Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 700. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1058  —  700. mál.
Frumvarp til lagaum Landbúnaðarstofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist Landbúnaðarstofnun. Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.

2. gr.

    Hlutverk stofnunarinnar er:
     a.      að annast starfsemi sem yfirdýralækni er falin samkvæmt lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, lögum nr. 93/1995, um matvæli, lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lögum nr. 15/1994, um dýravernd, sóttvarnalögum, nr. 19/1997, lögum nr. 94/1962, um almannavarnir, lögum nr. 67/1990, um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lyfjalögum, nr. 93/1994, lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., og lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa,
     b.      að annast starfsemi sem aðfangaeftirlitinu er falin samkvæmt lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,
     c.      að annast starfsemi sem landbúnaðarráðherra hefur falið plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands samkvæmt lögum nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum,
     d.      að annast starfsemi sem kjötmatsformanni er falin samkvæmt lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum,
     e.      að annast starfsemi sem veiðimálastjóra er falin samkvæmt lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði,
     f.      að annast starfsemi sem Bændasamtök Íslands hafa annast skv. 1. og 2. mgr. 38. gr., 4. mgr. 39. gr., a-lið 1. mgr. 42. gr., 2. mgr. 44. gr., 1. og 3. mgr. 53. gr., 2. mgr. 54. gr. og 2. mgr. 82. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og 4. gr., 11. gr. og 13. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

3. gr.

    Við stofnunina starfar forstjóri skipaður af landbúnaðarráðherra til fimm ára í senn. Skal forstjóri vera menntaður dýralæknir með æðri prófgráðu á því sviði. Hann skal jafnframt hafa öðlast stjórnunarreynslu. Forstjóri fer með yfirstjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar.

4. gr.

    Landbúnaðarstofnun skiptist í skrifstofur eftir viðfangsefnum og skal skrifstofustjóri vera yfir hverri skrifstofu. Skrifstofustjórar skulu hafa háskólamenntun og sérþekkingu á viðkomandi sviði. Einn skrifstofustjóranna er staðgengill forstjóra. Forstjóri ræður jafnframt annað starfsfólk nema annað sé tekið fram í lögum.
    Landbúnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi stofnunarinnar að fengnum tillögum forstjóra.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 78/1935, um einkarétt ríkisstjórnarinnar til þess að flytja trjáplöntur til landsins, og um eftirlit með innflutningi trjáfræs. Auk þess eru stofnanir aðfangaeftirlits, yfirdýralæknis og veiðimálastjóra lagðar niður en Landbúnaðarstofnun tekur við réttindum og skyldum þessara stofnana gagnvart einstaklingum, lögaðilum og stofnunum. Við gildistöku laga þessara renna eignir aðfangaeftirlitsins, yfirdýralæknis og veiðimálastjóra til Landbúnaðarstofnunar. Að auki fellur skipun forstöðumanna þessara stofnana niður frá og með gildistíma laga þessara og fer um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skipun kjötmatsformanns fellur niður frá og með sama tíma og fer um réttindi og skyldur hans samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Við gildistöku laga þessara renna eignir embættis kjötmatsformanns til Landbúnaðarstofnunar og tekur hún við réttindum og skyldum embættisins gagnvart einstaklingum, lögaðilum og stofnunum. Eins fellur niður við gildistöku laga þessara skipun landbúnaðarráðherra í störf héraðsdýralækna og dýralæknis fisksjúkdóma og fer um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Á sama tíma færist plöntueftirlit Landbúnaðarháskóla Íslands yfir til Landbúnaðarstofnunar.
    Stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið samkvæmt lögum sem nefnd eru í 2. gr. halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við ný lög þar til ný stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið sett.
    Leyfi sem gefin hafa verið út á grundvelli laga sem nefnd eru í 2. gr. halda gildi sínu þar til gildistími þeirra rennur út, þau uppfylla ekki lengur skilyrði laga, eða þar til ný leyfi eru útgefin.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Störf hjá aðfangaeftirlitinu, yfirdýralækni, veiðimálastjóra, kjötmatsformanni og plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands eru lögð niður við gildistöku þessara laga. Starfsfólki framangreindra skulu boðin störf hjá Landbúnaðarstofnun. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið.

II.

    Þrátt fyrir 5. gr. skal forstjóri Landbúnaðarstofnunar skipaður frá 1. ágúst 2005 og skal hann frá þeim tíma undirbúa gildistöku laga þessara í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um að sameina stofnanir, embætti og verkefni á sviði eftirlits og stjórnsýslu innan landbúnaðarins í eina öfluga eftirlits- og stjórnsýslustofnun, Landbúnaðarstofnun. Með þeim hætti nýtist þverfagleg sérþekking betur en hingað til og grundvöllur er lagður að bættri og skilvirkari stjórnsýslu og einfaldara og samhæfðara eftirliti.
    Landbúnaðarstofnun er falin framkvæmd ýmissa eftirlits- og stjórnsýsluverkefna samkvæmt lögum sem talin eru upp í 2. gr. frumvarpsins. Með frumvarpinu er lagt til að eftirtaldar stofnanir landbúnaðarráðuneytisins verði lagðar niður: yfirdýralæknir, veiðimálastjóri og aðfangaeftirlitið. Landbúnaðarstofnun er ætlað að taka að sér hlutverk ofangreindra stofnana. Einnig er lagt til að embætti kjötmatsformanns verði lagt niður og starfsemi þess flutt til Landbúnaðarstofnunar og að starfsemi plöntueftirlits flytjist þangað frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Að auki er Landbúnaðarstofnun ætlað að fara með stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands hafa farið með og varða framleiðslustýringu í landbúnaði, forðagæslu og eftirlit með aðbúnaði búfjár.
    Umræddar ríkisstofnanir og embætti hafa flestar aðeins fáum starfsmönnum á að skipa. Hafa sumar unnið nokkuð einangrað eða verið vistaðar að hluta innan annarra stofnana landbúnaðarráðuneytisins. Samanlögð velta þeirra samkvæmt fjárlögum 2005 er 505,5 millj. kr. og stöðugildi um 50 talsins. Því til viðbótar kemur kostnaður vegna verkefna sem með samningi hafa verið falin Bændasamtökum Íslands.
    Með þessum breytingum skapast möguleiki á að samnýta mannafla betur en hingað til með markvissari stjórnsýslu og eftirliti og jafnframt koma í veg fyrir skörun. Landbúnaðarstofnun kemur fram sem ein heild sem auðveldar samskipti við aðrar stofnanir innan lands og utan, svo og við eftirlitsþola. Þá eykur sameining umræddra eftirlitsþátta í eina stofnun gagnsæi og trúverðugleika starfsins og kemur til móts við vaxandi kröfur um markvissari vinnubrögð og aukna neytendavernd. Ein stofnun er enn fremur betur í stakk búin til að standa öflugan vörð um heilbrigði manna, dýra og plantna og tryggja aðbúnað búfjár, heilnæmi fóðurs og öryggi í framleiðslu landbúnaðarafurða.
    Það er mat landbúnaðarráðuneytisins að tilkoma Landbúnaðarstofnunar skapi grundvöll fyrir markvissri stjórnsýslu í einföldu og skilvirku eftirlitskerfi sem líklegt er til að ávinna sér traust neytenda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Í greininni eru talin upp þau lög sem varða starfsemi Landbúnaðarstofnunar.

Um 3. gr.

    Í greininni er kveðið á um hæfniskröfur, skipun og hlutverk forstjóra Landbúnaðarstofnunar. Gert er ráð fyrir því að hann verði skipaður af landbúnaðarráðherra til fimm ára í senn og starfi skv. II. hluta laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um skipulag stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að stofnuninni verði skipt í skrifstofur og að ráðinn verði háskólamenntaður skrifstofustjóri fyrir hverja þeirra. Að auki er gert ráð fyrir því að einn skrifstofustjórinn verði staðgengill forstjóra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari ákvæði í reglugerð um skipulag og starfsemi stofnunarinnar að fengnum tillögum forstjóra.

Um 5. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku laganna og niðurlagningu aðfangaeftirlits, yfirdýralæknis og veiðimálastjóra en verkefni þeirra eru færð undir Landbúnaðarstofnun. Að auki er fjallað um niðurfellingu á skipun forstöðumanna þeirra og kjötmatsformanns. Landbúnaðarstofnun tekur við réttindum og skyldum þessara embætta gagnvart einstaklingum, lögaðilum og stofnunum. Eins er fjallað um flutning verkefna plöntueftirlits Landbúnaðarháskóla Íslands til Landbúnaðarstofnunar. Með greininni er einnig lagt til að skipun héraðsdýralækna og dýralæknis fisksjúkdóma falli niður frá og með gildistöku laganna. Um réttindi og skyldur þessara aðila fer samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í greininni er jafnframt fjallað um gildi stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafa verið samkvæmt lögum sem varða starfsemi Landbúnaðarstofnunar, svo og leyfa sem gefin hafa verið út á grundvelli þeirra.

Um ákvæði til bráðabirgða I og II.

    Kveðið er á um að starfsmönnum núverandi stofnana skuli boðin störf hjá Landbúnaðarstofnun. Gert er ráð fyrir því að forstjóri Landbúnaðarstofnunar verði skipaður frá og með 1. ágúst 2005.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Landbúnaðarstofnun.

    Með frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði ný ríkisstofnun, Landbúnaðarstofnun, sem taki við verkefnum Aðfangaeftirlits, yfirdýralæknis, veiðimálastjóra, kjötmatsformanns, plöntueftirlits Landbúnaðarháskóla Íslands og ýmsum eftirlits- og stjórnsýsluverkefnum hjá aðalskrifstofu landbúnaðarráðuneytisins og Bændasamtökum Íslands. Jafnframt verði Aðfangeftirlit, embætti yfirdýralæknis, veiðimálastjóri og staða kjötmatsformanns lögð niður.
    Útgjöld stofnana og embætta sem verða lögð niður eru um 505 m.kr. samkvæmt fjárlögum 2005 og hjá þeim starfa um það bil 50 starfsmenn í fullu starfi. Upplýsingar um starfsmenn og kostnað við verkefni sem færast frá aðalskrifstofu ráðuneytisins og Bændasamtökunum liggja ekki fyrir. Við þessa breytingu verða lögð niður um það bil 50 störf og á einhver hluti starfsmanna biðlaunarétt en upplýsingar um það liggja ekki fyrir. Reikna verður með að flestir starfsmenn taki boði um störf hjá hinni nýju stofnun í samræmi við bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu og biðlaunakostnaður verði því ekki mikill, ef til vill 10–15 m.kr.
    Stofnanir sem um ræðir eru með starfsaðstöðu á mörgum stöðum og þótt samþykkt frumvarpsins varði ekki húsnæðismál Landbúnaðarstofnunar má reikna með að fljótlega komi fram tillögur um að endurskoða húsnæðismálin. Greining á húsnæðisþörf liggur ekki fyrir en lauslegt mat fjármálaráðuneytisins bendir til þess að viðbótarkostnaður við leigu gæti orðið 7–15 m.kr. á ári. Allar stofnanirnar sem um ræðir eru í sambýli með öðrum og því verður að reikna með töluverðum kostnaði við upplýsingakerfi o.fl. og við að byggja upp miðlæga stoðþjónustu. Engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig að þessu yrði staðið og hvaða kostnaði megi búast við, en hér verður slegið á 20–30 m.kr. upphafskostnað.
    Á móti kemur að sameiningin gefur kost á hagræðingu þegar til lengri tíma er litið ef vel er að málum staðið. Stjórnunarkostnaður gæti lækkað og hugsanlega má losa ríkissjóð við eitthvað af núverandi húsnæði.
    Uppsafnaður rekstrarhalli embættis yfirdýralæknis árið 2004 er um 140 m.kr., þar af eru um 90 m.kr. vegna skulda gjaldþrota sláturleyfishafa. Fjárhagsstaða veiðimálastjóra, Aðfangaeftirlits og kjötmatsformanns er í jafnvægi. Fjármálaráðuneytið miðar við að fjárheimildir verkefna fylgi frá þeim stofnunum sem verða lagðar niður og frá aðalskrifstofu landbúnaðarráðuneytisins og Bandasamtökunum til hinnar nýju stofnunar.
    Samtals er því gert ráð fyrir að tímabundinn kostnaður frumvarpsins verði 20–40 m.kr. vegna breytinga á húsnæði og hugsanlegra biðlauna.