Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 695. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1053 —  695. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    1. mgr. 5. tölul. 2. gr. laganna orðast svo:
    Félögum skv. 1.–4. tölul. sem ekki eru skráð hér á landi en eiga hér heimili, öðrum félögum, sjóðum og stofnunum, þar með töldum sjálfseignarstofnunum, sem hér eiga heimili, sbr. þó 5. tölul. 4. gr., svo og dánarbúum og þrotabúum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og miðar sú breyting að því að kveða skýrt á um almenna aðsetursreglu varðandi ótakmarkaða skattskyldu lögaðila.
    Lagt er til að tekin verði af tvímæli um að aðsetursregla sem er að finna í 2. mgr. 5. tölul. 2. gr. taki einnig til annarra töluliða greinarinnar og þar með allra lögaðila sem á hvílir skylda til að greiða tekjuskatt og eignarskatt á Íslandi. Í fimm töluliðum í 1. mgr. greinarinnar eru taldir þeir lögaðilar sem á hvílir skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, og eignarskatt af öllum eignum sínum, hvar sem þær eru. Er breyting þessi lögð til í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar frá því í október 2004. Er með þessu verið að tryggja Íslandi skattlagningarrétt í þeim tilvikum þegar lögaðilar sem upp eru taldir í 1.–4. tölul. greinarinnar eru skráðir erlendis, en telja heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þeirra er hér á landi. Með þessu er lögð áhersla á að skattskylda lögaðila markast ekki af formreglum einum saman, eins og skráningu, heldur einnig af efnisviðmiðum.
Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er skýrt kveðið á um almenna aðsetursreglu varðandi ótakmarkaða skattskyldu lögaðila hér á landi. Verði frumvarpið að lögum hefur það ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.