Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 592. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 885 —  592. mál.
Frumvarp til lagaum Neytendastofu og talsmann neytenda.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    Neytendastofa er ríkisstofnun sem starfa skal að stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu, mælifræði og rafmagnsöryggismála svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Neytendastofa heyrir undir viðskiptaráðherra.

2. gr.

    Neytendastofa skal annast framkvæmd laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Stofnunin annast einnig dagleg störf og undirbúning mála fyrir talsmann neytenda. Þá skal Neytendastofa fara með rafmagnsöryggismál, eins og kveðið er á um í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Einnig skal stofnunin hafa yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði og sjá um framkvæmd laga um vog, mál og faggildingu. Þá skal Neytendastofa leysa af hendi þau verk sem henni eru falin í öðrum lögum.
    Neytendastofa skal vinna að stefnumótun á sviði neytendamála auk þess sem stofnunin skal beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á sviðinu. Þá skal Neytendastofa annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði neytendamála sem og önnur verkefni sem stofnuninni verða falin með lögum eða ákvörðun ráðherra.

3. gr.

    Ráðherra skipar forstjóra Neytendastofu til fimm ára í senn.
    Forstjóri skal hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu af málefnum á starfssviði stofnunarinnar. Forstjóri stjórnar starfsemi og rekstri stofnunarinnar og ræður aðra starfsmenn.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um skipulag og starfsemi Neytendastofu.

4. gr.

    Ráðherra skipar áfrýjunarnefnd neytendamála, sem í sitja þrír menn og jafnmargir til vara, til fjögurra ára í senn. Skulu formaður nefndarinnar og varamaður hans fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara. Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna sem greiðist úr ríkissjóði.
    Til áfrýjunarnefndar neytendamála má skjóta stjórnvaldsákvörðunum sem teknar eru samkvæmt eftirtöldum lögum:
     a.      lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins,
     b.      lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og
     c.      öðrum lögum sem heyra undir Neytendastofu sé heimild til slíks að finna í þeim lögum.
    Skrifleg kæra skal berast áfrýjunarnefndinni innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Úrskurður áfrýjunarnefndarinnar skal liggja fyrir innan sex vikna frá málskoti.
    Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar og eru aðfararhæfir.

5. gr.

    Viðskiptaráðherra skipar talsmann neytenda til fimm ára í senn. Skal hann hafa lokið háskólaprófi og hafa þekkingu og reynslu af málefnum neytenda.
    Kjaranefnd ákveður laun og starfskjör talsmanns neytenda. Talsmanni neytenda er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf eða takast á hendur verkefni sem eigi samrýmast starfi hans.
    Neytendastofa annast dagleg störf og undirbúning mála fyrir talsmann neytenda.

6. gr.

    Talsmanni neytenda ber að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd.
    Hlutverk talsmanns neytenda felst m.a. í því að:
     a.      taka við erindum neytenda,
     b.      bregðast við þegar hann telur brotið gegn réttindum og hagsmunum neytenda,
     c.      gefa út rökstuddar álitsgerðir ásamt tillögum um úrbætur,
     d.      setja fram tillögur um úrbætur á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er varða neytendur sérstaklega og
     e.      kynna löggjöf og aðrar réttarreglur er varða neytendamál.

7. gr.

    Talsmaður neytenda getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða að eigin frumkvæði. Öllum neytendum er heimilt að leita til talsmanns neytenda með erindi sín, en hann ákveður sjálfur hvort ábending gefur tilefni til meðferðar af hans hálfu.

8. gr.

    Talsmaður neytenda getur, óháð þagnarskyldu, krafið stjórnvöld um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Með sama hætti er fyrirtækjum og samtökum skylt að veita talsmanni neytenda allar upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu skv. b-lið 2. mgr. 6. gr.
    Talsmaður neytenda getur ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.
    Komi upp ágreiningur vegna ákvæðis 1. mgr. er talsmanni neytenda heimilt að leita úrlausnar dómstóla. Um málsmeðferð fer eftir lögum um meðferð einkamála.

9. gr.

    Talsmanni neytenda er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem hann verður áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Sama gildir um þá sem sinna störfum fyrir talsmann neytenda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

10. gr.

    Talsmaður neytenda er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum. Álitum talsmanns neytenda sem unnin eru á grundvelli laga þessara verður ekki skotið til annars stjórnvalds.

11. gr.

    Talsmaður neytenda skal gefa viðskiptaráðherra árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Skýrsluna skal prenta og birta opinberlega.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um starfsemi talsmanns neytenda.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Löggildingarstofu, nr. 155/1996. Við gildistöku laganna skal Löggildingarstofa lögð niður.

Breytingar á öðrum lögum.

13. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Löggildingarstofunnar“ í 2. mgr. 5. gr. laganna, og hvarvetna annars staðar í lögunum, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Neytendastofu.
     2.      Lög um alferðir, nr. 80/1994: Í stað orðsins „Samkeppnisstofnunar“ í 17. gr. laganna kemur: Neytendastofu.
     3.      Lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994:
                  a.      Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: Neytendastofa.
                  b.      Í stað orðsins „Samkeppnisstofnunar“ í 3. málsl. 6. gr. laganna kemur: Neytendastofu.
                  c.      Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 7. gr. laganna kemur: Neytendastofa.
                  d.      Orðin „nr. 8 25. febrúar 1993, með síðari breytingum“ í 10. gr. laganna falla brott.
     4.      Lög um um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
                      i.      Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 1. málsl. kemur: Neytendastofa.
                      ii.      2. málsl. orðast svo: Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins að öðru leyti en því að ákvörðunum Neytendastofu um dagsektir verður ekki skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
                      i.      Í stað orðsins „Samkeppnisráð“ í 1. mgr. kemur: Neytendastofa.
                      ii.      Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 2. mgr. kemur: Neytendastofa.
     5.      Lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Löggildingarstofan“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: Neytendastofa.
     6.      Lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðsins „Löggildingarstofan“ í 7. gr. laganna, og hvarvetna annars staðar í lögunum, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Neytendastofa.
                  b.      Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, svohljóðandi:
                     Ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
     7.      Lög um um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996: Í stað orðsins „Löggildingarstofu“ í 3. gr. laganna, og hvarvetna annars staðar í lögunum, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Neytendastofu.
     8.      Lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000: Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 17. gr. laganna kemur: Neytendastofa.
     9.      Lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Löggildingarstofa“ í 18. gr. laganna, og hvarvetna annars staðar í lögunum, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Neytendastofa.
     10.      Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002: Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 1. málsl. kemur: Neytendastofa.
                  b.      Í stað orðsins „samkeppnislaga“ í 2. málsl. kemur: laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
                  c.      Í stað orðins „samkeppnisyfirvalda“ í 2. málsl. kemur: Neytendastofu.
     11.      Lög um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002: Í stað orðsins „Löggildingarstofu“ í 2. tölul. 2. gr. laganna, og hvarvetna annars staðar í lögunum, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Neytendastofu.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara skal starfsmönnum Löggildingarstofu boðið annað starf hjá Neytendastofu. Við ráðstöfun þeirra starfa þarf ekki að gæta 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er tvíþætt. Í fyrsta lagi felur það í sér tillögur um að ný stofnun, Neytendastofa, verði sett á fót til að taka við hluta verkefna Samkeppnisstofnunar, sem snúa að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, og þeim verkefnum sem nú eru unnin hjá Löggildingarstofu. Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að sett verði á stofn embætti talsmanns neytenda. Jafnframt er gert ráð fyrir að Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofa verði lagðar niður. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á þeim lögum sem nú heyra undir Löggildingarstofu og Samkeppnisstofnun sem nauðsynlegt er að gera vegna flutnings verkefna til Neytendastofu.
    Samhliða frumvarpinu eru lögð fram tvö frumvörp, sem að uppistöðu innihalda þau ákvæði sem nú er að finna í gildandi samkeppnislögum, annars vegar frumvarp til nýrra samkeppnislaga og hins vegar frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Eru þau frumvörp samin með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Frumvarp til samkeppnislaga, frumvarp til laga um um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda leggja grundvöllinn að því að færa neytendamál undir sömu stofnun.

Neytendastofa.
    Helsta markmiðið með því að setja Neytendastofu á fót er að efla starf að neytendamálum og þar með auka neytendavernd, en nokkur eðlismunur er á eftirliti með samkeppnishömlum og neytendavernd, þó að hagsmunir til afskipta af fyrirtækjum geti farið saman. Þannig hefur Samkeppnisstofnun það hlutverk að fylgjast með markaðinum og vera hlutlægur úrskurðaraðili ef svo ber undir sem leggur dóm á hvort eðlilegum leikreglum sé fylgt á markaðnum. Eðli málsins samkvæmt er því erfitt fyrir Samkeppnisstofnun að taka afstöðu til hagsmunagæslu fyrir einn aðila markaðarins gegn öðrum.
    Þau verkefni sem koma til með að heyra undir hina nýju stofnun snerta öll hagsmuni neytenda með einum eða öðrum hætti. Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins auk opinberrar markaðsgæslu og eftirlits með öryggi vöru eru þeir málaflokkar sem augljóslega teljast til neytendamála, en mælifræði og málefni er varða rafmagnsöryggi varða einnig hagsmuni neytenda og eiga því vel heima í hinni nýju stofnun. Neytendastofu verða einnig falin þau verkefni sem nú heyra undir Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofu samkvæmt ákvæðum annarra laga en þeirra sem stofnunin fer með framkvæmd á. Þau lög sem um ræðir eru lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, lög um neytendalán, nr. 121/1994, lög um alferðir, nr. 80/1994, lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, lög um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, og lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994. Þessu til viðbótar er lagt til að starfsemi talsmanns neytenda verði tengd starfsemi Neytendastofu á þann hátt að starfsmenn stofnunarinnar annist störf fyrir talsmann neytenda.
    Lagt er til að ráðherra skipi forstjóra Neytendastofu sem stjórni starfsemi stofnunarinnar og ráði aðra starfsmenn. Ekki er gert ráð fyrir að sérstök stjórn verði yfir stofnuninni.

Áfrýjunarnefnd neytendamála.
    Í frumvarpinu er lagt til að skipuð verði sérstök áfrýjunarnefnd neytendamála þangað sem hægt verði að skjóta stjórnvaldsákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og annarra laga sem heyra undir Neytendastofu og hafa að geyma heimild til málskots. Er talið mikilvægt að unnt verði að skjóta ákvörðunum stofnunarinnar um ákveðin málefni til æðra stjórnvalds, en ákvarðanir samkvæmt lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu geta verið íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila. Samkvæmt núgildandi lögum er slík heimild fyrir hendi að því er varðar ákvarðanir sem byggjast á ákvæðum samkeppnislaga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en ákvörðunum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs verður skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Hins vegar er ekki heimild í lögum nú til að skjóta ákvörðunum Löggildingarstofu um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu til æðra stjórnvalds.

Talsmaður neytenda.
    Það nýmæli er lagt til í frumvarpinu að sett verði á stofn embætti talsmanns neytenda. Lengi hafa verið uppi raddir um að stofna skuli embætti umboðsmanns neytenda hér á landi, en slík embætti hafa starfað lengi á annars staðar á Norðurlöndunum. Í áliti starfshóps, sem viðskiptaráðherra skipaði í október 1998, um stefnumörkun í málefnum neytenda eru m.a. gerðar tillögur um að viðskiptaráðherra skipi starfshóp til að kanna hvort stofna eigi sérstakt embætti umboðsmanns neytenda. Við vinnu þá sem fram hefur farið í kjölfar skýrslu nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis var fjallað um málið og ákveðið að stofna sérstakt embætti sem hefði það hlutverk að taka við erindum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum, nánar tiltekið vera talsmaður neytenda. Í ljósi þess að embættisheitið umboðsmaður hefur öðlast mjög ákveðna merkingu í hugum þjóðarinnar á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun embættis umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna og þess að tillögur frumvarps þess falla ekki að öllu leyti að þeirri skilgreiningu sem yfirleitt er notuð um umboðsmenn er gerð tillaga um að embættisheitið talsmaður verði notað í lögum þessum í stað umboðsmanns. Felst munurinn aðallega í því að talsmanni neytenda er hvorki ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála eins og títt er með umboðsmenn né er lagt til að talsmaður neytenda vinni að því að gerðar verði rannsóknir á sviði neytendamála. Lagt er til að þessi verkefni verði falin Neytendastofu. Þá er lagt til að starfsemi talsmanns neytenda verði í tengslum við starfsemi Neytendastofu, þó þannig að sjálfstæði talsmanns neytenda sé að fullu tryggt. Þannig er ekki gert ráð fyrir að talsmaður neytenda hafi sérstaka starfsmenn á sínum vegum heldur að hann nýti starfsmenn Neytendastofu sér til aðstoðar við dagleg störf og undirbúning mála.
    Rétt er að taka fram að embætti talsmanns neytenda er ekki ætlað að taka við verkefnum sem stjórnvöldum hefur verið falið að vinna samkvæmt lögum og verður það í verkahring Neytendastofu að taka stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli þeirra laga sem henni er ætlað að sjá um framkvæmd á. Talsmanni neytenda er heldur ekki ætlað að fara inn á verksvið umboðsmanns Alþingis með því að láta í ljós álit á því hvort stjórnvöld hafi brotið gegn lögum eða góðum stjórnsýsluháttum við meðferð einstakra mála.
    Lagt er til að viðskiptaráðherra skipi talsmann neytenda til fimm ára í senn og skal talsmaður neytenda hafa lokið háskólaprófi og hafa þekkingu og reynslu af málefnum neytenda. Hlutverk talsmanns neytenda snýr aðallega að hagsmunagæslu fyrir neytendur, en það felst m.a. í því að taka við erindum neytenda, bregðast við brotum á réttindum og kynna þær reglur sem gilda á sviði neytendamála.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um að sérstök ríkisstofnun, Neytendastofa, skuli starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu, mælifræði og rafmagnsöryggismála. Þá er kveðið á um það að Neytendastofa heyri undir viðskiptaráðherra, en þau verkefni sem stofnuninni er ætlað að inna af hendi heyra nú þegar öll undir viðskiptaráðherra.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að Neytendastofa yfirtaki málaflokka þá sem nú heyra undir Löggildingarstofu annars vegar og neytendasvið Samkeppnisstofnunar hins vegar. Samkvæmt tillögunum mun Neytendastofa annast framkvæmd laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga og laga um vog, mál og faggildingu. Neytendastofa skal einnig leysa af hendi verkefni sem henni eru falin í öðrum lögum, en þau verkefni sem nú heyra undir Samkeppnisstofnun samkvæmt lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, lögum um neytendalán, nr. 121/1994, lögum um alferðir, nr. 80/1994, og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994 munu færast yfir til Neytendastofu. Þá munu þau verkefni sem nú eru falin Löggildingarstofu í lögum um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, lögum um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, og lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, heyra undir Neytendastofu. Auk þessa er Neytendastofu ætlað að annast dagleg störf og undirbúning mála fyrir talsmann neytenda, en gert er ráð fyrir að starfsemi hans verði tengd Neytendastofu.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er að finna reglur um stjórnsýslu Neytendastofu. Lagt er til að ráðherra skipi forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn og skal hann hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu af málefnum á starfssviði stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að forstjóri stjórni starfsemi og rekstri stofnunarinnar og ráði starfsmenn hennar. Ekki er gert ráð fyrir að sérstök stjórn verði yfir stofnuninni líkt og nú er við Löggildingarstofu.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er að finna heimild fyrir ráðherra til að setja nánari reglur um skipulag og starfsemi Neytendastofu með reglugerð.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til það nýmæli að skipuð verði sérstök úrskurðarnefnd á æðra stjórnsýslustigi, áfrýjunarnefnd neytendamála.
    Í 1. mgr. er lagt til að viðskiptaráðherra skipi þrjá aðalmenn og þrjá varamenn í áfrýjunarnefndina. Gert er ráð fyrir að skipunartími verði fjögur ár í senn. Formaður nefndarinnar og varamaður hans skulu fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara. Lagt er til að ráðherra ákveði þóknun nefndarmanna og að hún greiðist úr ríkissjóði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það hvaða ákvörðunum verður unnt að skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að unnt verði að skjóta til áfrýjunarnefndarinnar ákvörðunum Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en nú er unnt að skjóta ákvörðunum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs á grundvelli þessara ákvæða til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í öðru lagi er lagt til að hægt verði að skjóta til nefndarinnar ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995. Í 4. mgr. 1. gr. vöruöryggislaganna kemur fram að í þeim tilvikum þar sem ákvæði sérlaga séu ófullnægjandi eða gangi skemmra en ákvæði IV. og V. kafla laganna um málsmeðferð og réttarúrræði eftirlitsstjórnvalda skuli ákvæði þeirra kafla gilda. Er gert ráð fyrir að ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laganna með vísan til þessa verði einnig hægt að skjóta til áfrýjunarnefndarinnar. Loks er kveðið á um það í 2. mgr. að til áfrýjunarnefndarinnar verði skotið ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli annarra laga sem heyra undir Neytendastofu ef heimild til slíks er að finna í viðkomandi lögum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að kæra til áfrýjunarnefndarinnar skuli vera skrifleg og að hún skuli berast innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Þá er lagt til að úrskurðir nefndarinnar skuli liggja fyrir innan sex vikna frá málskoti.
    Í 4. mgr. er loks kveðið á um það að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar og að þeir séu aðfararhæfir.

Um 5. gr.

    Lagt er til að sett verði á stofn embætti talsmanns neytenda.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að viðskiptaráðherra skuli skipa í embætti talsmanns neytenda til fimm ára í senn. Þær hæfiskröfur sem lagt er til að gerðar verði til talsmanns neytenda eru að hann hafi lokið háskólaprófi og hafi þekkingu og reynslu af málefnum neytenda.
    Í 2. mgr. kemur fram að laun og starfskjör talsmanns neytenda skuli ákveðin af kjaranefnd. Þá er kveðið á um það að talsmanni neytenda sé óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf eða takast á hendur verkefni sem samrýmast ekki starfi hans. Er ákvæðið liður í því að tryggja hlutleysi og sjálfstæði talsmanns neytenda.
    Loks er kveðið á um það í 3. mgr. að Neytendastofa skuli annast dagleg störf og undirbúning mála fyrir talsmann neytenda. Þannig er gert ráð fyrir að talsmaður neytenda sé sjálfstætt embætti, en jafnframt að talsmaðurinn hafi aðsetur hjá Neytendastofu og nýti sér starfsmenn og sérfræðinga stofnunarinnar við störf fyrir embætti talsmanns. Fyrirkomulag þetta er að danskri fyrirmynd.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um hlutverk talsmanns neytenda. Samkvæmt ákvæðinu skal talsmaður neytenda stuðla að aukinni neytendavernd með því að sinna hagsmunagæslu fyrir neytendur.
    Í 2. mgr. er upptalning á þeim verkefnum sem talsmanni neytenda er ætlað að sinna. Ekki er um tæmandi talningu að ræða. Samkvæmt a-lið málsgreinarinnar felst hlutverk talsmannsins í fyrsta lagi í því að taka við erindum frá neytendum. Það er þó ekki hlutverk talsmanns neytenda að leysa úr einstökum deiluefnum eða taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga. Hann getur þó leiðbeint þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem þeim eru færar hjá dómstólum og í stjórnsýslunni.
    Í öðru lagi er kveðið á um það í b-lið að talsmaður neytenda skuli bregðast við brotum á réttindum og hagsmunum neytenda. Í c- og d-lið kemur fram að talsmaður neytenda geti, m.a. til að bregðast við brotum á hagsmunum neytenda, gefið út rökstuddar álitsgerðir ásamt tillögum um úrbætur og sett fram tillögur um úrbætur á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er varða neytendur. Loks er það hlutverk talsmanns neytenda skv. e-lið 2. mgr. að kynna þær reglur sem gilda á sviði neytendamála.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. er lagt til að talsmanni neytenda verði heimilt að taka mál til meðferðar annað hvort á grundvelli kvörtunar eða að eigin frumkvæði. Talsmaður neytenda tekur á móti erindum frá öllum neytendum, en hann hefur jafnframt vald til þess að ákveða hvort erindið gefi tilefni til meðferðar af hans hálfu.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um upplýsingaskyldu gagnvart talsmanni neytenda. Samkvæmt ákvæðinu getur hann krafist þess að stjórnvöld afhendi honum allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu, án tillits til þagnarskyldu. Þá er kveðið á um það í greininni að fyrirtækjum og samtökum sé skylt að veita talsmanni neytenda þær upplýsingar sem hann metur að séu nauðsynlegar til að hann geti sinn hlutverki sínu skv. b-lið 2. mgr. 6. gr., þ.e. brugðist við þegar hann telur brotið gegn réttindum og hagsmunum neytenda. Loks er kveðið á um það að talsmaður neytenda geti ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.
    Í lokamálsgrein er kveðið á um það að talsmaður neytenda geti leitað til dómstóla ef upp kemur ágreiningur vegna ákvæðis þessa um upplýsingaskyldu.
    Ákvæði þetta er talið nauðsynlegt við upplýsingaöflun talsmanns neytenda þegar hann hefur mál til athugunar. Það er talsmaður neytenda sem metur hvaða upplýsinga er nauðsynlegt að afla í einstökum málum. Gert er ráð fyrir að upplýsingarnar geti verið bæði munnlegar og skriflegar.

Um 9. gr.

    Hér er mælt fyrir um þagnarskyldu talsmanns neytenda og þeirra sem sinna störfum fyrir hann. Nær þagnarskyldan til þeirra atriða sem framangreindir aðilar verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Um 10. gr.

    Með ákvæði 10. gr. er lögð áhersla á það að talsmaður neytenda sé óháður fyrirmælum frá öðrum í störfum sínum, en sökum eðlis starfa hans er mikilvægt að hann sé sjálfstæður gagnvart stjórnvöldum og öðrum aðilum. Í ljósi þess að fyrirsjáanlegt er að ábendingar talsmanns neytenda geti beinst gegn stjórnvöldum, m.a. þeim sem fara með neytendamál, er mikilvægt, ekki síst til að tryggja traust almennings á störfum talsmannsins, að talsmaður neytenda sé sjálfstæður og óháður þessum aðilum í störfum sínum.
    Í ákvæðinu er einnig kveðið á um það að álitum talsmanns neytenda verði ekki skotið til annars stjórnvalds.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að talsmaður neytenda gefi ráðherra árlega skýrslu, sem birta skal opinberlega, um starfsemi sína. Útgáfa slíkrar skýrslu er til þess fallin að auka umræðu um neytendamál og vekja athygli á málefnum neytenda.
    Í 2. mgr. greinarinnar er heimild fyrir ráðherra til að setja nánari reglur um starfsemi talsmanns neytenda í reglugerð.

Um 12. gr.

    Gert er ráð fyrir að undirbúningi að stofnun Neytendastofu og flutningi verkefna Samkeppnisstofnunar er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði lokið 1. júlí 2005. Því er lagt til að lögin öðlist gildi á þeim degi. Jafnframt er lagt til að frá sama tíma verði Löggildingarstofa lögð niður.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um breytingar sem gera þarf á ýmsum lögum vegna stofnunar Neytendastofu og flutnings verkefna frá Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofu til Neytendastofu.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Öllum starfsmönnum Löggildingarstofu verða boðin störf hjá Neytendastofu. Þar verður leitast við að bjóða starfsmönnum að sinna svipuðum verkefnum og þeir hafa áður sinnt þar sem jafnframt verði þó höfð hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem fylgja breyttri verkefnaskipan. Með ákvæðinu er tryggt að ekki þurfi að auglýsa þau störf sem þessir starfsmenn verða ráðnir í. Að öðru leyti fer um réttindi þeirra samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að setja Neytendastofu á fót ásamt embætti talsmanns neytenda. Markmiðið er að efla starf að neytendamálum og þar með auka neytendavernd. Áætlað er að færa a.m.k. sex starfsmenn Samkeppnisstofnunar, sem hafa sinnt neytendaverkefnum, yfir í Neytendastofu. Samkvæmt kostnaðarmati mun hluti Neytendastofu ásamt talsmanni neytenda kosta um 58,5 m.kr. Þar af eru 3,5 m.kr. vegna flutninga og áfrýjunarnefndar neytendamála, 42 m.kr. færast frá núverandi Samkeppnisstofnun þar sem verkefnið flyst þaðan og loks eru 13 m.kr. vegna embættis talsmanns neytanda.
    Verði frumvarpið að lögum mun kostnaður ríkissjóðs aukast um 16,5 m.kr., þar af er 14,5 m.kr. varanlegur rekstrarkostnaður og 2 m.kr. vegna flutnings á starfseminni.