Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1000  —  549. mál.
Svarviðskiptaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um fasteignir í eigu viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margar fasteignir, þ.e. íbúðir annars vegar og lóðir hins vegar, eru skráðar í veðmálabækur sem eign viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem starfa eftir lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sundurliðað eftir fyrirtækjum og þeim embættum sem annast slíkar skráningar?

    Viðskiptaráðuneytið hefur ekki aðgang að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að svara fyrirspurninni. Var þess því óskað að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja tækju saman svar við henni (sbr. fylgiskjöl).Fylgiskjal I.


Reykjavík, 8. mars 2005
Viðskiptaráðuneytið,
bt. Kjartans Gunnarssonar
Arnarhvoli v. Lindargötu,
150 Reykjavík

Efni: Fyrirspurn frá Alþingi

Vísað er í bréf ráðuneytisins frá 23. febrúar þar sem óskað er upplýsinga frá SBV vegna fyrirspurnar þingmanns til viðskiptaráðherra um fasteignir í eigu viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana.

SBV vísa til meðfylgjandi svarbréfs um svipað efni til ráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2002. SBV geta því ekki veitt umræddar upplýsingar.

Virðingarfyllst,
Guðjón Rúnarsson,
framkvæmdastjóri.
Fylgiskjal II.


Reykjavík, 11. febrúar 2002
Viðskiptaráðuneyti,
bt. Benedikt Árnason
Arnarhvoli v. Lindargötu,
150 Reykjavík

Efni: Fyrirspurnir frá Alþingi

Vísað er í bréf ráðuneytisins, dags. 4. febrúar sl., þar sem óskað er upplýsinga frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja vegna fyrirspurnar þingmanns til viðskiptaráðherra um sparifé í bönkum og sparisjóðum.

Í tilefni af umræddri fyrirspurn þykir SBV rétt að benda á að mikilvægt er að skilja á milli opinberra upplýsinga og upplýsinga um einkamálefni. Í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors, sem unnin var fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi (þskj. 25) kemur fram að skylda ráðherra til að svara fyrirspurnum þingmanna á grundvelli 49. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, sbr. 49. gr. stjórnarskrárinnar, nái einvörðungu til fyrirspurna um opinber málefni. Jafnframt segir í álitsgerðinni að líkur séu fyrir því að málefni einstakra manna eða fyrirtækja, sem ekki lúta boðvaldi stjórnvalda, séu einkamálefni en ekki opinber málefni.

Síðan segir orðrétt: „Sé hins vegar um að ræða upplýsingar sem varða hlutafélög gilda almennar reglur hlutafélagalaga og ársreikningslaga. Þær leiða til þess að hlutafélagið sjálft er sérstakur einkaréttarlegur aðili að lögum sem hefur einnig sérstaka viðskiptavernd lögum samkvæmt.“

Allar opinberar upplýsingar um félagsrekstur fjármálafyrirtækja sem heyra til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja eru birtar í ársskýrslum þeirra á hefðbundinn hátt. Þá veita fjármálafyrirtæki reglulega upplýsingar til Fjármálaeftirlits eftir því sem óskað er lögum samkvæmt. Að öðru leyti hvíla ekki upplýsingaskyldur á fjármálafyrirtækjum gagnvart öðrum en hluthöfum sínum.

Þar sem framangreind fyrirspurn beinist að einkamálefnum viðkomandi félaga telja SBV sig ekki í aðstöðu til að verða við beiðni ráðherra. Opinberar upplýsingar um starfsemi þeirra er hins vegar að finna í ársskýrslum þessara fyrirtækja, eins og fyrr segir, auk þess sem Seðlabanki Íslands birtir reglulega almennar upplýsingar í Peningamálum um reikninga bankakerfisins.

Virðingarfyllst,
Guðjón Rúnarsson,
framkvæmdastjóri.