Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 584. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 924  —  584. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverjar voru tillögur Halldórs Blöndals, forseta Alþingis, og Magnúsar Stefánssonar, þingmanns, í skýrslu þeirra um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni samkvæmt byggðaáætlun sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið og vísað er til í skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005? Óskað er eftir að skýrslan verði birt í heild sinni.


    Alþingi samþykkti 3. maí 2002 þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002–2005. Tillaga nr. 4 um aðgerðir í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar ber heitið Efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Verkefnið er á ábyrgð forsætisráðuneytis og verktími þess er 2002–2005. Markmið verkefnisins var að efla stærstu byggðarlögin á landsbyggðinni jafnframt því sem opinber verkefni og þjónusta yrðu endurskipulögð og starfsemin gerð árangursríkari. Að opinberar stofnanir á landsbyggðinni hafi ekki aðeins svæðisbundið þjónustuhlutverk með höndum heldur verði stofnanir sem þjóna öllu landinu einnig staðsettar á landsbyggðinni.
    Í janúar 2003 fór þáv. forsætisráðherra þess á leit við Halldór Blöndal, forseta Alþingis, og Magnús Stefánsson þingmann að vera með sér í ráðum um framangreind mál. Skýrslan var afhent forsætisráðherra í nóvember 2003.
    Höfundar skýrslunnar áttu fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar sem greint var frá þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í hverju ráðuneyti, til að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og hvað sé fyrirhugað í þeim efnum. Í viðræðum við ráðherra ríkisstjórnarinnar kom fram vilji til að nýta þau tækifæri sem gefast til að styrkja opinbera þjónustu á landsbyggðinni með því að flytja þangað verkefni og störf sem bæði eru takmörkuð við staðbundna þjónustu sem og þjónustu við stærri svæði. Því eru ýmsar skorður settar hversu hratt og í hve ríkum mæli slíkur flutningur á verkefnum og störfum getur orðið. Höfundarnir vildu því einkum leggja áhersla á eftirfarandi:
     .      Að styrkja þær stofnanir sem eru til staðar á landsbyggðinni, m.a. með því að færa til þeirra verkefni, m.a. frá öðrum ráðuneytum. Í því sambandi má m.a. nefna menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir, embætti sýslumanna og skattstofur.
     .      Að fjölga störfum sem krefjast háskólamenntunar. Beina ber athygli sérstaklega að einum byggðakjarna í hverjum landsfjórðungi sem síðar með margfeldisáhrifum getur haft jákvæð áhrif á störf og búsetu í nálægum byggðarlögum. Í því sambandi ber einkum að hyggja að eflingu menntastofnana og sjúkrahúsa. Jafnframt er mikilvægt að styrkja þá vísa að rannsóknastarfsemi sem þegar eru komnir á landsbyggðinni með fjölgun verkefna og samstarfi fleiri stofnana.
    Meðfylgjandi er skýrslan í heild ásamt skilabréfi skýrsluhöfunda.
Fylgiskjal.Skilabréf Halldórs Blöndals og Magnúsar Stefánssonar til forsætisráðherra.


(7. nóvember 2003.)    Eins og fram kemur í skýrslu okkar um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni hafa ráðuneytin uppi áform um að styrkja starfsemi stofnana úti um land, annaðhvort með nýjum verkefnum eða fjarvinnslu. Í mörgum tilvikum getur ráðið úrslitum um, hvort það takist, að fé sé til þess á fjárlögum. Af þeim sökum leggjum við til að í fjárlögum næsta árs sé veitt ákveðnu fé í þessu skyni sem síðar skuli ráðstafað samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra eða fjármálaráðherra.
Skýrsla.


Efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni.


    Með bréfi dags. 29. janúar sl. fór forsætisráðherra þess á leit við undirritaða að vera með sér í ráðum varðandi gerð áætlunar um að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, sbr. tillögu 4 um aðgerðir í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem ber heitið „Efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni“.
    Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er víða getið áherslna sem tengjast eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Þar má m.a. nefna:
     .      Að treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar. Sérstök áhersla verði lögð á fjarnám til þess að sem flestir geti stundað nám í sinni heimabyggð. Unnið verði að uppbyggingu byggðakjarna í samræmi við byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi á síðasta kjörtímabili.
     .      Að stuðla að því að stjórnkerfið endurspegli breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Einkum verði horft til þess hvernig best má nýta kosti upplýsingasamfélagsins og rafrænnar stjórnsýslu til að tryggja jafnt aðgengi borgaranna að nauðsynlegum upplýsingum og þjónustu.
     .      Að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Háskólanám verði eflt og fjarnám þróað í samvinnu við menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi.
     .      Að allir landsmenn hafi greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð aldri, búsetu og efnahag.
    Undirritaðir hafa átt fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar sem þeir hafa greint frá þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í viðkomandi ráðuneyti til að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og hvað sé fyrirhugað í þeim efnum.
    Í viðræðum okkar við ráðherra ríkisstjórnarinnar kom fram vilji til að nýta þau tækifæri sem gefast til að styrkja opinbera þjónustu á landsbyggðinni með því að flytja þangað verkefni og störf sem bæði eru takmörkuð við staðbundna þjónustu sem og þjónustu við stærri svæði. Því eru ýmsar skorður settar hversu hratt og í hve ríkum mæli slíkur flutningur á verkefnum og störfum getur orðið. Í því sambandi viljum við að áhersla verði einkum lögð á eftirfarandi:
     .      Að styrkja þær stofnanir sem eru til staðar á landsbyggðinni, m.a. með því að færa til þeirra verkefni, þ.á m. frá öðrum ráðuneytum. Í því sambandi má m.a. nefna menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir, embætti sýslumanna og skattstofur.
     .      Að fjölga störfum sem krefjast háskólamenntunar. Beina ber athygli sérstaklega að einum byggðakjarna í hverjum landsfjórðungi sem síðar með margfeldisáhrifum getur haft jákvæð áhrif á störf og búsetu í nálægum byggðarlögum. Í því sambandi ber einkum að hyggja að eflingu menntastofnana og sjúkrahúsa. Jafnframt er mikilvægt að styrkja þá vísa að rannsóknastarfsemi sem þegar eru komnir á landsbyggðinni með fjölgun verkefna og samstarfi fleiri stofnana.

Yfirlit yfir aðgerðir ráðuneyta.
    Hér á eftir er greint frá helstu verkefnum og áformum ráðuneyta, sem fram kom í viðræðum við ráðherrana, til að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins:

Dómsmálaráðuneyti.
     1.      Ráðherra leggur áherslu á að efla sýslumannsembættin með því að færa þeim ný verkefni. Þessar stofnanir eru til staðar og því vænlegra að leita leiða til að efla þær frekar en að stofna nýjar eða flytja stofnanir frá höfuðborgarsvæðinu til dreifbýlisins.
     2.      Ráðherra hyggst vinna að því að stækka lögregluumdæmin. Á þann hátt er verið að auka öryggi íbúa landsbyggðarinnar og gera það fýsilegri kost að búa úti á landi.
     3.      Sektarinnheimtan hefur nýlega verið flutt til sýslumannsembættisins á Hvolsvelli þar sem bæst hefur við eitt starf.
     4.      Ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa um næstu áramót mál er varða umferð og eftirlit með ökutækjum frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Jafnframt að mál er varða leit og björg í neyð verði sameinuð undir einni yfirstjórn í dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Þannig næst meiri samfella í báðum málaflokkum og aukið öryggi í björgunarmálum, sérstaklega úti á landi.
     5.      Ráðherra mun láta kanna kosti þess að breyta ákæruvaldinu og færa það í fleiri umdæmi líkt því sem er um héraðsdómara.

Félagsmálaráðuneyti.
     1.      Ráðherra lagði fram svar sitt við fyrirspurn Örlygs Hnefils Jónssonar um fjölgun, vistun og flutning opinberra starfs og stofnana, sbr. þingskjal 930 frá síðasta þingi.
     2.      Ráðherra lagði fram svar sitt við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land, sbr. þingskjal 848 frá síðasta þingi.
     3.      Að því er stefnt að slysaskráning Vinnueftirlits ríkisins, sem er ný starfsemi, verði unnin úti á landi. Um er að ræða tvö störf og þess vænst að verkefnið geti hafist árið 2004.
     4.      Á vegum ráðuneytisins, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, er unnið að uppbyggingu gagnabanka um ýmiss konar fjárhagslegar upplýsingar úr rekstri sveitarfélaga. Meginmarkmið slíkrar upplýsingaveitu er að efla hvers kyns fjárhagslegan samanburð milli sveitarfélaga er stuðlað gæti að hagkvæmari rekstri þeirra. Slík veita nýttist einnig öðrum opinberum aðilum og íbúum sveitarfélaga. Gerður hefur verið samningur til þriggja ára við fjarvinnslufyrirtæki á Hvammstanga um byggingu og rekstur gagnagrunns sem heldur utan um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Samningurinn felur í sér eitt viðbótarstarf.
     5.      Félagsmálaráðuneyti og Íbúðalánasjóður hafa gert samning til þriggja ára við Háskólann á Bifröst um rannsóknarsetur í húsnæðismálum sem leiðir af sér eina lektorsstöðu.
     6.      Ráðuneytið mun á næstunni fara yfir verkefni stofnana ráðuneytisins með það í huga að stuðla að því að verkefni eða smáar starfseiningar hins opinbera geti færst til stofnana úti á landi og styrkt þá starfsemi sem þar er að finna.

Fjármálaráðuneyti.
     1.      Hjá Fasteignamati ríkisins og ANZA hf. á Akureyri eru 13 störf sem með beinum eða afleiddum hætti eru afleiðing ákvörðunar Alþingis árið 2000 um uppbyggingu Landskrár fasteigna á Akureyri. Störfin lúta að tölvurekstri og tengdri þjónustu, upplýsingaþjónustu, vinnslu landupplýsinga og landeignaskrá. Þetta fyrirkomulag sannar að reka má og þjónusta stóra gagnagrunna og flókin tölvukerfi á Akureyri. Er Landskrá fasteigna stærsta gagnasafn rekið utan höfuðborgarsvæðisins.
     2.      Vinnuhópur, sem fjármálaráðherra setti á laggirnar, gerði tillögur um að auka sérhæfingu skattstofa úti á landi. Árið 2002 fékkst lagaheimild til handa ráðherra að flytja skatteftirlitsþáttinn til skattstofa frá ríkisskattstjóra. Þar með er kominn möguleiki á að flytja hluta af eftirlitsstarfseminni út á land og í því sambandi hefur verið horft til Akureyrar og Akraness. Þetta verkefni er í þróun.
     3.      Með tilkomu nýs fjárhags- og mannauðskerfis Fjársýslu ríkisins skapast möguleikar á að flytja verkefni út á land síðar meir. Unnt er að tengjast kerfinu í gegnum netið þannig að skráning í það og vinnsla getur m.a átt sér stað úti á landsbyggðinni. Innleiðing bókhalds- og launahluta kerfisins stendur yfir en til stendur að innleiða aðra kerfishluta á næstu árum. Kerfið býður einnig upp á að skönnun reikninga eigi sér stað á stofnunum og sjálfsafgreiðsla verði efld til muna.
     4.      Fjármálaráðuneytið hefur það verkefni í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar að leita leiða til að efla fjarvinnslu hjá hinu opinbera. Það verkefni er nýlega hafið. Í þeirri vinnu verða m.a. skoðaðir möguleikar á að vinna fjarvinnsluverkefni úti á landi. Ráðuneytið er langt á veg komið með gerð fjarvinnslu- og fjarvinnuáætlun. Með fjarvinnslu er átt við það þegar upplýsingatækniverkefni eru falin utanaðkomandi verktaka og unnin fjarri reglulegum vinnustað vinnuveitandans. Fjarvinna er það þegar starfsmaður vinnur að hluta eða öllu leyti heima eða annars staðar en á reglulegum vinnustað vinnuveitandans.
     5.      Fjármálaráðuneytið hefur umsjón með samstarfsverkefni nokkurra ráðuneyta og stofnana um innleiðingu rafrænna skilríkja fyrir ríkið. Með innleiðingu rafrænna skilríkja skapast grundvöllur fyrir örugg samskipti á rafrænu formi sem er ein meginforsenda flutnings verkefna, sem unnin eru með rafrænum hætti, út á landsbyggðina.

Heilbrigðisráðuneyti.
     1.      Ráðuneytið leggur áherslu á að sú heilbrigðisþjónusta (nærþjónusta), sem ráðuneytið á að tryggja úti á landi, sé í lagi og hafi tryggan starfsgrundvöll.
     2.      Stefnt er að því að byggja upp Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) sem hátæknisjúkrahús landsbyggðarinnar. Unnið er að undirbúningi hönnunar og innréttingar fyrstu hæðar viðbyggingarinnar. Segulómtæki verður tekið til notkunar á næsta ári. Slíkar rannsóknir hafa hingað til eingöngu verið unnar á höfuðborgarsvæðinu en með tilkomu tækisins munu 400–600 rannsóknir verða unnar á FSA. Þess má svo geta að geðlæknisþjónustan hefur verið efld.
     3.      Stefnt er að efla sérhæfingu sjúkrahúsa úti á landi. Nýta má í auknum mæli aðstöðu sjúkrastofnana á landsbyggðinni til smærri aðgerða. Einnig er stefnt að því að efla lyflækningar, öldrunarþjónustu og geðlæknisþjónustu.
     4.      Gerðir hafa verið samningar við sjúkrahúsin á Akureyri og Akranesi um auknar bæklunarlækningar í samvinnu við Landspítala – háskólasjúkrahús (LSH). Einnig hefur nýting sjúkrahússins á Sauðárkróki til skurðlækninga aukist í samvinnu við lækna á FSA og LSH. Þá hafa samningar við barnalækna á LSH um þjónustu á Vestfjörðum, Austurlandi og víðar gefist vel.
     5.      Miðstöð sjúkraflugs hefur verið komið upp á Akureyri.
     6.      Sjúkraflutningaskólinn hefur verið færður til Akureyrar.
     7.      Uppbygging heilsugæslunnar úti á landi er víðast hvar lokið þótt endurbætur séu stöðugt í gangi. Þjónustusamningar um heilsugæslu og öldrunarþjónustu hafa verið gerðir við Akureyri og Hornafjörð. Stjórnsýsla málaflokkanna er á ábyrgð við komandi sveitarfélags. Ráðherra hefur einnig skipað nefnd í þeim tilgangi að skoða möguleika þess að flytja heilsugæsluna og öldrunarþjónustuna yfir til sveitarfélaganna. Með tilfærslu heilsugæslunnar og öldrunarþjónustunnar yrði skipulagningin öll á einni hendi í hverju sveitafélagi og þjónustan heilsteyptari fyrir vikið.
     8.      Unnið hefur verið að sameiningu heilbrigðisstofnana um allt land. Dæmi um það er Heilbrigðisstofnun Austurlands (HA) en sú sameining hefur tekist mjög vel. Með eflingu HA hafa verkefni flust til stofnunarinnar sem áður voru unnin á höfuðborgarsvæðinu.
     9.      Heilsustofnun Þingeyjarsýslu vinnur að þróun rafrænna lyfseðla og gerður hefur verið samningur við Eyþing um framhaldsáfanga þeirrar þróunar. Á vegum Tryggingastofnunar ríkisins er verið að endurnýja öll skráningarkerfin. Í framhaldi af því verður kannað hvort mögulegt er að flytja einhver skráningarstörf út á land.
     10.      Öldrunarþjónustan víða um land hefur verið efld og biðlistar víða engir. Nýbúið er að skrifa undir samning við Akureyrarbæ um að fjölga öldrunarrýmum um 60 fram til ársins 2007.
     11.      Áform eru uppi um að efla endurhæfingarstofnanir úti á landi. Samningur hefur verið gerður við Náttúrulækningafélag Íslands um fleiri hvíldarinnlagnir í Hveragerði.
     12.      Lýðheilsustöð hefur verið stofnuð og forstjóri ráðinn til starfa. Hugmyndir eru uppi um að efla tengsl Lýðheilsustöðvar við stofnanir landsbyggðarinnar, þ.m.t. Háskólann á Akureyri og FSA og þróa ný lýðheilsuverkefni í samvinnu við þær stofnanir.
     13.      Unnið er að úttekt á ástandi húsnæðis heilbrigðisstofnana úti á landi. Í undirbúningi er tillögugerð um átak í viðhaldsmálum þessara bygginga en ljóst er að viðhaldi margra bygginganna er áfátt. Ljóst er að viðhaldsframkvæmd af þessari stærðargráðu er bæði kostnaðarsöm og mannfrek.

Iðnaðarráðuneyti.
     1.      Nýsköpunarmiðstöð var sett á fót á Akureyri á árinu 2002 og eru þar nú þrjú störf en stefnt að fimm störfum í framtíðinni.
     2.      Frumkvöðlasetri Norðurlands var komið á fót á Akureyri árið 2001 og á Höfn, Hornafirði árið 2003. Ráðuneytið á aðild að þeim ásamt Nýsköpunarsjóði, Byggðastofnun, Iðntæknistofnun, viðkomandi sveitarfélögum og fyrirtækjum á svæðunum. Setrunum er ætlað að veita sérhæfða aðstoð við að hrinda viðskiptahugmyndum í framkvæmd.
     3.      Byggðarannsóknarstofnun var komið á fót við Háskólann á Akureyri árið 2001 í samstarfi við iðnaðarráðuneyti og Byggðastofnun. Stofnunin hefur fram til þessa haft 1/ 2stöðugildi en falið öðrum innan Háskólans á Akureyri vinnu í sínu nafni. Á árinu 2002 var m.a. unnið að fjórum rannsóknarverkefnum. Ársverk hafa því sveiflast eftir verkefnastöðu.
     4.      Opnað hefur verið útibú Orkustofnunar á Akureyri með tveimur starfsmönnum. Útibúið tekur að sér verk er varða niðurgreiðslu á hitun íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni og verkefni tengd svokölluðum bændavirkjunum. Með nýjum raforkulögum er stefnt að því að flytja til útibúsins verkefni tengd eftirliti með raforkugeiranum.
     5.      Íslenskar orkurannsóknir, sem áður voru rannsóknarsvið Orkustofnunar, hafa tvo menn í störfum á Akureyri, aðallega við jarðhitaverkefni á Norðurlandi. Í tengslum við þessa starfsemi eru árlega nokkur sumarstörf.
     6.      Iðnaðarráðuneyti, í samvinnu við sjávarútvegsráðuneyti og menntamálaráðuneyti, vinnur að því að koma á fót öndvegissetri á Akureyri á sviði auðlindalíftækni í tengslum við Háskólann á Akureyri, opinberar rannsóknarstofnanir og fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu.
     7.      Starfsemi Orkustofnunar, Nýsköpunarmiðstöðvar, frumkvöðlaseturs og öndvegisseturs á Akureyri mun fá starfsaðstöðu í fyrirhuguðu rannsóknar- og nýsköpunarhúsi sem þar er verið að reisa.
     8.      Búið er að skipa þriggja manna starfshóp til að vinna að gerð byggðaáætlunar fyrir Vestfirði á grundvelli fyrirliggjandi vinnu heimamanna. Samhliða þeirri vinnu verða kannaðir möguleikar á að endurreisa starfstöð Iðntæknistofnunar á Ísafirði fyrir matvælaiðnaðinn ef næg eftirspurn er eftir þjónustu þess á Vestfjörðum. Undirbúningur að sérstöku þróunarverkefni um klasasamstarf fyrirtækja á Ísafirði og nágrenni er á lokastigi.

Landbúnaðarráðuneyti.

     1.      Landshlutabundnu skógræktarverkefnin eru nú sex talsins, þar af fimm stofnuð 1997–2000. Framlag ríkisins til landshlutabundinnar skógræktar hefur farið vaxandi og fylgt að mestu þeim áætlunum sem gerðar voru í upphafi fyrir hvert verkefni. Á þeirra vegum eru starfandi fimm skrifstofur, Egilsstöðum, Selfossi, Hvanneyri, Þingeyri og á Akureyri, og hefur hvert verkefni sinn framkvæmdastjóra. (Stjórn Austurlandsskóga, yngsta verkefnisins, var falin Héraðsskógum.) Á hverri skrifstofu starfa auk framkvæmdastjóra 2–5 aðrir – ungt, háskólamenntað fólk.
     2.      Um 700 aðilar eru skráðir í verkefnið Bændur græða landið sem er á vegum Landgræðslu ríkisins. Á Alþingi 2002 var samþykkt landgræðsluáætlun 2003–2014 þar sem sérstaklega er gerð grein fyrir þessum þætti og fjármagni til hans. Þá hefur starfsemi Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum tekið breytingu í kjölfar þarfa verkefnanna, m.a. hvað varðar áætlanagerð. Fari fram sem horfir má reikna með fjölgun þar.
     3.      Komið hefur verið á fót Landbótasjóði í samræmi við landgræðsluáætlun 2003–2014 sem ætlað er að styðja við bændur til að fjármagna landbætur á sínu heimalandi. Gert er ráð fyrir 20 m.kr. framlagi ríkisins á árinu 2004 til sjóðsins.
     4.      Landgræðslan hefur nú sett á fót héraðssetur á Hvanneyri, Hólum, Húsavík, Egilsstöðum, Kirkjubæjarklaustri og Árnesi, auk þess sem hún er í samstarfi við Skjólskóga á Vestfjörðum. Á þessum héraðsmiðstöðvum starfa nú sjö manns og má búast við fjölgun starfsmanna þar í hlutfalli við aukin verkefni.
     5.      Starfsemi Búnaðarháskólans á Hvanneyri hefur verið efld og stefnt er að enn frekari eflingu á rannsóknarþætti skólans. Í því sambandi verði kannað hvernig tengja megi rannsóknir á vegum RALA við kennslu og rannsóknir á Hvanneyri. Þannig verði við endurskoðun á rannsóknarháttum innan landbúnaðarins horft til þess að flytja rannsóknarstarfsemi út á land.
     6.      Komið hefur verið á fót hestamiðstöð í Skagafirði í samráði við sveitarfélagið sem er ætlað að beita sér fyrir átaki til gæðastýringar og eflingar fagmennsku í hrossarækt, hestamennsku, hestaíþróttum og hestatengdri ferðaþjónustu. Þar eru nú tvö störf.
     7.      Ráðuneytið hefur stutt við verkefnið Upplýsingatækni í dreifbýli sem hefur það markmið að auka samkeppnishæfni sveitanna með sérstöku átaki í tölvukennslu og tæknivæðingu. Verkefninu sinnir einn starfsmaður á Sauðárkróki. Þátttaka í verkefninu er bundin við íbúa á lögbýlum eða búnaðargjaldsskylda starfsemi.
     8.      Laxeldi hefur verið leyft í nokkrum fjörðum á Austurlandi og fer mest af framleiðslu eldislax fram í þeim landshluta en annað fiskeldi fer fram víða um land. Fiskeldi er víða umtalsverður atvinnuþáttur og má t.d. nefna að í Öxarfirði og Kelduhverfi hefur fiskeldisframleiðsla skapað mikla atvinnu í héraði þar sem dregið hefur úr hefðbundnum landbúnaði eins og víða annars staðar og svo má segja um fleiri héruð.

Menntamálaráðuneyti.
     1.      Uppbygging Háskólans á Akureyri vegur þyngst til eflingar atvinnustarfsemi úti á landi af þeim verkefnum sem eru á vegum menntamálaráðuneytisins. Þar verða flest störfin til. Verið er að kanna möguleika á að efla rannsóknarþáttinn við skólann. Til greina kemur að rannsóknir vegna lesröskunar fari fram við skólann.
     2.      Ríkisstjórnin hefur ákveðið að reisa rannsóknarhús í tengslum við Háskólann á Akureyri þar sem ýmsar stofnanir ríkisins munu hafa aðstöðu. Framkvæmdir eru hafnar og að því stefnt að taka húsið í notkun í lok árs 2004.
     3.      Ríkið hefur stofnað í samvinnu við sveitarfélög átta símenntunarmiðstöðvar úti á landi. Um er að ræða sameiginlegt átak í byggðamálum og menntamálum. Miðstöðvaranar auka verulega sveigjanleikann til náms með fjarkennslu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á starfsmenntun og kennslu fyrir nýbúa. Í ár er varið 14 m.kr. til að halda uppi starfsnámi í löggildingargreinum þar sem nemendafjöldi sveiflast verulega milli ára sökum fámennis. Þá verður reynt að ná samningum við fyrirtæki í heimabyggð um aðstöðu fyrir verklega kennslu. Í því sambandi má nefna vélsmíðinám á Ísafirði og matvælanám á Akureyri.
     4.      Verið er að koma á fót háskólanámssetri á Húsavík, Egilsstöðum og Ísafirði. Um er að ræða samstarfsvettvang háskólakennslu og vísindastarfsemi. Á árinu 2003 er verður varið 41 m.kr. til þessarar starfsemi.
     5.      Haustið 2004 hefur göngu sína framhaldsskóli á Snæfellsnesi sem nýta mun sér kosti fjarkennslunnar. Í ár verður varið 13 m.kr. til skólans og um 39 m.kr. árið 2004.
     6.      Nám með fjarkennslu hefur aukist gríðarlega á síðustu þremur árum. Á framhaldsskólastigi stunduðu 337 nemendur fjarnám árið 1999 en árið 2002 hafði þeim fjölgað í um 1.600. Á háskólastigi stunduðu 496 nemendur fjarnám árið 1999 en árið 2002 hafði þeim fjölgað í tæp 2.000.
     7.      Nokkru fé er varið til að styrkja grunnskólahald í dreifðum byggðum. Þannig er í ár varið 15 m.kr. til grunnskóla á Vestfjörðum með það í huga að kennarar geti kennt á fleiri en einum stað.
     8.      Ráðherra hefur undirritað menningarsamning við sveitarfélög á Austurlandi. Ríkið leggur 9 m.kr. alls til reksturs þriggja menningarmiðstöðva á Höfn, Eskifirði og Seyðisfirði. Stefnt er að ganga frá samningi um stofnun þeirrar fjórðu á Héraði á árinu 2003. Einnig leggur ríkið fram 26 m.kr. til Menningarráðs Austurlands, sem síðar er úthlutað til að styrkja menningarverkefni.
     9.      Ráðherra hefur einnig gert menningarsamning við Akureyrarbæ þar sem tiltekin menningarstarfsemi er styrkt, fyrst og fremst starfsemi Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Listasafns Akureyrar. Framlag ríkisins er nú 63,7 m.kr. og hefur aukist all hratt á síðustu árum. Akureyrarbær leggur fram jafnháa fjárhæð.
     10.      Ráðuneytið hefur komið á fót tveimur fræðamiðstöðvum, Snorrastofu í Reykholti og Gunnarsstofu á Skriðuklaustri. Stefnt er að því að flytja til þeirra aukin verkefni. Snorrastofa sér m.a. um rekstur húsnæðis ríkisins í Reykholti. Snorrastofa sér einnig um að skrá afritasafn fyrir Landsbókasafnið og geyma bækur. Þar er um að ræða tvö störf.
     11.      Þjóðminjasafnið hefur samið við fjarvinnslufyrirtæki á Húsavík um skráningu á menningarverðmætum. Um er að ræða tvö störf. Á vegum Fornleifaverndar starfa fjórir minjaverðir úti á landi.
     12.      Til greina kemur að færa verkefni sem hentar fjarvinnslu í meira mæli út á land. Á árinu 2003 er varið 15 m.kr. til að skrá menningaratburði og miðla þeim upplýsingum. Fjarvinnslufyrirtæki eru nú starfandi á nokkrum stöðum, svo sem Hvammstanga, Húsavík, Raufarhöfn, Ísafirði o.fl.
     13.      Ráðuneytið og Reykjavíkurborg standa að Listahátíð í Reykjavík. Í auknum mæli hafa aðilar úti á landi verið kallaðir til samstarfs. Menningarborgarsjóður var stofnaður í framhaldi af verkefninu Reykjavík – menningarborg og leggur ráðuneytið árlega fé til hans. Sjóðurinn hefur styrkt menningaratburði úti á landi og til greina kemur að breyta hlutverki hans þannig að hann þjóni þeim þætti í ríkari mæli.
     14.      Gengið hefur verið frá samningum við Akureyrarbæ, Ísafjarðarkaupstað og Vestmannaeyjabæ um framkvæmdir við menningarhús. Viðkomandi sveitarfélög stýra verkefnunum og bera fulla ábyrgð á þeim. Gert er ráð fyrir að hlutdeild ríkisins verði 60% í framkvæmdakostnaði og má ætla að heildarkostnaður ríkisins vegna þessara þriggja menningarhúsa verði um 1.250 m.kr. sem kemur til greiðslu á næstu 3–4 árum.
     15.      Hugmyndir eru uppi um að stofna sérstakan sjóð sem styður við bakið á menningartengdri ferðaþjónustu. Verið er að kanna fjármögnun slíks sjóðs.
     16.      Ungmennafélögin úti á landi hafa fengið stuðning ríkisins við uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þegar hafa verið byggðar upp þrjár þjónustumiðstöðvar fyrir íþróttir. Árin 2003 og 2004 leggur ríkið fram 40 m.kr. til uppbyggingar íþróttaaðstöðu á Sauðárkróki, en landsmót Ungmennafélags Íslands verður haldið þar árið 2004.
     17.      Ríkið hefur tekið þátt í uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar á Akureyri en stefnt er að því að sú miðstöð geti keppt við evrópskar skíðamiðstöðvar. Samtals mun ríkið leggja fram 180 m.kr. á sex árum sem er um þriðjungur af heildarkostnaði.

Samgönguráðuneyti.
     1.      Árið 1999 sendi ráðherra bréf til allra stofnana og hlutafélaga sem undir ráðuneytið heyra og óskaði eftir áætlun frá þeim um aðgerðir til að færa þjónustu og störf út á land. Á kjörtímabilinu 1999–2003 var 92 störfum komið fyrir úti á landi.
     2.      Ráðherra hefur sett á fót þriggja manna starfshóp sem ætlað er að gera nýja áætlun um flutning verkefna út á landsbyggðina næstu fjögur árin. Stefnt er að því að starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 2003.
     3.      Vegagerðin hefur gert áætlun um eflingu starfsemi sinnar á landsbyggðinni. Er þar bæði um að ræða flutning verkefna frá Reykjavík út á land og staðsetningu nýrra starfa á landsbyggðinni. Störfin sem um er að ræða eru á sviði upplýsinga þjónustu eftirlits af ýmsu tagi, gagnasöfnunar, gagnavinnslu, símsvörunar, umferðar og um ferðaröryggis, umsjónar með ferjurekstri og veghönnunar. Í nóvember 2001 flutti Vegagerðin skiptiborð og hluta af upplýsingaþjónustu við vegfarendur til Ísafjarðar. Þar er því aðalsímsvörun Vegagerðarinnar og svarað í símanúmerið 1777 og veittar upplýsingar um færð og veður. Þar er um að ræða fjögur ný stöðugildi. Þá hafa verið flutt til Akureyrar fjögur störf er tengjast ýmsu eftirliti á vegum Vegagerðarinnar og umferðaröryggismálum og til Sauðárkróks var flutt eitt starf er tengist skipulagningu og eftirliti yfirborðsmerkinga vega. Fastráðnir starfsmenn Vegagerðarinnar eru um 350, þar af eru um 230 á landsbyggðinni.
     4.      Árið 2000 var undirritaður samningur milli flugmálastjórnar og Akureyrarbæjar varðandi slökkvi- og björgunarþjónustu á Akureyrarflugvelli. Samningurinn fól í sér að Slökkvilið Akureyrar tæki að sér að annast slökkvi- og björgunarstörf og verkefni sem lúta að öryggismálum á Akureyrarflugvelli en Slökkvilið Akureyrarflugvallar á vegum flugmálastjórnar sinnti þeim áður. Að auki hefur Slökkvilið Akureyrar tekið að sér þjálfun og faglega umsjón með slökkvi- og brunavarnarmálum á landsbyggðarflugvöllum Flugmálastjórnar. Þjálfunin hafði fram að þessu farið fram í Reykjavík.
             Þá hefur verið ráðið í fjórar nýjar stöður vegna aukins viðbúnaðar á áætlunarflugvöllunum á Egilsstöðum, Höfn og í Vestmannaeyjum. Nokkur reynsla er komin á samning um sameiginlegan rekstur slökkviliðs á Egilsstöðum á milli sveitarfélagsins og flugmálastjórnar og gerðir hafa verið samningar við Fjarðarbyggð um rekstur flugvallarins í Norðfirði og Siglufjarðarbæ um rekstur flugvallarins á Siglufirði. Jafnframt hefur flugmálastjóra verið falið að undirbúa frekari samninga á þessu sviði.
             Flugmálastjórn hefur í auknum mæli keypt hönnunarvinnu utan höfuðborgar svæðisins, svo og ýmiss konar viðhaldsþjónustu. Á heildina litið skapa þessi kaup um það bil sex ný störf á landsbyggðinni. Á vegum Flugmálastjórnar starfa alls um 250 manns, þar af um 61 starfsmaður á landsbyggðinni
     5.      Hinn 1. mars 2004 mun skoðun skipa verða flutt frá Siglingastofnun til einkarekinna skoðunarstofa. Ráðuneytið mun leitast við að núverandi störf utan höfuðborgarsvæðisins haldist áfram þrátt fyrir þessa breytingu.
     6.      Árið 1998 var opnað útibú Siglingastofnunar í Keflavík til viðbótar við önnur er hafa verið á landsbyggðinni um árabil. Þar starfar einn maður. Þá hefur frá ársbyrjun 2001 verið unnið að verkefni sem tengist flokkun og skráningu skannaðra teikninga í útibúi Siglingastofnunar á Ísafirði. Jafnframt hefur verið ákveðið að þar verði unnið að skipulagi og úrvinnslu skyndiskoðana fiskiskipaflotans. Um er að ræða tæpt stöðugildi. Á vegum Siglingastofnunar starfa alls um 90 manns, þar af um 15 á landsbyggðinni. Þar að auki eru 54 vitaverðir í hlutastarfi, allir á landsbyggðinni.
     7.      Aðsetur rannsóknarnefndar sjóslysa var samfara endurskipulagningu á allri starfsemi nefndarinnar flutt til Stykkishólms haustið 2001. Við nefndina eru tvö föst stöðugildi á ársgrundvelli.
     8.      Á vegum Íslandspósts hf. hefur aðalskiptiborð og þjónustuver fyrirtækisins fyrir einstaklinga verið flutt til Akureyrar, pökkun fyrstadagsumslaga til Ísafjarðar, frímerkjavarsla í Borgarnes og vinna við ársmöppur í Búðardal auk þess sem smávörulager fyrirtækisins hefur verið fluttur til Blönduóss. Þessar ákvarðanir þýða að um það bil átta til tíu ársverk hafa verið flutt út á land. Á vegum Íslandspósts starfa um 1.260 manns, þar af eru um 470 úti á landi. Þessu til viðbótar eru starfandi sem verktakar um 100 landpóstar og um það bil 40 stöðugildi eru hjá samstarfsaðilum Póstsins á landsbyggðinni.
     9.      Síminn hefur markvisst unnið að því að flytja störf út á land í tengslum við upplýsingasímann 118. Svarað er í 118 á fjórum stöðum á landinu, þ.e. í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Nú eru 62 stöðugildi á vegum 118 á landsbyggðinni, þar af um 40 á Akureyri og um 20 á Egilsstöðum. Alls starfa um 1.300 manns hjá Símanum, þar af um 300 á landsbyggðinni.
             Verið er að kanna möguleika þess að flytja störf út á land sem tengjast starfsemi símans m.a. þjónustuveri Símans.
     10.      Ráðuneytið mun kappkosta að verða við óskum sem borist hafa frá nokkrum sveitarfélögum um að stofna þjónustuver þar sem hafa að geyma verkstöðvar ríkis og sveitarfélaga. Þannig hefur komið beiðni frá Þórshafnarhreppi um að koma undir eitt þak starfsstöð Vegagerðar, flugvallar og áhaldahúss bæjarins.

Sjávarútvegsráðuneyti.
     1.      Stór hluti starfsemi Hafró fer fram úti á landi. Þar má m.a. nefna aflaskráningakerfið. Útibú Hafró úti á landi mega sín hins vegar lítils á flestum stöðum. Helstu undantekningar eru Akureyri og Ísafjörður.
     2.      Sjávarútvegsráðuneytið í samvinnu við atvinnuvegaráðuneytin er að kanna hvernig unnt er að nýta fyrirhugað rannsóknarhús á Akureyri til að efla starfsemi á vegum RF og Hafró. Helst er staðnæmst við hugmyndir um líftæknirannsóknir. RF kemur nú að starfsemi Matvælasetursins á Akureyri.
     3.      Ráðuneytið vinnur að endurskoðun á starfsemi RF á landsbyggðinni. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu fyrir áramót.
     4.      Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins er verið að hrinda af stað markáætlun sem ber heitið Aukið verðmæti sjávarfangs og er fyrsti hluti hennar til fimm ára. Hún var undirbúin í samvinnu við fagfólk og hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskvinnslu og ætti að geta nýst til verkefna sem unnin eru á landsbyggðinni.
     5.      Á umræðustigi er meðal fyrirtækja sem starfa að fiskeldi að þau sameinist um tilraunir til þorskseiðaeldis á einum stað sem til þess þykir hentugastur, jafnframt því að nýta þá aðstöðu sem fyrir er.
     6.      Hugmyndir eru uppi um að koma á fót þorskeldismiðstöð, þ.e. fyrir framhaldseldi, á Ísafirði sem myndi tengjast þróunarsetrinu þar. Hafró og RF kæmu að þeirri starfsemi.
     7.      Ráðuneytið hefur úthlutað 500 tonna þorskígildiskvóta til fiskeldis. Úthlutað hefur verið til staða hringinn í kringum landið í þeim tilgangi að afla reynslu um hvar skilyrðin eru best.
     8.      Fiskistofa hefur á árinu 2003 fært þrjú störf eftirlitsmanna frá Reykjavík út á land, tvö störf til Akureyrar og eitt á Ísafjörð. Þar með eru fjögur störf í útibúinu á Akureyri og tvö störf í útibúinu á Ísafirði.

Umhverfisráðuneyti.
     1.      Efling starfsemi Náttúrustofa. Framlag til Náttúrustofa á landsbyggðinni var aukið í fjárlögum 2003 um 1,9 m.kr. hjá hverri, eða samtals um 11,4 m.kr. Samkomulag er við sveitarfélögin, sem eru ábyrg fyrir rekstrinum, um að þeirra framlag verði að lágmarki 30% á móti framlagi ríkisins. Samtals má ætla að þessi aðgerð leiði til aukins umfangs á landsbyggðinni á árinu 2003. Að auki eru 2,5 m.kr. til undirbúnings stofnunar Náttúrustofu á Norðurlandi eystra sem ætla má að hefji rekstur á árinu 2004.
     2.      Unnið er að á vegum Veðurstofunnar að stofna rannsóknarmiðstöð snjóflóða á Ísafirði. Í fjárlögum 2003 eru 4 m.kr. til undirbúnings þess verkefnis.
     3.      Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Verið er að efla starfsemi þjóðgarðanna. Í fjárlögum 2003 eru á lið Umhverfisstofnunar 15 m.kr. til að standa undir auknum kostnaði við þjóðgarða og landvörslu. Ráðið hefur verið í þrjú heilsársstörf í þjóðgarðana á þessu ári, eitt í hvern þjóðgarð þ.e. þjóðgarðinn Snæfellsjökul, þjóðgarðinn Jökulsárgljúfrum og þjóðgarðinn í Skaftafelli.
     4.      Ráðuneytið leggur áherslu á að efla útibú stofnana úti á landi með störfum sem hafi víðtækari skírskotun en nú er og er mikilvægt í því sambandi að stofnanir mismunandi ráðuneyta vinni saman í stórnsýslueiningum í byggðakjörnum á landsbyggðinni. Einn starfsmaður hefur verið ráðinn í útibú Umhverfisstofnunar á Akureyri (veiðistjórnunarsvið). Á næstu árum verður vonandi unnt að efla útibú Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum (veiðistjórnunarsvið/hreindýraráð) svo og Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.
     5.      Gert er ráð fyrir að framlög úr ofanflóðasjóði til bygginga varnargarða í þéttbýli á snjóflóðahættusvæðum verði um 1,3 milljarðar króna á næstu 2–3 árum. Varnargarður við Seyðisfjörð fer senn í útboð og unnið er að undirbúningi útboðs á framkvæmdum við varnargarða á Siglufjörð. Þá munu framkvæmdir á Ísafirði og Bolungarvík væntanlega verða boðnar út á næstu misserum.
     6.      Umhverfisráðuneytið styrkir sveitarfélög til fráveituframkvæmda sem nemur allt að 20% af kostnaði þeirra. Nú þegar hefur ríkissjóður styrkt sveitarfélög sem nemur 1,3 milljarði króna en alls er áætlað að styrkveitingar muni nema rúmum 2 milljörðum króna þegar framkvæmdum lýkur.

    Af framangreindu má ljóst vera að umtalsverður árangur hefur náðst á síðustu árum í að fjölga störfum á vegum ríkisins á landsbyggðinni og að auki eru ýmis áform ráðuneyta um að gera enn betur í þeim efnum á kjörtímabilinu.

Reykjavík 6. nóvember 2003.Halldór Blöndal,


forseti Alþingis.Magnús Stefánsson,


alþingismaður.