Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 941  —  485. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um eignarhald á bújörðum.

     1.      Hversu margar bújarðir með greiðslumarki skiptu um eigendur á árunum 1995–2004?
    Ekki er haldið utan um eigendaskipti jarða við skráningu á handhafabreytingu greiðslumarks. Ástæður þess að greiðslumark færist á milli aðila geta verið margar, t.d. kynslóðaskipti ábúenda, sala á greiðslumarki frá jörð eða sala á jörð. Ekki þarf allt greiðslumark jarðar að flytjast á milli handhafa við skráð handhafaskipti, um getur verið að ræða sölu á hluta af greiðslumarki jarðarinnar.

Handahafabreytingar beingreiðslna sauðfjár
(utan breytinga á rekstrarformi).

Almanaksár Fjöldi breytinga
1996 83
1997 66
1998 72
1999 90
2000 61
2001 68
2002 48
2003 39


Handahafabreytingar beingreiðslna mjólkur
(utan breytinga á rekstrarformi).

Verðlagsár Fjöldi breytinga
1995–1996 43
1996–1997 41
1997–1998 47
1998–1999 46
1999–2000 42
2000–2001 27
2001–2002 23
2002–2003 17


     2.      Hversu margir voru skráðir eigendur lögbýla árið 1995 og árið 2004?
    Jarðaskrá 1994 er síðasta skrá sem gefin var út á grundvelli nafnaskráningar eigenda og er ekki hægt að rekja saman eigendur í henni þar sem þeir eru ekki persónugreinanlegir. Sú skrá var að mörgu leyti á úreltu formi og torsótt reyndist að afla gagna úr henni. Því var ákveðið að skrá jarðaskrána inn í nýjan gagnagrunn með ítarlegri upplýsingum. Hagþjónusta landbúnaðarins annaðist þá uppfærslu og aflaði ítarlegra upplýsinga hjá sveitarfélögum við leiðréttingu skrárinnar sem reyndist mun tímafrekari en gert hafði verið ráð fyrir. Fyrsta skráin sem gefin var út eftir þessar breytingar var jarðaskrá sem miðaðist við fasteignamat í desember 2000 og nýjasta skráin er jarðaskrá 2004 sem miðast við desember 2003. Jarðaskrá 2005 er í vinnslu. Upplýsingarnar sem hér fara á eftir eru úr þessum tveimur skrám og miðast við eignarhald lögbýla 1. desember 2000 og 1. desember 2003.

2000 2003
Heildarfjöldi lögbýla 6.433 6.453
Fjöldi í eigu opinberra aðila 975 925
Fjöldi lögbýla með ópersónu-
    greinanlega eigendur

143

139


     3.      Hversu mikið var um að sömu eigendur væru að:
              a.      2–4 jörðum,
              b.      5–7 jörðum,
              c.      8 eða fleiri jörðum í árslok 1995, 1999 og 2004?
    Jarðaskrá sú sem ráðuneytið hefur gefið út samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976 inniheldur eingöngu upplýsingar um lögbýli á landinu. Ráðuneytið hefur engar upplýsingar um eignarhald á öðrum jörðum en lögbýlum. Samkvæmt nýjum jarðalögum, nr. 81/2004, sem tóku gildi 1. júlí 2004 skal ráðuneytið halda bæði jarðaskrá og lögbýlaskrá á grundvelli upplýsinga úr jarðahluta Landskrár fasteigna. Síðasta útgefna jarðaskrá er grunnurinn að hinni nýju lögbýlaskrá en gerð jarðaskrár samkvæmt nýjum jarðalögum, nr. 81/2004, er í undirbúningi í samvinnu við Fasteignamat ríkisins og er frestur til útgáfu hennar til 31. desember 2008. Ekki er því unnt að svara þessari spurningu.

     4.      Hversu mikið var um að sömu eigendur væru að:
              a.      2–4 lögbýlum,
              b.      5–7 lögbýlum,
              c.      8 eða fleiri lögbýlum í árslok 1995, 1999 og 2004?

    Athygli er vakin á því að eigendur eru mun fleiri en eignirnar enda er mjög algengt að lögbýli séu í sameign nokkurra aðila, t.d. hjóna og sambúðarfólks, aðila að félagsbúi og aðrar ástæður geta einnig verið fyrir sameign. Algengt er að um tvö til þrjú samliggjandi lögbýli sé að ræða sem nýtt eru sem eitt þannig að annað telst í ábúð og hitt í eyði.
    Hér er talið hvað hver aðili á eignarhlut í mörgum jörðum. Þannig er aðili sem á lítinn hlut í þremur jörðum talinn eigandi þriggja jarða.
    Af 5.315 lögbýlum sem voru í eigu 8.758 einstaklinga og fyrirtækja árið 2000 á enginn eignarhlut í átta eða fleiri lögbýlum, fjórir aðilar eiga hlut í 5–7 lögbýlum og 1.197 aðilar eiga hlut í 2–4 lögbýlum.
    Af 5.389 lögbýlum sem voru í eigu 9.116 einstaklinga og fyrirtækja árið 2003 á enginn eignarhlut í átta eða fleiri lögbýlum, fimm aðilar eiga hlut í 5–7 lögbýlum og 1.237 aðilar eiga hlut í 2–4 lögbýlum.