Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 675. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1028 —  675. mál.
Frumvarp til lagaum happdrætti.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um hvers konar happdrætti með þátttöku almennings, með eða án framlags, þar sem vinningur er valinn að nokkru eða öllu leyti með tilviljunarkenndum hætti eða vinningur ræðst af úrslitum keppni eða atburðar. Lögin gilda enn fremur um happdrætti sem rekin eru í atvinnuskyni þótt þau séu ekki opin almenningi.
    Ráðherra mælir nánar fyrir um skilgreiningu, gerðir og flokka happdrætta í reglugerð.

2. gr.
Starfræksla happdrætta.

    Óheimilt er að reka happdrætti nema með leyfi ráðherra eða öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum þessum. Leyfið skal bundið nánari skilyrðum í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Þá eru hlutaveltur óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra.
    Happdrætti þar sem spilað er um peninga eða peningaígildi er óheimilt að reka nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Skal í lögunum kveðið á um fyrirkomulag happdrættis, gjöld, rekstrarskilyrði og rekstrarform. Um happdrætti samkvæmt þessari málsgrein skulu að öðru leyti gilda ákvæði 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 5. gr., 6. gr. og 9.–11. gr.

3. gr.
Leyfisveiting.

    Leyfi til að reka happdrætti eða hlutaveltu, sbr. 1. mgr. 2. gr., má einungis veita félagi, samtökum eða stofnun sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, í þeim tilgangi að afla fjár til almannaheilla hér á landi, svo sem til þjóðfélags-, líknar-, menningar-, íþrótta- eða góðgerðarmála, svo og til alþjóðlegs mannúðarstarfs. Óheimilt er að veita leyfi til aðila er hyggjast reka happdrætti í öðru skyni.
    Leyfi fyrir happdrætti má eigi veita sama aðila oftar en tvisvar sinnum á hverju almanaksári.
    Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að sýslumenn annist leyfisveitingar fyrir minni háttar happdrættum þar sem heildarfjárhæð vinninga fer eigi fram úr nánar tilteknum fjárhæðarmörkum. Þá getur ráðherra heimilað með reglugerð að sýslumenn veiti leyfi fyrir staðbundnum veðmálahappdrættum.

4. gr.
Undanþága frá leyfisskyldu.

    Ráðherra getur undanþegið leyfisskyldu minni háttar happdrætti sem félag eða hópur efnir til í skemmtana- eða fjáröflunarskyni. Skal þá miðað við að vinningar séu vara eða þjónusta. Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þeirra í reglugerð.

5. gr.
Skilyrði leyfisveitingar.

    Happdrættisleyfi er heimilt að binda því skilyrði að útgjöld til auglýsinga verði ekki umfram ákveðið mark og einnig að leyfishafi leggi fé af mörkum til rannsókna og aðgerða sem miða að því að sporna gegn spilafíkn og afleiðingum hennar.
    Happdrættisleyfi skal að jafnaði bundið því skilyrði að ekki megi draga oftar en einu sinni í happdrættinu. Skal sölutímabil happdrættisins að hámarki vera tveir mánuðir frá þeim degi sem tiltekinn er í happdrættisleyfi. Heimilt er þó, ef sérstakar ástæður mæla með því, að framlengja sölutímann um einn mánuð. Ráðherra kveður nánar á um fyrirkomulag útdráttar í reglugerð.

6. gr.
Lágmarksaldur.

    Ráðherra getur við leyfisveitingu kveðið á um lágmarksaldur þeirra sem taka mega þátt í happdrætti en skal hann þó eigi vera lægri en 18 ár.

7. gr.
Verðmæti vinninga.

    Í reglugerð skal kveðið á um hlutfall verðmætis vinninga af heildarsöluverði útgefinna miða í hverjum einstökum happdrættisflokki. Skal hlutfallið þó vera að lágmarki 35%.

8. gr.
Leyfisgjald.

    Fyrir happdrættisleyfi skal greiða leyfisgjald í samræmi við ákvæði laga um aukatekjur ríkissjóðs.

9. gr.
Skyldur leyfishafa.

    Leyfishafi happdrættis skal sjá til þess að skilyrðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim sé framfylgt. Skal hann skila skýrslum eða reikningum um rekstur sinn samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

10. gr.
Eftirlit.

    Eftirlit með framkvæmd laga þessara er í höndum dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Nú er stofnað til sérstaks kostnaðar vegna eftirlitsins með þátttöku sérfróðra manna til að fara yfir skýrslur eða reikninga leyfishafa, sbr. 9. gr., til að fara yfir hugbúnað eða tækjakost leyfishafa eða athuga sérstaklega hvort skilyrðum laga þessara sé fullnægt, og er þá heimilt að krefja viðkomandi leyfishafa um greiðslu á kostnaði sem stofnað er til í þessu skyni.

11. gr.
Refsingar.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum, ef maður
     a.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi rekur happdrættis- eða veðmálastarfsemi hér á landi án þess að hafa til þess happdrættisleyfi samkvæmt lögum þessum,
     b.      af ásetningi eða stórfelldu gáleysi auglýsir, kynnir eða miðlar hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum þessum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna.
    Nú er brotastarfsemi sem fellur undir 1. mgr. umfangsmikil eða ítrekuð, og getur hún þá varðað fangelsi allt að einu ári.
    Það varðar sektum ef maður af ásetningi eða stórfelldu gáleysi
     a.      í atvinnuskyni og án heimildar happdrættisleyfishafa auglýsir, kynnir, miðlar eða stuðlar að þátttöku í happdrætti sem rekið er samkvæmt lögum þessum,
     b.      falbýður án heimildar happdrættisleyfishafa hvers konar happdrættisgögn.
    Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.

12. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

13. gr.
Gildistökuákvæði og brottfall eldri laga.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 6 15. júní 1926, um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), með síðari breytingum, lög nr. 23 30. janúar 1945, um heimild fyrir dómsmálaráðherra til þess að veita leyfi til veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður, lög nr. 15 31. janúar 1952, um heimild til að leyfa héraðssamböndum íþrótta- og ungmennafélaga að stofna til sérstakrar tegundar happdrættis, og lög nr. 89 28. desember 1957, um happdrætti í sambandi við skuldabréfalán Flugfélags Íslands.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu og felur það í sér heildarendurskoðun á reglum um leyfisveitingu til starfrækslu almennra happdrætta, sbr. lög nr. 6 15. júní 1926, um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur).
    Umræður um endurskoðun happdrættislaganna frá 1926 er ekki ný af nálinni. Fróðlega umfjöllun um lagaumgjörð happdrætta á Íslandi er að finna í skýrslu nefndar um framtíðarskipan happdrættismála á Íslandi sem gefin var út af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árið 1999, sjá www.domsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/skyrslur_til_radherra/nr/685.
    Nefndin um framtíðarskipan happdrættismála komst að þeirri niðurstöðu að margt mætti betur fara í skipan happdrættisstarfsemi hér á landi. Löggjöfin væri ófullkomin og ósamstæð og nauðsynlegt væri að bæta úr því þannig að fyrir hendi væri skýr lagagrundvöllur um þessa umfangsmiklu starfsemi. Í niðurstöðukafla nefndarinnar segir að nefndin telji brýnt að fram fari endurskoðun og setning nýrra laga um happdrættismálefni.
    Þá hefur þróunin í Evrópu og kröfur vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu knúið dyra og þykja ákvæði laganna frá 1926 ekki vera í fullu samræmi við skyldur vegna aðildarinnar. Stefna Evrópusambandsins í happdrættismálefnum er í mótun. Innan þess hafa öflugir hagsmunaaðilar í einstökum löndum lagt þunga áherslu á að ekki verði hróflað við þeirri skipan sem tryggir að unnt sé að nýta tekjur af happdrættum til þjóðþrifamála heima fyrir auk þess sem gerðar séu ráðstafanir til að sporna gegn afbrotum og fíkn vegna happdrætta og fjárhættuspila hvers konar. Á þessari stundu verður ekkert fullyrt um inntak þeirra efnisreglna sem um þetta munu gilda á Evrópska efnahagssvæðinu þegar fram líða stundir. Í mörgum ríkjum eru meginreglur hinar sömu og hér á landi og byggjast á siðfræðilegum og menningarlegum grunni; happdrættisstarfsemi er bönnuð nema með leyfi eða í umsjá yfirvalda. Er ágóðanum fundinn vís staður þannig að tryggt sé að hann renni til fyrir fram ákveðinna málefna.
    Núverandi skipan happdrættismála hér á landi hefur sætt gagnrýni Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Stofnunin telur það brjóta í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að hér skuli happdrættisstarfsemi bundin við íslensk fyrirtæki. Í frumvarpinu er komið til móts við þessa gagnrýni ESA, án þess að horfið sé frá þeirri meginreglu að starfsemin sé háð leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
    Við endurskoðun happdrættislaganna frá 1926 hefur ekki verið hróflað við sérlögum um peningahappdrætti og vöruhappdrætti, þ.e. Happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 13 13. apríl 1973, Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sbr. lög nr. 16 13. apríl 1973, Happdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, sbr. lög nr. 18 22. apríl 1959, um getraunir (Íslenskar getraunir), sbr. lög nr. 59 29. maí 1972, um talnagetraunir (Íslenska getspá), sbr. lög nr. 26 2. maí 1986, og um söfnunarkassa, sbr. lög nr. 73 19. maí 1994.
    Gert er ráð fyrir að áfram verði mælt fyrir um þessi happdrætti í sérstökum lögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Samkvæmt ákvæðinu er jafnframt gert ráð fyrir að ýmis ákvæði laganna, ef samþykkt verða, gildi jafnframt um peningahappdrætti sem fá leyfi til starfrækslu samkvæmt sérstakri lagaheimild. Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu er verið að undirbúa breytingar á sérlögum um peningahappdrætti þar sem meðal annars verður tekin afstaða til þess, hvort afnema beri einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands og fella niður einkaleyfisgjald þess en bæta ríkissjóði tekjutap vegna þess með sérstakri gjaldtöku á þá sem fá leyfi til að starfrækja peningahappdrætti og annað sem fellur undir leyfilegt fjárhættuspil.
    Frumvarpið hefur að geyma ákvæði um ýmis grundvallaratriði sem dóms- og kirkjumálaráðherra ber að hafa í huga við veitingu happdrættisleyfis. Má þar sérstaklega nefna ákvæði frumvarpsins, sem er að finna í 1. mgr. 3. gr., um að einungis megi veita leyfi félagi, samtökum eða stofnun sem staðfestu hafa á Evrópska efnahagssvæðinu ef þau starfa í þeim tilgangi að afla fjár til almannaheilla hér á landi, svo sem til þjóðfélags-, líknar-, menningar-, íþrótta- eða góðgerðarmála, svo og til alþjóðlegs mannúðarstarfs.
    Þá er lagt til í 1. mgr, 5. gr. að ráðherra hafi heimild til að binda leyfi til að reka happdrætti því skilyrði að útgjöld vegna auglýsinga séu innan ákveðinna marka auk þess sem leyfishafi leggi af mörkum fé til rannsókna og aðgerða sem miða að því að sporna gegn spilafíkn og afleiðingum hennar.
    Eins og áður sagði er markmið frumvarpsins að setja almenna lagaumgjörð um happdrætti. Fjallað verði um leyfisveitingarnar, hverjir geti sótt um leyfi, skilyrði fyrir þeim, undanþágur, leyfisgjöld og þær skyldur er hvíla á leyfishöfum. Núgildandi lög eru hljóð um þessi atriði og er það mjög til baga.
    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinu sérstöku eftirlitskerfi með happdrættum heldur verði það í höndum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem getur leitað til sérfróðra aðila til að sinna einstökum þáttum eftirlitsins, ef svo ber undir, og er í slíkum tilvikum heimilt að krefja viðkomandi leyfishafa um greiðslu á reikningsfærðum kostnaði við eftirlitið, sbr. 11. gr. frumvarpsins.
    Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar hér á eftir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin gildi um hvers konar happdrætti eins og nánar er skilgreint í ákvæðinu. Gerðir happdrætta eru fjölmargar og í ljósi hinnar öru þróunar á markaðinum er nær ógerlegt að festa þau niður í lagatexta svo að vel sé. Þess í stað er lagt til að ráðherra geti kveðið nánar á um skilgreiningu, gerðir og flokka happdrætta í reglugerð. Sem dæmi um gerðir og flokka happdrætta má nefna miðahappdrætti, sem geta skipst í flokkahappdrætti, skyndihappdrætti, skafmiðahappdrætti og tombóluhappdrætti. Aðrar gerðir happdrætta eru getraunahappdrætti, veðmálahappdrætti, bingóhappdrætti og nethappdrætti, svo að einhver dæmi séu tekin, en gerðir happdrætta eru eins og áður segir fjölmargar og taka sífelldum breytingum. Hafa ber í huga að um peningahappdrætti gilda sérreglur og er ekki heimilt að starfrækja þau nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Auk lögbundnu happdrættanna á þetta við um starfrækslu happdrætta á netinu, séu þau peningahappdrætti á annað borð, og fjárhættuspil.

Um 2. gr.

    Hér er fjallað um heimild til að starfrækja happdrætti. Áfram er gert ráð fyrir að sérstaka lagaheimild þurfi til að starfrækja happdrætti þar sem spilað er um peninga eða peningaígildi, sbr. það sem fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan.
    Önnur happdrætti verði einungis heimilt að starfrækja með leyfi ráðherra nema lög eða reglugerðir mæli fyrir um undantekningu þar á.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. koma fram almenn skilyrði þess að fá happdrættisleyfi. Meginkrafan er að til happdrætta á Íslandi sé stofnað til að efla nánar skilgreinda starfsemi innan lands eða alþjóðlegt mannúðarstarf. Með ákvæðinu er vísað til þeirrar hefðar sem mótast hefur við úthlutun á happdrættisleyfum í áranna rás. Er mikils virði að fá þá hefð staðfesta af löggjafanum. Ákvæðið byggist á því almenna sjónarmiði að þessi starfsemi sé háð leyfi með vísan til markmiða með henni sem þjóna almannaheill. Þegar rætt er um þjóðfélagsmál í greininni er vísað til happdrætta sem til er stofnað í þágu ákveðins viðurkennds málstaðar eða til að ná einhverju skilgreindu lýðræðislegu markmiði, til dæmis í kosningum. Krafan um að ágóði renni til líknar-, menningar-, íþrótta- eða góðgerðarmála er byggð á skýrum efnislegum forsendum. Aðilar sem stunda alþjóðlegt mannúðarstarf eru til dæmis Rauði krossinn, Hjálparstofnun kirkjunnar og sambærileg samtök eða félög til stuðnings við þá sem minna mega sín erlendis vegna fátæktar eða skorts á mannréttindum.
    Í ljósi athugasemda, sem borist hafa frá Eftirlitsstofnun EFTA um 2. gr. gildandi happdrættislaga, er lagt til að leyfisveitingin verði ekki bundin við innlenda lögaðila heldur nái til lögaðila sem hafi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. Þeir aðilar eru þó bundnir hinum almennu skilyrðum um leyfi sem lýst er í þessari grein frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Sum minni háttar happdrætti eru þess eðlis að eðlilegt þykir að undanþiggja þau ákvæðum laganna. Um áratuga skeið hefur tíðkast á árshátíðum starfsmannafélaga eða öðrum slíkum samkomum, sem ekki eru opnar almenningi, að efnt sé til happdrættis með vinningum sem jafnan eru lágir að verðgildi. Viðkomandi fær afhentan eða kaupir aðgöngumiða að samkomunni sem gildir þá jafnframt sem happdrættismiði.
    Hér er við það miðað að vinningar skuli vera annaðhvort vörur eða þjónusta en ekki peningar. Þá er það jafnframt skilyrði að vinningar skuli dregnir út á samkomunni sjálfri. Nauðsynlegt þykir að þessi tegund happdrætta, sem verði undanþegin leyfisskyldu, verði afmörkuð nánar, þar á meðal um hámarksfjárhæð vinninga. Því þykir rétt að sett verði nánari ákvæði í reglugerð um þau.

Um 5. gr.

    Hér er að finna mikilvægt ákvæði sem lýtur að þeirri viðleitni að sporna gegn spilafíkn. Annars vegar er um að ræða heimild fyrir dóms- og kirkjumálaráðherra að binda happdrættisleyfi því skilyrði að sett verði ákveðið þak á útgjöld til auglýsinga og hins vegar að leyfishafi leggi fé af mörkum til rannsókna og aðgerða sem miða að því að sporna gegn spilafíkn og afleiðingum hennar. Ráðherra þarf ekki að velja á milli þessara skilyrða heldur getur sett sama aðila að fullnægja þeim báðum. Í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um hve hátt þak á auglýsingar eða gjald til rannsókna og aðgerða gegn spilafíkn skuli vera. Þykir ekki ástæða til þess að hafa sérgreind ákvæði um það í þessu frumvarpi til happdrættislaga heldur verði afstaða tekin til útfærslu á ákvæðinu í sérlögum um peningahappdrætti, enda komi það einkum í hlut þeirra að lúta reglum af þessum toga þótt þessi almenna heimild sé lögfest hér og unnt sé að beita henni við útgáfu happdrættisleyfa almennt, ef þörf þykir.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði um skilyrði sem sett eru um fyrirkomulag happdrættisins. Miða þau að því að hafa skýr tengsl á milli þess happdrættis sem á að halda og þess leyfis sem veitt er í því sambandi. Auðveldar það m.a. eftirlit með happdrættum.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði sú regla að lágmarksaldur til þátttöku í happdrættum verði 18 ár, þ.e. lögræðisaldur. Jafnframt er ráðgert að við veitingu leyfis fyrir einstökum happdrættum geti ráðherra kveðið á um hærri lágmarksaldur. Meginreglan grundvallast á því sjónarmiði að sumar tegundir happdrætta séu þess eðlis að ekki er ráðlegt að einstaklingar yngri en 18 ára taki þátt í þeim. Má þar t.d. nefna spilavélar sem eru með peningavinninga. Reyndar hefur þegar verið sett 18 ára aldurstakmark í reglugerðir um slíka starfsemi. Með þessu móti verði leitast við að koma í veg fyrir að börn byrji of ung að taka þátt í spilum og happdrættum af mismunandi gerðum og vinna þannig gegn þeirri áhættu að þátttaka í spilum geti leitt til vandamála eða jafnvel spilafíknar. Erlendar rannsóknir hafa m.a. bent til þess að hætta á spilafíkn geti verið líklegri hjá þeim sem hefja þátttöku í spilum ungir að árum.

Um 7. gr.

    Í greinni er gert ráð fyrir að settar verði reglur um hlutfall verðmætis vinninga af heildarsöluverði útgefinna miða í hverjum einstökum happdrættisflokki.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að fyrir happdrættisleyfi skuli greiða gjald sem ákvarðað verði í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Hingað til hafa skyndihappdrætti verið gjaldskyld skv. 48. tölul. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum. Er gjaldið í dag 5.500 kr. Ekki er gert ráð fyrir að verulegar breytingar verði á gjaldtöku fyrir skyndihappdrætti, en aftur á móti er hér miðað við að lagt verði gjald á allar tegundir happdrætta. Er það m.a. í samræmi við það sem tíðkast í öllum nágrannaríkjum okkar.
    Gert er ráð fyrir að um peningahappdrætti gildi sérreglur og að kveðið verði á um gjald vegna þeirra í sérlögum um þau.

Um 9. gr.

    Leyfishafa ber að ganga úr skugga um að búið sé að afla tilskilins leyfis áður en happdrætti er hrundið í framkvæmd. Í leyfisbréfi er jafnan tekið fram hver heimilaður fjöldi útgefinna miða er, hversu margir vinningarnir eru og fjárhæð þeirra. Þá þarf að koma fram hvenær dregið er og hvar hægt sé að nálgast upplýsingar um útdráttinn. Yfirleitt er áskilnaður um að vinningsnúmer skuli auglýst í Lögbirtingablaðinu að loknum drætti. Þá ber leyfishafa að senda ráðuneytinu reikningsyfirlit happdrættisins, þ.e. uppgjör, áður en 6 mánuðir eru liðnir frá því að happdrættinu lauk. Leyfishafa ber að sjá til þess að gætt sé allra laga og reglna um happdrætti, svo sem að þátttakendur uppfylli aldursskilyrði.
    Fyrrgreind skilyrði gilda um venjuleg happdrætti þar sem miðar eru prentaðir út og seldir. Að því er snertir önnur form happdrætta, t.d. skafmiða, bingó o.fl., er um líkar skyldur að ræða, en einnig aðrar skyldur sem leiðir af formi happdrættisins og er nauðsynlegt að kveðið verði nánar á um þær í reglum sem settar verða. Þær lúta fyrst og fremst að skyldu um upplýsingar til þátttakenda um vinninga, um útdrátt þeirra, um birtingu og greiðslu vinninga, svo og skýrslur og reikningsskil um viðkomandi happdrætti til stjórnvalda.
    Í reglugerð yrði unnt að setja ákvæði um tímabundið leyfi til ákveðinnar starfsemi, t.d. til að reka bingó, og skilyrði um að leyfi yrði ekki endurnýjað nema að fullnægðum kröfum um reikningsskil og yfirlit yfir starfsemina.

Um 10. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið er það ekki markmið þess að komið verði á fót sérstökum opinberum eftirlitsaðila með happdrættum heldur verði það í höndum dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem leyfisveitanda að sjá til þess að starfsemi á grundvelli ákvæða þessa frumvarps sé í samræmi við þau og reglugerðir og reglur sem settar verða með vísan til þeirra. Í einstaka tilvikum kann hins vegar að vera þörf á því að kalla til sérfróða aðila í því skyni að leggja mat á starfsemi sem verður sífellt sérhæfðari með nýrri tækni. Sé það gert og stofnað til sérstakra útgjalda vegna slíks eftirlits er eðlilegt að heimild sé í lögum til að krefja viðkomandi leyfishafa um greiðslu á reikningsfærðum kostnaði við eftirlitið.

Um 11. gr.

    Í samræmi við meginregluna um skýrleika refsiheimilda er m.a. lagt til að sett verði ítarlegt ákvæði um þá háttsemi að reka happdrættis- eða veðmálastarfsemi án leyfis og auglýsa eða kynna slíka starfsemi. Jafnframt verði refsivert að auglýsa og kynna happdrætti án heimildar happdrættisleyfishafa o.fl. Með þessu móti er lögð áhersla á að happdrætti án sérstakrar heimildar eru bönnuð og brot gegn því banni eru litin alvarlegum augum.

Um 12. gr.

    Hér er gert ráð fyrir almennri reglugerðarheimild, en auk hennar eru sérstakar reglugerðarheimildir annars staðar í frumvarpstextanum.

Um 13. gr

    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí 2005. Þá falli jafnframt úr gildi fern lög, þ.e. happdrættislögin frá 1926 og síðan gömul lög frá 1945, 1952 og 1957 en þau verða óþörf í ljósi ákvæða 3. mgr. 3. gr.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um happdrætti.

    Markmið frumvarps þessa er að setja almenna lagaumgjörð um leyfisskyld happdrætti og heildstæðar reglur um leyfisveitingar til starfrækslu happdrætta. Í frumvarpinu eru ákvæði um hvernig fjallað skuli um leyfisumsóknir, hverjir geti sótt um leyfi, skilyrði fyrir þeim, undanþágur, leyfisgjald og þær skyldur sem hvíla á leyfishöfum. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð.
    Samkvæmt núverandi ákvæði aukatekjulaga er innheimt leyfisgjald af skyndihappdrættum, sem nú nemur 5.500 kr. Í frumvarpinu er lagt til að gjaldið verði lagt á allar tegundir happdrætta en þar sem gjaldið er lágt skilar það óverulegum tekjum. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að krefja megi leyfishafa um greiðslu fyrir sérstakan kostnað við eftirlitsathuganir sérfróðra aðila, t.d. endurskoðenda eða tæknimanna. Um er að ræða heimildarákvæði sem ekki virðist ástæða til að ætla að reyni oft á og er því ekki reiknað með að þær tekjur verði umtalsverðar.