Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 738. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1102  —  738. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast fimm nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Samgönguráðherra leggur á þriggja ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun sem leggur grunn að framþróun íslensks samfélags með því að bjóða bestu, ódýrustu og öruggustu rafrænu samskiptin með beitingu fjarskipta- og upplýsingatækni. Í fjarskiptaáætlun skal skilgreina markmið stjórnvalda sem stefna skuli að og gera grein fyrir ástandi og horfum í fjarskiptamálum í landinu. Jafnframt skal mörkuð stefna fyrir næstu sex ár. Þá skal í fjarskiptaáætlun meta og taka tillit til þarfa annarra þátta samfélagsins fyrir bætt fjarskipti.
    Í fjarskiptaáætlun skal leggja áherslu á að:
     a.      ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og samgönguráðuneytisins um stefnumótun í fjarskiptamálum,
     b.      auka samkeppnishæfni Íslands og samkeppni á fjarskiptamarkaði,
     c.      stuðla að framþróun atvinnulífs á sviðum sem tengjast fjarskiptum,
     d.      ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskiptatækni á hagvöxt,
     e.      ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,
     f.      tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn.
    Við gerð fjarskiptaáætlunar skal taka mið af því að fjármunir nýtist sem best og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf á úrbótum í landinu í heild og í einstökum landshlutum.
Áætlun um fjáröflun og útgjöld fjarskiptaáætlunar skal skipt á tvö þriggja ára tímabil og hana skal endurskoða á þriggja ára fresti.
    Samgönguráðherra skipar fjarskiptaráð til þriggja ára í senn og er hlutverk þess m.a.:
     a.      að vera samráðsvettvangur hagsmunaaðila um bætt fjarskipti,
     b.      að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um fjarskiptamál,
     c.      að veita ráðuneytinu umsagnir um fjarskiptamál, breytingar á löggjöf, stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda og fjarskiptaáætlun,
     d.      að beita sér fyrir samvinnu við þá aðila, félög og samtök er um fjarskiptamál og öryggi fjalla,
     e.      annað sem ráðherra felur því.
    Samgönguráðherra skipar tvo fulltrúa í fjarskiptaráð án tilnefningar. Skal annar vera formaður en hinn varaformaður. Aðra fulltrúa í ráðinu skipar ráðherra úr hópi helstu hagsmunaaðila eftir tilnefningu í samræmi við reglur sem hann setur þar um.

2. gr.

    Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Fjarskiptafyrirtæki skulu án endurgjalds tryggja þar til bærum yfirvöldum aðgang að búnaði til hlerunar símtala og annarrar löglegrar gagnaöflunar í fjarskiptanetum sínum eða fjarskiptaþjónustu.
    Fjarskiptafyrirtækjum sem hafa umtalsverðan markaðsstyrk í aðgangi og upphafi símtala í almennum talsíma- eða farsímanetum ber að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum annarra fjarskiptafyrirtækja um aðgang að búnaði til að fullnægja skyldu skv. 6. mgr. Gjöld fyrir aðgang skulu byggjast á kostnaði, þ.m.t. eðlilegri arðsemi af bundnu fjármagni. Náist ekki samkomulag um aðgang getur aðili vísað málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar sem ákveður hvort aðgangur skuli veittur og á hvaða verði.

3. gr.

    1. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
    Ef fjarskiptafyrirtæki telur að alþjónusta sem því er gert skylt að veita, sbr. 20. gr., sé rekin með tapi og því ósanngjörn byrði á fyrirtækinu getur það sótt um til Póst- og fjarskiptastofnunar að því verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Við útreikninga á kostnaði við alþjónustu skal m.a. taka mið af markaðsávinningi af því að veita þjónustuna. Nánar skal kveðið á um útreikninga á kostnaði við alþjónustu í reglugerð um alþjónustu, sbr. 20. gr.

4. gr.

    5. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
    Um álagningu og innheimtu, þ.m.t. fyrirframgreiðslu, jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, en varðandi viðurlög er sérstaklega vísað til XII. kafla þeirra laga.

5. gr.

    Við 35. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ákvörðun um reikisamning skv. 3. mgr. verður ekki beitt til aðgangs að GSM-farsímastöð sem sett er upp til viðbótar útbreiðslu farsímanets fyrr en tveim árum eftir að hún er tekin í notkun.

6. gr.

    Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Fjarskiptafyrirtæki sem býður internetþjónustu er skylt að gera áskrifendum sínum, þeim að kostnaðarlausu og ef þeir þess óska, sýnilegt hvenær þeir eru að greiða fyrir gagnaflutning erlendis frá.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í eitt ár. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notendanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, tímasetningar þeirra, tímalengd, hverjum var tengst, magn gagnaflutnings hvort sem er til eða frá viðkomandi notanda. Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja vörslu framangreindra gagna og er óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi í samræmi við ákvæði 3. mgr. 47. gr. Eyða ber umferðargögnunum að þessum tíma liðnum enda sé ekki þörf fyrir þau á grundvelli 2. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Fjarskiptafyrirtæki skulu setja sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við ákvæði þessarar greinar og skilyrði sem Persónuvernd kann að setja.

8. gr.

    Við 45. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að halda skrá yfir notendur sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum í samræmi við reglur sem Póst- og fjarskiptastofnun setur þar um. Við kaup símakorts skal kaupandi framvísa skilríkjum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 47. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fjarskiptafyrirtæki er þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar opinbers máls, upplýsingar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs (IP-tölu).
     b.      Á eftir orðunum „um fjarskipti skal“ í lokamálslið kemur: að öðru leyti.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „skal leyfisbréfið“ í 3. málsl. kemur: að jafnaði.
     b.      Lokamálsliður orðast svo: Ekki þarf leyfisbréf fyrir lágaflsbúnaði sem vinnur á samræmdum tíðnisviðum sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt að nota megi fyrir slíkan búnað.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Seljendum leyfisskylds þráðlauss búnaðar ber að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun hver sé kaupandi búnaðarins á því formi og með þeim hætti sem stofnunin samþykkir.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 5. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Bannað er að veiða með veiðarfærum, sem fest eru í botni eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum og þess háttar, á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja. Svæði þetta skal vera mílufjórðungs belti hvoru megin við fjarskiptastrenginn. Þá er skipum einnig bannað að leggjast við akkeri innan sömu fjarlægða frá fjarskiptastrengjum.
     b.      Í stað orðsins „sæstreng“ í 7. mgr. kemur: fjarskiptastreng.
     c.      Í stað orðsins „sæstrengi“ í 8. mgr. kemur: fjarskiptastrengi.

12. gr.

    Í stað orðanna „umtalsverða markaðshlutdeild“ í 11. tölul. 3. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: umtalsverðan markaðsstyrk.
    Í stað orðanna „umtalsverða hlutdeild“ tvívegis í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: umtalsverðan markaðsstyrk.
    Í stað orðsins „markaðshlutdeildar“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur: markaðsstyrks.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 5. gr. laga þessara gilda aðeins um GSM-farsímastöðvar sem settar eru upp eftir gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hjá samgönguráðuneytinu hefur verið unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti. Frumvarpið hefur verið unnið í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun auk þess sem það hefur verið sent til umsagnar helstu hagsmunaaðila og Persónuverndar.
    Helstu nýmæli og breytingar sem ráðgerðar eru með frumvarpinu:
     *      Ákvæði um gerð fjarskiptaáætlunar.
     *      Skipun fjarskiptaráðs.
     *      Ákvæði um vernd fjarskiptastrengja í sjó.
     *      Skýrari ákvæði um álagningu og innheimtu álags á jöfnunarsjóðsgjald.
     *      Ákvæði um mat á rétti til greiðslu vegna alþjónustu.
     *      Kröfur um skráningu eigenda síma (farsíma).
     *      Skylda fjarskiptafyrirtækja til að veita lögreglu upplýsingar.
     *      Skylda til varðveislu lágmarksskráningar gagna um fjarskiptaumferð í eitt ár.
     *      Ýmis ákvæði, m.a. ótímabundin leyfi vegna þráðlauss sendibúnaðar, tilkynning um kaupendur búnaðar, um gagnsæi kostnaðar og samræmd hugtakanotkun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er um nýmæli að ræða þar sem lagt er til að fyrir Alþingi verði lögð tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun til næstu sex ára. Samgönguráðherra ákvað gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010 en með henni var í fyrsta sinn mótuð heildstæð stefna í fjarskiptamálum á Íslandi. Verulegar breytingar hafa átt sér stað í fjarskiptamálum á undanförnum árum hér á landi sem annars staðar í Evrópu með samræmdri fjarskiptalöggjöf sem m.a. hefur leitt til afnáms einkaréttar á fjarskiptamarkaði og aukinnar samkeppni. Með því var lagður grunnur að einkavæðingu ríkisrekinna símafyrirtækja og sala Landssíma Íslands er eðlilegt framhald af þeirri þróun. Stjórnvöld geta því ekki lengur notað fyrirtækið til að framkvæma stefnu sína í fjarskiptum. Nauðsynlegt er að stjórnvöld setji þá stefnu fram með skýrum hætti og er það m.a. gert með fjarskiptaáætlun.
    Í 1. mgr. er kveðið á um gerð fjarskiptaáætlunar. Tilgangurinn með henni er að skilgreina nánar markmið stjórnvalda í fjarskiptamálum til næstu ára þar sem m.a. er tekið tillit til þarfa samfélagsins, auk þess sem gerð er grein fyrir ástandi og horfum í fjarskiptamálum í landinu.
    Í 2. mgr. er nánar kveðið á um áhersluatriði við gerð áætlunarinnar. En með henni er m.a. leitast við að ná fram víðtæku samstarfi hagsmunaaðila, þ.m.t. neytenda, og stjórnvalda um stefnumótun á þessu sviði. Með samræmdri stefnumótun er m.a. stefnt að því að auka samkeppnishæfni Íslands, stuðla að framþróun atvinnulífs, ná fram hagkvæmri nýtingu fjármagns og samræmdri forgangsröðun verkefna.
    Í 4. mgr. er nýmæli, þar sem kveðið er á um skipan, hlutverk og samsetningu fjarskiptaráðs. Með skipan fjarskiptaráðs er leitast við að koma á sérstökum vettvangi hagsmunaaðila, sem verður ráðgefandi fyrir ráðherra við stefnumótun í fjarskiptum. Fjarskiptaráð verður jafnframt vettvangur fyrir almenn skoðanaskipti um fjarskiptamálefni fyrir hagsmunaaðila á þessu sviði, þ.m.t. neytendur. Með skipun fjarskiptaráðs vilja stjórnvöld leita samráðs eða umsagna um fjarskiptamálefni frá samtökum hagsmunaaðila með víðtæka sérþekkingu á sviðinu. Með ákvæðinu er leitast við að breyta þessu.
    Í 5. mgr. er kveðið nánar á um skipun í fjarskiptaráði. Gert er ráð fyrir að þar sitji fulltrúar tilnefndir af helstu hagsmunaaðilum á þessu sviði. Samgönguráðherra mun skipa formann og varaformann en aðra eftir tilnefningu í samræmi við reglur sem settar verða um samsetningu ráðsins.

Um 2. gr.

    Nokkur óvissa hefur ríkt um það hvaða skyldur fjarskiptafyrirtæki bera varðandi útvegun hlerunarbúnaðar. Landssími Íslands hefur yfir slíkum búnaði að ráða en önnur fjarskiptafyrirtæki hafa ekki komið sér upp sínum eigin búnaði. Kveðið hefur verið á um skyldu allra fjarskiptafyrirtækja til að setja upp hlerunarbúnað í reglum Póst- og fjarskiptastofnunar um almenna heimild til fjarskiptastarfsemi og áður í rekstrarleyfum fyrirtækja. Fjarskiptafyrirtæki sem ekki hafa fjárfest í búnaði hafa borið það fyrir sig að ekki sé að finna næga stoð í lögum til þess að leggja slíkar skyldur á fyrirtækin. Skv. j-lið 2. mgr. 6. gr. fjarskiptalaga er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að kveða á um að fjarskiptafyrirtæki heimili þar til bærum yfirvöldum afskipti af fjarskiptanetum í samræmi við ákvæði um úrvinnslu og meðferð persónuupplýsinga. Eðlilegt þykir að fyrirtækin sjálf standi straum af því að byggja upp net sín á þann hátt að þessi aðgangur sé mögulegur. Því er hér lagt til að sett verði ákvæði sem kveði skýrar á um skyldur fjarskiptafyrirtækja í þessum efnum og allur vafi verði tekinn af um ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra um fjármögnun á búnaði til hlerunar og annarrar gagnaöflunar.
    Fjárfesting í hlerunarbúnaði getur verið umtalsverð í hlutfalli við veltu fyrirtækja sem eru ný á markaði og hafa litla markaðshlutdeild. Til þess að koma í veg fyrir að þessi skylda verði hindrun í aðgangi að fjarskiptamarkaðnum þykir rétt að kveða á um að fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skuli veita öðrum fyrirtækjum aðgang að hlerunarbúnaði ef eftir því er leitað. Eðlilegt endurgjald skal koma fyrir slíkan aðgang sem tekur m.a. mið af fjárfestingarkostnaði. Fyrirtæki sem útnefnd voru með umtalsverða markaðshlutdeild á talsíma- og farsímamarkaði í tíð eldri laga yrðu talin falla undir þetta ákvæði þar til niðurstöður markaðsgreiningar samkvæmt lögum nr. 81/2003 hafa verið birtar.

Um 3. gr.

    Með breytingunni er verið að skýra reglur um mat á því hvort fyrirtæki eigi rétt á greiðslu vegna alþjónustuskyldu, þ.m.t. að skoða eigi hvort um ósanngjarna byrði sé að ræða. Þá er kveðið á um að við mat á þessari byrði skuli taka mið af markaðsávinningi af því að veita þjónustuna, þ.e. að einnig verði tekið mið af óefnislegum gæðum eins og viðskiptavild fyrirtækis sem veitir alþjónustu.
    Í 1. mgr. 12. gr. alþjónustutilskipunarinnar (Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/22/EB frá 7. mars 2002 um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu (tilskipun um alþjónustu)) er fjallað um mat á kostnaði við alþjónustuskyldur. Þar er m.a. kveðið á um þá aðferð sem beita eigi ef stjórnvöld telja að framboð á alþjónustu kunni að vera óeðlilega þung byrði á fyrirtæki sem tilnefnt hefur verið til veita alþjónustu. Í a- og b-lið og í 2. mgr. greinarinnar er síðan fjallað um þá aðferð sem beita eigi við mat á þeim kostnaði að teknu tilliti til hvers kyns markaðsávinnings fyrirtækisins af því að veita þjónustuna. Í 13. gr. er síðan fjallað um aðferðir til að fjármagna þjónustuna.

Um 4. gr.

    Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 137/2004 um beitingu álags vegna vanefnda á greiðslu jöfnunargjalds skv. 5. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga, er ekki talin nægjanleg heimild í lögunum til að krefja greiðanda um álag vegna vanefnda á greiðslu gjaldsins. Í úrskurðinum segir eftirfarandi:
              Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á hækkun skattstofna kæranda. Þá beitti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, á vangreiddan virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er krafist niðurfellingar álags í kæru til yfirskattanefndar. Eins og atvikum er háttað þykja hvorki efni til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 í tilviki kæranda né þykir neitt tilefni til niðurfellingar álags samkvæmt heimild þeirri sem greinir í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.
              Með hinum kærða úrskurði ákvarðaði ríkisskattstjóri 25% álag á hækkun á stofni til markaðsgjalds og nam fjárhæð þess álags 2.224.184 kr. gjaldárið 1998. Um lagastoð fyrir álagsbeitingu þessari vísaði ríkisskattstjóri til 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, sbr. 51. gr. laga nr. 122/1993, sagði að um álagningu og innheimtu markaðsgjalds færi samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar litið er til eðlis þess álags, sem hér um ræðir, verður ekki talið að í ákvæðum þágildandi 3. mgr. 3. gr. laga nr. 114/1990 hafi falist nægjanleg heimild til beitingar umrædds álags. Er álagið því fellt niður.
    Ákvæðinu hefur verið breytt til þess að bæta hér úr í samræmi við tillögu fjármálaráðuneytisins.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu, sem er nýmæli, er kveðið á um tveggja ára biðtíma áður en Póst- og fjarskiptastofnun getur kveðið á um skyldu til samninga um reiki. Ákvæði um reiki kom fyrst inn í fjarskiptalögin með lögum nr. 107/1999, um fjarskipti, en reikiákvæðið gilti frá 1. janúar 2001. Með reiki er tryggt að farsímafyrirtæki eigi aðgang að farsímanetum annarra fyrirtækja þegar uppbygging eigin aðstöðu er talin óraunhæf. Tilgangur ákvæðisins í upphafi var að tryggja að unnt væri að koma á virkri samkeppni í farsímaþjónustu á öllu landinu. Í dag eru tvö öflug fyrirtæki starfandi á farsímamarkaðinum, þ.e. Síminn og Og Vodafone, sem bæði hafa stöðu fyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild (samkvæmt ákvæðum eldri laganna).
    GSM-farsímakerfið hefur verið byggt upp af miklum krafti á undanförnum árum, en nokkuð skortir þó á að tekist hafi að byggja upp landsþekjandi farsímanet með fullnægjandi hætti. Þau svæði, þar sem GSM-farsímasamband næst ekki, eru öll utan þéttbýlis þar sem arðsemin af slíkri framkvæmd er minni. Ljóst er að núverandi ákvæði um reiki minnka enn frekar arðsemi og vilja til uppbyggingar neta. Leitast er við að draga úr þessum neikvæðu áhrifum með tveggja ára aðlögun eða forskoti þess fjarskiptafyrirtækis sem tilbúið er til að leggja í uppbyggingarkostnað til útbreiðslu á GSM-farskiptaneti sínu. Þrátt fyrir þessa takmörkun verður farsímastöðin að vera opin til 112-notkunar fyrir alla.

Um 6. gr.

    Ákvæðið kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja sem veita internetþjónustu að gera sýnilegt fyrir neytandann, ef hann þess óskar, hvenær hann er að greiða fyrir niðurhal erlendis frá.
    Samkvæmt gjaldskrá flestra fjarskiptafyrirtækja sem bjóða internetþjónustu er áskrifendum þjónustunnar gert að greiða fyrir niðurhal erlendis frá. Að öllu jöfnu ætti ekki að vera vandamál fyrir neytandann að vita hvenær hann er á erlendum síðum og að niðurhal af þeim sé samkvæmt gjaldskrá fyrirtækisins. En nú er svo komið að um 15% af íslenskum heimasíðum eru vistuð erlendis án þess að hinn almenni neytandi geti merkt það sérstaklega. Þar sem neytandinn getur ekki séð hvenær hann er á erlendri síðu en netþjónustan gjaldfærir hann í flestum tilvikum vegna niðurhals þaðan þykir rétt að neytandanum sé gert þetta sýnilegt. Hér er fyrst og fremst um neytendavernd að ræða en þegar er til staðar hugbúnaður sem gerir þetta mögulegt.

Um 7. gr.

    Ákvæðin í 42. gr. og kaflanum eiga rætur að rekja til tilskipunar ESB nr. 2002/58/EB, frá 12. júlí 2002, um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta (tilskipun um friðhelgi einkalífsins og rafræn fjarskipti).
    Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjum heimilt (með lögum) að takmarka umfang þeirra réttinda og skyldna sem kveðið er á um í 5. gr., 6. gr. (umferðargögn), 8. gr., (1., 2., 3. og 4. mgr.) og 9. gr. þegar slík takmörkun er nauðsynleg, viðeigandi og hlutfallsleg ráðstöfun í lýðræðisþjóðfélagi til að tryggja þjóðaröryggi (þ.e. öryggi ríkisins), landvarnir, almannaöryggi og til að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um og ákæra fyrir lögbrot eða fyrir óleyfilega notkun á rafræna fjarskiptakerfinu eins og um getur í 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 95/46/EB. Í þessu skyni er aðildarríkjunum m.a. heimilt að samþykkja lagaákvæði sem kveða á um að gögn séu varðveitt í takmarkaðan tíma sem helgast af þeim ástæðum sem mælt er fyrir um í þessari málsgrein. Allar þessar ráðstafanirnar eiga að vera í samræmi við almennar meginreglur um mannréttindi.
    Framangreind breyting með nýrri 3. mgr. 42. gr. núgildandi fjarskiptalaga er gerð að ósk ríkislögreglustjóra. Hún miðar að því að tryggja að lögregla og ákæruvald hafi nægjanlegt svigrúm til að upplýsa brot þar sem uppfyllt eru skilyrði 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Breytingin er í samræmi við 15. gr. persónuverndartilskipunarinnar.
    Nokkur ríki innan ESB hafa þegar lagt fram tillögu í ráðherraráði ESB um að umferðargögn (6. gr. tilsk.) séu varðveitt í 12–36 mánuði. (Sjá Council of the European Union, Brussels 28. apríl 2004, 8958/04. Ríkin sem lögðu fram tillöguna eru Frakkland, Írland, Svíþjóð og Bretland.) Ekki er samræmi á þessu sviði í Evrópu, t.d. eru þessi gögn varðveitt í sex mánuði í Þýskalandi en þrjú ár í Frakklandi.
    Mál koma oft til rannsóknar löngu eftir að refsiverð hegðun hefur átt sér stað og því er nauðsynlegt að tryggja að sönnunargögn séu til staðar við upphaf rannsóknar. Eitt ár er hóflegur tími með tilliti til þess að rannsóknir flestra mála fái eðlilegan framgang og þess að einhver kostnaður er samfara varðveislu gagnanna.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra eru eftirfarandi gögn nauðsynleg til að tryggja með fullnægjandi hætti að hægt sé að upplýsa brot sem framin eru á internetinu:
     1.      Gögn um hver sé notandi tiltekins fjarskiptatækis.
           *      Tölva sem tengist netinu og er auðkennd með IP-tölu, tryggja þarf að hægt sé að finna hver er notandi IP-tölunnar á hverjum tíma og varðveita þarf skrár með þessum upplýsingum,
           *      IP-tölur kunna að vera breytilegar þannig að tímasetning á notkuninni er skilyrði þess að hægt sé að tengja hana ákveðnum áskrifanda eða notanda. Tenging er þá gerð þannig að þegar viðkomandi viðskiptavinur tengist fær hann úthlutað IP-tölu úr safni internetþjónustuaðilans sem hann hefur yfirráð yfir,
           *      IP-tala þarf að vera rekjanleg til síma eða annars fjarskiptatækis sem áskrifandi notar til að tengjast inn á kerfi internetþjónustuaðila og áfram út á netið. Til þess að hægt sé að staðfesta hvar tenging á uppruna sinn þarf internetþjónustuaðili að varðveita skrá um úr hvaða símanúmeri eða öðru fjarskiptatæki viðkomandi tengist inn á tölvukerfi hans,
           *      óskráð farsímanúmer og símanúmer geta valdið vanda í þessu efni þegar tengst er internetþjónustuaðila með farsíma með frelsiskorti og óskráðu símanúmeri.
     2.      Gögn um hverjum hann tengist. Við hvaða IP-tölur á viðkomandi samskipti, tengingar? Þegar leiða á í ljós tengsl við ákveðna starfsemi eða aðila, t.d. dreifingu barnakláms, þarf að vera hægt að sanna hvort viðkomandi tengdist ákveðinni IP-tölu.
     3.      Gögn um hvenær átti sú tenging sér stað. Nauðsynlegt til að finna samhengi atburða við tengingar viðkomandi.
     4.      Gögn um hversu lengi tenging vari. Atvik geta átt sér stað nokkru eftir að tengingu er komið á, e.t.v. einhverjum klukkustundum.
     5.      Gögn um hversu mikið af gögnum var flutt á milli aðila.
    Nauðsynlegt er t.d. að leiða í ljós hvort flutt hafi verið efni ef uppi er grunur um stuld gagna, auk þess magn niðurhals eða upphals efnis, t.d. höfundarréttarvarins eða ólöglegs efnis, svo sem barnakláms. Upptalningin er ekki tæmandi.
    Lögregla rannsakar ekki mál nema fyrir liggi rökstuddur grunur um refsiverðan verknað. Rannsóknir hefjast yfirleitt ekki fyrr en eftir að brot hafa átt sér stað en í undantekningartilfellum á meðan brot eiga sér stað, verði lögregla áskynja um slíkt í tíma. Oftar en ekki koma brot manna til rannsóknar hjá lögreglu nokkru eftir að þau eiga sér stað og oft löngu eftir. Þetta leiðir til þess að erfitt kann að vera að upplýsa um brotin og sanna þau í ákærumáli ef mikilvægum eða einu sönnunargögnunum um þau hefur verið eytt mjög fljótlega eftir brotið.
    Þegar rannsókn opinbers máls krefst þess að aflað sé gagna um fjarskipti grunaðra manna er slíkt háð mjög ströngum skilyrðum, sbr. 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Skilyrði þessara ákvæða er að dómari úrskurði um að lögreglu sé heimilt að fá gögn eða afla gagna. Dómari má eingöngu úrskurða um slíkt ef ætla má að umræddar upplýsingar skipti miklu fyrir rannsókn máls og ef brot það sem til rannsóknar er getur varðað 8 ára fangelsi eða ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess að upplýsingar séu veittar. Dómstólar úrskurða því ekki um heimild til handa lögreglu nema fyrir hendi sé rökstuddur grunur um brot þar sem umræddar upplýsingar geta skipt miklu fyrir rannsókn máls. Undantekningarákvæði 15. gr. persónuverndartilskipunarinnar veitir ekki víðari heimild til öflunar upplýsinga um fjarskipti heldur ræðst það af lögum hvers aðildarríkis, en 15. gr. heimilar að nauðsynlegar upplýsingar séu varðveittar í þágu þessara rannsóknarhagsmuna í hæfilegan tíma.
    Í a-lið er kveðið á um þau gögn um fjarskiptaumferð sem fjarskiptafyrirtækjum beri að varðveita í eitt ár. Kveðið er á um að fjarskiptafyrirtæki upplýsi um hver sé notandi símanúmers, IP-tölu eða notendanafns. Sé notandi annar en rétthafi eða áskrifandi ber fjarskiptafyrirtækinu að upplýsa hver hann er, ef hann er þekktur. Gert er ráð fyrir að þessum gögnum verði safnað og þau varðveitt með þeim búnaði sem þegar er til staðar vegna annarrar vinnslu fyritækjanna auk nauðsynlegs geymslurýmis. Ekki er miðað að fjársfest sé sérstaklega í tækjabúnaði vegna greiningarvinnu.
    Lokamálsliður a-liðar miðar að því að skylt sé að eyða umferðargögnum að ári liðnu enda þurfi fjarskiptafyrirtækið ekki á þeim að halda vegna reikningsgerðar eða vefengingar reiknings.
    Breytingin í b-lið er nýmæli og er í samræmi við athugasemdir m.a. Persónuverndar um meðferð og eyðingu gagna í vörslum fjarskiptafyrirtækjanna. Ákvæðið kveður á um skyldu fyrirtækjanna til að setja sér verklagsreglur um hvernig sé staðið að þessum málum í starfseminni og um eyðingu gagna.

Um 8. gr.

    Breytingin, sem er nýmæli, miðar að því að gera fjarskiptafyrirtækjum skylt að halda skrá yfir alla „notendur“ símanúmera í símkerfum sínum, bæði í fastlínu og farsímum, þ.m.t. svokölluð farsímafrelsi.
    Á síðustu árum hefur færst í vöxt að svokölluð frelsiskort í farsíma séu seld án þess að skráning fari fram á kaupanda eða væntanlegum notanda þeirra. Kort þessi má kaupa víða, þar á meðal á bensínstöðvum og í söluturnum. Umrædd kort hafa númer sem ekki eru tengjanleg neinum notanda, nema notandinn óski sérstaklega eftir því. Þetta veldur vandkvæðum í rannsóknum lögreglu þegar tækin eru notuð til refsilagabrota. Má hér nefna ónæði og hótanir settar fram í tali eða með SMS-skilaboðum. Með óskráðum númerum er því mögulegt að stunda refsiverða hegðun í skjóli nafnleyndar. Í sumum löndum Evrópu mun þessi háttur ekki vera heimill, t.d. í Noregi. Þá eru vandkvæði þessu samfara tengd hlustun lögreglu á símtölum, einkum í tengslum við rannsóknir fíkniefnabrota. Reynslan hefur sýnt að hinir grunuðu nota iðulega óskráð frelsisnúmer og skipta reglulega um símtæki og símanúmer til að gera lögreglu erfiðara með að hlusta síma þeirra. Óskráð númer eru því skálkaskjól slíkra aðila. Með þessari breytingu er reynt að sporna við þessu.

Um 9. gr.

    Með ákvæðinu í a-lið, sem er nýmæli, er gert ráð fyrir heimild til handa lögreglu til að afla upplýsinga, án úrskurðar dómara, um eiganda ákveðins símanúmers og notenda IP-talna með formlegri beiðni þar um. Heimildin nær ekki til aðgangs að upplýsingum um innihald fjarskiptanna eða aðrar tengingar, til þess þarf áfram heimild dómstóla.
    Fjarskiptafyrirtæki hafa krafist úrskurðar dómara á grundvelli 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991 sem skilyrði þess að þau afhentu upplýsingar um leyninúmer en það eru þau númer kölluð sem notandi hefur óskað eftir að verði ekki getið í opinberum símaskrám. Ástæður þess að notendur símanúmera kjósa að vera utan opinberra skráa eru ýmsar, t.d. að forðast ónæði eða ofsóknir frá öðrum. Með leyninúmerum er ekki ætlunin að koma mönnum undan rannsókn opinberra mála eða að torvelda rannsóknir brota.
    Hið sama gildir um IP-tölur sem eru nokkurs konar símanúmer á internetinu. IP-tölum má fletta upp á internetinu. Þar eru þær í flestum tilfellum skráðar á þau fyrirtæki sem eiga rétt yfir þeim. Oftast er um að ræða aðila sem selja aðgang að internetinu til annarra. Fram að þessu hefur verið litið svo á af hálfu fjarskiptafyrirtækjanna að upplýsingar um notanda IP-tölu falli undir fjarskiptaleynd og með þær skuli fara sem aðrar upplýsingar um fjarskipti. Af þessu hefur hlotist nokkur fjöldi mála þar sem lögregla hefur leitað úrskurðar um það eitt hver sé notandi IP-tölu með því álagi sem því fylgir fyrir réttarkerfið. Þótt fallist sé á að ýmsar persónulegar upplýsingar séu bundnar við efni fjarskipta og í skrám yfir tengingar fjarskiptatækja hvert við annað eru engar slíkar upplýsingar bundnar við IP-tölur. Auk þess yrðu upplýsingar sem þessar eingöngu aðgengilegar lögreglu með þessum hætti.

Um 10. gr.

    Breytingin í a-lið miðar að því að leyfisbréf fyrir talstöðvar í landi svo og radíóstöðvar í flugvélum verði án tímatakmörkunar en þau hafa verið það fram að gildistöku núgildandi laga. Ekki eru eða hafa verið rök til þess að binda leyfisbréf í framangreindum tilvikum við ákveðin gildistíma og regluleg endurnýjun þessara leyfa, t.d. á 5 eða 10 ára fresti, er með öllu þarflaus.
    Gildistími er hins vegar eðlilegur og sjálfsagður í ýmsum öðrum tilvikum, t.d. þegar um leyfisbréf fyrir fastasambönd, útvarp o.fl. er að ræða.
    Breytingin í b-lið miðar að því að ekki þurfi leyfisbréf fyrir lágaflsbúnaði þó að hann fari yfir 50 milliwött ef hann vinnur á skilgreindum tíðnisviðum sem Póst og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt að nota megi í þessu skyni.
    Á Evrópska efnahagssvæðinu gilda mjög vel skilgreindar reglur um lágaflsbúnað sem vinnur á skilgreindum tíðnisviðum og ekki þarf leyfisbréf fyrir. Þessar reglur er að finna í „ERC RECOMMENDATION 70-03“ sem er uppfærð reglulega og öllum aðilum á markaðinum aðgengileg í miðlægum gagnagrunni hjá Evrópuskrifstofu þráðlausra fjarskipta (ERO, www.ero.dk).
    Breytingin í c-lið miðar að því að tryggja að seljendur leyfisskylds þráðlaus búnaðar tilkynni um eiganda (kaupanda) búnaðarins til Póst- og fjarskiptastofnunar. Hingað til hafa innflytjendur sent umbeðnar upplýsingar um kaupendur til Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt ákvæðum í 8. gr. reglugerðar um starfrækslu talstöðva í landfarstöðvaþjónustu í metra- og desimetrabylgjusviðinu nr. 336/1984. Ákvæði 8. gr. leggja mjög ákveðnar skyldur á innflytjendur að upplýsa stofnunina um kaupendur. Ákvæði í núgildandi lögum, sem skylda innflytjendur til þess að veita þessar upplýsingar, eru óljós. Vafi leikur því á um lagastoð fyrir þessari skyldu og er úr því bætt hér.
    Einkum er átt við talstöðvar, sem nota sérúthlutaðar tíðnir (á VHF-, UHF-tíðnisviði). Í reynd hafa seljendur talstöðva tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun um kaupendur stöðvanna og byggist útgáfa leyfisbréfa á þeim upplýsingum.

Um 11. gr.

    Í 71. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, er fjallað um vernd fjarskiptavirkja. Þar er m.a. að finna nokkur ákvæði um fjarskiptastrengi í sjó. Í 5., 6., 8. og 9. mgr. er kveðið á um að sæfarendur sýni aðgæslu og varúð, um bótaskyldu vegna tjóns og jafnframt er kveðið á um að sæfarendur haldi sig innan ákveðinnar fjarlægðar frá streng við lagningu og viðgerð (1/4 úr mílu). Þessar takmarkanir gilda aðeins við lagningu og viðgerð á streng og eru því ekki „varanlegar“.
    Einnig er ákvæði í 5. mgr. 10 gr. laga nr. 132/1999, um vitamál, þar sem kveðið er á um að afla verði heimildar Siglingamálstofnunar Íslands áður en strengir eru lagðir og að stofnunin leiti umsagnar hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þá er einnig kveðið á um það í 9. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, að lagning sæstrengja og neðansjávarleiðslna er háð samþykki Umhverfisstofnunar.
    Þá er að finna í d-lið 325. gr. reglugerðar nr. 264/1971, um raforkuvirki, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 131/1991, ákvæði um veiðibann, en þar segir:
    „Öllum skipum er bannað að veiða með veiðarfærum, sem fest eru í botni, eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum o.þ.h. á svæðum þar sem sæstrengir liggja. Svæði þetta er að jafnaði 400 metra breitt, eða 200 metra belti hvoru megin sæstrengs. Þá er skipum einnig bannað að leggjast við akkeri á svæðum þessum.“ (Hvað varðar bann við veiðum við Vestmannaeyjar þá helgast það af reglugerð nr. 732/1997 sem sett er af sjávarútvegsráðuneytinu, þar sem veiðar með öllum veiðarfærum eru bannaðar á svæði þar sem vatnsleiðsla og rafstrengur liggja milli lands og Vestmannaeyja frá 1. janúar 1998. Reglugerðin er sett með stoð í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 79 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.)
    Í núverandi reglum er ekkert sem bannar veiðar eða skyldar sjófarendur til að halda sig í tilgreindri lágmarksfjarlægð frá fjarskiptastrengjum með sama hætti og gert er t.d. í reglugerðinni um raforkuvirki. Strengirnir eru mikilvæg tenging landsins við umheiminn og öll röskun á hagnýtingu þeirra getur haft víðtækar og kostnaðarsamar afleiðingar. Viðgerð á þeim getur auk þess tekið frá 10 dögum upp í þrjár vikur. Ekki er talið að fullnægjandi séu tilmæli um aðgæslu eins og nú er heldur verði að hafa skýrt ákvæði sem bannar notkun veiðarfæra sem ná til botns eða geta skaðað fjarskiptastrengi.
    Ákvæðið skýrir sig sjálft en því er ætlað að vernda fjarskiptastrengi í landhelgi og innan efnahagslögsögunnar, sbr. 4. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
    Loks er lögð til orðalagsbreyting til samræmis við breytinguna í a-lið.

Um 12. gr.

    Með breytingunni er verið að samræma hugtakanotkun, þ.e. að markaðsstyrkur komi í stað markaðshlutdeildar. Samkvæmt lögum um fjarskipti, nr. 107/1999, voru ýmsar skyldur sem féllu á fyrirtæki með umtalsverð markaðshlutdeild. Fyrirtæki sem höfðu yfir 25% hlutdeild féllu almennt í þennan flokk. Hugtakið „umtalsverð markaðshlutdeild“ var notað áfram í lögum nr. 81/2003, en inntaki þess var verulega breytt. „Umtalsverð markaðshlutdeild“ í skilningi laga nr. 81/2003 er, skv. 18. gr., efnahagslegur styrkleiki fyrirtækis á ákveðnum markaði sem gerir því kleift að hindra virka samkeppni og starfa að verulegu leyti án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda. Við mat á þessum styrkleika er markaðshlutdeild aðeins einn af mörgum þáttum sem koma til skoðunar. Það er til þess fallið að valda misskilningi að nota orðin „umtalsverð markaðshlutdeild“ um mat á styrkleika fyrirtækis á markaði. Skýrara er að tala um „umtalsverðan markaðsstyrk“ í þessu sambandi. Það er heppilegra orðalag og í samræmi við orðalag þeirra evrópsku tilskipana sem lögin byggjast á.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

    Með frumvarpinu er lagt til að fyrir Alþingi verði lögð tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun til næstu ára. Einnig eru settar fram kvaðir á fjarskiptafyrirtæki, svo sem um búnað, sýnilegan kostnað og upplýsingamiðlun til lögreglu. Kostnaður við gerð fjarskiptaáætlunar mun rúmast innan núverandi fjárheimilda samgönguráðuneytisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.