Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 706. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1064  —  706. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að mótmæla byggingu aðskilnaðarmúrsins í Palestínu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á framfæri við ísraelsk stjórnvöld og á alþjóðavettvangi formlegum og hörðum mótmælum gegn byggingu aðskilnaðarmúrs á palestínsku landsvæði. Sett verði fram sú krafa af Íslands hálfu að framkvæmdir við múrinn verði tafarlaust stöðvaðar og hafist handa um að fjarlægja hann. Jafnframt verði þess krafist að engar nýjar byggðir ísraelskra landtökumanna verði reistar á palestínsku landi og undirbúningur hafinn að rýmingu þeirra sem fyrir eru.
    Alþingi áréttar afstöðu sína til deilumála Ísraela og Palestínumanna, sbr. ályktanir Alþingis frá 18. maí 1989 og 30. apríl 2002.
    Alþingi ályktar að íslensk stjórnvöld styðji og vinni að því fyrir sitt leyti að alþjóðlegt friðargæslulið verði sent á svæðið til verndar óbreyttum borgurum.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga svipaðs efnis var flutt á 130. löggjafarþingi en varð þá ekki útrædd. Aðstæður fólks á herteknu svæðunum hafa síst batnað á þeim tíma sem síðan hefur liðið og þykir því ástæða til að taka málið upp á nýjan leik. Framkvæmdir við aðskilnaðarmúrinn hafa orðið til þess að einangra Palestínumenn hverja frá öðrum, gert palestínskum bændum ókleift að yrkja lönd sín, hindrað Palestínumenn í að sækja vinnu og afla sér lífsviðurværis og jafnvel lokað heilar byggðir Palestínumanna algerlega af.
    Því hefur verið aukið við tillögugreinina frá fyrra þingi að ríkisstjórninni verði falið að setja fram þá kröfu að Ísraelsstjórn sjái til þess að ekki verði reistar neinar fleiri landtökumannabyggðir á palestínsku landi og hefji undirbúning að því að rýma þær sem þegar hafa verið settar á fót. Ljóst er að áform um nýjar byggðir ísraelskra landtökumanna í og við Austur-Jerúsalem eru til þess fallin að auka enn á ólgu og ófrið fyrir botni Miðjarðarhafs.
    Árið 1989 skipaði Alþingi sér í fremstu röð þjóðþinga hvað snertir einarða afstöðu til deilu Ísraela og Palestínumanna. Það gerði Alþingi með afgreiðslu sérstakrar ályktunar þar sem tekið var á stærstu ágreinings- og álitamálum sem uppi voru í deilunni. Tillögugreinin sem Alþingi samþykkti er svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.
    Alþingi skorar á ísraelsk stjórnvöld að koma í veg fyrir manndráp á varnarlausum borgurum og leggur áherslu á að þau virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Nauðsynlegt er að báðir aðilar forðist ofbeldisverk.
    Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila. Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvor annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 sem ásamt ályktunum öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973 eru sá grundvöllur er skapað getur varanlegan frið og öryggi í Austurlöndum nær.
    Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.“
    Síðan Alþingi mótaði þessa framsæknu stefnu með samþykkt fyrrgreindrar ályktunar hefur því miður lítið breyst og öll sömu ágreiningsmál eru enn óleyst. Staðan hefur þar að auki versnað með áframhaldandi uppbyggingu ólöglegra landnemabyggða á herteknu palestínsku landi.
    Árið 2002 samþykkti Alþingi aftur ályktun um deilur Ísraels og Palestínumanna þar sem lýst er áhyggjum af ófriðarástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs, beiting ofbeldis er fordæmd og hvatt til þess að eftirlitsnefnd frá Sameinuðu þjóðunum verði send á svæðið í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 1405/2002. Einnig er vísað í fyrri ályktun Alþingis og helstu ályktanir Sameinuðu þjóðanna um málið.
    Með framangreindum ályktunum hefur sú hefð verið að skapast að Alþingi móti stefnuna eða gefi tóninn í þessu máli. Í samræmi við það er nú tímabært að álykta á nýjan leik vegna atburða síðastliðinna þriggja ára og er þá ekki síst verið að vísa til byggingar aðskilnaðarmúrsins.
    Frá því að seinni uppreisn eða intifatah Palestínumanna hófst hefur nánast ríkt stríðsástand á hverjum einasta degi á svæðinu með miklu mannfalli á báða bóga. Deila þessara þjóða er enn sem fyrr ein helsta ógnun við frið og stöðugleika í heiminum. Vegna hinna sérstöku kringumstæðna við tilurð Ísraelsríkis á palestínsku landi, af menningarlegum, sögulegum og trúarlegum ástæðum og vegna hinna daglegu mannfórna og mannréttindabrota sem heimsbyggðin verður vitni að, er ástandið sem blæðandi sár á líkama alþjóðasamfélagsins. Ábyrgð þess á ástandinu er mikil og krafan um að lausn finnist að sama skapi hávær.
    Ljóst er að alþjóðlegt friðargæslulið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna yrði stórt skref í þá átt að tryggja lágmarksöryggi óbreyttra borgara ef samkomulag næðist um að slíkt lið yrði sent til svæðisins. Mikilvægt er að Íslendingar skipi sér í fremstu röð þeirra þjóða sem vinna að friðsamlegri lausn og styðji við bakið á skynsamlegum tillögum þar að lútandi. Múrinn sem ríkisstjórn Ísraels er að reisa, fyrst og fremst á palestínsku landsvæði, mun magna upp ófrið milli fylkinganna en ekki draga úr honum.
    Aðskilnaðarstefna ríkisstjórnar Ísraels er mikið áhyggjuefni og er það skylda þjóða heims að koma í veg fyrir að múrinn verði reistur. Bygging hans á landsvæði palestínsku þjóðarinnar er skýlaust brot á ályktunum Sameinuðu þjóðanna sem og fjórða ákvæðis Genfarsáttmálans. Ekki verður fram hjá því litið að með slíkri víggirðingu er verið að útiloka eðlilegar samgöngur milli palestínskra landsvæða og svipta fjölda fólks öllum möguleikum á að framfleyta sér með eðlilegum hætti. Verði þessi áform Ísraelsstjórnar að veruleika má búast við að ófriðurinn fyrir botni Miðjarðarhafs dragist enn frekar á langinn með hörmulegum afleiðingum fyrir báða deiluaðila og þó einkum óbreytta borgara bæði í Ísrael og Palestínu.