Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1183  —  364. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um skattskyldu orkufyrirtækja.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson, Jón Guðmundsson og Guðmund Guðbjarnason frá fjármálaráðuneyti, Hauk Eiríksson frá Hitaveitu Suðurnesja, Stefán Pétursson og Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun, Guðmund Þóroddsson og Hjörleif B. Kvaran frá Orkuveitu Reykjavíkur, Eirík Bogason frá Samorku, Bjarna Einarsson frá Múlavirkjun, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigurjón Högnason frá embætti ríkisskattstjóra, Pál H. Hannesson frá BSRB, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ingunni S. Þorsteinsdóttur og Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ.
    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, sem fela í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Einn megintilgangur frumvarpsins er að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Samkvæmt frumvarpinu verður bæði raforkustarfsemi orkufyrirtækja og sala á heitu vatni skattskyld. Í frumvarpinu er ekki kveðið á um skattskyldu vatnsveitna sveitarfélaga en slíkar veitur geta orðið skattskyldar ef þær eru reknar í hlutafélagaformi eða á annan hátt með takmarkaðri ábyrgð sveitarfélaga.
    Samkeppni í rekstri orkufyrirtækja hefur aukist á síðustu árum og það eru ekki aðeins ríki og sveitarfélög sem standa að slíkum fyrirtækjum heldur standa einnig einstaklingar að byggingu og rekstri orkuveitna. Orkuveitur sem einstaklingar standa að eru skattskyldar með venjulegum hætti og standa því verr í samkeppninni.
    Lagt er til að skattskyldan taki fyrst til rekstrarársins 2006 með álagningu árið 2007.
    Þar sem frumvarp þetta felur í sér skattlagningu á fyrirtæki sem ekki hafa áður sætt álagningu tekjuskatts og eignarskatts er nauðsynlegt að setja ákvæði um endurmat, fyrningarstofn og stofn til söluhagnaðar vegna þeirra fjárfestinga sem þessir aðilar hafa lagt í fyrir gildistöku laga þessara til að gera skattlagningu þeirra jafnsetta skattlagningu annarra skattaðila, auk reglna sem banna yfirfærslu á rekstrartapi sem kann að hafa myndast á rekstrarárinu 2005 eða fyrr. Um þessa þætti hefur nefndin fjallað nokkuð ítarlega með gestum og fallist á þær tillögur sem gerðar eru í frumvarpinu og rökstuðning að baki þeim.
    Erfitt er að meta áhrif þessara breytinga á orkuverð og arðsemi orkufyrirtækja en mörg orkufyrirtæki, sérstaklega þau stærri, standa nú í miklum framkvæmdum og munu vegna þess tæplega mynda skattskyldan hagnað á næstu árum.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:


       a.      Orðin „um tekjuskatt og eignarskatt“ í 1. málsl. 1. mgr. 1. gr., 1. og 7. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. falli brott.
       b.      Í stað orðanna „um tekjuskatt og eignarskatt“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 1. gr., 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. komi: nr. 90/2003.

Alþingi, 22. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Gunnar Birgisson.


Una María Óskarsdóttir.