur nefndanna fimm og
um fjárhagsáætlun.

Ræða afmörkuð málefni
sem ofarlega eru á baugi.

Hlýða á ávörp gesta.

Með þátttöku auka- og áheyrnaraðila.


Önnur starfsemi


Árleg kynnisferð til að
skoða hernaðarmannvirki
og búnað.

Námsstefnur og hringborðsumræður innan Rose Roth áætlunarinnar.