Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 572. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 860  —  572. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2004.

I.    Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES- samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994..Með gildistöku EES-samningsins varð nefndin að formi til tvískipt þar eð Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Eins og önnur aðildarríki á Alþingi fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og Evrópusambandsins (ESB), gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar hittist fyrir hvern fund og á milli funda ef þörf er á. Hún undirbýr starf nefndarinnar, hefur umsjón með verkefnum og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki, en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Í EES-samningnum er gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd EES (95. gr. samningsins). Í hinni sameiginlegu þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá hinum þremur EES-aðildarríkjum EFTA (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur fyrir ákveðin málefni hverju sinni, stendur fyrir skýrslugerð og ályktar. Skýrslugerð um hvert mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingsmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð, en nefndin lætur venjulega frá sér ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB koma á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

II.    Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í upphafi árs 2004 skipuðu Íslandsdeildina eftirfarandi þingmenn: Gunnar Birgisson, formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Birkir J. Jónsson, varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki sjálfstæðismanna, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn: Birgir Ármannsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Jónína Bjartmarz, þingflokki framsóknarmanna, Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki sjálfstæðismanna, og Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 5. febrúar 2004 tók Bryndís Hlöðversdóttir sæti aðalmanns í stað Össurar Skarphéðinssonar. Íslandsdeildin var endurkjörin í upphafi 131. þings hinn 1. október og voru formaður og varaformaður endurkjörnir á fyrsta fundi nefndarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs. Deildin hélt tvo fundi á árinu.

III.    Nokkur atriði úr starfi Íslandsdeildar og þingmannanefnda EFTA og EES árið 2004.
    Gunnar Birgisson var formaður þingmannanefndar EFTA árið 2004 og bar því höfuðábyrgð á starfi nefndarinnar. Hann var jafnframt varaformaður þingmannanefndar EES, en fulltrúi Evrópuþingsins fór með formennsku á árinu. Bryndís Hlöðversdóttir kom ný inn í starf framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
    Stækkun ESB og EES settu vissulega svip sinn á starf nefndanna á árinu og voru mál þessu tengd nokkuð til umræðu, sérstaklega fyrri hluta árs. Þingmannanefndirnar fjölluðu töluvert um áætlun ESB um innri markaðinn 2003–2006, sérstaklega fyrirhugaða lagasetningu á einstökum sviðum áætlunarinnar. Nokkuð var fjallað um málefni þróunarsjóðs EFTA, en segja mætti að aðkoma að ákvarðanatöku og lýðræðisleg vinnubrögð hafi verið fyrirferðarmest í umræðum þingmannanefndar EES á árinu. Tvær skýrslur voru teknar til umfjöllunar um þessi málefni, annars vegar skýrsla um hlutverk sveitarstjórna í ESB og á Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar um hlutverk þingmanna þegar kemur að mótun ákvarðana í EES. Í báðum tilfellum taldi nefndin að ýmissa úrbóta væri þörf og leggur fram tillögur þar að lútandi. Þá var fjallað um innleiðingu ESB-gerða í löggjöf aðildarríkjanna og um þátttöku EFTA/EES-ríkja í Lissabon-ferlinu.
    Samskipti við þriðju ríki voru ofarlega á baugi í starfi þingmannanefndar EFTA. Mikið var lagt upp úr umræðum um þau mál á fundum með ráðherrum á árinu. Þingmannanefndin lagði áherslu á gerð fríverslunarsamninga við Japan, Mercosur, Suður-Kóreu, Taíland og Bandaríkin. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að ljúka samningum við Kanada og við lönd við Miðjarðarhaf.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA taldi mikilvægt að eiga fundi með fulltrúum þjóðþinga Eystrasaltsríkjanna vegna inngöngu þeirra í ESB og voru slíkir fundir haldnir í febrúar 2004. Var EES-samningurinn rækilega kynntur á þessum fundum og aðkoma EFTA/ EES-ríkjanna að mótun löggjafar ESB og helstu hagsmunamál. Þá var rætt um hvernig gott samstarf í Evrópumálum þar sem hagsmunir fara saman geti nýst bæði EFTA/EES-ríkjunum og Eystrasaltsríkjunum. Framkvæmdastjórnin fór jafnframt til fundar við þingmenn í Búlgaríu og Rúmeníu til að kynna EES og ræða Evrópumál. Eru fundir af þessu tagi orðnir mikilvægur liður í starfi framkvæmdastjórnarinnar.
    Formaður þingmannanefndar EFTA lagði áherslu á að nefndin ætti að sýna frumkvæði og taka upp mál sem væru mikilvæg í viðskiptalegu tilliti þó að þau hefðu ekki áður verið rædd á vettvangi EFTA. Hann minnti á að það væri hlutverk þingmannanefndarinnar að sýna pólitísk hugrekki, að ögra ráðherrunum og hvetja til umræðu um erfið mál. Að tillögu formanns var því ákveðið að hefja umfjöllun um viðskipti með landbúnaðarvörur. Landbúnaðarmál eru orðin mikilvægur hluti af milliríkjasamningum á sviði viðskipta og vildi nefndin skoða þennan málaflokk með stefnumótunarvinnu í huga. Málið var tekið til umræðu á þremur fundum á árinu og voru fengnir fyrirlesarar til að fjalla um landbúnaðarmál, en jafnframt fengu landsdeildir upplýsingar frá sínum ráðuneytum sem voru skoðaðar í nefndinni. Á síðasta fundi ársins, eftir ítarlega umfjöllun, samþykkti þingmannanefndin tímamótaályktun um landbúnaðarmál sem hún beindi til ráðherraráðsins. Beðið er nú viðbragða ráðherranna. Fjallað er um efni ályktunarinnar síðar í ársskýrslunni.
    Þingmannanefnd og ráðgjafanefnd EFTA héldu sameiginlega ráðstefnu í Reykjavík 21. október í tilefni af tíu ára afmæli EES-samningsins. Á ráðstefnunni var fjallað um hlutverk EFTA og EES í nýrri Evrópu. Ráðstefnan var um margt mjög gagnleg. Hún var haldin í kjölfar þess að tíu ný aðildarríki gengu í ESB, nýtt Evrópuþing hafði verið kjörið og ný framkvæmdastjórn ESB tilnefnd. Ráðstefnan gaf þátttakendum tækifæri til að kryfja þau viðfangsefni sem EES-samstarfið stendur frammi fyrir og ræða um hvernig megi takast á við þau. Ekki var komist að neinni ákveðinni niðurstöðu, enda ekki ætlunin, en þátttakendur náðu að skilgreina betur verkefni EFTA/EES-ríkjanna. Þingmannanefndin þarf að vinna úr þeim umræðum sem fram fóru og nota sem hugmyndabanka í sínu starfi.
    Venja er að Íslandsdeild haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem næst tekur við forustu innan ESB, en nýtt forusturíki tekur við á sex mánaða fresti. Á árinu hélt deildin fundi með fulltrúum Evrópunefndar hollenska þingsins. Á slíkum fundum kynnir deildin helstu þætti EES-samstarfsins. Sérstök áhersla er lögð á stöðu Íslands og gagnkvæmar skuldbindingar ESB og EFTA/EES-ríkjanna, auk þess sem farið er yfir helstu þætti Evrópuumræðunnar á Íslandi, sérstaklega afstöðu Íslendinga til sjávarútvegsstefnu ESB. Jafnframt eru önnur málefni tengd EES-samningnum rædd eftir því sem tími gefst til. Því miður náðist ekki að halda fund með Evrópunefnd þingsins í Lúxemborg sl. haust áður en þeir tóku við formennsku í ESB um áramótin, þar sem tími sem hentaði báðum aðilum fannst ekki.

V.    Yfirlit yfir fundi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu og frásagnir af þeim.
    Starfsemi nefndanna var með reglulegum hætti á árinu 2004. Þingmannanefnd EES hélt tvo fundi og þingmannanefnd EFTA fjóra fundi, auk tveggja funda með ráðherraráði EFTA. Til viðbótar var haldinn einn samráðsfundur með ráðgjafanefnd EFTA, en í henni sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Fjórar skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Þingmannanefnd EFTA samþykkti eina ályktun. Hér á eftir verður gerð grein fyrir fundum þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu.

i.    45. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 73./41. fundur þingmannanefndar EFTA, sem haldnir voru í Brussel 29. mars 2004.
    Fundina sátu Gunnar Birgisson, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Björgvin G. Sigurðsson, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Aðalmálið á dagskrá fundar þingmannanefndar EFTA var samstarf við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga. William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, gaf greinargott yfirlit yfir stöðu mála og ræddi framtíðarmöguleika á þessu sviði. Kom m.a. fram að samningur við Kanada var enn í biðstöðu. Hann sagði frá því að í lok janúar 2004 komu EFTA-ríkin fram með yfirgripsmikla tillögu til að reyna að ná samningum um skipasmíðar, en að viðbrögð Kanadamanna við henni væru mjög varfærnisleg og að ekki mætti búast við frekari viðbrögðum fyrr en eftir kosningar í Kanada sem voru fyrirhugaðar um haustið. Hann undraðist afstöðu Kanadamanna, þar sem skipasmíðar í Kanada og Noregi væru ekki í samkeppni, enda um ólíkar vörur að ræða. Hann taldi síðasta tilboð EFTA mjög sanngjarnt. Rossier sagði að líklega tækist að klára samninga við Egyptaland og Túnis um vorið og skrifa ætti undir fríverslunarsamning við Líbanon á ráðherrafundi EFTA í júní. Hann vonaðist til að ljúka mætti samningum við SACU (Southern African Customs Union: Botsvana, Lesótó, Namibía, Suður-Afríka, Svasíland) fyrir árslok 2004, en þetta væri í fyrsta skipti sem EFTA-ríkin semdu við ríkjahóp. Hann sagði að væntanlega hæfust viðræður við Suður-Kóreu í lok 2004 eða í byrjun 2005. Kannað yrði með viðræður við Sýrland þegar það land hefði skrifað undir samstarfssamning við ESB. EFTA-ríkin væru að skoða möguleikann á samningi við Bandaríkin. Í máli Rossier mátti greina að landbúnaðarmál væru að verða mun fyrirferðarmeiri í samningaviðræðum en áður hefði verið, enda þau mál mikilvæg fyrir mörg þeirra ríkja sem nú væri rætt við. Fram kom að Japan hefði ekki áhuga á fríverslunarsamningi við EFTA sem stæði, því þar væri nú verið að einbeita sér að samningum við nágrannaríki. Guðlaugur Þór Þórðarson fagnaði fréttum af væntanlegum viðræðum við Suður-Kóreu og lagði áherslu á að setja Bandaríkin í forgang. Björgvin G. Sigurðsson fjallaði um samninginn við Egypta og sérstaklega þau vandamál sem upp höfðu komið í tengslum við fjárhagsaðstoð og verslun með kartöflur.
    Aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, Öystein Hovdkinn, sem hafði nýlega tekið til starfa kom í fyrsta skipti á fund nefndarinnar. Hann fjallaði um stofnun nýrrar skrifstofu til að hafa umsjón með fjárframlögum EFTA/EES-ríkjanna til fátækari svæða ESB (Financial Mechanism Office).     

ii.    22. fundur þingmannanefndar EES 26.–27. apríl, 45. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA 27. apríl og fundur Íslandsdeildar með Evrópunefnd hollenska þingsins í Haag 28. apríl 2004.
    Fund þingmannanefndar EES sátu Gunnar Birgisson, Birkir J. Jónsson og Björgvin G. Sigurðsson, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. Fundinn sóttu embættismenn frá ESB og EFTA til að ræða þróun EES-samningsins og viðbrögð framkvæmdarvaldsins við ályktunum síðasta fundar þingmannanefndarinnar. Joseph Lynch sendiherra var fulltrúi utanríkisráðherra Írlands á fundinum. Hann fagnaði því að tekist hefði að gera ráðstafanir til að stækkun ESB og EES gæti farið fram á sama tíma 1. maí. Hann fagnaði jafnframt þróunarsjóði EES. Þá vék hann að því að EFTA-ríkin stæðu sig mjög vel hvað varðar innleiðingu gerða ESB í lög. Hann sagði að enn væri eftir að taka ákvörðun um þátttöku EFTA/EES- ríkjanna í starfi stofnana ESB um matvælaöryggi og flugöryggi og vonaðist til að hægt yrði að ganga frá málinu fljótlega. Hann taldi mikilvægt að taka til endurskoðunar skilyrði fyrir viðskiptum með landbúnaðarvörur milli Íslands og ESB. Þá minntist Lynch á áhyggjur EFTA/EES-ríkjanna vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB um að hefja rannsókn á viðskiptum með eldislax. Hann ræddi áframhaldandi þátttöku EFTA/EES-ríkjanna í Lissabon-ferlinu og tillögu framkvæmdastjórnar ESB að nýrri löggjöf á sviði þjónustuviðskipta, en hún mun skipta miklu máli fyrir innri markaðinn. Nikolaus prins af Liechtenstein lagði mjög jákvætt mat á þróun EES-samningsins. Hann sagði að samningurinn væri ótrúlega vel á sig kominn og uppfyllti þær kröfur sem til hans væru gerðar, þ.e. hann tryggði þátttöku EFTA/EES-ríkjanna í innri markaði ESB. Hann minntist á nýlegar ákvarðanir fastanefndar EES um að taka inn í samninginn mikilvægar gerðir, m.a. á sviði fjarskipta. Von væri m.a. á ákvörðun vegna samkeppnislaga og reglna um sameiningu fyrirtækja. Fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB mætti ótrúlega illa undirbúinn á fundinn og gat í raun ekkert lagt fram til umræðunnar. Hannes Hafstein fór yfir málefni ESA og stöðu EFTA/EES-ríkjanna gagnvart innleiðingu gerða, en þau mál voru almennt í mjög góðu lagi.
    Tvær skýrslur voru teknar til umfjöllunar og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Í fyrsta lagi var tekin til umræðu skýrsla um ársskýrslu hinnar sameiginlegu EES-nefndar fyrir árið 2003. Í öðru lagi var tekin fyrir skýrsla um hlutverk sveitarstjórna í ESB og á Evrópska efnahagssvæðinu. Bryndís Hlöðversdóttir var meðhöfundur skýrslunnar, en í fjarveru hennar kynnti Björgvin G. Sigurðsson skýrsluna. Í ályktuninni sem samþykkt var á fundinum er m.a. harmað að ekki skuli vera gert ráð fyrir samstarfi sveitarstjórna á EES-svæðinu í EES- samningnum, lagt er til að sveitarstjórnarnefnd verði sett á laggirnar innan EFTA og að praktísk lausn verði fundin til að koma á óformlegu samráði á milli sveitarstjórnanefndar EFTA og sveitarstjórnanefndar ESB.
    Þingmannanefnd EES tók að beiðni norsku sendinefndarinnar fyrir ályktunardrög um bann ESB við notkun CO-gass við pökkun á fersku kjöti. Í ályktun sem var samþykkt var m.a. lagt til að Noregur fengi aðlögunartíma í tengslum við bann sem tók gildi á Evrópska efnahagssvæðinu 1. júlí sl.
    Fund með fulltrúum Evrópunefndar hollenska þingsins sóttu formaður og ritari, en Holland tekur við forustu í ESB um áramótin. Þrír hollenskir þingmenn sátu fundinn, allir miklir sérfræðingar í Evrópumálum. Gunnar Birgisson reifaði ýmis mál, m.a. stækkun EES, sjávarútvegsstefnu ESB, frjálsa fólksflutninga og frjáls þjónustuviðskipti, m.a. málefni starfsmannaleigna.

iii.    47. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 74./42. fundur þingmannanefndar EFTA, 5. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðgjafanefnd EFTA og 30. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA sem haldnir voru í Montreux 24.–25. júní 2004.
    Fundina sátu Gunnar Birgisson, Bryndís Hlöðversdóttir, Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson og Sigurður Kári Kristjánsson, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. Gunnar Birgisson stýrði öllum fundum sem formaður þingmannanefndar EFTA.
    Franz Fischler úr framkvæmdastjórn ESB kom á fund þingmannanefndarinnar og ræddi landbúnaðarstefnu sambandsins, þær breytingar á stefnunni sem fyrirhugaðar eru frá 2005 og samningaviðræður á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á sviði landbúnaðar. Þá svaraði hann spurningum um sjávarútvegsstefnu sambandsins. Hann taldi að þörf væri á sterkri sameiginlegri sjávarútvegsstefnu og sagði aðspurður að ekki stæði til að færa forræði á þessu sviði aftur til aðildarríkjanna. Hann sagði ólíklegt að hægt yrði að fá undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistefnu, enda þyrfti samþykki allra aðildarríkja. Ljóst væri að kvótar væru ákveðnir í Brussel, en framkvæmd stefnunnar væri fyrst og fremst í höndum aðildarríkja. Réttur annarra ESB-ríkja til veiða byggðist á sögulegum forsendum og því yrði ekki aukin ásókn erlendra skipa innan íslenskrar landhelgi ef Ísland gerðist aðili að ESB.
    Nefndin fékk yfirlit yfir nýgerða tvíhliða samninga Sviss við ESB. Um var að ræða níu málefnapakka á eftirfarandi sviðum: Skattlagning á sparifé (einn mikilvægasti pakkinn), barátta gegn fjársvikum (aukið samstarf í dómsmálum, hert barátta gegn peningaþvætti), Schengen/Dublin-samningar (þátttaka með svipuðu sniði og hjá Íslandi og Noregi), unnar landbúnaðarvörur (samningnum svipar til viðauka þrjú við EES-samninginn og gerir ráð fyrir auknum markaðsaðgangi), umhverfismál (þátttaka Sviss í Umhverfisstofnun Evrópu), tölfræði, fjölmiðlar og menntamál/æskulýðsmál (þátttaka í áætlunum á öllum þessum sviðum), eftirlaunamál (aðgerðir til að forðast tvísköttun).
    Haldinn var sameiginlegur fundur þingmannanefndar EFTA og ráðgjafanefndar EFTA. Á fundinum kynnti starfsmaður EFTA-skrifstofunnar skýrslu um tillögu framkvæmdastjórnar ESB um þjónustuviðskipti. Fjallað var sérstaklega um starfsmannaleigur og hugsanleg áhrif á vinnumarkaðinn.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með ráðherrum voru á dagskrá samskipti við þriðju ríki, þ.e. gerð fríverslunarsamninga, og málefni EES. Þegar kemur að gerð nýrra fríverslunarsamninga í náinni framtíð vildi nefndin leggja áherslu á Japan, Mercosur, Suður-Kóreu, Taíland og Bandaríkin. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að ljúka samningum við Kanada og við lönd við Miðjarðarhaf. Þá tilkynnti nefndin ráðherrum að hún hygðist skoða viðskipti með landbúnaðarvörur á næstu missirum og taka þau mál upp við ráðherrana. Hvað EES-mál varðar var rætt m.a. um verkefni sem EFTA-ríkin standa frammi fyrir í kjölfar stækkunar EES, málefni innri markaðarins, nágrannastefnu ESB og Lissabon-ferlið. Þá var rætt lítillega um aðkomu þinganna að afgreiðslu EES-mála, sérstaklega mismunandi vinnubrögð í Noregi og á Íslandi.

iv.    34. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES, 23. fundur þingmannanefndar EES, 49. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 75./43. fundur þingmannanefndar EFTA sem haldnir voru í Brussel 22.–24. nóvember 2004.
    Fundina sátu Gunnar Birgisson, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Lúðvík Bergvinsson, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. Gunnar Birgisson stýrði öllum fundum sem formaður þingmannanefndar EFTA.
    Þetta var fyrsti fundur nefndarinnar eftir Evrópuþingskosningar og voru því mörg ný andlit Evrópuþings megin. Diana Wallis (bresk, frjálslynd) sem tók virkan þátt í starfi nefndarinnar á síðasta kjörtímabili hafði tekið við formennsku í sendinefnd Evrópuþingsins. Varaformenn sendinefndarinnar eru Ewa Hedkvist Petersen (sænskur jafnaðarmaður) og Jens Peter Bonde (frá Júní-hreyfingunni í Danmörku). Sú nýbreytni er í starfi sendinefndarinnar að hún annast núna EES-samstarfið og jafnframt tvíhliða samskipti við Ísland, Noreg og Sviss, en áður voru tvær nefndir í Evrópuþinginu, önnur fyrir EES-samstarfið og hin fyrir tvíhliða samskipti við EFTA-ríki.
    Í umræðum með fulltrúum EES-ráðsins og hinnar sameiginlegu EES-nefndar var rætt um möguleika þess að formaður og varaformaður þingmannanefndar EES sætu fundi EES-ráðsins. Bent var á að forseti Evrópuþingsins situr fundi ráðs ESB og að slíkt fyrirkomulag gæti auðveldað þingmönnum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Forseti sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem jafnframt var fulltrúi forseta ráðsins á fundinum, tók ekki illa í hugmyndina og sagðist reiðubúinn að ræða hana þó að hann gæti engu lofað. Fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB gat ekki tjáð sig um tillöguna.
    Tvær skýrslur voru teknar til umfjöllunar og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Önnur fjallaði um innrimarkaðsáætlun ESB 2003–2006 og EES. Í ályktuninni er tæpt á mörgum atriðum áætlunarinnar, og m.a. hvatt til þess að áfram verði unnið að auknu frelsi í þjónustuviðskiptum en jafnframt lögð áhersla á verkalýðsmál og neytendavernd.
    Hin skýrslan fjallaði um mótun ákvarðana í EES: hlutverk þingmanna. Í ályktuninni eru EES/EFTA-ríkin og þing þeirra m.a. hvött til þess að auka þátttöku þingmanna í umfjöllun um EES-lagafrumvörp, þing EFTA-ríkjanna eru hvött til að auka samskipti sín við þjóðþing aðildarríkja ESB og þingmannanefnd EFTA er hvött til að taka aftur upp samband við COSAC með það fyrir augum að fá einhvers konar aðgang að því samstarfi.
    Ákveðið var að frumkvæði Íslandsdeildar að taka umhverfismál og EES til skoðunar á næsta fundi nefndarinnar sem haldinn verður í apríl 2005, en jafnframt verður fjallað um ársskýrslu EES og um þjónustuviðskipti.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA gaf álit sitt á fjárhagsáætlun ESA fyrir 2005. Í álitinu var það harmað að EFTA- og ESA-skrifstofurnar skyldu ekki hafa samvinnu um nýtt húsnæði. Þá var lýst stuðningi við kröfur sem ESA hafði sett fram um launahækkanir og jafnframt lýst áhyggjum vegna tafa á afgreiðslu mála á sviði ríkisstyrkja. Framkvæmdastjórnin ræddi jafnframt um landbúnaðarmál á grundvelli pappíra sem hver sendinefnd hafði lagt fram og var ákveðið að taka málið upp við ráðherrana í desember.
    Nýr yfirmaður þróunarsjóðs EFTA kom á fund þingmannanefndar EFTA og fór yfir starfsemi sjóðsins. Hann ræddi forgangsmál sjóðsins, skiptingu fjármagns á milli landa, hvernig sækja mætti um verkefnastyrki, hvernig greitt verður úr sjóðnum, hvernig fylgst verður með verkefnum og komið í veg fyrir svindl o.s.frv. Nefndin fékk því næst yfirlit yfir fyrirhugaða lagasetningu innan EES, bæði hjá deildinni sem sér um frjáls vöruviðskipti og deildinni sem sér um frjálst flæði þjónustu, fjármagns og fólks og þátttöku í áætlunum innan EES. Rætt var um almennar aðgerðir og lagasetningu á mörgum sviðum, m.a. á sviði samkeppnisreglna, vörumerkinga, vinnutíma, umhverfismála, peningaþvættis og neytendaverndar.
    Yfirmaður COSAC-nefndarinnar í Brussel kom á fund þingmannanefndarinnar og skýrði frá starfseminni og því sem þar væri efst á baugi, en COSAC-nefndin er samráðsvettvangur þjóðþinga ríkja ESB, þar sem lagasetning ESB er m.a. til umræðu. Áheyrnaraðild hafa þau ríki sem sótt hafa um aðild að ESB.

v.    50. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 76./44. fundur þingmannanefndar EFTA og 30. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA sem haldnir voru í Genf 17. des. 2004.
    Fundina sátu Gunnar Birgisson, Bryndís Hlöðversdóttir, Birkir J. Jónsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. Gunnar Birgisson stýrði fundum sem formaður þingmannanefndar EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA ræddi drög að ályktun um landbúnaðarmál sem hafði verið unnin í framhaldi af umræðum á síðasta fundi nefndarinnar. Formaðurinn sagði að vissulega hefðu landbúnaðarmál ekki verið rædd á EFTA-vettvangi fyrr, en það væri eitt af hlutverkum þingmannanefndarinnar að örva pólitíska umræðu og setja fram nýjar hugmyndir við ráðherraráðið. Hann taldi að fyrirliggjandi drög væru hófstillt og skynsamleg enda væri ekki krafist neinna stefnubreytinga, en einungis farið fram á að ráðherrarnir skoðuðu viss mál. Niðurstaða fundarins var sú að allar landsdeildir samþykktu ályktunina en norska landsdeildin gerði fyrirvara við tvær greinar hennar. Í ályktuninni er viðurkennt að landbúnaður er pólitískt viðkvæmt mál í öllum EFTA-ríkjum, að EFTA-ríkin hafi ekki sameiginlega landbúnaðarstefnu og að landbúnaðarmál séu tekin upp í tvíhliða viðræðum í tengslum við gerð fríverslunarsamninga. Stuðningi er lýst við fríverslunarsamninga EFTA- ríkjanna og hvatt er til að enn meiri áhersla verði lögð á gerð fríverslunarsamninga. Þá er bent á að engar viðræður um fríverslun hafi siglt í strand vegna landbúnaðarmála þó að slík mál hafi valdið erfiðleikum í samningaviðræðum, og lýst er áhyggjum af því að varnarhagsmunir EFTA-ríkjanna kunni að valda frekari erfiðleikum í framtíðinni við að ná víðtækum fríverslunarsamningum. Því er farið fram á að EFTA-ríkin skoði landbúnaðarstefnu sína, skoði kosti og galla þess að bjóða upp á aukin viðskipti með landbúnaðarvörur m.t.t. komandi fríverslunarsamningaviðræðna og hugsanlegs umfangs þeirra. Þá er óskað eftir því að EFTA-ráðherrarnir íhugi hvort mögulegt sé að taka upp fríverslun í landbúnaði innan EFTA, þó að samningar við þriðju ríki væru áfram tvíhliða mál hvers ríkis fyrir sig.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA voru Doha-viðræðurnar á dagskrá sem og landbúnaðarmálin. Roderick Abbott, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, gaf nefndinni yfirlit yfir gang viðræðna. Hann taldi að þrátt fyrir bjartsýnistón í fjölmiðlum á þeim tíma væri alls ekki nógu góður gangur í viðræðunum. Lítið hefði gerst síðan sl. sumar þegar menn náðu áfanga í landbúnaðarmálunum. Hann sagði margar grundvallarákvarðanir vera eftir, þannig að ef ná ætti einhverjum bitastæðum árangri fyrir ráðherrafundinn sem fyrirhugaður er í desember 2005 þyrfti að halda mjög vel á spöðunum. Líklegast yrði reynt að klára eitthvað fyrir þann tíma svo að fundurinn yrði ekki algjörlega misheppnaður, en ákveðið að halda viðræðum svo áfram 2006. Hann taldi ólíklegt að Rússland, Úkraína eða Íran fengju aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni á næsta ári, enn væru of mörg mál óleyst.
    Chris Carson, yfirmaður landbúnaðardeildar landbúnaðar- og skógræktarráðuneytis Nýja- Sjálands, kom á fundinn til að ræða viðskipti með landbúnaðarvörur og Doha-viðræðurnar frá sjónarhóli Cairns-hópsins, sem er hópur ríkja sem flytur út landbúnaðarvörur. Í máli hans kom m.a. fram að 50% útflutnings Nýja-Sjálands eru landbúnaðarvörur og því mjög mikilvægur hluti þjóðartekna. Ný-Sjálendingar hefðu því ekki efni á að niðurgreiða landbúnaðarframleiðslu, heldur yrði hún að standa undir sér. Cairns-hópurinn vildi fjalla um viðskipti með landbúnaðarvörur á sama grundvelli og önnur viðskipti. Ljóst væri að það markmið næðist ekki í yfirstandandi viðræðum en menn vildu ná raunverulegum árangri. Almennt væri samstaða um að fella niður útflutningsbætur. Þá væri mikilvægt að ná einhverjum árangri til að minnka stuðning við framleiðslu, en aðallega í vöruflokkum sem ekki eru framleiddir á Íslandi. Erfiðasta málið hefur verið varðandi markaðsaðgang, þar sem Cairns-hópurinn vildi fá fram verulega aukningu. Hann minnti á að EFTA-ríkin sæktust eftir framförum á sviði vöruviðskipta og þjónustuviðskipta, en þá yrðu jafnframt að koma til framfarir í landbúnaðarviðskiptum. Hann leit svo á að markmið EFTA-ríkjanna á sviði landbúnaðar væru pólitísk og félagsleg fremur en efnahagsleg. Hann taldi þau hafa fjárhagsleg úrræði til að ná þeim markmiðum án þess að afbaka landbúnaðarviðskipti. Þar sem landbúnaðarframleiðsla væri á annað borð styrkt taldi hann skárra að beina slíkum stuðningi að ákveðnu vandamáli, t.d. byggðamálum, en að vera með framleiðslutengdan stuðning. Ef markmiðið væri að tryggja afkomu bænda væri betra að styrkja þá beint en ekki styrkja framleiðsluna.
    Á fundi með ráðherraráði EFTA var farið yfir samskipti við þriðju ríki og innan EES. Þingmannanefndin hrósaði ráðherrum fyrir ýmsar aðgerðir á báðum þessum sviðum og ræddi um framtíðarhorfur og forgangsröð verkefna. Þá tóku ráðherrar vel í það að þingmannanefndin reyndi að ná eyrum kanadískra þingmanna þar sem ekkert hefur gengið að ganga frá fríverslunarsamningi við Kanada. Þingmannafundur gæti hugsanlega ýtt málinu aftur upp á yfirborðið.
    Formaður kynnti ályktun þingmannanefndarinnar um landbúnaðarmál sem ráðherrar höfðu fengið fyrr um daginn. Ráðherrar voru fremur varfærnir enda höfðu þeir ekki haft tíma til að ræða tillögurnar. Lofuðu þeir að skoða málið og koma með viðbrögð á næsta fundi, eins og óskað var eftir í ályktunartextanum.

IV.    Áherslur í málefnastarfi og helstu verkefni þingmannanefnda EFTA og EES árið 2005.
    Nefndirnar munu sem fyrr fylgjast með starfi ráðherraráðs EFTA, hinnar sameiginlegu EES-nefndar og ráðherraráðs EES. Hvað EES-starfið varðar verður fylgst með lagasetningarstarfi hjá ESB, sérstaklega gerðum á undirbúningsstigi sem skipta máli fyrir EFTA/EES- ríkin. Á næsta fundi þingmannanefndar EES á m.a. að taka fyrir umhverfismál og er það gert að frumkvæði Íslandsdeildar. Í því sambandi eru mörg mál sem þarf að skoða, m.a. vatnatilskipun sem samþykkt var árið 2000 í ESB um vatnsvernd og nýtingu. Þar er m.a. mikilvægt að fá viðurkennt að margir þættir tilskipunarinnar falla ekki undir EES-samninginn og skoða þarf jafnframt önnur atriði eins og aðlögunartíma og framkvæmd. Þá þarf að skoða lagasetningu á sviði viðskipta með losunarkvóta og á sviði umhverfisábyrgðar, auk hugsanlegra nýrra tillagna á sviði umhverfismála. Þá mun þingmannanefndin vænta svara frá ráðherraráði EES um það hvort formaður og varaformaður fái að sitja á fundum ráðsins.
    Fyrirhugaðar eru ferðir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA til Tyrklands og Króatíu á árinu. Jafnframt þarf að skoða hvort samstarf við kanadíska þingið gæti þokað gerð fríverslunarsamnings áfram. Þingmannanefnd EFTA mun áfram vinna að því að kanna hvort hægt sé að koma á einhverju samstarfi við COSAC. Unnið verður áfram að landbúnaðarmálum og verður spennandi að vita hvernig ráðherrar bregðast við útspili þingmannanefndarinnar, sérstaklega hvort þeir eru tilbúnir að skoða tillögurnar með opnum huga. Þingmannanefndin þarf að halda málinu vakandi.

VI.    Ályktanir.
i.    Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2004:
     .      Ályktun um ársskýrslu hinnar sameiginlegu EES-nefndar fyrir árið 2003.
     .      Ályktun um hlutverk sveitarstjórna í ESB og á Evrópska efnahagssvæðinu.
     .      Ályktun um innrimarkaðsáætlun ESB 2003–2006 og EES.
     .      Ályktun um mótun ákvarðana í EES: hlutverk þingmanna.
ii.    Ályktun þingmannanefndar EFTA:
     .      Ályktun um viðskipti og landbúnaðarmál í EFTA-samhengi.

Alþingi, 15. febr. 2005.



Gunnar Birgisson,


form.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Birkir J. Jónsson,


varaform.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Lúðvík Bergvinsson.