Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1008  —  558. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Láru Margrétar Ragnarsdóttur um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss.

     1.      Liggja nú þegar fyrir hugmyndir eða áætlun ráðherra um hvernig fjármagna skuli uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss þegar ríkisstjórnin staðfestir ákvörðun um nýbyggingu LSH?
    Hugmyndir um fjármögnun uppbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa verið töluvert til umræðu undanfarna mánuði og þeim voru m.a. gerð nokkur skil í áfangaskýrslu nefndar um uppbyggingu sjúkrahússins sem skilað var í apríl 2003.
    Fjármögnunarleiðum er oft skipt í opinbera fjármögnun og einkaframkvæmd. Opinber fjármögnun í þessu tilviki gæti verið útfærð með ýmsum hætti. Hún gæti til að mynda byggst á sölu eigna Landspítala – háskólasjúkrahúss, t.d. við Vífilsstaði og í Fossvogi, eins og gert er ráð fyrir í tillögum nefnda sem skilað hafa áliti um þetta efni og kynntar hafa verið opinberlega. Þá hefur þeirri hugmynd verið hreyft að mögulega mætti verja hluta af söluandvirði Símans til að byggja upp nýjan spítala. Einnig væri hugsanlegt að fé kæmi til þessara framkvæmda úr ríkissjóði án sértækra fjármögnunaraðferða. Mikilvægast er, þegar fyrir liggur ákvörðun um byggingu, að áætlun liggi fyrir um kostnað og áfangaskiptingu svo að unnt sé að gera áætlanir um fjárstreymi með skilvirkum hætti.
    Einkaframkvæmd og einkafjármögnun hefur verið skoðuð í þessu sambandi og ljóst er að tilteknir hlutar þessarar miklu framkvæmdar gætu fallið vel að þess konar fjármögnun.
    Ríkisstjórn og fjárveitingarvald ákveða fjármögnun framkvæmda ef af verður, en mikilvægast er að huga að því að byggingartíminn getur orðið langur og skynsamlegt er að geta hagað uppbyggingu og fjármögnun eftir þjóðhagslegum aðstæðum í samfélaginu á hverjum tíma.

     2.      Hefur ráðherra ákveðið hvers kyns eignarform verður á væntanlegri nýbyggingu LSH, t.d. hvort byggingar verði í ríkiseigu eða leigðar af einkaaðilum?
    Spurning um eignarform á þessu stigi málsins er ekki tímabær fyrr en formleg ákvörðun hefur verið tekin um nýbygginguna. Þó er hægt að segja að ekkert sé útilokað enda ráði ýtrasta hagkvæmni för.
    Að lokum skal tekið fram að nú stendur yfir val á hópum sem taka munu þátt í skipulagssamkeppni um framkvæmdasvæðið. Þegar skipulag liggur fyrir er fyrst unnt að ræða um hugsanlegt fyrirkomulag einstakra bygginga, og þá verður einfaldara að sjá með hvaða hætti skynsamlegt yrði að fjármagna hvern þátt verksins.