Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 681. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1037  —  681. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á skaðabótalögum nr. 50/1993, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.

    4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragast eingreiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skal einnig draga frá skaðabótakröfu. Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði, almannatryggingum eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu.

2. gr.

    1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skulu vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5.–8. gr. án frádráttar. Bætur skulu þó ekki nema lægri fjárhæð en 3.000.000 kr. nema sérstaklega standi á.

3. gr.

         Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Skaðabótalögum, nr. 50/1993, var breytt með lögum nr. 37/1999 og hafði sú breyting mikla réttarbót í för með sér. Hins vegar voru þá jafnframt lögleiddar frádráttarreglur vegna greiðslna frá þriðja aðila sem hafa komið nokkuð hart niður á alvarlega slösuðu fólki og ekkjum og ekklum.
    Alvarlega slasað fólk sem metið er með meira en 50% varanlega örorku á rétt á örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir sem verst eru settir eiga einnig rétt á ýmiss konar viðbótargreiðslum, svo sem tekjutryggingu, tekjutryggingarauka, heimilisuppbót, bensínstyrk o.fl. Fyrir breytinguna árið 1999 voru greiðslur af þessum toga ekki dregnar frá skaðabótum.



Prentað upp.
Eftir breytinguna 1999 hafa slíkar bætur hins vegar verið dregnar frá þessum hópi skv. 4. mgr. 5. gr. laganna sem hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér þar sem það er alls ekki öruggt að viðkomandi fái greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins um ókomna framtíð. Það getur m.a. ráðist af hjúskaparstöðu viðkomandi tjónþola og lagabreytingum í framtíðinni. Þá geta tekjur tjónþola haft áhrif til skerðingar, bæði launatekjur og fjármagnstekjur.
    Með breytingunni 1999 voru bætur til eftirlifandi maka lækkaðar verulega þannig að nú eru dregnar frá „ímyndaðar“ greiðslur sem hinn látni maki fær ekki, þ.e. ef hinn látni hefði lifað af slysið hefði hann átt rétt á bótum frá almannatryggingum og úr lífeyrissjóði sínum vegna örorkunnar. Þær greiðslur fær hann ekki en samkvæmt núgildandi ákvæði 1. mgr. 13. gr. laganna á engu síður að taka tillit til þessara greiðslna eins og þær hefðu verið greiddar og draga þær frá áður en tjón makans er reiknað út.
    Með hliðsjón af því sem að framan greinir og sanngirnissjónarmiðum leggur allsherjarnefnd til tvenns konar breytingar á skaðabótalögum, annars vegar að í 4. mgr. 5. gr. laganna verði kveðið á um að eingöngu eingreiðslur frá almannatryggingum dragist frá bótum til tjónþola í stað greiðslna frá almannatryggingum eins og nú er og hins vegar að orðunum „án frádráttar“ verði bætt við ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna til að koma í veg fyrir að bætur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði verði dregnar frá bótum til eftirlifandi maka. Með þessu verður komið í veg fyrir frádrátt frá bótum í þeim tilvikum þegar um er að ræða alvarlega slasaða einstaklinga og ekkjur og ekkla.