Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 159. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1185  —  159. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elmar Hallgrímsson og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Bernhard Bogason og Gunnar Gunnarsson frá KPMG og Guðrúnu Þorleifsdóttur og Sigurjón Högnason frá embætti ríkisskattstjóra. Auk þess fékk nefndin skriflegar umsagnir um málið frá þessum aðilum og fleirum.
    Í frumvarpinu er lagt til að félögum innan sömu samstæðu verði heimilað að uppfylltum skilyrðum um eignarhald, reikningsár og fleira að samskrá sig á virðisaukaskattsskrá. Tilgangurinn er sá að gera félögum sem skipt hafa rekstrareiningum sínum í móður- og dótturfélög mögulegt að vera ein skattaleg eining og skila sameiginlega virðisaukaskatti. Líkt og segir í athugasemdum við frumvarpið eru réttaráhrif samskráningar félaga á virðisaukaskattsskrá þau að með tilliti til virðisaukaskatts skoðast starfsemi samskráðra félaga sem ein starfsemi og viðskipti milli samskráðra félaga bera ekki virðisaukaskatt umfram það sem væri ef starfsemi þeirra væri öll á einni hendi. Með þessu ætti að nást fram einhver hagræðing í viðskiptum án þess að hreyft sé við ábyrgð félaga á skattskilum.
    Heimild til samskráningar samkvæmt frumvarpinu er takmörkuð við skráningarskyld hlutafélög og einkahlutafélög. Þetta gagnrýndu nokkrir umsagnaraðilar. Eftir fundi um málið samþykkti nefndin að fela þeim aðilum sem komu á fund hennar að kanna sameiginlega þann möguleika að útvíkka gildissvið ákvæðisins umfram það sem lagt er til í frumvarpinu, m.a. með tilliti til laga nágrannaríkja. Niðurstaða þeirrar vinnu barst nefndinni í formi breytingartillögu sem lögð var fyrir nefndina af hálfu fjármálaráðuneytisins. Á fundi nefndarinnar var staðfest að ráðuneytið hefði haft samráð við embætti ríkisskattstjóra og fulltrúa KPMG og að allir þessir aðilar teldu útvíkkun til bóta og hún skapaði ekki vandkvæði í framkvæmd.
    Það er niðurstaða nefndarinnar að mæla með útvíkkun á efni frumvarpsins þannig að skráningarskyld félög skv. 1. mgr. 5. gr. laganna og óskráningarskyld félög geti verið samskráð á grunnskrá virðisaukaskatts með heimild skattstjóra en ella væri frumvarpið til takmarkaðra bóta. Slíkri samskráningu er ekki ætlað að veita félögum innskattsrétt vegna óskráningarskyldrar starfsemi. Um innskattsrétt slíkrar samstæðu gilda ákvæði II. kafla reglugerðar um innskatt, nr. 192/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Með þessari breytingu á frumvarpinu gæti samstæða, í nafni móðurfélags, fengið sérstaka skráningu vegna byggingar og sölu fasteignar og frjálsa skráningu vegna útleigu atvinnuhúsnæðis, en slíkum skráningum yrði eftir sem áður haldið aðgreindum frá öðrum skráningum á grunnskrá virðisaukaskatts.Prentað upp.

    Samskráning kæmi ekki alfarið í veg fyrir að samskráðum félögum bæri að innheimta virðisaukaskatt í viðskiptum sín á milli enda er ekki gert ráð fyrir að 11. gr. laganna verði breytt. Dæmi um tilvik þar sem skila ber virðisaukaskatti af viðskiptum milli samskráðra félaga á grundvelli 4. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er t.d. ef eitt samskráðu félaganna rekur bókhaldsstofu og selur bókhaldsþjónustu í atvinnuskyni. Meðal viðskiptavina eru tvö hinna samskráðu félaga, annað þeirra stundar virðisaukaskattsskylda starfsemi en hitt starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskattsskyldu skv. 3. mgr. 2. gr. laganna. Samstæðunni ber að skila virðisaukaskatti í ríkissjóð af andvirði bókhaldsþjónustunnar í þágu síðarnefnda félagsins, en ekki hins fyrrnefnda. Skilaskyldan er bundin við það að félagið sem innir þjónustuna af hendi eða afhendir vöru stundi þá starfsemi í atvinnuskyni og eigi sem slíkt innskattsrétt. Ef hins vegar félag innan samskráðrar samstæðu innir af hendi bókhaldsþjónustu fyrir önnur félög í samstæðunni, án þess að selja í atvinnuskyni slíka þjónustu út fyrir raðir samstæðunnar, hefur sú þjónusta ekki í för með sér skilaskyldu á sama hátt.
    Nefndin leggur til að lögin komi til framkvæmda 1. júlí nk.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Gunnar Birgisson.


Una María Óskarsdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.Lúðvík Bergvinsson.


Ögmundur Jónasson.