Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 599. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 959  —  599. mál.
Svarviðskiptaráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um úthlutun fjár til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig er staðið að því að úthluta þeim 500 millj. kr. sem árlega er varið til að ná fram markmiðum laga nr. 103/1994, um jöfnun á flutningkostnaði olíuvara?

    Í lögum nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, er að finna meginreglur um álagningu flutningsjöfnunargjalda á ákveðnar olíuvörur og greiðslur til að jafna kostnað við flutning þeirra innan lands.
    Jöfnun á flutningskostnaði nær til flutninga á helstu olíuvörum, þ.e. bifreiðabensíni, gasolíu, annars konar olíu og blöndum til brennslu, m.a. svartolíu. Auk þess nær jöfnunin til flugvélabensíns og flugsteinolíu (þotueldsneytis) til innanlandsflugs. Jöfnunin nær ekki til flutnings á olíu sem ætluð er til útflutnings, svo sem til millilandasiglinga, millilandaflugs, á erlend skip og erlendar flugvélar.
    Jöfnunin tekur bæði til sjóflutninga og landflutninga. Kostnaður er jafnaður við sjóflutning olíuvara frá innflutningshöfnum til olíuhafna. Hvað landflutning snertir er kostnaður jafnaður við flutning á bensíni og dísilolíu með tankbifreið frá innflutningshöfn eða olíuhöfn til útsölustaða í byggð, þ.e. utan hálendis.
    Lagt er flutningsjöfnunargjald á viðkomandi olíuvörur og rennur það í sérstakan sjóð, flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Stjórn sjóðsins gerir tillögu til Samkeppnisstofnunar um ákvörðun gjalds er nægi til að greiða flutningskostnað af olíuvörunum frá innflutningshöfn eða olíuhöfn til annarra olíuhafna og útsölustaða. Haldnir eru sérstakir reikningar fyrir flokka olíuvara, þ.e. 1. bifreiðabensín, 2. gasolíu, 3. aðrar olíur og blöndur til brennslu, 4. flugvélabensín og 5. flugsteinolíu (þotueldsneyti). Leitast er við að láta tekjur og gjöld innan einstakra flokka standast á.
    Stjórn sjóðsins er skipuð þremur mönnum sem viðskiptaráðherra skipar. Staðgengill forstjóra Samkeppnisstofnunar er nú formaður stjórnarinnar en auk þess skipar viðskiptaráðherra einn stjórnarmann án tilnefningar. Þá sitja í stjórninni fulltrúar þeirra þriggja olíufélaga, sem annast olíudreifingu í öllum landshlutum. Olíufélögin þrjú, eða meiri hluti þeirra, fara sameiginlega með eitt atkvæði við ákvarðanatöku í stjórninni. Eitt félaganna, Olíufélagið ehf., hefur nýlega dregið fulltrúa frá félaginu til baka en hyggst tilnefna óháðan fulltrúa til setu í stjórninni.
    Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og Samkeppnisstofnun sjá um daglegan rekstur og greiðslur á kostnaði úr sjóðnum. Úrskurðar stjórnin hvað teljast skuli flutningskostnaður og skal jöfnun takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru hverju sinni.
    Markmiðið með jöfnun á flutningskostnaði olíuvara er að bæta hag einstaklinga og fyrirtækja í dreifðum byggðum. Svipuð sjónarmið liggja til grundvallar ýmiss konar styrkjakerfum á Evrópska efnahagssvæðinu. Stjórnvöld hérlendis hafa þó ekki talið að flutningsjöfnunarkerfi olíuvara feli í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins heldur ríkisstuðning með sérstökum hætti. Eftirlitsstofnun EFTA fékk mál varðandi sjóðinn til meðferðar fyrir nokkrum árum en gerði ekki athugasemdir við jöfnunarkerfið.
    Árið 2003 voru greiðslur á Íslandi vegna bifreiðabensíns um 97 millj. kr., vegna gasolíu um 379 millj. kr. og vegna annars konar olíu og blandna til brennslu, m.a. hráolíu, um 46 millj. kr. Gasolía er bæði notuð á bifreiðar og skip.
    Vestfirðir, Norðurland og Austurland fá um helmingi meira úr sjóðnum en þessir landshlutar greiða í hann. Hafa þeir landshlutar því mest gagn af sjóðnum. Greiðslurnar úr sjóðnum á árinu 2003 námu samtals um 531 millj. kr. og greiðslur úr sjóðnum á undanförnum árum hafa oft numið svipuðum fjárhæðum.
    Um verðlagningu á olíuvörum fer nú eftir samkeppnislögum. Sú regla gildir ekki lengur að olíufélög þurfi að selja ákveðna tegund af olíuvörum á sama verði um land allt. Þær raddir hafa heyrst að olíuvörur geti verið dýrari í afskekktum byggðum en á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt gerist þrátt fyrir flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Nyti hans ekki við má ætla að verðmunur helstu olíuvara væri enn meiri og slíkt kæmi m.a. niður á útgerðarfyrirtækjum. Mismunur á olíuverði getur m.a. stafað af því að birgðastöðvar, sem geta verið alldýrar í rekstri á afskekktum stöðum, njóta ekki stuðnings úr sjóðnum heldur aðeins flutningur á olíuvörum til þeirra. Þá nær jöfnunin, eins og áður segir, aðeins til viðurkenndra útsölustaða en um olíuflutninga til afskekktra staða lengra í burtu getur verið að ræða og slíkt leitt til hækkunar olíuverðs á þeim stöðum. Stærðarhagkvæmni gætir ekki heldur.