Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 726. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1084  —  726. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 11. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Embætti yfirdýralæknis innheimtir sérstakt gjald af sláturleyfishöfum til að standa straum af kostnaði við eftirtalda þætti heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum:
     a.      Laun og ferðakostnað kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólks þeirra.
     b.      Töku sýna í sláturhúsum og úrvinnslu þeirra.
     c.      Rannsóknir á sýnum vegna reglubundinna mælinga á lyfjaleifum og aðskotaefnum í sláturafurðum.
     d.      Nauðsynlegt námskeiðahald og viðhaldsmenntun fyrir kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólk þeirra.
     e.      Yfirstjórn og samræmingu eftirlitsins.
    Eftirlitsgjald tekur ekki til greiðslu á öðrum kostnaði við heilbrigðiseftirlit en að framan greinir, svo sem vegna viðbótarsýna eða prófana sem framleiðandi á búi þar sem greinst hefur smitefni er ógnar matvælaöryggi kann að óska eftir. Slíkur kostnaður greiðist af viðkomandi framleiðanda. Beiðni um viðbótarsýnatökur skal vera skrifleg.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits og innheimtu eftirlitsgjalds samkvæmt þessari grein. Ráðherra er m.a. heimilt að kveða nánar á um til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið tekur. Landbúnaðarráðherra skal gefa út gjaldskrá um heilbrigðiseftirlitið sem byggð skal á raunverulegum kostnaði þess.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum, er kveðið á um það með hvaða hætti gjald fyrir þá heilbrigðisskoðun sem fram fer í sláturhúsum eftir ákvæðum III. kafla laganna er innheimt. Eins og fyrirkomulagið er nú er eftirlitsgjaldið innheimt sem ákveðin krónutala á hvert kíló kjöts, nánar sundurgreint eftir tegundum, og rennur það í sjóð í vörslu landbúnaðarráðherra. Einnig kemur fram í núgildandi 11. gr. að eftirlitsgjaldið skuli miðast við raunkostnað og að það sé ætlað til þess að standa straum af heilbrigðiseftirliti kjötskoðunarlækna.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hætt verði að innheimta gjald fyrir heilbrigðiseftirlit eftir ákveðinni krónutölu á hvert kíló kjöts. Þess í stað verði innheimta heilbrigðiseftirlitsgjaldsins byggð á gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur. Áfram er gert ráð fyrir því að gjaldið taki mið af raunkostnaði við eftirlitið og skal gjaldskrá byggjast á því. Í núgildandi lögum þykir ekki nægjanlega vel tryggt að gjaldtaka sem miðast við fasta krónutölu endurspegli raunverulegan kostnað við eftirlitið. Ekki þykir heldur hentugt að breyta þurfi lögum ef kostnaður eykst eða minnkar við eftirlit og er talið að með því að heimila ráðherra að setja gjaldskrá um eftirlitið sé betur hægt að endurspegla raunverulegan kostnað þess og bregðast við hækkunum og lækkunum á raunkostnaði. Enn fremur er ljóst að sláturleyfishafar ættu að hafa betri upplýsingar og sundurliðun á því til hvaða þátta eftirlitsins eftirlitsgjald sem þeir greiða rennur.
    Með frumvarpinu er einnig ætlunin að skilgreina til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið nær, en í núverandi lögum er landbúnaðarráðherra falið að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins og um innheimtu gjalds fyrir það. Þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherra setji gjaldskrá um eftirlitið þykir eðlilegt að marka ramma þess fastari skorður í samræmi við þau ákvæði sem nú eru í reglugerð um eftirlitið. Þó er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra hafi áfram ákveðnar heimildir til að kveða nánar á um framkvæmd eftirlitsins innan ramma laganna.
    Með 1. og 2. efnismgr. 1. gr. er hið gjaldskylda heilbrigðiseftirlit útfært og tekið fram til hvaða þátta það tekur. Heilbrigðiseftirlitið er hér betur útfært en í núverandi lögum og skýrt kveðið á um að eftirlitsgjaldið taki ekki til greiðslu á öðrum kostnaði en fram kemur í greininni. Einnig er hér tekið fram að ef taka þarf viðbótarsýni eða framkvæma viðbótarprófanir vegna þess að á búi hafi greinst smitefni sem ógnar matvælaöryggi þá nær gjaldtaka vegna heilbrigðiseftirlitsins ekki til þess og þar af leiðandi er ekki greitt fyrir viðkomandi prófanir og sýnatökur úr eftirlitssjóði sem kveðið er á um í núgildandi 2. mgr. 11. gr. Tekið er fram í greininni að framleiðandi, þar sem greinst hefur smitefni, þarf sjálfur að bera þann kostnað sem af viðbótarsýnatökum og prófunum hlýst, enda er það í anda þess að þeir sem þarfnist nánara eftirlits, e.t.v. vegna verri aðstöðu eða verra heilbrigðis hjarðar, borgi þann kostnað sjálfir. Þannig ætti það að vera framleiðendum til hagsbóta að hafa ástand búa sinna með þeim hætti að ekki þurfi að koma til sérstakra prófana vegna smitefna hjá þeim. Til að taka af öll tvímæli um það að um viðbótarsýnatökur og prófanir sé að ræða og til að undirstrika þá ábyrgð sem viðkomandi framleiðandi verður að axla vegna bús síns er kveðið á um það í greininni að beiðni um viðbótarsýnatökur skuli vera skrifleg. Slík skrifleg beiðni kemur einnig í veg fyrir að síðar meir geti komið til deilna um það hvers vegna sýnatakan fór fram.
    Í samræmi við efni frumvarpsins er gert ráð fyrir því að sérstakur sjóður í vörslu landbúnaðarráherra verði lagður niður en gjöldin renni þess í stað beint til embættis yfirdýralæknis sem framkvæmir eftirlitið til að standa straum af raunkostnaði við það.
    Í 3. efnismgr. 1. gr. er heimild fyrir landbúnaðarráðherra að kveða nánar á um framkvæmd eftirlitsins. Ekki er um breytingu á núverandi lagaumhverfi að ræða því að í núgildandi 3. mgr. 11. gr. er að finna svipaða heimild til handa ráðherra. Nýmælið sem hér er á ferðinni felst hins vegar í því að nánara orðalag um heimild til handa ráðherra til að kveða á um til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið tekur ætti að taka af öll tvímæli um heimild ráðherra í þessu efni. Heimild ráðherra samkvæmt greininni er þó ávallt bundin við þá flokka eftirlits sem taldir eru upp í 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins, en ráðherra er heimilað að skilgreina þá nánar og sundurgreina. Í lokamálslið 3. efnismgr. er síðan kveðið á um skyldu ráðherra til að setja gjaldskrá fyrir eftirlitið sem byggjast skal á raunkostnaði.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997,
um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun
og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að binda í lög þá þætti sem heilbrigðiseftirlit eftirlitsdýralækna nær til. Einnig er frumvarpinu ætlað að skýra heimild landbúnaðarráðherra til reglugerðarsetningar um nánari framkvæmd eftirlitsins.
    Frumvarpinu er enn fremur ætlað að breyta núverandi innheimtu á gjaldi vegna heilbrigðiseftirlits yfirdýralæknis með sláturafurðum. Eftirlitsgjaldið er nú innheimt sem ákveðin krónutala á hvert kíló kjöts, mismunandi eftir tegundum af innvegnu kjöti í sláturhús. Lagt er til að tekin verði upp gjaldskrá sem landbúnaðarráðuneyti setur er taki mið af raunkostnaði við eftirlitið í stað fastrar krónutölu innvegins kjöts. Gert er ráð fyrir óbreyttum tekjum frá fjárlögum fyrir árið 2005, en sú áætlun miðast við 80 m.kr. heilbrigðiseftirlitsgjald sláturafurða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.