Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 639. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1011  —  639. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Róbert Ragnarsson frá félagsmálaráðuneyti, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Benedikt Guðmundsson, bæjarlögmann Hafnarfjarðarbæjar.
    Frumvarpið er lagt fram til að breyta kjördegi samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögunum. Lengri tíma hefur tekið að ná samkomulagi um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga en gert var ráð fyrir. Því hefur dregist að sameiningarnefnd hafi getað kynnt endanlegar tillögur sínar og ljóst er að ekki er nægur tími til stefnu til að kynna tillögurnar nægjanlega og fjalla um þær í sveitarfélögunum fyrir kjördag. Þá er undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar kominn misjafnlega vel á veg á einstökum stöðum.
    Í frumvarpinu er lagt til að atkvæðagreiðsla um einstakar sameiningartillögur fari fram laugardaginn 8. október nk. í stað 23. apríl nk., þó þannig að samstarfsnefnd á hverjum stað verði heimilað að ákveða að atkvæðagreiðsla fari fyrr fram ef það er mat nefndarinnar að sameiningartillaga muni hljóta næga kynningu meðal íbúa fyrir kjördag. Slík ákvörðun verður ekki tekin nema með stuðningi aukins meiri hluta nefndarmanna.
    Nefndin bendir á að frumvarpið kemur ekki í veg fyrir að þau sveitarfélög sem lengst eru á veg komin með undirbúning atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar geti kosið um sameiningu á þeim tíma sem upphaflega var gengið út frá. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að kosið verði um sameiningu Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps, Skorradalshrepps og Kolbeinsstaðahrepps 23. apríl nk.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um það ákvæði frumvarpsins að aukinn meiri hluta nefndarmanna þyrfti til að taka ákvörðun um kosningu fyrir 8. október. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að átt sé við 2/ 3 hluta greiddra atkvæða. Nefndin telur rétt að þetta komi fram í lagatextanum sjálfum og gerir því tillögu um að honum verði breytt á þann veg.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „með auknum meiri hluta atkvæða“ í fyrri efnismálslið b-liðar 1. gr. komi: með að lágmarki 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða.

    Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.
    Gunnar Örlygsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 2005.Siv Friðleifsdóttir,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Pétur H. Blöndal.Guðlaugur Þór Þórðarson.


Birkir J. Jónsson.


Einar Már Sigurðarson.Helgi Hjörvar.


Björgvin G. Sigurðsson.