Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 697. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1055 —  697. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 2005“ í ákvæði X til bráðabirgða með lögunum kemur: 31. desember 2006.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Heimilt er að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt að 2/ 3hlutum af vetnisbifreiðum, svo og sérhæfðum varahlutum í þær, sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni. Heimild þessi nær eingöngu til vetnisbifreiða sem hafa í för með sér hverfandi mengun og gildir til 31. desember 2008. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirgjafarinnar.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

3. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, eru undanþegin gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum. Undanþága þessi gildir til 31. desember 2008.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Heimilt er að fella niður eða endurgreiða vörugjald af sérhæfðum varahlutum í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni. Heimildin gildir til 31. desember 2008. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirgjafarinnar.

IV. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Heimilt er að fella niður eða endurgreiða toll af sérhæfðum varahlutum í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni. Heimildin gildir til 31. desember 2008. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirgjafarinnar.

V. KAFLI
7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 55/1987. Er hér um tímabundna lækkun gjalda að ræða sem miðar að því að gera skatta- og tollaumhverfi fyrir innflutning vetnisbifreiða og sérhæfðra varahluta í þær hagstæðari. Auk þess er lagt til að gildandi heimild samkvæmt ákvæði til bráðabirgða X í lögum um virðisaukaskatt, sem fjallar um heimild til endurgreiðslu 2/ 3hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2005, verði framlengd til 31. desember 2006.
    Meginrökin að baki þeim breytingum sem varða tímabundna lækkun gjalda á vetnisbifreiðar og sérhæfða varahluta í þær eru þríþætt:
    Í fyrsta lagi hafa íslensk stjórnvöld markað sér þá stefnu að miða að sjálfbæru vetnissamfélagi hér á landi í framtíðinni. Íslenskur orkubúskapur býður upp á framleiðslu vetnis í umhverfisvænni orkuhringrás með ódýrari hætti en víðast annars staðar. Þá hefur verið lögð áhersla á að skapa hér skilyrði til þess að Ísland geti orðið vettvangur alþjóðlegra rannsókna á sviði vetnis, en alþjóðleg samkeppni sem og samstarf á þessu sviði fer nú ört vaxandi. Ísland er þegar aðili að vetnisrannsóknaráætlun Evrópusambandsins og International Partnership for Hydrogen Economy (IPHE) sem er samstarfsvettvangur 15 þjóða í vetnismálum. Með bættri samkeppnishæfni er mögulegt að fá hingað til lands aukinn hluta af þeim alþjóðlegu rannsóknarverkefnum sem unnið er að og flýta um leið fyrir þeirri þróun að vetni komi í stað olíu sem eldsneyti í samgöngum. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, dags. 23. maí 2003, þar sem fram kemur að stefnt skuli að frekari áföngum í vetnisvæðingu þjóðarinnar.
    Í öðru lagi liggur fyrir að framleiðsla vetnisbifreiða er enn þá á rannsóknar- og tilraunastigi og er því verð slíkra bifreiða, hvort sem þær eru knúnar með efnarafölum eða sprengihreyfli, mun hærra en annarra bifreiða. Að óbreyttu eru því vetnisbifreiðar ekki samkeppnishæfar í verði við aðrar innfluttar bifreiðar, hvort sem um er að ræða bifreiðar sem knúnar eru olíu eða aðrar umhverfisvænni bifreiðar knúnar rafmagni eða metangasi.
    Í þriðja lagi má leiða líkur að því að verulegur þjóðhagslegur ávinningur skapist af þessum tillögum. Nú þegar liggur fyrir að styrkir Evrópusambandsins til vetnisverkefna undir forustu Íslenskrar nýorku nema í heild sinni 350 millj. kr. Veruleg önnur erlend fjármögnun hefur einnig átt sér stað í vetnisverkefnum á Íslandi. Líkur eru á frekari erlendri fjármögnun vetnisrannsókna hér á landi en ella verði starfsskilyrði samkeppnishæf. Þá hefur heimsóknum til íslenskra fyrirtækja vegna vetnistengdra rannsókna fjölgað verulega, en þar er um að ræða ferðamenn sem flestir koma utan hefðbundins ferðatíma og skilja að jafnaði eftir umtalsverð verðmæti. Þessu til viðbótar ber að nefna mikla umfjöllun erlendra fjölmiðla um vetnistengd málefni á Íslandi sem skapað hafa jákvæða kynningu fyrir Ísland. Verkefni á sviði vetnisrannsókna og mikil umfjöllun þeim tengd hafa skapað beinar og óbeinar tekjur fyrir þjóðarbúið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.

    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í 1. gr. er lagt til að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða verði framlengd til 31. desember 2006, en samkvæmt gildandi ákvæði til bráðabirgða hefði fresturinn runnið út í árslok 2005. Í 2. gr. er lagt til að tímabundið, eða fram til 31. desember 2008, verði heimilt að fella niður eða endurgreiða þeim sem flytja inn vetnisbifreiðar í rannsóknarskyni virðisaukaskatt að 2/ 3hlutum vegna kaupa á slíkum bifreiðum. Heimildin tekur einungis til vetnisbifreiða sem hafa í för með sér hverfandi mengun. Þessi endurgreiðsluheimild nær líka til sérhæfðra varahluta í slíkar bifreiðar. Þeir varahlutir sem greinin tekur til skulu vera sérstaklega hannaðir til nota í vetnisbifreiðum og ónothæfir í önnur ökutæki. Jafnframt er lögð til framlenging á heimild til að endurgreiða 2/ 3hluta virðisaukaskatts af kaupum eða leigu á hópferðabifreiðum fyrir 18 manns eða fleiri um eitt ár, eða til ársloka 2006.

Um 3. og 4. gr.

    Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að núgildandi ákvæði í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem fram kemur að ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, séu undanþegin greiðslu vörugjalds, verði gert að tímabundnu ákvæði sem gildi til 31. desember 2008. Með því er verið að samræma þessa undanþágu við þá tillögu sem lögð er fram í I. kafla frumvarpsins.

Um 5. og 6. gr.

    Í III. og IV. kafla frumvarpsins er lagt til að tímabundið, eða fram til 31. desember 2008, verði heimilt að fella niður eða endurgreiða vörugjald og eftir atvikum tolla á sérhæfða varahluti í vetnisbifreiðar.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum,
eldsneyti o.fl., lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 55/1987,
tollalögum, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á skattalögum á þá leið að heimilað verði tímabundið til loka ársins 2008 að þeir sem flytja inn vetnisbifreiðar fái fellda niður 2/ 3hluta virðisaukaskatts og einnig þau vörugjöld og tolla sem geta átt við. Tilgangurinn með þessum undanþágum er að draga úr kostnaði við tilraunaverkefni um notkun vetnis sem eldsneytis í samgöngum í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að fjöldi slíkra bíla verði meiri en u.þ.b. 10–20 á ári þannig að áhrif frumvarpsins á tekjuhlið ríkissjóðs verða að öllum líkindum hverfandi og er ekki heldur ástæða til að ætla að kostnaður við það verði teljandi. Loks er lagt til að bráðabirgðaákvæði um að heimilt sé að endurgreiða 2/ 3hluta virðisaukaskatts af kaup- eða leiguverði hópbifreiða af tiltekinni gerð verði framlengt til ársloka 2006.