Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 960  —  579. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um viðskipti fjármálaráðuneytisins og stofnana þess við ráðningarstofur.

     1.      Skiptu ráðuneytið og stofnanir sem undir það heyra við ráðningarstofur og vinnumiðlara árin 2002, 2003 og 2004?
    Af 20 stofnunum sem heyra undir ráðuneytið skiptu átta við ráðningarstofur auk ráðuneytisins sjálfs á umræddum árum. Þessar stofnanir eru: Fjársýsla ríkisins, Ríkisskattstjóri, Skattstofan í Reykjavík, Tollstjórinn í Reykjavík, Fasteignamat ríkisins, Framkvæmdasýsla ríkisins, Ríkiskaup og ÁTVR.

     2.      Hvað var ráðið í mörg störf með þeim hætti í ráðuneytinu og í hverri stofnun?
     3.      Hversu mikið var ráðningarstofunum greitt fyrir störf sín á þessum árum af hálfu ráðuneytisins og hverrar stofnunar?

Heiti stofnunar Fjöldi starfa Greiðsla til ráðningarstofanna
Aðalskrifstofa fjármálaráðuneytisins 12 2.351.442 kr.
Fjársýsla ríkisins 2 189.000 kr.
Ríkisskattstjóri 1 8.778 kr.
Skattstofan í Reykjavík 1 56.000 kr.
Tollstjórinn í Reykjavík 6 736.030 kr.
Fasteignamat ríkisins 2 553.000 kr.
Framkvæmdasýsla ríkisins 3 745.000 kr.
Ríkiskaup 3 437.750 kr.
ÁTVR 36 4.023.232 kr.


     4.      Höfðu ráðuneytið og/eða stofnanirnar samninga við einstakar ráðningarstofur á þessum árum og þá hvaða ráðningarstofur?
    Fjármálaráðuneytið hefur ekki gert formlega samninga við einstakar ráðningarstofur. Hins vegar liggur fyrir samkomulag við STRÁ – Starfsráðningar ehf. um afslátt af gjaldskrá sem gert var að undangenginni verðkönnun. Stofnanir hafa ekki gert samninga við einstakar ráðningarstofur. Viðskipti við ráðningarstofur hafa verið um einstök verk og alltaf eftir verðkönnun. Ráðningarstofur sem skipt hefur verið við eru m.a. STRÁ – Starfsráðningar ehf., Ísgen sf., Ráðningarþjónustan, Atvinnumiðlun stúdenta, Mannafl–Liðsauki, Gallup, AM atvinnumiðstöð.

     5.      Hafa slíkir samningar verið boðnir út á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess? Ef ekki – hvers vegna ekki?
    Forstöðumenn ríkisstofnana fara með ráðningarmál starfsmanna hjá stofnunum sem þeir stýra. Það er ákvörðun einstakra stofnana ráðuneytisins hvort og þá í hvaða mæli stofnunin skiptir við ráðningarstofur og vinnumiðlara.
    Engir samningar hafa verið boðnir út á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess. Fjárhæðirnar sem hafa verið greiddar ráðningarstofunum eru undir viðmiðunareglum um útboðsskyldu og þar sem um er að ræða lágar fjárhæðir og breytilegar þarfir er ávinningur óljós af útboði en eins og áður segir hafa verðkannanir verið gerðar.