Ferill 620. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þskj. 920  —  620. mál.



Skýrsla

forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis
á 128.–131. löggjafarþingi.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Forsætisráðherra hefur á liðnum árum lagt fyrir Alþingi skýrslur um framkvæmd og meðferð á ályktunum Alþingis. Hin fyrsta þessara skýrslna var lögð fram á 112. löggjafarþingi, þá að beiðni nokkurra þingmanna, en síðari skýrslur voru teknar saman að frumkvæði forsætisráðuneytis.
    Skýrsla sú, sem nú er lögð fram, nær til ályktana Alþingis á 128.–131. löggjafarþingi. Forsætisráðuneytið leitaði eftir því við önnur ráðuneyti með bréfi dags. 8. ágúst 2006 að þau tækju saman stuttar greinargerðir um meðferð og framkvæmd þeirra þingsályktana sem þeim hefði verið falin meðferð á og fara svör ráðuneytanna hér á eftir.
    Skýrsla þessi er lögð fram með vísun til 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

Forsætisráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR FORSÆTISRÁÐUNEYTISINS Á 131. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 16/131 um kynningu á íslenskri list í sendiskrifstofum Íslands
frá 10. maí 2005 – þskj. 1418.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu til þess að kynna íslenska list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands.

    Forsætisráðuneytið fól utanríkisráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð utanríkisráðuneytis.

Þál. 20/131 um bætt heilbrigði Íslendinga frá 11. maí 2005 – þskj. 1485.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.
    Faghópur á vegum forsætisráðuneytis verði settur á laggirnar til að greina vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar. Að lokinni greiningu á orsökum og afleiðingum geri hópurinn tillögur að samræmdum aðgerðum og framkvæmdaáætlun sem lagðar verði fyrir ríkisstjórnina í apríl 2006.
    Við mat á afleiðingum verði m.a. horft til áhrifa á einstaklinginn, heilbrigði hans og félagslega stöðu, á atvinnulífið og á heilbrigðis- og tryggingakerfið og heildarkostnaður samfélagsins af afleiðingum vandans metinn.
    Við greiningu á orsökum verði horft vítt, svo sem á áhrif mataræðis og lífsstíls nútímafjölskyldna, áherslur á hreyfingu í starfi og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Enn fremur verði hugað að verðlagsmálum, aðstöðu almennings til íþrótta, útivistar og hreyfingar, skipulagi byggðar og samgangna og hlutverki starfsmanna skóla og heilbrigðisþjónustu við greiningu á vanda einstaklinga í forvarnaráðgjöf til foreldra og eftirfylgni aðgerða.
    Við skipun faghópsins verði haft í huga hve víðtækt verkefnið er og leitast við að tryggja þátttöku sem flestra viðkomandi ráðuneyta svo og fulltrúa Lýðheilsustöðvar sem hefur veigamiklu lögbundnu hlutverki að gegna á þessu sviði.
    Í starfi faghópsins verði haft til hliðsjónar markmið 11 í gildandi heilbrigðisáætlun, næringarráðleggingar manneldisráðs og samþykkt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar: „Global strategy on diet, physical activity and health“.

    Forsætisráðherra skipaði nefnd 31. október 2005 til að greina vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar. Nefndin hefur nú skilað tillögum sínum til forsætisráðherra.
    Í nefndinni sátu Þorgrímur Þráinsson blaðamaður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Anna Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, Árni Einarsson, uppeldis- og menntunarfræðingur, Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari, dr. Jón Óttar Ragnarsson næringarfræðingur, Petrína Baldursdóttir leikskólastjóri, Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, og Valur N. Gunnlaugsson matvælafræðingur.
    Forsætisráðuneytið hefur nú tillögur nefndarinnar til skoðunar.

ÞINGSÁLYKTANIR FORSÆTISRÁÐUNEYTIS Á 130. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 10/130 um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri
frá 16. mars 2004 – þskj. 1135.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlunin feli í sér sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum og eftir atvikum tillögur til úrbóta:
          kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgangi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,
          aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,
          kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,
          aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,
          kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri,
          kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,
          skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,
          stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,
          stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,
          stöðu frumkvöðla,
          stöðu uppfinningamanna.
    Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2005 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti.


    Forsætisráðuneytið fól iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti framkvæmd – sjá greinargerð iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.

Þál. 14/130 um samvinnu Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum
frá 31. mars 2004 – þskj. 1294.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2003, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að vinna að aukinni samvinnu í heilbrigðismálum á Vestur-Norðurlöndum og leita leiða til að löndin geti samnýtt krafta sína. Lagt er til að heilbrigðisyfirvöld gefi árlega út skýrslu um samstarfið og þau verkefni sem sameiginlega verður ráðist í.

    Forsætisráðuneytið fól heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.

Þál. 18/130 um samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu fiskstofna
frá 27. apríl 2004 – þskj. 1507.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2003, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efla enn frekar samstarf landanna um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum og stuðla að samningum sem tryggi áfram sjálfbæra nýtingu þeirra.

    Forsætisráðuneytið fól sjávarútvegsráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð sjávarútvegsráðuneytis.

Þál. 25/130 um stofnun sædýrasafns frá 27. maí 2004 – þskj. 1824.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess, með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins, að byggt verði upp veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni um hafið.
    Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis um kosti og galla slíks safns ásamt kostnaðarútreikningi og tillögu að mögulegri fjármögnun, rekstrarformi, eignarhaldi og staðsetningu fyrir 1. mars 2005.

    Forsætisráðuneytið fól menntamálaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð menntamálaráðuneytis.

Þál. 26/130 um skipulag sjóbjörgunarmála frá 27. maí 2004 – þskj. 1825.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á skipulagi sjóbjörgunarmála með það að markmiði að auðvelda og hraða björgunaraðgerðum þegar slys verða við erfiðar aðstæður.

    Forsætisráðuneytið fól dóms- og kirkjumálaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

ÞINGSÁLYKTANIR FORSÆTISRÁÐUNEYTIS Á 128. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 2/128 um matvælaverð á Íslandi frá 11. desember 2002 – þskj. 664.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna matvælaverð á Íslandi í samanburði við helstu nágrannalönd. Jafnframt verði reynt að gera grein fyrir hugsanlegum ástæðum mismunandi matvælaverðs, svo sem ólíkum verslunar- og framleiðsluháttum.
    Niðurstöðum þessarar athugunar skal skila til Alþingis innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.


    Forsætisráðuneytið fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að vinna skýrslu um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndunum og ríkjum Evrópusambandsins. Skýrsluna má finna á vef ráðuneytisins ( www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/1533).

Þál. 14/128 um neysluvatn frá 10. mars 2003 – þskj. 1168.



     Alþingi samþykkir að beina því til ríkisstjórnarinnar að
     a.      neysluvatn verði skilgreint sem auðlind í lögum,
     b.      málefni þess verði vistuð á einum stað í stjórnsýslunni og
     c.      stuðlað verði að útflutningi á fersku neysluvatni í samstarfi við vatnsútflutningsfyrirtæki og sveitarfélög.
    Gert er ráð fyrir að eftirlit með gæðum vatns verði áfram á vegum Hollustuverndar ríkisins (Umhverfisstofnunar frá 1. janúar 2003) og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.

    Forsætisráðuneytið fól umhverfisráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð umhverfisráðuneytis.

Þál. 17/128 um réttarstöðu samkynhneigðs fólks frá 11. mars 2003 – þskj. 1250.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera úttekt á réttarstöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Skal nefndin jafnframt gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu.
    Í nefndinni eigi sæti fulltrúi forsætisráðuneytis, sem jafnframt verði formaður nefndarinnar, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka samkynhneigðra. Sérstakur starfsmaður verði nefndinni til aðstoðar.
    Nefndin skili Alþingi skýrslu og tillögum eigi síðar en 15. janúar 2004.

    Forsætisráðherra skipaði nefnd um réttarstöðu samkynhneigðs fólks 8. september 2003. Í nefndinni sátu Anni G. Haugen félagsráðgjafi, tilnefnd af félagsmálaráðuneyti, Hjalti Zóphóníasson skrifstofustjóri, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Hólmfríður Grímsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, og Kristín Jónsdóttir, skrifstofustjóri, tilnefnd af menntamálaráðuneytinu, Þorvaldur Kristinsson, tilnefndur af Samtökunum '78, og Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem var skipuð formaður nefndarinnar. Dís Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var starfsmaður nefndarinnar.
    Nefndin fór yfir íslensk lög og reglur um svið þar sem samkynhneigðir njóta ekki sömu réttarstöðu og gagnkynhneigðir og kannaði framkvæmd laga sem miða að því að vinna gegn mismunun gegn samkynhneigðum. Hún fékk einnig á sinn fund ýmsa sérfræðinga til viðræðna og ráðgjafar um einstaka þætti viðfangsefnisins. Á vegum nefndarinnar fór fram víðtæk upplýsingaöflun varðandi þróun í réttindamálum samkynhneigðra á Norðurlöndum og nokkrum Evrópulöndum. Var þar einkum litið til nýlegra lagabreytinga, svo og margvíslegra skýrslna og rannsókna síðustu ára frá sérfræðinganefndum um málefni samkynhneigðra í nokkrum nágrannalöndum, m.a. í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Einnig var litið til þróunar varðandi réttarstöðu samkynhneigðra í ýmsu alþjóðlegu samstarfi sem Ísland á aðild að, m.a. í alþjóðlegri mannréttindasamvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.
    Í skýrslu nefndarinnar um réttarstöðu samkynhneigðra birtist úttekt hennar og gerðar eru tillögur um úrbætur. Eru þær í megindráttum eftirfarandi:
          Lögum um lögheimili, nr. 21/1990, verði breytt þannig að samkynhneigð pör geti fengið óvígða sambúð skráða hjá Hagstofu Íslands með sömu réttaráhrifum og gagnkynhneigð pör. Í dag geta samkynhneigðir gengið í staðfesta samvist, sem er ígildi hjúskapar með nokkrum undantekningum, en geta ekki fengið sambúð sína skráða hjá Hagstofu Íslands.
          Lagaákvæðum í sérlögum sem veita sambúð karls og konu sérstök réttaráhrif, t.d. á vettvangi vinnumarkaðsréttar, skattamála, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, verði breytt þannig að þau nái einnig til samkynhneigðra para í sambúð.
          Fellt verði niður búsetuskilyrði 2. gr. laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996, þess efnis að a.m.k. annar einstaklinganna þurfi að vera íslenskur ríkisborgari sem eigi fasta búsetu hér á landi.
          Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til þess að breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör.
          Samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist verði heimilað að frumættleiða íslensk börn og 1. mgr. 6. gr. laganna um staðfesta samvist breytt í því skyni. Í dag er samkynhneigðum einstaklingi í staðfestri samvist aðeins heimilt að stjúpættleiða barn maka síns.
          Þrír nefndarmenn telja ekki rétt að svo stöddu að heimila ættleiðingar samkynhneigða para á erlendum börnum eða tæknifrjóvganir samkvæmt tæknifrjóvgunarlögum til tveggja kvenna í staðfestri samvist. Þrír nefndarmenn eru á öndverðri skoðun og leggja til að allar takmarkanir verði felldar niður varðandi ættleiðingar samkynhneigðra para og tæknifrjóvganir.
          Sett verði í lög sérstök verndarákvæði til að sporna við mismunun samkynhneigðra á vinnumarkaði. Nefndin telur mikilvægt í undirbúningi löggjafar sem nú stendur yfir um réttindi launþega á vinnumarkaði að vernd samkynhneigðra gegn mismunun varðandi ráðningu, starfsumhverfi eða uppsögn verði sérstaklega tilgreind.
          Fræðsla um samkynhneigð og málefni samkynhneigðra á ýmsum sviðum þjóðfélagsins verði efld til þess að vinna gegn fordómum, og fjallað verði um samkynhneigð í viðeigandi köflum aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla.
          Samkynhneigð fái sérstaka umfjöllun í grunnmenntun ýmissa stétta, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna, lögfræðinga, guðfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa og námsráðgjafa, lögreglumanna og fangavarða.
          Þá leggur nefndin til að verkefni sem miða að rannsóknum, fræðslu og ráðgjöf um málefni samkynhneigðra njóti aukinna opinberra styrkja, einkum vísindarannsóknir á lífi og líðan lesbía og homma á Íslandi til þess að komast að því hvar skórinn kreppir þannig að gera megi viðeigandi ráðstafanir á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála gagnvart þessum þjóðfélagshópi.
    Þessum tillögum var fylgt eftir með lögum nr. 65/2006, um réttarstöðu samkynhneigðra. Í lögunum felst m.a. að samkynhneigðum pörum er heimilt að fá sambúð skráða í þjóðskrá og að ættleiða börn. Einnig er konu í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist með annarri konu heimilt að gangast undir tæknifrjóvgun.

Þál. 32/128 um áfallahjálp í sveitarfélögum frá 14. mars 2003 – þskj. 1422.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni í samstarfi við sveitarfélög að koma á skipulagðri áfallahjálp innan sveitarfélaga til að bregðast við þegar alvarleg og mannskæð slys ber að höndum.

    Forsætisráðuneytið fól heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.

Þál. 33/128 um uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs


frá 15. mars 2003 – þskj. 1431.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Skipuð verði nefnd þar sem fulltrúar samtaka launafólks eigi aðild auk fulltrúa stjórnmálaflokka á þingi og skili nefndin áliti innan eins árs.

    Forsætisráðuneytið fól félagsmálaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð félagsmálaráðuneytis.

Þál. 34/128 um framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla


frá 15. mars 2003 – þskj. 1432.


     Alþingi ályktar að skipaður verði starfshópur með fulltrúum ráðuneytis félagsmála, menntamála, umhverfismála, heilbrigðis- og tryggingamála, dómsmála, samgöngumála og fjármála og fulltrúum frá hagsmunasamtökum fatlaðra til að semja framkvæmdaáætlun sem hefur að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra. Jafnframt geri starfshópurinn kostnaðaráætlun um verkefnið. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins verði formaður starfshópsins.
    Starfshópurinn leggi fram tillögur sínar fyrir 1. október 2003.


    Forsætisráðuneytið fól félagsmálaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð félagsmálaráðuneytis.

Þál. 35/128 um verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi
frá 15. mars 2003 – þskj. 1433.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu á grundvelli samþykktar norrænu ráðherranefndarinnar frá 12. nóvember 1996 og leita eftir víðtæku samstarfi heimamanna og félagasamtaka í þeim tilgangi.

    Forsætisráðuneytið fól iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.

Þál. 37/128 um rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar
frá 15. mars 2003 – þskj. 1435.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd sem kanni þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið síðastliðin tíu ár. Nefndin skoði ítarlega hvernig fasteignir fólks á landsbyggðinni hafi rýrnað í verði og þá hversu mikið, leiti úrræða og komi með tillögur til úrbóta.
    Nefndin ljúki störfum fyrir árslok 2003.

    Forsætisráðuneytið fól iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu framkvæmd málsins – sjá greinargerð iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR DÓMS- OG KIRKJUMÁLARÁÐUNEYTIS


Á 130. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 26/130 um skipulag sjóbjörgunarmála frá 27. maí 2004 – þskj. 1825.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á skipulagi sjóbjörgunarmála með það að markmiði að auðvelda og hraða björgunaraðgerðum þegar slys verða við erfiðar aðstæður.
    Landhelgisgæsla Íslands fer með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á hafinu umhverfis Ísland í samræmi við lög. 52/2006. Í því sambandi starfrækir Landhelgisgæslan sjóbjörgunarstjórnstöð (Maritime Rescue Co-ordination Centre, MRCC) í samræmi við alþjóðasamninga og reglur um yfirstjórn leitar og björgunar á hafinu og við strendur Íslands, nr. 207/1990, með síðari breytingum. Stjórnstöð þessi er sambyggð björgunarstjórnstöð og fjarskiptastöð fyrir gæslueiningar.
    Þann 13. maí 2003 varð Landhelgisgæsla Íslands aðili að samstarfssamningi milli Flugmálastjórnar Íslands, ríkislögreglustjórans, Siglingastofnunar Íslands, Neyðarlínunnar hf. og Slysavarnafélagsins Landsbjargar um starfrækslu sameiginlegrar leitar- og björgunarmiðstöðvar að Skógarhlíð 14, Reykjavík. Skyldu samningsaðilar m.a. stefna að auknu samstarfi sín á milli við upplýsingagjöf, svo sem með samræmdum boðunar- og gátlistum vegna aðgerða, viðbragðsáætlanagerðar o.fl.
    Siglingastofnun Íslands var með lögum 41/2003 falið að starfrækja og fara með yfirstjórn mála er varða Vaktstöð siglinga. Vaktstöð siglinga hefur að markmiði að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu og öryggi skipa, farþega og áhafna og efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Sérstakur þjónustusamningur var gerður við þrjá aðila um rekstur vaktstöðvarinnar, Landhelgisgæslu Íslands sem fer með faglega stjórn hennar, Neyðarlínuna hf. og Slysavarnafélagið Landsbjörgu. Tilkynningarskyldan og fjarskiptastöð skipa í Gufunesi, Reykjavík radíó, fluttu í húsnæði Neyðarlínunnar í Skógarhlíð í ágúst 2004, en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í maí 2005. Þar með sameinuðust lykilaðilar vegna leitar og björgunar á hafsvæðinu umhverfis Ísland undir heitinu Vaktstöð siglinga.
    Stöðin er vel búin fullkomnum tölvu- og fjarskiptabúnaði og getur starfað sjálfstætt, óháð hinu almenna fjarskiptakerfi í landinu. Er það gert til að tryggja fjarskiptasamband milli stjórnstöðvar og gæslueiningar þótt hið almenna fjarskiptakerfi bregðist, bæði hvað varðar fjarskipti innan lands og milli landa. Þannig getur stjórnstöð undir öllum kringumstæðum haldið uppi fjarskiptasambandi við varðskip eða erlendar björgunarstöðvar um eigin gervihnattastöðvar og stuttbylgjufjarskiptabúnað. Eru tölvukerfi stöðvarinnar einnig notuð til fjareftirlits og til útreikninga á leitarsvæðum.
    Allar beiðnir um hjálp eða aðstoð berast fyrst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga og þar eru fyrst settar í gang aðgerðir ef hættuástand á sjó er yfirvofandi. Öllum aðgerðum Landhelgisgæslunnar á sjó og í lofti er stjórnað frá stjórnstöðinni, en vakt er staðin allan sólarhringinn og beint samband er við Veðurstofu Íslands, Flugstjórnarmiðstöðina, Slysavarnafélag Íslands, lögregluembættið í Reykjavík, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.

ÞINGSÁLYKTANIR DÓMS- OG KIRKJUMÁLARÁÐUNEYTIS
Á 128. LÖGGJAFARÞINGI


Þál. 21/128 um reynslulausn frá 13. mars 2003 – þskj. 1330.



     Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að kanna og gera úttekt á veitingu reynslulausnar skv. 40.- 42.gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Kannað verði m.a. hversu algengt er að beita því úrræði, hvernig háttað er eftirliti með því að skilyrði reynslulausnar séu haldin og hversu mörg brot eru framin af einstaklingum á reynslulausn. Jafnframt verði sérstaklega kannað hvort ástæða sé til þess að breyta framkvæmd reynslulausnar á þann veg að það verði hlutverk dómara að ákveða hvort fangi skuli látinn laus til reynslu í stað Fangelsismálastofnunar ríkisins, sbr. 1.mgr. 40.gr. almennra hegningarlaga.

    Nefnd sú sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 6. október 2003, til að kanna og gera úttekt á veitingu reynslulausnar í samræmi við framangreinda þingsályktun, skilaði lokaskýrslu til ráðherra 26. febrúar 2004. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. mars 2004, var Alþingi send lokaskýrsla nefndarinnar.
    Í nefndina voru skipuð: Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari við embætti ríkissaksóknara, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Jónas Jóhannsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness, Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Þorsteinn A. Jónsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. Jóni Þór Ólasyni, lögfræðingi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var síðar falið að vera ritari nefndarinnar.
    Í skýrslunni er þess m.a. getið að af þeim sem afplána fangelsisrefsingu fá um 60% reynslulausn en um 40% afplána refsingu sína að fullu. Á tímabilinu 1996–2000 var um 62% fanga veitt reynslulausn hér á landi af þeim sem um hana sóttu. Eftirlit og stuðningur sem á sér stað í kjölfar veitingar reynslulausnar getur verið þannig að dómþoli kemur reglulega í viðtöl til sérfræðinga Fangelsismálastofnunar, hittir sálfræðinga stofnunarinnar, eða hefur símasamband mánaðarlega. Þá er samstarf við aðrar stofnanir, svo sem við lögreglu og meðferðarstofnanir, ásamt reglubundinni könnun á því hvort dómþoli hefur verið sakaður um refsiverðan verknað. Í skýrslunni er greint frá tölulegum upplýsingum umsókna um reynslulausn á árunum 1996–2003, veitingu reynslulausna sem og rofi á skilyrðum hennar, sundurgreint eftir því hvort um er að ræða reynslulausnir að loknum helmingi refsivistar eða tveimur þriðju hlutum. Er komist að þeirri niðurstöðu að hlutfall þeirra sem fremja afbrot meðan á reynslulausnartíma stendur sé nokkuð stöðugt frá ári til árs, eða um 18%.
    Í ljósi könnunar á veittum reynslulausnum og tíðni reynslulausnarrofa á Íslandi árin 1996 til 2003, samanburðar á norrænni löggjöf og íslenskri, sem og samanburðar á framkvæmd hér á landi og á hinum Norðurlöndunum við veitingu reynslulausna, er það niðurstaða nefndarinnar að ekkert hafi komið fram sem kalli á breytingu á þann veg að það verði hlutverk dómara að ákveða hvort fangi skuli látinn laus gegn reynslu í stað Fangelsismálastofnunar. Sú niðurstaða er rökstudd með vísan til þess að starfsmenn Fangelsismálastofnunar þekki til fanga og ferlis þeirra og hegðunar í fangelsi, stofnunin annist afplánun refsinga og sé reynslulausn eðlilegt framhald afplánunar. Því sé stofnunin best til þess fallin að meta hvað henti föngum. Þá er bent á að ákvörðun um reynslulausn sé stjórnvaldsákvörðun sem fari eftir stjórnsýslulögum, fangar hafi málskotsrétt til dómsmálaráðuneytisins sem tryggi réttaröryggi þeirra ekki síður en ef dómstólar tækju ákvörðunina. Bent er á að meðferð reynslulausnarbeiðna sé almennt hraðvirk og hafi ekki í för með sér mikinn kostnað. Einnig er vakin athygli á að samfélagsþjónusta sé fyrirkomulag við fullnustu refsidóms er heyri undir Fangelsismálastofnun, reynslulausn sé það jafnframt og því eðlilegt að reynslulausn heyri undir Fangelsismálastofnun. Áratuga hefð hafi skapast fyrir því að fullnustuaðilar geti veitt dómþolum eftirgjöf á hluta fangelsisrefsingar að ákveðnum ströngum skilyrðum uppfylltum. Að lokum er það mat nefndarinnar að núverandi fyrirkomulag sé í fullu samræmi við 2. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, um þrískiptingu ríkisvaldsins.

Félagsmálaráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTIS Á 130. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 29/130 um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára


frá 28. maí 2004 – þskj. 1870.



     Alþingi ályktar skv. 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, að samþykkja eftirfarandi áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, fyrir tímabilið frá maímánuði 2004 til maímánaðar 2008.

I. Verkefni ríkisstjórnarinnar.



    Stefnumarkandi áherslusvið í jafnréttismálum fyrir næstu árin verði eftirfarandi:
     1.      Fræðsla um jafnréttismál.
     2.      Jafnrétti á vinnumarkaði.
     3.      Jafnréttisáætlanir ráðuneyta.
     4.      Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneyta.
     5.      Eftirfylgni með framkvæmdaáætlun.

II. Verkefni ráðuneytanna.



    A. Verkefni allra ráðuneytanna.
     1.      Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum.
     2.      Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.
     3.      Fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneytanna.
     4.      Jafnréttisáætlanir og jafnréttisnefndir ráðuneytanna.
     5.      Skipun tengiliða jafnréttismála í öllum undirstofnunum ráðuneyta.
     6.      Jafnréttissjónarmið tryggð við stöðuveitingar.
     7.      Staða kvenna í ráðuneytunum og undirstofnunum þeirra.
    Auk þessara verkefna taki einstök ráðuneyti þátt í, eða beri ábyrgð á, eftirtöldum verkefnum:
    B. Forsætisráðuneyti.
     8.      Útgáfa jafnréttisgátlista til notkunar við stefnumótunarvinnu.
    C. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
     9.      Mansal.
     10.      Vernd vitna og þolenda afbrota.
     11.      Aðbúnaður kvenna innan lögreglunnar.
    D. Félagsmálaráðuneyti.
     12.      Yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða.
     13.      Jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa.
     14.      Nefndir og ráð í sveitarfélögum.
     15.      Áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof á jafnrétti kynjanna.
     16.      Fæðingarorlof og atvinnulíf.
     17.      Jafnrétti í vinnumiðlun.
     18.      Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti.
     19.      Karlar til ábyrgðar.
     20.      Starfs- og endurmenntun.
     21.      Kynbundinn launamunur.
     22.      Launamyndun og kynbundinn launamunur.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     9.      Mansal.
     10.      Vernd vitna og þolenda afbrota.
     37.      Konur í atvinnurekstri.
     50.      Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
    E. Fjármálaráðuneyti.
     23.      Úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun kvenna og karla.
     24.      Úttekt á almannatryggingakerfinu.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     13.      Jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa.
     21.      Kynbundinn launamunur.
    F. Hagstofa Íslands.
     25.      Konur og karlar í atvinnurekstri.
    G. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
     26.      Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna.
     27.      Áhrif klámvæðingar á ungt fólk.
     28.      Heilsufarskönnun.
     29.      Notkun kvenna og karla á heilsugæslunni.
     30.      Mat á árangri og gæðum heilbrigðisþjónustunnar.
     31.      Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
     32.      Áhættuhegðun karla.
     33.      Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
     34.      Jafnrétti og lýðheilsa.
    Samstarfsaðili í eftirtöldu verkefni:
     19.      Karlar til ábyrgðar.
    H. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
     35.      Konur og stjórnun fyrirtækja.
     36.      Stuðningur við konur í atvinnurekstri.
     37.      Konur í atvinnurekstri.
    Samstarfsaðili í eftirtöldu verkefni:
     13.      Jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa.
    I. Landbúnaðarráðuneyti.
     38.      Lifandi landbúnaður - Gullið heima.
    J. Menntamálaráðuneyti.
     39.      Konur í vísindum.
     40.      Jafnrétti og listir.
     41.      Fræðsla um jafnréttismál í kennaranámi.
     42.      Jafnréttiskennsla í skólum.
     43.      Styrkir til jafnréttisfræðslu úr þróunarsjóðum leik-, grunn- og framhaldsskóla.
     44.      Jafnrétti kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar.
     45.      Konur og fjölmiðlar.
    K. Samgönguráðuneyti.
     46.      Störf kvenna á skipum.
    L. Sjávarútvegsráðuneyti.
     47.      Úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi.
     48.      Úttekt á störfum kvenna í minni sjávarútvegsfyrirtækjum (fjölskyldufyrirtækjum) á Íslandi.
    M. Umhverfisráðuneyti.
     49.      Konur og Staðardagskrá 21.
    N. Utanríkisráðuneyti.
     50.      Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
     51.      Jafnréttisstarf fulltrúa á vegum UNIFEM í löndum þar sem alþjóðlegt uppbyggingarstarf á sér stað.
    Samstarfsaðili í eftirtöldu verkefni:
     9.      Mansal.

    Félagsmálaráðuneytið hefur unnið að verkefnum sem falla undir ábyrgðasvið þess í þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Hér á eftir er í stuttu máli gerð grein fyrir stöðu einstakra verkefna í áætluninni í desember 2006. Jafnframt er unnið að endurskoðun áætlunarinnar í félagsmálaráðuneytinu ásamt skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð mun verða fram á Alþingi vorið 2007.

Félagsmálaráðuneytið sem ábyrgðaraðili:

Yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða.
    Fræðslufundur um samþættingu jafnréttissjónarmiða var haldinn í félagsmálaráðuneytinu vorið 2005. Voru meðal annars ráðuneytisstjórar og aðrir úr yfirstjórnum ráðuneyta boðaðir. Sett hefur verið af stað tilraunaverkefni á sviði samþættingar innan stjórnsýslunnar sem síðan mætti ef til vill nýta sem fyrirmynd að stærra verkefni þar sem fleiri ráðuneyti og stofnanir gætu komið að. Markmið tilraunaverkefnisins er að kanna hvort þjónusta tiltekinna stofnana er starfa á málefnasviði ráðuneytisins nýtist körlum og konum jafnvel þannig að ekki sé um kynbundna þjónustu að ræða. Verkefnið stendur enn yfir en þess er að vænta að því ljúki fyrri hluta ársins 2007.

Jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa.
    Samstarfshópur þriggja ráðuneyta var settur á fót. Verkefnið tengist mjög samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og hefur verið skoðað í því samhengi.

Nefndir og ráð í sveitarfélögum.
    Félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa óskuðu eftir upplýsingum frá sveitarfélögum um hlutfall kynjanna í sveitarstjórnum, nefndum, ráðum og öðrum stjórnum á þeirra vegum vorið 2006. Niðurstaðan úr þeirri könnun var að við lok kjörtímabilsins 2002–2006 voru 62% þeirra er sitja í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélaganna karlar og 38% konur. Vorið 2006 var nýkjörnum sveitarstjórnarmönnum sendur bæklingur þar sem vakin var athygli á jafnréttismálum, þar á meðal að lykilatriði væri að tilnefna bæði karla og konur til setu í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélagsins. Þá var haldinn kynningarfundur og námskeið með fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaganna í september 2006.

Áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof á jafnrétti kynjanna og fæðingarorlof og atvinnulíf.
    Ákveðið var að vinna þessi tvö verkefni saman. Undirbúningur að rannsókn hófst árið 2005. Um er að ræða margþætta rannsókn sem nokkrir aðilar koma að. Niðurstaðna er að vænta árið 2007.

Jafnrétti í vinnumiðlun.
    Verkefnið er hluti af tilraunaverkefni félagsmálaráðuneytisins á sviði samþættingar jafnréttissjónarmiða.

Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti.
    Verkefnið er ekki hafið þar sem ástæða þótti til að bíða eftir skýrslu úr verkefninu mælistikur á launajafnrétti og niðurstöðum úr verkefninu launamyndun og kynbundinn launamunur. Hafist verður handa við gerð framkvæmdaáætlunar fyrri hluta ársins 2007 í samráði við Jafnréttisráð og heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.
         
Karlar til ábyrgðar.
    Félagsmálaráherra setti verkefnið karlar til ábyrgðar aftur á laggirnar á fyrri hluta árs 2006. Markmið verkefnisins er að veita körlum sem beitt hafa heimilisofbeldi meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar vegna ofbeldis.

Starfs- og endurmenntun.
    Verkefnið er ekki hafið og þarfnast nánari skoðunar. Búist er við að menntamálaráðuneytið taki við verkefninu.

Kynbundinn launamunur.
    Verkefnið er ekki formlega hafið þar sem ástæða þótti til að bíða eftir skýrslu úr verkefninu mælistikur á launajafnrétti og niðurstöðum úr verkefninu launamyndun og kynbundinn launamunur.

Launamyndun og kynbundinn launamunur.
    Félagsmálaráðuneytið lét vinna fyrir sig rannsókn sem fól í sér að könnun sem gerð var árið 1995 um þætti sem hafa áhrif á laun og starfsframa kvenna og karla var endurtekin. Var markmiðið að kanna hvort sömu þættir hefðu áhrif á laun og starfsframa hjá konum og körlum. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar haustið 2006.

Félagsmálaráðuneytið sem samstarfsaðili:

Mansal.
    Félagsmálaráðuneytið hefur verið til ráðgjafar þegar þess hefur verið talin þörf. Fulltrúar ráðuneytisins hafa meðal annars tekið þátt í verkefni á vegum samstarfs Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna um stuðning, vernd, örugga heimsendingu og endurhæfingu fyrir konur sem orðið hafa fórnarlömb manna sem stunda mansal með kynferðislega misnotkun kvenna að markmiði.

Vernd vitna og þolenda afbrota.
    Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 26. september 2006 aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis.

Konur í atvinnurekstri.
    Vinnumálastofnun hefur unnið úttekt á stöðu Lánatryggingasjóðs kvenna en jafnframt vann Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun fyrir stofnunina meðal þeirra sem fengið hafa lánatryggingu hjá sjóðnum árin 2001–2003. Enn fremur skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að endurskoða starfsgrundvöll Lánatryggingasjóðs kvenna auk annarra skyldra verkefna. Nefndin skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra sumarið 2006 og er verið að yfirfara tillögur hennar í ráðuneytinu.

Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
    
Félagsmálaráðuneytið hefur átt í óformlegum viðræðum við utanríkisráðuneytið um framkvæmd verkefnisins.

ÞINGSÁLYKTANIR FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTIS Á 128. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 33/128 um uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs
frá 15. mars 2003 – þskj. 1431.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Skipuð verði nefnd þar sem fulltrúar samtaka launafólks eigi aðild auk fulltrúa stjórnmálaflokka á þingi og skili nefndin áliti innan eins árs.

    Félagsmálaráðuneytinu var falin framkvæmd þingsályktunarinnar með bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 12. júní 2003. Félagsmálaráðherra óskaði í október 2003 eftir tilnefningum frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fjármálaráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, þingflokki sjálfstæðismanna, þingflokki framsóknarmanna, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingflokki Samfylkingarinnar og þingflokki Frjálslynda flokksins í nefnd til að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur með uppsögnum eða mismunun í starfi. Var nefndin skipuð í febrúar 2004.
    Nefndin skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra í janúar 2005. Í skýrslunni kom fram að nefndin væri sammála um að aðgerða væri þörf og lagði til að stjórnvöld kæmu af stað fimm ára verkefni til að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Var meðal annars lagt til að sjö manna verkefnisstjórn yrði skipuð sem hefði það að meginmarkmiði að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Verkefnisstjórnin var skipuð í apríl 2005 og var henni meðal annars ætlað að styrkja stöðu hópsins almennt með því að skapa jákvæða umræðu hér á landi um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði, bæta ímynd þess og móta farveg fyrir viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu til þessa hóps. Verkefnisstjórnin er enn að störfum.

Þál. 34/128 um framkvæmdaáætlun um aðgengi
fyrir alla frá 15. mars 2003 – þskj. 1432.


    Alþingi ályktar að skipaður verði starfshópur með fulltrúum ráðuneytis félagsmála, menntamála, umhverfismála, heilbrigðis- og tryggingamála, dómsmála, samgöngumála og fjármála og fulltrúum frá hagsmunasamtökum fatlaðra til að semja framkvæmdaáætlun sem hefur að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra. Jafnframt geri starfshópurinn kostnaðaráætlun um verkefnið. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins verði formaður starfshópsins.
    Starfshópurinn leggi fram tillögur sínar fyrir 1. október 2003.

    Starfshópur var skipaður í samræmi við ályktunina árið 2003. Síðan þá hefur verið fundað í hópnum en einnig hafa undirhópar verið að störfum milli funda og starfsmenn hópsins hafa enn fremur lagt sitt af mörkum til verkefnisins. Uppistaðan í efni skýrslu nefndarinnar liggur að mestu fyrir og umtalsverð vinna hefur verið lögð í framsetningu efnis hennar í því augnamiði að það verði sem skýrast.
    Þess ber að geta að í félagsmálaráðuneytinu hefur frá því á haustmánuðum 2004 verið unnið að nýrri stefnu í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna. Drög að áætlun eru nú í kynningarferli, m.a. á heimasíðu ráðuneytisins, og er þess vænst að endanleg áætlun verði kynnt í lok mars 2007.
    Þessi stefnumótun ráðuneytisins tengist verkefninu um aðgengi fyrir alla með þeim hætti að hún verður eins konar undirskjal þeirrar framkvæmdaáætlunar sem þar verður um að ræða, jafnt hugmyndafræðilega sem og hvað framkvæmd varðar. Sett eru fram grundvallarsjónarmið, framtíðarsýn og meginmarkmið í málaflokknum sem síðan eru greind niður í starfsmarkmið og leiðir að þeim. Þar verður því að finna stefnu félagsmálaráðuneytisins hvað varðar þjónustu við þá sem búa við fötlun, jafnframt því sem lögð er áhersla á samábyrgð þjóðlífssviða (d. sektoransvarsprincippet) sem væntanleg framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla byggir í rauninni á. Það felur í sér, eins og það er orðað í drögum að stefnu ráðuneytisins, að „málefni fatlaðs fólks varða öll svið þjóðlífsins, jafnt menntamál, atvinnumál, fjármál, samgöngumál og dóms- og kirkjumál sem húsnæðismál, heilbrigðis- og tryggingamál, umhverfismál o.s.frv. Þar eru hvorki ríki né sveitarfélög eða stofnanir þeirra undanskildar. Því þarf að hafa hugfast að ábyrgðin á jafnrétti, jafnræði og aðgengi fatlaðs fólks hvílir hvarvetna sem teknar eru ákvarðanir um umgjörð og innviði samfélagsins, hvort sem er af félagslegum eða fjárhagslegum toga.“
    Um þessar mundir er unnið að því að setja fram efni framkvæmdaáætlunarinnar um aðgengi fyrir alla með sama hætti og í drögum að stefnu félagsmálaráðuneytisins, þ.e. að skilgreina meginmarkmið, starfsmarkmið og leiðir fyrir hvern lið tuttugu og tveggja grunnreglna Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra.
    Þá hefur verið samþykkt stefnumótun um þjónustu við geðfatlað fólk á vettvangi félagsmálaráðuneytisins vegna átaks sem lýtur að frekari uppbyggingu búsetu- og stoðþjónustu fyrir þann hóp árin 2006–2010. Sú stefna sem þar birtist er undirskjal téðrar stefnu ráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna og því einnig hluti af framkvæmdaáætluninni um aðgengi fyrir alla.
    Stefnt er að því að lokadrög að framkvæmdaáætluninni um aðgengi fyrir alla verði kynnt á árinu 2007.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR HEILBRIGÐIS- OG TRYGGINGAMÁLARÁÐUNEYTIS
Á 130. LÖGGJAFARÞINGI


Þál. 14/130 um samvinnu Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum
frá 31. mars 2004 – þskj. 1294.


     Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2003, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að vinna að aukinni samvinnu í heilbrigðismálum á Vestur-Norðurlöndum og leita leiða til að löndin geti samnýtt krafta sína. Lagt er til að heilbrigðisyfirvöld gefi árlega út skýrslu um samstarfið og þau verkefni sem sameiginlega verður ráðist í.

    Þingsályktun um samvinnu Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum var samþykkt á 130. löggjafarþingi Íslendinga. Var sú ályktun gerð með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins um heilbrigðismál árið 2003. Í þingsályktuninni er ríkisstjórninni falið, í samstarfi við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að vinna að aukinni samvinnu í heilbrigðismálum á Vestur-Norðurlöndum og leita leiða til að löndin geti samnýtt krafta sína. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var falin framkvæmd þingsályktunarinnar.
    Á umliðnum árum hefur áhugi Vestur-Norðurlandanna á samvinnu aukist verulega og hafa embættismenn og ráðherrar landanna þriggja verið í nokkru sambandi og skipst á upplýsingum bæði í tengslum við ýmsa fundi og einnig bréflega. Einnig kom grænlenski heilbrigðisráðherrann, Asii Chemnitz, ásamt embættismönnum til sérstaks fundar á í heilbrigðisráðuneytinu í febrúar 2005. Tilefni fundarins var að fara yfir samning sem gerður var milli Grænlands og Íslands árið 1997. Samningurinn fól m.a. í sér að Íslendingar skyldu sinna bráðatilfellum frá Grænlandi og hefur Landspítali – háskólasjúkrahús tekið á móti sjúklingum og einnig Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Einnig höfðu Grænlendingar áhuga á að kynna sér undirbúning og framkvæmd heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 en hún var kynnt á ráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Illulisat sumarið 2003. Töldu Grænlendingar æskilegt að ráðherrarnir skiptust reglulega á skoðunum og að kannaðar yrðu forsendur fyrir frekari samvinnu á sviði heilbrigðismála.
    Færeyingar hafa einnig sýnt áhuga á auknu samstarfi við Íslendinga og sendu meðal annars inn formlegt erindi sumarið 2003 þar sem óskað var eftir upplýsingum um kostnað vegna sjúklinga sem fara í hjáveituaðgerð á kransæðum annars vegar og kransæðavíkkanir hins vegar. Landspítali – háskólasjúkrahús sendi inn ítarlegar upplýsingar um kostnað annars vegar og gæði þjónustu hins vegar sem sendar voru Færeyingum. Það kom í ljós í framhaldi af þessum samskiptum að ekki var talinn grundvöllur fyrir því af hálfu Færeyinga að taka upp samstarf á þessu sviði.
    Í tengslum við fund norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherranna 13.–14. júní 2005 í Færeyjum átti þáverandi heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson fund með félags- og heilbrigðismálaráðherra Færeyja Hans Pauli Strøm. Ætlunin var að grænlenski ráðherrann sæti einnig fundinn en för hans til Færeyja var aflýst á síðustu stundu. Ráðherrar Íslands og Færeyja ákváðu þá að fara betur yfir þau verkefni sem hugsanlega gætu eflt samstarf landanna á sviði heilbrigðismála.
    Heilbrigðisráðherrar Færeyja, Hans Pauli Ström, og Íslands, Siv Friðleifsdóttir, hittust síðast á fundi í Kaupmannahöfn 1. nóvember 2006. Á þeim fundi var ákveðið að ráðherrarnir hittust aftur í janúar á næsta ári til að ræða frekara samstarf. Fyrir þann fund munu embættismenn landanna og fagfólk á stærstu sjúkrahúsunum hafa farið yfir málið með það að markmiði að auka samstarf landanna á sviði heilbrigðisþjónustu.
    Nokkur sameiginleg verkefni landanna á sviði heilbrigðismála hafa verið í vinnslu undanfarið. Má þar nefna verkefni á vegum Norðurskautsráðsins og verkefni í tengslum við norrænu ráðstefnuna um fjarlækningar sem haldin er annað hvert ár.
    Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar ásamt aðilum í Norður-Noregi hafa tekið þátt í fjarlækningaverkefni sem miðar að því að þróa heilstæða heilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur á Norður-Atlantshafi. Þessu verkefni er nú lokið og var það styrkt af NORA eða Norrænu Atlantsnefndinni sem er stofnun á sviði byggðamála á norðvestursvæði Norðurlanda. Á lokafundi verkefnisins sem haldinn var í Færeyjum var lagt til að áfram yrði unnið að þessari þróun, með áherslu á skipulag nauðsynlegrar þjónustu í landi og fræðslu fyrir sjómenn.
    Veturinn 2005 til 2006 aðstoðaði skrifstofustjóri lyfjamálaskrifstofa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins heilbrigðisyfirvöld í Færeyjum við mótun lyfjamálastefnu. Skrifstofustjórinn tók þátt í starfi nefndar sem skipuð var til þess að gera úttekt á lyfjamálum og semja drög að lyfjastefnu Færeyja til ársins 2015. Nefndin hefur nú lokið störfum.

ÞINGSÁLYKTANIR HEILBRIGÐIS- OG TRYGGINGAMÁLARÁÐUNEYTIS
Á 128. LÖGGJAFARÞINGI


Þál. 32/128 um áfallahjálp í sveitarfélögum
frá 14. mars 2003 – þskj. 1422.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni í samstarfi við sveitarfélög að koma á skipulagðri áfallahjálp innan sveitarfélaga til að bregðast við þegar alvarleg og mannskæð slys ber að höndum.

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var falin framkvæmd þingsályktunarinnar með bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 26. janúar 2005.
    Ráðuneytinu var kunnugt um að verið væri að fjalla um áfallahjálp á vegum landlæknisembættisins og óskaði því eftir áliti embættisins um framkvæmd þingsályktunarinnar og þeim þáttum sem það teldi brýnast að bregðast við í ljósi ályktunarinnar.
    Ráðuneytinu barst svar frá embættinu, dags. 31. október sl., og kemur þar fram að síðastliðin ár hafi verið starfandi faghópur um áfallahjálp á vegum landlæknisembættisins í samstarfi við Rauða kross Íslands, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landspítala – háskólasjúkrahús og þjóðkirkjuna. Héldu þessir aðilar m.a. vinnuþing á vormánuðum 2005 um áfallahjálp á landsvísu og var þátttaka mikil. Komu þar fram ýmsar tillögur til frekari þróunar þessara mála og tekur embætti landlæknis undir þær í bréfi sínu.
    Embættið bendir á að faghópurinn hefur skipt áfallahjálp í tvö stig, fyrsta stigs hjálp sem er veitt af einstaklingum sem hafa hlotið til þess þjálfun og annars stigs hjálp sem veitt er af þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki. Lagt er til að sveitarfélög, eitt eða fleiri eftir stærð, setji á laggirnar samráðshóp um viðbrögð ef áföll verða í samfélaginu. Hópurinn sé skipaður fulltrúum þeirra sem veita velferðarþjónustu hins opinbera í samfélaginu auk félagasamtaka. Þá er það álit embættisins að fagleg þjónusta slíkra faghópa eigi að vera á ábyrgð heilbrigðisþjónustunnar, en að sveitarfélög eigi að tryggja að áfallahjálp sé tiltæk, enda taki úrræði og eftirfylgd að miklu leyti til þeirrar lögbæru þjónustu sem þau eiga að veita.
    Eins og áður greindi barst álit landlæknisembættisins ráðuneytinu 31. október sl. og hefur því ekki unnist tími til að ræða við fulltrúa landlæknis um fyrrgreindar tillögur og framkvæmd þingsályktunartillögunnar.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.


ÞINGSÁLYKTANIR IÐNAÐAR- OG VIÐSKIPTARÁÐUNEYTIS
Á 130. LÖGGJAFARÞINGI


Þál. 10/130 um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum
og meðalstórum fyrirtækjum frá 16. mars 2004 – þskj. 1135.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlunin feli í sér sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum og eftir atvikum tillögur til úrbóta:
          kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgangi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,
          aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,
          kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,
          aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,
          kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri,
          kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,
          skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,
          stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,
          stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,
          stöðu frumkvöðla,
          stöðu uppfinningamanna.

    Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2005 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti.

    Iðnaðarráðuneytið sendi forsætisráðuneytinu framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem Impra nýsköpunarmiðstöð vann að beiðni iðnaðarráðuneytis en forsætisráðuneyti fól iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti framkvæmd þingsályktunarinnar með bréfi, dags. 21. apríl 2004.
    Meginmarkmið ályktunarinnar fellur að öllu leyti að starfsemi Impru og iðnaðarráðuneytisins almennt og myndar hluta af stærri heild verkefna sem eru til stuðnings litlum og meðalstórum fyrirtækjum og nýsköpun í atvinnulífinu. Vegna einstakra efnistriða í ályktuninni er rétt að upplýsa eftirfarandi:
          Impra veitir upplýsingar og leiðsögn um stofnun og rekstur fyrirtækja, þ.m.t. um styrki og aðra fjármagnsfyrirgreiðslu frá opinberum aðilum og fáanlega leiðbeiningaþjónustu.
          Samstarf er á milli Impru og Einkaleyfastofunnar um fræðslu um einkaleyfi.
          Nefnd á vegum iðnaðarráðuneytis um lagfæringar á skattalegu umhverfi nýsköpunarfyrirtækja skilaði tillögum haustið 2005 og eru flestar þeirra komnar í framkvæmd.
          Nefnd á vegum forsætisráðuneytis um einföldun regluumhverfis atvinnulífsins mun nýtast smáum jafnt sem stórum fyrirtækjum.
          Frumkvöðlar, einyrkjar og lírtil fyrirtæki eru helstu viðskiptavinir Impru sem veitir þeim mjög víðtæka þjónustu um flest sem við kemur almennri starfsemi þeirra.
    Skýrsla var lögð fram á Alþingi 9. desember 2006 (sjá www.althingi.is/altext/ 133/s/0642.html).

ÞINGSÁLYKTANIR IÐNAÐAR- OG VIÐSKIPTARÁÐUNEYTIS Á 128. LÖGGJAFARÞINGI


Þál. 18/128 um samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda
frá 11. mars 2003 – þskj. 1251.


     Alþingi samþykkir að fela Byggðarannsóknastofnun Íslands, í samvinnu við Þróunarstofu Austurlands, að fylgjast með samfélagsbreytingum og þróun byggðar og atvinnulífs á því landsvæði þar sem áhrifa álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi gætir mest. Verkefninu verði ætlað fé í fjárlögum í sex ár frá og með árinu 2004. Byggðarannsóknastofnun skili formlegum skýrslum til ráðherra byggðamála í lok árs 2005 og 2007 og síðan í lok verkefnisins. Þá verði stofnunin stjórnvöldum til ráðuneytis á tímabilinu verði þess óskað.

    Rannsóknarverkefnið mun standa í sex ár og lýkur gagnavinnslu árið 2008 og lokaskýrslu 2009. Að verkefninu standa iðnaðarráðuneyti, Byggðastofnun, Byggðarannsóknastofnun og Þróunarstofa Austurlands sem sameiginlega leggja því til 10,5 m.kr. á ári. Markmið verkefnisins er þríþætt: Í fyrsta lagi að safna gögnum sem geta orðið grundvöllur að mati sambærilegra verkefna í framtíðinni, í öðru lagi að renna stoðum undir íslenskt rannsóknasamfélag um byggðatengd málefni með rannsókn sem hefur mikilvægt vísindalegt gildi í alþjóðlegu samhengi og í þriðja lagi að gefa íslensku samfélagi bættar forsendur til að lágmarka neikvæðar afleiðingar stóriðjuframkvæmda en hámarka hinar jákvæðu. Í rannsóknunum er sjónum m.a. beint að þróun mannfjölda, efnahag, vinnumarkaði, sveitarfélögum, húsnæðismálum, margvíslegri þjónustu, opinberri grunngerð, nýtingu lands og auðlinda og anda samfélagsins almennt. Notast er við margvíslegar rannsóknaraðferðir og við það miðað að afla fjölþættra gagna. Gögnum er safnað frá opinberum aðilum og framkvæmdaaðilum, gerðar eru úrtaksrannsóknir og tekin viðtöl við einstaklinga jafnt sem forsvarsmenn fyrirtækja.

Þál. 35/128 um verndun búsetu og menningarlandslags
í Árneshreppi frá 15. mars 2003.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu á grundvelli samþykktar norrænu ráðherranefndarinnar frá 12. nóvember 1996 og leita eftir víðtæku samstarfi heimamanna og félagasamtaka í þeim tilgangi.

    Í nóvember 2003 fól iðnaðarráðherra Byggðastofnun að kalla saman nefnd til að meta aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslagi í Árneshreppi. Nefndin lauk störfum og skilaði hún iðnaðarráðherra tillögum á miðju ári 2004. Tillögurnar þóttu nokkuð sértækar og of bundnar við eitt hérað en tekið hefur verið tillit til þeirra með almennari hætti í starfsemi ráðuneytisins við gerð og framkvæmd byggðaáætlunar.

Þál. 37/128 um rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar
frá 15. mars 2003 – þskj. 1435.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd sem kanni þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið síðastliðin tíu ár. Nefndin skoði ítarlega hvernig fasteignir fólks á landsbyggðinni hafi rýrnað í verði og þá hversu mikið, leiti úrræða og komi með tillögur til úrbóta.
    Nefndin ljúki störfum fyrir árslok 2003.

    Á grundvelli þingsályktunarinnar skipaði iðnaðarráðherra starfshóp til að meta stöðu og þróun fasteignamarkaðarins eftir einstaka svæðum. Einnig var gerður samanburður við þróun fasteignaverðs erlendis. Í greinargerð starfshópsins frá október 2005 er m.a. leitað svara við því hvers vegna fasteignaverð hefur þróast með misjöfnum hætti á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Landbúnaðarráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR LANDBÚNAÐARRÁÐUNEYTIS Á 128. LÖGGJAFARÞINGI


Þál. 15/128 um innflutning dýra frá 10. mars 2003 – þskj. 1171.


     Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hefjast þegar handa um endurskoðun laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, og búnaðarlaga, nr. 70/1998, með það að markmiði að vernda íslenska dýra- og búfjárstofna.

    Heildarendurskoðun laganna um innflutning dýra hefur ekki farið fram.
    Breyting var samþykkt á lögunum 11. nóvember 2003, lög nr. 116. Lög þessi fela í sér heimild til landbúnaðarráðherra til að takmarka eða banna innflutning á lifandi laxfiskum, óháð þroskastigi, ef ljóst má vera að aðrar verndar- og friðunaraðgerðir sem kveðið er á um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum duga ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun slíkra laxfiska við staðbundna náttúrulega stofna sem ógnað gætu líffræðilegri fjölbreytni og stefnt náttúrulegum stofnum í hættu.
    Breyting hefur verið gerð á ákvæðum búnaðarlaga, nr. 70/1998, um varðveislu erfðaauðlinda. Ákvæðin fela í sér að hlutverk erfðanefndar búfjár er útvíkkað og nafni hennar breytt í erfðanefnd landbúnaðarins. Í stað þess að fjalla einvörðungu um búfjárstofna og ferskvatnsfiska skal nefndin nú:
          annast samráð innan lands um varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði,
          að hvetja til rannsókna á sviði erfðaauðlinda í landbúnaði,
          stuðla að miðlun þekkingar um erfðaauðlindir og gildi þeirra, jafnt með kennslu sem upplýsingagjöf til almennings,
          veita hagsmunaaðilum og stjórnvöldum ráðgjöf um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði,
          annast samskipti við erlenda aðila á þessu sviði í samstarfi við tengiliði Íslands hjá alþjóðastofnunum.

Þál. 16/128 um nýtingu innlends trjáviðar
frá 10. mars 2003 – þskj. 1172.


    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að kanna möguleika á að nýta innlendan trjávið, sem fellur til við grisjun, til framleiðslu listmuna, byggingarefnis, límtrés eða til eldiviðarframleiðslu. Jafnframt verði gerð fagleg úttekt á því hvernig fullnýta megi þau verðmæti er til falla í skógum landsins.

    Viðarnýtingarnefnd var stofnuð 13. október 2004. Nefndin starfar sjálfstætt og heyrir ekki undir landbúnaðarráðuneytið. Að nefndinni standa: Skógrækt ríkisins, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, BYKO, landshlutabundnu skógræktarverkefnin, Landssamtök skógareigenda, Skógræktarfélag Íslands, Trétækniráðgjöf og Viðarmiðlun Skógræktar ríkisins.
    Efni þingsályktunarinnar þótti falla vel að starfi framangreindrar viðarnýtinganefndar og var talið eðlilegast að ráðuneytið styrkti þá nefnd fremur en skipa nýja. Landbúnaðarráðherra hefur styrkt viðarnýtingarnefnd þrisvar sinnum af ráðstöfunarfé sínu og um sl. áramót var nefndinni veitt hálf milljón króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.
    Leitað var til formanns nefndarinnar um upplýsingar um starf nefndarinnar og kemur þar fram að meginmarkmið nefndarinnar er að finna nýtingu á grisjunarvið úr fyrstu og annari grisjun.
    Verksvið viðarnýtingarnefndar skiptist í þrjá höfuðþætti; viðarmiðlun, skólaverkefni og vöruþróunarverkefni. Til að sinna þessum þáttum hefur nefndin m.a. ákveðið, skilgreint og fjármagnað einstök verkefni; unnið að vöruþróun á grisjunarvið úr íslenskum skógum; sinnt fræðslu og unnið að markaðssetningu á skógarafurðum.
    Viðarnýtingarnefnd hefur unnið markvisst að vöruþróun þar sem lögð er áhersla á nýtingu á við sem kemur úr fyrstu og annarri grisjun.
    Þau vöruþróunarverkefni sem staðið hafa upp úr eru m.a. flísar sem eru notaðar til að klæða veggi og er verið að skoða kaup á vélum og búnaði til að koma af stað framleiðslu; stiklur sem eru 15–20 sm langir viðarbútar sem raðað er saman og mynda gangstíg eða plön; hesthúsabásar úr lerki, og hafa tvö hesthús verið innréttuð með þessu efni; reykflís, og er verið að skoða möguleika á frekari markaðssetningu á þessum vöruflokki og þá í neytendaformi; spænir til að nota undir húsdýr, og er sú vara enn á tilraunastigi; og efni sem notað er í skólunum.

Þál. 36/128 um aðstöðu til hestamennsku frá 15. mars 2003 – þskj. 1434.


     Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa nefnd sem geri úttekt á aðstöðu til hestamennsku á landsbyggðinni og leggi fram tillögur um stuðning ríkissjóðs við uppbyggingu hennar. Nefndin skili áliti fyrir 1. október 2003.

    Í kjölfar ályktunar Alþingis skipaði landbúnaðarráðherra nefnd sem falið var það hlutverk sem mælt var fyrir um í ályktun Alþingis. Nefndin skilaði skýrslu til landbúnaðarráðherra í janúar 2005. Helstu niðurstöður nefndarinnar eru þær að í fyrsta lagi virðist ljóst að notkun reiðhúsa (reiðhalla, reiðskála og reiðskemma) af ýmsu tagi virðist vera orðin svo stór hluti af nútímareiðmennsku, bæði íþróttinni sem slíkri og atvinnugreininni, að slík aðstaða er nú talin nauðsynleg fyrir alla framþróun í hestamennsku á landinu og ómissandi til að hægt sé að halda uppi kennslu og námskeiðahaldi yfir veturinn sem og sýningarhaldi. Að mati nefndarinnar er uppbygging reiðhúsa án efa til þess fallin að bæta mjög aðstöðu barna og unglinga á landsbyggðinni til ástundunar á íþrótt sinni sem og að auðvelda námskeiðahald og kennslu sem ekki er hægt að bjóða upp á nú þar sem þessi aðstaða er ekki fyrir hendi.
    Í öðru lagi virðist vanta sárlega reiðleiðir á mörgum stöðum, bæði innan félagssvæða og milli landshluta, en góðar reiðleiðir eru forsenda fyrir því að hægt sé að stunda hestaferðir á hættulausan og umhverfisvænan hátt. Í þriðja lagi má nefna að aukinn stuðningur við ungmennastarf hestamannafélaganna væri mjög æskilegur. Í fjórða lagi bendir nefndin á að aðstaða fyrir hestaferðamenn er af skornum skammti víða um land.
    Uppbygging reiðhúsa er sérstaklega tekin fyrir í skýrslunni. Nefndin taldi að til þess að skýrsla nefndarinnar og vinna hennar kæmi að sem bestu gagni hvað þetta varðar væri best að setja fram ákveðnar tillögur um stuðning við uppbyggingu reiðhúsa á ákveðnum stöðum.
    Á grundvelli vinnu fyrrgreindrar nefndar ákvað ríkisstjórn Íslands í mars 2006 að verja 330 milljónum króna til uppbyggingar reiðhalla, reiðskemma og reiðskála. Hér er um að ræða fjármagn og eignir sem eftir voru við niðurlagningu Lánasjóðs landbúnaðarins og ekki voru hluti af söluandvirði sjóðsins og telur ríkisstjórn Íslands að með þessari ákvörðun sé þessum peningum vel varið í þágu landbúnaðarins og til eflingar búsetu til sveita. Landbúnaðarráðherra var falið að skipa fjögurra manna nefnd til þess að úthluta styrkjum til uppbyggingar reiðhúsa í samræmi við fyrrgreind markmið. Nefndin hefur lokið störfum og gerði hún tillögu um styrk til 28 hestamannafélaga sem aðild eiga að Landssambandi hestamannafélaga víðs vegar um landið til byggingar reiðhalla, reiðskemmna og reiðskála.

Þál. 39/128 um skógrækt 2004–2008 frá 15. mars 2003 – þskj. 1439.



    Alþingi ályktar að á árunum 2004–2008 skuli fjármagn veitt til skógræktar á Íslandi samkvæmt þeirri sundurliðun sem kemur fram í eftirfarandi töflum. Fjárhæðir miðast við verðlag í byrjun árs 2003 og skulu þær taka breytingum í samræmi við þróun verðlags á tímabilinu.
    Fjármagni til landshlutabundinna skógræktarverkefna verði varið í samræmi við lög nr. 32/1991, um Héraðsskóga, lög nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, og lög nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni.
    Skógrækt ríkisins verji fjármagninu til yfirstjórnar, stjórnsýslu, rannsókna og umsjónar þjóðskóganna.
    Áætlunina skal endurskoða að þremur árum liðnum.
    Áætlun þessi tekur ekki til skógræktar á vegum skógræktarfélaga og almennings.

I. Landshlutabundin skógræktarverkefni.
Fjárhæðir í millj. kr. 2004 2005 2006 2007 2008
Héraðsskógar 103 108 108 108 108
Austurlandsskógar 34 44 54 64 74
Suðurlandsskógar 102 121 139 156 174
Vesturlandsskógar 59 65 72 80 87
Skjólskógar 44 49 55 61 67
Norðurlandsskógar 98 110 122 134 146
Samtals 440 497 550 603 656
II. Skógrækt ríkisins.
Fjárhæðir í millj. kr. 2004 2005 2006 2007 2008
Yfirstjórn 36 36 36 36 36
Stjórnsýsla 37 37 37 42 47
Rannsóknir 71 74 77 80 83
Þjóðskógarnir 78 80 82 84 86
Samtals 222 227 232 242 252

    Að mati ráðuneytisins skipti þessi þingsályktun sköpum fyrir skógræktarverkefnin þar sem þau gátu í fyrsta skipti gert áætlanir fram í tímann með tilliti til væntanlegra fjárveitinga. Þrátt fyrir að fjárveitingar hafi ekki að fullu náð því sem sett var fram í þingsályktuninni hafa þær þó tekið mið af henni að verulegu leyti.

Menntamálaráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR MENNTAMÁLARÁÐUNEYTIS Á 131. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 25/130 um stofnun sædýrasafns frá 27. maí 2004 – þskj. 1824.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess, með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins, að byggt verði upp veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni um hafið.
    Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis um kosti og galla slíks safns ásamt kostnaðarútreikningi og tillögu að mögulegri fjármögnun, rekstrarformi, eignarhaldi og staðsetningu fyrir 1. mars 2005.


    Menntamálaráðherra hefur ákveðið að fresta vinnu starfshóps, sem hún skipaði 12. júlí 2005, þar til frumvarp til laga um Náttúrurminjasafn Íslands hefur verið samþykkt á Alþingi. Að lögum um Náttúruminjasafn samþykktum verður hlutverk starfshópsins endurmetið.

Samgönguráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR SAMGÖNGURÁÐUNEYTISINS Á 131. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 10/131 um ferðamál frá 3. maí 2005 – þskj. 1280.



     Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í ferðamálum á tímabilinu 2006–2015 í samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka:
     1.      Náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.
     2.      Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.
     3.      Álagi vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna.
     4.      Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.
    Enn fremur verði unnið að eftirfarandi markmiðum:
     1.      Ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum.
     2.      Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu.
     3.      Fylgt verði eftir uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd.
     4.      Ábyrgð ferðamanna og fyrirtækja í ferðaþjónustu verði aukin í umhverfismálum.
    Til að ná markmiðum í ferðamálum verði m.a. beitt eftirfarandi aðgerðum:

I. Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar.
     1.      Opinber gjöld af aðföngum og búnaði til ferðaþjónustu verði sambærileg við gjöld í samkeppnislöndum.
     2.      Leitast verði við að fé til sameiginlegrar markaðssetningar verði tryggt til lengri tíma.
     3.      Unnið verði markvisst gegn leyfislausri starfsemi og skattsvikum.
     4.      Opinberir aðilar raski ekki samkeppnisstöðu einkarekinnar ferðaþjónustu.
     5.      Opinbert eftirlit með ferðaþjónustufyrirtækjum verði lágmarkað og einfaldað og eftirlit á vegum einstakra aðila sameinað þar sem hægt er.

II. Kynningarmál.
     1.      Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:
             a.      einstaka og fjölbreytta náttúru,
             b.      umhverfisvernd,
             c.      menninguna og þjóðina,
             d.      fagmennsku,
             e.      gæði og öryggi,
             f.      heilsu og hreinleika,
             g.      gestrisni,
             h.      myndræn auðkenni (lógó),
             i.      slagorð.
     2.      Megináhersla í öllum kynningarmálum verði áfram lögð á Ísland, Norður-Ameríku, Bretland, norræn lönd og meginland Evrópu.
     3.      Aðgengi einkaaðila að opinberum framlögum til kynningar- og markaðsmála verði háð eigin framlögum þeirra til vel skilgreindra og vænlegra verkefna.
     4.      Samræmis verði gætt í allri kynningu á landinu í heild, sem og í aðlögun kynningarefnis og skilaboða fyrir einstaka markhópa eða markaðssvæði.
     5.      Aðferðafræðin sem notuð hefur verið við „Iceland Naturally“ í Norður-Ameríku (þ.e. sameiginleg kynning vöru og þjónustu) verði notuð við aðkomu opinberra aðila að kynningu Íslands á öðrum markaðssvæðum.

III. Nýsköpun og þróun.
    Stjórnvöld taki virkan þátt í nýsköpunar- og vöruþróunarstarfi ferðaþjónustunnar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

IV. Menntun.
     1.      Aukið tillit verði tekið til kostnaðar fyrirtækja í tengslum við starfsnám.
     2.      Námsbrautir framhaldsskóla og sérskóla tengist svo sem kostur er þannig að ekki myndist blindgötur eða óþörf skörun námsbrauta og skólastiga.
     3.      Háskólanám í ferðamálum byggist í vaxandi mæli á þeim grunni sem lagður er á framhaldsskólastigi þannig að við inntöku nemenda verði tekið tillit til menntunar og/eða reynslu á sviði ferðamála.
     4.      Tryggt verði aðgengi að háhraðaneti við fjarnám.

V. Rannsóknir.
     1.      Starfrækt verði gagnamiðstöð er vinni að söfnun, úrvinnslu og túlkun gagna til hagnýtingar bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila innan greinarinnar.
     2.      Hlúð verði að hvers kyns grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum í ferðamálafræði.

VI. Grunngerð.
     1.      Umferðarmiðstöðvar verði nýttar til að tengja og samræma allar tegundir almenningssamgangna og bættrar þjónustu við ferðamenn.
     2.      Upplýsingar um löggæslu, heilsugæslu, almenningssamgöngur og almannavarnir verði aðgengilegar á erlendum tungumálum auk íslensku.
     3.      Við gerð almannavarnaáætlana sé tryggt að upplýsingar um hættuástand og viðbrögð nái til fólks á ferð um landið.
     4.      Merkingar í samgöngukerfinu verði bættar og þess gætt að þær séu auðskiljanlegar fyrir erlenda ferðamenn.
     5.      Aðgengi að skilgreindum „seglum“ verði tryggt allt árið, sbr. skýrsluna Auðlindin Ísland.
     6.      Skilgreindar verði lágmarkskröfur til upplýsingamiðstöðva sem lúta opinberu eftirliti.
     7.      Upplýsingamiðstöðvar sem lúta opinberu eftirliti verði auðkenndar sérstaklega.

VII. Fjölþjóðasamstarf.
     1.      Alþjóðlegt samstarf beinist sérstaklega að vestnorræna svæðinu öðrum norrænum löndum, meginlandi Evrópu og OECD-löndum.
     2.      Áfram verði haldið sérstöku samstarfi við önnur norræn lönd.
     3.      Kynning og aðstoð verði veitt við aðgang að fjármagni erlendis til verkefna í ferðaþjónustu.
     4.      Samstarf við erlenda ferðaþjónustuaðila verði aukið og því viðhaldið.
     5.      Þátttaka í fjölþjóðlegu tengslaneti verði aukin og því haldið við.

VIII. Gæða- og öryggismál.
     1.      Rekstrarleyfi verði höfð sýnileg, bæði á íslensku og fleiri tungumálum og útlit þeirra verði samræmt.
     2.      Áfram verði unnið að eflingu flokkunarkerfis gististaða og það kynnt frekar fyrir rekstraraðilum og neytendum.
     3.      Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi ráðstefnuaðstöðu.
     4.      Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi fólksflutningabifreiða.
     5.      Ferðamönnum sem ferðast um Ísland verði gert ljóst að þeir beri fulla ábyrgð á eigin gjörðum og þeim beri að fylgja leiðbeiningum sem þeir fá eða eru settar fram á viðkomustöðum þeirra.
IX. Umhverfismál.
     1.      Ferðamönnum verði gerð betur grein fyrir ábyrgð sinni varðandi verndun umhverfisins.
     2.      Skilgreindum „seglum“ til að dreifa álagi á landið verði fjölgað og þeir gerðir aðgengilegir árið um kring.

    Í sama mánuði og þingsályktun um ferðamál var samþykkt á Alþingi var samþykkt frumvarp um skipan ferðamála. Þau lög tóku gildi 1. janúar sl.
    Samkvæmt 4. gr. laganna (nr. 73/2005) er framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu á meðal verkefna Ferðamálastofu (áður Ferðamálaráð Íslands).
    Samgönguráðuneytið hefur á þessu ári veitt viðbótarfjármuni til Ferðamálastofu vegna framkvæmdar þingsályktunar um ferðamál og eru eftirtalin verkefni nú þegar í vinnslu og sum komin vel á veg:
     1.      Þarfagreining um nauðsynlegar rannsóknir í ferðaþjónustu.
     2.      Stofnun gagnamiðstöðvar um tölfræði og rannsóknir í ferðaþjónustu.
     3.      Bókunarvefur fyrir íslenska ferðaþjónustu.
     4.      Samanburður á rekstrarumhverfi ferðaþjónustu á Norðurlöndum.
     5.      Gæðakönnun meðal erlendra og innlendra ferðamanna.
     6.      Gæðaflokkun ráðstefnuaðstöðu.
     7.      Úttekt á stöðu deiliskipulags á fjölsóttum ferðamannastöðum.
     8.      Skilgreining á móttöku og úrvinnslu kvartana ferðafólks.
     9.      Skilgreining á lágmarkskröfum til upplýsngamiðstöðva og auðkenni þeirra.
     10.      Samstarf við Almannavarnir um nauðsynlega þjónustu við ferðamenn.
    Í samræmi við það sem fram kemur í þingsályktuninni um að „aðferðafræðin sem notuð hefur verið við „Iceland Naturally“ í Norður-Ameríku verði notuð ... á öðrum markaðssvæðum“ gerði samgönguráuneytið í ársbyrjun 2006 samning til þriggja ára um verkefnið „Iceland Naturally í Evrópu“.
    Eins hefur samgönguráðuneytið styrkt fjölmörg verkefni sem samræmast því sem fram kemur í þingsályktuninni um að „skilgreindum „seglum“ til að dreifa álagi á landið verði fjölgað og þeir gerðir aðgengilegir árið um kring“.
    Samgönguráðuneytið vinnur einnig, eðli málsins samkvæmt, að bættum samgöngum, uppbyggingu áningarstaða, úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum, eflingu fjarskipta og markaðsverkefnum sem öll samræmast áherslum í þingsályktun um ferðamál.
    Í nýjum árangursstjórnunarsamningi samgönguráðuneytis og Ferðamálastofu er farið fram á að í Ferðamálastofa leggi árlega fram skýrslu þar sem framkvæmd þingsályktunar um ferðamál eru gerð nákvæm skil.

Þál. 17/131 um samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008 frá 11. maí 2005 – þskj. 1441.


     Alþingi ályktar, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 71/2002, að á árunum 2005-2008 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við eftirfarandi áætlun: [sjá www.althingi.is/ altext/131/s/1441.html].

    Þessi áætlun er endurskoðuð á tveggja ára fresti en núgildandi áætlun, sem hér er endurskoðuð, tekur til áranna 2005–2008. Tekjur og gjöld fjögurra ára áætlunar rúmast innan ramma tólf ára samgönguáætlunar. Í fjögurra ára áætlun er áætlun fyrir hvert ár tímabilsins fyrir hverja stofnun samgöngumála, þ.e. Flugmálastjórn Íslands, Siglingastofnun Íslands og Vegagerðina. Sundurliðun fjögurra ára áætlunar er hagað þannig að ábyrgð og fjárheimildir hverrar stofnunar koma skýrt fram. Kaflar hennar skiptast m.a. í flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun, og nú einnig umferðaröryggisáætlun sem sérstaklega eru gerð skil hér á eftir.
    Gerð er grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi eftir því sem við á. Á hverju ári eru lagðar fram sérstakar skýrslur fyrir Alþingi um framkvæmd vegáætlunar, framkvæmd siglingaáætlunar og framkvæmd flugmálaáætlunar ársins á undan, svo og skýrsla um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar. Ráðgert er að gefa einnig út fjórðu skýrsluna á hverju ári sem tekur til framkvæmdar stefnumörkunar samgönguáætlunar almennt. Vísast til þessara skýrslna sem eru mjög ítarlegar.
     Um umferðaröryggisáætlun samgönguáætlunar.
    Í þessari áætlun er umferðaröryggisáætlun í fyrsta sinn hluti samgönguáætlunar. Samgönguáætlunin tekur að miklu leyti mið af gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014, en þess skal þó getið að sú áætlun var samþykkt af Alþingi áður en umferðarmál voru flutt dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis 1. janúar 2004 og eru umferðaröryggismál því ekki hluti af þeirri áætlun.
    Í fyrsta skipti er umferðaröryggisaðgerðum forgangsraðað með tilliti til arðsemi þeirra. Arðsemi er reiknuð miðað við áætlaða fækkun slysa og óhappa út frá forsendum um kostnað við hvert slys og fjölda atvika sem skráð eru í lögregluskýrslur. Reiknaður heildarkostnaður vegna umferðarslysa og óhappa er um 10 milljarðar kr. á ári. Fjárveiting til umferðaröryggisaðgerða er 1.540 millj. kr. á fjögurra ára tímabili, þ.e. 385 millj. kr. árlega 2005–2008 til framkvæmda vegna umferðaröryggisáætlunar, en þessir fjármunir skiptast þannig: Frá vegáætlun 200 millj. kr. fyrir árið 2005 en síðan 300 millj. kr. fyrir 2006, 2007 og 2008, sérstakt umferðaröryggisgjald er 35 millj. kr. á hverju ári og sérstök fjárveiting til umferðaröryggismála er 150 millj. kr. fyrir árið 2005, en síðan 50 millj. kr. á ársgrundvelli.
    Í umferðaröryggisáætlun samgönguáætlunar var sett fram framkvæmdaáætlun um sérstakar aðgerðir sem eiga að leiða til fækkunar slysa og lækkunar slysakostnaðar. Til grundvallar á vali aðgerða var stuðst við tillögur starfshóps um umferðaröryggisáætlun til ársins 2012, markmið og aðgerðir. Við mat á forsendum um virkni aðgerða var í flestum tilfellum stuðst við erlendar rannsóknir og ber þá sérstaklega að nefna handbók Transportøkonomisk Institut í Noregi um virkni umferðaröryggisaðgerða.
    Samgönguráðherra skipaði sérstakt umferðaröryggisráð sem ætlað var að vinna að framgangi þingsályktunarinnar. Í ráðinu sitja Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, og er hún formaður ráðsins, Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Jafnframt var skipaður samráðshópur um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar með fulltrúum sömu stofnana. Hlutverk samráðshópsins er að gera starfs- og framkvæmdaáætlun um framgang umferðaröryggisáætlunar samkvæmt ályktun Alþingis.
    Helstu verkefni sem unnið er að á grundvelli umferðaröryggisáætlunar á árinu 2006 eru þessi: Hraðakstur og öryggibeltanotkun, eftirlit, áróður og fræðsla og uppsetning hraðaeftirlitsmyndavéla, leiðbeinandi hraðamerkingar á þjóðvegum, eyðing svartbletta, takmörkun á lausagöngu búfjár, eftirlit með akstri ökumanna undir áhrifum áfengis/fíkniefna, umferðaröryggi í öryggisstjórnun fyrirtækja, umferðaröryggi í námskrá grunnskóla/leikskóla, öryggisbeltanotkun í hópbílum, akstur erlendra ökumanna og kynningarmál og rannsóknir.

Þál. 19/131 um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010

frá 11. maí 2005 – þskj. 1463.



     Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í fjarskiptamálum á tímabilinu 2005-2010 í samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka: [sjá www.althingi.is/altext/131/s/1463.html].

    Alþingi samþykkti vorið 2005 þingsályktun um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010. Í fjarskiptaáætlun er skilgreind nánar aðkoma og markmið stjórnvalda í fjarskiptamálum til næstu ára, auk þess sem gerð er grein fyrir ástandi og horfum í fjarskiptamálum í landinu í ljósi alþjóðlegrar þróunar. Með samræmdri stefnumótun er stefnt að því að auka samkeppnishæfni landsins og stuðla að framþróun atvinnulífs og ná fram hagkvæmri nýtingu fjármagns og samræmdri forgangsröðun verkefna. Einnig er lögð áhersla á að aðgengi að fjarskiptum er mikilvægt fyrir alla landsmenn og fjallað um með hvað hætti aðstaða landsmanna hvað varðar aðgengi að fjarskiptum verði jöfnuð.
    Fjarskiptaáætlun skiptist í 15 meginmarkmið en að auki eru 32 markmið sem unnið er að og skiptast niður á fimm kafla áætlunarinnar:
     I.      Forskot.
     II.      Háhraðavæðing.
     III.      Farsamband.
     IV.      Stafrænt sjónvarp og hljóðvarp.
     V.      Öryggi og persónuvernd.
     VI.      Samkeppnishæfni.
    Verkefnisstjórn fjarskiptaáætlunar hefur yfirumsjón með framkvæmd fjarskiptaáætlunar fyrir hönd samgönguráðuneytisins. Verkefnisstjórnina skipa fimm manns, auk þess sem tilnefndir hafa verið tengiliðir annarra ráðuneyta við hana vegna framkvæmda einstakra verkefna sem undir þau heyra og kveðið er á um í fjarskiptaáætlun. Þá eru mörg verkefni áætlunarinnar á ábyrgð Póst- og fjarskiptastofnunar. Verkefnisstjórn fjarskiptaáætlunar virkar sem samráðs- og samstarfsvettvangur fyrir þá opinberu aðila sem vinna að fjarskiptamálum.
    Auk þess að vera verkefnisstjórn um framkvæmd fjarskiptaáætlunar er hún jafnframt stjórn fjarskiptasjóðs en sá sjóður var stofnaður með lögum nr. 132/2005.
    Fjarskiptasjóður hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Ríkissjóður hefur lagt sjóðnum til stofnfé að fjárhæð 2.500 millj. kr. sem er hluti af söluandvirði Landssíma Íslands hf. Þeir fjármunir sem samþykkt hefur verið að leggja í fjarskiptasjóð eiga að standa straum af þremur markmiðum fjarskiptaáætlunar:
     1.      Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum árið 2007.
     2.      Að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum, á helstu ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum.
     3.      Að dreifing sjónvarpsdagskrár Ríkisútvarpsins, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjábýlli svæða verði stafræn um gervihnött.
    Framkvæmdir vegna framangreindra verkefna eru boðnar út og er það hlutverk stjórnar að ákveða tilhögun og stærð útboða. Nú þegar hefur fyrsti áfangi GSM-verkefnis verið boðinn út en í því útboði er um að ræða áframhaldandi uppbyggingu á GSM-farsímakerfinu á hringveginum og fimm fjallvegum. Eru þessir vegarkaflar samanlagt um 500 km. Þá hefur fjarskiptasjóður í samvinnu við RÚV óskað eftir tilboðum frá rekstaraðilum gervihnatta um að dreifa sjónvarpsdagskrá RÚV auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2. Þá er mikil vinna hafin vegna háhraðaverkefnis, m.a. greining á núverandi útbreiðslu háhraðatenginga auk fyrirhugaðrar uppbyggingar markaðsaðila.
    Í dag er unnið að öllum verkefnum fjarskiptaáætlunar og er nokkrum lokið sem lúta að stafrænu sjónvarpi og hljóðvarpi. Þá má nefna vegna verkefna er varða öryggi og persónuvernd að skipaður var starfshópur sem gera á tillögu um hvernig tryggja megi varasamband fjarskipta við umheiminn í framtíðinni og þá hefur verið unnið áhættumat á tengingu Íslands við útlönd. Þá var farið í kynningarherferð um landið til að kynna fjarskiptaáætlun.
    Í lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins skili skýrslu um starfsemi sjóðsins til samgönguráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi til upplýsingar. Þar verða einstökum verkefnum sem sjóðurinn fjármagnar gerð nánari skil.

ÞINGSÁLYKTANIR SAMGÖNGURÁÐUNEYTISINS Á 130. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 24/140 um umferðaröryggi á þjóðvegum
frá 27. maí 2004 – þskj. 1823.


     Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að meta og gera tillögur um hvernig bæta megi umferðaröryggi á þjóðvegum.
    Verkefni nefndarinnar verði að meta og gera tillögur um hvernig bæta megi umferðaröryggi þegar ökutæki mætast við einbreiðar brýr, t.d. með breytingum á umferðarlögum, merkingum um forgang umferðar eða á annan hátt. Nefndin meti hvort bæta megi gerð umferðarmerkja, t.d. svo þau sjáist frá hlið. Þá geri nefndin tillögur um hvernig merkja megi ökumönnum til varnaðar hættulega staði á þjóðvegum, svokallaða svarta bletti. Nefndin geri tillögur um hvernig bæta megi fræðslu fyrir erlenda ferðamenn um akstur á íslenskum vegum og hvernig megi auka öryggi þeirra með bættum vegmerkingum á erlendum tungumálum. Þá meti nefndin og leggi fram tillögur til úrbóta á umferðarlöggæslu og hverjum þeim þætti umferðaröryggismála sem hún telur þörf á. Þar sem það á við taki nefndin mið af umferðaröryggisáætlun 2002–2012 og því hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar þar sem svipaðar aðstæður eru.
    Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. mars 2005.

    Við framkvæmd framangreindrar þingsályktunar var litið til þess að umferðarmál höfðu nýverið (1. janúar 2004) flust frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis og því var tekin ákvörðun um að fella framkvæmd þingályktunarinnar að hluta til inn í samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008 í formi umferðaröryggisáætlunar fyrir sama tímabil.
    Á grundvelli þingsályktunarinnar og breyttrar skipanar umferðarmála skipaði samgönguráðherra sérstakt umferðaröryggisráð sem sem í áttu sæti Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, og er hún formaður ráðsins, Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Jafnframt skipaði ráðherra samráðshóp um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar með fulltrúum sömu stofnana. Hlutverk samráðshópsins er að gera starfs- og framkvæmdaáætlun um framgang umferðaröryggismála samkvæmt ályktun Alþingis. Í árlegri skýrslu samgönguráðherra til Alþingis er gerð grein fyrir framgangi þeirra verkefna sem unnið er að hverju sinni, en að undanförnu hafa þessi mál verið sett í forgang: Hraðakstur og öryggisbeltanotkun, eftirlit, áróður og fræðsla og uppsetning hraðaeftirlitsmyndavéla, leiðbeinandi hraðamerkingar á þjóðvegum, eyðing svartbletta, takmörkun á lausagöngu búfjár, eftirlit með akstri ökumanna undir áhrifum áfengis/fíkniefna, umferðarröryggi í öryggisstjórnun fyrirtækja, umferðaröryggi í námskrá grunnskóla/leikskóla, öryggisbeltanotkun í hópbílum, akstur erlendra ökumanna og kynningarmál og rannsóknir.

ÞINGSÁLYKTANIR SAMGÖNGURÁÐUNEYTISINS Á 128. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 19/128 um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014
frá 13. mars 2003 – þskj. 1326.


     Alþingi ályktar, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 71/2002, að á árunum 2003–2014 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við áætlun þessa sem felur í sér:
     a.      stefnumótun í samgöngumálum og helstu markmið sem vinna skal að,
     b.      skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem nær til alls landsins og er ætlað að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur,
     c.      áætlun um fjáröflun til samgöngumála og
     d.      yfirlit um útgjöld til allra helstu þátta í rekstri samgöngustofnana, svo og viðhalds og nýframkvæmda á sviði flugmála, siglingamála og vegamála.
    [Sjá nánar www.althingi.is/altext/128/s/1326.html.]

    Þessi áætlun er fyrsta tólf ára samgönguáætlunin og tekur til áranna 2003–2014. Áætlunin tekur til fjáröflunar og útgjalda til flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. hafnamála og sjóvarna, og rekstrar stofnana. Í samgönguáætlun er skilgreint það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gerð er grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Jafnframt er mörkuð stefna fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Þá er í samgönguáætlun tekið tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur. Á hverju ári eru lagðar fram sérstakar skýrslur fyrir Alþingi um framkvæmd vegáætlunar, framkvæmd siglingaáætlunar og framkvæmd flugmálaáætlunar ársins á undan. Ráðgert er að gefa einnig út fjórðu skýrsluna á hverju ári sem tekur til framkvæmdar stefnumörkunar samgönguáætlunar almennt.

Þál. 20/128 um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006
frá 13. mars 2003 – þskj. 1327.


     Alþingi ályktar, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 71/2002, að á árunum 2003-2006 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við eftirfarandi áætlun: [sjá www.althingi.is/ altext/128/s/1327.html].

    Þessi áætlun er fyrsta fjögurra ára samgönguáætlunin og tekur til áranna 2005–2008. Fjögurra ára áætlun er endurskoðuð á tveggja ára fresti. Tekjur og gjöld fjögurra ára áætlunar rúmast innan ramma tólf ára samgönguáætlunar. Í fjögurra ára áætlun er áætlun fyrir hvert ár tímabilsins fyrir hverja stofnun samgöngumála, þ.e. Flugmálastjórn Íslands, Siglingastofnun Íslands og Vegagerðina. Sundurliðun fjögurra ára áætlunar er hagað þannig að ábyrgð og fjárheimildir hverrar stofnunar koma skýrt fram. Kaflar hennar skiptast m.a. í flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun. Gerð er grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi eftir því sem við á. Á hverju ári eru lagðar fram sérstakar skýrslur fyrir Alþingi um framkvæmd vegáætlunar, framkvæmd siglingaáætlunar og framkvæmd flugmálaáætlunar ársins á undan. Ráðgert er að gefa einnig út fjórðu skýrsluna á hverju ári sem tekur til framkvæmdar stefnumörkunar samgönguáætlunar almennt.


Sjávarútvegsráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR SJÁVARÚTVEGSRÁÐUNEYTIS Á 130. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 18/130 um samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu fiskstofna
frá 27. apríl 2004 – þskj. 1507.


     Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2003, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efla enn frekar samstarf landanna um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum og stuðla að samningum sem tryggi áfram sjálfbæra nýtingu þeirra.

    Samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu sameiginlegra fiskstofna er mikið. Þjóðirnar starfa saman að þessu markmiði bæði í tvíhliða samstarfi og í víðara svæðisbundnu samstarfi, svo sem innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Sjávarútvegsráðherrar landanna hittast einnig reglulega og eiga náið samráð í ýmsum málum sem varða sjávarútveg auk þess sem samstarf embættismanna í ráðuneytunum er mikið. Bæði á vettvangi þess samstarfs sem sjávarútvegsráðherrar Norður-Atlantshafsins eiga og eins innan vébanda norræns samstarfs en þar hefur samstarf vestnorrænu sjávarútvsráðherranna verið gert skipulegra og markvissara allra síðustu árin með sameiginlegum fundum, gjarna í tengslum við atburði, ráðstefnur o.fl., sem þeir koma allir á.
    Síðan þingsályktun um aukið samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu sameiginlegra fiskstofna var samþykkt á Alþingi 27. apríl 2004 hefur umrætt samstarf aukist enn frá því sem áður var. Þannig tóku Vestur-Norðurlandaþjóðirnar þátt í að ná samkomulagi um stjórn kolmunnaveiða sem árin fyrir 2006 einkenndust af stjórnlausri ofveiði. Um var að ræða annars vegar strandríkjasamkomulag um stjórn kolmunnaveiða og hins vegar samþykkt NEAFC um stjórn kolmunnaveiða sem nær til úthafsins. Einnig má nefna að íslensk stjórnvöld hafa undanfarin missiri staðið í viðræðum við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um bætta stjórn á karfaveiðum á Reykjaneshrygg.
    Ljóst er því að umrætt samstarf Vestur-Norðurlandaþjóðanna er mikið og vaxandi.

Umhverfisráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR UMHVERFISRÁÐUNEYTIS Á 130. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 28/130 um náttúruverndaráætlun 2004–2008
frá 28. maí 2004 – þskj. 1842.


     Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu fjórtán svæða á landinu til að stuðla að traustari vernd íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Jafnframt verði á tímabilinu unnið áfram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Náttúruverndaráætlunin taki til eftirfarandi svæða: [sjá www.althingi.is/altext/ 130/s/1842.html].

    Náttúruverndaráætlun var í fyrsta sinn lögð fyrir Alþingi á 130. þingi, árið 2003, og samþykkt 28. maí 2004. Náttúruverndaráætlun 2004–2008 felur í sér friðlýsingu 14 nýrra svæða á landinu auk stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Umhverfisstofnun hefur unnið að framkvæmd áætlunarinnar í samvinnu við umhverfisráðuneytið frá því um mitt ár 2004. Kynningarfundir hafa verið haldnir með sveitarstjórnum, landeigendum og íbúum á viðkomandi svæðum til þess að kynna áætlunina og hugmyndir um friðlýsingu þessara svæða. Samtímis hefur verið unnið að öflun ítarlegri upplýsinga um viðkomandi svæði, til að mynda um eignarhald, landeigendur og náttúrufar. Í kjölfar kynningarfundanna hefur síðan verið unnið að undirbúningi friðlýsingarskilmála í samvinnu við hagsmunaaðila, m.a. hefur vinnan miðað að því að skilgreina, frekar en gert er í náttúruverndaráætluninni, mörk viðkomandi svæða og forsendur og markmið friðlýsingar.
    Þegar hefur eitt svæði á náttúruverndaráætlun verið friðlýst, en það er friðlandið Guðlaugstungur sem nær yfir Guðlaugstungur, Svörtutungur og Álfgeirstungur í Vestur-Húnavatnssýslu. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda víðfeðmt og gróskumikið votlendi og eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins. Svæðið er mikilvægt varp- og beitiland heiðagæsar og hefur alþjóðlegt náttúruverndargildi vegna fjölda gæsa sem það nýtir. Friðlandið Guðlaugstungur var friðlýst í lok árs 2005 og er það 192 ferkílómetrar að stærð.
    Undirbúningur að friðlýsingu nokkurra svæða er að komast á lokastig þ.e. friðlýsingarskilmálar, og mörk svæðanna hafa verið til umræðu milli Umhverfisstofnunar, landeigenda og sveitarstjórna og drög að friðlýsingu fimm svæða liggja fyrir en það eru Vestmannaeyjar, Vatnshornsskógur í Skorradal, Austara-Eylendið, Látrabjarg og Rauðasandur og Njarðvík og Loðmundarfjörður. Auk þess liggja fyrir tillögur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og mun umhverfisráðherra mæla fyrir frumvarpi um stofnun þjóðgarðsins í lok nóvember. Tillögur um Vatnajökulsþjóðgarð gera ráð fyrir friðlýsingu alls Vatnajökuls ásamt umfangsmiklum svæðum umhverfis jökulinn alls um 13.400 km2 lands. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda einstæðar jarðfræðilegar náttúruminjar ásamt landslagi sem einkennist af samspili eldvirkni og jökuls. Þjóðgarðurinn verður stærsti þjóðgarður Evrópu.
    Í tengslum við undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið rætt við landeigendur þriggja svæða á náttúruverndaráætlun, en það eru Öxarfjörður, stækkun þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og stækkun Skaftafellsþjóðgarðs. Gert er ráð fyrir hluta þessara svæða í tillögum um Vatnajökulsþjóðgarð en samkomulag hefur ekki náðst um friðlýsingu annarra hluta þessara svæða enn þá.
    Undirbúningur að friðlýsingu nokkurra svæða er vel á veg kominn og viðræður við hagsmunaaðila hafa verið í gangi um nokkurt skeið án þess að fyrir liggi drög að friðlýsingarskilmálum eða mörkum svæðisins. Þetta eru Álftanes, Akrar og Löngufjörur, Álftanes og Skerjafjörður, Látraströnd og Náttfaravíkur og Reykjanes, Eldvörp og Hafnarberg á Reykjanesskaganum. Viðræður um friðlýsingu Geysis í Haukadal hafa einnig verið í gangi um nokkurt skeið.
    Vonir standa til þess að mögulegt verði að ljúka friðlýsingu nokkurra svæða í viðbót árið 2007 og vonir standa til þess að samkomulag náist um friðlýsingu flestra svæðanna á náttúruverndaráætlun 2004–2008 svo takast megi að ljúka friðlýsingu þeirra árið 2008.

ÞINGSÁLYKTANIR UMHVERFISRÁÐUNEYTIS Á 128. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 14/128 um neysluvatn frá 10. mars 2003 – þskj. 1168.


     Alþingi samþykkir að beina því til ríkisstjórnarinnar að
     a.      neysluvatn verði skilgreint sem auðlind í lögum,
     b.      málefni þess verði vistuð á einum stað í stjórnsýslunni og
     c.      stuðlað verði að útflutningi á fersku neysluvatni í samstarfi við vatnsútflutningsfyrirtæki og sveitarfélög.
    Gert er ráð fyrir að eftirlit með gæðum vatns verði áfram á vegum Hollustuverndar ríkisins (Umhverfisstofnunar frá 1. janúar 2003) og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.

    Umhverfisráðherra skipaði starfshóp 8. september 2003 til að fjalla um framkvæmd framangreindrar þingsályktunar um neysluvatn. Starfshópurinn skilaði áliti sínu til umhverfisráðherra 3. mars 2004 þar sem m.a. var lagt til að málið yrði kynnt í ríkisstjórn og að settur yrði saman hópur á vegum ráðuneyta til að vinna að frekari vinnslu á tillögum þeim sem settar voru fram af hendi starfshópsins.
    Þann 25. apríl 2005 skipaði umhverfisráðuneytið samráðsnefnd sem ætlað var að fara yfir tillögur framangreinds neysluvatnsstarfshóps og gera tillögur um endanlega afgreiðslu á þeim tillögum, sbr. samþykkt ríkisstjórnar þar um, dags. 1. október 2004. Í nefndinni sátu fulltrúar tilnefndir af iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins ásamt formanni sem skipaður var án tilnefningar. Nefndin lauk störfum 23. október 2006. Í stuttu máli komst samráðsnefndin að þeirri niðurstöðu að ekki sé þörf á þeim breytingum varðandi lög og stjórnsýslu, sem lagðar voru til af hálfu neysluvatnsstarfshópsins, með e.t.v. þeirri undantekningu að kanna megi hvort hægt sé að einfalda málefni vatnsveitna með vistun málaflokksins í einu ráðuneyti. Hafa ber í huga að umtalsverð þróun hefur orðið í þessum málaflokki síðan þingsályktunartillagan kom fram í mars 2003, og er hér einkum átt við ný vatnalög á vettvangi iðnaðarráðuneytisins og rammalöggjöf Evrópusambandsins um vatnsvernd. Samráðsnefndin sá heldur ekki rök fyrir aukinni þátttöku stjórnvalda í kynningu á íslensku vatni sem útflutningsvöru eða sem opinbert framlag Íslands þar sem neyðarástand ríkir vegna náttúruhamfara eða átaka.

Utanríkisráðuneyti.



ÞINGSÁLYKTANIR UTANRÍKISRÁÐUNEYTIS Á 131. LÖGGJAFARÞINGI



Þingsályktun 2/131 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 38/2004 og 103/2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 10. mars 2005 – þskj. 954.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 38/2004 frá 23. apríl 2004 og 103/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik),
     2.      reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2273/2003 frá 22. desember 2003 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar undanþágur fyrir endurkaupaáætlanir og verðjöfnun fjármálagerninga,
     3.      tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB frá 22. desember 2003 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar skilgreiningu og birtingu á innherjaupplýsingum og skilgreiningu á markaðsmisnotkun,
     4.      tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/125/EB frá 22. desember 2003 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar óhlutdræga kynningu ráðlegginga um fjárfestingu og birtingu upplýsinga um hagsmunaárekstra.

    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 6. apríl 2005 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2005.

Þingsályktun 3/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 56/2004, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur)
við EES-samninginn, 10. mars 2005 – þskj. 955.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2004 frá 23. apríl 2004, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB frá 15. júlí 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 68/151/EBE að því er varðar birtingarskyldu félaga af tiltekinni gerð.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 6. apríl 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2005.


Þál. 4/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 73/2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 10. mars 2005 – þskj. 956.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2004 frá 4. júní 2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 21. apríl 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2005.

Þál. 5/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 110/2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi)
við EES-samninginn, 20. apríl 2005 – þskj. 1177.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 3. maí 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2005.

Þál. 6/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 99/2004, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn, 20. apríl 2005 – þskj. 1178.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 99/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/98/EB frá 27. janúar 2003 um setningu gæða- og öryggisstaðla fyrir söfnun, prófun, vinnslu, geymslu og dreifingu blóðs og blóðhluta úr mönnum og um breytingu á tilskipun 2001/83/EB.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 3. maí 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2005.

Þál. 7/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 106/2004, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar)
við EES-samninginn, 20. apríl 2005 – þskj. 1179.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 2. maí 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. september 2005.

Þál. 8/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 179/2004 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi)
við EES-samninginn, 26. apríl 2005 – þskj. 1210.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 179/2004 frá 9. desember 2004, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1592/2002 frá 15. júlí 2002 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 29. apríl 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2005.

Þál. 9/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 45/2004, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir
á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna)
við EES-samninginn, 3. maí 2005 – þskj. 1279.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004 frá 23. apríl 2004, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 14. júní 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2005.

Þál. 11/131 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 79/2004 og samnings EFTA-ríkjanna um breytingu á bókun 4
við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar
og dómstóls, 10. maí 2005 – þskj. 1413.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og samning EFTA-ríkjanna er varða framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 frá 4. júní 2004, um breytingu á XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 24 (um samvinnu varðandi eftirlit með samfylkingum) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.
     2.      Samning EFTA-ríkjanna frá 4. júní 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 18. maí 2005 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2005.
    Samningur EFTA-ríkjanna frá 4. júní 2004 var staðfestur af Íslands hálfu 20. maí 2005 og öðlaðist gildi 1. júlí 2005.


Þál. 12/131 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar og
samninga EFTA-ríkjanna um framkvæmd samkeppnisreglna
EES-samningsins, 10. maí 2005 – þskj. 1414.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtaldar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og samninga EFTA-ríkjanna er varða framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004, um breytingu á XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.
     2.      Samning EFTA-ríkjanna frá 24. september 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
     3.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 178/2004 frá 3. desember 2004, um breytingu á bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.
     4.      Samning EFTA-ríkjanna frá 3. desember 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 18. maí 2005. Ákvörðun nr. 130/2004 öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 19. maí 2005 og ákvörðun nr. 178/2004 öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2005.
    Samningur EFTA-ríkjanna frá 24. september 2004 var staðfestur af Íslands hálfu 20. maí 2005 og öðlaðist gildi þann dag.
    Samningur EFTA-ríkjanna frá 3. desember 2004 var staðfestur af Íslands hálfu 20. maí 2005 og öðlaðist gildi 1. júlí 2005.

Þál. 13/131 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um
fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2005,
10. maí 2005 – þskj. 1415.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2005 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 17. janúar og 15. febrúar 2005.

    Samningurinn, sem einungis var til eins árs, öðlaðist gildi til bráðabirgða 15. febrúar 2005. Honum var ekki veitt formlegt gildi.

Þál. 14/131 um fullgildingu viðbótarsamnings nr. 14 við sáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis, um breytingu á eftirlitskerfi sáttmálans,
10. maí 2005 – þskj. 1416.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd viðbótarsamning nr. 14 við sáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis, um breytingu á eftirlitskerfi sáttmálans, sem gerður var í Strassborg 13. maí 2004.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 16. maí 2005 en hefur ekki enn öðlast gildi.

Þál. 15/131 um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka
Evrópu og Líbanons, 10. maí 2005 – þskj. 1417.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Líbanons sem undirritaður var í Montreux í Sviss 24. júní 2004.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 22. nóvember 2005 en hefur ekki enn öðlast gildi.

Þál. 16/131 um kynningu á íslenskri list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands,
10. maí 2005 – þskj. 1418.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu til þess að kynna íslenska list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands.

    Utanríkisráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu var falið með bréfi forsætisráðuneytisins dags. 23. maí 2005 að fara með framkvæmd þingsályktunarinnar.
    Í júní 2006 kom út skýrsla á vegum utanríkisráðuneytis og menntamálaráðuneytis um samstarf ráðuneytanna í menningarmálum. Þar er meðal annars farið yfir störf ráðuneytanna á sviði menningarsamskipta við útlönd og markmið í alþjóðlegum menningarsamskiptum, þ.m.t. kynningu á íslenskri list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands. Jafnframt er í skýrslunni lagt til að utanríkisráðuneyti og menntamálaráðuneyti geri með sér samning um samstarf á sviði menningarmála. Lagt er til að helstu efnisatriði samningsins verði eftirfarandi:
     a.      Samstarfsnefnd um menningarmál verði komið á fót sem skal sjá um öll meiri háttar verkefni á sviði menningarsamskipta við útlönd og samskipti ráðuneytanna og gera tillögur til ráðherra á þessu sviði.
     b.      Samstarfssjóði ráðuneytanna verði komið á fót sem skal hafa það hlutverk að styrkja verkefni að frumkvæði sendiskrifstofa, ráðuneyta og annarra aðila. Jafnframt skal stefnt að því að einkaaðilar komi að sjóðnum. Samstarfsnefndin fari með stjórn sjóðsins.
     c.      Formlegur samráðsvettvangur verði stofnaður fyrir stjórnvöld og samtök hagsmunaaðila í menningarlífinu til þess að vera ráðgefandi um stefnu ríkisins á þessu sviði.

ÞINGSÁLYKTANIR UTANRÍKISRÁÐUNEYTIS Á 130. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 1/130 um staðfestingu sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu,
Slóvakíu og Slóveníu, 2. desember 2003 – þskj. 526.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild lýðveldisins Búlgaríu, lýðveldisins Eistlands, lýðveldisins Lettlands, lýðveldisins Litháens, Rúmeníu, lýðveldisins Slóvakíu og lýðveldisins Slóveníu sem gerðir voru í Brussel 26. mars 2003.

    Samningarnir voru staðfestir af Íslands hálfu 15. desember 2003 og öðluðust gildi 27. febrúar 2004, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7-13/2004.


Þál. 2/130 um fullgildingu samnings á sviði refsiréttar um spillingu,
2. desember 2003 – þskj. 527.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning á sviði refsiréttar um spillingu sem gerður var í Strassborg 27. janúar 1999.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 11. febrúar 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2004, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 4/2004.

Þál. 3/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun)
og bókun 37 við EES-samninginn, 11. desember 2003 – þskj. 654.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2003 frá 14. mars 2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og bókun 37 við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB frá 16. febrúar 1998 um markaðssetningu sæfiefna og reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1896/2000 frá 7. september 2000 um fyrsta áfanga áætlunarinnar sem um getur í 2. mgr. 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB um sæfiefni og 1687/2002 frá 25. september 2002 um viðbótarfrest til að tilkynna tiltekin, virk efni sem eru þegar á markaði til notkunar sem sæfiefni eins og fastsett er í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1896/2000.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 5. janúar 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. mars 2004.

Þál. 4/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun)
við EES-samninginn, 11. desember 2003 – þskj. 655.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2003 frá 31. janúar 2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/95/EB frá 3. desember 2001 um öryggi vöru.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 5. janúar 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. mars 2004.

Þál. 6/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003,
um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn,
23. febrúar 2004 – þskj. 940.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003 frá 14. mars 2003, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 30. mars 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2004.

Þál. 7/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 23. febrúar 2004 – þskj. 941.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003 frá 16. maí 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 30. mars 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2004.

Þál. 8/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 115/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 16. mars 2004 – þskj. 1133.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 30. mars 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2004.

Þál. 9/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 154/2003, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar)
við EES-samninginn, 16. mars 2004 – þskj. 1134.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2003 frá 7. nóvember 2003, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 30. mars 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2004.

Þál. 11/130 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum,
29. mars 2004 – þskj. 1253.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003:
     1.      Samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 22. maí og 4. júní 2003.
     2.      Samkomulag milli Íslands og Noregs um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gert var í Ósló 26. júní 2003.

    Samningurinn milli Íslands og Færeyja öðlaðist gildi til bráðabirgða 4. júní 2003, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 44/2003. Hann var staðfestur af Íslands hálfu 11. maí 2004 en var ekki veitt formlegt gildi.
    Samkomulaginu milli Íslands og Noregs var beitt til bráðabirgða frá 26. júní 2003, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 45/2003. Það var staðfest af Íslands hálfu 11. maí 2004 en var ekki veitt formlegt gildi.

Þál. 12/130 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2003, 29. mars 2004 – þskj. 1254.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2003 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 31. mars og 15. apríl 2003.

    Samningurinn öðlaðist gildi til bráðabirgða 15. apríl 2003, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 43/2003. Hann var staðfestur af Íslands hálfu 11. maí 2004 en var ekki veitt formlegt gildi.

Þál. 13/130 um staðfestingu samninga milli Íslands, Grænlands/Danmerkur
og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands
og Jan Mayen o.fl., 29. mars 2004 – þskj. 1255.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen o.fl.
     1.      Samning milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen sem gerður var í Reykjavík 8. júlí 2003.
     2.      Samning milli Íslands og Grænlands/Danmerkur um gagnkvæmar veiðar í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands sem gerður var í Reykjavík 8. júlí 2003.
     3.      Tvíhliða samkomulag milli Íslands og Noregs sem gert var í Reykjavík 9. júlí 2003.


    Samningunum og samkomulaginu var beitt til bráðabirgða frá 8. júlí 2003, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 48/2003. Þau voru staðfest af Íslands hálfu 25. maí 2004 en hefur ekki verið veitt formlegt gildi.

     Þál. 15/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 98/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 31. mars 2004 – þskj. 1295.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003 frá 11. ágúst 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 29. apríl 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2004.

Þál. 16/130 um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka
Evrópu og Chiles, 31. mars 2004 – þskj. 1296.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Chiles sem undirritaður var í Kristiansand í Noregi 26. júní 2003.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 7. maí 2004 og öðlaðist gildi 1. desember 2004, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 67/2004.

Þál. 17/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 176/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og
XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn,
27. apríl 2004 – þskj. 1506.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2003 frá 5. desember 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE, 86/635/EBE og 91/674/EBE um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 7. júní 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2004.

Þál. 19/130 um staðfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar,
19. maí 2004 – þskj. 1727.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um almannatryggingar sem gerður var í Karlskrona 18. ágúst 2003.

    Samningurinn var staðfestur af Íslands hálfu 30. júní 2004 og öðlaðist hann gildi 1. september 2004, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 51/2004.

Þál. 20/130 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar
innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2004, 19. maí 2004 – þskj. 1728.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2004 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 25. og 30. mars 2004.

    Samningurinn, sem var aðeins til eins árs, öðlaðist gildi til bráðabirgða 30. mars 2004, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 41/2004. Honum var ekki veitt formlegt gildi.

Þál. 21/130 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 15/2004, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur)

við EES-samninginn, 19. maí 2004 – þskj. 1729.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2004 frá 6. febrúar 2004, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003 um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE).

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 7. júní 2004 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. janúar 2005.

Þál. 22/130 um aðild að Gvadalajara-samningi og Montreal-bókun nr. 4
og um fullgildingu Montreal-samnings, 19. maí 2004 – þskj. 1731.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að Ísland gerist aðili að samningi um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem annar aðili en hinn samningsbundni flytjandi annast, sem er viðbót við Varsjársamninginn, sem gerður var í Gvadalajara 18. september 1961, og Montreal-bókun nr. 4 um breytingar á samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, er undirritaður var í Varsjá 12. október 1929, eins og honum var breytt með bókuninni sem gerð var í Haag 28. september 1955, undirrituð í Montreal 25. september 1975, og að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem gerður var í Montreal 28. maí 1999.

    Ísland gerðist aðili að Gvadalajara-samningnum 12. júlí 2004 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 10. október 2004, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 48/2004.
    Ísland gerðist aðili að Montreal-bókun nr. 4 28. júní 2004 og öðlaðist hún gildi að því er Ísland varðar 26. september 2004, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 47/2004.
    Montreal-samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 17. júní 2004 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 16. ágúst 2004, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 46/2004.

Þál. 23/130 um aðild að samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa, gerð um
endurskoðun samningsins og samningi um beitingu 65. gr. samningsins,
19. maí 2004 – þskj. 1730.


    Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa (evrópska einkaleyfasamningnum) sem gerður var í München 5. október 1973, gerð um endurskoðun samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa (evrópska einkaleyfasamningsins) sem gerð var í München 29. nóvember 2000 og samningi um beitingu 65. gr. samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa sem gerður var í Lundúnum 17. október 2000.

    Ísland gerðist aðili að samningnum um veitingu evrópskra einkaleyfa, gerðinni um endurskoðun hans og samningi um beitingu 65. gr. samningsins 31. ágúst 2004. Samningurinn um veitingu evrópskra einkaleyfa öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. nóvember 2004. Gerðin um endurskoðun samningsins og samningur um beitingu 65. gr. samningsins hafa ekki enn öðlast gildi, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2004.

ÞINGSÁLYKTANIR UTANRÍKISRÁÐUNEYTIS Á 128. LÖGGJAFARÞINGI



Þál. 1/128 um aðild að alþjóðasamningi um verndun túnfiska í Atlantshafi,
29. október 2002 – þskj. 308.


     Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningi um verndun túnfiska í Atlantshafi sem gerður var í Ríó de Janeiró 14. maí 1966.

    Ísland gerðist aðili að samningnum 30. október 2002 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar sama dag, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 41/2002.

Þál. 3/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002,
um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn,
12. desember 2002 – þskj. 725.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar, (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð, og (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.

Þál. 4/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002,
um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning
á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn,
12. desember 2002 – þskj. 726.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. mars 2003.

Þál. 5/128 um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu
og Singapúr, 12. desember 2002 – þskj. 727.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Singapúr sem undirritaður var á Egilsstöðum 26. júní 2002.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 30. desember 2002 og öðlaðist hann gildi 1. janúar 2003, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 46/2002.

Þál. 6/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn, 13. desember 2002 – þskj. 751.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/19/EB frá 14. maí 2001 um breytingu á tilskipunum ráðsins 89/48/EBE og 92/51/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum og tilskipunum ráðsins 77/452/EBE, 77/453/EBE, 78/686/EBE, 78/687/EBE, 78/1026/EBE, 78/1027/EBE, 80/154/EBE, 80/155/EBE, 85/384/EBE, 85/432/ EBE, 85/433/EBE og 93/16/EBE varðandi starfsgreinar hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, tannlækna, dýralækna, ljósmæðra, arkitekta, lyfjafræðinga og lækna.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.

Þál. 7/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur)
við EES-samninginn, 13. desember 2002 – þskj. 752.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB frá 27. september 2001, um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga af tiltekinni gerð sem og banka og annarra fjármálastofnana.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.

Þál. 8/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn,
13. desember 2002 – þskj. 753.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2002 frá 31. maí 2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.

Þál. 9/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum,
vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn,
13. desember 2002 – þskj. 754.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2001/86/EB frá 8. október 2001, um viðbætur við stofnsamþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.

Þál. 10/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 93/2002, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur)
við EES-samninginn, 13. desember 2002 – þskj. 755.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE).

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.

Þál. 11/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 103/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 13. desember 2002 – þskj. 756.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 103/2002 frá 12. júlí 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), með það í huga að setja reglur um rekstrarfélög og einfaldaðar útboðslýsingar, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), að því er varðar fjárfestingar slíkra fyrirtækja.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2003.

Þál. 12/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 90/2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál)
við EES-samninginn, 13. desember 2002 – þskj. 757.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 23. desember 2002 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2003.

Þál. 22/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 168/2002, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1346.


    
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB frá 10. júní 2002, um breytingu á tilskipun 97/67/EB með tilliti til þess að opna póstþjónustu bandalagsins enn frekar fyrir samkeppni.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 24. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2003.

Þál. 23/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 172/2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir
á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1347.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB frá 11. mars 2002, um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins; sameiginlega yfirlýsingu Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar um fyrirsvar starfsmanna.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 24. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2003.

Þál. 24/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 142/2002, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1348.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2002 frá 8. nóvember 2002, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 889/2002 frá 13. maí 2002, um breytingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 2027/97, um bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 24. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2003.

Þál. 25/128 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 164/2002 og 165/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1349.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2002 og 165/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/12/EB frá 5. mars 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 79/267/EBE að því er varðar kröfu um gjaldþol líftryggingafyrirtækja, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/13/EB frá 5. mars 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 73/239/EBE að því er varðar kröfu um gjaldþol skaðatryggingafyrirtækja.

    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 24. apríl 2003 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2003.

Þál. 26/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 166/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1350.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 166/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB frá 19. mars 2001, um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 24. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2003.

Þál. 27/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 167/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1351.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 24. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2003.

Þál. 28/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 171/2002, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1352.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001, um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt).

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 30. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. ágúst 2003.

Þál. 29/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 13/2003, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1353.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/2003 frá 31. janúar 2003, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB frá 27. júní 2002, um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins fyrir umferð á sjó og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/75/EBE.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 24. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júní 2003.

Þál. 30/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 10/2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1354.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2003 frá 31. janúar 2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/37/EB frá 5. júní 2001, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaksvörum.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 15. maí 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2003.

Þál. 31/128 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 20/2003, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi)
við EES-samninginn, 13. mars 2003 – þskj. 1355.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2003 frá 31. janúar 2003, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/44/EB frá 6. júlí 1998, um lögvernd uppfinninga í líftækni.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 29. apríl 2003 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. febrúar 2004.