Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 629. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 950  —  629. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99 9. júní 2004.

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Nú hefur maður átt eignarhlut í fasteignasölu eða félagi sem rekur fasteignasölu við gildistöku laga þessara 1. október 2004, án þess að það samrýmist ákvæðum 7. gr. um eignarhald á fasteignasölu og þá öðlast þau ákvæði, þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 30. gr., ekki gildi gagnvart honum fyrr en 1. ágúst 2006, enda sanni hann fyrir eftirlitsnefnd Félags fasteignasala að hann sitji námskeið sem efnt hefur verið til skv. 3. gr. og geti lokið prófraun á tilskildum tíma.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er ætlunin að fresta gildistöku 2. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2004 um eignarhald á fasteignasölu sem kveður á um að ef fasteignasala er stunduð í nafni félags skuli löggiltur fasteignasali eiga meiri hluta í því.
    Þeir sem hyggjast afla sér lögbundinna réttinda til að geta haldið eignarhlut sínum í fasteignasölu geta ekki öðlast þau fyrr en í júní 2006 að loknu fyrsta námskeiði vegna löggildingar sem efnt er til á grundvelli laganna. Með breytingunni er því komið til móts við þá sem eiga eignarhlut í fasteignasölu eða félagi sem rekur fasteignasölu og hafa skráð sig á námskeið og geta lokið prófraun á tilskildum tíma.