Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 723. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1081  —  723. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Heimilt er með sama hætti að veita styrki til stofnframkvæmda við fráveitur sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, enda falli framkvæmdirnar undir ákvæði 1. málsl. og uppfylli að öðru leyti skilyrði til úthlutunar samkvæmt þessari grein. Ráðherra setur, að fengnum tillögum fráveitunefndar, nánari ákvæði um framkvæmdina í reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Vaxandi áhugi er hjá sveitarfélögunum að taka fráveitur sem einkaaðilar reisa á leigu. Samkvæmt lögunum njóta slíkar framkvæmdir ekki styrkja. Dæmi eru hins vegar um að sveitarfélag hafi staðið fyrir framkvæmdum en síðan selt mannvirkin og tekið þau á leigu. Eðlilegt væri að lögin heimiluðu styrkveitingar til fráveituframkvæmda á vegum einkaaðila, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, enda falli þær undir markmið laganna, þ.e. ákvæði 1. gr. Sambærilegt ákvæði er að finna í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög nr. 60/2002, þar sem heimilt er að veita styrki til stofnframkvæmda við grunnskóla sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings. Lagt er til að heimilað verði að styrkja sveitarfélögin í slíkum tilvikum þegar um fráveituframkvæmdir er að ræða og gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um nánari framkvæmd heimildarinnar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 53/1995,
um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

    Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmdir við fráveitur sem einkaaðilar reisa og leigja sveitarfélögum njóti fjárhagslegs styrks úr ríkissjóði með sama hætti og fráveituframkvæmdir á vegum sveitarfélaga. Fjárhagslegur stuðningur ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga er ákveðinn í fjárlögum og telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið hafi ekki áhrif á fjárhæðina, heldur einungis skiptingu á milli framkvæmda, verði það að lögum.