Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 864  —  576. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2004.

1.     Inngangur.
    Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) var stofnað árið 1889 og er hlutverk þess að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning á milli þjóða. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 140 þing en aukaaðilar að sambandinu eru sjö svæðisbundin þingmannasamtök. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf en það hefur jafnframt skrifstofu í New York. IPU fjallar um alþjóðamál og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. IPU hefur áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum og rétt til að dreifa skjölum sambandsins á allsherjarþinginu.
    Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins er fjármögnuð með framlögum frá aðildarþingum þess. Þing IPU taka pólitískar ákvarðanir og álykta um alþjóðamál. Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Sautján manna framkvæmdastjórn hefur m.a. umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd: friðar- og öryggismálanefnd;
     2.      nefnd: nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál;
     3.      nefnd: nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Til viðbótar eru starfandi eftirfarandi nefndir og vinnuhópar: nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, samhæfingarnefnd um öryggismál og samstarf á Miðjarðarhafssvæðinu, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU, vinnuhópur um samstarf kynjanna og stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna IPU.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar og á vefsíðu IPU, www.ipu.org.
    
2. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Íslandsdeild var skipuð Einari K. Guðfinnssyni, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristjáni L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, og Hjálmari Árnasyni, þingflokki framsóknarmanna. Íslandsdeild kaus Einar K. Guðfinnsson sem formann og Hjálmar Árnason varaformann. Varamenn eru Bjarni Benediktsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Jóhann Ársælsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna. Íslandsdeildin var endurkjörin í október sl. í upphafi 131. þings. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs. Deildin hélt tvo fundi á árinu.

3. Störf og ályktanir 110. þings IPU.
    110. þing IPU var haldið í Mexíkóborg 17.–23. apríl 2004. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson, Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar.
    Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir ávörp: Enrique Jackson Ramirez, forseti efri deildar mexíkóska þingsins, Danilo Türk, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði stjórnmála, Sergio Paez Verdugo, forseti IPU, og Vicente Fox Quesada, forseti Mexíkó. Á meðan þinginu stóð tóku fastanefndirnar þrjár fyrirframákveðin mál til umfjöllunar og voru ályktanir nefndanna síðan afgreiddar á þingfundi.
    Í 1. nefnd um frið og alþjóðleg öryggismál var rætt um hvernig mætti stuðla að sáttum og stöðugleika á átakasvæðum og aðstoða við uppbyggingu að átökum loknum. Hjálmar Árnason tók þátt í störfum nefndarinnar. Í lokaályktun eru þjóðþing m.a. hvött til að styðja friðarumleitanir og uppbyggingu þingræðis í löndum þar sem átök hafa geisað eða verið er að reyna að ná sáttum milli þjóðarbrota. Jafnframt eru þjóðþing hvött til að sjá til þess að stjórnvöld taki þátt í og fjármagni friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna, og að mannréttindanefndir verði settar á laggirnar í öllum þjóðþingum.
    Einar K. Guðfinnsson hefur verið formaður 2. nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál síðan vorið 2003. Einar stjórnaði öllum fundum nefndarinnar á þinginu, auk þess sem hann setti í gang starf vinnuhóps sem vann að lokaályktun nefndarinnar. Nefndin fjallaði um hvernig mætti vinna að sanngjörnu umhverfi fyrir alþjóðleg viðskipti með landbúnaðarvörur og hvernig tryggja mætti aðgang fátækra ríkja að mikilvægum lyfjum. Í lokaályktun er mikilvægi bómullariðnaðarins fyrir mörg fátækustu ríki heims viðurkennt og eru ESB, Bandaríkin og Kína hvött til að hætta að niðurgreiða bómullarrækt. Hvatt var til lækkunar á niðurgreiðslum í landbúnaði og að dregið yrði úr tollum og öðrum höftum á innflutningi landbúnaðarvara. Þá er hvatt til margvíslegra aðgerða til að auka aðgengi íbúa fátækra ríkja að nauðsynlegum lyfjum.
    Í 3. nefnd um lýðræði og mannréttindi var fjallað um hvernig mætti stuðla að auknu lýðræði til verndar mannréttindum og hvetja til sátta meðal þjóða og samstarfs meðal ríkja. Kristján L. Möller tók þátt í störfum nefndarinnar. Í lokaályktun er m.a. lögð áhersla á frjálsar, almennar og leynilegar þingkosningar sem óháð kjörstjórn hefur umsjón með, að þingræði sé marklaust nema konur hafi sömu réttindi til þingsetu og karlmenn og ábyrgð einstakra þingmanna og flokka á því að stuðla að umburðarlyndi og fjölbreytileika.
    Þingið tók fyrir beiðnir um afgreiðslu neyðarályktunar, en taka má eina slíka ályktun fyrir á hverju þingi. Tvær tillögur bárust, annars vegar um að stöðva ofbeldi og byggingu aðskilnaðarmúrs til að skapa skilyrði fyrir frið á milli Ísraela og Palestínumanna, og hins vegar um hlutverk þingmanna í baráttunni gegn hryðjuverkum sem stuðlað gæti að friðsamlegum skoðanaskiptum ólíkra menningarheima. Fyrrnefnda tillagan var lögð fram af arabaríkjum en sú síðarnefnda af tólfplús-hópnum og ríkjahópi latnesku Ameríku með vísan í nýleg hryðjuverk í Madríd. Tillaga tólfplús-hópsins laut í lægra haldi, en það var fyrst og fremst vegna agaleysis í hópnum. Nokkrar sendinefndir voru fjarverandi við atkvæðagreiðslu um það hvora tillöguna skyldi taka fyrir og aðrar reyndu að kaupa sér vinsældir með því að styðja báðar tillögurnar. Arabahópurinn og aðrir stuðningsmenn tillögu hans greiddu hins vegar allir atkvæði gegn tillögu tólfplús-hópsins. Einar K. Guðfinnsson gerði agaleysi þetta að umtalsefni á fundi tólfplús-hópsins. Jafnframt kom til tals að breyta þyrfti reglum IPU, því óeðlilegt sé að sendinefnd geti greitt öllum tillögum atkvæði. Í lokaályktun um hlutverk þjóðþinga við að stöðva ofbeldi og byggingu aðskilnaðarmúrs til þess að skapa skilyrði fyrir frið og lausn á deilum Ísraela og Palestínumanna er hvatt til að öllu ofbeldi linni. Launmorð og sjálfsmorðsárásir eru fordæmdar, Ísraelsmenn eru hvattir til að hætta byggingu aðskilnaðarmúrs og víggirðinga, og Palestínumenn er hvattir til að hafna ofbeldisverkum gegn ísraelskum borgurum. Báðir aðilar eru hvattir til að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt vegvísinum.
    Sérstök pallborðsumræða fór fram á þinginu um kynferðislega misnotkun barna og var bandaríska leikkonan Jessica Lange sérlegur gestur á fundinum, en hún er sendiherra (Goodwill Ambassador) hjá UNICEF. Tóku margir virtir sérfræðingar þátt í umræðunni og spunnust heitar umræður, sérstaklega meðal þingkvenna frá fátækum ríkjum þar sem kynferðisleg misnotkun barna er mikið vandamál. Á þinginu kynnti Jessica Lange útgáfu á sameiginlegri handbók IPU og UNICEF fyrir þingmenn um verndun barna. Handbókin er til á bókasafni Alþingis og á alþjóðasviði.

4. Störf og ályktanir 111. þings IPU.
    Þingið var haldið í Genf dagana 27. september–1. október 2004. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson, Katrín Júlíusdóttir (í forföllum aðal- og varamanns) og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar.
    Á meðan á þinginu stóð tóku fastanefndirnar þrjár ákveðin mál til umfjöllunar og voru ályktanir nefndanna svo afgreiddar á þingfundi. Í 1. nefnd um frið og alþjóðleg öryggismál var rætt um hlutverk þjóðþinga í afvopnunarmálum og takmörkun á útbreiðslu vopna í ljósi nýrra ógna í öryggismálum. Í lokaályktun eru þjóðþing m.a. hvött til að fylgjast grannt með framkvæmd alþjóðasamninga á sviði afvopnunar og takmörkunar á útbreiðslu vopna heima fyrir. Þá er lögð áhersla á að skiptast á upplýsingum um starfsaðferðir til að ná betri árangri á þessu sviði. Þjóðþing eru jafnframt hvött til að skoða grannt hvort stefnumótun framkvæmdarvaldsins á sviði öryggismála, hermála og vopnarannsókna og framleiðslu séu í samræmi við alþjóðalög og samninga.
    Einar K. Guðfinnsson, formaður 2. nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, stjórnaði fundum nefndarinnar á þinginu, og setti í gang vinnuhóp sem vann að lokaályktun nefndarinnar. Nefndin fjallaði um hlutverk þjóðþinga þegar kemur að því að tryggja líffræðilega fjölbreytni. Í lokaályktun eru ríki m.a. hvött til að fullgilda sáttmálann um líffræðilega fjölbreytni og Cartegena-viðaukann.
    Í 3. nefnd um lýðræði og mannréttindi var fjallað um Beijing+10 frá sjónarhorni þingmanna. Katrín Júlíusdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar. Í lokaályktun eru þingin m.a. hvött til að tryggja að öll stefnumál og áætlanir ríkisstjórnar séu skoðuð út frá jafnréttissjónarmiðum, t.d. með því að skoða lagafrumvörp út frá áhrifum þeirra á jafnrétti kynjanna. Þá eru tekin upp ýmis mál sem enn eru ekki sjálfsögð alls staðar í heiminum, þ.m.t. eignarréttur kvenna, réttur þeirra til að eiga atvinnufyrirtæki og hafa aðgang að lánsfé, menntun kvenna o.s.frv. Þá voru tekin upp mál er tengjast stöðu stúlkubarna, öryggismálum kvenna, stöðu kvenna á átakasvæðum og í uppbyggingarstarfi að loknum átökum.
    Neyðarályktun um Írak var samþykkt á þinginu. Í ályktuninni eru m.a. gíslatökur og dráp á saklausu fólki fordæmd. Allir hlutaðeigandi aðilar eru hvattir til að virða mannréttindi og lögð er áhersla á þátttöku allra Íraka í uppbyggingarstarfinu, og sérstaklega minnt á konur í þessu sambandi. Þá er hvatt til aukinnar aðstoðar annarra ríkja við uppbyggingar- og þróunarstarf og lögð áhersla á mikilvægt hlutverk nágrannalanda við að auka öryggi á svæðinu.
    Stjórn kvennanefndar IPU kom saman á þinginu og hvatti hún til þess að þingkonur tækju þátt í þingmannafundi sem haldinn verður í tengslum við fund nefndar Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna: Beijing+10 í febrúar/mars 2005. Enn vantar mikið upp á jafnræði kynjanna í starfi IPU, en unnið er að því að auka hlut kvenna. 29% þátttakenda á 111. þingi voru konur, sem er hæsta hlutfall kvenna hingað til.

5. Svæðisbundið samstarf innan IPU.
5.1. Tólfplús-hópurinn.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings eða ráðsfundar hittist svokallaður tólfplús-hópur, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing eða sérstakur ráðsfundur stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.
    Daginn áður en 110. þing hófst kom tólfplús-hópurinn saman og hittist síðan daglega meðan á þinginu stóð. Þar var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var. Á þeim fundum voru jafnframt fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU valdir. Þess má geta að Katri Komi frá Miðflokknum í Finnlandi var kjörin í framkvæmdastjórn IPU fyrir hönd tólfplús-hópsins með dyggri aðstoð allra norrænna sendinefnda á þinginu. Mikill tími fór í það á fundum hópsins að ræða ósk Evrópuþingsins um fulla aðild að IPU, en það hefur nú áheyrnaraðild. Öll ríki ESB eiga aðild að þinginu og því telja margir ótækt að Evrópuþingið fá sjálfstæða aðild, þar eð IPU sé vettvangur þjóðþinga. Þetta mál var rætt daglega á fundum hópsins en fulltrúar ESB-ríkja fjölluðu jafnframt sérstaklega um málið. Þeir gátu ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu og vildi meiri hluti þeirra fresta málinu. Þrátt fyrir þetta var ákveðið á fundi tólfplús-hópsins að stjórnarnefnd hópsins ætti að vinna tillögu til að leggja fyrir hópinn á næsti þingi.
    Hugsanleg aðild Evrópuþingsins að IPU var aftur á dagskrá tólfplús-hópsins á 111. þingi IPU sem haldið var í Genf dagana 27. september–1. október 2004. Atkvæði voru greidd um hvort Evrópuþingið fengi fulla aðild, en tvo þriðju atkvæða þurfti til að samþykkja tillöguna. Tillagan var felld, þar sem einungis einfaldur meiri hluti var fyrir tillögunni. Norðurlöndin öll greiddu atkvæði gegn henni. Málið er því væntanlega afgreitt í bili.
    Á fundum tólfplús-hópsins var jafnframt kosið um fulltrúa hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Ítalska sendinefndin sendi forseta IPU, framkvæmdastjóra IPU og formönnum ríkjahópa innan IPU bréf meðan á þinginu stóð þar sem tilkynnt var um framboð forseta neðri deildar ítalska þingsins, Casini, til forsetaembættis IPU. Venja er að hver ríkjahópur ræði það innan sinna raða hvort setja eigi fram kandídat og þá hvern og var því framgangsmáti Ítala gagnrýndur innan tólfplús-hópsins. Belgar höfðu á þessum tíma jafnframt látið í ljós áhuga á því að Belginn Versnick yrði í framboði fyrir hönd hópsins, en hann er núna formaður tólfplús-hópsins (eftir þingið sendi belgíska sendinefndin bréf til allra landsdeilda hópsins þar sem framboð hans var tilkynnt). Rætt var um að ekki væri búið að ákveða hvort tólfplús-hópurinn ætti yfir höfuð að fá forsetaembættið næst, t.d. kæmi vel til greina að framboð kæmi frá Afríkuhópnum. Ákveðið var að aðeins einn ætti að bjóða sig fram fyrir hönd tólf-plúshópsins og hópurinn sjálfur ætti að ákveða hver það væri með atkvæðagreiðslu innan hópsins í tengslum við næsta þing. Framboð mætti tilkynna innan hópsins fram að næsta þingi þar eð athuga þyrfti hvort aðrir ríkjahópar hefðu áhuga á forsetaembættinu.
    Nokkrar tillögur um neyðarumræður lágu fyrir þinginu, en ein þeirra var um hörmungaástandið í Darfúr. Tólfplús-hópurinn studdi Darfúr-tillöguna og taldi ótækt að þingið fjallaði ekki um versta yfirstandandi neyðarástand á sviði mannúðarmála í heiminum. Íran lagði fram tillögu um ástandið í Írak og Suður-Afríka dró Darfúr-tillögu sína til baka. Fulltrúar Súdans lögðust m.a. mjög gegn því að ástandið í Darfúr yrði rætt. Tólfplús-hópurinn fékk að lokum engu um málið ráðið og IPU-þingið, með þátttöku þingmanna hvaðanæva úr heiminum, sagði ekki aukatekið orð um Darfúr en samþykkti í staðinn enn eina ályktun um Írak.

5.2. Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Norðmenn í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Ósló 25.–26. mars 2004 og sá síðari í Hamri 2.–3. september 2004. Bæði formaður og ritari Íslandsdeildar sóttu fyrri fund ársins en aðeins formaður þann síðari.
    
6. Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU Council).
6.1. Ráðsfundir í tengslum við 110. þing.
    Ráð IPU kom þrívegis saman á 110. þingi og afgreiddi fjölda mála. Samstarf við Sameinuðu þjóðirnar var eitt af stóru málunum til umræðu. Samstarf IPU og Sameinuðu þjóðanna hefur aukist mjög á undanförnum árum, haldnar eru sameiginlegar ráðstefnur og námskeið, samstarf er um útgáfu fræðsluefnis o.s.frv. Nefnd á vegum aðalritara Sameinuðu þjóðanna skoðaði hvernig auka mætti samskipti stofnunarinnar við ýmsar stofnanir aðildarríkjanna. Birgitta Dahl, fyrrverandi forseti sænska þingsins, sat í nefndinni, en hún sat þar ekki á vegum sænska þingsins heldur sem sjálfstæður aðili. Hún skoðaði sérstaklega samskipti við þjóðþing og gerði tillögur sem birtust í heildarskýrslu nefndarinnar. Nefnd sem undirbýr næsta fund þingforseta IPU-ríkja fékk Dahl á sinn fund og er skemmst frá því að segja að margir þingforsetar sem sitja í undirbúningshópnum voru mjög ósammála hennar tillögum. Hún leggur til að Sameinuðu þjóðirnar setji á laggirnar eigið þingmannasamstarf í stað þess að notast við IPU. Þingmenn á IPU-þinginu töldu þetta slæma þróun. Þar með væri verið að fjölga alþjóðlegum þingmannasamtökum og skapa tvíverknað. Jafnframt þyrfti að huga að skiptingu valds. Ef Sameinuðu þjóðirnar ætluðu sjálfar að halda utan um þingmannasamstarfið væri það svipað fyrirkomulag og að vista þingnefndir í viðkomandi ráðuneytum. Í öllu alþjóðlegu þingmannasamstarfi hefur verið hafður sá háttur á að aðskilja þingmannastarfið frá þeirri alþjóðastofnun sem ríkisstjórnirnar eiga aðild að, sbr. NATO, ÖSE, Norðurlandaráð o.s.frv. Þá benti Einar K. Guðfinnsson á að Sameinuðu þjóðirnar gætu ekki ákveðið að setja á stofn eigin þingmannasamtök, það væru þjóðþingin sjálf sem þyrftu að taka ákvörðun um það. Ákveðið var að bregðast við tillögunum með fundum forseta IPU með aðalritaranum, með bréfaskriftum til viðeigandi aðila og með því að ræða við fastafulltrúa í New York. Í stað þess að fjölga sífellt þingmannasamtökum vildu menn almennt að IPU tæki að sér að vera vettvangur fyrir umfjöllun þingmanna um Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og Alþjóðabankann.
    Þá fór ráðið yfir skýrslur nefnda og vinnuhópa. Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Ekvador, Eritrea, Hondúras, Indónesía, Malasía, Mongólía, Burma, Pakistan, Palestína, Rúanda, Sýrland, Tyrkland og Simbabve. Þá var rætt um fundi og ráðstefnur fram undan, m.a. ráðstefnu um endurnýjanlega orkugjafa í Bonn, þingmannafund í tilefni af UNCTAD XI í Sao Paulo og þingmannaráðstefnu um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Jafnframt var rætt lítillega um næsta fund þingforseta IPU-ríkja sem fyrirhugaður er 2005. Þá voru samþykktar lagabreytingar sem miða að því að styrkja hlut kvenna á þinginu.

6.2. Ráðsfundir í tengslum við 111. þing.
    Ráð IPU kom tvívegis saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Ákveðið var að setja á laggirnar nefnd til að fjalla um þingmannasamstarf til að vinna gegn alnæmi. Þessi ákvörðun hefur ekki teljandi áhrif á fjárhagsáætlun IPU, því starfið verður að mestu fjármagnað með utanaðkomandi framlögum. Markmiðið er að veita þingnefndum og þingmönnum sem fjalla um alnæmisvandann aðstoð, t.d. með því að hjálpa til við gerð lagafrumvarpa, auka umræður og upplýsingaskipti milli þinga og þingmanna, hlúa að stefnumótun og veita ráðgjöf á sviði alnæmistengdra mála. Verkefni á þessu sviði verða unnin í náinni samvinnu við UNAIDS. Þá var ákveðið að setja á laggirnar sérstaka nefnd um vernd barna sem á að vinna að ýmsum verkefnum í samvinnu við UNICEF.
    Ákveðið var að hækka aðildargjöld til IPU um 3% árið 2005. Búast má við auknum útgjöldum á ýmsum sviðum á yfirstandandi ári í starfi IPU, m.a. vegna fundar þingforseta IPU-ríkja. Hins vegar var samhliða ákveðið að spara á öðrum sviðum, m.a. með því að fækka fundardögum á Genfarþinginu og sleppa sérstökum WTO-fundi sem fyrirhugaður var á næsta ári. Óánægja hefur verið hjá sumum ríkjum með skiptingu árgjalda á milli ríkja. Sum fátæk ríki eiga t.d. erfitt með að borga árgjöld og telja framlag sitt of hátt miðað við þjóðartekjur. Endurskoðun á heildarskiptingu árgjalda er hafin, með það í huga að breyta hlutfallaskiptingu að einhverju leyti. Ekki er vitað á þessari stundu hvort niðurstaðan í þessu hefur áhrif til hækkunar fyrir Alþingi.
    Samstarf við Sameinuðu þjóðirnar var rætt, sérstaklega með tilliti til umræðunnar sem þá var fram undan á allsherjarþinginu í tengslum við skýrslu Cardosa-nefndarinnar svokölluðu, sem hafði það verkefni að skoða samskipti Sameinuðu þjóðanna við utanaðkomandi aðila, m.a. þjóðþing. IPU ákvað að fara fram á að beðið yrði með alla ákvarðanatöku innan Sameinuðu þjóðanna hvað varðar samstarf við þjóðþing þar til þingforsetar IPU-ríkja hefðu fengið tækifæri til að tjá sig um málið á næsta fundi þeirra 7.–9. september 2005.
    Ráðið fór yfir skýrslur af nýlegum sérfundum og ráðstefnum IPU, svo sem þingmannaráðstefnu Afríkuríkja um flóttamannavandann í Afríku og hvernig ætti að bregðast við honum, fundi þingforseta nágrannaríkja Írak, þingmannafundi í tilefni af UNCTAD XI og námsstefnu fyrir arabaríki um þjóðþing og fjárlagavinnu.
    Þá var farið yfir skýrslur nefnda og vinnuhópa. Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Ekvador, Eritrea, Hondúras, Indónesía, Malasía, Mongólía, Burma, Pakistan, Palestína, Rúanda, Sýrland, Tyrkland og Simbabve, en lögð var fram viðamikil sérskýrsla af ferð nefndarinnar til síðastnefnda landsins.

7. Aðrir fundir.
    Íslandsdeild og ritari sóttu fund á vegum IPU um málefni WTO, en IPU og Evrópuþingið hafa tekið upp samstarf með það fyrir augum að halda utan um þingmannasamstarf á þessum vettvangi með árlegum fundi. Þannig tekst að koma í veg fyrir fjölgun alþjóðlegra þingmannasamtaka en tryggja í leiðinni lýðræðislega umfjöllun þingmanna um málefni stofnunarinnar á alþjóðavettvangi. Einar K. Guðfinnsson hafði ásamt skrifstofu IPU haft forustu um undirbúning sérstaks þingmannafundar í tengslum við UNCTAD-ráðstefnuna í Sao Paulo, enda féll efni hennar að starfi 2. nefndar IPU sem hann er formaður fyrir. Einar stjórnaði fundinum í UNCTAD og stýrði enn fremur nefnd sem undirbjó ályktun hans, er var samþykkt samhljóða að lokum. Á meðal helstu gestafyrirlesara á þessum fundi var Geir H. Haarde fjármálaráðherra, en þess má geta að hann var um tíma varaforseti IPU. Þá sótti Hjálmar Árnason ráðstefnu á vegum IPU um endurnýtanlega orku í Bonn.

8. Starf IPU árið 2005.
8.1. Fundir.
    112. þing sambandsins verður haldið í Maníla 3.–8. apríl 2005. Þar verða eftirfarandi mál á dagskrá:
     .      Hlutverk þjóðþinga við að móta viðurkenndar leikreglur til að dæma stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyninu, þjóðarhreinsanir og hryðjuverk.
     .      Hlutverk þjóðþinga við að skapa nýjar leiðir í alþjóðlegri fjármögnun og viðskiptum til að taka á vandamálum tengdum skuldsetningu og ná þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (Millennium Development Goals).
     .      Hlutverk þjóðþinga við að standa vörð um mannréttindi þegar kemur að leiðum til forvarna, meðhöndlunar og meðferðar við HIV/AIDS.
    Í almennum umræðum á þinginu verður lögð áhersla á áhrif innlendrar og alþjóðlegrar stefnumótunar á stöðu kvenna í heiminum.
    113. þing IPU verður haldið í Genf í október 2005, en dagskrá þess verður ákveðin í Maníla. Að venju mun IPU jafnframt standa fyrir ráðstefnum og minni fundum um ákveðin málefni á árinu í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. T.d. verður haldinn fundur í tengslum við kvennafund Sameinuðu þjóðanna í New York í mars og munu fulltrúar Alþingis á kvennafundinum væntanlega sækja þann fund.
    
8.2. Starfsreglur IPU.
    Íslandsdeildin mun hugsanlega leggja fram breytingartillögu við starfsreglur IPU á árinu. Eins og staðan er núna geta landsdeildir greitt atkvæði með öllum tillögum að neyðarályktun sem koma fram á tilteknu þingi. Þannig getur landsdeild sem hefur tíu atkvæði greitt öllum tillögum tíu atkvæði og eru þá atkvæðin í raun marklaus. Eðlilegra væri að landsdeild með tíu atkvæðum hefði einungis tíu atkvæði í allt sem hún gæti greitt í heilu lagi með tiltekinni tillögu eða skipt á milli tillagna ef landsdeildarmenn eru ósammála um hvaða tillögu skuli styðja. Ómögulegt er að segja hvort slík tillaga næði fram að ganga. Margar landsdeildir telja það jákvætt að komast hjá því að taka afstöðu með því að greiða öllum tillögum atkvæði.

8.3. Fundur þingforseta aðildarríkja IPU um þingmannasamstarf við Sameinuðu þjóðirnar.
    Haldinn verður fundur þingforseta aðildarríkja IPU í september nk. í New York. Íslandsdeildin kemur sem slík ekki að þeim fundi, en hann er þó nokkuð til umræðu í ráði sambandsins. Íslandsdeild vill leggja áherslu á nokkur atriði í þessu sambandi. Hún tekur undir með þeim sem telja nauðsynlegt að þjóðþing komi betur að ákvarðanatöku innan Sameinuðu þjóðanna, að þingmenn taki þátt í umræðum stjórnvalda um alþjóðlega stefnumótun á öllum sviðum og veiti stjórnvöldum aðhald. Hins vegar telur Íslandsdeildin að þingin sjálf eigi að taka ákvörðun um hvernig samstarfi þinga við Sameinuðu þjóðirnar verði háttað. Mikilvægt er því að skýr skilaboð komi frá þingforsetunum í september. Engin umræða hefur farið fram um þessi mál t.d. á norrænum þjóðþingum enn sem komið er, en mikilvægt er að skýr afstaða hvers þings liggi fyrir með góðum fyrirvara fyrir fundinn. Íslandsdeild er hlynnt því að Alþjóðaþingmannasambandið haldi utan um samstarf við Sameinuðu þjóðirnar og telur ekki ráðlegt að enn ein stofnun verði búin til. IPU styður í dag starfsemi Sameinuðu þjóðanna með margvíslegum hætti og á nú þegar margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra, t.d. er fjallað um nýtt verkefni unnið á nánu samstarfi við UNAIDS í 6. kafla ársskýrslunnar. IPU heldur jafnframt þingmannafundi í tengslum við stefnumótandi ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna. IPU hefur áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum og rétt til að dreifa skjölum sambandsins á allsherjarþinginu. Það er því að mati Íslandsdeildar eðlilegt að nota það uppbyggingarstarf sem þegar hefur verið unnið á vegum IPU og styrkja tengsl þess við Sameinuðu þjóðirnar í stað þess að byrja frá grunni. Þá telur Íslandsdeild út í hött að skrifstofa Sameinuðu þjóðanna haldi utan um þingmannasamstarfið. Það er einfaldlega ekki við hæfi að stofnun á vegum framkvæmdarvaldsins haldi utan um starf þingmanna, ekki frekar en að t.d. utanríkisráðuneytið haldi utan um alþjóðanefndir Alþingis! Eðlilegt væri aftur á móti að tilteknir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna væru tengiliðir við IPU og þjóðþingin, sæju til þess að fyrirspurnum þingmanna væri svarað o.s.frv.
    Rétt er að taka fram að þótt Íslandsdeildin vilji að IPU sé formlegur aðili fyrir samskipti við Sameinuðu þjóðirnar þá vill hún ekki að framkvæmdastjóri IPU eða pólitísk stjórn sambandsins geti talað fyrir hönd allra þinga heims og fjallað í þeirra nafni um viðkvæm pólitísk mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sú vinna verður frekar að fara fram í landsdeildum þar sem þingmenn koma sjónarmiðum á framfæri við ráðherra og á alþjóðlegum fundum þar sem ólík sjónarmið fá að koma fram. Að lokum vill Íslandsdeild velta upp þeirri hugmynd hvort ekki sé eðlilegt að sérstök umræða fari fram á Alþingi um stærri mál sem eru á dagskrá Sameinuðu þjóðanna og gæti húnn t.d. haft frumkvæði að slíkri umræðu.

9. Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2004.
9.1. Ályktanir 110. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Að stuðla að sáttum og stöðugleika á átakasvæðum og aðstoða við uppbyggingu að átökum loknum.
     2.      Að vinna að sanngjörnu umhverfi fyrir alþjóðleg viðskipti með landbúnaðarvörur og varðandi aðgang að mikilvægum lyfjum.
     3.      Hlutverk þjóðþinga við að stuðla að auknu lýðræði til verndar mannréttindum og hvetja til sátta meðal þjóða og samstarfs meðal ríkja heims.
     4.      Hlutverk þjóðþinga við að stöðva ofbeldi og byggingu aðskilnaðarmúrs til að skapa skilyrði fyrir friði á milli Ísraela og Palestínumanna.
    
9.2. Ályktanir 111. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Hlutverk þjóðþinga í afvopnunarmálum og takmörkunum á útbreiðslu vopna í ljósi nýrra ógna í öryggismálum.
     2.      Hlutverk þjóðþinga við að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni.
     3.      Beijing+10: stöðumat frá sjónarhorni þingmanna.
     4.      Hið uggvekjandi ástand í Írak og aðkoma þingmanna að endurreisn friðar og öryggis í landinu.

Alþingi, 10. febr. 2005.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Kristján L. Möller.