Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 686. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1044 —  686. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Á eftir orðunum „Tekjur af úrvinnslugjaldi samkvæmt lögum þessum“ í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: þ.m.t. vaxtatekjur.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. september 2005“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II og í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum kemur: 1. janúar 2006.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en ákvæði 1. gr. kemur þó til framkvæmda frá og með 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögunum að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi skuli renna til Úrvinnslusjóðs. Í því felst einnig að reiknaðir verði vextir á skuld sem myndast kann gagnvart ríkissjóði. Sjóðurinn hefur til þessa ekki fengið vaxtatekjur heldur hafa þær runnið í ríkissjóð. Í 4. gr. laganna segir að vöruflokkum skuli skipta í uppgjörsflokka og skal tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til þess að mæta gjöldum þess flokks. Ákvörðun gjaldsins byggist á áætlun um magn og útgjöld. Sé gjaldtaka umfram útgjöld eiga vaxtatekjur að lækka þá upphæð sem innheimta þarf af viðkomandi vöruflokki. Ekki er því æskilegt að láta hluta teknanna, vaxtatekjur, renna í ríkissjóð, enda er skýrt kveðið á um að úrvinnslugjald eigi að innheimta til að standa undir sérgreindu endurgjaldi, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Vaxtatekjur voru á sínum tíma greiddar til spilliefnanefndar af spilliefnagjaldi sem lagt var á samkvæmt lögum um spilliefnagjald, nr. 56/1996. Í lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, er tekið fram að Úrvinnslusjóður taki við öllum sjóðum og skuldbindingum spilliefnanefndar. Í frumvarpi þessu er einnig höfð hliðsjón af 12. og 13. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, þar sem kveðið er á um að meðal tekna ofanflóðasjóðs séu vaxtatekjur. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að Úrvinnslusjóður fái vexti af úrvinnslugjaldi frá og með 1. janúar 2005.
    Hins vegar er lagt til að gildistaka ákvæðis í 7. gr. a sé frestað, sbr. ákvæði til bráðabirgða II og III í lögunum. Í erindi Úrvinnslusjóðs til umhverfisráðuneytisins var óskað eftir að gildistöku ákvæðis sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa og plastumbúðir verði frestað til 1. janúar 2006, eða um fjóra mánuði. Ekki er lagt til að frestað verði greiðslum vegna móttöku á bylgjupappaumbúðum sem hefjast þann 1. apríl 2005 né vegna annarra umbúða sem hefjast 1. mars 2006. Við frestun á ákvæði til bráðabirgða II þarf einnig að fresta ákvæði til bráðabirgða III en það kveður á um að greiða skuli áfram úrvinnslugjald á samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvöruumbúðir samkvæmt tollskrárnúmerum þar til nýtt kerfi tekur gildi. Mat Úrvinnslusjóðs á þörfinni á því að fresta þurfi framangreindu ákvæði byggist á samráði við sérstaka verkefnisstjórn sem stofnuð hefur verið af hagsmunaaðilum til að hafa umsjón með framkvæmd laga nr. 128/2004, um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Verkefnisstjórninni er ætlað að tryggja gott upplýsingaflæði milli aðila með framkvæmd á álagningu úrvinnslugjalds á pappa- og plastumbúðir og vera Úrvinnslusjóði og öðrum er koma að framkvæmdinni til ráðgjafar. Verkefnisstjórnina skipa fulltrúar frá Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi íslenskra stórkaupmanna, tollstjóra, fyrir hönd tollmiðlara, fulltrúi frá TVG-Ziemsen, LÍÚ og Félagi fiskframleiðenda og fulltrúar frá Úrvinnslusjóði.
    Ein meginástæða þess að framangreind verkefnisstjórn telur að fresta þurfi gildistöku ákvæðis 7. gr. a er að atvinnulífið þurfi lengri aðlögunarfrest til að geta skilað inn upplýsingum um þyngd umbúða. Í 7. gr. a er byggt á þeirri meginreglu að innflytjendum beri að gefa upp þyngd umbúða þegar vara er flutt inn til landsins. Útreikningur á umbúðamagni getur verið flókinn og gefa þarf innflytjendum aðlögunarfrest til þess að fá fullnægjandi upplýsingar frá framleiðendum. Í dag er kerfið byggt þannig upp að ef ekki er hægt að nálgast nákvæmar upplýsingar um umbúðir utan um vöru má beita ákveðnum reiknireglum sem kveða á um að 15% af þyngd vöru teljist umbúðir sem greitt skuli af ef engar upplýsingar eru til um raunþyngd umbúða. Verkefnisstjórnin telur að setja þurfi fleiri reiknireglur þar sem gera má ráð fyrir að stór hluti innflytjenda geti ekki veitt upplýsingar um raunþyngd umbúða í vörusendingu en 15% reglan er ónákvæm. Verkefnisstjórnin telur því að lengri aðlögunartíma þurfi til að gera tillögu að nýjum reiknireglum sem verða þannig úr garði gerðar að innflytjendur og framleiðendur geti nýtt sér þær í upphafi álagningartímans með meiri sanngirni í álagningu en nú er í lögum.
    Einnig má benda á að vinna við breytingar hjá tollstjóra á tollskýrslu er aðeins fyrsta skrefið til að uppfylla lögin þannig að unnt sé að innheimta úrvinnslugjald af pappa- og plastumbúðum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Þegar vinnu við breytingar á tollskýrslu hjá tollstjóra er að fullu lokið þarf að kynna niðurstöður þeirrar vinnu fyrir hugbúnaðarhúsum sem aftur þurfa að aðlaga og breyta tollakerfum fyrirtækja sem kaupa af þeim þjónustu. Verkefnisstjórn telur að tími til slíkra breytinga sé orðinn mjög takmarkaður og mundi frestun álagningar úrvinnslugjalds á umbúðir til 1. janúar 2006 bæta mjög úr.
    Tekjur Úrvinnslusjóðs af úrvinnslugjaldi vegna álagningar á pappa- og plastumbúðir er í rekstraráætlun fyrir árið 2005 76,5 millj. kr. Það eru 63 millj. kr. vegna pappaumbúða og 13,5 milljónir kr. vegna plastumbúða. Þær munu tapast og valda því að jafnvægi verður komið á sjóð pappa- og plastumbúða fjórum mánuðum síðar en rekstraráætlanir gera ráð fyrir.
    Úrvinnslusjóður hefur þegar hafið vinnu við að bæta framangreindar reiknireglur og laga þær að óskum atvinnulífsins og stefnt er að því að leggja frumvarp þess efnis fram í upphafi haustþings 2005.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um úrvinnslugjald,
nr. 162/2002, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar. Annars vegar er lagt til að Úrvinnslusjóður njóti vaxtatekna af inneign sinni hjá ríkissjóði og greiði vexti í ríkissjóð ef sjóðurinn er í skuld við ríkissjóð. Hins vegar er lagt til að ákvæði 7. gr. a laganna taki gildi 1. janúar 2006 í stað 1. september 2005.
    Talið er eðlilegt að Úrvinnslusjóður njóti vaxtatekna af innstæðum sínum vegna sérstöðu sinnar sem m.a. kemur fram í að einstakir vöruflokkar mynda sjálfstæðan stofn til uppgjörs og óheimilt er að færa fé á milli flokka. Gert er ráð fyrir að um fjárvörslu sjóðsins fari eftir 39. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og reglugerð nr. 83/2000 um láns- og reikningsviðskipti ríkisstofnana. Verða þá óhafnar tekjur af úrvinnslugjaldi vistaðar hjá ríkissjóði á grundvelli samninga við sjóðinn um vaxtakjör á inneignum hans.
    Ákvæði 7. gr. a laga um úrvinnslugjald heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðir og er lagt til að þau ákvæði taki gildi fjórum mánuðum seinna en áformað er í gildandi lögum, eða 1. janúar 2006. Munu tekjur og gjöld sjóðsins lækka um tæplega 80 m.kr. árið 2005 af þeim sökum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.