Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 551. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1184  —  551. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um miðlun vátrygginga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóru Margréti Hjaltested frá viðskiptaráðuneyti, Ólaf Darra Andrason frá ASÍ, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Rúnar Guðjónsson frá Fjármálaeftirliti, Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og Írisi Ösp Ingjaldsdóttur frá Neytendasamtökunum.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga um heildarlög um starfsemi vátryggingamiðlara og miðlun vátrygginga. Við gerð frumvarpsins hefur verið stuðst við ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á IX. viðauka við EES- samninginn, með því markmiði að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/92/EB frá 9. desember 2002, um miðlun vátrygginga.
    Frumvarpið skiptist í meginatriðum í tvo hluta, annars vegar reglur er lúta að starfsemi vátryggingamiðlara og hins vegar reglur er lúta að starfsemi vátryggingaumboðsmanna. Reglurnar eru að miklu leyti sambærilegar og spegla kaflarnir hvor annan. Í frumvarpinu eru gerðar auknar kröfur til vátryggingamiðlara auk þess sem skilgreining á hvað telst vera vátryggingamiðlun er rýmri en í gildandi lögum og með frumvarpinu er stefnt að verulega aukinni neytendavernd.
    Frumvarpið tekur enn fremur til starfsemi endurtryggingamiðlara. Endurtryggingamiðlarar eru þó undanþegnir ákvæðum frumvarpsins um upplýsingaskyldu.
    Frumvarpið er unnið af nefnd skipaðri af viðskiptaráðherra í maí 2002. Umsagnir um málið eru á heildina litið jákvæðar og mæla umsagnaraðilar með samþykkt þess. Þó gera sumir þeirra athugasemdir við einstök ákvæði og hefur nefndin farið yfir þær á fundum sínum með gestum.
    Nefndin telur að með gilditöku frumvarpsins verði staða vátryggingamiðlara skýrari og sterkari hér á landi en verið hefur hingað til. Þó telur nefndin mikilvægt að kannað verði hvort jafna megi enn frekar stöðu vátryggingamiðlara og stöðu vátryggingafélaga og umboðsmanna þeirra, m.a. hvað varðar upplýsingaskyldu þessara aðila.
    Jóhanna Sigurðardóttir skrifar undir álitið með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Orðið „jafnan“ í 1. mgr. 32. gr. falli brott.

Alþingi, 22. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson.Una María Óskarsdóttir.


Ögmundur Jónasson.