Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 906  —  495. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Halldórsdóttur og Sigurð Þráinsson frá umhverfisráðuneyti, Jón Gunnar Ottósson, Kristin Hauk Skarphéðinsson og Ólaf Karl Nielsen frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Arnór Þóri Sigfússon frá Skotveiðifélagi Íslands. Málið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Arnóri Þóri Sigfússyni, Skotveiðifélagi Íslands, Skotveiðifélagi Austurlands og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt verði umhverfisráðherra heimilt að takmarka veiðar við ákveðna daga og ákveðinn tíma sólarhringsins. Enn fremur að umhverfisráðherra verði heimilt að banna sölu á fuglum sem undir lögin falla og á afurðum þeirra. Auk þess er lagt til að óheimilt verði að stunda veiðar á vélsleðum, fjórhjólum og öðrum torfærutækjum.
    Nefndin ræddi m.a. hvort rétt væri að lögfesta frekari heimildir til takmörkunar en frumvarpið leggur til, svo sem heimild til að leggja á innflutningsbann samhliða sölubanni og heimild til kvótasetningar. Niðurstaða nefndarinnar var sú að þess gerðist ekki þörf að svo stöddu enda væri skynsamlegt að fá reynslu af þeim heimildum sem lagðar eru til í frumvarpinu áður en heimild yrði veitt til frekari takmarkana.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að efnismálslið 2. gr. frumvarpsins að undanskildum orðunum „enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan áðurnefndra tímamarka“ verði komið fyrir í nýrri málsgrein á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna. Það er mat nefndarinnar að umrætt ákvæði eigi betur heima þar. Þar að auki telur nefndin það vera viðtekinn skilning á lögunum að heimildin sé þegar til staðar í 1. mgr. 17. gr. laganna, þ.e. að ráðherra sé heimilt samkvæmt þeirri málsgrein að takmarka veiðar við ákveðna daga innan tímamarkanna, þ.m.t. að stytta veiðitímann í báða enda, eða ákveðinn tíma sólarhrings. Nefndin telur þó rétt að hnykkja á þessu í lagatextanum til að taka af öll tvímæli. Þá telur nefndin að orðin sem undanskilin eru séu óþörf enda er vísað til 7. gr. laganna í 1. mgr. 17. gr. og það ætti að vera nægileg viðmiðun í þessu sambandi.
     2.      Lagt er til að orðin „enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils“ í 3. gr. verði breytt í „enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands stofnsins að takmarka veiðar innan leyfilegs veiðitímabils.“ Telur nefndin síðarnefnda orðalagið markvissara og vísar til 3. og 4. gr. laganna í þessu sambandi. Þá er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 3. gr. sem kveður á um að sölubann sem ráðherra ákveður skv. 1. mgr. nái ekki til innfluttra fugla og fuglaafurða þeirra tegunda sem bannið tekur til. Nefndin telur rétt að það komi skýrt fram í lagatextanum. Jafnframt er lagt til að innflytjanda og seljanda beri að tryggja að innfluttar fuglategundir og afurðir þeirra séu þannig merktar að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar. Ákvæðið hefur það að markmiði að koma í veg fyrir að íslenskar fuglategundir og afurðir þeirra séu seldar sem innfluttar.
     3.      Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein, er verði 4. gr., sem kveði á um lengingu þess tíma þegar bannað er að leggja net í sjó nálægt friðlýstu æðarvarpi. Þessa breytingartillögu má rekja til frumvarps Einars K. Guðfinnssonar (33. mál) sem hefur verið til meðferðar í nefndinni á yfirstandandi þingi. Samkvæmt núgildandi lögum er á tímabilinu frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert óheimilt án leyfis varpeiganda að leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjöruborði en hér er lagt til að bannið gildi frá 1. apríl. Grásleppuveiðitímabilið hefst fyrr en áður en þetta getur aukið hættu á því að æðarfugl fari í net grásleppumanna og er markmið tillögunnar að stuðla gegn því. Nefndin sendi fyrrnefnt mál til umsagnar og bárust umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Bændasamtökum Íslands, Æðarræktarfélagi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landvernd og Umhverfisstofnun. Að teknu tilliti til umsagnanna var nefndin sammála um að fella umrædda breytingartillögu undir mál þetta og telur að breytingin sé til bóta.
     4.      Lagt er til að bæta við 4. gr. ákvæði sem feli í sér heimild til að sekta lögaðila fyrir brot gegn 17. gr. a. Nefndin telur rétt að setja slíkt ákvæði í lögin til að torvelda ólöglega sölu fugla og afurða þeirra í matvöruverslunum og á veitingahúsum. Í II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, er kveðið á um refsiábyrgð lögaðila. Skv. 19. gr. a þeirra verður lögaðila gerð sekt ef lög mæla svo fyrir. Skv. 19. gr. c sömu laga er refsiábyrgð lögaðila bundin því skilyrði, nema annað sé tekið fram í lögum, að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Verður lögaðila gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Ekki er talin þörf á að mæla á annan hátt fyrir í breytingartillögu þessari.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Arnbjörg Sveinsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. febrúar 2005.Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Gunnar Birgisson,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.Kristinn H. Gunnarsson.


Mörður Árnason.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.