Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1188  —  35. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóra, Maríönnu Jónasdóttur og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti og Sigurjón Högnason frá embætti ríkisskattstjóra. Umsagnir um málið bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, Kauphöll Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Félagi löggiltra endurskoðenda, embætti skattrannsóknarstjóra, Samtökum verslunar og þjónustu, Verslunarráði, Lögmannafélagi Íslands, embætti ríkisskattstjóra, embætti ríkislögreglustjóra og refsiréttarnefnd. Auk þess fundaði nefndin með gestum um sama mál á 130. lögggjafarþingi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lágmarksfésekt við tilteknum skattalagabrotum, sem nú er að lágmarki tvöföld vangoldin skattfjárhæð, eigi ekki við þegar um vanskil á vörslufé er að ræða og gjaldandi hefur skilað skilagrein á réttum tíma þannig að ekki sé um að ræða tilraun til undanskots. Er lagt til í frumvarpinu að í slíkum tilvikum ráði mat dómara þyngd refsingar, sem getur þá verið allt að tíföld, þó að ekkert lögbundið lágmark verði til staðar.
    Meiri hlutinn leggur til að efnisákvæðum frumvarpsins verði breytt og að skilyrði fyrir því að vikið verði frá fésektarlágmarki laganna verði þrengd. Auk þess að skila réttri skilagrein eða virðisaukaskattsskýrslu á lögmæltum tíma þurfi gjaldandinn einnig að hafa greitt hluta skattsins með vöxtum, álagi og öðrum kostnaði. Það er mat meiri hlutans að miklu sé náð fram með að auka líkurnar á því að skilað sé til yfirvalda á lögmætum tíma réttri skilagrein eða virðisaukaskattsskýrslu. Meiri hlutinn telur að með kröfu um að skuld hafi verið greidd að hluta verði meiri hvati fyrir aðila til að greiða þá skattfjárhæð sem þeim ber og það komi í veg fyrir að aðilar geti skotið sér undan refsingu með því einu að skila inn réttum upplýsingum en gera enga tilraun til uppgreiðslu þess fjár sem þeir hafa innheimt af þriðja aðila fyrir ríkissjóð en ekki skilað á réttan hátt. Oft er um mikla fjármuni að ræða.
    Reyndar verður að hafa í huga þá venju sem viðgengst við innheimtu skulda að fyrst er greiddur kostnaður, dráttarvextir og vextir af allri skuldinni áður en skattfjárhæðin sjálf lækkar. Oft hafa vanskil staðið í langan tíma og kostnaður og dráttarvextir geta verið stór hluti af vanskilunum. Þess vegna getur hlutfallslega lág inngreiðsla ekki lækkað skattfjárhæðina og slíkur þröskuldur staðið í vegi fyrir að nægur hvati myndist til að gera upp slíkar skuldir af því að fésektin lækkar þá ekki. Rökréttara væri að líta á inngreiðslu sem uppgjör á hluta skattfjárhæðar ásamt kostnaði og vöxtum á þann hluta. Það er hins vegar ekki lagt til í breytingartillögu meiri hlutans vegna þess hve útbreidd hin aðferðin er í fjármálakerfinu.
    Þeir gjaldendur sem af ýmsum ástæðum skila ekki inn skilagrein eða virðisaukaskattsskýrslu á réttum tíma hafa í núgildandi kerfi því miður engan fjárhagslegan hvata til að upplýsa um stöðu mála með því að skila inn skilagrein eða virðisaukaskattsskýrslu eftir að frestur er liðinn og gera upp skuldir sínar að hluta vegna þess hve klippt og skorið kerfið er. Ástæður þess að gjaldendur skila ekki inn upplýsingum geta verið af margvíslegum toga: Fyrirtæki geta orðið undir í samkeppni eða markaðir brugðist og allur reksturinn líður fyrir það. Hjá einstaklingum má oft kenna um fjármálaóreiðu, fjárskorti, vanþekkingu, veikindum, óreglu eða einskærum brotavilja. Fyrir utan síðustu ástæðuna eru þessum aðilum allar bjargir bannaðar. Yfir þeim vofir sekt að lágmarki tvöföld skattfjárhæð hvort sem þeir upplýsa um málið og greiða hluta af skuldinni eða ekki. Þeim er ekki hjálpað eða þeir hvattir til þess að ráða við þann vanda sem þeir hafa komið sér í. Það er allra hagur, jafnt innheimtuaðila sem gjaldenda, að í kerfinu sé hvati fyrir gjaldendur til að upplýsa um stöðu mála og gera upp skuldir sínar eins og þeir mögulega geta. Of harðar og ósveigjanlegar reglur, sem taka ekki mið af fjölbreytileika mannlífsins og breyskleika, brjóta niður í stað þess að byggja upp. Við því þyrfti löggjafinn að bregðast og gefa sér tóm til að skoða nákvæmlega hvernig gera mætti kerfið sveigjanlegra og manneskjulegra án þess að draga úr því markmiði þess að allir greiði þá skatta sem þeir hafa innheimt fyrir ríkið af þriðja aðila.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Gunnar Birgisson.


Una María Óskarsdóttir.


Ögmundur Jónasson.