Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 362. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 989  —  362. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilhjálm Egilsson frá sjávarútvegsráðuneytinu, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Byggðastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Landssambandi fiskeldisstöðva.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem felast einkum í lagfæringum á lagatexta vegna niðurlagningar sóknardagakerfisins. Jafnframt er lagt til að ákvæði um heimild skipstjóra, sbr. bráðabirgðaákvæði XXIX í lögunum, til að ákveða að hluti af afla fiskiskips teljist ekki til aflamarks þess verði fært til almenns ákvæðis í lögunum og þar með gert ótímabundið. Loks er lagt til að heimild sem ráðherra hefur til að úthluta aflaheimildum til tilrauna með áframeldi á þorski sem að óbreyttu rennur út á þessu fiskveiðiári verði framlengd til fiskveiðiársins 2009/2010.
    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að veiðileyfi séu gefin út til eins árs í senn eins og verið hefur. Í áfangaskýrslu nefndar, sem skipuð var af sjávarútvegsráðherra til að fjalla um starfsumhverfi sjávarútvegsins, sem var gefin út í febrúar sl. er hins vegar lagt til að veiðileyfi verði almennt ótímabundin og hefur sjávarútvegsráðherra jafnframt lýst yfir stuðningi við slíka breytingu. Þá hafa hagsmunaaðilar í umsögnum um frumvarpið mælt með því að útgefin veiðileyfi samkvæmt lögunum verði ótímabundin. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til að 1. gr. frumvarpsins verði breytt í þá veru enda verður ekki annað séð en breytingin leiði til hagræðingar og einföldunar bæði hjá veiðileyfishöfum og í stjórnsýslunni. Samkvæmt tillögu nefndarinnar falla ótímabundin veiðileyfi niður hafi fiskiskipi ekki verið haldið til fiskveiða í atvinnuskyni í tólf mánuði eða þegar fiskiskip er tekið af skrá hjá Siglingastofnun Íslands eða eigendur eða útgerðir þess fullnægja ekki skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Í a-lið 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að 1. mgr. 11. gr. laganna falli brott. Í öðrum málslið þeirrar málsgreinar er mælt fyrir um að farist skip hafi útgerð þess 12 mánaða svigrúm til að flytja aflaheimildir sem skráðar voru á skipið á nýtt skip. Telur nefndin rétt að ákvæði þessa efnis verði áfram í lögunum og leggur hún til breytingu þess efnis.
    Loks leggur nefndin til að fyrsti gjalddagi veiðigjalds verði 1. október í stað 15. september eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Að öðru leyti er nefndin fylgjandi efni frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Jóhann Ársælsson og Jón Gunnarsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Kristján L. Möller og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. mars 2005.Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Guðmundur Hallvarðsson.Magnús Stefánsson.


Birkir J. Jónsson.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.