Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 918  —  614. mál.
Tillaga til þingsályktunarum staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 og samnings EFTA- ríkjanna um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og samning EFTA-ríkjanna er varða framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 frá 4. júní 2004, um breytingu á XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 24 (um samvinnu varðandi eftirlit með samfylkingum) við EES- samninginn frá 2. maí 1992.
     2.      Samning EFTA-ríkjanna frá 4. júní 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta framangreinda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins og samnings EFTA-ríkjanna um viðeigandi breytingar á samningi þeirra um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls af því tilefni.
    Innleiðing þessarar ákvörðunar og samnings kallar á lagabreytingar hér á landi. Ákvörðunin var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu meðan leitað er samþykkis Alþingis til að staðfesta hana. Staðfesting samningsins bíður einnig samþykkis Alþingis af sömu ástæðu. Í athugasemdunum hér á eftir er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins, sem og efni ákvörðunarinnar og samningsins.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.

3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 er tilvísun til ákvæða 13. og 22. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 139/2004, um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja, felld inn í XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 24 (um samvinnu varðandi eftirlit með samfylkingum) við EES-samninginn. Samhliða því að vísun til þessara ákvæða er tekin upp í EES-samninginn hafa EFTA- ríkin gert með sér samning um viðeigandi breytingu á bókun 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnum eftirlitsstofnunar og dómstóls. Nánar verður fjallað um efni samningsins í 4. kafla athugasemdanna hér á eftir.

Almennt um efni reglugerðar ráðsins (EB) nr. 139/2004 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja.
    Evrópusambandið samþykkti hinn 20. janúar 2004 nýja reglugerð um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja. Reglugerðin kemur í stað reglugerðar Evrópubandalagsins um sama efni frá árinu 1989 og mælir fyrir um meðferð samrunamála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Meginefni reglugerðarinnar krefst ekki lagabreytinga og var því tekið upp í EES-samninginn með annarri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2004 frá 4. júní 2004. Ákvæði 13. og 22. gr. reglugerðarinnar kalla hins vegar á lagabreytingar í EFTA- ríkjunum og voru því tekin upp í EES-samninginn með sérstakri ákvörðun.
    Samkvæmt reglugerð nr. 139/2004 breytist meðferð samrunamála nokkuð frá því sem verið hefur. Samkvæmt henni ber fyrirtækjum að tilkynna formlega um áform sín á sérstöku eyðublaði áður en samruni fer fram og eru tímafrestir viðkomandi yfirvalda til að úrskurða um samrunann miðaðir við móttöku slíkra tilkynninga. Þá gerir reglugerðin ráð fyrir að fyrirtæki geti borið fyrirhugaðan samruna undir framkvæmdastjórnina áður en tilkynnt er um hann formlega. Enn fremur skal framkvæmdastjórnin gefa fyrirtækjunum og öðrum þeim sem lögmætra hagsmuna hafa að gæta tækifæri á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar áður en endanlegur úrskurður um gildi samrunans er felldur.

Breytingar á XIV. viðauka (Samkeppni).
    Í XIV. viðauka við EES-samninginn er að finna þá löggjöf Evrópusambandsins á sviði samkeppnismála sem felld hefur verið undir gildissvið EES-samningsins. Hefur XIV. viðauki að geyma efnisákvæði þeirra gerða Evrópusambandsins sem varða samkeppnismál. Formreglur um meðferð samkeppnismála hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er hins vegar að finna í bókun 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Efnisákvæði reglugerðar nr. 139/2004 voru felld inn í XIV. viðauka með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 78/2004. Með þeirri ákvörðun sem hér um ræðir eru eingöngu gerðar þær breytingar á XIV. viðauka við EES-samninginn að áréttað er að gildissvið reglugerðarinnar skuli vera með fyrirvara um ákvæði bókunar 21 og bókunar 24 við EES-samninginn. Sömuleiðis er áréttað að reglugerðin eigi einnig við um samruna sem hafi áhrif á hagsmuni EFTA.

Breytingar á bókun 21.
    Í bókun 21 er að finna ákvæði um framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins sem gilda um fyrirtæki. Samkvæmt bókun 21 skulu EFTA-ríkin gera með sér samning um að fela Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sambærilegt valdsvið og svipuð störf og framkvæmdastjórn EB þannig að ESA sé kleift að framfylgja samkeppnisákvæðum EES-samningsins. Í 2. gr. bókunar 21 er mælt fyrir um að ef Evrópusambandið samþykkir nýjar gerðir sem varða framkvæmd samkeppnisákvæða EES-samningsins skuli gera samsvarandi breytingar á stofnsamningi Eftirlitsstofnunar EFTA til þess að tryggja að stofnuninni verði samtímis falið sambærilegt valdsvið og svipuð störf og framkvæmdastjórn EB hefur. Þá eru í 3. gr. bókunar 21 taldar upp þær gerðir sem sýna, ásamt þeim gerðum sem er að finna í XIV. viðauka, valdsvið og störf framkvæmdastjórnar EB við beitingu samkeppnisreglna stofnsáttmála EB.
    Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 skal bæta tilvísun til reglugerðar nr. 139/2004 við bókun 21. Með þessari breytingu á bókun 21 verður reglugerð nr. 139/2004 þannig meðal þeirra gerða sem afmarka valdsvið og störf framkvæmdastjórnarinnar á sviði samkeppnismála. Skulu EFTA-ríkin því gera samsvarandi breytingar á samningi sínum um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls til að tryggt verði að ESA hafi sama valdsvið og störf þegar kemur að beitingu samkeppnisreglna EES-samningsins og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er falið með þeirri reglugerð.

Breytingar á bókun 24.
    Bókun 24 við EES-samninginn fjallar um samvinnu milli þeirra eftirlitsstofnanna sem fara með framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins (Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB) varðandi eftirlit með samfylkingum. Með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 79/2004 er mælt fyrir um nokkur nýmæli við bókun 24. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um að framkvæmdastjórn EB skuli tilkynna ESA um þær beiðnir sem framkvæmdastjórninni berast frá aðildarríkjum EB um að taka yfir samrunamál í þeim tilvikum þegar viðkomandi samruni getur haft áhrif á viðskipti milli bandalagsins og eins eða fleiri EFTA-ríkja. Í öðru lagi er mælt fyrir um heimild EFTA-ríkjanna til þess að vísa til ESA málum vegna samfylkingar (samruna) fyrirtækja. Er EFTA-ríkjunum heimilt að vísa málum til ESA að tveimur skilyrðum uppfylltum. Annars vegar þarf slík samfylking að hafa áhrif á viðskipti milli eins eða fleiri EB-ríkja og eins eða fleiri EFTA-ríkja. Hins vegar þarf að vera hætta á að umrædd samfylking hafi umtalsverð áhrif á samkeppni á yfirráðasvæði viðkomandi ríkis. Þá geta fleiri EFTA-ríki í sameiningu lagt fram slíka beiðni ef þessi skilyrði teljast uppfyllt. Í þeim tilfellum sem málum er vísað til ESA verður innlendri samkeppnislöggjöf ekki beitt um málefni þeirra samfylkinga sem vísað hefur verið til stofnunarinnar. Sömu sögu er að segja ef málum er vísað til framkvæmdastjórnar EB. Í þriðja lagi er mælt fyrir um að ESA skuli annast rannsóknir á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna og getur framkvæmdastjórn EB óskað eftir því við ESA að hefja slíka rannsókn. Er framkvæmdastjórninni jafnframt heimilt að óska eftir því að fulltrúar hennar séu viðstaddir rannsóknina og taki þátt í henni. Skal senda framkvæmdastjórninni þær upplýsingar sem fást við rannsókn ESA um leið og henni er lokið.

4. Samningur EFTA-ríkjanna um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnum eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Samhliða því að sameiginlega EES-nefndin felldi reglugerð nr. 139/2004 inn í EES-samninginn með ákvörðunum nr. 78/2004 og 79/2004 gerðu EFTA-ríkin með sér tvo samninga um breytingar á III. kafla bókunar 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (ESE-samningurinn). Samningarnir voru báðir undirritaðir sama dag, hinn 4. júní 2004. Fyrri samningurinn mælir fyrir um þær almennu málsmeðferðarreglur sem gilda skulu hjá ESA við framkvæmd ákvæða EES-samningsins um samfylkingar fyrirtækja. Efni síðari samningsins er hins vegar tvíþætt. Annars vegar mælir samningurinn fyrir um rannsóknarheimildir ESA í samrunamálum. Hins vegar mælir samningurinn fyrir um heimild samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum til að vísa samrunamálum til meðferðar ESA. Fyrrnefndi samningurinn kallar ekki á lagabreytingar hér á landi. Hins vegar kallar síðari samningurinn á slíkar lagabreytingar og er því leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta þann samning með þingsályktunartillögu þessari.

Valdsvið ESA við framkvæmd rannsókna.
    Með samningnum er gert ráð fyrir breytingu á þeim ákvæðum III. kafla bókunar 4 við ESE-samninginn sem mæla fyrir um rannsóknarheimildir ESA í samrunamálum. Samkvæmt núgildandi ákvæðum III. kafla bókunar 4 við ESE-samninginn er ESA heimilt að framkvæma allar nauðsynlegar rannsóknir á starfsemi fyrirtækja og samtaka fyrirtækja til að inna af hendi þær skyldur sem hvíla á stofnuninni samkvæmt ákvæðum EES-samningsins og ESE-samningsins. Með endurskoðun þessa ákvæðis er leitast við að styrkja frekar heimildir ESA til framkvæma slíkar rannsóknir en jafnframt er mælt fyrir um valdsvið innlendra dómstóla til að úrskurða um álitaefni sem geta risið við framkvæmd slíkra rannsókna. Helstu breytingarnar á ákvæðum um valdsvið ESA við framkvæmd rannsókna sem samningurinn mælir fyrir um eru eftirfarandi:
–    ESA skal vera heimilað að skoða bókhald og viðskiptaskjöl þeirra fyrirtækja sem sæta rannsókn óháð því hvernig slík gögn eru vistuð;
–    ESA er veitt heimild til að innsigla athafnasvæði fyrirtækja sem og bókhaldsgögn og önnur viðskiptaskjöl;
–    Áður en ESA tekur ákvörðun um að hefja rannsókn skal stofnunin ráðfæra sig við viðkomandi stjórnvöld í því EFTA-ríki þar sem rannsóknin skal fara fram;
–    Ef fyrirtæki sem sætir rannsókn ESA andmælir þeim ráðstöfunum sem starfsmenn stofnunarinnar hyggjast grípa til skal viðkomandi EFTA-ríki veita stofnuninni alla nauðsynlega aðstoð við framkvæmd rannsóknarinnar, þ.m.t. að óska eftir aðstoð lögreglu í þeim tilvikum sem slík aðstoð telst nauðsynleg;
–    Ef rannsóknaraðgerðir ESA verða ekki framkvæmdar nema að undangegnum dómsúrskurði samkvæmt löggjöf EFTA-ríkis skal EFTA-ríki aðstoða við að afla slíkrar heimildar;
–    Ef leita þarf dómsúrskurðar vegna rannsóknaraðgerða ESA skulu dómstólar í viðkomandi EFTA-ríki ákveða hvort skilyrði séu fyrir hendi til að framkvæmda megi slíkar aðgerðir. Skal dómstóll sérstaklega meta hvort nægilegt tilefni sé til að grípa til þeirra rannsóknaraðgerða sem ESA óskar eftir með hliðsjón af þeim hagsmunum sem rannsóknin beinist að. Dómstóllinn getur óskað eftir öllum nauðsynlegum gögnum frá ESA eða stjórnvöldum í viðkomandi EFTA-ríki til að geta lagt mat á nauðsyn fyrirhugaðra aðgerða. Hins vegar getur dómstóll í EFTA-ríki ekki hnekkt ákvörðun ESA um að hefja rannsókn né krafist aðgangs að gögnum sem ESA hefur undir höndum vegna rannsóknarinnar. Ákvörðun ESA um að hefja slíka rannsókn verður aðeins vísað til EFTA-dómstólsins.

Heimild samkeppnisyfirvalda til að vísa málum til meðferðar hjá ESA.
    Þá mælir samningurinn fyrir um það nýmæli að EFTA-ríki geta óskað eftir að ESA taki til skoðunar samfylkingar fyrirtækja (samruna) jafnvel þótt þau fyrirtæki sem um ræðir séu undir þeim veltumörkum sem mælt er fyrir um í samkeppnisreglum EES-samningsins og mundu því að öðru jöfnu ekki koma til skoðunar hjá stofnuninni. Skilyrði þess að ESA geti tekið samruna til umfjöllunar samkvæmt þessu ákvæði eru tvíþætt. Annars vegar þarf samruninn að hafa áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkjanna í skilningi samkeppnisákvæða EES-samningsins. Hins vegar þarf að vera hætta á að slíkur samruni hafi umtalsverð áhrif á samkeppni í viðkomandi EFTA-ríki. Tvö eða fleiri EFTA-ríki geta sömuleiðis lagt fram sameiginlega beiðni um að ESA taki til afgreiðslu slík mál ef framangreind skilyrði eru fyrir hendi.
    Óski EFTA-ríki eftir að ESA taki mál til slíkrar skoðunar skal framlengja þá tímafresti sem innlend samkeppnisyfirvöld hafa til að taka ákvörðun vegna fyrirhugaðs samruna þar til að ESA tekur afstöðu til þess hvort stofnunin taki til meðferðar slíkan samruna. Þegar ESA hefur móttekið slíka beiðni skal stofnunin tilkynna samkeppnisyfirvöldum EFTA-ríkjanna og þeim fyrirtækjum sem hlut eiga að máli um beiðnina. EFTA-ríkin hafa þá 15 virka daga til að taka afstöðu til þess hvort þau styðji beiðni um að ESA taki til umfjöllunar samrunamál sem vísað hefur verið til stofnunarinnar með þessum hætti. Að þeim fresti liðnum hefur ESA 10 virka daga til að taka ákvörðun um hvort stofnunin taki málið til umfjöllunar. Taki stofnunin ekki formlega ákvörðun fyrir þann frest skal litið svo á að stofnunin taki málið til umfjöllunar. Þau EFTA-ríki sem hafa sent ESA slíka beiðni skulu ekki beita innlendri samkeppnislöggjöf um þau samrunamál sem vísað hefur verið til ESA með þessum hætti.
    ESA getur enn fremur að eigin frumkvæði vakið athygli samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum á að stofnunin telji að uppfyllt séu skilyrði fyrir því að vísa málum vegna samruna fyrirtækja til stofnunarinnar. Í slíkum tilfellum getur stofnunin hvatt samkeppnisyfirvöld í viðkomandi EFTA-ríki til þess að vísa málinu til sín.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 79/2004

frá 4. júní 2004

um breytingu á XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 24 (um samvinnu varðandi eftirlit með samfylkingum) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XIV. viðauka við samninginn var breytt með samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem undirritaður var 14. október 2003 í Lúxemborg ( 1 ).

2)         Bókun 21 við samninginn var breytt með samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem undirritaður var 14. október 2003 í Lúxemborg ( 1).

3)         Bókun 24 við samninginn hefur ekki verið breytt áður með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar.

4)         Reglugerð ráðsins (EB) nr. 139/2004 frá 20. janúar 2004 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja (samrunareglugerð EB) ( 2 ) var felld inn í samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2004 frá 4. júní 2004 ( 3 ).

5)         Ákvæði 13. og 22. gr. reglugerðar (EB) nr. 139/2004 voru ekki felld inn í samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2004 frá 4. júní 2004.

6)         Rétt er að fella ákvæði 13. og 22. gr. reglugerðar (EB) nr. 139/2004 inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.


Í XIV. viðauka við samninginn komi eftirfarandi í stað texta aðlögunarliðar a) í 1. lið (reglugerð ráðsins (EB) nr. 139/2004):

„Í 1. mgr. 1. gr. bætist orðin „eða samsvarandi ákvæði í bókun 21 og bókun 24 við EES- samninginn“ við á eftir orðunum „Með fyrirvara um 5. mgr. 4. gr. og 22. gr.“.

Í stað orðanna „hagsmuni bandalagsins“ komi jafnframt orðin „hagsmuni bandalagsins eða EFTA“.“

2. gr.


Í bókun 21 við samninginn komi eftirfarandi í stað texta 1. liðar (reglugerð ráðsins (EB) nr. 139/2004) í 1. mgr. 3. gr.:

„32004 R 0139: Ákvæði 4. og 5. mgr. 4. gr. og 6.–26. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 139/2004 frá 20. janúar 2004 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja (samrunareglugerð EB) (Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2004, bls. 1).“

3. gr.


Bókun 24 við samninginn breytist sem hér segir:

1.     Eftirfarandi ný 3. mgr. bætist við í 6. gr.:

    „3.        Ef samfylking getur haft áhrif á viðskipti milli eins eða fleiri aðildarríkja EB og eins eða fleiri EFTA-ríkja skal framkvæmdastjórn EB tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA án tafar um hverja þá beiðni frá aðildarríki EB sem lögð er fram skv. 22. gr. reglugerðar (EB) nr. 139/2004.

                Eitt eða fleiri EFTA-ríki geta lagt sameiginlega fram beiðni, sem um getur í fyrstu undirgrein, ef samfylkingin hefur áhrif á viðskipti milli eins eða fleiri aðildarríkja EB og eins eða fleiri EFTA-ríkja og hætta er á að samfylking yrði samkeppni veruleg hindrun á yfirráðasvæði EFTA-ríkisins eða ríkjanna sem leggja beiðnina fram sameiginlega.

                Þegar tekið er við afriti af beiðni, sem um getur í fyrstu undirgrein, skal fella alla innlenda fresti, er varða samfylkinguna, tímabundið úr gildi í EFTA-ríkjunum þar til skorið hefur verið úr um hvar samfylkingin skuli tekin til rannsóknar. Um leið og EFTA-ríki hefur veitt framkvæmdastjórninni og hlutaðeigandi fyrirtækjum upplýsingar um að það hyggist ekki leggja fram beiðni ásamt öðrum lýkur tímabundinni niðurfellingu fresta.

                Ef framkvæmdastjórnin ákveður að taka samfylkingu til rannsóknar skal eitt eða fleiri EFTA-ríki, sem hafa lagt sameiginlega fram beiðni, ekki lengur beita innlendri löggjöf um samkeppni gagnvart samfylkingunni.“

2.     Eftirfarandi nýjar 4., 5. og 6. mgr. bætist við í 8. gr.:

    „4.        Eftirlitsstofnun EFTA skal annast rannsóknir á eigin yfirráðasvæði að beiðni framkvæmdastjórnar EB.

    5.        Framkvæmdastjórn EB getur átt fulltrúa við rannsóknina sem fram fer skv. 4. mgr. og tekið virkan þátt í henni.

    6.        Allar upplýsingar, sem fást úr þessum rannsóknum samkvæmt beiðni, skulu sendar til framkvæmdastjórnar EB um leið og rannsókn lýkur.“

3.    Í stað „4. og 5. mgr. 4. gr. og 2. og 6. mgr. 9. gr.“ í síðari málsgrein 13. gr. komi „4. gr. (4. og 5. mgr.), 9. gr. (2. og 6. mgr.) og 22. gr. (2. mgr.)“.

4. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 5. júní 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

5. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 4. júní 2004.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    S. Gillespie


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann

Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ RÁÐSINS (EB) nr. 139/2004
frá 20. janúar 2004
um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja
(samrunareglugerð EB)
(Texti sem varðar EES)


RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 83. gr. og 308. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins ( 2 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4064/89 frá 21. desember 1989 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja ( 4 ). Þar eð gera á frekari breytingar er rétt að hún verði endursamin til glöggvunar.
2)          Til að ná þeim markmiðum, sem stefnt er að með sáttmálanum, er Bandalaginu falið það verkefni, með g-lið 1. mgr. 3. gr., að koma á fót kerfi sem tryggir að samkeppni á innri markaðnum sé ekki raskað. Í 1. mgr. 4. gr. sáttmálans er kveðið á um að starfsemi aðildarríkjanna og Bandalagsins skuli fara fram í samræmi við meginregluna um opið markaðshagkerfi með frjálsri samkeppni. Þessar meginreglur eru algerlega nauðsynlegar fyrir frekari þróun innri markaðarins.
3)          Tilkoma innri markaðarins og Efnahags- og myntbandalagsins, stækkun Evrópusambandsins og það að dregið hefur úr alþjóðlegum hindrunum í viðskiptum og fjárfestingu mun leiða til enn frekari endurskipulagningar fyrirtækja, einkum í formi samfylkinga.
4)          Fagna ber slíkri endurskipulagningu að því marki sem hún er í samræmi við kröfur um öfluga samkeppni og getur aukið samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar og bætt skilyrði til aukins hagvaxtar og bættra lífskjara innan Bandalagsins.
5)          Þó ber að tryggja að endurskipulagningin hamli samkeppni ekki varanlega. Í lögum Bandalagsins verða því að vera ákvæði um þær samfylkingar sem gætu hindrað frjálsa samkeppni umtalsvert á sameiginlega markaðnum eða verulegum hluta hans.
6)          Þess vegna er nauðsynlegt að hafa sérstakan lagagerning sem gerir það kleift að hafa skilvirkt eftirlit með öllum samfylkingum, að því er varðar áhrif þeirra á skipulag samkeppni í Bandalaginu, og skal það vera eini gerningurinn sem gildir um slíkar samfylkingar. Reglugerð (EBE) nr. 4064/89 hefur gert það kleift að þróa stefnu Bandalagsins á þessu sviði. Í ljósi reynslunnar er þó rétt að endursemja þá reglugerð svo að úr verði löggjöf sem er löguð að þeim viðfangsefnum sem fylgja aukinni samþættingu á markaði og stækkun Evrópusambandsins í framtíðinni. Í samræmi við dreifræðis- og meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná því markmiði að tryggja að samkeppni á sameiginlega markaðnum sé ekki raskað í samræmi við meginregluna um opið markaðshagkerfi með frjálsri samkeppni.
7)          Þótt ákvæði 81. og 82. gr. sáttmálans taki til tiltekinna samfylkinga, samkvæmt dómaframkvæmd dómstólsins ná þau ekki til allrar starfsemi sem gæti reynst ósamrýmanleg því kerfi óraskaðrar samkeppni sem gert er ráð fyrir í sáttmálanum. Reglugerð þessi skal því ekki eingöngu byggjast á 83. gr. heldur fyrst og fremst á 308. gr. sáttmálans en samkvæmt henni getur Bandalagið áskilið sér nauðsynlegt viðbótarvald til að ná markmiðum sínum og einnig vald til aðgerða þegar um er að ræða samfylkingar á mörkuðum fyrir landbúnaðarafurðir sem eru skráðar í I. viðauka sáttmálans.
8)          Ákvæði, sem samþykkt verða með þessari reglugerð, skulu gilda um verulegar skipulagsbreytingar sem hafa áhrif á markaðinn og ná út fyrir landamæri einstakra aðildarríkja. Að jafnaði skulu slíkar samfylkingar eingöngu endurskoðaðar á vettvangi Bandalagsins, í einu kerfi og í samræmi við dreifræðisregluna. Samfylkingar, sem falla ekki undir þessa reglugerð, heyra að meginreglu til undir lögsögu aðildarríkjanna.
9)          Skilgreina ber gildissvið þessarar reglugerðar með hliðsjón af því hver landfræðileg mörk starfsemi viðkomandi fyrirtækja eru og beita stærðartakmörkunum svo að það taki til þeirra samfylkinga sem varða hagsmuni Bandalagsins. Framkvæmdastjórnin skal skila ráðinu skýrslu um framkvæmd gildandi takmarkana og viðmiðana svo að ráðið geti, í samræmi við 202. gr. sáttmálans, endurskoðað þær reglulega, svo og reglur um vísun máls fyrir tilkynningu, í ljósi fenginnar reynslu. Þetta krefst þess að aðildarríkin láti framkvæmdastjórninni í té tölfræðileg gögn til að hún geti samið slíkar skýrslur og jafnvel gert breytingatillögur. Skýrslur og tillögur framkvæmdastjórnarinnar skulu byggjast á viðeigandi upplýsingum sem aðildarríkin láta henni reglulega í té.
10)          Líta ber svo á að samfylking varði hagsmuni Bandalagsins ef heildarvelta viðkomandi fyrirtækja fer yfir sett viðmiðunarmörk. Það er óháð því hvort fyrirtækin, sem mynda samfylkinguna, hafa aðsetur innan Bandalagsins eða hafa aðalstarfsvettvang sinn þar, að því tilskildu að þau reki þar umtalsverða starfsemi.
11)          Reglurnar um að framkvæmdastjórnin vísi málum samfylkinga til aðildarríkja og aðildarríkin til framkvæmdastjórnarinnar eiga að verka sem skilvirk leiðréttingaraðferð í ljósi dreifræðisreglunnar. Með slíkum reglum eru samkeppnishagsmunir aðildarríkjanna verndaðir með viðhlítandi hætti og tilhlýðilegt tillit tekið til réttaröryggis og meginreglunnar um skoðun í einu kerfi.
12)          Samfylkingar geta uppfyllt skilyrði um skoðun samkvæmt kerfi ýmissa ríkja um eftirlit með samruna ef þær eru undir þeim viðmiðunarmörkum um veltu sem um getur í þessari reglugerð. Margar tilkynningar um sömu viðskipti auka á réttaróvissu, vinnu og kostnað fyrirtækja og slíkt getur leitt til margs konar mats. Því er rétt að þróa áfram kerfi sem felur í sér að viðkomandi aðildarríki geta vísað málum samfylkinga til framkvæmdastjórnarinnar.
13)          Framkvæmdastjórninni ber að hafa náið og stöðugt samband við lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum sem hún fær athugasemdir og upplýsingar frá.
14)          Framkvæmdastjórnin og lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skulu saman mynda net opinberra yfirvalda sem hafa náið samstarf um beitingu valdheimilda sinna og hafa skilvirka tilhögun um upplýsingamiðlun og samráð með það fyrir augum að tryggja að hvert mál sé í höndum þess yfirvalds sem best er til þess fallið í ljósi dreifræðisreglunnar og til að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að tilkynnt sé mörgum sinnum um sömu samfylkinguna. Þegar samfylkingum er vísað frá framkvæmdastjórninni til aðildarríkjanna eða frá aðildarríkjunum til framkvæmdastjórnarinnar skal gera það á skilvirkan hátt og forðast eftir megni að upp komi sú staða að samfylkingu sé vísað áfram, bæði fyrir og eftir að tilkynnt er um hana.
15)          Framkvæmdastjórnin skal geta vísað til aðildarríkis tilkynntum samfylkingum, sem varða hagsmuni Bandalagsins og veruleg hætta er á að hafi áhrif á samkeppni á markaði í því aðildarríki sem hefur öll einkenni aðgreinds markaðar. Þegar samfylking hefur áhrif á samkeppni á slíkum markaði, sem er ekki verulegur hluti af sameiginlega markaðnum, ber framkvæmdastjórninni skylda til, að fenginni beiðni, að vísa öllu málinu eða hluta þess til viðkomandi aðildarríkis. Aðildarríki skal geta vísað til framkvæmdastjórnarinnar máli samfylkingar, sem varðar ekki hagsmuni Bandalagsins en hefur áhrif á viðskipti milli aðildarríkja og hætta er á að hafi veruleg áhrif á samkeppni á yfirráðasvæði þess. Önnur aðildarríki, sem eru einnig þar til bær að endurskoða samfylkinguna, skulu eiga þess kost að verða aðilar að beiðninni. Við slíkar aðstæður skal innlendur frestur lengdur, til að tryggja skilvirkni og áreiðanleika kerfisins, þar til ákvörðun hefur verið tekin um hvort málinu verði vísað áfram. Framkvæmdastjórnin skal hafa vald til að taka samfylkingu til skoðunar og fjalla um hana fyrir hönd aðildarríkis eða aðildarríkja sem óska eftir því.
16)          Til að auka enn frekar skilvirkni kerfis eftirlits með samfylkingum í Bandalaginu skulu viðkomandi fyrirtæki eiga þess kost að óska eftir því að samfylkingunni sé vísað til framkvæmdastjórnarinnar eða frá henni áður en tilkynnt er um hana. Í slíkum tilvikum skulu framkvæmdastjórnin og innlend samkeppnisyfirvöld ákveða, innan stutts, skýrt skilgreinds frests, hvort málinu skuli vísað til framkvæmdastjórnarinnar eða frá henni og tryggja þannig skilvirkni kerfisins. Framkvæmdastjórnin skal, að beiðni viðkomandi fyrirtækja, geta vísað til aðildarríkis samfylkingu, sem varðar hagsmuni Bandalagsins og getur haft umtalsverð áhrif á samkeppni á markaði í því aðildarríki sem hefur öll einkenni aðgreinds markaðar. Viðkomandi fyrirtækjum er þó ekki skylt að sýna fram á að samfylkingin myndi hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Framkvæmdastjórnin skal ekki vísa máli samfylkingar til aðildarríkis sem hefur lýst yfir andmælum gegn slíkri vísun. Áður en innlendum yfirvöldum er tilkynnt um samfylkingu skulu viðkomandi fyrirtæki einnig eiga þess kost að óska eftir því að samfylkingu verði vísað til framkvæmdastjórnarinnar, ef hún varðar ekki hagsmuni Bandalagsins og hana má endurskoða samkvæmt innlendum samkeppnislögum a.m.k. þriggja aðildarríkja. Slíkar beiðnir um vísun máls til framkvæmdastjórnarinnar áður en tilkynnt er um samfylkingu eiga einkum við í tilvikum þar sem samfylkingin gæti haft áhrif á samkeppni út fyrir yfirráðasvæði eins aðildarríkis. Ef samfylkingu, sem má endurskoða samkvæmt samkeppnislögum þriggja eða fleiri aðildarríkja, er vísað til framkvæmdastjórnarinnar áður en tilkynnt er um hana innanlands og ekkert aðildarríki, sem er þar til bært að endurskoða málið, lýsir yfir andmælum skal framkvæmdastjórnin ein vera þar til bær að endurskoða samfylkinguna og sú samfylking skal teljast varða hagsmuni Bandalagsins. Ekki skal þó vísa samfylkingu frá aðildarríkjum til framkvæmdastjórnarinnar áður en tilkynnt er um hana ef a.m.k. eitt aðildarríki, sem hefur heimild til að endurskoða málið, hefur lýst yfir andmælum gegn slíkri vísun.
17)          Framkvæmdastjórnin skal ein hafa vald til að beita þessari reglugerð með fyrirvara um endurskoðun dómstólsins.
18)          Aðildarríkjunum er óheimilt að beita landslögum um samkeppni gagnvart samfylkingum sem varða hagsmuni Bandalagsins, nema kveðið sé á um það í þessari reglugerð. Takmarka skal viðeigandi heimildir innlendra yfirvalda við tilvik þar sem líklegt er að virk samkeppni yrði hindruð verulega á yfirráðasvæði aðildarríkis án íhlutunar framkvæmdastjórnarinnar og þar sem ógerlegt er að vernda hagsmuni aðildarríkisins í samkeppnismálum nægilega á annan hátt samkvæmt reglugerð þessari. Hlutaðeigandi aðildarríki skulu bregðast skjótt við í slíkum tilvikum. Vegna ósamræmis í landslögum er ekki unnt að ákveða einn sameiginlegan frest með þessari reglugerð fyrir samþykkt lokaákvarðana samkvæmt landslögum.
19)          Einhliða beiting ákvæða þessarar reglugerðar gagnvart samfylkingum sem varða hagsmuni Bandalagsins er enn fremur með fyrirvara um 296. gr. sáttmálans og kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin geri viðeigandi ráðstafanir til að vernda lögmæta hagsmuni, aðra en þá sem fjallað er um í þessari reglugerð, að því tilskildu að þær ráðstafanir samrýmist almennum meginreglum og öðrum lagaákvæðum Bandalagsins.
20)          Brýnt er að skilgreina hugtakið samfylking þannig að það taki til starfsemi sem hefur í för með sér varanlega breytingu á eftirliti með hlutaðeigandi fyrirtækjum og þar með skipulagi markaðarins. Þess vegna er rétt að öll fyrirtæki um sameiginlegt verkefni, sem gegna til frambúðar og að öllu leyti hlutverki sjálfstæðrar efnahagseiningar, falli undir gildissvið þessarar reglugerðar. Enn fremur er rétt að viðskipti, sem eru nátengd vegna sömu skilmála, eða eru hluti af röð viðskipta með verðbréf sem standa yfir í tiltölulega stuttan tíma, fái sömu meðferð og um væri að ræða eina samfylkingu.
21)          Þessi reglugerð skal einnig gilda þar sem viðkomandi fyrirtæki samþykkja takmarkanir sem tengjast framkvæmd samfylkingarinnar beint og eru nauðsynlegar vegna hennar. Ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar þar sem því er lýst yfir að samfylkingar samrýmist sameiginlega markaðnum samkvæmt þessari reglugerð skulu sjálfkrafa ná yfir slíkar takmarkanir án þess að framkvæmdastjórnin þurfi að meta þær í hverju einstöku tilviki. Framkvæmdastjórnin skal þó, að beiðni viðkomandi fyrirtækja, í málum þar sem upp kemur nýr eða óleystur vandi sem veldur verulegri óvissu, meta sérstaklega hvort tiltekin takmörkun tengist framkvæmd samfylkingarinnar beint og sé nauðsynleg vegna hennar. Mál telst vera nýr eða óleystur vandi ef það veldur verulegri óvissu sem ekki er fjallað um í viðeigandi, gildandi auglýsingu framkvæmdastjórnarinnar eða áður birtri ákvörðun.
22)          Í fyrirkomulagi því sem innleiða á til að hafa eftirlit með samfylkingum skal, með fyrirvara um 2. mgr. 86. gr. sáttmálans, virða meginregluna um bann við því að opinbera geiranum og einkageiranum sé mismunað. Í opinbera geiranum skal því reikna veltu viðkomandi fyrirtækis, sem á aðild að samfylkingu, með hliðsjón af fyrirtækjum sem mynda efnahagseiningu með sjálfstætt ákvörðunarvald, án tillits til skiptingar eignarhluta eða reglna um stjórnsýslueftirlit sem gilda um þau.
23)          Nauðsynlegt er, með tilliti til þess að viðhalda virkri samkeppni á sameiginlega markaðnum og þróa hana, að skera úr um hvort samfylking, sem varðar hagsmuni Bandalagsins, samrýmist sameiginlega markaðnum. Við þetta mat skal framkvæmdastjórnin taka ákvarðanir sínar út frá almennum viðmiðunum um að ná grundvallarmarkmiðum sem um getur í 2. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins og 2. gr. sáttmálans um Evrópusambandið.
24)          Til að tryggja kerfi óheftrar samkeppni á sameiginlega markaðnum skal heimilað með þessari reglugerð, með það fyrir augum að hrinda í framkvæmd stefnu sem er mörkuð í samræmi við meginregluna um opið markaðshagkerfi með frjálsri samkeppni, að hafa skilvirkt eftirlit með öllum samfylkingum að því er varðar áhrif þeirra á samkeppni í Bandalaginu. Þess vegna var sett sú meginregla með reglugerð (EBE) nr. 4064/89 að samfylking, sem varðar hagsmuni Bandalagsins og skapar eða eflir yfirburðastöðu sem leiðir til umtalsverðrar hindrunar á virkri samkeppni á sameiginlega markaðnum eða verulegum hluta hans, skuli lýst ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum.
25)          Í ljósi þess hvaða afleiðingar samfylkingar í fákeppnismarkaðskerfi geta haft er það þeim mun nauðsynlegra að viðhalda skilvirkri samkeppni á slíkum mörkuðum. Á mörgum fákeppnismörkuðum ríkir heilbrigð samkeppni. Við vissar aðstæður geta þó samfylkingar, sem fela í sér afnám mikilvægra samkeppnishafta, sem samrunaaðilarnir hafa sett hver öðrum, og minnkandi samkeppnisþrýsting á samkeppnisaðilana sem eftir eru, leitt af sér verulegar hindranir á virkri samkeppni, jafnvel þó að ekki séu líkur á samræmingu á milli aðila í fákeppni. Dómstólar Bandalagsins hafa þó ekki fram til þessa túlkað það skýlaust svo að þess sé krafist samkvæmt reglugerð (EBE) nr. 4064/89 að samfylkingar, sem hafa slík ósamræmd áhrif, verði lýstar ósamrýmanlegar sameiginlega markaðnum. Vegna réttaröryggis skal því tekinn af allur vafi um það að í þessari reglugerð er heimilað skilvirkt eftirlit með öllum slíkum samfylkingum með því að kveða á um að allar samfylkingar, sem myndu hindra verulega virka samkeppni á sameiginlega markaðnum eða verulegum hluta hans, skuli lýstar ósamrýmanlegar sameiginlega markaðnum. Túlka ber hugtakið „umtalsverð hindrun virkrar samkeppni“ í 2. og 3. mgr. 2. gr. þannig að það taki, auk hugtaksins „yfirburðastaða“, eingöngu til samkeppnishamlandi áhrifa samfylkingar sem eru afleiðing ósamræmds atferlis fyrirtækja sem hafa ekki yfirburðastöðu á viðkomandi markaði.
26)          Ef umtalsverðar hindranir eru í vegi fyrir virkri samkeppni er það venjulega afleiðing þess þegar yfirburðastaða myndast eða eflist. Til að varðveita þá leiðsögn, sem felst í fyrri dómum Evrópudómstólanna og ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt reglugerð (EBE) nr. 4064/89, og halda um leið samræmi við viðmiðanir um samkeppnisskaða sem framkvæmdastjórnin og dómstólar Bandalagsins hafa beitt varðandi það hvort samfylkingar samrýmist sameiginlega markaðnum, skal því koma á þeirri meginreglu með þessari reglugerð að lýsa skuli samfylkingu, sem varðar hagsmuni Bandalagsins og myndi raska verulega virkri samkeppni á sameiginlega markaðnum eða verulegum hluta hans, einkum í kjölfar þess þegar yfirburðastaða myndast eða eflist, ósamrýmanlega sameiginlega markaðnum.
27)          Auk þess skal beita viðmiðunum 1. og 3. mgr. 81. gr. sáttmálans gagnvart fyrirtækjum um sameiginleg verkefni sem gegna til frambúðar og að öllu leyti hlutverki sjálfstæðra efnahagseininga að svo miklu leyti sem stofnun þeirra leiðir til sýnilegrar takmörkunar á samkeppni á milli fyrirtækja sem verða áfram sjálfstæð.
28)          Til að skýra og útskýra hvernig framkvæmdastjórnin metur samfylkingar samkvæmt þessari reglugerð er rétt að framkvæmdastjórnin birti leiðbeiningar þar sem gefinn er traustur efnahagsrammi fyrir mat á samfylkingum til að ákvarða hvort þær skuli lýstar samrýmanlegar sameiginlega markaðnum.
29)          Við ákvörðun á áhrifum samfylkingar á samkeppni á sameiginlega markaðnum er rétt að tekið sé tillit til allra raka um líklega hagkvæmni sem viðkomandi fyrirtæki hafa fram að færa. Vera kann að sú hagkvæmni, sem næst með samfylkingu, vinni gegn áhrifum hennar á samkeppni og einkum hugsanlegum skaða sem neytendur hefðu annars getað orðið fyrir og samfylkingin myndi því ekki raska virkri samkeppni umtalsvert á sameiginlega markaðnum eða verulegum hluta hans, einkum þegar yfirburðastaða hefur myndast eða eflst. Framkvæmdastjórnin skal birta leiðbeiningar um það við hvaða aðstæður hún getur tekið tillit til hagkvæmni við mat á samfylkingu.
30)          Ef viðkomandi fyrirtæki breyta tilkynntri samfylkingu, einkum með því að taka á sig skuldbindingar í þeim tilgangi að samfylkingin geti samrýmst sameiginlega markaðnum, skal framkvæmdastjórninni heimilt að lýsa samfylkinguna samrýmanlega sameiginlega markaðnum með áorðnum breytingum. Slíkar skuldbindingar skulu vera í réttu hlutfalli við samkeppnisvandann og leysa hann algerlega. Einnig er rétt að samþykkja slíkar skuldbindingar áður en málsmeðferð er hafin þyki samkeppnisvandinn augljós og auðleysanlegur. Kveða þarf skýrt á um að framkvæmdastjórnin geti bundið ákvörðun sína skilyrðum og skyldum til að tryggja að hlutaðeigandi fyrirtæki standi við skuldbindingar sínar, tímanlega og á skilvirkan hátt svo að samfylkingin geti samrýmst sameiginlega markaðnum. Tryggja skal gagnsæi og skilvirkt samráð við aðildarríkin og þriðju málsaðila, sem eru hagsmunaaðilar, þann tíma sem málsmeðferð stendur yfir.
31)          Framkvæmdastjórnin skal hafa yfir að ráða viðeigandi gerningum til að tryggja að staðið sé við skuldbindingar og bregðast við aðstæðum þar sem það er ekki gert. Ef skilyrði, sem er bundið ákvörðun um að lýsa samfylkingu samrýmanlega sameiginlega markaðnum, er ekki uppfyllt skapast ekki þær aðstæður sem gera samfylkinguna samrýmanlega sameiginlega markaðnum og samfylkingin, eins og hún er framkvæmd, hlýtur því ekki heimild framkvæmdastjórnarinnar. Af því leiðir að ef samfylkingin kemur til framkvæmda skal hún fá sömu meðferð og samfylking sem ekki hefur verið tilkynnt og hefur verið framkvæmd án heimildar. Ef framkvæmdastjórnin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að samfylkingin myndi ekki samrýmast sameiginlega markaðnum að óuppfylltu skilyrði skal hún enn fremur hafa heimild til þess að gefa bein fyrirmæli um að samfylkingin verði leyst upp og færa til fyrra horfs aðstæðurnar sem voru fyrir hendi áður en samfylkingin kom til framkvæmda. Ef skylda, sem tengist ákvörðun um að lýsa samfylkinguna samrýmanlega sameiginlega markaðnum, er vanrækt skal framkvæmdastjórnin hafa heimild til að afturkalla ákvörðun sína. Enn fremur skal framkvæmdastjórnin geta lagt á hæfilegar fjársektir ef skilyrðum er ekki fullnægt eða skyldur eru ekki uppfylltar.
32)          Ganga má út frá því að samfylkingar, sem eru ekki líklegar til að hindra virka samkeppni vegna takmarkaðrar markaðshlutdeildar viðkomandi fyrirtækja, séu samrýmanlegar sameiginlega markaðnum. Fari markaðshlutdeild viðkomandi fyrirtækja ekki yfir 25%, hvorki á sameiginlega markaðnum né á verulegum hluta hans, bendir það einkum til þess að sú sé raunin, með fyrirvara um 81. og 82. gr. sáttmálans.
33)          Framkvæmdastjórnin skal hafa það hlutverk að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir til að ákveða hvort samfylkingar, sem varða hagsmuni Bandalagsins, séu samrýmanlegar sameiginlega markaðnum eða ekki, svo og ákvarðanir sem miða að því að endurvekja aðstæður sem voru fyrir hendi áður en samfylking, sem hefur verið lýst ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum, kemur til framkvæmda.
34)          Til að tryggja skilvirkt eftirlit skal skylda fyrirtæki til að tilkynna fyrir fram um samfylkingar, sem varða hagsmuni Bandalagsins, eftir að gerður hefur verið samningur, yfirtökuboð auglýst eða ráðandi hlutar aflað. Einnig skal vera mögulegt að tilkynna um þær þegar viðkomandi fyrirtæki veita framkvæmdastjórninni fulla vissu fyrir því að þau hafi í hyggju að ganga til samninga um fyrirhugaða samfylkingu og sýna framkvæmdastjórninni fram á að áætlun þeirra um þá fyrirhuguðu samfylkingu sé nægilega fastmótuð, t.d. á grundvelli samnings í grundvallaratriðum, viljayfirlýsingar eða samningsdraga sem öll hlutaðeigandi fyrirtæki undirrita, eða, þegar um er að ræða yfirtökuboð, þegar þau hafa tilkynnt opinberlega að þau hyggist gera slíkt tilboð, að því tilskildu að fyrirhugaður samningur eða yfirtökuboð leiði til samfylkingar sem varðar hagsmuni Bandalagsins. Fresta ætti framkvæmd samfylkingar þar til lokaákvörðun framkvæmdastjórnarinnar liggur fyrir. Það skal þó vera mögulegt að veita undanþágu frá þessari frestun að beiðni hlutaðeigandi fyrirtækja, ef við á. Við ákvörðun um hvort veita skuli undanþáguna ber framkvæmdastjórninni að taka tillit til allra þátta sem máli skipta, s.s. hvers eðlis og hve alvarlegur skaðinn er sem samfylkingin veldur hlutaðeigandi fyrirtækjum eða þriðju málsaðilum, svo og til þess að samkeppni kann að stafa ógn af samfylkingunni. Til að réttaröryggis sé gætt verður eigi að síður að vernda lögmæti viðskiptanna eins og þörf krefur.
35)          Ákveða skal þann frest sem framkvæmdastjórnin hefur til að hefja málsmeðferð varðandi tilkynnta samfylkingu og þann frest sem hún hefur til að taka lokaákvörðun um það hvort hún sé samrýmanleg eða ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum. Framlengja skal þessa fresti þegar viðkomandi fyrirtæki bjóðast til að taka á sig skuldbindingar í því skyni að samfylkingin geti samrýmst sameiginlega markaðnum svo að nægur tími gefist fyrir greiningu og markaðsprófun slíkra skuldbindinga og fyrir samráð við aðildarríkin og þriðju aðila sem eiga hagsmuna að gæta. Einnig skal vera mögulegt að framlengja tímabundið frestinn sem framkvæmdastjórnin hefur til að taka lokaákvörðun sína svo að nægur tími gefist til að rannsaka málið og sannprófa þær staðreyndir og þau rök sem hafa verið lögð fyrir framkvæmdastjórnina.
36)          Bandalagið virðir þau grundvallarréttindi og fylgir þeim meginreglum sem einkum eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi ( 1 ). Þar af leiðandi er rétt að túlka og beita þessari reglugerð með hliðsjón af þeim réttindum og meginreglum.
37)          Veita skal hlutaðeigandi fyrirtækjum rétt til að flytja mál sitt fyrir framkvæmdastjórninni þegar málsmeðferð er hafin. Auk þess skal veita framkvæmdastjórum, öðrum stjórnendum, viðurkenndum fulltrúum starfsmanna viðkomandi fyrirtækja og þriðju aðilum, sem eiga hagsmuna að gæta, tækifæri til að flytja mál sitt.
38)          Til að geta lagt rétt mat á samfylkingar skal framkvæmdastjórnin hafa heimild til að krefjast allra nauðsynlegra upplýsinga og gera allar nauðsynlegar athuganir hvarvetna í Bandalaginu. Í því skyni, og með það fyrir augum að vernda samkeppni á skilvirkan hátt, er nauðsynlegt að auka vald framkvæmdastjórnarinnar til rannsókna. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi heimild til að ræða við hvern þann sem gæti búið yfir gagnlegum upplýsingum og skrá framburð hans.
39)          Við athugun skulu embættismenn, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð, hafa heimild til að falast eftir upplýsingum sem varða efni og tilgang athugunarinnar. Þeir skulu einnig hafa rétt til að setja innsigli á meðan á athugun stendur, einkum við aðstæður þar sem gild ástæða er til að ætla að samfylking hafi komið til framkvæmda án þess að tilkynnt væri um hana, að framkvæmdastjórninni hafi verið veittar rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar eða að viðkomandi fyrirtæki eða aðilar hafi ekki uppfyllt skilyrði eða skyldur sem hefur verið lögð á með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Innsigli skulu þó einungis notuð í undantekningartilvikum og í þann tíma sem er algerlega nauðsynlegur vegna athugunarinnar, að jafnaði ekki lengur en 48 klukkustundir.
40)          Með fyrirvara um dómaframkvæmd dómstólsins er einnig rétt að tiltaka hversu langt eftirlit innlendra dómsmálayfirvalds má ganga þegar það heimilar, eins og mælt er fyrir um í landslögum og einnig sem varúðarráðstöfun, aðstoð löggæsluyfirvalda við að vinna bug á andstöðu sem fyrirtæki kann að sýna gegn athugun, þ.m.t. við innsiglun sem gefin eru fyrirmæli um í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Samkvæmt dómaframkvæmd er innlendum dómsmálayfirvöldum heimilt að óska eftir nánari upplýsingum frá framkvæmdastjórninni sem eru nauðsynlegar til að þau geti sinnt eftirliti sínu, en án slíkra upplýsinga gætu þau synjað um heimildina. Í dómaframkvæmd kemur einnig fram staðfesting á því að innlendir dómstólar séu þar til bærir að hafa eftirlit með beitingu innlendra reglna um framkvæmd þvingunarráðstafana. Lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum skulu hafa virkt samstarf að því er varðar beitingu valds framkvæmdastjórnarinnar til rannsókna.
41)          Þegar fyrirtæki og viðkomandi aðilar hlíta ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar er ekki hægt að þvinga þau til að viðurkenna að þau hafi framið brot en þó er þeim ætíð skylt að svara spurningum um staðreyndir og leggja fram skjöl jafnvel þótt þær upplýsingar megi nota til sönnunar á broti þeirra sjálfra eða annarra.
42)          Vegna gagnsæis skal birta sem víðast allar ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar sem varða ekki málsmeðferð eingöngu. Jafnframt því að standa vörð um rétt hlutaðeigandi fyrirtækja til málsvarnar, og þá einkum rétt til aðgangs að málsskjölum, er mjög mikilvægt að virða viðskiptaleynd. Með sama hætti skal gæta trúnaðar varðandi þær upplýsingar sem skipst er á um netið og við lögbær yfirvöld í þriðju löndum.
43)          Sé ekki farið að ákvæðum þessarar reglugerðar má beita sektum og févíti eins og við á. Veita ber dómstólnum ótakmarkaða lögsögu að þessu leyti skv. 229. gr. sáttmálans.
44)          Fylgjast ber með því hvaða skilyrðum samfylkingar, sem taka til fyrirtækja með aðsetur sitt eða aðalstarfsvettvang innan Bandalagsins, eru háðar í þriðju löndum og kveða skal á um að ráðið hafi þann möguleika að veita framkvæmdastjórninni viðeigandi umboð til samningaviðræðna með það fyrir augum að slík fyrirtæki fái meðferð án mismununar.
45)          Þessi reglugerð hefur á engan hátt áhrif á almenn réttindi starfsmanna, eins og þau eru viðurkennd í viðkomandi fyrirtækjum, einkum að því er varðar þá skyldu að upplýsa eða hafa samráð við viðurkennda fulltrúa sína samkvæmt lögum Bandalagsins og landslögum.
46)          Framkvæmdastjórnin skal geta mælt fyrir um nákvæmar reglur varðandi framkvæmd þessarar reglugerðar í samræmi við reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið. Við samþykkt slíkra framkvæmdarákvæða skal framkvæmdastjórnin njóta aðstoðar ráðgjafarnefndar sem er skipuð fulltrúum aðildarríkjanna eins og tilgreint er í 23. gr.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Gildissvið

1.     Með fyrirvara um 5. mgr. 4. gr. og 22. gr. gildir þessi reglugerð um allar samfylkingar er varða hagsmuni Bandalagsins eins og skilgreint er í þessari grein.
2.     Samfylking varðar hagsmuni Bandalagsins þegar:
a)    heildarvelta allra hlutaðeigandi fyrirtækja á heimsmarkaði fer yfir 5 000 milljónir evra og
b)    heildarvelta minnst tveggja hlutaðeigandi fyrirtækja innan Bandalagsins, hvers um sig, fer yfir 250 milljónir evra,
nema hvert fyrirtæki, sem á í hlut, hafi meira en tvo þriðju heildarveltu sinnar innan Bandalagsins í einu og sama aðildarríki.
3.     Samfylking, sem nær ekki viðmiðunarmörkunum sem mælt er fyrir um í 2. mgr., telst varða hagsmuni Bandalagsins ef:
a)    heildarvelta allra hlutaðeigandi fyrirtækja á heimsmarkaði fer yfir 2 500 milljónir evra og
b)    heildarvelta allra hlutaðeigandi fyrirtækja í minnst þremur aðildarríkjum, hverju um sig, fer yfir 100 milljónir evra,
c)    heildarvelta a.m.k. tveggja hlutaðeigandi fyrirtækja, hvors um sig, í minnst þremur aðildarríkjum, hverju um sig, sbr. b-lið, fer yfir 25 milljónir evra,
d)    heildarvelta minnst tveggja hlutaðeigandi fyrirtækja innan Bandalagsins, hvors um sig, fer yfir 100 milljónir evra,
nema hvert fyrirtæki, sem á í hlut, hafi meira en tvo þriðju heildarveltu sinnar innan Bandalagsins í einu og sama aðildarríki.
4.     Framkvæmdastjórnin skal, á grundvelli tölfræðilegra gagna sem aðildarríkin afhenda reglulega, skila ráðinu skýrslu, eigi síðar en 1. júlí 2009, um beitingu viðmiðunarmarka og viðmiðana sem eru sett fram í 2. og 3. mgr. og getur lagt fram tillögur skv. 5. mgr.
5.     Í framhaldi af skýrslunni, sem um getur í 4. mgr,. og að tillögu framkvæmdastjórnarinnar getur ráðið, með auknum meirihluta, endurskoðað viðmiðunarmörkin og viðmiðanirnar sem um getur í 3. mgr.

2. gr.
Mat á samfylkingum

1.     Leggja skal mat á samfylkingar, sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar, í samræmi við markmiðin með þessari reglugerð og eftirfarandi ákvæði með það fyrir augum að skera úr um hvort þær samrýmist sameiginlega markaðnum eða ekki.
Við slíkt mat skal framkvæmdastjórnin taka tillit til:
a)    þess að þörf er á að viðhalda og efla virka samkeppni á sameiginlega markaðnum, m.a. með hliðsjón af samsetningu allra viðkomandi markaða og raunverulegri eða hugsanlegri samkeppni af hálfu fyrirtækja sem eru staðsett innan Bandalagsins eða utan þess,
b)    markaðsstöðu viðkomandi fyrirtækja og efnahagslegs og fjárhagslegs styrks þeirra, kosta sem birgjar og notendur geta valið um, aðgangs þeirra að aðföngum eða mörkuðum, lagalegra hindrana eða annars sem hindrar aðgang, þróunar framboðs og eftirspurnar eftir viðkomandi vöru eða þjónustu, hagsmuna milliliða og neytenda og tækni- og efnahagsframfara, að því tilskildu að þetta sé neytendum til hagsbóta og hindri ekki samkeppni.
2.     Samfylking, sem hindrar ekki virka samkeppni umtalsvert á sameiginlega markaðnum eða á verulegum hluta hans, einkum þegar yfirburðastaða hefur myndast eða eflst, skal lýst samrýmanleg sameiginlega markaðnum.
3.     Samfylking, sem hindrar virka samkeppni umtalsvert á sameiginlega markaðnum eða á verulegum hluta hans, einkum þegar yfirburðastaða hefur myndast eða eflst, skal lýst ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum.
4.     Að því marki sem stofnun fyrirtækis um sameiginlegt verkefni, sem telst samfylking skv. 3. gr., hefur það markmið eða þau áhrif að samræma samkeppnishegðun fyrirtækja sem halda áfram sjálfstæði sínu, skal meta slíka samræmingu á grundvelli viðmiðananna í 1. og 3. mgr. 81. gr. sáttmálans með það í huga að ákvarða hvort starfsemin samrýmist sameiginlega markaðnum eða ekki.
5.     Við slíkt mat skal framkvæmdastjórnin einkum taka mið af eftirfarandi:
—    hvort tvö eða fleiri móðurfyrirtæki haldi uppi umtalsverðri starfsemi á sama markaði og fyrirtæki um sameiginlegt verkefni eða á markaði sem er aðliggjandi eða fráliggjandi, miðað við fyrirtækið um sameiginlegt verkefni, eða á nærliggjandi markaði sem er nátengdur honum,
—    hvort samræmingin, sem er bein afleiðing þess að fyrirtæki um sameiginlegt verkefni er stofnað, leiðir til þess að hlutaðeigandi fyrirtæki hafi möguleika á að koma í veg fyrir samkeppni með tilliti til verulegs hluta framleiðslunnar eða þjónustunnar sem um er að ræða.

3. gr.
Skilgreining á samfylkingu

1.     Samfylking telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar:
a)    vegna samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja eða hluta úr fyrirtækjum sem áður störfuðu sjálfstætt, eða
b)    vegna þess að einn eða fleiri aðilar eða eitt eða fleiri fyrirtæki, sem þegar hafa yfirráð yfir a.m.k. einu fyrirtæki, ná beinum eða óbeinum yfirráðum yfir einu eða fleiri fyrirtækjum til viðbótar, í heild eða að hluta, með því að kaupa verðbréf eða eignir, með samningi eða með öðrum hætti.
2.     Yfirráð yfir fyrirtæki skapast af rétti, með samningum eða með einhverjum öðrum hætti sem, annaðhvort sérstaklega eða samanlagt og með hliðsjón af staðreyndum eða lagalegum sjónarmiðum, gerir það kleift að hafa afgerandi áhrif á fyrirtæki, einkum með:
a)    eignarhaldi eða rétti til að nota eignir fyrirtækis, allar eða að hluta,
b)    rétti eða samningum sem hafa afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir stofnana fyrirtækis.
3.     Yfirráð öðlast aðilar eða fyrirtæki sem:
a)    eru rétthafar eða eiga tilkall til réttar samkvæmt samningum þar að lútandi, eða
b)    hafa heimild til að beita afleiddum rétti þótt þeir séu hvorki handhafar slíks réttar né eigi tilkall til réttar samkvæmt slíkum samningum.
4.     Stofnun fyrirtækis um sameiginlegt verkefni, sem gegnir til frambúðar allri starfsemi sjálfstæðrar efnahagseiningar, skal teljast samfylking í skilningi b-liðar 1. mgr.
5.     Samfylking telst ekki hafa átt sér stað þegar:
a)    lánastofnanir eða aðrar fjármálastofnanir eða vátryggingafélög sem, þar sem viðskipti með verðbréf, kaup og sala fyrir eigin hönd eða annarra fellur undir venjulega starfsemi, eiga tímabundið verðbréf sem þau hafa eignast í fyrirtæki með það fyrir augum að selja þau aftur, að því tilskildu að þau nýti sér ekki atkvæðisrétt sem fylgir þessum verðbréfum til að ákvarða samkeppnishegðun þess fyrirtækis eða að því tilskildu að þau nýti sér þennan atkvæðisrétt einungis til að undirbúa sölu viðkomandi fyrirtækis, í heild eða að hluta, eða eigna þess eða sölu þessara verðbréfa og að salan eigi sér stað innan árs frá því að bréfanna var aflað. Framkvæmdastjórnin getur framlengt þennan frest ef eftir því er leitað og slíkar stofnanir eða félög geta sýnt fram á að salan gat ekki með góðu móti farið fram innan tiltekins frests,
b)    fulltrúi hins opinbera öðlast yfirráð yfir fyrirtæki samkvæmt lögum aðildarríkis um skiptameðferð, félagsslit, gjaldþrot, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða hliðstæða meðferð,
c)    aðgerðir þær sem um getur í b-lið 1. mgr. eru gerðar af eignarhaldsfélögum á fjármálasviði, sem um getur í 3. mgr. 5. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978, á grundvelli g-liðar 3. mgr. 54. gr. sáttmálans um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 1 ), að því tilskildu þó að atkvæðisréttur, sem umræddur eignarhlutur veitir, sé nýttur, einkum að því er varðar skipun í framkvæmdastjórn og yfirstjórn fyrirtækjanna sem þau eiga hlut í, einungis til að halda fullu verðgildi þessara fjárfestinga og ekki til að ákvarða, beint eða óbeint, samkeppnishegðun þessara fyrirtækja.

4. gr.
Fyrirframtilkynning um samfylkingar og vísun að beiðni tilkynningaraðila áður en tilkynnt er um þær

1.     Tilkynna skal framkvæmdastjórninni um samfylkingar, sem varða hagsmuni Bandalagsins og eru skilgreindar í þessari reglugerð, áður en þær koma til framkvæmda en eftir að samningur er gerður, yfirtökuboð tilkynnt eða ráðandi hlutar aflað.
Einnig má senda tilkynningu þegar viðkomandi fyrirtæki sýna framkvæmdastjórninni fram á einlægan vilja sinn til að gera samning eða, ef um er að ræða yfirtökutilboð, þegar þau hafa tilkynnt opinberlega að þau hyggist gera slíkt tilboð, að því tilskildu að áformaður samningur eða tilboð leiði til myndunar samfylkingar sem varðar hagsmuni Bandalagsins.
Í þessari reglugerð skal hugtakið „tilkynnt samfylking“ einnig taka til áformaðra samfylkinga sem eru tilkynntar samkvæmt annarri undirgrein. Að því er varðar 4. og 5. mgr. þessarar greinar nær hugtakið „samfylking“ til samfylkinga sem eru áformaðar í skilningi annarrar undirgreinar.
2.     Samfylking, sem verður til við samruna í skilningi a-liðar 1. mgr. 3. gr. eða með öflun sameiginlegra yfirráða í skilningi b-liðar 1. mgr. 3. gr., skal tilkynnt sameiginlega af samrunaaðilum eða þeim sem fá sameiginleg yfirráð, eftir því sem við á. Í öllum öðrum tilvikum skal sá aðili eða fyrirtæki sem fær yfirráð yfir einu eða fleiri fyrirtækjum, að öllu leyti eða að hluta til, sjá um tilkynninguna.
3.     Komist framkvæmdastjórnin að raun um að samfylking, sem tilkynnt hefur verið um, falli undir gildissvið þessarar reglugerðar skal hún birta upplýsingar um að tilkynnt hafi verið um hana ásamt nöfnum viðkomandi fyrirtækja, upprunalandi þeirra, hvers eðlis samfylkingin er og til hvaða atvinnugreina hún nær. Framkvæmdastjórnin skal taka tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja um varðveislu viðskiptaleyndarmála þeirra.
4.     Áður en tilkynnt er um samfylkingu í skilningi 1. mgr. er aðilum eða fyrirtækjum, sem um getur í 2. mgr., heimilt að upplýsa framkvæmdastjórnina um það, í rökstuddri greinargerð, að samfylkingin geti haft veruleg áhrif á samkeppni á markaði í aðildarríki sem hefur öll einkenni aðgreinds markaðar og því sé nauðsynlegt að aðildarríkið taki hana til skoðunar í heild eða að hluta.
Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað senda þessa greinargerð til allra aðildarríkja. Aðildarríkið, sem um getur í rökstuddu greinargerðinni, skal, innan 15 virkra daga frá viðtöku hennar, láta í ljós hvort það samþykkir eða andmælir beiðninni um að málinu sé vísað áfram. Taki aðildarríkið ekki slíka ákvörðun á þessum tíma telst það hafa veitt samþykki sitt.
Ef aðildarríkið lýsir ekki yfir andmælum getur framkvæmdastjórnin, ef hún telur að slíkur aðgreindur markaður sé til og að samfylkingin geti hafi veruleg áhrif á samkeppni á þeim markaði, ákveðið að vísa málinu, að öllu leyti eða að hluta, til lögbærra yfirvalda í því aðildarríki með það fyrir augum að beita samkeppnislögum þess aðildarríkis.
Taka skal ákvörðun um hvort málinu skuli vísað áfram eða ekki, í samræmi við þriðju undirgrein, innan 25 virkra daga frá því að framkvæmdastjórnin tekur við rökstuddu greinargerðinni. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna hinum aðildarríkjunum, ásamt hlutaðeigandi aðilum eða fyrirtækjum, um ákvörðun sína. Taki framkvæmdastjórnin ekki ákvörðun innan þessa tíma er litið svo á að hún hafi ákveðið að vísa málinu áfram í samræmi við greinargerð viðkomandi aðila eða fyrirtækja.
Ef framkvæmdastjórnin ákveður, eða telst hafa ákveðið, samkvæmt þriðju og fjórðu undirgrein, að vísa málinu áfram að öllu leyti skal ekki senda neina tilkynningu skv. 1. mgr. og innlend samkeppnislög skulu gilda. Ákvæði 6.–9. mgr. 9. gr. gilda að breyttu breytanda.
5.     Að því er varðar samfylkingu eins og hún er skilgreind í 3. gr., sem varðar ekki hagsmuni Bandalagsins í skilningi 1. gr. og sem hægt er að endurskoða samkvæmt innlendum samkeppnislögum í minnst þremur aðildarríkjum, er þeim aðilum eða fyrirtækjum, sem um getur í 2. mgr., heimilt, áður en tilkynning er send til samkeppnisyfirvalda, að senda framkvæmdastjórninni rökstudda greinargerð um að rétt sé að framkvæmdastjórnin taki samfylkinguna til skoðunar.
Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað senda þessa greinargerð til allra aðildarríkja.
Hvert aðildarríki, sem er þar til bært að taka samfylkinguna til skoðunar samkvæmt innlendum samkeppnislögum, getur, innan 15 virkra daga frá viðtöku rökstuddu greinargerðarinnar, lýst yfir andmælum gegn beiðninni um vísun málsins.
Ef a.m.k. eitt slíkt aðildarríki hefur, í samræmi við þriðju undirgrein, lýst yfir andmælum í samræmi við þriðju undirgrein innan 15 virkra daga skal ekki vísa málinu áfram. Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað tilkynna öllum aðildarríkjum og aðilum eða fyrirtækjum, sem málið varðar, um slík andmæli.
Ef ekkert aðildarríki hefur lýst yfir andmælum, í samræmi við þriðju undirgrein innan 15 virkra daga, skal samfylkingin teljast varða hagsmuni Bandalagsins og skal tilkynna um hana til framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 1. og 2. mgr. Við þær aðstæður skal ekkert aðildarríki beita sínum eigin samkeppnislögum gagnvart samfylkingunni.
6.     Framkvæmdastjórnin skal gefa ráðinu skýrslu um hvernig til hefur tekist með framkvæmd 4. og 5. mgr. eigi síðar en 1. júlí 2009. Í framhaldi af þessari skýrslu og að tillögu framkvæmdastjórnarinnar getur ráðið, með auknum meirihluta, endurskoðað 4. og 5. mgr.

5. gr.
Útreikningur á veltu

1.     Heildarvelta, í skilningi þessarar reglugerðar, skal fela í sér þær fjárhæðir sem viðkomandi fyrirtæki hafa fengið á undangengnu fjárhagsári fyrir sölu á vöru og veitta þjónustu sem telst til eðlilegrar starfsemi fyrirtækjanna, að frádregnum söluafslætti, virðisaukaskatti og öðrum beinum veltusköttum. Til heildarveltu viðkomandi fyrirtækja skal ekki telja tekjur af sölu á vöru eða þjónustu á milli þeirra fyrirtækja sem um getur í 4. mgr.
Velta, innan Bandalagsins eða aðildarríkis, skal fela í sér tekjur af sölu á vöru og þjónustu til fyrirtækja eða neytenda innan Bandalagsins eða aðildarríkisins eftir því sem við á.
2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. gildir það að ef samfylking er mynduð með öflun hluta úr einu eða fleiri fyrirtækjum, hvort sem stofnaðir eru lögaðilar eða ekki, skal einungis taka tillit til veltu þeirra hluta sem teljast til samfylkingarinnar, að því er söluaðila áhrærir.
Þó ber að líta á viðskipti í skilningi fyrstu undirgreinar, sem eiga sér stað tvisvar eða oftar á milli sömu aðila eða fyrirtækja á tveggja ára tímabili, sem eina og sömu samfylkinguna sem myndast þann dag sem síðustu viðskiptin áttu sér stað.
3.     Eftirfarandi skal nota í stað veltu:
a)    þegar um er að ræða lánastofnanir og aðrar fjármálastofnanir, summu eftirtalinna tekjuliða eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun ráðsins 86/ 635/EBE ( 1 ), að frádregnum virðisaukaskatti og öðrum sköttum sem tengjast þessum tekjuliðum beint, eftir því sem við á:
    i)    vaxtatekjur og áþekkar tekjur,
    ii)    tekjur af verðbréfum:
        —    tekjur af hlutabréfum og öðrum verðbréfum með breytilegri ávöxtun,
        —    tekjur af hlutdeild í öðrum fyrirtækjum,
        —    tekjur af hlutum í eignartengdum fyrirtækjum,
    iii)    þóknunartekjur,
    iv)    hreinar tekjur af fjármálastarfsemi,
    v)    aðrar rekstrartekjur.
    Til veltu lánastofnunar eða fjármálastofnunar innan Bandalagsins eða í aðildarríki skal telja tekjuliði, eins og skilgreint er hér að framan, sem koma frá útibúi eða deild stofnunarinnar í Bandalaginu eða viðkomandi aðildarríki, eftir því sem við á,
b)    þegar um er að ræða vátryggingafélög, bókfærð brúttóiðgjöld sem eru allar fjárhæðir sem fengist hafa eða munu fást vegna tryggingasamninga, sem vátryggingafélög hafa gert eða sem gerðir hafa verið fyrir þeirra hönd, þ.m.t. kostnaður vegna endurtryggingaiðgjalda, að frádregnum sköttum og skattatengdum framlögum eða gjöldum sem eru álögð á grundvelli fjárhæðar einstakra iðgjalda eða heildarfjárhæðar iðgjalda; að því er varðar b-lið 2. mgr., b-, c- og d-lið 3. mgr. 1. gr. og niðurlag 2. og 3. mgr. 1. gr. skal taka tillit til brúttóiðgjalda frá íbúum innan Bandalagsins annars vegar og frá íbúum í einu aðildarríki hins vegar.
4.     Með fyrirvara um 2. mgr. skal heildarvelta viðkomandi fyrirtækis, í skilningi þessarar reglugerðar, reiknuð með því að leggja saman veltu:
a)    viðkomandi fyrirtækis,
b)    fyrirtækja þar sem viðkomandi fyrirtæki, beint eða óbeint:
    i)    á meira en helming af hlutafé eða rekstrarfé eða
    ii)    hefur heimild til að ráða yfir meirihluta atkvæðisréttar, eða
    iii)    hefur heimild til að skipa meira en helming fulltrúa í yfirstjórn, framkvæmdastjórn eða stofnanir sem koma fram fyrir hönd félagsins, lagalega eða
    iv)    hefur rétt til að stjórna fyrirtækinu,
c)    fyrirtækja sem hafa yfir að ráða þeim rétti eða heimildum sem tilgreint er í b-lið,
d)    fyrirtækja þar sem fyrirtæki, sem um getur í c- lið, hefur þann rétt eða heimildir sem talin eru upp í b-lið,
e)    fyrirtækja þar sem tvö eða fleiri fyrirtæki, sem um getur í a til d-lið, hafa sameiginlega þann rétt eða heimildir sem eru tilgreind í b-lið.
5.     Þegar reiknuð er út heildarvelta viðkomandi fyrirtækja samkvæmt þessari reglugerð þar sem fyrirtæki, sem falla undir samfylkinguna, hafa sameiginlega þann rétt eða heimildir sem um getur í b- lið 4. mgr. skal:
a)    ekki taka tillit til veltu sem er til komin vegna sölu á vöru eða þjónustu milli sameiginlega fyrirtækisins og einstakra fyrirtækja sem í hlut eiga eða neins annars fyrirtækis sem tengist einhverju þeirra eins og tilgreint er í b- til e-lið 4. mgr.,
b)    taka tillit til veltu sem er til komin vegna sölu á vöru og þjónustu milli sameiginlega fyrirtækisins og utanaðkomandi fyrirtækja. Veltufé þetta deilist jafnt á milli viðkomandi fyrirtækja.

6. gr.
Skoðun tilkynningar og upphaf málsmeðferðar

1.     Framkvæmdastjórnin skal taka tilkynninguna til skoðunar strax eftir að hún berst.
a)    Komist hún að þeirri niðurstöðu að samfylking, sem tilkynnt hefur verið um, falli ekki undir gildissvið þessarar reglugerðar skal hún staðfesta það með ákvörðun.
b)    Komist hún að þeirri niðurstöðu að samfylking, sem tilkynnt hefur verið um, falli undir gildissvið þessarar reglugerðar og gefi ekki tilefni til alvarlegra efasemda um það hvort hún samrýmist sameiginlega markaðnum, skal hún taka ákvörðun um að leggjast ekki gegn samfylkingunni og lýsa hana samrýmanlega sameiginlega markaðnum.
    Ákvörðun, þar sem því er lýst yfir að samfylkingin samrýmist sameiginlega markaðnum, skal einnig ná til takmarkana sem tengjast framkvæmd samfylkingarinnar beint og eru nauðsynlegar vegna hennar.
c)    Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að samfylking, sem tilkynnt hefur verið um, falli undir gildissvið þessarar reglugerðar og gefi tilefni til alvarlegra efasemda um að hún geti samrýmst sameiginlega markaðnum skal hún ákveða að hefja málsmeðferð, sbr. þó 2. mgr. Ljúka skal slíkri málsmeðferð með ákvörðun, eins og kveðið er á um í 1.–4. mgr. 8. gr., nema viðkomandi fyrirtæki hafi sýnt fram á það með fullnægjandi hætti, að mati framkvæmdastjórnarinnar, að þau hafi leyst upp samfylkinguna, sbr. þó 9. gr.
2.     Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu, eftir að breytingar hafa verið gerðar hjá hlutaðeigandi fyrirtækjum, að samfylking, sem tilkynnt hafði verið um, gefi ekki tilefni til alvarlegra efasemda í skilningi c-liðar 1. mgr., skal hún lýsa samfylkinguna samrýmanlega sameiginlega markaðnum skv. b-lið 1. mgr.
Framkvæmdastjórninni er heimilt skv. b-lið 1. mgr. að binda ákvörðun sína skilyrðum og skyldum sem ætlað er að tryggja að hlutaðeigandi fyrirtæki ræki þær skyldur sem þau hafa tekist á hendur gagnvart framkvæmdastjórninni og miða að því að samfylkingin geti samrýmst sameiginlega markaðnum.
3.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að afturkalla ákvörðun sem hún hefur tekið í samræmi við a- eða b-lið 1. mgr. ef:
a)    ákvörðunin er byggð á röngum upplýsingum sem eitthvert fyrirtækjanna ber ábyrgð á eða er fengin fram með blekkingum,
    eða
b)    hlutaðeigandi fyrirtæki uppfylla ekki skyldu sem tengist ákvörðuninni.
4.     Í þeim tilvikum sem um getur í 3. mgr. getur framkvæmdastjórnin tekið ákvörðun skv. 1. mgr. án þess að vera bundin þeim fresti sem um getur í 1. mgr. 10. gr.
5.     Framkvæmdastjórnin skal án tafar tilkynna hlutaðeigandi fyrirtækjum um ákvörðun sína og einnig lögbærum yfirvöldum aðildarríkjanna.

7. gr.
Tímabundin stöðvun samfylkingar

1.     Samfylking, sem varðar hagsmuni Bandalagsins, eins og hún er skilgreind í 1. gr., eða sem framkvæmdastjórnin á að taka til skoðunar skv. 5. mgr. 4. gr., skal ekki koma til framkvæmda fyrr en tilkynnt hefur verið um hana og ekki fyrr en hún hefur verið lýst samrýmanleg sameiginlega markaðnum með ákvörðun skv. 6. gr. (b-liður 1. mgr.), 8. gr. (1. mgr.) eða 8. gr. (2. mgr.), eða á grundvelli ályktunar skv. 6. mgr. 10. gr.
2.     Ákvæði 1. mgr. koma ekki í veg fyrir að yfirtökuboð komi til framkvæmda eða að fram fari röð viðskipta með verðbréf, þ.m.t. verðbréf sem breyta má í önnur verðbréf sem eru tekin til skráningar á markaði, t.d. kauphöll, og þannig aflað yfirráða í skilningi 3. gr. frá ýmsum söluaðilum, að því tilskildu að:
a)    þegar í stað sé tilkynnt um samfylkinguna til framkvæmdastjórnarinnar skv. 4. gr. og
b)    kaupandinn nýti sér ekki þann atkvæðisrétt sem fylgir viðkomandi verðbréfum eða geri það einungis í þeim tilgangi að viðhalda fullu verðgildi þeirra fjárfestinga á grundvelli undanþágu sem framkvæmdastjórnin veitir skv. 3. mgr.
3.     Framkvæmdastjórnin getur, samkvæmt beiðni, veitt undanþágu frá skyldum þeim sem eru lagðar á með 1. og 2. mgr. Rökstyðja ber beiðni um undanþágu. Við afgreiðslu beiðninnar skal framkvæmdastjórnin m.a. taka tillit til áhrifa stöðvunarinnar á eitt eða fleiri fyrirtæki, sem hlut eiga að samfylkingu, eða á þriðja málsaðila og þeirrar hættu sem samkeppni stafar af samfylkingunni. Slíka undanþágu er heimilt að binda skilyrðum og skyldum í þeim tilgangi að tryggja virka samkeppni. Heimilt er að sækja um og veita undanþágu hvenær sem er, jafnvel áður en tilkynnt er um samfylkingu eða eftir að viðskiptunum er lokið.
4.     Gildi viðskipta, sem brjóta í bága við ákvæði 1. mgr., skal háð ákvörðun skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. eða 1., 2. eða 3. mgr. 8. gr. eða ályktun á grundvelli 6. mgr. 10. gr.
Ákvæði þessarar greinar hafa þó engin áhrif á gildi viðskipta með verðbréf, þ.m.t. breytanleg verðbréf, sem eru skráð á markaði á borð við kauphöll, nema því aðeins að kaupandi og seljandi hafi haft eða hefðu átt að hafa vitneskju um að viðskiptin brytu í bága við 1. mgr.

8. gr.
Ákvörðunarvald framkvæmdastjórnarinnar

1. Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að samfylking, sem tilkynnt hefur verið um, uppfylli viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 2. gr. og, í tilvikunum sem um getur í 4. mgr. 2. gr., viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 81. gr. sáttmálans skal hún gefa út ákvörðun þar sem því er lýst yfir að samfylkingin samrýmist sameiginlega markaðnum.
Ákvörðun, þar sem því er lýst yfir að samfylkingin samrýmist sameiginlega markaðnum, skal einnig ná til takmarkana sem tengjast framkvæmd samfylkingarinnar beint og eru nauðsynlegar vegna hennar.
2.     Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að samfylking, sem tilkynnt hefur verið um, uppfylli, að afstöðnum tilteknum breytingum sem hlutaðeigandi fyrirtæki hafa gert, viðmiðunina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 2. gr. og, í tilvikunum sem um getur í 4. mgr. 2. gr., viðmiðanirnar, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 81. gr. sáttmálans, skal hún gefa út ákvörðun þar sem því er lýst yfir að samfylkingin samrýmist sameiginlega markaðnum.
Framkvæmdastjórnin getur bundið ákvörðun sína skilyrðum og skyldum sem ætlað er að tryggja að hlutaðeigandi fyrirtæki standi við skuldbindingar sem þau hafa tekist á hendur gagnvart framkvæmdastjórninni með það fyrir augum að samfylkingin geti samrýmst sameiginlega markaðnum.
Ákvörðun, þar sem því er lýst yfir að samfylkingin samrýmist sameiginlega markaðnum, skal einnig ná til takmarkana sem tengjast framkvæmd samfylkingarinnar beint og eru nauðsynlegar vegna hennar.
3.     Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að samfylking uppfylli viðmiðanirnar, sem eru skilgreindar í 3. mgr. 2. gr., eða, í tilvikunum sem um getur í 4. mgr. 2. gr., að hún standist ekki viðmiðanirnar, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 81. gr. sáttmálans, skal hún gefa út ákvörðun þar sem því er lýst yfir að samfylkingin samrýmist ekki sameiginlega markaðnum.
4.     Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að samfylking:
a)    sé þegar komin til framkvæmda og hafi verið lýst ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum eða
b)    sé komin til framkvæmda þótt það brjóti í bága við skilyrði bundið ákvörðun, sem er tekin skv. 2. mgr., þar sem niðurstaðan er sú að samfylkingin standist viðmiðanirnar, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 2. gr., að óuppfylltu skilyrði, eða, í tilvikum sem um getur í 4. mgr. 2. gr., hún standist ekki viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 81. gr. sáttmálans,
er framkvæmdastjórninni heimilt að:
—    krefjast þess að viðkomandi fyrirtæki leysi samfylkinguna upp, einkum með því að leysa upp samrunann eða ráðstafa öllum hlutabréfum eða eignum, sem aflað hefur verið, með það fyrir augum að færa aftur til fyrra horfs þær aðstæður sem voru fyrir hendi áður en samfylkingin kom til framkvæmda. Við kringumstæður þar sem ekki er mögulegt að endurheimta aðstæður, sem voru fyrir hendi áður en samfylkingin kom til framkvæmda, með því að leysa upp samfylkinguna, er framkvæmdastjórninni heimilt, að gera allar aðrar viðeigandi ráðstafanir til að færa aðstæður til fyrra horfs að svo miklu leyti sem unnt er,
—    gefa fyrirmæli um hvers konar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að viðkomandi fyrirtæki leysi upp samfylkinguna eða geri aðrar ráðstafanir til að færa aðstæður til fyrra horfs eins og krafist er í ákvörðun hennar.
Í tilvikum, sem falla undir a-lið fyrstu undirgreinar, er hægt að ákveða ráðstafanirnar, sem um getur í þeirri undirgrein, annaðhvort með ákvörðun skv. 3. mgr. eða með sérstakri ákvörðun.
5.     Framkvæmdastjórnin getur gert bráðabirgðaráðstafanir til að færa aftur til fyrra horfs eða viðhalda aðstæðum skilyrðum virkrar samkeppni þar sem samfylking:
a)    er komin til framkvæmda þótt hún brjóti í bága við 7. gr. og ákvörðun hafi enn ekki verið tekin varðandi það hvort samfylkingin samrýmist sameiginlega markaðnum,
b)    er komin til framkvæmda þótt hún brjóti í bága við skilyrði sem er bundið ákvörðun skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. eða 2. mgr. þessarar greinar,
c)    er þegar komin til framkvæmda og hefur verið lýst ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum.
6.     Framkvæmdastjórnin getur afturkallað ákvörðun, sem hún hefur tekið í samræmi við 1. eða 2. mgr., ef:
a)    yfirlýsingin um samrýmanleika er byggð á röngum upplýsingum sem eitthvert fyrirtækjanna ber ábyrgð á eða þegar hún er fengin fram með blekkingum eða
b)    hlutaðeigandi fyrirtæki uppfylla ekki skyldu sem tengist ákvörðuninni.
7.     Framkvæmdastjórnin getur tekið ákvörðun skv. 1.–3. mgr. án þess að vera bundin þeim fresti sem um getur í 3. mgr. 10. gr. í tilvikum þar sem:
a)    hún kemst að raun um að samfylking sé komin til framkvæmda
    i)    þótt það brjóti í bága við skilyrði sem er bundið ákvörðun skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. eða
    ii)    þótt það brjóti í bága við skilyrði sem er bundið ákvörðun, sem er tekin skv. 2. mgr. og í samræmi við 2. mgr. 10. gr., þar sem ákveðið er að verulegur vafi leiki á því, að óuppfylltu skilyrði, hvort samfylkingin sé samrýmanleg sameiginlega markaðnum eða
b)    ákvörðun hefur verið afturkölluð skv. 6. gr.
8.     Framkvæmdastjórnin skal án tafar tilkynna hlutaðeigandi fyrirtækjum um ákvörðun sína og einnig lögbærum yfirvöldum aðildarríkjanna.

9. gr.
Vísun til lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum

1.     Framkvæmdastjórnin getur, með ákvörðun sem hlutaðeigandi fyrirtækjum og lögbærum yfirvöldum hinna aðildarríkjanna er tilkynnt um án tafar, vísað samfylkingu, sem tilkynnt hefur verið um, til lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi aðildarríki við eftirfarandi aðstæður.
2.     Aðildarríki getur, innan 15 virkra daga frá því að það fær afrit af tilkynningunni, að eigin frumkvæði eða að boði framkvæmdastjórnarinnar, upplýst framkvæmdastjórnina, sem aftur skal upplýsa hlutaðeigandi fyrirtæki, um að:
a)    hætta sé á að samfylking hafi veruleg áhrif á samkeppni á markaði í því aðildarríki sem ber öll einkenni aðgreinds markaðar eða
b)    samfylking hafi áhrif á samkeppni á markaði í því aðildarríki sem ber öll einkenni aðgreinds markaðar og sem telst ekki verulegur hluti hins sameiginlega markaðar.
3.     Telji framkvæmdastjórnin, með tilliti til markaðarins fyrir þær vörur eða þjónustu sem um er að ræða og landfræðilega viðmiðunarmarkaðarins í skilningi 7. mgr., að um sé að ræða slíkan aðgreindan markað og slíka hættu skal hún annaðhvort:
a)    taka málið sjálf til meðferðar í samræmi við þessa reglugerð eða
b)    vísa málinu, í heild eða að hluta, til lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi aðildarríki með það fyrir augum að ákvæðum samkeppnislaga þess verði beitt.
Líti framkvæmdastjórnin hins vegar svo á að ekki sé um að ræða slíkan aðgreindan markað eða hættu skal hún samþykkja ákvörðun þess efnis sem hún skal beina til viðkomandi aðildarríkis og taka sjálf málið til meðferðar í samræmi við þessa reglugerð.
Þegar svo ber undir að aðildarríki upplýsir framkvæmdastjórnina, skv. b-lið 2. mgr., um að samfylking hafi áhrif á samkeppni á aðgreindum markaði á yfirráðasvæði þess, sem telst ekki vera verulegur hluti af sameiginlega markaðnum, skal framkvæmdastjórnin vísa málinu í heild, eða þeim hluta þess sem varðar aðgreinda markaðinn, til hlutaðeigandi aðildarríkis ef hún telur að áhrifanna gæti á aðgreinda markaðnum.
4.     Ákvörðun um hvort vísa beri máli áfram eða ekki á grundvelli 3. mgr. skal tekin:
a)    að öðru jöfnu innan þess frests sem mælt er fyrir um í annarri undirgrein 1. mgr. 10. gr. hafi framkvæmdastjórnin ekki hafið málsmeðferð skv. b- lið 1. mgr. 6. gr. eða
b)    innan 65 virkra daga hið mesta frá því að tilkynnt var um viðkomandi samfylkingu ef framkvæmdastjórnin hefur hafið málsmeðferð skv. c- lið 1. mgr. 6. gr. án þess að gera undirbúningsráðstafanir fyrir samþykkt nauðsynlegra ráðstafana skv. 2., 3. eða 4. mgr. 8. gr. til að viðhalda eða koma aftur á virkri samkeppni á viðkomandi markaði.
5.     Hafi framkvæmdastjórnin ekki tekið ákvörðun innan 65 virkra daga, eins og um getur í b-lið 4. mgr., þrátt fyrir áminningu af hálfu viðkomandi aðildarríkis, um vísun í samræmi við 3. mgr. eða gert undirbúningsráðstafanirnar, sem um getur í b-lið 4. mgr., skal litið svo á að hún hafi ákveðið að vísa málinu til hlutaðeigandi aðildarríkis í samræmi við b-lið 3. mgr.
6.     Lögbært yfirvald í viðkomandi aðildarríki skal taka ákvörðun um málið án óþarfra tafa.
Innan 45 virkra daga frá því að framkvæmdastjórnin vísar málinu áfram skal lögbært yfirvald í viðkomandi aðildarríki upplýsa viðkomandi fyrirtæki um niðurstöður bráðabirgðamats á samkeppni og hvaða frekari aðgerða hún hyggst grípa til ef einhverra. Viðkomandi aðildarríki getur, í undantekningartilvikum, lengt frestinn þegar viðkomandi fyrirtæki hafa ekki veitt þeim nauðsynlegar upplýsingar í samræmi við innlend samkeppnislög aðildarríkisins.
Ef tilkynningar er krafist í landslögum skal 45 daga tímabilið hefjast á næsta virka degi eftir að lögbært yfirvald í því aðildarríki veitir endanlegri tilkynningu viðtöku.
7.     Landfræðilegur viðmiðunarmarkaður er svæði þar sem hlutaðeigandi fyrirtæki eiga hlut að framboði og eftirspurn á vöru eða þjónustu og samkeppnisskilyrði eru nægilega einsleit og unnt er að greina frá nærliggjandi svæðum, ekki síst vegna þess að samkeppnisskilyrði eru greinilega ólík á þessum svæðum. Við mat á þessu skal einkum taka tillit til eðlis og einkenna viðkomandi vöru eða þjónustu til hugsanlegra aðgangshindrana eða neytendavenja, greinilegs munar á markaðshlutdeild fyrirtækjanna á þessu svæði og nærliggjandi svæðum eða til verulegs verðmunar.
8.     Þegar hlutaðeigandi aðildarríki beita ákvæðum þessarar greinar mega þau einungis gera allra nauðsynlegustu ráðstafanir til að viðhalda eða koma aftur á virkri samkeppni á viðkomandi markaði.
9.     Aðildarríki geta skotið máli til dómstólsins í samræmi við viðeigandi ákvæði sáttmálans og farið fram á að 243. gr. hans verði beitt með það fyrir augum að þau fái að beita sínum eigin samkeppnislögum.

10. gr.
Frestur til að hefja málsmeðferð og til ákvarðanatöku

1.     Ákvarðanir þær sem um getur í 1. mgr. 6. gr. skulu teknar innan 25 virkra daga hið mesta, sbr. þó 4. mgr. 6. gr. Sá frestur skal hefjast á næsta virka degi eftir að tilkynning um samfylkingu berst eða, ef upplýsingarnar sem eiga að fylgja tilkynningunni eru ófullnægjandi, næsta virka dag eftir að fullnægjandi upplýsingar berast.
Lengja skal frestinn í 35 daga berist framkvæmdastjórninni beiðni frá aðildarríki í samræmi við 2. mgr. 9. gr. eða ef viðkomandi fyrirtæki bjóðast til að taka á sig skuldbindingar skv. 2. mgr. 6. gr. með það fyrir augum að gera samfylkinguna samrýmanlega sameiginlega markaðnum.
2.     Taka skal ákvarðanir skv. 1. eða 2. mgr. 8. gr., varðandi samfylkingar sem tilkynnt hefur verið um, jafnskjótt og í ljós kemur að alvarlegum efasemdum, sem um getur í c-lið 1. mgr. 6. gr., hefur verið eytt, einkum eftir að viðkomandi fyrirtæki gera breytingar og í síðasta lagi áður en fresturinn, sem mælt er fyrir um í 3. mgr., rennur út.
3.     Með fyrirvara um 7. mgr. 8. gr. skal taka ákvarðanir skv. 1. til 3. mgr. 8. gr. varðandi tilkynntar samfylkingar eigi síðar en 90 virkum dögum eftir að málsmeðferð hefst. Framlengja skal þennan frest í 105 virka daga ef viðkomandi fyrirtæki bjóðast til að taka á sig skuldbindingar skv. annarri undirgrein 2. mgr. 8. gr. með það fyrir augum að samfylkingin geti samrýmst sameiginlega markaðnum, nema þessar skuldbindingar hafi verið boðnar fram innan 55 virkra daga frá því að málsmeðferð hófst.
Einnig skal framlengja frest, sem ákveðinn er í fyrstu undirgrein, ef tilkynnendur leggja fram beiðni um það eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að málsmeðferð hefst skv. c lið 1. mgr. 6. gr. Tilkynnendur geta aðeins einu sinni borið fram slíka beiðni. Einnig getur framkvæmdastjórnin, með samþykki tilkynningaraðila, framlengt frest, sem er settur samkvæmt fyrstu undirgrein, hvenær sem er eftir að málsmeðferð hefst. Samanlögð framlenging frests eða fresta, sem eru settir samkvæmt þessari undirgrein, skal ekki vera lengri en 20 virkir dagar.
4.     Í undantekningartilvikum er heimilt að lengja tímabundið þá fresti sem eru settir með 1. og 3. mgr. ef framkvæmdastjórnin hefur þurft að krefjast upplýsinga með ákvörðun skv. 11. gr. eða gefa fyrirmæli um athugun með ákvörðun skv. 13. gr. vegna aðstæðna sem eitt af fyrirtækjunum í samfylkingunni ber ábyrgð á
Fyrsta undirgreinin skal einnig gilda um frestinn sem um getur í b-lið 4. mgr. 9. gr.
5.     Kveði dómstóllinn upp úrskurð sem ógildir, að nokkru eða öllu leyti, ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, sem er háð fresti sem er settur í þessari grein, skal framkvæmdastjórnin taka samfylkinguna aftur til skoðunar með það fyrir augum að samþykkja ákvörðun skv. 1. mgr. 6. gr.
Samfylkingin skal skoðuð aftur í ljósi gildandi markaðsaðstæðna.
Ef upphafleg tilkynning verður ófullnægjandi vegna þess að breytingar verða á markaðsaðstæðum eða upplýsingum, sem hafa verið veittar, skulu tilkynnendur þegar í stað leggja fram nýja tilkynningu eða viðbót við upphaflegu tilkynninguna. Hafi engar slíkar breytingar orðið skulu aðilarnir votta það án tafar.
Frestirnir, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., skulu hefjast á næsta virka degi eftir viðtöku fullnægjandi upplýsinga í nýrri tilkynningu, viðbótartilkynningu eða vottun í skilningi þriðju undirgreinar.
Önnur og þriðja undirgrein skulu einnig gilda í tilvikum sem um getur í 4. mgr. 6. gr. og 7. mgr. 8. gr.
6.     Hafi framkvæmdastjórnin ekki tekið ákvörðun í samræmi við b- eða c-lið 1. mgr. 6. gr. eða 1., 2. eða 3. mgr. 8. gr. innan þess frests sem er tilgreindur í 1. mgr. annars vegar og 3. mgr. hins vegar skal litið svo á að samfylkingin samrýmist sameiginlega markaðnum, sbr. þó 9. gr.

11. gr.
Beiðni um upplýsingar

1.     Til að framkvæmdastjórninni sé unnt að gegna þeim störfum, sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð, getur hún krafist þess, með einfaldri beiðni eða með ákvörðun, að aðilarnir, sem um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr., sem og fyrirtæki og samtök fyrirtækja, veiti allar nauðsynlegar upplýsingar.
2.     Þegar framkvæmdastjórnin sendir einfalda beiðni um upplýsingar til aðila, fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja skal hún skýra frá því hvaða lagagrundvöllur og tilgangur liggur að baki beiðninni, tilgreina hvaða upplýsinga er óskað, ákveða skilafrest og skýra frá viðurlögum, sem kveðið er á um í 14. gr., við því að gefa rangar eða villandi upplýsingar.
3.     Ef framkvæmdastjórnin krefst þess, með ákvörðun, að aðili, fyrirtæki eða samtök fyrirtækja láti í té upplýsingar skal hún skýra frá því hvaða lagagrundvöllur og tilgangur liggur að baki beiðninni, tilgreina hvaða upplýsinga er óskað og ákveða skilafrest þeirra. Hún skal einnig skýra frá þeim viðurlögum sem kveðið er á um í 14. gr. og skýra frá eða beita þeim viðurlögum sem kveðið er á um í 15. gr. Hún skal enn fremur skýra frá réttinum til að fá endurskoðun dómstólsins á ákvörðuninni.
4.     Eigendur fyrirtækjanna eða fulltrúar þeirra og, þegar um lögaðila er að ræða, félög eða fyrirtæki eða, þegar um er að ræða samtök sem hafa ekki réttarstöðu lögaðila, aðilar, sem hafa umboð til að koma fram fyrir þeirra hönd samkvæmt lögum eða stofnsamningiþeirra, skulu veita umbeðnar upplýsingar fyrir hönd hlutaðeigandi fyrirtækis. Aðilum, sem til þess hafa tilhlýðilegt umboð, er heimilt að veita upplýsingar fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Hinir síðarnefndu bera engu að síður fulla ábyrgð á að upplýsingarnar séu hvorki ófullnægjandi, rangar né villandi.
5.     Framkvæmdastjórnin skal tafarlaust senda afrit af öllum ákvörðunum, sem eru teknar skv. 3. mgr., til lögbærra yfirvalda í aðildarríkinu sem hefur yfirráð yfir því landsvæði þar sem aðilinn, fyrirtækið eða samtök fyrirtækja hafa aðsetur og til lögbærs yfirvalds í aðildarríkinu sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu sem þetta hefur áhrif á. Framkvæmdastjórnin skal einnig, komi sérstök beiðni um það frá lögbæru yfirvaldi í aðildarríki, senda því yfirvaldi afrit af einföldum beiðnum um upplýsingar varðandi samfylkingu sem tilkynnt hefur verið um.
6.     Ríkisstjórnir og lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum skulu, að beiðni framkvæmdastjórnarinnar, veita henni allar nauðsynlegar upplýsingar til að geta gegnt þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð.
7.     Til að framkvæmdastjórnin geti gegnt þeim störfum, sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð, er henni heimilt að taka viðtöl við einstaklinga eða lögaðila, sem samþykkja slík viðtöl, í þeim tilgangi að safna upplýsingum er varða viðfangsefni rannsóknar. Í upphafi viðtals, sem taka má gegnum síma eða með öðrum rafrænum búnaði, skal framkvæmdastjórnin skýra frá því hvaða lagagrundvöllur liggur að baki viðtalinu og tilganginum með því.
Ef viðtal er ekki tekið á athafnasvæði framkvæmdastjórnarinnar eða gegnum síma eða með öðrum rafrænum búnaði skal hún láta lögbært yfirvald aðildarríkisins, sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu, þar sem viðtalið fer fram, vita af því fyrir fram. Fari lögbært yfirvald í því aðildarríki fram á það geta embættismenn yfirvaldsins verið embættismönnum og öðrum aðilum, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar til að taka slíkt viðtal, til aðstoðar.

12. gr.
Athugun yfirvalda aðildarríkjanna

1.     Lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum skulu, að beiðni framkvæmdastjórnarinnar, láta fara fram þær athuganir sem hún telur nauðsynlegar skv. 1. mgr. 13. gr. eða sem hún hefur gefið fyrirmæli um í ákvörðun skv. 4. mgr. 13. gr. Embættismenn lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum, sem bera ábyrgð á framkvæmd þessara athugana, sem og aðrir sem þau hafa veitt umboð eða tilnefnt skulu beita heimildum sínum í samræmi við landslög.
2.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð, geta veitt embættismönnum yfirvalds í aðildarríkinu, sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu þar sem athugunin fer fram, aðstoð ef framkvæmdastjórnin eða lögbært yfirvald í aðildarríkinu fer fram á það.

13. gr.
Valdsvið framkvæmdastjórnarinnar við athuganir

1.     Til að framkvæmdastjórnin geti gegnt þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð er henni heimilt að gera allar nauðsynlegar athuganir á fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja.
2.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð til að gera athuganir, hafa heimild til:
a)    að fara inn á öll athafnasvæði, allt land og inn í öll farartæki fyrirtækja og samtaka fyrirtækja,
b)    að skoða bókhald og önnur viðskiptaskjöl, hver sem geymslumiðill þeirra er,
c)    að taka eða fá hvers konar afrit eða útdrætti úr slíku bókhaldi eða viðskiptaskjölum,
d)    að innsigla atvinnuhúsnæði og bókhald eða viðskiptaskjöl svo lengi og að því marki sem nauðsynlegt er vegna athugunarinnar,
e)    að biðja einhvern fulltrúa starfsmanna eða starfsmenn fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja um skýringar á málsatvikum eða skjölum sem varða viðfangsefni athugunarinnar og tilgang hennar og skrá svörin.
3.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð til að gera athuganir, skulu framvísa skriflegu umboði þegar þeir beita heimildum sínum þar sem viðfangsefni og tilgangur athugunarinnar kemur fram og þau viðurlög sem kveðið er á um í 14. gr. og beitt er ef þau bókhaldsgögn eða önnur viðskiptaskjöl, sem varða starfsemina, eru ófullnægjandi eða svör við spurningum, sem eru lagðar fyrir skv. 2. mgr. þessarar greinar, eru röng eða villandi. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna lögbæru yfirvaldi í aðildarríkinu, sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu þar sem athugunin á að fara fram, um hana með góðum fyrirvara.
4.     Fyrirtæki og samtök fyrirtækja skulu fallast á athuganir sem gefin eru fyrirmæli um samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Í ákvörðuninni skal tilgreina viðfangsefnið, tilganginn með athuguninni og hvenær hún á að hefjast og auk þess skal greina frá þeim viðurlögum, sem kveðið er á um í 14. og 15. gr., og réttinum til að fá endurskoðun dómstólsins á ákvörðuninni. Framkvæmdastjórnin skal taka slíka ákvörðun að höfðu samráði við lögbært yfirvald í aðildarríkinu sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu þar sem athugunin verður gerð.
5.     Embættismenn og aðrir, sem hafa umboð eða eru tilnefndir af lögbæru yfirvaldi í aðildarríkinu sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu þar sem athugunin verður gerð, skulu, að beiðni þess yfirvalds eða framkvæmdastjórnarinnar, veita embættismönnum og fylgdarmönnum þeirra, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar, dygga aðstoð. Í þessu skyni skulu þeir hafa þær heimildir sem tilgreindar eru í 2. mgr.
6.     Ef embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð, komast að raun um að fyrirtæki leggst gegn athugun, þ.m.t. með því að innsigla atvinnuhúsnæði, bókhald eða viðskiptaskjöl, sem gefin eru fyrirmæli um samkvæmt þessari grein, skal hlutaðeigandi aðildarríki veita þeim nauðsynlega aðstoð og kalla, ef við á, eftir aðstoð lögreglu eða sambærilegs löggæsluyfirvalds til þess að gera þeim kleift að gera athugun sína.
7.     Ef aðstoð, sem kveðið er á um í 6. mgr., krefst heimildar dómsmálayfirvalda samkvæmt landslögum skal sækja um slíka heimild. Einnig er hægt að sækja um slíka heimild sem varúðarráðstöfun.
8.     Ef sótt er um heimild, eins og um getur í 7. mgr., skulu innlend dómsmálayfirvöld tryggja að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sé gild og að þær þvingunarráðstafanir, sem áformaðar eru, séu hvorki handahófskenndar né óþarflega umfangsmiklar með hliðsjón af viðfangsefni athugunarinnar. Við eftirlit með því að þvingunarráðstafanir séu í réttum hlutföllum geta innlend dómsmálayfirvöld óskað eftir nákvæmum skýringum frá framkvæmdastjórninni, beint eða fyrir milligöngu lögbærs yfirvalds í aðildarríkinu, í tengslum við viðfangsefni athugunarinnar. Innlendum dómsmálayfirvöldum er þó ekki heimilt að vefengja nauðsyn þess að gera athugun eða krefjast þess að fá upplýsingar úr málsskjölum framkvæmdastjórnarinnar. Einungis dómstóllinn getur skorið úr um það hvort ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sé lögmæt.

14. gr.
Sektir

1.     Framkvæmdastjórnin getur, með ákvörðun, sektað aðilana, sem um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr., fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, um fjárhæð sem skal ekki fara yfir 1% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja í skilningi 5. gr. þegar þau, vísvitandi eða af gáleysi:
a)    veita rangar eða villandi upplýsingar í greinargerð, vottorði, tilkynningu eða viðbót við hana skv. 4. gr., 10. gr. (5.mgr.) eða 22. gr. (3. mgr.),
b)    veita rangar eða villandi upplýsingar sem svar við beiðni skv. 2. mgr. 11. gr.,
c)    veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar sem svar við beiðni samkvæmt ákvörðun sem er samþykkt skv. 3. mgr. 11. gr. eða veita ekki upplýsingar innan tilskilins frests,
d)    framvísa ófullnægjandi bókhaldi eða öðrum viðskiptaskjölum þegar athuganir fara fram skv. 13. gr. eða neita að gangast undir athugun sem fyrirmæli hafa verið gefin um með ákvörðun skv. 4. mgr. 13. gr.,
e)    að því er varðar spurningu sem er lögð fyrir í samræmi við e-lið 2. mgr. 13. gr.,
    —    gefa rangt eða villandi svar,
    —    leiðrétta ekki, innan tilskilins frests sem framkvæmdastjórnin setur, rangt, ófullnægjandi eða villandi svar sem starfsmaður hefur gefið eða
    —    svara ekki eða neita að veita fullnægjandi svar um málsatvik sem varða viðfangsefni og tilgang athugunar sem fyrirmæli eru gefin um með ákvörðun skv. 4. mgr. 13. gr.,
f)    hafa rofið innsigli sem embættismenn eða fylgdarmenn þeirra, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar, hafa komið fyrir í samræmi við d-lið 2. mgr. 13. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin getur, með ákvörðun, sektað aðilana, sem um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr., eða viðkomandi fyrirtæki, um fjárhæð sem skal ekki fara yfir 10% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis í skilningi 5. gr. þegar þau, vísvitandi eða af gáleysi:
a)    tilkynna ekki um samfylkingu í samræmi við 4. gr. eða 3. mgr. 22. gr. áður en hún kemur til framkvæmda, hafi þau ekki skýrt umboð til þess skv. 2. mgr. 7. gr. eða ákvörðun sem er tekin skv. 3. mgr. 7. gr.,
b)    láta samfylkingu, sem brýtur í bága við 7. gr., koma til framkvæmda,
c)    láta samfylkingu koma til framkvæmda sem hefur verið lýst ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum, með ákvörðun skv. 3. mgr. 8. gr., eða sem gera ekki þær ráðstafanir sem fyrirmæli eru gefin um með ákvörðun skv. 4. eða 5. mgr. 8. gr.,
d)    uppfylla ekki skilyrði eða skyldu sem hefur verið lögð á með ákvörðun skv. 6. gr. (b-lið 1. mgr.), 7. gr. (3. mgr.) eða 8. gr. (annarri undirgrein 2. mgr.).
3.     Við ákvörðun á fjárhæð sektarinnar skal taka tillit til þess hvers eðlis brotið er, hve alvarlegt það er og hve lengi það hefur staðið yfir.
4.     Ákvarðanir, sem teknar eru skv. 1., 2. og 3. mgr., varða ekki við hegningarlög.

15. gr.
Févíti

1.     Framkvæmdastjórnin getur, með ákvörðun, lagt á aðilana, sem um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr., fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, févíti sem fer ekki yfir 5% af meðaltali daglegrar heildarveltu viðkomandi fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, í skilningi 5. gr., fyrir hvern virkan dag sem telst töf, sem reiknast frá þeim degi sem er tiltekinn í ákvörðuninni, til að þvinga þau til:
a)    að veita tæmandi og réttar upplýsingar sem hún hefur krafist með ákvörðun skv. 3. mgr. 11. gr.,
b)    að gangast undir athugun sem framkvæmdastjórnin hefur gefið fyrirmæli um með ákvörðun skv. 4. mgr. 13. gr.,
c)    að uppfylla skyldu sem hefur verið lögð á með ákvörðun skv. 6. gr. (b-lið 1. mgr.), 7. gr. (3. mgr.) eða 8. gr. (annarri undirgrein 2. mgr.) eða
d)    að taka tillit til ráðstafana sem gefin hafa verið fyrirmæli um með ákvörðun skv. 4. eða 5. mgr. 8. gr.
2.     Þegar aðilar, sem um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr., fyrirtæki eða samtök fyrirtækja hafa uppfyllt þá skyldu sem févítinu var ætlað að framfylgja getur framkvæmdastjórnin ákvarðað endanlega fjárhæð févítis lægri en orðið hefði samkvæmt upphaflegu ákvörðuninni.

16. gr.
Endurskoðun dómstólsins

Dómstóllinn hefur ótakmarkaða lögsögu í skilningi 229. gr. sáttmálans til að endurskoða ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um sektir eða févíti; honum er heimilt að fella niður, hækka og lækka álagða sekt eða févíti.

17. gr.
Þagnarskylda

1.     Upplýsingar, sem aflað er með beitingu þessarar reglugerðar, skal einungis nota að því er varðar viðkomandi beiðni, rannsókn eða skýrslugjöf.
2.     Með fyrirvara um ákvæði 4. gr. (3. mgr.), 18. gr. og 20. gr. skulu framkvæmdastjórnin og lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum, embættismenn þeirra og aðrir starfsmenn og aðrir aðilar sem vinna undir stjórn þessara yfirvalda, svo og embættismenn og opinberir starfsmenn annarra yfirvalda í aðildarríkjunum, ekki veita þær upplýsingar sem þeir hafa fengið við beitingu þessarar reglugerðar og falla undir þagnarskyldu,
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir birtingu almennra upplýsinga eða kannana sem fela ekki í sér upplýsingar um einstök fyrirtæki eða samtök fyrirtækja.

18. gr.
Skýrslugjöf málsaðila og þriðju aðila

1.     Áður en framkvæmdastjórnin tekur ákvörðun, sem kveðið er á um í 6. gr. (3. mgr.), 7. gr. (3. mgr.), 8. gr. (2.–6. mgr.) og 14. og 15. gr., skal hún veita hlutaðeigandi aðilum, fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja tækifæri, á öllum stigum málsmeðferðar og allt til samráðs við ráðgjafarnefndina, til að skýra frá sjónarmiðum sínum varðandi andmæli sem lögð hafa verið fram gegn þeim.
2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að taka bráðabirgðaákvörðun skv. 3. mgr. 7. gr. og 5. mgr. 8. gr. án þess að gefa hlutaðeigandi aðilum, fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja fyrst tækifæri til að kynna sjónarmið sín, að því tilskildu að framkvæmdastjórnin gefi þeim færi á því eins fljótt og auðið er eftir að hún hefur tekið ákvörðun sína.
3.     Í ákvörðun sinni skal framkvæmdastjórnin einungis að taka til greina þau andmæli sem málsaðilum hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um. Réttur til málsvarnar skal virtur að fullu í málsmeðferðinni. Aðgangur að málsskjölum skal vera heimill a.m.k. þeim aðilum sem beina hlutdeild eiga að málinu en taka skal tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.
4.     Framkvæmdastjórninni eða lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjunum er einnig heimilt að hlýða á málflutning annarra einstaklinga eða lögaðila, telji þau ástæðu til þess. Einstaklingar eða lögaðilar, sem sýna fram á að þeir eigi nægilega mikilla hagsmuna að gæta, einkum þeir sem sitja í stjórn og framkvæmdastjórn viðkomandi fyrirtækja, eða viðurkenndir fulltrúar starfsmanna þeirra, skulu eiga rétt á að gefa skýrslu, æski þeir þess.

19. gr.
Samstarf við yfirvöld í aðildarríkjunum

1.     Framkvæmdastjórnin skal senda lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjunum afrit af tilkynningum innan þriggja virkra daga og, eins fljótt og auðið er, afrit af mikilvægustu skjölunum sem henni hafa borist eða hún gefið út samkvæmt þessari reglugerð. Meðal slíkra skjala skulu vera skuldbindingar sem viðkomandi fyrirtæki bjóða fram gagnvart framkvæmdastjórninni með það fyrir augum að samfylking geti samrýmst sameiginlega markaðnum skv. 2. mgr. 6. gr. eða annarri undirgrein 2. mgr. 8. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal beita þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í þessari reglugerð í nánu og stöðugu samstarfi við lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum sem eiga rétt á að láta í ljós sjónarmið sín varðandi þessa málsmeðferð. Að því er varðar ákvæði 9. gr. skal hún afla upplýsinga frá lögbæru yfirvaldi í aðildarríkinu, eins og um getur í 2. mgr. þeirrar greinar, og gefa því tækifæri, á öllum stigum málsmeðferðar, til að koma fram með sjónarmið sín allt þar til ákvörðun hefur verið samþykkt skv. 3. mgr. þeirrar greinar; í því skyni skal hún veita yfirvaldinu aðgang að málsskjölum.
3.     Hafa skal samráð við ráðgjafarnefnd um samfylkingar áður en ákvörðun er tekin skv. 8. gr. (1.–6. mgr.), 14. gr. eða 15. gr., að undanskildum bráðabirgðaákvörðunum sem eru teknar í samræmi við 2. mgr. 18. gr.
4.     Ráðgjafarnefndin skal skipuð fulltrúum lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum. Hvert aðildarríki skal tilnefna einn eða tvo fulltrúa; ef þeir forfallast mega aðrir fulltrúar koma í þeirra stað. Að minnsta kosti einn fulltrúi aðildarríkis skal vera þar til bær að því er varðar samkeppnishömlur og yfirburðastöðu.
5.     Samráð skal fara fram á sameiginlegum fundi sem framkvæmdastjórnin boðar til og stýrir. Fundarboðinu skal fylgja samantekt um hvert mál, sem taka á til umfjöllunar, og upplýsingar um helstu málsskjöl ásamt fyrstu drögum að ákvörðun. Fundinn skal ekki halda fyrr en 10 virkum dögum eftir að fundarboðið er sent út. Í undantekningartilvikum er framkvæmdastjórninni heimilt að stytta þennan frest, ef við á, til að komast hjá því að eitt eða fleiri fyrirtæki, sem eiga hlut að samfylkingu, verði fyrir alvarlegu tjóni.
6.     Ráðgjafarnefndin skal skila áliti á drögum að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, með atkvæðagreiðslu ef þörf krefur. Ráðgjafarnefndinni er heimilt að skila áliti jafnvel þótt einhverjir nefndarmanna séu fjarstaddir og enginn hafi komið í þeirra stað. Álitið skal vera skriflegt og skal það fylgja drögunum að ákvörðuninni. Framkvæmdastjórnin skal taka ítrasta tillit til álits nefndarinnar. Henni ber að greina nefndinni frá því með hvaða hætti álit hennar var haft til hliðsjónar.
7.     Framkvæmdastjórnin skal senda þeim sem ákvörðuninni er beint til álit ráðgjafarnefndarinnar og ákvörðunina. Hún skal birta álitið ásamt ákvörðuninni, að teknu tilliti til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.

20. gr.
Birting ákvarðana

1.     Framkvæmdastjórnin skal birta þær ákvarðanir sem hún tekur skv. 8. gr. (1.–6. mgr.), 14. gr. og 15. gr., að frátöldum bráðabirgðaákvörðunum sem eru teknar í samræmi við 2. mgr. 18. gr., ásamt áliti ráðgjafarnefndarinnar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
2.     Birta skal nöfn aðila ásamt megininntaki ákvörðunarinnar; við birtinguna skal tekið tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.

21. gr.
Beiting reglugerðarinnar og lögsaga

1.     Einungis þessi reglugerð skal gilda um samfylkingu, eins og hún er skilgreind í 3. gr., og reglugerðir ráðsins (EB) nr. 1/2003 ( 1 ), (EBE) nr. 1017/ 68 ( 2 ), (EBE) nr 4056/86 ( 3 ) og (EBE) nr. 3975/87 ( 4 ) gilda ekki, nema í tengslum við fyrirtæki um sameiginlegt verkefni sem varða ekki hagsmuni Bandalagsins en hafa það að markmiði eða hafa þau áhrif að samræma samkeppnishegðun fyrirtækja sem eru áfram sjálfstæð.
2.     Með fyrirvara um endurskoðun dómstólsins er framkvæmdastjórnin ein þar til bær að taka þær ákvarðanir sem kveðið er á um í þessari reglugerð.
3.     Aðildarríkin mega ekki beita innlendum samkeppnislögum sínum gagnvart samfylkingu sem varðar hagsmuni Bandalagsins.
Fyrsta undirgrein er með fyrirvara um vald aðildarríkis til að gera nauðsynlegar rannsóknir þegar beita á ákvæðum 4. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. eða, eftir að máli hefur verið vísað til þess skv. b-lið, fyrstu undirgreinar 3. mgr. 9. gr. eða 5. mgr. 9. gr., til að gera þær ráðstafanir sem eru alveg nauðsynlegar vegna beitingar 8. mgr. 9. gr.
4.     Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. er aðildarríkjum heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda lögmæta hagsmuni aðra en þá sem eru tilteknir í þessari reglugerð og eru í samræmi við almennar meginreglur og önnur ákvæði í lögum Bandalagsins.
Líta skal á almannaöryggi, fjölmiðlafrelsi og varfærnisreglur sem lögmæta hagsmuni í skilningi fyrstu undirgreinar.
Viðkomandi aðildarríki ber að tilkynna framkvæmdastjórninni um öll önnur hagsmunamál almennings og skal hún viðurkenna þau eftir að metið hefur verið hvort þau samrýmast almennum meginreglum og öðrum ákvæðum í lögum Bandalagsins áður en unnt er að gera ráðstafanirnar sem um getur hér að framan. Framkvæmdastjórnin skal gera hlutaðeigandi aðildarríki grein fyrir ákvörðun sinni innan 25 virkra daga frá tilkynningunni.

22. gr.
Vísun máls til framkvæmdastjórnarinnar

1.     Eitt eða fleiri aðildarríki geta farið fram á að framkvæmdastjórnin taki til skoðunar samfylkingu, eins og hún er skilgreind í 3. gr., sem varðar ekki hagsmuni Bandalagsins samkvæmt skilningi 1. gr. en hefur áhrif á viðskipti milli aðildarríkja og hætta er á að hefði veruleg áhrif á samkeppni á yfirráðasvæði aðildarríkisins eða -ríkjanna sem leggja fram beiðnina.
Slík beiðni skal lögð fram eigi síðar en 15 virkum dögum eftir þann dag sem tilkynnt var um samfylkinguna eða viðkomandi aðildarríki greint frá henni á annan hátt ef tilkynningar er ekki krafist.
2.     Framkvæmdastjórnin skal tilkynna lögbærum yfirvöldum aðildarríkisins og viðkomandi fyrirtækjum tafarlaust um beiðnir, sem berast skv. 1. mgr.
Önnur aðildarríki eiga rétt á að verða aðilar að í upphaflegu beiðninni innan 15 virkra daga frá því að tilkynning berst frá framkvæmdastjórninni um hana.
Alla innlenda fresti, sem varða samfylkinguna, skal fella tímabundið úr gildi uns skorið hefur verið úr um, í samræmi við málsmeðferðina sem er sett fram í þessari grein, hvar samfylkingin skuli könnuð. Um leið og aðildarríki hefur veitt framkvæmdastjórninni og hlutaðeigandi fyrirtækjum upplýsingar um að það hyggist ekki eiga hlut að beiðninni skal tímabundinni niðurfellingu innlends frests ljúka.
3.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að ákveða, í síðasta lagi 10 virkum dögum eftir að fresturinn sem er settur í 2. mgr. rennur út, að taka samfylkingu til skoðunar ef hún telur að hún hafi áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna og hætta sé á að hún hafi veruleg áhrif á samkeppni á yfirráðasvæði aðildarríkisins eða -ríkjanna sem leggja fram beiðnina. Taki framkvæmdastjórnin ekki ákvörðun innan þessa frests er litið svo á að hún hafi samþykkt ákvörðun um að taka samfylkinguna til skoðunar í samræmi við beiðnina.
Framkvæmdastjórnin skal tilkynna öllum aðildarríkjunum ásamt hlutaðeigandi fyrirtækjum um ákvörðun sína. Hún getur farið fram á að tilkynning verði lögð fram skv. 4. gr.
Aðildarríkið eða -ríkin, sem lögðu fram beiðnina, skulu ekki lengur beita innlendum samkeppnislögum gagnvart samfylkingunni.
4.     Ákvæði 2. gr., 4. gr. (2. til 3. mgr.), 5. og 6. gr. og 8. til 21. gr. skulu gilda þegar framkvæmdastjórnin tekur samfylkingu til skoðunar skv. 3. gr. Ákvæði 7. gr. skulu gilda svo fremi að samfylkingin hafi ekki komið til framkvæmda á þeim degi sem framkvæmdastjórnin upplýsir hlutaðeigandi fyrirtæki um að beiðni hafi verið lögð fram.
Sé tilkynningar skv. 4. gr. ekki krafist skal fresturinn til að hefja málsmeðferð, sem er settur í 1. mgr. 10. gr., hefjast næsta virka dag eftir að framkvæmdastjórnin tilkynnir hlutaðeigandi fyrirtækjum um að hún hafi ákveðið að taka samfylkinguna til skoðunar skv. 3. mgr.
5.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að tilkynna einu eða fleiri aðildarríkjum um að hún telji samfylkingu uppfylla viðmiðanir 1. mgr. Í slíkum tilvikum getur framkvæmdastjórnin boðið því aðildarríki eða -ríkjum að leggja fram beiðni í samræmi við ákvæði 1. mgr.

23. gr.
Framkvæmdarákvæði

1.     Í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr., skal framkvæmdastjórnin hafa valdheimild til að mæla fyrir um:
a)    framkvæmdarákvæði varðandi form, efni og önnur atriði er varða tilkynningar og greinargerðir skv. 4. gr.,
b)    framkvæmdarákvæði varðandi fresti skv. 4. gr. (4. og 5. mgr.) og 7., 9., 10. og 22. gr.,
c)    málsmeðferð og fresti varðandi framlagningu og framkvæmd skuldbindinga skv. 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 8. gr.,
d)    framkvæmdarákvæði varðandi skýrslugjöf skv. 18. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar ráðgjafarnefndar sem er skipuð fulltrúum aðildarríkjanna.
a)    Framkvæmdastjórnin skal hafa samráð við ráðgjafarnefndina áður en hún birtir drög að framkvæmdarákvæðum og áður en hún samþykkir slík ákvæði.
b)    Samráð skal fara fram á fundi sem framkvæmdastjórnin boðar til og stýrir. Fundarboðinu skulu fylgja drög að framkvæmdarákvæðunum. Fundinn skal ekki halda fyrr en 10 virkum dögum eftir að fundarboðið er sent út.
c)    Ráðgjafarnefndin skal skila áliti á drögum að framkvæmdarákvæðum, með atkvæðagreiðslu ef þörf krefur. Framkvæmdastjórnin skal taka ítrasta tillit til álits nefndarinnar.

24. gr.
Samskipti við þriðju lönd

1.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um alla erfiðleika almenns eðlis sem fyrirtæki þeirra eiga við að etja í þriðja landi í tengslum við samfylkingar eins og skilgreint er í 3. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal, í fyrsta sinn eigi síðar en einu ári eftir að reglugerð þessi öðlast gildi og eftir það með jöfnu millibili, semja skýrslu þar sem hún tekur til skoðunar, með tilliti til þeirra atriða sem um getur í 3. og 4. mgr., hvaða meðferð þau fyrirtæki fá sem hafa aðsetur eða aðalstarfsvettvang innan Bandalagsins þegar um er að ræða samfylkingar í þriðju löndum. Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslurnar fyrir ráðið, ásamt tilmælum, ef við á.
3.     Ef framkvæmdastjórnin telur, annaðhvort á grundvelli skýrslnanna sem um getur í 2. mgr. eða á grundvelli annarra upplýsinga, að fyrirtæki, sem hafa aðsetur eða aðalstarfsvettvang innan Bandalagsins, fái ekki meðferð í þriðja landi sambærilega þeirri sem Bandalagið veitir fyrirtækjum frá því landi getur hún lagt tillögur fyrir ráðið um viðeigandi samningsumboð með það fyrir augum að fyrirtæki, sem hafa aðsetur eða aðalstarfsvettvang í Bandalaginu, fái sambærilega meðferð.
4.     Ráðstafanir, sem eru gerðar samkvæmt þessari grein, skulu vera í samræmi við skyldur Bandalagsins eða aðildarríkjanna samkvæmt alþjóðasamningum, hvort heldur er tvíhliða eða marghliða, sbr. þó 307. gr. sáttmálans.

25. gr.
Niðurfelling

1.     Reglugerð (EBE) nr. 4064/89 og reglugerð (EB) nr. 1310/97 er felld úr gildi frá og með 1. maí 2004, sbr. þó 2. mgr. 26. gr.
2.     Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu reglugerðirnar sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í viðaukanum.

26. gr.
Gildistaka og bráðabirgðaákvæði

1.     Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Hún gildir frá 1. maí 2004.
2.     Reglugerð (EBE) nr. 4064/89 gildir áfram um samfylkingar sem samið eða tilkynnt er um eða þegar yfirráða hefur verið aflað í skilningi 1. mgr. 4. gr. þeirrar reglugerðar fyrir gildistöku þessarar reglugerðar, sbr. þó einkum ákvæði um beitingu sem eru sett fram í 2. og 3. mgr. 25. gr. reglugerðar (EBE) nr. 4064/89 og 2. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1310/97.
3.     Þegar um er að ræða samfylkingar, sem þessi reglugerð gildir um í tengslum við aðild nýrra ríkja, skal dagsetning aðildar koma í stað gildistökudags þessarar reglugerðar.
    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
    Gjört í Brussel 20. janúar 2004.
     Fyrir hönd ráðsins,
    C. McCREEVY
     forseti.


VIÐAUKI

Samsvörunartafla

Reglugerð (EBE) nr. 4064/89 Þessi reglugerð
1., 2. og 3. mgr. 1. gr. 1., 2. og 3. mgr. 1. gr.
4. mgr. 1. gr. 4. mgr. 1. gr.
5. mgr. 1. gr. 5. mgr. 1. gr.
1. mgr. 2. gr. 1. mgr. 2. gr.
2. mgr. 2. gr.
2. mgr. 2. gr. 3. mgr. 2. gr.
3. mgr. 2. gr. 4. mgr. 2. gr.
4. mgr. 2. gr. 5. mgr. 2. gr.
1. mgr. 3. gr. 1. mgr. 3. gr.
2. mgr. 3. gr. 4. mgr. 3. gr.
3. mgr. 3. gr. 2. mgr. 3. gr.
4. mgr. 3. gr. 3. mgr. 3. gr.
4. mgr. 3. gr.
5. mgr. 3. gr. 5. mgr. 3. gr.
Fyrsti málsliður 1. mgr. 4. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 4. gr.
Annar málsliður 1. mgr. 4. gr.
Önnur og þriðja undirgrein 1. mgr. 4. gr.
2. og 3. mgr. 4. gr. 2. og 3. mgr. 4. gr.
4.–6. mgr. 4. gr.
1.–3. mgr. 5. gr. 1.–3. mgr. 5. gr.
Inngangsorð 4. mgr. 5. gr. Inngangsorð 4. mgr. 5. gr.
a-liður 4. mgr. 5. gr. a-liður 4. mgr. 5. gr.
Inngangsorð b-liðar 4. mgr. 5. gr. Inngangsorð b-liðar 4. mgr. 5. gr.
Fyrsti undirliður b-liðar 4. mgr. 5. gr. i-liður b-liðar 4. mgr. 5. gr.
Annar undirliður b-liðar 4. mgr. 5. gr. ii-liður b-liðar 4. mgr. 5. gr.
Þriðji undirliður b-liðar 4. mgr. 5. gr. iii-liður b-liðar 4. mgr. 5. gr.
Fjórði undirliður b-liðar 4. mgr. 5. gr. iv-liður b-liðar 4. mgr. 5. gr.
c-, d- og e-liður 4. mgr. 5. gr. c-, d- og e-liður 4. mgr. 5. gr.
5. mgr. 5. gr. 5. mgr. 5. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 6. gr. Inngangsorð 1. mgr. 6. gr.
a- og b-liður 1. mgr. 6. gr. a- og b-liður 1. mgr. 6. gr.
c-liður 1. mgr. 6. gr. Fyrsti málsliður c-liðar 1. mgr. 6. gr.
2.5. mgr. 6. gr. 2.5. mgr. 6. gr.
1. mgr. 7. gr. 1. mgr. 7. gr.
3. mgr. 7. gr. 2. mgr. 7. gr.
4. mgr. 7. gr. 3. mgr. 7. gr.
5. mgr. 7. gr. 4. mgr. 7. gr.
1. mgr. 8. gr. Annar málsliður c-liðar 1. mgr. 6. gr.
2. mgr. 8. gr. 1. og 2. mgr. 8. gr.
3. mgr. 8. gr. 3. mgr. 8. gr.
4. mgr. 8. gr. 4. mgr. 8. gr.
5. mgr. 8. gr.
5. mgr. 8. gr. 6. mgr. 8. gr.
6. mgr. 8. gr. 7. mgr. 8. gr.
8. mgr. 8. gr.
1.–9. mgr. 9. gr. 1.–9. mgr. 9. gr.
10. mgr. 9. gr.
1. og 2. mgr. 10. gr. 1. og 2. mgr. 10. gr.
3. mgr. 10. gr. Fyrsti málsliður fyrstu undirgreinar 3. mgr. 10. gr.
Annar málsliður fyrstu undirgreinar 3. mgr. 10. gr.
Önnur undirgrein 3. mgr. 10. gr.
4. mgr. 10. gr. Fyrsta undirgrein 4. mgr. 10. gr.
Önnur undirgrein 4. mgr. 10. gr.
5. mgr. 10. gr. Fyrsta og fjórða undirgrein 5. mgr. 10. gr.
Önnur, þriðja og fimmta undirgrein 5. mgr. 10. gr.
6. mgr. 10. gr. 6. mgr. 10. gr.
1. mgr. 11. gr. 1. mgr. 11. gr.
2. mgr. 11. gr.
3. mgr. 11. gr. 2. mgr. 11. gr.
4. mgr. 11. gr. Fyrsti málsliður 4. mgr. 11. gr.
Annar og þriðji málsliður 4. mgr. 11. gr.
Fyrsti málsliður 5. mgr. 11. gr.
Annar málsliður 5. mgr. 11. gr. 3. mgr. 11. gr.
6. mgr. 11. gr. 5. mgr. 11. gr.
6. og 7. mgr. 11. gr.
12. gr. 12. gr.
Fyrsta undirgrein 1. mgr. 13. gr. 1. mgr. 13. gr.
Inngangsorð annarrar undirgreinar 1. mgr. 13. gr. Inngangsorð 2. mgr. 13. gr.
a-liður annarrar undirgreinar 1. mgr. 13. gr. b-liður 2. mgr. 13. gr.
b-liður annarrar undirgreinar 1. mgr. 13. gr. c-liður 2. mgr. 13. gr.
c-liður annarrar undirgreinar 1. mgr. 13. gr. e-liður 2. mgr. 13. gr.
d-liður annarrar undirgreinar 1. mgr. 13. gr. a-liður 2. mgr. 13. gr.
d-liður 2. mgr. 13. gr.
2. mgr. 13. gr. 3. mgr. 13. gr.
3. mgr. 13. gr. Fyrsti og annar málsliður 4. mgr. 13. gr.
4. mgr. 13. gr. Þriðji málsliður 4. mgr. 13. gr.
5. mgr. 13. gr. Fyrsti málsliður 5. mgr. 13. gr.
Annar málsliður 5. mgr. 13. gr.
Fyrsti málsliður 6. mgr. 13. gr. 6. mgr. 13. gr.
Annar málsliður 6. mgr. 13. gr.
7. og 8. mgr. 13. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 14. gr. Inngangsorð 1. mgr. 14. gr.
a-liður 1. mgr. 14. gr. a-liður 2. mgr. 14. gr.
b-liður 1. mgr. 14. gr. a-liður 1. mgr. 14. gr.
c-liður 1. mgr. 14. gr. b- og c-liður 1 mgr. 14. gr.
d-liður 1. mgr. 14. gr. d-liður 1. mgr. 14. gr.
e- og f-liður 1. mgr. 14. gr.
Inngangsorð 2. mgr. 14 gr. Inngangsorð 2. mgr. 14. gr.
a-liður 2. mgr. 14. gr. d-liður 2. mgr. 14. gr.
b- og c-liður 2. mgr. 14. gr. b- og c-liður 2. mgr. 14. gr.
3. mgr. 14. gr. 3. mgr. 14. gr.
4. mgr. 14. gr. 4. mgr. 14. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 15. gr. Inngangsorð 1. mgr. 15. gr.
a- og b-liður 1. mgr. 15. gr. a- og b-liður 1. mgr. 15. gr.
Inngangsorð 2. mgr. 15. gr. Inngangsorð 1. mgr. 15. gr.
a-liður 2. mgr. 15. gr. c-liður 1. mgr. 15. gr.
b-liður 2. mgr. 15. gr. d-liður 1. mgr. 15. gr.
3. mgr. 15. gr. 2. mgr. 15. gr.
16.–20. gr. 16.–20. gr.
1. mgr. 21. gr. 2. mgr. 21. gr.
2. mgr. 21. gr. 3. mgr. 21. gr.
3. mgr. 21. gr. 4. mgr. 21. gr.
1. mgr. 22. gr. 1. mgr. 21. gr.
3. mgr. 22. gr.
1–3. mgr. 22. gr.
4. mgr. 22. gr. 4. mgr. 22. gr.
5. mgr. 22. gr.
5. mgr. 22. gr.
23. gr. 1. mgr. 23. gr.
2. mgr. 23. gr.
24. gr. 24. gr.
25. gr.
1. mgr. 25. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 26. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr. 26. gr.
2. mgr. 25. gr. 2. mgr. 26. gr.
3. mgr. 25. gr. 3. mgr. 26. gr.
Viðauki

Fylgiskjal III.


SAMNINGUR UM BREYTINGU Á BÓKUN 4 VIÐ SAMNINGINN MILLI EFTA- RÍKJANNA UM STOFNUN EFTIRLITSSTOFNUNAR OG DÓMSTÓLS MEÐ INNFÆRSLU NÝRRAR 13. GR. OG 22. GR. Í XIII. KAFLA III. HLUTA


LÝÐVELDIÐ ÍSLAND
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

með hliðsjón af samningnum milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingar á samningnum milli EFTA- ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sem nefnist hér á eftir samningurinn um eftirlitsstofnun og dómstól, einkum 49. gr.,

í samráði við Eftirlitsstofnun EFTA,

með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EBE) nr. 139/2004 frá 20 janúar 2004 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja 1 .

með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 um að bæta 13. og 22. gr. reglugerðar (EB) nr. 139/2004 við í bókun 21 og bókun 24 við EES-samninginn,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Í ljósi þessa ber að breyta bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól.

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.


Eftirfarandi breytingar eru gerðar XIII. kafla III. hluta í bókun 4 við saminginn um eftirlitsstofnun og dómstól:

1.     Eftirfarandi ný 13. gr. bætist við:

„13. gr.

Vald Eftirlitsstofnunar EFTA til að gera athuganir


1.     Til að Eftirlitsstofnun EFTA geti gegnt þeim störfum sem henni eru falin skv. 57. og 58. gr. EES-samningsins, með ákvæðum bókunar 24 og XIV. viðauka við EES-samninginn er henni heimilt að gera allar nauðsynlegar athuganir á fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja.

2.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt umboð til að gera athuganir, hafa heimild til:

a)    að fara inn á öll athafnasvæði, allt land og inn í öll farartæki fyrirtækja og samtaka fyrirtækja,

b)    að skoða bókhald og önnur viðskiptaskjöl, hver sem geymslumiðill þeirra er,

c)    að taka eða fá hvers konar afrit eða útdrætti úr slíku bókhaldi eða viðskiptaskjölum,

d)    að innsigla atvinnuhúsnæði og bókhald eða viðskiptaskjöl svo lengi og að því marki sem nauðsynlegt er vegna athugunarinnar,

e)    að biðja einhvern fulltrúa starfsmanna eða starfsmenn fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja um skýringar á málsatvikum eða skjölum sem varða viðfangsefni athugunarinnar og tilgang hennar og skrá svörin.

3.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt umboð til að gera athuganir, skulu framvísa skriflegu umboði þegar þeir beita heimildum sínum þar sem viðfangsefni og tilgangur athugunarinnar kemur fram og þau viðurlög sem kveðið er á um í 14. gr. og beitt er ef þau bókhaldsgögn eða önnur viðskiptaskjöl, sem varða starfsemina, eru ófullnægjandi eða svör við spurningum, sem eru lagðar fyrir skv. 2. mgr. þessarar greinar, eru röng eða villandi. Eftirlitsstofnun EFTA skal tilkynna samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkinu, sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu þar sem athugunin á að fara fram, um hana með góðum fyrirvara. Eftirlitsstofnun EFTA skal útvega þeim fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem munu taka þátt í athuguninni í samræmi við 5. mgr. 8. gr. bókunar 24 við EES-samninginn, slíkt umboð.

4.     Fyrirtæki og samtök fyrirtækja skulu fallast á athuganir sem fyrirskipaðar eru samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA. Í ákvörðuninni skal tilgreina viðfangsefnið, tilganginn með athuguninni og hvenær hún á að hefjast og auk þess skal greina frá þeim viðurlögum, sem kveðið er á um í 14. og 15. gr., og réttinum til að skjóta ákvörðuninni til dómstólsins í samræmi við 2. mgr. 108. gr. EES-samningsins og viðeigandi ákvæði þessa samnings, einkum 36. gr. Eftirlitsstofnun EFTA skal taka slíka ákvörðun að höfðu samráði við samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkinu þar sem athugunin verður gerð.

5.     Embættismenn og aðrir sem hafa umboð eða eru tilnefndir af lögbæru yfirvaldi í EFTA- ríkinu, sem hefur yfirráð yfir landsvæðinu þar sem athugunin verður gerð, skulu, að beiðni þess yfirvalds eða Eftirlitsstofnunar EFTA, veita embættismönnum og fylgdarmönnum þeirra, sem hafa umboð Eftirlitsstofnunar EFTA, dygga aðstoð. Í þessu skyni skulu þeir hafa þær heimildir sem tilgreindar eru í 2. mgr.

6.     Ef embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt umboð, komast að raun um að fyrirtæki leggst gegn athugun, þ.m.t. með því að innsigla atvinnuhúsnæði, bókhald eða viðskiptaskjöl, sem gefin eru fyrirmæli um samkvæmt þessari grein skal hlutaðeigandi aðildarríki veita þeim nauðsynlega aðstoð og kalla, ef við á, eftir aðstoð lögreglu eða sambærilegs löggæsluyfirvalds til þess að gera þeim kleift að gera athugun sína.

7.     Ef aðstoð, sem kveðið er á um í 6. mgr., krefst heimildar dómsmálayfirvalda samkvæmt landslögum skal sækja um slíka heimild. Einnig er hægt að sækja um slíka heimild sem varúðarráðstöfun.

8.     Ef sótt er um þá heimild, eins um getur í 7. mgr., skulu innlend dómsmálayfirvöld tryggja að ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA sé ósvikin og að þær þvingunarráðstafanir, sem áformaðar eru, séu hvorki handahófskenndar né óþarflega umfangsmiklar með hliðsjón af viðfangsefni athugunarinnar. Við eftirlit með því að þvingunarráðstafanir séu í réttu hlutfalli við brot geta innlend dómsmálayfirvöld óskað eftir nákvæmum skýringum frá Eftirlitsstofnun EFTA, beint eða fyrir milligöngu lögbærs yfirvalds í EFTA-ríkinu, í tengslum við viðfangsefni athugunarinnar. Innlendum dómsmálayfirvöldum er þó ekki heimilt að vefengja nauðsyn þess að gera athugun eða krefjast þess að fá upplýsingar úr málsskjali Eftirlitsstofnunar EFTA. Einungis EFTA-dómstólinn getur skorið úr um hvort lögmæti ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA sé lögmæt.“

2.     Eftirfarandi ný 22. gr. bætist við:

„22. gr.

Vísun máls til Eftirlitsstofnunar EFTA


1.     Eitt eða fleiri EFTA-ríki geta lagt fram beiðni um það að Eftirlitsstofnun EFTA kanni samfylkingu, eins og hún er skilgreind í 3. gr. í gerðinni sem um getur í 1. lið XIV. viðauka við EES-samninginn (reglugerð (EBE) nr. 139/2004), sem varðar ekki hagsmuni EFTA samkvæmt skilningi 1. gr. þeirrar gerðar en hefur áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkjanna og hætta er á að hefði veruleg áhrif á samkeppni á yfirráðasvæði EFTA-ríkisins eða -ríkjanna sem leggja fram beiðnina Slík beiðni skal lögð fram eigi síðar en 15 virkum dögum eftir þann dag sem tilkynnt var um samfylkinguna eða viðkomandi EFTA-ríki greint frá henni á annan hátt ef tilkynningar er ekki krafist.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA skal tilkynna lögbærum yfirvöldum EFTA-ríkjanna og viðkomandi fyrirtækjum tafarlaust um beiðnir, sem berast skv. 1. mgr. Annað EFTA-ríki skal rétt á að gerast aðilar að upphaflegu beiðninni innan 15 virkra daga frá því að tilkynning berst frá Eftirlitsstofnun EFTA um upphaflegu beiðnina. Alla innlenda fresti, sem varða samfylkinguna, skal fella tímabundið úr gildi uns skorið hefur verið úr um, í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í þessari grein, hvar samfylkingin skuli könnuð. Um leið og EFTA-ríki hefur veitt Eftirlitsstofnun EFTA og hlutaðeigandi fyrirtækjum upplýsingar um að það hyggist ekki leggja fram beiðni ásamt öðrum lýkur tímabundinni niðurfellingu fresta.

3.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að ákveða, í síðasta lagi 10 virkum dögum eftir að fresturinn sem settur er í 2. mgr. rennur út, að kanna samfylkinguna ef hún telur að hún hafi áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkjanna og hætta sé á að hún hafi veruleg áhrif á samkeppni á yfirráðasvæði EFTA-ríkis eða -ríkjanna sem leggja fram beiðnina. Taki Eftirlitsstofnun EFTA ekki ákvörðun innan þessa frests er litið svo á að hún hafi samþykkt ákvörðun um að kanna samfylkinguna í samræmi við beiðnina.

Eftirlitsstofnun EFTA skal tilkynna öllum EFTA-ríkjunum ásamt hlutaðeigandi fyrirtækjum um ákvörðun sína. Hún getur farið fram á að tilkynning verði lögð fram skv. 1., 2. og 3. mgr. fyrrnefndrar gerðar og 4. og 5. gr. þessa kafla.

EFTA-ríki eða -ríkin, sem lögðu fram beiðnina, skulu ekki lengur beita innlendum samkeppnislögum gagnvart samfylkingunni.

4.     Ákvæði 2. gr., 4. gr. (2.–3. mgr.) og 5. gr. fyrrnefndrar gerðar og 6. gr. og 8.–21. gr. þessa kafla gilda í þeim tilvikum þegar Eftirlitsstofnun EFTA kannar samfylkingu í samræmi við ákvæði 3. mgr. Sé tilkynningar skv. 1., 2. og 3. mgr. 4. gr. fyrrnefndrar gerðar og 4. og 5. mgr. 4. gr. þessa kafla ekki krafist skal fresturinn til að hefja málsmeðferð, sem settur er í 1. mgr. 10. gr., hefjast næsta virka dag eftir að Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnir hlutaðeigandi fyrirtækjum um að hún hafi ákveðið að kanna samfylkinguna skv. 3. mgr.

5.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að tilkynna einu eða fleiri EFTA-ríkjum um að hún telji samfylkingu fullnægja viðmiðunum 1. mgr. Í slíkum tilvikum getur Eftirlitsstofnun EFTA boðið því EFTA-ríki eða -ríkjum að leggja fram beiðni í samræmi við ákvæði 1. mgr.“

2. gr.


1.     EFTA-ríkin skulu samþykkja samning þennan, sem er gerður í einu fullgiltu eintaki á ensku, í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers þeirra um sig.

Samningur þessi skal gerður og fullgiltur á þýsku, íslensku og norsku áður en sex mánuðir eru liðnir frá gildistöku hans.

2.     Samningur þessi skal afhentur til vörslu hjá ríkisstjórn Noregs sem skal tilkynna öllum hinum EFTA-ríkjunum um það.

Skjal um staðfestingu skal afhent til vörslu hjá ríkisstjórn Noregs sem skal tilkynna öllum hinum EFTA-ríkjunum um það.

3.     Samningur þessi öðlast gildi sama dag og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 eða þegar öll skjöl um staðfestingu hafa verið afhent til vörslu hjá EFTA-ríkjunum, hvort sem síðar verður.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Brussel 4. júní 2004.

         
     FYRIR HÖND LÝÐVELDISINS
     ÍSLANDS

         
     FYRIR HÖND FURSTADÆMISINS
     LIECHTENSTEINS

         
     FYRIR HÖND KONUNGSRÍKISINS
     NOREGS
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 130, 29.4.2004, bls. 3 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 23, 29.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L …
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB C 20, 28.1.2003, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Áliti var skilað 9.10.2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Áliti var skilað 24.10.2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 395, 30.12.1989, bls. 1. Leiðrétt útgáfa í Stjtíð. EB L 257, 21.9.1990, bls. 13. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1310/97 (Stjtíð. EB L 180, 9.7.1997, bls. 1). Leiðrétting í Stjtíð. EB L 40, 13.2.1998, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB C 364, 18.12.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB L 222, 14. 8. 1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB (Stjtíð. EB L 178, 17.7.2003, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 372, 31. 12. 1986, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB L 175, 23. 7. 1968, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1/2003 (Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 14
(3)    Stjtíð. EB L 378, 31. 12. 1986, bls. 4. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1/2003.
Neðanmálsgrein: 15
(4)    Stjtíð. EB L 374. 31. 12. 1987, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1/2003.
Neðanmálsgrein: 16
    1 (Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2004, bls. 1).