Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 727. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1085  —  727. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa að uppfylltum skilyrðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmælum settum samkvæmt þeim. Þó má ekki flytja úr landi yngri hross en fjögurra mánaða eða fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sú breyting sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu á núverandi 1. gr. laga nr. 55/2002, um útflutning hrossa, felst í því að ákvæði um hámarksaldur hrossa sem leyfilegt er að flytja úr landi er fellt brott. Ákvæðið þykir ekki hafa neina þýðingu lengur í ljósi þess að ítarleg skoðun fer fram á öllum hrossum fyrir útflutning sem framkvæmd er af eftirlitsdýralækni. Líkamlegt ástand hrossa á að ráða því hvort það telst hæft til útflutnings en ekki aldur þess. Gert er ráð fyrir að það sé því alfarið á færi eiganda hrossins að ákveða hvort hann vilji flytja hrossið út þótt það sé eldra en 15 vetra ef það á annað borð uppfyllir önnur skilyrði sem lögin mæla fyrir um. Sú mismunun sem nú er í lögunum, þ.e. að heimilt sé að flytja úr landi merar sem eru eldri en 15 vetra en ekki geldinga, þykir ekki standast nánari skoðun þar sem ákvæðið um hámarksaldur útflutningshrossa var í upphafi sett út frá dýraverndarsjónarmiðum, þar sem ekki var talið réttlætanlegt að leggja langan flutning á gömul hross sem þá voru flutt sjóleiðis til meginlands Evrópu.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á
lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa.

    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að fella brott ákvæði um hámarksaldur geldhrossa sem leyfilegt er að flytja út.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.